Greinar

Markviss leið til fátæktar

Greinar

Kreppuskýin, sem hrannast upp á Íslandi, ná ekki langt út fyrir landsteinana. Í nágrenni okkar, beggja vegna Atlantshafs, er bjart yfirlitum um þessar mundir. Framleiðsla og auður fer ört vaxandi í flestum löndum Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu, ­ nema á Íslandi.

Einkum eru bjartar horfurnar á auknum alþjóðaviðskiptum. Er það í líkingu við þróunina á allra síðustu árum. Í hittifyrra jókst magn alþjóðaviðskipta um 5,5% og í fyrra um 8,5%. Efnahagsspár fjölþjóðastofnana gera ráð fyrir svipuðum tölum á hinu nýbyrjaða ári.

Þessar tölur og aðrar slíkar eru alvarleg áminning þeim, sem telja sér stjórnmálahag í að hvetja til aukinna hafta til að vernda innlenda framleiðslu fyrir útlendri. Menn sjá, að milliríkjaviðskiptum fylgir lækkað verð á vörum og þjónustu og þar af leiðandi bætt lífskjör.

Að vísu er verndarstefna vinsæl leið til stjórnmálaáhrifa, bæði vestan og austan hafs. Stjórnmálamenn eru fljótir að æsa sig upp, ef þeir telja, að útlend vara sé boðin undir verði innlendrar. Þeir hugsa fyrr um velferð innlendra framleiðenda en innlendra neytenda.

En á líðandi stund er ekki búizt við, að verndarárátta spilli alþjóðaviðskiptum á næstu misserum. Áfram mun verða vorilmur í efnahagslofti Vesturlanda að sinni, unz til valda komast stjórnmálamenn, sem hafa svipuð vaðmálssjónarmið afturhalds og valdamenn Íslands hafa.

Kreppuskýin yfir Íslandi eiga sér enga skýringu úti í heimi. Vandræði okkar eru ekki endurómun neinnar heimskreppu, af því að flest er í lukkunnar velstandi utan landsteinanna. Við búum nefnilega við heimatilbúna kreppu, sem er algerlega á eigin ábyrgð okkar.

Okkar kreppa er ekki smíðuð af sjávarútvegsráðherra. Hinar vísindalegu uppgötvanir hans í dýrafræði hvala eru ekki enn farnar að hafa umtalsverð áhrif á utanríkisviðskipti okkar. Sú kreppa er að mestu leyti ókomin og mun bætast ofan á þá kreppu, sem fyrir er.

Íslandskreppan stafar ekki heldur af hruni fiskveiðistefnu sjávarútvegsráðherrans. Stefnan mun hins vegar endurspeglast í minnkuðum afla, þegar líður á þetta ár og þá bætast ofan á kreppuna, sem fyrir er. En þetta hefur ekki enn komið niður á útflutningstekjum okkar.

Ekki er heldur hægt að segja, að hin séríslenzka kreppa stafi af tilraunum ríkisstjórnarinnar til að frysta atvinnulíf og byggð í landinu í því ástandi, sem það var við valdatöku hennar í haust. Áhrif atvinnutryggingar- og hlutafjársjóða eru ekki enn komin fram að neinu ráði.

Þegar afleiðingar af kvótastefnu og hvalveiðum, bjargráðasjóðum af ýmsu tagi og almennri skipulags- og forsjárhyggju ríkisstjórnarinnar lenda af fullum krafti á þjóðinni, verður hér miklu meiri kreppa en sú, sem nú er farin að valda atvinnuleysi víða um land.

Kreppa líðandi stundar stafar að umtalsverðu leyti af verkum ríkisstjórnarinnar, sem var næst á undan núverandi vaðmálsstjórn. Það er fastgengisstefna fyrri stjórnar, er varð helzti örlagavaldur þjóðarinnar í efna hagsmálum, bæði á síðasta ári og í byrjun þessa árs.

Handafl stjórnvalda framleiðir jafnan meiri vandamál en það leysir. Þeim mun meira, sem ríkisstjórn tekur á verkaskrá sína, þeim mun meiri kreppu framleiðir hún. Handafl fastgengisstefnu fyrri stjórnar nægði til að hranna upp nýju skýjunum á efnahagshimninum.

Þegar áhrif núverandi stjórnar fara að koma í ljós, verða skörp skil á leiðum okkar og nágrannaþjóðanna. Þær munu áfram efla auð sinn, en við fátækt okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Neyzlusauðir nenna ekki

Greinar

Ef fylgst er með fólki í kjörbúðum, er auðvelt að komast að raun um, að fáir hugsa eins og hagsýnir neytendur. Flestir þrífa hluti úr hillunum án þess að líta á verðið. Og margur er óþarfinn í körfunum, þegar komið er að kassanum. Það er eins og peningar skipti engu máli.

Íslendingar eru of ríkir og of eyðslusamir. Allur þorri manna leyfir sér það, sem honum dettur í hug. Einkaneyzlan er of mikil, enda eru launin of hátt hlutfall af veltu þjóðarbúsins. Ef svo væri ekki, mundu neytendur líklega gera meira af að velta hverri krónu fyrir sér.

Sameiginlegt átak neytenda er næstum óþekkt fyrirbæri hér á landi. Fyrir mörgum árum reyndi félag bifreiðaeigenda að mótmæla benzínhækkun með því að fá íbúa Reykjavíkursvæðisins til að fara einn dag í strætisvagni í vinnuna. Þessi aðgerð mistókst gersamlega.

Ef nautakjöt hækkar um nokkur sent í Bandaríkjunum, setja þarlend samtök neytenda allt í gang. Svo almenn er þátttaka almennings í að neita sér um nautakjöt í þrjár vikur eða lengur, að bráðlega er kjötverðið komið niður fyrir það, sem það var fyrir hækkun.

Í Bandaríkjunum hugsa neytendur eins og sjálfstæðir borgarar, sem neita að láta bjóða sér hvað sem er. Hér eru neytendur líkari þegnum en borgurum og haga sér raunar eins og sauðir. Íslendingar taka bara upp plastkortið og borga nýja verðið, hvert sem það er.

Nú hyggjast Neytendasamtökin kanna, hvort unnt sé að fá íslenzka neytendur til að haga sér eins og alvöruborgarar og neita sér um stundarþægindi í þágu varanlegra langtímahagsmuna sinna sem neytendur. Verður það að kallast töluverð bjartsýni samtakanna.

Tilefnið er ærið. Landbúnaðarskrímslið hefur að undanförnu verið að smíða svipaða einokun í kjúklingum og kartöflum og hefðbundin er orðin í afurðum kúa og kinda. Þegar hefur tekizt að hækka kjúklinga og kartöflur margfalt meira en verðbólgu á stuttum tíma.

Auðvitað ættu neytendur fyrir nokkru að hafa risið upp sem einn maður gegn þessum aðgerðum. Raunar ættu þeir ekki að hafa þurft neytendasamtök til að segja sér, að nú er rétti tíminn til að neita sér um kjúklinga og kartöflur í nokkurn tíma, til dæmis eitt ár.

En gallinn er bara sá, að íslenzkir neytendur hafa hingað til ekki hugsað svona. Sem dæmi um eymd og auðnuleysi þeirra má nefna sjálft landbúnaðarskrímslið. Áratugum saman hafa neytendur látið það bjóða sér einokun á afurðum kinda og kúa, ­ kjöti og mjólk.

Neytendur hafa látið skrímslið telja sér trú um, að þeir hafi hag af, að þjóðin sé sjálfri sér nóg í framleiðslu þessara afmörkuðu tegunda matvæla. Menn láta tyggja ofan í sig klisjuna um, að þetta sé öryggisatriði. Sennilega sem öryggi í þriðju heimsstyrjöldinni!

Ef aðflutningar teppast til landsins, er meiri en nógur matur til, bæði fiskur í geymslum fiskvinnslustöðva og pakkavara í geymslum heildverslana. Dilkakjöt og mjólk hafa afar afmarkað gildi við slíkar aðstæður. En neytendur nenna ekki að hugsa öryggisklisjuna til enda.

