Greinar

Velferðarríki fyrirtækja

Greinar

Ríkisstjórnin telur sig þurfa að auka skuldabyrði þjóðarinnar í útlöndum um eina þrjá milljarða til að mæta halla ríkissjóðs á þessu ári og þar á ofan auka skattabyrði þjóðarinnar um eina fjóra milljarða á næsta ári til að mæta halla, sem annars yrði á því ári.

Hinn illa stæði ríkissjóður er hins vegar jafnan fullur af ímynduðu fé, þegar kosta þarf ýmis gæluverkefni eða ráðherrar þurfa að sýna örlæti sitt á annarra manna fé. Hann hefur að meira eða minna leyti verið gerður ábyrgur fyrir hinum nýja sjóði Stefáns Valgeirssonar.

Það fer því vel á, að hinn nýi fjármálaráðherra hefur í beinni útsendingu í sjónvarpi lýst yfir hamslausri aðdáun sinni á Stefáni Valgeirssyni. Má nú búast við, að myndir af Stefáni verði settar upp hjá Alþýðubandalaginu, þar sem áður voru myndir af Marx og Lenín.

Athyglisvert er, að fyrrverandi og núverandi handhafar ríkisvaldsins telja eðlilegt, að hinn galtómi ríkis sjóður veiti á hverju ári ýmis fríðindi, er nema miklu fleiri milljörðum en þeim, sem nú á að útvega með því að auka skuldabyrði og skattabyrði þjóðarinnar.

Einna hæst ber þar ríkisábyrgðirnar, sem gera gæludýrum kleift að fá lán á 2­3% lægri vöxtum en ella. DV hefur lauslega reiknað, að ríkið hafi með ábyrgðum sínum gefið margvíslegum forgangsaðilum kerfisins vaxtamun upp á 15 milljarða króna eða þar um bil.

Ríkisábyrgðir eru einn af mikilvægustu þáttum þess, sem kallað hefur verið velferðarríki fyrirtækjanna. Hér á landi hefur komizt í vana, að ríkið hafi ekki efni á að reka velferðarríki almennings, af því að það er svo önnum kafið við að borga velferðarríki atvinnulífsins.

Annar þungbær þáttur örlætis hins magnþrota ríkissjóðs er rétturinn, sem mönnum er veittur til að framleiða búvöru, er almenningur vill ekki kaupa á framleiðsluverði. Ríkið hefur sjálft metið þennan rétt til fjár með því að bjóðast til að kaupa hann til baka.

Ef ríkið keypti allan framleiðslurétt búvöru á því verði, sem það hefur sjálft auglýst, mundi það kosta ríkissjóð 13 milljarða króna eða svipaða upphæð og ríkisábyrgðirnar. Það er verðmæti gjafarinnar, sem felst í að bændum er leyft að framleiða upp í fullvirðisrétt.

Þriðji þátturinn af þessari stærðargráðu er kvótinn í fiskveiðum. Með kvótanum er eigendum ákveðinna skipa afhentur réttur til að veiða svo og svo mikið af fiski á ári. Ríkið afhendir þeim þennan rétt, en ekki sveitarfélögum, sjómönnum eða þjóðinni í heild.

Kvótinn í fiskveiðum gengur kaupum og sölum eins og kvótinn í landbúnaði og kvótinn í ríkisábyrgðum. DV hefur reiknað út lauslega, að markaðsverð fiskveiðikvótans í heild sé um sex milljarðar á ári. Þessu fé fórnar ríkið með því að selja ekki veiðileyfi sjálft.

Sex milljarðarnir eru árvissir. Ekki hefur verið reiknað, hvert sé langtímavirði kvótans, eins og það endur speglast í mismun á söluverði skipa eftir kvótanum, sem þeim fylgir. En öruggt er, að það nemur ekki lægri upphæð en fer í ríkisábyrgðir og fullvinnslurétt.

Fyrir almenning, sem nú borgar skatta, og börn, sem síðar borga þjóðarskuldir, hlýtur að vera forvitnilegt að sjá örlætið á annarra fé, sem fyrri og síðari ríkisstjórnir sýna, þegar þær útdeila ókeypis kvótum og ábyrgðum, er nema alls tugum milljarða að verðmæti.

Örlæti ríkisstjórnarinnar kemur þessa dagana fram í þriggja milljarða aukningu á skuldabyrði þjóðarinnar og fjögurra milljarða aukningu á skattabyrði hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðsverð á skömmtun

Greinar

Ef námslán ganga ekki kaupum og sölum eins og önnur gæði, sem skömmtuð eru af hinu opinbera, hafa þau sérstöðu. Fréttir hafa birzt af kaupum og sölu á flestum öðrum forréttindum af því tagi. Í mörgum tilvikum er til ákveðið markaðsverð eða gengi skammtaðra gæða.

