Greinar

Klikkaðir kjósendur

Greinar

Flest bendir til, að George W. Bush verði Bandaríkjaforseti í fjögur ár í viðbót, þrátt fyrir skelfilega reynslu af árunum fjórum, sem liðin er. Í kosningunum eftir hálfan annan mánuð hyggst helmingur kjósenda veita fylgi sitt versta forseta, sem verið hefur í Bandaríkjunum í áratugi.

Við skulum láta liggja milli hluta, að Bush er að eyðileggja límið í bandarísku þjóðfélagi með markvissum aðgerðum til að gera þá ofsaríku enn ofsaríkari, millistéttirnar fátækari og ýta undirstéttinni út af borðinu. Ef þetta er það, sem bandarískar millistéttir vilja, þá verði þeim að verðleikum.

Við skulum láta liggja milli hluta, að með geigvænlegri skuldasöfnun en Bush að gera Bandaríkin að þræli stjórnvalda í Kína. Þegar þau innkalla dollarana sína, verða Bandaríkin að gera eins og Kínastjórn vill. Bandaríski uppgangurinn hefur verið greiddur með kaupum Kína á fallandi dollurum.

Við skulum heldur líta á þær ógnir, sem Bush hefur fært umheiminum, þar á meðal Íslandi, sem hefur stutt hann með ráðum og dáð, eitt sárafárra Evrópuríkja. Alvarlegast er markvisst afnám fyrri aðgerða til varnar umhverfi mannkyns, allt frá Kyoto-bókuninni til verndunar náttúrusvæða.

Bush hefur gert heiminn ótryggari fyrir hryðjuverkum. Þau eru eins og fíkniefnin, verða ekki sigruð í stríði. Enda blómstra Osama bin Laden og al Kaída, fjölmennari en nokkru sinni fyrr. Enda eyða Bandaríkin nánast öllu fé sínu og allri orku í skelfilegt stríð gegn almenningi í Írak.

Bush er orðinn hataðri í Írak en Saddam Hussein var á sínum tíma. Enda drepur Bush fleiri óbreytta borgara þar á hvern klukkutíma en Saddam Hussein gerði á sínum tíma. Stóraukið ofbeldi örvinglaðs Bandaríkjahers í borgum Íraks hefur skilað öfugum árangri, hert þjóðina í hatri á hernáminu.

Bush er arftaki krossfaranna, sem sáðu ógn og skelfingu í Miðausturlöndum fyrir þúsund árum. Vesöl stuðningsríki Bandaríkjanna, einkum fámenn eyríki á borð við Ísland, geta þurft að súpa seyðið af stórauknu hatri almennings í Miðausturlöndum vegna stríðanna gegn Írak og Palestínu.

Hálf bandaríska þjóðin er svo skyni skroppin, að hún hyggst fela Bush fjögur ár í viðbót. Hún hefur viðhorf til lífsins og umheimsins, sem hér í Evrópu þekkjast aðeins í fámennum sértrúarsöfnuðum og öðrum ofbeldishópum. Hún mundi telja Sjálfstæðismenn terrorista, ef hún vissi, að þeir væru til.

Vandi heimsins næstu fjögur árin er ekki fyrst og fremst George W. Bush að kenna, heldur klikkuðum kjósendum, sem eru ófærir um að sjá heiminum fyrir forustu inn í framtíðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Trausti rúinn

Greinar

Samningur heilbrigðisráðherra vegna öryrkja var ekki einn. Samningarnir voru tveir. Sá fyrri var samningur hans við öryrkja upp á 1,5 milljarða og sá síðari var samningur hans við ríkisstjórnina upp á 1 milljarð króna. Svona vandi hefur áður einkennt ráðherrann í þessu máli og ýmsum öðrum.

Jón Kristjánsson skilur ekki hlutverk sitt sem ráðherra. Hann á ekki að vera sendisveinn fyrir hagsmunasamtök og ekki fyrirgreiðsluþingmaður, sem getur lofað upp í ermina á sér. Hann er ráðherra og þarf að standa og falla með niðurstöðum, sem verða í samningaviðræðum hans við hagsmunaaðila.

Ráðherra á að tryggja bakland sitt í ríkisstjórninni, þegar hann reynir að sætta hagsmunaaðila. Með símtölum getur hann útskýrt fyrir mikilvægum samráðherrum, hvernig mál standa og fengið stuðning þeirra við þá lausn, sem hann telur bezta í stöðunni. Þessa baklands hefur ráðherrann oft ekki aflað.

Jón Kristjánsson virðist ekki skilja þetta. Hann lítur á samninga sína við aðila úti í bæ, sem eins konar samkomulag um, að hann taki að sér málfærslu fyrir niðurstöðunni í ríkisstjórn og geti ekki lofað meiru en tveimur þriðju hlutum samningsins. Hann virðist telja þetta vera í lagi.

Ráðherrann verður svo meira að segja reiður, þegar hann er sakaður um svik við samkomulag við málsaðila úti í bæ. Ég reyndi eins og ég gat, segir hann við þá. Það er ekki hægt að kenna mér um, að það náðist ekki fram í ríkisstjórn, segir hann. Ekki benda á mig, segir sjálfur ráðherrann.

Ekki bætir úr skák, að Jón Kristjánsson virðist heykjast á málstaðnum á leiðinni frá hagsmunaaðila upp í ríkisstjórn. Hann gerir ekki samráðherrum sínum fulla grein fyrir, að hann verði að standa og falla með samningum úti í bæ. Allir samráðherrar hans vita, að hann muni ekki segja af sér.

Þótt heilbrigðisráðherra hafi getað ort góðar vísur í fjárlaganefnd og skipulagt þar fyrirgreiðslur, er hann ófær í ráðherrastólnum. Hann hefur ekki bein í nefinu og telur vera í lagi að semja um eitt við annan og um annað við hinn. Hann er misskilinn sáttasemjari á röngum stað í tilverunni.

