Greinar

Þjóðarsátt eymdarinnar

Greinar

Atvinnuleysið er ein af nokkrum skuggahliðum þjóðarsáttarinnar, sem ríkisstjórnin og samtök vinnumarkaðarins gerðu með sér, meðal annars til að halda niðri verðbólgu. Atvinnuleysi er núna meira á Íslandi en verið hefur um rúmlega þriggja áratuga skeið.

Atvinna og verðbólga hafa tilhneigingu til að fara saman, þótt ekki sé sú regla algild. Áratugum saman hefur þjóðfélagið hér á landi verið rekið með meiri atvinnu og meiri verðbólgu en í nágrannalöndunum. Nú er hins vegar tími minni atvinnu og minni verðbólgu.

Svo illa hefur um langan aldur verið talað um verðbólgu, að einhvern tíma hlaut að koma að núverandi þjóðarsátt, sem felst í, að þjóðin taki á sig hvaða böl sem er, bara til að halda verðbólgunni niðri. Verðbólguvandinn var leystur með öðrum og stærri vandamálum.

Verðbólga minnir á hitann í mannslíkamanum, þegar veikindi ber að garði. Of hár hiti er merki um sjúkdóm, en er ekki sjúkdómurinn sjálfur. Lækningin felst í að fást við sjúkdóminn sjálfan og þá lækkar hitinn af sjálfu sér. Hitastillandi lyf eru veigalítil lækningatæki.

Vont er að fá atvinnuleysi í stað verðbólgu. Það er ekki aðeins vont fyrir þá, sem fyrir því verða. Það er líka afleitt fyrir ungt og baráttuglatt þjóðfélag, þegar atvinnuleysi verður varanlegt. Þá hefur það skaðleg áhrif á hugarfar fólks og skerðir lífsbaráttuþrek þess.

Önnur slæm afleiðing velgengninnar í baráttu þjóðarsáttarmanna við verðbólguna er vaxandi ójöfnuður í landinu. Á undanförnum misserum hafa laun forstjóra hækkað helmingi hraðar en laun láglaunafólks. Við siglum hraðbyri inn í afar stéttskipt þjóðfélag.

Við sjáum alls staðar í kringum okkur merki vaxandi stéttaskiptingar. Annars vegar er stór hluti þjóðar innar, sem lifir í vellystingum praktuglega, á hverju sem gengur. Menn búa og aka flott og eru sífellt í laxveiðum eða á ferðalögum, alveg eins og hugurinn girnist.

Hins vegar er annar hluti þjóðarinnar, sem varla á til hnífs og skeiðar. Þar má telja margar einstæðar mæður, fólk á taxtalaunum og atvinnuleysingja. Börn þessa fólks hafa ekki nándar nærri sömu aðstöðu til mennta og börn hinna, sem eru ofan á í lífinu.

Í lífsþægindaflokkinn geta menn komizt fyrir ýmissa hluta sakir, með mikilli vinnu, með hentugri menntun og einkum þó með aðstöðu, til dæmis gagnvart kerfinu. Íslenzkt þjóðfélag er svo miðstýrt, að hagkvæmur rekstur skiptir fyrirtæki minna máli en aðgangur að kerfi.

Þjóðarsáttin felur í sér, að ríkisstjórnin og samtök vinnumarkaðarins berjast afar stíft gegn launahækkunum, sem gætu komið af stað verðbólgu. Í því skyni gerir ríkisstjórnin marklausa kjarasamninga, sem hún síðan svíkur og hirðir ekki um, hvað dómstólar segja.

Þjóðarsáttin er greinilega afar sterkt sameiningartákn kerfisins, úr því að hún fær ráðherra til að gereyða trausti, sem byggist upp á löngum tíma. Ráðherrar þurfa í framtíðinni að gera aðra samninga. Það hlýtur að verða erfitt í ljósi reynslunnar frá liðnu sumri.

Athyglisvert er, að í þjóðarsáttinni koma hinir stóru á vinnumarkaðinum ekki fram sem umboðsmenn undirstéttarinnar, láglaunafólks, taxtafólks, einstæðra mæðra og atvinnuleysingja. Með því að einblína á verðbólgu stuðla þeir að stéttaskiptingu og atvinnuleysi.

Þjóðarsáttin er sátt ríkisstjórnar og samtaka vinnumarkaðarins um að leysa engan kerfisvanda, heldur halda niðri verðbólgu, á kostnað lífskjara hinna smáu.

Jónas Kristjánsson

DV

Umboðs sé aflað

Greinar

Landbúnaðarráðuneytið hefur í auknum mæli tekið að sér hreina hagsmunagæzlu hefðbundins landbúnaðar. Starfsmenn ráðuneytisins með stjórann í broddi fylkingar halda uppi þeim vörnum, sem áður voru taldar á verksviði hagsmunasamtaka í Bændahöllinni.

Dæmigert er, að hagfræðingi hagsmunasamtaka landbúnaðarins var kippt inn í ráðuneytið til að aðstoða það við gerð búvörusamnings við hagsmunasamtökin. Í ráðuneytinu semur hann greinar í fjölmiðla um, að vondir menn séu að abbast upp á landbúnaðinn.

Þegar landbúnaðarráðuneytið er að semja við hagsmunasamtök landbúnaðarins eru þessir aðilar í rauninni sameiginlega að semja við sjálfa sig. Landbúnaðarráðuneytið gætir ekki hagsmuna neytenda eða skattgreiðenda, heldur hins hefðbundna landbúnaðar.

Fyrir síðustu kosningar varð niðurstaða þessa innanhússmáls sú, að lagðar voru á neytendur og skattgreiðendur byrðar, sem bundu hendur ríkisstjórna næsta kjörtímabils. Þetta var fjögurra ára samningur. Nú er verið að gera enn lengri samning, til sex ára.

Ef landbúnaðarráðherra kemst upp með að gera nýjan búvörusamning við sjálfan sig, bindur hann ekki bara hendur ríkisstjórna á næsta kjörtímabili, heldur einnig fram á þarnæsta tímabil. Hann skuldbindur framtíðina fyrir rúmlega hundrað milljarða króna.

Ráðherrann telur sig hafa umboð til að gera við sjálfan sig samning, sem nemur nálægt 20 milljörðum króna á hverju ári. Þar af verða 8 milljarðar lagðir á herðar skattgreiðenda á fjárlögum og 12 milljarðar lagðir á herðar neytenda í loforði um innflutningsbann.

Ekki er ljóst, hvar ráðherrann telur, að siðleysi byrji. Gæti hann til dæmis upp á eigin spýtur samið til 100 ára um 100 milljarða króna fyrirgreiðslu á ári Getur hann sett Ísland í pant í útlöndum vegna máls þessa Hver eru takmörk ráðherravalds í hans augum

Öðrum en hagsmunagæzlumönnum er ljóst, að nú sem fyrr er siðlaust að skylda nýjan þingmeirihluta og nýja ríkisstjórn eftir kosningar til að fórna milljörðum króna á hverju ári í þetta umdeilda mál. Forsætisráðherra hefur raunar óbeint fallizt á þetta sjónarmið.

Alþýðuflokkurinn er eini flokkurinn, sem hamlar gegn yfirgangi hagsmunagæzlu hins hefðbundna landbúnaðar. Hann bar ekki ábyrgð á síðasta búvörusamningi og mótmælir núna samningsdrögum landbúnaðarráðuneytisins. Það kann að duga til að fresta málinu.

Ekkert hald er hins vegar í Sjálfstæðisflokknum, er bar ábyrgð á búvörusamningnum, sem nú er í gildi. Eftir kosningar mun Sjálfstæðisflokkurinn ekki þjóna hagsmunum neytenda og skattgreiðenda, heldur þeirra, sem telja sig hafa hag af nýjum búvörusamningi.

Lýðræðislega er rétt, að kaleikurinn sé færður Sjálfstæðisflokknum eða hvaða þeim flokkum, sem eftir kosningar taka þátt í ríkisstjórn. Þá hafa einhverjir fengið umboð kjósenda til að ofanstýra, miðstýra og sukka með hag skattgreiðenda og neytenda í fjögur ár.

