Greinar

Sjónhverfingamenn

Greinar

Donald Trump er gott dæmi um, hversu langt er unnt að komast á ímynd, sem byggð er upp, án þess að innihald sé að baki. Hann hefur um nokkurra ára skeið baðað sig í frægðarljóma auðsöfnunar og látið bankastjóra lána sér án trygginga. Nú er spilaborgin að hrynja.

Töluvert er til af listamönnum af þessu tagi. Saksóknarinn í London heldur því fram, að íslenzkur maður, Jósafat Arngrímsson, hafi náð rúmlega milljarði króna út úr ekki minni stofnun en National Westminster Bank, meira eða minna með ævintýralegum sjónhverfingum.

Við höfum heyrt þjóðsögur um, að Einar Benediktsson skáld hafi vafið brezkum fjármálamönnum um fingur sér, meira eða minna með höfðinglegri framkomu sinni. Þeir fengu honum stórfé í hugmyndir, sem voru ef til vill góðar, en náðu ekki fram að ganga.

Ágætt dæmi um klókan sjónhverfingamann er hinn ítalski Giancarlo Paretti. Hann náði 40 milljarða íslenzkra króna tryggingu út úr stærsta fjölmiðlafyrirtæki heims, Time Warner, svo að hann gæti keypt kvikmyndaverin Metro Goldwyn Mayer og United Artists.

Paretti hefur notað hvert tækifæri til að auglýsa, hversu ríkur hann sé og hversu góð sambönd hann hafi. Hann taldi Steve Ross, forstjóra Time Warner, trú um, að hann væri einkavinur Jóhannesar Páls páfa. Í Páfagarði hefur þessu verið harðlega mótmælt.

Komið hefur í ljós, að Paretti hefur fimm sinnum verið dæmdur á Ítalíu fyrir útgáfu á gúmmítékkum og fölsun á bókhaldi og meðal annars til þriggja ára fangavistar fyrir gjaldþrotasvik. Ennfremur hafa blaðamenn rekið augun í tengsl hans við mafíumenn.

Þegar hitnaði undir Paretti á Ítalíu, fór hann til höfuðstöðva ímyndaframleiðslunnar, Hollywood. Þar sneri hann Time Warner svo um fingur sér, að það stórfyrirtæki er nú komið á skrá yfir þau fyrirtæki, sem önnur fyrirtæki beri að umgangast með fjárhagslegri varúð.

Donald Trump erfði einn og hálfan milljarð króna eftir föður sinn og taldi umheiminum trú um, að hann hefði breytt arfinum í sextíu milljarða króna með einstakri fjármálasnilli sinni. Nú er komið í ljós, að hann taldi bara eignirnar, en ekki skuldirnar á móti.

Donald Trump skrifaði metsölubók, sem fjallaði um, hversu ofsalega klár í fjármálum hann væri. Hann sagðist ennfremur vera tilvalið forsetaefni fyrir Bandaríkin. “Enginn fertugur maður hefur afrekað annað eins og ég,” sagði hann. Fólk féll unnvörpum fyrir honum.

Sérgrein Donalds Trump hefur verið að ná lánsfé úr bönkum gegn veði í of hátt metnum fasteignum. Fjármálaritið Forbes telur, að hann hafi tapað hálfum þriðja milljarði á ári og að vafasamt sé, að hann eigi fyrir skuldum. Ímyndin, sem hann byggði upp, er að hrynja.

Þegar menn geta komizt svona langt á ímyndinni í New York, Hollywood og London, er engin furða, þótt unnt sé að byggja upp smáveldi á Íslandi, án þess að nokkuð áþreifanlegt sé að baki. Sumir muna kannski eftir Ávöxtun og Grundarkjöri, sem flugu hátt um tíma.

Hér var einu sinni stórfyrirtæki, sem talið var traustara en ríkið sjálft. Nú liggur Samband íslenzkra samvinnufélaga í rúst. Allt í einu hafa menn áttað sig á, að það á lítið nema skuldir. Bláeygur Landsbanki og nokkrir útlendir bankar sitja eftir með verðlausa pappíra.

Enn þann dag í dag er veröldin vettvangur sjónhverfinga í viðskiptum og stjórnmálum. Kraftaverkamenn koma og fara og skilja eftir sig spennandi lesefni.

Jónas Kristjánsson

DV

Engin sjálfsvirðing

Greinar

Ömurlegt var að sjá þrjá ráðherra lýsa því yfir svipbrigðalaust, að þeir ætluðu að svíkja kjarasamninga, sem þeir höfðu sjálfir gert. Ömurlegt var að horfa á skort sjálfsvirðingar hjá helztu valdamönnum þjóðar innar, þar á meðal vinsælasta stjórnmálamanni hennar.

Samfélag manna byggist á samningum, sem staðið er við. Menn semja um kaup og sölu og geta treyst, að undirskriftir standi. Í viðskiptalífinu gildir meira að segja, að orð skuli standa, þótt þau séu ekki fest á pappír. Þannig hefur viðskiptaþjóðfélag nútímans orðið til.

Stundum lenda menn í vandræðum og geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Fórnardýr þeirra leita þá á náðir dómstóla og fá leiðréttingu sinna mála eða þá, að vanefndamenn eru gerðir gjaldþrota. Sem betur fer er þetta sjaldgæft. 99 af hverjum 100 samningum standa.

Ef fólk sér fram á, að það lendi í vandræðum með að standa við skuldbindingar sínar, reynir það venjulega að semja um málið. Það fer í bankann og fær framlengingu á einhverjum hluta þess, sem er að falla í gjalddaga. Það leitar samkomulags og sátta við mótaðilann.

Einsdæmi er, að viðskiptabófar lýsi því yfir, að þeir ætli ekki að standa við gerðan og undirritaðan samning, svo sem ráðherrarnir þrír hafa nú gert. Til þess þarf einstæðan skort á heiðarleika og sjálfsvirðingu, sem hlýtur að skaða samskiptareglur í þjóðfélaginu.

Í einstaka tilviki getur risið ágreiningur um, hvernig beri að túlka samning. Menn setjast þá niður og reyna að semja um slíkt, áður en þeir tilkynna, að grundvallaratriði samningsins gildi ekki. Allt er þetta liður í að virða leikreglur, svo að unnt sé að halda áfram leik.

Fólk hlýtur að spyrja, hvernig ráðherrar hyggist semja næst um kjör við starfsmenn sína. Eftir yfirlýsingu ráðherranna hefur ríkisstjórnin glatað trausti sem samningsaðili. Munu viðsemjendur næst heimta, að ríkið leggi fram fasteignaveð fyrir fjögurra ára launum?

Viðsemjendur úti í heimi, svo sem í Evrópubandalaginu og Fríverzlunarsamtökunum og Alþjóðlega tollaklúbbnum, hljóta að efast um, að það hafi nokkurt gildi að undirrita samninga við íslenzka ráðherra, sem hafa rúið sig sjálfsvirðingu og almennu viðskiptasiðferði.

Sagnfræðileg vissa er fyrir, að valdið spillir. Íslenzkir ráðherrar eru valdamiklir, valdameiri en stéttarbræður þeirra í lýðræðisríkjunum. Okkar menn hafa látið valdið spilla sér. Þess vegna geta þeir svipbrigðalaust lýst því óbeint yfir, að þeir séu réttir og sléttir bófar.

Sem bófar halda þeir áfram að gefa vinum, flokksbræðrum og skólafélögum áfengi á kostnað ríkisins. Sem bófar halda þeir áfram að fara flokkslegar áróðursferðir um landið á kostnað ríkisins. Sem bófar láta þeir önnur skattalög gilda um sig en um annað fólk í landinu.

Skortur ráðherra á sjálfsvirðingu birtist meðal annars í, að þeir halda áfram að haga sér á spilltan hátt, þótt upp hafi komizt. Þeir halda áfram að láta borga sér tvisvar fyrir kostnað á ferðalögum, þótt uppvísir séu að svindli. Þeir kunna einfaldlega ekki að skammast sín.