Greinilega er þýðingarlaust fyrir aðila úti í bæ að semja við ráðherrann um niðurstöðu, sem síðan kemst ekki til framkvæmda, af því að ráðherrann starfar ekki eins og ráðherra, heldur eins konar sendisveinn eða ábyrgðarlaus málflutningsmaður, sem hvergi nýtur fullnægjandi trausts.

Sorglegastur er ráðherrann, þegar hann reiðist, þegar hann er sakaður um svik við undirskriftir sínar, af því að hann skilur með engu móti, að ábyrgð fylgir eigin undirskriftum.

Jónas Kristjánsson

DV

Náttúrusafnið

Greinar

Náttúran er okkur nákomnari en flestum öðrum auðþjóðum. Eldgos og jarðhiti, jöklar og stórfljót, neðansjávarhryggir og hafstraumar eru þættir í lífi okkar og atvinnuháttum, sögu okkar og þjóðvitund. Samt eigum við ekki frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.

Sagan er ofin sambúð við óblíða náttúru. Þjóðminjar hafa lengi við tímasettar eftir öskulögum. Jökulfljót hafa ætíð verið hindrun í vegi samgangna og verzlunar. Ætíð lifðu forfeðurnir á fiski úr sjó. Samt eigum við ekki frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.

Náttúran er líka mikilvæg í nútíma okkar, ekki bara í sjávarútvegi og landbúnaði, heldur einnig í orkufrekum iðnaði og hitaveitum. Náttúran er forsenda fyrir sérstöðu íslenzkra atvinnuhátta. Samt eigum við ekki frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.

Ekki má gleyma atvinnuvegi, sem einna mest hefur þanizt út, ferðamannaþjónustunni. Viðskiptamenn hennar hafa almennt meiri áhuga á náttúrunni heldur en þjóðinni sjálfri. Samt getur hún ekki vísað ferðamönnum í neitt frambærilegt náttúruminjasafn, náttúrusögusafn, náttúruvísindasafn.

Við erum upptekin af sögu okkar, höfum endurreist safn um þjóðminjar og innréttað safn um rígmont okkar í gamla Landsbókasafninu. En við felum náttúruminjasafn okkar í kössum í nokkrum kompum í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar einhvers staðar í Sveins Egilssonarhúsinu við Hlemmtorg.

Þangað er hvorki hægt að vísa neinum ferðamanni né neinu skólabarni. Allar aðrar þjóðir en Íslendingar eiga sitt glæsilega náttúrusafn, sem er hluti kerfisins. Sú ein þjóð, sem mest allra þjóða hefur mótazt af náttúru landsins, á ekkert frambærilegt safn til að sýna sjálfri sér og öðrum.

Ferðamannaþjónustan á að kalla á náttúrusafn í Reykjavík, sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn eiga að kalla á náttúrusafn, orkuiðnaðurinn á að kalla á náttúrusafn. Stjórnmálamenn eiga að slá keilur með að kalla á náttúrusafn og fylgja kröfunni eftir að sómasamlegum leiðarenda.

Lóð er til undir náttúrusafn á háskólalóðinni næst við náttúrudeildarhúsið nýja. Ríkisstjórnin ætti að láta gefa þjóðinni slíkt safn, til dæmis fyrir hluta af gróðanum af sölu Símans. Björn Bjarnason hafði alls engan áhuga á slíku safni og við vitum ekki um Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur.

Núverandi ástand þessa máls er til háborinnar skammar fyrir þjóðina, atvinnuvegina, stjórnmálamennina og landsfeðurna. Það niðurlægir okkur líka fyrir útlendingum, sem hingað koma.

Jónas Kristjánsson

DV

Umferðarhornið

Greinar

Reykjavíkurlistinn hefur átt ótrúlega erfitt með að ná áttum í skipulagsmálum. Í dagblöðunum birtist nokkrum sinnum í viku gagnrýni á skipulagið, einkum færslu Hringbrautar suður fyrir Umferðarmiðstöð. Minna er talað um skilningsleysi Reykjavíkurlistans á mesta umferðarhorni borgarinnar.

Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar er mesta umferðarhorn landsins. Byggðar eru umferðarbrýr út um allar trissur á Reykjavíkursvæðinu og ráðgerð milljarðaútgjöld í braut út um sund, nes og eyjar, en Reykjavíkurlistinn þvælist gegn mislægum gatnamótum á mesta umferðarhorninu.

Þessi gatnamót hafa lengi verið mesta slysahorn borgarinnar, en Reykjavíkurlistinn þverskallast enn við að láta gera þar mislæg gatnamót. Hver lumman og lygin hefur verið dregin upp eftir aðra til að útskýra, hvers vegna framkvæmdir á þessum stað komast ekki á eðlilegan stað í forgangsröð framkvæmda.

Stundum er sagt, að undirbúningur málsins sé í “eðlilegum farvegi”, sem þýðir á máli Reykjavíkurlistans, að hann er í salti. Stundum er sagt, að fleiri akreinar dugi til að laga gatnamótin og stundum er sagt, að mislæg gatnamót valdi sérstakri mengun á þessum stað eða flytji vandann annað.

Mest af þessu er bull. Sérstaklega er ámælisvert að halda því fram, að mengun aukist við, að ekki þarf að stanza bíla og taka þá af stað að nýju. Þvert á móti minnkar mengun við að bílar geta farið viðstöðulaust í stað þess að stanza á fjölfarnasta umferðarhorni borgarinnar og landsins alls.

Hitt er rétt, að flýting umferðar á þessu horni veldur þrýstingi á önnur umferðarhorn, svo sem við Lönguhlíð. Raunar er óvenjulegt, að Reykjavíkurlistinn átti sig á þessu, því að um tíma var að hann að gamna sér við byggð úti í Eiðisvík, þótt hún mundi auka álag á þrönga Hringbraut.

Bezt er að klippa á tengsl Lönguhlíðar og Miklubrautar og tryggja þannig viðstöðulausan akstur eftir allri Miklubraut eins og hún leggur sig. Miklatorg er að verða mislægt. Aukin bílageymsluhús við Tjörnina geta tekið við hraðari straumi bíla frá Kringlumýrarbraut og Miklubraut um Miklatorg.

