Greinar

Glerþak á Laugavegi

Greinar

Einkaaðilar munu í sumar byrja að reisa glerþak yfir stutta kafla Laugavegar. Það er félag, sem heitir Gamli miðbærinn, er borgar þetta og hyggst ná peningunum til baka með auglýsingum. Í félaginu eru einkum miðbæjarkaupmenn, sem reyna að verjast Kringlunni.

Hér í leiðurum DV hefur árum saman verið hvatt til, að Laugavegurinn yrði yfirbyggður, svo að fólk geti rekið erindi sín og verzlað án tillits til skapferlis veðurguðanna. Nú er loksins hafin tilraun til að framkvæma þetta sjálfsagða framfaramál í borgarskipulaginu.

Athyglisvert er, að það er ekki borgin sjálf, sem hefur frumkvæði í málinu. Það er líka athyglisvert, að það er ekki heldur neitt baráttumál þeirra, sem vilja mynda nýjan meirihluta í borgarstjórn. Það eru aðilar utan stjórnmála, sem taka af skarið og fjármagna dæmið.

Aðstandendur glerþakanna segja, að þeir geti yfirbyggt allan Laugaveginn á þremur árum, ef tilraunin tekst næsta vetur og vel gengur að ná peningum. Þeir vilja þó af eðlilegum ástæðum, að borgin taki við verkefninu, þegar þeir hafa hrundið því á flot.

Í borgarskipulagi og byggðaskipulagi á Íslandi hefur aldrei verið tekið tillit til erfiðs og breytilegs veðurfars. Samt er auðvelt að sjá, að Íslendingar kjósa að þurfa ekki að fara út undir bert loft, ef eitthvað er að veðri. Þetta sýnir velgengni Kringlunnar meðal annars.

Þar hefur verið búin til göngugata á tveimur hæðum. Þar getur fólk rölt um í rólegheitum án þess að þurfa að vefja sig flíkum, setja undir sig höfuðið og leggja út í rokið og rigninguna. Þar hefur verið búið til miðbæjarandrúmsloft eins og sjá má í útlöndum.

Íslendingar vilja eiga innangengt úr húsi sínu í bílgeymsluna. Þeir vilja geta ekið einkabíl sínum í bílgeymslu vinnustaðar eða í bílgeymsluhús, þaðan sem innangengt er á vinnustað eða í verzlun og þjónustu, sem þeir þurfa að nota. Þetta er einföld krafa.

Ísland er raunar þannig í sveit sett, að heppilegast er, að verzlun og þjónusta sé sem þéttast saman undir þaki. Það hindrar ekki, að fólk geti haft vítt á milli heimila sinna, svo framarlega sem gangstéttir og götur eru upphitaðar, svo sem nú er víða farið að prófa.

Ef fólk notar strætisvagna, sem það gerir aðeins, ef það hefur ekki bílpróf, til dæmis vegna aldurs, vill það hafa stór og góð biðskýli, sem eru upphituð. Það vill fara úr vögnunum undir þaki og geta síðan komizt leiðar sinnar, án þess að klífa snjódyngjur og svellbunka.

Svæðið umhverfis Laugaveg og nágrannagötur hans á að skipuleggja þannig, að fólk geti annað hvort komið á einkabílum eftir breikkuðu Sætúni og ekið upp í bílageymslur rétt neðan við Laugaveginn eða komið í strætisvögnum beint inn á Laugaveg á nokkrum stöðum.

Markmiðið er, að fólk geti undir þaki gengið úr bíl sínum eða strætisvagni að Laugaveginum og að það geti gengið Laugaveg og Austurstræti undir glerþaki alla leið frá Hlemmi til Aðalstrætis. Þetta er framkvæmanlegt og endurreisir borgarlíf í gamla miðbænum.

Komið hefur í ljós, að Kringlan var það, sem fólk vildi. Þá reynslu má nýta til að endurreisa blómlegan og líflegan miðbæ í Reykjavík. Það gerist bezt með nægum bílageymslum undir þaki við Laugaveg og Austurstræti og með glerþaki yfir Laugaveg og Austurstræti.

Einkennilegt er, að borgarmálafólk í valdastólum og utan þeirra skuli ekki fjalla meira um þetta grundvallaratriði í borgarskipulagi á 64. gráðu norðlægrar breiddar.

Jónas Kristjánsson

DV

Miðstýrð mengun

Greinar

Opnun Austur-Evrópu hefur leitt í ljós, að mengun er þar mjög mikil, margfalt meiri en á Vesturlöndum. Þetta hefur komið sumum á óvart, því að þeir töldu, að miðstýrð þjóðfélög gætu fremur ráðið við mengun en þjóðfélög, þar sem einkarekstur leikur lausum hala.

Þetta er eins og skólakerfið í Austur-Þýzkalandi, sem sumir töldu, að væri agaðra og betra en kerfið í Vestur-Þýzkalandi, af því að í skólamálum væri um að ræða samfélagslegt átak, er hentaði tiltölulega vel þjóðfélagskerfi, sem miðstýrt er með harðri hendi að ofan.

Í ljós hefur hins vegar komið, að nám í Austur-Þýzkalandi hefur ekki verið eins skilvirkt og nám vestan tjalds. Prófgráða að austan er til dæmis lítils virði í samanburði við hliðstæða prófgráðu að vestan, þrátt fyrir vestrænt agaleysi og truflandi áhrif freistinga.

Víðáttumikil svæði í Austur-Evrópu hafa eyðilagzt af mengun. Stórfljót renna fram eins og skolpræsi með fjallháum haugum af froðu og lituð úrgangsefnum. Skógar eru að falla úr súru regni. Helmingur drykkjarvatns er óhæfur til notkunar, að vestrænu mati.

Í iðnaðarhéruðum Póllands hafa rannsóknir á konum, sem ganga með barni, sýnt, að í vefjum þeirra hafa setzt að blý, kvikasilfur og önnur eiturefni, sem eru hættuleg ófæddum börnum, í miklu meiri mæli en talið væri verjandi í iðnaðarhéruðum Vesturlanda.

Meðalaldur í Austur-Evrópu er mun lægri en í Vestur-Evrópu, bæði vegna mengunar og slælegs heilbrigðiseftirlits. Raunar hefur meðalaldur víða farið lækkandi í Austur-Evrópu, meðal annars vegna mikils ungbarnadauða. Og þetta eru lönd félagslegrar hugmyndafræði.

Á Íslandi hafa margir áhyggjur af mengun frá álverum. Í fjölmiðlum er fólk oft að lýsa áhyggjum af, að ekki verði tryggilega gengið frá mengunarvörnum í nýju álveri, sem fyrirhugað er að reisa. Fólk óttast, að þorsti ráðamanna í álver verði fyrirhyggju yfirsterkari.

Það er einmitt þras af þessu tagi, sem hefur vantað í Austur-Evrópu. Þar hefur ekki verið neitt samtal milli yfirvalda og almennings, aðeins tilskipanir að ofan. Austantjalds var enginn, sem gegndi því hlutverki, sem frjálsir fjölmiðlar gegna með sóma á Vesturlöndum.

Miðstjórnir í Austur-Evrópu einangruðust í turnum sínum. Þær vissu ekki um hræringar og skoðanir í þjóðfélaginu. Þær höfðu allt vald í sínum höndum, líka til að gera góða hluti, en vissu ekki, hverjir voru góðu hlutirnir, af því að sambandið að neðan var ekkert.

Á Vesturlöndum er valdi hins vegar dreift á marga staði. Ríkisvaldið eitt hefur ekki allt vald. Atvinnulífið hefur vald, stéttarfélögin hafa vald, fjölmiðlarnir hafa vald og hagsmunasamtökin hafa vald. Þessar mörgu valdamiðstöðvar halda hver annarri í skefjum.

Til dæmis hafa fyrirtæki og samtök fyrirtækja á Vesturlöndum vald til að þráast gegn opinberum aðgerðum, sem valda fyrirtækjum kostnaði í mengunarvörnum; vald, sem hliðstæð fyrirtæki og samtök hafa ekki í Austur-Evrópu. Samt hefur Vesturlöndum tekizt betur til.