Því miður styður þjóðin siðleysi ráðherra. Einn þeirra, sem lengst gekk í hundalógík í vörn fyrir þau samningssvik, sem hér hafa verið til umræðu, hefur um nokkurra mánaða skeið verið sá ráðherra, sem fær í skoðanakönnunum hæsta einkunn fólks fyrir traust.

Því meira sem fækkar leikreglum, sem unnt er að treysta, þeim mun meira verður tjónið af siðleysi þjóðar og ráðherra hennar. Brottfall sjálfsvirðingar hefnir sín.

Jónas Kristjánsson

DV

Byggðasafn forstjóranna

Greinar

Undir leiðsögn forsætisráðherra er ríkisstjórnin að velta fyrir sé, hvernig ríkið geti nýtt sér nýbyggt stórhýsi Sláturfélags Suðurlands í Laugarnesi. Ríkið þarf raunar ekki þetta húsnæði, en er að reyna að hjálpa Sláturfélaginu, sem getur ekki komið húsinu í verð.

Það sjónarmið nýtur vaxandi fylgis, að opinberum aðilum beri að hlaupa til hjálpar, ef fyrirtækjum úti í bæ gengur illa, til dæmis með því að kaupa af þeim fasteignir, sem ekki ganga út á almennum fasteignamarkaði. Hús Sláturfélagsins er eitt dæmi af mörgum.

Þannig keypti borgin Broadway til að hjálpa eigandanum við að halda sjó á erfiðum tíma. Ekki er enn séð, hvort ætlunarverkið tekst. En borgin hefur sloppið fyrir horn í málinu með því að losna við húsið aftur á sama verði. Hið opinbera er ekki alltaf svo heppið.

Reykjavík ætlaði einnig að kaupa Vatnsenda, ekki vegna þess að borgin þyrfti endilega þetta land á þessum tíma, heldur til að útvega seljendum fjármagn til að nota til að bjarga sjónvarpsstöð frá falli. Það var bara þvermóðska í Kópavogsbæ, sem hindraði góðverkið.

Nú er Reykjavík að velta fyrir sér að veita sjónvarpsstöðinni ábyrgð, sem er raunar enn notalegra en að kaupa Vatnsenda, því að formlega séð fylgja slíkri ábyrgð engin útgjöld. Ef skuldin fellur í óvissri framtíð, fer hún bara inn á fjármagnskostnað hjá borginni.

Búast má við, að fleiri fylgi í kjölfarið. Hundruð fyrirtækja í Reykjavík hafa þegar orðið gjaldþrota á síðustu misserum og annar eins fjöldi rambar á barmi gjaldþrots. Þessi fyrirtæki munu vafalaust fá góðar viðtökur hjá borginni, úr því að atvinna borgarbúa er í húfi.

Borgin er rétt að byrja að feta braut góðverkanna, þótt áður hafi hún bjargað frystihúsinu Ísbirninum frá falli og látið nokkra illa stadda lóðareigendur fá leyfi fyrir gífurlega háu nýtingarhlutfalli á lóðum til að koma þeim í mun hærra verð en ella hefði verið.

Ríkið hefur lengri og meiri reynslu á þessu sviði. Það hefur gleypt óhentug eða illa byggð stórhýsi, sem enginn vildi kaupa, ekki einu sinni fyrir brot af því verði sem ríkið keypti þau á. Skemmst er að minnast húsa Mjólkursamsölunnar og Víðis við ofanverðan Laugaveg.

Fyrir utan þetta hefur ríkið verið athafnasamt í kaupum á hæðum og húsum úti um allan bæ. Gott er að geta hallað sér að Stóra bróður, er menn hafa ofkeyrt sig á góðvildinni, sem þeir hafa notið í bönkum ríkisins, og eru að springa í loft upp á vaxtakostnaði.

Fátækir athafnamenn eru raunar um það bil að hætta að þreifa fyrir sér með sölu fasteigna á almennum markaði, þar sem hugsanlegir kaupendur hafa leiðinlegar skoðanir á verðgildi steypu. Miklu betra er að nota pólitísk sambönd til að fá ríkið til að borga uppsett verð.

Þetta er eins konar framlenging á byggðastefnu til Reykjavíkur. Auðvitað er ósanngjarnt, að forstjórar, sem þarfnast velferðar, neyðist til að vera úti á landi til að njóta náðar stofnana og sjóða ríkisins. Sæluríki forstjóravelferðar nær núna til Reykjavíkur.

Þegar íslenzka hagkerfið er ýmist fallið eða að falla í Austur-Evrópu, er gott að heimurinn hafi einhvers staðar aðgang að byggðasafni um velferðarríki forstjóra.Jónas Kristjánsson

DV

Gæfulausir sjóðir

Greinar

Stjórar og stjórnir fjárfestingarsjóða ríkisins telja sig ekki bera neina ábyrgð á gerðum sínum. Þessir aðilar hafa hagað sér á svo óábyrgan hátt, að ríkið verður senn að koma til skjalanna með nýju fjármagni til að bjarga flestum fjárfestingarsjóðum sínum frá gjaldþroti.

Opinberir sjóðir eiga meira en sex milljarða hjá fyrirtækjum í fiskeldi og loðdýrarækt. Áður en peningarnir voru lánaðir fyrirtækjunum, var vitað, að töluvert af þeim mundi ekki skila sér aftur til baka. Og nú er ljóst, að mest af lánsfénu er þegar horfið út í veður og vind.

Þrír sjóðanna eru gjaldþrota, þótt það hafi ekki verið bókfært. Það eru Framkvæmdasjóður, Byggðastofnun og Stofnlánadeild landbúnaðarins. Sem dæmi má nefna, að eigið fé Framkvæmdasjóðs nemur ekki nema 416 milljónum króna á móti 1.867 milljón króna fiskeldislánum.

Álitamál er, hvenær á að afskrifa vonlausar skuldir. Framkvæmdasjóður hefur afskrifað 410 milljón króna hlutafjáreign sína í Álafossi, en hefur áfram inni í bókum sínum allt það fé, sem hann á inni hjá fiskeldinu, þar á meðal hjá fyrirtækjum, sem eru að hætta rekstri.

Jafnvel þótt sjóðir séu eign ríkisins á að vera hægt að ætlast til, að stjórar þeirra og stjórnir hagi sér varfærnislega í lánveitingum, setji ekki öll egg sín í eina körfu og kanni, hvaða líkur séu á árangri hjá ýmsum bjartsýnismönnum í hópi væntanlegra skuldunauta.

Ef ofangreindir sjóðir væru starfræktir í alvöruþjóðfélagi, hefðu stjórar þeirra og stjórnir sagt af sér, þegar ábyrgðarleysi þeirra var orðið lýðum ljóst. Hér í siðleysinu geta menn hins vegar spásserað um þjóðfélagið með allt á hælunum eins og ekkert hafi í skorizt.

Ríkisábyrgðin á sjóðunum er hluti vandamálsins. Hún stuðlar að ábyrgðarleysi stjóra og stjórnarmanna sjóðanna. Slíka ábyrgð þarf að afnema, því að óþarfir eru sérstakir sjóðir með sérstökum stjórum og stjórnarmönnum, ef ábyrgðin er hvort sem er öll á öðrum stað.

Ofangreinda sjóði ber að gera upp og leggja niður, en fela verkefni þeirra öðrum aðilum, sem kunna með fé að fara. Afnema þarf stjórasæti og stjórnarsæti, sem litið er á eins og einhvers konar félagsmálastofnun fyrir velklædda aumingja á framfæri stjórnmálaflokkanna.

Fleiri sjóðir góðra áforma eru á veginum til vítis. Mesta afrek núverandi ríkisstjórnar er að brenna tíu milljörðum í Atvinnutryggingasjóði og Hlutafjársjóði, sem beinlínis voru stofnaðir til að veita fjármagni í vonlaus fyrirtæki undir stjórn vonlausra forstjóra.