Hrokinn er megineinkenni Reykjavíkurlistans í þessu máli sem öðrum skipulagsverkefnum. Oddamenn hans geta ekki tekið gagnrýni og rökrætt hana og enn síður geta þeir gefið eftir. Þessi viðbrögð eru dæmi um, að listinn hefur verið of lengi við völd í borginni og þarf að fara að fá hvíld frá völdum.

Verst er, að samsæri Reykjavíkurlistans gegn mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlubrautar veldur óþarfri mengun og óþörfum slysum á mesta umferðahorni landsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvaldasti klárinn

Greinar

Þangað er klárinn fúsastur sem hann er kvaldastur. Svo segir í sautjándu aldar máltæki, sem er klæðskerasniðið fyrir kaup Símans á hlut í Skjá einum. Fyrst var tugum milljóna stolið af Símanum til að nota í þetta gæludýr Sjálfstæðisflokksins og nú er hann farinn að kasta góðum peningum á eftir vondum.

Síminn er ríkisfyrirtæki, rekið af leifum Kolkrabbans. Ýmsir aðrir umboðsmenn Kolkrabbans hafa tekið sína eigin hagsmuni fram yfir hagsmuni Sjálfstæðisflokksins og látið afhenda sér gullnar fallhlífar til að stökkva yfir á ódáinsekrur digurra eftirlaunasamninga. En Síminn er ennþá ríkisfyrirtæki.

Forstjóri Símans notar peninga, sem aflast hafa í skjóli rándýrrar einokunar fyrirtækisins, til að kasta í gæludýr, sem lengi hefur verið áhugamál og verkefni afla í Sjálfstæðisflokknum, svo sem Morgunblaðsins og Landsbankans. Þetta er nýjasta björgunartilraunin af mörgum.

Skjá einum var stillt upp til að hirða leifarnar af Stöð tvö, þegar hún mundi hrapa af völdum offjárfestingar. Þannig ætluðu Flokkurinn, Kolkrabbinn og Morgunblaðið sameiginlega að ná tökum á fjölmiðlun á vegum einkaaðila til viðbótar tökum Sjálfstæðisflokksins á ríkisrekinni fjölmiðlun.

Þetta mistókst gersamlega eins og frægt hefur orðið og leiddi til atgangsins við að koma upp ríkisskipan fjölmiðla samkvæmt fjölmiðlafrumvarpi. Það var dregið til baka eftir harða rimmu, enda hafði Sjálfstæðisflokkurinn ekki nægan meirihluta á Alþingi til að stýra þjóðinni í þágu flokksins.

Kaup Símans á hluta í Skjá einum er örvæntingarfull aðgerð í tapaðri stöðu. Þau eru fyndinn eftirmáli fjölmiðlastríðs Sjálfstæðisflokksins, Kolkrabbans og Morgunblaðsins. Þau fela í sér veika von um, að tímabundið ástand Símans geti verið hækja að hökti Skjá eins inn í ótryggt framtíðarland.

Þegar Síminn verður einkavæddur, fer forstjórinn sömu leið og fyrri forstjórar kolkrabbans, í gullinni fallhlíf inn á ódáinsekrur eftirlauna. Vonað er, að vildarvinir muni kaupa fyrirtækið og tryggja framhald á stuðningi við Skjá einan. En líklega þarf Síminn fremur að gæta eigin hagsmuna.

Kannski kaupir Baugur Símann. Kannski kaupir Osama bin Laden Símann. Þetta eru dapurlegir og uggvænlegir tímar fyrir Kolkrabbann, sem hefur á vakt Davíðs Oddssonar séð heljartök sín á þjóðinni slitna hvert af öðru og komast í hendur aðila, sem ekki hafa fengið meðmæli af hálfu Flokksins.

Hinn sífellt fjársvangi Skjár einn hefur kvalið Flokkinn um langt skeið. Samt hefur hann ekki afskrifað matargatið. Flokkurinn er fúsastur þangað, sem hann er kvaldastur.

Jónas Kristjánsson

DV

Húsnæðisvextirnir

Greinar

Að frumkvæði KB-banka eru húsnæðisvextir komnir niður í 4,2% og munu áfram lækka á næstu misserum, því að erlendis eru húsnæðisvextir innan við 3% og þá með stimpilgjöldum og kostnaði inniföldum. Þetta frumkvæði bankans er auðvitað rothögg á hinn séríslenzka ríkisrekstur íbúðalánakerfisins.

Fyrsti veðréttur íbúða er og hefur alltaf verið eitt tryggasta veð, sem hægt er að fá. Reynslan sýnir líka, að íbúðalán endurgreiðast betur en flest önnur lán. Þess vegna er ekkert í markaðshagkerfinu, sem bannar, að þau lán séu með lægri vöxtum og kostnaði en önnur lán í þjóðfélaginu.

Ísland var áratugum saman skilið frá umheiminum með lítið hagkerfi og okurvexti. Nú er einangrunin smám saman að rofna, þótt landsfeðurnir séu ekki nógu þroskaðir til að stýra leið okkar inn í Evrópusambandið og evruna, sem mundi færa íslenzka vexti niður í lágar tölur nálægra ríkja.

Bankamenn eru komnir langt fram úr stjórnmálamönnum í framsýni. Þeir eru farnir að tefla á alþjóðamarkaði og ná þar í reynslu og víðsýni. Innrás KB-banka á erlendan markað er forsenda þess, að bankinn hefur nú ákveðið að veita ferskum vindum og fé inn í staðnaðan fjármálaheim landsins.

Hafa má það til marks um, hversu forpokaðir við Íslendingar höfum lengi verið, að við höfum ekki bara látið yfir okkur ganga sérstaka okurvexti í landinu áratugum saman, heldur höfum við líka þolað stimpilgjöld, sem eru langt umfram kostnað ríkisins af skráningu á eigendaskiptum fasteigna.

Áratugum saman hafa stjórnmálamenn verið að hampa sér og berja sér á brjóst fyrir tillögur um breytingar á lánakerfi íbúða, hækkun hámarkslána, lengingu lánatíma, markaðsbúskap á húsnæðisbréfum og aðra miðstýringu kerfis, í stað þess að opna kerfið fyrir erlendum peningum og erlendum siðvenjum.

