Greinar

Þverstæð þjóðarviðhorf

Greinar

Þótt mikill meirihluti þjóðarinnar sé andvígur landbúnaðarstefnunni og vilji njóta lægra verðs á búvöru, vill fólk samt ekki taka afleiðingum þeirrar skoðunar og leyfa innflutning ódýrari búvöru. Þessi þverstæða kom fram í skoðanakönnun Neytendasamtakanna.

Þótt 80% hinna spurðu hafi verið óánægð með landbúnaðarstefnuna, voru 70% á móti innflutningi búvöru. Eini ljósi punkturinn við þetta var, að andstaðan við innflutning var þó mun minni meðal fólks, sem er innan við fimmtugt, en þess, sem er fimmtugt eða eldra.

Margir virðast halda, að unnt sé að ná mun lægra verði á landbúnaðarafurðum, þótt innflutningur sé ekki leyfður. Það er hins vegar erfitt í raun, því að hefðbundinn landbúnaður verður alltaf afar dýr í rekstri á okkar slóðum á hnettinum, á jaðri freðmýrabeltisins.

Nokkuð má spara með því að draga svo úr landbúnaði, að ekki þurfi að greiða uppbætur með útflutningi. En þær upphæðir skipta litlu í samanburði við upphæðirnar, sem má spara með því að fá landbúnaðarafurðir, sem í eðli sínu er ódýrari en hinar íslenzku.

Ef skoðanir fólksins í skoðanakönnuninni eru leiddar til eðlilegrar niðurstöðu, mundu stjórnvöld hætta að greiða fyrir framleiðslu bænda og fara að greiða þeim föst laun í staðinn. Slíkur stuðningur hvetur ekki til framleiðslu eins og núverandi stuðningur gerir.

Á þessu mundi mikið sparast, því að töluvert ódýrara er að borga bændum laun fyrir að framleiða ekki búvöru heldur en að styrkja framleiðslu þeirra. Í síðara tilvikinu brennur mikið fjármagn í margvíslegum tilkostnaði, sem ekki er í fyrra tilvikinu.

Ekki er þá talinn sparnaðurinn, ef samdráttur búvöruframleiðslu leiddi til, að loka mætti fyrir sauðfé stórum landsvæðum, til dæmis Reykjanesi öllu, afréttum Mývetninga öllum, flestum afréttum Sunnlendinga og öðrum viðkvæmum og ofbeittum svæðum.

Stefna almennings, sem kemur fram í könnun Neytendasamtakanna, tekur þó ekki tillit til, að umtalsverður sparnaður næst ekki fyrr en á borð fólks kemur búvara, sem framleidd er við betri aðstæður en eru hér á landi eða unnt er að ná hérna. Það er erlendis.

Það er ekki vonzka bænda, heldur dýr framleiðslukostnaður, sem heldur uppi búvöruverði hér. Aldrei verður unnt með neinum töfrabrögðum að ná lágum framleiðslukostnaði á búvöru á borð við lambakjöt, smjör og osta. Ekki heldur með minni framleiðslu.

Þótt innflutningur búvöru kostaði 2,1 milljarð á ári, sparaði hann á móti 1,6 milljarð í aðföngum landbúnaðar. Mismunurinn er ekki nema hálfur milljarður á ári og er þá eftir að gera ráð fyrir, að taka megi upp gjaldeyrissparandi iðju í stað hefðbundins landbúnaðar.

Meðalstarf á Íslandi aflar gjaldeyris eða sparar hann fyrir tæpa milljón króna á ári. Ekki þurfa nema 500 bændur af um það bil 4000 að taka upp arðbær störf til að allt gjaldeyrisdæmið hér að ofan standi á jöfnu. Innflutningur búvöru kostar því í rauninni ekki gjaldeyri.

Innflutningur búvöru skerðir ekki matvælaöryggi okkar á tímum ófriðar eða annarrar hættu. Matarbirgðir þjóðarinnar verða meira en nægar í fiskvinnslustöðvum og vörugeymslum, þótt minna verði af gömlu kjöti og smjöri í geymslum vinnslustöðva landbúnaðarins.

Þegar þjóðin fellst loks á þessi sjónarmið innflutningsfrelsis, verður fyrst hægt að snúa vörn í sókn í lífs kjörum okkar og tryggja varanlega búsetu í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Silfurstjarna í barmi

Greinar

Stefán Valgeirsson alþingismaður og fjármálamaður er eitt helzta einkennistákn ríkisstjórnar, sem hefur sagt skilið við hefðbundin siðalögmál stjórnmála á Vesturlöndum. Hann er gangandi dæmi um, hvernig óhollustan grefur um sig í kerfi miðstýringarinnar.

Fjölmiðlar hafa að undanförnu rakið furðuleg dæmi um þóknun kerfisins til eins þingmanns fyrir stuðning hans við ríkisstjórnina, til frænda hans og til fyrirtækja á hans vegum. Þessar fréttir hafa veitt innsýn í siðlítinn hugarheim þeirra, sem með völdin fara í landinu.

Hvorki ríkisstjórnin í heild né einstakir ráðherrar hafa viðurkennt, að stöðu Stefáns í kerfinu þurfi að breyta. Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra hefur raunar fullyrt, að Stefán sé lítilþægur að krefjast ekki að fá fleiri aðstoðarmenn setta á launaskrá ríkisins.

Stefán Valgeirsson vissi, hvað hann vildi, þegar hann hafnaði stöðu samgönguráðherra í ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar. Hann kaus í staðinn að vera formaður stjórnar Búnaðarbankans og Stofnlánadeildar landbúnaðarins og stjórnarmaður í Byggðastofnun.

Stefán kaus einnig að koma tveimur frændum sínum á framfæri ríkisins, öðrum sem formanni Atvinnutryggingarsjóðs og hinum sem deildarstjóra í forsætisráðuneytinu. Sá síðarnefndi er um leið stjórnarformaður Silfurstjörnunnar, fjölskyldufyrirtækis Stefáns.

Byggðastofnun hefur lánað Silfurstjörnunni 140 milljónir króna og hefur þar að auki lagt fram 20% hlutafjárins. Þá hefur Byggðastofnun lánað öðru fjölskyldufyrirtæki Stefáns, Fiskeldisþjónustunni, níu milljónir króna til að kaupa hlutafé í Silfurstjörnunni.

Þessi óráðsía og þetta siðleysi í meðferð opinberra peninga ætti að varða brottrekstri forstjóra og stjórnar Byggðastofnunar. En allir sitja þeir sem fastast í skjóli ríkisstjórnar, sem streitist svo við að sitja í hlýjunni, að hún hefur misst sjónar á hefðbundnum siðalögmálum.

Þá hefur forsætisráðherra tekið á ráðuneyti sitt að greiða stórfé í ólögleg mánaðarlaun til stjórnarformanns Silfurstjörnunnar fyrir að vera aðstoðarmaður Stefáns á þingmannsskrifstofu hans í Þórshamri. Þetta jafngildir opinberum stuðningi við átta manna þingflokk.

Peningalegur ribbaldaháttur einkennir ríkisstjórnina á ýmsan hátt. Hún hefur sprengt ramma pólitískra mannaráðninga. Forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa hvor um sig misnotað heimild til eins aðstoðarmanns til að ráða þrjá pólitíska kommissara hvor.

Ríkisstjórninni hefur samtals tekizt að verja hálfum þriðja milljarði króna úr ríkissjóði til ýmissa gæluverkefna og annarra útgjalda, sem engin heimild er fyrir í neinum lögum. Þetta er kallað hinu fína nafni “aukafjárveitingar á tungumáli siðspillingarinnar.

Verst er þó millifærslukerfið, sem ríkisstjórnin hefur eflt. Hún hefur komið á fót sjóðum, sem eiga að brenna tólf milljörðum í arðlausum rekstri á borð við pappírsfyrirtæki Stefáns Valgeirssonar. Þessir sjóðir eru undir stjórn sérfræðinga á borð við Stefán Valgeirsson.

