Greinar

Þeirra eigin orð í tölvu

Greinar

“Þeirra eigin orð” hét frægur bæklingur, sem var á sínum tíma áhrifamikill í stjórnmálabaráttunni hér á landi. Þar var safnað tilvitnunum, sem meðal annars áttu að sýna, að undir sauðargæru Sósíalistaflokksins leyndist grimmur Stalínsúlfur Kommúnistaflokksins.

Oft getur verið gagnlegt að vekja upp gömul ummæli og bera saman við ný. Það kann til dæmis að hvetja stjórnmálamenn til aukinnar varfærni gegn hinni freistandi áráttu að segja það, sem hentar hverju sinni, til þess að sleppa ódýrt frá burtreiðum hversdagsins.

Á tímum tölvualdar ætti þetta aðhald að verða einfaldara og fljótlegra. Ummæli stjórnmálamanna úr hita leiksins eru mörg hver til á tölvudiskum, svo að fræðimenn þurfa ekki að verja eins miklum tíma og áður til að fletta handvirkt í endalausri röð heimilda.

Til dæmis eru allar fréttir DV og Morgunblaðsins geymdar á tölvudiskum. Í þessum söfnum má láta tölvuna leita sjálfvirkt að ákveðnum orðum eða orðhlutum, sem koma fyrir í texta fréttanna. Þannig má í einu vetfangi fá skrá yfir fréttir og annað efni, sem málið varðar.

Unnt er að fá lista yfir allar tilvitnanir í Steingrím Hermannsson og síðan þrengja listann í þau ummæli, sem varða ákveðin lykilorð í textanum. Þannig má á einfaldan hátt rekja sveiflur, sem verða í yfirlýstum skoðunum þeirra manna, er ráðskast með þjóðina.

Því miður er ekki eins auðvelt að leita í öllu bullinu, sem þjóðarleiðtogar okkar láta frá sér fara í útvarpi og einkum þó í sjónvarpi. Það kostar meiri vinnu, því að leitin verður ekki sjálfvirk, þótt styðjast megi við dagsetningar hliðstæðra ummæla úr söfnum prentaðs máls.

Blaðamenn nota margir upplýsingabanka dagblaðanna í daglegum störfum. Það er til mikilla bóta, því að það leiðir til mun vandaðri og ákveðnari vinnubragða. En æskilegt er, að vaxandi stétt stjórn- og sagnfræðinga fari að líta á þessi gögn í víðara samhengi.

Ekki er nóg að líta aðeins á breytingar, sem verða á ummælum stjórnmálamanna eftir aðstæðum hverju sinni. Einnig er afar brýnt, að rökfræðingar fari að skoða innihald textans og fræða okkur um, hvað gæti hugsanlega falizt í klisjunum og ruglinu, sem flæðir yfir okkur.

Óvíst er, að þjóðin taki nokkurt mark á upplýsingum, sem kæmu út úr vinnu af þessu tagi. En hún hefði ekki sér til afsökunar, að ekki væri aðgangur að slíkum upplýsingum. Og það er fyrsta skrefið í átt til skilnings á, að daglega er verið að plata hana upp úr skónum.

Sagnfræðingar hafa upplýst, hvernig forverar Framsóknarflokksins hvöttu til og stuðluðu að einokunarstefnu Danakóngs til að mjólka tekjur sjávarútvegs til eyðslu í landbúnaði. Þeir hafa upplýst, hvernig Framsóknarflokkurinn margfaldaði kreppuna og kreppuárin.

Þetta eru nýlegar upplýsingar, sem fólk hefur enn ekki áttað sig á. Hún ber enn mest traust til stjórnmálamanna á borð við forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra, sem nota hvert tækifæri til að hverfa aftur til miðstýringar og kreppustefnu Eysteinsáranna.

Stjórnmálamenn okkar hafa margir hverjir lært að misnota sjónvarpið til að rugla kjósendur í ríminu með alls kyns klisjum og fullyrðingum, sem standast ekki skoðun. Þeir koma eins og hvirfilbylur á skjáinn og eru farnir, áður en fólk áttar sig á leikaraskapnum.

En nú má nota tölvutækni til að auðvelda fólki að festa hendur á “þeirra eigin orðum” og þvinga þjóðarleiðtoga til að líta síður á fólk sem auðveidda bráð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ímynduð stundargrið

Greinar

Önnur af tveimur sennilegum skýringum á nýju lánskjaravísitölunni er, að ríkisstjórnin sé með allra skemmstu skammtímaþarfir sínar í huga. Hún nær næstu hækkun lánskjaravísitölunnar úr 2,23% niður í 1,67%, sem hjálpar örlítið upp á sakirnar í bili.

Ríkisstjórnin er með þessari sjónhverfingu að breyta merkingum á hitamæli verðbólgunnar, þannig að hann sýnir 22% ársverðbólgu núna í janúar í stað 30%, sem hefði verið með gömlu mælingunni. Hitinn minnkar ekki við þetta, heldur er verðbólgan hin sama.

Hin skýringin er, að sumir þeir ráðherrar, sem sjá aðeins lengra en til næstu mánaðamóta, geri ráð fyrir, að hlutur launa í þjóðartekjum sé í hámarki um þessar mundir og hljóti óhjákvæmilega að lækka á allra næstu misserum. Því sé breytingin rétt tímasett.

Frá þessum sjónarhóli má reikna með, að hin nýja vísitala mæli verðbólguhitann lægri en ella væri á öllu því tímabili, er hlutdeild launa í þjóðartekjum lækkar. Það gæti hjálpað ríkisstjórninni í sjónhverfingum verðbólgumælinga um nokkurt skeið eða út kjörtímabilið.

Flestir eru sammála um, að á löngum tíma mæli nýja vísitalan sama verðbólguhita og hin gamla. Hins vegar getur munurinn verið mjög mikill á sveiflutímum, þegar hlutdeild launa í þjóðarbúskapnum er annað hvort á upp- eða niðurleið, svo sem mörg dæmi eru um.

Ef þessi ríkisstjórn eða þær, sem á eftir henni koma, gæta þess að krukka kerfisbundið í vísitöluna á réttum tímum í þessum sveiflum, má ná fram varanlegri fölsun á mælingu vísitöluhitans. Slík sjónhverfing er að sjálfsögðu ein æðsta hugsjón sérhverrar ríkisstjórnar.

Þannig má auka vægi launa í vísitölu, er búast má við minnkandi hlut launa í þjóðarbúskapnum, en minnka vægið eða taka launin jafnvel aftur úr vísitölunni, þegar reiknað er með auknum hlut launa. Þetta verður áhugamál stjórnmálamanna á næstu árum.

Ekki er einhlítt, að ríkisstjórnin geti glaðzt yfir að hafa bundið hendur samtaka launafólks. Að vísu kann breytingin að draga úr kaupkröfum, af því að fólk sér, að hækkanir muni skrúfa upp lánskjaravísitölu. En þá fara samtökin bara að verzla með málið í staðinn.

Gallinn við bragðvísina er, að samtök þeirra, sem málið varðar, munu taka tillit til hennar í gerðum sínum. Þannig munu félög launafólks hér eftir heimta, að ríkisstjórnir greiði fyrir samningum með annars konar svindli með vísitölur en ríkisstjórnir kjósa sjálfar.

Þannig er hætt við, að ríkisstjórnir fái ekki að vera í friði með hina nýju uppgötvun í tækni vísitölufalsana. Nýja, launatengda vísitalan mun nú kalla á gagnaðgerðir allra þeirra, sem hræddir eru við breytinguna, ýmist vegna eigin hagsmuna eða almannahagsmuna.

Nærri allir eru á móti launatengingu vísitölunnar. Aðilar vinnumarkaðarins eru samstíga í andstöðunni. Samtök lífeyrissjóða og aðrar peningastofnanir eru á móti henni. Meira að segja gengu einstakir ráðherrar í stjórninni með tregðu til vísitölufölsunar Steingríms.