Áratugum saman hefur verið alsiða erlendis, hvort sem er í Evrópu eða Norður-Ameríku, að menn hafa farið eignalausir með fjármál sín í banka og látið reikna út, hvað þeir þoli mikla byrði af íbúðalánum og hvað þeir geti fengið sér dýra íbúð á grundvelli tekna sinna. Þetta er bara reikningsdæmi.

Hér er nú seint og um síðir komið sams konar kerfi. Eini gallinn er sá, að kostnaður og vextir eru enn 1-2% of háir, sem mundi lagast, ef stimpilgjöld yrðu færð niður til samræmis við stimpilkostnað og ef við gerðumst aðilar að evrópska hagkerfinu, einkum aðilar að sigurför evrunnar.

Með frumkvæði sínu hefur KB-banki opnað almenningi glugga, sem áður var bara opinn framsæknum fyrirtækjum. Vonandi átta kjósendur sig á, að þarna úti er betra peningakerfi en hér.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrengra umhverfi

Greinar

Auðvelt er að meta, hvort tillögur stjórnskipaðrar nefndar um breytt viðskiptaumhverfi séu góðar eða ekki. Matið fer eftir, að hve miklu leyti tillögurnar fylgja evrópskum reglum. Þar hefur verið fjallað rækilega um málið frá ýmsum hliðum, en hér heima óttast menn ofbeldishneigð stjórnvalda.

Að mestu leyti fylgja tillögurnar evrópskum leikreglum og eru að því leyti góðar. Að nokkru leyti víkja þær frá þeim, einkum til að þrengja viðskiptaumhverfið á Íslandi umfram Evrópu. Að því leyti eru þær til þess fallnar að hrekja fyrirtæki úr landi og koma því ekki að tilætluðum notum.

Þórdís J. Sigurðardóttir skilaði séráliti í nefndinni, þar sem hún nefnir slík atriði í tillögunum. Skynsamlegt er fyrir Alþingi að taka mark á athugasemdum Þórdísar, þegar það tekur málið fyrir, og tryggja, að ekki sé hér á landi flanað út í breytingar, sem bregða fæti fyrir viðskipti.

Hugmynd nefndarinnar um aukin ríkisafskipti af atvinnulífinu eru ekki í takt við tímann, ekki frekar en tillögur annarrar nefndar um aukin afskipti ríkisins af atvinnurekstri í fjölmiðlun. Yfirleitt er ríkjandi sú stefna á Vesturlöndum að fara varlega í ríkisafskipti. Stalín er löngu dauður.

Sérkennileg er hugmyndin um, að stjórnarformenn séu ekki starfandi í fyrirtækinu. Hvað er unnið við, að Kári Stefánsson sé ekki stjórnarformaður deCode, Sigurður Einarsson ekki stjórnarformaður KB-banka, Ólafur Ólafsson ekki stjórnarformaður Samskipa? Eru þetta ekki hornsteinar?

Skortur á samkeppni í atvinnulífi Íslendinga kemur helzt niður á almenningi í flutningum og tryggingum, benzíni og lyfjum. Til að verja almenning gegn hringamyndun og öðru ofríki einkafyrirtækja duga ekki tillögur nefndarinnar. Það skiptir engu, hvort stjórnarmenn fáokunar séu launamenn.

Miklu mikilvægara er að laga aðstæður hér á landi fyrir útibú erlendra fyrirtækja til að taka upp samkeppni við innlenda fáokun. Ríkisvaldið þarf að búa í haginn fyrir erlenda banka, erlendar tryggingar, erlenda flutninga og erlenda lyfjasmásölu til að auka samkeppni í landinu.

Morgunblaðinu og fráfarandi forsætisráðherra hefur lengi verið umhugað um þrengra viðskiptaumhverfi hér á landi, sumpart til að hafa meiri hemil á KB-banka, sem hefur farið eigin leiðir og núna síðast opnað möguleika almennings á hagstæðari kjörum við að fjármagna þakið yfir höfði sér.

Sem betur fer snerust tillögurnar ekki um þetta, þegar þær litu dagsins ljós. En eigi að síður er nauðsynlegt að sníða af þeim agnúa, sem þrengja viðskiptaumhverfið umfram Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Fasistar eru hér

Greinar

Sumum finnst ljótt að heyra eða lesa orðin fasismi og fasisti, þótt að baki séu vísindalegar skilgreiningar á viðhorfi margra til lífsins og tilverunnar. Allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar hafa félags- og sálvísindamenn kafað í hugarfar, sem kraumar undir niðri á Vesturlöndum.

Bezt fjallaði hópur bandarískra og þýzkra fræðimanna um fasisma og fasista. Þekktastir voru Adorno og Horkheimer, sem notuðu raunar hugtökin valdshyggju og valdshyggjumenn sem minna hlaðin orð. Ég hef raunar oftar notað þau orð en fasisma og fasista um nokkra þætti íslenzkra stjórnmála.

Vísindin hafa sýnt fram á, að valdshyggjumaðurinn eða fasistinn sér heiminn í svarthvítum dráttum eins og George W. Bush Bandaríkjaforseti. Fasistinn gerir skarpan mun á “okkur” og öllum “hinum” og telur alla hina vera ógnvekjandi og valdagráðuga. Á Íslandi er hann vænisjúkur flokksjálkur.

Fasistinn er haldinn þjóðrembu og flokksrembu, óbeit á útlendingum, minnihlutahópum og þeim, sem taldir eru minni máttar. Ef ytri skilyrði eru hagstæð, til dæmis mikill innflutningur útlendinga, mynda fasistar flokka, sem undanfarið hafa náð 5-25% kjósendafylgi víða í Evrópu.

Sérkennilegast við stöðu Íslands er hugmyndafræðileg tenging milli Sjálfstæðisflokksins og ítalska fasismans frá Mussolini og Berlusconi, svo sem sést af slagorðunum “Stétt með stétt” og “Áfram Ísland”. Mikill stuðningur þjóðarinnar við þessi viðhorf sést í dálæti hennar á “þjóðarsátt”.

