Greinar

Frestað ferð til Ísraels

Greinar

Mike Harari var handtekinn í innrás Bandaríkjahers í Panama. Hann var nánasti aðstoðarmaður harðstjórans Manuel Antonio Noriega. Áður var hann yfirmaður í leyniþjónustu Ísraels og stóð meðal annars vegna mis skilnings fyrir morði á arabískum þjóni í Noregi.

Annar Ísraeli leitaði á náðir sendiráðs Páfastóls í Panama. Það er Eliezer Ben Gaitan, sem var yfirmaður hallarvarða Noriegas harðstjóra. Þessir tveir menn eru dæmi um allmarga ísraelska leyniþjónustumenn, sem hafa þjónustað harðstjóra í Suður- og Mið-Ameríku.

Yfirleitt standa þessir glæpamenn frá Ísrael í sambandi við leyniþjónustu heimalandsins. Harari var í senn flæktur í eiturlyfjaverzlun Noriegas og milligöngumaður í samskiptum Panama og Ísraels. Hann er dæmi um skaðleg áhrif Ísraels á stjórnmál í öðrum löndum.

Með falli Nicolae Ceausescu, harðstjóra í Rúmeníu, missti Ísrael helzta vin sinn í Austur-Evrópu. Ceausescu var eini stjórnandinn í Austur-Evrópu, sem skiptist á sendiherrum við stjórnendur Ísraels og var milligöngumaður í samskiptum Ísraels við ríki Austur-Evrópu.

Stjórn Ísraels hefur lagt sig fram í samskiptum við harðstjóra af ýmsu tagi, sem hafa einangrazt á alþjóðavettvangi. Hún hefur sérhæft sig í vopnasölu til ýmissa þeirra, sem fá þau trauðlega annars staðar. Fremst í þessum hópi eru stjórnendur Suður-Afríku og Eþíópíu.

Amnesty hefur reynzt góð heimild um mannréttindabrot víða um heim. Í nýútkominni skýrslu samtakanna um Ísrael er sagt, að hermenn og öryggisverðir í Ísrael séu hvattir til að beita skotvopnum gegn vopnlausum Palestínumönnum og þannig hvattir til manndrápa.

Þetta eru ekki nýjar harmafréttir. Á rúmlega tveimur árum hefur að meðaltali einn Palestínumaður fallið á degi hverjum fyrir skotvopnum Ísraelsmanna. Flestir hinna drepnu eru unglingar, sem gefið er að sök að hafa verið með grjótkast eða munnlegan skæting.

Ofbeldi Ísraels gegn Palestínumönnum kemur fram í ótal myndum. Ef einn í fjölskyldu er grunaður um gæzku, er jarðýtum beitt á heimili allrar fjölskyldunnar. Með skattlagningu og skipulegri eyðileggingu uppskeru er reynt að kúga íbúana til hlýðni.

Aðferðir Ísraelsmanna eiga sér nákvæma fyrirmynd í sögu 20. aldar. Öryggissveitir Ísraels haga sér eins og Gestapó í síðari heimsstyrjöldinni og herinn hagar sér eins og Schutzstaffeln. Hryðjuverk ríkisins hafa afmyndað þjóðfélagið í stíl Þúsund ára ríkis Hitlers.

Vaxandi meirihluti kjósenda í Ísrael styður stjórnmálaflokka, sem keyra ríkið áfram á veginum til vítis. Það eru ekki aðeins nokkrir stjórnmálaflokkar, sem bera ábyrgð á glæpunum, heldur ísraelska þjóðfélagið í heild. Það hefur látið atburðarásina spilla sér.

Aðrir þátttakendur í ábyrgðinni eru einkum Bandaríkin, sem áratugum saman hafa haldið Ísrael uppi fjárhagslega og styðja það leynt og ljóst á stjórnmálavettvangi, þótt það valdi Vesturlöndum margvíslegum vandræðum í nauðsynlegum samskiptum við heim íslams.

Ísland má sem ríki ekki taka þátt í ábyrgðinni á hryðjuverkaríkinu Ísrael. Nógu vont er, að formaður stærsta stjórnmálaflokks á Íslandi asnist í opinbera ferð til glæpamannanna, þótt ekki bætist þar á ofan, að utan ríkisráðherra okkar sé að spóka sig hjá þeim.

Þess vegna er fagnaðarefni, að frestað skuli hafa verið sneypuför Jóns Baldvins Hannibalssonar til Ísraels. Vonandi verður henni frestað um langa framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Harðstjórum fækkar

Greinar

Valdamissir tveggja harðstjóra var bezta jólagjöfin til mannkyns að þessu sinni. Framtíðin blasir við Rúmenum og Panamamönnum á þessum jólum, þótt ekki sé enn tryggt, að lýðræði hafi fest rætur í ríkjum þeirra. Alténd geta þeir farið að rækta með sér lýðræði.

Manuel Antonio Noriega húkir nú í sendiherrabústað Páfastóls í Panama. Hann var minni háttar harðstjóri, sem gerði meira af því að láta berja fólk en drepa það. Harðstjórn hans var skipulagslítil og tilviljanakennd og snerist mest um að vernda viðskiptahagsmuni hans.

Noriega var upphaflega búinn til af leyniþjónustu Bandaríkjanna, sem síðan missti stjórn á honum eins og Drakúla missti stjórn á Frankenstein í bíómyndinni. Noriega er skólabókardæmi um heimsku og vanþekkingu, sem hefur löngum ríkt í leyniþjónustunni.

Ráðamenn í Evrópu hafa sumir hverjir gagnrýnt með hangandi hendi innrás Bandaríkjanna í Panama. En undir niðri eru allir fegnir, að Bandaríkin skuli nú hafa losað Panama við uppvakninginn, sem þau bjuggu til á sínum tíma, áður en eiturlyfjastríð komust í tízku.

Nicolai Ceausescu var miklu verri harðstjóri, sem Rúmenar verða seint gagnrýndir fyrir að taka af lífi. Hans harðstjórn var þrautskipulögð og hvíldi á herðum morðvarga, sem hafa líf tugþúsunda á samvizkunni í uppþotunum, er leiddu til falls harðstjórans.

Ceausescu var ekki einn um að siga öryggissveitum á almenning. Það gerði líka Honnecker í Austur-Þýzkalandi. Munurinn var einungis sá, að nokkrir menn í kringum Honnecker gátu dregið skipunina til baka, en enginn í Rúmeníu gat tekið þar að sér hliðstætt hlutverk.

Athyglisvert er, að verstu harðstjórar síðustu áratuga hafa verið kommúnistar, lærisveinar Lenins. Svo er um Mengistu Haile Mariam í Eþíópíu. Hann hefur ótrauður keyrt áfram kerfisbreytingar, sem hafa hvað eftir annað leitt hrikalega hungursneyð yfir þjóðina.

Versti harðsjóri síðustu áratuga var Pol Pot, sem Vietnamar hröktu frá völdum í Kambódsíu. Hann lét á skömmum valdaferli slátra milljónum manna á skipulegan hátt, meðal annars til að útrýma læsi í landinu. Það átti að vera grundvöllur hins nýja þjóðfélags.

Nú eru Vietnamar farnir og Pol Pot er á leiðinni til valda á nýjan leik. Ekki kemur á óvart, að hann er studdur afblóði drifnum ráðamönnum í Kína. Verra er, að hann er einnig studdur óbeint af helzta bandamanni Kína á Vesturlöndum, það er að segja Bandaríkjunum.

Eitt nauðsynlegasta verkefni umheimsins um þessar mundir er að koma í veg fyrir, að Kínverjum takist ætlun sín í Kambódsíu. Vitað er, að Pol Pot hefur ekkert lært og engu gleymt. Ef hann fær aðild að samstjórn, verður hann fljótt búinn að ná öllum völdum.

Í þessu samhengi tekur tæpast að nefna Augusto Pinochet í Chile, sem hefur reynzt svo slappur harðstjóri, að hann er smám saman að gefa frá sér völd. Þar hefur lýðræðislega kjörin stjórn komizt friðsamlega til valda og fyrirsjáanleg er lýðræðisþróun í landinu.