Það er dreifing valdsins og jafnvægi milli margra handhafa valds, sem ræður úrslitum um, að lýðræði er áhrifameira þjóðskipulag en eins flokks miðræði. Hámarki nær jafnvægið í, að fólk getur í kosningum haft skipti á þeim stjórnmálaflokkum, sem eru við völd.

Vegna þessa ráða ríki markaðsbúskapar og valddreifingar betur en miðstýrð ríki við samfélagsleg verkefni á sviði félagsmála, menntunar, heilbrigði og mengunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ímynd og innihald

Greinar

Þegar ferðalög í flugvélum voru munaður fyrir þremur áratugum, auglýstu vindlingaframleiðendur með myndum af hamingjusömu fólki í flughöfnum. Markmiðið var að búa í hugum fólks til ímynd tóbaksnotkunar sem sjálfsagðrar iðju í unaðslandi flugstöðva.

Þegar fólk fór að nota flughafnir og þær fóru að yfirfyllast, komst fólk að raun um, að þær voru ekki unaðsland, heldur fremur sóðalegt land hávaða og taugaveiklunar, þar sem fólk var að bíða eftir, að eitthvað annað betra gerðist en að vera einmitt á þeim volaða stað.

Þá var ekki lengur hægt að nota flughafnir sem grunn auglýsinga. Nú eru í tóbaksauglýsingum birtar myndir af töffurum í nýþvegnum gallabuxum, sem eru aleinir að stjaka skítugum jeppa á fleka yfir fljót í ótilgreindum frumskógi við miðbaug. Eða þá í kúrekafötum.

Hin nýja ímynd tóbaksreykingamannsins er af einstaklingshyggjumanni, sem er aleinn úti í náttúrunni og er jafnvel alls ekki að reykja, að minnsta kosti ekki í auglýsingunni. Auglýsingin gefur hins vegar í skyn, að slíkur töffari gæti hugsað sér að reykja.

Auglýsingar og kynningar af ýmsu tagi heita núna “markaðssetning” og fjalla oftar en ekki um eitthvað annað en innihald þess, sem verið er að auglýsa. Í tóbaksauglýsingum er ekki sagt, að það sé hollt og gott að reykja, heldur er verið að búa til ímyndir.

Ef sækja á með vöru eða þjónustu inn á markað eða verja stöðu vörunnar og þjónustunnar á markaði, er ekki gripið til þess ráðs að útskýra neitt fyrir væntanlegum notendum, heldur er reynt að vekja ákveðin hugrenningatengsl með tiltölulega óljósum hætti.

Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar eru “markaðssettir” á svipaðan hátt og hver önnur vara. Það tekur því ekki að reyna að útskýra efnisatriði mála fyrir kjósendum, heldur borgar sig að birta auglýsingar af t.d. ölduróti með almennu þvaðri um “klettinn í hafinu”.

Í byggðakosningunum, sem senn fara í hönd, verða kjósendur því miður ekki mjög uppnæmir fyrir raunverulegum málum. Fáir gera sér t.d. grein fyrir, að sveitarfélögum er misvel stjórnað. Sum þeirra skulda til dæmis margfalt meira á mann en önnur gera.

Í stað þess fara kjósendur meira eftir meintum persónuleika þeirra, sem eru í framboði. Þetta mat kann að vera raunhæft í sveitarfélögum, þar sem fólk þekkist. En í Reykjavík verður fólk að byggja á einhverju öðru, til dæmis framgöngu frambjóðenda í sjónvarpi.

Hér á landi hefur leið fólks til stjórnmála legið í vaxandi mæli um sjónvarpsskjáinn. Ef fólki tekst að búa til af sér notalega og traustvekjandi ímynd í sjónvarpi, standa stjórnmálaflokkar í biðröð við að fá það í framboð. Innihaldið að baki ímyndinni skiptir litlu sem engu.

Reagan Bandaríkjaforseti geislaði frá sér ímynd notalegs trausts. Í rauninni var hann ekki aðeins afar lélegur forseti, sem vissi fremur lítið um það, sem var að gerast í kringum hann. Hann var einnig fremur lélegur pappír, því að hann seldi sig Japönum, þegar hann hætti.

Þegar ímyndarfræðingar dáleiða neytendur og kjósendur með ímyndum, sem standa ekki í neinu sambandi við innihaldið og eru jafnvel þveröfugar við innihaldið, sjáum við fyrir okkur martröð, þar sem fólk framtíðarinnar tekur upp trú á furðusögur og ævintýri.

Við erum þegar komin á það stig, að “markaðssetning” felst ekki í að búa til gott innihald, heldur góða ímynd af hvaða innihaldi eða innihaldsleysi sem er.

Jónas Kristjánsson

DV

Ruglað saman reytunum

Greinar

Fjármálaráðherra hefur undanfarið verið á pólitískri áróðursferð um landið og borgarstjóri hefur gefið út pólitískan áróðursbækling. Fjármálaráðherrann lætur skattgreiðendur borga sína áróðursferð og borgarstjóri lætur útsvarsgreiðendur borga sinn áróðursbækling.

Hvort tveggja á sér langa hefð, sem helgast af, að kjósendur kippa sér ekki upp við rugling á reytum óskyldra aðila. Bláar bækur tíðkuðust í Reykjavík áratugum saman og ráðherrar hafa ferðazt flokkspólitískt á okkar kostnað lengur en elztu menn muna.

Við spillingu er unnt að bregðast á ýmsan hátt. Á Vesturlöndum þykir til siðs, að kjósendur reyni með atkvæði sínu að losna við hana. Hér á landi ber meira á, að menn reyni sjálfir að komast inn í hana. Menn vilja gerast aðilar að fyrirgreiðsluþjóðfélaginu.

Víða um land eru þingmenn vegnir og metnir eftir dugnaði við að færa björg í bú af herfangi byggðastefnunnar. Spurt er, hvort þeir geti útvegað opinbert fé til að koma á fót eða bjarga undan hamri tízkufyrirbærum eins og fóðurstöðvum, skuttogurum og laxeldisstöðvum.

Gengi ofangreindra flokksleiðtoga er misjafnt og ræðst ekki að neinu leyti af flokkslegri meðferð almannafjár. Annar er óvinsælasti stjórnmálamaður líðandi stundar og hinn er sá vinsælasti. Kjósendur kunna að meta framgöngu annars þeirra, en þola ekki hinn.

Í umræðum um notkun ráðherrabíla kom fram, að ráðamenn þjóðarinnar telja, að næstum öll notkun þessara bíla sé opinber, nema helzt heimsóknir til persónulegra kunningja. Þeir virðast til dæmis telja, að réttmætt sé, að ferðir í þágu flokks greiðist af ríkinu.

Sem betur fer er að byrja að vakna skilningur á, að flokkur og ríki eru stofnanir með óskyldum fjárhag. Ráðherrar eru orðnir feimnari en áður við að halda flokksveizlur á kostnað ríkisins og eru hættir að senda áfengi í afmælisboð mikilvægra flokksbræðra sinna.

Langt er þó enn í land. Forsætisráðherra upplýsti 14. febrúar, að það sé “svo fáránlegt, að það tekur engu tali”, að ráðherrar þurfi að borga hlunnindaskatt vegna notkunar á ríkisbíl. Þetta var svar ráðherrans við afskiptum ríkisskattstjóra af líklegu skattsvikamáli.

Forsætisráðherra og öðrum valdamönnum fannst sjálfsagt, að forstjórar fyrirtækja borguðu hlunnindaskatt vegna notkunar á bíl fyrirtækis, þegar sett voru lög og reglur um meðferð slíkra mála. Sömu reglur eru svo sagðar “fáránlegar”, þegar þær verða óþægilegar.

Ráðherrar fá hjá ríkinu sömu dagpeninga og embættismenn, þegar þeir eru á ferðalögum í útlöndum. Síðan komast ráðherrarnir upp með að senda ríkinu reikninga fyrir öllum ferðakostnaði, svo sem gistingu og uppihaldi. Dagpeningar ráðherra eru því hreinn kaupauki.