Íslenzki fasistinn vill bráðabirgðalög, sem er orð 20. aldar um tilskipanir. Hann vill, að Hæstiréttur sé pakkaður með “okkar” mönnum. Hann styður illa skilgreind stríð gegn Afganistan og Írak og lætur sér fátt um finnast, þótt óður bandarískur her drepi þar þúsundir óbreyttra borgara.

Íslenzki fasistinn dreymir um heila þjóð, sem talar einum rómi foringjans, í þessu tilviki Davíðs Oddssonar. Fasistinn er andvígur gagnrýni eða stríðni í fjölmiðlum og telur rétt að skrúfa fyrir hana með sértækum fjölmiðlalögum, er beint sé að þeim, sem rjúfa skjaldborgina um okkar Mussolini.

Adorno og Horkheimer og félagar þeirra reyndu að sálgreina manntegund fasistans. Niðurstöður þeirra eru utan ramma þessa leiðara, sem hefur þann tilgang að segja fólki, að það er ekki innantómur reiðilestur, þegar ég nota orðin fasisti og fasismi, heldur tilvísun til raunverulegs lífsviðhorfs.

Fasistar eru fyrirferðarmiklir í valdastöðum stjórnmálanna. Þeir vilja valta yfir “hina”. Þeir hægja á göngu þjóðarinnar í átt til lýðræðis, gegnsæis, velferðar og mannréttinda.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráð við hryðjuverkum

Greinar

Vesturlönd geta bætt öryggi sitt og heimsins, dregið mátt úr hryðjuverkaöflum og eflt arðbæra kaupsýslu um allan heim með því að beita efnahagsþrýstingi sem ein heild. Það gerist með því að veita fríverzlun og annan forgang þeim ríkjum, sem veita þjóðum sínum þjóðskipulag, sem minnir á Vesturlönd.

Öll ríki eru nú vegin og metin á ýmsa mælikvarða. Merkastur er gegnsæisstaðallinn, sem Transparency gefur út og snýst um, hvort hægt sé að sjá, hvernig ríkisvaldið virkar. Fleiri staðlar meta sameiginlega ýmis gildi, svo sem málfrelsi, fundafrelsi, efnahagsfrelsi, menntun, öryggi og heilbrigði.

Vesturlönd geta komið sér saman um að velja sér vandaða mælikvarða af slíku tagi til að meta, hvort ríki í þriðja heiminum séu hæf til forgangs að viðskiptum við auðríkin, sem geta borgað. Þannig verður á mörkum Vesturlanda hægt að rækta ríki, sem vilja breiða út áhrif vestrænna leikreglna.

Þetta er ekki hægt um þessar mundir, því að Bandaríkin hafa vikið á braut ofbeldis og hernaðar, þar sem sérvaldir drullusokkar í stétt einræðisherra skipa hóp viljugra ríkja í baráttu gegn öðrum sérvöldum drullusokkum í stétt einræðisherra. Stríðið gegn Írak er gott dæmi um þetta rugl.

Bandaríkin koma um þessar mundir ekki að gagni í baráttunni gegn hryðjuverkum og ofbeldi í heiminum, af því að þau hafa sjálf forustu í hryðjuverkum og ofbeldi og rækta hatur á Vesturlöndum um allan þriðja heiminn. Atlantshafsbandalagið kemur ekki heldur að gagni sem leppur Bandaríkjastjórnar.

Sameinuðu þjóðirnar eru utan hugmyndarinnar um að nota vestræna mælikvarða á aðgengi þriðja heimsins að vestrænum markaði. Í fyrsta lagi er hópur smáríkja í bandalaginu aðeins handbendi Bandaríkjanna, þar á meðal Ísland. Í öðru lagi eru allir einræðisherrar heimsins aðilar að samtökunum.

Glæpalýður hefur völdin í Sameinuðu þjóðunum. Í mikilvægum nefndum og stofnunum þeirra, svo sem í Mannréttindastofnun, berjast fulltrúar leppríkja Bandaríkjanna og fulltrúar einræðisherra um völdin, en minna heyrast raddir evrópskra ríkja, sem vilja fylgja stofnskrá Sameinuðu þjóðanna.

Evrópusambandið er sterkasta efnahagsveldi heimsins um þessar mundir. Það er núna eini aðilinn, sem getur beitt efnahagsvopni fríverzlunar og annarra fríðinda til að laða þriðja heiminn til fylgis við opið stjórnarfar og stuðnings við stofnskrá og mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Meðan Bandaríkin eru Marz, sem magnar vandann með ofbeldi hefur Evrópusambandið sem Venus og Plútó færi á að minnka vandann með því að setja beitu á krókinn, gera staðla vestrænna gilda að forsendu fyrir viðskiptum þriðja heimsins við ríka Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Möllin og miðbærinn

Greinar

Íslenzku möllin í Kringlunni og Smáralind eru krækiber í samanburði við 400 verzlana Mall of America í Bloomington í Minnesota, sem senn á að tvöfalda að stærð og gera að “áttunda furðuverki veraldarinnar” með ótal kaffi-, vín- og veitingahúsum, tívolíi, dýragarði og fjölskyldugörðum.

Möllin rísa, þar sem miðbæir verjast ekki, svo sem víða hefur gerzt í Bandaríkjunum, svo sem í Dallas, Los Angeles, Atlanta og Buffalo, en ekki í New York og San Francisco, einnig sums staðar í Englandi, svo sem í Liverpool og Manchester. Möllin taka við, þegar miðbæir fara að deyja.

Á meginlandi Evrópu hafa miðbæir varizt og sums staðar teflt til sóknar, til dæmis í Berlín og Barcelona. Almenna reglan um alla Evrópu er, að miðbæir eru fullir af lífi jafnt utan sem innan vinnutíma. Víðast í Bandaríkjunum eru miðbæir dauðir utan vinnutíma, ef yfirleitt er unnt að staðsetja þá.