Harmsaga opinberra fjárfestingarsjóða er orðin of löng. Tímabært er, að ríkið hætti að spenna upp lánsfjárskort og vexti með eyrnamerkingu fjármagns til gæluverkefna og feli heldur sæmilega traustum aðilum á borð við bankakerfið að sjá um lán til fjárfestinga.

Einnig er tímabært, að ríkisbankarnir verði gerðir enn ábyrgari en þeir eru nú með því að afnema þá ábyrgð ríkisins á gerðum þeirra, sem er umfram stofnfé ríkisins, alveg eins og framlag hluthafa í fyrirtækjum á að takmarkast við hlutaféð, sem þeir reiða af hendi.

Á fáum árum hefur ríkisstjórnin brennt um sextán milljörðum króna í fiskeldi og loðdýrarækt annars vegar og í sérstökum skussasjóðum hins vegar. Þjóðin verður meira en áratug að jafna sig eftir þessa skuldasöfnun, sem virðist ekki vera á nokkurs manns ábyrgð.

Fjárfestingarsjóðir á vegum ríkisins bera ógæfuna í sér. Þeir hafa óhjákvæmilega orðið að leikvelli gæludýra á framfæri stjórnmálaflokka. Gildir það jafnt um stjóra, stjórnarmenn og viðskiptavini sjóðanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Grænar hremmingar

Greinar

Forstjóri alþjóðafyrirtækis grænfriðunga, David McTaggert, fékk verðlaun umhverfisverndarráðs Sameinuðu þjóðanna á umhverfisdegi samtakanna á þriðjudaginn var. Hann er Íslendingum kunnur vegna afskipta sinna af hvalveiðum og selveiðum í norðurhöfum.

Vísindanefnd Alþjóða hvalveiðiráðsins kemur saman á sunnudaginn til að undirbúa þing ráðsins, sem hefst um næstu mánaðamót. Á fundum þessum munu fulltrúar Íslands leggja til, að hvalveiðar verði leyfðar að nýju, eftir að veiðibann ráðsins rennur út á þessu ári.

Halldór Ásgrímsson hefur óbeint hótað í blaðaviðtali að segja Ísland úr Alþjóða hvalveiðiráðinu, ef það samþykki ekki að leyfa hvalveiðar að nýju. Því má búast við, að aftur skerist í odda með Íslendingum og grænfriðungum, sem nota andstöðu sína sem fjáröflunartæki.

Viðskiptaþvinganir eru orðnar að blómlegri atvinnugrein í Bandaríkjunum og hafa einnig reynzt nothæfar í Vestur-Evrópu. Vestanhafs eru aðferðir þrýstihópa af tagi grænfriðunga orðnar vel slípaðar og áhrifaríkar. Við megum því búast við þyngri kárínum en fyrr.

Andstæðingar túnfiskveiðimanna, sem fá höfrunga í net sín, hafa brotið á bak aftur fyrirtækin, sem sjóða niður túnfisk í dósir. Höfrungavinir beindu spjótum sínum að stærstu niðursuðuverunum og neyddu þau til að kaupa ekki túnfisk af höfrungaveiðimönnum.

Burger King lenti í klóm þeirra, sem vilja ekki, að flutt sé inn nautakjöt frá löndum, sem eyða regnskógum. Fyrirtækið varð að lýsa yfir, að það mundi framvegis ekki kaupa nautakjöt frá Suður-Ameríku. Það vissi, að ella mundi viðskiptaþvingun heppnast.

Þeir, sem eru andvígir tilraunum á smádýrum, hafa beint geiri sínum að snyrtivöruframleiðendum, hverjum á fætur öðrum. Fyrst kúguðu þeir Avon til hlýðni, næst Revlon og í ár er L’Oréal fórnarlambið. Með hverjum sigri safna þvingendur reynslu í sarpinn.

Pelsklæddar konur eiga ekki sjö dagana sæla á götum New York. Almenningur veitist að þeim með formælingum og hrækir jafnvel á þær. Á veggjum eru plaköt, sem sýna blóðuga loppu í dýraboga. “Fáðu tilfinningu fyrir pels. Skelltu bílhurð á hönd þína,” segir þar.

Ljóst er af viðbrögðum almennings í Bandaríkjunum, að framleiðendur refa- og minkaskinna eiga ekki mikla framtíð fyrir sér næstu áratugina. Eftirspurn skinna er lítil og mun fara minnkandi. Ekki er því unnt að telja horfur vænlegar hjá íslenzkum loðdýramönnum.

Spurt hefur verið, bæði í gamni og alvöru, hvenær dýravinir taki að sér fiskinn í sjónum og hvað verði þá um hina raunverulegu lífsbjörg Íslendinga. Þótt ekki komi að slíku, getum við búist við ýmsum vandræðum á fleiri sviðum en í loðdýrarækt og hvalveiðum.

Sem dæmi má nefna, að erlendir dýravinir kunna að telja sér trú um, að íslenzkir tamningamenn misþyrmi hestum sínum fyrir sýningar, svo sem dæmi eru raunar um. Ef við stöðvum það ekki, getur alveg eins farið svo, að hinn verðmæti hrossaútflutningur eyðileggist.

Sem betur fer er einskis misst í loðdýrarækt og hvalveiðum, því að hvorugt er hagkvæm iðja. Við getum þó, ef við erum nógu þrjózk sem þjóð og höfum nógu þrjózkan ráðherra til að líta upp til, magnað á okkur enn meiri vandræði af því tagi, sem við höfum þegar reynt.

Viðskiptaþvinganir grænfriðunga og annarra slíkra hafa gengið vel í Bandaríkjunum og raunar líka í Evrópu. Þjóð Halldórs Ásgrímssonar er því í vanda stödd.

Jónas Kristjánsson

DV

Við erum öðruvísi

Greinar

Nýr samanburður á lífsháttum Íslendinga og nágrannanna á Norðurlöndum staðfestir, að við höfum að ýmsu leyti farið aðrar leiðir. Við líkjumst í mörgu fremur Bandaríkjamönnum, Kanadamönnum, Áströlum og Japönum, þar sem hlutverk ríkisins er minna.

Auðþjóðum heims má skipta í þrjá flokka. Í einum hópi eru nokkrar fámennar olíuþjóðir. Í öðrum hópi eru til dæmis Norðurlandabúar, Þjóðverjar og Hollendingar, sem hafa falið ríkinu stórt hlutverk. Í þriðja hópnum erum við meðal nokkurra annarra áðurnefndra þjóða.

Við borgum minni hluta af tekjum okkar í opinber gjöld en tíðkazt hefur á Norðurlöndum. Við minnum að því leyti meira á Svisslendinga, Bandaríkjamenn og Japani. Hér á landi er þjóðarsátt um, að fólk fái sjálft að ráðstafa töluverðum hluta aflafjár síns.

Eitt reikningsdæmanna um þetta efni bendir til, að Norðmenn og Svíar hafi 20% hærri tekjur en við, en sitji eftir með 8% lægri tekjur en við, þegar hið opinbera er búið að fá sitt. Við töpum svo mismuninum aftur á landbúnaði og háu verðlagi, en það er önnur saga.

Sjálfsbjargarviðleitni hefur löngum verið hátt skrifuð hér á landi, enda erum við veiðiþjóð. Mikill hluti þjóðarauðsins kemur frá sjávarafla og við gerum okkur grein fyrir því. Við lítum ekki svo á, að samfélagið eða ríkið sé uppspretta lífskjara okkar og velferðar.

Við viljum eiga okkar íbúðir sjálf og eigum þær. Norðurlandabúar geta hins vegar vel hugsað sér að búa í leiguhúsnæði. Við viljum gjarna vinna hjá sjálfum okkur eða í fámennum fyrirtækjum. Norðurlandabúar vilja hins vegar gjarna taka laun hjá ríkinu.

Við dýrkum vinnuna og höfum ekki á móti löngum vinnudegi. Við vinnum að meðaltali 48 stundir á viku, en Norðurlandabúar 40 stundir. Þessi munur stafar sumpart af illri nauðsyn, en einnig af því, að Íslendingar eru ekki mikið fyrir að sitja auðum höndum.

