Greinar

Sjálfstraust og töfratrú

Greinar

Sameiningartákn ríkisstjórnarinnar er skortur ráðherra á sjálfsgagnrýni. Þeir koma fram fyrir alþjóð eins og ekkert sé, þótt þeir ættu réttilega að vera í felum fyrir meðferð á hagsmunum þjóðarinnar, sem er ömurlegri en þjóðin hefur átt að venjast í tíð fyrri stjórna.

Þegar ráðherrar koma í sjónvarpinu inn á heimili fólks, eru þeir sjálfsöryggið uppmálað. Þeir tala eins og þeir þekki málin, sem þeir fjalla um. Þeir tala eins og þeir hafi ráð undir rifi hverju. Þeir tala eins og þeir séu einmitt réttu mennirnir til setu í ráðherrastólum.

Þetta lærist smám saman. Nú á tímum hljóta menn æfingu í ræðukeppni, þar sem skólanemar eru látnir tala í nokkrar mínútur með eða móti landbúnaði, allt eftir því hvorn hlutinn þeir draga. Áður lærðu verðandi stjórnmálamenn þetta á málfundum í menntaskólum.

Smám saman verður stjórnmálamönnum eiginlegt að þenja út brjóstkassann og tala af miklum alvöruþunga með eða móti einhverju máli, rétt eins og þeir hafi kynnt sér það eða hafi á því einhverja skoðun. Smám saman trúa þeir því sjálfir, að þeir séu klárir.

Stundum koma þeir upp um sig, eins og fyrrverandi ráðherrann, sem tók ofan gleraugun, þegar hann þurfti að fara með óvenjurangt mál. Aðrir taka sérstaklega fram, að þeir “segi ekki sannara orð”, þegar þeir skreyta mest. Með aukinni reynslu venja þeir sig af slíku.

Þetta sameiningartákn ríkisstjórnarinnar væri aðeins böl ráðherranna, ef kjósendur í stofum sínum áttuðu sig almennt á innihaldsleysi þess, sem ráðherrarnir í kassanum eru að segja. En því miður freistast margir til að halda, að allt sé nokkurn veginn með felldu.

Þetta tengist veikleika, sem er algengur meðal Íslendinga og er raunar vel þekktur víða um heim. Það er trúin á happdrættisvinninginn, vonin um að fá eitthvað fyrir ekki neitt. Það er íslenzki draumurinn að geta “skafið” sig út úr fjárhagsvandræðum sínum.

Þetta þýðir, að meðal okkar er útbreidd trú á furðulausnir. Menn reyndu á sínum tíma unnvörpum að verða ríkir á keðjubréfum. Menn taka þátt í hverju happdrættiskerfinu á fætur öðru, jafnvel þótt vinningshlutfallið lækki með hverju kerfi, sem bætist við.

Margir trúa orðum stjórnmálamanna um, að hitt eða þetta muni leysa allan vanda. Einu sinni áttu gras kögglaver að leysa vanda landbúnaðarins. Þær voru reistar af opinberu fé um allt land og fóru síðan á hausinn. Hið sama gerist nú með fóðurstöðvar loðdýranna.

Margir hafa verið reiðubúnir að taka trú á eitthvert eitt mál, til dæmis á fiskirækt. Í hvert skipti sem slíkt mál kemst í tízku, flykkjast menn unnvörpum í greinina til þess að láta þekkingarleysi sitt og peningaleysi verða að víðtæku gjaldþroti, sem snertir ótal aðila.

Fólk, sem gengur svo langt að nota happdrættisvinninga, sem það býst við að fá, er auðvitað veikt fyrir töfralausnum stjórnmálamanna. Þetta veldur vandræðum víða um heim, til dæmis í Argentínu. Við erum ekki einir um að eiga erfitt með að horfa á veruleikann.

Þetta stuðlar að því, að fólk kippir sér ekki upp við, þótt ráðherra komi annan daginn í sjónvarp til að segja, að ekki verði tekin erlend lán á þessu ári, og hinn daginn til að segja, að hækkun erlendra lána um nærri tíu milljarða króna á þremur mánuðum muni kosta fórnir.

Viðbrögð töfratrúaðra við sjónhverfingum ráðherra magna sjálfstraust hinna síðarnefndu og magna vítahring ímyndunarinnar um, að eitthvað fáist fyrir ekkert.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkisstjórnin er gjaldþrota

Greinar

Tveir ráðherrar Alþýðuflokksins hafa nærri samtímis lýst yfir, að gott sé, að ríkisstjórnin sé óvinsæl. Þeir héldu því opinberlega fram, að óvinsældir ríkisstjórnarinnar í skoðanakönnunum sýndu, að hún væri á réttri leið við sársaukafullar ráðstafanir og lækningar.

Þeir virðast hafa heyrt um, að erlendis hafi risið upp miklir þjóðarleiðtogar, sem hafi látið þjóðir sínar ganga gegnum hreinsunareld til að leggja grunn að nýrri framfarasókn. Eitt nýjasta dæmið um þetta er forsætisráðherra Bretlands, sem sífellt er að reyna að siða þjóðina.

Þótt dæmi séu til um, að óvinsælar ráðstafanir gefist vel og að óvinsælar ríkisstjórnir reynist í ljósi sögunnar hafa staðið sig vel, er ekki þar með unnt að segja, að óvinsældir tryggi, að svo sé. Ríkisstjórnir geta líka verið óvinsælar, af því að þær eru einfaldlega óhæfar.

Ríkisstjórnin, sem nú situr, er óvinsæl, af því að hún er ófær um að valda hlutverki sínu. Hún er svo hræðileg, að svita setur að fólki, þegar það fréttir, að ráðherrarnir séu setztir við heilastormun á Þingvöllum til að finna upp á nýjum bjargráðum ofan á hin fyrri.

Í ríkisstjórninni sitja tveir hagfræðingar, hinir sömu ráðherrar og hafa lýst ánægju sinni yfir óvinsældum hennar. Samt hefur engin ríkisstjórn í þrjá áratugi verið jafnlaus við hagfræðilega hugsun. Og greinilegt er, að hún hefur vonda ráðgjafa á hagfræðilegum sviðum.

Hún hefur frá upphafi beitt einu ráði ótæpilega til að leysa öll vandamál á einfaldan hátt. Hún hefur grýtt peningum í þau. Hún byrjaði á milljörðum króna í atvinnutryggingasjóð og hlutafjársjóð. Síðan keypti hún sér frið á vinnumarkaði fyrir nokkra milljarða króna.

Á milli hefur hún mátt vera að því að grýta milljörðum í landbúnað umfram milljarðana á fjárlögum. Hún hefur grýtt fé í auknar útflutningsbætur og niðurgreiðslur og er í þann veginn að grýta fé í loðdýrarækt. Hana dreymir um stórvirki í borun fjalla og skógrækt.

Ef fjölskyldufaðir eða -móðir hagaði sér svona í fjármálum, væri hann eða hún talin vitskert. Vinir og ættingjar mundu flýta sér að reyna að ná fjárráðum af hinu gæfulausa fólki. En ríkisstjórnin fær að rótast eins og henni þóknast og jafnvel gorta af óvinsældunum.

Ein afleiðinga stjórnarfarsins er, að útgjöld ríkisins fara sex milljarða króna fram úr fjárlögum á þessu ári. Að mestu leyti eru útgjöldin brot á stjórnarskránni, sem segir orðrétt, að “ekkert gjald má greiða af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum”.

Að sjálfsögðu eru engir peningar til fyrir öllum þessum stjórnarskrárbrotum. Þess vegna lætur ríkisstjórnin Seðlabankann prenta myndir á pappír og kallar peningaseðla. Þessir seðlar eru ekki ávísun á nein verðmæti, heldur útþynning á gjaldmiðli þjóðarinnar.

Önnur afleiðing stjórnarfarsins er, að á bara þremur mánuðum hafa verið tekin erlend lán, sem nema 10 milljörðum umfram endurgreiðslur eldri lána. Á einu ári mundi sukk af slíku tagi hlaðast upp í 40 milljarða, ef ekki finnst leið til að stöðva brjálæðið.