Árið 1989 hefur verið gott ár fyrir mannkyn og það virðist ætla að enda vel. Séríslenzka kreppan, sem ríkisstjórnin bjó til og magnar enn, skiptir sáralitlu þegar litið er til gleðitíðindanna að utan. Víða um heim og einkum í Austur-Evrópu hefur snögglega birt rækilega.

Við skulum svo ekki gleyma, að Rúmenar þurftu að færa miklar fórnir til að losna við sinn harðstjóra og hafa enn ekki sopið kálið, þótt í ausuna sé komið.

Jónas Kristjánsson

DV

Rugluferð til Kína

Greinar

Kína skiptir Vesturlönd minna máli núna en það gerði, áður en opnun stjórnmála og efnahagsmála fór á skrið í Sovétríkjunum og byltingin að neðan hófst í Austur-Evrópu. Vesturlönd þurfa ekki lengur á Kína að halda til að standa gegn Sovétríkjunum í austri.

Þegar Nixon Bandaríkjaforseti kom á fót samskiptum við ríkisstjórnina í Kína, var hann að fylgja gamalli reglu, sem segir, að skynsamlegt sé að gera bandalag við ríkið, sem er hinum megin við landamæri óvinarins. Þannig hafa utanríkismál verið frá ómunatíð.

Samdráttur ríkisstjórnanna í Bandaríkjunum og Kína olli því, að sovézk stjórnvöld neyddust til að auka her styrk sinn við landamæri Kína. Það gerðist á kostnað herbúnaðar Sovétríkjanna í vestri og á kostnað ríkissjóðs, sem hefur ekki verið beysinn í seinni tíð.

Nú er öldin önnur í auralausum Sovétríkjunum. Að frumkvæði Gorbatsjovs flokksformanns og forseta hafa stjórnvöld ákveðið að kalla heim meira en 600.000 manna lið, sem er í útlöndum, aðallega í Austur-Evrópu. Þetta á að gerast sem allra fyrst, helzt á næsta ári.

Áður höfðu stjórnvöld í Sovétríkjunum kvatt heim herlið sitt frá Afganistan, sem var þyrnir í augum stjórnvalda í Kína. Afleiðingin er, að spennufall hefur orðið á landamærum Sovétríkjanna og Kína, þótt stjórnvöld í Kína hafi áhyggjur af auknu lýðræði í Sovétríkjunum.

Byltingin í Austur-Evrópu hefur meira eða minna lamað heri ríkjanna. Enginn býst lengur í alvöru við, að unnt verði að beita herjum Varsjárbandalagsins gegn ríkjum Atlantshafsbandalagsins. Járntjaldið í Evrópu er að verða að tiltölulega meinlausu pappírstjaldi.

Í ljósi þessarar stjórnmálaþróunar er undarlegt, að Bush Bandaríkjaforseti skuli senda öryggismálastjóra sinn, Brent Scowcroft, til Kína til að friða þarlenda ráðamenn, sem hafa kvartað um framkomu Bandaríkjanna eftir blóðbaðið á Torgi hins himneska friðar í Beijing.

Bush notaði tækifærið í jólahléi bandaríska þingsins, sem kemur ekki saman fyrr en 23. janúar. Þannig kom hann í veg fyrir, að þingið ályktaði gegn þessari hneisuferð. Ennfremur lét hann segja frá málinu aðfaranótt laugardags til að taka andstæðinga málsins í rúminu.

Óhugnanlegt er að sjá myndir af Scowcroft og Lawrence Eagleburger aðstoðarutanríkisráðherra, þar sem þeir skála fagnandi við blóði drifna glæpaöldungana í Beijing og segjast koma “sem vinir til að halda áfram mikilvægum samskiptum”. Þetta er hnefahögg í andlit okkar.

Ferð sendimanna Bush til Kína er ekki bara tímaskekkja. Hún felur líka í sér skilaboð til harðlínumanna í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu, að unnt sé að aka skriðdrekum yfir mótmælafólk, úr því að Bandaríkin muni að nokkrum vikum liðnum láta sem ekkert sé.

Ferðin eykur þannig óbeint hættuna á afturkippi í Sovétríkjunum og Austur-Evrópu, um leið og hún er svívirðileg framkoma í garð frelsisvina í Kína. Auk þess eykur hún vantrú og fyrirlitningu Vesturlandabúa á Bush og utanríkisráðherra hans, James Baker.

Ferð Scowcrofts og Eagleburgers er í senn ósiðleg og heimskuleg. Kína er ekkert heimsveldi, heldur miðlungsveldi með 2% af veltu heimsviðskipta, áhrifalítið á alþjóðavettvangi, stjórnað af elliærum glæpamönnum, sem enginn sómakær Vesturlandabúi á að koma nálægt.

Á sama tíma var hins vegar reisn yfir norska stórþinginu, er flóttamanninum Dalai Lama voru afhent friðarverðlaun Nóbels. Þar voru skilaboðin rétt.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðaröld í Evrópu

Greinar

Ef byltingin í Austur-Evrópu fellur í tiltölulega hægan og útreiknanlegan farveg, má reikna með, að í vændum sé friðaröld í Evrópu, sem breyti forsendum hernaðar- og varnarbandalaganna tveggja, sem hafa verið einkennistákn kaldastríðstíma rúmra fjögurra áratuga.

Að sinni er ástandið þvert á móti ótryggt. Komið hefur í ljós, að óbeit fólks í Austur-Evrópu á grotnandi valdakerfi félagshyggjunnar er miklu meiri en reiknað var með. Sérstaklega hefur borið á þessu síðustu viku á upphlaupum og útifundum í Austur-Þýzkalandi.

Austur-Þjóðverjar hafa tekið mjög nærri sér upplýsingar um þjófnað og bílífi yfirstéttarinnar. Þeir eru í hrönnum að sveiflast á þá skoðun, að ríkið sjálft sé siðferðilega hrunið og að bezt sé, að landið renni inn í Vestur-Þýzkaland. Fólkið veifar vestur-þýzkum fánum.

Þetta mun reyna á þolrif valdhafa í Sovétríkjunum, sem hafa litið á Austur-Þýzkaland sem hornstein valdakerfis síns og eins konar tryggingarbréf gegn nýju Stór-Þýzkalandi. Þetta mun því æsa íhaldsmenn í Sovétríkjunum enn frekar gegn Gorbatsjov og stefnu hans.

Ekki er óhugsandi, að annaðhvort falli Gorbatsjov eða stefna hans og að skelfingu lostnir ráðamenn í Kreml grípi til vanhugsaðra örþrifaráða, sem hleypi öllu í bál og brand í Evrópu. En hitt er þó líklegra, að þeir geti ekki fundið nothæfa ofbeldisleið úr ógöngunum.

Varsjárbandalagið er meira eða minna hrunið, nema að nafninu til. Ef Rauði herinn gerði innrás í Austur-Evrópu, er næsta víst, að herir Austur-Evrópu mundu snúast gegn hinu hataða heimsveldi. Sovétríkin hafa einfaldlega komið sér út úr húsi í þeim hluta álfunnar.

Líklegast er, að stjórnvöld í Sovétríkjunum muni eiga fullt í fangi með að fást við miðflóttaöfl innan landamær anna og séu ekki aflögufær utan landamæranna. Í nærri öllum héruðum utan gamla Rússlands er fólk að reyna að auka sjálfstæði sitt gagnvart Moskvuvaldinu.

Stjórnvöld og kommúnistaflokkar í Eystrasaltslöndunum virða tilskipanir og bænir Moskvumanna að vettugi. Kákasusfjöll ramba á barmi borgarastyrjaldar. Jafnvel Úkraína er farin að hugsa sér til hreyfings. Sovétríkin eru byrjuð að molna og grotna sem ríkiseining.

Ekki er nóg með, að Rauði herinn getur ekki reiknað með þátttöku herja Austur-Evrópu í átökum gegn Vesturlöndum. Þar á ofan eru nýir valdhafar í Austur-Evrópu byrjaðir að óska eftir, að óvinsælt setulið Rauða hersins fari að tygja sig á brott úr löndum þeirra.