Miðbærinn í Reykjavík hefur ekki varizt möllum, þótt óeðlilega hlýir sumardagar geti villt mönnum sýn um stundarsakir. Fyrir miðbæ er ekki nóg að hafa hundrað bari, slíkt framleiðir bara St. Pauli eða Montmartre, en skapar ekki raunverulegan miðbæ, sem fjölskyldur geta notið

Íslenzkar fjölskyldur fara um helgar í Kringluna og Smáralind, þótt þær séu ekki nema svipur hjá sjóninni í Bloomington. Þær fara ekki í miðbæinn, þótt þar séu hundrað barir. Þær fara líka í fjölskyldugarðinn og í Nauthólsvík, þegar veður leyfir, sem gerist sjaldan í venjulegu árferði.

Í miðbæ Reykjavíkur er einkum takmarkað aldurssnið af lausagöngufólki og svo auðvitað mergð af túristum. Þar berst verzlun og önnur þjónusta í bökkum, önnur en veitingar. Við Laugaveginn er jafnan verið að loka fimm eða tíu verzlunum eða flytja þær. Miðbær Íslands er á hægfara undanhaldi.

Auðvitað eru möllin þunn eftirlíking miðbæjar, þótt fólk átti sig ekki á því. Möllin geta aldrei orðið borgaralegt samfélag eins og sögufrægir miðbæir heimsins. Þær eru aðferð markaðarins til að lina vanda, þegar ráðamenn geta ekki haldið lífi í miðbæjum eða átta sig ekki á þeirri þörf.

Feillinn í Reykjavík var, að borgaryfirvöld hafa aldrei áttað sig á, að haust, vetur og vor er mestan hluta ársins og þjóðin vill eyða frítíma sínum í veðursæld undir þaki. Þess vegna tókst aldrei að yfirbyggja Laugaveginn. Þess vegna tóku yfirbyggð möll við af miðbænum með léttum leik.

Íslenzkir ferðamenn flykkjast í Mall of America, sem er ekki heimaland neins, öfugt við Börsunga og Feneyinga, Parísarbúa og Rómverja, sem vita, hvaðan þeir koma og hvar er heima.

Jónas Kristjánsson

DV

Efna- og vörumerkjaleikar

Greinar

Kostas Kanteris og Katerina Þanú hafa dögum saman verið á flótta undan blóðprufum, sem eiga að leiða í ljós ólögleg efni. Þetta eru helztu spretthlauparar Grikklands, stofnanda ólympíuleikanna og gestgjafa þeirra. Í gær var Alþjóða ólympíunefndin ekki enn búin að manna sig upp í að reka þau.

Þau komu ekki í blóðprufu í Chicago fyrir rúmri viku og ekki í Aþenu á fimmtudaginn. Þegar þau voru talin við æfingar á Krít, reyndust þau hafa farið til Katar á Arabíuskaga. Að lokum sögðust þau hafa slasast í mótorhjólaslysi, sem talið er hafa verið sviðsett til að komast hjá blóðprufunni.

Meðan lögfræðingar Kanteris og Þanú ganga berserksgang við að finna nýjar útskýringar á hegðun þeirra að undanförnu, hafa aðrir íþróttamenn hótað að hætta við keppni, ef þau komist upp með endurtekin undanbrögð. Eitt land hefur beinlínis hótað að draga sig til baka úr ólympíuleikunum.

Þetta hneyksli hefur verið helzta umræðuefni grískra fjölmiðla og heimspressunar, þótt þess hafi ekki mikið orðið vart í fjölmiðlum á Íslandi, ekki frekar en slagurinn um aðkomu stórfyrirtækja að kostnaði leikanna og tilraunum til að útiloka vörur, sem ekki borga mútufé til ólympíuleikanna.

Svo langt gengur sá slagur, að áhorfendur eiga á hættu að vera vísað frá leikvöngum, ef þeir eru í röngum skóm, röngum bol, með rangan gosdrykk í hendi. Spurningin er nefnilega, hvort Kók eða Pepsí eigi leikana, Nike eða Addidas eða Puma og hvernig eigi að refsa fólki, sem ekki makkar rétt.

Baráttan um læknadópið og peningana er hörð á þessum frægu leikum. Margt stendur þó til bóta. Til dæmis hafa Bandaríkin tekið forustu um að reyna að elta uppi ný lyf, sem gefin eru íþróttafólki til að bæta árangurinn. Yfir 50 íþróttamenn þar í landi hafa verið dæmdir í keppnisbann í blóðprufuátaki.

Um allan heim hafa íþróttamenn verið dæmdir í keppnisbann á undanförnum mánuðum. Einnig hefur verið reynt að elta uppi ný lyf, sem sérhönnuð hafa verið til að komast hjá að sýna virkni í blóðprufum. Þannig fannst nýtt steralyf um daginn í Bandaríkjunum. Menn óttast að nú séu að koma litningalyf.

Stríðið um íþróttadópið heldur áfram og veitir ýmsum betur. Sama er að segja um stríðið um íþróttafjármagnið. Það heldur áfram og skilur eftir sigurvegara og sigraða. Spurningin er ekki, hvort ólympíuleikarnir séu hreinir eða ekki, bara hvort þeir séu meira eða minna skítugir en þeir voru síðast.

Sennilega mun stríðið um dópið áfram vera í jafnvægi næstu árin. Verri er staðan með peningana. Allt frá því í Atlanta árið 1996 hafa ólympíuleikarnir aðallega verið peningaplokk.

Jónas Kristjánsson

DV

Framleiða ofbeldi

Greinar

Þrátt fyrir Michael Moore og Fahrenheit 9/11 er líklegt, að George W. Bush sigri í forsetakosningum Bandaríkjanna. Þótt hann sé illa gefinn trúarofstækismaður í gíslingu auðmanna, heldur hálf þjóðin áfram að styðja hann. Auk þess hefur hann sem spilltur forseti færi á aðgerðum til að efla fylgi sitt.

Ef John Kerry sígur fram úr Bush í skoðanakönnunum, geta Bush og gersamlega siðlausir ráðgjafar hans komið af stað á réttum tíma atburðarás, sem veldur því, að þjóðinni finnist traustast að halla sér að ríkjandi forseta. Þeir geta magnað ótta við hryðjuverk og jafnvel ýtt hryðjuverkum af stað.