Þriðja afleiðing stjórnarfarsins er, að Ísland er farið að skera sig úr hópi þjóða, sem voru áður á svipuðu róli. Þetta eru lönd Efnahagsþróunarstofnunarinnar. Í þeim öllum er aukinn hagvöxtur um þessar mundir, nema á Íslandi, þar sem samdráttur ríkir og fer vaxandi.

Þúsund Reykvíkingar hafa lýst sig gjaldþrota á fyrri hluta þessa árs. Tímabært er orðið, að ríkisstjórnin hætti að gorta af óvinsældunum og lýsi sig gjaldþrota.

Jónas Kristjánsson

DV

Sérhagsmunir ofar öllu

Greinar

Fólk hugsar lítið um óáþreifanlega hagsmuni, sem það hefur af, að áþreifanlegir sérhagsmunir tröllríði ekki sameiginlegum hagsmunum. Þess vegna er þrýstingur af hálfu sérhagsmuna yfirleitt miklu öflugri en þrýstingur af hálfu hinna, sem verjast sérhagsmunum.

Til dæmis er mjög erfitt að verjast óskum um beinan og óbeinan stuðning við 120 fjölskyldur, sem lifa af loðdýrarækt, af því að þar er um áþreifanlega sérhagsmuni að ræða. Kostnaðurinn við stuðninginn dreifist á 250.000 manns, sem finna ekki fyrir þessu hver og einn.

Á þennan hátt hefur verið byggt upp kerfi til stuðnings hefðbundnum landbúnaði. Það hefur gífurleg áhrif á sérhagsmuni þeirra, sem kerfisins njóta, en þynnist út, þegar kostnaðurinn dreifist á skattgreiðendur í heild. Fólk rís því ekki upp gegn hinu dýra styrkjakerfi.

Þótt margir verði varir við óréttlætið í að sameiginlegir hagsmunir verða yfirleitt að víkja fyrir sérhagsmunum, draga þeir ekki þá ályktun, að hamla verði gegn sérhagsmununum, heldur hina, að reyna að finna eitthvert svið, þar sem þeir geti sjálfir notið sérhagsmuna.

Þetta er óskin um að fá hlutdeild í herfanginu, sem myndast við, að Stóri bróðir tekur til sín umtalsverðan hluta af fjármunum þjóðfélagsins og dreifir þeim á nýjan leik, sumpart til félagslegra þarfa, en einkum þó til sérhagsmuna, sem hafa góðan aðgang að ríkiskerfinu.

Stundum leiðir þetta til sérkennilegrar niðurstöðu, svo sem komið hefur í ljós í deilunni um, hvort húsnæðismálastjórn hafi, aldrei þessu vant, hlunnfarið sérhagsmuni landsbyggðarinnar í úthlutun fjármagns til byggingar íbúða, sem kallaðar eru félagslegar.

Sjálfvirkir hagsmunagæzlumenn strjálbýlisins með alþingismenn í broddi fylkingar hafa mótmælt harðlega. Þeir hafa bent á, að nýja úthlutunin muni auka mjög vinnu í byggingariðnaði í Reykjavík og í Reykjaneskjördæmi, en draga úr slíkri vinnu annars staðar.

Þessi viðbrögð stafa meðal annars af, að mjög auðvelt er að sjá hagsmuni þeirra, sem hafa atvinnu af byggingaframkvæmdum. Hins vegar gleymast hagsmunir hinna, er eiga fasteignir utan Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmisins, sem þeir geta ekki losnað við.

Stuðningur við byggingaframkvæmdir á landsbyggðinni hefur víða leitt til, að verðgildi eigna, sem fyrir eru, hefur fallið stórlega. Í sumum tilvikum hafa þær orðið óseljanlegar og standa jafnvel ónotaðar. Á sama tíma er verið að byggja nýtt til að búa til vinnu.

Svo virðist sem hagsmunir byggingariðnaðarins séu áþreifanlegir og hafi áhrif á æsing og gerðir stjórnmálamanna. Hins vegar virðast hagsmunir húseigenda, sem eru þó mun fleiri á hverjum stað, ekki vera áþreifanlegir og því ekki jafna út hina hagsmunina.

Breiðustu og dreifðustu hagsmunir þjóðarinnar eru óáþreifanlegir hagsmunir neytenda og skattgreiðenda, almennra kjósenda. Þetta eru líka um leið hagsmunirnir, sem mest er traðkað á, þegar stjórnmálamenn og embættismenn eru að velja sérhagsmuni til að þjóna.

Meðan fólk neitar að verja hina ótalmörgu litlu hagsmuni sína sem neytendur og skattgreiðendur, en vill klífa fjöll til að krækja í hlutdeild í herfangi sérhagsmuna, mun íslenzka lýðveldið halda áfram að vera eins konar sjálfsafgreiðslustofnun sérhagsmuna.

Raunar hafa kjósendur sjálfir ákveðið og eru að ákveða, að ástandið skuli vera eins og það er. Meðan svo er, má ekki búast við skorðum við sérhagsmunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjósendur borgi loðdýrin

Greinar

Eðlilegt er, að samfélagið dragi loðdýrabændur upp úr feninu. Þeir eru þar ekki nema að litlu leyti fyrir eigin tilverknað. Þeir sukku meira eða minna á ábyrgð embættismanna, stjórnmálamanna og hagsmunagæzlumanna landbúnaðarins, sem öttu þeim á foraðið.

Stofnkostnaður loðdýraævintýrisins nemur nú tveimur milljörðum króna. Árlegar útflutningstekjur greinarinnar eru ekki nema brot af þeirri upphæð, líklega ekki nema tíundi hluti, eins og markaðshorfur eru núna. Dæmið er því algerlega og átakanlega vonlaust.

Bezt er að fyrirgreiðsla skattgreiðenda fyrir hönd kjósenda verði sem mest á þann hátt, að dregin verði saman segl í loðdýraræktinni. Búum verði fækkað og ekki verði rekin önnur en þau, er liggja vel við þeim fóðurstöðvum, sem eru ódýrastar í rekstri.

Vegna byggðasjónarmiða var loðdýrabúum dreift fram um alla dali, þótt nauðsynlegt sé að hafa þau í nágrenni fóðurstöðva, ef nokkur von á að vera, að þau standist alþjóðlega samkeppni. Byggðastefnumenn stjórnmála og stjórnkerfis bera ábyrgð á þessum glæp.

Vegna byggðasjónarmiða voru fóðurstöðvar hins opinbera ekki reistar við hliðina á fiskvinnslustöðvum, þar sem hráefnið er nærtækast. Það hefði verið nauðsynlegt, ef nokkur von hefði átt að vera um, að loðdýraræktin íslenzka stæðist alþjóðlega samkeppni.

Vegna dreifingar loðdýrabúa og fóðurstöðva er kostnaður við fóður og flutninga mun meiri en þarf. Að baki harmleiksins eru pólitískar ákvarðanir, sem eru fremur á ábyrgð kjósenda en loðdýrabænda. Það eru kjósendur, sem hafa gefið eyðsluseggjum lausan tauminn.

Að vísu voru menn varaðir við. Frá upphafi var haldið fram hér í blaðinu og víðar, að þetta yrði ekki ævintýri, heldur martröð. Hið opinbera gæti ekki byggt upp samkeppnishæfa atvinnugrein með handafli ótakmarkaðra sjóða. Greinin yrði að taka út hægan þroska.

Einnig var bent á, að bændum væri ýtt úr tiltölulega öruggu starfi hjá ríkinu, sem kaupir afurðir sauðfjár og nautgripa. Það var verið að taka kúa- og kindakvóta af hálfgerðum embættismönnum og gera þá að ábyrgðarmönnum áhætturekstrar í alþjóðlegri samkeppni.

Fáránlegt er, að unnt sé að taka menn úr vernduðu umhverfi, þar sem ríkið sér fyrir öllu, þar á meðal fyrir ákveðnu verði fyrir afurðirnar, og segja þeim að fara að selja refa- og minkaskinn á uppboði hjá Hudson Bay, þar sem hin hörðu lögmál samkeppninnar ráða ríkjum.

