Greinar

Þrír leikfléttumenn

Greinar

Steingrímur Hermannsson kemur fram í sjónvarpi eins og hann trúi því, sem hann er að segja, og hann talar ekki niður til fólks. Á þessu byggjast vinsældir hans sem stjórnmálamanns. Ofan á þetta bætist svo færni Steingríms við að spila eftir eyranu í stjórnmálum.

Jón Baldvin Hannibalsson og Ólafur Ragnar Grímsson kunna líka að spila eftir eyranu. Þeir eru hins vegar ekki vinsælir, nema innan hluta eigin flokka. Þeir tala niður til fólks í sjónvarpi og koma þar fram eins og þeir séu að reyna að telja fólki trú um eitthvað.

Samanlagt eru þessir þrír flokksforingjar dæmi um nýja kynslóð stjórnmálamanna, sem sérhæfa sig meira en áður hefur tíðkazt í að spila eftir eyranu. Þeir minna á skákmenn, sem eru hugkvæmir í fléttum, en hafa ekki eins nákvæma sýn yfir skákina í heild.

Steingrími hefur gengið bezt í þessu. Hann hefur reynt að líkja eftir Schlüter, starfsbróður sínum í Danmörku. Schlüter hefur reynzt snillingur í að tefla saman pólitískum fléttum á þann hátt, að hann sjálfur er oftast ofan á sem forsætisráðherra í minnihlutastjórnum.

Steingrímur lítur á sig sem hliðstæðan listamann, er getur látið ríkisstjórn, sem hefur ekki starfhæfan meirihluta á þingi, sigla frá einu skerinu til annars, án þess að steyta á neinu þeirra. Hann telur sig geta fundið jafnóðum ráð við hæfi til að haga seglum eftir vindi.

Ríkisstjórn Steingríms hefur ekki tryggt sér meirihluta með neinu mikilvægu máli. Hún hefur ekki stuðning við frumvarpið til staðfestingar bráðabirgðalögunum, ekki við fjárlagafrumvarpið og ekki við ýmis tekjuaukafrumvörp. Hún á engan vísan huldumann á þingi.

Listamennirnir eða tækifærissinnarnir þrír, sem hafa forustu fyrir stjórnarflokkunum, hyggjast útvega sér huldumenn eftir aðstæðum hverju sinni. Nokkrar líkur eru á, að þingmenn úr Borgaraflokknum taki að rása, þegar Albert formaður er floginn til Parísar.

Ríkisstjórnin getur teflt fram möguleikum á samningum við einstaka þingmenn úr Borgaraflokknum eða Kvennalistanum, annaðhvort í heild eða í einstökum málum. Hún á jafnvel tvö ráðherraembætti laus, þannig að hún getur enn samið um stuðning heilla þingflokka.

Formennirnir þrír stefna ekki að neinu sérstöku markmiði með þessari ríkisstjórn, öðru en því að prófa, hvað þeim takist að láta hana lifa lengi, þótt hún hafi ekki starfhæfan meirihluta á þingi. Um annað innihald stjórnarsamstarfsins kæra þeir sig kollótta.

Þess vegna lætur Steingrímur sér í léttu rúmi liggja, þótt Jón Baldvin hverfi frá afstöðunni, sem hinn fyrr nefndi mótaði hjá Sameinuðu þjóðunum. Þess vegna lætur Ólafur Ragnar sér í léttu rúmi liggja, þótt Jón Sigurðsson stefni af fullum krafti að nýju álveri.

Í samræmi við leikfléttuhugsjónir þremenninganna hafa þeir ekki ákveðið sameiginlega eða hver í sínu lagi, hvort kosningar verði í vor. Þeir hafa þann möguleika í myndinni og vilja haga skákinni á þann hátt, að þeir geti, ef svo verkast, mætt kjósendum sínum í vor.

Málefnalega standa þremenningarnir illa. Nærri allar tölur um þjóðarhag stefna í óhagstæða átt. Enginn áhugi eða dugur virðist vera í þeirra hópi að hverfa frá dauðastefnunni, sem felst í frystingu efnahagsástandsins og skömmtun opinberra gæða til margs konar gæludýra.

Þeir tefla sig áfram frá einni leikfléttunni yfir á þá næstu og hugsa mest um, hvaða sjónhverfing henti í næsta viðtali dagsins í fréttaleikhúsum sjónvarpsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Umbúðir um nánast ekkert

Greinar

Norrænt samstarf hefur ungað út 114 blaðsíðna skýrslu um varðveizlu leðurhúsgagna. Brezka tímaritið Economist hefur raðað saman nokkrum slíkum brosleg um dæmum um norrænt samstarf. Það birti fyrir viku grein, þar sem gert er grín að þessu samstarfi.

Blaðið hefur reiknað út, að við Norðurlandaráð og ráðherranefndir Norðurlanda sitji 23 embættismannanefndir að norrænum verkefnum, 74 norrænar stofnanir, 152 nefndir og svokallaðir starfshópar, og unnið sé að 2000 norrænum verkefnum í þessu samstarfi.

Kostnaður þessa hátimbraða kerfis norræns samstarfs nam um 7,7 milljörðum króna á síðasta ári. Tímaritið Economist telur, að lítið gagn sé að þessu fé, nema fyrir flugfélagið SAS, sem sér um að flytja embættis- og stjórnmálamennina milli horna þessa heimshluta.

Fleirum en utangarðsmönnum er ljóst, að mikið fé fer í súginn í norrænu samstarfi. Sænski fjármálaráðherrann hefur sagt, að unnt sé að verja tímanum til nytsamlegri hluta en gerð norrænna efnahagsáætlana. Sú vinna hefur nú blessunarlega verið lögð niður.

Langt er síðan norræn samvinna náði árangri, sem svaraði til fyrirhafnarinnar. Á sjötta áratug aldarinnar var aflétt vegabréfsskoðun milli Norðurlanda. Þau voru þá gerð að einum vinnumarkaði. Þá var samið um gagnkvæm réttindi í tryggingum og heilsugæzlu.

Síðan hefur lítið gerzt. Economist telur, að tollmúrar milli Norðurlanda hafi ekki farið að lækka fyrr en suðlægari ríki á borð við Austurríki og Sviss komu til samstarfs við þau og mynduðu með þeim Fríverzlunarsamtökin. Framfaramáttur fríverzlunar hafi komið að utan.

Í viðtali DV um þessa gagnrýni við hinn íslenzka ráðherra norrænna samstarfsmála, Jón Sigurðsson, bar hann í bætifláka fyrir Norðurlönd, þótt hann viðurkenndi, að norrænt samstarf væri þunglamalegt og umbúðasamt eins og fjölþjóðlegt samstarf væri yfirleitt.

Jón benti á tiltölulega óáþreifanleg atriði eins og menningarmál og umhverfismál, þar sem norrænt samstarf skilaði árangri. Hann vísaði einnig á Norræna fjárfestingarbankann. Sá banki hefur verið umdeildur hér á landi að undanförnu, en kann að hafa komið að gagni.

Ekki verður komizt hjá að viðurkenna, að norrænt samstarf felst að umtalsverðu leyti í ferðalögum og veizluhöldum embættis- og stjórnmálamanna, þótt sitthvað gagnlegt fljóti með. Íslenzki samstarfsráðherrann viðurkenndi þetta raunar í áðurnefndu viðtali við DV.

Norrænt samstarf er svo fyrirferðarmikið hér á landi, að forsetar Sameinaðs alþingis telja sig neydda til að umgangast skyldur handhafa forsetavalds af slíkri léttúð, að þeir voru allir á norrænu flandri einmitt í vikunni, sem forseti Íslands var á ferðalagi í útlöndum.

Þessa sömu viku, þegar forseti Sameinaðs alþingis óvirti skyldur sínar, var Alþingi óstarfhæft vegna aukafunda í norrænu samstarfi. Þannig leggst starfsemi þingsins hvað eftir annað niður, af því að leiðtogar þings og flokka leggjast í norræn ferðalög og veizluhöld.