Við eigum fleiri börn en frændur okkar á Norðurlöndum. Við þurfum minna en þeir á fóstureyðingum að halda, þótt hér sé mun meira um einstæða foreldra. Við búum við nánari tengsl milli kynslóða og sterkari ættarbönd. Og við náum heldur hærri aldri en frændur okkar.

Við lifum flottar og hraðar en nágrannar okkar. Við eigum stærri íbúðir, fleiri bíla og fleiri myndbandstæki. Við förum í dýrari utanferðir. Athyglisvert er, að við stundum einnig menningarlífið betur, eins og það mælist í sölu aðgöngumiða leikhúsa og óperuhúsa.

Athyglisvert er, að við leggjum meira upp úr háskólanámi. Hlutfallslega fleiri Íslendingar stunda háskólanám en Norðmenn, Svíar og Finnar. Sumpart er það að þakka tiltölulega öflugu lánakerfi námsmanna og sumpart ber það vitni um sjálfsbjargarviðleitni.

Oft er talað um, að Íslendingar búi í taugaveikluðu þjóðfélagi mikillar vinnu, mikils hraða og lífsgæðakapphlaups. Það kemur ekki í veg fyrir þá staðreynd, að við erum ánægðari með lífið en nágrannar okkar og náum heldur hærri aldri en þeir, alveg eins og Japanir.

Við erum heppin sem þjóð að hafa ekki siglt eins langt til Stóra bróður og nágrannar okkar hafa gert. Við erum heppin að hafa lagt heldur meiri áherzlu á sjálfsbjargarviðleitni en á velferðarríki. Við erum heppin að hugsa meira um að búa til verðmæti en að dreifa þeim jafnt.

Raunar mættum við fylgjast enn betur með þjóðum á borð við Japani og Svisslendinga, sem hafa náð frábærum árangri án þess að hafa ríkið á kafi í hverjum koppi.

Jónas Kristjánsson

DV

Kannanir eru bara fréttir

Greinar

Stundum er kvartað um, að skoðanakannanir hafi áhrif á niðurstöður kosninga. Kosningastjórar segja oft, að niðurstaða í könnun hafi ýtt af stað fylgissveiflu, svo sem í átt til þeirra, er virðast í könnuninni standa tæpt og þá frá þeim, er virðast öruggir um gott fylgi.

Kosningastjórar segja líka oft, að könnun hafi ýtt af stað fylgissveiflu í átt til þeirra, sem virðast vera á sigurbraut og magni sigur þeirra. Þar sem þessi skoðun gengur þvert á hina fyrri, er ekki gott að sjá af orðum kosningastjóra, hvers konar áhrif kannanir hafa í rauninni.

Sameiginlegt er með hinum ýmsu skoðunum á þessu, að þær koma frá kosningastjórum og öðrum forustumönnum stjórnmálaafla og að þeir eru að reyna að útskýra, hvers vegna þeirra framboði gekk illa í kosningum. Þeir grípa í hálmstráið að kenna könnunum um.

Sumir magna þetta svo fyrir sér, að þeir byrja að muldra um, að banna þurfi skoðanakannanir, að minnsta kosti í einhvern tíma fyrir kosningar og að ennfremur þurfi hið alvitra og alsjáandi opinbera að setja reglur um, hvernig slíkar kannanir skuli fara fram.

Tvímælalaust hafa skoðanakannanir áhrif á gang mála. Þau áhrif eru hins vegar ekki skipulögð eða einhliða. Þær geta stundum hjálpað manni inn, stundum magnað sigur, stundum minnkað sigur og stundum allt þetta og annað til í einum og sömu kosningunum.

Margt fleira hefur áhrif á kosningaúrslit. Fréttir hafa án efa áhrif. Af hverju þá ekki banna fréttir í ákveðinn tíma fyrir kosningar, til dæmis í eina viku? Af hverju ekki setja opinberar reglur um fréttir af stjórnmálum, til dæmis síðasta mánuðinn fyrir kosningar?

Birting á niðurstöðu skoðanakönnunar er bara frétt eins og aðrar fréttir. Ef menn halda fram, að ríkið eigi að banna eða skipuleggja þessar kannanafréttir, geta menn alveg eins haldið fram, að ríkið eigi að banna eða skipuleggja aðrar fréttir, sem snerta stjórnmálin.

Kveinstafir kosningastjóra og annarra forustumanna stafa af, að fréttir af könnunum gera þeim nánast ókleift að halda fram fáránlegum fullyrðingum um, hvernig fylgið sé að færast til fyrir kosningar. Fyrir tíð skoðanakannana flögguðu þeir gjarna slíku rugli.

Innreið skoðanakannana í stjórnmálafréttir hefur einfaldlega þýtt, að fréttir af fylgissveiflum flokka og lista milli kosninga eru áreiðanlegri en áður, þegar kosninga-stjórar og aðrir forustumenn framboða þóttust sjálfir vera sérfræðingar í að reikna út fylgissveiflur.

Tillögum um, að hið opinbera setji reglur um, hvernig skoðanakannanir skuli gerðar, hefur oftast fylgt, að Háskólinn, og þá væntanlega félagsvísindastofnun hans, verði eins konar eftirlitsaðili. Samt er félagsvísindastofnunin einn nokkurra samkeppnisaðila á þessu sviði.

Fyrr á árum hélt félagsvísindastofnunin því fram, að sínar kannanir væru vísindalegri en annarra. Reynslan er hins vegar sú, að síðustu kannanir hennar fyrir kosningar hafa að meðaltali ekki reynzt eins nálægt kosningaúrslitum og kannanir DV, þótt þær séu líka nálægar.

Í tímans rás hefur komið í ljós, að kenningar um, að úrtak úr þjóðskrá sé betra en úrtak úr símaskrá, hafa ekki fengið stuðning af kosningaúrslitum. Hið sama má segja um kenningar um, að heppilegt sé að falsa niðurstöður með því að vigta þær á ýmsan hátt.

Rangt væri að fela þeim, sem lakar hefur gengið, að efla nákvæmni hinna, sem betur hefur gengið. Og bezt er að láta kannanir í friði, eins og aðrar fréttir.

Jónas Kristjánsson

DV

Brjótið ekki vitlaus lög

Greinar

Þótt lög séu vitlaus, þarf að fara eftir þeim. Þess vegna verða gámavinir og aðrir ferskfiskmenn að fara eftir lögum um aflamiðlun, þótt þau séu afar vitlaus og skaði þjóðarhag. Gegn vitlausum lögum þarf að berjast á pólitískum vettvangi, en ekki með því að brjóta þau.

Lögin um aflamiðlun eru að því leyti bót á fyrra ástandi, að nú eru skömmtuð leyfi fyrir opnum tjöldum. Hagsmunaaðilar sitja sjálfir við skömmtunarborðið og rífast þar. Umsóknir og leyfisveitingar eru birtar. Áður var þetta gert undir borði í utanríkisráðuneytinu.

Í skömmtunarstjórninni er tekizt á um hagsmuni sjómanna og útgerðarmanna af háu verði á ferskum fiski í útlöndum og um hagsmuni fiskverkafólks og fiskverk enda af því að fá verkefni í úrelta vinnslu á vöru, sem er fullunninn í sjálfu sér frá náttúrunnar hendi.

Þjóðhagslega er heppilegast, að ekki sé skammtað. Þá bregzt frjáls markaður sjálfkrafa við breytingum, sem ekki er hægt að gera í kvótakerfi, hverju nafni sem nefnist. Það er einmitt vegna þessa, að þjóðir Austur-Evrópu eru sem óðast að leggja niður kvóta og miðlun.

Undanfarin ár hefur flutninga- og geymslutækni breytzt ferskfiski í hag og vinnslufiski í óhag. Þetta hefur lyft verði á ferskfiski og gert Íslendingum kleift að fá meiri verðmæti fyrir minni fyrirhöfn. Um leið hefur þetta spillt stöðu vinnslunnar og fiskverkafólks.