Ef neytendur hugsuðu á hagsýnan hátt og Neytendasamtökin höguðu sér í samræmi við það, væri þeim ljóst, að hátt verð á kartöflum og kjúklingum er barnaleikur í samanburði við verð á afurðum kinda og kúa. Þar mundi verzlunarfrelsi jafngilda lífskjarabyltingu.

En Íslendingar eru á of háu kaupi og hafa það of gott, ­ neyzlusauðir, sem nenna ekki að taka til hendinni við að reka landbúnaðarskrímslið alveg af höndum sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Á móti í smáu ­ með í stóru

Greinar

Í sumum járntjaldslöndum hefur framsóknarflokkum verið leyft að starfa, svo framarlega sem þeir fara eftir ákvörðunum að ofan, halda sér við smáatriðin og láta stóru málin í friði. Dagblöð þar birta líka kvörtunarbréf fólks um ýmis mál, sem ekki skipta miklu.

Neytendasamtökin á Íslandi eru í svipaðri stöðu. Munurinn er þó sá, að svigrúm þeirra er ekki afmarkað að ofan, heldur hafa þau sjálf ákveðið vettvang sinn. Þau hafa lengst af markað hann afar þröngt og neita sér enn um að ræða málin, sem skipta neytendur mestu.

Samt hafa samtökin komið að nokkru gagni. Þau hafa verið eini félagslegi málsvari neytenda í landinu. Þau hafa smám saman verið að færa sig upp á skaftið og eru nú komin á kaf í baráttu gegn aukinni einokun landbúnaðardrekans á kartöflum og kjúklingum.

Lengst af sérhæfðu samtökin sig í kvartanaþjónustu fyrir almenning. Þau gerðust málsvari einstaklinga, sem höfðu keypt vöru, er ekki stóðst auglýst gæði eða eðlilega gæðastaðla. Einkenni þessa málaflokks var kvörtun eins neytanda á hendur einum kaupmanni.

Augljóst er, að mikil orka fer í slík mál, þótt almennt gildi þeirra út á við sé takmarkað. Það safnast þó, þegar saman koma margir vinningar í slíkum málum. Kaupmenn verða yfirleitt samvinnuþýðari gagnvart neytendum, ef þeir vita af samtökunum á næsta leiti.

Með baráttunni gegn aukinni einokun í kartöflum og kjúklingum eru Neytendasamtökin að færa sig yfir á almennara svið, þar sem einstakir vinningar eru miklu hærri. Með árangri í einni aðgerð geta þau fært sérhverjum neytanda í landinu hluta af vinningnum.

Að undanförnu hafa neytendur farið halloka fyrir landbúnaðardrekanum. Kartöflur og kjúklingar eru á hraðferð inn í einokunarkerfi, þar sem fyrir eru kýr og kindur. Verð kartaflna og kjúklinga hefur hækkað að undanförnu fimm sinnum meira en verðbólgan.

Barátta Neytendasamtakanna gegn smíði einokunar á kartöflum og kjúklingum er gott mótvægi við ríkisstjórn, sem er afar höll undir einokunarstefnu og er í reynd töluvert fjandsamlegri neytendum en nokkrar síðustu ríkisstjórnir á undan henni.

Athyglisvert er, að barátta samtakanna felst einkum í bænarskrá til landbúnaðarráðherra, sem er gersamlega heyrnarlaus á öll sjónarmið, sem stríða gegn hagsmunum landbúnaðardrekans. Ekkert bendir til, að hann eða samráðherrar hans vilji hlusta á neytendur.

Merkilegast er þó, að Neytendasamtökin eru með þessu að amast við einokun á einu sviði, sem þau láta átölulausa á hefðbundnum sviðum. Landbúnaðardrekinn er nefnilega ekki að gera annað en að koma reglum um afurðir kinda og kúa yfir á kartöflur og kjúklinga.

Formaður samtakanna hefur meira að segja lýst því yfir oftar en einu sinni, að það sé stefna samtakanna, að innflutningsbann sé áfram á landbúnaðarvörum, meðan innlend framleiðsla sé á boðstólum. Hann styður einokunina í stóru, þótt hann sé á móti henni í smáu.

Erfitt er að sjá, hvaða hag neytendur hafa af formannsyfirlýsingum af þessu tagi. Ekkert mundi bæta kjör neytenda í landinu meira en afnám einokunar landbúnaðardrekans á afurðum kinda og kúa. Kjúklingar og kartöflur vega ekki eins þungt á metaskálunum.

En Neytendasamtökin hafa sjálf ákveðið að setja sér landamæri neðan við stóru málin og að leyfa formanni sínum að kyssa á meginvönd landbúnaðardrekans.

Jónas Kristjánsson

DV

Khomeini og Khayyám

Greinar

Persíugreinin á meiði Múhameðs spámanns ól fyrir níu öldum upp vezírinn og lífsnautnaskáldið Ómar Khayyám, sem orti um vín, víf og brauðhleif í auðninni sem hámark hamingjunnar. Á okkar tíma elur hún upp óða klerka sem leggja fé til höfuðs trúvilltum rithöfundi.

Arabíski menningarheimurinn ól fyrir níu öldum af sér ævintýrasafnið í Þúsund og einni nótt. Nú á dögum elur hann af sér ráðamenn, er standa fyrir opinberum brennum bóka eftir sjálfstæða höfunda, sem ekki standast stranga guðfræðiskoðun klerkastéttarinnar.

Fyrir níu öldum varðveitti íslam ljós siðmenningarinnar, sem hafði slokknað á Vesturlöndum í ofsa kristinnar kirkju. Það þurfti Abu al-Walid, sem á Vestur-löndum er betur þekktur undir nafninu Averroes, til að varðveita arfleifð Aristótelesar fyrir Evrópu.

Margt breytist á löngum tíma. Vestræn siðmenning átti erfiða æsku þegar miðöldum lauk. Fyrir aðeins fimm öldum lét munkurinn Savonarola brenna dýrmæt handrit opinberlega á torgum Flórens. Hann var eins konar Khomeini kristinnar kirkju á þeim tíma.

Fyrir fjórum öldum neyddist Galilei að tilhlutan páfaveldis til að taka opinberlega aftur vísindalegar uppgötvanir sínar. Við getum líka fundið dæmi, sem eru nær nútímanum. Ekki eru nema 23 ár síðan páfastóll lagði niður hina illræmdu Bannbókaskrá sína.

Árið 1986 lét stjórnin í Chile opinberlega brenna 15.000 eintök bóka eftir nóbelsverðlaunahafann Gabriele Garcia Márquez. Og aðeins eitt ár er síðan trúaróðir Bandaríkjamenn brenndu bækur vísindamannsins Charles Darwin um þróun mannsins úr heimi dýranna.

Tvennt er sorglegt við þessi dæmi. Hið fyrra er, að arabíski menningarheimurinn, sem öldum saman var ljós heimsins á erfiðum tímum í sögu Vesturlanda, skuli nú hafa gerzt fulltrúi myrkursins í tilraunum sínum til að varðveita sjálfstæði sitt fyrir ágangi Vesturlanda.

Hið síðara er, hversu grunnt er á myrkrinu á Vesturlöndum sjálfum. Að vísu er langt síðan trúvillingar voru brenndir á báli. En bækur eru brenndar á Vesturlöndum enn þann dag í dag, bæði af pólitískum og trúarlegum ástæðum. Og enn berjast trúardeildir á Írlandi.

Samt eru mannréttindi hornsteinn vestræns þjóð skipulags og yfirleitt varðveitt í stjórnarskrám. Þar á ofan hafa þau verið innleidd í sáttmála Sameinuðu þjóðanna og stofnskrá Menntastofnunar samtakanna. Þar eru skoðanafrelsi og ritfrelsi í fyrirrúmi.

Ekki er ástandið þó betra en svo, að Khomeini erkiklerki og öðrum fulltrúum myrkursins hefur tekizt að kúga ýmsa aðila á Vesturlöndum til undanhalds í máli rithöfundarins Salmons Rushdie, sem nú verður að fara huldu höfði til að dyljast fyrir tilræðismönnum.