Ef grannt væri skoðað, kæmi sjálfsagt í ljós, að dæmi séu um kaup og sölu á námslánum. Sumir námsmenn þurfa ekki öll lánin, sem þeim ber samkvæmt reglum. Þeir geta því selt þau og haft vextina í hagnað. Þetta væri svipað viðskiptum á öðrum sviðum skömmtunar.

Námslán eru ekki verri fyrir, að unnt er að nota þau á þennan hátt. Vaxtaleysi þeirra er herkostnaður þjóðfélagsins við að auka menntun okkar og jafna námsaðstöðu okkar. Allir, sem fullnægja ákveðnum, tiltölulega hlutlausum, skilyrðum, geta fengið slík lán.

Ríkið hefði lítið nema kostnað upp úr tilraunum til að meta einstök tilvik og reyna að þrengja hópinn, sem fær þessi forréttindalán. Hið sama er að segja um húsnæðislánin, sem eru annað gott dæmi um tiltölulega hlutlausa skömmtun á markaðshæfum forréttindum.

Um húsnæðislánin vitum við, að þau ganga kaupum og sölum. Íbúðir hækka í verði um 150­300 þúsund krónur, ef á þeim hvílir húsnæðislán. Það er hagnaður þess, sem fær húsnæðislán og selur síðan strax íbúðina, er lánið fékkst út á. Það er söluverð forréttindanna.

Með því að kaupa húsnæðislán, beint eða óbeint, fá menn tvennt í senn, aðgang að eftirsóttu lánsfé og niðurgreiddum vöxtum. Fyrir þetta borga þeir hiklaust 150­300 þúsund krónur eftir stærð íbúðar. Þetta er eðlileg afleiðing skömmtunar á ódýru og miklu lánsfé.

Flestir eru sammála um, að vaxtalaus námslán og húsnæðislán á niðurgreiddum vöxtum séu brýnir þættir nútímalegs velferðarþjóðfélags. Ennfremur, að hið sjálfvirka form á afgreiðslu þeirra sé skárra en misbrúkanlegt mat embættismanna á þörfum hvers og eins.

Almennt má segja, að munur á almennum vöxtum og vöxtum, sem sumir hafa aðgang að, en ekki aðrir, sé seljanleg vara. Þannig verður einnig um ódýru lánin, sem skömmtuð verða úr hinum nýja sjóði Stefáns Val geirssonar og ríkisstjórnar félagshyggjuflokkanna.

Sjóðurinn er gott dæmi um verstu mynd þess, er söluhæf forréttindi eru búin til á grundvelli skömmtunar. Í stað sjálfvirkninnar í veitingu námslána og húsnæðislána, sitja nokkrir aflóga stjórnmálamenn saman við borð og ákveða, hverjir komist gegnum nálaraugað.

Ríkisábyrgð er eitt algengasta formið á framleiðslu hagnaðar með forgangi að skömmtun. Hún er dálítið lúmsk og þess vegna vinsæl. Erlendis er talið, að ríkisábyrgð gefi þeim, sem hana fær, um 3% í gróða af vaxtamun. Þessi mismunur gengur þar kaupum og sölum.

Ríkisábyrgðir eru stundum kallaðar loftfimleikar með neti undir. Þær gera mönnum kleift að splundra verðmætum í margs konar ævintýramennsku, af því að Stóri bróðir borgar. Þær framleiða mistök, sukk og vaxtamun. Hið sama má segja um ábyrgðir ríkisbanka.

Kvóti, aflamark, búmark og fullvinnsluréttur eru enn annað dæmi um, að skömmtun er jafnan söluhæf markaðsvara. Þessa dagana nemur gengi á einu kílói af þorskkvóta 8 krónum. Allur þorskkvótinn hefur því skömmtunarverð upp á tæpa þrjá milljarða króna á ári.

Stjórnmál á Íslandi felast að umtalsverðu leyti í að útvega gæludýrum forgang að skömmtun. Þessa fyrirgreiðslu getur markaðurinn yfirleitt metið til fjár.

Jónas Kristjánsson

DV

Atlantsríkið

Greinar

DV hefur góðar heimildir fyrir, að Ísland stingi í augun í nýjustu afvopnunartillögum Sovétríkjanna fyrir þá sök, að vera alls ekki í tillögunum. Þær voru settar fram um daginn á fundum í Vínarborg, þar sem rætt er um samdrátt hefðbundinna vopna í Evrópu.

Í tillögum Sovétmanna er fallizt á vestrænar kröfur um, að samningssvæðið nái til Úralfjalla og Kákasus, það er að segja til alls Evrópuhluta Sovétríkjanna, gegn því, að á móti komi fjöldi eyja, sem fylgja Vestur-Evrópu. Ísland er ekki á skránni yfir þessar eyjar.