Aflamiðlunin er tilraun til að gæta hinna ýmsu hagsmuna og halda jafnvægi milli þeirra. Um leið er aflamiðlunin tilraun til að draga úr röskun í þjóðfélaginu með því að koma í veg fyrir, að úrelt fiskvinnsla leggi upp laupana í samkeppni við útflutning á ferskum fiski.

Þessi jöfnun, þessi skömmtun, þessi miðlun er þjóðhagslega óhagkvæm. Röskun er í sjálfu sér ekki vond, heldur góð. Hún á að fá að hafa sinn gang í friði. Með röskun getum við bezt eflt lífskjör þjóðarinnar. Með henni lögum við okkur hraðast að nýjum aðstæðum.

Við eigum ekki að halda aftur af þróuninni með því að setja upp skömmtunarstofur á borð við aflamiðlun. Við eigum að koma okkur fyrir á öldufaldi þróunarinnar og vera alltaf skrefi á undan öðrum þjóðum að taka upp nýjungar, sem tækni og markaður færa okkur.

Þótt kvótar séu skaðlegir, eru þeir minna skaðlegir en ella, ef þeir mega ganga kaupum og sölum. Aflakvótakerfið skrimtir, af því að kvótar geta innan þröngra marka gengið kaupum og sölum. Landbúnaðurinn gengi örlitlu skár, ef kaupa mætti og selja fullvinnslurétt.

Sama er að segja um aflamiðlunina. Það er rétt hjá Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra, að betra er að úthluta hverju skipi útflutningsprósentu, sem síðan megi ganga kaupum og sölum. Þá þarf enga skömmtun, ekkert rifrildi, enga spillingu, engin lögbrot.

Útflutningsprósenta er mun skárri kostur en aflamiðlun. Hún leysir þó ekki alla skömmtun af hólmi, því að einhver aðili þarf að ákveða, hversu há prósentan á að vera. Sá aðili þarf að meta, hversu mikið eigi að flytja út af ferskfiski og hversu mikið af vinnslufiski.

Slíka ákvörðun getur enginn tekið af neinu viti. Þetta er dæmi um atriði, sem ekki á að ákveða með handafli, heldur láta markaðinn um að ákveða. Útflutningsprósenta hefur réttlætið umfram aflamiðlunina, en hins vegar ekkert umfram hana í hagkvæmni fyrir þjóðina.

Fyrir þessu eiga menn að berjast í stjórnmálum. Þegar vitleysan hefur orðið ofan á, er hins vegar ófært að brjóta lögin, því að þá er rofinn þjóðarfriður.

Jónas Kristjánsson

DV

Skýrar línur ­ sterkir menn

Greinar

Það var fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og í Keflavík og Vestmannaeyjum, sem Sjálfstæðisflokkurinn vann hinn mikla sigur sinn í byggðakosningunum. Annars staðar á landinu stóð flokkurinn í stórum dráttum í stað, tapaði manni hér og vann mann þar á víxl.

Einn flokkanna í fjögurra eða fimm flokka kerfi íslenzkra stjórnmála hefur náð 60­70% fylgi í nokkrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, Reykjavík, Mosfellssveit, Seltjarnarnesi, Garðabæ og Álftanesi. Þessi meirihluti er ekki bara mikill, heldur hrikalegur.

Freistandi væri að álykta, að Sjálfstæðisflokkurinn væri orðinn flokkur höfuðborgarsvæðisins, þótt hann hafi náð góðum árangri sums staðar utan svæðisins. En hann hefur samt ekki meirihluta í Kópavogi og er í miklum minnihluta í Hafnarfirði, bæ Alþýðuflokksins.

Sjálfstæðisflokknum gekk mun betur, þar sem andstæðingar hans tefldu fram gegn honum sameiginlegu framboði tveggja eða fleiri stjórnmálaflokka. Slíkir listar voru einkum í boði á höfuðborgarsvæðinu og skýra að hluta til fylgismun Sjálfstæðisflokksins á svæðinu.

Lakast gekk Sjálfstæðisflokknum í því bæjarfélagi svæðisins sem bauð upp á einn sterkan andstöðuflokk með sinn eigin Davíð. Það var í Hafnarfirði, þar sem Alþýðuflokkurinn vann mikinn sigur, er endurspeglaðist alls ekki í kosningasigri annars staðar á landinu.

Af þessu má ráða, að kjósendur á höfuðborgarsvæðinu séu fyrir hreinar og skýrar línur. Þeir vilji sterka menn í stjórnmálin og hreina meirihluta eins flokks. Á þessu græðir Sjálfstæðisflokkurinn, nema í Hafnarfirði, þar sem Alþýðuflokkurinn hefur svipaða stöðu.

Alþýðuflokkurinn hefur nú fengið formannsefnið og í þetta sinn á silfurfati. Þegar flokkurinn sannfærist um, að ástir A-flokkanna hafi ekki náð árangri, verður núverandi formanni refsað, af því að hann er formaðurinn og af því að hann hafði frumkvæði að rauða ljósinu.

Alþýðubandalagið vantar sinn Guðmund Árna út úr byggðakosningunum. Það býr við lamaðan formann, sem gat ekki stutt eigin flokk í stærsta kjördæmi landsins og getur ekki útskýrt rústir ástarsambandsins við Alþýðuflokkinn. Það hefur þó sinn Steingrím Sigfússon.

Alþýðubandalagið hefur fjarlægzt upprunann. Það hefur um skeið haft formann úr Framsóknarflokknum. Þegar honum verður ýtt til hliðar, er líklegast, að við taki nýr formaður, sem er meiri framsóknarmaður en flestir þeir, sem formlega eru í Framsóknarflokknum.

Sjálfstæðisflokkurinn var búinn að fá sinn Davíð fyrir kosningar. En staða hans í flokknum er orðin svo sterk eftir þessar kosningar, að hann þarf ekki annað en að benda litla fingri til að fá formannsembætti flokksins og verða næsta forsætisráðherraefni flokksins.

Þannig má búast við, að úrslit byggðakosninganna hafi nokkur áhrif á skipan manna í forustuhlutverk stjórnmálaflokka. Rauði þráðurinn í þeim breytingum verður svipaður og í kosningaúrslitum höfuðborgarsvæðisins. Tími hinna sterku manna er kominn.

Hætt er við, að flokkar, sem stuðla að valddreifingu í röðum sínum og hafna hugmyndinni um sterka menn, hafi á brattann að sækja meðal kjósenda. Augljóst fórnardýr þessa verður Kvennalistinn, sem fór fremur halloka í kosningunum, einkum í vígi sínu í Reykjavík.

Kjósendur á höfuðborgarsvæðinu hafa beðið um persónur og skýrar línur. Flokkar munu setja á oddinn sterka menn og skipta ört um þá, ef illa gengur.

Jónas Kristjánsson

DV

Velferðarríki forstjóra

Greinar

Ísland er frávik frá samkeppnishefðum Vesturlanda, sem verið er sem óðast að taka upp í Austur-Evrópu. Hér ræður ekki úrslitum um gengi fyrirtækja, hvort þau eru vel rekin frá hefðbundnu sjónarmiði samkeppninnar, heldur hvaða aðstöðu þau hafa gagnvart kerfinu.

Til dæmis eru kvótar af ótal tagi dæmigerðir fyrir Ísland, en eitur í beinum hagkerfis Vesturlanda. Hér fer orka stjórnenda fyrirtækja fremur í að útvega kvóta en í að bæta reksturinn. Enda þurfa þeir síður að bæta reksturinn, þegar þeir hafa tryggt sér kvóta.

Sem dæmi ná nefna, að landbúnaðarráðherra hyggst skera niður samkeppni í innflutningi á kartöflum með því að skammta fyrirtækjum magn til innflutnings. Það þýðir, að fyrirtækin þurfa mun síður en ella að keppa um hylli fólks með lágu verði, því að þau hafa kvóta.

Annað dæmi er frægt. Til að skera niður samkeppni í flugi skammtar ríkið flugfélögum áætlunarleiðir. Það þýðir, að lífsbarátta flugfélaga snýst meira um að útvega sér flugleiðir hjá kerfinu fremur en að bæta reksturinn, enda þýðir lítið að bæta rekstur, ef kvóta vantar.