Sorglegt er, að þetta var meðal annars gert til að rýmka um kvóta annarra bænda til að framleiða afurðir sauðfjár og nautgripa, sem ekki er einu sinni unnt að selja á hinum verndaða innanlandsmarkaði. Erfitt verður fyrir loðdýrabændur að endurheimta kvótann.

Skiljanlegt var, að verðandi loðdýrabændur hlustuðu ekki á menn, sem sagðir voru sérvitringar eða jafnvel óvinir bændastéttarinnar. Eðlilegt var, að þeir hlustuðu fremur á hagsmunagæzlumenn sína, stjórnmálamenn og embættismenn ráðuneytis og landbúnaðarstofnana.

Hagsmunagæzlumenn verða ekki dregnir til ábyrgðar, því að þeirra hlutverk er að hafa fé af skattgreiðendum. Embættismenn ráðuneytis og landbúnaðarstofnana verða ekki dregnir til ábyrgðar, því að þeir voru studdir eyðsluglöðum byggðastefnumönnum stjórnmálanna.

Stjórnmálamennirnir, er létu þjóðfélagið borga tvo milljarða í martröðina, hafa verið endurkosnir og verða endurkosnir. Ábyrgð fjárglæfranna hvílir á kjósendum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gott tilboð úr austri

Greinar

Sovétmenn segjast nú vera reiðubúnir að fórna yfirburðunum, sem þeir hafa í hefðbundnum vopnabúnaði í Evrópu og greiða þannig fyrir, að Vesturlönd geti fallizt á frekari samdrátt kjarnavopnabúnaðar, til dæmis afnám skammdrægra eldflauga, sem deilt hefur verið um.

Margir Vesturlandabúar, einkum forustumenn Bandaríkjanna og Bretlands, hafa óttazt, að samningar um sífellt viðameiri samdrátt og afnám ýmissa tegunda kjarnavopna mundu gera Sovétríkjunum kleift að nýta yfirburði sína í hefðbundnum vopnum á meginlandinu.

Lengi hefur verið stefna Atlantshafsbandalagsins að spara sér að halda til jafns við Sovétríkin í hefðbundnum vopnum með því að halda uppi ógnarjafnvægi á sviði kjarnorkuvopna. Vesturlönd hafa kjarnorkuvopn að skjóli gegn hugsanlegri skriðdrekainnrás úr austri.

Nú hefur Gorbatsjov enn einu sinni komið á óvart. Þar er ekki átt við tilboð hans um einhliða fækkun sovézkra kjarnaflauga gegn því, að Atlantshafsbandalagið hefji viðræður um afnám skammdrægra kjarnaflauga í Evrópu. Því boði hefur þegar verið hafnað.

Eitt atriðanna, sem máli skiptir, er, að sovézkir samningamenn féllust í síðustu viku á mikla fækkun í hefðbundnum herjum Sovétríkjanna og Varsjárbandalagsins í nágrenni járntjaldsins, raunar meiri samdrátt en samningamenn Vesturlanda höfðu áður heimtað.

Það skiptir líka máli, að við sama tækifæri lögðu samningamenn Sovétríkjanna til, að Atlantshafsbandalagið fækkaði ekki eins mikið í hefðbundnum herjum sínum í nágrenni járntjaldsins og það var sjálft búið að bjóða. Þetta eflir traust á hinum nýja friðarvilja.

Annað atriði, sem skiptir miklu, er, að Sovétríkin hafa fallizt á að flytja fastaherinn, sem er að baki framherjanna, langt inn í Sovétríkin og fækka þar með mjög mikið í herliði og vopnabúnaði af hefðbundnu tagi á mörg hundruð kílómetra svæði í Mið- og Austur-Evrópu.

Þetta er einmitt það, sem Vesturveldin þurfa. Það eykur öryggi, þegar herlið og vopnabúnaður eru flutt úr árásarstöðu í varnarstöðu. Það gefur hinum aðilanum tíma til að búast til varnar, þegar hann verður var við óeðlilega herflutninga langt að baki landamæranna.

Staðreyndin er, að til skamms tíma voru samningar um kjarnavopn komnir langt fram úr samningum um önnur vopn. Nú er kominn tími til að huga að hefðbundnum vopnum, svo að frekari samningar í afvopnunarkapphlaupinu leiði til raunhæfara öryggis.

Skyndiárás er það, sem menn óttast mest í Atlantshafsbandalaginu. Því fjær, sem her er fluttur frá landamærunum, þeim mun meiri tíma tekur að skipa liði til sóknar. Og njósnatækni gerir varnaraðila kleift að fylgjast sæmilega vel með slíkum liðsflutningum.

Opnunin í viðræðum um samdrátt í hefðbundnum vopnabúnaði, einkum í nágrenni járntjaldsins, er annað af tveimur mikilvægustu sviðunum í friðarviðræðum austurs og vesturs. Hitt sviðið felst í viðræðum um gagnkvæmt eftirlit með því, sem málsaðilar eru að gera.

Tillögur, sem varða kjarnavopn, eru gjarnan í sviðs ljósinu, enda notaðar sem áróðurstæki. Sem betur fer er fleira að gerast í viðræðum austurs og vesturs en tilboð um slík vopn eingöngu. Og tillögur Sovétríkjanna frá því í síðustu viku eru tímamótaskref í átt til öryggis.

Með hverjum mánuðinum sem líður verður friðvænlegra og öruggara að búa í Evrópu. Það er bjartasta hlið líðandi stundar. Vonleysi er að víkja fyrir von.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjórir flokkar vaðmáls

Greinar

Þeim fjölgar stöðugt, sem átta sig á, að afskipti ríkisins af landbúnaði eru eitt af því, sem veldur þjóðinni mestum vandræðum í lífsbaráttunni. Síðast lagði formaður Alþýðuflokksins orð í þennan belg í hreinskilnislegu spjalli við málgagn sitt um helgina.

Þar áður höfðu hagfræðingar í Háskóla og Seðlabanka tekið undir það sjónarmið, sem til skamms tíma var fáeinna sérvitringa, að ríkisrekstur landbúnaðarins væri orðinn þjóðinni óbærilegur. Jafnvel Morgunblaðið hefur stunið upp hliðstæðum athugasemdum í leiðara.

Yfirleitt eru það sömu atriðin, sem stinga í augu gamalla og nýrra gagnrýnenda kerfisins. Menn vilja ekki, að ríkið kaupi búvöruna og slíti þar með tengsl framboðs og eftirspurnar. Því vilja menn ekki framlengja búvörusamninginn illræmda, þegar hann rennur út.

Menn vilja ennfremur opna búvörukerfið með því að leyfa erlendum vörum að halda uppi samkeppni og lækka vöruverðið. Það mundi bæta hag neytenda og létta byrðum af skattgreiðendum. Flestir vilja líka, að stefnt verði að afnámi niðurgreiðslna og styrkja.

Jón Baldvin Hannibalsson gengur lengra í röksemdafærslunni á sama hátt og gert hefur verið hér í blaðinu. Hann bendir á, að fjórir stjórnmálaflokkar hafa bannhelgi á að orða nokkuð skynsamlegt í málinu, jafnvel þótt hinir sömu flokkar kveini um hátt matarverð.

Þessir flokkar eru auðvitað Framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, Alþýðubandalagið og Kvennalistinn, fjórir öflugustu óvinir neytenda og skattgreiðenda í landinu. Framsóknarflokkurinn sker sig ekki úr, því að hinir yfirbjóða hann gjarna í ruglinu.

Munur Framsóknarflokks og Kvennalista er fyrst og fremst sá, að hinn fyrri telur sig vera að gæta hagsmuna bænda og að hinn síðari telur sig vera að gæta hagsmuna bændakvenna. Að öðru leyti eru vaðmálssjónarmiðin hin sömu hjá þessum miðaldaflokkum.