Engri ríkisstjórn hefur miðað betur við að breyta stjórnmálum í baráttu um stóla og völd til að úthluta á kostnað skattgreiðenda nægtabrauði til gæludýra og annarra, sem leggjast niður við að væla út undanþágur og leyfi eða aðra fyrirgreiðslu skömmtunarkerfisins.

Mikilvægasta verkefni almennings á næstunni er að segja upp störfum formönnum flokka sinna og öðrum þeim, sem hafa gert landið að leikfangi ribbalda.

Jónas Kristjánsson

DV

Bananalýðveldi

Greinar

Framganga flokksformannanna þriggja, sem ráða ferðinni í ríkisstjórninni, er einstök í sinni röð. Aldrei áður hafa ósvífni og ósannindi verið leidd til hásætis eins stórkarlalega og í þessari ríkisstjórn, sem hefur búið til íslenzka einkakreppu með vondri ofstjórn mála.

Dæmin um þessa framgöngu formannanna birtast í viku hverri. Nú síðast fór forsætisráðherra með rangt mál um skipan seðlabankamála í umheiminum. Þar áður hafði fjármálaráðherra farið með rangt mál um tillögur nefndar sinnar um skattlagningu lífeyrissjóða.

Sú skipan mála Seðlabankans, sem forsætisráðherra segist sækjast eftir, er í stíl við þriðja heiminn, þar sem ráðamenn nota öll brögð til að gera líðandi stund sér bærilegri. Sú skipan, sem hann gagnrýnir, er sú, sem tíðkast um öll Vesturlönd, nema einmitt hér á landi.

Sumir yppta bara öxlum og afsaka þetta með því, að forsætisráðherrann segi svo margt. Aðrir glotta og útskýra þetta með því, að menn segi forsætisráðherranum svo margt. En svona er ekki unnt að fríspila forsætisráðherra, því að hann má ekki vera einhver Gróa úti í bæ.

Í rauninni er íslenzki Seðlabankinn mitt á milli þriðja heimsins og Vesturlanda. Hann er ekki sú kjölfesta í daglegum sviptingum og freistingum stjórnmála, sem hann er í nágrannalöndunum og á að vera, heldur er hann meðfram að þjónusta vafasöm áhugamál valdhafa.

Forsætisráðherra finnst hins vegar, að hann fái ekki næga þjónustu hjá bankanum. Þar á ofan dreymir hann um að hafa þriðja heims banka, sem gæti fyrir kosningar hjálpað honum til að búa til litla sveiflu upp á við, þótt hún kosti stóra niðursveiflu eftir kosningar.

Það er þetta ábyrgðarleysi, þetta kæruleysi í helgun alls konar meðala, sem einkennir störf ríkisstjórnarinnar. Hún reynir að ýta fram í tímann öllum vandamálum líðandi stundar með ódýrum sjónhverfingum og slúðri, ósannindum og ósvífni, sem reynast þjóðinni dýr.

Einn daginn slúðrar forsætisráðherra um erlenda peninga að baki tilboði Hafnfirðinga í togara frá Patreksfirði, án þess að flugufótur hafi verið fyrir áburðinum eða hafi síðan orðið til. Hann tekur greinilega sjálfur ekki minnsta mark á eigin orðum. Þau eru honum ódýr.

Ríkisstjórnin er að búa til bananalýðveldi á Íslandi. Hún þykist vera að lækna skipan ríkisfjármála en stendur í raun á bólakafi í útgjöldum upp á milljarða, sem hún hefur enga heimild fyrir, hvorki á fjárlögum né annars staðar. Hún grýtir peningum í allar áttir.

Ríkisstjórnin stendur í umfangsmiklum björgunargerðum fyrir gæludýr sín í atvinnulífinu, meðan hundruð alvörufyrirtækja mega hennar vegna verða gjaldþrota. Í þessu skyni hefur hún sóað út í loftið um tólf milljörðum, sem börnin okkar verða síðar að borga.

Ríkisstjórnin er að byggja upp umfangsmikið skömmtunarkerfi í austurevrópskum stíl til að allir þurfi að koma skríðandi til hennar dillandi rófunni til að væla út úr henni undanþágur og leyfi, veiðikvóta og fullvinnslurétt, búmark og útflutningsrétt.

Þetta gæludýranamm gengur svo kaupum og sölum eins og í Austur-Evrópu, því að öðruvísi gæti efnahagslífið ekki gengið frá degi til dags. Allt gengur kaupum og sölum. Stuðningur eins þingmanns er greiddur með ríkisfé, sem á að nægja átta manna þingflokki.

Á margan slíkan hátt er ríkisstjórnin að niðurlægja þjóðina. Hún eitrar flest það, sem hún snertir við. Hún er að gera Ísland að þriðja heims bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Sínum gjöfum líkastur

Greinar

Erró er kominn heim eftir rúmlega þriggja áratuga útlegð. Hann hefur treyst Reykjavíkurborg umfram aðra til að varðveita listasögu sína. Hann hefur gefið henni um 2000 listaverk eftir sjálfan sig, og borgin ætlar að koma þeim veglega fyrir í safni á Korpúlfsstöðum.

Erró er dæmi um, að menn geta verið spámenn í sínu föðurlandi. Fyrir rúmlega þremur áratugum seldi hann grimmt á sýningu í Listamannaskálanum, áður en hann hélt út í hinn stóra heim til varanlegrar útivistar. Þá þegar hafði þjóðin viðurkennt hann sem listamann.

Hann hefur haft mikið að gera þessa þrjá áratugi. Hann er hamhleypa til verka og vinnur frá morgni til kvölds, dag eftir dag, viku eftir viku. Auk þess hefur hann ferðast um heiminn til að safna í hugmyndabankann. Hann hefur raunar tæpast litið upp í 30 ár.

Þess vegna hefur hann haft lítinn tíma til að halda tengslum við föðurlandið. Nokkrum sinnum hefur hann þó komið heim, en mest í mýflugumynd. Núna loks má segja, að hann sé varanlega kominn heim. En þeim mun glæsilegri er bragurinn á heimkomu listamannsins.

Erró hefur með sér um 2000 listaverk, sem spanna allan listferil hans, frá því að hann var tíu ára gamall til allra síðustu ára. Meðal annars eru nokkur sýnishorn úr öllum 42 myndflokkum hans, sem frægir hafa orðið. Þessi gjöf er raunar sjálfsævisaga hans.

Erró er þekktur að gjafmildi. Hann hefur frá barn æsku alltaf verið að gefa af sjálfum sér. En þessi gjöf er miklum mun stórfenglegri en nokkurn gat órað fyrir. Hún gerir Reykjavík skyndilega að menningarsögulegum punkti á korti alþjóðlegrar listasögu.

Hann fylgir í kjölfar Bertels Thorvaldsen, sem er hinn Íslendingurinn, er hefur öðlazt veigamikinn sess í listasögunni. Og það er til marks um, að þjóðin hefur gengið götuna fram eftir vegi, að nú þarf ekki að velja Kaupmannahöfn sem öruggan samastað listaverkanna.

Hann er einn af fremstu málurum popptímans í málaralist. Þetta tímabil poppsins spannar yfir sömu þrjátíu árin og eru starfsvettvangur Errós. Hann er að því leyti þátttakandi í forustusveit alþjóðlegra málara, umsetinn af listaverkasöfnum og listaverkasöfnurum.

Um leið hefur Erró ætíð haft sinn persónulega stíl, sem er hvarvetna auðþekkjanlegur, ólíkur stíl annarra þekktra málara þessara þriggja áratuga. Þennan stíl hefur hann mótað og þróað á sjálfstæðan hátt við góðar undirtektir alþjóðlegra listunnenda samtímans.

Íslendingar hafa áður þegið stórar gjafir listamanna, Einars Jónssonar, Ásgríms Jónssonar, Ásmundar Sveinssonar og Jóhannesar Kjarval. En gjöf Errós er sérstök, ekki vegna verðmætisins, sem nemur hundruðum milljóna, heldur vegna stöðu hennar í listasögunni.