Í næstu kosningum hafa kjósendur tækifæri til að lýsa trausti á þá mörgu stjórnmálamenn, sem vitað er, að muni í stórum dráttum styðja núgildandi landbúnaðarstefnu. Eftir þá yfirlýsingu kjósenda, en ekki fyrr er lýðræðislega heimilt að velta byrðunum yfir á þá.

Niðurstaðan verður skaðleg, hvor leiðin sem valin verður. En mikill munur er á, hvort lýðræðislega og siðlega er staðið að röngum ákvörðunum eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Klukkan tifar

Greinar

Bandaríkin hafa sýnt mátt sinn við Persaflóa. Hraði herflutninganna hefur komið á óvart. Einnig var óvænt, hversu mikinn herafla þeim hefur tekizt að flytja á vettvang. Þótt önnur ríki hafi sýnt lit, eru það Bandaríkin, sem hafa reynzt brjóstvörnin gegn Saddam Hussein.

Þetta breytir valdastöðunni. Í vetur virtust Bandaríkin vera meira eða minna utangátta, þegar Vestur- Þýzkaland og Evrópubandalagið tóku forustu í málum Austur-Þýzkalands og Austur-Evrópu. Eftir veturinn var sagt, að Bandaríkin væru bara eitt veldi af mörgum.

Þá var líka bent á Sovétríkin og sagt með nokkrum rétti, að hernaðarlegur máttur væri lítils virði í samanburði við efnahagslegan mátt. Upp væri runninn tími efnahagsvelda á borð við Vestur-Þýzkaland og Japan, sem verðu tiltölulega litlu fjármagni til hermála.

Nú hafa menn hins vegar vaknað upp við, að endir kalda stríðsins jafngildir ekki, að hin mikli kaupsýslufriður sé runninn upp. Um allan heim er mikið af herskáum smákóngum, sem safna hættulegum vígtólum og leita færa til að kúga umheiminn með vopnaskaki.

Atlantshafsbandalagið er komið nálægt leiðarenda í ætlunarverki sínu í varðveizlu friðar í Evrópu. Í stað þess að leggja bandalagið niður, kemur sterklega til greina, að það víkki verksvið sitt og hefji friðargæzlu í tengslum við olíuframleiðslusvæði Miðausturlanda.

Ekki er hægt að láta Bandaríkin bera þorra byrðanna af því að mæta harðstjóra, sem skekur efnavopn, safnar sér í kjarnavopn og tekur útlendinga að gíslum. Vestur- Evrópa og Japan verða að taka sjálf þátt í að gæta eigin lífshagsmuna. Hver veit, hvar sprengja Saddams fellur?

Tíminn vinnur gegn Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra. Ef Saddam Hussein heldur Kúvæt og reynir að þreyja þorrann, fer að bresta í bandalaginu gegn honum. Íran og Sýrland eru til dæmis ekki líkleg til að verða í langvinnu vinfengi við Vesturlönd.

Líklegt er, að göt komi á hafnbannið. Við sjáum nú þegar, að Jórdanía reynir að brjóta það. Einnig getur komið að því, að trúhneigðir furstar á Arabíuskaga þori ekki lengur að hafa vantrúarher í löndum sínum og vilji heldur reyna að semja við Saddam Hussein.

Á næstu vikum mun Saddam Hussein safna saman Vesturlandabúum, sem ekki hafa gefið sig fram í Kúvæt, og koma þeim fyrir í nágrenni hernaðarlega mikilvægra staða í Írak, svo sem flugvalla, herstöðva, efnaverksmiðja og tilraunaverkstæða kjarnorkuvopna.

Að því loknu er næsta víst, að Saddam Hussein hefur tryggt sig í sessi. Hann heldur herfangi sínu í Kúvæt og bíður betra færis til næstu árásar, þegar hann hefur náð sér í kjarnorkuvopn. Núverandi pattstaða jafngildir þess vegna ósigri bandalagsins gegn honum.

Með hverjum deginum, sem líður, verður erfiðara að taka hina brýnu ákvörðun um að eyðileggja flugvelli, herstöðvar og vopnasmiðjur Íraks, flugflota þess og skriðdrekaflota. Með hverjum deginum, sem líður, verður erfiðara að rjúfa hina óhagstæðu pattstöðu.

Bandaríkin hafa unnið kraftaverk með því að koma 100 þúsund manna herliði í skyndingu til Miðausturlanda. Samstaða heimsins gegn Sddam Hussein er næsta eindregin. Sovétríkin eru í báti með Vesturlöndum og sama er að segja um Tyrkland og Egyptaland.

Allt þetta verður til einskis, ef Saddam Hussein fær svigrúm til að halda áfram að undirbúa næstu lotu í stríði sínu, sem er stríð siðleysis gegn siðmenningu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fylgismenn spámannsins

Greinar

Kalda stríðinu er rétt lokið, þegar blika nýrrar heimsstyrjaldar sést við sjóndeildarhring. Arabar eru að byrja að rísa upp gegn Vesturlöndum. Þótt Saddam Hussein Íraksforseti sé einangraður á yfirborðinu, nýtur hann mikils fylgis meðal almennings í löndum íslams.

Arabíski heimurinn hefur ekki vísað trúarbrögðum sínum til hliðarsætis eins og vestræni heimurinn gerði á átjándu og nítjándu öld. Arabíski heimurinn er ekki heldur aðili að tæknibyltingu nítjándu aldar. Hugmyndafræðileg kreppa einkennir arabíska heiminn.

Brezkur her var í Egyptalandi til 1956 og franskur í Alsír til 1962. Þótt herir Vesturlanda hafi í þrjá áratugi ekki haft aðsetur í löndum íslams, hafa þau troðið hálf-vestrænu ríki hryðjuverkamanna, Ísrael, inn að hjarta íslams og gert Palestínumenn landlausa.

Rosaleg reiði er meðal íslama í garð Vesturlanda og leppríkis þeirra í Ísrael. Íslamar telja sig öðrum fremri og trú sína öðrum siðum fremri. Samt eru þeir annars flokks í heiminum. Gremjan út af þessu fær útrás í afturhvarfi til hreintrúar og ofstækis og hryðjuverka.

Arabíski heimurinn nær frá Súdan og Nígeríu í Afríku til Azerbajdzhan og Tadzhíkístan í Sovétríkjunum. Hann nær frá strönd Atlantshafs til Persaflóa við Indlandshaf. Á þessu svæði, sem er hjarta íslams, búa fleiri menn en í Bandaríkjunum, kvartmilljarður.

Fólk hefur eina trú og eina tungu á þessu svæði. Allir tala arabísku sem aðalmál, nema Kúrdar og Berbar. Samkvæmt evrópskum þjóðastaðli ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu, að allir arabar væru í einu ríki. 250 milljón manna arabaríki væri eitt af heimsveldunum.

Það er líka draumur margra að losna við sjeikana og emírana og fá einn sterkan arftaka Múhameðs spámanns. Saddam Hussein gegnir um þessar mundir því hlutverki að vera sameiningartákn arabískra alþýðumanna og menntamanna. Hann nýtur fylgis undir niðri.

Arabíski heimurinn er í upplausn og uppreisn. Fylgismenn spámannsins berjast í Súdan í Afríku og Kasmír í Indlandi. Þeir ráðast gegn Rauða hernum í nokkrum ríkjum Sovétríkjanna og gegn Serbaher í Kosovo í Júgóslavíu. Þeir reka hernað í Afganistan og Líbanon.

Sumir menntamenn í löndum Múhameðs vilja taka upp vestræna hugmyndafræði lýðréttinda og mannréttinda. Hinum vex þó fiskur um hrygg, sem vilja afturhvarf til kóransins sem lögbókar og til hins sterka harðstjóra, sem leiði Allah á ný til hásætis í heiminum.

Egyptaland hefur löngum verið talið veikast arabaríkja fyrir vestrænni siðmenningu. Jafnvel þar er ofsatrú að breiðast út í háskólum. Þegar Mubarak verður myrtur, má alveg eins búast við sigurgöngu einhvers Saddams Husseins eða erkiklerks á borð við Khomeini.