Á þessum sérkennilegu kjörum eru ráðherrar ekki aðeins, þegar þeir eru í erindum ríkisins. Þeir nota þetta líka, þegar þeir eru í ferðum á vegum flokks síns. Komið hefur fram, að forsætisráðherra telur slíkt sjálfsagt, enda er hann ekki í stjórnarandstöðu að þessu sinni.

Ráðherrar skammta sjálfum sér nokkrum sinnum betri lífeyrisrétt en tíðkast hjá öðrum stéttum ríkiskerfisins og þjóðfélagsins í heild. Með þessari sérstöðu einni hefur forsætisráðherra náð sér í aukatekjur, sem jafngilda 138.000 krónum á mánuði fyrir utan aðrar tekjur.

Valdamenn munu halda áfram að rugla saman reytum skattgreiðenda, stjórnmálaflokka og sínum eigin, unz kjósendur ákveða, að slíkt sé ekki lengur við hæfi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þriðja leið til þriðja heims

Greinar

Fólkið í þriðja heiminum er að byrja að átta sig á, að hrun sovézka þjóðskipulagsins er ekki að leiða til leitar þjóða og ráðamanna Austur-Evrópu að þriðju leiðinni milli kommúnisma og kapítalisma, heldur telja þær einfaldlega, að þriðja leiðin vísi til þriðja heimsins.

Í Austur-Evrópu er fólk sér fyllilega meðvitað um, að ekki er til nein leið Framsóknarflokksins, ekki nein leið afrísks sósíalisma og ekki nein önnur heimatilbúin leið, sem reynir að víkjast undan þeirri staðreynd, að opið, vestrænt hagkerfi og stjórnkerfi er eina leiðin.

Þessi skilningur mun leiða til þess, að vestræn þróunaraðstoð mun beinast í auknum mæli frá þriðja heiminum til “annars heimsins”, það er að segja hinna nýkapítalisku ríkja í Austur-Evrópu. Við vitum hvort sem er, að slík aðstoð er gagnslaus í þriðja heiminum.

Heimshlutar á borð við Afríku eru hreinlega að týnast. Vestrænar þjóðir eru löngu orðnar þreyttar á sukkinu þar og sóuninni. Gífurlegar fjárhæðir hafa farið í súginn, svo sem Norðurlandaþjóðir þekkja bezt af ástandinu í Tanzaníu, þar sem lífskjör hafa hríðversnað.

Vesturlandabúar eru orðnir þreyttir á að halda uppi einræðisherrum á borð við Nyerere í Tanzaníu, sem nota vestræna, einkum norræna, þróunaraðstoð til að halda uppi eins flokks stjórnmálakerfi og ríkisreknu atvinnulífi, afrískum þjóðum til langvinnrar bölvunar.

Í Afríku eru margir farnir að átta sig á, að “afrískur” sósíalismi leiðir til glötunar. Í Afríku eru margir farnir að átta sig á, að “alþýðulýðræði” leiðir til glötunar. Í Afríku eru margir farnir að átta sig á, að það eina, sem dugir, er bara vestrænt lýðræði, vestræn gildi.

Eftir hrun sovézka heimsveldisins í Austur-Evrópu og ákvörðun Austur-Evrópuþjóða að fara ekki neina þriðju leið milli vestrænna og austrænna hugmynda standa harðstjórar þriðja heimsins berskjaldaðir gagnvart kúguðum þjóðum sínum, sem munu nú leita frelsis.

Ekki dugir lengur að kalla stjórnarandstæðinga “sendisveina heimsvaldasinna”, sem standi í vegi sameinaðs átaks fátækrar þjóðar í átt til “afrísks alþýðulýðræðis”. Ekki dugir lengur að banna málfrelsi til að þjóðin hafi frið til að “standa saman” um harðstjórann.

Málið snýst ekki bara um, að harðstjórar geta síður en áður haldið völdum með því að haga seglum í vindum kalda stríðsins. Málið snýst ekki bara um, að þeir geta síður en áður sníkt fé af Sovétríkjunum. Málið snýst líka um, að þeir hafa verið vegnir og léttvægir fundnir.

Í flestum ríkjum Afríku hafa lífskjör versnað frá nýlendutíma. Upp hafa risið spilltar yfirstéttir, sem hafa rakað saman auði á kostnað alþýðunnar. Keyrð hefur verið áfram iðnvæðing, meira eða minna ríkisrekin. Flest ríki Afríku eru í rauninni gjaldþrota með öllu.

Á Vesturlöndum eru slík vandamál leyst með því að skipta um stjórnvöld. Það er ekki hægt í eins flokks kerfi harðstjóranna. Þess vegna eru sumir þeirra komnir á undanhald fyrir kröfum um vestrænt lýðræði. Jafnvel Nyerere er farinn að efast um eins flokks kerfið.

Málfrelsi, fjölflokka lýðræði og markaðsbúskapur hafa farið sigurför í fyrsta heimi Vesturlanda og eru að hefja göngu sína í öðrum heimi Austur-Evrópu. Allt bendir til, að þessi gildi henti einnig bezt í þriðja heiminum. Án árangurs hefur annað verið reynt í þrjá áratugi.

Ein merkasta niðurstaða sveiflunnar í Austur-Evrópu er, að mannkynið mun átta sig á, að þriðja leiðin hentar ekki þriðja heiminum frekar en okkur og Pólverjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Litháen án lausnargjalds

Greinar

Efnahagslegar þvinganir í skjóli hermanna, sem eru gráir fyrir járnum, kunna að ná tilætluðum árangri. Í Litháen eru stjórnvöld nærri daglega að bæta við atriðum, sem þau geta fallizt á að semja um við stjórn einræðisherrans Gorbatsjov í Kreml. En hann anzar engu enn.

Samningar, sem gerðir kunna að vera í kjölfar ofbeldis af því tagi, sem nú á sér stað í Litháen, hafa ekkert gildi í vestrænum skilningi. Þeir staðfesta aðeins, að Sovétríkin eru ofbeldisríki, sem kúgar umhverfi sitt eins mikið og það treystir sér til hverju sinni.

Engu máli skiptir, þótt formlega hafi ofbeldið bara lýst sér í að lemja nokkra prentara og brjóta nokkrar hurðir á sjúkrahúsum. Ógnun herafla nægir gegn þjóð, sem hefur engan eigin her. Við slíkar aðstæður er samningskrafa í raun krafa um uppgjöf með skilyrðum.

Gorbatsjov og hirðmenn hans í Kreml hafa lýst sjónarmiðum, sem fela í sér, að þeir hyggjast nota samningana til að ræna og rupla Litháa. Þeir gera tilkall til verðmæta, sem orðið hafa til í Litháen, síðan það land var þvingað inn í sovézka heimsveldið fyrir hálfri öld.

Staðreyndin er auðvitað sú, að Litháar sömdu ekki neitt um inngöngu í Svoétríkin. Þeir voru einfaldlega þvingaðir til ánauðar. Það hafa stjórnvöld í Sovétríkjunum raunar viðurkennt. Þau verðmæti, sem orðið hafa til í landinu í ánauðinni, eru eign heimamanna.

Sovézka stjórnkerfið ber alla ábyrgð á innlimun Litháens og getur ekki gert neitt siðferðilegt tilkall til opinberra stofnana, flokksstofnana eða fyrirtækja, sem orðið hafa til í landinu. Jafngild verðmæti hefðu orðið til og raunar margfalt meiri, ef Litháen hefði verið frjálst.

Það, sem Gorbatsjov segir, er í stuttu máli þetta: “Hér er ég með mína hermenn. Þið skulið, áður en þið verðið svelt og barin, skrifa undir, að þið kaupið ykkur á fimm árum frelsi úr ánauð. Upphæðin verður sú, sem ég ákveð og hún verður mjög há, enda er ég mjög blankur núna.”

Gorbatsjov er ekki neinn hryðjuverkamaður á borð við Stalín. En hann er enginn stjórnarleiðtogi í vestrænum skilningi. Hann er austrænn einræðisherra, sem notar snakk um lýðræði, ef það hentar honum, og gefur þjóðum frelsi, ef hann telur sig ekki geta haldið þeim.