Ætlunin er að gera Korpúlfsstaði upp og koma þar fyrir hinni miklu listasögu, sem felst í höfðinglegri gjöfinni. Það verður mikið og dýrt fyrirtæki, því að rakastig og lofthiti verða að vera í fullkomnu jafnvægi og öryggisbúnaður svo fullkominn, sem hæfir verkunum.

Enginn aðili á Íslandi er líklegri til að gera þetta með sóma en einmitt Reykjavíkurborg, sem nýlega endur reisti Viðeyjarstofu með glæsibrag og er nú að ljúka við nýtt og stórfenglegt Borgarleikhús. Um leið varðveitir borgin Korpúlfsstaði, minnisvarða íslenzks framtaks.

Þannig verður gjöfin bezt þegin og bezt svarað hinu mikla örlæti Errós, sem borgarstjóri lýsti á laugardaginn réttilega svo: “Hver er sínum gjöfum líkastur”.

Jónas Kristjánsson

DV

Gera vondan banka verri

Greinar

Sem oftar hafði forsætisráðherra rangt fyrir sér, þegar hann leitaði dæma til stuðnings gremju sinni í garð Seðlabankans. Í útlöndum eru seðlabankar alls ekki eins þjónustuliprir og ráðherrann lýsti og allra sízt Seðlabankinn í Bandaríkjunum, sem er afar sjálfstæður.

Meðan Reagan var við völd í Bandaríkjunum og rak þar ábyrgðarlitla seiðkarlastefnu í efnahagsmálum, svona á svipaðan hátt og Steingrímur Hermannsson gerir hér, stóð Volcker seðlabankastjóri eins og klettur úr hafinu og varðveitti skynsemina í brotsjóunum.

Flest vestræn lönd reyna að stæla seðlabanka Bandaríkjanna og Vestur-Þýzkalands, þar sem hæfustu menn eru fengnir til að gæta þess, að óskhyggja skammlífra ríkisstjórna skoli ekki þjóðarhag á glæ. Meðal þessara landa eru Norðurlönd, öll nema útkjálkinn Ísland.

Margt er við Seðlabankann á Íslandi að athuga, en einmitt ekki það, sem veldur gremju forsætisráðherra. Seðlabankinn hefur alls ekki lagt stein í götu ríkisstjórna, heldur gert sér far um að þjónusta sérhverja þá ríkisstjórn, sem að völdum hefur setið.

Í stað þess að gæta skynseminnar sem klettur í brotsjóm ábyrgðarlítilla seiðkarla, hefur Seðlabankinn hagað seglum eftir vindi og þjónustað verðbólguhvetjandi aðgerðir þeirra. Verst er, að bankinn hefur prentað peningaseðla eftir þörfum sérhverrar ríkisstjórnar.

Þar á ofan hefur Seðlabankinn tekið þátt í að rugla dómgreind þjóðarinnar með því að hafa forustu í notkun stofnanamáls, þar sem gengislækkanir heita “gengisbreytingar” og lánaforgangur gæludýra heitir “frysting” innlána, allt til að dylja veruleikann fyrir fólki.

Formaður bankastjórnar Seðlabankans er réttilega gagnrýndur fyrir að hafa látið bankann vaxa samkvæmt Parkinsonslögmáli á þrjátíu árum upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum í að verða að svörtum steinkastala með hálft annað hundrað manna á launum.

Þar á ofan hefur formaður bankastjórnarinnar haft forustu um að venja forstjóra og aðra yfirmenn í þjóðfélaginu á óþarflega mikinn persónulegan lúxus, svo sem í skrifstofubúnaði, bílaútgerð, laxveiðum og veizluhöldum. Of margir vilja herma eftir Seðlabankanum.

Gagnrýnendur Seðlabankans hafa rétt fyrir sér, þegar þeir gagnrýna þaulsetur bankastjóra. Auðvitað ætti Jóhannes Nordal að vera hættur fyrir löngu. En gallinn er bara sá, að gagnrýnendur eru ekki að hugsa um að finna betri mann, heldur að finna sinn mann.

Stjórnmálaforingjar eru að eyðileggja Seðlabankann. Annars vegar gera þeir það með því að troða í bankastjórastólana stjórnmálamönnum, sem taldir eru þurfa hægan sess að loknum erilsömum ferli. Hins vegar gera þeir það með því að heimta aukna þægð bankans.

Pólitískir bankastjórar minnka reisn bankans, draga úr sjálfstæði hans og sjálfstrausti og gera hann háðari hvers konar rugli, sem efst er á baugi á stjórnarheimilinu hverju sinni. Þeir eru næmir fyrir kröfum ráðherra um hlýðni bankans við sjónhverfingar ríkisstjórna.

Eini kosturinn við núverandi formann bankastjórnar Seðlabankans er, að hann situr í sæti, sem annars gæti verið fyllt einhverjum Sverri Hermannssyni, Steingrími Hermannssyni, Jóni Baldvin Hannibalssyni, Ólafi Ragnari Grímssyni eða öðrum riddara íslenzkra burtreiða.

Enginn banki er svo vondur, ekki einu sinni Seðlabankinn, að forsætisráðherra og aðrir foringjar geti ekki gert hann verri með að fá vilja sínum framgengt.

Jónas Kristjánsson

DV

Rotþró helmingaskipta

Greinar

Vel er við hæfi, að formaður Sjálfstæðisflokksins skuli afneita bankastjóra sínum í Landsbankanum. Formaðurinn hafði sem forsætisráðherra ekki svo lítið fyrir, gegn góðra manna ráðum, að troða Sverri Hermannssyni þar inn og að troða öðrum um tær í leiðinni.

Formanni Sjálfstæðisflokksins var þá vel kunnugt um, hvernig núverandi yfirbankastjóri Landsbankans tók mikilvægar og rándýrar ákvarðanir, þegar hann var ráðherra. Formaðurinn hafði ekki svo lítið fyrir að bjarga ráðherranum eftir kaupin á Mjólkurstöðinni.

Þegar Þorsteinn Pálsson sýndi takmarkalaust ábyrgðarleysi með því að troða Sverri Hermannssyni upp á Landsbankann, sagði bankaráðsmaðurinn Árni Vilhjálmsson prófessor af sér, og bankinn missti frá sér Tryggva Pálsson, verðandi stjóra Íslandsbanka.

Ráðning Sverris og björgun Sambands íslenzkra samvinnufélaga eru hvort tveggja liðir í gamalgrónu helmingaskiptafélagi Framsóknarflokksins hins minni og Framsóknarflokksins hins meiri, sem kallar sig Sjálfstæðisflokk. Þetta er bara sýnishorn úr rotþrónni.

Sem liður í þessu samkomulagi hefur Samband íslenzkra samvinnufélaga átt bankastjóra í Landsbankanum í hálfa öld. Þessi nánu tengsl eru persónugerð í Vilhjálmi Þór, Jóni Árnasyni, Helga Bergs og nú síðast Val Arnþórssyni. Sverri er bara att á foraðið.

Með kaupum hlutabréfa Samvinnubankans af Sambandi íslenzkra samvinnufélaga á yfirverði er Landsbankinn að gefa Sambandinu fé, sem er af stærðargráðunni hálfur milljarður króna. Með þessu er helmingaskiptafélagið að bjarga Sambandinu frá gjaldþroti.

Landsbankinn bjargaði Sambandinu á svipaðan hátt fyrir örfáum árum, þegar hann keypti af því verðlausa skreiðarvíxla frá Nígeríu á nafnverði fyrir 250 milljónir króna. Sambandið var eini handhafi slíkra víxla, sem fékk þess háttar fyrirgreiðslu Landsbankans.

Samanlagt fela kaupin á Nígeríuvíxlunum og Samvinnubankabréfunum í sér gjöf þjóðarinnar í gegnum Landsbankann til Sambandsins upp á þrjá fjórðu úr milljarði króna. Og þetta eru bara tvö dæmi um aðstöðuna, sem Sambandið hefur í stærsta banka þjóðarinnar.