Í þessu innra stríði eiga Vesturlönd að styðja við bakið á þeim aröbum, sem vilja fara hóflega í trúarbrögð eins og Vesturlandamenn hafa lært, og sem vilja, að heimur íslams verði aðili að vestrænni upplýsingaöld, vestrænu lýðræði og vestrænum mannréttindum.

Jafnframt eiga Vesturlönd að gera ráð fyrir þeim möguleika, að arabíski heimurinn hafni vestrænum sjónarmiðum og sameinist undir einum harðstjóra, sem yrði þá eins konar Hitler þess tíma. Vesturlönd verða að gera sér grein fyrir, hvernig þau muni bregðast við.

Í afstöðunni til uppreisnar íslams sækja Vesturlönd mikinn styrk í endurkomu Austur-Evrópu inn í upplýsingaöld lýðréttinda og mannréttinda á Vesturlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV

Munaður hins fátæka

Greinar

Sigurför vestrænna mannréttinda í Austur-Evrópu er þegar byrjuð að hafa áhrif í þriðja heiminum. Harðstjórar hans sæta nú vaxandi þrýstingi heima fyrir og geta ekki lengur hlaupið í skjól heimsveldanna til að komast upp með ófyrirgefanleg brot á mannréttindum.

Til skamms tíma kepptu heimsveldin tvö og hergagnaframleiðsluríki Evrópu um hylli Saddams Husseins í Bagdad. Valdamenn lokuðu augunum fyrir grimmdarlegum stjórnarháttum hans heima fyrir, notkun efnavopna gegn Kúrdum og innrás hans í Persíu.

Nú þarf enginn að hafa áhyggjur af, að harðstjórar heimsins hlaupi í faðm Sovétríkjanna. Þau vilja ekki lengur hafa með útlenda dólga að gera. Þau eru í þann veginn að þvo hendur sínar af Castro á Kúbu. Þau eru að losa sig úr erlendum hernaðarskuldbindingum.

Endurnýjuð aðild Austur-Evrópu að hugmyndaheimi Vesturlanda hefur meira að segja gefið hugsjónum lýðræðis og mannréttinda aukið innihald. Vaclav Havel, hinn nýi forseti Tékkóslóvakíu, er viðurkenndur í Vestur-Evrópu sem bezti talsmaður hugsjóna Vesturlanda.

Lýðræði og mannréttindi þýða frjálsar kosningar, frjálsa myndun félaga, frjálsa útgáfu fjölmiðla, frjáls skrif. Lýðræði og mannréttindi þýða, að vestrænar hugmyndir endurspeglast í lagabálkum, sem eru æðri geðþótta valdhafa. Nema kannski í ráðherraveldi Íslands.

Í þriðja heiminum þýða lýðræði og mannréttindi, að fólk þarf ekki að óttast ofsóknir lögreglu og hers. Það getur lifað lífi sínu í friði og tekið þátt í þjóðmálaumræðunni, ef því þóknast. Þetta er undirstaða þess, að þriðji heimurinn geti orðið vel stæður og vestrænn.

Smám saman er að renna upp fyrir þriðja heims fólki, að leiðin til farsældar er um hugsjónir Vesturlanda. Hitt var bara risastór lygi, að ekki væri rúm fyrir lýðræði í þriðja heiminum, að hver þjóð yrði að sameina krafta sína undir öruggri stjórn harðstjórans.

Eins manns kerfið er hrunið um allan heim. Daniel Arap Moi í Kenýa fær nú að heyra á Vesturlöndum, að hann er einfaldlega glæpamaður. Menn eru hættir að tala af virðingu um Julius Nyerere, sem eyðilagði efnahag Tanzaníu með hjálp norrænna þróunarsérfræðinga.

Sannleikurinn er beizkur harðstjórum hinna nýfrjálsu ríkja. Augljóst er, að alþýða manna hefur aldrei átt eins góða daga og hún átti í skjóli lagahefðar og annarra formsatriða lýðræðis á tímum nýlenduveldanna. Eftir sjálfstæði hefur allt sigið á ógæfuhliðina.

Augljóst er orðið, að eins flokks kerfi og ofanstýrt atvinnulíf gekk ekki í Sovétríkjunum og leppríkjum þeirra. Enn frekar er orðið ljóst, að eins flokks kerfi og ofanstýrt atvinnulíf hefur sett mestalla Afríku á höfuðið og valdið íbúum álfunnar óbærilegum þjáningum.

Nú dugar harðstjórum heimsins ekki að nota kommagrýluna og kanagrýluna. Doe í Líberíu og Mobutu í Zaire eru Bandaríkjunum einskis virði. Castro á Kúbu og Najib í Afganistan eru Sovétríkjunum einskis virði.

Þróunaraðstoð verður ekki framvegis sólundað í sama mæli og áður. Þeir, sem aðstoð veita, munu í auknum mæli gera kröfur um viðunandi stjórnarhætti í þróunarlöndum. Með viðunandi stjórnarháttum er ekki átt við neina þriðju leið, heldur vestrænt lýðræði. Nú hafa Vesturlönd byr til að fylgja fast eftir þeirri staðreynd, að lýðræði og mannréttindi eru ekki munaður ríkra þjóða, heldur forsenda framfara fátækra þjóða.

Jónas Kristjánsson

DV

Hafnbann

Greinar

Meðan spennan vex við Persaflóa berast fréttir af, að íslenzkir aðilar séu að gamna sér við að græða á togaraútgerð í Burma, þar sem ríkir eitt versta stjórnarfar álfunnar. Eins og í Írak ríkir þar þvílíkt hernaðareinræði, að hermenn skjóta fólk til bana á almannafæri.

Í leiðurum DV hefur á undanförnum árum nokkrum sinnum verið vakin athygli á, hversu viljugir vestrænir aðilar hafa verið að styðja við bakið á harðstjóranum Saddam Hussein í Írak, þótt stjórnarfar hans hafi verið heldur verra en til dæmis erkiklerkanna í Íran.

Hinn herskái Saddam Hussein hefur í áratug verið byggður upp með bandarískum peningum og evrópskum vopnum. Í takmarkalítilli bjartsýni lánuðu Vesturlönd honum rúmlega 30 milljarða dollara, meðal annars til að halda uppi árásarstríði gegn nágrönnum í Íran.

Nú hafa aðstæður breytzt á Vesturlöndum. Harðstjórar af ýmsu tagi geta miklu síður en áður sníkt fé og vopn af auðugum ríkjum með því að spila á hagsmunaágreining austurs og vesturs. Kalda stríðinu er lokið og Vesturlönd þurfa ekki að kaupa stuðning harðstjóra.

Endalok kalda stríðsins í Evrópu eru í þann veginn að kippa fótunum undan harðstjórum um allan hinn þriðja heim, allt frá Moi í Kenya til Castro á Kúbu. Þessi endalok komu í tæka tíð fyrir nýjustu tilraun Saddams Hussein til útþenslu á kostnað nágrannaríkja.

Hinn evrópsk-ameríski heimur er nokkurn veginn samstilltur, allt frá Washington til Moskvu. Alls staðar eru menn sammála um viðskiptabann á Írak og þau svæði, sem það hefur hernumið. Í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hefur þessi samstaða borið ávöxt.

Menn greinir aðeins á um, hvort rétt sé að fylgja banninu eftir með aðgerðum, sem jaðra við hafnbann. Frakkland hefur oft áður verið á mildum og ódýrum sérleiðum og er það einnig núna, með þátttöku Sovétríkjanna. Þessi ríki hafa lýst efasemdum um hafnbann.

Ef ætlunin er á annað borð að stöðva Saddam Hussein, dugir ekki að setja upp franska silkihanzka. Til dæmis er fráleitt, að slóttugur Hussein Jórdaníukonungur geti í orði stutt viðskiptabann, en látið nota land sitt til að flytja vörur milli Akabaflóa og Íraks.