Munur Sjálfstæðisflokks og Alþýðubandalags er fyrst og fremst sá, að hinn fyrri er Framsóknarflokkur, sem telur sig styðja “varnir landsins”, en hinn síðari er Framsóknarflokkur, sem telur sig vera “gegn her í landi”. Að öðru leyti er vaðmálið sama hjá báðum.

Segja má Alþýðuflokknum til hróss, að þar hafa menn helzt viljað hrófla við glæpnum. Gylfi Þ. Gíslason lýsti stundum áhyggjum af landbúnaðarkerfinu. Og Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra leyfir erlendu smjörlíki að keppa við innlent smjör í takmörkuðum mæli.

Hinn sami viðskiptaráðherra framdi þau helgispjöll á Alþingi í vetur að kvarta yfir ofbeitinni í landinu. Enginn studdi hann þar. Þvert á móti reis vaðmálslið allra flokka upp á afturfæturna og átti tæpast orð til að lýsa hneykslun sinni á sannleiksorðum ráðherrans.

Og nú hefur formaður Alþýðuflokksins stigið skrefið til fulls og upplýst, að ekki sé unnt að stjórna landinu fyrir landbúnaðarrugli, sem kostar þjóðina fjölda milljarða króna á hverju ári. Hann hefur greinilega séð ljósið og er kominn í raðir svonefndra sérvitringa.

Hitt flæktist meira fyrir honum að sannfæra lesendur um, að rétta leiðin út úr myrkrinu væri á vegum Alþýðuflokksins. Satt að segja hafa upphlaup í þeim flokki út af landbúnaði verið tilviljanakennd. Enginn markviss málafylgja hefur sézt innan ríkisstjórnarinnar.

En orð eru til alls fyrst. Viðtal formannsins er tákn um, að þinglið og þingfylgi fara senn að grisjast af vaðmálsliðinu, sem þjóðin lætur halda sér í gíslingu.

Jónas Kristjánsson

DV

Heimasmíðuð kreppa

Greinar

Tæplega 2000 manns hafa verið atvinnulaus að jafnaði fyrstu mánuði þessa árs. Það er um það bil tvöfalt á við það, sem var árin 1969 og 1983, er voru verstu ár lýðveldisins. Atvinnuleysi hefur raunar ekki verið svona mikið síðan í kreppunni miklu fyrir stríð.

Segja má, að 2000 manns séu ekki óbærilega mikill fjöldi. En spáð er í Verzlunarráði, að talan fari upp í 5000 manns með haustinu. Líklegt má því telja, að næsti vetur verði mun harðari en hinn síðasti og að heimagerða kreppan fari að síga á með vaxandi þunga.

Fyrirtæki standa hvarvetna höllum fæti. Landbúnaðurinn liggur alveg uppi á ríkissjóði og skattgreiðendum. Fyrirtæki í sjávarútvegi ramba á barmi gjaldþrots og eru sum á gjörgæzlu hjá opinberum sjóðum. Þjónustufyrirtæki búa við taprekstur eins og Sambandið.

Á sama tíma hafa lífskjör almennings versnað, einnig þeirra, sem enn hafa atvinnu. Ekki var fyrr búið að rita undir allsherjar kjarasamninga í vor en ríkisstjórnin tók alla kjarabótina til baka og meira til með nokkrum völdum handaflsgerðum til bjargar ríkissjóði.

Við sjáum fram á gjaldþrot fyrirtækja og samdrátt í atvinnulífi. Við sjáum fram á mikið og vaxandi atvinnuleysi og gjaldþrot heimila. Landflótti er að hefjast, svo sem sést af auknum fyrirspurnum hjá sendiráðum Norðurlanda. Mörg mögur ár virðast vera framundan.

Íslenzka kreppan á sér enga forsendu utan landsteina. Efnahagur þjóða blómstrar hvarvetna umhverfis okkur. Verðlag útflutningsafurða okkar er fremur hátt, þar sem kaupgeta er mikil í útlöndum. Við ættum við eðlilegar aðstæður að geta fylgt

Íslenzka kreppan byggist ekki á aflabresti. Sjávarafli okkar er mikill og góður og hefur verið tiltölulega jafn árum saman. Vísindamenn telja, að við þurfum að fara að draga meira úr sókninni. Þau ráð hafa enn ekki verið þegin, svo að kreppan er ekki því að kenna.

Sérstaða íslenzku kreppunnar er, að hún er heimatilbúin. Hún er framleidd með handafli íslenzkra stjórnvalda. Við höfum í tæpt ár mátt þola ríkisstjórn, sem er mun hneigðari fyrir miðstýringu en nokkur önnur stjórn hefur verið á síðustu þremur áratugum.

Vandamálin byrjuðu þó fyrir tíð þessarar ríkisstjórnar. Einna alvarlegasta atlagan að þjóðarhag var búvörusamningur til fjögurra ára, sem fyrri ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gerði fyrir rúmlega tveimur árum. Samningurinn hneppti þjóðina í þrældóm.

En það er ekki fyrr en með tilkomu síðari ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar, að hjól ógæfunnar hafa farið að snúast af fullum krafti. Frá upphafi hefur stjórn hans hagað sér í fjármálum og atvinnumálum eins og peningar væru skítur, sem dreifa bæri út í veður og vind.

Þegar í fyrrahaust voru stofnaðir milljarðasjóðir til að tryggja framhald á örvæntingarrekstri úr fortíðinni og um leið óbeint til að hindra þróun nýs rekstrar, sem horfði til framtíðar. Æ síðan hefur stjórnin gengið fram eins og hver milljarður króna væri bara skiptimynt.

Sumum vandræðum hefur verið frestað með erlendum lánum. Önnur hafa lent á ríkissjóði, sem rekinn er með milljarðahalla á þessu ári og verður með tvöfalt meiri halla á því næsta. Ríkisstjórnin telur sig því þurfa að ná meiri sköttum af fátækara fólki og fyrirtækjum.

Ráðherrar sitja á kafi í eigin ósóma og halda áfram að haga sér eins og þeir séu húsum hæfir og hafi meira að segja vit á enn meira handafli, enn meiri miðstýringu.

Jónas Kristjánsson

DV

Góð byrjun hjá þeim gamla

Greinar

Dagblaðið Tíminn er á gamals aldri farið að taka þátt í að ræða um, hversu mikið sé tjón okkar af landbúnaði. Kemst blaðið að þeirri niðurstöðu, að tölur DV um 10,5 milljarða árlegt tjón neytenda á ári séu 1,8 milljörðum of háar. Eftir ættu þá að standa 8,7 milljarðar.

Ofangreindar tölur eru um tjón neytenda af núverandi banni við innflutningi á ýmissi búvöru og takmörk unum á innflutningi sumrar annarrar búvöru. Blöðin eru að fjalla um, hvort neytendur mundu græða 8,7 eða 10,5 milljarða á frjálsum innflutningi búvöru.

Tíminn telur rangt að miða álagningu í heildsölu og smásölu á erlenda búvöru við prósenturnar, sem nú eru notaðar. Hann segir, að verzlunin þurfi hærra hlutfall, þegar grunnverðið lækkar. Vitnar blaðið í kaupmann, sem segist mundu þurfa hærra álagningarhlutfall.

Hafa verður í huga, að núverandi álagning milliliða í landbúnaði er hærri hér á landi en tíðkast í öðrum löndum. Hún er hér 15% í heildsölu og 20% í smásölu. DV taldi, að aukin samkeppni í kjölfar verzlunarfrelsis mundi halda innlendri álagningu í skefjum.

Ekki skiptir öllu máli, hvort neytendur mundu græða 8,7 milljarða eða 10,5 milljarða á frjálsri verzlun með innlenda og erlenda búvöru. Meira máli skiptir, að fjölmiðlar eru farnir að fjalla efnislega um einstök atriði útreikningsins í stað þess að neita staðreyndum.

Mestu máli skiptir þó, að sérhver fjölskylda í landinu hefði stórgróða af sínum hlut upphæðarinnar, hvort sem hún nemur 8,7 eða 10,5 milljörðum króna. Athyglisvert er einnig, að þetta atriði hefur að verulegu leyti farið framhjá samtökum neytenda og launafólks.

