Greinar

Á vogarskál hryðjuverka

Greinar

Þorsteinn Pálsson er ekki ráðherra. Hann er þó betri en alls enginn gestur, af því að hann er formaður stærsta stjórnmálaflokksins í heilu landi, þótt fámennt sé. Honum var því boðið í opinbera heimsókn til Ísraels til að draga úr einangrun hryðjuverkastjórnarinnar þar.

Sjaldgæft er, að stjórnmálaforingjar í Vestur-Evrópu fari í opinbera heimsókn til Ísraels. Ef þeir láta hafa sig í slíkar ferðir, er það venjulega til að flytja stjórnvöldum þar þau skilaboð, að þau séu andstyggð góðra manna úti í heimi vegna villimennsku á hernumdum svæðum.

Þegar Richard Nixon, fyrrum Bandaríkjaforseti, fór til Kína um daginn, var ætlun hans ekki að láta stjórnvöld þar halda, að allt væri fallið í ljúfa löð úti í heimi og gleymd væru fjöldamorðin á torgi hins himneska friðar. Hann sagði stjórnvöldum til syndanna.

Ekki er vitað, að Þorsteinn Pálsson hafi áminnt ísraelsk stjórnvöld eða lagt rækt við að kynna sér afleiðingar ógnarstjórnar þeirra á landsvæðum Palestínumanna. Hann lét bara leiða sig eins og sauð milli höfuðbólanna til að vera á myndum með glæpamönnum ríkisins.

Framganga ísraelska hersins á hernumdu svæðunum minnir á framgöngu þýzkra SS-sveita, þar sem þær höguðu sér verst í hernumdum ríkjum síðari heims styrjaldarinnar. Er sorglegt til þess að vita, að Ísrael tekur Schutzstaffeln sér til fyrirmyndar.

Ísraelski herinn drepur börn og unglinga, sem kasta grjóti. Hann misþyrmir föngum. Hann sendir jarðýtur til að eyða heimilum fólks. Hann setur sölubann á afurðir Palestínumanna, svo að þær grotni. Hann stundar gripdeildir í fyrirtækjum þeirra og á heimilunum.

Sjaldan hafa hermenn og landnemar fengið dóma fyrir morð á Palestínumönnum. En þá eru þeir náðaðir af forseta ríkisins, Chaim Herzog. Stjórnmálaflokkar þora ekki annað en að styðja hörkuna, því að þeir óttast að missa ella fylgi einsýnna kjósenda.

Innreið Likud-flokkabandalagsins í valdastóla markaði tímamót, því að þá komust gamlir hryðjuverkamenn til valda. En þeim verður ekki einum um kennt. Varnar málaráðherrann, Yitzhak Rabin, kemur frá Verkamannaflokknum, sem áður var hófsamur flokkur.

Ísrael hefur verið að einangrast á síðustu tveimur árum. Eina undantekningin er Bandaríkin, sem draga taum Ísraels og halda hryðjuverkaríkinu uppi fjárhagslega. Þar hafa stjórnmálamenn til skamms tíma talið, að stuðningur við Ísrael yrði sér til gagns.

Stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael stafar meðal annars af árangursríkum vinnuaðferðum Aipac. Það er áróðursstofnun, er stuðlar að kjöri þingmanna, sem eru vinveittir Ísrael, og reynir að fella hina, sem taldir eru ótryggir í stuðningi eða hliðhollir Palestínu.

En nú er svo komið, að George Bush Bandaríkjaforseti er að reyna að losna við að hitta Yitzhak Shamir, forsætisráðherra Ísraels, þegar hann kemur til Bandaríkjanna um miðjan mánuðinn. Smám saman reytir Ísrael af sér bandaríska stuðninginn eins og annan.

Það var dapurleg stund í sögu Íslands, þegar Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra lét Ísland sitja hjá fyrir ári, þegar Sameinuðu þjóðirnar fordæmdu Ísrael með atkvæðum 130 ríkja. Þetta var óvænt og ill breyting á fyrri afstöðu Íslands á þeim vettvangi.

Og nú hefur formaður stærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi því miður lagt annað íslenzkt lóð á vogarskál hryðjuverka Ísraelsríkis gagnvart íbúum Palestínu.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýtt ráðuneyti verklítið

Greinar

Ríkisstjórnin er í þann veginn að gera nýja umhverfisráðuneytið óþarft með því að kippa mikilvægustu verkefnunum undan því og halda þeim hjá hagsmunaaðilum, sem áratugum og öldum saman hafa spillt náttúru Íslands, í seinni tíð með aðstoð landbúnaðarráðuneytis.

Verðandi umhverfisráðherra segist ekki hafa áhyggjur af þessu, enda er hann ekki áhugamaður í umhverfismálum. Hann telur sig hafa öðrum hnöppum að hneppa í Hagstofunni, skipasmíðum og norrænu samstarfi. Hann segist óttast, að umhverfisverkefnin verði of stór.

Framsóknarflokkurinn hefur undanfarna mánuði verið að grafa undan umhverfisráðuneytinu. Nú síðast hefur forsætisráðsherra og formaður Framsóknarflokksins sagt, að hann telji landgræðslu og skógrækt bezt komið fyrir sem fyrr í landbúnaðarráðuneytinu.

Þessi hættulega skoðun þarf raunar ekki að koma á óvart. Framtíðar- og óskhyggjunefnd á vegum forsætisráðherra hélt því blákalt og grínlaust fram um daginn, að Ísland hefði svo góðan orðstír í umhverfismálum, að gera mætti landið að alþjóðamiðstöð þeirra.

Staðreyndin er hins vegar sú, að frá upphafi Íslandsbyggðar hefur hver landsmaður, núlifandi og áður lifandi, eytt sem svarar einum fermetra gróðurs á hverju einasta ári að meðaltali. Við erum án efa nálægt heimsmeti nokkurra Afríkuþjóða í eyðingu umhverfis.

Þrátt fyrir eldgos og frostavetur var Ísland viði vaxið milli fjalls og fjöru og meira að segja vaxið saman um Kjöl, áður en landnámsmenn komu til skjalanna með sauðfé sitt. Okkur og forverum okkar hefur svo tekizt að breyta miklum hluta hálendisins í hreina eyðimörk.

Ætlunin með umhverfisráðuneytinu var að feta í fótspor annarra vestrænna ríkja, sem eru farin að taka slík mál mun fastari tökum en áður. Veigamikill liður viðleitninnar felst í að taka ábyrgðina af verndun umhverfis frá hagsmunaráðuneytum mengunarvalda.

Það kemur sí og æ í ljós, að landbúnaðarráðuneytið gætir hvorki hagsmuna þjóðarinnar né ríkisins. Það stundar hreinræktaða hagsmunagæzlu fyrir búskap með kýr og kindur. Það höfðar meira að segja vonlaus mál gegn þeim, sem gagnrýna landbúnaðarstefnuna.

Ein afleiðingin er, að Landgræðsla ríkisins telur verkefni sitt felast í að útvega beitiland fyrir sauðfé. Hún lætur gróðureyðingarlið vaða uppi, svo sem í Mývatnssveit og afréttum Mývetninga. Hún höfðar ekki mál gegn þeim, sem hleypa sauðfé í landgræðslugirðingar.

Landgræðsla ríkis hefur verið undir húsaga hjá landbúnaðarráðuneytinu og þar með hagsmunaaðilum gróðurspillingar. Með því að hindra flutning hennar yfir í umhverfisráðuneyti er Steingrímur Hermannsson að tryggja hagsmuni, sem eru andstæðir gróðurverndun.

Ráðherrar Alþýðubandalagsins, með ráðherra landbúnaðarmála í broddi fylkingar, hafa tilhneigingu til að yfirbjóða Framsóknarflokkinn í hagsmunum hins hefðbundna landbúnaðar. Þeir styðja hugmyndina um, að umhverfismálin fari ekki í umhverfisráðuneytið.