Efnahagur Sovétríkjanna er í rúst. Of dýrt er orðið fyrir þau að halda ófúsum þjóðum Austur-Evrópu í ánauð. Þess vegna gaf Gorbatsjov eftir Pólland, Ungverjaland, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkaland. En hann telur sig geta fengið greitt fyrir Eystrasaltsríkin.

Gorbatsjov telur sig vita, að vestrænir stjórnmálamenn, allt frá Bush Bandaríkjaforseta yfir í Pál á Höllustöðum, vilji ekki grafa undan sér. Honum hefur tekizt að byggja upp á Vesturlöndum ranga ímynd af sér sem hagstæðasta haldreipi Vesturlanda í Sovétríkjunum.

Ráðamenn á Vesturlöndum ímynda sér, að Gorbatsjov sé sá, sem geti opnað hagkerfi Sovétríkjanna og komið á markaðsbúskap, eins og verið er að gera í Póllandi og víðar í Austur-Evrópu. Þeir munu verða fyrir miklum vonbrigðum með þennan skjólstæðing sinn.

Skynsamlegt væri af ráðamönnum Vesturlanda að láta ekki blindast af Gorbatsjov. Þótt hann sé enginn Stalín, er hann enginn Ludwig Erhard. Hann er ráðinn af sovézku leyniþjónustunni til að bjarga því, sem bjargað verður ­ með því að svelta fólk, en drepa það ekki.

Ef Vesturlönd þora að beita virkum efnahags- og stjórnmálaaðgerðum gegn ofbeldi Gorbatsjovs í Litháen, neyðist hann til að láta landið af hendi án lausnargjalds.

Jónas Kristjánsson

DV

Albanskt velferðarríki

Greinar

Hagfræðingur útvegsmanna segir, að lána- og styrkjakerfi sjávarútvegs hafi byggt upp tvær stéttir atvinnurekenda, annars vegar þá, sem borgi skuldir og standi við skuldbindingar, og hins vegar þá, sem geri hvorugt. Segir hann, að sífellt fari fjölgandi í síðari hópnum.

Á aðeins tveimur árum hafa hallærisfyrirtækjum verið útvegaðir tíu milljarðar króna á vegum tveggja nýrra sjóða, Atvinnutryggingasjóðs og Hlutafjársjóðs, svo og á vegum Verðjöfnunarsjóðs og Byggðastofnunar. Fyrirgreiðslan hefur framlengt vonlaust dauðastríð.

Sigling dauðvona fyrirtækja til grafar gegnum þetta kerfi er á þann veg, að fyrst útvegar Atvinnutryggingarsjóður lán með skilyrði um aukningu hlutafjár. Síðan leggur Hlutafjársjóður fram mest af hlutafénu. Og loks leggur Byggðasjóður fram afganginn af hlutafénu.

Fyrirtækin eru auðvitað áfram rekin af þeim, sem komu þeim á hausinn, meðal annars með því að halda, að peningar séu ekki verðmæti, sem borga þurfi af leigu í formi raunvaxta, heldur sé fjármagnskostnaður eitthvert ytra fyrirbæri, sem fundið hafi verið upp syðra.

Vegna þessa hefur verið lagt í framkvæmdir í skipum og vinnslustöðvum, sem eru langt umfram það, sem veiðanlegt fiskmagn leyfir. Þannig er vandi skussa yfirfærður á greinina í heild og veldur þyngri samkeppni en mundi þrífast, ef peningamarkaður væri frjáls.

Of mörg skip berjast um of lítinn afla. Réttur til fiskveiða gengur kaupum og sölum. Of margar fiskvinnslustöðvar berjast um of lítinn afla. Skussarnir fara með fulla vasa af ríkisfé á fiskmarkað og yfirbjóða hina, sem velta fyrir sér hverri krónu, áður en þeir eyða henni.

Við erum að fikra okkur í öfuga átt við þjóðir Austur-Evrópu. Meðan þær eru að hverfa frá opinberri fyrirgreiðslu handa gæludýrum í atvinnulífinu erum við að auka hana. Meðan þær eru að leyfa eymdarfyrirtækjum að fara á höfuðið erum við að reyna að fresta andlátum.

Meðan þjóðir Austur-Evrópu eru að hverfa frá ofanstýringu atvinnuvega erum við að efla ofanstjórn með reglugerðum úr ráðuneytum. Meðan þjóðir Austur-Evrópu eru að segja, að hver skuli vera sinnar gæfu smiður erum við að gera ríkið að smiði okkar ógæfu.

Tíu milljarðar hafa farið á tveimur árum í að framlengja dauðastríð fyrirtækja, svo að fólk megi vera áfram á lágu kaupi við færiböndin, í stað þess að freista gæfunnar í greinum, sem gefa meira kaup og betri vinnu. Þetta fé er horfið og kemur aldrei aftur.

Ekki vill heldur svo vel til, að þessir tíu milljarðar séu eitthvað, sem Íslendingar skuldi hver öðrum, svo að í heild sé dæmið í lagi. Tíu milljarðarnir eru beint eða óbeint fengnir frá útlöndum til að bæta upp innlent framboð af lánsfé. Og erlend lán þarf að endurgreiða.

Á Vesturlöndum er fátítt, að tekin séu lán til að greiða annað en vandlega skoðuð verkefni, er geta staðið undir fjármagnskostnaði, sem er sízt minni en hér. Erlend lán eru hér hins vegar notuð til að brenna peningum í úreltum og óþörfum fyrirtækjum og verkefnum.

Við notum hið opinbera og sjóði þess til að ýta bjartsýnismönnum í of mikla fjárfestingu í landbúnaði og sjávarútvegi, nú síðast í loðdýraeldi og fiskeldi. Við setjum allt okkar traust á ríkið og ráðherrann í ráðuneytinu. Við viljum reka velferðarríki fyrirtækja.

Eftir um það bil eitt ár verða ekki mörg lönd í Evrópu, önnur en Albanía, með meiri og dýrari ofanstýringu atvinnuvega en við erum búnir að koma okkur upp.

Jónas Kristjánsson

DV

Harðstjórn spakmæla

Greinar

Meirihluti Íslendinga leggur ekki sjálfstætt mat á ýmis hugtök, sem eru kjarninn í stjórnmálastefnu okkar og helzta forsenda þess, hve erfiðlega okkur gengur að ná árangri sem þjóð. Í staðinn tyggja menn hver eftir öðrum ýmis spakmæli eða klisjur, sem spara hugsun.

Íslendingar telja “þjóðhagslega” hagkvæmt að “fullvinna” “hráefni” sjávarútvegsins, hafa vexti “sanngjarna”, vera “sjálfum okkur nógir” í búvöru og framleiða “mat handa hungruðum heimi” og að ferðamenn fáist til að koma og skoða “hreint og óspillt land”.

Íslendingar telja, að “allt landið skuli vera byggt” og að stöðvuð skuli “elfur fjármagnsins suður” til Reykjavíkursvæðisins. Íslendingar telja eðlilegt, að fólk og fyrirtæki fái “fyrirgreiðslu” hins opinbera og að ráðherrar setji “reglugerðir” til að bæta hag sérhagsmunahópa.

Til þess að haga málum sem greinir frá hér að framan, telja Íslendingar heppilegt, að allt vald sé í höndum “ráðherrans”. Valdamenn eru því vinsælli, sem þeir setja fleiri reglugerðir, er miða að framgangi ofangreindra spakmæla og annarra af svipuðum toga.

Ein dýrasta klisja Íslendinga er, að fiskur sé hráefni, en ekki matur. Fólk, sem vill sjálft ekkert nema nýja ýsu í fiskbúðinni, telur eigi að síður, að verðgildi hennar í útflutningi verði því meira, sem meira er hamast á henni í frystihúsum og öðrum fiskvinnslustöðvum.

Þetta gekk svo langt, að ráðherrann, sem er vinsælastur og reglugerðaglaðastur allra valdamanna, bannaði útflutning á ferskum fiskflökum, sem keypt voru á 300 krónur kílóið í útlöndum. Hann gerði það á þeim forsendum, að fersku flökin væru líklega skemmd!

