Greinar

“Umsamin úrslit”

Greinar

“Fyrirfram umsamin úrslit gætu raskazt” segir í grein í Alþýðublaðinu, þar sem lýst er áhyggjum aðstandenda nýja listans í Reykjavík út af opnu prófkjöri, sem verður 7.­8. apríl vegna borgarstjórnarkosninganna 26. maí. Er áhyggjunum rækilega lýst í greininni.

Davíð Oddsson borgarstjóri hefur leyst vandamál af þessu tagi á miklu þægilegri hátt. Hann hefur alls ekkert prófkjör, hvorki opið né lokað. Hann hefur sumpart raðað umhverfis sig sömu jábræðrunum og fyrir voru í borgarstjórn og sumpart sams konar jábræðrum.

Auðvitað hefðu Alþýðuflokkurinn og alþýðubandalagsfélagið Birting getað haft þann hátt á, að úrskurða í þrjú efstu sætin þau Bjarna P. Magnússon, Kristínu Á. Ólafsdóttur og Ólínu Þorvarðardóttur, hér talin í stafrófsröð til að draga úr líkum á misskilningi.

Til að spara langvinnar þrætur um misjafnt eignarhald þremenninganna á væntanlegu fylgi hins nýja framboðslista, hefði mátt draga nöfn þeirra úr hatti og raða á listann eftir því. Þá hefði enginn getað kvartað um baktjaldamakk og listinn orðið snyrtilegur að ofan.

Alþýðublaðið hefur sem fyrr segir miklar áhyggjur af þessum lista, sem blaðið stendur óbeint að. Í fréttaskýringunni eru rakið ýmislegt, sem gæti farið úrskeiðis, úr því að stjórnendur listans ákváðu í lýðræðiskasti að láta Reykvíkinga raða á hann í opnu prófkjöri.

Í fyrsta lagi gæti þátttakan orðið of mikil. Um það segir blaðið: “… er þó hugsanlegt, að eitthvað gæti farið úrskeiðis og niðurstöðurnar orðið aðrar en þær, sem um var samið”. Þar á ofan geti sem hægast farið svo, “að aðstandendur prófkjörsins missi tökin með öllu”.

Í öðru lagi gæti þátttakan orðið of lítil. Um það segir blaðið, að hægt sé “að hugsa sér, að fyrirfram umsamin úrslit gætu raskazt”. Það gæti til dæmis gerzt á þann hátt, “að innan annars hvors armsins yrði á síðustu stundu tekin ákvörðun um að rjúfa samkomulagið”.

Alþýðublaðið telur, að stjórnendur prófkjörsins muni á næstu dögum reyna að ákveða úrslit þess. Orðrétt segir blaðið: “Á næstu dögum verður væntanlega reynt að ná óformlegu samkomulagi milli alþýðuflokksmanna og birtingarfólksins um annað og þriðja sætið”,

Eftir allan þennan lestur er óhjákvæmilegt, að spurt sé, hvort ekki hefði verið vandaminna, að Alþýðuflokkurinn og Birting hefðu samið um málið og varpað hlutkesti í ágreiningsefnum án þess að klæða málið innan í opið prófkjör með fyrirfram ákveðnum úrslitum.

Greinin í Alþýðublaðinu sýnir vel, hvílík vandræði fylgja prófkjörum. Þau geta hæglega leitt til annarrar niðurstöðu en flokkseigendur telja heppilega. Hjá sjálfstæðismönnum hefði til dæmis getað risið upp öflugur eftirmaður Davíðs án tilverknaðar flokkseigenda.

Líklegt er, að flokkseigendur í Sjálfstæðisflokknum stefni að innreið Davíðs í landsmálin á næsta kjörtímabili, kjöri hans til Alþingis og síðan beint í forsætisráðherrastólinn. Þá er betra að geta í þröngum hópi valið eftirmann án þess að prófkjörsljón standi í vegi.

Afnám prófkjörs í Sjálfstæðisflokki og flókin vandræði aðstandenda hins nýja lista við framkvæmd prófkjörs sýna vel, hve erfitt eigendur flokka og lista eiga með að sætta sig við þá tilhugsun, að eitthvert fólk úti í bæ hafi áhrif á, hverjir komist til stjórnmálavalda.

Það heitir, að mál “,fari úrskeiðis”, menn “missi tökin” og úrslit “raskist”, enda sé hugsanlegt, að “óformlegt samkomulag” um “umsamin úrslit” verði “rofið”.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðshyggja í austri

Greinar

Kosningaúrslitin í Austur-Þýzkalandi eru öðrum þræði eðlilegt framhald kosningaúrslita í öðrum löndum Austur-Evrópu í vetur. Eins og fyrri úrslit í austri fela þau í sér miklu meiri sveiflu til hægri en menn gerðu sér grein fyrir og spáð hafði verið í skoðanakönnunum.

Í ljós er að koma, að ekki er með skoðanakönnunum unnt að spá úrslitum frjálsra kosninga í Austur-Evrópu og þriðja heiminum með sömu nákvæmni og á Vesturlöndum. Í slíkum ríkjum eru hinir spurðu oft hræddir við að láta álit sitt í ljós af ótta við leynilögreglu.

Þannig urðu úrslitin í Nicaragua um daginn jafnóvænt og úrslitin urðu nú í Austur-Þýzkalandi. Í slíkum ríkjum óttans eru menn varir um sig, segja fátt við ókunnuga og bíða færis í kjörklefanum, þegar þeir fá tækifæri til að tjá hug sinn í frjálsum kosningum.

Ef við höfum hliðsjón af þessari staðreynd, skiljum við betur atburðarásina í Austur-Evrópu. Allir létu blekkjast af skoðanakönnunum þar eystra, þar á meðal valdhafarnir. Þeir töldu sér óhætt að leyfa kosningar, af því að þeir ofmátu fylgi sitt stórlega.

Pólska kommúnista renndi ekki grun í, að Samstaða mundi rúlla þeim upp í kosningum. Tékkneskir kommúnistar ímynduðu sér, að nýfengin sjálfstæðisstefna þeirra mundi skila þeirra manni í forsetaembætti. Þeir ætluðu að ríða sjálfir ölduna til hægri.

En Mazowiecki varð forsætisráðherra í Póllandi og Havel varð forseti í Tékkóslóvakíu. Í báðum þessum löndum eru hægri sinnaðir fjármálaráðherrar við peningavöld. Þeir eru svo hægri sinnaðir, að hér á landi væru þeir orðaðir við hina umdeildu frjálshyggju.

Lengi héldu menn, að Austur-Evrópa væri að feta einhvern óskilgreindan milliveg austræns ríkisbúskapar og vestræns markaðsbúskapar, eins konar sænska félagshyggju. Því hefur jafnvel verið haldið fram, að þar mundi rísa svokallaður “sannur” sósíalismi.

Þetta hefur reynzt misskilningur. Austur-Evrópubúar vilja ekki sjá neitt, sem lyktar af sósíalisma. Þeir eru búnir að vera undirokaðir af honum áratugum saman og vilja núna steypa sér út í hreina markaðshyggju. Þeir vilja fara að græða peninga og það sem fyrst.

Langvinnar og þvingaðar ýkjur á einn veginn leiða um síðir til, að andstæðan fær útrás, þegar hlekkir bresta. Þesan leiðir til antiþesu. Því má búast við, að stjórnmál, og þá einkum stjórn fjármála og efnahags, verði afar hægri sinnuð til aldamóta í Austur-Evrópu.

Í Austur-Þýzkalandi kom greinilega í ljós um helgina, að kjósendur höfðu ekki miklar áhyggjur af missi ýmiss konar félagslegrar velferðar, svo sem auðvelds aðgangs að barnaheimilum og skólagöngu á ríkiskostnað. Þeir einblíndu á tækifæri markaðsbúskapar.

Þessi áherzla á framleiðslu verðmæta með markaðshyggju í stað áherzlu á dreifingu verðmæta með félagshyggju mun vafalítið hjálpa Austur-Evrópu til að komast á efnahagslegt flug og gera síðar kleifa félagshyggju á öðrum og auðugri grunni en nú er í þessum löndum.