Vesturlönd þurfa að loka Persaflóa og Akabaflóa og stöðva með valdi þau skip, sem líkur eru á, að muni rjúfa viðskiptabannið. Vesturlönd þurfa líka að vera viðbúin, að Saddam Hussein víkki stríðið með því að senda her inn í vinaríki sitt, land Jórdaníukonungs.

Vesturlandabúar verða að átta sig á, að Saddam Hussein verður ekki friðaður frekar en Adolf Hitler var friðaður á sínum tíma. Slíkir harðstjórar verða ekki talaðir til með orðaleikjum um mun á viðskiptabanni og hafnbanni. Verkin verða sjálf að tala. Það þýðir hafnbann.

Vesturlandabúar verða að muna, að Saddam Hussein hefur safnað sér efnavopnum og beitt þeim óspart, ekki aðeins gegn Írönum, heldur einnig gegn íbúum eigin lands. Hann er alveg siðlaus, í vestrænum skilningi þess orðs, þótt ýmsir íslamar hafi á honum dálæti.

Með aðstoð vestrænna fyrirtækja er Saddam Hussein kominn langleiðina í kjarnorkuvopn. Talað hefur verið um, að hann eigi þrjú eða fjögur ár eftir, ef viðskiptabannið tefur hann ekki. Óhjákvæmilegt verður að stöðva hann fyrir þann tíma, helzt núna strax.

Að loknu köldu stríði geta Vesturlönd nú farið að verja öryggi sitt gegn vestrænum kaupahéðnum og harðstjórum þriðja heimsins, svo sem í Burma eða Írak.

Jónas Kristjánsson

DV

Riddari araba

Greinar

Hann er ýmist kallaður riddari araba eða slátrarinn frá Bagdað. Í augum margra araba er Saddam Hussein merkisberi nýrrar gagnsóknar íslamska heimsins gegn aldagömlu yfirvaldi kristna heimsins. Á Vesturlöndum er hins vegar litið á hann sem Hitler nútímans.

Hvort tveggja er rétt. Samlíkingin við Hitler er töluvert nákvæm. Fyrst kvörtuðu Hitler og Saddam um yfirgang smáríkis við landamærin, Póllands og Kúvæt. Næst höfðu þeir uppi hótanir um valdbeitingu. Svo réðust þeir til skyndilegrar atlögu og höfðu strax sigur.

Síðan beið Hitler átekta um sinn og undirbjó töku næstu bráðar. Loks þraut þolinmæði Vesturlanda og þau fóru að reyna að hefta yfirgang hans. Eftirmála þess hildarleiks, heimsstyrjaldarinnar, var fyrst að ljúka í vetur með sáttum Sovétríkja og Þýzkalands.

Að þessu sinni voru Vesturlönd reynslunni ríkari. Þau hafa gripið til hafnbanns gegn Írak og hernaðaraðstoðar við ríkið, sem Saddam Hussein ógnar nú mest, Saúdi-Arabíu. Þau hafa líka ítrekað stuðning sinn við Tyrkland, sem er aðili að Atlantshafsbandalaginu.

Sam-arabískur Saddam Hussein talar eins og sam-germanskur Hitler um flokkinn, fólkið og foringjann, ekki um ríkið, þjóðina og furstann. Hann hyggst sameina araba undir einum flokki og foringja. Til þess þarf hann að ryðja úr vegi makráðum miðaldahöfðingjum.

Íraksforseti notar sér, að emírar og sjeikar við Persaflóa eru tímaskekkja. Þeir sitja að ættarvöldum á síðasta áratugi tuttugustu aldar án þess að spyrja þjóðir sínar um margt. Í Kúvæt hafa aðeins 40% íbúanna þegnrétt í landinu. Hitt eru réttlitlir útlendingar.

Þegar Íraksher hafði tekið stjórnarráðið og sjónvarpsstöðina í Kúvæt, var þriðja verk hans að taka þjóðskrána og flytja til Bagdað. Saddam Hussein ætlar sjálfur að ráða, hverjir teljast ríkisborgarar í Kúvæt og hverjir ekki. Hann er að tefla alþýðu gegn yfirstétt.

Emírar og sjeikar eiga ekki upp á pallborðið hjá ýmsu alþýðufólki í arabalöndum. Saddam Hussein hyggst verða leiðtogi þess, eins og Hitler varð leiðtogi almúgans gegn gamalli yfirstétt. Fjöldafundir hafa verið haldnir til stuðnings honum í nágrannaríkinu Jórdaníu.

Emírarnir og sjeikarnir hafa sameinazt Tyrkjum og Vesturlöndum í varnarbandalagi gegn Saddam Hussein og í hafnbanni á Írak. Þeir gera það vegna hagsmuna sinna sem ættarlaukar stjórnarfars frá miðöldum. Þeir endurspegla ekki viðhorf arabísks almennings.

Forseti Íraks getur leitað stuðnings sam-arabista af ýmsu tagi. Arabar hafa eina trú, eitt tungumál og eina sögu, þótt þeir búi í ýmsum löndum, sem Vesturlönd bjuggu til, þegar þau ráðskuðust með þennan heims hluta. Því skyldi hann ekki teljast riddari araba?

Erfitt er fyrir vestrænt fólk að setja sig inn í hugarheim araba. Svo virðist sem ýmsar siðareglur, er orðið hafa til á upplýsingaöld á Vesturlöndum, hafi minna gildi í arabísku andrúmslofti. Mannréttindi og lýðréttindi eru hugsuð á annan hátt meðal þjóða araba.

Ef “riddara araba” tekst að ná tökum á sam-arabísku hugsjóninni, mega Vesturlönd búast við miklum vanda í Miðausturlöndum. “Slátrarinn frá Bagdað” hefur yfir efnavopnum að ráða og hyggst verða búinn að koma sér upp atómsprengju eftir aðeins þrjú eða fjögur ár.

Sumir Evrópumenn segja, að Miðausturlönd séu utan verksviðs Atlantshafsbandalagsins. Þau verða það þó ekki lengi, ef Saddam Hussein aflar sér kjarnavopna.

Jónas Kristjánsson

DV

Rauð strik í sandkassa

Greinar

Kaupmáttur landverkafólks hefur minnkað á tveimur árum um 16% eftir að hafa verið á undanhaldi um nokkurra ára skeið. Á sama tíma er forseti Alþýðusambandsins að ræða um, hvort aukinn flýtir í afnámi virðisaukaskatts af bókum geti bjargað rauðum strikum.

Virðisaukaskattur af bókum verður vafalaust felldur niður fyrr en ákveðið var á öndverðum síðasta vetri. Það stafar af, að dagsetning brottfallsins var heimskuleg og að mistökin hafa verið kunn öllum hlutaðeigandi frá upphafi. Þau yrðu leiðrétt, þótt engin væru rauð strik.

Lífskjör Íslendinga hafa farið ört versnandi að undanförnu. Fyrir nokkrum árum vorum við í hópi fremstu þjóða heims í lífsgæðum, en höfum ört verið að falla niður stigann. Enn verra er, að stéttaskipting hefur aukizt, því að hálaunafólk hefur betur haldið á sínu.

Stéttarfélög almennings í landinu eru meira eða minna undirlögð af pólitískum framagosum, sem hafa meiri áhyggjur af stöðu sinni í flokknum og stjórnmálunum en af lífskjörum í landinu. Þess vegna felast kjarasamningar í ýmsu rugli á borð við rauð strik.

Samtök neytenda eru líka að töluverðu leyti undir lögð af pólitískum gosum, sem hafa svipuð áhugamál og verkalýðsrekendur. Þess vegna felast baráttumál neytenda í minni háttar uppákomum út af einokun á takmörkuðum sviðum á borð við kartöflur og grænmeti.

Lífskjör láglaunafólks og almennra neytenda á Íslandi fara lítið sem ekkert eftir rauðum strikum og vondum kartöflum. Lífskjörum þjóðarinnar hrakar vegna mjög mikilla millifærslna í hagkerfinu og brennslu efnislegra verðmæta hjá gæludýrum kerfisins.

Á sama tíma og ótal hagfræðingar hafa sýnt fram á, að árlegur herkostnaður þjóðarinnar af hefðbundnum landbúnaði er á bilinu frá 15 til 20 milljarðar, sennilega rúmlega 17 milljarðar, er formaður Neytendasamtakanna að verja innflutningsbann á búvöru.