Engin leið er til að fá Íslendinga til að skilja, að verðgildi fyrirhafnar af ýmsu tagi mælist bezt á því, hversu mikið verð umheimurinn fæst til að greiða fyrir hana á frjálsum markaði. Enda eru lögmál markaðarins meirihluta þjóðarinnar að mestu leyti lokuð bók.

Þess vegna hafa Íslendingar ákveðið, að með afli ríkisins skuli allt landið vera byggt og helzt í sömu hlutföllum og voru fyrr á öldinni. Menn eru andvígir “röskun” búsetuflutninga, þótt hún hafi verið stærsta gróðafyrirtæki þjóðarinnar fyrstu sex áratugi aldarinnar.

Mjög fáum dettur í hug, að rétt sé, að vextir stjórnist af framboði og eftirspurn. Miklum og vaxandi fjölda atvinnurekenda finnst, að “fjármagnskostnaður” fyrirtækja þeirra sé eitthvert óviðkomandi náttúruafl, sem sé eins og hver önnur utanaðkomandi óheppni.

Ein kyndugasta klisjan, sem þjóðin gengur með á heilanum, er, að Ísland sé hreint og fagurt land. Forsætisráðherra er sífellt að skipa nýjar nefndir í því máli, þótt endalaust hafi verið rakin dæmi um, að Íslendingar eru óvenju miklir sóðar, þrátt fyrir mikið landrými.

Hér rýkur volgt skolpið frá sjónum yfir allan bæ. Hér eru opnir sorphaugar leikvöllur fugla, sem bera gerla og veirur út um allt. Hér er neyzluvatn tekið af yfirborði jarðar, fullt af gerlum af ýmsu tagi. Hér er landeyðing vegna landbúnaðar eins og hún gerist mest í Afríku.

Dýrustu klisjur Íslendinga eru þær, sem notaðar eru til að stjórna landbúnaði. Það kostar okkur 15 milljarða á ári að halda “jafnvægi í byggð” dreifbýlis og halda uppi sjálfsþurftarbúskap í nútíma, sem Vesturlandabúum er almennt kunnugt um, að byggist á sérhæfingu.

Ógöngur Íslendinga eru ekki verk fárra stjórnmálamanna. Þær eru afleiðingar þess, að þjóðin hefur látið spakmæli og klisjur spara sér að hugsa málin rökrétt.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrumufleygur ráðherrans

Greinar

Sumir græddu og aðrir töpuðu, þegar sjávarútvegsráðherra skipti snögglega um skoðun á miðvikudaginn og leyfði útflutning á ferskum fiskflökum. Þeir græddu ekki eða töpuðu á dugnaði sínum eða dugleysi, snilli sinni eða vangetu, heldur á ráðherraúrskurði að ofan.

Áður hafði ráðherra tekið hliðstæða og snögga ákvörðun, þegar hann bannaði þennan sama útflutning. Þá hafði hann feiknarleg áhrif á afkomu margra fyrirtækja og fjölskyldna í landinu. Þannig er lýðveldið Ísland í vaxandi mæli starfrækt sem ráðherraveldi.

Í heilbrigðu þjóðfélagi markaðsbúskapar eru leikreglur öllum ljósar. Mikill fjöldi fyrirtækja og fjölskyldna getur gert skynsamlegar áætlanir og hnikað þeim til eftir aðstæðum á hverjum tíma. Þeir blómstra, sem taka réttar ákvarðanir í traustum ramma leikreglna.

Í heilbrigðu þjóðfélagi markaðsbúskapar byggist velgengni manna á góðum hugmyndum um vöru eða þjónustu, sem kemur kaupendum að gagni; á hagkvæmum aðferðum við að koma upp framleiðslu á þessari vöru og þjónustu; og á skynsamlegri fjármögnun dæmisins.

Í sjúku þjóðfélagi ráðherraeinræðis byggist velgengni fyrirtækja og fjölskyldna á því, hvort unnt sé að fá valdagráðuga ráðherra til að setja reglugerðir, annað hvort um bann við einhverju eða um leyfi til einhvers, og allra helzt um hvort tveggja til skiptis.

Í sjúku þjóðfélagi ráðherraeinræðis byggist velgengni fjölskyldna og fyrirtækja á því, hvort þau hafa í tæka tíð og á undan öðrum upplýsingar úr kerfinu um, hvar þrumustaf ráðherrans beri niður næst. Menn spá í hugsanlegar reglugerðir, en ekki hugsanlega markaði.

Þetta minnir á gamla daga, þegar Samband íslenzkra samvinnufélaga græddi töluvert á gengisbreytingum. Þá virtist Sambandið vita fyrirfram um ákvarðanir, sem ráðherrar tóku skyndilega. Spádómar um gerðir ráðherra voru og eru arðbærasti rekstur á landinu.

Gerræðislegar ákvarðanir ráðherra þarf ekki endilega að setja fram með dólgslegum yfirlýsingum að hætti Ólafs Ragnars Grímssonar. Þær geta verið settar fram á hæglætislegan og syfjulegan hátt Halldórs Ásgrímssonar. En þær eru ekki skaðminni fyrir það.

Á söguöld var sagt um Íslendinga til aðgreiningar frá öðrum þjóðum, að engan vildu þeir hafa yfir sér, nema lögin. Þá sögðu menn, að með lögum skuli land byggja. Nú gildir, að með ráðherraorði skuli land byggja. Ráðherrar hafa tekið við af lögum sem hornsteinn Íslands.

Niðurstaða skoðanakönnunar um daginn benti til, að meirihluti okkar teldi rétt af ráðherra að setja fyrri reglugerðina um bann við útflutningi á ferskum fiskflökum. Ef nú yrði spurt, mundi meirihluti vafalaust líka fylgja síðari reglugerðinni. Fólk styður guð sinn.

Sjávarútvegsráðherra er vinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir. Hann hefur líka gengið lengst í að gera útgerð á reglugerðir að höfuðatvinnuvegi í landinu. Hann hefur byggt upp gífurlega flókið ríkiskerfi kvóta og aflamiðlunar, boða og banna.

Þetta er einmitt, sem meirihluti þjóðarinnar vill. Hún telur hag sínum bezt borgið með sem flestum reglugerðum. Hún vill boð og bönn. Hún velur sér þingmenn, bæjarstjóra, framkvæmdastjóra og formenn, sem líklegir eru til að sækja gull í greipar ráðherranna.

Trúin á mátt og megin ráðherra, á þrumufleyg hins pólitíska guðs, sem malar mér gull, dregur úr líkum á, að þjóðin sæki sér ekta gull í greipar markaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Veðjað á rangan hest

Greinar

Innrás Sovétríkjanna í Litháen er innrás og valdbeiting, þótt skotum hafi ekki verið hleypt af. Það er Litháum að þakka, en ekki Rauða hernum, að mannfall hefur ekki orðið. Þeir hafa neitað að láta Rússa koma sér úr jafnvægi og neitað að gefa höggstað á sér.

Rauði herinn hefur flutt mikinn herafla inn í Litháen. Hann hefur hertekið nokkrar mikilvægar stofnanir, svo sem skrifstofu ríkissaksóknara og prentsmiðjur dagblaða. Hann hefur reynt að koma í veg fyrir útgáfu allra dagblaða, nema þess, sem styður innrás Rússa.

Rauði herinn hefur rænt tugum ungra Litháa, sem neita að gegna herþjónustu hjá hinu útlenda hernámsliði. Í því skyni hefur hann brotizt inn í sjúkrahús og kirkjur, þar sem þeir hafa falið sig. Allt eru þetta dæmigerð ofbeldisverk innrásarliðs, sem fer sínu fram.

Úr þyrlum hefur Rauði herinn dreift miðum, þar sem rússneskumælandi innflytjendur í Litháen eru hvattir til að reyna að koma illu af stað, svo sem með því að mæta á fjöldafundi og fara í mótmælagöngur. Þetta hefur ekki tekizt, en sýnir vel vinnubrögð ögrunar.

Samningar, sem kunna að vera gerðir í kjölfar slíkrar innrásar og valdbeitingar, eru ekki meira virði en samningarnir, sem gerðir voru 1940, þegar Litháen var innlimað í Sovétríkin í skjóli valdbeitingar. Sovétmenn viðurkenna sjálfir, að þeir samningar eru ógildir.