Fyrirhugaðir útgefendur Satansversa eftir Rushdie í Frakklandi, Vestur-Þýzkalandi og Grikklandi hafa hætt við útgáfuna af ótta við hefnd illræðismanna. Nokkrar af stærstu bókabúðakeðjum í Bretlandi og Bandaríkjunum hafa tekið hana úr hillum sínum af sömu ástæðum.

Verstur er þó hlutur Kanadastjórnar, sem hefur látið tollverði sína gera Satansversin upptæk við landamærin. Slíkt hugleysi og undanhald er til þess eins fallið að magna upp tilraunir afturhaldsmanna til að kúga Vesturlönd til að falla frá grundvallarhugsjónum sínum.

Með sama áframhaldi verður komið í veg fyrir, að við lesum um auðnaryndi í Rubaiyat eftir Ómar Khayyám og um næturævintýri kalífa í Þúsund og einni nótt.

Jónas Kristjánsson

DV

Sumt sameinar

Greinar

Jafnvel þótt austur í Sovétríkjunum verði innan tíðar horfið frá opnunar- og viðreisnarstefnu Gorbatsjovs, er líklegt, að áfram verði nokkur þíða í samskiptum austurs og vesturs. Það stafar af, að ýmis brýn verkefni, hagnýt og utanpólitísk, bíða alþjóðlegs samstarfs.

Ef óþolinmóðir valdamenn í Sovétríkjunum gefast upp fyrir óþægindunum, sem fylgja opnunar- og viðreisnarstefnunni, mun afturhvarfið einkum felast í endurheimtri miðstýringu og harðstjórn heima fyrir og í fylgiríkjunum, en miklu síður á alþjóðlegum vettvangi.

Ráðamenn í Sovétríkjunum, fleiri en Gorbatsjov einn, hafa lært af reynslu síðustu ára. Hrakfarir innrásarliðsins í Afganistan munu um langt skeið draga úr löngun þeirra í hernaðarleg ævintýri í útlöndum, jafnvel þótt þau beini athyglinni frá ofstjórninni innanlands.

Ágreiningsefnum og ásteytingarsteinum heimsveldanna tveggja hefur fækkað. Hernaðaríhlutuninni í Afganistan er lokið. Stríð Írana og Íraka við Persaflóa er hljóðnað að sinni. Verið er að semja um brottför Kúbverja frá Angólu og brottför Víetnama frá Kampútseu.

Þegar athygli heimsveldanna beinist frá staðbundnum átökum sem þessum, fá þau betri tíma til að ræða sameiginlega hagsmuni, sem verða brýnni með hverju árinu. Eitt þessara atriða er hinn sameiginlegi ótti við vaxandi gengi múhameðstrúar og aukinn ofsa hennar.

Þetta varðar Sovétríkin ekki síður en Vesturlönd. Íslam er að eflast innan Sovétríkjanna og hrakförin í Afganistan gefur trúhneigðum Sovétmönnum byr undir báða vængi. Sovétríkin og Vesturlönd þurfa að móta samráð um leiðir til að bregðast við slíkum vanda.

Morðhótanir og morðhvatningar ráðamanna í ríkjum íslams vegna skáldrits Salmans Rushdie valda Vesturlandabúum áhyggjum, því að þær beinast gegn grundvallarhugsjónum vestrænnar menningar. En Sovétleiðtogum er ekki heldur sama um slíka íhlutun.

Ráðamenn í Sovétríkjunum eru raunar að mestu hættir að róa undir hryðjuverkum. Þeir hafa mátt þola, að sum hryðjuverk hafa beinzt gegn þeirra eigin mönnum. Því eru þeir nú reiðubúnir til samstarfs um gagnkvæma miðlun upplýsinga um hryðjuverkamenn.

Vesturlönd hafa verið að byggja upp samstarf stofnana, sem fara með löggæzlu og leyniþjónustu, í vörnum gegn hryðjuverkum. Vegna eigin öryggis og þegna sinna hafa Sovétríkin gagn af að taka þátt í þessu starfi, sem þegar er farið að skila nokkrum árangri.

Skyldar þessu eru varnirnar gegn útbreiðslu fíkniefna. Stríðið í Afganistan magnaði neyzlu þeirra innan Rauða hersins. Skynsamir valdamenn í Sovétríkjunum sjá nú, að eiturefni þessi eru ekki bara mara á Vesturlöndum, heldur einnig farin að ríða húsum austan tjalds.

Varnir gegn íslam, hryðjuverkum og fíkniefnum eru þrjú sjálfstæð mál, sem þó tengjast á ýmsa vegu. Í heild er þetta flokkur verkefna, sem vafalaust mun færa Sovétríkin nær Vesturlöndum á næstu árum. Annar flokkur verkefna er á sviði varna gegn umhverfismengun.

Loksins eru leiðtogar í Austur-Evrópu farnir að skilja, að mengun er ekki óviðráðanlegt náttúruafl. Verndarsinnum hefur vaxið ásmegin, ekki sízt í Sovétríkjunum. Líklegt er, að senn hefjist viðræður um samstarf um vernd ózonlagsins og andóf gegn hækkuðu hitastigi.

Því meira sem Sovétríkin tengjast Vesturlöndum í ýmsum sameiginlegum hagsmunum, þeim mun minni líkur eru á, að þau verði til vandræða í hernaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Gráhærðir og gjaldþrota

Greinar

Tölvum er ætlað að létta störfin í þjóðfélaginu, bæði þeirra, sem vinna við tölvuskjái, og hinna, sem nota gögn, er koma úr tölvunum. Í reynd er þessu oft öfugt farið. Tölvunotkun hefur oft reynzt til hinna mestu vandræða, flækt mál og gert sum þeirra óleysanleg.

Virðulegt, lítið tímarit hér á landi lenti nýlega í miklum vandræðum, af því að hugbúnaður hafði verið settur upp á þann hátt, að alls konar rugl kom út úr tölvu tímaritsins. Þetta leiddi til, að tekjur þess af áskriftum snarminnkuðu um tíma og að stórfé fór í lagfæringar.

Stjórnendur margra íslenzkra fyrirtækja geta sagt raunasögur af erfiðleikum við að setja upp tölvuvinnslu, bæði af óhóflegum kostnaði og óþægilegu raski. Þar á ofan kostar rekstur tölvanna oft meira en aðferðirnar, sem notaðar voru fyrir tölvuinnreið.

Hér í blaðinu var á laugardaginn sagt frá litlu og hversdagslegu dæmi um vandamál þeirra, sem þurfa að nota gögn frá stofnunum. Það er Búnaðarfélag Íslands, sem hefur lagt niður hin fjögurra stafa ættbókarnúmer hrossa og tekið upp átta stafa kennitölur.

Þetta flækir mál hrossabænda og annarra, sem þurfa að nota upplýsingar Búnaðarfélagsins. Auðveldara er í flestum tilvikum að gera mun á Ófeigi 818 og 882 en Hervari 76157003 og 89136234. Óþarfi er að íþyngja kennitölum þannig með upplýsingum um ár, kyn og staði.

Undantekning frá þessu eru nýju kennitölur mann fólksins í landinu. Þær eru nothæfar, af því að flestir muna sinn eigin fæðingardag og þurfa því ekki að leggja á minnið annað en fjögurra stafa viðbótartöluna. Þær kennitölur eru því betri en átta stafa nafnnúmer.

Búnaðarfélagið hefði vel getað notað gömlu númerin og látið tölvuna skrifa út aðrar upplýsingar um hrossin eftir þörfum hverju sinni. En þar er einhver, sem ekki hefur nennt að gera hlutina aðgengilega fyrir notendur. Og svo er tölvunni auðvitað kennt um ófarirnar.

Enginn vandi er að haga vali á tölvum og hugbúnaði á þann hátt, að notuð séu að tjaldabaki löng og flókin númer til aðgreiningar, en út á við komi allt fram með ljósum og einföldum hætti, nema sérstaklega sé óskað eftir flækjunum til ákveðinna og sérhæfðra nota.

