Greinar

Aukin ofbeit í ár

Greinar

Búast má við, að afréttir Íslands taki seint við sér að þessu sinni og verði venju fremur viðkvæmir í sumar. En þjóðlið íslenzkra ofbeitarmanna mun ekki spyrja að slíkum vanda, heldur senda tvær milljónir af ríkisreknu sauðfé á fjall, svo sem það er vant að gera.

Gróður á hálendinu hefur farið minnkandi frá upphafi sauðfjárhalds á Íslandi allt til þessa dags. En sumarið 1989 verður sennilega ár óvenjulega mikillar hnignunar gróðurs. Það minnir okkur á, hversu harður er fjöturinn, sem landbúnaðurinn ríður þjóðinni.

Það er ekki nóg með, að efnahagslegri framtíð þjóðarinnar er fórnað á altari óhugnanlega fjárfreks ríkisrekstrar á landbúnaði. Þar á ofan eru þessir árlegu milljarðar notaðir til að ræna og rupla náttúru Íslands og breyta landinu í eyðimörk sands og grjóts.

Því miður er skipan landverndar miðuð við hagsmuni ofbeitarmanna. Landgræðslustjóri virðist líta á hlutverk sitt að framleiða beitiland. Hann kærir ekki einu sinni, þegar ofbeitarmenn hleypa fé á ólöglegum tíma á land, sem honum hefur verið trúað fyrir.

Hvað eftir annað hefur komið fram, að landgræðslustjóri ver sjónarmið ofbeitarmanna og reynir að gera lítið út vandanum. Hann varpar sökinni á eldgos og árferði, alveg eins og slíkt hafi ekki þekkzt fyrir landnám, þegar Ísland var viði vaxið milli fjalls og fjöru.

Það er ekki að furða, þótt árangur sé lítill. Talið er, að landgræðslan græði árlega um 2000 hektara lands, en missi á móti 3000 hektara út í veður og vind. Árlegt gróðurtap nemur 1000 hekturum á ári og verður meira að þessu sinni, af því að ofbeit verður í meira lagi.

Þegar Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra missti út úr sér í vetur, að íslenzka þjóðin ætti ekki að greiða niður gróðureyðinguna, ætluðu umboðsmenn ofbeitarmanna vitlausir að verða. Talsmenn allra stjórnmálaflokka risu upp á Alþingi og fordæmdu sannleikann ákaflega.

Að mati allra stjórnmálaflokka er ófyrirgefanlegt að segja, að ofbeit sé fremsta orsök gróðureyðingar Íslands. Þeir segja það illviljaða árás á bændur, sem sæmi ekki öðrum en “léttgeggjuðum smákrötum”. Náttúra landsins á sér fáa raunverulega málsvara á Alþingi.

Brýnt er orðið að friða algerlega töluverðan hluta af hálendi Íslands fyrir ágangi búfjár. Það er einkum móbergssvæðið í Gullbringu-, Árnes-, Rangárvalla- og Þingeyjarsýslum, svo og uppland Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, sem þarf að girða af svo fljótt sem auðið er.

Takmarkið á að vera, að heiðar Íslands verði aftur eins blómlegar og þær voru á þeim tíma, er eldgos og árferði voru ein um hituna, án aðstoðar sauðfjár. Takmarkið á að vera, að þær verði aftur eins blómlegar og Hornstrandir eru orðnar eftir brottför sauðfjárins.

Stefna alfriðunar ætti sem fyrst að leysa af hólmi hina gagnslausu baráttu, sem felst í að dreifa úr flugvél matvælum ofan í sauðfé. Við sáum bezt í örlögum þjóðargjafarinnar frá 1974, hvernig núverandi landgræðslustefna er notuð til að siga meira sauðfé á landið.

Friðun afrétta bjargar ekki aðeins náttúru landsins og snýr gróðurvernd í sókn, heldur bjargar hún einnig fjárhag þjóðarinnar, sem núna er sligaður af meira eða minna sjálfvirkum greiðslum til að halda úti hefðbundinni rányrkju landbúnaðarins á afréttum landsins.

Þetta kalda vor má minna kjósendur á að fara að velja sér umbjóðendur, sem liggja ekki jafnflatir fyrir ofbeitinni og stjórnmálamenn landsins gera nú.

Jónas Kristjánsson

DV

Enn eitt vorið hvarf

Greinar

Blóðbaðið í Beijing í Kína um helgina minnir okkur á, að afturhvarf hefur oft orðið frá lýðræðislegri þróun í ríkjum kommúnismans. Einu sinni var talað um vorið í Prag í Tékkóslóvakíu, en því fylgdi ekkert sumar, heldur pólitískur fimbulvetur, sem stendur enn.

Til skamms tíma var Kína dálæti margra á Vesturlöndum og voru ráðamenn Bandaríkjanna þar fremstir í flokki. Til dæmis ferðaðist Bush Bandaríkjaforseti um Kína fyrir skömmu og sýndi ráðamönnum ríkisins óhóflega kurteisi í málum þekktra andófsmanna.

Fjölmiðlar á Vesturlöndum létu ekki sitt eftir liggja. Deng Xiaoping hefur verið hampað ótæpilega sem boðbera hins nýja tíma vestræns hagkerfis. Menn gleymdu, að hann lét banna veggblöðin í Beijing, um leið og hann hafði notað þau til að komast aftur til valda.

Um leið og frostið linast í einhverju slíku ríki, fyllast menn bjartsýni á Vesturlöndum. Mikill skortur er á sagnfræðilegu minni hjá vestrænum stjórnmálamönnum og blaðamönnum. Menn láta eins og nokkurra stiga lækkun frosts marki komu eilífs sumars og friðar.

Menn urðu fyrir vonbrigðum, þegar sumarið kom ekki í Ungverjalandi 1954, í Tékkóslóvakíu 1968 og í Póllandi 1981. Nú verða menn fyrir vonbrigðum, þegar sumarið kemur ekki í Kína 1989. Samt eru menn sífellt tilbúnir að trúa á nýjan leik á komu eilífs sumars.

Þótt erfitt sé að finna dæmi úr sögunni um, að sumar fylgi í kjölfar pólitísks vors í löndum kommúnismans, er ekki rétt að fullyrða, að slíkt geti aldrei gerzt. Við vitum ekki, hvað verður úr vorinu í Sovétríkjunum, Póllandi og Ungverjalandi, sem er í blóma á þessu ári.

Hugsanlega getur komið sumar eftir pólitískt vor í nokkrum ríkjum kommúnismans. Vesturlandabúar þurfa að gera sitt bezta til að hlúa að slíku, svo framarlega sem þeir leggja ekki framtíð lýðræðisskipunar sinnar að veði, af einfaldri, mannlegri trúgirni.

Þessi vandi hefur leitt til átaka í varnarsamtökum vestrænna ríkja. Annars vegar hafa staðið ráðamenn engilsaxnesku ríkjanna, sem vilja ekki, að gagnkvæmur samdráttur í vopnabúnaði leiði til tímabundinnar aukningar á sóknarfærum Varsjárbandalagsins.

Þeir vildu lengi vel ekki taka í mál, að hafnar yrðu viðræður austurs og vesturs um skammdrægar kjarnorkuflaugar, fyrr en að loknum ákveðnum árangri í samdrætti hefðbundins herafla. Á því sviði hafa yfir burðir Sovétríkjanna verið taldir hættulega miklir.

Hins vegar hafa svo staðið ráðamenn í Vestur-Þýzkalandi, studdir valdamönnum í ýmsum bandalagsríkjum meginlandsins. Þeir hafa talið, að vorið í austri veitti Vesturlöndum heimssögulegt, tímabundið tækifæri til að ná umtalsverðum árangri í samdrætti vígbúnaðar.

Bush Bandaríkjaforseti hafði forustu um málamiðlun á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Bruxelles fyrir réttri viku. Tillaga hans tók skynsamlegt tillit til beggja sjónarmiðanna og hlut eindreginn stuðning á fundinum, sem lauk í meiri sátt en við var búizt.