Ýmsir fleiri hafa tekið þátt í þessari umræðu, þar á meðal hagfræðingarnir Þorvaldur Gylfason og Markús Möller. Í stórum dráttum eru niðurstöðutölurnar svipaðar, 8,7­12,6 milljarðar, hjá öllum aðilum, þótt reikningsaðferðirnar séu að ýmsu leyti misjafnar.

Tölurnar fara að nokkru eftir álagningarprósentunni, sem miðað er við. Þær fara líka eftir, hvort útreikningarnir ná aðeins yfir afurðir kúa og kinda eða hvort einnig er tekið tillit til afurða fiðurfénaðar, svína og garðyrkju. Efnislega eru reikningsmenn sammála.

Gaman væri, að Tíminn tæki þátt í fleiri liðum umræðunnar um herkostnað þjóðarinnar af landbúnaði. Hann gæti til dæmis reiknað, hver yrði hagnaður skattgreiðenda af frjálsri innflutningsverzlun búvöru og hver yrði gjaldeyrissparnaður þjóðarinnar af henni.

DV hefur reiknað út, að skattgreiðendur mundu spara sér 4,3 milljarða á ári, ef ríkið hætti fjárhagslegum afskiptum af landbúnaði og gæfi verzlunina frjálsa. Tíminn gæti til dæmis reynt að lækka þessa tölu eitthvað og þá væntanlega með góðum rökstuðningi.

DV hefur einnig lagt saman tvo og tvo og komizt að raun um, að samanlagður sparnaður neytenda og skattgreiðenda mundi jafngilda 30.000 krónum á mánuði í launaumslagi fjögurra manna fjölskyldu. Dagblaðið Tíminn gæti kannski fengið 25.000 krónur úr dæminu.

DV hefur ennfremur reiknað út gjaldeyriskostnað við aðföng landbúnaðarins og gjaldeyriskostnað við að halda fólki við landbúnað í stað arðbærra starfa, sem afla gjaldeyris eða spara hann. Tíminn gæti kannski með góðum rökum klipið eitthvað af þeim tölum.

En menn eru alténd farnir að ræða af viti um stærsta vanda þjóðarinnar, þegar þeir eru farnir að rökræða, hvor talan sé réttari, 10,5 eða 8,7. Það er góð byrjun.

Jónas Kristjánsson

DV

Verndun dýrra matvæla

Greinar

Varaforseti Alþýðusambandsins tók efnislega afstöðu, þegar hann var spurður álits hér í blaðinu á sölu ódýrra landbúnaðarafurða frá útlöndum. Í svarinu fjallaði hann um hagsmuni umbjóðenda sinna af lækkun matvælakostnaðar í landinu frá því sem nú er.

Formaður bandalags opinberra starfsmanna flutti hins vegar þjóðhátíðarræðu í stað svars. Efnislega jafngilti ræða hans þessu: Landbúnaðurinn má áfram vera stikkfrí gagnvart mínu fólki, enda er ég manna þjóðlegastur og vil ekki borða útlent hormónakjöt.

Athyglisvert er, að hin þjóðlega fæða, sem umbjóðendur formannsins telja sig raunar ekki hafa efni á að kaupa, fær ekki gæðastimpil í útlöndum. Eftirlitsmenn frá Bandaríkjunum og Evrópubandalaginu hafa skoðað aðstæður á Íslandi og neitað að samþykkja þær.

Nú geta menn talið, að hollustukröfur á þessum stöðum séu bara yfirskin til að vernda eigin landbúnað. Að minnsta kosti segja Bandaríkjamenn, að bann Evrópubandalagsins við innflutningi svokallaðs hormónakjöts sé dulbúin verndun landbúnaðar í bandalaginu.

Einn innlendur aðili velkist ekki í neinum vafa um, að hollustukröfur Evrópubandalagsins gegn hormónum í kjöti séu bara yfirskin. Það er íslenzka landbúnaðarráðuneytið, sem hefur fjallað um málið í einni af sínum mörgu og merku yfirlýsingum á síðustu mánuðum.

Ráðuneytið telur sig vita þetta af eigin vinnubrögðum. Það veit, að innflutningur erlends kjöts til Íslands er bannaður undir yfirskini hættu á gin- og klaufaveiki, en er í raun bannaður til að vernda íslenzkan landbúnað. Það telur, að aðrir hagi sér eins og það gerir.

Það er ekki heilbrigðisráðuneytið eða embættismenn á þess vegum, sem standa að banni við innflutningi á erlendu kjöti. Það eru landbúnaðarráðuneytið og embættismaður á þess vegum, sem framleiða útskýringar á, hvers vegna kauplágt fólk má ekki kaupa ódýrt kjöt.

Raunar hefur landbúnaðarráðuneytið verið að færa sig upp á skaftið og tekið að sér hreina hagsmunagæzlu fyrir landbúnaðinn á svipaðan hátt og félag iðnrekenda fyrir iðnaðinn, félag stórkaupmanna fyrir heildverzlunina og félag útvegsmanna fyrir útgerðina.

Þegar landbúnaðurinn verður fyrir kárínum á prenti, er það ekki lengur Stéttarsamband bænda, sem rekur upp ramakvein. Það er landbúnaðarráðuneytið, sem hefur tekið að sér hlutverkið að kæra vondra manna róg. Það er orðið að fimmtu herdeild í stjórnkerfinu.

Af ummælum formanns bandalags opinberra starfsmanna má ráða, að það sé fögur iðja að halda ódýrum matvælum frá fólki. Menn sjá fyrir sér íbúa iðnríkjanna beggja vegna Atlantshafsins engjast um af ofáti hormóna í kjöti. Merkilegt er, að engar dánarfréttir fylgja.

Þegar formaðurinn var í París um daginn, hefði hann getað komizt að raun um, að Frakkar hafa það bara nokkuð gott og kaupa þó kjöt og annan mat frá öllum heimshornum, nokkurn veginn eins og þeim þóknast, að nautakjöti frá Bandaríkjunum undanskildu.

Sá er helztur munur Íslands og nálægra landa, að matvæli kosta meira hér á landi, enda er innflutningur samkeppnisvöru bannaður hér, en annars staðar leyfður með léttvægum takmörkunum. Þessi munur leiðir til, að Íslendingar þurfa hærra kaup en ella.

Formaðurinn telur samt rangt að bæta kjör umbjóðenda sinna með því að veita þeim aðgang að jafngóðum, ódýrari matvælum. Hann virðist dæmigerður pólitíkus.

Jónas Kristjánsson

DV

Myrkrið kúgar miðlunina

Greinar

Kommúnistar í Kína eru nú að gera það, sem kommúnistum hefur alltaf tekizt betur en öðrum, að drepa fólk og segja, að svart sé hvítt. Í þessu felst munurinn á hörmungunum, sem kommúnistar hafa leitt yfir heiminn, og hörmungum af völdum annarra glæpaflokka.

Í meirihluta ríkja heims á fólk bágt af völdum þeirra, sem stjórna, einkum í þriðja heiminum. En harðstjórar þriðja heimsins skirrast flestir við að aka skriðdrekum yfir landsmenn sína. Og þeir guggna yfirleitt á að halda til streitu, að svart sé hvítt og hvítt sé svart.

Kínverskir ráðamenn láta sér hins vegar ekki nein tilfinninga- eða samvizkumál koma nærri, þegar um völdin í landinu er að tefla. Deng Xiaoping hefur enn einu sinni minnt okkur á, hversu fallvalt er að trúa á friðsamlega sambúð með hvers kyns kommúnisma.

Okkur er hollt að minnast þess, að í nokkur ár tók Deng Xiaoping upp á að brosa við umheiminum. Hann gabbaði Bandaríkjamenn upp úr skónum, fékk George Bush í heimsókn og reisti með þeim hlerunarstöð í Kína til að fylgjast með gangi mála í Sovétríkjunum.