Af 17 milljarða herkostnaði stafa rúmlega 10 milljarðar eingöngu af innflutningsbanninu, sem formaður Neytendasamtakanna er að verja. Það er því ekki von á góðum lífskjörum neytenda, þegar oddamenn þeirra styðja meginruglið og puðast síðan í smáatriðum.

Engin þjóð getur haldið við góðum lífskjörum með því að brenna á hverju ári upphæð sem svarar 275 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Þetta er mál, sem formenn og forsetar samtaka launþega og neytenda mættu gjarna snúa sér að.

Stjórnmálaflokkarnir brenna meiri verðmætum en í hefðbundnum landbúnaði einum. Þeir hafa byggt upp sjóðakerfi, sem millifærir milljarða á hverju ári til sérstakra gæludýra á borð við minka og lax. Í flestum tilvikum brennur þetta aflafé þjóðarinnar upp til agna.

Stjórnmálaflokkarnir brenna líka verðmætum í öðrum afskiptum ríkisins af atvinnulífinu. Þeir hafa reyrt það í kvóta, búmark, fullvirðisrétt og aflamark. Þeir hafa meira að segja stofnað aflamiðlun til að draga úr möguleikum á að selja dýran ferskfisk í útlöndum.

Ísland er óðum að verða sér á báti með hagkerfi, sem einkennist af mikilli ofanstýringu af hálfu stjórnmálamanna í ráðherrastóli. Ofanstýringin felst að verulegu leyti í að færa fé frá starfsemi, sem getur gefið af sér, til gagnslítillar iðju eða beinlínis skaðlegrar.

Forseti Alþýðusambandsins segir ekki orð gegn neinu af þessu. Hann er enn að leika sér að rauðum strikum í sandkassa, sem er fjarri íslenzkum raunveruleika.

Jónas Kristjánsson

DV

Einhliða frelsi borgar sig

Greinar

Mikið var rifizt um landbúnaðarmál á fundi leiðtoga sjö helztu iðnríkja heims í Houston í Texas í gær og í fyrradag. Fulltrúar Bandaríkjanna kröfðust þess, að hætt yrði niðurgreiðslum og öðrum peningatilfærslum, sem hafa áhrif á viðskipti með landbúnaðarafurðir.

Fulltrúar ríkja Evrópubandalagsins voru þessu andvígir, af því að landbúnaðarafurðir þeirra eru ekki samkeppnisfærar. Hins vegar eru Bandaríkjamenn studdir af löndum þriðja heimsins, sem komast ekki með sína búvöru á alþjóðamarkað vegna viðskiptahindrana.

Hér á landi hefur ríkt sama stefna og í Evrópubandalaginu. Við höfum landbúnað, sem ekki er samkeppnishæfur í öðru en hrossarækt. Þess vegna hefur hér verið reist fyrirgreiðslukerfi upp á 18 milljarða króna á ári, meðal annars með hreinu innflutningsbanni á búvöru.

Búast má við, að Evrópubandalagið verði smám saman að gefa eftir fyrir samræmdum sóknaraðgerðum Bandaríkjanna annars vegar og þriðja heimsins hins vegar. Enda er ljóst, að þriðja heiminum er haldið niðri með takmörkunum á innflutningi búvöru frá honum.

Í bandalagi landbúnaðarríkja eru meðal annars Ástralía, Nýja-Sjáland, Kanada og Argentína, sem eiga það sameiginlegt með Bandaríkjunum að geta framleitt miklu ódýrari búvöru en Evrópa. Eðlilegt er, að heimsbyggðin fái að njóta árangurs landbúnaðarríkjanna.

Fulltrúar Evrópubandalagsins eru ekki að gæta hagsmuna neytenda í Evrópu. Þeir eru að gæta þröngra sérhagsmuna í landbúnaði. Það er nákvæmlega sama staða og er hér á landi. Spurningin er svo, hve lengi Evrópubandalagið og Ísland komast upp með búvöruverndina.

Sá siður hefur komizt á í fjölþjóðlegum viðræðum um tolla og viðskiptahindranir að líta á málin með augum hinnar gömlu kaupauðgisstefnu, sem þó er vitað, að er röng. Samkvæmt þessari stefnu eru samningsaðilar sífellt að ræða um gagnkvæmni í minnkun hindrana.

Það fáránlega við þessa stefnu er, að ríki, sem verndar sig fyrir innflutningi einhverrar vöru, skaðar sjálft sig meira en það skaðar hin ríkin, sem missa af þessum útflutningi. Verndarríkið skaðar kjör neytenda sinna og býr til óraunhæft viðskiptaumhverfi innan ríkisins.

Það er víðar en á Íslandi, að ráðamenn skilja ekki, að einhliða lækkun tolla og annarra viðskiptamúra er gróðavænleg aðgerð, jafnvel þótt ekki fylgi henni gagnkvæm aðgerð af hálfu annarra ríkja. Gagnkvæm lækkun er arðbærust, en einhliða lækkun er arðbær.

Í rúmlega fjóra áratugi hafa helztu viðskiptaríki heims staðið í þjarki í tollasamtökunum GATT. Efni þjarksins hefur verið að ná fram gagnkvæmni í minnkun viðskiptahindrana. Enginn virðist skilja, að þeir græða mest, sem fyrstir eru til að rífa niður múrana.

Múralaust ríki eflir hag neytenda sinna og færir áherzlur atvinnulífs frá úreltum og samkeppnisóhæfum greinum til vaxtargreina. Þannig verður múralaust ríki að auðugu ríki með öflugum atvinnuvegum og góðum lífskjörum, en vernduðu ríkin haldast fátæk.

Fyrr eða síðar komast gæzlumenn Evrópubandalagsins að því, að hagsmunir ríkja þess í heild eru mikilvægari afmörkuðum sérhagsmunum landbúnaðar. Fyrr eða síðar mun Ísland standa andspænis kröfunni um, að brotnir verði verndarmúrar hefðbundins landbúnaðar.

Bezt fyrir okkur væri að byrja að græða strax og láta ekki seint og um síðir draga okkur inn í nútíma viðskiptahætti, þar sem engar hindranir eru í vegi.

Jónas Kristjánsson

DV

Það saxast á fullveldið

Greinar

Við höfum látið öðrum í té hluta af fullveldi okkar. Um minnst af valdaafsalinu hefur verið ágreiningur. Helzt hafa hvalveiðisinnar rætt um, að rétt sé, að Íslendingar fari úr Alþjóða hvalveiðiráðinu, ef niðurstöður þess í næstu viku verða ekki eins og þeim þóknast.

Íslendingar hafa hingað til beygt sig nokkuð eftir niðurstöðum Alþjóða hvalveiðiráðsins. Að minnsta kosti hafa hvalveiðar verið stöðvaðar um tíma að tilhlutan ráðsins. Það væri ný vending, ef við hættum þátttöku í fjölþjóðlegu samstarfi, og er ekki líkleg.

Hagsmunahópar úti í bæ hóta stundum að bera mál sín fyrir aðila, sem séu æðri íslenzkum stjórnvöldum. Menn hóta að kæra lög Alþingis, gerðir ríkisstjórnar og úrskurði Hæstaréttar. Menn hafa jafnvel unnið mál gegn íslenzka ríkinu fyrir evrópskum dómstóli.

Á sínum tíma beittum við vagni Alþjóðadómstólsins í Haag til að ná viðurkenningu á sjónarmiðum okkar í erfiðri þrætu við Breta og fleiri ríki um efnahagslögsögu Íslands. Við eigum í stöðugum utanstefnum til erkibiskupa í fjölþjóðadómstólum og fjölþjóðasamtökum.

Við látum Norðurlönd ráða lögum hér á landi. Það gerum við með því að þýða lög, sem þar hafa verið búin til, og snúa þeim upp á Ísland. Og nú á her manns að fara af stað til að þýða reglugerðir Evrópubandalagsins á íslenzku, svo við heyrum betur erkibiskups boðskap.