Niðurstaðan er, að áfram verður unnið af krafti að samningum við Sovétríkin og fylgiríki þeirra um margvíslegan niðurskurð vopna, en Vesturlönd ræða ekki um að loka kjarnorkuregnhlífinni, fyrr en eftir umtalsverðan árangur í samningum um hefðbundin vopn.

Blóðbaðið í Beijing minnir okkur á að fara gætilega í viðskiptum við stjórnvöld, sem eru svo vanstillt í valdbeitingu, að þau aka skriðdrekum yfir eigið fólk.

Jónas Kristjánsson

DV

Brennivínsráðherrar

Greinar

Brennivínsmál ráðherranna snýst ekki um, hvort forsætisráðherra megi eða megi ekki taka notalega á móti erlendum gestum ríkisins á sínu eigin heimili. Flestir geta verið sammála um, að ríkið greiði kostnað af slíku veizluhaldi, þar á meðal af vínföngum.

Brennivínsmálið snýst hins vegar um, að úttekt ríkisins á ódýru áfengi hefur skyndilega lækkað um nærri helming, síðan mál forseta Hæstaréttar komst í fjölmiðla. Það þýðir einfaldlega, að fyrir þessa minnkun fór helmingur úttektar ríkisins til einkanota.

Þeir, sem aðstöðu hafa til að nota ríkisáfengi til einkanota, hafa verið hræddir um sig að undanförnu. Þess vegna hefur úttekt ríkisins hjá áfengisverzlun sinni frá desember 1988 til apríl 1989 aðeins numið 6.000 flöskum í stað 11.000, sem verið hefði venju samkvæmt.

Nú er kjörið að nota tækifærið til að skera milli einkanota og flokksnota annars vegar og ríkisnota hins vegar. Setja þarf á blað nákvæmar reglur um, hvernig eigi að fara með risnu á vegum ríkisins, svo að enginn þurfi að láta freistast til óheiðarleika á þessu sviði.

Ennfremur er brýnt, að hið opinbera haldi gott bókhald yfir risnu, svo að stjórnmálamenn og embættismenn komi ekki fyrir rétt eins og álfar út úr hól og þykist hafa gleymt hinu og þessu. Bókfært þarf að vera, hve mikil risna er notuð í hverju nafngreindu tilviki.

Ástæða er til að ítreka, að almenningsálitið sættir sig ekki við, að risna á vegum ríkisins sé notuð í stað risnu á vegum stjórnmálaflokka eða einstaklinga. Til dæmis eiga ráðherrar ekki að halda ríkisboð fyrir flokksbræður sína, skólabræður, ættingja eða sjálfa sig.

Athyglisverður er þagnarmúrinn, sem ráðherrar og embættismenn hafa slegið umhverfis risnu sína. Þeir koma meira að segja fyrir Borgardóm og segja frá málum á þann hátt, að það gefur villandi mynd af sukkinu. Og hörmulegt er að sjá, hversu lágt þeir leggjast.

Á sama tíma hafa lekið úr ráðuneytunum skjöl, sem rjúfa örlitla glufu á ósannindamúrinn, sem sleginn hefur verið um áfengiskaup og aðra risnu ríkisins. Þessi gögn bera með sér, að ráðherrar og embættismenn hafa farið með rangt eða ruglað mál fyrir Borgardómi.

Hin dapurlega staðreynd er, að sumir ráðherrar og embættismenn hafa hagað sér eins og þeim þóknast í þessum efnum. Þeir hafa bara skipað fyrir og siðameistararnir hafa bukkað sig og flýtt sér að hlýða. Þannig hefur risnusukkið hlaðið utan á sig með árunum.

Áfengisflutningur til heimahúsa eða til afmælisveizlusala úti í bæ er ekki nema hluti af vandanum. Veizlusalir hins opinbera og aðrir veitingasalir hafa einnig verið misnotaðir. “Af hverju athugið þið það ekki”, sagði aðþrengdur forsætisráðherra í blaðaviðtali.

Aðþrengdur utanríkisráðherra fjallaði um risnu sína í yfirlýsingu og sagði meðal annars um gestamóttökur: “…er á einskis manns færi að leggja þær á minnið”. Hann skýtur sér beinlínis á bak við, að bókhald yfir risnu er í ólagi hjá embættismönnum hins opinbera.

Unnt er að koma í veg fyrir að brennivínsnotkun forsætisráðherra, utanríkisráðherra, sjávarútvegsráðherra og annarra valdamanna sé höfð að háði og spotti úti í samfélaginu. Það gerist með því að móta skrifaðar reglur og gott bókhald um, að þeim sé alltaf fylgt.

Með því getur ríkið um leið byrjað að gefa fordæmi um, að almennt skuli í þjóðfélaginu farið varlega og siðsamlega með annarra manna fé og sameiginlegt fé.

Jónas Kristjánsson

DV

Voldugast í veröldinni

Greinar

Hvort tveggja er, að umboðsmaðurinn er einstæður í sinni röð og að umbjóðandinn er voldugasta afl veraldar um þessar mundir. Vegna þessa er heimsókn Jóhannesar Páls páfa til Íslands mikilvægur og nánast einstæður viðburður í þúsund ára kristnisögu þjóðarinnar.

Til skamms tíma atti kaþólska kappi við kommúnisma um hugi og hjörtu heimsbyggðarinnar. Eftir siðferðishrun hinnar veraldlegu trúar kommúnismans stendur kirkjan í Róm með pálmann í höndunum. Hún situr nú ein á tindi með voldugustu lífsskoðun heims.

Enn síður en margvísleg félagshyggja og skipulagshyggja getur fríhyggja og frjálshyggja af ýmsu tagi keppt við kaþólsku um hugi fólks. Allt eru þetta voldugar lífsskoðanir, en engin eins og kaþólska. Og aðrar kirkjudeildir kristninnar vafstra minna í stjórnmálum.

Athyglisvert er, að það eru önnur trúarbrögð annars heims, sem ganga næst kaþólsku í valdi yfir fólki. Það er íslam, sem hefur í vaxandi mæli látið til sín taka á síðustu árum. Arftakar Múhameðs spámanns sækja raunar fram af meira krafti en eftirmenn Sankti-Péturs.

Kaþólsk kirkja var enn voldugri á miðöldum Evrópu. Með nýöld varð hún að láta undan síga fyrir nýjum hugsjónum og hugmyndum, bæði trúarlegum og veraldlegum. Sérstaklega átti kirkjan í Róm erfitt með að finna svör við vísindahyggju og fríhyggju allra síðustu alda.

Í farsældarþjófélagi Vesturlanda er veraldarhyggja af fjölbreyttu tagi öflugt mótvægi við kirkjuna, þar sem kaþólska er í fylkingarbrjósti. Fríhyggjan gerir eins og kaþólskan kröfur til að vera talinn hornsteinn þess andlega umhverfis, sem við köllum vestræna menningu.

Í þessu vestræna samhengi virðist kaþólska oft vera fulltrúi afturhaldsins. Kirkjan í Róm er á móti kvenprestum og fóstureyðingum. Hún hefur hert andstöðu sína við villutrúarkenningar á jaðri kaþólsku. Jóhannes Páll er að þessu leyti afturhaldssamur páfi.

Kredduharkan nú á tímum er þó ekki að neinu leyti sambærileg við fyrri ofbeldishneigð kaþólskunnar. Ferill hennar er blóðugri en ferill annarra afla í Evrópu, enda margfalt langvinnari en ferill nasisma og kommúnisma, svo að nýleg dæmi séu tekin til samanburðar.

Nokkuð virðist skorta á, að kirkjan í Róm telji sér skylt að gera upp sakirnar við eigin fortíð, sem var hroðaleg á köflum. Þetta er að vísu löngu liðin saga, en hvílir þó eins og mara á öllu sagnfræðilegu mati á stöðu kaþólskunnar í nútímaheimi frjálsrar hugsunar.