Ætla mætti, að fögnuður ríkti út af þessu í Atlantshafsbandalaginu. En það er segin saga, að enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur andstæðing sinn. Um leið og Varsjárbandalagið molnar að innanverðu, rýrnar tilverugrundvöllur bandalagsins, sem stofnað var til að verjast hugsanlegri árás að austan.

Valdahlutföll og valdastraumar eru að breytast í Evrópu. Vestur-Þýzkaland er að verða þungamiðja Evrópu með viðskiptatengsl til allra átta. Ítalía hefur reynt að taka upp gamla Habsborgaraþráðinn með viðræðum við Austurríki, Ungverjaland og Júgóslavíu.

Flest bendir til, að liðinn sé tími heimsveldanna og hernaðarlegra bandalaga þeirra. Þau munu smám saman fjara út og við taka margvísleg net sjálfstæðra miðlungsvelda. Það verður friðsamlegur tími, því að allir verða önnum kafnir í arðvænlegum viðskiptum.

Ef Evrópa kemst yfir tímabundna spennu af völdum byltingarinnar í Austur-Evrópu, mun renna upp nýtt framfaraskeið markaðshyggju og auðsöfnunar í álfunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Greiði úr óvæntri átt

Greinar

Sviptingarnar í Austur-Evrópu hafa óbeint fremur heppileg áhrif á viðskiptastöðu Íslands gagnvart Vestur-Evrópu. Færsla austantjaldsríkjanna í átt frá alræði og ríkisbúskap til fjölræðis og markaðsbúskapar hefur breytt áherzlum í efnahagssamstarfi Vestur-Evrópu.

Fyrir örfáum vikum var sveiflan í Evrópubandalaginu eindregið í átt til aukinnar innri samvinnu á kostnað aukinnar samvinnu út á við. Ártalið 1992 hafði fengið eins konar dularmagn sem áningarstaður á leið til Bandaríkja Evrópu, hugsjónar, sem lengi hefur blundað.

Stefnt var að sameiginlegri mynt, sameiginlegu félagskerfi og margvíslegum öðrum aðgerðum til að steypa samstarf ríkja Evrópubandalagsins í eitt mót. Talið var, að mikil áherzla á viðræður út á við gæti tafið hina erfiðu minnkun sjálfsákvarðana ríkjanna.

Nú standa ríki Evrópubandalagsins hins vegar andspænis gerbreyttum viðhorfum. Þau verða að bregðast við byltingunum í Austur-Evrópu. Um leið verða þau að draga úr fyrirhuguðum hraða á ferð sinni í átt til efnahags- og viðskiptavirkis tólf ríkja í Vestur-Evrópu.

Af siðferðilegum ástæðum og hagsmunaástæðum í senn þurfa stjórnendur Evrópubandalagsins og einstakra ríkja þess að ræða við hina nýju stjórnendur í Austur-Evrópu og svara kröfum þeirra um peningaaðstoð og um aðgang að markaði í Vestur-Evrópu.

Þetta hefur skyndilega hleypt fítonsanda í viðræður Evrópubandalagsins og Fríverzlunarsamtakanna um evrópskt efnahagssvæði og í undirbúning Fríverzlunarsamtakanna fyrir þessar viðræður. Nú er stefnt að niðurstöðu í samkomulagi strax í lok næsta árs.

Ríki Fríverzlunarsamtakanna hafa samþykkt að beita sér fyrir, að fyrirhuguð fríverzlun milli landa Evrópu bandalagsins og landa Fríverzlunarsamtakanna nái til sjávarafurða. Þessi niðurstaða, sem var formlega undirrituð í vor, er okkur mjög dýrmætt fagnaðarefni.

Okkar menn í þessum viðræðum þurfa nú að gæta þess vel, að kaflinn um viðskiptafrelsi sjávarafurða verði ekki skilinn eftir einhvers staðar á leiðinni vegna áhugaleysis hinna aðila Fríverzlunarsamtakanna og óbeinnar andstöðu aðila Evrópubandalagsins.

Jafnframt ber okkur að nota hvert tækifæri til að koma þessu sjónarmiði á framfæri við ráðamenn í ríkjum Evrópubandalagsins, svo sem hefur verið gert, bæði á vettvangi sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra. Dropinn holar steininn á þessu sviði sem öðrum.

Sjálfsagt er að bæta um betur og fara fram á tvíhliða viðræður um viðskiptafrelsi sjávarafurða við Evrópubandalagið sem slíkt og einstök ríki þess. Jafnvel þótt hinum aðilanum lítist ekki á slíkt, vekur ósk okkar athygli á sjónarmiðum okkur og auglýsir þau óbeint.

Ástæðulaust er að búa innanlands til pex um, hvort betra sé að vinna á vegum Fríverzlunarsamtakanna eða í beinum viðræðum. Aðalatriðið er, að okkar menn þurfa á næsta ári að sækja fram með íslenzk sjónarmið á hverjum þeim vettvangi, sem sjáanlegur er.

Í uppsiglingu er stórkostlegur markaður átján ríkja Vestur-Evrópu auk sambands þessa markaðar við að minnsta kosti fjögur ríki Austur-Evrópu. Við eigum að stefna af hörku að þátttöku í þessum markaði, sem hentar okkur mun betur en aðild að Evrópubandalaginu.

En það er til marks um, hversu háð við erum útlöndum, að atburðir í Austur-Evrópu skuli skyndilega hafa bætt stöðu okkar á erfiðum markaði í Vestur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Rússneskur vetur

Greinar

Veturinn verður Gorbatsjov erfiður í Rússlandi. Opnun atvinnulífsins hefur ekki bætt kjör almennings í kjarnalandi Sovétríkjanna. Íhaldssamir andstæðingar hans munu eiga auðvelt með að kenna honum og stefnu hans um ýmislegt, sem aflaga mun fara í vetur.

Í Leníngrad stóð flokkurinn fyrir fjölmennum fundi, þar sem hver flokksleiðtoginn á fætur öðrum réðst á stefnu Gorbatsjovs við góðar undirtektir fundarmanna. Einkum beindu þeir geiri sínum að glæpamönnum og millum, sem þeir sögðu stefnu hans búa til.

Komið hefur í ljós, að meðal verkafólks í Rússlandi ríkir mikil öfund í garð hinna nýju samvinnufélaga og allra þeirra, sem hafa grætt á þátttöku í þeim. Margir Rússar eru svo rótgrónir í að vera á lágu kaupi í tryggri vinnu hjá ríkinu, að þeir óttast allar breytingar.

Þetta er ekkert óeðlilegt. Á Íslandi er líka mikið um fólk, sem lítur á viðskipti sem eins konar klám, á vexti sem eins konar okur, á gróða sem eins konar glæp. Við þurfum ekki að vera hissa, þótt margir Rússar taki lág ríkislaun fram yfir óvissu og harðneskju markaðarins.

Ástandið er ekki svona óhagstætt annars staðar í Austur-Evrópu, þar sem miðstýring og ríkisdýrkun á sér styttri feril. Almenningur í flestum löndum Austur-Evrópu er að stórum hluta mjög fylgjandi vestrænum markaðsbúskap og áhættunni, sem honum fylgir.

Sama er að segja um Eystrasaltslönd Sovétríkjanna. Búast má við, að þar rísi fjölflokkakerfi á næstu mánuðum á svipaðan hátt og hefur verið að rísa í hinum sjálfstæðu ríkjum Austur-Evrópu og að samhliða því rísi kerfi markaðsbúskapar að vestrænni fyrirmynd.

Fjölflokkakerfi og markaðsbúskapur eru óaðskiljanlegir þættir í vefi valddreifingar. Stjórnmálavald dreifist frá einum flokki til margra flokka, sem skiptast á um völd. Fjölmiðlavald og efnahagsvald slítur sig laust frá stjórnmálavaldi og dreifist út á markaðinn.