Minni athygli vekur, þótt embættismenn séu á þessu flandri, því að ekki er vitað, hvort þeir mundu gera eitthvað, þótt þeir væru við skrifstofuna. En ekki dylst neinum, sem fer til útlanda, að á leiðum til Norðurlanda er “Saga Class” hálffullt af slíku liði á hverjum morgni.

Svona skrautlegar umbúðir utan um nærri ekki neitt stafa auðvitað af, að embættismenn og stjórnmálamenn vilja ekki missa af veizluhöldum og ferðalögum.

Jónas Kristjánsson

DV

Fólk lætur plata sig

Greinar

Vikulega berast fréttir um, að halli ríkisins á þessu ári verði meiri en áður var gert ráð fyrir. Á þremur mánuðum hefur hallaspáin hækkað úr 0,7 milljörðum í 5 milljarða. Þetta bendir til, að ríkið láti reka á reiðanum sem fyrirtæki og yrði gjaldþrota, ef slíkt væri hægt.

Þótt íslenzkir stjórnmálamenn og aðrir félagsmálaberserkir, svo og æðstu embættismenn, geti ekki rekið fyrirtæki, er þeim margt til lista lagt. Þeim er mörgum vel gefið að þyrla upp ryki og leggja á þokur blekkinga á víxl. Um slíkt höfum við mörg nýleg dæmi.

Sjávarútvegsráðherra dró frá stíflu gegn flutningi ísfisks til erlendra hafna. Við það skall á flóð landana og verðið lækkaði. Slíkt gerist alltaf, þegar stíflur eru teknar. Uppsafnaður vandi þarf fyrst að leita útrásar, áður en ástandið fellur í hefðbundinn markaðsfarveg.

Stíflan var ekki tekin til að kanna, hvort unnt sé að endurnýja frelsi í útflutningi á ísfiski. Hún var tekin til að geta sagt, að frelsi sé skaðlegt og að skipulag eigi áfram að vera í höndum ráðherra og ráðuneytis. Hún var tekin til að geta byggt stærri stíflu í næstu viku.

Dæmi úr ólíkri átt er útskýring utanríkisráðherra á afstöðu hans gegn Palestínumönnum, er hann breytti atkvæði Íslands á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði, að ályktun þingsins væri öðruvísi orðuð en árið áður og full af skítkasti í garð Ísraels.

Athugun hefur hins vegar leitt í ljós, að efnislega er þessi ályktun svipuð þeim, sem áður hafa verið samþykktar á þessum vettvangi, en tekur líka tillit til hryðjuverkanna, sem Ísraelsher hóf fyrir ári á hernumdu svæðunum. Og alls ekkert skítkast er í henni.

Víðar hafa menn uppi villuljós en í ráðuneytunum. Neytendasamtökin segjast bera hag neytenda fyrir brjósti, en vinna gegn hagsmunum þeirra í mikilvægum málum. Dæmi um það er andstaða samtakanna gegn strikamerkingum og innflutningi landbúnaðarafurða.

Samtökin andæfa gegn strikamerkingum með því að segja, að ekki sé nóg að verðmerkja í hillum, heldur verði einnig að halda áfram verðmerkingu vörunnar sjálfrar. Sú merking er dýr í verðbólguþjóðfélagi og endurspeglast að sjálfsögðu í verði vörunnar.

Miklu skiptir fyrir neytendur, sem kaupa mikinn fjölda af vörum í einu, að ræman, sem þeir fá við peningakassann, telji upp vörurnar, er þeir hafa keypt. Að öðrum kosti hafa þeir ekki hugmynd um, hvort summan er rétt eða ekki. Úr þessu bæta strikamerkingar.

Enn mikilvægara fyrir neytendur er, að leyfður verði innflutningur búvöru í samkeppni við búvöruna, sem framleidd er í landinu. Það mundi halda niðri verði til neytenda og raunar stórlækka það. Þessu hafa Neytendasamtökin verið andvíg og er það svívirðilegt.

Í Alþýðusambandinu eru á þingum höfð uppi fögur orð um, að bæta þurfi kjör hinna verst settu og að fá þurfi þar nýtt fólk, ekki sízt konur, inn í forustuliðið til að ná þeim árangri. Við höfum nýlega orðið vitni að skrautlegri blekkingarsýningu af því tagi.

Eftir hana hafa stjórnmálaflokkarnir sem eins konar hluthafar haldið áfram að skipta með sér Alþýðusambandinu eins og Neytendasamtökunum. Og brátt kemur í ljós, að í ASÍ munu hátekjuhópar halda áfram að beita lágtekjufólki fyrir vagn aukinnar misskiptingar tekna.

Ríkið, Neytendasamtökin og Alþýðusambandið eru bara örfá dæmi um, að víða er ekki allt sem sýnist, ef skyggnzt er undir þokuna. Fólk lætur almennt plata sig.

Jónas Kristjánsson

DV

Var það nokkuð fleira

Greinar

Hætt er við, að margir sakborningar, sem koma fyrir Hæstarétt á næstunni, geti ekki varizt brosi, þegar þeir sjá skikkjuklædda dómara réttarins stíga af þungri alvöru upp í hásæti sín. Brennivínsmálið hefur skaðað álit Hæstaréttar og þannig valdið lýðveldinu tjóni.

Þekktur lögmaður gaf fyrir ári út bók um Hæstarétt, þar sem meðal annars voru rakin dæmi um lítinn og lélegan rökstuðning réttarins fyrir úrskurðum sínum. Þetta telja margir óheppilegt, því að ýtrustu rök lögfróðustu manna ættu að geta bætt dómgæzlu á lægri stigum.

Nú er fengin skýring á stuttum véfréttatexta í dómum Hæstaréttar. Hún segir ekki, að þar séu menn of drukknir eða timbraðir til að tjá sig á blaði. Hún segir bara, að þar séu dómarar, sem hafi ekki næga dómgreind til að setja saman góðan rökstuðning fyrir máli sínu.

“Síðan rjúka fjölmiðlar upp til handa og fóta eins og að tólf lík hefðu fundizt uppi á lofti hjá mér” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Þessi samanburður er afar óheppilegur, því að “líkin” gátu verið 1440. Glöggir menn eiga ekki að láta svona samanburð frá sér fara.

“Mér hafa aldrei verið sýndar neinar reglur um þessi áfengiskaup” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Auðvitað átti hann fyrirfram og að eigin frumkvæði að kynna sér reglurnar, því að hann átti að vita, að annars gæti hugsanlega verið um misnotkun að ræða af hans hálfu.

Úti í þjóðfélaginu er ætlazt til, að dómarar Hæstaréttar séu vammlausir. Þeir mega að almannadómi ekki vera á ferðalögum á gráum svæðum, sem eru á mörkum þess að vera siðlaus, ef ekki löglaus. Ennfremur sættir fólk sig illa við, að dómarar Hæstaréttar séu gráðugir.

“Ég tel þetta ekki brjóta í bága við almenna réttlætiskennd eða siðgæði” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Þessi ummæli benda til, að hann geri sér afar litla grein fyrir, hver sé almenn réttlætiskennd og hvert sé almennt siðgæði í landinu. Og vanmeti hvort tveggja.

“Þetta eru hlunnindi, sem fylgja starfinu” er haft eftir forseta Hæstaréttar. Hann telur því árlegan flutning á 1440 áfengisflöskum heim til sín, á verði, sem er ekki nema lítið brot af almennu söluverði, vera eins konar herfang, er ekki komi við opinberri gestamóttöku.

Svo virðist sem hann hafi að nokkru leyti rétt fyrir sér. Handhafar forsetavalds í fjarveru forseta Íslands hafa engar risnuskyldur, sem ekki er séð um á öðrum vettvangi. Brennivínsfríðindi þeirra eru því eins konar hlunnindi, sem þarf að afnema af þessu gefna tilefni.

Forseti sameinaðs Alþingis hefur játað að hafa sem einn þriggja handhafa forsetavalds tekið út með sama hætti 100­200 áfengisflöskur á ári. Munurinn á honum og forseta Hæstaréttar er, að annar heldur notkun fríðindanna innan marka, sem vekja takmarkaðri athygli.