Fyrst og fremst er það utan Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, að kaþólsk kirkja kemur fram sem fulltrúi framtíðarvona. Það er líka einmitt í þriðja heiminum og í Austur-Evrópu, að framsókn Rómarsiðar er mest um þessar mundir, sumpart vegna Jóhannesar Páls páfa.

Arftaki Péturs hefur rofið innilokun páfa í görðum Vatíkansins. Hann fer um þriðja heiminn eins og hvirfilbylur og safnar hvarvetna að sér ótrúlegum mannfjölda. Í predikunum hans tekur hann oft málstað hinna snauðu gegn kvölurunum, sem stjórna þriðja heiminum.

Hann hefur einnig verið tíður gestur í föðurlandi sínu, Póllandi, þar sem almenningur lítur nú orðið á kaþólsku kirkjuna sem helzta hornstein lífs síns. Þar í landi er einna sýnilegastur hinn algeri og endanlegi ósigur, sem kommúnisminn hefur beðið fyrir kaþólskunni.

Okkur þótti mikils um vert, er leiðtogar heimsveldanna sóttu Ísland heim. Enn merkara ætti okkur að þykja að fá að gesti voldugasta mann veraldarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Á undraskjótan hátt

Greinar

Þótt ríkisstjórninni hafi vegnað illa á mörgum sviðum, er verst afhroðið, sem efnahagur þjóðarinnar hefur beðið á veturlöngum valdaferli hennar. Ekki eru dæmi til, að ástæðulaus kreppa hafi beinlínis verið framleidd af mannavöldum á svo undraskjótan hátt.

Þessi ósigur er þyngri á metaskálunum en ósigur ríkisstjórnarinnar fyrir samtökum háskólamenntaðra ríkisstarfsmanna, svo að dæmi sé tekið til samanburðar. Á því sviði olli ríkisstjórnin ekki nýju tjóni, heldur glopraði niður nýfengnum árangri í almennum samningum.

Ríkisstjórninni hafði tekizt að ná skynsamlegum kjarasamningum við mestan hluta starfsfólks síns og að fá þá samninga viðurkennda hjá aðilum vinnumarkaðarins. Það vakti vonir um stöðugt efnahagslíf á næstu misserum og einkum þó um viðráðanlega verðbólgu.

Samningarnir við háskólamenn kollvörpuðu þessu. Þeir rufu friðinn, sem náðst hafði við samtök ríkisstarfsmanna og heildarsamtök launþega. Forsendur fyrri samninga fuku skyndilega á brott. Allt fer því aftur á hvolf á þeim vígstöðvum á næstu misserum.

Ríkisstjórnin færðist með þessu aftur á núllpunktinn, en ekki niður fyrir hann. Hún eyðilagði nýfenginn árangur, en spillti ekki ástandi, sem var fyrir valdatöku hennar. Slík er aftur á móti niðurstaðan af ofnotuðu handafli hennar í efnahagsmálum þjóðarinnar.

Líkur benda til, að ríkisstjórnin muni á þessu ári setja Íslandsmet í söfnun skulda í útlöndum, þótt hún hafi tekið sér fyrir hendur að stöðva skuldasöfnunina. Á föstudaginn var hér í blaðinu reiknað út, að skuldaaukningin gæti numið rúmlega 20 milljörðum á árinu.

Í fyrra námu erlendar skuldir okkar rúmlega 41% af árlegri framleiðslu landsmanna. Þegar er ljóst, að þær fara á þessu ári upp í tæplega 48%. Gera má ráð fyrir, að talan verði komin yfir 51% fyrir næstu áramót. Þetta er gífurlegur hallarekstur á aðeins einu ári.

Innlendur sparnaður hefur brugðizt ríkisstjórninni, einmitt vegna hamslausra tilrauna hennar til að lækka vexti og sauma þannig að hugsanlegum kaupendum spariskírteina. Menn hafa ekki keypt ný skírteini í stað hinna eldri, sem þeir hafa fengið leyst út.

Ríkisstjórnin gengur með þá sérkennilegu hugsjón í maganum að geta í haust komið raunvöxtum af spariskírteinum úr 7% niður í 5% og geta um leið unnið upp 600 milljón króna fjármissi úr skírteinakerfinu og náð þar á ofan tveggja milljarða aukningu í því!

Þessi þverstæða er skýrt dæmi um, að hagræn hugsun ræður hvorki ferðinni í ráðherrahópnum né meðal hinna mörgu aðstoðarmanna og efnahagsráðgjafa, sem ráðherrarnir hafa sér til fulltingis. Í staðinn er rekin sú tegund óskhyggju, er kallast seiðkarla-hagfræði.

Ljóst var í upphafi, að illa mundi fara. Þá ákvað ríkisstjórnin að halda uppi gengi krónunnar, hvað sem það kostaði. Og þá ákvað hún, að í stað heilbrigðs rekstrar í atvinnulífinu skyldu koma björgunaraðgerðir fjölmargra nýrra milljarðasjóða hins opinbera.

Að tæpu starfsári liðnu liggur ríkisstjórnin í rjúkandi rústum hagkerfisins. Eftir allt handaflið og allar tilfæringarnar með milljarðasjóði hefur hún mátt þola fyrsta atvinnuleysisvetur í manna minnum. Og hún hefur orðið að stofna til víðtækrar atvinnubótavinnu í sumar.

Ef ráðherrarnir kynnu að skammast sín, mundu þeir segja af sér strax í dag. En þeir sitja áfram, í skjóli sameiningartáknsins, ­ skorts á sjálfsgagnrýni.

Jónas Kristjánsson

DV

Seint læra sumir

Greinar

Íslenzkir stjórnmálamenn í valdastóli ætla seint að sætta sig við, að Ríkisendurskoðun er flutt undan handarjaðri ráðherravalds og komin til Alþingis, þar sem kúgunin er ekki eins mikil. Þeir hafa brugðizt ókvæða við ýmsum niðurstöðum Ríkisendurskoðunar.

Dæmigerð eru svör fjármálaráðherra við athugsemd Ríkisendurskoðunar um, að hann hefði ekki átt að gefa gæludýrum eftir opinber gjöld. Hann sagði, að núverandi vara-ríkisendurskoðandi hefði unnið í fjármálaráðuneytinu, þegar eftirgjöfin var framkvæmd!

Alkunnugt er, að slagsmálaaðferðir fjármálaráðherra eru á lægra plani en gengur og gerist í stjórnmálum landsins. Miðað við það er samt nokkuð langt til seilzt að svara því einu, að tiltekinn starfsmaður á einum stað í kerfinu hafi áður verið starfsmaður á öðrum stað.

Forsætisráðherra hefur misst út úr sér fýluleg viðbrögð út af athugasemdum Ríkisendurskoðunar um stórfelldan fjárdrátt í reglugerð frá landbúnaðarráðuneytinu. Hann tók sérstaklega fram, að stofnunin væri ekki dómstóll, sem er auðvitað rétt hjá honum.

Síðan sagði hann, að flokksbróðir sinn, þáverandi landbúnaðarráðherra, hefði ætlað að framkvæma búvörukaupasamning ríkisins við landbúnaðinn á þann hátt, að “það valdi sem minnstri byggðaröskun og að það komi líka sem léttast niður á bændum sjálfum”.

Forsætisráðherra hafði ekkert orð aflögu til að taka undir, að ekki sé eðlilegt, að gjafmildur landbúnaðarráðherra gefi út reglugerð, sem kosti ríkissjóð heilan milljarð króna umfram það, sem lög gera ráð fyrir. Hann lætur sig engu varða um, hvað lögin segja.

Sú venja hefur verið að mótast í framkvæmdavaldinu, að ráðherrar taka lítið mark á lögum, sem sett eru á Alþingi, þar á meðal fjárlögum. Þeir verja peningum eins og þeim og fjármálaráðherra sýnist og kalla fjárdráttinn hinu virðulega nafni “aukafjárveitingar”.

Vonandi leiðir samt hin nýja aðstaða Ríkisendurskoðunar til, að fjárglæfrar ráðherra fari ört minnkandi. Það fer mikið eftir dugnaði og samvizku fjárveitinganefndar Alþingis, sem hefur núna fulltrúa frá Ríkisendurskoðun á fundum sínum til aðstoðar við að kafa ofan í mál.