Fyrir tíu mánuðum sagði fjármálaráðherra, að Sambandið ætti bara eftir fjórtán mánuði til gjaldþrots. Nú eru fjórir mánuðir eftir af spá Ólafs Ragnars Grímssonar. Enginn vafi er á, að Sambandið rambar nálægt barmi gjaldþrots vegna óheyrilegs aðgangs að ódýru lánsfé.

Árið 1989 verður fjórða tapár Sambandsins í röð. Á þessum tíma hefur það tapað tæplega tveimur milljörðum, sem er meira en helmingur af eigin fé þess. Skuldir þess hafa á sama tíma vaxið að raungildi um rúmlega tvo milljarða og eru komnar í átta milljarða króna.

Þegar Landsbankinn tekur að sér Samvinnubankann og skuldir Sambandsins í þeim banka, verður hlutfall eins skuldara orðið miklu hærra í bankanum en lög og reglur heimila. Þeim mun meiri verður skellur bankans, ef Sambandið heldur áfram að tapa peningum.

Athyglisvert er, að bankastjóri Landsbankans hefur skrifað nafn sitt undir kröfulista Sambandsins, sem fylgir kaupsamningnum, þar á meðal undir ákvæði um óbreyttar útlánahefðir til Sambandsins næstu fimmtán árin og um miklar greiðslur til þess framhjá skuldajöfnun.

Lúðvík Jósepsson bankaráðsmaður á skilið þakkir fólks fyrir að segja dæmisögu úr rotþró helmingaskiptafélags, sem hefur blóðmjólkað þjóðina áratugum saman.

Jónas Kristjánsson

DV

Greiðar eftir geðþótta

Greinar

Sala Samvinnubankans er mikilvægur þáttur í því, sem hér á landi er talið verið aðalhlutverk stjórnmála, kommissara og stjórnmálamanna. Hlutverkið felst í að gera fólki og fyrirtækjum greiða á kostnað almannahagsmuna og yfirleitt eftir geðþótta hverju sinni.

Stundum kemur þetta fram í litlum myndum. Núverandi fjármálaráðherra tók marklaus veð fyrir skattaskuld Svarts á hvítu og gaf hreinlega eftir skattaskuld næstsíðasta útgáfufélags dagblaðsins Tímans, áður en hann sigaði lögreglunni á önnur fyrirtæki í landinu.

Sumir halda, að stjórnmál snúist um fallegar stefnur, sem samþykktar eru á aðalfundum stjórnmálaflokka. Aðrir halda, að stjórnmál snúist um stjórnmálamenn, sem kjósendur treysti misvel til farsældar. Nokkrir vita, að þau snúast um stóla, völd, skömmtun og greiða.

Fyrirlitningin á góðum siðum og lýðræði kom vel fram rétt fyrir ævilok ríkisstjórnarinnar, sem núverandi forsætisráðherra stýrði fram til ársins 1987. Þá kvaddi sú stjórn með því að skuldbinda næstu ríkisstjórnir til að borga búvörusamning í fjögur ár.

Samkvæmt þessum samningi hefur verið erfitt fyrir þær þrjár skammtímastjórnir, sem síðan hafa setið, þar á meðal þá, sem tók við um helgina, að gera nokkuð af viti í fjármálum hins opinbera. Búvörusamningurinn er svo fyrirferðarmikill á herðum skattgreiðenda.

Þegar ráðherrum var á sínum tíma réttur litlifingur með heimild til ráðningar pólitískra aðstoðarmanna þeirra, tóku þeir alla hendina. Forsætis- og fjármálaráðherra hafa nú þrjá kommissara hvor, aðstoðarmann, efnahagsráðgjafa og lyga- eða sannleiksfulltrúa.

Slíkir kommissarar virðast vera ráðnir eftir geðþótta ráðherra og taka laun eftir geðþótta ráðherra. Þau laun eru svo miklu betri en önnur laun, að ríkisstjórnir hafa síðan 1985 talið sér ljúft að hætta að gefa út skrá um opinbera starfsmenn og launagreiðslur til þeirra.

Á einu æviári ríkisstjórnarinnar, sem hætti formlega séð um helgina, tókst henni að efna í atvinnulífinu til millifærslusjóða, sem hafa að verkefni að færa tólf milljarða til rekstrar, sem er þess eðlis, að peningarnir hafa meiri möguleika á að brenna upp þar en annars staðar.

Þessari sömu ríkisstjórn hefur líka tekizt að verja hálfum þriðja milljarði króna eftir eigin geðþótta til útgjalda, sem engin heimild er fyrir á fjárlögum ársins eða öðrum lögum. Þetta eru kallaðar aukafjárveitingar, en eru í rauninni ekkert annað en þjófnaður.

Eins og í Austur-Evrópu er skömmtun í hávegum höfð í íslenzkum stjórnmálum. Síðan gengur skömmtunin kaupum og sölum. Menn kaupa og selja kvóta til fiskveiða, fullvinnslurétt til hefðbundins búskapar og meira að segja kvóta til flutnings á gámafiski til útlanda.

Geðþótti í greiðasemi einkennir ýmis ævintýri ársins, stuðninginn við Álafoss, loðdýrarækt, Sigló-síld, lagmetið á Þýzkalandsmarkaði, Patreksfjarðartogarana. Eitt helzta tækið til slíkra afreka er byggðastefnan, sem er höfuðverkefni margvíslegra sjóða og stofnana.

Landsbankinn keypti Samvinnubankann til að bjarga SÍS frá gjaldþroti. Með kaupunum yfirtók bankinn tveggja milljarða skuldir samvinnuhreyfingarinnar og létti á átta milljarða skuldasúpu Sambandsins. Þetta var pólitísk ákvörðun pólitískra kommissara í bankanum.

Bankakaupin eru í anda íslenzkra stjórnmála, sem snúast um stóla og völd, skömmtun og greiða, sem farið er með að geðþótta. Þetta er fyrirgreiðslukerfið.

Jónas Kristjánsson

DV

Umhverfis-umhyggja

Greinar

Stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis er ein allra merkasta nýjungin í stjórnsýslu síðustu ára. Hún er merki um, að við hyggjumst taka verndun umhverfisins föstum tökum eftir langvinnt sinnuleysi. Vænta má, að breytingin stuðli að góðu og betra Íslandi.

Við þurfum að vinna vel að umhverfismálum, bæði með starfi heima fyrir og með þátttöku í fjölþjóðastarfi á víðara sviði. Út á við ber okkur að hvetja til eflingar umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna eða jafnvel til myndunar sérstakrar stofnunar til umhverfisforustu.

Við verðum eins og aðrar auðþjóðir að taka þátt í kostnaði við verndun regnskóga, sem sjá jörðinni fyrir jafnvægi milli súrefnis og koltvísýrings. Við verðum einnig að taka þátt í kostnaði við stöðvun á notkun úðaefna, sem eyða ózonlagi himinhvolfsins.

Okkur ber að taka af alefli þátt í vörnum gegn áhrifum mannvistar á hitastig á jörðinni. Það kemur okkur meira við en mörgum öðrum, af því að breytingar á hita í hafinu geta flutt fiskistofna langar leiðir og raunar hliðrað til ferli strauma á borð við Golfstrauminn.

Þá er okkur brýnt að stuðla að alþjóðlegu eða fjölþjóðlegu samstarfi um að stöðva notkun úthafsins sem ruslakistu fyrir hættuleg úrgangsefni. Við verðum að koma í veg fyrir, að mengun hafsins hafi skaðleg áhrif á fiskveiðar okkar, hornstein mannlífs á Íslandi.

Hér heima fyrir er ótal verk að vinna. Við þurfum að gera annað og meira en að reisa dælustöðvar til að koma skolpi út í sjó og reisa böggunar- og urðunarstöðvar til að koma sorpi niður í jörð. Við erum því miður að fást við úreltar lausnir á þessum sviðum mengunar.

Í staðinn ber okkur að reisa hreinsistöðvar til að hreinsa skolpið, áður en það fer til sjávar. Ennfremur er okkur skylt að koma á flokkun á sorpi, svo að endurvinna megi alla nytsamlega þætti þess, í stað þess að urða það holt og bolt, eins og fyrirhugað er núna.