Um ekkert af þessu hefur verið deilt í alvöru, enda vita menn af raunsæi, að fullveldi smáþjóðar eru takmörk sett. Við lifum ekki einangruð á eyju. Við eigum allt okkar undir góðum viðskiptum við umheiminn. Og við verðum með hverju árinu háðari slíkum viðskiptum.

Það getur beinlínis verið hagkvæmt fyrir slíka þjóð að spara sér vinnu með því að þýða lög og reglugerðir annarra. Það getur líka verið beinlínis hagkvæmt fyrir slíka þjóð að leita skjóls hjá fjölþjóðadómstólum og fjöl þjóðasamtökum gegn hinum sterku aðilum í heiminum.

Það er fleira en viðskipti, sparnaður og nærtækir hagsmunir, sem varpa okkur í fang aðila, sem taka til sín skerf af fullveldi okkar. Til sögunnar eru að koma nýjar ógnir, sem ekki verður barizt gegn, nema með fjölþjóðlegu átaki. Stærsta ógnin er hrörnun jarðar.

Í þessari viku var staðfest á alþjóðlegri ráðstefnu í London, að eyðing ózonlagsins er meiri og hættulegri en áður var gert ráð fyrir. Stjórnmálamenn á ráðstefnunni virtust átta sig á, að þjóðir heims verða að taka höndum betur saman til að stöðva þessa eyðingu.

Ólíklegt er, að standi á Íslendingum að leggja sitt af mörkum. Þegar hefur verið ákveðið að draga hér á landi hraðar úr notkun ózoneyðandi efna, svo sem freons í úðabrúsum og halons í slökkvitækjum, en gert er ráð fyrir í fjölþjóðasamningi, kenndum við Montreal.

Við þurfum einnig að leggja hönd á plóginn til að byggja upp fjölþjóðasamstarf gegn gróðurhúsaáhrifum koltvísýrings. Þótt málið sé enn ekki fullsannað, má þó ljóst vera, að ekki er gott að verða vitur eftir á. Af öryggisástæðum þurfum við að draga úr koltvísýringi.

Eitt ægivaldið að utan, sem við stöndum andspænis, er Evrópubandalag Evrópu. Ef við göngum í það, látum við af hendi nokkuð af fullveldi okkar til viðbótar við fyrra afsal á ótal sviðum. Sumir segja, að það sé eina leiðin til að láta af vitfirringarstjórn í landinu.

Ef íslenzkir þjóðarleiðtogar halda áfram að ofstýra landinu út í óreiðu, endar það með, að þeir og þjóðin neyðast til að fela Evrópubandalaginu að leysa hnútinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótímabær veiðigleði

Greinar

Þegar fiskifræðingar eru farnir að spá í aukinn þorskkvóta vegna göngu Grænlandsþorsks á Íslandsmið, er rétt að staldra við og minnast þess, er Norðurlandssíldin hvarf af Íslandsmiðum. Þá var síldinni eytt með samstilltu átaki fræðimanna og sjósóknarmanna.

Mikilvægt er, að helztu fiskifræðingar ríkisins gangi ekki fram fyrir skjöldu í veiðigleði, þótt óvænt happ beri að garði. Þorskstofnar við Ísland hafa farið minnkandi, meðal annars vegna þess að Hafrannsóknastofnunin hefur lagt fram fremur bjartsýnar stofnspár.

Að vísu hafa stjórnvöld gengið lengra en fiskifræðingar hafa viljað. Það merkilega er, að hin síðari ár hefur ofveiðin ekki verið stunduð að undirlagi hagsmunaaðila. Landssamband útvegsmanna hefur um nokkurt skeið lagt til, að farið sé eftir tillögum fræðinga.

Það eru stjórnvöld, sem hafa af ýmsum pólitískum ástæðum, svo sem vegna byggðastefnu, ekki treyst sér til að hafa kvótann eins lítinn og hann hefði þurft að vera. Þess vegna er ánægjulegt, að sjávarútvegsráðherra skuli nú hvetja til varfærni út af Grænlandsþorski.

“Þorskstofninn er of lítill og hann þarf að stækka. Þess vegna hef ég sagt, að komi þorskganga frá Grænlandi, væri nauðsynlegt að stækka stofninn, en ekki nota þá göngu til að auka veiðarnar.” Þessi orð Halldórs Ásgrímssonar í viðtali við DV eru kjarni málsins.

Svo mikið er veitt af þorski við Ísland, að búseta þjóðarinnar í landinu er orðin að happdrætti. Ef ekki kemur inn happdrættisárgangur og ef ekki kemur inn ganga af Grænlandsþorski, hverfur þorskurinn af mannavöldum eins og Norðurlandssíldin gerði á tryllingsárunum.

Ef við fáum annan vinninginn í happdrættinu, eigum við að nota hann til að taka frá okkur frekari happdrættisáhættu í framtíðinni. Það er kjörið tækifæri til að koma búsetuskilyrðum á Íslandi í sæmilega traust horf, en ekki tækifæri til enn eins skyndigróðans.

Það, sem gerzt hefur, er ekki annað en að sex ára þorskur frá Grænlandi hefur slæðzt í afla á Selvogsbanka og út af Stafnesi. Á þeim grundvelli spá fiskifræðingar göngu Grænlandsþorsks á Íslandsmið á næsta ári. Sú ganga getur orðið stór, 100 þúsund tonn.

Það væri okkur líkt að fara að úthluta happdrættisvinningi, sem spáð er, að komi á næsta ári. Við erum farnir að hlusta á hjáfræðimenn, sem hafa þá notalegu skoðun, að ekki beri að geyma þorskinn í sjónum, því að selurinn og hvalurinn éti hann frá okkur.

Auðvitað eru takmörk fyrir því, hvað borgar sig að leggja mikið fyrir af þorski í sjó. Svo stór getur stofninn orðið, að auknar veiðar borgi sig til að hindra afföll af öðrum ástæðum. En þorskstofn, sem hefur lengi verið í rénun, á ekki að vera tilefni slíkra hugleiðinga.

Við eigum aðeins þrjár auðlindir. Við eigum orkuna, sem nú stendur til að gefa í nýtt álver. Við eigum þekkinguna, sem við notum allt of lítið. Og við eigum fiskinn í sjónum, sem við höfum ofnotað, allt frá því að við fengum stjórn fiskimiðanna við landið í eigin hendur.

Árið 1955 veiddum við 130 milljón þorska. Samtals vógu þeir 538 þúsund tonn. Árið 1987 veiddum við sama fiskafjölda, en þeir vógu aðeins 380 þúsund tonn. Í fyrra skiptið var meðalþorskurinn 4,1 kíló, en nú er hann 2,9 kíló. Segir þetta ekki nóg um óheillabraut okkar.

Því rennur kalt vatn milli skinns og hörunds, er glaðhlakkalegur fræðingur spáir í sjónvarpi aukinni veiði á næsta ári. Á að fara með þorskinn eins og síldina?

Jónas Kristjánsson

DV

Próventukarlar Evrópu

Greinar

Milli lína í nýrri skýrslu Seðlabankans má lesa, að einn helzti kosturinn við aðild að evrópsku markaðssvæði eða Evrópubandalaginu sé, að íslenzkar ríkisstjórnir geti þá ekki stjórnað eins mikið og þær vilja. Milli lína er botnlaust vantraust á ríkisstjórnum okkar.

Í skýrslunni segir, að frjálsir fjármagnsflutningar milli landa muni gera íslenzkum stjórnvöldum ókleift að reka hér vaxta- og peningastefnu á skjön við raunvexti í útlöndum og komi í veg fyrir, að íslenzk stjórnvöld skattleggi fólk og fyrirtæki út af markaði.

Í skýrslunni segir, að íslenzk stjórnvöld muni í evrópska rammanum neyðast til að halda aftur af útgjöldum sínum, svo að hallarekstur ríkissjóðs auki ekki verðbólgu og veiki ekki þar með íslenzka gjaldmiðilinn í samanburði við aðra gjaldmiðla á markaðssvæðinu.