Svo virðist sem Gorbatsjov átti sig ekki á ýmsum lögmálum markaðsbúskapar. Hann minnir að því leyti á Steingrím Hermannsson og fleiri íslenzka stjórnmálamenn, að hann telur, að markaði beri að setja mjög þröngar skorður undir stjórn manna úr ráðuneytunum.

Við búum við sovézkt hagkerfi í landbúnaði og Halldór Ásgrímsson hefur verið að reyna að byggja upp svipað skömmtunarkerfi í sjávarútvegi. Um allt land eru ráðamenn fyrirtækja að komast á þá skoðun, að bezt sé að forðast gjaldþrot með því að halla sér að ríkinu.

Undan þessu er Austur-Evrópa að losa sig. Þar vilja menn gera atvinnulífið virkt á nýjan leik, með því að neita forstjórum um stuðning úr sjóðum hins opinbera og aðra fyrirgreiðslu ríkisins. Þetta er það, sem kann að takast í frjálsu ríkjunum og Eystrasaltslöndunum.

Ósennilegt er hins vegar, að það takist í Rússlandi. Þar hefur fólk ekki þekkt annað en miðstýringu og ríkisdýrkun í þrjár kynslóðir. Gorbatsjov er því að reyna að koma upp í staðinn eins konar haltu-mér-slepptu-mér stefnu, perestrojku eða miðstýrðum markaðsbúskap.

Stefna Framsóknarflokksins í efnahagsmálum mun ekki verða Gorbatsjov til framdráttar. Hann mun finna fyrir, að markaðsbúskapur virkar ekki, nema að miðstýringunni á honum sé slegið út. En hann skilur þetta ekki frekar en íslenzkir stjórnmálamenn og kjósendur.

Gorbatsjov veit, að hann stendur og fellur með, hvort málamiðlunin færir Rússum brauð. En hann veit ekki, að stefnan er grautur, sem nú er gjaldþrota á Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Bush í kröppum sjó

Greinar

Stjórnborðsstigi á herskipinu Belknap brotnaði í einni af þremur tilraunum sjóðliða til að koma Bandaríkjaforseta úr báti um borð í skipið á laugardaginn, þegar höfuðskepnurnar voru nærri búnar að splundra viðræðum forustumanna austurs og vesturs við Möltu.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Belknap er í slysafréttum. Árið 1975 lenti þetta flaggskip sjötta flotans í árekstri við flugmóðurskipið John F. Kennedy, svo að upp komu eldar um borð. Átta sjóliðar fórust í baráttunni við eldana. Skipið var síðan fimm ár í viðgerð.

Minnstu munaði, að kjarnorkuslys hlytist af árekstrinum. Eldarnir um borð komust í 12 metra fjarlægð frá kjarnorku-yddum Terrier-eldflaugum. Neyðarkall var sent um, að kjarnasprenging væri yfirvofandi. Allt fór betur en á horfðist eins og við Möltu um helgina.

Enn eru í fersku minni slysin um borð í sovézkum kjarnorkukafbátum undan ströndum Noregs á síðustu misserum. Þau hafa magnað vitund fólks um hættur, sem fylgja viðbúnaði heimsveldanna á höfunum og stuðlað að kröfum um, að úr honum verði dregið skjótt.

Á leiðtogafundinum við Möltu hafnaði George Bush Bandaríkjaforseti algerlega tillögum Mikhails Gorbatsjovs um, að hafnar skyldu viðræður um samdrátt vígbúnaðar á höfunum eins og á öðrum sviðum. Þessi þvergirðingsháttur mun draga dilk á eftir sér.

Ástæðan fyrir neitun Bush er, að Bandaríkjastjórn telur sig eiga nokkurn veginn alls kostar í viðræðum við Sovétstjórnina, sem býr við afleitan fjárhag og neyðist til einhliða samdráttar á mörgum sviðum vígbúnaðar. Bush telur sig ekki þurfa að gefa neitt á móti.

Bush ímyndar sér, að hann sé að skora mark í samkeppni við Gorbatsjov með því að neita að ræða um samdrátt vígbúnaðar á höfunum og komast upp með það. Þetta er í anda valdastefnu, sem einu sinni hrundi með Macchiavelli og í annað sinn með Kissinger.

Efnislega hefur Gorbatsjov rétt fyrir sér. Ef Sovétríkin draga saman seglin meira en Bandaríkin á ýmsum sviðum, þar sem hin fyrrnefndu hafa hingað til haft yfirburði, er sanngjarnt, að Bandaríkin taki þátt í að draga saman seglin á sviði, þar sem þau hafa yfirburði.

Um allan heim munu menn sjá, að þetta er sanngjarnt. Því mun Bush ekki komast upp með þvergirðingsháttinn. Þegar stjórn hans verður seint og um síðir búin að átta sig á álitshnekkinum, sem hún mun bíða, verður fallizt á samdrátt vígbúnaðar á höfunum.

Ljóst er, að forsendur mikils herbúnaðar af hálfu Vesturlanda hafa minnkað á síðustu vikum. Varsjárbandalagið er lamað. Enginn telur í alvöru, að herir nýrra ríkisstjórna í Austur-Evrópu séu eða verði fáanlegir til að taka þátt í sovézkri árás á Vesturlönd.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra sagði á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins á mánudaginn, að viðbrögð Bush hefðu valdið Íslendingum vonbrigðum. Það eru orð að sönnu. Stefna Bandaríkjaforseta er andstæð öryggis- og fiskveiðihagsmunum okkar.

Sem betur fer erum við ekki lengur einir um þá skoðun, að tímabært sé að draga saman seglin í vígbúnaði á höfunum. Ráðamenn í nokkrum öðrum löndum Atlantshafsbandalagsins, þar á meðal í Noregi, eru smám saman að átta sig á, að sérvizka Íslendinga er rétt.

Macchiavelli hefur reynzt mörgum skeinuhættur lærifaðir. Sjóhernaðarsigurinn, sem Bush taldi sig bera frá storminum við Möltu, mun hverfa út í veður og vind.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðar fréttir enn um sinn

Greinar

Um miðja síðustu viku var í sovézkum blöðum farið að fordæma innrás Rauða hersins í Tékkóslóvakíu árið 1968. Þetta kippti stólunum undan valdhöfunum í Tékkóslóvakíu, sem einmitt báðu um þessa innrás á sínum tíma til að koma Alexander Dubcek frá völdum.

Nú er Dubcek mættur aftur á götufundina og kvislingarnir ráða ekki við neitt, enda hefur í Moskvu, að undirlagi Gorbatsjovs, verið tekin upp stefna í málefnum lýðræðis og efnahags, sem gengur lengra í átt til vesturs en stefna Dubceks gerði á sínum tíma í Tékkóslóvakíu.

Á undraskömmum tíma hefur flætt undan valdhöfum allra fylgiríkja Sovétríkjanna í Austur-Evrópu nema Rúmeníu. Að Austur-Þjóðverjum horfnum stóðu harðlínumennirnir í stjórn kommúnista í Tékkóslóvakíu að lokum einangraðir í dýpra vatni en þeir réðu við.

Árangur Austur-Evrópu byggist að töluverðu leyti á, að harðlínumenn misstu stuðning Moskvu og urðu að halla sér hver að öðrum. Eftir því sem ríkin féllu eitt af öðru frá hörðu línunni hefur grisjast í þessum hópi. Því hafa menn unnvörpum verið að segja af sér.

Í hvert skipti sem lýðræði hefur unnið áfangasigur í Austur-Evrópu að undanförnu hafa líkurnar minnkað á afturhvarfi. Harðlínumenn hafa enga valdamiðstöð lengur til að halla sér að, því að Ceausescu í Rúmeníu telst tæplega nógu mikill bógur út á við.

Sigur lýðræðis er samt ekki gulltryggður í Austur-Evrópu. Andstæðingar breytinganna sitja án efa hvarvetna á svikráðum. Þeir hafa samband sín í milli yfir landamærin og reyna einnig að afla sjónarmiðum sínum fylgis meðal ráðandi manna í herjum landanna.