Fiskveiðar Íslendinga eru meira eða minna stundaðar í vítahring kvótans. Með kvótanum eru hæfir skipstjórar með duglegar áhafnir á heppilegum skipum sendir í land meðan hinir lakari eru að ljúka kvótanum sínum. Þetta er augljós jöfnun aðstöðu í átt til fátæktar.

Það var einmitt svona, sem þjóðir Austur-Evrópu urðu fátækar. Allt var jafnað með kvótum og reglum, skömmtun og úthlutun, unz hagkerfið hrundi og taka varð að nýju upp síungar samkeppnishefðir Vesturlanda. Og svona erum við nú að brjótast til fátæktar.

Heil atvinnugrein stendur og fellur með aðstöðu, sem hún hefur komið sér í hjá hinu opinbera. Ríkið kaupir allt kindakjöt og alla mjólk í landinu, ef þetta er framleitt innan kvótans, og tryggir vinnslustöðvum ákveðið verð, sem er gersamlega óháð markaðslögmálum.

Ef forstjórar fyrirtækja geta ekki náð í kvóta, er einn vænzti kosturinn að hafa með sér einokunarsamtök á borð við Samband íslenzkra fiskframleiðenda til að standa vörð gegn hugsanlegri samkeppni og þrýsta á ríkisvaldið að halda uppi hinu íslenzk-austræna kerfi.

Önnur leið forstjóra er að nýta fyrirgreiðslukerfi byggðastefnunnar. Mörg dæmi eru um, að rekstri, sem engin forsenda er fyrir, er komið upp á stöðum, þaðan sem róa má á mið ýmissa sjóða, er ríkið hefur komið upp til að skammta aðgang að takmörkuðu lánsfé.

Dæmigerður stjórnandi fyrirtækis á Íslandi er ekki athafnamaður. Hann er sérfræðingur í að nota kerfið. Hann kann á kvóta, einokunarsamtök, byggðastefnu, ríkið. Hann er eins og stjórnendur, sem nú standa ráðþrota í Austur-Evrópu gegn köldum markaðsbyljum.

Að undirlagi allra stjórnmálaflokka og með fullri vitund og vilja almennings í landinu hefur verið búið til hér á landi eins konar gróðurhúsakerfi, þar sem alls konar annarleg atriði skipta meira máli en hin hefðbundnu markaðs- og rekstrarlögmál Vesturlanda.

Ástandið er svo alvarlegt, að mikill hluti Íslendinga er sannfærður um, að vextir séu of háir og eigi að miðast við greiðslugetu. Víða halda stjórnendur meira að segja, að fjármagnskostnaður fyrirtækja sinna sé utan aðkomandi afl, eins konar þruma úr heiðskíru lofti.

Fráhvarf Austur-Evrópu frá íslenzk-austrænu hagkerfi yfir í vestrænt hefur lítil áhrif á þá íslenzku sannfæringu, að hér megi áfram reka velferðarríki forstjóra.

Jónas Kristjánsson

DV

Lítið fæst fyrir orkuna

Greinar

Ekki var seinna vænna, að farið var að semja um verð á raforku til fyrirhugaðs álvers Atlantals á Íslandi. Nógu mikið er búið að tala um væntanlegt póstfang álversins, svo að tími er kominn til að fá botn í það, sem meira máli skiptir, áhrif þess á þjóðarbúið.

Orkuverð til álvers Atlantals verður mjög lágt, einkum í upphafi. Verðið mun tengjast sveiflum á verði áls, svo að Landsvirkjun getur hæglega lent í þeim vanda, að greiðslur vaxta og afborgana af lánum vegna orkuvera í tengslum við álverið verði hærri en tekjurnar.

Meira en hugsanlegt er, að hækka verði verð á rafmagni til almennings í landinu til að gera Landsvirkjun kleift að standa við skuldbindingar sínar út af orkuframkvæmdum vegna álversins. Svo lágt er gjaldið frá Atlantal, að áhættusvigrúmið er lítið sem ekki neitt.

Allt getur þó farið vel að lokum, þótt það taki lengri tíma en vonað hafði verið og eðlilegt má teljast. Einhvern tíma á næstu öld má reikna með, að orkuverin afskrifist og geti farið að mala eigendum sínum gull. En margir áratugir geta liðið, áður en það gerist.

Við erum að ganga frá samningum um að selja orku frá ódýrustu orkuverum, sem hægt er að reisa hér á landi. Ef við semjum við Atlantal um, að það greiði kostnaðarverð eða tæplega það fyrir þessa orku, getum við ekki selt orkuna neinum öðrum aðila um leið.

Ef við semjum við Atlantal, getum við ekki selt okkar hagkvæmustu orku um sæstreng til Bretlandseyja. Samt er hugsanlegt, að það sé miklu hagkvæmari kostur, sem gefi nokkrum sinnum hærra orkuverð en nokkurt álver getur greitt, 100 mills í staðinn fyrir 20 mills.

Tæknin er komin á það stig, að hægt er að leggja sæstrenginn, ef ákveðið verður að gera það. Það verður dýrt, sennilega jafndýrt og að reisa orkuverin sjálf, en getur samt orðið ævintýralegt gróðafyrirtæki upp á tugi milljarða á ári hverju, vegna hins háa orkuverðs.

Orkuvandi Bretlandseyja og meginlands Evrópu mun fara vaxandi. Það stafar annars vegar af, að olía mun hækka mikið í verði, þegar til langs tíma er litið. Og hins vegar stafar það af, að kjarnorkuver eru hættulegri en talið var og mun óvinsælli en þau hafa verið.

Af þessum ástæðum má búast við, að verð á orku um sæstreng frá Íslandi geti haldizt hátt og jafnvel hækkað töluvert eftir því sem tímar líða fram. Hins vegar er afar lítið svigrúm í verði á orku til nýs álvers á Íslandi. Sæstrengur gæti verið álitlegri en álver.

Á þessari röksemdafærslu er sá hængur, að samningur um álver er langt kominn, en ekki er farið enn að ræða neitt að gagni um sæstreng. Því er unnt að segja, að betra sé að hafa lélegan samning í húsi en góðan úti í skógi. Þannig tala menn, ef þeim liggur lífið á.

Og okkur liggur þessi lifandis ósköp á. Landsvirkjun lá svo mikið á, að hún sendi í fyrrahaust vinnuskúra til Búrfells til að vera búin að því fyrir vorið. Iðnaðarráðherra liggur mikið á, af því að hann vill hafa athafnasveiflu í þjóðfélaginu rétt fyrir næstu þingkosningar.

Svo mikið liggur okkur á, að sveitarfélög í þremur landshornum eru komin í hörkusamkeppni um, hvert þeirra eigi að fá álver í hlaðvarpann. Ákaft er slegizt um, hver eigi að fá þensluna í sinn garð, en ekki minnzt einu orði á, hvort álverið sé þjóðinni hagkvæmt.

Þegar menn ákveða fyrirfram að fá nammið sitt, hvað sem það kostar, eru ekki nokkrar líkur á, að við höfum frambærilega samningaðstöðu um það, sem máli skiptir.

Jónas Kristjánsson

DV

Sigurinn var ósigur

Greinar

Fleiri voru atvinnulausir hér á landi í síðasta mánuði en verið hafa í þeim mánuði í rúman áratug. Ástandið er meira að segja verra en í fyrra. Sem dæmi má nefna, að atvinnulausu skólafólki hefur fjölgað úr 600 í 800 milli ára. Var þó talað um neyðarástand í fyrra.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í þenslu á vinnumarkaði. Margir reiknuðu með, að umsvif í þjóðfélaginu færu að lifna við með vorinu, en sú von hefur algerlega brugðizt. Við erum á leið í vaxandi kreppu.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í aukinni framleiðslu í landinu. Efnahags- og framfarastofnunin segir, að landsframleiðsla Íslands hafi í fyrra dregizt saman um 3,4% og muni ekki aukast á þessu ári.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í aukningu þjóðarauðs á hvern íbúa landsins. Seðlabankinn hefur birt tölur, sem sýna, að skuldlaus þjóðarauður hefur raunar minnkað á mann allan níunda áratuginn.