Verndun fiskistofna er ein veigamesta umhverfisverndunin. Við höfum þegar náð töluverðum árangri á því sviði, enda skilja flestir hagsmunaaðilar, að bezt er að fara að ráðum fræðinga og veiða minna en við vildum veiða, svo að við eigum framtíð í fiskveiðum.

Sem betur fer hugsa fáir eins og forsætisráðherrann, sem segist gera greinarmun á þörfum fiskistofna og þörfum þjóðar. Hann var að halda fram þeirri skoðun, sem felur dauðann í sér, að veiða megi of mikið núna til að létta rekstur þjóðarbúsins á líðandi stund.

Annað mikilvægasta umhverfismálið er að koma landinu í ástandið, sem það var í við landnám þjóðarinnar. Það kostar stórfé og verður þar að auki ekki gert nema með algerri uppstokkun á skipulagi Landgræðslu ríkisins, sem lítur núna á sig sem beitilandsstofnun.

Landgræðslan veldur ekki hlutverkinu, sem henni er ætlað, því að hún er undir húsaga hjá landbúnaðinum. Þess vegna lætur hún rollukónga vaða uppi, eins og í Mývatnssveit, sem illræmt er orðið. Brýnt er, að nýtt ráðuneyti leiðrétti kompásskekkju Landgræðslunnar.

Fyrirhugað átak í skógrækt á Fljótsdalshéraði og víðar er einnig viðamikið umhverfismál. En mikilvægt er, að sú hugsjón verði ekki misnotuð til að búa til enn eitt spillingarkerfi hins opinbera, þar sem kvígildum er raðað á ríkisjötuna undir yfirskini fagurrar iðju.

Þessi dæmi sýna, að mörg og brýn verkefni bíða eftir nýja umhverfisráðuneytinu, sem á að vera í fararbroddi varnar og sóknar í umhyggju okkar fyrir umhverfinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofurmenni Íslands

Greinar

Forsætisráðherra hefur neitað að biðjast afsökunar á að hafa flaggað dylgjum um, að erlendir peningar standi að baki kaupum á tveimur togurum frá Patreksfirði til Hafnarfjarðar. Honum finnst ekkert athugavert við, að hann stundi órökstuddan söguburð af slíku tagi.

Forsætisráðherra hefur áður gert sig sekan um að fara opinberlega með slúðursögur. Þá héldu menn, að söguburðurinn væri slys, en eftir Hafnarfjarðar-dæmið má öllum vera ljóst, að forsætisráðherra telur órökstuddar dylgjur sínar vera sárasaklausar.

Forsætisráðherra svarar einstaka sinnum erfiðum spurningum fjölmiðla með, að hann hafi hitt mann, sem hafi haft athygliverða skoðun á málinu. Svo virðist sem einstakir menn á förnum vegi geti snúið honum til fylgis við sjónarmið, sem flestum öðrum finnast vafasöm.

Í gamni hefur verið sagt, að prestar þjóðarinnar ættu á hverjum morgni að biðja fyrir því, að forsætisráðherra okkar hitti ekki í dag neinn mann með sérkennilegar skoðanir á lausn aðkallandi vandamála og ekki heldur neinn, sem fer með órökstutt bæjarslúður.

Samt hefur forsætisráðherra gengið sæmilega að afla sér trausts með þjóðinni. Hann er óneitanlega afar fær við að ná fram málamiðlunum við erfiðar aðstæður. Honum tókst að halda ríkisstjórninni á floti í eitt ár án meirihluta, áður en Borgaraflokkurinn gekk inn.

Styrkur forsætisráðherra umfram aðra flokksleiðtoga í ríkisstjórninni felst þó einkum í, að hann er laus við hroka. Hann talar ekki niður til fólks. Hann fær ekki belging, þótt hann telji sig hafa komizt að raun um, að hann sé eins konar Schlüter íslenzkra stjórnmála.

Öðru máli gegnir um utanríkisráðherra og fjármálaráðherra, sem báðir telja sig að ástæðulausu vera ofurmenni andans og líta jafnframt niður á annað fólk. Þeir njóta einskis trausts utan flokka sinna og raunar ekki heldur nema nokkurs hluta flokkssystkina sinna.

Hins vegar dreifa þeir hættunum í kringum sig, af því að þeir eru alltaf að reyna að gabba fólk, selja því eitthvert rugl. Nýjasta dæmið er hugmynd fjármálaráð herra um að breyta fjárhagsári ríkisins, svo að það sé frá miðju almanaksári til miðs almanaksárs.

Að baki hástemmdrar sölumennsku ráðherrans er afar einföld forsenda. Hún er, að breytingin veldur því, að gagnrýnendur meðferðar hans á fjármálum ríkisins munu eiga erfiðara með allan samanburð, af því að hlutirnir hætta að vera sambærilegir milli ára.

Enginn íslenzkur stjórnmálamaður síðustu áratuga hefur gengið lengra en fjármálaráðherra í að halda einu fram og framkvæma annað í senn. Í einu orðinu ávítar hann blýantsnagara hins opinbera fyrir eyðslusemi og í hinu tekur hann ákvarðanir, sem magna eyðsluna.

Verðugt lokaverkefni nemenda í stjórnmálafræðum væri að rekja opinber ummæli fjármálaráðherra og utanríkisráðherra eins og þau hafa komið fram á prenti og í ljósvakamiðlum frá miðju síðasta ári og fram eftir þessu ári. Úr því ætti að koma góð loddarasaga.

Menn, sem af einhverjum ástæðum fá þá flugu í höfuðið, að þeir séu ofurmenni, eru hættulegir umhverfi sínu, ef þeir komast til valda. Ef þeir þar á ofan telja ofurmenn vera svo mjög yfir aðra hafna, að þeim séu ýmis brögð leyfileg, er rétt að þjóðin komi þeim frá.

Skilningur á persónuvanda af þessu tagi er einn bezti lykill kjósenda að fráhvarfi frá hinni séríslenzku kreppu, sem foringjarnir eru að leiða yfir þjóðina.

Jónas Kristjánsson

DV

Fíkniefni Stóra bróður

Greinar

Ríkisvaldið ætlar að víkja frá farsælli velferðarstefnu, sem hefur virkjað félagslegt einkaframtak áhugafólks, til velferðarstefnu hins alsjáandi auga Stóra bróður. Það hefur hafnað samstarfi við áhugafélög um rekstur heimilis fyrir unga fíkniefnaneytendur.

Samtök berklasjúklinga hafa unnið kraftaverk í sinni grein. Sömuleiðis samtök um hjartavernd, samtök fatlaðra, samtök áhugafólks um áfengisvandamálið og svo mætti áfram telja. Þetta farsæla framtak hefur sparað þjóðinni milljarða, þótt ríkið hafi lagt hönd á plóginn.

Vera kann, að Stóri bróðir kunni ýmis rök fyrir, að hann þurfi sjálfur að reka heimili fyrir unglinga, sem eru illa farnir af fíkniefnaneyzlu af ýmsu tagi. Ef til vill hafa miðstýringarmenn ráðuneytisins séð, að þannig sé haldið á málum í Svíþjóð eða Noregi eða Danmörku.

Sjálfsagt má ná árangri á mismunandi hátt og með misjafnlega miklu fé skattgreiðenda. En reynslan segir okkur, að félagslegt framtak áhugafólks nær mun betri árangri fyrir minna fé. Gott dæmi er, hversu langt við erum á undan Norðurlöndum í meðferð áfengissjúkra.

Krýsuvíkursamtökin og samtökin Vímulaus æska hafa óskað eftir að fá að reka fyrirhugaða heimilið, en því hefur verið hafnað. Ráðuneytið er að hverfa frá hinni farsælu, íslenzku velferðarleið, yfir til leiðar, er hentar betur kerfiskörlum, sem vilja stjórna stóru og smáu.