Sem fyrr skiptir mestu, hverjar sviptingarnar verða í Sovétríkjunum. Ef Gorbatsjov og hans mönnum tekst að halda Rauða hernum frá valdaráni, er ekki unnt að sjá, að harðlínumenn í Austur-Evrópu geti undið ofan af þróuninni og fært ástandið nálægt fyrra horfi.

Flest bendir til, að Tékkar og Slóvakar fái frið til að þróa sín mál í átt til lýðræðis á svipaðan hátt og er að gerast hjá Austur-Þjóðverjum og hafði áður gerzt hjá Pólverjum og Ungverjum. Lýðræði og fjölflokkakerfi virðast vera á sigurgöngu um alla Austur-Evrópu.

Koma Tékkóslóvakíu í hópinn skiptir miklu, meðal annars af því að hún lokar dæminu í heilum heimshluta. Einnig af því að þar var gróin lýðræðishefð fyrir stríð, svo að búast má við, að nýjum valdhöfum reynist tiltölulega auðvelt að taka upp vestrænar hefðir.

Braut Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkalands verður ekki eins þyrnum stráð og hinna ríkjanna. Austur-Þýzkaland mun njóta góðs af vesturþýzku fé og Tékkóslóvakía af iðnaðarhefðum. Verr mun ganga í Póllandi og Ungverjalandi, sem ramba á barmi gjaldþrots.

Öll þessi ríki munu njóta mikillar efnahagsaðstoðar úr vestri, svo framarlega sem efnd verða loforð um lýðræði og fjölflokkakerfi. En efnahagsleg viðreisn næst ekki með fjáraustri að utan. Til viðbótar verður að koma vilji, framtak og svigrúm í löndum Austur-Evrópu.

Erfiðast mun þetta verða í Sovétríkjunum sjálfum, þar sem markaðsöflum hefur verið haldið niðri kynslóðum saman. Þar eru komin í ljós merki um, að meðal almennings ríkir mikill ótti við frjálsræði í viðskiptum og framleiðslu, svo og öfund í garð hinna framtakssömu.

Enn um sinn er því hulin þoku hin fjarlægari framtíð Sovétríkjanna og Austur-Evrópu. En í bráð mun halda áfram sigurganga lýðræðis og fjölflokkakerfis.

Jónas Kristjánsson

DV

Fasteign í brosi

Greinar

Þegar íslenzkir stjórnmálamenn eiga samskipti við útlönd, meta þeir bros viðmælenda sinna of mikils, þótt Hávamál vari við, að menn telji viðhlæjendur vera vini sína. Persónuleg sambönd, sem Íslendingarnir segja sig hafa í útlöndum, geta verið meira eða minna ímynduð.

Áherzla Íslendinga á persónuleg sambönd, raunveruleg eða ímynduð, byggist á innlendri reynslu, sem ekki á við sums staðar í útlöndum, þar sem menn eru komnir lengra á þróunarbrautinni frá fyrirgreiðslu- og úthlutunarkerfinu, er ríkir enn hér á landi.

Persónuleg sambönd skipta máli í alþjóðlegum samskiptum, en alls ekki eins miklu máli og í siðleysinu hér heima, þar sem vinir og viðhlæjendur fá á færi bandi fyrirgreiðslu og úthlutun, sem öðrum er meinuð. Skömmtun til gæludýra er ekki eins auðveld í útlöndum.

Ekki má heldur gleyma, að erlendir stjórnmálamenn og embættismenn eru margir þrautþjálfaðir í háttvísi. Þeir eiga erfitt með að segja “nei” berum orðum og klæða neitunina gjarna í orðagjálfur, sem grunnhyggnir bjartsýnismenn gætu túlkað sem eins konar já.

Einna mestu máli skiptir þó, að persónuleg sambönd í utanríkismálum eru háð valdaskeiði aðilanna. Tveir ráðherrar í Vestur-Þýzkalandi kunna að þykja hagstæðir í samskiptum, en einn góðan veðurdag eru þeir horfnir úr starfi og aðrir torsóttari teknir við.

Íslenzkir þrýstendur hafa löngum átt erfitt með að átta sig á þessu í innanlandsmálum. Sendinefndir þrýstihópa hafa gengið á fund ráðherra og kreist úr honum loforð um að beita sér fyrir hinu og þessu. Síðan fara nefndirnar heim og tala um loforðin eins og fasteign.

Á þessu er ekki aðeins sá galli, að stjórnmálamenn efna ekki allt, sem þeir lofa. Einnig er ljóst, að í ýmsum tilvikum tekur langan tíma að koma loforðum í framkvæmd. Áður en að því kemur eru nýir ráðherrar teknir við. Þá þurfa þrýstendur að byrja á núlli að nýju.

Af ýmsum slíkum ástæðum er skynsamlegt, að íslenzkir stjórnmálamenn einblíni ekki um of á persónuleg sambönd úti í heimi. Slík sambönd eru háð strangari siðareglum en hér, þau kunna að vera meira eða minna ímynduð og þau lenda oft í tímahraki.

Einn lærdómurinn, sem draga má af þessu, er, að óráðlegt er að safna eggjum sínum í eina körfu. Í utanríkismálum er brýnt að eiga nokkurra kosta völ, bæði í vinnuaðferðum og markmiðum. Þetta á að vera leiðarljós okkar manna í viðræðum um evrópskt samstarf.

Viturlegt er að gæta okkar hagsmuna á öllum vígstöðvum í senn, því að við vitum ekki fyrirfram, hverjar muni reynast okkur bezt. Við eigum að reyna að nota beinar viðræður við aðila í einstökum ríkjum Evrópubandalagsins, án þess að hafa ofurtrú á slíku.

Einnig eigum við að efla þátt okkar í sameiginlegum viðræðum Fríverzlunarsamtakanna við Evrópubandalagið. Um leið þurfum við að varast, að félagar okkar í samtökunum skilji fiskinn eftir, þegar til alvörunnar dregur og önnur mál færast á oddinn í viðræðunum.

Við höfum að undanförnu séð, hversu valt er að treysta grónum samböndum í sölu saltsíldar til Sovétríkjanna. Í því máli sluppum við fyrir horn að sinni. Viðskiptavild er ekki fasteign, þótt hún sé verðmæt. Enn síður getur bros í Bruxelles talizt til fastafjármuna.

Eitt meginatriðið er að hafa heimavinnuna í lagi og vera sífellt á vaktinni. Þá lendum við ekki allt einu í óvæntu rugli á borð við innflutningsbann á æðardúni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfsgagnrýni er engin

Greinar

Kotrosknum bjartsýnismönnum í loðdýraeldi er ekki leyft að fara mildilega á höfuðið í smáum stíl. Sjálfsgagnrýnislausir ráðamenn sjá um, að þeir fari harkalega á höfuðið í stórum stíl. Stóri bróðir magnar loðdýratjónið með takmarkalítilli fyrirgreiðslu skattgreiðenda.

Kotrosknum bjartsýnismönnum í fiskeldi er ekki leyft að fara mildilega á höfuðið í smáum stíl og tiltölulega snemma á ferli ævintýrisins. Sjálfsgagnrýnislausir ráðamenn sjá um, að gjaldþrotið verði stærra og víðfeðmara. Úr milljónatjóni er búið til milljarðatjón.

Afskekktum byggðum landsins er ekki leyft að lognast út af á náttúrulegan hátt eins og tíðkaðist áratugum saman. Nú verður fyrst að pumpa tugum og hundruðum milljóna í gjaldþrotið, svo að það verði nánast óviðráðanlegt og að allir gangi slyppir og snauðir á brott.

Ekki er óeðlilegt, að fjórum af hverjum fimm gangi illa, þegar fitjað er upp á nýjungum í atvinnulífinu. Heppilegt er, að nýjungahraðinn sé ekki of mikill og að grisjunin verði tiltölulega snemma og tiltölulega ódýr. Það gerist með því að spara gælurnar við nýbreytnina.

Hér á landi er nýbreytni í atvinnulífi kaffærð í gælum opinberra sjóða. Fyrirgreiðslan sogar að sér bjartsýna skussa. Það leiðir til, að níu af hverjum tíu verða óhjákvæmilega gjaldþrota og að hvert gjaldþrot út af fyrir sig verður margfalt stærra en ella hefði orðið.