Efnahagsbatinn, sem fjármálaráðherra heldur fram, að orðið hafi hér á landi, hefur ekki komið fram í minnkuðum lántökum Íslendinga í útlöndum. Í fyrra var raunar slegið Íslandsmet, þegar erlend lán urðu 51,3% af landsframleiðslu, en höfðu mest áður numið 51,1%.

Af áróðursferðum fjármálaráðherra um landið og auglýsingum hans í fjölmiðlum mætti ætla, að þjóðarhagur væri á uppleið. Svo er ekki. Erlendar skuldir eru vaxandi byrði, framleiðsla fer heldur minnkandi og atvinnuleysi fer heldur vaxandi. Kreppan stendur enn.

Eini árangurinn, sem náðst hefur, er, að verðbólga hefur minnkað og er núna innan við 10%. Það er að sumu leyti eðlileg afleiðing þess, að samdráttur hefur leyst þenslu af hólmi. Að hinu leytinu er þetta að þakka þjóðarsáttinni, sem gerð var um kjarasamninga í vetur.

Fjármálaráðherra getur auðvitað þakkað sér og ríkisstjórninni fyrir þjóðarsáttina, því að stjórnvöld áttu þátt í henni. Það er hins vegar séríslenzkt fyrirbæri að telja slíka þjóðarsátt vera af hinu góða. Efnahags- og framfarastofnunin hefur varað okkur við þeim.

Við gerðum þjóðarsátt um fátækt. Við gerðum þjóðarsátt um að taka ekki á vanda, sem við höfum verið að safna. Við gerðum þjóðarsátt um að halda mistökunum áfram og borga fyrir þau með lakari lífskjörum. Við gerðum þjóðarsátt um framhald á sjálfspyndingum.

Samkvæmt þjóðarsáttinni verður haldið áfram að kasta á glæ fimmtán milljörðum króna á ári með stuðningi við hefðbundinn landbúnað. Samkvæmt þjóðarsáttinni verður haldið áfram að kasta á glæ milljörðum með opinberum fyrirgreiðslusjóðum handa gæludýrum.

Samkvæmt þjóðarsáttinni höldum við áfram að vinna eins og skepnur til að standa undir lífskjörum, sem við neitum okkur um að fá á auðveldari hátt með því að beita skynsemi. Samkvæmt þjóðarsáttinni sættum við okkur við svimandi verðlag á innlendum matvælum.

Þannig hefur ríkisstjórn, með hjálp stéttarfélaga og þjóðar, tekizt að halda verðbólgunni í skefjum án þess að leysa nein vandamál með því. Þannig hefur tekizt að koma lífskjörum á Íslandi, miðað við vinnuframlag og verðlag, niður í það, sem er í Portúgal.

Sigurinn á verðbólgu var sigur þjóðarsáttar um fátækt og minnkandi þjóðarauð, ofanstýrt kvótakerfi og ráðherrastýrðar fyrirgreiðslur. Sigurinn var ósigur.

Jónas Kristjánsson

DV

Sovétríkin eru dauð

Greinar

Winston Churchill sagðist ekki hafa tekið að sér að vera forsætisráðherra til að sjá um afnám brezka heimsveldisins. Það, sem helzt hann varast vann, varð þó að koma yfir hann. Á fáum árum var brezki fáninn dreginn niður í ríkjunum, sem skipuðu brezka heimsveldið.

Nú segist Mikhail Gorbatsjov ekki hafa tekið að sér að vera forseti til að sjá um afnám sovézka ríkjasambandsins. Gorbatsjov er enginn Churchill endurborinn, en þótt svo væri, mundi honum reynast erfitt að hamla gegn því, sem virðist sagnfræðilega óhjákvæmilegt.

Sovétríkin eru síðasta heimsveldi mannkynssögunnar. Síðan heimsveldi Frakka og Breta hrundu, eftir sigur þeirra í síðari heimsstyrjöldinni, eru Sovétríkin síðasta dæmið um, að unnt sé að halda mörgum, ólíkum þjóðum innan eins og sama ríkis, gegn vilja þjóðanna.

Áður hrundu austurríska heimsveldið og tyrkneska heimsveldið. Þar áður hrundu spánska heimsveldið og portúgalska heimsveldið. Enn fyrr hrundu rómverska heimsveldið og persneska heimsveldið. Sovétríkin eru bara síðasta eintak löngu útdauðs ríkjaskipulags.

Þegar þjóðir ákveða að sætta sig ekki við að vera undir stjórn manna, sem tala framandi tungu í fjarlægri borg, hvort sem hún er Moskva eða Róm, London eða París, Madrid eða Lissabon, er bara tímaspursmál, hvenær þær losna undan forsjá heimsveldisins.

Þegar þjóðir ókyrrast, verður smám saman of dýrt fyrir heimsveldið að halda lífi. Það kostar mikið að beita hörku með her og lögreglu. Það kostar líka mikið að beita linku með fyrirgreiðslu og mútum. Kostnaðurinn við heimsveldið verður brátt meiri en tekjurnar.

Sovétríkin eru efnahagslega og fjárhagslega aðframkomin. Þau geta ekki lengur haldið uppi kostnaði við leppstjórnir í ríkjum Austur-Evrópu. Þau þurftu að halda þar úti dýru hernámsliði og ennþá dýrari mútum, gjafverði á olíu og öðrum sovézkum hráefnum.

Gorbatsjov sá, að hernám Austur-Evrópu sogaði máttinn úr heimsveldinu. Þess vegna leyfði hann Austur-Evrópu að sigla vestur fyrir járntjald. Hann hugsaði eins og rómverskir keisarar, sem ákváðu, að ekki svaraði kostnaði að halda Svartaskógi eða Rúmeníu.

Gorbatsjov telur hins vegar núna, að Sovétríkin hafi efni á að þráast gegn, að þjóðirnar við Eystrasalt fái frelsi. Það er misskilningur. Efnahagur Sovétríkjanna hefur haldið áfram að versna á þessu ári. Hið sagnfræðilega lögmál uppdráttarsýkinnar er óstöðvandi.

Gorbatsjov hefur eytt fimm árum í misheppnaðar tilraunir til að fá vit í gamla hagkerfið í Sovétríkjunum. Sérfræðingar hans segja honum, að Sovétríkin geti ekki stokkið á kaf í vestrænt markaðshagkerfi eins og Pólverjar hafa gert og aðrir í Austur-Evrópu eru að gera.

Áfram verður reynt að finna hina ímynduðu millileið í hagstjórn og það mun ekki takast. Upplausnin á eftir að aukast, bæði í Rússlandi og í hernumdu löndunum innan Sovétríkjanna. Kákasusþjóðir, Íslamsþjóðir og Úkraínumenn munu feta á eftir Eystrasaltsþjóðum.

Erfiðir tímar eru í vændum í Sovétríkjunum. Gorbatsjov kann að falla af stalli, þótt hann hafi rakað að sér völdum í nýfengnu embætti forseta. Eftirmenn hans, harðir eða linir, munu lenda í sömu vandræðum. Sovézka heimsveldinu verður ekki bjargað. Það er búið.

Það verður ekki fyrr en Sovétríkin hafa rofnað niður í þjóðlönd, að lífskjör og efnahagur fara aftur að batna í Rússlandi og í öðrum löndum innan sovézka veldisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Lóðir í Reykjavík

Greinar

Æskilegt er, að frambjóðendur til borgarstjórnar og stjórnmálaöflin að baki þeirra treysti sér til að gera frambærilega grein fyrir ráðgerðri meðferð þeirra á lóðum í Reykjavík. Í lóðamálum kemur skýrast í ljós, hvort staðið er opið og heiðarlega að stjórn sveitarfélags.

Erlendis hafa ótal dæmi um spillingu í byggðastjórnum verið til umfjöllunar, bæði í fréttum fjölmiðla og í rannsóknum fræðimanna. Allt ber að þeim brunni, að á Vesturlöndum sé vandamál slíkrar spillingar fyrst og fremst að finna í skipulagi svæða og úthlutun lóða.