Fyrstu árin verður auðveldast fyrir Austur-Evrópu að ráðast með ódýrar landbúnaðarvörur inn á vesturevrópskan og alþjóðlegan markað. Samhliða verður óhjákvæmilegt, að Vestur-Evrópa, og þá einkum Evrópubandalagið, neyðist til að efla samstarf við austrið.

Sameinað Þýzkaland verður í brennidepli þessarar hægri sveiflu. Þaðan og frá Austur-Evrópu mun á næstu árum streyma elfur eindreginnar markaðshyggju.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættulegt starf

Greinar

Farzad Bazoft var duglegur blaðamaður frá brezka vikublaðinu Observer. Hann var hengdur á fimmtudaginn í Írak. Honum var fyrst gefið að sök að hafa njósnað fyrir Bretland og síðan sakaður um að hafa njósnað fyrir Ísrael. Réttarhöldin voru írakskur skrípaleikur.

Bazoft var einn af hundruðum atvinnumanna, sem sjá um, að Vesturlandabúar fái sæmilega áreiðanlegar fréttir úr öðrum heimshlutum, þar sem yfirvöld reyna að halda öllu lokuðu, svo að stjórnarglæpir komi síður í ljós. Þetta er hættulegt starf, svo sem dæmin sanna.

Írak er nálægt botni ríkja heims. Mannréttindasam tökin Amnesty hafa upplýst, að þar í landi eru fimm mánaða gömul börn tekin til fanga, pyntuð og drepin til að fá foreldra til að játa eða til að knýja þá úr felum. Smástúlkum er nauðgað og skólabörn skotin á torgum.

Stjórnin í Írak hefur beitt eiturgasi gegn þorpum Kúrda, sem eru minnihlutahópur í landinu. Þessi aðferð er svo hræðileg, að ekki einu sinni nazistar þorðu að beita henni í síðari heimsstyrjöldinni. Enda er Saddam Hussein forseti eitt mesta óargadýr heimsins núna.

Ástandið í Írak hefur lengi verið verra en ástandið í Íran, svo sem vel kom í ljós í styrjöld þessara ríkja. Satt að segja er furðulegt, að nokkurt vestrænt ríki skuli hafa stjórnmálasamband við Írak og leyfa sendimönnum sínum að sitja til borðs með fulltrúm Saddam Hussein.

Blaðamenn fara til landa á borð við Írak til að segja Vesturlandabúum fréttir af því, sem þar er að gerast. Farzad Bazoft var handtekinn á bannsvæði við verksmiðju, sem framleiðir eiturgas. Samanlögð vinna margra blaðamanna hefur upplýst svívirðuna í Írak.

Víðar um heim er hættulegt að vera blaðamaður. Í mörgum ríkjum íslamstrúar eru stjórnvöld afar grimm. Einna verst er þó ástandið í kaþólsku Ameríku. Þar láta árlega margir blaðamenn lífið vegna frétta sinna um stjórnmál, spillingu, hernað og eiturlyf.

Í Kólumbíu einni hafa 40 blaðamenn verið myrtir á aðeins tveimur árum, flestir þeirra í höfuðborg eiturlyfjanna, Medellín. Í flestum tilvikum næst ekki í morðingjana, jafnvel þótt ríkisstjórn Virgilio Barco segist vera að reyna að ráða niðurlögum eiturlyfjabófanna.

Ástandið er líka mjög slæmt í Perú. Þar komu grímuklæddir bófar úr stjórnarhernum á heimili Juvenal Farfán Anaya og skutu hann og alla fjölskyldu hans til bana. Í Mexíkó láta stjórnvöld oft drepa blaðamenn, sem hafa skrifað um spillingu og eitursölu stjórnvalda.

Herinn í El Salvador hefur lengi haft blaðamenn á heilanum og lét í fyrra myrða nokkra. Ástandið hefur versnað síðan kristilegir demókratar náðu völdum í forsetakosningum í fyrra. Geðveikur morðingi að nafni d’Aubuisson ræður flestu í her og stjórn landsins.

Blaðamenn, sem reyna að segja frá hlutum, sem stjórnvöld vilja ekki, að fréttist, eru ofsóttir í um það bil 80 ríkjum jarðar, samkvæmt nýjustu skránni frá Alþjóðastofnun ritstjóra, IPI. Ástandið fer víðast hvar versnandi, nema í Austur-Evrópu, sem er á frelsisleið.

Þrátt fyrir ofsóknirnar hefur blaðamönnum víða tekizt að draga upp mynd af hinum hræðilegu leyndarmálum stjórnvalda. Óttinn við þessa mynd veldur því, að stjórnvöld í þriðja heiminum þora ekki að fara eins illa með almenning og þau mundu annars hiklaust gera.

Farzad Bazoft er einn hinna hugrökku manna, sem hafa látið lífið, svo að blaðalesendur geti gert sér grein fyrir, hvað er að gerast í heiminum umhverfis þá.

Jónas Kristjánsson

DV

Viðurkennum Litháen

Greinar

Íslenzka ríkinu væri sómi að því að verða fyrsta ríkið til að viðurkenna Litháen formlega sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Slíkt mundi sýna landsfeðrum annarra ríkja, að formleg viðurkenning væri framkvæmanlegur og raunar einnig skynsamlegur leikur í stöðunni.

Skiljanlegt er, að Bandaríkin vilji ekki strax viðurkenna Litháen, þar sem þau eru komin í óformlegt bandalag við Sovétríkin um að liðka sem mest fyrir valdsöfnun Gorbatsjovs í Kreml og vilja ekki gera neitt, sem hugsanlega gæti eflt harðlínumenn gegn honum.

Hins vegar er marklaust, þegar talsmenn Bandaríkjanna og nokkurra annarra ríkja, svo sem Frakklands og Danmerkur, afsaka stjórnir sínar með, að þessi ríki hafi á sínum tíma ekki viðurkennt innlimun Litháens í Sovétríkin og þurfi því ekki að viðurkenna fullveldi nú.

Slík röksemdafærsla heitir hundalógík og er í þessu tilviki notuð til að reyna að breiða yfir þá staðreynd, að Vesturlönd virðast ófær um að taka siðferðilega rétt á málum Litháa, sem eiga alveg sama rétt til sjálfstæðis og fullveldis og Pólverjar, Tékkar og Ungverjar.

Ef ríki, sem á siðferðilegan og sögulegan rétt á sjálfstæði og fullveldi, lýsir því formlega yfir, ber öllum þjóðum, sem viðurkenna slíkan rétt, að senda formlega yfirlýsingu um viðurkenningu á sjálfstæði og fullveldi þess. Allt annað er orðhengilsháttur og aumingjaskapur.

Flest ríki Vestur-Evrópu hafa engra þeirra ímynduðu heimspólitísku hagsmuna að gæta, að landsfeður þeirra þurfi að hafa gott veður í kringum Gorbatsjov. Sérstaklega gildir þetta um Norðurlandabúa, sem hafa löngum litið á sig sem siðapostula og prédikara í umheiminum.

Raunar ættu Svíar og Finnar að hafa frumkvæði að formlegri viðurkenningu Norðurlanda á sjálfstæði og fullveldi Litháens, því að þeir eru nágrannar Litháa við Eystrasalt. Fundur utanríkisráðherra Norðurlanda í Svíþjóð í gær var kjörið tækifæri til slíks.

En því er eins farið um utanríkisráðherrafundi Norðurlanda og um Norðurlandaráð og um norræna samvinnu yfirleitt, að þetta er allt orðið í meira lagi þreytulegt og innihaldslítið pappírsflóð, ófært um að mæta óvæntum og sögulegum viðburðum í heimspólitíkinni.

Léttvæg er röksemdin um, að ekki megi íþyngja Gorbatsjov í máli þessu. Helzti leiðtogi harðlínumanna í Kreml, Jegor Ligatsjev, hefur sagt berum orðum, að skriðdrekar komi ekki að gagni í Litháen, heldur verði að fara pólitískar leiðir til að komast að niðurstöðu.

Ef Ísland eitt eða Norðurlönd öll gera það, sem allir vita, að er siðferðilega rétt, og viðurkenna formlega sjálfstæði og fullveldi Litháens, gerist ekki annað en, að bæði mjúklínumenn og harðlínumenn í Kreml sannfærast betur um, að of erfitt sé að hamla gegn málinu.

Litháar hafa haldið mjög vel á sínum málum. Algert samkomulag er milli fullveldisflokksins, sem er í meirihluta á þinginu, og kommúnistaflokksins, sem varð undir í kosningunum, um að halda á málum eins og gert hefur verið. Þingið er einróma í afstöðu sinni.

Engar fjöldagöngur eða hátíðahöld voru í tilefni hinnar sögulegu niðurstöðu þingsins í Litháen. Forustumenn landsins gæta sín að búa ekki til skilyrði fyrir íhlutun Rauða hersins, svo sem varð í Azerbajdzhan, þar sem trúarofsi hljóp með sjálfstæðismenn á villigötur.

Smáríki eins og Ísland hefur lítil tækifæri til að láta gott af sér leiða í umheiminum og veraldarsögunni. Formleg viðurkenning Litháens er slíkt tækifæri.

Jónas Kristjánsson

DV

Við töpum og töpum

Greinar

“Það er alveg ljóst, að við erum enn að tapa í stríðinu við gróðureyðinguna,” sagði Ingvi Þorsteinsson, deildarstjóri landnýtingardeildar Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, í viðtali við DV á laugardaginn. Hann sagði, í viðtalinu, að landeyðingin væri “hrikaleg”.

Talið er, að nú sé eftir um helmingur af gróðurlendinu, sem var hér við landnám. Fyrir nokkrum árum var gizkað á, að árlega töpuðust 1000 hektarar gróðurs. Það er heildartalan, þegar búið er að draga frá landvinninga, sem óneitanlega má sjá á nokkrum stöðum.

Ingvi benti þó á, að víða gengi hraðar að bæta landið en búist hefði verið við og munaði miklu, þegar létti af beit. Nefndi hann sérstaklega þróun gróðurs í Skaftafellssýslum. Hann lagði áherzlu á, að þetta sýndi, hvað sauðfjárbeitin hefur mikil áhrif á gróðurfar.

Rannsóknir á jarðvegi hafa staðfest orð hinna gömlu sagna, að Ísland hafi verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Leifar kolagerðar frá landnámsöld hafa fundizt á Kili, svo að gera má ráð fyrir, að kjarr hafi náð upp í fjöll og að landshlutarnir hafi verið grónir saman yfir Kjöl.

Áður en landnámsmenn komu til skjalanna, voru náttúruöflin að verki í landinu. Eldgos voru ekki fátíðari fyrir landnám en eftir. Samt draup smjör af hverju strái í upphafi landnáms. Ekki er því hægt að kenna náttúruöflunum um, hvernig komið er fyrir landinu.

Með landnámsmönnum kom sauðféð og öxin. Fram á þessa öld var eldiviðartaka mikill þáttur í landeyðingunni, en á tuttugustu öld hefur sauðféð verið að mestu eitt um hituna. Sums staðar er ástandið orðið svo slæmt, að land heldur áfram að fjúka, þótt sauðfé hverfi.

Brýnasta umhverfisverndarmál Íslendinga er að friða afréttir á viðkvæmu móbergssvæði landsins fyrir ágangi sauðfjár. Þetta eru afréttir Gullbringusýslu, Árnessýslu, Rangárvallasýslu og Þingeyjarsýslna og hluti afrétta í ýmsum öðrum sýslum, einkum fyrir norðan Kjöl.

Svo langt eigum við í land, að meirihluti þjóðarinnar telur eðlilegt, að skattgreiðendur og neytendur verji árlega um fimmtán milljörðum króna til að viðhalda ofbeit í landinu, svo að allt landið megi haldast í byggð, eins og sagt er titrandi rómi á hátíðastund.

Svo langt eigum við í land, að sveitarstjórnir á Reykjanessvæðinu nota ekki heimild til að banna lausagöngu búfjár. Í staðinn er ætlazt til, að ríkið láti girða 50 kílómetra leið fyrir 25 milljónir króna, svo að frístundabændur geti haft kindur á beit á þessu illa leikna landi.

Svo langt eigum við í land, að Landgræðsla ríkisins hleypir á vorin sauðfé Mývetninga á gróðurnálar afréttarinnar milli vatns og Jökulsár, þótt landgræðslunni hafi verið trúað fyrir þessu svæði. Þannig er landinu einnig nauðgað af þeim, sem ráðnir eru því til verndar.

Það er engin furða, þótt forsætisráðherra okkar þykist geta barið sér á brjóst og skipað nefndir, sem eiga að undirbúa forustu Íslands í alheimssamtökum umhverfisverndar, þar á meðal að skipuleggja ferðir útlendinga til að skoða ómengað land norður í hafi.

Forsætisráðherra ímyndar sér bara eins og meirihluti þjóðarinnar, að hún sé ekki með allt á hælunum í umhverfismálum. Hann og meirihlutinn gera sér enga grein fyrir, að ástandið er svipað hér og víða í Afríku, þar sem ofbeit eyðir landi með sama hraða og hér.

Nær er að efna til hópferða útlendra til að skoða þjóðarheimskuna, sem felst í að verja 15 milljörðum til viðhalds búskap, sem er að fara með landið til fjandans.

Jónas Kristjánsson

DV

“Fullunnið” “hráefni”

Greinar

Íslendingar hafa almennt mjög sérkennilegt verðmætamat í fisksölu. Í augum mikils meirihluta þjóðarinnar er fiskur því verðmeiri sem meira er fyrir honum haft í vinnslustöðvum. Það heitir, að fiskurinn verði að “fullunninni” vöru, sem sé merkari en “hráefni”.

Þeir, sem vilja miða verðmætamatið við verðið, sem fæst fyrir fiskinn í útlöndum, fá litla sem enga áheyrn þjóðarinnar. Sama er um þá, sem reyna að segja fólki, að bezt sé að fá sem hæst verð með sem minnstri fyrirhöfn, því að það gefi þjóðinni bezt vinnsluvirði.

Ekkert getur rótað þeirri bjargföstu sannfæringu þjóðarinnar, að “fullunnin” vara sé eftirsóknarverðari en “hráefni”, jafnvel þótt hið síðarnefnda sé betri matur og seljist útlendingum á hærra verði. Sannfæringu þessa má daglega sjá hjá fólki, sem kemur fram í fjölmiðlum.

Klisjuburðarmenn, sem telja “fullunna” vöru göfugri en “hráefni”, mundu samt margir hverjir ekki láta bjóða sér “fullunna” vöru í fiskbúð. Þeir vilja nýja ýsu, það er að segja “hráefni” og engar refjar. Ýsuflökin renna út í búðum eins og heitar lummur, en freðfiskurinn ekki.

Nú er okkar einræðishneigði sjávarútvegsráðherra beinlínis búinn að banna, að fersk ýsuflök séu seld úr landi. Hann segist gera þetta til að varðveita góðan orðstír íslenzkra fiskafurða. Undir þetta sjónarmið taka sérfræðingar í rannsóknastofnunum sjávarútvegs.

Ekkert þýðir að segja, að fersku ýsuflökin séu verðmæt vara, sem seljist í útlöndum á hærra verði en margs konar fiskur, sem hefur runnið um færibönd og vélar frystihúsa. Sjávarútvegsráðherra og fiskaldursfræðingar hans hafa ekki áhuga á slíku verðmætamati.

Engu máli skiptir, þótt DV hafi upplýst, að einræðisherra sjávarútvegs setti bannið að ósk einokunarstofnunar. Það hefur þegar verið játað, að Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda bað ráðherra um bannið til að reyna að ná bannfiskinum í saltfiskverkun.

Ráðherra taldi brýnt að búa til aukna fyrirhöfn í framleiðslu “fullunninnar” vöru til að hindra, að “hráefni” væri selt úr landi á 300 krónur kílóið. Ekki er vitað, að neinn hamagangur í fiskvinnslustöðvum geti komið verði á fiskkílói upp í annað eins verð.

Gaman væri, að ráðherra og geymsluþolsfræðingar hans öfluðu sér upplýsinga um, hvílíkir sjálfspyndingamenn það hljóti að vera í útlöndum, sem vilja kaupa á 300 krónur kílóið af fiski, sem ráðherra og öldrunarfræðingarnir telja stórlega varasaman fyrir elli sakir!

Þetta er auðvitað sami ráðherrann og er sífellt að reyna að bregða fæti fyrir flutning á öðrum ferskfiski til útlanda. Í þessari viku hefur verðið á slíkum fiski frá Íslandi verið að meðaltali í Bretlandi 133 krónur fyrir kílóið af þorski og 164 krónur fyrir kílóið af ýsu.

Mikill meirihluti þjóðarinnar er sammála ráðherra sínum um, að betra sé að fá lágt verð fyrir fisk í útlöndum, svo framarlega sem fólk fái vinnu í fiskvinnslustöðvum við að breyta dýru “hráefni” í “fullunna” vöru ódýra. Fólk vill einfaldlega vernda vinnuafl og einokun.

Þegar þjóð er svona gersamlega lokuð fyrir verðmætamati markaðshyggjunnar, er ekki við öðru að búast en hún styðji ráðherra, sem vill skipuleggja allan sjávarútveg að ofan og frá miðju. Hún styður útflutningsbann, útflutningshöft, kvóta og “fullvinnslu”.

Ofanstýrð þjóð, sem styður einræðishneigða ráðherra til stjórnvaldsaðgerða af slíku tagi, er dæmd til að magna fátækt sína og dragast aftur úr markaðshyggjuþjóðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofanstjórn tekst ekki

Greinar

Nýjustu spár um hagvöxt í ríku löndunum, sem sitja í Efnahags- og þróunarstofnuninni, benda til, að Ísland sé komið í varanlegan vítahring og mundi dragast ört aftur úr öðrum aðildarlöndum á síðasta áratug þessarar aldar, jafnvel þótt linni kreppunni, sem nú ríkir hér.

Spáð er, að hagvöxtur iðnríkjanna muni nema um 3% árlega til aldamóta. Hér er hins vegar samdráttur. Ef hagvöxtur byrjar að nýju hér á landi, er reiknað með, að hann verði um 1,6%. Á heilum áratug leiðir þessi munur okkar og nágrannanna til breiðrar gjár.

Þetta er okkur sjálfum að kenna. Við höfum ekki lagt traustan grunn að lífskjörum okkar, heldur byggjum á tveimur nýfengnum auðlindum, sem við höfum þegar nýtt. Önnur auðlindin er stækkun fiskveiðilögsögunnar og hin er stóraukin atvinnuþátttaka íslenzkra kvenna.

Með stækkun fiskveiðilögsögunnar náðum við í okkar hendur nokkurn veginn öllum afla á Íslandsmiðum, þar á meðal öllum hinum mikla afla, sem brezkir togarar höfðu sótt hingað. Um leið náðum við tökum á að skammta afla, svo að fiskistofnar hafa ekki hrunið.

Við vorum lengi eftirbátar nágranna okkar í þátttöku kvenna í atvinnulífinu. Á skömmum tíma höfum við náð svipaðri stöðu og aðrar auðþjóðir á því sviði. Þessu hefur fylgt mikill hagvöxtur, sem stöðvast, þegar árangur hefur náðst, alveg eins og við stækkun lögsögunnar.

Um leið höfum við látið undir höfuð leggjast að leggja grundvöll að nýjum atriðum, sem geti tekið við af stækkun fiskveiðilögsögunnar og aukinni atvinnuþátttöku kvenna sem burðarás í hagvexti næstu ára og áratuga. Í velsældinni höfum við einfaldlega sofið á verðinum.

Við höfum vanizt happdrættisvinningum á borð við stærri fiskveiðilögsögu og atvinnuþátttöku kvenna. Við teljum okkur hafa efni á alls konar lúxus, sem brennir þjóðarauð. Við teljum okkur líka hafa efni á ofanstýrðu þjóðfélagi í stíl fallkandídatanna í Austur-Evrópu.

Við verjum til dæmis árlega átta milljörðum af skattfé til hefðbundins landbúnaðar og sjö milljörðum af neytendafé í bann við innflutningi búvöru. Við verjum árlega milljörðum af skattfé til að láta opinbera sjóði fjármagna tímabær gjaldþrot og fresta þeim um sinn.

Við neitum okkur um markaðsfrjálsræði auðugra þjóða á borð við Svisslendinga, Bandaríkjamenn og Japani. Við látum stjórnvöld og stofnanir um að skrá gengi krónunnar og við látum þau um að banna innflutning á sumum vörum og útflutning á öðrum vörum.

Um þessar mundir erum við að láta stjórnvöld og stofnanir um að koma upp aflamiðlun, sem eykur miðstýringu sjávarútvegs ofan á fyrri miðstýringu kvótakerfisins. Við höfum þegar látið stjórnvöld um að koma upp harðskeyttu kvótakerfi í hefðbundnum landbúnaði.

Við stefnum óðfluga yfir í ofanstýringu og miðstýringu á sama tíma og Austur-Evrópa stefnir óðfluga frá ofanstýringu og miðstýringu. Við höldum, eins og harðlínukommarnir í Austur-Evrópu, að unnt sé að reka þjóðfélagið að ofan eins og hverja aðra fjölskyldu.

Ríkisvaldið og ríkissjóður eru að þenjast út hér á landi á kostnað annarra þátta þjóðfélagsins á sama tíma og allar þjóðir í austri og vestri eru að draga saman seglin í ríkisvaldi og ríkissjóði. Við erum að missa af lestinni sem Albanían í Efnahags- og þróunarstofnuninni.

Ekki má kenna stjórnmálamönnum einum um þessa ógæfu. Það eru kjósendur sjálfir, sem ímynda sér, að hér sé unnt að reka ofanstjórn og ráðherraalræði.

Jónas Kristjánsson

DV

Fyrirheitna landið brást

Greinar

Í forsetakosningunum í Nicaragua í síðustu viku kom í ljós athyglisverður munur á niðurstöðum skoðanakannana og kosninganna sjálfra. Þar munaði rúmlega 30%. Allar kannanir spáðu 16­24% meirihluta sandinista, en í raun fengu chamorristar 14% meirihluta.

Þetta er munur lýðræðisríkja og harðstjórnarríkja. Í lýðræðisríkjum er í skoðanakönnunum unnt að spá með 1­3% fráviki um niðurstöður kosninga, af því að hinir spurðu eru nokkurn veginn óhræddir við að láta álit sitt í ljós. Það þora menn ekki undir harðstjórn.

Í Vestur-Evrópu hefur margt hugsjónafólk ímyndað sér, að sandinistastjórn Daniels Ortega væri stjórn fólksins í Nicaragua. Áhugafólk um sósíalisma fyrirheitna landsins hefur ímyndað sér, að þar séu að rætast vonir, sem hafa brugðist annars staðar.

Arftakar þeirra, sem endur fyrir löngu fóru til Rússlands að grafa skurði í þágu alþýðunnar, fóru um tíma til Kúbu í norrænar sveitir skurðgrafara. Þegar hugsjónafólkið gat ekki lengur séð Castro í hillingum, varð Nicaragua fyrir valinu sem fyrirheitna landið.

Nú er hins vegar komið í ljós, að alþýðan í Nicaragua er svo hrædd við sandinista, að hún þorir ekki að segja álit sitt í skoðanakönnunum. Í kosningum, sem voru undir eftirliti 2000 útlendinga, gat alþýðan hins vegar veitt útrás innibyrgðu hatri sínu á sandinistum.

Daniel Ortega leyfði frjálsar kosningar í Nicaragua, af því að hann trúði niðurstöðum skoðanakannana, alveg eins og pólskir og ungverskir kommúnistar trúðu því, að þeir mundu sigra í frjálsum kosningum, sem þeir leyfðu í sínum löndum fyrr á þessum vetri.

Kommúnistar eru ekki einir um að falla á þeim misskilningi, að harðstjórnarríki geti notað félagsvísindatækni lýðræðisríkja. Harðstjórinn Augusto Pinochet í Chile trúði líka niðurstöðum skoðanakannana og leyfði kosningar, sem gerðu andstæðing hans að sigurvegara.

Komið hefur í ljós, að alþýða manna í Nicaragua leit ekki rauða og svarta hálsklúta sandinista sömu augum og trúgjarna hugsjónafólkið, sem kom frá Evrópu til að grafa skurði og klappa saman lófum. Alþýðan áttaði sig á sandinistum og afgreiddi þá eins og þeir áttu skilið.

Sandinistar höfðu komið á fót vopnuðum sveitum, sem voru farnar að minna á slíka einkaheri í öðrum löndum. Þeir höfðu þjóðnýtt atvinnulífið að mestu og komið upp 36.000% verðbólgu. Þeir höfðu stuðlað að sárafátækt og gert sjálfa sig að skömmtunarstjórum.

Sandinistar höfðu gert bandalag við þjóðskipulag í Austur-Evrópu, sem síðan hefur hrunið. Sovétstjórnin hefur lengi haldið þeim uppi fjárhagslega, en er nú dauðfegin að losna við þá. Gorbatsjov telur sennilega mátulegt, að chamorristar halli sér að Bandaríkjunum!

Athyglisvert er, að sandinistar höfðu margfalt meira fé til umráða í kosningabaráttunni en chamorristar. Þetta sáu 2000 útlendingar, sem höfðu eftirlit með henni. Það stoðar því lítið að halda fram, að bandarískir peningar hafi komið Violetu Chamorro að völdum.

Á næstu vikum kemur í ljós, hvort Ortega tekst að halda í skefjum sárreiðum fylgismönnum sínum í hernum og einkaher sandinista. Ennfremur, hvort Chamorro heldur til streitu afneitun sinni á Contra-skæruliðum, sem hafa valdið miklum vandræðum í landinu.

Síðar sést, hvað tekur við af Nicaragua sem fyrirheitna landið hjá evrópsku hugsjónafólki, þegar fokið er í flest skjól. Verður það Suður-Jemen? Eða Ísland?

Jónas Kristjánsson

DV

Miðaldra ást án ávaxta

Greinar

“Mér hefur oft þótt þetta heldur marklaust,” sagði Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra um starf Norðurlandaráðs í viðtali við DV í gær. Þessi skoðun er orðin almenn hér á landi og er að minnsta kosti orðin útbreidd einnig annars staðar á Norðurlöndum.

Vörnum fyrir ráðið er einkum haldið uppi af þeim, sem hafa hagsmuna að gæta sem þátttakendur í veizlum og ferðum. Þeir verja ráðið með tali um árangur, sem varð fyrir meira en þremur áratugum, svo og um Norræna húsið, sem orðið er nokkuð fullorðið líka.

Sífellt þrengist um raunveruleg verkefni Norðurlandaráðs. Á fundi þessarar viku var deilt um, hvort jólasveinninn ætti að vera grænlenzkur eða finnskur. Ennfremur er fræg 114 blaðsíðna skýrsla á vegum ráðsins um varðveizlu leðurhúsgagna. Ráðið drepur tímann.

Ellimörkin hafa ekki leitt til samdráttar í útgjöldum ráðsins. Þau hafa vaxið um 3% árlega umfram verð bólgu. Er nú svo komið, að á vegum ráðsins eru 74 stofnanir, 23 embættismannanefndir, 152 aðrar nefndir og 2000 verkefni, sum á borð við leðurhúsgögnin.

Lítið mark er tekið á því, sem kemur frá Norðurlandaráði og stofnunum þess. Ríkisstjórnir Norðurlanda stinga skjölum frá ráðinu yfirleitt beint ofan í skúffu. Utan Norðurlanda er gert grín að ráðinu, svo sem í brezka vikuritinu Economist, er tók út ráðið í fyrra.

Eftir að komið var á gagnkvæmum réttindum Norðurlandabúa að frumkvæði ráðsins fyrir nokkrum áratugum, hefur vaxtarbroddur framfaramála flutzt til stofnana á borð við Fríverzlunarsamtökin, sem starfa meira, þótt þar sé minna framleitt af ýmsum skjölum.

Á fundinum í Reykjavík í þessari viku hafa verið framleidd 300 þúsund ljósrit úr þremur tonnum af pappír. 100 milljónir hafa farið í ferðir og uppihald og svipuð upphæð í annan kostnað, svo sem tólf veizlur, þar af ein 900 manna, sem íslenzka ríkisstjórnin stóð fyrir.

Alls kostar Norðurlandaráð um 6,4 milljarða króna á ári, auk ýmiss kostnaðar, sem ríkissjóðir þurfa að bera. Afrakstur peninganna var sæmilegur fyrir nokkrum áratugum, en hefur orðið næsta lítill á síðustu árum. Ráðið er að verða lítið annað en fita, sem skera þarf.

Að vísu falla hér og þar peningar af borðum ráðsins til ýmissa menningarmála. Þess vegna hefur hópur þekktra Íslendinga mótmælt fyrirhuguðum niðurskurði fjárveitinga til slíkra mála. En góðverk ráðsins eru fremur lítilfjörleg í samanburði við allt umstang þess.

Eitt nýjasta afrek ráðsins var að dreifa auglýsingu um fund þess í öll hús á Reykjavíkursvæðinu. Bæklingurinn er fremur illa hannaður og segir ekki einu sinni, hvar fundurinn er haldinn. Prentun hans kostaði 200 þúsund krónur og dreifingin 550 þúsund krónur.

Af kostnaði ráðsins bera Íslendingar ekki nema 64 milljónir króna á ári. Það er út af fyrir sig vel sloppið, en nægir samt ekki sem afsökun fyrir lélegri nýtingu ráðsins á fjármagni sínu, ekki frekar en vel þegnir styrkir til menningarmála afsaka hina lélegu nýtingu.

Greinilegt er af fundi Norðurlandaráðs í Reykjavík í þessari viku, að vonlaust er orðið, að ráðið finni sér gagnleg verkefni við hæfi umstangsins í veizlum og ferðum. Þess vegna er brýnt að taka tillit til ellimarkanna og fara að draga fjárhagsseglin saman frá ári til árs.

Eins og brezka fréttatímaritið Economist segir, minnir Norðurlandaráð á ástarsamband miðaldra fólks: ­ það getur verið innilegt, en ber ekki ávöxt.

Jónas Kristjánsson

DV

Krónugengi sjávarplássa

Greinar

Oft er talað um, að íslenzk sjávarpláss njóti ekki afraksturs af framlagi íbúanna til þjóðarbúsins. Sumir segja, að gengi krónunnar sé of hátt skráð og þannig sé hagnaði af útflutningi sjávarafurða dreift til annarra sviða þjóðlífsins, einkum suður til Reykjavíkur.

Engin leið er að komast að hinu sanna í máli þessu nema með því að sannprófa það. Fólk getur endalaust deilt um mál af þessu tagi, svo sem hversu margar tennur séu í hestinum. Einhvern tíma kemur að því, að heppilegast er að gá upp í hestinn og telja tennurnar.

Svo vel vill til, að fordæmi eru fyrir því hjá ríkustu þjóðum jarðarkringlunnar, að gengi gjaldmiðils þeirra er rétt skráð. Það gerist samt ekki með því, að kölluð sé saman nefnd færustu sérfræðinga og embættismanna til að ákveða gengi jens og dollars frá degi til dags.

Það er einfaldlega frjáls markaður, sem ákveður daglegt gengi jens og dollars og margra fleiri gjaldmiðla. Myntir þessar eru keyptar og seldar í kauphöllum um heim allan. Útlendir seðlabankar taka þátt í þessari ákvörðun með því að verzla í öfuga átt við sveiflurnar.

Úr óbeinu samspili tugþúsunda sjálfstæðra aðila verður til daglegt markaðsgengi á jeni og dollar. Við getum haft á svipaðan hátt hér á landi, þótt í smærri stíl hljóti að verða. Við getum einfaldlega farið að kaupa og selja krónuna og erlenda gjaldmiðla í kauphöll.

Seðlabankinn fengi að taka þátt í þessum leik sem einn aðili að mörgum. Hann fengi það hlutverk að reyna að hamla á móti sveiflum, en missti hlutverk sjálfrar gengisskráningarinnar. Á þennan hátt einan getum við komizt að raun um verðgildi gjaldeyrisöflunarinnar.

Ef svo færi, sem telja má líklegt, að gengi krónunnar mundi skrá sig lægra á þennan sjálfvirka markaðshátt en Seðlabankinn gerir í dag, má jafnframt gera ráð fyrir, að fjármagn mundi sogast til sjávarplássa landsins í stað þess að sogast frá þeim til annarra staða.

Frjálst markaðsgengi gjaldmiðla er meira hagsmunamál fólks í sjávarplássum en bandalag þess við fólk í strjálbýli um að sníkja lán og styrki frá ríki og opinberum sjóðum til að ná til baka einhverju af fénu, sem umbjóðendur sjávarsíðunnar telja hafa runnið á brott.

Í bandalagi sjávarsíðu og strjálbýlis gegn Reykjavíkursvæði hefur sjávarsíðan alltaf fengið ruðurnar og mun alltaf fá. Mestur hluti herfangsins, sem byggðastefnan aflar, rennur til landbúnaðar, þar sem þjóðfélagið brennir um fimmtán milljörðum króna á hverju ári.

Það er nefnilega ekki Reykjavíkursvæðið, sem gengur harðast fram í að eyða aflafé sjávarútvegs. Byggðastefnan er dýrasta lóðið á vogarskálinni gegn sjávarplássum. Hún dreifir til landbúnaðar fé, sem hefur fengizt með því að núllkeyra sjávarútveg á röngu krónugengi.

Sjávarsíðan ætti að segja skilið við hagsmunabandalag núverandi byggðastefnu, sem færir henni ruður einar af herfangi landbúnaðar og sökkvir fólki og fyrirtækjum sjávarplássa í fen skuldbindinga við opinbera sjóði. Hún ætti að heimta hreint afnám þessarar byggðastefnu.

Í staðinn ætti fólk í sjávarplássum landsins að segja umbjóðendum sínum, að skynsamlegt sé að vinna að afnámi opinberrar skráningar á gengi krónunnar, líkt og gert hefur verið í mörgum auðugum löndum, án þess að heimsendir eða öngþveiti hafi hlotizt af.

Markaðsgengi á gjaldeyri leysir eitt ekki allan vanda, en er samt með beztu aðferðum til að komast að raun um, hvað borgar sig að hafa fyrir stafni hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Röskun er góð

Greinar

Brezki sagnfræðingurinn Arnold Toynbee getur Íslendinga í hinu mikla ritverki sínu “Study of History”, sem hefur haft töluverð áhrif á sagnfræði nútímans. Hann notar landnámsmenn Íslands sem dæmi til stuðnings kenningunni um, að hæfileg röskun sé góð.

Hann segir, að landnámsmenn hafi orðið að yfirgefa heimili, ættingja, vini og mestan hluta bústofns til að halda út í óvissuna yfir hafið. Þessi ögrun röskunar hafi verið forsenda þess, að norræn menning reis hátt einmitt á Íslandi, þar sem eddurnar og sögurnar urðu til.

Toynbee var raunar þeirrar skoðunar, að röskun gæti gengið of langt og nefndi sem dæmi landnám norrænna manna á Grænlandi og í Ameríku. Ögrun röskunarinnar hafi verið hæfileg í fólksflutningunum til Íslands, en of mikil á leiðinni lengra vestur um haf.

Toynbee nefnir mörg fleiri dæmi en það íslenzka til ítarlegs stuðnings þess kjarna máls síns, að hæfileg röskun sé mönnum og þjóðum holl. Frægasta dæmið í nútímanum er auðvitað síðari tíma landnám Evrópumanna í þeim heimshluta, sem nú heitir Bandaríkin.

Íslendingar hafa á tuttugustu öld sætt röskun, sem er meiri en önnur röskun þjóðarinnar allt frá níundu og tíundu öld, þegar röskun landnámsaldar stóð yfir. Það er flutningur þjóðarinnar úr strjálbýli í þéttbýli og stökk hennar úr landbúnaðaröld yfir í þjónustuöld.

Þessi röskun stóð eina öld. Árið 1890 bjuggu 89% þjóðarinnar í strjálbýli, en árið 1989 ekki nema 8%. Þetta er gífurleg röskun, sem hefur orðið skáldum og rithöfundum yrkisefni. Sagan af bóndasyninum, sem gerðist leigubílstjóri, hefur verið sögð ótal sinnum.

Hin gífurlega röskun þjóðarinnar á tuttugustu öld hefur ekki skert getu hennar til að mæta nýjum tíma og nýjum umheimi. Hún hefur ekki kaffært þjóðina í vandamálum eins og misheppnað landnám á Grænlandi og í Ameríku á sínum tíma, heldur eflt hana til átaka.

Röskunin var ekki talin valda sálrænu álagi og félagslegum vandamálum, fyrr en sálrænir og félagslegir vandamálafræðingar komust í tízku. Íbúar þéttbýlis eiga flestir rætur sínar í strjálbýli, en telja sig ekki hafa beðið tjón á sálu sinni við að breyta um vistform.

Röskunin hefur kostað gífurlega fjárfestingu á þéttbýlisstöðum en enginn talar í alvöru um, að fjárfesting liðinna áratuga í þéttbýli hafi verið óþörf eða of dýr. Samt segja byggðastefnumenn nútímans, að of dýrt sé núna að byggja yfir strjálbýlisfólk í þéttbýli.

Áratugum saman hefur þjóðin flykkzt úr sveitum á mölina. Fólk hefur látið sig hafa það, þótt það yrði að skilja eftir verðmæti og rætur í strjálbýli. Fólk freistaði gæfunnar, þar sem möguleikarnir voru, og varð fljótt almennt mun betur stætt en hinir, sem eftir sátu.

Á síðustu árum, einkum eftir 1960, hefur því verið haldið æ meira á lofti, að ekki megi raska búsetu á Íslandi. Það skapi fólki óþægindi að þurfa að raska högum sínum og að það kosti of mikið fé í uppbyggingu hús næðis, atvinnutækifæra og þjónustu í þéttbýli.

Þessi stefna kostar þjóðina stórfé. Í landbúnaði einum er árlega brennt um fimmtán milljörðum af fé skattgreiðenda í vonlausri baráttu við að hamla gegn náttúrulögmáli hinnar hagstæðu röskunar. Mjög fáir skilja, að bezt er, að röskunin fái að hafa sinn gang.

Eðlilegt er, að röskun þessarar aldar fái að finna jafnvægi sitt, án fyrirstöðu af okkar hálfu, svo að hún verði okkur sem hagstæðust, líkt og á landnámsöld.

Jónas Kristjánsson

DV

Opinber aflamiðlun

Greinar

Ekki er unnt að ákveða opinbert fiskverð í landinu vegna valdabaráttu ráðuneyta og hagsmunaaðila um fyrirkomulag opinberrar aflamiðlunar, sem ætlunin er að koma á fót til að tryggja, að Ísland verði enn ofanstýrðara og miðstýrðara en nokkru sinni fyrr.

Íslendingar eru orðnir sér á parti í hópi þjóða Evrópu. Meðan þjóðir Austur-Evrópu eru á harðahlaupum frá opinberri ofanstýringu og miðstýringu í átt til markaðshyggju, erum við að stíga skref í hina áttina. Ríki og hagsmunaaðilar eru greinilega sammála um áttina.

Stjórnmálamenn, embættismenn og forustumenn hagsmunasamtaka eru haldnir alkunnri áráttu. Þeir vilja stjórna. Þeir eru valdshyggjumenn, sem telja andstætt hagsmunum sínum, að fólk og fyrirtæki úti í bæ fái að ráða gerðum sínum á frjálsum markaði.

Í ofanstýringunni og miðstýringunni er opinbert fiskverð gamall þáttur, sem hefur verið á undanhaldi að undanförnu vegna stofnunar innlendra fiskmarkaða og aukins útflutnings á ísfiski framhjá fiskverðskerfinu. Þetta hefur hækkað raunverulegt fiskverð mjög mikið.

Frjálst fiskverð hefur verið að þróast, annars vegar eftir verðlagi á erlendum fiskmarkaði og hins vegar á fiskmörkuðunum í Reykjavík og Hafnarfirði. Þetta hefur raskað högum margra, sem vilja hafa lágt fiskverð, og rýrt völd þeirra, sem ákveða opinbert fiskverð.

Aflamiðlun er tilraun kerfiskarla til að koma ofanstýringu og miðstýringu á nýfengið frelsi í fiskverði. Með sameiginlegri aflamiðlun hagsmunaaðila á að tryggja hagsmuni þeirra, sem vilja lágt fiskverð, og koma böndum á hina, sem vilja, að fiskverð sé sem hæst.

Eitt mikilvægasta grundvallaratriði markaðshagkerfis er að ná sem mestu vinnsluvirði með sem minnstri fyrirhöfn. Því lögmáli er vel þjónað með því, að fiskur sé vel ísaður og seldur í miklum flýti til útlanda sem fersk vara, er fer á hærra verði en annar fiskur.

Menn bölsótast yfir þessu og kalla það útflutning á “óunnum” fiski, rétt eins og ferskur ísfiskur sé eitthvert hráefni, sem misþyrma beri og frysta í sérstökum vinnslustöðum, sem kosta mikla fjárfestingu og mikinn mannskap, svo að út komi vara, er kostar minna.

Íslendingar virðast almennt vera þeirrar sérkennilegu skoðunar, að mikilvægt sé að hafa mikið fyrir fiski í landi til að skapa atvinnu, þótt hin mikla fyrirhöfn leiði ekki til hækkunar á verði vörunnar. Hugarfar af þessu tagi leiðir auðvitað til efnahagslegrar stöðnunar.

Ef markaðslögmál fengju að ráða hér á landi, væri ekkert opinbert fiskverð, engin opinber aflamiðlun og ekkert opinbert gengi krónunnar. Þá fengi sjávarútvegurinn í heild tækifæri til að hagræða sér á sjálfvirkan hátt og njóta stöðu sinnar í gjaldeyrisöfluninni.

Bezt er, að allt verð á fiski ráðist af framboði og eftirspurn, eins og verð á flestum öðrum vörum í útlöndum. Bezt er, að allt verð á gjaldeyri ráðist af framboði og eftirspurn, eins og verð á gjaldeyri í erlendum kauphöllum. Á þann hátt einan kemur í ljós, hvað er hagkvæmt.

Þetta gerist ekki, af því að valdahagsmunir stjórnmálamanna, embættismanna og forstöðumanna hagsmunasamtaka fara saman við útbreidda hræðslu Íslendinga við óvissuna. Hér á landi trúa menn almennt, að ofanstýring og miðstýring komi í veg fyrir öngþveiti.

Annars staðar, til dæmis í Austur-Evrópu, hafa menn hins vegar séð, að ofanstýring og miðstýring leiðir til öngþveitis og hruns, en markaðsfrelsi skapar auð.

Jónas Kristjánsson

DV

Gamalt afl með nýjan kraft

Greinar

Þótt járntjaldið sé fallið í Evrópu, er spennan ekki horfin á jaðri hins vestræna heims. Þótt kommúnisminn hafi beygt sig fyrir skínandi birtu Mammons og Aristótelesar og biðji um aðgang að vestrænu samfélagi, er jörðin ekki orðin að Iðavelli vestrænnar hugmyndafræði.

Gamalt og nýtt afl í heiminum er með hverju árinu að verða fyrirferðarmeira við mörk hins vestræna heims. Það er íslam, sem ógnaði hinni kristnu Evrópu á miðöldum, en varð síðan að lúta í lægra haldi. Nú eru íslamar aftur komnir á kreik og láta að sér kveða.

Nýjast í fréttum er, að íslamar í Tadzhíkístan Sovétríkjanna hafa efnt til uppþota gegn stjórninni í Kreml, gegn kristnum mönnum frá Armeníu og gegn rússneska heimsveldinu. Þetta kemur í kjölfar uppreisnartilraunarinnar í Azerbajdzhan fyrir aðeins örfáum vikum.

Rauði herinn var sendur á vettvang til Bakú til að brjóta á bak aftur uppreisnarmenn íslams, sem höfðu í rauninni tekið völdin af kommúnistaflokknum í Azerbajdzhan og voru farnir að reka kristna Armena úr landi. Eldur uppreisnarinnar kúrir enn undir niðri.

Tadzhíkar sækja sér styrk yfir landamærin til Afganistan, sem Rauði herinn yfirgaf í fyrravor. Azerar sækja sér styrk til Íran, sem um nokkurra ára skeið hefur verið í fararbroddi íslamsks andófs erkiklerka gegn vestrænni hugmyndafræði og efnishyggju nútímans.

Í Azerbajdzhan og Tadzhíkístan eru íslamar í meirihluta meðal íbúanna og eru að reyna að losna við hinn kristna eða kommúníska minnihluta, um leið og þeir vilja komast undan erlendu valdi. Þessi barátta íslams í Sovétríkjunum er hin sama og víða annars staðar.

Uppþotin á vestri bakka Jórdan og á Gazasvæðinu halda áfram dag eftir dag, viku eftir viku og mánuð eftir mánuð. Hinn íslamski meirihluti íbúanna er að rísa upp gegn kúgun gyðinga, sem eru í miklum minnihluta á þessum svæðum og beita meirihlutann mikilli hörku.

Svipað er uppi á teningnum í Líbanon, nema hvað andstæðingurinn er kristinn og að íslömum hefur gengið betur þar. Báðar fylkingar eru að vísu margklofnar, en meginlínan hefur verið ljós áratugum saman. Þar í landi eru það stóru trúarbrögðin, sem takast á.

Í Kosovo í Júgóslavíu er íslamskur meirihluti í hálfgerðri styrjöld við minnihluta Serba og miðstjórnarvald þeirra í Belgrað. Átökin gætu hæglega færzt til Bosníu, þar sem íslamar eru öflugir. Raunar er ríkjasamband Júgóslavíu að riða til falls um þessar mundir.

Kasmír í Indlandi er enn annað dæmi um baráttu meirihluta íslama gegn völdum minnihlutans. Þar snýst barátta þeirra gegn hindúasið, sem ræður ríkjum í Indlandi. Á síðustu vikum hafa meira en hundrað íslamar fallið í átökum við indverskar hersveitir.

Í Afríku eru íslamar líka í stríði. Í Súdan er borgarastríð milli íslama í norðri og kristinna svertingja í suðri. Þannig eru hvarvetna átök á mörkum hins íslamska heims, í suðri, í austri, í vestri og í norðri. Alls staðar eru íslamar hægt og sígandi í sókn.

Lítill vafi er á, að mikið mun reyna á samskipti hins vestræna heims við heim íslams eftir að hin innri spenna í Evrópu hefur hraðminnkað við fall járntjaldsins. Vesturlandabúar verða að átta sig á, að Múhameð spámaður er aftur mættur á vettvang eftir alda hlé.

Máttur íslams nær til hjarta Vesturlanda. Þar verður rithöfundur að fara huldu höfðu, af því að erkiklerkar í fjarlægu landi hafa kveðið upp yfir honum dauðadóm.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzk “nomenklatura”

Greinar

Stéttleysið gamla og margrómaða er á undanhaldi í fámennu þjóðfélagi okkar. Bilið milli hinna bezt settu og hinna verst settu er alltaf að aukast. Þetta kemur greinilegast fram í launamun, sem er orðinn mikill og fer ört vaxandi, þrátt fyrir tilraunir til andófs.

Einstæð móðir, sem reynir að sjá börnum sínum farborða við ræstingar, fær 40.000 krónur á mánuði sem Sóknarkona. Ráðherrann, sem hún skúrar fyrir, fær um og yfir 500.000 krónur á mánuði. Hæst launaði ráðherrann hefur tekjur á við fjórtán Sóknarkonur.

Lágmarkslaun í þjóðfélaginu eru fyrir löngu orðin skammarlega lág. En fjórtánfaldur launamunur stríðir ekki aðeins gegn siðgæðisvitund. Hann er einnig óhagkvæmur fyrir þjóðfélagið. Það hefnir sín um síðir, ef þjóðfélagið klofnar í yfirstétt og undirstétt.

Ábyrgðin hvílir þyngst á herðum stjórnmálamanna, sem geta ekki hamið fjárgræðgi sína. Í fjármálaráðuneytinu eru menn núna önnum kafnir við að framleiða reglugerð, sem hlífi ráðherrum við að greiða sömu hlunnindagjöld af bílum og aðrir forstjórar greiða.

Í DV í dag er fjallað um mikilvæga hlið á klofningi þjóðarinnar í betur og lakar setta. Lífeyrisgreiðslur til gamalla félaga í stéttarfélögum eru ákaflega misjafnar. Sumir fá á ævikvöldinu 14.700 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði, meðan aðrir fá 227.000 krónur á mánuði.

Mestur er munurinn milli þeirra, sem starfað hafa á almennum vinnumarkaði og hinna, sem hafa starfað hjá hinu opinbera. Venjulegir lífeyrissjóðir ramba á barmi gjaldþrots, enda er meginstefna verkalýðsfélaga í kjarasamningum, að vextir sjóðanna séu sem lægstir.

Venjulegir lífeyrissjóðir úti í bæ geta ekki skattlagt þjóðina til að brúa bilið milli greiðslugetu sinnar og sómasamlegs lífeyris. Þannig fær fyrrverandi Dagsbrúnarmaður ekki nema 14.700 krónur á mánuði úr lífeyrissjóði, þegar hann hefur náð fullum réttindum.

Ríkið skattleggur hins vegar þjóðina í heild til að brúa bilið milli greiðslugetu lífeyrissjóðanna, sem eru á þess vegum, og þess, sem embættismenn og stjórnmálamenn telja sómasamlegan lífeyri. Fyrrverandi ríkisstarfsmaður fær 35.000 til 70.000 krónur á mánuði.

Stjórnmálamennirnir hafa svo í skjóli aðstöðu sinnar búið til sérstakar reglur fyrir sig sem yfirstétt. Alþingismenn safna lífeyrisréttindum tvöfalt hraðar en aðrir og safna rétti til 95.400 króna á mánuði á sama tíma og Dagsbrúnarmaðurinn nær 14.700 króna rétti.

Enn meiri eru sérréttindi ráðherra, sem safna lífeyrisrétti sex sinnum hraðar en venjulegt fólk. Þeir ná 130.000 króna rétti. Ef þeir láta veita sér pólitískt bankastjóraembætti, ná þeir rétti til 277.000 króna lífeyris á mánuði. Útreikningar á þessu birtast í DV í dag.

Tekjuskiptingin í þjóðfélaginu, hlunnindaskiptingin og lífeyrisskiptingin minnir í mörgu á Austur-Evrópu, þar sem svokölluð “nomenklatura” lætur önnur lög gilda um sig en annað fólk. Munurinn er hins vegar sá, að þar er verið að breyta ástandinu, en ekki hér.

Við búum við frjálsa fjölmiðlun, sem er nýtt fyrirbæri í Austur-Evrópu. Hér hefur spillingin mörgum sinnum verið nákvæmlega kortlögð á prenti og í ljósvakamiðlum. Samt er lítið sem ekkert gert í málunum, og það er auðvitað sljóleika kjósenda að kenna.

Í okkar opna þjóðfélagi er hægt að draga úr stéttaskiptingu, ef kjósendur kæra sig um. Því miður finnst þeim málið ekki nógu brýnt til að taka til sinna ráða.

Jónas Kristjánsson

DV

“Fáránlegt kjaftæði”

Greinar

Hinn vinsæli forsætisráðherra upplýsti í blaðaviðtali í gær, að það sé “svo fáránlegt, að það tekur engu tali”, að ráðherrar skuli sæta hlunnindaskatti vegna notkunar á bíl, sem ríkið lætur þeim í té. “Kjaftæði” ríkisskattstjóra um slíkt sé “fyrir neðan allar hellur”.

Ráðherrann upplýsti ekki, hvers vegna þessar reglur voru settar á vegum ríkisstjórnar hans, úr því að ekki var ætlunin að fara eftir þeim. Forstjórar úti í bæ hafa yfirleitt heimilisbíl til snattferða og borga þó hlunnindaskatt af bíl, sem fyrirtækið leggur þeim til.

Lengi hefur verið vitað, að forsætisráðherra er ónákvæmur í siðferðilegum efnum. Samt kemur á óvart, að hrokinn í spillingunni skuli vera þvílíkur, sem kemur fram í blaðaviðtalinu. Orðbragð forsætisráðherra í garð heiðarlegra embættismanna er afar óviðeigandi.

Sérstaklega er þó eftirtektarvert, að þjóðin skuli vera svo torlæs á spillingu, að hún styður hvað eftir annað til valda stjórnmálamenn, sem vitað er, að ekki eru til fyrirmyndar að siðferði. Meðan svo er, verður lítill árangur af andófi stakra embættismanna og fjölmiðla.

Fyrirgreiðsla ráðherra gagnvart sjálfum sér hefur komið fram í ýmsum myndum. Þeir fundu upp á að láta ríkið greiða fyrir sig alla reikninga fyrir kostnað á ferðalögum sínum í útlöndum, jafnvel þótt þeir fengju líka sjálfir dagpeninga til að greiða þennan kostnað.

Að vísu komust embættismenn í það mál og fundu, að ráðherrarnir létu tvígreiða fyrir sig sama hlutinn. Afleiðingin var, að ráðherrar verða nú að greiða hlunnindaskatt af dagpeningum, alveg eins og ríkisskattstjóri vill nú, að þeir greiði af bílum, sem þeir fá að nota.

Frægustu dæmin um siðferðisskort ráðherra hafa tengst umgengni þeirra við áfengi. Komið hefur í ljós, að sumir þeirra, þar á meðal forsætisráðherra, hafa miklar birgðir ríkisáfengis heima hjá sér, og að aðrir hafa haldið miklar afmælisveislur á kostnað ríkisins.

Athyglisvert er, að áfengisnotkun ráðherra í heimahúsum vegna komu erlendra gesta er svo feiknarleg, að ætla mætti að útlendingarnir liggi almennt undir borðum, áður en yfir lýkur. Spurning er, hvort ekki þurfi að hafa lækni á staðnum við slíkar aðstæður.

DV upplýsti í fyrradag, að ráðherrar skammta sér nokkrum sinnum betri lífeyrisrétt en aðrir starfsmenn ríkisins. Ráðherrarnir safna á hverju ári rétti til 6% af launum sínum, en þingmenn 3% og aðrir starfsmenn 2%. Þetta kemur ekki fram í iðgjöldum ráðherra.

Með margvíslegum slíkum hætti smyrja ráðherrar á tekjur sínar. Bifreiðahlunnindin nema eftir verðgildi bílsins frá 35.000 krónum til 90.000 króna á mánuði. Dagpeningahlunnindi hjá sæmilega ferðaglöðum ráðherra nema 80.000 krónum til 114.000 króna á mánuði.

Þyngst vega hlunnindin, sem ráðherrar afla sér með sérstöðunni í lífeyrisrétti. Þau nema 117.000 krónum á mánuði hjá venjulegum ráðherra og 138.000 krónum hjá forsætisráðherra. Samanlagt nema mánaðartekjur annars hvers ráðherra 500.000 krónum eða meiru.

Verið getur, að ráðherrar eigi slíkar tekjur skilið vegna mikilvægis starfa sinna. En ekki er hægt að sjá, að þær eigi að skattleggja öðru vísi en aðrar rosatekjur í þjóðfélaginu. Þær álögur, sem ráðherrar leggja á þjóðina, eiga að leggjast eftir sömu reglum á þá sjálfa.

Þegar ráðherra grænna bauna kallar slíkt “fáránlegt kjaftæði”, er tímabært, að þjóðin fari að hafa áhyggjur af siðferði ráðamanna, sem hún hefur alið sér við brjóst.

Jónas Kristjánsson

DV