Ekki verður séð, að nokkru sinni hafi verið heil brú í loðdýraævintýrinu, þar sem fórnað hefur verið þremur milljörðum króna í fjárfestingu í útflutningi, er nemur innan við 200 milljónum á ári. Og enn á að ausa peningum í refina, svo að gjaldþrotið mun stækka enn.

Með hjálp hins opinbera er búið að koma upp Silfurstjörnum í fiskeldi víðs vegar um land. Margar eldisstöðvarnar eru að verða gjaldþrota eða orðnar gjaldþrota, áður en komið er að sölu afurðanna, sem verður næsta reiðarslag, því að hún er afar illa undirbúin.

Hinir kotrosknu bjartsýnismenn í atvinnulífinu eru út af fyrir sig ekki mjög dýrir og eru þar að auki nauðsynlegir til að koma nýjungum af stað. Það eru ráðamenn án sjálfsgagnrýni, sem gera ævintýri síðustu ára svo hrikalega dýr, að þjóðarbúið leikur á reiðiskjálfi.

Ráðamenn þjóðarinnar rembast og reigjast í sjónvarpi. Þeir tala ábúðarmikið eins og þeir, sem valdið og vitið hafa. Þeir eru sífellt reiðubúnir að bruna á vettvang til björgunar, hvar sem illa gengur. Þeir virðast ekki hafa hugmynd um, að þeir eru með allt á hælunum.

Verst er, að þjóðin, sem horfir á, virðist ekki átta sig á, að ráðamennirnir eru ekki í neinu. Mikill fjöldi fólks horfir á valdhafana og trúir því beinlínis, að þeir séu í fötum. Mikill fjöldi fólks heldur, að ráðamenn séu sérhæfðir til að leysa alls konar vandamál úti í bæ.

Svo mikil er trúin á mátt ráðamanna, að Tíminn krafðist þess í stórri fyrirsögn, að þeir “refsuðu” Rússum fyrir að vilja ekki fullgilda síldarkaupasamning, sem undirritaður var með eðlilegum fyrirvara. Og menn heimta bláeygir, að ráðherrar fari til Moskvu!

Þótt dæmin sýni, að velvilji og fjáraustur valdhafa hafi frekar ill áhrif en góð, er þjóðin smám saman að sætta sig við, að byggt sé upp úthlutunarþjóðfélag, þar sem atvinnuvegum þjóðarinnar er meira eða minna stjórnað úr sjóðum, þingsölum og ráðuneytum.

Það er eins og þessi kotroskna bjartsýnisþjóð sé farin að trúa, að hreinn skortur á sjálfsgagnrýni ráðamanna sé merki um hæfni þeirra til að hræra í öllum pottum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ég úthluti mínum mest

Greinar

“Málefnin eru látin ráða í okkar flokki”, heyrist oft við hátíðleg tækifæri, þegar stjórnmálaflokkar halda aðalfundi. “Þetta var bara spurning um menn, en ekki málefni”er stundum svarað, þegar fjölmiðlafólk spyr um valdaágreining innan stjórnmálaflokka.

Opinbert markmið flestra stjórnmálaflokka er, að málefni nái fram að ganga. Stundum er erfitt að átta sig á innihaldi málefnaágreinings, sem sagður er rista djúpt. Um helgina deildu alþýðubandalagsmenn um, hvort þeir væru “sósíalistar” eða “jafnaðarmenn”.

Málefni eru oft sett á oddinn í áróðri stjórnmálaflokka, því að hefð og siðir segja, að málefni séu það, sem eigi að greina flokkana að. Hin meintu málefni eru svo einfölduð í eins konar litróf stjórnmálanna, þar sem orð á borð við “hægri” og “vinstri”fá innihald.

Þegar verkin tala, eru litirnir fremur fölir í litrófinu. Málefnin virðast vera eins konar fatnaður, sem stjórnmálaflokkar og -menn klæðast, gjarna fyrir kosningar, þegar þeir leita umboðs fólksins til að taka þátt í valdastreitunni á vettvangi landstjórnar og byggðastjórna.

Íslenzk stjórnmál snúast sama sem ekkert um málefni. Flokkarnir eru fyrst og fremst kosningabandalög stjórnmálamanna, sem eru að leita umboðs til að verja eða bæta aðstöðu sína sem skömmtunarstjórar í úthlutunarþjóðfélagi, ­ sem dreifendur velferðarinnar.

Grundvallarspurning stjórnmálanna er: “Hver úthlutar hverjum hverju?” Og markmið stjórnmálamannsins er: “Ég úthluti mínum sem mestu”. Daglega fáum við margar fréttir af árangri þeirra á þessu sviði, en sjaldan heyrist um neinn málefnalegan árangur.

Velferðarkerfi almennings er ekki fyrirferðarmikið í úthlutunarkerfinu, sem byggt hefur verið upp á Íslandi. Fyrirferðarmest er velferðarríki fyrirtækjanna, sem brennir til ösku um fimmtán milljarða á ári, helminginn í landbúnaði og helminginn í ýmsu öðru.

Þingflokkurinn Stefán Valgeirsson, aðstoðarmannaeigandinn Stefán Valgeirsson, sjóðaformaðurinn Stefán Valgeirsson og Silfurstjörnuformaðurinn Stefán Val geirsson eru orðnir að persónugervingi íslenzkra stjórnmála, stærsta dæmið, en engan veginn eina dæmið.

Sameinaðir hagsmunir stjórnmálamanna í öllum flokkum er, að sem minnst af fé renni um þjóðfélagið, án þess að þeir hafi afskipti af því. Markmiðið er, að sem mest fé fari inn og út hjá ríkinu, svo að umsvif skömmtunar- og úthlutunarstjóra verði sem mest.

Nokkuð stór hópur kjósenda, en mikill minnihluti samt, hefur augljósan hag af þessu kerfi. Þennan hóp skipa öflugir þátttakendur í skiptingu herfangsins, sem stjórnmálamennirnir afla úr vösum almennings. Þessir kjósendur gæta hagsmuna sinna með því að kjósa rétt.

Miklu fleiri kjósendur fá minna úr skiptingu herfangsins en þeir eru látnir leggja í púkkið á móti. Þótt sumir þeirra sjái, að úthlutunin til þeirra jafngildir ekki framlagi þeirra sjálfra, lifa þeir í voninni um, að efling skömmtunarkerfisins muni laga hlutfallið þeim í hag.

Flestir eru þó þeir kjósendur, sem ekki hafa neinn aðgang að kjötkötlum stjórnmálakerfisins, en streitast við að borga sína skatta og skyldur. Tilvera úthlutunarkerfisins byggist á, að þessi fjölmenni hópur skilji ekki stjórnmálin og ímyndi sér, að þau snúist um málefni.

Þegar kjósendur eru búnir að taka saman höndum um að reka úthlutunarstjóra og úthlutunarflokka af höndum sér, verður unnt að lifa góðu lífi hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Gæludýr borgarinnar

Greinar

Embættismenn Reykjavíkurborgar hafa upplýst, að ekki er einsdæmi, að gæludýr og þurfalingar fái sérstaka fyrirgreiðslu hjá borginni. En það hlýtur þó að vera afar sjaldgæft, að borgarfulltrúi fái fyrirgreiðslu á borð við þá, sem Júlíus Hafstein hefur fengið.

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fékk í fyrsta lagi eftirsótta lóð, sem margir hefðu viljað borga nokkrar milljónir króna fyrir að fá. Í öðru lagi fékk hann að hefja framkvæmdir á lóðinni án þess að hafa greitt tilskilin gjöld vegna byggingarleyfis og gatnagerðar.

Þessi uppgötvun er óþægileg fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Borgarstjórnarkosningar verða að vori. Í kosningabaráttunni verður erfitt að svara þeirri röksemd, að langvinnur meirihluti eins flokks leiði til spillingar, til dæmis í skömmtun gæða, sem of lítið er til af.