Þegar svo við bætist, að verðandi ráðherra umhverfismála ber við önnum og hefur lítinn sem engan áhuga á að fá hin raunverulegu umhverfismál í nýja ráðuneytið, er ekki við að búast, að hin upprunalega hugmynd um alvöruráðuneyti umhverfismála nái fram að ganga.

Með marklausu umhverfisráðuneyti er ríkisstjórnin í þann mund að breyta einu mesta framfaramáli þjóðarinnar í skrípaleik, eins konar Þjóðarbókhlöðumál.

Jónas Kristjánsson

DV

Græðgi í pólitíkinni

Greinar

Ronald Reagan, fyrrum Bandaríkjaforseti, hefur að undanförnu verið í Japan að selja sig og virðingartitil sinn. Hann fékk sem svarar 124 milljónum króna til að koma þar fram og láta hafa við sig blaðaviðtöl. Í heild kostar ferð hans Japani rúmar 430 milljónir króna.

Á sama tíma og Reagan var opinberlega að verja kaup japanska fyrirtækisins Sony á bandaríska kvikmyndafélaginu Columbia, voru fulltrúar Sony og fleiri japanskra fyrirtækja á fundi um, hvort gefa ætti nokkra milljónatugi til bókasafns forsetans fyrrverandi. Ronald

Reagan er óvenjulega mikill siðleysingi í stétt stjórnmálamanna. Hann er ekki bara siðlaus sjálfur, heldur safnaði hann á valdaárunum um sig fjölmennri hirð siðleysingja. Enn er verið að rekja ofan af ævintýralegum þjófnaði hans manna í húsnæðismálastjórn.

Það einkenndi hirðmenn Reagans að þeir notuðu fyrsta tækifæri til að gera sér mat úr virðingarstöðum sínum. Michael Deaver stofnaði fyrirtæki til að selja aðgang að ráðamönnum í Hvíta húsinu. Donald Regan skrifaði bók með rógi um fyrrverandi yfirmann sinn.

Einkennistákn valdaferils Reagans var æðsti stjórnsýslumaður laga og réttar í landinu, Edwin Meese dómsmálaráðherra. Hann var allan sinn tíma sjálfur á kafi í margvíslegri spillingu og þar fyrir utan önnum kafinn við að hindra, að lögum yrði komið yfir hirðmennina.

Spillingin hefur haldið áfram með nýjum forseta, en hún hefur breytt um svip. Það eru ekki þjófnaðir og fjárglæfrar, sem einkenna George Bush og menn hans, heldur óvenjulega mikið siðleysi í notkun ímyndafræðinnar við að ata auri pólitíska andstæðinga.

Tveir helztu ruddar kosningabaráttunnar síðustu hafa verið verðlaunaðir í forsetatíð George Bush. Annar kosningastjórinn, James Baker, er orðinn utanríkisráðherra og hinn, Lee Atwater, er orðinn flokksformaður. Baker flýgur raunar um heiminn eins og fínn maður.

Rotnunin hófst á sínum tíma með Richard Nixon, sem smám saman varð innilokaður í þröngum hring siðleysingja. Nixon hefur þó á síðari árum gert margt til að rétta aftur stöðu sína í sagnfræðinni. Hann léti sér ekki detta í hug að haga sér eins og Reagan í Japan.

Gerald Ford var lærifaðir Reagans í tilraunum til að gera sér fjárhagslegan mat úr því að hafa verið forseti. Hann notar fjölmennt starfslið, sem kostað er af almannafé, til að útvega sér peninga fyrir að halda ræður og mæla með hinu og þessu, svo sem fasteignabraski.

Alger andstæða þessara gráðugu manna er Jimmy Carter, sem neitar þátttöku í fjárplógsstarfsemi og ver tíma sínum til mannúðarmála. Hann reynir að halda virðulegri minningu forsetatíðar sinnar á lofti, enda eru menn smám saman að átta sig á sögulegu gildi hans.

Að baki siðferðisvanda bandarískra forseta og margra annarra stjórnmálamanna þar í landi er óvenjuleg græðgi, annaðhvort í peninga eða völd, í báðum tilvikum með öllum tiltækum aðferðum, þar á meðal siðlausum. Ríkisvaldið er notað til að fullnægja þessari græðgi.

Á Vesturlöndum hefur verið reynt að hafa hemil á græðgi af þessu tagi. Í þriðja heiminum leikur hún hins vegar lausum hala, enda er aðhald þar minna og vald miklu meira þjappað saman á einum stað. Hér á landi vottar fyrir græðgi, einkum í kringum sjóði ríkisins.

Við þurfum að vera vel á verði gegn þeirri skoðun, sem hefur breiðzt út í Bandaríkjunum og frá þeim, að flest sé leyfilegt í pólitísku braski með auð og völd.

Jónas Kristjánsson

DV

Óvís vermir í vaskinum

Greinar

Flokkspólitískum dagblöðum og héraðsblöðum getur orðið skammgóður vermir að skiptum á jöfnu milli virðisaukaskatts og aukins ríkisstyrks. Eins og aðrir skattar verður vaskurinn ekki aftur tekinn, þegar hann er einu sinni kominn, en ríkisstyrkurinn er afar ótryggur.

Ríkisstyrkur til flokkspólitískra blaða ræðst af pólitískum valdahlutföllum hverju sinni. Ef Sjálfstæðisflokkurinn fær meirihlutafylgi í stíl við skoðanakannanir, er hætt við, að hann framkvæmi stefnu sína og leggi niður ríkisstyrki blaða, en sennilega ekki vaskinn.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn verður kjölfesta í enn einni samsteypustjórninni, er líklegt, að óbeit kjósenda þess flokks á styrkjum af því tagi muni leiða til, að samstarfsaðilinn í stjórninni verði að sætta sig við annaðhvort minnkaða eða stórminnkaða styrki til blaða.

Stóri bróðir gefur og stóri bróðir tekur. Þetta eru aldagömul sannindi, sem aðstandendur flokkspólitísku dagblaðanna og héraðsblaðanna mættu gjarna minnast, þegar þeir gamna sér við hugmyndina um, að þeir fái vaskinn endurgreiddan í auknum ríkisstyrkjum.

Óháðu héraðsblöðin, sem hafa vaxið upp úr grasrótinni á undanförnum árum, munu ekki heldur eiga sjö dagana sæla, þegar þau hafa fengið vaskinn í hausinn. Þessi útgáfa, sem orðin er til með þrotlausri vinnu og óheftum áhuga, mun öll ramba á barmi dauðans.

Það eru draumórar hjá aðstandendum óháðra héraðsblaða, ef þeir ímynda sér, að velvild stjórnmálamanna í garð flokkspólitískra héraðsblaða muni breiðast út til óháðu héraðsblaðanna og veita þeim mola af nægtaborði hinna mjög svo ótryggu ríkisstyrkja.

Við höfum búið við ósanngjarnan og menningarsnauðan söluskatt á bókum. Nú á að bæta gráu ofan á svart með vaskinum, hækka skattinn og breiða hann yfir allt prentað mál. Það mun bæta samkeppnisaðstöðu innflutnings á prentuðu máli og erlendum tungum.

Ekki hefur fjármálaráðherra skatthugmynd sína frá Svíþjóð. Þar er ekki lagður vaskur á dagblöð, meðal annars af því að stjórnvöld vilja verja sænska tungu gegn innflutningi blaða og tímarita á erlendu máli. Og ekki er hún frá Noregi, þar sem ekki er vaskur á blöðum.

Fjármálaráðherra hefur heldur ekki hugmynd sína frá Danmörku, því að þar er ekki heldur lagður vaskur á dagblöð. Og ekki frá skólaárum sínum í Bretlandi, því að ekki einu sinni þar er lagður virðisaukaskattur á dagblöð. Það verður að leita sunnar til að finna vaskinn.

Hinn æruskerti vinur fjármálaráðherrans, Andreas Papandreou, lagði virðisaukaskatt á dagblöð í Grikklandi. Eins og Ólaf dreymdi hann um að geta með millifærslum fært fé frá óháðum blöðum til vinveittra blaða. Nú er öll sú spilaborg maklega hrunin þar syðra.