Búast má við, að græðgi forseta Hæstaréttar leiði til, að hlunnindi þessi verði afnumin með öllu. Vel er á annan hátt séð fyrir allri gestamóttöku, sem fara þarf fram á vegum ríkisins. En betur mætti almennt fylgjast með, að veizluföng leki ekki heim til gestgjafanna.

Brýnast í málinu er þó, að Hæstiréttur sjálfur átti sig á, að virðing hans, sem var of lítil fyrir, hefur skerzt við uppljóstrun brennivínsmálsins. Erfitt verður fyrir hann að öðlast virðingu í hugum fólks, meðan dómari við réttinn lætur frá sér fara eftirfarandi ummæli:

“Starfsmenn ÁTVR hafa aldrei séð ástæðu til að hreyfa athugasemdum. Í lok samtala okkar hafa þeir einfaldlega spurt: “Var það nokkuð fleira?” “

Jónas Kristjánsson

DV

Píramíðaþjóðin

Greinar

Ef byggð væri í Dritvík á Snæfellsnesi á okkar tímum, væri mikið lagt í sölurnar til að hindra brottflutning og búseturöskun. Ríkishöfn hefði verið gerð þar fyrir ærið fé og frystihúsið væri inni á gafli hjá atvinnutryggingarsjóði hinnar nýju Stefaníu landsins.

En Dritvík lagðist í eyði fyrir okkar tíma eins og Aðalvík og margar aðrar verstöðvar, sem þekktar eru í þjóðarsögunni. Það er tiltölulega nýtt fyrirbæri, aðeins fárra áratuga gamalt, að almannavilji reyni að frysta búsetu og atvinnu og hamla gegn hvers konar röskun.

Efnahagslegar framfarir byggjast á röskun. Menn kasta fyrir róða gamalli búsetu, gömlum fyrirtækjum og gamalli hefð. Forsenda hagþróunar þessarar aldar á Íslandi var, að þjóðin flúði úr sveit út á mölina og einkum til Reykjavíkur. Ríkidæmið dafnaði í þéttbýlinu.

Xerox heitir frægt fyrirtæki í útlöndum. Upp úr engu reisti það 50.000 milljarða veltu á sjöunda áratug þessarar aldar. Það hafði forystu í framleiðslu ljósritunarvéla og náði 95% af heimsmarkaðinum. Erlendis varð nafn fyrirtækisins víða samnefnari allra ljósritunarvéla.

Hluta af hagnaðinum notaði Xerox til að hanna borðtölvur, sem þá voru ekki til. Þegar aðeins var eftir að leggja hálfan milljarð í dæmið til að ljúka því og hefja borðtölvubyltingu, fengu ráðamenn fyrirtækisins hland fyrir hjartað. Þeir óttuðust óvissu, forðuðust röskun.

Afleiðingin var, að fyrirtæki á borð við IBM og Apple tóku upp merkið og eignuðust markað, sem var hundrað sinnum stærri en markaðurinn fyrir ljósritunarvélar hafði verið. Þannig missti Xerox af lestinni á níunda áratugnum eftir gífurlega velgengni á hinum sjöunda.

Þetta útlenda dæmi sýnir, að heimur velgengninnar stendur ekki í stað. Lestirnar eru stöðugt að renna hjá brautarstöðinni. Ef menn hoppa ekki upp í þær, þegar andartakið er komið, missa menn af þeim og sitja eftir með sárt ennið, hver í sinni Dritvík eða Aðalvík.

Xerox réði sjálft örlögum sínum, því að það er rekið í opnu þjóðfélagi. Við erum ekki svo heppnir hér í hálflokuðu Íslandi. Árum saman þorðu menn til dæmis ekki að hella sér út í fiskirækt af ótta við ofsóknir af hálfu hins opinbera embættis veiðimálastjóra.

Saga Skúla í Laxalóni er mörgum kunn af blaðafréttum fyrri áratuga, en er nú komin út í bókarformi. Hún er öðrum þræði þungur áfellisdómur yfir þjóð, er reisir yfir sig lokað miðstýringarkerfi, sem berst með oddi og egg gegn sumum þeim, er leita á mið óvissunnar.

Nú er fiskirækt loksins orðin viðurkennd atvinnugrein. En þá erum við líka orðin að minnsta kosti áratug á eftir Norðmönnum. Þeir hafa byggt upp sína fiskirækt á tímum hagstæðs verðlags og greitt niður stöðvarnar að hluta. Okkar ævintýri er hins vegar allt í skuld.

Við látum ríkisvaldið sóa fjármunum okkar í vaxandi mæli í að vernda fortíðina gegn framtíðinni. Við viljum, að fólkið búi, þar sem það er. Við viljum, að fyrirtækin séu hin sömu og áður, þótt dauðvona séu, og höldum í þeim lífi. Við viljum, að togarar séu ekki fluttir.

Þjóð, sem er orðin svona upptekin af frystingu núverandi ástands, getur ekki mætt breytingum framtíðarinnar. Hún staðnar og verður sífellt fátækari, af því að umheimurinn stendur ekki í stað. Hún leggur á sig sífellt þyngri byrðar við að tryggja eilífð fortíðarinnar.

Hér er píramíðaþjóð nútímans. Við stritumst við að hlaða undir kýr og kindur og vernda jafnvægi í byggð landsins. Við skattleggjum ófædd börn okkar í því skyni.

Jónas Kristjánsson

DV

Varðveizla fortíðar

Greinar

Hver vikan, sem líður, staðfestir betur, að nýja ríkisstjórnin rekur hagstefnu, sem kenna má við Stefán Valgeirsson. Í megindráttum felst stefnan í að varðveita fortíðina gegn framtíðinni. Þetta kemur fram í ýmsum myndum, sem hafa smám saman verið að koma í ljós.

Unnt er að lýsa stefnunni á ýmsan hátt eftir hliðum hennar, sem horft er á hverju sinni. Síðustu dagana hefur hún komið í ljós í kröfum um, að þjóðfélagið, það er skattgreiðendur, styrki verzlun kaupfélaga í strjálbýlinu og rekstur nokkurra hreppa á svipuðum stöðum.

Þegar slíkum kröfum er bætt við fyrri kröfur um, að styrkt verði frystihús á sömu slóðum, og gjarna í eigu aðildarfélaga Sambands íslenzkra samvinnufélaga, má segja, að þetta sé um leið ákveðin tegund byggðastefnu, það er að segja sú, sem horfir til fortíðarinnar.

Ekki er eingöngu hægt að líta á þetta sem byggðastefnu, því að hún tengist almennri velferðarstefnu fyrirtækja, hvort sem þau eru í þéttbýli eða strjálbýli. Samkvæmt þeirri stefnu er eðlilegt, að ríkið grípi í taumana, ef fyrirtækjum gengur illa í lífsins ólgusjó.

Fólk lítur þá á það sem óbærilegan vanda, að starfsliði fækki hjá fortíðarfyrirtækjum, jafnvel þótt stöðugt sé verið að stofna fyrirtæki á framtíðarsviðum og slík fyrirtæki séu að færa út kvíarnar. Suðurnesjamenn vilja til dæmis ekki minnka hallærisrekstur í fiskvinnslu.

Hinar ýmsu hliðar stefnunnar sameinast í heildarmynd, sem sýnir stefnu, er berst gegn röskun í atvinnurekstri. Hún er á móti því, að fyrirtæki leggist niður. Hún vill ekki, að atvinna færist til, og alls ekki, að hún færist milli landshluta. Þetta er fortíðardýrkun.

Þótt ástæða sé til að hafa verulegar áhyggjur af miklu gengi fortíðarstefnu þessa dagana, er samt hægt að fagna því, að hún kom ekki í veg fyrir atvinnubyltingar fyrri áratuga þessarar aldar. Verra hefði verið, ef núið hefði verið fryst fyrr, til dæmis um síðustu aldamót.

Oftast renna hugsjónir og hagsmunir saman í órjúfanlega heild í verndarstefnu fortíðar gegn ásókn framtíðar. Þeir, sem reka eða starfa við fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög, er gengur illa, vilja auðvitað, að stóri bróðir hjálpi sér. Og þeir æpa miklu hærra en hinir.