Verið er að reyra þjóðfélagið í viðjar skipulags að ofan, úr ráðuneytum, opinberum stofnunum og sjóðum. Ríkið hefur reist lánakerfi, sem sogar lungann úr sparifé þjóðarinnar, auk skattfjár hennar, til endurdreifingar á vegum ríkisins, þar á meðal til góðgerðarstarfa.

Ráðuneyti, opinberar stofnanir og sjóðir eru að fyllast af embættismönnum, sérfræðingum og pólitískum kommissörum. Ódýrust eru þar möppudýrin, sem naga blýanta. Dýrari eru þeir, sem reka útþenslustefnu, er vex með hverri ríkisstjórninni á fætur annarri.

Um helgina ræddi forstjóri Byggðastofnunar í blaðaviðtali um meintan byggðavanda. Nefndi hann dæmi um, að frjáls útgerðarmaður, sem gæti landað hvar sem hann vildi, hefði efni á að kaupa 100 milljón krónum dýrara skip en sá, sem háður er einu frystihúsi.

Í 100 milljón króna mismuninum felst sparnaður þjóðarinnar af að leyfa framtaki fólksins að leggjast í farvegi, sem stjórnast af markaðsöflum. Á þann hátt og á þann hátt einan hafa þjóðir orðið ríkar á áratugunum, sem einkennast af framsókn vestræns þjóðskipulags.

Forstjóri Byggðastofnunar telur henni bera að koma í veg fyrir þennan sparnað með því að leggja fram 100 milljónir af skattfé eða sparifé landsmanna eða útlendu lánsfé til að tryggja, að afli ákveðins skips sé lagður upp hjá ákveðnu frystihúsi í ákveðnu bæjarfélagi.

Velferðarstefna ríkisvaldsins í atvinnulífinu felst einkum í að frysta búsetu í landinu, leyfa henni ekki að breytast eftir aðstæðum með sama hraða og hún hefur breytzt frá upphafi þessarar velmegunaraldar. Í því skyni hefur Stóri bróðir gert peninga að fíkniefni.

Embættismenn, sérfræðingar og pólitískir kommissarar eru á ýmsan hátt að grafa undan einkaframtaki og félagsframtaki þjóðarinnar. Þeir grýta styrkjum og lánsfé á bál Stóra bróður og eru að gera þjóðina að neytendum ódýrra peninga, fíkniefnis ríkisforsjárinnar.

Aðeins hársbreidd er milli skipulags ráðgerðs heimilis fyrir fíkniefnaneytendur og skipulags Byggðastofnunar og skyldra sjóða fyrir sjúka peninganeytendur.

Jónas Kristjánsson

DV

Kæfandi faðmlög

Greinar

Patreksfjörður er í sviðsljósinu þessa dagana, af því að staðurinn hefur misst kvóta tveggja togara. Um daginn komst Hofsós í fréttirnar, af því að sveitarfélagið varð gjaldþrota. Á næstu mánuðum munu önnur sveitarfélög verða vettvangur harma af einhverju slíku tagi.

Mynztrið í flestum slíkum vandræðum er vítahringur byggðastefnunnar, sem felst í, að góðgerðastarf ríkisins leiðir ekki til farsældar þiggjenda, heldur stækkar vanda heimamanna og frestar honum í senn, en leiðir yfirleitt til hrikalegri og dýrari endaloka en ella hefði verið.

Byggðastefnan tekur fjármagn frá arðbærum verkefnum, sem geta staðið undir vöxtum og magnað þjóðarhag, og veitir því til forgangsverkefna úti um land. Skýrast sést þetta í landbúnaði, sem einn út af fyrir sig getur gert Ísland gjaldþrota, ef menn gá ekki að sér.

Hluti forgangspeninganna fer þó til útgerðarstaða. Bjartsýnir eldhugar og athafnamenn, bæði heimamenn og aðfluttir, byggja skýjaborgir með öflugum stuðningi opinberra sjóða og banka, sem stjórnmálamenn byggðastefnunnar hafa lagt á herðar skattgreiðenda.

Stundum er reynt að hamla gegn ótakmarkaðri bjartsýni með því að setja einhver mörk, til dæmis með kröfum um veðhæfni. Í raun fer þó yfirleitt svo, að slíkar kröfur gleymast fljótt, ef mikið er talið í húfi. Smám saman safna eldhugarnir rembihnýttum skuldaböggum.

Hraðfrystihúsið á Patreksfirði er glæsilegur loftkastali, sem sogaði til sín peninga eins og svampur. Það var átta ár í byggingu, svo að menn höfðu nægan tíma til að hala í land. En bjartsýnismennirnir héldu áfram að slá og opinberu sjóðirnir héldu áfram að borga.

Fyrir ári var frystihúsinu lokað og er það enn lokað. Tveir togarar þess seldu afla sinn til annarra verstöðva eða sigldu með hann úr landi. Þannig hefur ástandið verið í tæpt ár, svo að langt er síðan góðgerðastarfið hætti að stuðla að atvinnu og búsetu á Patreksfirði.

Nú er svo komið, að loftkastalinn er formlega gjaldþrota og að togararnir hafa með öllum sínum kvóta verið seldir á uppboði til Hafnarfjarðar. Talið er, að verðgildi kvótans í sölunni hafi numið um 90 milljónum króna eða nálægt þriðjungi söluverðs togaranna.

Atvinna og búseta á Patreksfirði minnka ekkert við þessa sölu, því að togararnir voru fyrir löngu hættir að landa heima. Hins vegar er skýjaborgin hrunin, bjartsýnin horfin og athafnaþráin lömuð. Hinn innri kraftur búsetu á Patreksfirði hefur beðið snöggan hnekki.

Skjótfenginn auður fuðrar venjulega fljótt á braut. Ef Patreksfjörður hefði ekki notið meiri ríkisnáðar en hver annar aðili, sem þarf að berjast um lánsfé á heilbrigðum markaði, væri hann fátækari að mannvirkjum og brostnum vonum, en ætti nú meiri framtíð fyrir sér.

Góðgerðakerfi byggðastefnu er eins konar byggðagildra, sem hvetur til óraunsærra fjárfestinga í opinberum mannvirkjum, fyrirtækjum og íbúðum. Verðgildi steypunnar reynist lítið, þegar ekki er lengur hægt að borga reikningana og hamarinn skellur í fógetaborðið.

Þjóðfélagið í heild borgar brúsann að mestu, þótt tjón heimamanna sé tilfinnanlegt. Fjármagnið, sem fór í súginn, kemur ekki til baka. Nýjar björgunaraðgerðir kosta enn meiri peninga og þannig magnast hinn miðstýrði vítahringur ár frá ári, áratug frá áratug.

Að lokum bíður byggðastefnan skipbrot, velferðarríki atvinnulífsins hrynur og góðgerðastofnunin Ísland verður seld útlendingum eins og Nýfundnaland.

Jónas Kristjánsson

DV

Leitað gulls í Mexíkó

Greinar

Nýjasta ráðið til reisnar íslenzkum þjóðarhag er að efla viðskipti við Mexíkó. Þar hefur fjármálaráðherra fundið ríki, sem hann telur bjóða margvíslega möguleika á útflutningi íslenzkra afurða og íslenzkrar þekkingar, eins konar Nígería hin nýja, gullnáma í vestri.

Níu íslenzk fyrirtæki hafa verið dæmd til upphefðarinnar af þessum viðskiptum. Þau framleiða vélar og tæki fyrir sjávarútveg og sinna sölu á slíkum vörum og á tækniþekkingu í sjávarútvegi. Vinir fjármálaráðherra okkar í Mexíkó hafa beðið um skýrslu frá þeim.

Áður en hrifningaraldan út af snjallræðinu verður að brotsjó, er rétt að benda á, að peningar og viðskipti eru á hröðum flótta frá Mexíkó. Bankar, sem hafa lánað þangað fé eða ábyrgzt greiðslur þaðan, sjá ekki krónu renna til baka og neita öllum nýjum viðskiptum.