Andreas Papandreou var þó ekki stórtækari en svo, að gríski vaskurinn er aðeins 3% á dagblöð eða aðeins rúmlega einn níundi hluti af vaski hins íslenzka fjármálaráðherra. Af þessu má sjá, að 26% virðisaukaskattur á blöð er afar róttæk hugmynd í samfélagi þjóðanna.

Ekki er skatturinn til að auka samræmið, því að íslenzk stjórnvöld hyggjast leggja hálfan vask á sumt og engan vask á annað, þar á meðal þjónustu, sem áður laut söluskatti, svo sem bílatryggingar. Það er ekki samræmisást sem ræður ferð, heldur gamalkunnur geðþótti.

Að venju verða áhrifin önnur en þau, sem fyrirhuguð voru. Það verða ekki Morgunblaðið og DV, sem lúta að velli, heldur önnur blöð, þar á meðal flokkspólitísk.

Jónas Kristjánsson

DV

Við viljum bara fríverzlun

Greinar

Ekki kemur til mála, að Ísland gerist ótilneytt aðili að Evrópubandalaginu, jafnvel þótt skoðanakönnun sýni, að fleiri séu fylgjandi aðild en henni andvígir. Hlutföllin mundu breytast, ef þjóðin stæði andspænis því að þurfa að taka raunverulega afstöðu í málinu.

Auðvelt er að spá um framvindu málsins, ef ráðamenn teldu aðild hugsanlega og vildu láta kjósa um hana. Evrópubandalagið kæmist þá loks í sviðsljósið í þjóðmálaumræðunni og flestir skoðanamyndandi aðilar mundu leggja lóð sitt á vogarskál andstöðunnar.

Engar líkur eru á, að málið nái svo langt. Í stjórnmálaflokkunum ríkir ekki áhugi á aðild, þótt kjósendur Alþýðuflokksins séu taldir hlynntir aðild. Það endurspeglar aðeins hefðbundna alþjóðahyggju í þeim flokki, en er ekki merki um sérstakt dálæti á bandalaginu.

Formaður Alþýðuflokksins er Jón Baldvin Hanni-alsson utanríkisráðherra. Hann hefur lýst afstöðu sinni, sem er alveg samhljóða áliti flestra annarra, er um málið hafa fjallað, þar á meðal þessa dagblaðs, að þátttaka í Evrópubandalaginu komi ekki til greina.

Meðferð málsins í höndum utanríkisráðherra er aðferða líklegust til að ná árangri í varðveizlu hagsmuna Íslands gagnvart umheiminum. Okkur kemur bezt, að verzlun milli landa sé sem frjálsust, en höfum minni áhuga á nánari sambræðslu ríkja í stærri heildir.

Fríverzlunarsamtök Evrópu eru sú tegund samstarfs, sem hentar okkur bezt. Við eigum að taka sem öflugastan þátt í því samstarfi og hvetja til, að þau samtök geri fríverzlunarsamninga við Evrópubandalagið. Og það er einmitt þetta, sem okkar menn eru að gera.

Fríverzlunarsamtökin eru ekki fullkomin, frekar en önnur mannanna verk. En þau hafa tekið undir sjónarmið okkar, að verzlun með fisk og fiskafurðir eigi að vera frjáls eins og verzlun með aðrar vörur. Og þau veifa þeirri skoðun í viðræðum við Evrópubandalagið.

Við eigum jafnframt að efla beinar, tvíhliða viðræður við ráðamenn einstakra landa innan Evrópubandalagsins til að grafa undan þeirri stefnu, að frjáls verzlun með fisk og fiskafurðir skuli vera háð aðgangi erlendra aðila að fiskimiðum. Það hafa okkar menn einmitt gert.

Við höfum ágæta röksemdafærslu í, að frjáls fiskverzlun annars skuli koma á móti frjálsri fiskverzlun hins og að leyfi til fiskveiða hjá öðrum skuli koma á móti leyfi til fiskveiða hjá hinum. Þetta tvennt þarf að skilja í sundur og ræða hvort í sínu lagi.

Tvær grímur renna á viðræðuaðila okkar í löndum Evrópubandalagsins, þegar þeir eru spurðir, hvaða veiðiheimildir þeir bjóði okkar skipum í skiptum fyrir veiðiheimildir okkar handa þeirra skipum. Þeir sjá fljótt, að krafa þeirra um veiðiheimildir er tvíeggjuð.

Í stórum dráttum virðist vel á þessum málum haldið, bæði af hálfu utanríkisráðuneytisins og sjávarútvegsráðuneytisins, þótt utanríkisráðherra hafi látið fram hjá sér fara áróðurstækifæri, sem honum bauðst í haust við hingaðkomu 50 aðalritstjóra af Norðurlöndum.

Við eigum að halda áfram núverandi stefnu í milliríkjaviðskiptum. Hún hefur gefizt okkur vel og mun áfram reynast okkur farsæl í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Papa, Gandhi, Salinas…

Greinar

Búizt er við, að tæplega þriðjungur Grikkja muni kjósa flokk Andreas Papandreou í þingkosningunum í nóvember, þótt komizt hafi upp um ógeðfelld og ólögleg vinnubrögð hans sem forsætisráðherra Grikklands í átta ára stjórnartíð hans, sem lauk í sumar.

Jafnvel er talið hugsanlegt, að honum takist að mynda ríkisstjórn með kommúnistaflokknum, þótt siðferðilega og lagalega sé hann með allt á hælunum. Upplýst er, að hann lét hlera símtöl stjórnmálaandstæðinga, blaðamanna, ráðherra sinna og meira að segja kærustunnar.

Margir Grikkir halda áfram að kjósa Papandreou, þótt reynslan sýni, að hann tróð sínum vinum og flokksbræðrum í allt að níu stjórnunarstöður af hverjum tíu hjá ríkinu og misnotaði ríkissjónvarpið svo heiftarlega, að slíkt þekkist ekki lengur austan járntjalds.

Andreas Papandreou þykir maður með mönnum í Grikklandi, þótt hann hafi tekið þátt í banka- og blaðaútgáfusvindli með alþjóðlegum glæpamanni, George Koskotas, sem stal sem svarar 13 milljörðum króna af grískum banka og lét hluta renna til Papandreous.

Rannsókn bendir til, að sem svarar 36 milljónum króna af þýfi Koskotas hafi lent í klóm Papandreous. Sjálfur heldur Koskotas því nú fram, að rúmlega milljarður króna hafi lent hjá forsætisráðherranum, en ekki hafa fundizt sönnunargögn því til stuðnings.

Indverjar kjósa um svipað leyti og Grikkir. Reiknað er með, að um þriðjungur þjóðarinnar muni kjósa flokk Rajivs Gandhi forsætisráðherra, þótt hann sé siðferðilega og lagalega með allt á hælunum á svipaðan hátt og félagi hans, Andreas Papandreou í Grikklandi.

Komið hefur í ljós í Svíþjóð, að einn helzti kaupmaður dauðans í heiminum, sænska vopnaverksmiðjan Bofors, greiddi ýmsum stuðningsmönnum Gandhis og áhrifamönnum í stjórn Indlands sem svarar um hálfum þriðja milljarði íslenzkra króna í mútur.

Ef málið hefði ekki komizt upp, hefði klíkan í kringum Gandhi fengið alls sem svarar fimm milljörðum íslenzkra króna, því að umsömdum mútugreiðslum var þá ekki lokið. Komið hefur í ljós, að Bofors og indverska ríkisstjórnin reyndu saman að hindra uppljóstrunina.

Ekki er vitað, hvort eitthvað af þessu fé fór til Gandhis sjálfs. Ef hann heldur völdum, kemur það sjálfsagt aldrei í ljós. En alltaf er að koma betur og betur fram, að hann er brenndur svipuðu marki og Papandreou, gráðugur og kærulaus og einstaklega ósvífinn.