Osama bin Laden styður Bush. Meðan ofstækismaðurinn heldur völdum í Bandaríkjunum, heldur úti styrjöldum og hernámi í löndum múslima, mun ekki verða neitt lát á straumi ungra manna í hryðjuverkahópa, sem draga lærdóm af aðferðum Ladens. Bush er forsenda uppgangs hryðjuverka í heiminum.

Við sáum, hvað gerðist, þegar Tom Ridge innanríkisráðherra laug upp fyrirhuguðum hryðjuverkum í Wall Street fyrir rúmri viku. Fáir þorðu að segja neitt, þar á meðal Kerry forsetaefni. Svo kom í ljós, að heimildirnar voru nokkurra ára gamlar og fyrir löngu úreltar. Útkallið var bara gabb.

Fróðlegt er, hversu létt er að fá Bandaríkjamenn til að veifa fánanum. Þegar Tom Ridge gabbaði þá með útkalli hersveita í Wall Street, heilsaði Kerry að hermannasið. Aðeins Howard Dean, fyrrum frambjóðandi sem forsetaefni demókrata, beindi fingri að Bush. En enginn hlustaði.

Því miður er hálf bandaríska þjóðin ekki bara ofbeldishneigð gagnvart útlöndum, heldur beinlínis stríðsóð. Hálf þjóðin telur útlendinga yfirleitt vera eins konar dýr, óæðri Bandaríkjamönnum. Þess vegna vilja Bandaríkjamenn láta kvelja útlendinga og hunza alþjóðlegar samskiptareglur.

Ein helzta gagnrýnin á Kerry, forsetaefni demókrata, er, að hann kunni að tala frönsku. Í krumpuðum heimi hálfrar bandarísku þjóðarinnar er það ekki talið vera dæmi um nauðsynlega yfirsýn mannsins, heldur ávísun á, að hann hljóti að vera hættulegur Guðs Eigin Landi, Bandaríkjunum.

Enda þorir Kerry varla að koma fyrir sjónir almennings án þess að heilsa að hermannasið og tala um reynslu sína frá Víetnam. Ástandið er orðið svo alvarlegt í Bandaríkjunum, að enginn kemst hjá því að kynna sig sem stríðsmann. Það er þetta, sem gerir Bandaríkin svo hættuleg framtíð mannkyns.

Því meiri handtökur og því meira blóð, þeim mun stærri verða fréttirnar í Fox sjónvarpinu og því meira eykst áhorfið á Fox, þar sem hin ofbeldishneigða þjóðarsál er mögnuð upp.

Jónas Kristjánsson

DV

Venus og Marz

Greinar

Víglína Evrópu og Ameríku liggur þvert um Ísland. Annars vegar vill Verzlunarráðið lækka skatta í 15% og rústa velferðinni að bandarískum hætti og hins vegar vilja aðrir verja arfleifð velferðarinnar, þótt hún geti að sumu leyti staðið í vegi framfara hins óhefta markaðshagkerfis.

Sumir vilja leysa vandamál með samningum við umheiminn, aðrir vilja fara í stríð við hann. Sumir leggja mesta áherzlu á frístundir, aðrir setja vinnuna í æðri sess. Sumir vilja sem mestan hagvöxt í krónum, en aðrir meta meira önnur gildi, sem ekki verða mæld í peningum, svo sem umhverfið.

Á öllum þessum sviðum og mörgum fleirum er vaxandi gjá milli Evrópu og Ameríku. Í Evrópu hallast menn í auknum mæli að umhverfisvernd, atvinnuleysisbótum, ókeypis heilsuvernd og skólum, auknum frístundum, hóflegri vinnuþrælkun, samstarfi við samfélagið og háum sköttum, samningum í alþjóðamálum.

Á sama tíma hallast Bandaríkin í auknum mæli að óheftu athafnafrelsi, minnkandi umhverfisvernd, afnámi alls konar bóta velferðarkerfisins, aukinni vinnuþrælkun, stríði hvers og eins við samfélagið í heild og stríði samfélagsins við umheiminn. Meðan Evrópa verður Venus verða Bandaríkin Marz.

Enginn vafi er á, að hagvöxtur er meiri í Bandaríkjunum en í Evrópu. Hins vegar skilar hann sér ekki til almennings, heldur fer allur til hinna ríku. Rannsóknir hafa sýnt hver á fætur annarri, að þjóðum á borð við Frakka og Svía líður töluvert miklu betur andlega en Bandaríkjamönnum og Bretum.

Venusarstefna Evrópu mótast sumpart af því, að Evrópusamband hefur leyst styrjaldir af hólmi í álfunni, kalda stríðinu er lokið og álfan þarf ekki lengur hernaðarlega regnhlíf af hálfu Bandaríkjanna. Í Vestur-Evrópu hefur sárri fátækt verið nánast útrýmt, meðan hún fer vaxandi í Bandaríkjunum.

Evrópa er orðin að friðarparadís. Hvarvetna eru sumarhátíðir um þetta leyti. Fólk slakar á, á sama tíma og streitulyfið prozak er samkvæmt nýrri mælingu farið að menga vatnsból í engilsaxnesku ríkjunum. Evrópa sækist eftir samhljómi milli fólks, menningarlegri fjölbreytni, alþjóðlegu samstarfi.

Bandaríkjamenn segja þetta gerast í skjóli bandarísks hervalds. Evrópumenn geti slakað á, af því að Bandaríkin standi vaktina um allan heim gegn illum öflum, sem berjist gegn Vesturlöndum, svo sem al Kaída, múslímum, sjítum, Palestínu, Íran, Norður-Kóreu og svo framvegis endalaust.

Kaldrifjuð efnishyggja að hætti Bandaríkjanna hefur sótt fram hér á landi í andrúmslofti, sem til þessa hefur verið aðallega evrópskt. Fyrr eða síðar verður Ísland að velja.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt eintóm lygi

Greinar

Írak er ekki að breytast í lýðræðisríki undir járnhæl hernámsins. Kosningum hefur verið slegið á frest. Við völd er leppstjórn, sérvalin af Bandaríkjunum, með Ajad Allavi, þekktan njósnara sem forsætisráðherra, arftaka Ahmad Sjalabi, sem áður var helzta gæludýrið, en féll í ónáð.