Orsök hörmunga Mexíkana er glæpaflokkur, sem hefur verið við völd þar í landi áratugum saman, Þjóðlegi byltingarflokkurinn. Glæpaflokkurinn hefur mergsogið landið og stolið flestu steini léttara. Menn hans skipa allar mikilvægar fjármálastöður í landinu.

Að nafninu til eru haldnar kosningar í Mexíkó. Fréttamenn og aðrir, sem með þeim hafa fylgzt, eru sammála um, að ekki sé að marka úrslitin. Til dæmis er almennt talið, að glæpaflokkurinn hafi tapað síðustu forsetakosningum, en falsað talninguna sér í hag.

Í sumar voru fylkiskosningar í Mexíkó. Ekkert lát var þá á fyrri vinnubrögðum glæpaflokksins, þótt hann hafi leyft stjórnarandstöðunni að vinna kosningar í einu fylki. Ekkert lát er heldur á fjárglæfrum glæpaflokksins og tilraunum hans til að hafa fé af útlendingum.

Fjármálaráðherra Íslands hefur valið sér þennan félagsskap sem embættismaður í alþjóðlegum samtökum þjófafélaga, sem kalla sig fínu nafni. Ráðherra okkar er þar, eins og Alfonsín frá Argentínu var og Carlsson frá Svíþjóð er, í hlutverki nytsams sakleysingja.

Fremstur í þessum félagsskap er Rajiv Gandhi, sem stjórnar indverskum glæpaflokki, Kongressflokknum, er nýlega var staðinn að viðtöku stórfelldra mútugreiðsla frá sænska vopnaframleiðandanum Bofors. Gandhi rekur miðstýrt mútukerfi í Indlandi.

Annar af þessu tagi er Andreas Papandreou í Grikklandi, sem stjórnar flokki, er hefur eftir skamman valdaferil skilið eftir sig ógeðfellda slóð af fjárglæfrum og mútum, sem nú er fjallað um fyrir dómstólum, síðan hann missti völdin til kommúnista og íhaldsmanna.

Um þriðja flokkinn þarf ekki að segja margt. Það er flokkur Nyereres í Tanzaníu, sem hefur áratugum saman haft ríkar stjórnir Norðurlanda að fífli. Þessi flokkur tók við auðugu landi, en hefur gengið betur en flestum öðrum stjórnum í Afríku að gera það að fátækrahæli.

Innan um þessi stórhveli glæpanna hafa svo leynzt nytsamir sakleysingjar á borð við Raoul Alfonsín í Argentínu og Ingvar Carlsson frá Svíþjóð, svo og fjármálaráðherra okkar, sem hefur verið óheppinn í vali erlendra vina og öðlast með þeim nokkur mannaforráð.

Þótt fjármálaráðherra hafi lent í súpu Carlos Salinas de Gortari í Mexíkó og annarra rummungsþjófa, er ekki nauðsynlegt, að hann dragi níu íslenzk fyrirtæki með sér. Ekki er heldur nauðsynlegt, að íslenzka ríkið sé í samkrulli með þjófunum í greiðslu ferðakostnaðar.

Brýnt er að íslenzk stjórnvöld kynni sér stöðu fjármála og lýðréttinda í Mexíkó, áður en fjármálaráðherra tekst að búa til nýtt Nígeríuævintýri á þeim slóðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólskt kál í ausunni

Greinar

Ekki er sopið kálið, þótt í ausuna sé komið. Þótt ástæða sé til að fagna kosningu Tadeuszar Maziowiecki sem forsætisráðherra í Póllandi, er rétt að minna á, að slíkir atburðir hafa áður gerzt í löndum Austur-Evrópu, án þess að það leiddi varanlega til aukins lýðræðis.

Alexander Dubcek ætlaði á sínum tíma að feta í átt til lýðræðis í Tékkóslóvakíu, en fékk það ekki fyrir skriðdrekainnrás nágrannaríkjanna. Imre Nagy ætlaði að gera hið sama í Ungverjalandi, en varð líka að sæta innrás Sovétríkjanna og var myrtur að lokum.

Nagy á meira að segja sameiginlegt með Maziowiecki, að hann var ekki kommúnisti. Hann var upprunalega fulltrúi flokks á borð við þá, sem nú hafa myndað stjórn með Samstöðu í Póllandi. Maziowiecki er því ekki fyrsti valdamaður þar eystra, sem er ekki úr Flokknum.

Aðstæður eru aðrar núna, svo að ástæða er til að vona, að betur fari í þetta skipti. Stjórnarskiptin í Póllandi fylgja í kjölfar mikilla umbóta í Sovétríkjunum, svo að minni hætta en áður er á innrás úr austri. Hættan á því er samt engan veginn úr sögunni.

Varnarbandalag er að myndast í Austur-Evrópu með harðlínumönnum kommúnistaflokksins, sem sjá sæng sína upp reidda. Ráðamenn í Austur-Þýzkalandi og Tékkóslóvakíu sitja á svikráðum með skoðanabræðrum sínum frá Póllandi, Ungverjalandi og Sovétríkjunum.

Hugsanlegt er, að Gorbatsjov verði að víkja í Sovétríkjunum eða að hann verði að láta af umbótastefnu sinni til þess að halda velli. Augljóst er, að efnahagsstefna hans mun ekki færa Sovétmönnum neinn skjótan lífskjarabata. Það verður notað gegn stefnunni.

Enn flóknari vandamál mæta Maziowiecki í Póllandi. Hann er fulltrúi stjórnmálaafls, sem hefur ekki fastmótaða stefnu í efnahagsmálum. Í Samstöðu togast á hefðbundin verkamannasjónarmið um varðveizlu atvinnutækifæra og hefðbundin frjálshyggjusjónarmið.

Að baki hans er almenningur í verkalýðsfélögunum, sem ætlast til, að sinn maður í forsætisráðherrastóli bæti lífskjörin og það ekki bara seinna, heldur strax. En það getur Maziowiecki ekki gert, ef hann ætlar að reyna að bjarga Póllandi úr öngþveiti miðstýringar.

Hann þarf að leyfa verðlagi að hækka á matvælum. Hann þarf að láta loka vanhæfum fyrirtækjum og skapa atvinnuleysi í röðum Samstöðumanna, ef hann á að geta fengið hjól atvinnulífsins í gang að nýju, svo að þau fari smám saman að mala gull eins og á Vesturlöndum.

Ofan á spennuna, sem óhjákvæmilega mun myndast milli markaðshyggjumanna og atvinnuvarðveizlumanna í Samstöðu, kemur svo hin þögula og seiga andstaða möppudýra og kerfiskarla, sem hafa þegið stöður sínar og embætti fyrir hlýðni við kommúnistaflokkinn.

Skrifræðið í stjórnmálum og atvinnulífi Póllands leggst ekki niður á nokkrum árum, þótt kommúnistar verði að gefa eftir flest ráðherraembættin. Hin breiða fylking gæludýra kommúnistaflokksins mun nota aðstöðu sína í kerfinu til að spilla fyrir Maziowiecki.

Síðast en ekki sízt er hinn nýi forsætisráðherra hálfgerður gísl kommúnista. Til að hindra innrás Sovétríkjanna hefur hann neyðst til að bjóða kommúnistum ráðherraembætti hermála og lögreglu. Að mati kommúnista felast raunveruleg völd einmitt í þessu tvennu.

Kjör Maziowiecki er mikilvægt. En of snemmt er að úrskurða, að það sé mikilvægasti atburðurinn í Austur-Evrópu frá því að járntjaldið var dregið fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjárdráttur tempraður

Greinar

Í tillögum fjármálaráðherra um breytta tilhögun ríkisfjármála er jákvæðust hugmyndin um að banna fjárdrátt ráðherra. Er ætlun hans að leggja fram fjáraukalög í haust, svo að Alþingi geti þá þegar tekið afstöðu til ýmissa áforma ráðherra um útgjöld umfram fjárlög.

Með orðinu fjárdráttur er átt við það, sem nefnist aukafjárveitingar á tungumáli stjórnmálamanna og embættismanna. Það eru útgjöld, sem ráðherrar stofna til, án þess að hafa til þess heimild frá fjárveitingavaldinu, sem samkvæmt stjórnarskránni er hjá Alþingi.