Gandhi ofsækir dagblöð, sem segja frá mútunum. Hann lætur neita þeim um innflutningsleyfi fyrir pappír og lætur höfða innihaldslaus mál gegn þeim fyrir fjárglæfra. Hann þvingar fyrirtæki, sem eiga hlutabréf í blöðunum, til að reyna að láta reka óþæga ritstjóra.

Um allan heim eru dæmi af þessu tagi. Gerspilltir stjórnmálamenn njóta töluverðs fylgis meðal þjóða, þótt hin alþjóðlega fjölmiðlun hafi komið upp um sumt af framferði þeirra. Víða beinist reiði fólks meira að fjölmiðlum, sem segja satt, heldur en að glæpamönnunum.

Þannig heldur glæpaflokkur Salinas de Gortari völdum í Mexíkó með því að leggja saman annars vegar þriðjungs fylgi með þjóðinni og hins vegar skipulegt kosningasvindl. Verst er, að í flestum tilvikum komast stjórnmálamenn upp með opinskátt siðleysi sitt.

Ástandið á Íslandi er betra, en samt ekki nógu gott. Ómerkilegir peningasukkarar í stjórnmálum njóta töluverðs almannafylgis, þótt þeir hafi allt á hælunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Farandráðherrar

Greinar

Vegna skorts á aðhaldi af hálfu fjölmiðla komast ráðherrar enn upp með að láta skattgreiðendur greiða sér tvöfalt fyrir ferðalög. Ráðherrar láta greiða sér dagpeninga, sem eru meiri en annarra. Síðan láta þeir að auki greiða fyrir sig allan kostnað af ferðalögum.

Þetta þýðir, að reikningar, sem ráðherrar leggja fram vegna ferðalaga sinna, nægja til að greiða kostnað þeirra af þessum ferðalögum. Hinir ríflegu dagpeningar eru ofan á þetta. Þeir eru því hreinn kaupauki, sem þar að auki fær fremur milda skattameðferð.

Athyglisvert er, að ráðherrar eru einnig á þessum sérkennilegu kjörum, þegar þeir eru í ferðum, sem koma ekki við ráðherrastarfi þeirra, heldur starfi þeirra sem formanna eða framámanna í stjórnmálaflokkum. Þannig ferðast forsætisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.

Þetta stangast á við almennt siðferði á Vesturlöndum. Venja er að gera greinarmun á mismunandi hlutverki manna. Steingrímur ráðherra má ekki greiða fyrir Steingrím formann eða Steingrím afmælisbarn. Um þetta hefur verið fjallað í brennivínsumræðunni.

Steingrímur Hermannsson hefur afsakað misnotkun sína á ferðapeningum ríkisins með því, að stjórnmálamenn í Bandaríkjunum ferðist í flokkserindum fyrir almannafé. Hann hefur hins vegar ekki lagt til, að hér fái stjórnarandstaðan sömu fríðindi og ráðherrarnir.

Athyglisvert er, að stjórnvöld hafa hert reglur um skattlagningu ferðapeninga þess fólks, sem ekki er í hópi ráðherra. Ef ferðapeningar fara fram úr ákveðinni upphæð, sem er ekki nema brot af því, sem ráðherrar fá, þurfa menn að greiða skatt af mismuninum.

Ýmislegur munur Jóns og séra Jóns minnir á Austur-Evrópu, þar sem önnur lög hafa gilt um ráðamenn en venjulegt fólk. En þar eystra er óðum verið að höggva þessa tegund spillingar, sem Steingrímur Hermannsson ver í opnuviðtali við málgagn sitt um helgina.

Tvöföldu greiðslurnar á ferðum ráðherra eru ekkert annað en tilraun gráðugra manna til að komast yfir meiri peninga en sem svarar kaupi þeirra. Að því leyti eru ráðherrar svo sem ekki spilltari en ýmsir aðrir landsmenn, sem gæla við svipaðar hugmyndir fyrir sig.

Steingrímur Hermannsson veit, að siðferði hans er svipað og siðferði margra annarra landsmanna. Þess vegna telur hann sig sæmilega öruggan um að geta kvartað um, að fjölmiðlar gefi ranga mynd með skrifum um stjórnmálamenn sem varhugaverða skúrka.

Fjölmiðlar gefa ekki rétta mynd af stjórnmálamönnum. En skekkjan í fjölmiðlunum er ekki í þá átt, sem Steingrímur segir. Hún er í hina áttina. Stjórnmálamenn okkar eru því miður margir hverjir varhugaverðir og siðlitlir, án þess að fjölmiðlar segi nægilega frá því.

Ástæðan er sumpart sú, að fjölmiðlar sæta ákúrum fólks fyrir að segja skítugar staðreyndir. Skíturinn, sem fjölmiðlar segja frá, nuddast utan í þá sjálfa. Fjölmiðlar eru taldir velta sér í svaðinu. Þetta er afbrigði aldagamallar staðreyndar, að sögumanni er kennt um ótíðindin.

Því eru fjölmiðlar dasaðir eftir uppljóstranir um ráðherrabrennivín. Fjölmiðlar hafa verið skammaðir og treystast ekki til að fara aftur ofan í ræsið til ráðherra til að segja frá græðgi þeirra í ferðapeninga. Þeir óttast, að tvískinnungsþjóð vilji ljá farandráðherrum frið.

Það breytir ekki því, að það eru ráðherrar, sem liggja í ræsinu fyrir tilstuðlan kjósenda, og að það eru meinlausir fjölmiðlar, sem þora ekki að fá sletturnar á sig.

Jónas Kristjánsson

DV

Fíkniefnaverzlun ríkisins

Greinar

Dómsmálaráðherra Kólumbíu sagði nýlega af sér vegna hótana fíkniefnafursta um að drepa hana. Þessar hótanir eru liður í atlögu þeirra að lögmætum stjórnvöldum í Kólumbíu, sem eru að reyna að ná lögum yfir þá, en hafa hingað til náð afar litlum árangri.

Styrjaldarástandið í Kólumbíu sýnir, að fíkniefnafurstar eru orðnir svo voldugir, að stjórnvöld fá ekki við neitt ráðið, jafnvel þótt þau séu öll af vilja gerð. Dómarar og stjórnmálamenn, blaðamenn og borgarstjórar eru drepnir, ef þeir amast við furstunum.

Aðstoð frá Bandaríkjunum hefur hingað til ekki gert stjórnvöldum í Kólumbíu kleift að ná undirtökum í baráttunni við fíkniefnin. Furstarnir hafa meira að segja flutt hluta baráttunnar á bandarískan heimavöll með hótunum um að ryðja Bandaríkjaforseta sjálfum úr vegi.

Ólögleg fíkniefni eru að breiðast út í Bandaríkjunum eins og raunar víðast hvar í heiminum. Samt hefur fjármagn til baráttunnar gegn þeim verið þrefaldað þar vestra á fáum árum, dómum í fíkniefnamálum fjölgað um 161% og dómarnir í þeim þyngzt að marki.

Ástandið minnir í mörgu á bannárin í Bandaríkjunum, þegar ítalska mafían ruddist til valda í skjóli þess, að menn töldu sig neydda til að komast yfir áfengi með ólöglegum hætti, úr því að það fékkst ekki löglega. Banninu fylgdu hinir illræmdu glæpir mafíusögunnar.

Með banni áfengis tókst að draga úr skaðlegum áhrifum áfengisneyzlu, en það var of dýru verði keypt, því að það hleypti glæpaöldu mafíunnar af stað. Nú stríða stjórnvöld við afleiðingar áfengisneyzlu, en eru að mestu laus við glæpi, sem tengjast áfengissölu og -dreifingu.

Flestir telja fávíslegt að hverfa aftur til bannáranna. Áfengisvandamál á Vesturlöndum hafa náð eins konar jafnvægi, þótt enn sé of lítið gert af því að nota hluta af áfengisgróða ríkisvaldsins til að fræða fólk um skaðsemi áfengis og áhættuna, sem fylgir notkun þess.