Að undanförnu hafa stjórnmálamenn Sjálfstæðisflokksins talið sig hafa hreinni skjöld en annarra flokka menn, sem hafa lent í margvíslegum hremmingum. Forustumenn flokksins hafa lagzt eindregnar í orði gegn pólitískri spillingu en forustumenn stjórnarflokkanna.

Telja má víst, að á næstu misserum muni kjósendur spyrja eftir stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum, sem vilja skera upp herör gegn pólitískri spillingu og gera eitthvað áþreifanlegt gegn henni. Þetta verður eitt málanna í byggðakosningunum á vori komanda.

Fólk er orðið langþreytt á brennivínskaupum ráðherra og svindli þeirra með ferðapeninga. Það er orðið langþreytt á forgangi stjórnmálamanna að ódýrum lífeyri. Það er orðið langþreytt á misnotkun þeirra á fé úr opinberum sjóðum til fyrirtækja, sem þeir eiga.

Fólk sættir sig ekki heldur við, að sveitarstjórnarmenn fái eftirsóttar lóðir og njóti síðan sérstakrar fyrirgreiðslu vegna þeirra. Skömmtunar- og undanþágukerfið er afleitt út af fyrir sig, en verður margfalt verra, þegar fulltrúar kjósenda fara sjálfir að njóta góðs af.

Lóðir og hús eru hefðbundinn vettvangur spillingar víða um heim og hefur rækilega verið kortlagður af fræðimönnum. Stundum er skipulag notað til að hækka lóðir eða land í verði. Víða erlendis er það ein algengasta tegund spillingar á sviði bæjar- og sveitarstjórna.

Um slíkt hefur blessunarlega ekki verið að ræða í Reykjavík, af því að borgaryfirvöld hafa áratugum saman verið svo forsjál að kaupa allt borgarlandið, langt upp í sveit. Borgin hefur því sjálf átt allt landið, sem skipulagt hefur verið eða staðið til að skipuleggja.

Verr hefur tekizt til í úthlutun lóða. Lengst af hefur of lítið framboð verið af lóðum. Menn hafa grætt á að fá úthlutað leigulóðum, sem þeir síðan framselja öðrum gegn greiðslu. Myndazt hefur svartur markaður á þessu sviði, eins og jafnan, þegar gotterí er skammtað.

Á síðustu árum hefur dregið úr lóðaspillingu. Með því að setja kraft í skipulag og lóðaúthlutun í Grafarvogi og Keldnaholti og á Gufuneshöfða náði Reykjavíkurborg jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar íbúðalóða. Einnig hefur jafnvægi aukizt í atvinnulóðum.

Undantekningar hafa helzt falizt í afmörkuðum lóðum, sem eru nálægt borgarmiðju, svo sem við Lágmúlann. Slíkar lóðir ætti raunar að setja á uppboð eins og gert var í Stigahlíð sællar minningar. Það er borginni til álitshnekkis að hafa horfið frá þeirri braut.

Vonandi verður Lágmúlahneykslið til þess, að borgarstjóri fari að útrýma vinnubrögðum skömmtunar og undanþága, sem alltof oft falla gæludýrum í skaut.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðasti Móhíkaninn

Greinar

Erfiðlega gengur að selja saltsíld til Sovétríkjanna, af því að viðhorfin hafa breytzt þar eystra. Ímyndaðir stjórnmálahagsmunir verða í vaxandi mæli að víkja fyrir hreinum viðskiptahagsmunum. Rammasamningar verða að víkja fyrir vestrænum markaðslögmálum.

Ekki er lengur nóg að fá undirskriftir embættismanna af gamla skólanum í Sovétríkjunum. Þessir embættismenn og aðrir slíkir eru taldir standa í vegi fyrir umbótum Gorbatsjovs og verða sennilega reknir fyrr eða síðar. Þannig síast breytingin um þjóðfélagið.

Nú eru ráðamenn utanríkisviðskipta í Sovétríkjunum farnir að spyrja, hvort raunverulega þurfi íslenzka síld, hvort hún sé ekki allt of dýr í samanburði við aðra síld á markaðnum og hvort Sovétríkin eigi yfirleitt gjaldeyri til að kaupa slíka lúxusvöru. Öll svörin eru neikvæð.

Áður fyrr sendu Sovétríkin listamenn um allan heim til að auka hróður Sovétríkjanna. Nú er heimtuð borgun í klingjandi, vestrænum gjaldeyri. Markaðslögmálin láta ekki að sér hæða, þegar þau fara að leika lausum hala, hvort sem er í óperusöng eða síldarkaupum.

Við megum búast við að geta ekki selt síld til Sovétríkjanna á næstu árum. Við munum tæplega heldur geta selt þangað peysur og trefla og annað dót. Og ekki þýðir að gera fleiri rammasamninga milli stjórnmálamanna um kaup og sölu á torseljanlegum varningi.

Viðskipti við Austur-Evrópu munu senn lúta sömu markaðslögmálum og viðskipti okkar við Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku. Erlendir kaupmenn munu kaupa af okkur vöru, sem þeir telja samkeppnishæfa og á verði, sem þeir telja samkeppnishæft.

Næstu daga og vikur verða íslenzkir ráðherrar önnum kafnir við að láta eins og allt sé eins og áður var í austri. Þeir hafa verið að hringja í sovézka starfsbræður og munu halda áfram að gera það. Þeir munu láta eins og Sovétríkin séu eins miðstýrð og Ísland er.

Þetta minnir á kvein íslenzkra ráðherra við þýzka ráðherra út af samdrætti í kaupum vesturþýzkra fyrirtækja á sjávarfangi í dósum frá Íslandi. Auðvitað gátu þýzku ráðherrarnir ekki stjórnað gerðum þýzkra kaupmanna, en þetta skilja íslenzkir ráðherrar ekki.

Ef til vill mistekst að opna efnahagslíf Sovétríkjanna og fleiri ríkja í Austur-Evrópu. Forréttindastéttirnar óttast um sinn hag og munu bindast samtökum við þá, sem fara halloka á markaði. Ef afturhvarf verður til miðstýringar, má aftur reyna að selja síld og trefla.

En afturhvarfið er ekki í augsýn. Enn um sinn verður Ísland eitt af fáum ríkjum Evrópu, sem ekki er annaðhvort með markaðsbúskap eða á fullri ferð til markaðsbúskapar. Við erum að verða síðasti Móhíkaninn, síðasta vígi trúarinnar á miðstýringu af hálfu ráðherra.

Við sitjum uppi með rammasamninga, búmark og fullvinnslurétt, kvóta og aflamark, hlutafjársjóð og atvinnutryggingarsjóð, Stefán Valgeirsson og alla sjóðina hans, refi og minka, kýr og kindur, svo og sjálfan Steingrím. Við erum að verða Albanían í Vestur-Evrópu.

Meðan svo að segja öll ríki Vestur-Evrópu efla auð sinn, höfum við komið okkur upp ríkisstjórn, sem er að smíða kreppu. Meðan flest ríki Austur-Evrópu eru að reyna að læra lexíuna frá Vestur-Evrópu, höfum við geirneglt miðstýringuna, sem leiðir til þjóðargjaldþrots.

Dæmigerðar eru örvæntingarfullar símhringingar íslenzkra ráðherra í sovézka ráðherra, sem hafa afsalað sér völdum eða eru að missa þau til markaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

Að vinna friðinn

Greinar

Opnun járntjaldsins í Þýzkalandi og Berlínarmúrsins eflir Vestur-Þýzkaland sem stórveldi meginlands Evrópu. Vesturþýzkra áhrifa mun nú gæta enn meira í Austur-Þýzkalandi, ekki bara sem segull flóttamanna, heldur sem segull viðskipta og efnahagssamvinnu.

Fyrir opnunina lágu flestir þræðir viðskipta austurs og vesturs í Evrópu um Vestur-Þýzkaland. Stjórnvöld þar hafa lengi stuðlað að auknu samstarfi við Austur-Evrópu. Það eru vesturþýzkir embættismenn, iðjuhöldar og kaupsýslumenn, sem þekkja þræðina í austri.

