Greinar

Efna 44 ára gamalt loforð

Greinar

Opnun stjórnmála í Póllandi og Ungverjalandi er síðbúin efnd á 44 ára gömlu, skriflegu loforði, sem Stalín gaf Vesturveldunum í Jalta. Þar ákváðu fulltrúar heimsveldanna, hver skyldi verða skipting áhrifasvæða þeirra í Evrópu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni.

Samkvæmt Jalta-samningnum áttu ríkisstjórnir í Austur-Evrópu eftir stríð að taka tillit til Sovétríkjanna í utanríkismálum, svo sem finnsk og austurrísk stjórnvöld þurfa raunar að gera. En stjórnarfar þar eystra átti að öðru leyti að ráðast í frjálsum kosningum.

Ef Stalín hefði ekki svikið þetta samkomulag, væri ástandið í Austur-Evrópu sennilega svipað og í Austurríki og Finnlandi. Ákveðið tillit væri tekið til Sovétríkjanna í utanríkismálum, en margir stjórnmálaflokkar skiptust á um að fara með völd eftir kosningaúrslitum.

Nú ætla stjórnvöld í Póllandi og Ungverjalandi að fara að deila völdunum, sem kommúnistaflokkar landanna hafa setið einir að. Þetta stafar ekki af lýðræðisást stjórnvalda, heldur af því að þau hafa siglt málum svo í strand, að þau þurfa aðstoð stjórnarandstöðu.

Þetta er hægt, 44 árum eftir fundinn í Jalta, af því að Sovétríkin sjálf hafa leiðzt inn á braut opnunar í stjórnmálum og viðreisnar í efnahag. Þar er byrjað að kjósa milli manna í kosningum og farið að reyna að nota markaðshyggju til að blása lífi í þjóðarhag.

Ólíklegt er talið, að Gorbatsjov sendi Rauða herinn til Búdapest eða Varsjár til að færa klukkuna aftur á bak. Hugsanlegt er þó, að slíkt verði haldreipi hans, ef hann fer halloka heima fyrir og þarf að nota ofbeldi út á við til að þóknast íhaldsmönnum flokksins.

Enn verður að gera ráð fyrir, að opnun og viðreisn standi tæpt í Sovétríkjunum. Viðreisnin er dæmd til að valda vonbrigðum, því að hún er svo feimnisleg, að hún minnir á stefnu Framsóknarflokksins og núverandi ríkisstjórnar á Íslandi. Slík stefna fer út um þúfur.

En hlýir vinda blása frá Moskvu aldrei þessu vant. Það gerir stjórnvöldum í Póllandi og Ungverjalandi kleift að reyna að fljóta ofan á valdapýramíða landa sinna með því að semja við stjórnarandstöðuna um nokkuð víðtæka valddreifingu undir forustu flokksins.

Í Póllandi á stjórnarandstaðan að fá aðgang að þriðjungi sæta neðri deildar þingsins og að allri efri deildinni. Í Ungverjalandi á hún í kosningum að fá að sitja við sama borð og kommúnistaflokkurinn. Í báðum lönd um er ráðgert að draga úr skorðum við prentfrelsi.

Athyglisvert er, að hreyfikraftar framfaranna í Póllandi og Ungverjalandi eru efnahagsógöngur, sem stjórnvöld hafa ratað í vegna feimnislegra tilrauna þeirra í vestrænni hagfræði. Þau skilja ekki fremur en íslenzk stjórnvöld, að kaupa verður allan markaðspakkann.

Hætt er við, að afturkippur komi í smáskammtafrelsið í Austur-Evrópu, þegar fólk áttar sig á, að það leysir ekki öll vandamál. Í stað þess að laga stöðuna með því að stökkva alla leið yfir í frjálshyggjuna, verður líklega reynt að draga úr frelsinu á nýjan leik.

Við sjáum fordæmið frá Kína, þar sem stjórnvöld urðu einna fyrst til að opna kerfið. Nú hafa þau hemlað fast á öllum sviðum. Þau hafa dregið úr tjáningarfrelsi, aukið ofsóknir á hendur minnihlutaþjóðum í landinu og horfið frá ýmsum tilraunum í markaðsbúskap.

Af ýmsum ástæðum er því rétt að hafa hóf á bjartsýninni, þegar stjórnvöld í Austur-Evrópu eru sum hver að byrja að haga sér í samræmi við Jalta-samkomulagið.

Jónas Kristjánsson

DV

Tveimur sparkað út og upp

Greinar

Sagt hefur verið, að í Bretlandi gamla tímans hafi elztu synirnir erft herragarðinn, miðsynirnir farið í utanríkisþjónustuna og hinir yngstu orðið sjóliðsforingjar. Það er því hvorki nýtt né séríslenzkt, að utanríkisþjónusta sé notuð sem eins konar atvinnubótavinna.

Því hefur líka verið haldið fram, að ein helzta orsök þess, hversu dauflega Bandaríkjunum gengur í samskiptum við önnur ríki, sé tilhneiging forseta til að verðlauna stuðningsmenn, fjáraflamenn og starfsmenn úr kosningabaráttu með sendiherrastörfum úti í heimi.

Hin íslenzka útgáfa þessa vandamáls er, að stjórnmálamenn, sem eru búnir að vera á innlendum markaði eða eru þar fyrir öðrum af einhverjum ástæðum, eru dubbaðir upp sem sendiherrar. Nú er búið að senda einn til Parísar og annar á förum til Bruxelles.

Komið getur fyrir, að fyrrverandi stjórnmálamenn standi sig vel á hinum nýja vettvangi, þótt hin dæmin séu fleiri. Það má líka ljóst vera, að þeir eru ekki skipaðir vegna hæfileika sinna til starfa að utanríkismálum, heldur til að leysa óskyld mál heima á Íslandi.

Ef slík vinnubrögð komast í vana, er hætt við, að rétta fólkið sæki ekki um störf í utanríkisþjónustunni. Greint hæfileikafólk leitar ekki á þann vettvang, ef það sér litla sem enga möguleika á að vinna sig upp í sendiherrastöður, sem eru fráteknar fyrir aðra.

Ennfremur má fastlega gera ráð fyrir, að starfsliðið, sem komið er inn fyrir dyr utanríkisráðuneytisins, leggi ekki eins hart að sér, ef það sér ekki fyrir sér gulrót hugsanlegrar sendiherrastöðu undir lok starfsferilsins. Samkeppni og metnaður verða minni en ella væri.

Á móti má segja, að öllum stofnunum sé mikilvægt að fá nýtt blóð að utan, svo að þær staðni ekki. En þá er í fyrsta lagi verið að tala um undantekningar, en ekki um reglu. Og í öðru lagi er verið að tala um fólk, sem tekið er inn vegna augljósra hæfileika til starfans.

Stjórnmálamenn eru ekki skipaðir á þeim forsendum. Albert var skipaður til að auðvelda ríkisstjórninni að ná meirihluta í atkvæðagreiðslum á Alþingi. Og Kjartan verður skipaður til að rýma fyrir Jóni Sigurðssyni vaxtaráðherra á næsta framboðslista Alþýðuflokksins.

Mikill kostnaður er lagður í utanríkisþjónustu lýðveldisins. Það er talið stuðla að sjálfstæði þjóðarinnar, að ríkið haldi uppi öflugu starfi á erlendum vettvangi. Því er alltaf mikið í húfi, að hæfileikamikið og dugmikið fólk gegni þar lykilhlutverki á öllum stigum.

Þörfin hefur aukizt á síðustu árum, til dæmis vegna hvalamálsins. Halldór Ásgrímsson hefur tryllt þjóðina inn í öngstræti, sem erfitt er að verja á erlendum vettvangi. Hvert sem litið er utan landsteinanna, má sjá, að málstaður Íslands er ekki í hávegum hafður.

Brýnt er, að utanríkisþjónusta okkar sé nýtt að fullu til að draga eftir megni úr tjóni okkar af hvalveiðistefnunni. Þjónustan hefur of lítið látið að sér kveða á þeim vettvangi. Ekki bætir úr skák, að pólitískar mannaráðningar draga núna úr vinnugleði og starfsafköstum.