Á síðustu mánuðum hefur aukizt fylgi þeirri skoðun, að betra sé að höggva að rótum ólöglega sölukerfisins með því að afnema fíkniefnabann, eins og áfengisbannið var afnumið á sínum tíma. Þar með verði stólnum kippt undan valdi fíkniefnafursta um allan heim.

Fremstir í flokki þessa sjónarmiðs eru leiðarahöfundar brezka tímaritsins Economist, sem hingað til hefur ekki lagt sérstaka rækt við róttækar skoðanir. Þeir telja, að aukin fíkniefnanotkun verði minni og viðráðanlegri vandi en glæpirnir, sem fylgja ólöglegri dreifingu.

Sama sinnis eru ýmsir borgarstjórar í Þýzkalandi, Hollandi og Sviss og áhrifamiklir einstaklingar á borð við forseta Réttarfarsstofnunarinnar í Bandaríkjunum. Enn eru þeir þó í miklum minnihluta. Flestir áhrifamenn eru algerlega andvígir slíkum hugmyndum.

Þeir, sem vilja leyfa sölu fíkniefna, til dæmis í ríkisverzlunum, vilja, að tekjum hins opinbera af fíkniefnasölu verði að hluta varið til fræðslu og meðferðar og einkum til að vara fólk við notkuninni. Þetta er í stórum dráttum svipað og nú gildir um tóbak og áfengi.

Búast má við, að þessari minnihlutaskoðun aukist fylgi, ef veldi fíkniefnifursta fer enn vaxandi, ef þeim tekst að halda heilum þjóðfélögum í gíslingu, ef löggæzlu Vesturlanda mistekst að halda niðri glæpum, sem tengjast ólöglegri dreifingu og sölu fíkniefna.

Furstarnir hafa skákað ríkisvaldinu í Kólumbíu og eru allsráðandi í fjölda fátækrahverfa í Bandaríkjunum. Einhvern tíma munu þeir líta augum til Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV

Kreppusmiður

Greinar

Heimasmíðaða kreppan er smám saman að herðast. Atvinnuleysi síðasta mánaðar var þrefalt meira en í fyrra og fjórfalt meira en meðaltal áratugarins. 1500 einstaklingar og fyrirtæki urðu gjaldþrota í Reykjavík einni á fyrstu þremur fjórðungum þessa árs.

Vetrarhorfurnar eru enn dekkri. Könnun Þjóðhagsstofnunar bendir til, að fyrirtæki hyggist draga enn saman seglin í vetur. Þau ætla ýmist að segja upp starfsfólki eða ráða ekki fyrir þá, sem hætta störfum. Félag iðnrekenda býst við 3% atvinnuleysi á næsta ári.

Við erum af eigin rammleik að feta okkur inn á slóð, sem við þekkjum lítið hér á landi, en vitum af í útlöndum, þar sem laus störf eru færri en umsækjendur. Bráðum kynnumst við ýmsum hörmulegum hliðarvandamálum varanlegs atvinnuleysis hjá ungu fólki.

Við viljum gjarna losna við þessa vofu gjaldþrota og atvinnuleysis. Við höfum raunar búið við ákjósanleg skilyrði til að halda áfram langri göngu okkar undir merkjum fullrar atvinnu, en ekki borið til þess gæfu. Ólán okkar kemur allt að innan. Það er miðstýrt.

Við höfum ekki orðið fyrir neinu áfalli á erlendum markaði. Verðgildi afurða okkar er hátt og traust og kaupendur eru nægir. Við höfum ekki heldur orðið fyrir neinu áfalli í aflamagni. Niðurskurður á veiðikvóta byrjar ekki fyrir alvöru fyrr en á næsta ári.

Vegna aðgangshörku okkar að fiskistofnum á allra síðustu árum verðum við á næsta ári að minnka veiðikvóta um tíu af hundraði eða því sem næst. Þegar sá vandi bætist við þann, sem nú er að hrannast upp, má búast við, að kreppan taki snöggan kipp til hins verra.

Það er ríkisstjórnin, sem hingað til hefur smíðað kreppuna með handafli. Hún hefur látið eins og nógir peningar séu til gæluverkefna af ýmsu tagi. Með Atvinnutryggingar- og Hlutafjársjóði hefur hún byggt upp umfangsmikið kerfi félagslegrar velferðar fyrirtækja.

Þessir sjóðir hafa þokað málum í öfuga átt við það, sem til var ætlazt. Þeir hafa brennt allmarga milljarða af fjármagni, er betur hefðu verið komnir í höndum þeirra, sem eru færir um að borga markaðsvexti, af því að þeir eru með arðbæran rekstur á sínum snærum.

Þessi milljarðabrennsla fjármuna í gæludýrakerfi félagslegrar velferðar fyrirtækja bætist ofan á árlega milljarðabrennslu, sem fyrir var í hinum hefðbundna landbúnaði. Reikna má með, að í þessu tvennu brenni ríkisstjórnin samtals um 15 milljörðum á ári.

Um leið hefur ríkið sjálft gerzt aðgangsharðara á lánamarkaði. Það hefur sjálft yfirboðið markaðinn, en jafnframt haldið niðri vöxtum hjá öðrum. Afleiðingin hefur verið sú, að ekkert nýtt sparifé hefur bætzt við í lánastofnunum, síðan kreppustjórnin tók við völdum.

Ríkisstjórninni stýrir formannaþrenning, sem hefur ekki hinn minnsta skilning á fjármálum og er raunar fær um að gera heilt sólkerfi gjaldþrota, ef hún fengi til þess færi. Þar á ofan hafa forsætisráðherra og fjármálaráðherra ráðið sér vanhæfa efnahagsráðunauta.

Í þrjá áratugi hefur ekki verið önnur eins ofstjórn handafls- og vankunnáttumanna og þjóðin hefur mátt þola síðasta árið. Áður hafa verið hliðstæð ríkisstjórnarmynztur, án þess að þáverandi ráðherrar hafi hagað sér eins og forsætisráðherra og fjármálaráðherra gera nú.

Það er ríkisstjórnin, sem er að smíða kreppuna, gjaldþrotin og atvinnuleysið. Og kreppan á eftir að versna, áður en kreppusmiðurinn skilar af sér með skömm.

Jónas Kristjánsson

DV

Málamynda-kveinstafir

Greinar

Þegar lækka þarf kaupmátt í landinu með handafli eða vinna önnur óvinsæl verk, er hagkvæmt, að Alþýðubandalagið sé báðum megin við borðið. Þetta sýna viðbrögð stærstu samtaka launþega í landinu við vanefndum ríkisstjórnarinnar á tólf loforðum frá í apríl.

Oft hafa Alþýðusambandið og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja rekið upp hærri kveinstafi og gripið til róttækari aðgerða af minna tilefni en því, að almennt verðlag hefur hækkað um 3,3% umfram laun frá því að gengið var frá samningum í vor, fyrir hálfu ári.

Ríkisstjórnin er komin nærri hálfa leið að því mark miði sínu að skerða kaupmátt um 7% á þessu ári. Markmiðið birtist í fjárlagafrumvarpi og þjóðhagsáætlun fyrir þetta ár og var ítrekað í nýrri þjóðhagsspá eftir samningana í vor. Þetta er hornsteinn tilvistar stjórnarinnar.

Eitthvað verður undan að láta, þegar ríkisstjórn stefnir jafnmarkvisst að brennslu verðmæta og þessi gerir. Einhverjir verða að borga, þegar stofnaðir eru milljarðasjóðir til að þeyta sáðkorni fjármagns í grýtta jörð gæludýra innan og utan við byggðastefnu.

Auðvitað borgar alþýðan, bæði sú, sem nú á óbeina aðild að áðurnefndum heildarsamtökum, og sú, sem enn er ófædd og á eftir að fást við erlendu skuldirnar, sem gjafmildir ráðherrar hafa stofnað til. Þess vegna er mikilvægt, að alþýðan haldi kjafti, svo að friður ríki.