Heildaráhrifin af breytingunni eru skaðleg, því að krukk í vísitölur dregur úr trausti fólks á mælikvarðanum. Gamla lánskjaravísitalan hafði ríkt í áratug og skapað festu. Hún var óvinsæl um tíma, en rétti sig af, þegar sveiflurnar jöfnuðust. Nú er festunni kastað brott.

Með breytingunni hefur stjórnin fórnað þjóðarhagsmunum festunnar fyrir ímynduð stundargrið í baráttu fyrir fölsuðum merkingum á hitamæli verðbólgunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Valdshyggja í sandkassa

Greinar

Sverrir Hermannsson bankastjóri sagði hróðugur, að bankarnir hefðu “niðurlægt” ríkisstjórnina, en Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra sagði hreykinn, að ríkisstjórnin hefði hrundið “atlögu” bankanna. Báðir voru að tala um sama hlutinn, hækkun vaxta um 1­2%.

“Pabbi minn er sterkari en pabbi þinn” er það, sem þessir tveir valdamenn þurftu helzt að koma á framfæri eftir vaxtahækkunina. Hugarfarið að baki ummælanna er dæmigert um sandkassa-valdshyggju, sem er smám saman að ná undirtökum í stjórnmálunum.

Fjármálaráðherrann virðist líta á sig sem annað og meira en gjaldkera ríkisstjórnarinnar. Hann telur sig settan yfir öll fjármál þjóðarinnar, alveg eins og í Sovét ríkjunum fyrir tíma Gorbatsjovs. Hvað eftir annað hótar hann að misbeita ráðherravaldi til að beygja aðra.

Með innreið þjóðarleiðtoga á borð við Ólaf Ragnar Grímsson er verið að fjarlægjast hið lýðræðislega kerfi fjölmargra valdamiðstöðva og stefna að söfnun valds í eina hönd. Viðhorf hans eiga mikinn hljómgrunn, því að margir vilja líta á þjóðina sem eitt fyrirtæki.

Við höfum miklu meiri en næg vandamál af miðstýringunni, sem fyrir er, þótt hún sé nú ekki enn aukin. Við sjáum í ótal dæmum, að allt vald spillir. Þau eru daglega rakin í fjölmiðlum. Og margsönnuð sagnfræðiformúla segir, að allt gerræðisvald gerspillir.

Þjóðin þarf að átta sig á, að stjórnarfar verður ekki því betra, sem það er öflugra, sýnilegra og fyrirferðarmeira. Hvergi í heiminum er landsmálum betur stjórnað en í Sviss. En þar fer svo lítið fyrir ríkisstjórninni, að menn vita varla, hvað ráðherrarnir heita.

Lao Tse sagði, að sú ríkisstjórn væri bezt, sem léti fólkið í landinu í friði. Þau sannindi eru enn í fullu gildi. Ef ríkisstjórn er afskiptalítil um hagi fólks, hefur það tíma til að rækta garðinn sinn og græða fyrir sína hönd og þjóðarinnar í heild. Eins og þeir í Sviss.

Hér erum við hins vegar á hraðri leið til miðstýringar, þegar flestir aðrir, þar á meðal Sovétmenn, eru að hverfa frá henni. Hvert nýtt kerfi kvóta, búmarks, fullvinnsluréttar og útflutningsleyfa kallar á ný vandamál, sem leyst eru með flóknari kerfum og meiri vandræðum.

Hér stefna flestir þjóðarleiðtogar að söfnun valds í sínar eigin hendur. Þeir velta til dæmis vöngum yfir, hvaða fyrirtæki skuli fá að lifa og hvaða fyrirtæki skuli deyja. Þeir hafa tekið að sér að leika hlutverk guðs í þjóðfélaginu. Og þeir ímynda sér, að slíkt sé í lagi.

Skemmtilegasta iðja hinnar nýju kynslóðar stjórnmálamanna er þó ekki sú, að kássast í annarra manna högum. Þeir blakta mest, þegar þeir geta búið sér til sandkassa eða leikvöll úti á torgi, þar sem þeir geta safnað saman áhorfendum að pólitískum burtreiðum.

Leiksýningar stjórnmálamanna fara nú sigurför um landið. Þar standa þjóðarleiðtogarnir eins og hanar á haug, sperra sig og baða sig í sólskini fimmaurabrandara og leikrænna orðaskipta, alveg eins og slíkir gerðu í kappræðum í gagnfræðaskóla fyrir ótalmörgum árum.

Þetta væri í lagi, ef þetta væri bara ódýrt leikhús. En stjórnmálamenn nútímans heimta annað og meira en óskipta athygli þjóðarinnar í samkomuhúsum og fjölmiðlum. Þeir heimta að fá að skipa högum allra manna eins og guðfeður í bandarískum mafíu-bíómyndum.

En hættulegust er valdshyggju-hagfræði formanna stjórnarflokkanna þriggja fyrir þá sök, að mikill fjöldi kjósenda er reiðubúinn til að samþykkja hana og þola.

Jónas Kristjánsson

DV

Leiksýningin fellur

Greinar

Ríkisstjórnin er byrjuð að uppskera laun syndarinnar. Í skoðanakönnun DV í gær kom í ljós, að hún er komin í minnihluta meðal kjósenda, með 45% fylgi á móti 55%. Enn neðar er komið fylgi stjórnarflokkanna hvers fyrir sig. Samanlagt er það núna ekki nema 40%.

Þetta bendir til, að lokið sé hveitibrauðsdögum verstu ríkisstjórnar síðustu áratuga og að kjósendur séu að byrja að átta sig á staðreyndum. Vonandi verður fylgi stjórnarinnar fljótt komið niður í þau 40%, sem næstsíðasta stjórn hafði í sumar, rétt áður en hún sprakk.

Ánægjulegt er, að svarendur í skoðanakönnuninni skuli refsa Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum fyrir að leiða fremsta valdshyggjumann þjóðarinnar til fjármálastjórnar, þar sem hann getur svalað sér með tíðum upphrópunum hótana um fjárhagslegt ofbeldi.

Eitt fyrsta verk hins valdasjúka fjármálaráðherra var að hóta eigin flokkssystkinum í stjórn flokksmálgagnsins, að hann skyldi taka ríkisstyrkinn af blaðinu og skrúfa fyrir auglýsingar ríkisins í því, ef vilji margfalds meirihluta í blaðstjórninni fengi að ráða ferðinni.

Mátulegt er á Alþýðubandalagið að hafa slíkan oddamann, sem vikulega er með hótanir gagnvart andmælendum sínum um að hefna þess í héraði, sem hallaðist á alþingi. Það hæfir flokknum vel að láta stjórnast af ýktri útgáfu af afleiðingum óhóflegrar valdshyggju.

Greinilegt er, að stjórnsýsla er ekki helzta viðfangsefni höfuðsmanna ríkisstjórnarinnar. Þeir eru allir þrír fyrst og fremst á leiksviði og meta árangur sinn eftir því. Fundaherferðin hans Ámunda er eðlilegur þáttur í leikaraskapnum, þótt skemmtanaskattur greiðist ekki.

Öll framganga og fjölmiðladans þeirra tveggja þjóðarleiðtoga, sem nú ferðast um landið á rauðu ljósi, framkallar hugrenningar um, að þeir hljóti að hafa staðnað í málfundaskóla hjá JC eða í málfundafélagi gagnfræðaskóla, þar sem óheftur leikaraskapur ræður ferð.

Formaður Framsóknarflokksins er miklu nærfærnari í að spila á almenningsálitið, þótt ekki hafi það dugað flokki hans og stjórn í þessari skoðanakönnun. Hans vandi er fyrst og fremst fólginn í, að fólk er að byrja að skilja, að hann er úti að aka í efnahagsmálum.

Ekki kemur á óvart, að Borgaraflokkurinn er heillum horfinn í skoðanakönnuninni. Hann hafði lítil spil og hefur ekki fengið á þau neina slagi. Eina von oddamanna hans er, að þeim verði hleypt í ríkisstjórn, svo að þeir fái að ljúka pólitískum ferli sínum sem ráðherrar.

Samkvæmt könnuninni nýtast Kvennalistanum ekki hinar vaxandi óvinsældir ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna. Ekki verður samt séð, að listinn hefði verið bættari með aðild að hinni ógæfulegu stjórn, þótt sumir hafi haldið fram, að hann ætti heima í henni.