Ríkisendurskoðandi hefur sjálfur sagt, að alvarlegasti áfellisdómur stofnunar hans hafi komið fram í skýrslunni um meðferð landbúnaðarráðuneytisins á búvörusamningnum. Þar er líka sagt, að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafi farið út fyrir verksvið sitt.

Framleiðnisjóði er ætlað að auka framleiðni í landbúnaði. Peningar hans hafa hins vegar verið notaðir til að vernda hefðbundnar búgreinar og til að leysa rekstrarvanda í loðdýrarækt. Ennfremur hefur sjóðurinn skuldbundið sig til lengri tíma en lög heimila. En

Ríkisendurskoðun hefur tekið til hendinni á fleiri sviðum, bæði að tilhlutan alþingismanna og að eigin frumkvæði. Hún hefur upplýst, að fjármálaráðherra hefur marglogið um upphæð gjafarinnar til eins af útgáfufélögum dagblaðsins Tímans, sem þá hét NT.

Útgefendur blaðsins hafa þegið 8,5 milljónir að gjöf frá skattgreiðendum. Annað útgáfufyrirtæki er einnig í náðinni hjá umboðsmanni skattgreiðenda. Svart á hvítu hefur selt ríkinu skuldabréf fyrir 23 milljónir króna, með óljósum tryggingum, sennilega verðlausum.

Kominn er tími til, að ráðherrar hætti að svara athugasemdum Ríkisendurskoðunar með skætingi og hætti um leið að misnota fé almennings á ólöglegan hátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið sýnir klærnar

Greinar

Andófið gegn innflutningi smjörlíkis er gott dæmi um, hvernig þrýstisamtök hagsmunaaðila úti í bæ og embættismenn ríkisins sameinast um að láta verndun sérhagsmuna ráða ferðinni gegn almannahagsmunum um lækkun verðs á vöru og þjónustu í landinu.

Félag íslenzkra iðnrekenda gætir hagsmuna nokkurra innlendra smjörlíkisgerða, sem fara ekki eftir reglum um merkingar á umbúðum. Þær hafa undanþágu til næstu áramóta frá reglunni um, að upplýsingar um næringarefni og geymsluþol séu á umbúðunum.

Athyglisvert er, að undaþágan byggist á, að innlendu smjörlíkisgerðirnar þurfi frest til næstu áramóta til að koma út meira en ársgömlum birgðum í gömlum umbúðum frá því í fyrra. Hið opinbera hefur því ekki miklar áhyggjur af aldri vörunnar, ef hún er innlend.

Þrátt fyrir þetta var Félag íslenzkra iðnrekenda ekki feimið við að senda Hollustuvernd ríkisins bréf um, að innflutta smjörlíkið kunni í sumum tilvikum ekki að uppfylla kröfur um merkingu, sem innlendir framleiðendur þurfa ekki að fara eftir á þessu ári.

Framkvæmdastjóri félagsins var eftirminnilegur í sjónvarpi, þegar hann sagði, að þetta væri búvara og ætti því að fylgja annarri einokun á því sviði. Síðar var upplýst hér í blaðinu, að hið svokallaða innlenda smjörlíki er hrært úr erlendum og innfluttum hráefnum.

Þetta upphlaup félagsins var skiljanlegt, því að í þrýstihópum reyna menn að komast eins og langt og unnt er hverju sinni. Viðbrögð Hollustuverndar voru hins vegar einkar athyglisverð. Þau sýna, hve lítils málsefni mega sín, þegar hagsmunir eru annars vegar.

Hollustuvernd hefur lítið látið á sér kræla um dagana, nema helzt til að væla um fjárskort. Til dæmis hefur þessi opinbera skrifstofa ekki gefið sér tíma til að hafa afskipti af, hvort selt sé og selt verði til næstu áramóta aldrað, innlent smjör í umbúðum frá í fyrra.

Þegar þrýstihópurinn sendi Hollustuvernd bréfið um útlenda smjörlíkið, vaknaði stofnunin hins vegar af værum blundi og lét nota sig til að biðja um, að það smjörlíki yrði ekki afgreitt úr tolli, fyrr en stofnunin hefði gengið úr skugga um, að settum reglum væri fylgt.

Þessa beiðni hentu á lofti kerfiskarlar í heilbrigðisráðuneytinu og landbúnaðarráðuneytinu. Þeir notuðu bréf Hollustuverndar til að stöðva tollafgreiðslu á innfluttu smjörlíki. Er nú málið komið í hendur þriggja manna ráðherranefndar, sem á að jafna ágreininginn.

Í nefndinni er Steingrímur J. Sigfússon landbúnaðarráðherra, sem hefur oft lýst sig andvígan leyfi viðskiptaráðherra til innflutnings á smjörlíki. Ennfremur er þar Guðmundur Bjarnason heilbrigðisráðherra, sem formlega fór fram á stöðvunina á tollafgreiðslu.

Þriðji maðurinn í nefndinni er svo Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra, sem veitti leyfið til innflutnings á takmörkuðu magni smjörlíkis. Líklegt er, að sjónarmið hans nái fram að ganga, því að erfitt er að halda til streitu, að smjörlíki sé búvara, en ekki iðnvara.

Þröstur Ólafsson, stjórnarformaður Kaupfélags Reykjavíkur og nágrennis, hefur sagt, að ekki standist krafa heilbrigðisráðherra um bann við tollafgreiðslu. Hann hefur einnig sagt, að “þarna sé kerfið að sýna klærnar”, sem er alveg laukrétt lýsing á málinu.

Neytendum er hollt að átta sig á, að jafnvel Hollustuvernd ríkisins vinnur gegn þeim, ef það er í þágu sérhagsmuna og kerfishagsmuna gegn almannahag.

Jónas Kristjánsson

DV

Gíslar og stríðsskaðabætur

Greinar

Gíslingu nemenda verkfallskennara er ekki lokið, þótt verkfallsstríðinu sé lokið. Sigurvegararnir fengu nefnilega hjá hinum sigraða stríðsskaðabætur, sem valda því, að heppilegt er fyrir sigurvegarana að halda unglingum í skólum á helzta bjargræðistíma þeirra.

Í uppgjafarsamningnum segir “Aðilar eru sammála um, að nemendur verði hvorki brautskráðir né færðir milli bekkjardeilda eða áfanga án námsmats frá kennurum. Nánari ákvarðanir um skólalok verði teknar í fullu samráði við kennara í hverjum skóla …”.

Sigurformaðurinn fylgdi þessu eftir í blaðaviðtali, þar sem hann sagði, að kennarar ætluðu “ekki að stuðla að gervilausnum, með því að gefin yrðu út verðlaus prófskírteini”. Síðar í viðtalinu sagði hann: “Nemendur lifa það af að lenda í svolitlum hrakningum”.

Formaðurinn tók sérstaklega fram í viðtalinu, að kennarar vissu betur en nemendur, hvað væri hinum síðarnefndu “fyrir beztu”. Ennfremur gaf hann út allsherjarvottorð um andlegt eða sálrænt ástand skólastjóra og sagði, að þeir væru “taugaveiklaðir menn”.

“Ég held, að það hjálpi okkur ekki mikið nú, þegar við förum aftur inn í skólana, að vera að fara að vinna með taugaveikluðum mönnum, sem fundu ekki hjá sér neina þörf til þess að styðja okkur”, sagði formaður sigurvegaranna í viðtalinu um skólastjóra landsins.

Benti formaðurinn á, að nú mundi skólastjórum hefnast fyrir að vilja ekki greiða “framlög í verkfallssjóð” kennara. Þessi grimmd er alkunnug úr sagnfræði styrjalda. Þegar sigurvegarar líta yfir rústir styrjalda, er þeim gjarnt að refsa ýmiss konar stríðsglæpamönnum.