Þetta tengist svo hagsmunum Sambands íslenzkra samvinnufélaga, sem hefur tapað miklu fé að undanförnu. Aðildarfélög þess eru á kafi í frystingu og dreifbýlisverzlun, svo að ekki er nein furða, þótt fortíðarverndin njóti velvildar í stjórnmálum landsins.

Sérstakir fyrirgreiðslusjóðir, sem stundum eru kallaðir skussasjóðir, eru eðlilegar afleiðingar af vinsældum fortíðarstefnunnar. Ennfremur verður ljóst, hvers vegna ríkisstjórnin leggur ofurkapp á að lækka vexti, þótt fyrri vextir hafi ekki halað inn lánsfé.

Stefán Valgeirsson og atvinnutrygginarsjóður hans eru auðvitað einkennistákn stjórnarstefnu, sem hefur fortíðarvarðveizlu eða frystingu á núinu að meginmarkmiði. Í ljósi þess ber að skoða gífurlegt hól, sem formaður Alþýðubandalagsins hefur hlaðið á Stefán.

Í leiðurum þessa blaðs hefur oft verið útskýrt, hvernig allir flokkar hafa í valdastóli stundað fortíðarstefnu Framsóknarflokksins. Munurinn á síðustu ríkisstjórn og þessari er, að sú fyrri fylgdi stefnu Framsóknarflokks, en hin síðari rekur róttækari stefnu Stefáns.

Efnahagsvandi þjóðarinnar felst einkum í, að stór hluti hennar sættir sig við fortíðarstefnuna eða styður hana beinlínis, ýmist í mildri eða róttækri útgáfu.

Jónas Kristjánsson

DV

Seiðkarlafræðin gleður

Greinar

Ánægja flokksmanna með forustumenn sína virðist núna vera almenn á yfirborði flokkakerfisins. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki fyrr búinn að standa upp og hylla sinn mann, er forustumenn Framsóknar- og Alþýðuflokks hlutu einnig rússneska kosningu hjá sínu liði.

Virðingin er svo mikil, að formenn Framsóknar- og Alþýðuflokks eru byrjaðir að fara í opinberar heimsóknir á víxl, eins og um erlenda þjóðhöfðingja væri að ræða. Móttökur hafa verið kurteislegar, þótt sumir hafi ekki getað dulið gremju sína að heimsókn liðinni.

Þessir vinsælu afreksformenn eiga eitt sameiginlegt. Þeir störfuðu saman, eða öllu heldur sundur, í verstu ríkisstjórn lýðveldisins, þeirri sem splundraðist í sumar, er hún hafði splundrað þjóðarhag hraðar en nokkur önnur stjórn hefur gert á síðustu áratugum.

Formennirnir hafa nú fylkt liði á nýjan hátt um sömu óheillastefnu og áður. Sjálfstæðisflokkurinn er farinn út í kuldann, en Alþýðubandalagið komið inn í hlýjuna í staðinn. Öll línurit hagfræðinnar halda óbreyttum bratta eftir þessa lítilvægu breytingu.

Á tveimur árum, frá 1987 til 1989, mun ríkissjóður stækka sneið sína af þjóðarkökunni úr 23,7% í 28,1%. Þetta er stökkbreyting á hlutfalli, sem áður rokkaði lítið milli ára og ætti raunar að vera fast. Þessi stökk breyting er helzta undirrót efnahagsvandræðanna.

Ein alvarlegasta afleiðing útþenslu ríkisins á valdaskeiði allra þessara vinsælu formanna er, að skuldir þjóðarinnar í útlöndum fara ört vaxandi og sömuleiðis skuldabyrðin. Helmingur allra skuldanna er á vegum opinberra aðila og ríkisábyrgð er á mörgum hinna.

Tvennt til viðbótar er hliðstætt í stefnu ríkisstjórnarinnar, sem fór frá, og hinnar, sem tekin er við. Annað er fastgengisstefnan, sem hefur rústað sjávarútveginn og á að fá að gera það áfram. Hitt er lágvaxtastefnan, sem hefur hindrað og mun hindra sparnað í landinu.

Athyglisvert er, að allir virðast viðurkenna, að gengi krónunnar sé skráð of hátt. Á flokksþingi Framsóknar var sagt, að mismunurinn nemi 10­15%. Samt vilja menn ekki taka afleiðingunum, af því að það spillir tilraunum stjórnvalda til að falsa vísitölur og verðbólgu.

Lágvaxtastefnan er farin að hafa alvarlegar afleiðingar. Byrjað var á að lækka vexti á skuldabréfum ríkisins. Síðan hafa slík bréf ekki selzt. Nú er enn verið að lækka almenna vexti í þessari viku, þótt þeir hafi alls ekki gefið tilefni til sparnaðar að undanförnu.

Í hruni innlends sparnaðar er merkisberi ríkisstjórnarinnar fyrrverandi þjóðhagsstjóri. Hann mænir vongóður á lækkandi vísitölur, sem eru búnar til með verðstöðvun, þannig að verðhækkanir safnast fyrir í pípum efnahagskerfisins til að fá síðar útrás í offorsi.

Að einu leyti er nýja ríkisstjórnin öðruvísi en hin fyrri. Af ríkidæmi þjóðarinnar hefur hún lagt nokkra milljarða í sérstakan skussasjóð handa Stefáni Valgeirssyni. Og stjórnarformaður Sambandsins hefur þar á ofan krafizt ríkisstuðnings við kaupfélög úti á landi.

Sameiginlegt einkenni hagsstefnu þessara tveggja ríkisstjórna er það sambland af rugli og óskhyggju, sem George Bush kallaði á sínum tíma “voo-doo” hagfræði forvera síns í forsetaembætti Bandaríkjanna. Þessa tegund hagfræði mætti kalla seiðkarlafræði á íslenzku.

Ekki er hægt að búast við, að þjóðin hafi mikið gagn af stjórnmálaflokkum, sem fagna seiðkarlafræði eins ákaft og gert hefur verið á nýliðnum flokksþingum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gjaldþrot Halldórs

Greinar

Ekki má kenna Steingrími Hermannssyni einum um hrun sjávarútvegsins, sem hann segir sjálfur, að nálgist þjóðargjaldþrot. Höfuðpaur miðstýringarinnar, sem hefur leikið sjávarútveginn grátt í tíð nokkurra skaðlegra og síversnandi ríkisstjórna, er Halldór Ásgrímsson.

Steingrímur afsakar sig líka með því að hafa verið í fílabeinsturni, meðan hann fékk ekki að vera forsætisráðherra. En nú er hann orðinn landsfaðir að nýju og ætlar sér að ganga lengra á braut miðstýringarinnar, sem stefnir að gjaldþroti sjávarútvegs og þjóðfélags.

Fastgengisstefna síðustu stjórnar var einn mikilvægasti þátturinn í hruni sjávarútvegsins. Hún hefur löngum verið trúaratriði Steingríms og hin síðustu ár notið óverðskuldaðs stuðnings úr hópi hagfróðra manna. Með henni keypti þjóðin meira vandamál fyrir minna.

Steingrímur og raunar fleiri höfðu séð, að gengislækkanir átust yfirleitt upp á nokkrum tíma. Þær voru yfirleitt undanfari kröftugrar sveiflu verðbólguhjólsins. Því var farið að kenna þeim um ýmislegt, sem aflaga fór í þjóðfélaginu. Þær fengu á sig illt orð.

Þótt segja megi, að áhrif gengislækkana séu slæm, eru þó margfalt verri áhrif gengisfrystingar. Þjóðin hefur lifað af ótal gengislækkanir og eflt hag sinn um leið. En hún hefur ekki þurft nema tveggja ára fastgengisstefnu til að komast í námunda við gjaldþrot Halldórs.

Steingrímur og félagar hans í fyrri ríkisstjórn losnuðu við vandamál gengislækkana með því að fá í staðinn margfalt hættulegri vanda fastgengisstefnu. Með henni neita menn nefnilega að gefast upp fyrir staðreyndum lífsins og berjast um á hæl og hnakka.