Athyglisvert er, að foringjar þjóðarinnar í stjórn og stjórnarandstöðu eru enn svo gegnsýrðir af spillingunni, að þeir tala um fjárdráttinn sem “aukafjárveitingar”, eins og einhver laga- eða stjórnarskrárréttur sé að baki þeirra. Þetta hefur oft verið gagnrýnt hér í blaðinu.

Þannig talar fjármálaráðherra um afnám “aukafjárveitinga” þessa dagana. Það gerir líka formaður stærsta stjórnarandstöðuflokksins. Það gerir einnig formaður stærsta stjórnarþingflokksins. Og ennfremur talar þannig formaður fjárveitinganefndar Alþingis.

Ráðherrar hafa í vaxandi mæli seilst í ríkissjóð til að þjóna ýmsum sérhagsmunum. Stundum þykir þeim henta að krydda hátíðaræður með því að gefa peninga eða fasteignir í óleyfi. Stærri upphæðir nota þeir þó til að verða við kröfum gæludýra á borð við landbúnað.

Stundum ganga þeir svo langt að þeir úthluta peningum, sem Alþingi hefur fjallað um og hafnað að veita. Á þann hátt voru 625 milljónir króna dregnar af fé skatt greiðenda á síðasta ári, beinlínis gegn vilja fjárveitinga valdsins, sem samkvæmt stjórnarskrá er hjá Alþingi.

Samkvæmt skýrslu Ríkisendurskoðunar ákváðu ráðherrar samtals 2,5 milljarða fjárdrátt á fyrri hluta þessa árs. Þetta er veigamesta orsök þess, að greiðsluafgangur, sem átti að vera 600 milljónir samkvæmt fjárlögum, snerist í fjögurra milljarða halla á miðju ári.

Það er því við hæfi, að fjármálaráðherrann, sem lengst allra slíkra hefur gengið í fjárdrætti af þessu tagi, skuli nú hafa forgöngu um, að mikilvægar skorður verði settar við því í framtíðinni. Ástæða sinnaskiptanna er, að fyrra háttalag hefur komið ríkissjóði á vonarvöl.

Sá galli er á gjöf Njarðar, að Alþingi á erfitt með að hafna útgjöldum, sem þegar hafa verið innt af hendi að verulegu leyti. Þess vegna hefur formaður fjárveitinganefndar sagt, að framvegis muni verða reynt að hindra slík útgjöld, nema Alþingi fjalli um þau fyrst.

Hér í blaðinu hefur verið lagt til, að á þingtíma verði ekki veitt fé umfram fjárlög, nema að undangengnum fjáraukalögum hverju sinni, en að á sumrin nægi bráðabirgðaheimild frá fjárveitinganefnd Alþingis, sem síðan verði staðfest með fjáraukalögum strax að hausti.

Svo virðist sem þingmenn séu smám saman að komast á þá skoðun, að einhverjar slíkar skorður verði að setja ólöglegu bruðli ráðherra. Sumir vilja raunar ganga lengra og er það góðs viti. Líklega hefur þingmönnum loks ofboðið hömlulaust sukk núverandi ríkisstjórnar.

Breytt ytra form lagar ekki innihaldið að fullu, því að Alþingi er veikt fyrir sérhagsmunum eins og ráðherrarnir. En flóknari leið fjárútláta gegnum kerfið mun áreiðanlega tempra villtustu óskir ráðherra og gæludýra þeirra um herfang í garði skattgreiðenda.

Góður árangur næst fyrst með hugarfarsbreytingu stjórnmálamanna, sem mun sjást, þegar þeir hætta að tala um fjárdrátt ráðherra sem “aukafjárveitingar”.

Jónas Kristjánsson

DV

Tólf ára þrælkun

Greinar

Formaður Alþýðuflokksins hefur rétt fyrir sér, þegar hann segir siðlaust að gera nýjan búvörusamning milli ríkis og samtaka landbúnaðarins. Jón Baldvin Hannibalsson hefur líka á réttu að standa, þegar hann segir, að gerð núverandi búvörusamnings hafi verið siðlaus.

Það var stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks undir forsæti Steingríms Hermannssonar, sem gerði þennan illræmda samning einum mánuði fyrir síðustu kosningar. Með samningnum batt gamla ríkisstjórnin hendur nýrrar ríkisstjórnar eftir kosningar.

Samningurinn var til fjögurra ára og hefur legið eins og mara á tveimur ríkisstjórnum, fyrst stjórn Þorsteins Pálssonar og síðan stjórn Steingríms Hermannssonar. Samningurinn kom endanlega á ríkisrekstri á búskap með kýr og kindur og kostar nærri tíu milljarða á ári.

Stéttarsamband bænda vill hafa vaðið fyrir neðan sig, þótt þrjú ár séu eftir af samningstímanum. Það hefur krafizt nýs búvörusamnings, sem gildi tvöfaldan tíma, það er að segja í átta ár, frá árinu 1992 til ársins 2000. Fjögurra ára ánauð á að verða að tólf ára ánauð.

Alþýðuflokkurinn hefur fyrir sitt leyti ekki algerlega hafnað hugmyndinni um nýjan búvörusamning, en vill ekki, að hann feli í sér, að ríkið kaupi meira magn á hverju ári en sem nemur sölu ársins áður. Það væri nokkur bót á núverandi ástandi, en ekki mikil bót.

Offramleiðsla á dilkakjöti hefur leitt til aukinnar örvæntingar ríkisins við að reyna að koma út umframbirgðunum. Hin ýmsu tilboð, sem neytendur hafa fengið á síðustu misserum, eru að meira eða minna leyti á kostnað ríkisins, það er að segja skattgreiðenda.

Offramleiðslan hefur líka leitt til aukinnar skekkju í verðmyndun matvæla. Reynt er að koma út dilkakjöti á kostnað annars kjöts og annarra matvæla, sem gjarna eru skattlögð til að styðja dilkakjötið. Þannig hefur verið sett kjarnfóðurgjald á svínakjöt og kjúklinga.

Ef ríkið mundi samkvæmt tillögum Alþýðuflokksins kaupa á hverju ári sama magn og unnt var árið áður að troða inn á markaðinn með handaflsaðgerðum ríkisins á kostnað skattgreiðenda og framleiðenda annarra matvæla, væri hætt við, að offramleiðslan héldi áfram.

Tillögur Alþýðuflokksins um að takmarka niðurgreiðslur við dilkakjöt og að hætta niðurgreiðslum á mjólk, svo og að lækka kjarnafóðurskattinn, eru spor í rétta átt, en gera þó í stórum dráttum ráð fyrir, að verulegir þættir hins spillta kerfis fái að halda áfram.

Einna athyglisverðast í tillögum Alþýðuflokksins er, að rýmkaðar verði heimildir til innflutnings á landbúnaðarvörum, svo að þjóðin geti notfært sér hvort tveggja, lágan framleiðslukostnað í útlöndum og tilraunir auðþjóða til að losna við sína offramleiðslu.

Alþýðuflokkurinn hefur áður veifað sjónarmiðum af þessu tagi án þess að gera tilraun til að fylgja þeim eftir í stjórnarsamstarfi. Ekki er hægt að treysta, að tækifærissinnaður og veiklundaður flokkur á borð við Alþýðuflokkinn geri mikið úr stóru orðunum.

En óneitanlega er haldlítill Alþýðuflokkur samt betri kostur en Framsóknarflokkarnir þrír eða fjórir, sem treysta má til illra verka í landbúnaði, enda er einn þeirra, Sjálfstæðisflokkur, beinlínis höfundur að landbúnaðarþrælkuninni, sem þjóðin hefur verið hneppt í.

Fyrr eða síðar kemst einhver flokkur að raun um, að harkan sex í vörnum gegn þrælahaldinu er líkleg til að afla fylgis hjá neytendum og skattgreiðendum.

Jónas Kristjánsson

DV