Samanlagt má af ofangreindum tilvitnunum ráða, að enn sé blóðbragð í munni sigurvegara. Því má á næstu árum búast við frekari verkföllum kennara með gamalkunnum gíslatökum. Þegar sigurvegarar eru komnir á bragðið, stanza þeir ekki fyrr en þeir eru stöðvaðir.

Í fyrsta sinn í sögu vinnudeilna hér á landi hefur sigur annars aðilans orðið svo alger, að hinn aðilinn hefur orðið að greiða það, sem samningamenn kölluðu sín á milli réttilega “stríðsskaðabætur”. Það eru ýmsar greiðslur, sem bæta kennurum launatap í verkfallinu.

Auk launahækkana, sem samið var um í stríðslok, fá sigurvegararnir ýmsar upphæðir, svo sem laun fyrir vinnu í verkfalli, verkfallsbætur, hækkun um launaflokk, tvöföld laun við áframhaldandi gíslahald í skólum í sumar og svo afturvirkni í sumum upphæðum.

Athyglisverðastar eru stríðsskaðabæturnar, sem hljóta að verða ofarlega á baugi í samningaþrefi annarra, sem síðar þurfa að fá hærra kaup. Með samkomulagi um stríðsskaðabætur hefur verið opnuð töfrakista, sem getur leitt til langvinnra verkfalla í framtíðinni.

Ef samningamenn hafa fordæmi fyrir, að unnt sé að ná samkomulagi um stríðsskaðabætur, hverfur mikið af varfærninni, sem áður var tengd verkföllum. Menn steypa umbjóðendum sínum hiklaust út í löng verkföll, ef þeir vona að geta síðan samið um verkfallsbætur.

Þetta er niðurstaða af landsfrægri ráðsnilld forsætisráðherra, sem er manna vinsælastur hér á landi. Hann kom til skjalanna í stríðslok og leysti hnútinn, auðvitað með hinum alkunna hætti sínum að búa til enn verri hnút handa öðrum til að leysa í framtíðinni.

Einna verst er þó, að málið var meðal annars leyst með því að minnka sumartekjur nemenda. Þeir eru ekki allir svo heppnir að vera í Verzlunarskólanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Mokum sjálfir flórinn

Greinar

Aðmírállinn á Keflavíkurvelli varaði Íslendinga við hermangi í frægri ræðu, sem hann flutti á þriðjudaginn, þegar hann kvaddi embætti sitt. Hann sagði, að viðskipti varnarliðsins yrðu að standast endurskoðun þingnefnda og rannsóknarnefnda í heimalandi sínu.

Aðmírállinn var raunar óbeint að tala um Íslenzka aðalverktaka. Það félag stundar með miklum hagnaði áhættulausar framkvæmdir fyrir varnarliðið í skjóli einkaleyfis, sem það hefur fengið hjá valdamiklum þjófaflokkum, er kalla sig stjórnmálaflokka.

Hér er orðið þjófaflokkar notað yfir stjórnmálaflokka, sem leggja áherzlu á að dreifa fríðindum til sérhagsmunahópa og gæludýra af ýmsu tagi, allt á kostnað skattgreiðenda og neytenda, það er að segja almennings í landinu. Aðalverktakar eru eitt gæludýrið af mörgum.

Raunar hefur lengi verið grunur um, að fyrirtækið væri notað til að kosta rekstur stjórnmálaflokka í miklu meiri mæli en stjórnendur fyrirtækisins hafa hingað til viljað játa. Þar að auki hefur það safnað miklu lausafé, sem gefur því gífurlegt stjórnmálavald í landinu.

Oft hefur verið hvatt til, bæði hér í blaðinu og annars staðar, að afnumið verði hermang Íslenzkra aðalverktaka. Það er krabbamein í þjóðlífinu, sem við eigum að losa okkur við sjálf, áður en bandarískir þingmenn hneykslast nógu mikið til að gera það fyrir okkur.

Ýmsar tillögur hafa komið fram. Flestar eiga það sameiginlegt að vilja halda við hermanginu, en færa það yfir á aðrar herðar. Er þá annaðhvort talað um, að ríkið taki að sér hermangið eða að Íslenzkum aðalverktökum verði breytt í almenningshlutafélag um hermang.

Báðar útgáfurnar gera ráð fyrir, að áfram verði hið óeðlilega ástand, að einn aðili raki saman fé í skjóli opinbers einkaréttar á arðbærum og áhættulausum framkvæmdum á vegum varnarliðsins. Þær gera því bara ráð fyrir skárra ástandi, en ekki miklu skárra.

Hugmyndir af þessu tagi munu gera forsætisráðherra áfram kleift að njóta ávaxta hermangsins með því að láta stjórnendur Íslenzkra aðalverktaka bjóða sér í laxveiði í Víðidalsá. Slík atriði skipta miklu í hinu spillta hugarfari margra íslenzkra stjórnmálamanna.

Einni viku áður en Steingrímur Hermannsson fór síðast í laxveiði á vegum Íslenzkra aðalverktaka, kom inn á borð til hans skýrsla um einokun fyrirtækisins á varnarliðsframkvæmdum, þar sem fjallað var um, hve erfitt væri að verja spillinguna fyrir umheiminum.

Þetta var auðvitað ósvífið laxveiðiboð, sem dapurlegt var, að ráðherrann skyldi þiggja. Einnig er ósvífið af Íslenzkum aðalverktökum að greiða stjórnarformanni sínum rúmlega 700 þúsund krónur í mánaðarlaun, auk risnu, ferðakostnaðar, bílakostnaðar og símakostnaðar.

Þegar við þetta bætast beinar greiðslur Íslenzkra aðalverktaka til stjórnmálaflokka, má öllum vera ljóst, að fyrirtækið er orðið að illkynja æxli, sem spillir flestu, er það snertir. Ný og breytt útgáfa sams konar einokunar verður ekki til að breyta rotnunareðli hermangsins.

Heilbrigða tillagan í málinu er Þorsteins Pálssonar. Hann hefur lagt til, að almennt verði framkvæmdir varnarliðsins boðnar út. Þannig yrði málinu í heild komið á eðlilegan viðskiptagrundvöll. Bezt væri, að útboðin yrðu alþjóðleg eins og útboð við virkjanir.

Mikilvægt er, að við tökum mark á aðvörun aðmírálsins og gerum strax hreint fyrir okkar dyrum, áður en bandarískar þingnefndir moka fyrir okkur flórinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þýzkaland tekur forustu

Greinar

Vesturþýzka ríkisstjórnin hefur tekið frumkvæðið af hinni bandarísku í afstöðunni til breyttra stjórnarhátta í austanverðri Evrópu. Þannig hefur margra alda gömul hefð þýzkumælandi forræðis í Mið-Evrópu slegið sögulegu striki yfir tvær heimsstyrjaldir tuttugustu aldar.

Vesturþýzka stjórnin er eina stjórnin á Vesturlöndum, sem hefur markvisst aflað sér áhrifa og ítaka í Austur-Evrópu. Þýzkir stjórnmálamenn, embættismenn, bankamenn og iðjuhöldar eru orðnir öllum hnútum kunnugir í fjárhag og efnahag austantjaldslanda.

Sagnfræðilega má líta á Vestur-Þýzkaland sem arftaka Rínarsambandsins, eins og Konrad Adenauer vildi hafa það, og Austur-Þýzkaland sem arftaka Prússlands. Því hefur opnunin til austurs einkum beinzt að Austur-Þýzkalandi, en seilist þó miklu víðar til áhrifa.

Sérstaklega er mikilvægt, að í Póllandi og Ungverjalandi hafa margir trú á Vestur-Þýzkalandi sem uppsprettu fjármagns, iðnþekkingar og efnahagslegra markaðshugmynda. Þetta eru þau tvö lönd Austur-Evrópu, sem mest líta til vesturs nú um skeið.

Hugsanlegt er, að aukið frjálsræði í Sovétríkjunum og sumum fylgiríkjum þeirra sé upphaf þróunar, sem ekki verði snúið við í fyrirsjáanlegri framtíð. Ef svo verður, mun stefna vesturþýzkra stjórnvalda reynast ákjósanleg aðferð til að stuðla að vestrun austursins.