Furðulegt er, hvað íslenzkir ráðamenn fyrirtækja og aðrir notendur tölva eða tölvugagna hafa látið bjóða sér og láta bjóða sér enn. Til dæmis er sífellt verið að kaupa tölvur og hugbúnað, sem þarf að íslenzka og síðan laga að þörfum með ærnum kostnaði og harmkvælum.

Nær enginn notar hins vegar vinsamlegan gagnagrunn á borð við Gorminn, sem býður upp á fullkomið og klæðskerasaumað bókhald með gagnkvæmt afstæðri skráningu upplýsinga og yfirleitt alla þá skriffinnsku, sem mönnum getur dottið í hug, allt eftir þörfum hvers.

Hann er dæmi um hugbúnað, sem er þannig vaxinn, að hann verður íslenzkur um leið og farið er að nota hann. Einnig er hann er dæmi um hugbúnað, sem unnt er að laga að sérstæðum þörfum án þess að kunna nokkuð í forritun eða stafsetningu forritunarmála.

Vandi notenda felst meðal annars í, að hin fjölmenna stétt tölvuráðgjafa og tölvukennara hefur ekki hag af, að notendur komi sér upp vinsamlegum tölvum með vingjarnlegum hugbúnaði, sem kemur í veg fyrir, að notendur verði í senn gráhærðir og gjaldþrota.

Ef menn gerðu sér grein fyrir, að tölvur eiga að létta lífið, og miðuðu kröfur sína við það, mundi mörg krónan sparast og mörg áhyggjustundin niður falla.

Jónas Kristjánsson

DV

Í anda Mussolinis

Greinar

Ráðamönnum Íslands munu senn berast svarbréf starfsbræðranna í Vestur-Þýzkalandi. Svarbréf þýzka forsetans, forsætisráðherrans og sjávarútvegsráðherrans verða kurteislega orðuð eins og svarbréfin, sem Belgíustjórn sendir harðstjóranum Mobutu í Zaire.

Bréfin til Mobutu fjalla óbeint um, að fjölmiðlar í Belgíu séu ekki deild í ríkiskerfinu. Því geti belgíska ríkið ekkert gert, þótt fjölmiðlar þar í landi fjalli ítarlega um glæpi Mobutus, svo framarlega sem fréttaflutningurinn varði ekki við lög um fjölmiðla og fjölmæli.

Bréfin til forseta Íslands, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra munu óbeint fjalla um, að fyrirtæki í Vestur-Þýzkalandi séu ekki deild í ríkiskerfinu og að samtök grænfriðunga séu það ekki heldur. Því geti vestur-þýzka ríkið ekki sinnt kvörtunarefnum Íslendinga.

Stjórnskipan og lög Vestur-Þýzkalands veita ríkinu þar ekki rétt til að amast við, að samtök áhugafólks reyni að fá meðbræður sínar til að kaupa ekki afurðir Íslendinga. Ekki heldur rétt til að amast við, að þýzk fyrirtæki neiti að skipta við íslenzk fyrirtæki.

Þetta er þáttur í dreifingu valdsins, sem er hornsteinn hins vestræna þjóðskipulags, er kallast lýðræði. Þetta sama kerfi hefur lengi verið í notkun hér á landi, svo að íslenzkir ráðamenn eiga að vita betur en Mobutu. Þeir ættu því ekki að heimska sig í bréfaskriftum.

Íslenzkir ráðamenn hafa sent vestur-þýzkum starfsbræðrum erindi, af því að þeir skilja ekki lýðræðið nógu vel. Þeir hafa hinn séríslenzka skilning á þjóðfélaginu, sem kominn er hingað frá manninum, sem kenndi Mussolini hinum ítalska og Jónasi frá Hriflu.

Íslendingum er gjarnt að líta á þjóðfélagið svipuðum augum og hinir ítölsku ungmennafélagsmenn, sem komu á fót fasismanum þar í landi. Menn sjá ríkið sem eins konar líkama, þar sem fólk og fyrirtæki eru einstakir vefir í undursamlegri sinfóníu þjóðlegs samstarfs.

Ef þetta er haft í huga, er auðvelt að skilja hin marklausu bréf forseta okkar, forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra. Þá er líka auðvelt að skilja flestar athafnir núverandi ríkisstjórnar og margar athafnir þeirra stjórna, sem flutu að feigðarósi á undan henni.

Í hugarheimi slíkra ráðamanna er heppilegast, að ríkisvaldið stjórni velferð fyrirtækja og fjölskyldna. Ríkið ákveður eins og þjóðarlíkaminn í heild, hvað er einstökum vefjum sínum fyrir beztu. Úr þessu verður hið séríslenzka velferðarríki fyrirtækja.

Ríkið ákveður annan daginn að halda krónugengi föstu. Þegar í ljós kemur, að þetta hefur sett fiskveiðar og fiskvinnslu á höfuðið, ákveður ríkið hinn daginn, að stofna ýmsa sjóði til að halda lífinu í fyrirtækjum í sjávarútvegi. Í báðum tilvikum er ríkið örlagavaldur.

Ríkið ákveður annan daginn að múta bændum til að hefja loðdýrarækt, svo að sauðfjárbændur hafi meira svigrúm. Þegar í ljós kemur, að þetta hefur sett loðdýrabændur á höfuðið, ákveður ríkið hinn daginn að borga þeim tvöfalt útflutningsverð skinna í gustukaskyni.

Þannig vita engir lengur hér á landi, hvað muni snúa upp og hvað niður á morgun. Að völdum sitja menn, sem þykjast þess umkomnir að stjórna frá degi til dags, hverjar verði leikreglur dagsins í atvinnulífinu. Í gær var tígullinn tromp og í dag er tvisturinn hæstur.

Hinir íslenzku Mussolinar hafa svo að aukagetu að heimska sig í útlöndum með kvörtunarbréfum til starfsbræðra um ranga hegðun fyrirtækja og fólks þar á bæ.

Jónas Kristjánsson

DV

Stóri bróðir góði

Greinar

Í tilraunum ríkisstjórnarinnar til ofstjórnar og óhófsafskipta í þjóðlífinu má sjá rauðan meginþráð, sem kemur hvað eftir annað fram í vef efnahagsaðgerða hennar, þótt hann sé að öðru leyti ruglingslegur og geri forstjóra Sambandsins sjóveikan. Um þetta má taka dæmi.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að greiða niður rafmagn til fiskvinnslustöðva. Niðurgreiðslan nemur að meðaltali um 25% af rafmagnsverðinu og á að minnka heildarútgjöld fiskvinnslufyrirtækja um 0,5% að meðaltali. Útreikningur niðurgreiðslunnar verður afar flókinn.

Með þessu er ríkisstjórnin að veita fram læk, sem síðar getur orðið að stóru fljóti. Fyrirmyndin er sótt úr stjórn ríkisins á landbúnaði, sem gerður hefur verið að varanlegum öryrkja í atvinnulífinu. Með niðurgreiðslunni á að koma í veg fyrir grisjun í greininni.

Ríkisstjórnin er í öðru lagi að velta fyrir sér að bæta skaða fyrirtækja, sem verða fyrir barðinu á hvalveiðistefnu sjávarútvegsráðherra. Ætlunin er að múta bönkum til að veita rækjuverksmiðjum afurðalán til að endurmerkja vöruna fyrir nýja markaði í stað hinna töpuðu.

Rækjustuðningurinn er gott dæmi um stigmagnað þrep í ofstjórn ríkisins. Fyrst setur stjórnin fyrirtækin á höfuðið með hvalveiðistefnu sjávarútvegsráðherra. Síðan hættir hún ekki við þá stefnu, heldur stigmagnar tjónið með því að greiða það úr vasa skattgreiðenda.

Í þriðja lagi er ríkisstjórnin að koma upp nýjum milljarðasjóði hlutafjár til að taka við fyrirtækjum, sem eru of illa á vegi stödd til að fá peninga úr hinum nýlega milljarðasjóði atvinnutryggingar. Markmiðið er, að engin fyrirtæki gefi upp öndina á landsbyggðinni.

Þetta er líka dæmi um stigmögnun. Fyrst gerir ríkisstjórnin útflutningsfyrirtæki gjaldþrota með því að neita þeim um eðlilegt verð fyrir erlendan gjaldeyri, sem þau afla. Eftir langvinna fastgengisstefnu þjóðnýtir hún svo líkin með því að láta opinbera aðila kaupa hlut í þeim.

Í raun hefur þetta svo skemmtileg hliðaráhrif. Til dæmis verður hinn nýi Hlutafjársjóður að skuldbinda sig til að verðtryggja í sex ár allar skuldir Kaupfélags Dýrfirðinga við Samband íslenzkra samvinnufélaga og að greiða allar skuldirnar að sex árunum liðnum.

Fjórða dæmið er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að verja hálfum milljarði úr ýmsum sjóðum til að auðvelda loðdýrabændum að framleiða og flytja út skinn, sem seld eru fyrir kvartmilljarð króna á ári. Hin opinbera aðstoð er því meiri en árlegt framleiðsluverðmæti.

Þetta er eitt alvarlegasta dæmið um stigmögnun á óhófsafskiptum ríkisins. Fyrst ginnir ríkið bændur til að fara út í loðdýrabúskap, þótt fróðir og reyndir menn hafi varað við offorsi í þeim efnum. Þegar allt er komið í hönk, bjargar ríkið fórnardýrum sínum fyrir horn.

Árum saman hefur verið vitað, að loðdýrabúskapur er að verða ríkisrekin byggðastefnugrein á Norðurlöndum. Árum saman hefur líka verið vitað, að herferðir gegn notkun skinna voru að ná árangri í Vestur-Evrópu og mundu síðan gera það í Norður-Ameríku.

Engin skilyrði voru til mikillar útþenslu loðdýraræktar hér á landi. En Stóri bróðir lét ekki að sér hæða. Með fé skattgreiðenda að baki sér ákvað ríkið að byggja upp loðdýrarækt með handafli. Það situr nú uppi með rústir, sem eru verri en hinn hefðbundni landbúnaður.

Þetta eru dæmi um, að ofstjórn og óhófsafskipti ríkisins skaða atvinnulífið fyrst og að svo mætir ríkisstjórnin vandanum með því að reisa velferðarríki fyrirtækja.

Jónas Kristjánsson

DV

Hangið í hvala-hvönninni

Greinar

Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra hefur árum saman fengið pólitíska næringu af hvalveiðum. Það var hann, sem fann upp svokallaðar vísindaveiðar, þegar Alþingi hafði samþykkt að gera ekki athugasemdir við veiðistöðvun Alþjóða hvalveiðiráðsins.

Ráðherrann þröngvaði upp á Alþingi hugmynd sinni um að klæða hvalveiðarnar í sauðargæru vísinda. Í því var hann studdur almenningsálitinu, sem sá í ráðherranum blöndu af ýmsum sögufrægum hetjum sínum, allt frá Þorgeiri Hávarssyni að Bjarti í Sumarhúsum.

Hin íslenzka þrautseigja hefur fyrir löngu öðlazt tákn í sjónvarpspersónu ráðherrans. Íslendingar tóku trú á þessa mynd hins íslenzka bónda, sem ver og sækir mál sín með þrætubók og þolinmæði allt til kóngsins í Kaupmannahöfn, þar sem hann hefur sitt fram að lokum.

Hvalveiðideilan hefur gert Halldór að öðrum vinsælasta stjórnmálamanni Íslands. Margir Íslendingar vilja ekki láta segja sér og þjóðinni fyrir verkum, allra sízt bandarískar auðkonur, sem lásu Moby Dick í æsku. Hvalveiði og þjóðrækni hafa runnið saman í eitt.

Makalaust er, að fólk, sem aldrei hefur sýnt nokkurn vísindaáhuga á neinu sviði og sér eftir hverri krónu til slíkra þarfa, skuli telja sér í alvöru trú um, að hvalveiðar okkar séu vísindi. “Ég vil fá vísindaveiðar eins og hinir”, sagði hrefnuveiðimaðurinn í útvarpinu.

Ár og dagur eru síðan unnt var að tala um arð af hvalveiðum. Útflutningsverð svokallaðra vísindaveiða nam 300 milljónum króna árið 1987 og varð minna í fyrra. Frá þessari upphæð verður að draga kostnað við veiðarnar og fundi og ferðalög hvalveiðihirðar Halldórs.

Á móti kemur, að þegar hafa tapazt lagmetismarkaðir í Þýzkalandi fyrir 600 milljónir króna á ári og að 40 manns hafa misst atvinnu hér á landi. Nú er reiknað með, að sölutapið á þessu sviði fari upp í 1,4 milljarða króna á ári og að 160 manns missi atvinnuna.

Á móti kemur einnig, að Sambandið hefur tapað 600 milljón króna freðfiskmarkaði í Bandaríkjunum og 200 milljón króna í Þýzkalandi. Tölur Sölumiðstöðvarinnar eru svipaðar. Samanlagt er sölutap Íslendinga þegar komið yfir 2 milljarða á ári og verður mun meira.

Þetta er ekki hreint tap frekar en að hvalveiðitekjurnar eru hreinar tekjur. Yfirleitt er enn hægt að finna nýja markaði, en venjulega með meiri tilkostnaði og á lægra verði. En augljóst er, að hvalveiðihagsmunir eru sáralitlir í samanburði við aðra útflutningshagsmuni.

Lausn ráðherrans er eins Framsóknarflokksleg og hún getur verið. Hún felst ekki í að hætta hvalveiðum, svo að Íslendingar geti farið að auka tekjur sínar af viðskiptum við aðrar þjóðir. Hún felst í að styrkja fyrirtæki, sem missa erlend viðskipti vegna hvalveiða.

Þannig tvöfaldar sjávarútvegsráðherra tjón þjóðarinnar. Fyrst býr hann til glæra vísindahugsjón, sem kostar milljarða. Síðan bætir hann við stórum fúlgum af fé skattgreiðenda. Er þetta mjög í anda annarrar kvóta- og þjóðnýtingarstefnu hans í sjávarútvegi.

Ráðherrann hefur í nokkur ár aflað sér vinsælda meðal kjósenda á ódýran hátt, sem kunnur er í mannkynssögunni. Hann hefur framleitt óvini í útlöndum handa þjóðinni til að sameinast gegn. Nú er komið að skuldadögunum og þá vísar hann sökinni til Alþingis.

Meiri var hetjuskapur Þorgeirs Hávarssonar, er hann hékk þögull í hvönninni í Hornbjargi og taldi sig þá hafa nægar, er uppi væri sú, sem hann hélt þá um.

Jónas Kristjánsson

DV

Blendinn heiður

Greinar

Gesturinn, sem utanríkisráðherra okkar hittir í dag í Leifsstöð, hefur markað ógeðfelld spor í stjórnmálasögu Vesturlanda. James Baker, hinn nýi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, innleiddi í fyrra hina neikvæðu baráttu í undirbúning forsetakosninga vestanhafs.

Baker var starfsmannastjóri Reagans Bandaríkjaforseta, en sagði af sér til að geta stjórnað kosningabaráttu George Bush. Hann var þar yfirmaður illræmdra ímyndarfræðinga á borð við Lee Atwater og Roger Ailes. Þessir þrír sáu um að draga baráttuna niður í svaðið.

Hin neikvæða kosningabarátta, sem þeir félagar komu á fót undir stjórn Bakers, fólst í, að beina athyglinni frá eigin frambjóðanda með því að koma á kreik gróusögum í garð hins og rækta gegn honum margvíslega fordóma, sem blunda undir niðri hjá kjósendum.

Eiginkona mótframbjóðandans var sökuð um að hafa í skóla brennt bandaríska fánann. Hann sjálfur var gerður grunsamlegur, af því að hann var af lögfræðilegum grundvallarástæðum andvígur ákveðnu orðalagi, sem margir vildu hafa í starfseið embættismanna.

Þetta var notað til að koma inn hjá kjósendum, að Michael Dukakis væri óþjóðlegur og hættulegur. Um leið var spilað á, að undir niðri vissu kjósendur, að hann er af grískum ættum. Tækni ímyndarfræðinga felst einmitt í að rækta slíkar hugrenningar fáfróðra.

Verra var, að Baker gerði Willie Horton að hornsteini kosningabaráttunnar. Horton þessi er glæpamaður, sem framdi óhugnanlegan glæp í helgarleyfi úr fangelsi. Dukakis hafði sem ríkisstjóri á sínum tíma stutt, að fangar fengju helgarleyfi við ákveðnar aðstæður.

Inn í höfuð áhorfenda lét Baker sjónvarpið hamra auglýsingar, sem gáfu undir niðri í skyn, að óöld mundi hefjast, ef Dukakis næði kosningu. Morðingjar og nauðgarar mundu leika lausum hala undir sérstakri vernd hins útlenzka hatursmanns þjóðarinnar og fánans.

Í auglýsingum Bakers var líka sagt berum orðum, að geislunarhætta væri í höfninni í Boston. Í því skyni var síbirt fölsuð mynd, sem tekin var á viðgerðaverkstæði kjarnorkukafbáta. Á þessum ósannindum var tönnlast í sífellu, unz kjósendur fóru að trúa.

Í rauninni var höfnin í Boston bara menguð, eins og svo margar hafnir í Bandaríkjunum. Frá þeirri mengun og til ríkisstjórans í Massachusetts var óralangur vegur. En Baker tókst að tengja þetta saman og gera Dukakis að krabbameinsvaldi í sálum huglatra kjósenda.

Þetta eru aðeins örfá sýnishorn af ósómanum, sem James Baker velti sér upp úr sem yfirmaður kosningastjórnar Bush. Eftirminnilegt er einnig, hvernig honum tókst að gera orðið “frjálslyndur” að skammaryrði og próf frá Harvard-háskóla að eins konar sakavottorði.

Auðvitað er það fyrst og fremst bandarískum kjósendum að kenna, að hin ógeðfellda kosningabarátta náði árangri. Hún gafst svo vel, að menn Dukakis tóku hana upp um síðir. Framvegis má því búast við, að kosningabarátta í Bandaríkjunum verði háð í svínastíunni.

Þetta er alvarlegt áfall lýðræðinu í heiminum. Félagsvísindaleg og sálvísindaleg tækni nútímans kemur frá Bandaríkjunum. Þar eru sérfræðingarnir, sem hafa náð lengst í að móta hugi fólks með því að spila á sálarflækjur þess. Aðferðir Bakers kunna að berast víðar.

Þess vegna er blendinn heiður af að taka í Leifsstöð á móti gesti, sem er á of lágu siðastigi til að geta talizt stofuhæfur á íslenzkum stjórnmálamælikvarða, ­ ennþá.

Jónas Kristjánsson

DV

Löður

Greinar

Aðgerðum ríkisstjórnarinnar hefur verið líkt við hina vinsælu sápuóperu, Löður, sem sýnd var í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum. Eftir síaukinn rugling í hverjum þætti, endaði hann með spurningunni: “Eruð þið rugluð? Þið verðið það ekki eftir næsta þátt af Löðri.”

Við svona aðstæður kemur leiðarahöfundum í koll að hafa ofnotað lýsingarorð við aðrar og hversdagslegri aðstæður. Gott væri að eiga hástig lýsingarorðanna eftir, þegar komin er ríkisstjórn, sem er mun lakari og skaðlegri en aðrar, er við höfum mátt þola um dagana.

Prófessorar, sem sitja á friðarstóli inni í Háskóla Íslands, búa ekki við þetta vandamál. Ennfremur eru þeir ekki þátttakendur í dægurþrasi stjórnmálanna og hafa ekki heldur óbeinna hagsmuna að gæta sem stjórnendur eða sérfræðingar samtaka og stofnana úti í bæ.

Því gat Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor notað mun sterkara orðalag en venjulega, þegar honum ofbauð. Hann sagði vaxtaaðgerðir ríkisstjórnarinnar vera “feiknarlega óskynsamlegar” og vísitölubreytinguna vera “óviturlegustu stjórnvaldsákvörðun um árabil”.

Þorvaldur taldi í viðtali, sem birtist hér í blaðinu í gær, að nýjustu efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar væru ekki aðeins feiknarlega óskynsamlegar og hinar óviturlegustu um langt árabil, heldur væru þær “tímaskekkja” og á þeim væri beinlínis “austantjaldsbragur”.

Verðlagseftirlitið, sem ríkisstjórnin hefur rekið að undanförnu undir nafni verðstöðvunar og hyggst reka áfram undir öðru merki, er að mati Þorvalds aðeins gríma til að fela máttleysi stjórnvalda. Það er stundað austan tjalds en ekki í nágrannalöndum okkar.

Þorvaldur sagði í viðtalinu, að lækkun vaxta með handafli mundi draga úr sparnaði þjóðarinnar og óhjákvæmilega leiða til óhóflegrar seðlaprentunar, sem aftur á móti leiðir óumflýjanlega til aukinnar verðbólgu. Hann er þar bara að benda á augljósar staðreyndir.

Ríkisstjórn, sem kom halla A-hluta ríkisfjármálanna upp í sjö milljarða króna í fyrra með því að stofna milljarðasjóði og láta almennt eins og hún ætti í rauninni bót fyrir rassinn á sér, er enn með ráðagerðir um að verja ríkisfé í alls konar bjargráð af austrænu tagi.

Engin leið er í rauninni að rökræða um bráðabirgðaaðgerðir ríkisstjórnarinnar, hvorki hinar fyrri né hinar síðari, af því að þær eru engan veginn á vitrænum og ræðanlegum grundvelli. Þær eru úr einhverri furðuveröld, sem er hvorki í samræmi við reynslu né rök.

Engum dettur í hug, að ráðstafanir ríkisstjórnarinnar leiði til aukinnar festu í þjóðlífinu. Þær auka bara ruglið og löðrið, sem kemur í veg fyrir, að Íslendingar fái frið til að rækta garðinn sinn. Allir vita, að þær munu leiða til nýrra bráðabirgðaráðstafana í apríl eða maí.

Erfitt er að sjá, hvers vegna ríkisstjórnin fer ekki frá. Ekki er auðvelt að sjá, hvers vegna hún kýs að sitja og magna upp síaukin vandræði á herðar þjóðinni. Eina skýringin er sú, að ráðherrunum finnist persónulega svo gaman að vera á fjölunum að leika ráðherra.

Ástandið er þannig, að ekki er siðferðilega unnt að fara einhverjum silkiorðum um þá staðreynd, að ráðherrarnir eru hinir allra dýrustu og rugluðustu jólasveinar, sem mátað hafa slíka stóla í manna minnum, og að ríkisstjórnin er í sjálfu sér hreint öngþveiti.

Um framhaldslöður sápuóperu ríkisstjórnarinnar má segja, að mestar líkur eru á, að áhorfendur verði enn ruglaðri eftir næsta þátt, sem verður von bráðar .

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópa er fortíðin

Greinar

Uppruni Evrópubandalagsins leynir sér ekki. Það er verndarstofnun, sem er byggð á grunni forverans, Evrópska kola- og stálsambandsins. Það samband hafði að markmiði að reisa múra umhverfis úreltan kola- og stáliðnað Vestur-Evrópu og vernda hann gegn umhverfinu.

Allar götur síðan hefur Evrópubandalagið fyrst og fremst verið velferðarríki gamalla fyrirtækja í Evrópu, einkum gegn varningi frá hagkvæmara atvinnulífi í Bandaríkjunum og síðar einnig gegn slíkum vörum frá Japan og öðrum uppgangsríkjum Suðaustur-Asíu.

Að baki yfirvarps hugsjónarinnar um sameinaða Evrópu liggur hin kalda staðreynd, að Evrópubandalagið er fyrst og fremst elliheimili atvinnulífsins. Bezta dæmið um það er, að allur þorri fjármagns bandalagsins fer í að halda uppi óhagkvæmum landbúnaði.

Mikið er talað um lækkun og afnám tolla milli landa Evrópubandalagsins. Minni athygli vekur, að verulegur hluti af orku bandalagsins fer í að reisa nýja tollmúra út á við. Saltfiskútflytjendur Íslands þekkja vel tollahækkanir við múra evrópska virkisins, sem er í smíðum.

Athyglisvert er, að Evrópubandalagið gætir nærri aldrei hagsmuna evrópskra neytenda, heldur nærri eingöngu evrópskra framleiðenda og þá venjulega á kostnað evrópskra neytenda. Það heldur uppi háu vöruverði í álfunni með því að bægja keppinautum frá markaði.

Evrópubandalagið er ekki fyrir fólkið í Evrópu, heldur fyrir gömlu fyrirtækin í Evrópu. Það er ekki velferðarríki almennings, heldur atvinnuvega. Það reynir að sjá til þess, að fyrirtækin þurfi sem minnst að hafa fyrir lífinu að baki alls konar hugvitsamlegra múra.

Ef bandarísk fyrirtæki geta selt Evrópumönnum landbúnaðarvörur á heimsmarkaðsverði, er það bannað á ýmsan hátt. Heimsmarkaðsverðið er sagt vera undirboð, þótt margsannað sé, að beztu framleiðendur Bandaríkjanna og margra annarra ríkja standast verðið.

Hið sama er að segja um iðnaðarvörur frá Japan og ýmsum öðrum ríkjum Suðaustur-Asíu. Eðlilegur innflutningur þeirra á heimsmarkaðsverði gæti bætt lífskjör almennings í Evrópu í svipuðum mæli og ódýrar landbúnaðarvörur frá Bandaríkjunum mundu gera.

Evrópubandalaginu er stjórnað af embættismönnum, sem eru skólaðir í velferðarstefnu atvinnuvega. Þeirra heimur felst í tollmúrum og verndaraðgerðum á borð við að tolla öll sjónvarpstæki frá Japan hjá gömlum tollverði í þorpi nokkru inni í miðju Frakklandi.

Þingræði er af skornum skammti í Evrópubandalaginu. Hinir kjörnu fulltrúar sitja eins konar ráðgjafarsamkundu, sem hefur lítil áhrif á skrifræðisliðið. Það stjórnar ferðinni, stutt fjölmennri hirð þrýstihópa, sem hafa aðsetur við aðalstöðvar bandalagsins. Í raun er

Evrópubandalagið eins konar risaútgáfa af íslenzka landbúnaðarráðuneytinu. Báðar stofnanirnar eru framlenging þreyttra atvinnuvega, stjórnverndað samsæri gegn neytendum, ­ heimur innflutningsbanns, útflutningsuppbóta, búmarks og framleiðsluréttar.

Þetta er aðdráttarafl bandalagsins, orsökin fyrir vinsældum þess hjá værukærum stjórnendum fyrirtækja. Þetta er orsök þess, að skynsamlegt tollfrelsisfélag, Fríverzlunarsamtök Evrópu, er á stöðugu undanhaldi fyrir ofurvaldi arftaka Kola- og stálsambandsins.

Við höfum nóg af drekum fortíðarinnar í stjórnsýslu og stjórnmálum Íslands, þótt við gerumst ekki þar á ofan aðilar að fortíðinni á evrópskum vettvangi.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin þarf frið

Greinar

Færzt hefur í vöxt að undanförnu, að ríkisstjórnir hafi skaðleg áhrif með viðhorfum sínum og vinnubrögðum. Mjög bar á þessu í tíð ríkisstjórnarinnar, sem sagði af sér í beinni útsendingu í fyrrahaust. En keyrt hefur um þverbak í tíð þeirrar stjórnar, sem nú situr.

Afdrifaríkust eru skaðlegu áhrifin af sífelldum breytingum ríkisvaldsins á því umhverfi, sem fyrirtæki og fjölskyldur hrærast í. Enginn getur tekið skynsamlega ákvörðun í dag, af því að ríkisstjórnin verður á morgun búin að breyta aðstæðunum, sem byggt var á í dag.

Stjórnvitringar hafa ætíð lagt mikla áherzlu á, að ríkisstjórnir stuðli að stöðugleika, færi borgurum landsins frið. Þess vegna hefur jafnan verið talin helzta skylda ríkisvalds að hafa hervarnir til að tryggja jafnvægið út á við og löggæzlu til að tryggja frið og ró innanlands.

Kínverski vitringurinn Lao Tse sagði, að sú ríkisstjórn væri góð, sem léti fólkið í landinu í friði. Hann sagði ennfremur, að til séu svo góðar ríkisstjórnir, að fólkið í landi þeirra viti ekki, að þær séu til. Í þessu felst ágæt lexía handa íslenzkum stjórnmálamönnum.

Svisslendingar eru þjóðin, sem kemst einna næst kenningum Lao Tse. Þar fer svo lítið fyrir ríkisstjórninni, að við verðum að fletta upp í handbókum til að vita, hver er forsætisráðherra. Steingrímur okkar er þekktari í umheiminum en starfsbróðir hans í Sviss.

Gagnsemi forsætisráðherra eykst ekki í réttu hlut falli við þvæluna, sem rennur upp úr honum í fjölmiðlum. Svissneskir stjórnmálamenn kunna sitt fag. Þeir sjá um, að Svisslendingar hafi frið og næði til að raka saman auði, án ótta við athafnagleði ráðamanna.

Hér á landi erum við svo óheppnir að hafa að sinni ríkisstjórn, sem stjórnað er af þremur flokksleiðtogum, sem sameina athyglissýki og athafnasýki. Þeir hafa ómótstæðilega þörf fyrir að tjá sig, sérstaklega í sjónvarpi, og að vera taldir á kafi í athöfnum af ýmsu tagi.

Þegar flokksleiðtogarnir og ráðherrarnir komast ekki nóg að í sjónvarpi, þeysast þeir um landið með málfundi, þar sem þeir fá útrás fyrir það, sem þeir telja vera ræðusnilld. Í sjónvarpi og á málfundum þessum eru þeir svo sífellt að lýsa yfir ráðgerðum breytingum.

Nú orðið er húsnæðislögum og -reglum breytt því sem næst árlega, svo að engar fjölskyldur geta lengur skipulagt fjármál sín fram í tímann. Vísitölulögum og -reglum er breytt á færibandi, gjarna nokkrum sinnum á ári, svo að fáir vita lengur, hvað muni snúa upp í vor.

Einna bezt hefur Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga, lýst afleiðingunum af athafnasýki íslenzkra ráðherra. Hann gerði það á fundi í síðustu viku. Hann sagði: “Hér rær maður í þannig sjó, að maður verður bæði sjóveikur og ruglaður”.

Guðjón bar saman stjórnarfar á Íslandi og í Bandaríkjunum, þar sem hann starfaði með góðum árangri um árabil. Hann sagðist hafa náð tíu sinnum meiri árangri í starfi þar í landi en hann næði núna hér á landi. Þetta er alvarlegur áfellisdómur yfir athafnasýkinni.

Ríkisstjórnin á að hætta að skipuleggja vexti og vísitölur, krónugengi og húsnæðislánareglur, nýja sjóði ofan á þriggja mánaða gamla sjóði, nýja kvóta ofan á nýlega kvóta, fullvirðisrétt ofan á búmark. Hún á að leyfa þessum þáttum að ráðast af sjálfu sér.

Ríkisstjórninni ber að hætta að gera þjóðina sjóveika og ruglaða af athafnasýki ráðherra. Henni ber að draga sig í hlé og gefa þjóðinni frið til að rækta garðinn sinn.

Jónas Kristjánsson

DV

“Sjóveikur og ruglaður”

Greinar

“Það er kominn tími til, að menn hætti svona vitleysu og fari að tala um alvörumál”, sagði Guðjón B. Ólafsson, forstjóri Sambands íslenzkra samvinnufélaga, á spástefnu Stjórnunarfélagsins fyrir helgina. Hann var að tala um ríkisstjórnina, sem stendur í ströngu.

“Það er kominn tími til, að ríkisstjórnin hætti að hugsa um einhver smáatriði”, sagði Guðjón í ræðu sinni. Hann minntist útvarpsfrétta af opinberri ákvörðun um lágmarksverð á tíu til tólf fisktegundum og af ráðherraákvörðun um fjölda leyfðra bjórtegunda.

Guðjón ræddi reynslu sína af rekstri fyrirtækja í Bandaríkjunum og hér á landi. Mismunurinn er einkum sá, að á Íslandi ríkir þungt og þrúgandi kerfi. Sagðist Guðjón ekki ná hér í starfi nema tíunda hluta af þeim árangri, sem hann hefði náð í Bandaríkjunum.

“Hér rær maður í þannig sjó, að maður verður bæði sjóveikur og ruglaður”, sagði Guðjón Sambandsforstjóri í ræðu sinni. Sjaldan hefur ástandi íslenzks atvinnulífs verið lýst betur en í þessum ummælum hans. Vandinn er nefnilega, að ríkisstjórnir ofstjórna landinu.

Sem dæmi má nefna húsnæðismálin. Ekki er fyrr búið að setja í gang nýtt kerfi húsnæðislána með miklu brambolti, en það er talið óalandi. Á handahlaupum er farið að raða saman nýju kerfi. Þannig rekur hvert húsnæðislánakerfið annað, með tilheyrandi óvissu.

Almennt má segja, að ekki sé lengur stjórnað með lögum, heldur með tilskipunum ráðherra, í formi reglugerða á grundvelli heimildarákvæða. Fjármálaráðherra gengur þó lengst, því að hann er farinn að stjórna landinu með yfirlýsingum um væntanlegar tilskipanir.

Ríkisstjórnin hefur á hálfu ári siglt hratt inn í miðstýrt kreppukerfi, sem minnir mjög á tímabilið frá 1930 til 1960, þegar svokölluð Eysteinska ríkti hér á landi. Nú vantar raunar ekki annað en tillögur forsætisráðherra um nýtt kerfi bátagjaldeyris, margfalt gengi.

Efnahagstillögur Steingríms Hermannssonar eru hrollvekjandi. Hann vill, að ríkisstjórnin taki frumkvæði í samningum aðila vinnumarkaðarins. Hann vill, að ríkið tefli þar fram tilboðum um nýjar breytingar á sköttum, vöruverði, vöxtum og verðstöðvunarreglum.

Hann vill líka, að neytendur borgi brúsann í hvert skipti, sem innlendur framleiðandi heldur fram hinni algengu klisju, að erlendur keppinautur eða ríkisstjórn bjóði niður eða greiði niður vöru. Hann vill takmarka innflutning á ódýrri vöru frá láglaunasvæðum.

Forsætisráðherra vill magna velferðarríki fyrirtækja. Hann vill enn einn sjóðinn, sem á að lána þeim fyrirtækjum, sem eru svo vonlaus, að hinn nýi Atvinnutryggingasjóður getur ekki leyft sér að lána þeim. Hann vill því frysta atvinnulífið í núverandi mynd.

Steingrímur vill refsa stranglega fyrir andstöðu við handaflsstefnuna í vaxtamálum. Hann vill misnota bindiskyldu í Seðlabanka til að refsa bönkum fyrir háa innlánsvexti handa sparifjáreigendum. Og með afnámi refsivaxta í Seðlabanka vill hann verðlauna bankasukk.

Áratugum saman hefur ekki sézt eins samfellt rugl og felst í tillögum hins vinsæla forsætisráðherra. Verra en ruglið er þó, að tillögur hans fela markvisst í sér meiri ofstýringu smáatriða af hálfu stjórnvalda en nokkru sinni fyrr. Hann er að framleiða kreppu.

Eftir hálft ár Steingríms í viðbót getur Guðjón í Sambandinu sagt, að ekki sé tíu sinnum erfiðara að starfa hér en í Bandaríkjunum, heldur tuttugu sinnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaldhæðinn eftirleikur

Greinar

Blekið var ekki þornað af nýjum mannréttindasamningi austurs og vesturs í Vínarborg fyrr í þessum mánuði, þegar nokkur austantjaldsríki sýndu í verki, að þau hyggjast ekki fara eftir honum. Þau hófu nýjar ofsóknir gegn þeim, sem hafa aðra skoðun á málum en stjórnvöld.

Samkomulagið á Öryggis- og samstarfsfundi Evrópu á að fela í sér aukin mannréttindi, svo sem trúfrelsi, upplýsingafrelsi og ferðafrelsi. Samkvæmt því má til dæmis ekki hindra fólk í að ferðast úr eigin landi og til þess aftur. Margir telja það marka tímamót í sögunni.

Fundurinn í Vínarborg var einn af mörgum, sem haldnir hafa verið og haldnir verða í framhaldi af undirritun svokallaðs Helsinki-samkomulags austurs og vesturs fyrir hálfum öðrum áratug. Flestir hafa reynzt fremur haldlitlir, eins og Helsinki-samkomulagið sjálft.

Athyglisvert er, hversu lítilþægir fulltrúar Vesturlanda eru, þegar þeir setjast hvað eftir annað að samningaborði með járntjaldsríkjum, þótt fyrri samningar hafi engir verið haldnir, og skrifa þar undir nýja samninga, sem ekki er ætlunin að halda að neinu leyti.

Eftir undirritunina hafa stjórnvöld í Tékkóslóvakíu látið varðhunda sína ganga berserksgang á götunum í Prag, þar sem fólk hefur safnazt saman til að fylgja eftir ýmsum kröfum sínum. Óeirðir lögreglu á torgi Venseslásar eru viljandi ögrun við Vínarsamninginn.

Tékknesk stjórnvöld hafa ennfremur lýst fyrirlitningu sinni á eigin undirritun í Vínarborg með því að ítreka hótanir um að hefja málaferli gegn 14 föngum, þar á meðal hinu fræga leikritaskáldi, Vaclav Havel. Allt gerðist þetta á allra fyrstu dögum samningsins.

Svipaða sögu er að segja frá Austur-Þýzkalandi. Þar hafa stjórnvöld einnig sent varðhunda sína til að hleypa upp friðsamlegum fundum ýmissa hópa, svo sem kristinna manna, umhverfissinna, friðarsinna og svo mannréttindasinna, sem fara mjög í taugar stjórnvalda.

Í Búlgaríu var undirrituninni í Vínarborg fagnað með handtöku 15 félaga í mannréttindasamtökum landsins. Þeir voru síðan látnir lausir, af því að von var á Mitterrand Frakklandsforseta til landsins, en síðan verða þeir örugglega ofsóttir áfram eftir hentugleikum.

Rúmenía er svo kapítuli út af fyrir sig á þessu sviði sem og öðrum. Þrátt fyrir undirritunina í Vínarborg segir ríkisstjórnarpressan í Búkarest berum orðum, að samkomulagsatriðin um aukið trúfrelsi og ferðafrelsi séu spor aftur á bak, sem ekki beri að fara eftir.

Helzt er það í Ungverjalandi og Póllandi, auk Sovétríkjanna sjálfra, að stjórnvöld reyni varlega að feta mannréttindabrautina, sem lögð var með undirskriftum í Helsinki árið 1975 og nú í Vínarborg 1989. Engin ástæða er samt til að hrópa húrra fyrir afrekum þeirra.

Hér í leiðara DV var nýlega bent á, að nokkrar líkur eru á, að varfærnislegar tilraunir Gorbatsjovs Sovét forseta til efnahagslegrar viðreisnar fari út um þúfur. Margt bendir einnig til, að tilraunir hans til opnunar kerfisins mæti harðri andstöðu innan lands og utan.

Með því að leggja sig fram um að óvirða eigin undirskriftir í Vínarborg eru stjórnendur Tékkóslóvakíu, Austur-Þýzkalands og Búlgaríu að senda skilaboð til skoðanabræðra sinna í Sovétríkjunum um að fara að taka í taumana, ef Gorbatsjov fellst ekki á afturhvarf.

Opnun, viðreisn og mannréttindi í Austur-Evrópu er viðkvæmur gróður, sem auðvelt verður að traðka niður í samræmi við kaldhæðni eftirleiks Vínarfundarins.

Jónas Kristjánsson

DV