Hagnaðurinn af hrakförum stjórnar og stjórnarflokka í skoðanakönnuninni lendir allur hjá Sjálfstæðisflokknum, sem blómstrar í hlutverki forustuflokks stjórnarandstöðunnar á þann einfalda hátt að láta ekki mikið á sér bera og láta leikara stjórnarinnar um leiksviðið.

Hinir raunverulegu sigurvegarar skoðanakönnunarinnar eru þó hinir óákveðnu, sem mynda langstærsta flokkinn, með 42% fylgi. Svo hátt hlutfall óákveðinna hefur ekki mælzt um langan aldur. Það bendir til, að óánægja með stjórnmálaflokkana sé mikil og vaxandi.

Aðalmálið er þó, að kjósendur virðast ekki ginnkeyptir fyrir leikaraskap og öðrum sölubrögðum ímyndarfræðinga, sem telja, að umbúðirnar skipti öllu máli.

Jónas Kristjánsson

DV

Viðreisnarþol er lítið

Greinar

Hætt er við, að senn blási svalir vindar um Mikhail Gorbatsjov, forseta Sovétríkjanna. Vinsældir hans á Vesturlöndum duga honum skammt heima fyrir, ef honum verður kennt um óþægindin, sem fylgja tilraunum hans til þjóðfélagsopnunar og efnahagsviðreisnar.

Margir forustumenn í Sovétríkjunum fylgja honum aðeins með hálfum huga að málum. Þeir gera sér grein fyrir, að þjóðfélagið var komið í blindgötu. Þeir vilja prófa endurbætur Gorbatsjovs, en eru samt álíka hræddir við þær og Íslendingar eru við raunvexti.

Þolinmæði þessara hálfvolgu stuðningsmanna eru takmörk sett. Við þekkjum slíkt vel hér á Íslandi. Okkar stjórnvöld gerðu í haust tilraun til frelsis í útflutningi á ferskum fiski. Það olli óhóflegum útflutningi, þegar flóðgáttin opnaðist, svo sem við mátti búast.

Í stað þess að bíða og sjá, hver atburðarásin mundi verða á löngum tíma, fengu hin miðstjórnarlega sinnuðu stjórnvöld okkar hland fyrir hjartað strax í fyrstu vikunni. Eftir viku tilraun til efnahagslegrar opnunar á þessu afmarkaða sviði var frelsið dregið til baka.

Hin almenna regla er, að viðreisn efnahags með opnun hagkerfis hefur alltaf þjáningar í för með sér og að þær koma fyrr fram en hagurinn. Þetta höfum við séð greinilega hér á landi í fálmkenndri leit fyrri stjórnvalda okkar í leit að sparifjármyndandi raunvöxtum.

Í augun skera þjáningar fyrirtækja vegna aukins fjármagnskostnaðar. Minni athygli vekur, að sparnaður í landinu fór að aukast og nálgast það, sem þekkist í öðrum löndum. Niðurstaða núverandi ríkisstjórnar er ótímabært hvarf frá brýnni raunvaxtastefnu.

Þegar íslenzk stjórnvöld hafa eins lítið þol til góðra verka og dæmin hér að ofan sýna, er ekki unnt að búast við, að stjórnvöld í Sovétríkjunum hafi margfalt meiri seiglu. Þar voru líka margir orðnir meira eða minna samgrónir gömlu hafta- og kreppustefnunni.

Hætt er við, að hugur sovézkra ráðamanna hneigist til endurnýjaðrar miðstýringar, alveg eins og íslenzkum ráðamönnum dettur strax í hug aukin miðstýring, þegar eitthvað bjátar á. Hin sovézka Eysteinska í efnahagsog fjármálum er grunnmúruð í sjö áratuga hefð.

Viðreisnarstefnan í Sovétríkjunum hefur, eins og við mátti búast, fyrst leitt til verðbólgu, sem áður þekktist lítt eða ekki þar í landi. Hún hefur leitt til krafna um launahækkanir, sem lítið var um áður. Afnám niðurgreiðslna og uppbóta mun gera þetta tilfinnanlegra.

Krafa Gorbatsjovs og manna hans um vel rekin fyrirtæki stríðir gegn sameiginlegum hagsmunum værukærra forstjóra og værukærra starfsmanna, sem sjá gjaldþrot og uppsagnir á næsta leiti. Þegar hafa rúmlega 40.000 störf verið lögð niður í verkalýðsfélögum.

Þar á ofan er viðreisnarstefnan í Sovétríkjunum svo fálmkennd, að ekki er unnt að búast við bættum lífskjörum hennar vegna á næstu árum. Þess vegna er hugsanlegt, að hálfvolgir stuðningsmenn stefnunnar missi móðinn og flýi í faðm harðra andstæðinga hennar.

Þetta er ekkert ólíkt því, sem er að gerast hér á landi, er daufir stuðningsmenn opins hagkerfis, svo sem fyrrverandi þjóðhagsstjóri, leita í hlýjuna hjá kreppu- og haftasinnum og gerast ráðherrar í ríkisstjórn Framsóknar, sem telur, að miðstýra beri öllum vandamálum.

Ekki er heldur ótrúlegt, að Gorbatsjov gefi sjálfur eftir fyrir afturhaldinu, þegar hann sér stuðningsliðið leysast upp og hverfa, af því að þolinmæðina skortir.

Jónas Kristjánsson

DV

Trúarstyrjöldum fækkar

Greinar

Langt er síðan minni ófriður hefur verið í heiminum í upphafi nýs árs en er að þessu sinni. Árið 1988 var eitt af mestu friðarárum þessarar aldar, þegar frá eru talin lok heimsstyrjaldanna tveggja. Í nærri öllum heimsálfum hafði fólk ástæðu til að anda léttar á síðasta ári.

Mestu skiptir, að samið var um vopnahlé í mannskæðu trúarstríði sjíta í Íran og sunníta í Írak. Hundruð þúsunda manna féllu þar í baráttu milli tveggja megingreina múhameðstrúar. Írakar hófu stríðið, en höfðu ekki árangur sem erfiði, því að niðurstaðan varð patt.

Styrjöldin varð svo alvarleg um tíma, að hún ógnaði olíuhagsmunum Vesturlanda, sem sendu herskip á vettvang til að halda opnum siglingaleiðum olíuskipa um Persaflóa. Sameinuðu þjóðirnar áttu að lokum umtalsverðan þátt í að stilla til friðar á svæðinu.

Sovétstjórnin ákvað á árinu að hætta hernaði í Afganistan og hóf brottflutning herja sinna þaðan. Hún skilur landið eftir í rústum og milljónir manna landflótta í öðrum löndum, aðallega í Pakistan. Samt tókst henni ekki að kúga öfl múhameðstrúar í landinu.

Ósigur Sovétríkjanna í Afganistan hefur heimssögu legt gildi. Í hrjóstrugum fjallgörðum smáríkis komst annað heimsveldið að því, að takmörk eru á valdi, alveg eins og hitt heimsveldið hafði áður komizt að í fenjum Víetnams. Heimsvaldastefna hlaut varanlegan hnekki.

Víðar í Asíu er friðvænlegra um þessar mundir. Víetnamar hafa dregið úr herafla sínum í Kambódsíu og segjast vera að hætta hernámi grannríkisins. Fólk vonar, að þetta leiði til nýrrar valdatöku hófsamra afla, en ekki hinna geðveiku kommúnista í Rauðu kmerunum.

Í Sri Lanka tókst að halda lýðræðislegar kosningar, þrátt fyrir ógnanir ofbeldissinna í röðum Tamíla og Sinhalesa, sem eru enn eitt dæmið um ofstækið í trúarbrögðum heims. Ánægjulegt er, hversu góðum rótum lýðræðisskipan er að skjóta í ríkjum Suður-Asíu.

Allan mátt hefur dregið úr stríðsmætti Afríkuríkja. Í Súdan eru deiluaðilar farnir að tala saman og friður er á landamærum Tsjad og Líbýu. Erlendir herir búa sig til brottfarar, Kúbverjar frá Angóla og Suður-Afríkumenn frá Namibíu. Allt er þetta betra en ekki neitt.