Ekki eru þó minni líkur á, að afturkippur komi í tilraunir til opnunar og viðreisnar í austri, þegar almenningur sér fram á atvinnuleysi og verðhækkanir lífsnauðsynja, og leiðtogar hans sjá, að leiðin til vestrænnar auðlegðar er miklum mun torsóttari en þeir ætluðu.

Þessi varfærna túlkun ræður að nokkru ferð stjórnvalda í Bandaríkjunum og Bretlandi. Hin nýja stjórn Bush byggir stefnuna einnig á, að Gorbatsjov muni halda áfram einhliða skrefum til samdráttar í vígbúnaði, án þess að nokkuð þurfi að sinni að koma á móti.

Ekki má gleyma, að á flestum sviðum er vígbúnaður Sovétríkjanna og fylgiríkja þeirra í Evrópu mun meiri en Bandaríkjanna og bandamanna þeirra í Atlantshafsbandalaginu. Því þarf að semja um meiri og fyrri samdrátt í hermætti austan gamla járntjaldsins.

Mikilvægt er, að vesturþýzku og engilsaxnesku andstæðurnar í viðhorfum fái að þróast samhliða. Ef viðbragðsleysi stjórnar Bush við endurteknum eftirgjöfum Gorbatsjovs leiðir til betra jafnvægis í vígbúnaði á lægri nótum, hefur varfærnisstefnan skilað góðum árangri.

Um leið er varnfærnisstefnan afar hættuleg. Hún getur leitt til, að Vesturlönd missi af heimssögulegu tækifæri til aukins öryggis. Það mundi gerast á þann hátt, að Sovétríkin féllu frá stefnu eftirgjafa í vígbúnaði á þeim forsendum, að Vesturlönd virtu þær einskis.

Ennfremur er viðhorf almennings á Vesturlöndum smám saman að breytast Sovétríkjunum í hag og Bandaríkjunum í óhag, einmitt vegna þess að allt friðarfrumkvæði er komið í hendur Gorbatsjovs, meðan Bush og Baker og þeirra menn standa stífir eins og þvörur.

Málin hafa nú leitt til tímabundins klofnings í Atlantshafsbandalaginu milli engilsaxnesku ríkjanna annars vegar og hins vegar nokkurra ríkja á meginlandi Evrópu, sem fylgja Vestur-Þýzkalandi að málum. Það þarf þó ekki að leiða til neinna langtímavandræða.

Vesturlönd þurfa í senn að geta haldið vöku sinni gegn hernaðarhættu úr austri og hvatt til framhalds opnunar og viðreisnar í löndum Austur-Evrópu.

Jónas Kristjánsson

DV

Valdið, sviðið og listin

Greinar

Sveitarstjórnarmaður hótaði í síðustu viku að taka heitt og kalt vatn, rafmagn, slökkvilið og sorphirðu af nágrannasveitarfélaginu, af því að það sagði upp samningi um hraðbraut á mörkum sveitarfélaganna. Hann virtist ekki sjá neitt athugavert við slíkar hótanir.

Ofbeldishneigð er eitt þriggja persónulegra vandamála, sem hrjá íslenzka stjórnmálamenn um þessar mundir. Hún skýtur víðar upp kollinum en hjá hinum galvaska sveitarstjórnarmanni, sem hefur langan og eftirminnilegan valdshyggjuferil að baki sér.

Einn ráðherrann hótaði í vetur að ofsækja eigið málgagn með ríkishandafli, ef stjórn þess yrði ekki skipuð að hans vilja. Hann hefur verið skamman tíma að völdum, en hefur þegar öðlazt frægð fyrir tilhneigingu til að beita hótunum um misbeitingu ráðherravalds.

Báðum þessum stjórnmálamönnum vegnar vel í flokkum sínum. Annar hefur tekið við stjórn flokks síns og hinn bíður eftir kalli flokksbræðranna, sem hlýtur að koma á hverri stundu. Sauðféð, sem kallar sig kjósendur, er fremur hallt undir sterka menn af þessu tagi.

Þriðji stjórnmálaflokkurinn er undir stjórn ráðherra, sem lítur á pólitískar burtreiðar sem upphaf og endi stjórnmála. Hann nýtur sín bezt í slagsmálum, þótt hann sé alveg laus við ofbeldishneigð hinna tveggja fyrrnefndu starfsbræðra. Lífið er málfundur í hans augum.

Sem ráðherra sinnir hann litlu af embættisskyldum. Hann er á skrifstofu sinni um klukkustund á viku og veit lítið um gang mála í ráðuneytinu. Hann hefur yndi af að setja allt á hvolf með litlum pennastrikum og baða sig síðan í sviðsljósi upphlaupsins, sem fylgir.

Báðir eru þessir ráðherrar afar óvinsælir af starfsliði sínu. Valdshyggjumaðurinn lítur á það eins og hunda og umgengst það sem slíka. Burtreiðamaðurinn lítur á það eins og leiktjöld að baki hins mikla málfundar síns og skákar því til og frá eftir aðstæðum andartaksins.

Skaðsemi burtreiðamannsins er önnur og ekki síðri en skaðsemi valdshyggjumannsins. Innihald mála skiptir hann engu í raun, heldur eingöngu burtreiðarnar sem slíkar. Þess vegna verður hann einkar tækifærissinnaður og lítt traustvekjandi í samstarfi milli flokka.

Þriðji ráðherrann stjórnar einnig sínum flokki. Hans vandamál er í rauninni hættulegra en hinna tveggja, því að það felst í að líta á stjórnmál sem hrein og tær stjórnmál. Hann er alveg laus við valdshyggju og burtreiðafíkn, en hann vill verða töframaður stjórnmálanna.

Hann lítur á sig sem listamann hinna hreinpólitísku viðfangsefna málamiðlunar og björgunar fyrir horn. Hann nýtur þess að vera með alla enda lausa og láta spá stjórn sinni falli, en tefla svo málum í þá stöðu, að ríkisstjórnin lifi áfram til næstu kollsteypu.

Þannig situr hann efst á haugnum, án þess að stjórn hans hafi meirihluta á þingi. Þannig fékk hann þingmenn úr Borgaraflokki til fylgis við fjáröflunarfrumvörp ríkisstjórnarinnar. Og þannig fékk hann Kvennalistann til að fallast á málamiðlun í húsbréfum.

Listamaður þessi lítur á endalausa röð málamiðlana á síðustu stundu sem sönnun þess að hann sjálfur sé færari fulltrúi hinna hreinu og tæru stjórnmála en nokkur annar

Íslendingur. Innihald eða efni mála skiptir hann litlu sem engu í þessu tæra samhengi. Samanlagt eru það valdshyggjumenn, burtreiðamenn og hreinpólitískir listamenn, sem ráða því, að þjóðfélagið er á hraðri gjaldþrotsbraut um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV

Úr tengslum við slorið

Greinar

Oft hafa stéttarfélög ýtt úr vör með meiri kaupkröfur en háskólafólk hjá ríkinu hefur gert að þessu sinni. Og komið hefur fyrir, að þau hafi náð til hafnar með umtalsverðan hluta af kröfunum. Því er forvitnilegt að gera sér grein fyrir, af hverju siglingin gengur nú illa.

Launahlutföll hópa breytast ekki alltaf í takt. Einstökum stéttum hefur stundum tekizt að rífa sig lausar og ná meiri árangri en aðrar. Það gerðist raunar áður hjá háskólamenntuðu fólki, þegar samið var við ríkið um starfsmat, sem tók mikið tillit til menntunarlengdar.

Nú telja háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn, að aftur hafi sigið á ógæfuhliðina, og vilja rétta hlut sinn á nýjan leik. Sumir hópar þeirra eru í verkfalli, sem staðið hefur í réttar þrjár vikur og gæti staðið í margar vikur í viðbót. Engin lausn deilunnar er í sjónmáli að sinni.