Persónugervingur þrjózkunnar er ekki Steingrímur, heldur Halldór Ásgrímsson. Hann mun seint gefast upp í hvaladeilunni, hvernig sem viðrar, því að hann kann ekki að hætta. Hann mun ekki heldur hætta við miðstýringuna, sem hann hefur leitt yfir sjávarútveginn.

Bezt væri auðvitað að hætta þessari gengisskráningu af hálfu stjórnmálamanna. Bezt væri að leyfa genginu að skrá sig sjálft frá degi til dags, án kollhnísanna, sem stjórnmálamenn miðstýringarstefnunnar framleiða, þegar þeir viðurkenna staðreyndir seint og um síðir.

Til þessa er Steingrímur ófáanlegur, enda telur hann, að svart sé hvítt og hvítt sé svart. Að hans mati er það ekki miðstýring ráðherranna, sem hefur gert sjávarútveginn gjaldþrota, heldur stefna frjálshyggjugaura úti í bæ og úti í Efnahagsframfarastofnuninni, OECD.

Sú ágæta stofnun, sem fer í taugar Steingríms, hefur ekki alltaf rétt fyrir sér og fylgist of seint með breyttum aðstæðum á Íslandi. En pappírar hennar segja þó í stórum dráttum ekki aðra sögu en heilbrigð skynsemi sagði, löngu áður en hagfræðingagengin komu til sögunnar.

Efnahagsframfarastofnunin hefur lagt til, að milduð verði miðstýring kvótakerfisins með því að kvótar verði seldir og keyptir á opnum markaði. Þessi sjálfsagða tillaga hljómar eins og grimmasta frjálshyggja í eyrum Steingríms Hermannssonar og Halldórs Ásgrímssonar.

Þessir tveir menn hafa meira eða minna stjórnað sjávarútveginum um langt skeið. Þeim hefur með aðstoð Sjálfstæðisflokks tekizt að breyta góðæri í heimatilbúna kreppu á aðeins tveimur árum. Samkvæmt síðustu upphrópunum Steingríms verður kreppan nú enn hert.

Forsenda þess, að þjóðinni fari að vegna betur að nýju, er að hún losi sig við þessa tvo ráðherra, einkum þó þann, sem hefur límt sig við stól sjávarútvegsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Óraunhæfa ævintýrið

Greinar

Í ævintýrinu, sem ekki gerðist, fór dagblaðið Tíminn að skrifa um Sambandið á svipuðum tíma og Helgarpósturinn hóf skrifin um Hafskip. Skrif blaðsins snerust um meinta óráðsíu og rugl í rekstri fyrirtækisins og um óeðlilegan forgang þess í Landsbankanum.

Þjóðareigendafélagið í ýmsum stjórnmálaflokkum tók málið upp á sína arma. Málið snerist fljótlega upp í árásir á Kristin Finnbogason, sem hafði verið formaður bankaráðs Landsbankans um skeið og var ýmsum til ama. Málareksturinn tók mörg ár í ævintýrinu.

Af fréttum Tímans og annarra fjölmiðla mátti ráða, að Sambandið hefði brotið lög með kaffibaunabókhaldi, sem virtist miða að því að hlunnfara þjóðarheildina og rétta hag ráðamanna fyrirtækisins örlítið í leiðinni. Slíkt hefði auðvitað aldrei getað gerzt í raun og veru.

Af fréttunum mátti líka ráða, að bankaráðsmenn og bankastjórar Landsbankans væru löngum stundum í eins konar Sambandsvímu. Til dæmis lánuðu þeir því stórar fjárhæðir án nokkurra veða, þótt ekki fengju lán margir þeir, sem gátu boðið fullnægjandi veð.

Í fréttum ævintýrisins var ennfremur haldið fram fullum fetum, að Landsbankinn hefði keypt á nafnverði af Sambandinu gífurlegt magn af verðlausum Nígeríuvíxlum, sem greiddir höfðu verið fyrir skreið og allir vissu, að mundu aldrei verða að krónu í peningum.

Af því að þetta gerðist í ævintýralandi, voru ráðamenn Sambandsins settir í gæzluvarðhald í nokkra mánuði. Helmingur bókhaldsfræðinga þjóðarinnar hófst handa við að kafa ofan í fyrirtækið. Þeim var sagt að láta sér ekki nægja að skoða kaffibaunamálið.

Ekki er rúm hér til að rekja niðurstöðu bókhaldsrannsóknarinnar, en vísað til sjötugasta kafla ævintýrisins, sem ekki gerðist. Ekki er heldur rúm til að rekja hér niðurstöðu úttektarinnar á Landsbankanum, sem var afar ítarleg, svo sem lýst var í hundraðasta kaflanum.

Sérlegur saksóknari ákvað, að rétt væri að kæra bankann ekki aðeins fyrir viðskipti hans við Sambandið, heldur öll viðskipti, þar sem bankinn hafði lánað gegn ófullkomnari tryggingum en þeim, sem boðnar voru á sama tíma af hálfu annarra, er ekki fengu lán.

Röksemdafærsla saksóknarans í ævintýrinu var sú, að ráðamenn bankans í stjórn hans og ráði hefðu með þessu misræmi ekki gætt hagsmuna bankans sem skyldi. Þeim hefði verið skylt að fara í hvívetna eftir almennum bankareglum og bannað að kjassa gæludýr.

Þegar hér var komið sögu í ævintýrinu, hafði hið opinbera stöðvað rekstur Sambandsins. Eignir þess fóru fyrir lítið, eins og algengt er við slíkar aðstæður, og var kaupandinn Samvinnufélagið Hótel Örk. Fyrir bragðið náði Landsbanki ævintýrisins litlu af lánsfé sínu.

Þar sem ríkið átti Landsbankann og var í ábyrgð fyrir rekstri hans, var hann tekinn undir verndarvæng ríkissjóðs. Bankinn hóf þegar að auglýsa, hversu tryggt væri að nota bankann, því að ríkissjóður ábyrgðist allt. Þetta gafst bankanum vel og vildi Hafskip kaupa hann.

Ekki er rúm til að rekja síðari hluta ævintýrisins, sem fjallar að mestu um málarekstur hins opinbera gegn bankastjórum og bankaráði. Eftir það fékkst enginn stjórnmálamaður til að taka að sér bitling fyrir óeigingjörn störf. En Tíminn fór á haus eins og Helgarpóstur.

Hið fagra í ævintýrinu var, að Kristinn Finnbogason var aðlaður sem greifinn af London. Var hann svo löngum með Parísargreifanum á siglingum um Ermarsund.

Jónas Kristjánsson

DV

Hitnar undir bankaráðum

Greinar

Sérstakur saksóknari í Hafskipsmálinu telur, að næg rök séu fyrir ábyrgð bankaráðs á lánveitingum Útvegsbankans til að höfða megi mál gegn bankaráðsmönnum. Síðar í vetur munum við komast að raun um, hvernig dómstólar taka á þessu prófmáli um pólitíska ábyrgð.

Hingað til hefur fylgt almennu ábyrgðarleysi stjórnmálamanna, að þeir hafa talið jafngilda hverjum öðrum bitlingi að vera kjörnir í bankaráð. Ef þeir hafa talið sig hafa eitthvert annað hlutverk í ráðinu, hefur það verið fólgið í hagsmunagæzlu, einkum fyrir flokkinn.

Ef nú verður niðurstaðan, að bankaráðsmenn séu hliðstæðir stjórnarmönnum fyrirtækja og beri ábyrgð á verkum framkvæmdastjóra, eru þeir þar með orðnir ábyrgir fyrir hinni útbreiddu spillingu í útlánum bankanna, þar á meðal pólitískri spillingu þeirra.

Ekki er nóg með, að bankar láti annarleg sjónarmið ráða útlánum. Ekki er síður grózkumikið illgresið í garði margvíslegra sjóða, sem standa í útlánum. Við hlið hinna illa þokkuðu ríkisbanka má setja stofnun á borð við Byggðastofnun og sjóði, sem þar eiga heima.

Við stöndum nú í fyrsta sinn andspænis þeim möguleika, að stjórnmálamenn í bankaráðum og sjóðastjórnum beri ábyrgð á þeirri spillingu, sem þeir hafa ákveðið, að skuli vera í þessum stofnunum. Slík niðurstaða getur orðið upphaf nýs og betra siðferðis í lánakerfinu.