Í Mið-Ameríku er friðvænlegra á landamærum Nicaragua, þar sem Contra-skæruliðar hafa að mestu lagt niður vopn. Því miður stefnir innanlandsþróunin í Nicaragua í átt til hliðstæðs stalínisma og ríkir á Kúbu, en það stafar af fávísi öfgamanna í Washington.

Reiknimeistarar hafa skýrt frá, að blóðugum ófriðarbálum á hnetti mannkyns hafi fækkað eða sé að fækka úr 26 í 14 í fyrra og í upphafi hins nýja árs. Þetta er frábær árangur á tiltölulega stuttum tíma. En sums staðar hefur ástandið versnað á móti, svo sem í Palestínu.

Allt er þetta staðbundinn ófriður. Hagstæðar breytingar hafa einnig orðið á þeim ófriði, sem mestu máli skiptir, kalda stríðinu milli austurs og vesturs. Undirritaðir hafa verið samningar um samdrátt kjarnorkuvopna og fleiri samningar af því tagi eru í smíðum.

Að vísu er enn mikil óvissa um framvindu samdráttar kalda stríðsins, af því að Gorbatsjov og stefna hans standa höllum fæti heima fyrir í Sovétríkjunum. Kerfisliðið þar eystra kennir honum og stefnu hans um efnahagslega stöðnun og vaxandi hávaða í skoðanaskiptum.

Í heild getur mannkyn fagnað friðsamari jörð á nýju ári og hugleitt um leið, að fremur en efnahagslegir hagsmunir er trúarofsi af ýmsu tagi yfirleitt forsenda ófriðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Dularfullt sinnuleysi

Greinar

Óskiljanlegt er með öllu, hversu lítinn áhuga tryggingafélög hafa á brunavörnum í landinu. Í hverjum stórbrunanum á fætur öðrum kemur í ljós, að tryggingafélög gera lítinn og helzt engan greinarmun á mannvirkjum, sem hafa brunavarnir í misjafnlega góðu lagi.

Flest virðist hafa farið úrskeiðis í brunavörnum í stórhýsinu að Réttarholti 2. Samt hafði mannvirkið fengið brunatryggingu á almennum kjörum hjá Húsatryggingum Reykjavíkurborgar, alveg eins og þau mannvirki, þar sem farið er eftir bókstaf brunavarna.

Húsatryggingar Reykjavíkurborgar eru ekki einar um þetta skeytingarleysi. Frystihús brenna ótt og títt víðs vegar um land. Við lesum þá jafnan í fréttum, að ekki hafi verið sinnt athugasemdum eldvarnareftirlits. Samt borga og brosa tryggingafélögin í sífellu.

Fljótt á litið virðast markaðslögmál ekki gilda um tryggingar á Íslandi. Tryggingafélög virðast ekki telja sér hag í að afla sér betri kjara hjá endurtryggjendum úti í heimi með því að sýna fram á lægri tjónagreiðslur í kjölfar strangara aðhalds og misjafnra iðgjalda.

Tryggingafélögum í landinu virðist nákvæmlega sama, þótt venjulegir viðskiptavinir þeirra þurfi að borga óþarflega há iðgjöld, af því að skussarnir í brunavörnum greiða of lág iðgjöld og af því að iðgjöldin brenna upp í greiðslum bóta til þessara sömu skussa.

Tryggingafélög geta ekki kannað öll smáatriði brunavarna. En eðlilegir viðskiptahættir fælust í, að þau tækju sjálf út þau mannvirki, sem þyngst vega í tjónagreiðslum, og gengju í öðrum tilvikum hart eftir, að farið væri strax og í hvívetna eftir kröfum eldvarnaeftirlits.

Oft hafa tryggingafélögin verið spurð, hverju þetta sæti. Engin haldbær svör hafa enn fengizt. Sofandaháttur þeirra væri skiljanlegur, ef þau væru opinberar stofnanir á borð við Búnaðarfélagið. En þau vaka ekki eins og samkeppnisaðilar á opnum tryggingamarkaði.

Það hlýtur að vera krafa endurtryggjenda og almennra viðskiptavina, að tryggingafélögin vakni til lífsins. Og það hlýtur að vera merkilegt rannsóknarefni vísindamanna í hagfræði að kanna, af hverju markaðslögmál gilda ekki um íslenzk tryggingafélög.

Ekkert væri jafnlíklegt til að efla brunavarnir í landinu og aukið aðhald af hálfu tryggingafélaga. Þau eiga að kynna sér betur, hvaða brunagildrur þau eru að leggja á herðar endurtryggjenda og almennra viðskiptavina, sem borga brúsann af sinnuleysinu.

Tryggingafélögum ber að neita að taka verstu brunagildrurnar í tryggingu fyrr en að loknum endurbótum. Þeim ber að leggja hátt álag á syndaseli, er fá tryggingu, en trassa að koma upp eldvörnum, sem krafizt er. Þeim ber að lækka iðgjöld almennra viðskiptamanna.

Reykvískir útsvarsgreiðendur þurfa nú að borga marga tugi milljóna, ef ekki eitt hundrað milljónir vegna vanrækslu Húsatrygginga Reykjavíkurborgar og kæruleysis Eldvarnaeftirlits Reykjavíkurborgar. Vonandi verður sá biti til að hreyfa við brunavörnum í borginni.

Mikilvægast er að finna, hvernig í ósköpunum stendur á, að tryggingafélög haga sér ekki eins og samkeppnisaðilar á markaði, heldur eins og opinberar stofnanir, sem sofa værum svefni og lyfta ekki litla fingri í þágu almennra iðgjaldagreiðenda og endurtryggjenda.

Ef vísindaleg skýring finnst á hinu dularfulla sinnuleysi, ætti að vera unnt að finna leiðir til að komast framhjá því og draga úr óþörfu brunatjóni í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Böl bætt með meira böli

Greinar

Í heimi miðstýringar er gamalt skipulagsklúður leyst með nýju og auknu skipulagsklúðri, þegar hinu fyrra klúðri er ekki lengur vært. Þannig hefur sjávarútvegsráðherra lagt til breytt skipulag á kvótakerfinu, sem hann hefur verið að herða um háls sjávarútvegsins.

Andstaða samtaka útvegsmanna við nýju tillögurnar byggist því miður ekki á þessu. Hún stafar nær eingöngu af, að ráðherra hyggst ekki lengur gefa útvegsmönnum hinn árlega veiðikvóta, heldur taka 2% hans í sérstakan sjóð hins opinbera og selja þann hluta.

Útvegsmenn segja þetta vera upphaf að hinum versta auðlindaskatti og má það til sanns vegar færa. Hins vegar er þessi upptaka á hluta árlegrar gjafar þjóðfélagsins til útvegsmanna ekki í þeim stíl, sem fræðimenn hafa lagt til, heldur með sérstöku Framsóknarsniði.

Verði á kvóta ríkisins er ætlað að taka mið af markaðsverði á hverjum tíma. Það verður erfitt í framkvæmd, því að helmingnum af kvóta sjóðsins er ætlað að tryggja fiskvinnslu á landsvæðum, sem hafa ótryggan aðgang að hráefni eða búa við lélegt atvinnuástand.

Til að efla þennan nýja sjóð til aukinnar miðstýringar og aukinnar skömmtunar hyggst sjávarútvegsráð herra gera upptækar 330 milljónir, sem eru í Úreldingarsjóði fiskiskipa og Aldurslagasjóði fiskiskipa. Lögfræðilega séð er ótrúlegt, að ríkið megi stela þessu fé.

Athyglisvert er, að sjávarútvegsráðherra hefur viðurkennt með tillögunum, að hann og forveri hans, sem nú er forsætisráðherra, hafa haldið áfram þeirri stefnu Lúðvíks Jósepssonar að byggja upp of stóran sjávarútveg og að halda úti of miklum tilkostnaði við hann.