Alþýða manna verður að átta sig á, að gæludýrin hafa forgang. Ríkisstjórnin heldur fullum dampi á milljarðaútgjöldum til hefðbundins landbúnaðar og hefur bætt við öðrum eins milljarðaútgjöldum til ævintýra á borð við Silfurstjörnu Stefáns Valgeirssonar.

Ef forustulið Alþýðusambandsins og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja hefði tilfinningasnauðari taugar í garð Alþýðubandalagsins, hefði það ekki tekið gild loforð ríkisstjórnarinnar við undirritun kjarasamninganna í apríl í vor. En þetta er agað lið og hlýðið.

Formaður bandalags opinberra starfsmanna kvartaði að vísu í haust og sagði við DV: “Það fer mest fyrir brjóstið á mér, að þegar gerðir eru samningar af félagslegri sanngirni og þjóðfélagslegri ábyrgð, skuli þeir samningar ekki virtir. Það vekur hjá manni reiði.”

Þá hefur Alþýðusambandið sent ríkisstjórninni kveinibréf, þar sem spurt er, hvers vegna aðeins hafi verið efnd fjögur loforð af tólf frá kjarasamningunum í vor. Þessi kvörtunarefni hafa síðan verið reifuð með Þjóðhagsstofnun og efnahagsráðgjafa stjórnarinnar.

Annar af tveim helztu málfundamönnum ríkisstjórnarinnar hefur svarað fullum hálsi, enda óþarft af formönnum úti í bæ að vera að amast við ríkishöfðingjum. Hann hélt fund með fréttamönnum og sagðist hafa staðið við gefin loforð við samtök launamanna.

Aldrei þessu vant var sannleikskorn að baki gagnsókn ráðherrans. Unnt er að finna 71 lágtekjumann í Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem fékk meiri kjarabót í samningunum í vor en sem nemur verðhækkunum síðan. Þetta eru tæplega 1% félagsmanna.

Samkvæmt rökfræði, sem kennd er við hunda, ber ráðherrann sér á brjóst og segist hafa gert gott betur en að efna loforðið handa hinum lægstlaunuðu. Og satt að segja gleymdu viðsemjendur hans í vor að láta skilgreina nánar, hversu stóran hóp ætti að vernda.

Með ári hverju lækkar gengi munnlegra og skriflegra loforða ráðherra og annarra höfðingja. Sumir kvarta eins og áðurnefndir formenn, mest fyrir siðasakir.

Jónas Kristjánsson

DV

Ljúft er að láta sig dreyma

Greinar

Í erfiðleikum hversdagsins hefur forsætisráðherra reynt að lyfta huga fólks með hugmyndum um að stofna alheimslottó á Íslandi og efna til alheimsverðlauna í umhverfismálum. Sérstök nefnd ímyndafræðinga hefur samið handa honum skýrslu um ýmsa slíka drauma.

Alheimslottó er mörgum Íslendingum áreiðanlega að skapi. Í fyrsta lagi telur fólk, að með því fái þjóðfélagið fullt af peningum fyrir ekki neitt. Og í öðru lagi vonast það til að geta unnið, fyrir ekki neitt, margfalt meira happdrættisfé en nú er hægt við séríslenzkar aðstæður.

Meðal okkar er mikið um þrá í eitthvað fyrir ekki neitt. Ótrúlega marga dreymir um stórfelld viðskiptabrögð, sem færi happafeng í höfn. Menn dreymir sí og æ um stóra vinninginn, jafnvel í atvinnulífinu, en reyna síður að vanda sig með súrum svita frá degi til dags.

Þessum hugarórum fylgir svo skammsýni, sem spillir jafnvel þeim draumum, sem verða að veruleika. Okkur hefur borizt happafengur úr heiðskíru lofti með millilendingum erlends flugfélags í vöruflutningum. Með fjárgræðgi erum við að hrekja það til Írlands.

Við getum sennilega aldrei komið upp fríhöfn peningastofnana, sem er ein hugmyndin frá ímyndanefndinni. Ef okkur tækist að gabba hingað erlendar peningastofnanir, mundu

skattóðir og ábyrgðarlitlir fjármálaráðherrar fyrr eða síðar reyna að slátra gullhænunni. Ein hugmynd ímyndafræðinganna er að telja útlendingum trú um þá firru, að Íslendingar séu sérstakir áhugamenn um umhverfi sitt. Samt erum við þjóð, sem árlega ver milljörðum króna af skattfé til að létta sauðfé að halda áfram að eyða viðkvæmum gróðri afrétta.

Forsætisráðherra og ímyndanefndin telja hugsanlegt, að erlendar stórþjóðir skipi sér að baki Íslands sem forusturíkis í umhverfismálum og erlendir neytendur fjölmiðla bíði árlega í ofvæni eftir því, hver fær hnoss umhverfisverðlauna úr hendi forsætisráðherra okkar.

Þetta er svona álíka firring eins og að ímynda sér, að erlend ríki muni lúta óbeinni forustu Íslendinga í friði og afvopnun, af því að svo mikið sé af ónotuðu gistirými úti um allt land, sem henti alþjóðlegri friðarstofnun, svo sem málgagn forsætisráðherra lagði til.

Auðvitað er frábært að geta velt vöngum yfir draumsýnum, þegar flest er í kaldakoli í atvinnulífinu og ríkisstjórnin hefur þurrausið allar hugmyndir um skjótfengið skattfé til að úða yfir gæludýrin. Þá er gott að láta sig dreyma um, að gulli rigni af himnum ofan.

Niðurstaða ímyndafræðinga forsætisráðherra er, að ríkissjóður afhendi ímyndafræðingum 250 milljónir króna á ári til að “skapa” ímynd Íslands á erlendum vettvangi. Þetta er ráðgerður kostnaður við kynningarátak, sem á að geta galdrað brott kreppu hversdagsins.

Allt er þetta í samræmi við kenningar ímyndafræðinnar um, að ekki skipti máli, hvað er, heldur hvað menn haldi, að það sé. Þannig hafa verið búin til söluhæf orð á borð við Gucci og Dior. Vonin er, að ímyndafræðingum takist að búa til hliðstæða ímynd Íslands.

Þjóðin þarf hvíld frá harmafréttum raunveruleikans, gjaldþrotum fyrirtækja, siðferðisbrestum ráðherra, peningaúðun milljarðasjóða Byggða-Stefáns og annarri slíkri martröð. Forsætisráðherra skilur þessa þörf og býður okkur til vistar í himnaríki ímyndafræðinganna.

Þá er sælt að láta sig dreyma um, að dollarar og jen og frankar renni í stríðum straumum til Íslands, nafla alheimsins, í alheims-lottó alheims-umhverfisverndar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir klúðra vaxtaskatti

Greinar

Aðalröksemd stjórnvalda með fyrirhuguðum vaxtaskatti er, að hann feli í sér samræmingu og réttlæti. Hvort tveggja er rétt. Eðlilegt er, að hvers konar tekjur séu skattlagðar á sama hátt. Óeðlilegt er, að tekjum af fjármagni sé gert hærra undir höfði en tekjum af vinnu.

En þetta er bara hluti af öllu dæminu. Það er meira en að segja það að leggja vaxtaskatt á tekjur af fjármagni. Ýmsar spurningar vakna, sem erfitt er að svara á fullnægjandi hátt. Og víst er, að óbeinar afleiðingar vaxtaskatts geta verið aðrar en til er stofnað.

Ef talað er um réttlæti og samræmi, er nauðsynlegt að benda á, að sú röksemdafærsla leiðir til, að eðlilegt sé að skattleggja vexti af ríkisskuldabréfum á sama hátt og aðra vexti. Ráðagerðir fjármálaráðuneytisins um annað fela í sér “ósamræmi” og “óréttlæti”.

Undanþága ríkisskuldabréfa frá vaxtaskatti er tilraun stjórnvalda til að nota aðstöðu sína til að ná í aukinn hlut sparifjár á kostnað annarra sparnaðarforma. Sá tilgangur helgar meðal ráðherranna, en sýnir um leið, hversu marklaust er að tala um samræmi og réttlæti.