Opnunin í Sovétríkjunum er snögglega horfin. Gorbatsjov er með sífelldar hótanir og ógnanir. Fjölmiðlar í Sovétríkjunum tyggja upp eftir honum ósómann, nákvæmlega eins og í gamla daga, áður en Gorbatsjov fór að fitla við lýðræðiseldinn. Það var marklaust fitl.

Snögglega hefur sannazt gömul regla, sem vestrænir ráðamenn, einkum bandarískir, hafa ekki skilið nógu vel. Hún er, að persónuleg sambönd koma ekki í stað utanríkisstefnu. Sá, sem setur traust sitt á persónu í útlöndum, verður fyrir vonbrigðum, þegar á reynir.

Þannig hafa Bandaríkin sett traust sitt á langa röð ógæfumanna, svo sem Somoza í Nicaragua, Noriega í Panama, Reza keisara í Persíu, Marcos á Filippseyjum og loks Deng, sem Bush Bandaríkjaforseti heldur, eftir sendiherratíð sína í Beijing, að sé sinn maður í Kína.

Einu sinni var Krústsjov ljúflingur Bandaríkjamanna í Sovétríkjunum. Núna er það Gorbatsjov. Nær væri að taka mark á refnum Gromyko, sem segir, að Gorbatsjov hafi stáltennur, þótt hann brosi breitt. Gorbatsjov stefnir ekki til lýðræðis í Sovétríkjunum, heldur eigin einræðis.

Þegar Ceausescu riðaði af stalli í Rúmeníu, sendu Vesturlönd þau skilaboð til Kremlar, að hernaðarleg afskipti Rússa af rúmenskum innanríkismálum væru vel þegin. Þegar uppþotin urðu í Azerbajdzhan og Armeníu, fögnuðu Vesturlönd hernaðarafskiptum Rússa.

Þannig skrifuðu Vesturlönd, undir forustu Banda ríkjanna, formálann að innrás Rauða hersins í Litháen. Vesturlönd hafa veðjað á einn hest rangan í Sovétríkjunum og sætta sig við allt, sem hann gerir. Þessi hestur er Gorbatsjov og á eftir að valda miklum vandræðum.

Enn er ekki of seint fyrir Bandaríkin og Vesturlönd öll að viðurkenna formlega sjálfstæði og fullveldi Litháens. Enn er ekki of seint að kæra Gorbatsjov fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag og leiða votta að því, að hernám Litháens hafi verið ólöglegt, bæði 1940 og 1990.

Fyrst og fremst verðum við að átta okkur á, að Gorbatsjov er einræðisherra, sem meinar ekkert með opnun, heldur notar hana til að hlaða undir sig völdum.

Jónas Kristjánsson

DV

Norræn svik

Greinar

Innrás Rauða hersins í Litháen virðist ætla að takast, því að umheimurinn lætur sig í raun litlu varða þetta smáríki við Eystrasalt. Gorbatsjov hefur tekizt að telja vestrænum stjórnvöldum trú um, að framtíð hans í valdastóli skipti þau meira máli en framtíð Litháa.

Innrás Rauða hersins í Litháen er innrás, þótt ekki hafi verið hleypt af skoti. Ljóst er, að vopnin hefðu verið látin tala, ef Litháar hefðu gripið til varna. Þeir sáu, að það var vonlaust, en það breytir hvorki eðli innrásarinnar sem innrásar né lexíunni, sem hún kennir okkur.

Bezt hefði verið, að Ísland hefði viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Litháens, áður en Rauði herinn réðist inn í landið, svo sem lagt var til hér í blaðinu á þeim tíma. Þá hefði íslenzk viðurkenning haft hagnýtt gildi fyrir Litháa, en nú hefur hún aðeins táknrænt gildi.

Halda má fram, að táknrænt gildi sé ekki nægilega mikið gildi. En utanríkisráðherra okkar er ekki rétti aðilinn til að halda slíku fram, því að hann ákvað sjálfur, að viðurkenna ekki Litháen fyrir innrás. Hann bjó því sjálfur til kringumstæðurnar, sem hann vitnar til.

Utanríkisráðherra hefur í annað sinn á ferli sínum tekið í utanríkismálum alvarlega ákvörðun, sem hlýtur að sneiða að sjálfsvirðingu Íslendinga sem nýsjálfstæðrar þjóðar. Hann hefur tekið skýra afstöðu með Ísrael gegn Palestínu og með Sovétríkjunum gegn Litháen.

Að venju er hundalógík notuð til varnar þessum málstað, sem fer okkur illa sem nýfrjálsri þjóð. Ráðherra skýlir sér á bak við, að árið 1920 hafi Danmörk fyrir okkar hönd viðurkennt sjálfstæði og fullveldi Litháens og ekki afturkallað viðurkenninguna árið 1940.

Auðvitað er það pólitísk ákvörðun ráðherra að beita þessum orðhengilshætti fremur en einhverjum öðrum. Ef menn vilja styðja við bakið á Litháum árið 1990, er það hægt, hver sem er lögfræðileg staða ákvarðana danskra stjórnvalda frá því fyrir 50 og 70 árum.

Svo er táknrænt, að utanríkisráðherra Íslands skuli nota ákvörðun gamals heimsveldis, Danmerkur, fyrir hönd þáverandi undirþjóðar, Íslendinga, til að styðja annað heimsveldi, Sovétríkin, gegn undirþjóðinni Litháum. Í báðum tilvikum var undirþjóðin ekki spurð.

Þótt hlutur okkar í máli þessu sé slæmur, er hlutur ýmissa annarra þó mun verri. Utanríkisráðherra Svíþjóðar er hallur undir Sovétríkin og hefur hrósað stjórn Gorbatsjovs í Sovétríkjunum fyrir varkárni í viðskiptum sínum við hina nýju stjórn í Litháen.

Utanríkisráðherra Svía var í haust búinn að segja, að það væri “minnihlutahópur öfgamanna”, sem síðan hefur unnið kosningar í Litháen og er þar við stjórnvöl. Hann er á sömu línu og Páll Pétursson þingflokksformaður, sem kallaði þetta fólk “mótþróalið”.

Utanríkisráðherra Svíþjóðar virðist hafa svipaða skoðun á forseta Litháen og hann hefur á utanríkisráðherra Danmerkur, sem hann hefur ráðizt að með fúkyrðum fyrir góð ráð í sambandi við Evrópubandalagið. Furðulegt er, að Svíar skuli geta notað ráðherrann.

Litháar gátu einna helzt vænzt stuðnings Norðurlanda, því að þau hafa ekki heimsveldishagsmuna að gæta og hafa löngum litið á Eystrasaltsríkin þrjú sem eins konar skjólstæðinga, er til greina geti komið að taka inn í veizlubandalag, sem heitir Norðurlandaráð.

Skemmst er frá því að segja, að Norðurlandabúar, með Svía í broddi fylkingar og Íslendinga í eftirdragi, hafa gersamlega brugðizt skyldum sínum við Litháa.

Jónas Kristjánsson

DV

Við þökkum ráð Dana

Greinar

Við eigum að taka vel eftir því, sem Uffe Ellemann-Jensen, utanríkisráðherra Dana, hefur sagt okkur um stöðu Norðurlanda gagnvart Evrópubandalaginu. Við eigum að gera það, þótt við séum ekki á þeim buxunum að ganga í bandalagið, eins og hann vill.

Ellemann-Jensen heldur fram, að viðræður Fríverzlunarsamtakanna við Evrópubandalagið gangi ekki eins vel og norrænir utanríkisráðherrar vilja vera láta. Er það raunar staðfesting á grun, sem áður hefur komið fram, meðal annars nokkrum sinnum í leiðara DV.

Við vitum af annarri reynslu, að Sten Andersson, utanríkisráðherra Svíþjóðar, hefur sérkennilegar skoðanir á utanríkismálum. Hann hefur reynzt Litháum þungur í skauti, meðal annars með yfirlýsingum um, að sjálfstæðissinnar séu öfgasinnaður minnihlutahópur.