Auðvitað plataði hann líka Steingrím Hermannsson og ótal iðjuhölda og kaupsýslumenn, sem ætluðu að græða peninga á hinum risastóra markaði í Kína. Vesturlandamenn neituðu einfaldlega að skilja, að viðhlæjendur þeirra í Kína voru erfingjar Hitlers og Stalíns.

Nú eru menn á Vesturlöndum reiðubúnir að trúa, að þróun í átt til lýðræðis í Sovétríkjunum og sumum ríkjum Austur-Evrópu sé að þessu sinni ekki afturkallanleg á sama hátt og vorið í Kína árið 1989, vorið í Póllandi 1981, Tékkóslóvakíu 1968 og Ungverjalandi 1954.

Annars vegar virðist trúgirni fólks lítil takmörk sett, þegar glæpamenn taka upp á að brosa framan í heiminn. Hins vegar virðist sagnfræðilegu minni fólks vera mikil takmörk sett, jafnvel þótt fjölmiðlar séu fullir af tilvísunum til reynslunnar af fyrri atburðum.

Helzta vonin er, að upplýsingabyltingin hafi náð svo langt, að ekki sé unnt til lengdar að haga sér eins og kínversku ráðamennirnir umhverfis Deng Xiaoping. Ekki sé lengur unnt að neita, að ákveðnir hryllingsatburðir hafi gerzt, þegar sönnunargögnin eru til.

Kínverska stjórnin gat ekki slitið símasambandi við umheiminn, svo að ljósmyndir og myndbönd af atburðunum dreifðust um allan heim. Hún kunni ekki að trufla erlendar útvarpsstöðvar, sem sögðu frá glæpa verkum hennar. Hún gat ekki gert öll faxtæki upptæk.

Kínverjar hafa verið duglegir við að nota tækni nútímans til að dreifa um landið upplýsingum um hernaðaraðgerðir stjórnvalda gegn íbúum landsins. Einna áhrifaríkast hefur verið að senda ljósmyndir og blaðaúrklippur á símafaxi og texta um síma og tölvumótöld.

Kínverskir ráðamenn voru búnir að hleypa upplýsingatækninni af stað inn í landið. Þeir voru ekki eins forsjálir og hinn geðveiki Ceaucescu í Rúmeníu, sem lætur fylgjast með, að ritvélar í landinu séu ekki fleiri en hann telur nauðsynlegt og að þær séu allar skráðar.

Greinilegt er, að miðlunartækni nútímans, mótöld og tölvur, myndbandatæki og ljósritunarvélar, sími og fax, veldur hryðjuverkastjórnum auknum erfiðleikum við að myrkva upplýsingamiðlun með ríkis- og flokksreknum dagblöðum og útvarps- og sjónvarpsstöðvum.

Þetta hefur samt ekki hindrað, að morð og lygi á vegum kommúnistaflokksins ráða núna ferðinni í Kína, svo sem gerst hefur víðar í heiminum á þessari öld.

Jónas Kristjánsson

DV

Spyrja ekki smáfiskana

Greinar

Í fagnaðarlátunum út af samkomulagi um sameiningu fjögurra banka í einn hefur alls ekkert verið fjallað um áhrif hennar á viðskiptamenn bankanna. Er það í fullu samræmi við þá hefð að spyrja smáfiskana einskis, þegar hagsmunir stórhvelanna eiga í hlut.

Sagnfræðileg og hagfræðileg vissa er fyrir, að fækkun fyrirtækja leiðir til verri þjónustu í greininni. Því færri sem fyrirtæki eru í hverri grein, þeim mun auðveldara er fyrir þau að semja um skiptingu markaðarins og um að draga úr kostnaði við þjónustu við fólk.

Sameining fjögurra banka og sala Samvinnubankans til Landsbankans leiðir til, að stórir bankar með almannaviðskipti verða aðeins þrír hér á landi. Fækkun banka úr sjö í þrjá er mikilvægt skref til bankaeinokunar, sem mun minna á samstarf olíufélaganna þriggja.

Bankasameiningin kemur í kjölfar samruna fjögurra af stærstu tryggingafélögunum í tvö risafélög, sem ráða yfir öllum þorra markaðarins. Sú fækkun fyrirtækja er þegar farin að skaða hagsmuni viðskiptavina. Enginn vafi er á, að fækkun banka mun hafa sömu áhrif.

Með þessu er ekki verið að segja, að sameinendur séu vondir menn. Aðeins er verið að vísa til staðreynda, sem blasa við augum í alþjóðlegri og innlendri hagsögu. Það er lögmál, að fækkun fyrirtækja niður í nokkur í hverri grein dregur úr samkeppni milli þeirra, magnar letina.

Ekki má heldur gleyma, að fækkun banka auðveldar stjórnvöldum að skipta sér af stefnu þeirra. Það er auðveldara fyrir ráðherra að troða pólitískum gæludýrum, svo og ýmissi miðstýringu, svo sem vaxtastefnu og öðru handafli, upp á nokkra stóra banka en marga litla.

Hitt er svo líka rétt, að stækkun rekstrareininga getur leitt til aukinnar hagkvæmni, þótt hún skili sér ekki til viðskiptamanna. Íslenzkir bankar eru tiltölulega smáir og hafa notað það sér til afsökunar, þegar þeir eru sakaðir um að vera dýrari í rekstri en útlendir.

Sameining fjögurra fremur lítilla banka býr til öflugan banka, sem hefur þétt net afgreiðslustaða um allt land, þótt sum útibúin verði lögð niður, einkum í Reykjavík. Hann verður að því leyti alhliða banki fyrir alla landsmenn, verðugur keppinautur Landsbankans.

Unnt er að ná fram kostum sameiningarinnar og draga úr ókostum hennar með því að búa til nýja samkeppni að utan. Það gerist með því að heimila erlendum bönkum að starfa hér á landi. Samkeppni að utan dregur úr líkum á, að íslenzkir bankar verði feitir og latir.

Raunar ætti það að vera vörn þjóðfélagsins í öllum tilvikum, er fyrirtækjum hefur fækkað svo í mikilvægum greinum, að jaðrar við einokun. Þannig væri skynsamlegt að leyfa einnig erlendum tryggingafélögum að starfa hér frjálst, svo og olíufélögum og flugfélögum.

Samkeppni að utan kemur í veg fyrir, að stofnanir, sem eru búnar að koma sér þægilega fyrir í skjóli einokunar eða fáokunar, sofni á verðinum. Efnahagslegar framfarir fara að töluverðu leyti eftir getur fyrirtækja til að bæta sig í sífellu til að standast samanburð.

Samkeppni nýrra fyrirtækja að utan er mun áhrifameira tæki til hagræðingar í rekstri en stækkun fyrirtækja með sameiningu. Fjölgunin leiðir nefnilega til, að markaðslögmálin koma til skjalanna. Fyrir því eru ótal dæmi úr erlendri og innlendri hagsögu.

Þegar fagnaðarlátum sameiningarmanna linnir, mættu þeir gjarna hafa stutta þagnarstund til að hugleiða áhrif hennar á hagsmuni smáfiskanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Ein undantekning

Greinar

Í nýlegum skoðanakönnunum þriggja aðila um viðhorf fólks til stjórnmála kom fram nokkurt misræmi, einkum í niðurstöðunum um fylgi Sjálfstæðisflokksins um þessar mundir. Misræmið hefur að sjálfsögðu leitt til hugleiðinga um, hvort sé að marka slíkar kannanir.

Um langt skeið hafa þessir þrír aðilar og raunar fleiri kannað skoðanir fólks á stjórnmálum. Niðurstöðum mismunandi kannana hinna ólíku aðila um fylgi stjórnmálaflokka á svipuðum tíma hefur yfirleitt borið nokkuð vel saman, þangað til í þetta eina og fyrsta skipti.

Ekki er ástæða til að hlaupa upp til handa og fóta, þótt misræmi komi í ljós einu sinni eða nokkrum sinnum. Miklu frekar er ástæða til að minnast þess, að hingað til hefur könnunum yfirleitt borið vel saman, jafnvel þótt þær séu framkvæmdar á misjafnan hátt.