Ráðgert er að gera greinarmun á gervivöxtum og raunvöxtum og skattleggja aðeins raunvextina. Það er rétt ákvörðun, sem sýnir, að hugtakið raunvextir hefur náð fótfestu í þjóðfélaginu. Viðurkennt er, að sumir vextir fela í rauninni ekki í sér neinar tekjur.

Þetta minnir jafnframt á, að samræmi og réttlæti næst því aðeins, að sparifjárfólk fái sér reiknaðan tekjufrádrátt af mismuni á neikvæðum vöxtum og raunvöxtum. Enn er mikill hluti vaxta svo lágur, að hann nær ekki raunvöxtum og felur í sér rýrnun höfuðstóls.

Þetta gleymdist í ráðagerðum stjórnvalda um vaxtaskatt. Ef Alþingi fellst í haust á skattinn, er mikilvægt, að það setji í lögin skýr ákvæði um tekjufrádrátt vegna neikvæðra raunvaxta, um leið og það bætir við “réttlátu” ákvæði um skattlagningu ríkisskuldabréfa.

Þótt þessara hliðaratriða verði gætt, er samt sérkennilegur tíminn, sem valinn er til skattlagningarinnar. Ekkert nýtt sparifé hefur komið í bankana í tvö ár, af því að sparnaður þykir ekki fýsilegur kostur á þessum tímum, jafnvel þótt vextir séu ekki skattlagðir.

Margir munu taka út sparifé sitt og eyða því handa sjálfum sér og sínum, þegar vextirnir verða skattlagðir. Til að koma í veg fyrir hrun þjóðfélagsins af þessum völdum mun ríkisstjórnin neyðast til að sætta sig við, að raunvextir hækki sem svarar skattlagningunni.

Við lifum í þjóðfélagi, sem þarf mjög á sparnaði að halda, svo að byggja megi upp þjóðfélagið á innlendum peningum. Erlent lánsfé hefur verið ofnotað svo lengi, að skuldabyrðin gagnvart útlöndum er að verða óbærileg. Vaxtaskattur er að því leyti óheppilegur.

Ef ríkisstjórn og Alþingi tekst að viðurkenna áhrif vaxtaskattsins á upphæð raunvaxta, má ef til vill komast hjá miklum flótta peninga úr bönkum og öðrum lánastofnunum. En núverandi ríkisstjórn er því miður ekki líkleg til að skilja þetta frekar en margt annað.

Raunvextir eru þessa dagana tiltölulega lágir hér á landi í samanburði við nágrannaþjóðirnar, sem þó eru ekki eins háðar innlendum sparnaði og við erum. Þessir lágu raunvextir halda sparnaði niðri. Þeir sýna um leið, hversu illa ráðherrum gengur að sjá veruleikann.

Þótt vaxtatekjuskattur sé í sjálfu sér réttlátur, þarf margs að gæta, svo að ekki hljótist af stórslys. Núverandi ríkisstjórn er ófær um að gæta öryggis í málinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt er gott sem var

Greinar

Í tilefni landsfundar er Sjálfstæðisflokkurinn um það bil að hrista af sér slenið. Hann er um það bil að taka afstöðu með fortíðinni og gegn framtíðinni í veigamiklum atriðum. Slíkt uppgjör er sjaldgæft, því að stjórnmálamönnum líður yfirleitt illa, þegar þokunni léttir.

Í stofnunum Sjálfstæðisflokksins hafa menn velt vöngum yfir ýmsum hugtökum, sem hafa verið fyrirferðarmikil á síðum blaðanna síðasta áratuginn og jafnvel lengur. Þar finnst mönnum tímabært að fara að taka afstöðu til sölu veiðileyfa og innflutnings búvöru.

Við venjulegar aðstæður mætti búast við því af stjórnmálaflokki, að hann fyndi eitthvert orðalag, sem þýddi bæði og eða hvorki né. Af tillitssemi við margs konar kjósendur vilja stjórnmálaflokkar gjarna sýnast breiða vængi sína yfir óþarflega fjölbreytt sjónarmið.

Sennilega hefur Sjálfstæðisflokkurinn fengið óvæntan metnað af skoðanakönnunum, sem sýna mikið fylgi flokksins. Við slíkar aðstæður er auðvitað gott tækifæri til að taka af skarið og koma skarpari línum í stefnu flokksins og ímynd hans. Og það er verið að gera.

Stundum er þessi flokkur kallaður Íhaldið. Eftir landsfundinn verður enn frekari ástæða til að nota þetta góða nafn, því að flokkurinn hyggst leggja áherzlu á stuðning sinn við íhaldssamar hugmyndir og andstöðu sína gegn róttækum breytingum á ríkjandi ástandi.

Málefnanefnd innan flokksins hefur náð sáttum um að ítreka hina gamalkunnu reglu, að innflutningur skuli ekki hafinn á búvöru, sem hægt er að framleiða innanlands. Í stórum dráttum á vitleysan að halda áfram með hefðbundnu sniði og árlegum milljarðakostnaði.

Í rauninni er við hæfi, að Sjálfstæðisflokkurinn ítreki þrjátíu ára gamalt þrælahald, sem hann hneppti þjóðina í, með Alþýðuflokknum, þegar Framsóknarflokkurinn var í stjórnarandstöðu. Það sýnir, að Framsóknarflokka má enn sem fyrr víða finna í litrófi stjórnmálanna.

Þá hefur formaður flokksins tekið af skarið og hafnað hugmyndum varaformannsins um að fara að taka tillit til þrautræddra tillagna um að stjórna fiskveiðum til frambúðar með sölu veiðileyfa. Formaðurinn segir, að nýbreytni af slíku tagi komi alls ekki til greina.

Sjálfstæðisflokkurinn er vanur að fylgja formanni sínum, hver sem hann er hverju sinni. Þess vegna mun landsfundurinn ítreka, að rétt sé, að þjóðin gefi útgerðarmönnum kvótann og þeir selji hann síðan hver öðrum, svo sem verið hefur í tíð Framsóknarráðherra.

Það er einkar vel við hæfi, að Sjálfstæðisflokkurinn ítreki á landsfundi hin fornu sjónarmið í landbúnaði og sjávarútvegi; staðfesti enn einu sinni, að ekki er í rauninni neinn munur á honum og Framsóknarflokknum: og hafni alls konar nýtízkulegri röksemdafærslu.

Svo er bara að hamra klisjurnar inn í sauðarhausa á landsfundi. Þar þarf að ítreka enn einu sinni, að flokkurinn sé á móti vondum orðum eins og auðlindaskatti, af því að hann sé á móti nýjum sköttum. Enginn vafi er á, að landsfundarmenn munu klappa saman lófunum.

Sömuleiðis þarf á landsfundinum að hamra inn lífseigu klisjuna um, að þjóðin þurfi að vera sjálfri sér næg um matvæli á ófriðartímum, alveg eins og hún sé ekki enn farin að lifa á erlendri kornvöru og pakkamat og eigi engan fisk í geymslum vinnuslustöðva sjávarútvegs.

Því fylgir öryggistilfinning, að Sjálfstæðisflokkurinn telji okkur enn einu sinni trú um, að heimurinn hafi ekkert breytzt og allt sé í rauninni eins og áður var.

Jónas Kristjánsson

DV

Einn hengdur fyrir alla

Greinar

Athyglisvert er, að vörn utanríkisráðherra fyrir losaralegri umgengni við ódýrt ríkisáfengi byggist að verulegu leyti á, að gerðir hans sjálfs séu ekki einsdæmi, heldur hafi aðrir ráðherrar, bæði fyrr og síðar, gert sig seka um hliðstæð mistök í meðferð ríkisáfengis.

Í rauninni felst gagnsókn í vörninni. Hann óskar eftir, að ríkisendurskoðunin og yfirskoðunarmenn ríkis reikninga geri hreint fyrir sínum dyrum. Hann vill, að öll hliðstæð tilvik séu lögð á borðið og að þessir aðilar útskýri, af hverju þau séu leyfilegri en hans tilvik.