Nú á að viðurkenna þetta, fækka fiskiskipum og fiskvinnslustöðvum annars vegar og sjómönnum og fiskvinnslufólki hins vegar. Þetta á samkvæmt tillögunum samt ekki að koma niður á stöðunum, sem liggja verst við sjósókn og hafa ótryggt framboð á atvinnu.

Sennilega er nauðsynlegt, að rekstrareiningum í sjávarútvegi fækki að minnsta kosti að marki tillagna sjávarútvegsráðherra og að starfsliði atvinnugreinarinnar fækki því um ein 500 á sjó og önnur 500 á landi. Slíkt ætti að geta aukið hagkvæmni og samkeppnisfærni.

En fækkun þessi er gagnslítil, ef hún verður ekki einmitt þar, sem aðstaða er verst. Ef fækkunin á fyrst og fremst að koma niður á öflugum sjósóknarplássum, til að vernda hin, sem ramba á heljarþröm, leiðir fækkunin ekki til árangursins, sem sótzt er eftir.

Framsóknarflokkur nútímans er eðlilegt framhald af stefnu landeigendavaldsins á einokunartímanum, þegar farið var að mjólka sjávarútveginn í þágu landbúnaðar. Þetta framhald náði hámarki á kreppuárunum, sem flokknum tókst að framlengja í tæpan áratug.

Framsóknarflokkurinn stefnir enn að miðstýringu þjóðfélagsins og fjármagns þess, svo að sjávarsíðan megi halda uppi dalabyggðum. Í þessu skyni hefur flokknum tekizt að telja sjávarsíðufólki trú um, að óvinur hennar sé þéttbýlið á Reykjavíkursvæðinu.

Sú sjónhverfing hefur þvingað hina stjórnmálaflokkana til að fylgja í reynd stefnu Framsóknar. Þannig hefur sjávarsíðunni verið neitað um frjálsar veiðar og frjálst gengi krónunnar og íbúum hennar í staðinn kennt að nota ruðurnar af skömmtunarborði byggðastefnu.

Markmið þessa leiks er, að miðstýringarmenn geti ráðskazt með líf fólks og fyrirtækja, – að sem flestir verði að kyssa tær stjórnmálamanna og kommissara.

Jónas Kristjánsson

DV

Hliðaráhrifin gleymast

Greinar

Stuðningsmenn hinnar miklu hækkunar, sem varð á eignaskatti um áramótin, segja, að sanngjarnt sé, að breiðu bökin í þjóðfélaginu borgi hlutfallslega meira en áður í sameiginlegan sjóð landsmanna, enda hafi bilið milli auðfólks og almennings aukizt á síðustu árum.

Andstæðingar hækkunarinnar segja hins vegar, að ósanngjarnt sé, að kerfið taki upp eignir fólks með þessum hætti. Fyrst hafi fólk greitt háa skatta af tekjum sínum. Ef það síðan spari af hinum skattlögðu tekjum í stað þess að sóa þeim, sé því refsað með eignaskatti.

Eignaskattsdeilan er dæmi um, að almennt er auðveldast fyrir þjóðina að ræða um hagmál á grundvelli tilfinninga á borð við, hvað sé sanngjarnt og hvað sé ósanngjarnt. Annað dæmi er umræðan um raunvexti, sem snýst að miklu leyti um sanngirni og ósanngirni.

Minna fer fyrir skoðunum, sem byggjast á því, hvað sé hagkvæmt og hvað sé óhagkvæmt. Að svo miklu leyti sem umræðan víkur frá hugtökum sanngirninnar, fjallar hún um hagsmuni á borð við þá, sem nú stjórna tilraunum ráðamanna til að draga úr vaxtabyrði fyrir tækja.

Eignaskattur var um áramótin hækkaður úr 1,2% í 2,7% á eignir umfram sjö milljónir hjá einstaklingi og fjórtán hjá hjónum. Ef dreginn er frá meðalbíll og aðrar smáeignir, má segja, að skattþrepið sé ofan við myndarlega íbúð einstaklings og myndarlegt einbýlishús hjóna.

Af hálfu fjármálaráðuneytisins var með vafasömu orðalagi reynt að láta líta svo út sem hækkunin væri úr 1,2% í 1,5%. Sú tilraun til blekkingar tókst auðvitað ekki, en sýnir, hvað menn láta sér detta í hug á þeim bæ, þegar nógu ósvífnir pólitíkusar eru við völd.

Í umræðunni hefur ekki verið fjallað að neinu ráði um hliðarverkanir þessarar lyfjagjafar handa fársjúkum ríkissjóði, enda er sjaldgæft, að stjórnmálamenn og möppudýrin í kringum þá geri sér grein fyrir afleiðingum umfangsmikilla ákvarðana landsstjórnarinnar.

Þeir, sem þurfa að borga rúmlega tvöfaldaðan eignaskatt, reyna sumir hverjir að finna ráð til að losna við hann. Einfaldasta leiðin er að færa fjárfestingu sína úr skatttækri mynd yfir í skattfrjálsa, til dæmis með því að selja fasteignir og kaupa ríkisskuldabréf.

Meðan slíkar undankomuleiðir eru til, má búast við, að heildarskatttekjur ríkisins af hækkuninni verði mun minni en ráð er fyrir gert. Þetta er samt hagkvæmasta undankomuleiðin fyrir þjóðfélagið, því að sparnaðurinn er áfram til, þótt margir hafi skipt um tegund hans.

Verra er, ef margir greiðendur eignaskatts telja skynsamlegra eða þægilegra að fara að eyða í stað þess að spara. Sum eyðsla er meira eða minna skattfrjáls, til dæmis ferðalög í útlöndum. Líklegt er, að einhverjir velji slíka leið til að komast hjá ránshendi ríkisins.

Sú hliðarverkun gerir heildarsparnaðinn í þjóðfélaginu minni en ella og er þannig hin sama og hliðarverkunin af lækkun raunvaxta. Þjóðfélagið hefur minna en ella aflögu til að efla landshagi og meira þarf af erlend um lánum, sem þyngja skuldabyrði þjóðarinnar.

Íslendingar hafa oft rekið sig á þennan vanda. Aukin skattheimta hefur tilhneigingu til að minnka stofninn, sem skatturinn er sóttur í. Skattahækkunin nær því tilgangi sínum aðeins að hluta og hefur ýmsar hliðarverkanir, sem eru utan sjóndeildarhrings ráðamanna.

Lukkuriddararnir, sem fara með völd í landinu um þessar mundir, hneigjast til umfangsmikilla og afdrifaríkra aðgerða, sem þeir hafa ekki hina minnstu sýn yfir.

Jónas Kristjánsson

DV

Verndum himin og jörð

Greinar

Ánægjulegt er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið, að Ísland verði aðili að tveimur fjölþjóðasamþykktum um takmörkun á notkun efna, sem talin eru spilla ózonlaginu í himinhvolfinu. Úðabrúsar verða merktir frá 1. júní á þessu ári og bannaðir frá 1. júní á næsta ári.

Ekki er vonum fyrr, að Ísland leggur sitt lóð á vogarskál verndunar himinhvolfsins. Um áratugur er síðan Bandaríkin og Norðurlönd tókust á herðar svipaðar skyldur og Ísland hefur nú gert. En hér eftir þurfum við ekki að skammast okkar í þessu umhverfismáli.

Ózonlagið dregur úr útfjólublárri geislun frá sólinni og verndar fólk fyrir húðkrabbameini, ónæmisminnkun og augnsköðum. Það hefur farið minnkandi síðustu tvo áratugina. Heildarminnkunin er um 3% á þessum tíma, en nokkru meiri yfir köldustu svæðum jarðarinnar.

Talið er, að hvert 1% í þessari minnkun ózons auki húðkrabbamein um 5% og illkynjuð sortuæxli í húð um 2%. Um 5000 Bandaríkjamenn deyja úr þessum sjúkdómum á hverju ári. Þetta er aðeins lítið dæmi um, hversu alvarleg er þynning ózonlagsins í háloftunum.

Ózoneyðandi efni eru í úðabrúsum, sem eru mikið notaðir utan um snyrtivörur og í málningu fyrir bíla og hús. Einnig eru þau í kæli- og frystikerfum, froðueinangrun, leysiefnum, slökkvitækjum og brunavarnaefnum. Yfirleitt má fá önnur jafngóð efni í staðinn.