George Gallup hefur bezt manna svarað, hvort að marka sé skoðanakannanir. Hann sagði, að bezti mælikvarðinn á skoðanakönnunum sé, hvort saman ber síðustu könnun fyrir kosningar og kosningaúrslitunum sjálfum. Það er hæstaréttardómur reynslunnar.

Við á DV höfum löngum státað af, að síðustu kannanir okkar fyrir kosningar hafa staðizt þennan hæstaréttardóm bezt. Aðrir aðilar hafa líka staðizt hæstaréttardóm reynslunnar, þótt þeir hafi ekki að jafnaði farið eins nálægt úrslitunum og DV hefur tekizt.

Í umræðum síðustu daga um gildi skoðanakannana hefur oftar en einu sinni verið hampað hugmyndum, sem við fyrstu sín virðast eðlilegar, en standast ekki skoðun reynslunnar. Gildi skoðanakönnunar fer til dæmis lítið eftir stærð úrtaks, þótt sumir haldi það.

DV hefur verið með tvær tegundir úrtaks, 600 manna og 1200 manna. Dómur reynslunnar sýnir ekki umtals verðan mun á nákvæmninni. Enda er munurinn fremur lítill, ef hann er reiknaður á stærðfræðilegan hátt, svo lítill, að vafamál er, að stærra úrtakið borgi sig.

Einnig er röng hin útbreidda skoðun, að könnun úr þjóðskrá sé betri en könnun úr símaskrá. Hvort tveggja á sér fræðilegar forsendur, sína kosti og sína galla. Við á DV höfum af áratuga reynslu komizt að raun um, að símakannanir standast dóm reynslunnar afar vel.

Munurinn á könnunum DV og Skáíss annars vegar og Félagsvísindastofnunar hins vegar er meðal annars fólginn í, að hinar fyrrnefndu eru símakannanir og hin síðarnefnda þjóðskrárkönnun. Það kann að skýra misræmið í niðurstöðum, en skýrir þá ekki fyrra samræmi.

Hinn munur þessara kannana er, að Félagsvísindastofnun reynir að ná upp skoðun hjá fólki, sem litla eða enga skoðun hefur. Þetta er gert til að fækka hinum óákveðnu. Hvort rétt er að fækka þeim þannig er fræðilega séð vafasamt eða að minnsta kosti umdeilanlegt.

Við á DV höfum farið að ráði þeirra, sem telja það valda skekkju að beita mikilli aðgangshörku við að draga meintar skoðanir upp úr fólki, sem hefur á miðju kjörtímabili ekki hugsað út í, hvaða flokk það mundi kjósa, ef sú staða kæmi upp fyrirvaralaust.

Félagsvísindastofnun telur, að Sjálfstæðisflokkurinn eigi minna fylgi meðal hinna óákveðnu en hinna ákveðnu og því verði að grafast fyrir um skoðun hinna óákveðnu. Við á DV höfum líka reynt að skekkjumæla slík atriði, en ekki fengið nothæfa niðurstöðu.

Mikilvægast er, að ýmsar leiðir eru færar í aðferðum við kannanir og að þær hafa oftast sýnt svipaða útkomu, þótt nú hafi orðið á því ein undantekning.

Jónas Kristjánsson

DV

Sauðféð étur gjaldeyri

Greinar

Enn einu sinni hefur DV reiknað út herkostnað þjóðarinnar af hefðbundnum landbúnaði. Niðurstaðan er í stórum dráttum hin sama og venjulega, nema hvað tölurnar hækka eftir því sem verðgildi krónunnar minnkar. Að raungildi er peningabrennslan óbreytt og árviss.

Blaðið birti tölur reikningsdæma landbúnaðarins í gær og í fyrradag. Í stórum dráttum segja þær, að neytendur greiða á þessu ári 10,5 milljarða í herkostnað landbúnaðarins og skattgreiðendur borga 4,3 milljarða að auki til að halda úti hinni þjóðlegu atvinnugrein.

Þessar tölur koma ekki á óvart. Þær hafa að vísu þann galla að vera svo háar, að almenningur lítur á þær sem tiltölulega kalt bókhaldsatriði. Fólki yrði ekki minna gramt í geði, þótt tölurnar væru aðeins helmingur eða fjórðungur af því, sem dæmið leiðir í ljós.

Ef tölurnar eru reiknaðar á mann, kemur í ljós, að herkostnaður venjulegrar fjögurra manna fjölskyldu af hefðbundnum landbúnaði nemur rúmlega fjórtán þúsund krónum á mánuði í heimiliskostnaði og tæplega sex þúsund krónum á mánuði í skattakostnaði.

Það hlýtur að skipta hverja þessara fjölskyldna máli að borga samanlagt yfir 20.000 krónum meira en ella í herkostnað þjóðarinnar af landbúnaði. Til að eiga fyrir þessu eftir skatta, þarf um 30.000 krónur á mánuði. Í sérhverju heimilisbókhaldi er það rosaleg upphæð.

En ýmissa hluta vegna gera menn sér meiri rellu út af öðrum hlutum, svo sem hvort þeir fái 2.000 króna eða 5.000 króna hækkun á mánuði, jafnvel þótt allir viti í rauninni, að það er hækkun, sem verður tekin til baka á morgun með hækkuðu verði á vöru og þjónustu.

Í rauninni byggjast öll meiriháttar vandræði Íslendinga í fjármálum og efnahagsmálum á herkostnaðinum við landbúnað. Hann er grundvöllur skuldasöfnunar þjóðarinnar í útlöndum og hinum gífurlega mikla gjaldeyri, sem þarf til að reka allar þær skuldir.

Jafnvel þótt ekki sé munað eftir gjaldeyriskostnaðinum af því að taka lán í útlöndum í stað þess að hætta afskiptum hins opinbera af hefðbundnum landbúnaði, er þar fyrir utan fólginn verulegur gjaldeyriskostnaður í að neita þjóðinni um ódýran mat frá útlöndum.

Samkvæmt áðurnefndum útreikningum mundi kosta okkur 2,1 milljarð króna í gjaldeyri á þessu ári að kaupa alla búvöru að utan, ef við kysum að fara þá leið. Á móti mundu sparast öll aðföng hins hefðbundna landbúnaðar í erlendum gjaldeyri, alls 1,6 milljarðar.

Á þessu munar ekki nema hálfum milljarði. Þá er eftir að gera ráð fyrir þeim möguleika, að finna megi arðbær verkefni handa fólki, sem nú starfar við hefðbundinn landbúnað. Meðalstarf á Íslandi aflar gjaldeyris, eða sparar hann, upp á 880 þúsund krónur á ári.

Um þessar tölur getur ekki orðið neinn efnislegur ágreiningur, því að þær verða ekki hraktar í neinum umtalsverðum atriðum. Þær eru í rauninni ekki nýjar, því að öðru hverju hafa þær verið reiknaðar út allan síðastliðinn aldarfjórðung og sýna jafnan hið sama.

Íslendingar ættu að hætta að væla um, hversu erfitt sé að lifa, af því að mjólkin sé svo dýr og benzín svo rándýrt. Miklu nær er að drífa í að losna af þingi við stjórnmálaflokka og stjórnmálamenn, sem standa að baki peningabrennslunnar í hefðbundnum landbúnaði.

Málið er ekki flókið. Krafan er, að ríkið hætti fjárhagslegum afskiptum af hefðbundnum landbúnaði og leyfi frjálsa verzlun með innlenda og erlenda búvöru.

Jónas Kristjánsson

DV

Peronismi á Íslandi

Greinar

Argentínumenn voru taldir eiga blómlega framtíð upp úr síðari heimsstyrjöldinni. Talað var þá um, að landið væri önnur Bandaríkin í syðri enda álfunnar. Meira að segja var reiknað út, hvenær þjóðarauður Argentínu færi fram úr þjóðarauð Bandaríkjanna.

Nú er hins vegar Argentína svo algerlega gjaldþrota, að ekki er unnt að sjá neina leið úr vandanum. Erlendar skuldir eru svo miklar, að ekki er unnt að standa undir vöxtunum. Óeirðir eru á götum Buenos Aires, af því að hin áður auðuga þjóð á ekki fyrir brauði.