Erfitt er að skilja fullyrðingar Anderssons, sem sumar hverjar eru studdar af Jóni Baldvin Hannibalssyni utanríkisráðherra, um, að Ellemann-Jensen sé að sá misklíð og klofningi á Norðurlöndum með klunnalegum afskiptum af viðkvæmu máli, og beri að afþakka slíkt.

Hér í DV og víðar hefur verið haldið fram, að við eigum að reyna að koma á tvíhliða viðræðum við Evrópubandalagið og einstök ríki innan þess. Þetta jafngildir ekki tillögu um að hætta viðræðum á vegum Fríverzlunarsamtakanna, eins og Jón Baldvin gefur í skyn.

Einnig er rangt, sem stundum er fullyrt, að Evrópubandalagið hafi bannað tvíhliða viðræður. Þeir, sem óska eftir viðræðum, fá yfirleitt viðræður, hvort sem er í viðskiptum milli fyrirtækja, ríkja eða samtaka. Við þurfum sjálf að gæta okkar fiskveiðihagsmuna.

Við verðum að viðurkenna, að Evrópubandalagið er orðið að öflugum segli. Útflutningsafurðir okkar fara í vaxandi mæli til ríkja innan þess, miklu frekar en til ríkja í Fríverzlunarsamtökunum og til Bandaríkjanna. Og Japan er of langt í burtu til að vera sambærilegt.

Austur-Evrópa beinir augum sínum að Evrópubandalaginu, en alls ekki að Fríverzlunarsamtökunum, þótt þau hafi stundum verið kölluð biðstofa bandalagsins. Fríverzlunarsamtökin eru að verða norrænn klúbbur, sem gagnast íslenzkum útflutningi ekki nógu vel.

Evrópubandalagið er engin fyrirmyndarstofnun. Það er verndarstofnun gamalla atvinnugreina og fyrirtækja í Evrópu gegn hagkvæmara atvinnulífi í Norður-Ameríku og Suðaustur-Asíu. Bezta lýsingin á bandalaginu er, að það sé risavaxið landbúnaðarráðuneyti.

Aðdráttarafl bandalagsins felst ekki í, að það sé að flestu leyti indælt, heldur stafar það af, að þjóðir í nágrenni þess vilja ólmar komast inn fyrir dyr. Það eru viðbrögð annarra þjóða, til dæmis hugsanlega Norðmanna, sem knýja okkur til að ræða við bandalagið.

Við höfum að mörgu leyti góðan viðskiptasamning við bandalagið, þótt saltfisktollar valdi okkur erfiðleikum. Við viljum gjarna geta haldið áfram að haga seglum eftir vindi og stunda gagnkvæma fríverzlun við önnur viðskiptaveldi, svo sem einkum Japan og Bandaríkin.

Bezt væri fyrir okkur að geta verið utan bandalaga í þjóðbraut siglinga og flugs milli hinna stóru viðskiptasegla heimsins og bjóða hér fríhöfn fyrir hvers konar vörur og þjónustu. En íslenzkir stjórnmálamenn eru því miður ekki nógu víðsýnir til að efla slíka sérstöðu.

Og raunar hefur í vetur verið meira vit í orðum Ellemann-Jensens heldur en orðum Andersons og Jóns Baldvins. Verið getur, að við eigum engra kosta völ.

Jónas Kristjánsson

DV

Óhentugt kapphlaup

Greinar

Hagsmunagæzlumenn kjördæma deila þessa dagana ákaft um, hver eigi að fá nýtt álver í sitt skaut. Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra hefur lagt sitt lóð á vogarskálina með því að benda á, að með degi hverjum aukist fylgi á Alþingi við álver í Eyjafirði.

Sá hængur er á, að Alþingi stjórnar ekki Atlantal. Það gera nokkrir erlendir forstjórar. Svíarnir í hópnum vilja hvergi byggja nema í Straumsvík, en Hollendingarnir og Bandaríkjamennirnir eru sagðir opnir fyrir fleiri kostum, þótt þeir vilji samt ekki tapa fé.

Sveitarstjórnarmenn hafa gengið á eftir Alumax, Gränges og Hoogovens með grasið í skónum. Þeir hafa jafnvel boðið fría höfn á kostnað útsvarsgreiðenda. Næsta skref verður, að þingmenn kjördæmanna heimta, að ríkið leggi fram fé til að hafa áhrif á staðarval.

Sumir velta fyrir sér að bjóðast til að slá af kröfum um mengunarvarnir. Það má telja eðlilegt framhald á örvæntingarfullri sölumennsku, sem felur í sér að telja erlendum forstjórum trú um, að í rokinu hér á landi þurfi ekki eins miklar mengunarvarnir og í útlöndum.

Landsvirkjun hefur tekið þátt í kapphlaupi óþolinmæðinnar og spillt samningsaðstöðu. Í haust voru fluttir til Búrfells vinnuskúrar til að undirbúa nýja virkjun Þjórsár. Samt var ekki búið að semja um neitt álver og þaðan af síður um neitt orkuverð til Landsvirkjunar.

Þyngsta undiraldan í hinu ósæmilega kapphlaupi við tímann er vandi iðnaðarráðherra og ríkisstjórnarinnar, sem vilja, að framkvæmdir við orkuver og álver verði í fullum gangi við næstu kosningar, svo að kjósendur verði ánægðir með góða þenslu og góða yfirvinnu.

Hagfræðinga greinir á um gildi álvers. Flestir eru þó sammála um, að álver sé almennt séð gagnleg viðbót við þjóðarbúið, ef rétt er á málum haldið og menn leika ekki af sér í tímahraki. Gagnsemi nýs álvers fer mjög eftir orkuverði, staðarvali og mengunarvörnum.

Því miður hefur ekkert af þessu enn verið ákveðið. Þess vegna er ekkert hægt að fullyrða um gagnsemi álversins, sem Alumax, Gränges og Hoogoven hafa samið um að reisa hér. Hins vegar eru ástæður til að hafa áhyggjur af, að útkoman verði ekki nógu hagstæð.

Ef hagsmunaaðilar í sveitarstjórnum og á Alþingi leiðast til að verja skattfé til að hafa áhrif á staðarval, gerir það dæmið óhagstæðara fyrir þjóðarbúið í heild. Dæmi um slíkt er tilboð um að búa til höfn, sem kostar peninga og mesta peninga, ef þeir eru teknir að láni.

Ef Landsvirkjun er mjög óðfús til framkvæmda, hefur það slæm áhrif á kraft hennar til að ná beztu samningum um verð orkunnar til álversins. Ótímabær flutningur vinnuskúra er dæmi um, að fyrirtækið er búið að ákveða, að samið verði, þótt ekki sé vitað um verð.

Ef ríkisstjórn og aðrir innlendir málsaðilar vilja telja sér trú um, að ekki þurfi að halda uppi mengunarvörnum í stíl við nútímaþekkingu, og ímynda sér, að ófullkomnar og gamlar mengunarvarnir Ísals geti verið fordæmi, er líklegt, að við verðum fyrir miklum skaða.

Forsætisráðherra hefur haft sig mjög í frammi í þeim hópi, sem vill selja útlendum ferðamönnum ímynd af Íslandi sem óspilltu landi með hreinu og tæru lofti. Lélegir mengunarsamningar við nýtt álver eru ekki til þess farnir að færa raunveruna nær slíkum draumum.

Sérstaklega er mikilvægt að vekja athygli á, að vothreinsibúnað þarf við nýtt álver, þótt það hafi ekki talizt nauðsynlegt á sínum tíma, þegar samið var um Ísal.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestræn ábyrgð á innrás

Greinar

Ísland hefði átt að viðurkenna Litháen sem sjálfstætt og fullvalda ríki í síðustu viku eins og hvatt var til í leiðara þessa blaðs 15. marz. Það hefði verið örlítið lóð á vogarskálina gegn því, að einræðisherrann Gorbatsjov legði til atlögu gegn Litháen og vestrænu almannaáliti.