Þetta er alveg rétt hjá utanríkisráðherra. Brýnt er að moka flórinn í eitt skipti fyrir öll og ekki gera hann einan að blóraböggli þess þriðja heims siðferðis, sem tíðkast hefur allt of lengi meðal landsfeðra okkar og að mestu leyti verið látið óátalið til þessa.

Ekki er sjáanlegur eðlismunur á kostnaði skattgreiðenda við afmæli Ingólfs Margeirssonar og á kostnaði þeirra við hóf, sem aðrir ráðherrar hafa af ýmsu tilefni haldið flokksbræðrum sínum og vildarvinum eða látið skattgreiðendur taka þátt í að greiða.

Ólafur Ragnar Grímsson bauð Lúðvík Jósepssyni og öðrum flokksbræðrum: Friðrik Sophusson bauð bekkjarbræðrum sínum úr menntaskóla, og Halldór Ásgrímsson bauð oftar en einu sinni framsóknarmönnum til hófs, svo að nokkur kunn dæmi séu nefnd.

Ef reynt verður í alvöru að koma þessum málum í lag, þarf margs að gæta. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að framvegis verði aðeins eitt verð á víni, útsöluverð í áfengisverzlunum. Sérstakt ríkisverð, sem er mun lægra, kallar á misnotkun, svo sem dæmin sanna.

Í öðru lagi verður að láta risnu ríkisins falla í fastan farveg, hvort sem um er að ræða úttektir í áfengisverzlun ríkisins, reikninga frá veitingahúsum eða uppgjör frá veizlusölum, sem ríkið rekur sjálft. Tilefni risnunnar og gestalista ber að skrá nákvæmlega hverju sinni.

Þetta tvennt mundi án efa draga talsvert úr spillingunni. Möndl með skil á lánuðu ríkisvíni mundi verða illframkvæmanlegt, svo að dæmi sé nefnt. Sömuleiðis akstur úr Ríkinu með litlar og stórar vínbirgðir heim til ráðherra til meira eða minna óljósrar notkunar.

Í þriðja lagi kemur svo það, sem mest hefur verið talað um, að sett verði skýr mörk milli risnu ráðherra vegna stöðu sinnar sem ráðherra annars vegar og hins vegar risnu þeirra sem stjórnmálamanna og flokksforingja eða sem hverra annarra einstaklinga.

Risnu ríkisins á ríkið að greiða, risnu stjórnmálaflokkanna eiga stjórnmálaflokkarnir að greiða og risnu einstaklinganna eiga einstaklingarnir að greiða. Ráðherrar mega ekki rugla saman persónu sinni og flokksböndum annars vegar og ríkinu hins vegar.

Þessu fylgir, að ríkið á ekki að borga risnu fyrir ráðherra vegna svonefndra vinnufunda, morgunfunda, hádegisfunda eða annarra samkvæma með pólitískum samherjum, svo sem í þingflokkum, flokksstjórnum, kjördæmahópum eða á flokksþingum og ráðstefnum.

Þessu fylgir líka, að ríkið á ekki að borga risnu fyrir ráðherra vegna afmæla eða annarra tímamóta í ferli pólitískra samherja, vina og vandamanna eða vegna afmæla eða tímamóta á eigin ferli. Slík samkvæmi eiga ekki að varða ríkið frekar en pólitísku samkvæmin.

Ráðherrar, ríkisendurskoðun og yfirskoðunarmenn ríkisreikninga þurfa að taka sig betur á en að hengja bara utanríkisráðherra til friðþægingar út á við.

Jónas Kristjánsson

DV

Áfengi og herfang

Greinar

Þegar menn verða ráðherrar í þriðja heiminum, þykir ættingjum þeirra og vinum sums staðar sjálfsagt að njóta hlutdeildar í hinni nýfengnu dýrð. Þetta er hluti af gömlu reglunni um, að auður og aflafé skuli að hluta til sáldrast til þeirra, sem eru nákomnir hinum heppna.

Á Vesturlöndum hefur velferðarríkið leyst þetta gamla samtryggingarkerfi af hólmi. Í nútímanum er ekki lengur leyft, að litið sé á opinber embætti eða opinber tignarstörf sem eins konar herfang, er skuli að hluta dreifast til ættingja, vina og pólitískra samherja.

Íslenzkir stjórnmálamenn eiga afar erfitt með að losa sig úr þriðja heiminum, ekki bara að þessu leyti. Þeir vilja almennt nota aðferðir þriðja heimsins, svo sem í efnahagsmálum, þar sem þeir kjósa handafl af ýmsu tagi og skömmtun lífsgæða til gæludýra kerfisins.

Misnotkun ráðherra á aðgangi að ódýru brennivíni er tiltölulega ódýr hluti af þessu fargani, sem hefur gert Ísland að þriðja heims bananalýðveldi. En hún er einkar dæmigerð um hugarfarið að baki, þar sem pólitískir ribbaldar líta á ráðherrastóla sem herfang sitt.

Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra hefur umfram aðra ráðherra tengst fréttum af flutningi á ódýru ríkisáfengi út í bæ. Nú síðast hefur komizt upp um, að hann lét senda rúmlega 100 áfengisflöskur heim til pólitísks samherja, ritstjóra Alþýðublaðsins.

Ef Ingólfur Margeirsson, ritstjóri Jóns, getur ekki haldið upp á fertugsafmæli sitt fyrir fátæktar sakir, er rétt, að Jón Baldvin Hannibalsson flokksformaður leysi málið á vettvangi Alþýðuflokksins eða Alþýðublaðsins. Það er á þeim vettvangi, að þeir eru samherjar.

Jón Baldvin Hannibalsson flokksformaður á ekki að geta fengið Jón Baldvin Hannibalsson ráðherra til að leggja á herðar skattgreiðenda kostnað, sem varðar aðeins hinn fyrrnefnda. Þetta er tiltölulega einfalt siðalögmál, sem er orðið algilt í hinum vestræna heimi.

Varnarritgerð ráðherrans bendir til, að langvarandi misnotkun hafi dregið úr skilningi hans á mismun þess, sem gildir í þriðja heiminum og hvað gildir í nútímaþjóðfélögum á Vesturlöndum. Hann reynir í henni að flækja málið sem mest með því að tala um óskylda hluti.

Ráðherrann segir í varnarritgerðinni, að ráðherrar bjóði fulltrúum aðalfunda ýmissa félagssamtaka í boð og haldi samstarfsmönnum sínum í ráðuneytunum hóf af ýmsum tilefnum, og spyr, hvort ekki megi þá alveg eins halda boð fyrir pólitíska samstarfsmenn.

Svarið við spurningu ráðherrans er einfaldlega nei. Ráðherrar eiga ekki að halda boð fyrir pólitíska samstarfsmenn, ekki fyrir gamla skólafélaga, ekki fyrir gamla og nýja vini, ekki fyrir ættingja sína. Og þeir eiga alls ekki að útvega ódýrt ríkisbrennivín í slík boð.

Ráðherrar mega hins vegar halda uppi risnu fyrir hönd embætta sinna, til dæmis þegar innlend merkisfélög halda mikilvæga aðalfundi eða þegar mikilvægir útlendingar koma í heimsókn. En í öllum slíkum tilvikum verður að gæta hófs og fara að settum reglum.

Raunar er óviðfelldið að þurfa enn einu sinni að útskýra fyrir ráðherra, hvað teljist til góðra siða og hvað ekki. Ofangreindar siðareglur eiga að vera öllum ljósar. En því miður eru nokkrir ráðherrar, sem nú sitja, ekki nógu siðaðir til að skilja, að stóll er ekki herfang.

Sorglegt er, að siðlitlir, íslenzkir ráðherrar skuli sífellt verða sér til skammar og að framferði þeirra skuli þurfa að vera milli tannanna á mikilvægum útlendingum.

Jónas Kristjánsson

DV