Segja má, að núverandi spilling skipti lánsumsækjendum í þrjá flokka. Gildir sú skipting einkum um bankana, en að hluta til einnig um sjóðina. Í neðsta flokki eru þeir, sem geta endurgreitt lán, en fá þau ekki, af því að “engir peningar eru til” að mati bankastjóra.

Í almennum flokki eru svo þeir, sem fullnægja venjulegum kröfum bankakerfisins um veð fyrir lánum. Þeir fá lán, af því að þeir sýna fram á endurgreiðslugetu sína og af því að bankastjórar hafa í andartakinu gleymt hinu fornkveðna, að “engir peningar eru til”.

Í hinum þriðja flokki eru svo þeir, sem fá lánin, sem umsækjendur í fyrsta flokknum hefðu átt að fá. Það eru þeir, sem valda því, að bankastjórar kyrja í síbylju: “Engir peningar eru til”. Þetta eru þeir, sem ekki hafa nægileg veð, en njóta hins vegar velvildar bankans.

Gæðingar bankakerfisins eru ýmiss konar. Þar í hópi eru nánir ættingjar og vinir bankastjóra og bankaráðsmanna, ekki endilega í þeim hinum sama banka, þar sem lánið er fengið. Ennfremur eru þar sveitungar og kjördæmungar bankaráðsmanna í löngum bunum.

Aðallega eru þó gæðingarnir pólitískir. Lán úr bönkum og sjóðum eru hikstalaust veitt út og suður til skjólstæðinga stjórnmálanna. Það eru hin landsfrægu gæludýr. Er þá oft alls ekkert spurt um veð eða aðra endurgreiðslugetu, heldur lánað upp í matsverð eða hærra.

Viðskipti Landsbankans og Sambands íslenzkra samvinnufélaga eru dæmi um inngróna spillingu lánakerfisins. Landsbankinn hefur keypt af Sambandinu á fullu verði ónýta skreiðarpappíra frá Nígeríu. Ennfremur hefur hann lánað því án þess að taka nokkur veð fyrir.

Reynt er að halda öllu slíku leyndu í lengstu lög. Nú er hins vegar svo komið, að fyrirtæki eru að verða gjaldþrota, þar á meðal ýmis af gæludýrunum. Þá kemur í ljós, hvernig bankar og sjóðir hafa lánað þeim langt umfram það, sem eðlilegt og hefðbundið má teljast.

Gjaldþrotafréttir og kærur á stjórnmálamenn fyrir þátttöku í rekstri ríkisbanka og -sjóða beina kastljósi að gegnrotnu fjármálaspillingarkerfi stjórnmálaflokkanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Ísland styður ofbeldi

Greinar

Ísraelsríki er komið á sama helveg og Suður-Afríka. Í þingkosningum Ísraela í síðustu viku færðist fylgi frá sáttaöflum til róttækra þjóðernissinna og trúarofstækismanna. Slík öfl virðast jafnan ná betur eyrum kjósenda, þegar hið opinbera er komið á braut hryðjuverka.

Í kosningunum jókst fylgi Likud-bandalagsins, sem stjórnað er af gömlum Irgun og Stern Gang hryðjuverkamönnum á borð við Shamir forsætisráðherra og nýjum hryðjuverkamönnum á borð við Sharon, sem sennilega verður varnarmálaráðherra nýrrar stjórnar.

Enn öflugra var gengi trúarofstækisflokka í kosningunum. Fjórir klerkaflokkar náðu mönnum á þing. Í öllum tilvikum eru þeir flokkar hlynntir auknu ofbeldi og hryðjuverkum gegn Palestínumönnum. Og Shamir þarf stuðning klerkanna við myndun hinnar nýju stjórnar.

Öll hryðjuverk eru af hinu illa. En verst eru þau hryðjuverk, sem stjórnvöld fremja í skjóli valdsins. Þau eru verri en hryðjuverk, sem einstakir sérvitringa- og sértrúarhópar fremja í skjóli vanmættis. Hin opinberu hryðjuverk eru orðin að einkennistákni Ísraelsríkis.

Stjórnarfar í Ísrael er orðið með hinum verri í heiminum. Það er verra en í austantjaldsríkjunum og verra en í mörgum löndum þriðja heimsins. Sjaldgæft er, að ríki sendi hersveitir til að drepa börn og unglinga, sem kasta grjóti. En það er daglegt brauð á herteknu svæðunum.

Ísrael hefur gert sig að æxli í umheiminum. Æxlið hefur fengið að magnast í skjóli eindregins stuðnings Bandaríkjastjórnar. Áróðursstofnun Ísraels í Banda ríkjunum, Aipac, er orðin svo árhrifamikil, að stjórnmálamenn þar vestra keppast um að styðja Ísrael.

Hryðjuverkamönnum Ísraelsríkis hefur nú borizt stuðningur úr óvæntri átt, þar sem er utanríkisráðherra Íslands. Hann hefur lagzt á þagnarsveifina með sextán öðrum ríkjum, meðan fulltrúar 130 ríkja heims greiddu atkvæði gegn tvístirni Ísraels og Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherrann hefur sér til afsökunar, eins og í nokkrum öðrum sérkennilegum afgreiðslum á atkvæði Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, að hafa aðeins fengið hálftíma fyrirvara. Með því er hann að segja, að sendinefnd okkar hjá stofnuninni sé ekki starfi sínu vaxin.

Utanríkisráðherrann hefur sér til afsökunar, að orðalag tillögunnar, sem nú var samþykkt, hafi verið annað en orðalag tillögunnar, sem fyrirrennari hans lét sendinefndina styðja fyrir ári. Ekkert hefur þó komið fram, sem bendir til, að nýja orðalagið halli réttu máli.

Hugsanlegt er, að utanríkisráðherrann sé ekki með málefni Palestínu í huga, þegar hann stillir Íslandi upp við alþjóðavegginn, heldur sé hann að reyna að gleðja Bandaríkjastjórn út af viðkvæmum ágreiningi í hvalveiðimálinu. Það væri fremur kaldranaleg skýring.

Ennfremur er hugsanlegt, að utanríkisráðherrann sé í senn að undirbúa kosningar og að storka samstarfsflokkunum í ríkisstjórn Íslands, sér í lagi forsætisráðherra, sem var utanríkisráðherra fyrir ári og lét sendinefndina þá taka málefnalega afstöðu í Palestínumálinu.

Líklegast er þó, að utanríkisráðherra vilji, að meira sé tekið eftir persónu hans á alþjóðlegum vettvangi. Sá vilji hans hefur áður komið fram í fjölþjóðasamstarfi jafnaðarflokka. Aðferð hans er hin sama og filmstjarnanna ­ að koma mönnum í opna skjöldu úr óvæntri átt.

Altjend er dapurlegt, að íslenzkur utanríkisráðherra skuli, með einleik upp kantinn, láta Ísland styðja hryðjuverkamenn, sem eru allra góðra manna andstyggð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ímyndanir eyða lýðræðinu

Greinar

Úrslit bandarísku forsetakosninganna eru alvarlegt áfall lýðræðinu þar í landi, af því að þjóðin lét samvizkulausa ímyndarfræðinga hafa sig að meira fífli en áður hefur þekkzt. Um leið eru þau áminning til allra lýðræðisþjóða um að láta ekki leika sig á sama hátt.

Sem fjölmiðlaráðgjafi George Bush var Roger Ailes einn lykilmanna að sigri hans. Við munum eftir honum frá sigri Nixons fyrir tuttugu árum, þegar hann framleiddi kosningaauglýsingar forsetaefnisins. Þá var verk hans talið hafa ráðið úrslitum í tvísýnni baráttu.

Fyrir tuttugu árum fólst vinna ímyndarfræðingsins í að pakka erfiðu forsetaefni inn í glansandi umbúðir, sem bandaríska þjóðin keypti, með afleiðingum, er þá voru ófyrirséðar. Nú felst starfið í grófari brögðum, einkum í rógi um andstæðinginn. En með sama árangri.