Algengasta leiðin hefur verið rækilega kortlögð í Bandaríkjunum. Þar eru dæmi um, að ráðamenn skipulagsstjórna sveitarfélaga skipuleggi ný svæði þannig, að ákveðin svæði fái hagstæða nýtingu, til dæmis undir miðbæjarstarfsemi, svo að landið hækki í verði.

Ekki er mikið svigrúm til slíkrar spillingar í Reykjavík. Ráðamenn borgarinnar hafa áratugum saman verið forsjálir í öflun lands. Þeir hafa látið borgina kaupa allt land í kringum byggðina í borginni, löngu áður en til greina kemur að skipuleggja það og byggja á því.

Á þetta reynir einkum í afmörkuðum tilvikum, þar sem miðbæjarlóðir eru frá gamalli tíð í eigu einkaaðila. Þá er með opinberu skipulagi unnt að hækka verð lóðar, annaðhvort með því að ákveða, hvernig hún skuli nýtt, eða með því að ákveða nýtingarstuðul húsanna.

Í Reykjavík skortir umfjöllun utan stjórnmáladeilna um, hvernig staðið hefur verið að skipulagi einkalóða á undanförnum árum, til dæmis við Skúlagötu, svo að áhugafólk um borgarstjórnarsiði geti gert sér grein fyrir, hvort lóðir hafi verið hækkaðar óeðlilega í verði.

Ekki er allt fengið með að færa land úr einkaeign í almannaeign, svo sem gert hefur verið í Reykjavík. Í stað hættunnar á braski með verðgildi lands kemur hætta á braski með úthlutun lóða. Það er einmitt á því sviði, sem Reykjavíkurborg þarf að bæta ráð sitt.

Enginn vafi er á, að slík spilling hefur minnkað með árunum, einkum eftir að tekin var upp sú stefna að hafa jafnan nægilegt framboð af lóðum. Jafnvægi í framboði og eftirspurn lóða náðist í Grafarvogi. Má nú gera ráð fyrir, að hver geti fengið lóð við sitt hæfi.

Um tíma var borgarstjórn næstum búin að stíga skrefið á enda til eðlilegra viðskiptahátta. Það var, þegar boðnar voru út lóðir við Stigahlíð. Þá veitti borgin eftirsóttar lóðir á hagstæðum stað. Í stað skömmtunar leyfði hún markaðslögmálinu að ákveða verðlag þeirra.

Því miður hefur verið horfið frá stefnunni, sem stjórnaði útboði lóða við Stigahlíð. Í stað útboðs hefur komið úthlutun að nýju. Í sumum tilvikum er lóð úthlutað án auglýsingar, jafnvel á stöðum, þar sem enginn utanaðkomandi gerði ráð fyrir, að lóð yrði úthlutað.

Einn borgarfulltrúi fékk fyrir nokkrum árum lóð, sem ekki hafði verið reiknað með, að yrði notuð undir hús. Hann fékk líka að hefja framkvæmdir án þess að hafa greitt tilskilin gjöld. Þessi spilling olli nokkurri umræðu á öndverðum síðasta vetri, en ekkert var þó gert.

Það er valdið til skömmtunar, sem framleiðir spillingu hjá sveitarstjórnum og stofnunum þeirra. Allar lóðir, sem geta reynzt eftirsóttar, á að bjóða út, svo að ekki sé svigrúm fyrir spillingu. Opinn markaður hefur á Vesturlöndum reynzt heppileg leið til heiðarleika.

Í ýmsum atriðum, þar sem hætta getur verið á spillingu, hefur Reykjavík bætt stöðu sína, ef litið er langt til baka, en staðnað, ef litið er aftur til skamms tíma.

Jónas Kristjánsson

DV

Arafat viðurkenndur í dag

Greinar

Heimsókn Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra til Jasser Arafat, forsætisráðherra útlagastjórnar Palestínumanna í Túnis, bætir fyrir hvimleiða framgöngu Jóns Baldvins Hannibalssonar utanríkisráðherra í garð hinnar ofsóttu þjóðar Arafats í landinu helga.

Heimsókn Steingríms til Arafats bætir líka fyrir hvimleiða heimsókn Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, til hryðjuverkaliðs, sem ræður ríkjum í Ísrael. Íslenzkir stjórnmálamenn eiga ekkert erindi í opinberar heimsóknir til hryðjuverkaríkja.

Enginn vafi leikur á, að Jasser Arafat er réttur fulltrúi Palestínumanna og mundi verða staðfestur sem slíkur, ef Palestínumenn fengju að kjósa sér foringja. Eina andstaðan við hann er frá hópum róttækari Palestínumanna og hópum íslamskra trúarofstækismanna.

Ef við lítum á Ísrael og Palestínu mörg ár aftur í tímann, er ekki hægt að sjá, að Jasser Arafat og stuðningsmenn hans hafi staðið fyrir neinum hryðjuverkum. Hins vegar hafa stjórnvöld í Ísrael á þessum tíma staðið fyrir óhugnanlegum hryðjuverkum í Palestínu.

Þetta hefur allt saman komið fram í fréttum og er stutt rannsóknum alþjóðasamtaka á borð við Amnesty, sem hafa harðlega gagnrýnt framgöngu Ísraelsmanna í Palestínu, er minnir mjög á framgöngu Gestapó í hernumdum löndum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Í rauninni er undarlegt, að lýðræðisríki á borð við Ísland skuli halda uppi stjórnmálasambandi við glæparíki, en neita að taka upp stjórnmálasamband við útlagastjórn þjóðar, sem glæparíkið ofsækir. Stefna utanríkisráðherra okkar er hreint og beint ósiðleg.

Það er líka kynlegt, að utanríkisráðherra okkar skuli hvað eftir annað stilla Íslandi upp með Ísrael og Bandaríkjunum í einangruðum hópi ríkja, er greiðir atkvæði á alþjóðlegum vettvangi, svo sem hjá Sameinuðu þjóðunum, gegn réttlátu almenningsáliti á Vesturlöndum.

Þáttur Bandaríkjanna er afar slæmur. Þaðan koma peningarnir, sem halda Ísrael á floti. Og þaðan kemur stuðningurinn, sem gerir Ísrael kleift að hafa stjórnmálasamband við umheiminn. Samt hafa Bandaríkin ekki nein minnstu áhrif á gerðir valdhafa Ísraels.

Samskipti Ísraels og Bandaríkjanna eru á þann veg, að rófan dillar hundinum. Þessi andlega herleiðing Bandaríkjanna í þjónustu Ísraels hefur verið þeim og Vesturlöndum dýr í margs konar alþjóðlegri skák. Hún hefur krumpað og skælt utanríkisstefnu Bandaríkjanna.

Íslendingar hafa löngum talið sig eiga eitthvað í Ísrael vegna aðstoðar okkar sendifulltrúa við að koma ríkinu á fót og vegna gagnkvæmra heimsókna forsætisráðherra fyrr á árum. En þá var Ísrael annað ríki með öðru almenningsáliti og öðrum leiðtogum en nú eru.

Ísrael hefur afmyndazt eins og Hitlers-Þýzkaland á sínum tíma. Þjóðin hefur endurkosið hryðjuverkamennina, sem eru við völd. Krataflokkurinn, sem áður var manneskjulegur, dregur vaxandi dám af hryðjuverkabandalagi Likud. Og Herzog forseti náðar morðingjana.

Ísrael er ekki eina ríki heimsins, sem brýtur mannréttindi. En það er í hópi hinna verstu. Það er til dæmis mun illskeyttara en Sovétríkin og fólskulegra en mörg Arabaríki, svo sem hið siðmenntaða Egyptaland, sem Steingrímur Hermannsson var að sækja heim.

Í þessari stöðu er til bóta, að forsætisráðherra okkar skuli fara til Egyptalands og taka í dag á sig krók til að viðurkenna Arafat óformlega sem leiðtoga Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV