Greinar

Hafna þriðju leiðinni

Greinar

Austur-Evrópa er ekki að leita þriðju leiðarinnar milli hins gamla þjóðskipulags, sem er að hrynja, og vestræns þjóðskipulags. Þessi heimshluti er ekki að finna nýja útgáfu af sósíalisma, heldur ætlar hann að halla sér að sigursælum kapítalismanum í vestri.

Til skamms tíma töldu sumir, að Austur-Þýzkaland væri dálítið sér á parti í þessum hópi ríkja, þar sem forsenda ríkisins væri hvorki þjóðernisleg né landfræðileg, heldur hugmyndafræðileg. Þeir héldu, að Austur-Þjóðverjar hefðu stolt fyrir hönd ríkisins.

Þetta hefur reynzt vera misskilningur. Mikill meirihluti Austur-Þjóðverja vill ekkert hafa með hinn hugmyndafræðilega tilbúning “Lýðræðislýðveldisins” að gera. Þeir vilja einfaldlega sameinast keppinautnum, Vestur-Þýzkalandi, og renna inn í sigursælt hagkerfi.

Að vísu kunna kratar að verða sterkari í eystri hluta Þýzkalands en þeir eru í vestri hlutanum. Það stafar þó einfaldlega af, að austurþýzkir kratar eru óflekkaðir af samstarfi við kommúnista, en kristilegir hafa hins vegar gert sig seka um samstarf við kommúnista.

Víðs vegar um Austur-Evrópu og í Sovétríkjunum sjálfum eru kosningar í uppsiglingu á næstu þremur mánuðum. Þessar kosningar verða meira eða minna frjálsar og heiðarlegar. Þær munu flýta þróun Austur-Evrópu yfir í vestrænt þjóðskipulag kapítalismans.

Í lok þessa mánaðar verða frjálsar kosningar í Litháen og Moldavíu: í marz í Austur-Þýzkalandi, Ungverjalandi, Úkraínu, Lettlandi, Eistlandi og Georgíu: í apríl í Póllandi: líklega í maí í Búlgaríu og Rúmeníu: og loks sennilega 6. júní í Tékkóslóvakíu.

Um miðjan júní verður búið að koma upp fjölflokkakerfi um nær alla Austur-Evrópu og tilkynna brottför Litháen og væntanlega fleiri landa úr Sovétríkjunum. Við völd verða stjórnmálamenn, sem kjósendur hafa úrskurðað, að séu óflekkaðir af kommúnisma.

Kommúnistaflokkar munu fá lítið fylgi í kosningunum, yfirleitt innan við 10%. Undantekningar verður helzt að finna í sumum löndum Sovétríkjanna. Í Litháen er flokkurinn sæmilega vinsæll, af því að hann rauf tengslin við móðurflokkinn í Moskvu.

Mikhail Gorbatsjov og aðrir kommúnistaforingjar á frjálslyndari kantinum í Austur-Evrópu hafa til skamms tíma vonað, að frelsisgjöfin mundi skapa flokkum þeirra fylgi til að taka þátt í stjórn landsmála eftir kosningar. Slíkar vonir dofna með hverjum deginum, sem líður.

Skipti á leiðtogum og flokksnafni hafa lítil áhrif. Kjósendur vilja ekki sjá neitt, sem lyktar af fyrra valda kerfi. Sósíalismi austursins hefur beðið varanlegt skipbrot. Úr rústum hans rís félagslegur markaðsbúskapur að hætti Ludwigs Erhards í Vestur-Þýzkalandi.

Til þess að lönd austurs geti fetað þröngan stíginn frá sósíalískri fátækt til kapítalískrar velsældar munu nýir valdhafar hefjast handa við að hreinsa út kerfiskarla og færa völd þeirra til markaðarins. Það mun taka langan tíma og verður engan veginn sársaukalaust.

Í efnahagslegu og peningalegu erfiðleikunum, sem framundan eru, munu þjóðir Austur-Evrópu og Sovétríkjanna soga sér andlega orku úr stórflóði átaka í menningu og fjölmiðlun. Nýfengið frelsi til sjálfstæðrar hugsunar mun leita sér öflugrar útrásar á ótal sviðum.

Byltingin í austri er ekki bara ósigur kerfisins. Hún mun líka reynast verða ósigur þeirra, sem ímynda sér, að til sé þriðja leiðin, vinstra megin við Vesturlönd.

Jónas Kristjánsson

DV

Miðjan heldur ekki

Greinar

Mikhail Gorbatsjov Sovétríkjaforseti er smám saman að komast að raun um, að miðjan heldur ekki í sovézkum stjórnmálum. Hann verður að velja og hafna. Hingað til hefur hann reynt að fljóta á lýðræðisöldunni, en hún hefur borið hann lengra en hann bjóst við.

Samþykkt miðstjórnar sovézka kommúnistaflokksins um afnám flokkseinræðis er einn stærsti hnykkurinn á þessari leið. Gorbatsjov er að reyna að hreinsa andstæðinga sína úr ríkisstjórn og flokki. Fyrstir til að fjúka verða harðlínumenn á borð við Jegor Ligatsjev.

Reikna má með fleiri fjöldafundum í stíl við 200.000 manna fundinn í Moskvu í þessari viku. Á fundunum verða höfð uppi áróðursspjöld til stuðnings Gorbatsjov og með lýðræðiskröfum. Jafnframt verður krafizt afsagnar Ligatsjevs og helztu stuðningsmanna hans.

Ef Gorbatsjov tekst að losna við Ligatsjev úr stjórnmálaráðinu og gera óvirka þá Vitalíj Vorotnikov, forseta rússneska lýðveldisins: Lev Zaikov hergagnastjóra, og Vladimir Ivashko frá Úkraínu, kemur röðin að hinni eiginlegu miðju, sem ráðið hefur efnahagsferðinni.

Gorbatsjov hefur hingað til ekki haft meirihluta í stofnunum flokksins með umbótum í efnahagsmálum. Tillögur skjólstæðings hans, Leonid Albakin, hafa verið felldar, en í staðinn verið samþykkt ýmiss konar málamiðlun frá Nikolai Ryzhkov forsætisráðherra.

Í stjórnmálaráðinu hefur Ryzhkov skipað miðjuna með Júríj Maslyukov áætlanastjóra og Nikolai Slyunkov. Þeir eru hinir raunverulegu fulltrúar kerfisins og kerfiskarlanna og hafa myndað meirihluta með harðlínumönnum gegn efnahagsumbótum Gorbatsjovs.

Þjóðartekjur í Sovétríkjunum minnkuðu í hittifyrra um 5% og hafa líklega minnkað um 10% í fyrra. Harðlínumenn kenna opnunarstefnu Gorbatsjovs um þetta, en raunverulega ástæðan er miðju- og málamiðlunarstefna Ryzhkovs. Á þessu mun Gorbatsjov hamra.

Haltu mér ­ slepptu mér ­ stefna Ryzhkovs minnir á Framsóknarflokkinn og íslenzku ríkisstjórnina. Stefnan byggist á að blanda saman miðstýringu og markaðsfrelsi. Hún líkist sorglega hinu séríslenzka, miðstýrða markaðskerfi. Hún heldur ekki vatni, hvorki hér né þar.

Ófarir Íslands og Sovétríkjanna eru dæmi um, að ókleift er að samræma miðstýringu og markaðsfrelsi. Þetta hafa ráðamenn í Austur-Evrópu skilið og eru því að koma á fót markaðsfrelsi án miðstýringar. Ríkisstjórn Samstöðu í Póllandi hefur forustu í þessari þróun.

Kapítalisminn, sem blossar upp um alla Austur-Evrópu, mun styrkja stöðu Gorbatsjovs heima fyrir. Fljótt mun koma í ljós, að efnahagsvandræðin verða minni, ef kerfiskarlar opinberra stofnana og sjóða verða látnir víkja úr sæti og opinberri skipulagningu hætt.

Harðlínumönnum mun varla takast að fá Rauða herinn til byltingar gegn Gorbatsjov. Herforingjarnir voru orðnir dauðþreyttir á Afganistan og eru tregir til að láta nota sig gegn fólkinu í Azerbajdzhan. Þeir munu ekki heldur láta siga sér á íbúa Eystrasaltslandanna.

Hinn raunverulegi slagur í Sovétríkjunum mun verða milli Ryzhkovs og Gorbatsjovs. Ef hinn síðarnefndi sigrar, má búast við, að haltu mér ­ slepptu mér ­ stefnan verði aflögð og að hin lýðræðislega markaðshyggja haldi innreið sína eins og í Austur-Evrópu og við Eystrasalt.

Miklir atburðir munu gerast í Sovétríkjunum á næsta ársfjórðungi. Þá kemur í ljós, að miðjan heldur ekki og að opnunarstefna Gorbatsjovs nær fram að ganga.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzk stöð á heiðinni

Greinar

Keflavíkurflugvöllur er ekki á skrá, er birzt hefur í bandarískum dagblöðum um nokkra tugi bandarískra herstöðva heima og erlendis, sem til greina kemur að leggja niður eða minnka. Þetta endurspeglar, að völlurinn á heiðinni er ekki herstöð í hefðbundnum skilningi.

Lítið er um varnir á Keflavíkurflugvelli. Tómt mál er að tala um, að þar sé varnarlið Íslands. Að vísu eru til ráðagerðir um að flytja þangað hermenn að vestan á hættutímum. Æfingar af því tagi hafa reitt suma landa okkar til reiði og verið öðrum tilefni gamanmála.

Foringjar heimsveldanna tveggja hafa að undanförnu keppt í tillögum um samdrátt herja sinna í Evrópu. Nýjasta tillaga George Bush Bandaríkjaforseta er um fækkun niður í tæplega 200 þúsund hermenn á hvora hlið. Þessu hefur verið afar vel tekið í Sovétríkjunum.

Í rauninni eru heimsveldin búin að missa tök á þróuninni. Nýjar ríkisstjórnir í Austur-Evrópu eru sem óðast að senda Sovétríkjunum skilaboð um, að hernámslið þeirra eigi að fara heim sem fyrst. Ekki verður séð, að Sovétríkin ætli neitt að tregðast við brottför.

Þar á ofan eru hinar nýju ríkisstjórnir í Austur-Evrópu að boða samdrátt í eigin herafla. Ungverjaland hefur boðað 17% samdrátt, Tékkóslóvakía 15%, Búlgaría 12%, Austur-Þýzkaland 10% og Pólland 4%. Þetta er byrjunin á hröðu andláti Varsjárbandalagsins.

Nokkur Evrópuríki Atlantshafsbandalagsins eru þegar byrjuð að skipuleggja svipað undanhald á sviði vígbúnaðar. Belgía varð fyrst til og reiknað er með, að Holland og Danmörk fylgi fljótlega á eftir. Öllum ríkisstjórnum bráðliggur auðvitað á peningunum í annað.

Stærsta málið í hruni vígbúnaðar er svo sameining Þýzkalands. Greinilegt er, að Austur-Þýzkaland er að sogast inn í Vestur-Þýzkaland. Það þýðir, að sovézki herinn verður að fara frá Austur-Þýzkalandi og sennilega bandaríski herinn einnig frá Vestur-Þýzkalandi.

Bush og Gorbatsjov verða að hafa sig alla við í símtölum um ný tilboð til að hafa undan þróun, sem þeir ráða ekki við. Sameinað Þýzkaland verður að vísu ekki hlutlaust, heldur vestrænt. En það mun haga málum á þann veg, að ekki verði túlkað sem ógnun við austrið.

Einu herstöðvarnar, sem eiga framtíð fyrir sér, eru eftirlitsstöðvar. Búast má við, að fjölþjóðlegir samningar um niðurskurð vopnabúnaðar feli í sér ströng ákvæði um gangkvæmt eftirlit með efndum. Slíkt verður talið líklegt til að auka hernaðarlegt öryggi Evrópu.

Málsaðilar þurfa að mæla flutninga með herlið og hergögn og aðrar hreyfingar, sem hugsanlega gætu boðað hættu. Þeir þurfa að hafa eftirlitsmenn hver hjá öðrum til að fylgjast með heræfingum og ennfremur með umsaminni eyðingu vopna og fækkun í herjum.

Reikna má með, að eftirlitsstöð á borð við Keflavíkurflugvöll eigi framtíð fyrir sér í heimi hernaðarlegrar hláku. Þar hefur verið fylgzt með ferðum hernaðartækja í lofti, á sjó og í sjó. Slíkt eftirlit verður sennilega talið alveg eins nauðsynlegt í náinni framtíð.

Hins vegar er líklegt, að framkvæmd eftirlitsins geti breytzt. Til dæmis kemur til greina, að samið verði um, að þar verði fulltrúar Sovétríkjanna til eftirlits með eftirliti Bandaríkjanna. Einnig opnast betri möguleikar en áður á þátttöku og frumkvæði af hálfu Íslands.

Bezt væri, að Íslendingar tækju smám saman við sem mestu af því eftirliti, sem hernaðarlegir hagsmunaaðilar telja hæfilegt á Norður-Atlantshafi í framtíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Beint til Bruxelles

Greinar

Evrópubandalagið er ekki andvígt tvíhliða viðræðum við einstök ríki Fríverzlunarsamtakanna, þótt íslenzk stjórnvöld hafi fullyrt slíkt í vetur. Í síðustu viku var forsætisráðherra Noregs, Jan Syse, í Bruxelles að ræða sjávarútveg og samskipti Noregs við bandalagið.

Hingað til hafa íslenzk stjórnvöld sagt, að rétta leiðin til að koma íslenzkum sjónarmiðum á framfæri við Evrópubandalagið sé á vegum samstarfsnefndar, sem Fríverzlunarsamtökin stofnuðu til að ræða við Evrópubandalagið. Við áttum formennsku í þeirri nefnd í fyrra.

Fríverzlunarsamtökin hafa fallizt á að gera íslenzka sjónarmiðið um fríverzlun með fisk að sínu sjónarmiði í viðræðunum við Evrópubandalagið. Samt er í Fríverzlunarsamtökunum lítill áhugi á slíkri fríverzlun. Við óttumst, að þetta stefnumál falli niður, þegar á reynir.

Reyndir samningamenn vita, að hliðaratriði, sem fáir hafa áhuga á, verða oftast að víkja, þegar herzlumuninn vantar í undirritun samninga. Þá er hætt við, að meirihlutinn í Fríverzlunarsamtökunum segi við okkur: Við reyndum eins og við gátum, en það tókst bara ekki.

Mikilvægt er, að við höldum dauðahaldi í ákvörðun Fríverzlunarsamtakanna um fríverzlun á fiski og reynum að gæta þess, að samtökin fari hvergi út af sporinu á leið sinni til samnings við Evrópubandalagið. Við þurfum því að taka virkan þátt í nefndarstarfinu.

Einnig þarf að halda áfram að leggja áherzlu á viðræður einstakra íslenzkra ráðherra við ráðherra sama starfssviðs í einstökum ríkjum Evrópubandalagsins, svo sem sjávarútvegsráðherra hefur gert. Hver fundur af slíku tagi er dropi, sem hjálpar til að hola steininn.

En okkar menn verða líka að fara beint og oft til Bruxelles og ræða við valda- og embættismenn bandalagsins sjálfs, því að þar eru hinar raunverulegu ákvarðanir teknar. Úr því að Syse fór þangað, hljóta Delors og menn hans að fást til að taka á móti Steingrími.

Mandarínarnir í Bruxelles hafa bitið sig fast í, að utangarðsríki verði að greiða aðgang að fiskmarkaði með því að veita aðgang að fiskimiðum. Þetta er ekki endilega sjónarmið einstakra ríkisstjórna í Evrópubandalaginu, en þetta er sjónarmið mandarínanna í Bruxelles.

Við höfum ljómandi góða röksemd gegn þessu og eigum að keyra á henni í síbylju í Bruxelles. Hún er, að fyrir aðgang að fiskmarkaði þar eigi að greiða með aðgangi að fiskmarkaði hér og fyrir aðgang að fiskimiðum hér eigi að greiða með aðgangi að fiskimiðum þar.

Ef mandarínunum finnst stórmál að hleypa okkur inn á fiskmarkað í löndum þess, eigum við að bjóða þeim inn á okkar fiskmarkað með sinn fisk. Ef þeim finnst stórmál að komast til veiða í íslenzkri lögsögu, eigum við að spyrja, hvaða veiði þeir bjóði á móti.

Þeir vita, að þeir geta ekki boðið okkur neina veiði í fiskveiðilögsögu neins ríkis Evrópubandalagsins. Þess vegna eiga þeir að vita, að við getum ekki boðið þeim neina veiði í okkar lögsögu. Þótt þeir þjarki og þrasi fram í rauðan dauðann, vita þeir, að þeir fara með rugl.

Þetta er veikleikinn, sem við eigum að hamra á. Við getum boðið gagnkvæmnina, sem þeir tala svo mikið um. En við viljum, að gagnkvæmnin sé í sömu mynt, markaður komi fyrir markað og veiðikvóti komi fyrir veiðikvóta, en óskyldum hlutum sé ekki ruglað saman.

Því eiga okkar menn að gera tíðreist til Bruxelles, unz mandarínarnir verða orðnir svo þreyttir á okkur, að þeir fallast á það, sem alltaf var siðferðilega rétt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hriktir í stoðum Nató

Greinar

Varnaráðherra Belgíu hefur óvænt látið byrja að skipuleggja brottför belgíska herliðsins frá Vestur-Þýzkalandi. Þetta er rúmlega þriðjungur af öllum landher Belgíu. Er stefnt að því að leggja þennan hluta niður og flytja vopnabúnaðinn á haugana eða selja hann.

Þannig eru byltingin í Austur-Evrópu og hrun Varsjárbandalagsins farin að hafa áhrif á varnarsamstarf vestrænna ríkja. Hver ríkisstjórnin á fætur annarri í Atlantshafsbandalaginu mun nú sjá sér hag í að spara útgjöld til hermála og nota á öðrum brýnum sviðum.

Að vísu þýðir undirbúningur Belga ekki, að ákveðið hafi verið að leggja niður herinn í Vestur-Þýzkalandi. Ráðamenn í Belgíu segjast bara vilja vera tilbúnir með skipulagið, ef árangur verði af viðræðum austurs og vesturs í Vínarborg um hefðbundin vopn í Evrópu.

En óþolinmæði Belga er augljós og veldur miklum áhyggjum í aðalstöðvum Atlantshafsbandalagsins, sem eru í Belgíu. Á skrifstofunum þar sjá menn fram á, að fleiri verði óþolinmóðir og muni fylgja eftir Belgum, svo sem Hollendingar, Danir og Kanadamenn.

Þetta er gamla sagan, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur óvin sinn. Atlantshafsbandalagið stendur nú andspænis hættunni á að verða talið úrelt, þegar hinn mikli óvinur í austri er búinn að missa vígtennurnar og virðist jafnvel vera að gufa upp.

Deila má um, hversu tímabær er óþolinmæði á Vesturlöndum. Ástand er ótryggt í Sovétríkjunum um þessar mundir. Opnunarstefna Gorbatsjovs flokksformanns sætir vaxandi óvinsældum heima fyrir. Enginn veit, hversu lengi endist valdaskeið hans eða stefnu hans.

En óneitanlega er á líðandi stund ekki unnt að sjá annað en, að Rauði herinn sé kominn á fremsta hlunn með að undirbúa brottför sína frá Austur-Evrópu og að herir Austur-Evrópu verði ófáanlegir til að taka þátt í aðför að Vesturlöndum um ófyrirsjáanlega framtíð.

Þjóðir Vesturlanda hafa komið sér upp margvíslegum þörfum, sem ríkin geta ekki fullnægt. Þegar spenna austurs og vesturs hefur hríðfallið um skeið, er óhjákvæmilegt, að ríkisstjórnir Vesturlanda renni hýru auga til peninganna, sem nú fara til varnarmála.

Útgjöld til varnarmála minna mjög á útgjöld Íslendinga til landbúnaðar. Í báðum tilvikum er um að ræða fé, sem brennt er og kemur engum að gagni. Og í báðum tilvikum er um að ræða umtalsverðan hluta ríkisútgjalda, sem menn vildu gjarna nýta á öðrum sviðum.

Belgar, Hollendingar, Danir og Kanadamenn eru líklegir til að láta fljótlega undan freistingunni. Enn stærri vandi verður Atlantshafsbandalaginu á höndum, þegar menn átta sig á, að mikill meirihluti Austur-Þjóðverja vill sameinast samlöndum sínum í Vestur-Þýzkalandi.

Þungamiðja Atlantshafs- og Evrópubandalagsins er í Vestur-Þýzkalandi. Allar áherzlur munu nú breytast á þeim sviðum, þegar Vestur-Þjóðverjar fara að einbeita sér að sameiningu Þýzkalands og verða tilleiðanlegir að semja um vopnalaust friðarsvæði í Mið-Evrópu.

Þar sem Atlantshafsbandalagið er að flosna upp í kjölfar uppgufunar Varsjárbandalagsins, er tímabært að skoða, hver verður framtíð eftirlitsstöðvar á Keflavíkurflugvelli. Hugsanlegt er, að gildi slíkra stöðva vaxi, ef austur og vestur semja um aukið hernaðareftirlit.

Afvopnunarhræringar í Belgíu eru bara lítill hluti af þeim litla hluta ísjakans, sem sést ofan sjávarmáls. Undir niðri eru mun stærri friðarhræringar á ferð.

Jónas Kristjánsson

DV

Mannréttindi eflast

Greinar

Stjórn Ceausescus Í Rúmeníu naut fram undir andlátið sérstakrar velvildar stjórnar Bandaríkjanna, þar á meðal svonefndra beztu kjara í viðskiptum. Þetta stafaði af, að Ceausescu stóð oft uppi í hárinu á ráðamönnum Sovétríkjanna, Bandaríkjamönnum til ánægjuauka.

Ráðamenn vestra hafa lengi metið fólk eftir, hvort það segist vera á móti “Rússum” og “kommum”. Þetta hefur sett svip á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sérstaklega gagnvart þriðja heiminum, þar sem dólgum af ýmsu tagi hefur verið lyft á kostnað lýðræðissinna.

Með hruni Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins minnka líkurnar á, að ógeðfelldar ríkisstjórnir og stjórnmálamenn í þriðja heiminum geti spilað á Bandaríkin í skjóli Rússa- og kommagrýlunnar. Þetta mun smám saman bæta ástandið í þriðja heiminum.

Hjöðnun spennunnar milli póla austurs og vesturs hefur líka áhrif á hinn veginn. Fidel Castro mun veitast örðugar að sníkja hjá Sovétríkjunum fé til viðhalds harðstjórn sinni á Kúbu. Ýmsir aðrir ógeðfelldir skjólstæðingar Sovétríkjanna sjá fram á erfiða tíma.

Breytingin gerist ekki á svipstundu. George Bush Bandaríkjaforseti er enn að reyna að halda á floti hinu vanheilaga bandalagi Bandaríkjanna og Kína, til dæmis með því að ofsækja kínverska námsmenn, er vilja fá að vera áfram vestra af ótta við kínverska ráðamenn.

Skömmu fyrir áramótin laug James Baker, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að desemberferð ráðherranna Scowcrofts og Eagleburgers til Kína væri sú fyrsta eftir fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar. Í ljós hefur komið, að þeir voru þar líka rétt eftir morðin.

Bush virðist ímynda sér, að hann hafi sem sendiherra í Kína í gamla daga öðlazt skilning á, hvernig beri að umgangast ráðamenn þar eystra. Ekki hefur blásið byrlega fyrir þeirri ímyndun í vetur, en Bandaríkjaforseti hefur enn ekki lært af þeirri bitru reynslu.

Þetta lagast vonandi fljótlega, sem og viðhorf stjórnvalda í Bandaríkjunum til ýmissa stjórnvalda, sem hafa of lengi skákað í skjóli kalda stríðsins. Þíðan rýrir svæðisbundið mikilvægi stjórnvalda í vandræðaríkjum á borð við Ísrael, Suður-Afríku og El Salvador.

Erfiðara verður fyrir ríkisstjórn Turgut Özals í Tyrklandi að halda áfram ógeðfelldum mannréttindabrotum í skjóli þess, að ríkið hefur landamæri að Sovétríkjunum og er öflug brjóstvörn Atlantshafsbandalagsins í suðri. Þannig munu Tyrkir græða á þíðunni eins og fleiri.

Hingað til hafa hin vondu áhrif kalda stríðsins verið eins og vítahringur. Stuðningur Sovétríkjanna við Víetnam, hernámsríki Kambódíu, og tilhugalíf Bandaríkjanna og Kína, óvinar Víetnams, leiddi til óbeins stuðnings Vesturlanda við Rauðu khmerana í Kambódíu.

Nú má á hinn bóginn vænta uppsöfnunaráhrifa þíðunnar. Þegar ráðamenn í Bandaríkjunum sjá, að ekki hentar Vesturlöndum að halda uppi hryðjuverkastjórn í Ísrael, má búast við, að auðveldara verði að einangra þær stjórnir í heimi íslams, sem verst haga sér.

Þegar mannréttindabrjótar geta ekki lengur hallað sér að heimsveldi, hafa Vesturlönd fengið tækifæri til að ryðja braut hinum raunverulegu hagsmunum Vesturlanda, sem felast í, að vestrænar hugmyndir um mannréttindi nái fram að ganga í þriðja heiminum.

Þannig verða aukin mannréttindi í þriðja heiminum eitt af stærstu framfaramálum mannkyns á næstu árum, einmitt vegna hruns sovézka heimsveldisins í vetur.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðuneyti játar sukkið

Greinar

Talsmaður landbúnaðarins hefur krafizt, að starfsmaður við Háskóla Íslands verði rekinn fyrir að segja útgjöld ríkisins í útflutningsuppbætur vera hærri en hagsmunaaðilar landbúnaðarins halda fram. Þeir segja þessar uppbætur nema 800­900 milljónum króna.

Slíkar kröfur heyrast öðru hverju í umræðunni um landbúnað. Talsmenn landbúnaðarins beita þeim stundum, er þeir eru komnir út í horn og geta ekki lengur varizt. Í kröfunni felast leifar sama hugsunarháttar og hjá ráðamönnum í Austur-Evrópu til skamms tíma.

Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur hjá háskólanum, hefur samt rétt fyrir sér. Fjármálaráðuneytið hefur staðfest í bréfi frá 19. þessa mánaðar, að það telur liðinn “uppbætur á útfluttar landbúnaðarafurðir” hafa numið 1617 milljónum króna í fyrra, en ekki 900 milljónum.

Í bréfi ráðuneytisins kemur fram, að þessi liður skiptist í tvennt, eins og hann hefur gert í nokkur ár, síðan farið var að greiða hluta bótanna í svokallaðan Framleiðnisjóð. Skiptingin í fyrra fólst í 490 milljónum í Framleiðnisjóð og 1127 milljónum í hefðbundnar uppbætur.

Athyglisvert er, að Alþingi hafði upphaflega gert ráð fyrir, að 610 milljónir færu í hinar hefðbundnu útflutningsuppbætur. Þannig voru fjárlög afgreidd. En smám saman leyfði ríkisstjórnin sér að bæta 507 milljónum ofan á, svo að uppbætur ársins komust í 1127 milljónir.

Formaður fjárveitinganefndar, Sighvatur Björgvinsson, hefur boðað nýja siði: Alþingi muni reyna að hindra ríkisstjórn í að eyða peningum, sem hún má ekki samkvæmt fjárlögum. Er ætlunin að fá Alþingi til að samþykkja frumvarp um það efni á því þingi, sem nú situr.

Tilefni fyrirhugaðra laga er gífurleg misnotkun ríkisstjórna á svokölluðum aukafjárveitingum utan ramma fjárlaga. Þessi misnotkun kemur einkum fram í útgjöldum til landbúnaðar, sem á hverju ári fara langt fram úr þeim upphæðum, sem skammtaðar hafa verið.

Í fyrra hafði fjárveitingavaldið skammtað landbúnaðarráðuneytinu 2877 milljónir króna til allra annarra hluta en niðurgreiðslna. Í raun fóru útgjöld ráðuneytisins upp í 3815 milljónir. Það felur í sér ólöglega aukningu ráðuneytisins um 938 milljónir á því ári einu.

Svipaða sögu er að segja um niðurgreiðslur á vöruverði, sem eru styrkur til landbúnaðar, af því að þær beinast að afar dýrum afurðum hins hefðbundna landbúnaðar, en ekki að ódýrum matvælum, sem almenningur kaupir, svo sem brauði, öðrum kornmat og fiski.

Alþingi hafði skammtað stjórnvöldum 3353 milljónir króna í fyrra til niðurgreiðslu á afurðum úr landbúnaði Þegar ríkisstjórnin var búin að leika lausum hala allt árið, var útgjaldaupphæðin á þessum lið komin upp í 4272 milljónir króna. Er það 919 milljón króna hækkun.

Þannig tókst ríkisstjórninni í fyrra að greiða 1857 milljónum meira til landbúnaðar en henni var heimilt að gera samkvæmt fjárlögum. Hafa menn verið settir inn hér á landi fyrir minni óreiðu í fjármálum. Það er von, að fjárveitinganefnd vilji stemma stigu við slíku.

Fróðlegt er, að bréf fjármálaráðuneytisins frá 19. þessa mánaðar játar, að útgjöld til niðurgreiðslna og annarra landbúnaðarmála námu í fyrra 8087 milljónum króna, sem er ríflega sú upphæð, er gagnrýnendur landbúnaðar hafa talað um á síðustu mánuðum.

Svo er önnur saga, að þessir átta milljarðar eru notaðir til að halda uppi einokun, sem kostar neytendur sjö milljarða króna til viðbótar í óðeðlilegu vöruverði.

Jónas Kristjánsson

DV

Ruglast á hagsmunum

Greinar

Ætla mætti af málatilbúnaði forustusveitar stéttarfélaga, að félagsmenn þeirra snæði lambakjöt með smjöri nokkrum sinnum í viku, séu í hópi þekktustu skulda- og vaxtakónga landsins og séu hluthafar í mestu offjárfestingarhúsum frystiiðnaðarins í landinu.

Að óreyndu hefði mátt ætla, að oddamenn launþega hefðu allt annað að leiðarljósi, til dæmis að fá fyrir sitt fólk stærri bita af þjóðhagskökunni, ­ og líklega enn frekar að fá þessa köku stækkaða, svo að allir geti fengið meira, án þess að það sé á kostnað annarra.

Ef verkalýðsrekendur hefðu áhuga á kjörum umbjóðenda sinna, heimtuðu þeir ekki auknar niðurgreiðslur á lúxusvörur, sem almenningur hefur hvort sem er ekki ráð á að nota nema einstöku sinnum. Þeir beindu frekar athyglinni að ódýrari matvöru almennings.

Almenningur borðar hversdagslega fisk, kornvöru og grænmeti, en ekki kjöt og smjör. Ef niðurgreiðslur eiga á annað borð rétt á sér, eiga þær heima í fiski, kornvörum á borð við brauð, hveitilengjur og hrísgrjón og í grænmeti á borð við kartöflur og lauk.

Þetta má líka orða á annan hátt. Ef umbjóðendur fínu mannanna við samningaborðið lifa á dýru lambakjöti og dýru smjöri, þurfa þeir ekki hærri laun. Það er tómt mál, þótt gert sé, að tala um niðurgreiðslur á kjöti og smjöri sem lið í að bæta kjör almennings í landinu.

Að óreyndu hefði mátt ætla, að helzta krafa verkalýðsrekenda væri, að matvöruverð í landinu yrði lækkað um marga milljarða með því að leyfa frjálsan innflutning allra landbúnaðarafurða, sem eru og verða til í óskaplegu offramboði á lágu heimsmarkaðsverði.

Forusta Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefur þó ekki meiri áhuga á lífskjörum almennings en svo, að hún lætur sér nægja að biðja um innflutning á kjúklingum og kartöflum og það á 70% tolli. Af hverju bara kjúklinga og kartöflur

Samningamenn stéttarfélaga hafa ennfremur gerzt umboðsmenn fyrir gæludýrin í atvinnulífinu, sem hafa meiri aðgang en aðrir að naumt skömmtuðu lánsfé í landinu. Þeir heimta lækkun vaxta, svo að verðgildi forréttindanna aukist enn frá því, sem nú er.

Almenningur skuldar peninga, sérstaklega þeir, sem hafa staðið í kaupum á íbúð. Það eru þó smámunir í samanburði við skuldir gæludýranna. Með kröfunni um lækkun vaxta er verið að heimta tilfærslu fjármuna frá þjóðarheildinni til óráðsíufyrirtækjanna í náðinni.

Einnig hefur forustusveit félaga launafólks tekið að sér umboð fyrir illa rekin frystihús, sem ekki geta greitt sjómönnum heimsmarkaðsverð fyrir aflann og ekki einu sinni verðið á Faxamarkaði í Reykjavík. Hún hefur heimtað, að dregið verði úr útflutningi á ísfiski.

Útflutningur á ísfiski hefur gert þjóðfélaginu í heild kleift að ná hærra verði fyrir fiskinn og með miklu minni tilkostnaði. Ísfiskútflutningurinn er ein af beztu leiðunum til að stækka kökuna, sem er til skiptanna, en hann er andstæður hagsmunum frystihúsanna.

Ætla mætti, að samtök frystihúsa, stjórnmálaflokkar, landbúnaðarráðuneyti og stofnanir landbúnaðarins væru einfær um að gæta hagsmuna illa rekinna frystihúsa, gæludýra atvinnulífsins og þess búvöruskrímslis, sem árlega brennir fimmtán milljarða af þjóðarfé.

Hvað verkalýðsrekendur eru að gera í þessari ógæfulegu sveit, er engan veginn ljóst. Altjend eru þeir ekki að gæta hagsmuna fátæka fólksins í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Nútími genginn í garð

Greinar

Borgarastríðið í Kákasus hefur linað spennuna á löndunum við Eystrasalt. Meðan Rauði herinn er upp tekinn við að reyna að ganga á milli Azera og Armena, er ekki líklegt, að foringjar hans vilji bæta við blóðbaði norður í Litháen, Eistlandi og Lettlandi.

Fyrir tuttugu öldum var rómverski herinn á ferð og flugi frá Egyptalandi til Skotlands og frá Portúgal til Rúmeníu. Þannig var heimsveldi haldið saman í þá daga. Nú er slíkt ekki lengur talið unnt og því er liðinn tími fjölþjóða-heimsveldis á borð við Sovétríkin.

Þegar ríki eru komin að ákveðnu menningarstigi í nútímanum, er ekki lengur kleift að beita ríkisher gegn almenningi. Innanlands er einungis unnt að nota her til björgunarstarfa eins og í Armeníu eftir jarðskjálftann og til að stilla til friðar eins og nú í Kákasus.

Austur-Evrópa er að mestu leyti komin á þetta vestræna menningarstig. Að minnsta kosti er ljóst, að ríkisher verður ekki beitt gegn borgurum í Ungverjalandi, Póllandi, Austur-Þýzkalandi og Tékkóslóvakíu. Telja má þessi fjögur ríki vera varanlega komin vestur yfir.

Eina umtalsverða hættan er, að opnunarstefnu Gorbatsjovs, flokksformanns í Sovétríkjunum, verði hrundið með hallarbyltingu í Kreml og að við taki herskárri öfl. Þótt svo kunni að fara, verður óbærilegt fyrir nýja valdhafa að beita Rauða hernum gegn Austur-Evrópu.

Þjóðir og hermenn Austur-Evrópu munu standa saman gegn Rauða hernum, ef á þarf að halda. Ekki þarf mikinn herfræðing í Moskvu til að reikna, að herför mundi ekki svara kostnaði. Það verður á mörkunum, að harðlínumenn treysti sér í ofbeldi við Eystrasalt.

Sama er, hverjir verða við völd í Sovétríkjunum á næstu mánuðum og árum. Allir verða þeir uppteknir við að halda uppi “pax sovjetica” innan eigin landamæra. Hætt er við, að orkan fari að miklu leyti í að reyna að ganga á milli stríðandi fylkinga í Kákasus.

Margt hefur breytzt frá tímum Rómaveldis, þegar þjóðerni var ekki í tízku. Nú eru tunga og trú orðin að þvílíku afli, að annað verður undan að láta. Fleiri ríki en Sovétríkin eiga erfitt með að hemja þetta afl. Um allan heim krefst hvert tungumál síns sérstaka ríkis.

Meðan Rauði herinn er enn með lið í Austur-Evrópu er enn hætta á ferðum. En vinna herforingja í Austur-Evrópu beinist nú einkum að, hvernig mæta skuli hugsanlegri tilraun Rauða hersins til að koma leppum í stjórn á nýjan leik. Þetta vita foringjar Rauða hersins.

Ríkisstjórnir Austur-Evrópu hafa nú hver á fætur annarri krafizt brottfarar sovézka hernámsliðsins sem allra fyrst. Sumar vilja, að herinn verði allur farinn á brott fyrir árslok, en aðrar gefa færi fram á næsta ár. Og Kremlverjar munu smám saman verða að beygja sig.

Hinn skammi tími, sem ríkisstjórnir Austur-Evrópu gefa til stefnu, byggist auðvitað á, að þær vilja losna við Rauða herinn, áður en harðlínumenn gera hallarbyltingu í Kreml. Brottför einfaldar málið með því að draga úr síðari freistingum æðikolla í röðum harðlínumanna.

Hugmyndafræðilegir sigurvegarar sviptinganna í Austur-Evrópu og Sovétríkjanna eru markaðsbúskapur, þjóðernishyggja og mannréttindastefna. Þetta þrennt er komið á torstöðvaða sigurgöngu í Austur-Evrópu og farið að hafa veruleg áhrif í Sovétríkjunum sjálfum.

Þannig fer dýrð Rómavelda nútímans, að menntaðir ráðamenn þora ekki lengur að aka skriðdrekum yfir fólk. Þá er vestrænn nútími loksins genginn í garð.

Jónas Kristjánsson

DV

Dropinn holar steininn

Greinar

Enn hefur hagfræðingur kvatt sér hljóðs og sett fram í tölum kostnað þjóðfélagsins af einokun í landbúnaði. Guðmundur Ólafsson í Háskóla Íslands hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að einokunin kosti þjóðina sem svarar fimmtán milljörðum króna á ári hverju.

Áður hafði Markús Möller hjá Seðlabanka reiknað, að afnám einokunar í hefðbundnum landbúnaði gæfi níu milljarða króna. Ef við hans tölur er bætt hliðstæðum tölum vegna annarra afurða en hefðbundinna, kæmu tæpir þrettán milljarðar úr einokunardæminu.

Dagblaðið Tíminn gerði í fyrrasumar athugasemdir við reikning Markúsar. Samanlagt nam frádráttur Tímans tveimur milljörðum króna, svo að óbein niðurstaða blaðsins var ellefu milljarðar króna, þótt blaðið setti niðurstöðuna ekki fram á svo skýran hátt.

Þannig hefur að undanförnu verið fjallað í fjölmiðlum um herkostnað þjóðfélagsins af landbúnaði upp á ellefu, þrettán eða fimmtán milljarða. Þótt tölurnar séu misjafnar, enda byggðar á misjöfnum útreikningum, sýna þær sameiginlega stærðargráðu vandamálsins.

Mikil breyting hefur orðið á umræðunni síðan þetta dagblað var nánast eini hrópandinn í eyðimörkinni. En hugarfarsbreytingin er þó ekki meiri en svo, að enn er nokkur meirihluti þjóðarinnar fylgjandi áframhaldandi innflutningsbanni og einokun á landbúnaðarvörum.

Merkilegt er raunar, að Íslendingar skuli vera að væla um lífskjör sín og standa í vinnudeilum út af hærra kaupi, á sama tíma og þeir samþykkja, að teknir skuli af þeim ellefu til fimmtán milljarðar árlega til að halda uppi óhóflegri starfsemi í arðlausum landbúnaði.

Á einstaka stað í stéttarfélögunum er fólk þó farið að sjá ljósglætu. Verkamannafélagið Hlíf í Hafnarfirði hvatti nýlega til, að leyfður yrði frjáls innflutningur á landbúnaðarafurðum. Formaðurinn sagði af því tilefni, að launþegar væru búnir að fá nóg af háu búvöruverði.

Þá er forustulið Alþýðusambandsins og bandalags opinberra farið að setja fram hugmyndir um, að rofið verði örlítið skarð í Berlínarmúr landbúnaðarins með innflutningi á kjúklingum og eggjum. Það er ekki djörf tillaga, en sýnir þó mælanlega hugarfarsbreytingu.

Í stjórnmálunum er líka farið að tala opinskár um vandamálið. Jón Baldvin Hannibalsson segir á fundum, að ódýrara sé að senda bændum heim ráðherralaun í pósti en að halda uppi núverandi kerfi. Hér á DV hefur þó ekki verið talað um meira en kennaralaun.

Birting, nýja uppreisnarfélagið í Alþýðubandalaginu í Reykjavík, skellti inn á landsfund tillögum um, að opinn og frjáls markaður stjórnaði samkeppni milli innlends og erlends landbúnaðar. Þessu var ekki vel tekið, en dropinn holar steininn þar eins og annars staðar.

Ríkið leggur fram um átta milljarða króna árlega af peningum skattborgara til að halda uppi kerfinu. Þetta jafngildir þremur fjórðu af öllum tekjuskatti allra fjölskyldna í landinu. Til viðbótar skattleggur það þjóðina með því að neita henni um ódýrar búvörur að utan.

Þátttakendur í umræðunni eru ekki alveg sammála um, hversu mikil þessi viðbót sé, þrír, fimm eða sjö milljarðar. En enginn efast lengur um, að innflutt búvara mundi gera miklu betur en að spara niðurgreiðslur, útflutningsuppbætur og alla landbúnaðarstyrki.

En meðan fólk lætur innflutningsbann viðgangast, er réttast, að það sé ekki að væla um háa skatta og kröpp kjör og litla vinnu og annað slíkt sjálfskaparvíti.

Jónas Kristjánsson

DV

Eina kreppuþjóðin

Greinar

Við erum allt í einu sér á báti í hópi þjóða Stofnunar efnahagsþróunar, OECD. Íslendingar voru í fyrra eina aðildarþjóðin, sem bjó við kreppu, og svo verður einnig á þessu ári, samkvæmt spá stofnunarinnar. Móðurskipið siglir sinn sjó, en íslenzka skektan hrekst undan veðri.

Yfirleitt höfum við farið í humátt á eftir öðrum þjóðum í nágrenni okkar. Þegar vel hefur árað í viðskiptalöndum okkar, hefur okkur gengið vel að koma afurðum okkar út á góðu verði. Þegar samdráttar eða stöðnunar hefur gætt umhverfis okkur, hefur þetta gengið verr.

Fá dæmi eru þess, að alger skilnaður verði á siglingu okkar og allra annarra þjóða í Stofnun efnahagsþróunar, sem er klúbbur ríku þjóðanna í heiminum. Við bjuggum þó í fyrra við næstum 3% samdrátt efnahags, en hinar þjóðirnar allar við hagvöxt, flestar vel yfir 3%.

Samkvæmt fyrri reynslu ætti okkur að hafa gengið vel í fyrra og ganga vel á þessu ári. Vegna velgengni viðskiptaþjóða okkar ætti verð íslenzkra afurða að vera hátt. Og það er einmitt hátt um þessar mundir. Einkakreppa okkar stafar af öðru en utanríkisviðskiptum.

Íslenzka einkakreppan er að verulegu leyti framleidd af stjórnvöldum, einkum ríkisstjórninni, sem nú hefur setið nokkuð á annað ár. Aðrir þættir hafa þó stuðlað að vandræðum okkar. Ber þar hæst, hversu erfitt okkur hefur reynzt að læra að laga okkur að raunvöxtum.

Þótt vextir hafi í nokkur ár oft verið jákvæðir, höfum við haldið áfram að haga okkur eins og lánsfé væri eins konar happdrættisvinningur. Við höfum ekki hert arðsemiskröfurnar í kjölfar breytingarinnar úr neikvæðum vöxtum og gjafvöxtum yfir í raunverulega vexti.

Við mörg gjaldþrot og ríkisforsjá síðustu mánaða hefur stungið í augu, að mörg gæludýra hins opinbera hafa efnt til fjármagnskostnaðar, sem fyrirfram mátti vita, að mundi leiða til ófarnaðar. Arðsemi fjárfestingarinnar gat ekki staðið undir raunverulegum vöxtum.

Annað atriði, sem líka hefur stuðlað að óförum Íslendinga, er fastgengisstefna ríkisstjórnarinnar, sem sat næst á undan þeirri, er nú situr. Stefnan var fundin upp í nefnd bjargvætta undir stjórn núverandi formanns vinnuveitenda og varð að tízkufyrirbæri, faraldri.

Fastgengisstefnan fór illa með sjávarútveginn árið 1988. Hún skekkti samkeppnisaðstæður hans og var upphaf mikils taprekstrar, sem sjávarútvegurinn hefur síðan ekki náð sér eftir. Hún veikti mótstöðu atvinnulífsins, þegar ógæfan skall á með núverandi ríkisstjórn.

Ofan á hefðbundna fjármunabrennslu í landbúnaði upp á 7­8 milljarða árlega bætti nýja ríkisstjórnin annarri eins 7­8 milljarða fjármunabrennslu í atvinnutryggingarsjóðum og hlutafjársjóðum og í margvíslegri annarri fyrirgreiðslu af hálfu velferðarríkis fyrirtækja.

Ríkisstjórn hefur frá upphafi verið önnum kafin við að strengja björgunarnet undir hvers konar rekstur, sem ekki stenzt arðsemiskröfur raunvaxta. Hún hefur tekið ábyrgð af herðum stjórnenda fyrirtækja, sem nú geta dansað á línu í trausti öryggisnetsins fyrir neðan.

Ríkisstjórnin hefur leitt arðleysi og tap til vegs með margvíslegri fyrirgreiðslu. Svigrúm vantar til hagvaxtar, því að jarðvegurinn er frátekinn handa gæludýrum, sem brenna verðmætin. Ríkisrekin velferðarstefna hnignandi atvinnurekstrar kæfir framtak þjóðarinnar.

Óbeit þjóðarinnar á vöxtum, fastagengi síðustu stjórnar og björgunarforsjá núverandi stjórnar hafa framleitt langvinna einkakreppu, séríslenzka.

Jónas Kristjánsson

DV

Öryggisnet gæludýranna

Greinar

“Ef þú skuldar bankanum 500 þúsund krónur, á bankinn þig, en ef þú skuldar bankanum 500 milljónir, áttu bankann.” Þetta er gamansöm tilraun til að lýsa í hnotskurn, að í fjármálum er alls ekki eitt látið yfir alla ganga í skömmtunar- og Stórabróður-ríkinu íslenzka.

Í fyrra urðu um 2000 reykvískir aðilar gjaldþrota, bæði einstaklingar og fyrirtæki. Það gerðist að mestu þegjandi og hljóðalaust, að á hverjum degi ársins 1989, helgum sem virkum, urðu tæplega átta aðilar að sjá drauma sína verða að martröð á þennan hátt.

Á sama tíma er hlaupið upp til handa og fóta til að bjarga öðrum aðilum, sem standa andspænis gjaldþroti. Í björgunarsveitunum eru einkum bankar og ríkisstjórn, sem verja mestum tíma sínum til að hlaupa undir bagga hjá þeim, sem ekki mega fara á höfuðið.

Eðlilegt er, að spurt sé um mörk feigs og ófeigs í viðhorfum banka og ríkisstjórnar til þeirra, sem eru að sigla í gjaldþrot. Fólk vill vita og á að fá að vita, hvað þurfi til að lenda í náðinni. Er það skírteini í Flokknum, hlutdeild lauks úr Ættinni eða eitthvað annað

Greinilegt er, að stærð vandamálsins er mikilvæg. Menn þurfa að koma vanskilum sínum við lánastofnanir yfir einhver mörk, sem eru svo há, að bankinn telji sig knúinn til að lána meira, meðal annars til að þurfa ekki strax að bókfæra mikið tap af viðskiptunum.

Ennfremur er greinilegt, að tegund starfseminnar er mikilvæg. Atvinnuvegirnir sitja ekki við sama borð, því að sumir eru taldir virðulegri og þjóðlegri en aðrir og eigi þar af leiðandi betra skilið. Til dæmis fá sjálfvirka björgun þau fyrirtæki, sem tengjast landbúnaði.

Einnig skiptir nokkru, að tegundin hafi verið í tízku á vegum hins opinbera. Ef ríkið hefur hvatt til starfsemi á borð við loðdýrarækt, finnst ráðamönnum, að það beri nokkra ábyrgð gagnvart þeim, sem ginntir voru til að fara úr hefðbundnum landbúnaði í loðdýrin.

Ýmsar fleiri ástæður eru stundum færðar fyrir stuðningi banka og ríkis. Forsætisráðherra sagði til dæmis, að ríkið yrði að bjarga Sambandinu, svo að Ísland fengi ekki óorð hjá erlendum lánardrottnum. Þetta er rangt hjá honum, en gildir sem sniðugur fyrirsláttur.

Stundum er ekki unnt að flokka ástæður góðvildarinnar. Það er til dæmis sér á parti, að ráðherrar og aðstoðarmenn þeirra skuli hafa tíma til að sitja á næturlöngum fundum um áramót til að ræða í fullri alvöru, hvort unnt sé að veita ríkisábyrgð til sjónvarpsstöðvar.

Hagfræðilega séð er í atvinnulífinu gífurlegur munur á línudansi með öryggisneti hins opinbera undir sér og án þess. Sá, sem hefur netið undir sér, í formi gífurlegrar lánafyrirgreiðslu eða ríkisábyrgðar, tekur öðruvísi ákvarðanir en hinn, sem stendur og fellur með þeim.

Gæludýrið með öryggisnetið tekur ábyrgðarminni ákvarðanir og gerir minni arðsemiskröfur til starfseminnar. Þetta er ein mikilvægasta ástæða þess, að efnahagslíf í Sovétríkjunum og Íslandi er verr á vegi statt en efnahagslíf í vestrænum ríkjum markaðsbúskapar.

Engin þjóð á Vesturlöndum fórnar jafnmiklum verðmætum til að halda uppi velferðarkerfi fyrirtækja og við gerum í fátækt okkar á Íslandi. Engin ríkisstjórn á Vesturlöndum stundar jafnharða Stórabróðurstefnu í atvinnulífinu og stjórn Steingríms Hermannssonar.

Þetta velferðarríki er ekki almenns eðlis, heldur beinist að svokölluðum gæludýrum. Smáseiðin sæta markaðsbúskap, en stórhvelin hafa öryggisnetið undir sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Millileiðin er ófær

Greinar

Í Sovétríkjunum búa 104 þjóðir í síðasta vígi fjölþjóðaríkja fyrri alda. Allar þessar þjóðir hugsa sér til hreyfings að fordæmi þjóðanna við Eystrasalt og í Kákasus. Í Litháen hefur Flokkurinn skorið á tengslin við Kreml. Blóðug átök eru hafin í Kákasus.

Sovétríkin eru ekki bara að missa tök á leppríkjunum í Austur-Evrópu, heldur líka að springa sjálf að innan. Engin leið er að sjá fyrir endann á eitthundrað-og-fjórfaldri þjóðfrelsishreyfingu innan landamæra Sovétríkjanna. Opnunarstefna Gorbatsjovs er ferð út í óvissuna.

Gegn þjóðfrelsisstefnu allra hinna þjóðanna í ríkinu hefur myndazt íhaldssöm þjóðfrelsishreyfing í gamla Rússlandi og meðal Rússa, sem búa úti á meðal hinna þjóðanna í ríkinu. Þetta hefur leitt til mikillar innri spennu í Eystrasaltslöndunum og raunar víðar.

Hugsanlegt er, að Rússar myndi með sér samsæri um að steypa annað hvort Mikhail Gorbatsjov eða opnunarstefnu hans úr stóli. Þótt flokksforinginn sé vinsæll í útlöndum, er ekki sama uppi á teningnum heima fyrir. Þar standa spjótin á honum, róttæk og íhaldssöm í senn.

Ekki er öruggt, að Sovétríkin séu varanlega komin á braut lýðræðis, þótt mikil breyting hafi orðið til batnaðar að sinni. Millileið Gorbatsjov er eins konar framsóknarstefna, sem fer bil beggja milli íhaldssemi og róttækni og leysir engan vanda í stjórnmálum og efnahag.

Gorbatsjov er að reyna að bjarga flokknum og miðstýringunni um leið og hann er að opna stjórnmál og efnahag. Hann vill ekki fórna forustuhlutverki flokksins, sem stangast á við opin stjórnmál. Hann vill ekki fórna miðstýringunni, sem stangast á við opinn markað.

Að sinni virðast Sovétríkin sameina verstu og óvinsælustu þætti austurevrópsku og kínversku leiðanna. Á annan veginn er reynt að opna fyrir stjórnmálaumræðu og opinn markað, og hins vegar er reynt að halda dauðahaldi í forsjá Flokksins og miðstýringu kerfisins.

Efnahagsástandið í Sovétríkjunum er verra en í Póllandi og er þá mikið sagt. Opnunin hefur ekki fært þjóðunum betri lífskjör. Þvert á móti hafa þau versnað og munu áfram versna. Lögmál viðreisnar fela í sér, að ástandið versnar fyrst, áður en það fer að batna.

Annaðhvort heldur opnunin áfram í Sovétríkjunum eins og í sumum ríkjum Austur-Evrópu eða þá, að hún verður stöðvuð með ofbeldi eins og í Kína. Millileið Gorbatsjovs er dauðadæmd. Annaðhvort leitar þjóðfélagið jafnvægis fram á við eða aftur á bak.

Leið Sovétríkjanna fram á við er þyngri en leið Austur-Evrópu. Flokkurinn hefur verið lengur við völd í Sovétríkjunum. Hann er þar ekki kominn til valda í skjóli kúgunar frá útlendu stórveldi í austri. Og hann baðar sig enn í ljóma sigurs í heimsstyrjöld.

Þrjár kynslóðir hafa lifað í Sovétríkjunum á lágu, en tryggu kaupi samyrkjubúa. Fólk þekkir lítið til markaðarins og óttast það litla, sem það sér núna. Þetta er ekkert óeðlilegt. Á Íslandi ríkir einnig mikil andstaða við markaðsöfl og stuðningur við miðstýringu.

Vegna alls þessa má búast við sviptingum í Sovétríkjunum í náinni framtíð. Vesturlönd geta lítil áhrif haft á gang mála, önnur en þau að taka vel í samdrátt vígbúnaðar. Það sparar Gorbatsjov mikla fjármuni, sem auðveldar honum að stíga fremur fram en aftur.

Veraldarsagan er að gerast í Austur-Evrópu og Sovétríkjunum um þessar mundir. Endir þessa kafla sögunnar er hulinn mun meiri þoku en almennt er talið.

Jónas Kristjánsson

DV

Álver örvæntingar

Greinar

Í hvert sinn sem erlent álfyrirtæki hefur helzt úr lestinni í svokölluðum Atlantal-hópi, hefur iðnaðarráðherra túlkað það sem hálfgerðan sigur og bent á fyrirtækin, sem eftir voru í hópnum. Fyrst voru þau fjögur, en nú eru þau orðin tvö. Og alltaf er ráðherrann bjartsýnn.