Argentínumenn misstu af lestinni, þegar þjóðir Vesturlanda unnu sér inn fyrir efnahagsundri síðustu fimm áratuga. Þeir fóru út á villigötur, sem voru svo afdrifaríkar, að ekki virðist vera unnt að snúa við af þeim. Enda hafa þeir núna valið sér fakír að forseta.

Upphafs vandræðanna var að leita hjá Juan Peron. Hann var lýðskrumari, sem lengi var við völd í Argentínu. Hann tók ekkert mark á hagrænu viti. Meðan önnur ríki juku frelsi í efnahagsmálum í samræmi við ríkjandi kenningar í hagfræði, jók hann miðstýringu.

Ef Peron líkaði ekki, hversu háir vextir voru í landinu, lækkaði hann þá með handafli. Ef honum líkaði ekki, að bændur kæmu ekki út búvöru sinni, greiddi hann vöruna niður með handafli. Ef honum líkaði ekki að byggð færi í eyði, hélt hann henni uppi með handafli.

Þegar Peron var búinn að gera Argentínumenn gjaldþrota í fyrra skiptið, tók herinn við. Hann átti mjög auðvelt með að setja sig inn í miðstýrða kerfið, fjölgaði ríkisfyrirtækjum og setti hvarvetna herforingja í forstjórastóla hjá ríkinu. Vitleysan jókst og magnaðist.

Það lenti svo á á Raúl Alfonsín, lýðræðislega kjörnum forseta, að taka við þrotabúi hersins. Honum tókst ekki að koma efnahagnum á kjöl aftur og galt fyrir það með ósigri flokksins í forsetakosningum í síðasta mánuði. Peronistar komust aftur til valda á nýju lýðskrumi.

Carlos Menem, arftaki Perons, hefur lofað Argentínumönnum gulli og grænum skógum. Þeir virðast hafa verið reiðubúnir að trúa því, þrátt fyrir fyrri kynni af fakírum af hans tagi. Þeir veittu Menem í kosningum eindregið brautargengi til að framkvæma kraftaverk.

Peronisminn í Argentínu minnir mjög á stefnu Framsóknarflokksins og raunar annarra stjórnmálaflokka á Íslandi. Það er heimatilbúin stefna, sem stangast á við alþjóðleg efnahagslögmál. Á báðum stöðum er henni talið til gildis, að hún sé miðuð við aðstæður.

Samkvæmt þessari stefnu eiga aðrar þjóðir að kaupa vörur okkar, helzt án þess að tolla þær. Við eigum hins vegar að banna innflutning afurða annarra þjóða, ef sá innflutningur keppir við innlenda framleiðslu. Auðvitað gengur þetta ekki upp, en það gengur í kjósendur.

Samkvæmt þessari stefnu hafa stjórnvöld það hlutverk að leysa öll vandamál, sem upp koma úti í bæ. Þau eiga að hindra, að byggð fari í eyði, að loðdýrabú verði gjaldþrota, að vextir hækki hjá Sambandinu, að búvara seljist ekki. Úr þessu verður þunglamaleg miðstýring.

Hvorki Menem í Argentínu né Steingrímur á Íslandi hafa nógu miklar upplýsingar til að geta miðstýrt öllu þjóðfélaginu af viti. Slíkt getur enginn, þótt hann sé að burðast við að reyna það. Framfarir Vesturlanda byggjast einmitt á að forðast handafl af þessu tagi.

Argentínumenn eru langt komnir í vítahringnum. En við höfum líka runnið inn í hann með stuðningi við flokka, er bjóða heimatilbúið lýðskrum miðstýringar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fakír lyft á Lækjartorgi

Greinar

Íslendingar leiða ekki stjórnmálaskoðanir sínar til eðlilegrar niðurstöðu. Við látum okkur nægja að vera óánægð með ríkisstjórnir, en breytum ekki að ráði venjum okkar, þegar á kjörstað er komið. Þá kjósum við yfir okkur meira af bölinu, sem við hneykslumst á.

Í skoðanakönnun DV, sem birtist í gær, kom fram, að fylgi við ríkisstjórnina hefur haldið áfram að hrynja, í þetta sinn úr þriðjungi kjósenda niður í fjórðung þeirra. Þrír fjórðu hlutar þeirra, sem skoðun hafa, eru andvígir ríkisstjórninni. Það er hreint og klárt Íslandsmet.

Hinir sömu spurðu eru samt ekki allir ákveðnir í að snúa baki við flokkunum, sem standa að ríkisstjórninni. Samkvæmt könnuninni fengi Framsóknarflokkur inn 13 þingmenn, ef kosið væri núna, og Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið fengju 5 þingmenn hvor.

Þetta eru að vísu mun færri þingmenn en flokkarnir hafa núna og ekki samtals nema 23 af þeim 33, sem þyrfti til að ná aftur meirihluta á Alþingi. En þetta eru samt 23 þingmenn og þar af 13 af hálfu Framsóknar flokksins, sem hefur ráðið ríkjum í tvo áratugi.

Ef við bætum við þessar upplýsingar niðurstöðum úr sömu könnun um álit einstakra stjórnmálamanna, sem birtist í DV í dag, má sjá, að enn nýtur forsætisráðherra mests álits. Það er að vísu ekki hlutfallslega hátt, 16,3%, og fer minnkandi, en er þó meira en annarra.

Forsætisráðherra afrekaði fyrir viku að taka í þjónustu sína mann, sem sjónvarpið kallar “andlegan leiðtoga”, er stjórni bænasamkomum á vegum Sameinuðu þjóðanna í aðalstöðvum þeirra. Lét ráðherrann þennan athafnasama heiðursmann lyfta sér á Lækjartorgi.

Forsætisráðherra stóð eins og fakír í turni á torginu og hélt á kyndli friðar, þegar “andlegi leiðtoginn” lyfti honum, fyrstum allra forsætisráðherra heims. Hann hefði átt að halda á fjárlögunum og þjóðhagsáætluninni í voninni um, að þær bókmenntir mættu lyftast með sér.

Næsta skref gæti orðið, að hin óvinsæla fakírastjórn Íslands réði hinn “andlega leiðtoga” til að stjórna bænasamkomum ríkisstjórnarinnar og koma í stað ráðgjafanna, sem nú veita ríkisstjórninni skaðleg ráð um meðferð efnahags- og fjármála. Ráðin versna varla við það.

Aðferðir forsætisráðherra njóta vaxandi vinsælda meðal ráðherranna, sem reyna að taka hann sér til fyrirmyndar. Fjármálaráðherra man ekki í dag, að hann sagði í gær, að kjarasamningar, er hann gerði, væru innan ramma fjárlaga, og segir fjárlögin vera sprungin.

Innan skamms má búast við, að ráðherrar hætti alveg að muna, hvað gerðist í gær. Þeir munu þá koma í sína daglegu fréttastund í sjónvarpi og lýsa yfir, að þeir hafi verið “plataðir” eða að þeir séu “alveg rasandi” út af hinu og þessu, sem er í ólestri hjá þeim sjálfum.

Því fleira sem hrynur í efnahagslífinu, þeim mun meira hissa verða ráðherrarnir. Forsætisráðherra ávítar ráðamenn fyrirtækja, alveg eins og hann sé nýkominn úr langri vist í öðru sólkerfi. Öll byggist þessi framganga á rólegu og botnlausu sjálfstrausti fakírsins.

Þjóðin sér, að athafnir ríkisstjórnarinnar eru skaðlegar. Hún sér, að fjáraustur ríkisstjórnarinnar leiðir ekki til bættra lífskjara, heldur er það fjármunabrennsla af versta tagi. Hún sér, að þetta er verri ríkisstjórn en nokkur, sem setið hefur við völd í þessu landi.

En hún dregur ekki þá eðlilegu ályktun, að hætta beri að styðja flokka, er standa að slíkum stjórnum, eða að hætta beri að hafa álit á fakírum í ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson

DV