Með opnun landamæra mun áhrifa Vestur-Þýzkalands gæta enn frekar í austri. Frá Vestur-Þýzkalandi kemur mest fjárhagsaðstoð, mest áhættufé, mest verkþekking í iðnaði og reynsla í kaupsýslu. Vestur-Þýzkaland er að verða þungamiðja hinnar opnuðu Evrópu.

Ef kalda stríðinu er nú um það bil að ljúka, má segja, að eftirmála heimsstyrjaldarinnar síðari sé einnig að ljúka. Niðurstaða dæmisins er nokkuð önnur en hin herfræðilega. Hinir sigruðu standa efst á verðlaunapalli, en sigurvegararnir hafa vikið til hliðar.

Heimsstyrjöldin varð Bretlandi og Frakklandi ofraun, þrátt fyrir sigurinn. Herkostnaðurinn var svo mikill, að Bretar náðu sér aldrei á strik sem stórveldi og gátu ekki sniðið sér stakk eftir vexti eftirstríðsáranna. Og þeir segja enn “haltu mér, slepptu mér” við Evrópu.

Í fyrstu virtust hinir tveir sigurvegararnir geta notað sér vinninginn. Sovétríkin og Bandaríkin skiptu jörðinni milli sín í áhrifasvæði og hafa áratugum saman háð kalt stríð um völd sín og áhrif. Þetta stríð hefur kostað heimsveldin tvö ógrynni fjár og annarra fórna.

Meðan þessir voldugu sigurvegarar tefldu hina dýru skák, risu hinir sigruðu úr öskustónni. Japan og Vestur-Þýzkaland urðu smám saman efnahagsleg verzlunarstórveldi og standa núna til jafns heimsveldunum tveimur að peningalegu afli þeirra hluta, sem gera þarf.

Athyglisvert er, hvernig ógæfa hinna sigruðu snerist þeim í vil. Upp úr rústum stríðsins risu ný iðjuver, sem vegna tækniþróunar voru hagkvæmari í rekstri en gömlu fyrirstríðsverksmiðjurnar í löndum sigurvegaranna, er ekki þurftu að þola eins miklar loftárásir.

Kalda stríðinu er ef til vill að ljúka um þessar mundir. Sovétríkin játa sig sigruð í samkeppninni við Bandaríkin. Hugmyndafræðin er hrunin til grunna. Afrakstur erfiðis almennings liggur í hergögnum, sem koma engum að gagni, en fólkið sjálft er slyppt og snautt.

Nú keppast Sovétríkin og ríki Austur-Evrópu um að verða fyrst til að taka upp vestræna siði í verzlun og efnahag. Miðstýring er að víkja fyrir markaði, stjórnlyndi er að víkja fyrir frjálshyggju. Sum ríkin í Austur-Evrópu eru komin hægra megin við miðstýrt Ísland.

Bandaríkjunum hefur reynzt þetta dýrkeyptur sigur. Það er nefnilega dýrt að þurfa að hafa áhrif um heim allan og þurfa að standa með hernaðarmætti undir forustuhlutverkinu. Þannig standa Bandaríkin sem lamaður sigurvegari að loknu hinu langvinna kalda stríði.

Hrun Sovétríkjanna og lömun eða þreyta Bandaríkjanna hefur gert fyrst Japan og síðan Vestur-Þýzkalandi kleift að skjótast í fremstu röð. Þetta eru forusturíki tveggja svæða efnahagsundurs síðustu áratuga, Suðaustur-Asíu annars vegar og Vestur-Evrópu hins vegar.

Heitt stríð og eftirmál þess í köldu stríði fer ekki alltaf eins og menn halda, að það hafi farið. Kaldhæðin mannkynssaga segir, að erfiðast sé að vinna friðinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Frá Jöltu til Möltu

Greinar

Berlínarmúrinn glataði hlutverki sínu í fyrradag, þegar stjórnvöld Austur-Þýzkalands veittu fólkinu í landinu frelsi til að ferðast beint til Vestur-Þýzkalands án þess að þurfa að leita hælis í sendiráðum Vestur-Þýzkalands í Ungverjalandi og Tékkóslóvakíu.

Berlínarmúrinn stendur eftir sem nátttröll. Hann er aðeins minnisvarði um, hve langan tíma hefur tekið valdhafa Sovétríkjanna og leppríkjanna að efna veigamestu ákvæði samnings leiðtogafundar austurs og vesturs, sem haldinn var í Jalta fyrir tæplega 45 árum.

Í Jalta var Evrópu skipt í áhrifasvæði, en ekki eignarsvæði. Í Jalta gaf Jósef Stalín þeim Franklin Roosevelt og Winston Churchill skriflegt loforð um frjálsar kosningar og sjálfsákvörðunarrétt þjóðanna, sem lentu á hans áhrifasvæði við lok síðari heimsstyrjaldarinnar.

Ef staðið hefði verið við Jalta-samkomulagið, tækju stjórnir ríkja Austur-Evrópu tillit til utanríkishagsmuna Sovétríkjanna og væru ekki í Atlantshafsbandalaginu. Sumar væru í Varsjárbandalaginu, en aðrar hefðu sagt skilið við það og hefðu svipaða stöðu og Finnland.

Nú er þetta loks að koma fram, seint og um síðir. Allt byggist það á breyttri stefnu Sovétríkjanna eftir að Gorbatsjov komst til valda. Hann hefur hafnað Brezhnev-kenningunni um, að Sovétríkjunum sé heimilt að beita valdi til að verja falli stjórnir Austur-Evrópu.

Skyndilega hefur verið boðaður leiðtogafundur austurs og vesturs. Bush og Gorbatsjov munu hittast 2. og 3. desember um borð í herskipum undan Möltu. Talsmaður Sovétríkjanna notaði réttilega tilvísunina “frá Jöltu til Möltu”, þegar hann kynnti fundinn.

Fundurinn við Möltu er eins konar framhald fundarins í Jöltu. Leiðtogar heimsveldanna munu óformlega staðfesta 45 ára gamalt samkomulag og þar með auðvelda frekari stjórnmálaþróun í Austur-Evrópu í átt til lýðræðiskerfisins, sem ríkir í Vestur-Evrópu.

Frjálsar og heiðarlegar kosningar hafa farið fram í Póllandi og verða senn í Ungverjalandi. Slíkar kosningar hafa verið boðaðar í Austur-Þýzkalandi. Og ekki verður séð, að kommúnistum í Tékkóslóvakíu takist að verjast frelsi, þegar það flæðir inn allt í kringum þá.

Kommúnistar eru komnir í mikinn minnihluta í stjórn Póllands, en ríkið verður enn um sinn áfram í Varsjárbandalaginu. Kommúnistar munu sennilega líka missa völdin í Ungverjalandi. Þar er hugsanlegt, að ríkið gangi úr bandalaginu og komist upp með það.

Þannig eru þjóðir Austur-Evrópu í þann veginn að fara hver sína leið, en allar stefna þær í átt til vesturs. Hinir sameiginlegu hagsmunir heimsveldanna, sem ræddir verða við Möltu, eru, að þetta gerist friðsamlega og leiði um síðir til aukins stöðugleika í Evrópu.

Hugsanlegt er, að þessi endurvakta Jalta-stefna nái ekki fram að ganga. En það mundi kosta margfalt meira blóðbað á margfalt fleiri stöðum en á torgi hins himneska friðar í Kína. Breytingarnar eru svo víða og svo langt komnar, að afar erfitt verður að snúa við.

Á forsíðu DV í gær var litmynd af dansandi fólki á Berlínarmúrnum. Myndin er heimssögulegt tákn þess, að heimsstyrjöldinni síðari, og eftirleik hennar í formi kalda stríðsins, er núna loksins sennilega að ljúka með góðum árangri, heilum 50 árum eftir að hún hófst.

Fundurinn við Möltu verður haldinn um borð í vígvél, enda er táknrænt að ljúka frelsisstríði Evrópu formlega í því umhverfi, sem var, þegar stríðið hófst.

Jónas Kristjánsson

DV