Auðvitað er hægt að saka hinn nýkjörna forseta um að hafa valið siðleysingja sér til halds og trausts í kosningabaráttunni. En fyrst og fremst er brýnt að benda á sekt bandarísku þjóðarinnar, sem er orðin svo rugluð í ríminu, að hún sér ekki það, sem allir geta séð.

Öll kosningabarátta Bush byggðist á að reyna að leika á kjósendur. Sumt af því var ekki nýtt af nálinni. Á Íslandi könnumst við til dæmis við kosningaloforð, sem vita má, að ekki verða efnd. Skítkast höfum við líka séð, en ekkert, sem minnir á bandaríska ósómann.

Svo virðist sem þjóðarsátt sé í Bandaríkjunum um, að þolanlegt sé, að kosningabarátta sé háð á forsendum ímyndarfræðinga á borð við áðurnefndan Roger Ailes, svo og kosningastjórana James Baker og Lee Atwater. Hæfni þeirra var jafnvel hrósað í fjölmiðlum.

Ekkert er nú því til fyrirstöðu, að ímyndarfræðingar færi sig upp á skaftið, þegar þeir hafa fengið staðfestingu þess í niðurstöðu bandarísku kosningabaráttunnar, að umgangast megi heila þjóð af fullkominni fyrirlitningu. Hvað ætli Roger Ailes finni næst upp?

Svo virðist sem staðreyndir, sem ítrekaðar hafa verið á prenti í Bandaríkjunum, hafi engin áhrif á þjóðarmeirihluta, sem trúir á sjónvarpsskjáinn og ímyndirnar, sem koma fram í leikhúsi hans. Meirihlutinn hefur látið hinn borgaralega frumburðarrétt í trölla hendur.

Unnt er að ímynda sér, að íslenzkir ímyndarfræðingar muni vilja læra af hinni bandarísku reynslu. Munu þeir sýna sjónvarpsmyndir, þar sem nafn og persóna andstæðingsins er tengd andliti og nafni landsþekkts nauðgara? Hvernig mundu kjósendur taka slíku?

Ekki dugir að ganga út og æla, þótt við höfum orðið vitni að því, að bandaríska þjóðin hefur dregið sjálfa sig niður í svaðið með því að hegna ekki hinum samvizkulausu ímyndarfræðingum og frambjóðanda þeirra. Skynsamlegra er að meta, hvernig bregðast skuli við.

Við verðum að gera okkur grein fyrir hættunni á, að innreið sjónvarpsins breyti taflborði lýðræðisins. Allt of margt fólk virðist hafa tilhneigingu til að ímynda sér, að hreyfanlegar myndir á skjá sýni meiri raunveruleika en áður mátti lesa í táknum á pappír.

Hér á landi hefur fréttaleikhúsið í sjónvarpinu náð því stigi, að ríkisstjórn hefur verið slitið í beinni útsendingu. Í vaxandi mæli sjást gamalkunnir rauparar og kjaftaskar æfa sig á innantómum blekkingum, sem vísa til sömu áttar og við höfum séð í Bandaríkjunum.

Ef hinar nýju leikreglur bandarísku kosningabaráttunnar breiðast út á Vesturlöndum, er öruggt, að lýðræði mun líða undir lok sem þjóðskipulag.

Jónas Kristjánsson

DV

Skattlagt en ekki skorið

Greinar

Fjárlagafrumvarpið einkennist ekki af sköttum og skurði, eins og gjarna er haldið fram í umræðunni um þau, heldur af sköttum og óskhyggju. Niðurskurður opinberra útgjalda er lítill í frumvarpinu, svo sem við mátti búast af fólki, sem lítið skyn ber á peninga.

Ríkisstjórnir hafa þau þægindi umfram stjórnendur fyrirtækja og heimila að geta náð jafnvægi gjalda og tekna með því að auka skattheimtu. Aðrir aðilar verða að haga útgjöldum í samræmi við tekjur og skera niður útgjaldaóskir í samræmi við þann raunveruleika.

Þessi ríkisstjórn er lík þeim, sem lögðust upp á þjóðina á undan henni. Hún hefur lítið beitt niðurskurði, hinni venjulegu aðferð heimila og fyrirtækja, við að ná jöfnuði í sínum rekstraráformum. Þeim mun ótæpilegar notar hún forréttindi sín sem skattheimtumanns.

Með fjárlagafrumvarpinu ætlar ríkisstjórnin að koma hlutfalli skatttekna af landsframleiðslu upp í tæplega 27%. Það er aukning um hálft annað stig frá þessu ári og tæplega fjögurra stiga aukning frá í fyrra, þegar hlut deild skatttekna var um 23% af landsframleiðslu.

Þetta er miklu alvarlegri breyting en menn vilja vera láta. Eðlilegt er, að tekjur ríkisins séu í tiltölulega föstu samhengi við tekjur þjóðarinnar. Veruleg og varanleg röskun á því hlutfalli mun valda slæmum hnekki á lífskjörum heimila og rekstrarkjörum fyrirtækja.

Við þurfum sízt á slíku að halda núna, þegar laun hafa verið fryst, þegar fyrirtæki fara unnvörpum á hausinn eða draga saman seglin og þegar atvinna fer ört minnkandi. Við slíkar aðstæður á ríkið að ganga á undan með góðu fordæmi, en ekki sýna ótímabæra græðgi.

Öðru máli gegndi, ef allt væri í lukkunar velstandi úti í þjóðfélaginu. Ef horfur væru á batnandi fjárhag heimila og fyrirtækja og á rífandi þenslu í atvinnulífinu, væri afsakanlegt, að ríkið tæki til sín aukinn hluta um tíma. En allt stefnir því miður í hina áttina.

Ekki er heldur víst, að upp gangi allar ráðagerðir fjárlagafrumvarpsins um aukna skatta. Ráðherrum okkar er ókunnugt um hagfræðireglu, sem segir, að grunnur ofnýtts skattstofns hafi tilhneigingu til að minnka, svo að tekjurnar aukast ekki, heldur minnka jafnvel.

Hækkun á vörugjaldi, benzíngjaldi og innflutningsgjaldi bifreiða mun ekki skila sér í auknum tekjum ríkissjóðs. Hún mun hins vegar skila sér í minni innflutningi, sem er gott og gagnlegt út af fyrir sig, en kemur ekki ríkissjóði sem slíkum að neinum notum.

Ennfremur er ekki sjáanlegt, að samkomulag sé milli stjórnarflokkanna um alla hina nýju skattheimtu. Ef ekkert verður til dæmis af fyrirhuguðum skatti á happdrætti, er líklegt, að ríkisstjórnin verði að finna aðra skattheimtu í staðinn, úr því að hún vill ekki spara.

Óskhyggja fjárlagafrumvarpsins kemur fram í ýmsum myndum. Gert er ráð fyrir, að svokölluð vinnuaflsnotkun ríkisins dragist saman um 2,5% á næsta ári. Gamalkunnar eru slíkar hugmyndir um niðurskurð yfirvinnu og um brottvísun lausráðins starfsfólks.

Fullyrðingar málsvara ríkisstjórnarinnar um niðurskurðarstefnu fjárlagafrumvarpsins fá ekki staðizt, enda er þegar ljóst, að frumvarpið felur í sér umtalsverða og skaðlega aukningu á hlut ríkisbúsins í þjóðarbúinu. Raunveruleikinn á svo eftir að verða enn verri.

Jafnvægi kemst ekki á þjóðarhag fyrr en ríkisstjórnir fara að reka ríkisbúið sparlega, alveg eins og skynsamt fólk rekur heimili og fyrirtæki í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Slegizt í svínastíunni

Greinar

Hrakfarir okkar í hvalveiðimálum vegna djúpstæðrar hvalavináttu í Bandaríkjunum verða skiljanlegri, þegar við fylgjumst með forsetakosningunum þar í landi og sjáum, hve öflugan sess skipa margvíslegar tilfinningar, sem ekki verða studdar rökum eða staðreyndum.