Rekstur þessa máls er farinn að mótast af örvæntingu. Iðnaðarráðherra og ríkisstjórnin telja nauðsynlegt fyrir sig, að framkvæmdir við orkuver og álver hefjist strax á þessu ári. Nýtt álver er eina vonin um að lina þjáningar af kreppunni, sem staðið hefur í tvö ár.

Ekki hefur enn fundizt kaupandi að orku versins við Blöndu, sem er langt komið. Nýtt álver mundi leysa þann vanda og einnig kalla á stórvirki í Fljótsdal austur á Héraði og aukningu við Búrfell. Í stað 2­3% atvinnuleysis kæmi rífandi atvinna í landinu í þrjú eða fjögur ár.

Með nokkurri aðstoð næstsíðustu ríkisstjórnar hefur þessari ríkisstjórn tekizt að kaffæra atvinnulífið svo mjög í miðstýringu og fyrirtækjavelferð, að hér verður varanleg sérkreppa fyrir Ísland, nema reist sé svo sem eitt 200 þúsund tonna álver á nokkurra ára fresti.

200 þúsund tonna álver er næstum sjö sinnum stærra en Ísal var í upphafi. Það er svo stórt, að ál yrði þriðjungur allra útflutningstekna Íslendinga, ef það seldist allt. Við erum þess vegna komin með mjög mörg egg í eina körfu, ef álver Atlantal-hópsins verður reist.

Álverð er einstaklega sveiflukennt, svo sem við höfum áþreifanlega reynt, því að orkuverð til Straumsvíkur hefur verið háð heimsmarkaðsverði á áli. Með 200 þúsund tonna álveri verða sveiflurnar svo djúpar, að þær munu framkalla sífellda óvissu í efnahagslífinu.

Svo illa getur efnahag þjóðarinnar verið komið, að betra sé að stóla á ótryggt orkuverð og álverð en ekki neitt. En málið er komið í miklu alvarlegri stöðu, þar sem fyrirtækin tvö, er eftir sitja í Atlantal-hópnum, treysta sér ekki ein í dæmið án aðildar ríkisins.

Ef íslenzka ríkið gerist þriðjungs eignaraðili að fyrirhuguðu álveri, er verið að færa efnahagslífið hér á landi í átt til Albaníu á sama tíma og ríki Austur-Evrópu eru á hröðum flótta undan ríkisþátttöku í atvinnurekstri. Við verðum eitt mest miðstýrða land álfunnar.

Eignaraðild ríkisins mun kosta börnin okkar, skattgreiðendur framtíðarinnar, 15­20 milljarða króna á núverandi verðlagi ofan á þá 45 milljarða, sem orkuverin og orkuflutningurinn munu kosta. Miklu minni og ótryggari arður er af eignaraðildinni en orkusölunni.

Þar að auki munu byggðastefnumenn krefjast þess, að ríkið leggi fram að gjöf nokkra milljarða króna til að brúa hagkvæmnisbilið milli Straumsvíkur og Eyjafjarðar, svo að erlendu eignaraðilarnir fáist til að reisa álverið fyrir norðan. Slíkar kröfur sigra yfirleitt.

Óséð er, hvaðan embættismönnum á að koma einkarekstrarvit og markaðsástríða til að fá súrál og rafskaut á lægsta verði og til að selja ál á hæsta verði. Líklegt er, að úr þessu verði rugl á borð við ríkisrekstur. Ríkið á ekki að koma nálægt svona sérhæfðum áhætturekstri.

En ráðherrarnir sjá, að eignaraðild aflar málinu fylgis í Alþýðubandalaginu og að Eyjafjörður aflar því fylgis byggðastefnumanna. Ráðherrarnir eru ekki að hugsa um þjóðarhag til langs tíma, heldur hvernig þeir geti mætt í næstu kosningar án kreppu og atvinnuleysis.

Verst er þó, að augljós örvænting ríkisstjórnarinnar eyðileggur samningsaðstöðuna gagnvart þeim tveimur erlendu aðilum, sem eftir sitja í dæmi Atlantals.

Jónas Kristjánsson

DV

Sagnfræðilegt ólæsi

Greinar

Panamamenn fengu ekki tækifæri til að reyna sjálfir að losna við sinn einræðisherra eins og Rúmenar fengu. Á sama tíma og Mikael Gorbatsjov Sovétformaður sagði, að Rúmenar væru einfærir um að sjá um sín mál, lét George Bush Bandaríkjaforseti hernema Panama.

Viðbrögð manna við hernámi Panama temprast af ánægju manna yfir, að óvenju ógeðfelldur harðstjóri skuli vera kominn á bak við lás og slá. En fljótlega munu menn komast að raun um, að innrás er ekki vænleg leið til að koma á lýðræði í landinu.

Á myndinni af brosandi forseta, Guillermo Endara, sást líka brosandi höfuðsmaður úr hernum, Roberto Armijo. Við munum eftir honum brosandi á mynd af Miguel Antonio Noriega. Við munum vafalaust sjá hann brosandi á mynd af næsta harðstjóra í Panama.

Margt bendir til, að bandaríska hernámsliðið í Panama telji henta sér og hagsmunum Bandaríkjanna, að ýmsir stuðningsmenn Noriegas í Panamaher fái að halda áfram að vera áhrifamenn í landinu. Bandaríkjamenn eru lagnir við að finna sér viðhlæjendur.

Þótt líklegt sé, að Guillermo Endara hafi í sumar unnið forsetakosningarnar, sem Noriega lét ógilda, er hætt við, að Panamamenn séu farnir að líta á hann sem strengbrúðu Bandaríkjanna og muni gera það í vaxandi mæli í framtíðinni. Slík er hættan við innrásir.

Að vísu voru Bandaríkin engan veginn öfundsverð af stöðunni. Noriega var áður fyrr á launum hjá Bush forseta, þegar hann var yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar. Bush var með sínum hætti að losa Panamabúa við uppvakning, sem hann hafði sent þeim.

En einföldu lausnirnar reynast oft engar lausnir, þegar til langs tíma er litið. Bandaríkin hafa áratugum saman beitt hernaðarlegu, stjórnmálalegu og efnahagslegu ofbeldi til að hafa sitt fram í Suður- og Mið-Ameríku, jafnan með slæmum afleiðingum fyrir báða aðila.

Hernámi Panama hefur verið tekið afar illa af almenningi, fjölmiðlum og stjórnvöldum í Suður- og Mið-Ameríku. Innrásin magnar óbeit á Bandaríkjunum sem illu afli, er standi í vegi fyrir þjóðfrelsi sunnar í álfunni. Sáðkorn safnast í nýja Kúbu eða nýtt Nicaragua.

Bandaríkin eiga enn ólærða lexíuna, sem evrópsku nýlenduveldin hafa verið að læra á síðustu áratugum og Sovétríkin eru að reyna að læra þessa mánuðina. Lexían segir, að þjóðfrelsi sé máttugra afl en fallhlífarlið. Það gildir jafnt um Panama, Rúmeníu og Afganistan.

Umheimurinn er smám saman að komast að raun um, að til eru þjóðir, sem fáir vissu af, svo sem Lettar og Eistar, Azerar og Armeníumenn. Þær eru ekki bara til, heldur harðskeyttar í ofanálag, þótt áratugum og jafnvel öldum saman hafi verið reynt að kúga þær.

Innrásin í Panama og hernámið sýnir takmarkaðan skilning á samhengi hlutanna, bæði í tíma og rúmi. Sá, sem lætur þungarokk dynja á sendiráði Páfagarðs og ryðst inn í sendiherrabústað Nicaragua, býður heim svari á öðrum stað og tíma. Í Mexíkó árið 2000?

Bandaríkjamönnum mistókst að bjarga Suður-Víetnam frá kommúnistum. Þeim mistókst að bjarga Líbanon frá ofsatrúarmönnum íslams. Þeim hefur mistekizt að hafa sitt fram í Suður- og Mið-Ameríku. Þeim hefur þó ævinlega tekizt að velja sér ókræsilega leppa.

Í skák heimsveldanna felur hernaðarsigur líðandi stundar í sér pólitískan ósigur um langa framtíð. Hver vann síðari heimsstyrjöldina Þýzkaland eða Japan?

Jónas Kristjánsson

DV