Dauðarefsing hefur verið innleidd í Írak, líka fyrir að “stofna öryggi ríkisins í hættu”. Það er orðalag, sem ógnarstjórnir víða um heim hafa löngum notað til að útrýma stjórnarandstöðu. Lög og regla er á því stigi, að Sjalabi var nýlega kærður fyrir falsanir upp á samtals 150 krónur.

Arabíska sjónvarpsstöðin Al-Jazeera hefur verið bönnuð, þótt atvinnumenn telji hana að minnsta kosti miklu skárri en Fox, sem er hornsteinn að heljartökum George W. Bush forseta á Bandaríkjunum. Al-Jazeera hefur ítrekað skúbbað vestrænar fréttastofur og birt óvinsælar myndir af hryðjuverkum.

Pólitísk völd hafa ekki verið flutt frá Bandaríkjunum. Þau eru enn í höndum leppa, sem njóta ekki stuðnings fólks. Ástandið er ekki betra en það var á dögum Saddam Hussein. Bandaríska hernámsliðið hefur drepið fleiri óbreytta borgara en Saddam lét drepa á jafnlöngum tíma, um 10.000 manns.

Raunveruleg völd í landinu eru hjá bandaríska hernámsliðinu. Frægar erum allan heim eru myndir úr bandarískum fangelsum, sem sýna skipulegar pyntingar. Þær eru hluti af óþverranum, er fylgir hernámi, þar sem unnið er eftir þeirri meginreglu bandarísks þjóðfélags, að útlendingar séu óæðri en menn.

Áður vissum við, að það var lygi, að gereyðingarvopn væru í Írak. Ennfremur, að það var lygi, að samband væri milli Saddam Hussein og Osama bin Laden. Einnig, að hernámið er ekki skárra en stjórn Saddam Hussein. Nú erum við að skynja, að ekki er verið að stíga nein skref í átt til lýðræðis.

Innrásin og hernámið var aldrei og er ekki enn stutt af alþjóðasamfélaginu, aðeins samfélagi hinna viljugu, þar sem eru ýmis eyríki í Karabíska hafinu og Kyrrahafi, að Íslandi meðtöldu. Það er fyrst og fremst að frumkvæði væntanlegs forsætisráðherra, að Ísland er aðili að glæpunum í Írak.

Fyrr eða síðar munu spjót réttlætis meðal annars beinast að valdhöfum, sem í smæð sinni og eymd studdu óhæfuna í Írak í veikri von um, að herþoturnar færu ekki af Keflavíkurvelli.

Jónas Kristjánsson

DV

Fasismi fölnaði

Greinar

Mussolini þurfti að vinna sín stríð og hann mátti ekki sýna líkamlegan veikleika. Blettur má ekki falla á brynju fasistahertoga. Þá fara menn að missa tröllatrúna á hertogann mikla og fara að hætta að óttast hann. Þannig verður hann venjulegur og er ekki lengur talinn skaffa.

Hertoginn hefur tapað sínu fjölmiðlastríði og hefur verið á sjúkrahúsi. Skyndilega hefur þagnað hópurinn, sem hermdi eftir honum og vildi valta yfir umheiminn. Loksins erum við komin í frí fyrir stjórnmálum og verðum í friði í tvo mánuði áður en hvellur getur hafizt aftur með nýrri setu Alþingis.

Framsóknarflokkurinn gat ekki lengur fylgt formanni sínum í eindregnum og skilyrðislausum stuðningi við hertogann mikla. Meirihluti ráðherranna, þingflokksformaðurinn og nokkrir fleiri eru að vísu hálfgerðir fasistar, en réðu greinilega ekki lengur við óbreytta þingmenn og aðra brýna flokksmenn.

Í haust verður ríkisstjórnin án hertoga að hætti fasista. Formaður Framsóknar er að vísu herskár í utanríkismálum, en hefur enga persónulega framgöngu, sem minnt getur á Mussolini eða Tony Blair. Hann verður bara forsætisráðherra að hefðbundnum íslenzkum hætti, maður miðju og málamiðlana.

Stefna ríkisstjórnarinnar verður að vísu lítið breytt, enda fer einn ráðherrastóll frá Framsókn til Sjálfstæðisflokks. Áfram verður stjórnin herská í utanríkismálum, styður hernám Afganistans og Íraks gegn vilja þjóðanna og styður stríðsóð Bandaríkin í deilum þeirra innan Atlantshafsbandalagsins.

Að öðru leyti má búast við, að ríkisstjórnin fari að draga í land. Hún mun hætta að snapa fæting við allt og alla og reyna að hætta að gelta þindarlaust að forseta Íslands. Kjósendur munu ekki leyfa Framsóknarflokknum lengur að haga sér að hætti fasistanna, sem hafa tekið Sjálfstæðisflokkinn.

Þjóðin hefur fengið nóg af yfirgangi í bili. Bullur að hætti fasista hafa komið fram í birtuna í vor og sumar og skilið eftir efasemdir í röðum kjósenda. Menn vilja að vísu leiðtoga, sem skaffa, en mönnum finnst of langt gengið að þurfa þess vegna að kjósa yfir sig valdshyggjulið fasista.

Vonandi verður lærdómur kjósenda varanlegur af pólitískum atburðum síðustu tveggja missera. Vonandi eru þeir ekki bara tímabundið móðgaðir út í stjórnarflokkana, heldur hafa þeir varanlega áttað sig á, að þjóðinni hentar betur að hafa sama háttinn á og nágrannarnir, hafa venjulega forsætisráðherra.

Fasismi birtist oft í lýðræðisríkjum, sem hafa veikar hefðir fyrir leikreglum, svo sem í Suður-Ameríku og á Ítalíu. En hér norður í höfum er tæpast pláss fyrir lítinn Mussolini.

Jónas Kristjánsson

DV