Baráttan í bandarísku forsetakosningunum er óhugnanleg, ekki eingöngu vegna aðferðanna, sem beitt er, heldur einkum vegna þess, að þær bera mikinn árangur. Sérfræðingar í kjöri forseta leika sér með ómerkilegustu hvatir kjósenda eins og strengi í hljóðfæri.

Fyrrverandi forseti, Richard Nixon, sem kallar ekki allt ömmu sína í pólitísku undirferli og slagsmálum, hefur lýst hneykslun sinni á kosningabaráttunni. Hann segir hana hafa snúizt um lítilfjörleg mál, fjalli aðeins um yfirborðið og sé í mótsögn við dómgreind manna.

Stjórnendur kosningabaráttu Bush varaforseta hafa frá upphafi velt sér upp úr skítnum. Eiginkona Dukakis ríkisstjóra hefur verið sökuð um að hafa brennt bandaríska fánann og hann sjálfur sakaður um stuðning við geðsjúka glæpamenn og um skort á þjóðrembingi.

Það er ekki nema lítill hluti vandans, að sérfræðingar í innpökkun forsetaframbjóðenda velja sér vinnubrögð af þessu tagi. Miklu verra er, að lygin og rógurinn hafa svo mikil áhrif, að sérfræðingar andstæðingsins telja sig neydda til að hefja sama ómerkilega skítkastið.

Bush hefur lagt sérstaka áherzlu á að velta Dukakis upp úr því, að hann sé félagi í valinkunnum samtökum um borgaralegt frelsi. Þegar kjósendur fást til að forðast frambjóðanda á slíkum forsendum, má fullyrða, að lýðræði í Bandaríkjunum stendur á fallanda fæti.

Svo virðist sem nógu margir kjósendur í Bandaríkjunum séu reiðubúnir að trúa því, að samtök, sem eiga sér langa virðingar- og frægðarsögu, séu þjóðinni hættuleg, og að maður, sem hefur staðið sig sómasamlega sem ríkisstjóri, sé næstum því með horn og hala.

Með þessu er ekki verið að segja, að Dukakis mundi reynast betri forseti en Bush. Ástæða er til að hafa áhyggjur af ummælum Dukakis, sem benda til, að hann yrði haftasinnaður í viðskiptamálum og léti stuðnings menn Ísraelsríkis stjórna utanríkismálum of mikið.

Bandaríska þjóðin hefur í trúnni á skítkastið ekki sér til afsökunar að geta ekki vitað betur. Bandarísk dagblöð og aðrir fjölmiðlar hafa nákvæmlega skýrt frá staðreyndum, sem sýna, að rangt er farið með í skítkastinu. Þau hafa skoðað sérhvern áfellisdóm ofan í kjölinn.

Bandarísk dagblöð og aðrir fjölmiðlar hafa einnig nákvæmlega skýrt frá, hvernig ímyndarsérfræðingar taka forsetaframbjóðendur og vefja þeim inn í umbúðir, sem hæfa lægsta samnefnara bandarískra kjósenda. Þessar uppljóstranir hafa engin áhrif á gang mála.

Sagt er, að bandaríska kjósendur dreymi um forsetaframbjóðanda, sem segi þeim sannleikann, neiti að klæða sig í umbúðir frá ímyndarfræðingum, hlusti ekki á skoðanakannanir og þrýstihópa, en geti kallað fram hið bezta hjá þjóðinni til sameiginlegra dáða.

Í rauninni virðist ráðandi meirihluti bandarískra kjósenda vilja láta segja sér ævintýri og furðusögur og vilja forðast allt, sem gæti verið ekta undir umbúðunum. Með þessu hefur forsetaembættið verið smánað og Bandaríkin höfð að athlægi og spotti í umheiminum.

Ef hinir nýju ósiðir stjórnmála breiðast út frá Bandaríkjunum til annarra lýðræðisríkja, má fara að spá illa fyrir framtíð þess viðkvæma þjóðskipulags í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hversu hratt má flýja

Greinar

Tvisvar á dag var hringt úr Hvíta húsinu í stöðvar liðsins, sem bjargaði tveimur hvölum úr ís norðan við Alaska í vikunni. Bandaríkjaforseti sendi stærstu flugvélar og þyrlur hersins til aðstoðar við björgun tveggja táknrænna afkomenda þjóðhetjunnar Moby Dicks.

Að lokum leystist hugsjónamálið eins og í farsælum endi kvikmyndar. Sovézki flotinn kom á vettvang í líki tveggja ísbrjóta. Í sameinuðu átaki heimsveldanna tveggja, sem farin eru að semja um heimsfrið og vináttu, voru hvalirnir tveir frelsaðir úr ísprísundinni.

Almennar fréttir komust tæplega að í sjónvarpsstöðvum vestan hafs, meðan á þessu stóð. Rólegri menn skrifuðu yfirvegaðar greinar í blöð og vöruðu við hvalabrjálæði, en enginn tók mark á þeim. Hið góða hafði sigrað enn einu sinni og bandaríska þjóðin fagnaði innilega.

Erlend blöð, svo sem Newsweek, spá því, að hvalabjörgunin hafi virkjað djúpar tilfinningar í þjóðarsálinni og sameinað fólk til markviss átaks gegn hvalveiðum í heiminum. Í rammagreinum er svo Íslands sérstaklega getið, svo að menn viti, hvar óvininn sé að finna.

Hér í dálkum þessum hefur lengi verið varað við tilraunum til að mæta tilfinningamálum af þessu tagi með sveitum raunvísindamanna og löglærðra þrætubókarmanna. Áróðurs-varnarstríð hvalveiðiríkja á borð við Ísland var tapað, löngu áður en þessi vika hófst.

Að Halldór Ásgrímsson hvalaráðherra og menn hans geti þjarkað rökum og þrætubók um svokallaðar vísindaveiðar á hvölum upp á umheiminn er svona álíka fráleitt og að hægt sé að þjarka rökum auðlindaskatts og frjálsrar sölu á fiskveiðileyfum upp á Halldór.

Þegar Halldór er spurður um sölu veiðileyfa, verður hann svartur í framan og svarar af beinni tilfinningasemi, en lætur þrætubókina eiga sig. Hið sama gildir um útlendinga, þegar Halldór og menn hans birtast með skýrslurnar sínar. Þeir verða svartir í framan.

Grænfriðungar munu fá kvikmyndir um hringorma endursýndar í sjónvarpi, svo og tilraunir íslenzkra stjórnvalda til að smygla hvalkjöti um hafnir Hollendinga og Finna. Nokkrir hrundir lagmetissamningar eru aðeins upphafið að löngu og sársaukafullu stríði.

Fyrir nokkrum mánuðum var skrifað á þessum stað, að “hugsjónir vísindaveiða og þjóðrækni munu vafalaust verma hjörtu ráðherra og þjóðar, þegar fiskmarkaðir hafa hrunið og lítið annað verður að orna sér við”. Þessi hitagjafi hugsjóna fer nú senn að bila.

Löngu áður var hér í leiðara hvatt til, að áróðursfénu yrði varið til að fá útlendinga til að borða fisk. En þar stóð: “Sjávarútvegsráðherra og meirihluti þjóðarinnar eru sammála um, að meira máli skipti að láta útlendinga vita, að þeir geti ekki sagt okkur fyrir verkum.”

Halldór Ásgrímsson hefur sér til varnar að hafa samkvæmt skoðanakönnunum verið að framkvæma þjóðarvilja í hvalveiði- og vísindahugsjóninni. En hann hefur um leið sjálfur fengið pólitíska næringu af að magna upp þjóðrembu á gersamlega vonlausu og rándýru sviði.

Þjóðrembdir stjórnmálamenn geta haldið áfram að una við að harma tilfinningasemi og tvískinnung útlendinga og haldið áfram rökræða af þrætubók um, að ekki megi hlaupa of hratt á flóttanum í hvalveiðimálinu. Þeir breyta ekki því, sem ritað hefur verið á vegginn.

Heræfingar heimsveldanna í hvalabjörgun valda okkur vanda, en ráða ekki úrslitum í hvalastríðinu. Þau voru ráðin, áður en Halldór Ásgrímsson varð ráðherra.

Jónas Kristjánsson

DV