Hér í blaðinu hefur oft verið bent á, að Evrópubandalagið sé ekki sú himnasæla, sem sumir bíða eftir. Það hefur marga alvarlega galla, þótt frjálsir fjármagnsflutningar séu ekki einn þeirra. Enda skiptist þjóðin í tvær stórar fylkingar, með og móti bandalaginu.

Ástæðan fyrir því, að stuðningsmönnum aðildar hefur fjölgað að undanförnu, er hin sama og kemur fram í skýrslu Seðlabankans. Þeim fjölgar, sem efast um, að heppilegt sé, að íslenzkar ríkisstjórnir stjórni landinu, og vilja heldur eins konar vitræna stjórn að utan.

Ekki er gott, að vantraust á kjörnum stjórnvöldum gangi svo langt, að Seðlabankinn velti vöngum um, hvernig hægt sé að koma í veg fyrir, að íslenzk stjórnvöld séu á skjön við heilbrigða skynsemi. Og verra er, ef þetta flæmir okkur í faðm Evrópubandalagsins.

Engar horfur eru á, að umskipti í kosningum hafi áhrif á stjórnarfar landsins. Ef Sjálfstæðisflokkur og Kvennalisti mynda stjórn eftir næstu kosningar og Framsóknarflokkur, Alþýðuflokkur og Alþýðubandalag fara í andstöðu, verður allt eins og áður var.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að núverandi stjórnarandstaða mun ekki draga úr þjáningunni, sem hefðbundinn landbúnaður veldur þjóðinni. Núna er um 17 milljörðum fleygt árlega út í veður og vind landbúnaðar. Sú tala mun ekki lækka við stjórnarskipti.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að allir stjórnmálaflokkar eru sammála um að reka fyrirgreiðslustefnu fyrir gæludýr í atvinnulífinu, eins konar velferðarríki forstjóra. Þetta hefur leitt til, að 100 milljarðar liggja ónýtir í offjárfestingu á vegum opinberra sjóða.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að allir stjórnmálaflokkar, sem við völd hafa verið, hafa tekið þátt í að byggja upp kerfi sjóða, sem haldið er úti með bókhaldsbrellum. 16 milljarða gat er á lífeyrissjóðunum. Húsnæðislánakerfið verður gjaldþrota fyrir aldamót.

Sem dæmi um vonleysið má nefna, að allir stjórnmálaflokkar eru sammála um, að vextir eigi að vera “sanngjarnir” eins og það er kallað. Í vaxtatapi hafa 92 milljarðar verið teknir frá þeim, sem öngla saman sparifé, og gefnir gæludýrunum, sem forgang hafa að lánsfé.

Það er þjóðin sjálf, sem hefur leitt núverandi ríkisstjórn til hásætis og aðrar ríkisstjórnir, sem gengu berserksgang á undan henni. Það er þjóðin sjálf, sem hefur ákveðið, að jafnan skuli stjórna landinu þeir menn, sem líklegastir eru til að hafa mesta ofstjórn og óreiðu.

Með sama áframhaldi munum við gefast upp og sigla til sæluríkis Evrópubandalags, þar sem við getum gerzt próventumenn á landbúnaðarstyrkjum fyrir útkjálka.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvíhliða viðræður beztar

Greinar

Alvaran er byrjuð í viðræðum um tengsl Íslands og annarra ríkja Fríverzlunarsamtakanna við Evrópubandalagið. Samningamenn Evrópubandalagsins eru búnir að fá samningaumboð, sem fengið hefur misjafnar undirtektir í löndum Fríverzlunarsamtakanna.

Brezka tímaritið Economist, sem mest fjölmiðla hefur skrifað um Evrópubandalagið, telur, að viðræður um sameiginlegt efnahagssvæði í Evrópu muni ekki leiða til árangurs. Miklu vænlegra sé að stefna að tvíhliða viðræðum Evrópubandalagsins við einstök lönd.

Tvíhliða viðræður njóta vaxandi fylgis þessa dagana. Talað er um, að sérþarfir einstakra ríkja séu yfirleitt afmarkaðar og því umsemjanlegar. Ísland er tekið sem gott dæmi um slíkt. Íslendingar vilji bara tala um fisk og því megi tala afmarkað um fisk við Íslendinga.

Þegar hins vegar búið sé að raða mörgum og mismunandi sérþörfum nokkurra ósamstæðra ríkja saman í einn stóran og flókinn pakka, sem kallaður sé “sameiginlegt efnahagssvæði”, sé málið orðið miklu erfiðara viðfangs fyrir umboðsmenn Evrópubandalagsins.

Economist heldur fram, að Evrópubandalagið meini lítið með sameiginlegu viðræðunum, sem nú eru að hefjast. Bandalagið sé að nota viðræðurnar til að tefja fyrir aðild ríkja á borð við Austurríki, sem vilja komast inn, en bandalagið hefur ekki tíma til að taka við.

Economist vill í staðinn fara tvær leiðir. Annars vegar verði samið um skilyrðislausa og skjóta aðild ríkja eins og Austurríkis. Hins vegar verði gerðir tvíhliða viðskiptasamningar við ríki á borð við Sviss. Tímanum sé ekki eytt of mikið í evrópskt viðskiptasvæði.

Hér á landi hefur nokkrum sinnum, meðal annars í leiðurum DV, verið bent á að gott sé að leggja aukna áherzlu á að þreifa á nýjum viðskiptasamningi við bandalagið, þar sem ekki séu líkur á árangri í okkar hagsmunum undir regnhlíf Fríverzlunarsamtakanna.

Líkur eru að aukast á, að þokukenndir heildarsamningar náist ekki, heldur eigi ríki Fríverzlunarsamtakanna hvert fyrir sig kost á skilyrðislausri uppgjöf og inngöngu í Evrópubandalagið eða á tiltölulega einföldum, tvíhliða viðskiptasamningi við bandalagið.

Þetta hefur farið fyrir brjóstið á utanríkisráðherra Íslands, sem finnst í þessu felast vantraust á starfi hans í fyrra sem formanns samninganefndar Fríverzlunarsamtakanna. Svo er alls ekki. Það er bara söguleg tilviljun, að beinar, tvíhliða viðræður koma að meira gagni.

Til þess að þrýsta á tvíhliða viðræður þurfum við að óska formlega eftir tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið um takmarkaða útvíkkun á viðskiptasamningi, sem þegar er í gildi. Bandalagið getur ekki neitað svo einföldum viðræðum, ef formleg ósk er komin fram.

Flest bendir til, að við getum ekki lengi lagt mikið traust á ósamstæð Fríverzlunarsamtök, sem smám saman eru að gufa upp. Við verðum annað hvort að ná viðskiptasamningi við Evrópubandalagið eða hreinlega gefast upp og ganga í bandalagið á eftir Norðmönnum.

Síðari kosturinn er ekki girnilegur. Okkur mun vegna efnahagslega betur sem tiltölulega sjálfstæðri þjóð með vondum ríkisstjórnum innlendum, heldur en sem einum af landbúnaðarútkjálkum Evrópubandalagsins, jafnvel þótt við verðum áfram að sæta saltfisktollum.

Nýjasta umræðan í fjölmiðlum Evrópu bendir til, að tillögur um tvíhliða viðræður Íslands við Evrópubandalagið séu þær, sem líklegastar eru til að ná árangri.

Jónas Kristjánsson

DV

78 mínútur á dag

Greinar

Landbúnaðarráðuneytið er þessa dagana að semja við hagsmunasamtök landbúnaðarins um nýjan búvörusamning, sem á að binda hendur tveggja næstu ríkisstjórna. Nýi samningurinn á að vera sex ára samningur og gilda til ársins 1998, fram yfir tvennar kosningar.

Jón Helgason landbúnaðarráðherra sætti mikilli gagnrýni fyrir að undirrita fjögurra ára búvörusamning við hagsmunasamtök landbúnaðarins skömmu fyrir kosningar. Með því batt hann hendur ókominnar ríkisstjórnar. Nú gengur Steingrímur Sigfússon enn lengra.