Þegar vel hefur gengið að setja fram miklar kröfur og ná miklu fram, hafa aðstæður verið aðrar í þjóðfélaginu. Venjulega hefur það gerzt í kjölfar aukinnar velgengni í sjávarútvegi. Við slíkar aðstæður hafa hópar í landi haft misjafnt lag á að maka krókinn.

Að þessu sinni hafa ekki orðið í sjávarútvegi nein uppgrip, sem stjórnvöld geti dreift yfir þjóðfélagið í heild. Þvert á móti hafa tvær ríkisstjórnir í röð rekið fastgengisstefnu, sem hefur keyrt þrælsólina svo fast að hálsi sjávarútvegs, að honum liggur við köfnun.

Að þessu sinni er ekki heldur um að ræða, að hlutur launa í þjóðarkökunni sé að aukast og að einstakir hópar geti náð stærri sneiðum en aðrir af launahlutnum. Hann er mun stærri en venja hefur verið á síðustu áratugum og mun ekki aukast neitt til viðbótar.

Háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn hafa valið rangan tíma til að reyna að bæta hlut sinn umfram aðra. Ríkisstjórnin getur ekki leyft sér að semja við þá um aðrar samningastærðir en samið var um við aðra ríkisstarfsmenn og samið verður um við starfsfólk atvinnulífsins.

Ef stjórnvöld semdu við háskólafólk um meira en hjá öðrum ríkisstarfsmönnum, mundi almenni vinnumarkaðurinn hækka kröfur sínar. Ennfremur færi allt í gang aftur hjá bandalagi ríkisstarfsmanna. Stólarnir mundu hreinlega fljóta undan ráðherrunum í kollsteypunni.

Athyglisvert er, að háskólamenntaðir kennarar eru í hópi verkfallsmanna, þótt þeir hafi reynslu af litlum árangri í verkföllum. Það minnir á, að prentarar hafa á ýmsum tímabilum hneigzt til næstum árvissra verkfalla, þótt þeir hafi tapað á þeim, en ekki grætt.

Stundum rís róttæk þrætubókarforysta í stéttarfélögum. Hún hrífur með sér félagsmenn í eins konar hópefli, sem leiðir til verkfallshneigðar. Það er ekki fyrr en eftir nokkrar misheppnaðar atrennur, að hópvíman rennur af fólki og það fær sér raunsærri forustu.

Þrætubókin hefur fengið hljómgrunn hjá háskólagengnu fólki, af því að það hefur einangrazt í þjóðfélaginu og skilur ekki raunveruleikann í kringum sig. Kennarar úti á landi vita meira um atvinnulífið í kringum sig og voru því tregari til verkfalls en höfuðborgarliðið.

Hjá háskólamenntuðu fólki, einkum því, sem ekki stundar kennslu, er afar óáþreifanlegt samhengi milli launaumslags og árangurs í starfi. Sumir virðast raunar telja, að þeir eigi rétt á að fá borgað fyrir að vera til. Þeir eru víðar en á Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Verkfallsfólk mun bíða meira tjón af verkfallinu en sem nemur því, er um verður samið að lokum. Þetta stafar af, að háskólafólk hefur misst tengslin við slorið.

Jónas Kristjánsson

DV

Sérþarfir í vistkerfinu

Greinar

Á Búnaðarþingi, sem kallað var saman til aukafundar í síðustu viku, var samþykkt að mæla harðlega gegn stjórnarfrumvarpi um sérstakt umhverfisráðuneyti. Þessi ályktun sérhagsmunahópsins felur í sér beztu meðmælin, sem umhverfisráðuneytið hefur fengið.

Mikilvægasta lagfæringin á umhverfi Íslendinga felst auðvitað í að friða móbergssvæði hálendisins fyrir ágangi sauðfjár. Þetta vita vaðmálsmenn Búnaðarþings og þess vegna segir formaður Búnaðarfélagsins, að frumvarpið gagnrýni bændur og vegi raunar að þeim.

Að vísu þarf ekki sérstakt umhverfisráðuneyti til að losa landið við aldagamla áþján vaðmálsmanna. Beinskeyttari landvernd felst í að hætta fjárhagslegum afskiptum ríkisins af hefðbundnum landbúnaði og leyfa frjálsa verzlun með innlenda og erlenda búvöru.

Þótt Búnaðarþing hafi ályktað gegn frumvarpi ríkisstjórnarinnar um sérstakt umhverfisráðuneyti, er frumvarpið þar með ekki fullkomið. Líta má á það sem skref í átt til umhverfisverndar, en það fullnægir engan veginn þeim kröfum, sem gerðar verða í náinni framtíð.

Til dæmis er lífríki sjávar undanskilið í frumvarpinu. Það gerir ráð fyrir, að nýting fiskstofna verði áfram á valdsviði sjávarútvegsráðuneytisins. Ekki verður séð, að mun minni ástæða sé að færa hagsmunavald frá sjávarútvegsráðuneytinu en frá landbúnaðarráðuneytinu.

Raunar er heppilegt að draga afskipti umhverfismála úr öllum ráðuneytum, sem núna fjalla um slík mál. Það gildir ekki bara um sjávarútveg og landbúnað, heldur einnig um iðnað, orkuöflun, verzlun og afskipti af skipulagsmálum sveitarfélaga, svo að augljós dæmi séu nefnd.

Ófært er, að ákvarðanir, sem snerta vistfræðilega framtíð þjóðarinnar, séu teknar í hagsmunaráðuneytum atvinnuveganna. Vafasamt er raunar, að slík ráðuneyti eigi rétt á sér, því að þau eru í meira eða minna mæli ekki verkfæri þjóðarinnar, heldur hagsmunahópanna.

Þegar búið er að skera umhverfismálin af þessum ráðuneytum má sameina afganginn af þeim í eitt atvinnuvegaráðuneyti. Þar geta hugsjónamenn atvinnuveganna barizt með vaðmálsmönnum fyrir áhugamálum á borð við framhald innflutningsbanns á smjörlíki.

Ekki er síður nauðsynlegt að koma samskiptum ríkis og sveitarfélaga undir hatt umhverfismála. Sóðaskapur í vaðmálsstíl er alls ráðandi í sveitarfélögum landsins. Til dæmis lætur Reykjavík úrgang borgarbúa vella upp við ströndina og fjúka yfir borgina á nýjan leik.

Einnig hafa hin einkar kærulausu borgaryfirvöld Reykjavíkur áratugum saman látið viðgangast, að rekin sé í borgarlandinu, en á framfæri ríkisins, áburðarverksmiðja, sem spýr eitri yfir borgarbúa og nágranna þeirra og bakar borgarbúum um leið sprengihættu.

Engin vitræn áform eru enn hjá stjórnvöldum um að taka upp flokkun á sorpi, endurvinnslu þess og eyðingu hættulegra efna úr því. Sérstakt umhverfisráðuneyti getur auðvitað auðveldað þjóðinni að mæta 21. öldinni með sómasamlegri skipan mála á því sviði.

Ekki er síður mikilvægt, að nýtt umhverfisráðuneyti taki upp virkar aðgerðir til að reyna að hindra losun hættulegra úrgangsefna í úthafinu. Til dæmis þarf að berjast grimmt gegn hinni fáránlegu hugmynd frá Bretlandi að varpa slitnum kjarnakljúfum í Norður-Íshafið.

En við megum vita af hyggjuviti okkar, að umhverfisráðuneyti er því betra sem hærra veina sérhagsmunastjórar á borð við Búnaðarþing og Sjálfstæðisflokk.

Jónas Kristjánsson

DV

Húsbréf að hausti

Greinar

Þótt húsbréfin fyrirhuguðu séu að mörgu leyti álitlegri kostur en rústir núverandi húsnæðislánakerfis, er rétt að lögleiða þau ekki í vor, heldur skoða málið betur til hausts. Fram hafa komið rökstudd sjónarmið um, að húsbréfin muni ekki ná tilætluðum árangri.

Í leiðurum DV hafa húsbréfin verið studd í meginatriðum, enda fela þau í sér tilraun til að fjármagna kerfið að innanverðu í auknum mæli, í stað þess að treysta á síhækkandi framlög ríkisins. Meginhugsun bréfanna er rétt, þótt undirbúningur þeirra sé ekki nægur.