Stefnt er að minnkun heildarnotkunar ózoneyðandi efna um helming á næstu fimm árum. Ríkið telur, að þetta kosti 30­40 milljónir króna. Að fenginni reynslu af kostnaðaráætlunum þess má búast við, að útgjöldin fari í 200 milljónir króna, sem samt er fremur lág tala.

Þrátt fyrir aðgerðir okkar og annarra auðþjóða heims má búast við, að ózonlagið haldi áfram að þynnast um sinn. Í fyrsta lagi eru ózoneyðiefnin lengi að stíga upp í háloftin, svo að mengunin er hægvirk. Í öðru lagi telja þróunarlöndin sig ekki hafa efni á slíkum aðgerðum.

Mikilvægt er, að ríkin, sem vinna gegn ózoneyðingu, taki upp samstarf við að útbreiða fagnaðarerindið til annarra ríkja, svo að samstaðan verði alþjóðlegri. Sérstaklega er brýnt að hvetja til dáða austantjaldsríkin, sem eru annálaðir mengunarvaldar á flestöllum sviðum.

Einnig er mikilvægt að auka aðgerðir gegn mengun af völdum koltvísýrings og hliðstæðra efna, sem geta valdið svokölluðum gróðurhúsáhrifum í himinhvolfinu. Margir hafa áhyggjur af hækkandi hita á jörðinni og kenna um lofttegundum, sem mannkynið framleiðir.

Lítið er enn vitað um, hvort hækkun hita er mannanna verk eða ekki. En vitað er, að fjögur heitustu árin af hinum 150 síðustu hafa einmitt verið á níunda áratug þessarar aldar. Grunur er um, að samband kunni að vera milli þess og lifnaðarhátta á iðnaðaröld.

Hitaaukningunni hafa fylgt miklir þurrkar víða um heim. Ennfremur bræðir hitinn ís, veldur ágangi sjávar á land og spillir búsetu við sjávarsíðuna. Og hitaaukningin getur fælt fisk frá fyrri slóðum. Í viðbrögðum er betra að ganga of langt í hræðslu en í áhyggjuleysi.

Verndun himins og jarðar gegn mannanna verkum, er geta haft skaðleg áhrif á framtíð mannkyns, er ekki auðveld, því að löng og órekjanleg leið er milli einstakra orsaka mengunarinnar og síðari afleiðinga. Þess vegna er alþjóðastarf svo mikilvægt í þessum efnum.

Aðild Íslands að fjölþjóðasamþykktum um varnir gegn minnkun ózons er fyrsta skref okkar í samstarfi um varðveizlu himinhvolfsins og lífsskilyrða á jörðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Seinþvegnar eru syndirnar

Greinar

Syndir margra fyrri ára koma um þessar mundir niður á Þjóðhagsstofnun. Þær valda útbreiddri ótrú á spá hennar fyrir þetta ár. Ríkisstarfsmannadeild Bandalags háskólamanna hefur sérstaklega tekið fram, að í næstu kjaraviðræðum verði ekki tekið mark á þeim.

Við þessu mátti búast fyrr eða síðar. Einhvern tíma hlaut að koma að formlegum yfirlýsingum deiluaðila á vinnumarkaði um, að tölur Þjóðhagsstofnunar yrðu ekki hafðar til hliðsjónar, heldur mundi hver fyrir sig nota eigin tölur eða hverjar þær, sem henta hverju sinni.

Raunar gerist þetta ekki vonum fyrr. Lengi hefur verið bent á óeðlilega mikinn og varanlegan mun á spá tölum Þjóðhagsstofnunar og raunveruleikanum, eins og hann síðar kom í ljós. Bent hefur verið á, að spár stofnunarinnar hafa oft verið lakari en spár annarra.

Segja má, að ósanngjarnt sé að saka Þjóðhagsstofnun líðandi stundar um syndir fyrri ára. Upp á síðkastið hefur stofnunin sýnt vaxandi tregðu á að þjóna hagsmunum stjórnvalda. Í sumar varð til dæmis uppistand í fyrri ríkisstjórn út af óþægilegum tölum hennar.

Fjármálaráðuneytið taldi á sig hallað í miðsumarspá stofnunarinnar. Það leiddi til opinberrar umræðu forsætisráðherra og fjármálaráðherra um innihald spár, sem þáverandi forstjóri stofnunarinnar sagði, að ekki væri til. Fjármálaráðherra tókst ekki að breyta spánni.

Þetta atvik sýndi tvennt. Annað var illt og hitt gott. Í fyrsta lagi töldu frekir ráðherrar sér heimilt að krukka í spár Þjóðhagsstofnunar til að gera þær sér hagstæðari. Í síðara lagi tókst stofnuninni í þetta ákveðna skipti að verja tölur sínar gegn ágangi ráðuneytismanna.

Hitt er svo ljóst, að erfitt er fyrir ríkisstjórnina að nota tölur Þjóðhagsstofnunar gegn hagsmunaaðilum úti í bæ, fyrr en einhver reynsla er komin á, að unnt sé að taka mark á tölunum. Það getur tekið svo sem tvö ár, frá því að nothæfar tölur eru farnar að sjást.

Þjóðhagsstofnun er deild í forsætisráðuneytinu. Hún er þess vegna í erfiðri aðstöðu, þegar hagsmunir forsætisráðherra og ríkisstjórnar hans eru annars vegar. Til dæmis krefjast hagsmunirnir þess yfirleitt, að tölur sýni, að ekki sé grundvöllur fyrir miklar kauphækkanir.

Um langt árabil var stofnunin misnotuð af ráðamönnum. Sú fortíð verður ekki þurrkuð út í einu vetfangi, þótt marktækar spár og aðrar tölur byrji að koma frá henni, sem alls ekki hefur verið sannað enn. Þess vegna er eðlilegt, að stéttarfélag lýsi frati á hana.

Sem betur fer er óhjákvæmilegt, að Þjóðhagsstofnun láti af óeðlilegri fylgispekt fyrri ára við hagsmuni ríkisstjórna. Úti í bæ eru ótal aðilar farnir að keppa við stofnunina. Þeir gefa út spár, sem margar hverjar eru hreinar þjóðhagsspár á verksviði Þjóðhagsstofnunar.

Samkeppni í spámennsku er til góðs. Spárnar eru bornar saman, ræddar og síðan skoðaðar í ljósi reynslunnar. Ef í ljós kemur, að meira mark er takandi á spám aðila á borð við Verzlunarráð, Félag íslenzkra iðnrekenda eða Alþýðusamband Íslands, verða þær notaðar.

Hagspár og aðrar hagtölur eru brýnar undirstöður stjórnmálaumræðunnar í landinu. Fyrirsjáanleg þróun slíkra talna verður þess vegna til góðs fyrir þjóðina. Þróunin hjálpar henni við að greina veruleikann gegnum þokuna, sem stjórnmálamenn aðhyllast gjarna.

Enn um sinn verður Þjóðhagsstofnun að sætta sig við, að fólk taki tölum hennar varlega. Aukið gengi hennar er háð dómi reynslunnar á tölum hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt snýst um mennina

Greinar

Fátt getur komið í veg fyrir, að afgangur Borgaraflokksins taki þátt í ríkisstjórninni, þegar búið verður að finna tvö ráðherraembætti handa honum upp úr áramótum. Svo vel vill til, að tvö sæti voru geymd í haust, þegar ráðherrar urðu níu í stað ellefu áður.

Engir núverandi ráðherrar þurfa að gefa eftir starf sitt, þótt tveir ráðherrar Borgaraflokksins bætist við fríða sveit. Engin persónuleg sárindi munu því koma í veg fyrir, að ríkisstjórnin bæti með þessum hætti stöðu sína á Alþingi upp í eðlilegt meirihlutafylgi.

Snjallir stjórnmálarefir voru þeir, er skipulögðu þessa framvindu strax í haust, þegar ríkisstjórnin var mynduð á grundvelli huldumanna, sem þá var ekki greinilega vitað, hverjir voru. Djúphugsuð leikflétta Steingríms og félaga er nú í þann mund að ganga endanlega upp.