Ísland hefði ennfremur átt að hvetja til þess á fundi utanríkisráðherra Norðurlanda, að þau viðurkenndu öll sjálfstæði og fullveldi Litháens, svo sem hvatt var til í DV í ofangreindum leiðara. Eitt sér er Ísland ekki þungt lóð, en Norðurlöndin öll eru sameiginlega nokkuð þung.

En möppudýr Norðurlanda eru ófær um að líta upp úr marklausu pappírsflóði svokallaðrar norrænnar samvinnu. Tregða þessara ríkja við að styðja Litháen, þegar á reyndi, hefur hert Gorbatsjov upp í að láta Rauða herinn taka Litháen herskildi ennþá einu sinni.

Ekkert vestrænt ríki viðurkenndi Litháen sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Með því að neita ríkinu um viðurkenningu, voru Vesturlönd að segja, að þau álitu í raun, að Litháen væri hluti af Sovétríkjunum og yrði að semja sig út úr þeim, svo sem Gorbatsjov hafði lagt til.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að Vesturlönd sviku Litháen og sannfærðu Gorbatsjov um, að almenningsálitið á Vesturlöndum væri ekki markverður þröskuldur í vegi þess, að hann fengi vilja sínum framgengt. Vesturlönd bera ábyrgð á innrásinni.

Svo geta heybrækur Vesturlanda spurt sig, hvað hefði kostað að gera það, sem skyldan bauð. Hefði Gorbatsjov getað refsað Íslandi á einhvern hátt fyrir að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Litháens? Hefði hann getað refsað Norðurlöndum? Eða kannski refsað Bandaríkjunum?

Staðreyndin er, að Gorbatsjov getur ekki refsað neinum. Hann er gjaldþrota einræðisherra, sem situr á toppi gjaldþrota kommúnistaflokks við að stjórna gjaldþrota heimsveldisflaki. Hann á ekki fyrir eldsneyti á skriðdrekana, sem hann hefur sent inn í Vilnius.

Merkilegt er, hve mikla áherzlu stjórnmálaleiðtogar Vesturlanda hafa lagt á að styðja við bakið á Gorbatsjov, eins og hann sé eina ljósið í sovétmyrkrinu. Það var þó erkióvinur hans, Ligatsjev, sem sagði, að ekki kæmi til greina að beita skriðdrekum í Litháen.

Gorbatsjov er í raun enginn lykilmaður framfara í Sovétríkjunum. Flokksforustan hefur ráðið hann til að bjarga því sem bjargað verður úr gjaldþrotinu. Helztu menn kommúnistaflokksins vita, að kerfi þeirra er hrunið, og þeir eru að reyna að bjarga eigin skinni.

Engin ástæða er fyrir Bandaríkjastjórn að bæta Gorbatsjov við fjölmenna hirð ógæfulegra skjólstæðinga sinna úti í heimi. Nóg ætti að vera fyrir Bush Bandaríkjaforseta að vera með ráðamenn Kína, Pakistan, Írak og annan hvern bófa í Suður-Ameríku á bakinu.

Bandaríkin studdu Somoza í Nicaragua á sínum tíma, af því að hann var “okkar tíkarsonur” eins og það var orðað. Slíkir synir eru orðnir nokkuð margir á síðustu áratugum, svo að segja má, að mátulegt sé, að einræðisherrann Gorbatsjov bætist í röðina, aftan við Deng.

Okkur á Íslandi nægir þó að líta í eigin barm. Okkar sívirða er að leyfa möppudýrum okkar að fara á kostum í þeirri hundalógík, að Ísland þurfi ekki að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Litháens árið 1990, af því að Danmörk hafi ekki viðurkennt innlimunina árið 1940.

Aldrei er þó of seint að gera það, sem skyldan býður og möppudýrin banna. Þess vegna eigum við strax í dag að viðurkenna sjálfstæði og fullveldi Litháens.

Jónas Kristjánsson

DV

Kærulausir klisjungar

Greinar

Ein sérkennilegasta ímyndun Íslendinga er, að umgengni þeirra við land sitt sé með slíkum ágætum, að forsætisráðherra geti grínlaust skipað hverja nefndina á fætur annarri til að undirbúa kynningu Íslands út á við sem hins hreina, heilbrigða og óspillta lands.

Í nýlegri könnun kom þó í ljós, að skolpmengun í fjörum er rúmlega tvöfalt meiri á Íslandi en í Evrópu, þótt þar séu miklu fleiri íbúar um hvern metra af fjöru. Hér er skolpi veitt óhreinsuðu niður í fjöru eða rétt niður fyrir fjöruborð, rottum og mávum og veirum að leik.

Í Reykjavík er skolpið volgt, þegar það kemur út í sjó. Það flýtur því ofan á sjónum og rýkur síðan á land aftur, ef áttin er óhagstæð. Skolpið skilur eftir hvíta húð á gluggarúðum borgarinnar. Og áratugum saman höfum við horft kærulaus á brúnan lit mengaðrar Tjarnar.

Við erum nokkrum áratugum á eftir nágrannaþjóðum í sorphirðu. Dæmi eru um, að sorp sé nýtt af mávi og hrafni í nokkra mánuði, áður en það er urðað. Brennsla sorps er þar á ofan mikill mengunarvaldur, því að reykurinn er fullur eiturefna og leggst oft yfir byggð.

Erlendis er sorp flokkað, baggað og brennt í ofnum. Á Reykjavíkursvæðinu verður brátt farið að bagga sorp, en síðan verður það urðað, í stað þess að brenna það í ofnum. Framför er þó í bögguninni eins og í ráðagerðum um að lengja skolpræsi langt niður fyrir sjávarmál.

Reykvíkingar hafa sæmilegt vatn, en víða annars staðar er vatn mun lakara en í iðnaðarlöndum Evrópu. Víðast hvar er vatn ekki fengið úr borholum, heldur úr lindum, brunnum eða frá yfirborðsvatni, sem er lélegt samkvæmt mælingum Hollustuverndar ríkisins.

7.900 manns búa hér við yfirborðsvatn. Um helmingur allra sýna úr slíku vatni er gallaður eða ónothæfur. 6.400 manns búa við brunnvatn, sem er lítið skárra. Og 80.000 manns búa við óhreinsað lindarvatn, þar sem fimmta hvert sýni bendir til gallaðs eða ónothæfs vatns.

Sem dæmi um ástandið má nefna, að á Ísafirði er fimmfalt til tífalt meira af saurgerlum og kólígerlum en leyfilegt er. Slíkt er náttúrlega afleitt, einnig fyrir útlendingana, sem á að glepja hingað á forsendum mengunarleysis. Við eigum á hættu, að upp um okkur komist.

Þá hafa vatnsból á Suðurnesjum verið að eyðileggjast vegna olíumengunar af Keflavíkurvelli. Og í Hafnarfirði eru menn svo sljóir fyrir þessu, að iðnaðarsvæði hefur verið skipulagt ofan á stærsta straumi grunnvatns á Íslandi. Þar er meðal annars ráðgerð malbikunarstöð.

Ekki er nóg með, að fjörur Íslands, sorphaugar og vatn sé afar mengað í samanburði við iðnaðarríki í Evrópu, heldur er loftmengun hér einnig yfir hættumörkum. Við ætlumst til, að vindar blási burt eitri frá álverum. Og við höfum engar reglur um útblástur bíla.

Við virðumst ekki gera okkur neina grein fyrir hraklegri frammistöðu okkar á flestum sviðum umhverfismála. Við virðumst hafa ákveðið í eitt skipti fyrir öll, að hér sé hreint og fagurt land ­ og að ekki þurfi síðan að hafa orð um það meira. Andvaraleysið er almennt.

Þar á ofan er meirihluti þjóðarinnar sáttur við, að hér sé stundað, á kostnað ríkissjóðs, stórfellt sauðfjárhald, sem eyðir um 40 ferkílómetrum lands á ári. Það samsvarar flatarmáli byggðarinnar í Reykjavík. Ofbeitin hér á landi er í stíl við aumustu lönd Afríku.

Forsætisráðherra hefur skipað tvær nefndir til að búa til af landinu ímynd, sem stenzt engan veginn, því að í umhverfismálum erum við kærulausir klisjungar.

Jónas Kristjánsson

DV