Fréttir úr kerfinu benda til, að samningurinn verði svipaður hinum fyrri. Ríkið mun áfram, fyrir hönd skattgreiðenda, ábyrgjast verð og sölu á svipuðu magni óseljanlegra landbúnaðarafurða og verið hefur í gamla samningnum. Aðlögun verður frestað fram yfir aldamót.

Athyglisvert er, að samningur upp á 36 milljarða króna af fé skattgreiðenda er gerður innan landbúnaðarkerfisins. Fulltrúi skattgreiðenda í samningunum er landbúnaðarráðuneytið, sem í vaxandi mæli er orðið helzta áróðurs- og sölustofnun landbúnaðarins.

Niðurstaðan verður í stíl við það. Landbúnaðurinn verður svipaður baggi á skattgreiðendum og hann hefur verið, heldur dýrari en allt heilbrigðiskerfið í landinu. Hann verður eini atvinnuvegurinn í landinu, sem er rekinn eins og grein af velferðarmeiði ríkisins.

Ástandið er orðið þannig, að ríkið leggur árlega fram um 7,5 milljarða króna af fé skattgreiðenda til að halda úti hefðbundnum landbúnaði. Til viðbótar leggur ríkið árlega fram, í formi innflutningsbanns, um 12 milljarða króna af fé neytenda til að halda uppi þessari grein.

DV er ekki lengur eini aðilinn, sem bendir á þetta. Fimm hagfræðingar hjá Háskólanum, Seðlabankanum og Þjóðhagsstofnun hafa hver fyrir sig og með mismunandi reikningsaðferðum fundið út, að innflutningsbann landbúnaðarafurða eitt sér kostar 10­15 milljarða á ári.

Í þennan streng hafa tekið Þorvaldur Gylfason háskólaprófessor, Þórólfur Matthíasson háskólalektor, Guðmundur Ólafsson hjá Hagfræðistofnun háskólans, Markús Möller hjá Seðlabankanum og Sigurður Snævarr hjá Þjóðhagsstofnun, svo að þekkt dæmi séu nefnd.

Þórólfur hefur eins og Birgir Árnason, hagfræðingur hjá Fríverzlunarsamtökum Evrópu, fundið út, að raunveruleg verðmætasköpun í landbúnaði sé engin. Það kemur heim og saman við útreikninga í DV um, að landbúnaður eykur viðskiptahalla og sparar ekki gjaldeyri.

Innfluttar landbúnaðarvörur mundu, ef leyfðar væru, kosta 2,4 milljarða á ári í erlendum gjaldeyri. Það er heldur lægri tala en sem nemur erlendum aðföngum hins innlenda landbúnaðar, svo sem í vélum, tækjum og olíu. Gjaldeyrisdæmi landbúnaðarins er því öfugt.

Einnig er rangt, sem heyrist úr herbúðum landbúnaðarkerfisins, að ekki sé á vísan að róa í kaupum á ódýrum mat frá útlöndum. Allt bendir til, að styrjaldarhætta fari ört minnkandi og að vaxandi fari offramleiðsla, sem leitar útrásar á alþjóðlegum markaði.

Venjulegur fjölskyldufaðir, sem þarf fyrir fjórum að sjá, er klukkutíma og átján mínútur á degi hverjum að vinna fyrir ríkisrekstrinum á hinum hefðbundna landbúnaði. Þetta er mikilvægasta ástæða þess, að fólk hefur flúið land þúsundum saman á undanförnum árum.

Það er í stíl, að hagfræðingur hagsmunasamtaka landbúnaðarins hefur að aukastarfi að veita landbúnaðarráðherra góð ráð um gerð hins nýja búvörusamnings.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýja tjaldið er þunnt

Greinar

Nýtt tjald er að myndast við austurjaðar Vestur-Evrópu í stað gamla járntjaldsins. Það er töluvert austar og sunnar. Austur-Þýskaland, Pólland, Tékkóslóvakía og Ungverjaland hafa varpað af sér kommúnisma og stofnað þingræðisleg fjölflokkaríki að vestrænum hætti.

Handan nýja tjaldsins eru Sovétríkin, Rúmenía og Búlgaría, sem kommúnistar ráða enn. Þetta eru ríkin, sem hafa fetað slóð Gorbatsjovs. Í þeim hefur frelsi verið aukið og kosningar haldnar, en kommúnistaflokkurinn og arftakar hans halda völdunum í sínum höndum.

Þetta var leiðin, sem Gorbatsjov ætlaðist til, að farin yrði í Austur-Þýzkalandi, Tékkóslóvakíu og Ungverjalandi, þegar hann var búinn að afskrifa Pólland sem vonlaust tilfelli. En opnunin fór úr böndum í þessum gömlu Habsborgaralöndum og þau urðu vestræn aftur.

Svipaður klofningur er innan Júgóslavíu. Í norðri og vestri eru gömlu Habsborgaralöndin Slóvenía og Króatía búin að hafna kommúnistaflokknum og taka upp vestræna stjórnarhætti. Í suðaustri er Serbía enn kommúnisk eins og Rúmenía, Búlgaría og Albanía.

Balkanskagalöndin, sem enn halda í kommúnisma, eru þau, sem lengst af voru undir stjórn Tyrkjasoldáns, allt frá miðöldum fram á nítjándu öld. Búlgaría varð raunar ekki sjálfstæð fyrr en árið 1908. Og Serbía og Albanía eru íslömsk lönd enn þann dag í dag.

Stórborgarbúar í þessum löndum eru vestrænir, en bændur í sveitum eru íhaldssamir og þýlindir. Stórborgarbúarnir eru fámennir í samanburði við sveitafólkið og hafa ekki mátt síns mikils í kosningum að undanförnu. Af þessu stafa uppþot og óeirðir í Búkarest.

Óánægja hinnar menntuðu miðstéttar í Búkarest og Sófíu með kosningaúrslitin og stjórnarfarið verður löndum þessum skaðleg. Fólkið, sem löndin þarfnast mest, gefst upp fyrir aðstæðum og reynir að freista gæfunnar í vestri. 80.000 Búlgarar hafa flutzt út á hálfu ári.

Í Sovétríkjunum hefur orðið klofningur milli Eystrasaltsríkjanna og Kremlarvaldsins. Eystrasaltsríkin voru fyrr á öldum undir stjórn og áhrifum Svía og þýzkra riddara. Þau eru vestræn í eðli sínu og munu sigla hraðbyri þá leiðina, ef heimsveldið linar á þeim tökin.

Eystrasaltsríkin hafa svipaða stöðu í Sovétríkjunum og Slóvenía og Króatía hafa í Júgóslavíu. Þau eru hluti af gömlu yfirrráðasvæði vestræns hugmyndaheims og eru að hverfa aftur í þann faðm. Hinn gamli, miðevrópski heimur Habsborgaraveldisins er að koma heim.

Þá má segja, að Moskva gegni í Rússlandi svipuðu hlutverki og Búkarest og Sófía gera í Rúmeníu og Búlgaríu. Í borgarstjórn Moskvu er komin til valda menntuð miðstétt í vestrænum stíl. Borgin er vin í eyðimörk sveitanna, þar sem keisarinn átti fólkið fyrr á öldum.

Samanburður Rússlands við Rúmeníu og Búlgaríu nær þó ekki lengra en svo, að Rússland á nærtækari von um aðild að Vesturlöndum. Í kosningum Rússlands sigruðu ekki kommúnistar, heldur sundurleit öfl, sem hafa sett hinn óþæga Boris Jeltsín á oddinn.

Það er góðs viti, að Rússlandsstjórn Jeltsíns hefur rétt höndina yfir til stjórna Litháens og annarra Eystrasaltsríkja, sem hafa sætt efnahagslegu ofbeldi af hálfu Sovétstjórnar Gorbatsjovs. Það bendir til, að Gorbatsjov verði að gefa eftir fyrir sjálfstæðisöflum landanna.

Tjaldið, sem skilur Rússland, Rúmeníu, Búlgaríu, Albaníu og Serbíu frá Vestur-Evrópu, er ekki úr járni. Það er þunnt tjald, sem getur rifnað hvenær sem er.

Jónas Kristjánsson

DV