Aðeins tveimur og hálfum sólarhring eftir að Albert Guðmundsson hafði bitið á Parísaragnið, var afgangurinn af Borgarflokknum búinn að ákveða að reyna að komast í ríkisstjórnina. Miklu máli skiptir fyrir þingmenn flokksins, að sú verði niðurstaðan eftir áramót.

Skoðanakannanir hafa í síbylju sýnt lítið fylgi Borgaraflokksins. Brotthvarf Alberts eyðir villtustu ósk hyggju flokksmanna um framhaldslíf á þingi. Oddamenn flokksins töldu sig þess vegna fyrst og fremst þurfa að koma í veg fyrir, að kosningar yrðu fljótlega.

Þingmenn flokksins verða að leita sér að nýrri atvinnu á næstu mánuðum, ef kosið verður í febrúar eða marz. Með þátttöku í ríkisstjórn geta þeir, fræðilega séð, framlengt atvinnu sína um það hálft þriðja ár, sem lifir af kjörtímabilinu. Og þeim finnst gaman að vera á þingi.

Þar á ofan eiga þeir Júlíus Sólnes og Óli Guðbjartsson kost á því að verða ráðherrar þetta hálfa þriðja ár. Það má telja virðulegan, vel borgaðan og valdamikinn endi á snöggum stjórnmálaferli. Þeir hafa allt að vinna og engu að tapa, sem ekki var hvort sem er tapað.

Þetta má líta á sem skammtímahagnað ráðamanna Borgaraflokksins. Hinn gersamlega fylgislausi flokkur getur einfaldlega setið við kjötkatla ofstjórnarkerfis íslenzkra stjórnmála í hálft þriðja ár. Svo lýkur ævintýri flokksins, en það verður ljúft, meðan það endist.

Þar að auki er hugsanlegt, að einstakir ráðamenn flokksins eigi sér lengri framtíð í stjórnmálum. Til dæmis getur komið til mála, að Alþýðuflokknum henti að fá Óla Guðbjartsson sem þingmannsefni á Suðurlandi, ef fréttastjóri Stöðvar tvö kærir sig ekki um hnossið.

Hagsmunir oddamanna stjórnarflokkanna eru svipaðir, þótt þeir séu ekki eins brýnir. Þeirra flokkar munu halda áfram að lifa eftir kosningar, af því að þjóðin hefur ríka þörf fyrir sjálfspyndingar. En völd andartaksins eru fíkniefni, sem ráðherrar ánetjast fljótt.

Steingrímur Hermannsson getur, í stíl föður síns, ekki hugsað sér að vera ómerkari ráðherra en forsætisráðherra. Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson eru ekki eins kröfuharðir og líður einfaldlega betur sem ráðherrum en sem valdaminni þingmönnum.

Þannig hafa þeir, sem máli skipta, nokkurn hag af framvindu íslenzkra stjórnmála á síðustu og næstu vikum. Hitt er svo hliðaratriði, að þjóðin mun í leiðinni áfram búa við ráðherra, sem hafa afar mikinn áhuga á að draga völd og fé frá þjóðinni til stjórnvalda.

Atburðir jólaföstunnar eru sönnunargagn þess, að enn gildir hið gamalkunna, að stjórnmál snúast ekki um málefni, heldur um menn, völd þeirra og peninga.

Jónas Kristjánsson

DV

Með bónus og afgangi

Greinar

Happaþrenna með bónus var núverandi ríkisstjórn kölluð, þegar þrír stjórnmálaflokkar mynduðu hana með hjálp Stefáns Valgeirssonar. Nú má kalla hana happaþrennu með bónus og afgangi, þar sem afgangur Borgaraflokksins styður hana óbeint, þegar á herðir.

Eðlilegt er því, að viðræður hefjist milli ríkisstjórnarinnar og afgangsins af Borgaraflokknum um beina stjórnaraðild afgangsins, sem komist til framkvæmda upp úr áramótum. Þá fær Steingrímur loks huldumanninn, sem hann vantaði. Eða öllu heldur hulduherinn.

Ef ekki verður af inngöngu Borgaraflokksafgangsins eða hluta afgangsins í ríkisstjórnina upp úr áramótum, er eðlilegt, að Steingrímur gefist upp á að stjórna landinu með sífelldum upphlaupum og handarbakaafgreiðslu á borð við það, sem nú er að gerast. Og kosið verði í vor.

Þjóðin borgar kostnaðinn af öllum látunum. Hún borgar fyrirgreiðslukerfið, sem komið var á fót í haust til að fá eitt atkvæði Stefáns Valgeirssonar til stuðnings við ríkisstjórnina. Þetta kerfi á mikinn þátt í erfiðleikunum við að ná saman endum í sjóði skattgreiðenda.

Þjóðin borgar svo núna fjölgunina í utanríkisþjónustunni, sem verður við að losna við Albert úr stjórnmálum, svo að Steingrímur geti fengið beint og óbeint liðsinni hjá afganginum af Borgaraflokknum. Öll herkænska hans endar í reikningum til skattgreiðenda.

Eitt alvarlegasta atriði svokallaðrar kænsku í stjórnmálum er, hversu ófeimnir þjóðarleiðtogar eru orðnir við að senda okkur reikninga. Sum gjafmildi ráðherra er að vísu ódýr, svo sem að gefa fegurðardísum rauða passa, en önnur er dýr, eins og handboltahöllin fræga.

Hulduherinn hljóp inn í hlýjuna til Steingríms fyrir eitt stjórnarsæti í fyrirgreiðslusjóði Stefáns Valgeirssonar og væntanlega fleiri bitlinga síðar. Þar með slapp ríkisstjórnin með minni breytingar á bráðabirgðalögunum en verið hefði með sameinaðri stjórnarandstöðu.

Afgangurinn af Borgaraflokknum ber auðvitað á því fulla ábyrgð, að breytingar bráðabirgðalaganna urðu minni en ella. Hann ber líka ábyrgð á lögunum í heild, allt frá upphafi þeirra, því að hann hefur með atkvæðum sínum staðfest, að þau voru gild á sínum tíma.

Til dæmis hefur Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir tekið ábyrgð á ákvæðum bráðabirgðalaganna um afnám samningsréttar um nokkurn tíma, þótt endanleg útgáfa laganna feli í sér, að réttinum sé skilað aftur. Hún hefur með staðfestingu fallizt á heildarsögu laganna.

Sennilega hafa herkænskumenn ríkisstjórnarinnar lengi vitað, að gefið sendiherraembætti í París mundi tryggja ríkisstjórninni líf fram yfir áramótin. Það mundi skýra, af hverju oddvitar stjórnarliðsins á alþingi keyrðu fram og aftur yfir stjórnarandstöðuna.

Að þessu sinni var vikið frá venjubundnu samráði stjórnarliðs við stjórnarandstöðu á þingi. Reglubundnir samráðsfundir lágu að mestu niðri. Þar á ofan tók formaður þingflokks Framsóknar upp grófari siði en áður við færibanda- og handarbakaafgreiðslu úr nefnd.

Æðibunugangur og yfirgangur formannsins var slíkur, að ætlunin var greinilega ekki, að nýbyrjaðar viðræður við stjórnarandstöðuna leiddu til samkomulags um niðurstöðu. Ætlunin var allan tímann að treysta á lítilþægni afgangsins af kjósendalausum Borgaraflokki.

Vel fer á, að happaþrenna með bónus og afgangi mæti kjósendum sameinuð með allt á hælunum, er ekki verður lengur með herkænsku vikizt undan örlögunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsætt bókhald

Greinar

Oft finnst mönnum kyndugt og að minnsta kosti flókið, þegar ríkið er að taka fé úr einum vasa sínum til að láta í annan. Slíku var til dæmis haldið fram á vegum Morgunblaðsins um helgina í niðurlagi fréttar um samdrátt í kindakjötssölu eftir innreið söluskattsins.

Skiljanlegt er, að sumum finnist skrítið, að ríkið skuli í senn taka söluskatt af kindakjöti og greiða kjötið jafnóðum niður um mun hærri upphæð. Víða í kerfinu er líka reynt að forðast gagnverknað af slíku tagi. Til dæmis selur ríkið sjálfu sér áfengi á kostnaðarverði.