Eftir sjö ára hlé frá pólitísku braski með sendiherrastóla var komin ástæða til að vona, að íslenzkir þjóðarleiðtogar hefðu öðlazt þroska til að forðast braskið. En nú hefur Jón Baldvin Hannibalsson í tvígang á einu ári sýnt ábyrgðarleysi, sem mun hafa hættuleg eftirköst.

Hans verður minnzt sem ráðherrans, er endurvakti gamla spillingu, sem heldur þroskaðri fyrirrennarar hans voru búnir að leggja niður fyrir sjö árum.

Jónas Kristjánsson

DV

Færiband á fullu

Greinar

Ráðherrar hafa á eigin spýtur ákveðið á síðustu fjórum vikum tæpum að taka af fé skattgreiðenda einum milljarði króna meira en nýlega samþykkt fjárlög ríkisins leyfa. Þetta er jafnmikið af ólöglegum umframgreiðslum til landbúnaðar og á öllu síðasta ári.

Þannig er ríkisstjórnin að magna ósið og ólög, sem ekki ætti að vera unnt að gera í þingræðisríki. Ef svo fer, sem horfir, er tímabært að leggja formlega niður fjárveitingavald Alþingis og taka upp beinar ákvarðanir úr rentukammeri, svo sem og tíðkuðust fyrr á öldum.

Sumar af þessum ákvörðunum ráðherra yrðu líklega samþykktar af Alþingi, ef það væri spurt, áður en það er orðið of seint. Það væri því hægt að gera þær löglegar á þeim tíma ársins, er þing situr að störfum. Í þinghléi mætti leita samþykkis fjárveitinganefndar.

Heyrst hefur, að Alþingi sé starfrækt þessa dagana og ræði ýmis smámál. Þess vegna hefðu ráðherrar getað farið hina löglegu leið að leggja fyrir þingið frumvörp um aukafjárveitingar upp á einn milljarð króna til loðdýraeldis, jarðræktar og sölueflingar búvöru.

Ráðherrar hafa sér til afsökunar, að sá aðili, sem samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins fer með fjárveitingavaldið, hefur ekki hreyft andmælum gegn hinni ólöglegu málsmeðferð. Þannig samþykkja alþingismenn í raun með þögninni, að ekki sé farið að lögum.

Stundum er lögbrotið alvarlegra. Í vöxt færist, að ráðherrar ákveði að verja fé skattgreiðenda til athafna, sem Alþingi hefur áður fjallað um og ekki treyst sér til að gera. Talið hefur verið saman, að í fyrra greiddu ráðherrar 625 milljónir króna gegn vilja Alþingis.

Ráðherrar hafa líka afsökun í þeim tilvikum, þótt hún sé ekki eins haldgóð. Svo virðist nefnilega, að þingmenn geri sér ekki heldur rellu út af þeim greiðslum, sem Alþingi hafði áður hafnað. Þannig hafa þingmenn óbeint helgað hin verri brot á verkskiptingu stjórnvalda.

Það eru engar smáupphæðir, sem hirtar eru af skattgreiðendum, án þess að fjárveitingavaldið hafi gefið leyfi til þess. Það eru þúsund þúsundkallar í einni milljón króna og þúsund milljónkallar í einum milljarði króna. Þetta er enginn smáþjófnaður framkvæmdavaldsins.

Og þessi heili milljarður er ekki samanlögð summa ólöglegra útgjalda ríkisstjórnarinnar. Hann er ekki annað en tæplega fjögurra vikna umframútgjöld ábyrgðarlítilla ráðherra til aðeins eins málaflokks, varðveizlu ofbeitar á landinu og úreltra atvinnuhátta í landbúnaði.

Þegar hefur verið gefið í skyn, að vænar slummur þurfi til viðbótar, svo að unnt sé að gefa útlendingum matinn, sem ekki er unnt að troða ofan í þjóðina með verðlækkunum, sem skattgreiðendur eru látnir borga. Í þessu gæti leynzt hálfur milljarður til viðbótar.

Áður en að því kemur, eru framlög skattgreiðenda til landbúnaðar komin upp í sjö milljarða króna á þessu ári. Það jafngildir einni milljón og sex hundruð sextíu og sjö þúsund krónum á hvern hinna 4.300 bænda í landinu. Og allt er þetta ákveðið á færibandi.

Skynsamlegra væri, að allar ákvarðanir, sem kosta milljónir, yrðu teknar af Alþingi eftir að hafa fengið þar eðlilega umræðu. Þá gæti fólkið í landinu fengið að heyra meira af röksemdunum að baki útgjaldanna og áttað sig betur á, hvaða þingmenn styðja ósómann.

Brýnt er orðið, að Alþingi endurheimti fjárveitingavaldið úr höndum hóflauss framkvæmdavalds og sanni þannig tilverurétt sinn, sem ella má draga í efa.

Jónas Kristjánsson

DV

Bráðkvaddur útvarpstexti

Greinar

Útvarpsfrumvarpið, sem menntaráðherra lét semja í hendingskasti í vetur, er á margan hátt óvenjulegt. Ekki kemur því á óvart, að meirihluti ríkisstjórnarinnar hefur af skynsemisástæðum hafnað, að frumvarpið verði lagt fram í hennar nafni á Alþingi.

Í fyrsta lagi er það samið í miklum flýti. Þegar menntaráðherra komst til valda í upphafi vetrar, kastaði hann fyrir borð nýsmíðuðu útvarpsfrumvarpi. Í staðinn lét hann formann bandalags ríkisstarfsmanna semja nýtt og gerbreytt frumvarp í grænum hvelli.

Í öðru lagi leggur ráðherra mikla áherzlu á að gefa þjóðinni rangar upplýsingar um afstöðu þeirra, sem sátu í nefndinni. Hann segist fagna samstöðu þeirra. Í raun var alls engin samstaða í nefndinni, því að einstakir nefndarmenn skiluðu margs konar séráliti.

Ekki er auðvelt að skýra, hvers vegna ráðherrann lét semja frumvarpið í svona miklum flýti og hvers vegna hann telur henta sér að gefa rangar upplýsingar um afstöðu nefndarmanna. Ef til vill hefur hann dreymt um, að hraði og offors mundu lóðsa málið til hafnar.

Í þriðja lagi er fróðlegt, hvernig ráðherrann og formaðurinn reyndu að ná sáttum milli stríðandi afla í heimi útvarps og sjónvarps. Það var ekki auðvelt verk, því að ríkisstöðvar og einkastöðvar hafa skipzt á skotum allan tímann, sem slakað hefur verið á einokuninni.

Lausnin var svo sem ekki ný af nálinni. Oft hafa tveir aðilar náð samkomulagi sín í milli um að láta þriðja aðila borga reikninginn. Í þessu tilviki áttu það að vera dagblöðin. Ríkissjónvarpið og Stöð 2 urðu sammála um að láta þau borga í fjölmiðlasjóð handa sjónvarpinu.

Í sjóðinn áttu samkvæmt frumvarpinu að renna tólf af hundraði auglýsingatekna fjölmiðlanna, þar á meðal dagblaðanna. Þetta hefur verið metið á 300 milljónir króna árlega. Sjóðnum var ætlað að stuðla að innlendri dagskrárgerð og vöndun og varðveizlu móðurmálsins.

Svo vel vill til, að innlent er allt það, sem á sjónvarpsmáli mætti kalla dagskrárgerð á dagblöðunum. Ennfremur eru dagblöðin að öllu leyti rituð á íslenzku máli, yfirleitt vandlega prófarkalesnu. Þau eru því utan vandamáls og verksviðs sjóðs útvarpslagafrumvarpsins.

Sjónvarpsstöðvarnar eru hins vegar að mestu leyti byggðar á erlendri dagskrárgerð, einkum bandarískri, og flytja að mestu efni á erlendri tungu, einkum enskri. Þar að auki hefur einkastöðin að yfirlýstu markmiði að keppa við sápuóperuefni gervihnattastöðva.

Ef einhver nýr fjölmiðlavoði steðjar að íslenzkri menningu og tungu, stafar hann annars vegar af erlendu talmáli sjónvarpsstöðva og lélegri textun þess á íslenzku og hins vegar af málhelti margra plötusnúða og annarra, sem tala í útvarp og sjónvarp.

Samkvæmt frumvarpinu átti að skattleggja þá fjölmiðla, sem hafa íslenzka dagskrá, í þágu hinna, sem hafa að mestu enska dagskrá. Um leið átti að skattleggja fjölmiðlana, sem byggjast á flutningi upplýsinga og sjónarmiða, í þágu hinna, sem treysta á afþreyingu.

Athyglisvert er, að dagblöðin þurfa engin lög til að láta segja sér, að efni þeirra skuli vera á íslenzku og fela í sér ýmislegt fleira en afþreyingu, svo sem upplýsingar og skoðanir og menningu. Það bendir til, að lög af slíku tagi komi að litlum notum, þótt fallega séu hugsuð.

Útvarpslagafrumvarp ráðherrans og formannsins hefur því að verðleikum orðið bráðkvatt sem þeirra eigið afbrigðilega og öfundsjúka Alþýðubandalagsmál.

Jónas Kristjánsson

DV

Talmálið á bágt

Greinar

Fólk gleymir stundum, að íslenzk tunga skiptist í ritmál og talmál. Í hvorum þætti um sig er við vandamál að glíma. Í ritmáli er vandinn að flestu leyti gamalkunnur. Hinir nýju erfiðleikar stafa hins vegar að mestu af útþenslu talaðra fjölmiðla, útvarps og sjónvarps.

Í ritmáli hefur lítil breyting orðið önnur en, að afþreyingarbókmenntir hafa að nokkru vikið fyrir hliðstæðri afþreyingu í sjónvarpi. Hinar lélegu þýðingar og hráslagalegi prófarkalestur, sem einkenna þessa bókmenntagrein, hafa því nokkru minni áhrif en áður.

Um leið hefur aukizt notkun annars lesefnis almennings. Það eru dagblöðin, sem hafa í auknum mæli orðið að takast á herðar að vera til fyrirmyndar í rituðu máli á markaði fjöldans. Þau ná til hinna mörgu, sem ekki sækja málnæringu úr vönduðum fagurbókmenntum.

Á hverjum degi má tína villur úr öllum dagblöðum og það er gert. Blöðin eru prentað mál, sem liggur frammi. Fólk getur velt vöngum yfir tökum höfundanna á máli og stíl. Ef það er gert af sanngirni, verður niðurstaðan, að dagblöðin eru almennt séð á vönduðu ritmáli.

Morgunblaðið hefur áratugum saman verið tekið sem dæmi um fjólur í íslenzku. Enn þann dag í dag er á því blaði lögð heldur minni áherzla á prófarkalestur en gert er á öðrum dagblöðum. Samt verður ekki hægt að segja, að Morgunblaðið falli á hinu daglega prófi.

Hér á DV hefur frá upphafi verið lagt meira fé í vandaðan prófarkalestur en gert er á öðrum dagblöðum. Ráðamenn blaðsins vilja notfæra sér, að ritað mál felur í sér biðtíma,

er nota má til lagfæringa, sem ekki er unnt í talmáli andartaksins í útvarpi og sjónvarpi. Ekki er unnt að segja hið sama um ritmálið, sem birtist á sjónvarpsskjánum. Í samanburði við ritmál blaðanna er það einkar hroðvirknislegt, þótt tími ætti að vera til lagfæringa. Það verður engan veginn talin góð auglýsing um þýðingarskyldu á sjónvarpsstöðvum.

Efast má til dæmis um, að íslenzkri tungu sé nokkur vörn í textanum, sem birtist með afþreyingu og barnaefni Stöðvar 2. Betra væri að fella þýðingarskylduna niður eða minnka hana, en koma í staðinn upp skyldu prófarkalestrar á því efni, sem þýtt er á annað borð.

Minna er fjallað en vert er um ritmál í sjónvarpi, eingöngu af því að það kemur á skjáinn og fer í miklum flýti. Fólk hefur ekki mikinn tíma til að íhuga málfar skjásins á sama hátt og það getur hugleitt málfar dag blaðs, sem það hefur fyrir framan sig langtímum saman.

Erfiðleikar ritmálsins stafa þó einkum af, að hefðbundin kennsla í málfræði og stafsetningu hefur látið á sjá í skólum landsins. Um langt árabil hefur ríkt í skólamennsku hin hættulega tízkuhugmynd, að íslenzkunám eigi ekki að vera staglkennt, heldur skemmtilegt.

Erfiðleikar talmálsins eru þó orðnir sýnu alvarlegri. Talað mál er með vaxandi hraða að fjarlægjast ritmál. Sumt fólk hefur vanið sig á að bera aðeins fram fyrri hluta orða. Aðrir tala illskiljanlegt klisjumál úr opinberum stofnunum. Og málhelti breiðist út óðfluga.

Verst er, að þjóðin hefur í öllu þessu fyrirmynd úr hinum töluðu fjölmiðlum. Lengi hefur tíðkazt, að plötusnúðar noti ekki íslenzka hrynjandi. Og málhelti af ýmsu tagi er útbreitt, ekki síður meðal “evstu” fréttaþula í sjónvarpi en annarra, sem þar koma minna fram.

Fjölgun útvarps- og sjónvarpsstöðva kallar á sameiginlegt átak þeirra til varnar réttu talmáli. Það er fyrsta, annað og þriðja verkefnið í verndun íslenzkrar tungu.

Jónas Kristjánsson

DV

Atli Húnakonungur

Greinar

Við höfum áreiðanlega gott af að kynnast alvörukreppu eftir nær samfellda, þriggja áratuga þenslu í þjóðlífinu. Þessi kreppa er nú hafin og á eftir að magnast fram eftir ári. Hún lýsir sér meðal annars í gjaldþroti fyrirtækja, atvinnuskorti og minna hungri í lánsfé.

Við erum orðin svo vön velgengninni, að mörgum okkar finnst hún vera orðin að eins konar náttúrulögmáli. Sumir eru meira að segja svo fjarri efnahagslegum raunveruleika hinnar aðvífandi kreppu, að þeir eru að fara í verkfall eins og ekkert hafi í skorizt.

Merkast við kreppuna okkar er, að hún á sér engar forsendur í útlöndum. Hún er algerlega heimasmíðuð. Ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar lagði grundvöll hennar með fastgengisstefnu og stjórn Steingríms Hermannssonar hefur keyrt hana á fullt með ótal aðgerðum.

Engin ríkisstjórn í allri Íslandssögunni hefur verið eins dugleg og sú ríkisstjórn, sem nú situr. Eftir rúmlega hálfs árs setu hennar eru rústirnar í þjóðfélaginu þvílíkar, að þær væru ekki meiri, þótt Atli Húnakonungur hefði þeytzt yfir landið með riddurum sínum.

Engri annarri stjórn en Steingríms Hermannssonar og Halldórs Ásgrímssonar hefði komið í hug að grýta tíu milljörðum króna af almannafé til björgunar fyrirtækja. Af þessum tíu milljörðum eru þrír í beinum framlögum og sjö í ýmsum skuldbindingum, er falla á ríkið.

Ríkisstjórn þeirra félaga hefur gert loðdýrarækt að ómaga á borð við hefðbundinn landbúnað og er að gera garðyrkju og fiðurfjárrækt að slíkum ómaga. Þar á ofan hefur henni, fyrstri allra ríkisstjórna, tekizt að koma hornsteininum, sjávarútveginum, í tölu löggiltra ómaga.

800 milljónir fara í lán verðjöfunarsjóðs fiskiðnaðar og verða ekki endurgreiddar, að sögn Halldórs. 1000 milljónir fara í atvinnutryggingarsjóð og 1000 þar á ofan í ríkisábyrgðir hans. 600 milljónir fara í hlutafjársjóð og 100 í niðurgreitt rafmagn til fiskiðnaðarins.

Þessar slummur eru að töluverðu leyti afleiðingar fastgengisstefnu núverandi ríkisstjórnar og þeirrar, sem sat á undan henni. Fyrst taka yfirvöld stórfé með handafli frá útflutningsatvinnuvegunum og neyðast síðan til að færa þeim fé til baka með annars konar handafli.

Sjálfur ríkissjóður er rekinn með því að prenta peningaseðla og þynna gjaldmiðilinn. Þannig var búinn til hálfur þriðji milljarður ímyndaðra króna í janúar og febrúar. Þetta stafar meðal annars af, að engir kaupendur eru að ríkisskuldabréfum, sem bera 7,5% raunvexti.

Við erum að sigla inn í afar einkennilegt ástand. Í því vilja menn hvorki taka lán né veita lán. Í ástandinu fer saman verðbólga, sem byggist á fjáraustri ríkisins í tengslum við handafl af ýmsu tagi, og svo heimasmíðuð kreppa, sem byggist á gjaldþroti atvinnulífsins.

Með sjónhverfingum hafa stjórnvöld gert þjóðinni kleift að lifa meira um efni fram en áður hefur tíðkazt. Á fimm árum hefur hlutur launa hækkað úr 60% þjóðar kökunnar í 73% hennar. Og svo er fólk í ofanálag að fara í verkfall til að krefjast betri lífskjara.

Sparnaður er að leggjast niður í þjóðfélaginu. Hann hefur á sextán árum fallið úr 31% í 15% þjóðartekna. Þjóðin lifir svo mjög um efni fram, að hún hefur ekki lengur efni á að fjárfesta í framtíðinni. Enda er Atli Húnakonungur önnum kafinn við að lækka vextina.

Kosturinn við þetta er, að ríkisstjórnin er orðin óvinsælli en nokkur önnur stjórn, síðan mælingar hófust. Vonandi er hún ekki búin að bíta úr þeirri nál.

Jónas Kristjánsson

DV

Álagavefurinn

Greinar

Loðdýraævintýrið, sem stjórnvöld og stofnanir landbúnaðarins skipulögðu að ofan, er orðið að martröð. Á þessu ári hyggst ríkið verja 521 milljón króna í ýmsa fyrirgreiðslu í þágu atvinnugreinar, sem reiknað er með, að selji skinn til útlanda fyrir 140 milljónir króna.

Aðstoðin nemur nærri fjórföldum tekjum greinarinnar. Ódýrara er því að senda hverjum loðdýrabónda launaávísunina beint, en þá með því skilyrði, að skattgreiðendur væru ekki ónáðaðir frekar af atvinnugreininni. Loðdýrabændum væri borgað fyrir að gera ekkert.

Þannig er loðdýrarækt komin í hóp hefðbundinna búgreina. Einkenni þeirra er, að reksturinn er svo dýr, að einfaldara er fyrir ríkið og skattgreiðendur að senda bændum launin beint, en láta alla aðra aðstoð eiga sig. Einkenni þeirra er, að peningum er brennt til einskis.

Loðdýraræktin hefur í einu vetfangi stokkið og sokkið í dý, sem kartöflurækt, eggjaframleiðsla og kjúklingaeldi hafa verið að síga í á mörgum árum. Landbúnaðarfenið í heild kostar skattgreiðendur meira en sjö milljarða króna í beinhörðum útgjöldum á þessu ári.

Fyrir mánuði var talið, að tap ársins næmi sex og hálfum milljarði. Síðan hefur að venju komið í ljós, að upphæðin er vanmetin. Ríkið neyðist til að verja um 300 milljónum til viðbótar í uppbætur og um 300 milljónum í niðurgreiðslur. Dæmið fer því yfir sjö milljarða.

Dulbúna atvinnuleysið í landbúnaði kostar líka erlendan gjaldeyri. Aðföng landbúnaðar eru mikil, einkum olía og áburður. Með verulegum samdrætti í landbúnaði mundi sparast mikill gjaldeyrir, sem nota mætti til að kaupa erlenda búvöru og lækka vöruverð í landi.

Ef þjóðfélagið létti landbúnaðarbyrðinni af baki sér, mundu sparast margir milljarðar til að bæta lífskjör þjóðarinnar og snúa kreppunni í þenslu. Þess vegna er brýnt, að ríkið veiti verzlunarfrelsi í búvöru og hætti fjárhagslegum afskiptum sínum af landbúnaði.

Ef 4.200 bændur og 800 starfsmenn vinnslustöðva fengju sendar 50.000 krónur í pósti mánaðarlega í nokkur ár til að auðvelda þessa aðlögun, mundi ríkið ekki missa til baka nema þrjá milljarða af sjö milljörðum, sem nú fara í súginn. Það yrði því töluverður afgangur.

Í staðinn er unnt að benda fólki á, að til eru búgreinar, sem ekki liggja uppi á ríkinu. Þar eru fremstar í flokki ferðaþjónusta bænda og hrossarækt. Ennfremur þarf þjóðfélagið að fá bændur í skógrækt. Loks er eðlilegt að ríkið bjóði bændum haldgóða endurmenntun.

Ótalinn er svo hagnaðurinn, sem hlytist af friðun afrétta. Ef ofangreindar aðgerðir minnkuðu sauðfjárrækt um meira en helming, væri unnt að alfriða víðáttumiklar afréttir á móbergssvæðinu og snúa loksins vörn í sókn í baráttunni gegn aldagamalli landeyðingu.

Árum saman hefur verið brýnt, að kjósendur átti sig á, að þjóðfélagið er bundið í álög ríkisrekstrar á landbúnaði. En nú er fjárhag heimila, atvinnufyrirtækja og ríkisins sjálfs svo hörmulega komið, að ekki verður lengur undan vikizt að reka ófögnuðinn af höndum sér.

Þegar kjósendur rísa loksins upp, dugar ekki minna en að skipta að mestu leyti um stjórnmálamenn og -flokka. Þeir, sem hingað til hafa skipzt á um að fara með völdin, eru allir sekir um að hafa ofið álögin. Þeir vilja hvorki leysa þjóðina úr álögunum né geta það.

Lausnin felst í að senda bændum tékkinn beint og neita öllum öðrum fjárhagslegum afskiptum af landbúnaði, svo og verndun hans gegn ódýrum matvörum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagfræði fyrir ráðherra

Greinar

Þegar nokkrir ráðherrar eru komnir á bólakaf í pytt hagfræðitilrauna, sem eru fráleitari en verið hafa um langt skeið, er örugglega hentugt að rifja einu sinni upp Litlu gulu hænuna í fræðinni, hinum ævintýragjörnu kreppusmiðum ríkisstjórnarinnar til halds og trausts.

Til aukins skilnings á þjóðfélaginu er því oft skipt í þrennt, fyrirtækin, heimilin og hið opinbera. Notkun peninga á hverjum hinna þriggja staða er gjarna skipt í neyzlu og fjárfestingu. Samtals verða úr þessu aðeins sex hagfræðistærðir, sem mestu máli ættu að skipta.

Eðlilegt er, að þjóð skipti sér í stjórnmálaflokka með nokkurri hliðsjón af þessum stærðum. Einn hópurinn, sem kalla mætti réttlætissinna, vildi þá auka samneyzlu á kostnað annarra þátta dæmisins, til dæmis fjárfestingar fyrirtækja eða einkaneyzlu umfram eitthvert mark.

Annar hópurinn, sem kalla mætti auðgunarsinna, vildi hins vegar auka fjárfestingu fyrirtækjanna á kostnað annarra þátta, svo sem einkaneyzlu og einkum þó samneyzlu á vegum hins opinbera, af því að það væri bezta leiðin til að stækka kökuna, sem deilt er um.

Verðmætin í þjóðfélaginu verða til í atvinnulífinu. Mestum hluta þeirra er síðan dreift yfir allt þjóðfélagið í mynd einkaneyzlu og samneyzlu. Afgangurinn er sparaður til fjárfestingar fyrirtækja, heimila eða hins opin bera. Þessi sparnaður hefur minnkað hér á landi.

Þegar hlutdeild sparnaðar í þjóðarframleiðslu hefur minnkað frá árinu 1972 úr 31% í 15% árið 1988, hafa sjónarmið auðgunarsinna greinilega farið halloka fyrir sjónarmiðum hinna, sem vilja dreifa réttlætinu sem fyrst, þótt réttlætiskakan sé þá minni en ella yrði.

Þessi breyting endurspeglar, að allir stjórnmálaflokkar landsins hafa á þessu tímabili meira eða minna fylgt í framkvæmd stefnu hins bráða eða óþolinmóða réttlætis. Þeir hafa allir fremur viljað dreifa gæðum lífsins en stuðla að myndun nýrra gæða til síðari dreifingar.

Smám saman hefur þetta verið að breyta þjóðinni í gæludýr. Smám saman hefur fólk fjarlægzt áhugann á að búa til seljanleg verðmæti og færst nær því að verða gæludýr, sem lifa á gustuk stjórnmálamanna. Þjóðin er að breytast úr vinnandi fólki í þrýstihópa.

Í þessum sviptingum er fólk óðum að missa sjónar á mismun fyrirtækja sem stofnana til verðmætasköpunar og ríkiskontóra sem stofnana til verðmætadreifingar. Til dæmis hefur heilli atvinnugrein, landbúnaðinum, verið breytt í ríkiskontór, sem dreifir fé.

Ört fjölgar þeim, sem vilja leggjast í náðarfaðm ríkisins, eins og landbúnaðurinn hefur áður gert. Afkoma fyrirtækja hættir smám saman að ráðast af gildi þeirra til verðmætasköpunar og ræðst í vaxandi mæli af aðstöðu þeirra til að komast að jötu Stóra bróður.

Í sviptingunum missir fólk einnig sjónar af mælikvarðanum, sem aðrar þjóðir nota til að mæla verðgildi. Úti í umheiminum hefur reynzt áhrifaríkast, að láta framboð og eftirspurn vegast á skálum markaðar, þar sem verð endurspeglar ekki tilkostnað seljandans.

Hér vilja menn heldur, að stjórnmálamenn taki í sovézkum stíl að sér hlutverk markaðarins og ákveði með handafli, hvert skuli vera verð allra hluta. Hér vilja menn, að sett séu upp flókin kerfi til að mæla, hver sé tilkostnaður hvers og hvert skuli vera réttlæti hvers.

Hver þjóð velur sér stjórnmálamenn við hæfi. En skrítið er, að við skulum bara vilja menn og flokka, sem eru allir nokkurn veginn á sömu gæludýralínunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýr fjáröflun græn

Greinar

Grænfriðungar eru fangar eigin velgengni. Þeir líkjast íslenzkum stjórnmálamönnum að því leyti, að þeir vanda æ minna til meðala, eftir því sem þeir átta sig betur á, að fólk sér ekki gegnum tilraunir þeirra til að breiða út misskilning, sem þeir telja sér hagstæðan.

Grænfriðungar hafa ekki viljað læra af reynslu ofbeldis síns gagnvart ínúítum í Grænlandi og Kanada. Þeir hafa að vísu beðizt afsökunar á að hafa kippt stoðum undan hefðbundinni lífsafkomu fólks á þeim slóðum, en líta þó á glæp sinn sem minni háttar hliðarvanda.

Grænfriðungar eru að verða atvinnurekstur, sem þarf sífellt meiri peninga til að standa undir þenslunni. Þeir sérhæfa sig í að draga starfslið sjónvarpsstöðva og tilfinninganæma stórborgabúa á asnaeyrum með því að höfða til öflugs dálætis fólks á selum og hvölum.

Erfitt væri fyrir grænfriðunga að afla peninga til sívaxandi rekstrar með því að höfða til ástar stórborgarbúa á svínum og nautgripum. Það eru selir og hvalir, sem fá veskin til að opnast og seðlana til að streyma. Þess vegna eru selir og hvalir á oddi áróðursins.

Málstaðurinn er að sumu leyti ágætur í baráttunni gegn hvalveiðum Íslendinga. Augljóst er, að þær gegna engu atvinnusögulegu hlutverki í þjóðarbúskap eða þjóðarsál okkar í líkingu við selveiðar hjá ínúítum. Hvalveiðar okkar eru í senn ung og úrelt atvinnugrein.

Einnig má ljóst vera, að hvalveiðar Íslendinga eru ekki í samræmi við andann í ákvörðunum Alþjóða hvalveiðiráðsins, þótt teygja megi bókstafinn með lagakrókum, sem eru sérgrein okkar. Og svokallaðar “vísindaveiðar” eru ekki ákvörðun Alþingis, heldur Halldórs.

Hitt er svo annað og verra að halda því fram, að hvalir séu í útrýmingarhættu á íslenzku veiðisvæðunum og að koma því inn hjá bandarískum stórborgabúum, að Íslendingar drepi 10.000 háhyrninga á ári. Þá er orðinn langur vegurinn frá árlegri veiði 80 hvala.

Verst er svo, að grænfriðungar dreifa kvikmyndaefni, sem gefur beint og óbeint til kynna, að hvalir og selir séu drepnir í eins konar kvalalosta veiðimanna. Það er fjarri sanni, en er notað, af því að það æsir upp fólkið, sem las Moby Dick og Selinn Snorra í æsku.

Stuðningsfólk grænfriðunga opnar ekki buddur, þegar þarf peninga til áróðurs fyrir verndun ózonlags himinhvolfsins. Það mundi ef til vill opna þær lítillega, ef það sæi bíómyndir af slátrun svína og nautgripa í sláturhúsum. En selir og hvalir gegna hjartnæmara máli.

Barátta grænfriðunga gegn hvalveiðum Íslendinga er ekki eitt af hinum brýnni verkefnum mannkyns í verndun umhverfis okkar á jörðinni, enda meira eða minna rekin á þægilegum fölsunum. Hún er fyrst og fremst fjáröflunaraðferð og er áhrifamikil sem slík.

Skiljanlegt er, að samtök leiðist smám saman til að beita aðferðunum, sem gefa mest í aðra hönd. En eðli samtaka breytist eftir baráttuaðferðunum, sem notaðar eru. Tilgangurinn helgar ekki meðalið. Og á endanum munu grænfriðungar tapa á vinnubrögðum sínum.

Hið sama má raunar segja um sjávarútvegsráðherra og aðra íslenzka stjórnmálamenn, sem afla sér vinsælda heima fyrir með því að fá þjóðina til að sjá óvini í hverju horni í útlöndum. Að fara í stríð er gamalkunnug leið til að dreifa athygli frá innlendum vanda.

Á alla vegu er hvalamálið skólabókardæmi um, að skynsemi fær litlu að ráða, ef stundarhagur málsaðila býður, að ódýrt sé spilað á tilfinningar fólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaðmálsmenn í valdastóli

Greinar

Óðum er að skýrast myndin af hinni raunverulegu stjórnmálabaráttu, sem hefur verið háð hér á landi öldum saman og er enn. Það er stríðið milli sjávarútvegs og iðnaðar annars vegar og landbúnaðar hins vegar, sem sagnfræðingar hafa í vaxandi mæli að umfjöllunarefni.

Gísli Gunnarsson reið á vaðið með doktorsritgerð sinni um einokunarverzlun sautjándu og átjándu aldar. Hann sýndi fram á, að íslenzki embættis- og landeignaaðallinn barðist gegn afnámi einokunarinnar, þegar Skúli fógeti og danski kóngurinn vildu afnema hana.

Ólafur Stephensen stiftamtmaður var forustumaður byggðastefnu þess tíma, er bændur vildu hindra, að dugmiklir vinnumenn heimtuðu meira kaup. Fræg eru orð hans, er hann kvað áríðandi, að “landjarðir verði eigi yfirgefnar vegna of mikilla tillokkana fólks að sjó”.

Gísli sýnir í ritgerð sinni, hvernig íslenzkir landeigendur fengu haldið niðri verði á sjávarvörum til að halda uppi háu verði á ullarvörum. Þannig fjármagnaði sjávarútvegurinn landbúnað á fyrri öldum, eins og hann gerir núna í formi opinberrar gengisskráningar.

Vaðmálsmenn töpuðu hörmangaraorrustunni á sínum tíma, en þeir gáfust ekki upp í styrjöldinni. Ólafur Ásgeirsson sagnfræðingur hefur kortlagt sveiflurnar í valdajafnvægi fortíðar- og framtíðarstefnu íslenzkra atvinnuvega á fyrstu fjórum áratugum þessarar aldar.

Í bókinni Iðnbylting hugarfarsins skiptir hann þessu tímabili í fjóra hluta. Fyrst var sigurför iðnbyltingar í sjávarútvegi fyrstu tvo áratugina. Síðan stóð gagnsókn landbúnaðarins þriðja áratuginn. Fyrri helming fjórða áratugarins voru iðjuöflin aftur í skammærri gagnsókn.

Loks segir Ólafur, að tímabilið 1936­1939 hafi verið sigurtími sveita, er vaðmálslið Framsóknarflokksins stjórnaði landinu. Það barðist gegn stórframkvæmdum, framlengdi kreppuna, braut iðjustefnuna á bak aftur og fór að hlaða virki gegn ódýrum mat frá útlöndum.

Þá lýsti handbók flokksins lífi í þéttbýli á þennan hátt: “…menningarlaus úthverfalýður, sem ferst, kynslóð á kynslóð ofan, í örbirgð og óþrifum miklu meiri en unnt er að gera sér sér í hugarlund um það, sem viðbjóðslegast muni vera og sorglegast í mannheimi”.

Síðustu árin hafa vaðmálsmenn náð sífellt betri tökum á stjórnmálunum. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki haldið upp á afmæli sitt á réttum tíma út af sauðburði. Þingmenn flokksins rísa upp í vandlætingu, þegar ráðherra Alþýðuflokks gagnrýnir ofbeit sauðfjár.

Alþýðubandalagið hefur verið að fjarlægjast hag fræðihyggju, af því að gengi Karls Marx hefur farið lækkandi á alþjóðamarkaði. Í staðinn hefur vaðmálsstefna náð völdum. Gamlir þjóðvarnar- og framsóknarmenn ríða þar öllum húsum og hamast gegn neytendum.

Kvennalistinn er meira eða minna gegnsýrður vaðmálshyggju og gætir alls ekki hagsmuna neytenda í þéttbýli. Flokkurinn er gefinn fyrir að vernda allt sem fyrir er, þar á meðal hinn hefðbundna landbúnað og byggð landsins í nákvæmlega því horfi, sem hún er nú.

Alþýðuflokkurinn var dálítið upp á nýja móðinn í tíð Gylfa Þ. Gíslasonar, sem sá í gegnum vaðmálshyggjuna. Jón Sigurðsson hefur einnig abbast upp á hana. Að öðru leyti er flokkurinn svo tækifærissinnaður, að fylgjendur röskunar og framfara hafa lítið hald í honum.

Á sama tíma og fræðingar eru að fletta ofan af sögulegu samhengi íslenzkrar vaðmálsstefnu, er hún um þessar mundir traustari en nokkru sinni í valdastóli.

Jónas Kristjánsson

DV

“Aukafjárveitingar”

Greinar

Dæmigert fyrir valdaafsal Alþingis sem fjárveitingavalds er, að þingmenn tala almennt um útgjöld ráðherra umfram fjárlög sem “aukafjárveitingar”. Með þessu orðavali er verið að viðurkenna, að ráðherrar hafi fjárveitingavald, sem þeir hafa þó alls ekki.

Samkvæmt stjórnarskrá er Ísland þingræðisríki eins og flest ríki Vestur-Evrópu. Valdinu er skipt milli aðalstofnana ríkisins á þann hátt, að Alþingi er falið að setja lög. Langsamlega mikilvægustu lög, sem Alþingi setur, eru hin árlegu fjárlög og lánsfjárlög ríkisins.

Í þessu sem öðru hefur myndazt ólögleg hefð um, að Alþingi afsali sér valdi. Hinar svokölluðu “aukafjárveitingar” eru bara eitt dæmi um þetta. Þar á ofan eru lög, sem Alþingi setur, oftast sterklega pipruð með víð tækum ákvæðum um heimildir handa ráðherrum.

Alþingi hefur líka leyft ráðherrum að framleiða verðbólgu með því að þynna krónuna með prentun nýrra peningaseðla, sem ekki hafa nein ný verðmæti að baki sér. Þannig hefur krónuþynning í seðlaprentun numið meira en milljarði króna á mánuði frá áramótum.

Þynning krónunnar með seðlaprentun er uppspretta margra þungbærustu efnahagsvandræða þjóðarinnar, einkum verðbólgunnar og vaxtanna, sem henni fylgja. Helzti þáttur efnahagsaðgerða allra ríkisstjórna er glíma við verðbólgu, sem er afleiðing seðlaprentunar.

Þegar Alþingi ákveður að fara að taka starf sitt alvarlega að nýju, verður eitt fyrsta verkið að taka seðlaprentunarvaldið af ráðherrunum. Það gerir Alþingi með því að banna Seðlabankanum að veita ríkisstjórnum yfirdrátt á annan hátt en með ströngum skilyrðum Alþingis.

Þegar Alþingi vaknar þannig óvænt til lífsins, mun það einnig leggja niður ósið heimildarákvæða í nýjum lögum. Þar á ofan mun Alþingi láta tölvu finna alla staði í gömlum lögum, þar sem standa orðin: “…ráðherra er heimilt…” Slík orð verða svo strikuð út með lögum.

Svo virðist sem alþingismenn séu farnir að rumska. Tveir fjárveitinganefndarmenn, Pálmi Jónsson og Geir Haarde, hafa lagt fram frumvarp, sem setur strangar skorður við útgjöldum ráðherra umfram fjárlög. Þetta mikilvæga spor í rétta átt verður vonandi samþykkt.

Að vísu segir Ólafur Þ. Þórðarson fjárveitinganefndarmaður réttilega, að frumvarpið gangi ekki nógu langt. Hann vill, að Alþingi sjálft ákveði aukafjárveitingar, en framselji ekki valdið til fjárveitinganefndar. En þessir þrír nafngreindu þingmenn ættu að stilla saman strengi.

Svo langt gengur valdhroki ráðherra, að þeir láta borga atriði, sem Alþingi var áður búið að hafna. Talið hefur verið saman, að í fyrra vörðu ráðherrar 625 milljónum króna til ýmissa verkefna, sem Alþingi hafði áður fjallað um, en ekki treyst sér til að fjármagna.

Slíkt athæfi er ekki bara ósiðlegt og ólöglegt, heldur er það hreint og tært stjórnarskrárbrot. Furðulegt er, að Alþingi skuli láta slíkt viðgangast ár eftir ár og þurfa þar á ofan að þola, að það færist í vöxt með nýjum og ósvífnari valdshyggjumönnum í ráðherrastóli.

Eins og venjulega er það landbúnaðurinn, sem nýtur forréttindanna að fá ólöglega fyrirgreiðslu ráðherra. Í fyrra treysti Alþingi sér ekki til að verja meiru en tæpum fjórum milljörðum til uppbóta og niðurgreiðsla. Ráðherrar bættu svo tæpum milljarði ólöglega ofan á.

Er þingmenn átta sig á, að ólögleg útgjöld ráðherra eru engar “aukafjárveitingar”, eru þeir orðnir siðferðilega reiðubúnir að endurheimta fjárveitingavaldið.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokks- og skólabræður

Greinar

Handhafar forsetavalds eru ekki einir um að spóka sig án aðgæzlu á hengiflugi siðleysis í misnotkun á risnu. Komið hefur í ljós, að ráðherrar eru á rölti á sömu slóðum og gá sumir hverjir ekki að sér, einkum þeir sem undir niðri líta á þjóðfélagið sem herfang sitt.

Í öllum tilvikum, sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, byggist risnuspilling ráðamanna á, að ekki eru til fastar reglur á prenti. Óskráð lög kunna að duga í útlöndum, þar sem græðgi valdsmanna eru meiri takmörk sett en hér á landi. Við þurfum formlegra aðhald.

Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra gaf sér tíma frá galtómum siðaprédikunum yfir ríkisforstjórum til að bjóða vinum sínum í Alþýðubandalaginu til veizlu í ráðherrabústaðnum. Tilefnið, sem hann fann, var tíu ára gamalt og varðaði alls ekki Alþýðubandalagið.

Fjármálaráðherrann varði sig með því að segja veizluna aðeins hafa kostað um 50.000 krónur. Þar reiknar hann með áfengi á niðursettu ríkisverði. Á verði almennings kostaði þessi veizla 120.000 krónur. En vandinn er ekki upphæðin, heldur að veizlan skyldi haldin.

Annað enn verra dæmi er frá tíð næstsíðustu ríkisstjórnar. Þá hélt Friðrik Sophusson nokkrum samstúdentum sínum hanastélsboð í ráðstefnusölum ríkisins í Borgartúni. Í viðtali við DV taldi hann þetta hafa kostað 15.000 krónur. Óniðurgreitt verð er um 40.000 krónur.

Hinn fyrrverandi ráðherra bætti gráu ofan á svart í viðtalinu með því að segja óþarft að finna skýringar á svona fjáraustri út í loftið. Ráðherrar ættu að hafa leyfi til að bjóða bekkjarbræðrum eða flokksbræðrum í veizlur, án þess að það þjónaði hag ráðuneytisins.

“Ef ráðherra getur ekki boðið nokkrum bekkjarbræðrum sínum í glas, þá er ekki mikið eftir”, sagði hann orðrétt í viðtalinu. Hann sagði líka, að ráðherrar ættu ekki að skammast sín fyrir slíkt, ekki frekar en þeir skammast sín fyrir að aka í ráðherrabílum.

Samanburðurinn er villandi. Almennt er talið í þjóðfélaginu, að ráðherrar eigi að fá að aka um í ráðherrabílum og jafnvel láta aka sér í þeim, ef um þetta gilda sömu reglur og fyrir annað fólk, þar með taldar hinar nýju reglur, sem ráðamenn hafa sett um skattframtöl.

Ennfremur er talið eðlilegt, að ráðherrar geti boðið í hanastél við ákveðin tækifæri, svo sem þegar landssamtök eða fjölþjóðasamtök halda aðalfundi. Heimild til slíks á hins vegar ekki að leiða til sérstakra boða fyrir skólabræður eða flokksbræður ráðherranna.

Hið sama er að segja um ferðalög ráðherra. Ef þeir þurfa embættis síns vegna að fara í skyndingu út á land, kemur til greina, að þeir fái aðgang að flugvélum landhelgisgæzlu eða flugmálastjórnar. En fráleitt er, að þeir noti slíka farkosti á flokksfundi eða áróðursfundi.

Brýnt er, að settar verði reglur um risnu og ferðalög ráðamanna, svo að gráa svæðið milli opinberra þarfa annars vegar og flokksþarfa eða einkaþarfa hins vegar sé sem minnst og mörkin sem skýrust. Síðan þarf að fela Ríkisendurskoðun að fylgjast með framkvæmdinni.

Við lifum á siðlitlum tímum, er valdamönnum hættir til að ganga eins langt og þeir telja sér unnt í ofnotkun og misnotkun á valdi. Við lifum á frumstæðum tímum, er valdamönnum hættir til að líta á þjóðfélagið sem langþráð herfang sitt eftir langa eyðimerkurgöngu án valds.

Mestu máli skiptir ekki, að fastar reglur um risnu og ferðir spari nokkurt fé, heldur hitt, að þær gefa tóninn um ábyrgari meðferð á peningum skattgreiðenda.

Jónas Kristjánsson

DV

Sorp og skolp á vergangi

Greinar

Losun á sorpi og skolpi hefur lengi verið til skammar á höfuðborgarsvæðinu. Nánast engin vinnsla hefur verið á úrgangsefnum, síðan Reykjavíkurborg gafst upp á framleiðslu skarna í sorpeyðingarstöð í Ártúnshöfða. Og nýjustu ráð til úrbóta hafa reynzt umdeilanleg.

Komið hefur í ljós, að sameining skolps í stórar dælustöðvar hefur hingað til gert illt verra við strendur höfuðborgarinnar. Volgt og ósalt skolpið vellur úr útfallsrörunum 50 metra frá landi og stígur upp á yfirborð sjávar, þar sem það myndar víðáttumikla flekki.

Í hvassviðri fýkur skolpið síðan aftur upp á land, svo sem gerzt hefur nokkrum sinnum í vetur. Heilbrigðisyfirvöld sveitarfélaga og ríkis virðast ekki enn hafa tekið eftir þessum vanda og hafa komið meira eða minna af fjöllum, þegar þau hafa verið spurð um hann.

Einnig hefur komið í ljós, að svokallaðar hreinsunarstöðvar, sem settar hafa verið upp við Kirkjusand og Skúlagötu, eru í rauninni ekki neinar hreinsunarstöðvar, heldur fyrst og fremst söxunarstöðvar og dælustöðvar. Þannig hefur blekkingu verið haldið á lofti.

Borgaryfirvöld verja sig með því að segja, að eftir fjögur ár verði útstreymi skolpsins komið 400 metra frá landi í stað 50 metra. Þetta sé afar dýrt verk, svo sem upp á eina Öskjuhlíðarkringlu eða ráðhús. Meiri tilkostnaður muni koma niður á lífskjörum borgarbúa.

Gegn þessu má fullyrða, að það sé í þágu lífskjara borgarbúa að fara dýrari leið, ef hún nær betri árangri. Lagt hefur verið til, að borgin setji upp alvöru skolphreinsistöð úti í Engey. Það er langtum dýrara en borgin er nú að gera, en gæti leyst vandann að mestu.

Ekki er betra ástandið í sorphirðu höfuðborgarsvæðisins. Ruslhaugarnir í Gufunesi hafa lengi verið til háborinnar skammar. Nú er ætlunin að setja upp stöð, er flokki sorp í grófum dráttum og bindi það í bagga, sem verði urðaðir með tiltölulega snyrtilegum hætti.

Margir telja, að fyrirhuguð sorpböggun sé of gamaldags í samanburði við miklu nákvæmari flokkun, sem komið hefur verið á í sumum nágrannalöndum okkar. Er böggunin þó spor í rétta átt, því að hún skilur tré og málma frá sorpinu og gerir kleifa endurvinnslu.

Aðalvandinn er, að svæðisbundin andstaða hefur komið í veg fyrir, að sorpböggunin og sorpurðunin verði á heppilegustu stöðunum, böggunin í nágrenni Rauðavatns og urðunin á Kollafjarðarsvæðinu. Er því málið að komast í ógöngur í Hafnarfirði og Krýsuvík.

Bent hefur verið á, að sorpböggun á Hellnahrauni í Hafnarfirði sé ofan á einu af mestu og beztu grunnvatnssvæðum landsins. Það sé óskynsamlegt, því að vatn sé ein dýrmætasta auðlind Íslands og gæti sennilega orðið mikilvæg útflutningsafurð í náinni framtíð.

Þegar hafa menn áhyggjur af vatnsskorti vegna mikillar þenslu í fiskeldi á strönd Reykjanesskaga. Fiskeldisstöðvar nota mikið af fersku vatni. Farið er að tala um, að stofna þurfi vatnsverndarfélag og takmarka fjölda stöðvanna vegna skorts á heppilegu vatni.

Vel getur verið, að sorpböggun spilli ekki neðanjarðarvatni. En talsmenn hennar hafa ekki sett fram neinar sannfærandi röksemdir um það. Yfirvöld í Hafnarfirði vilja stöðina, meðal annars af því að hún flýtir uppbyggingu iðnaðarsvæðis á hinu sama Hellnahrauni.

Þótt vandamál sorps og skolps séu nú tekin fastari tökum en áður á höfuðborgarsvæðinu, er ástæða til að efast um, að nógu hart sé gengið fram í umhverfisvernd.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzk stefna í Kreml

Greinar

Tilraunir stjórnvalda í Sovétríkjunum og víðar austan tjalds til viðreisnar efnahags eru dæmdar til að mistakast. Gorbatsjov og stuðningsmenn hans hefðu betur kynnt sér málin á Íslandi áður en þeir tóku upp svipaða Framsóknarstefnu og íslenzkar ríkisstjórnir stunda.

Skiljanlegt er, að ráðamenn í Sovétríkjunum og fylgiríkjum þeirra, svo og í Kína, horfi öfundaraugum til auðsöfnunar Vesturlanda og vilji notfæra sér brot af reynslunni að vestan. En það dugar bara ekki til árangurs að taka bara lítinn hluta hins vestræna hagkerfis.

Velgengni auðmagnsstefnunnar stafar af notkun sjálfvirkrar markaðstækni í stað tilskipana stjórnvalda. Stefnan nær ekki árangri, nema verð á vörum, þjónustu og fjármagni fái að mótast í samræmi við hin köldu markaðsöfl, sem koma í stað hlýju Stóra bróður.

Ef hagspekingar Gorbatsjovs hefðu lagt leið sína til Íslands, hefðu þeir komizt að raun um, að miðstýring hagkerfisins leiðir til fátæktar. Þeir hefðu séð, að handafl stjórnvalda er ekki fært um að skipuleggja gengi peninga, vaxtahlutfall og aðra mælikvarða á verðgildi.

Þeir hefðu líka kynnzt hér á landi viðamikilli samvinnuhreyfingu, sem er að veslast upp í hlýjunni hjá stjórnvöldum, er hafa haft hana að gæludýri í fjölmarga áratugi. Þeir hefðu séð, að samvinnufélög eru ekki hagkvæma leiðin til að leysa ríkisbú af hólmi.

Hins vegar er gaman fyrir Íslendinga að fylgjast með viðreisnartilraunum sérfræðinga Gorbatsjovs. Það gæti orðið tilefni veðmála að þrátta um, hvenær hagfræði hans og Steingríms Hermannssonar mætast á miðri leið og hvort sá fundur hafi raunar þegar átt sér stað.

Þótt ráðandi stjórnmálaöfl á Norðurlöndum kenni sig við félagshyggju, er deginum ljósara, að í fjármálum og hagkerfi þeirra ríkir markaðshyggja og aðrar undirstöður auðmagnsstefnunnar. Ísland er á þessu svæði eina landið, sem neitar sér um hin arðbæru þægindi.

Á Norðurlöndum hafa menn sætzt á þá niðurstöðu, að auðmagnshyggjan sé notuð til að magna verðmætaframleiðsluna og félagshyggjan sé síðan notuð til að dreifa dálitlu af réttlæti út um þjóðfélagið. Í þessari sátt fær auðmagnshyggjan að njóta sín á sviði peninganna.

Reynslan sýnir, að ekki dugir að blanda saman stjórntækjum, sem er handstýrt að ofan, og sjálfvirkri markaðsstýringu. Steingrímur og Gorbatsjov eru báðir smám saman að staðfesta þetta enn einu sinni. Skárra er að hafa algera miðstýringu og bezt að hafa hana alls enga.

Það er Framsóknarstefnan, sem er til vandræða í þessu samhengi. Þess vegna er þjóðarhagur á niðurleið í Sovétríkjunum og á Íslandi, en í miklum uppgangi í öllum vestrænum ríkjum, sem forðast millileið hafta, kvóta, búmarks, fastgengis, lágvaxta og sjóðakerfis.

Ekki er nóg fyrir Gorbatsjov að hvetja ríkisfyrirtæki og samvinnufyrirtæki til að taka sjálfstæðar ákvarðanir og starfsfólk til að hætta að drekka og fara að vinna. Ef verðkerfi markaðarins er ófullkomið, vantar sjálfhreyfiaflið, sem veldur velgengni auðmagnsstefnunnar.

Engan varðar um, þótt Íslendingar stundi þá sjálfspyndingastefnu að kjósa yfir sig Hina leiðina. Hitt markar söguleg tímamót, ef hliðstæð stefna í Sovétríkjunum veldur vonbrigðum fólks þar eystra og rótleysi fer að magnast af þeim völdum, með óræðum afleiðingum.

Áður en Ísland á austurleið mætir Sovétríkjunum á vesturleið væri gott, að miðstýrimenn okkar kynntu sér bölið, sem Hin leiðin er að baka Sovétmönnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Farið kringum leikreglur

Greinar

Frægt var fyrir tveimur árum, þegar knattspyrnumaðurinn Maradonna barði knettinum með hendinni í netið í heimsmeistarakeppni, án þess að dómarinn sæi til brotsins. “Það var hönd guðs, sem skoraði markið”, sagði knattspyrnumaðurinn hinn reifasti á eftir.

Þótt Maradonna sé að þessu leyti ber að svikum í leik, hefur ekki rýrnað hlutverk hans sem átrúnaðargoðs. Áhugamenn um knattspyrnu virðast margir hverjir telja hann fullgildan sem íþróttamann og fyrirmynd uppvaxandi æsku. Þannig hafa góðir siðir sett ofan.

Mörgum finnst tvennt skipta máli við slíkar aðstæður. Í fyrsta lagi hafi dómarinn ekkert séð athugavert. Því hafi formlega séð ekkert brot verið framið. Um siðleysi varðar þá ekkert. Og í öðru lagi skipti mestu, að lið Maradonnas vann. Markmiðið sé einmitt að vinna.

Í sjónvarpinu var um helgina fjallað ágætlega um útbreidda notkun íþróttamanna á bönnuðum lyfjum. Þar var haldið fram, að meirihluti þeirra, sem taka þátt í ólympíuleikum og hliðstæðri keppni í frjálsum íþróttum, noti slík lyf, líklega 80% þeirra eða fleiri.

Einnig kom fram, að áhugamenn um íþróttir gera sér margir hverjir ekki mikla rellu út af þessu. Aðalatriðið er, að hetjurnar og fyrirmyndir unglinga noti lyfin á þann hátt, að ekki mælist í lyfjaprófum. Það er einmitt eitt helzta verkefni þjálfara að tryggja þetta.

Ben Johnson notaði lyfin ógætilega og var rekinn heim með skömm. Hinir, sem notuðu þau skipulegar, stigu á verðlaunapalla og tóku við hyllingu fjöldans. Of fáir virðast hafa áhyggjur af, að ólympíuleikar eru orðnir að marklitlum skrípaleik, keppni milli lyfjabúða.

Við tökum líka eftir þessu í stjórnmálum. Ekki er spurt um siðlaus vinnubrögð, ef engin formleg leið er til að ná lögum yfir þau. Og of margir trúa því hreinlega, að markmiðið helgi meðalið. Markmiðið í stjórnmálum eins og íþróttum er, að “okkar menn” vinni.

Á þessum stað hefur áður verið vakin athygli á, að í baráttunni fyrir síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum var beitt ógeðfelldum brögðum til að tryggja núverandi forseta sigur. Um þetta verður að fjalla, því að annars er hætta á, að slíkar aðferðir breiðist út.

Kosningabaráttan, sem James Baker, núverandi utanríkisráðherra, rak í þágu forsetaefnisins, fólst fyrst og fremst í að koma á kreik gróusögum í garð andstæðingsins og rækta gegn honum margvíslega fordóma, sem blunda undir niðri með of mörgum kjósendum.

Óþarfi er að endurtaka hér enn einu sinni, hvernig þetta var gert í smáatriðum. Aðalatriðið er, að Baker og Bush komust upp með að líta á kjósendur sem fáfróð tilfinningabúnt og heppilegan jarðveg fyrir neikvæðan áróður, er beindist að brenglaðri undirvitund fólks.

Svo segja menn, að Baker og Bush séu mjög færir, af því að þeim tókst þetta. “Okkar menn unnu” er sagt að leiðarlokum. Síðan haga skunkarnir sér eins og fínir menn, ferðast um heiminn og segja fjölmennum og fámennum þjóðum, hvernig þær eigi að haga sér!

Við getum líka litið okkur nær. Hér á landi tíðkast að nota stjórnmálavöld til að færa til peninga í þágu gæludýra stjórnmálaflokkanna. Þetta viðgengst eins og svínastíubaráttan í Bandaríkjunum, af því að fólk lætur það gott heita, ef menn komast hjá armi laganna.

Vestrænt samfélag endar illa, ef menn halda áfram að sætta sig við Maradonna og ólympíuleika lyfjabúða, Bush og Baker og alla þá, sem fara kringum leikreglur.

Jónas Kristjánsson

DV