Síðustu vikur hafa nokkrir fræðimenn varað við hliðaráhrifum húsbréfanna. Meðal annars hefur verið haldið fram, að þau hafi svipuð áhrif og seðlaprentun og valdi þannig verðbólgu. Einnig muni þau hækka vexti og reka sig á vegg takmarkaðs innlends sparnaðar.

Of langt og flókið yrði að þræða rökin í afmörkuðu rými eins leiðara. Hins vegar er auðvelt að rekja viðbrögð húsnæðisráðherra. Þau hafa gengið á svig við innihaldið. Þau hafa einkum falist í hótunum og úrslitakostum og í væli um, að allir séu vondir við ráðherrann.

Húsbréfaráðherrann og hennar lið virðast ekki hafa kynnt sér efni gagnrýninnar eða ekki kæra sig um að kynna sér það. Þess vegna svarar ráðherra engu, heldur endurtekur í síbylju ýmislegt bull á borð við, að frestun málsins kosti hálfan milljarð króna á mánuði.

Einkennileg viðbrögð ráðherrans eru til þess fallin að efla vantrú á húsbréfum. Offors hennar hefur komið tæknilega flóknu máli í tilfinningahnút, sem ekki er góður í vegarnesti milljarðakerfis. Rúmlega hálfs árs róleg íhugun gæti komið málinu í jafnvægi að nýju.

Þeir, sem fylgjast grannt með íslenzkri lagasmíði, hafa tekið eftir, að meira að segja þau lög, sem virðast einföld, hafa yfirleitt margvísleg hliðaráhrif, sem ekki var gert ráð fyrir, þegar þau voru sett. Oft hafa vond hliðaráhrif yfirgnæft góð meginmarkmið laganna.

Enn meiri líkur eru á, að húsbréf hafi ófyrirséð hliðaráhrif, því að þau eru afar flókið mál. Vandaðri undirbúningur girðir ekki fyrir hliðaráhrif, en dregur úr líkum á, að þau verði svo alvarleg, að betra væri að búa áfram við rústir núverandi kerfis, sem við þekkjum þó.

Að einu leyti eru húsbréfin svo beinlínis grunsamleg. Í málflutningi stuðningsmanna þeirra er óbeint gefið í skyn, að þau framleiði verðmæti úr engu, því að þau spari ríkinu framlög. Að því leyti minna þau á margar fyrri sjónhverfingar, sem ráðherrar hafa notað.

Vandræði húsnæðiskerfisins eru fyrst og fremst þau, að opinbert fjármagn til þess er af skornum skammti. Bezta vopnið í þágu þess er auðvitað að auka fjármagnið. Raunverulegur skortur á fé verður aldrei bættur upp með sjónhverfingum í nýjum bókhaldskerfum.

Skynsamlegt gæti verið að hætta feluleiknum og viðurkenna, að þjóðfélagið neyðist til að gefa ungum Íslendingum byrjunarpeninga í lífsins matador, til dæmis með því að greiða rækilega niður vexti af húsnæðislánum, upp að ákveðnu marki, svo sem raunar verið hefur.

Úr því að ráðherra hefur klúðrað húsbréfunum með of litlum undirbúningi, er heilbrigt, að hann segi af sér eins og hann hefur lofað. Allt of sjaldgæft er hér á landi, að ráðherrar taki sjálfir afleiðingum mistaka sinna og gefi öðrum færi á að reyna að leysa hnútinn.

Húsbréfum ætti ekki að koma á fót með lítt málefnalegum ógnunum og gráti af hálfu ráðherra. Skynsamlegra er að skoða gagnrýnina í friði og ró í sumar.

Jónas Kristjánsson

DV

Við Austurvöll

Greinar

Þótt Hótel Borg sé ekki bezti húsnæðiskostur Alþingis um þessar mundir, er mun betra og skynsamlegra að kaupa húsið en að reisa víðáttumikinn alþingiskassa á öllum lóðunum vestur að Tjarnargötu og suður að Vonarstræti, eins og áður hafði verið ráðgert.

Kostnaðurinn skiptir miklu. Nýtt alþingishús hefði kostað hálfan þriðja milljarð króna og raunar fjóra milljarða að áliti sumra. Hótel Borg mun hins vegar ekki kosta nema 150­250 milljónir. Lagfæringar munu ekki þurfa að kosta heilar 100 milljónir að auki.

Fyrir Alþingi er auðvitað góður kostur að eignast fallegt, gróið, sögufrægt og virðulegt hús á tíunda hluta þess verðs, sem kostað hefði að reisa hinn forljóta alþingiskassa, jafnvel þótt það þýddi um leið, að áfram yrði að nota Þórshamar undir hluta af starfseminni.

Í víðara samhengi eru hins vegar annmarkar á breytingu Hótels Borgar í þingmannahús. Frá Reykjavíkurborg hefur komið það augljósa sjónarmið, að ekki sé gott fyrir mannlíf í kvosinni og borgarlífið almennt, að opinber stofnun ryðji hóteli og veitingasal úr vegi.

Í umræðum um þetta hafa augu manna beinzt að öðrum húsum við Austurvöll. Alþingi hefur þegar ráðizt inn í hús, sem stendur milli torgsins og Austurstrætis. Hér í blaðinu hefur einnig oftar en einu sinni verið bent á hús Pósts og síma við vesturhlið Austurvallar.

Póstur og sími þurfa alls ekki að vera í kvosinni. Mestur hluti starfseminnar hefur raunar flutzt austur í bæ, á svæðið milli Suðurlandsbrautar og Ármúla. Þar eða annars staðar mætti reisa hús fyrir þann hluta, sem enn er í húsunum við Austurvöll og Kirkjustræti.

Byggingar Pósts og síma í kvosinni eru gott dæmi um hin lamandi áhrif víðáttumikilla skrifstofuhúsa á mannlíf á svæðinu. Svipuð áhrif mundi nýtt alþingishús hafa: ­ að fólk gengi meðfram löngum húsveggjum, þar sem er engin starfsemi, er það þarf að nota.

Í skrifstofuhúsbáknum af þessu tagi þarf að taka jarðhæðina undir verzlanir og þjónustu, veitingahús og krár, svo og aðra starfsemi, sem kallar á umferð almennings. Þetta gleymdist við hönnun alþingishússins, sem vonandi hefur nú verið endanlega afskrifað.

Ef Alþingi keypti hús Pósts og síma við Austurvöll og Kirkjustræti til eigin skrifstofuhalds, væri skynsamlegt að taka neðstu hæðina til óskyldra nota. Þá hæð ætti að leigja út til verzlunar og annarrar þjónustu fyrir almenning. Það mundi auka mannlíf á svæðinu.

Í staðinn gæti Reykjavíkurborg fengið Hótel Borg. Húsið má sameina Reykjavíkurapóteki með nýjum inngangi, þar sem nú er listhúsið Borg. Við endurhönnun inngangsins er brýnt að taka nákvæmt tillit til hinnar gömlu hönnunar Reykjavíkurapóteks og Hótel Borgar.

Ef slík endurhönnun tækist vel, væri fengið ráðhús, sem spannaði alla austurhlið Austurvallar. Þá væri ráð hús borgarinnar við ráðhústorg eins og vera ber. Hinn hefðbundni ráðhúskjallari væri þar sem veitingasalur Borgar er, hefðbundinn samkomustaður kjaftaska.

Milli gömlu húsanna við Kirkjustræti og Tjarnargötu mætti svo reisa hús í sama stíl og þau eru og gera samanlagt úr þeim hið bráðnauðsynlega ráðhústorgs-hótel, með inngangi við hornið á Austurvelli. Þetta væri hótel, sem minnti að nokkru á Pulitzer í Amsterdam.

Þótt margt sé þannig betra en að flytja skrifstofur Alþingis á Hótel Borg, er sú hugmynd þó mun betri en alþingiskassinn, sem áður stóð til að reisa.

Jónas Kristjánsson

DV