Dæmi um þetta eru mörg. Ýmis þjónusta ríkisins, svo sem lyf og læknisþjónusta, er veitt beint, án þess að viðskiptavinurinn þurfi fyrst að borga hana og fái hana síðan endurgreidda. Þá lætur ríkið ýmsa sjóði á sínum vegum greiða niður vexti fyrir viðskiptavinina.

Ýmis rök mæla samt með, að oftar en ekki beri að millifæra á slíkan hátt á vegum ríkisins. Bókhaldslega séð eru færslurnar ekki til mikillar fyrirhafnar, því að öll þrælavinna þeirra vegna fer nú fram í tölvum, sem ekki kvarta mikið, þótt álagið á þær aukist.

Flestir telja hagkvæmt að hafa skatta sem flatasta, það er að segja að leggja sömu prósentu, eða að minnsta kosti sem fæstar mismunandi prósentur, ofan á hvern skattstofn. Þetta er talið einfalda skattakerfið og auka líkur á, að skattstofni sé ekki haldið leyndum.

Til þess að koma sjónarmiðum félagslegs réttlætis inn í skattakerfi ríkisins er svo ýmsum skattgreiðendum skilað peningum til baka, til dæmis í formi barnabóta. Þeir peningar fara út og inn úr hinu opinbera kerfi, en er samt haldið bókhaldslega út af fyrir sig.

Færa má rök að því, að millifærslur af þessu tagi mættu vera mun meiri en þær eru núna. Til dæmis gæti verið gagnlegt, að ráðuneyti og aðrir forgangsaðilar hins opinbera yrðu að kaupa áfengi á fullu verði í Ríkinu, þótt þar með væri ríkið að borga sjálfu sér.

Ef fullt áfengisverð kæmi fram í bókhaldi og fjárreiðum einstakra ráðuneyta, er líklegt, að ráðamenn þeirra gætu áttað sig betur á umfangi þeirra áfengiskaupa í heildarsamhengi áfengiskaupa landsmanna og reyndu að hafa þau hóflegri en hingað til hefur tíðkazt.

Oft hefur verið lagt til, að þjónusta ríkisins á ýmsum sviðum, svo sem á sjúkrahúsum, væri bókfærð út og inn á eins konar reikningum, sem færu um hendur starfsliðs og sjúklinga, svo að allir, sem málið varðar, geti séð, hversu mikils virði þjónustan er í rauninni.

Sjaldnar hefur verið minnzt á aðra mikilvæga millifærslu, sem gjarnan mætti koma fram í bókhaldi. Í stað þess að niðurgreiða vexti ýmissa opinberra sjóða, svo sem Byggingarsjóðs ríkisins, Byggðasjóðs og Lánasjóðs námsmanna, væri heppilegt að styrkja lánþega beint.

Slíkt yki skilning í þjóðfélaginu á því meginhlutverki vaxta að kalla á sparifé. Um leið drægi það úr líkum á, að menn séu að fela fyrir sjálfum sér og öðrum hinn félagslega, menningarlega og annan kostnað við hlutverkið, sem þessum sjóðum er falið að gegna.

Á svipaðan hátt er eðlilegt, að skattar hins opinbera leggist á kindakjöt eins og aðra vöru, jafnvel þótt ríkið missi peningana til baka í niðurgreiðslur og ýmsa styrki vegna fáránlegs búvörusamnings, sem stuðlar að óhóflegu sauðfjárhaldi í landinu og ofbeit á afréttum.

Þannig er oft heppilegt og jafnvel brýnt, að ríkið taki fé úr einum vasa sínum til að láta í annan vasa sinn, svo að heildarbókhaldið sé gegnsætt og heilbrigt.

Jónas Kristjánsson

DV

Drottning Undralands

Greinar

Ísland er farið að minna á Undraland og Steingrímur Hermannsson á drottninguna, sem var með nefið ofan í hvers manns koppi og gaf marklausar fyrirskipanir í allar áttir. Á heimleið í flugi minna Íslendingar á Lísu, þegar þeir lesa dagblöðin um borð í vaxandi undrun.

Dæmigerð sjónhverfing síðustu og verstu ríkisstjórnar lýðveldisins er yfirlýsing forsætisráðherra um, að verkfallsbannið verði fellt úr bráðabirgðalögum ríkisstjórnarinnar. Þetta á að draga úr líkum á, að Steingrími verði áfram líkt við Jaruzelski hinn pólska.

Í rauninni er brottfallið marklaust, þar sem það heimilar aðilum vinnumarkaðarins aðeins að ræða saman, sem þeir hefðu auðvitað hvort sem er getað gert. Eftir sem áður eru samningar aðilanna framlengdir til miðs febrúar á næsta ári og aðgerðir bannaðar á þeim tíma.

Í dag opinberast hugsanlega örlög bráðabirgðalaganna. Ef enginn huldumaður kemur í ljós í neðri deild Alþingis, verða þau felld eða dregin til baka. Þá mun Steingrímur yppta öxlum og halda áfram að ráðskast með landshagi, eins og í rauninni hafi ekkert gerzt.

Ljósasta dæmið um draumaheim ríkisstjórnarinnar er vaxtastefna hennar. Hún ákvað til dæmis, að vextir ríkisskuldabréfa skyldu verða 7­7,3% og skyldaði bankana til að taka við þeim á þeim vöxtum og koma þeim út. Afleiðingin sést í óseldum og óseljanlegum bréfum.

Bankarnir hafa neyðzt til að bjóða 8% vexti til að koma bréfunum út. Þannig greiða þeir niður draumavexti ríkisstjórnarinnar, svo ekki er furða, þótt bankar séu dýrir í rekstri. Samt er reiknað með, að tæpir tveir milljarðar króna í bréfum verði óseldir um áramót.

Nú er drottningin í Undralandi farin að ræða við forviða lífeyrissjóði um 5% raunvexti af peningum, sem þeir lána til sjóða á vegum ríkisins. Þetta gerist í umheimi, þar sem raunvextir eru 8­10% og þar sem ástand efnahagsmála er mun fastara fyrir en er hér á landi.

Annað nýlegt dæmi um draumaheiminn eru skattahækkanir, sem fjármálaráðherra segir sumpart ekki vera hækkanir og jafnvel lækkanir. Í frumvörpum hans um þessi efni er vandlega reynt að fela eðli og umfang breytinganna á skattbyrði fólks og fyrirtækja.

Þar er gefið í skyn, að fólk með 60.000 króna mánaðartekjur verði skattlaust, þótt það muni í raun borga um 45.000 króna skatta. Ennfremur gefur hann í skyn, að skattar séu lægri hér en annars staðar, þótt þeir séu hinir tíundu hæstu aðildarríkja OECD-hagstofnunar.

Fleira vekur furðu Lísu. Drottningin í Undralandi hefur lengi lagt áherzlu á, að reglum verði breytt um útreikning vísitalna og að þær verði síðan lagðar niður. Allir, sem um breytingarhugmyndir hans hafa fjallað, eru á einu máli um, að þær séu gersamlega út í hött.

Ríkisstjórnin umgengst efnahagsmál eins og töframaður, sem dregur dauðar kanínur upp úr hatti. Meginatriði stjórnarstarfsins er sviðsframkoman, enda eru sumir helztu ráðherrarnir sérfræðingar í að slíta stjórnarsamstarfi í beinni útsendingu sjónvarps.

Athyglisýki ráðherra er helzta haldreipi stjórnarinnar. Formenn stjórnarflokkanna eru ábyrgðarlitlir og vilja gjarna baða sig í sviðsljósi. Þeir munu því halda áfram skaðlegu brambolti sínu og hljóðfæraslætti, þótt Róm brenni og þótt meirihluta skorti á Alþingi.

Sérkennilegastir í Undralandi drottningarinnar eru þó kjósendur sjálfir, sem hafa kallað yfir sig athyglisjúka ráðamenn og leitt ímyndunina til hásætis.

Jónas Kristjánsson

DV