Þar má hins vegar sjá Færeyjar og Jan Mayen, auk Bjarnareyjar og Svalbarða, Azoreyjar og Madeiru, Mallorku og Kanaríeyjar, Sikiley og Sardiníu, svo og allar grísku eyjarnar. Í samanburði við Ísland er athyglisverðast, að hinar vestlægu Azoreyjar eru á listanum.

Þessar tillögur skipta okkur í sjálfu sér litlu. Þær varða ekki kjarnorkuvopn, sem hafa verið umræðuefni hér á landi, heldur hefðbundin vopn, er við höfum lítið látið okkur varða. Meira máli skiptir, að þær gera ekki ráð fyrir, að Ísland sé hluti Vestur-Evrópu.

Við höfum sjálf átt í erfiðleikum með að finna okkur stöðu í samfélagi nútímans. Stundum teljum við okkur Evrópuþjóð og jafnvel eina af Norðurlandaþjóðunum. Stundum höfum við litið meira vestur um haf, einkum er Bandaríkin hafa verið efst á viðskiptalista okkar.

Þessi umræða um stöðu okkar hefur blossað upp að nýju vegna hugleiðinga um þátttöku í Evrópubandalaginu. Margir telja okkur brýnt að ganga í bandalagið, þótt ekki sé nema til að koma í veg fyrir, að innganga Norðmanna taki frá okkur fiskmarkaði í Evrópu.

Aðrir telja okkur farsælla að bindast ekki voldugum nágrönnum of sterkum böndum. Það færir völd og ábyrgð frá smáfuglum eins og okkur til stórhvelanna í Bruxelles. Það gæti líka þrengt sjóndeildarhring okkar, sem þarf helzt að ná til Norður-Ameríku og Austur-Asíu.

Hér í leiðara DV var fyrr í vikunni bent á, að ýmsir kostir fylgja sérstöðu og sjálfstæði í smæðinni. Sumir þeirra reiknast í beinhörðum peningum, svo sem við getum lært af ýmsum stórauðugum smáríkjum í Evrópu, Luxemborg, Lichtenstein og San Marino.

Í valdamiðstöðvum heimsveldanna tveggja hefur sérstaða Íslands nægt til samkomulags um einn leiðtogafund í Höfða. Að baki liggur tilfinning fyrir, að Ísland sé hvorki hluti Evrópu né Ameríku, heldur eyja í Atlantshafi, hæfilega fjarri ströndum meginlandsins.

Sama hugsun liggur að baki afvopnunartillögum Sovétríkjanna í Vínarborg. Þar eru dregin skil milli annars vegar evrópskra eyja á borð við Færeyjar, Madeira og Azoreyja, og hins vegar Atlantshafseyjar á borð við Ísland, sem situr á Mið-Atlantshafshryggnum.

Raunar sitjum við sagnfræðilega á yzta árangri þúsund ára gamallar útþenslutilraunar frá Evrópu, sem náði yfir Færeyjar, Ísland og Grænland til Vínlands. Í nútímanum er vel við hæfi að varðveita hinn víða sjóndeildarhring, sem einkenndi landnámstímann.

Fyrir þúsund árum var Guðríður Þorbjarnardóttir mesta heimskona veraldar, er hún átti barn í Ameríku, gifti sig í Grænlandi, og fór í pílagrímsferð til Rómar, áður en hún settist í helgan stein heima á Íslandi. Slík heimssýn hentar okkur enn í dag betur en evrópsk sýn.

Hugmyndin um Ísland sem Atlantsríki, er sé aðskilið frá Evrópu og Ameríku, er freistandi grundvöllur endurmats á stöðu okkar í síbreytilegum umheimi.

Jónas Kristjánsson

DV

Varhugaverðar ráðagerðir

Greinar

Nýja ríkisstjórnin hyggst halda áfram á sömu braut og gamla stjórnin í útþenslu ríkisbáknsins á kostnað annarra þátta þjóðfélagsins, svo sem atvinnulífs og fjölskyldulífs. Ríkið er á þessu ári óvenjulega þungur baggi á þjóðinni og verður enn þyngri á hinu næsta.

Þetta má sjá í beinhörðum tölum um hlutfall skatttekna ríkissjóðs af vergri landsframleiðslu. Í fyrra var það 23%. Í ár verður það 25,3%. Af sáttmála hinnar nýju stjórnar má ráða, að það verði 26,8% á næsta ári. Þetta er samtals 3,8% aukning á aðeins tveimur árum.

Þetta felur í sér, að gamla ríkisstjórnin lagði á þessu ári mánaðarlegan 7.500 króna aukaskatt á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ennfremur, að nýja ríkisstjórnin hyggst að auki leggja 4.600 króna mánaðarlegan aukaskatt á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Alls er þetta um 12.000 króna aukning á hverja fjölskyldu á tveimur árum. Á næsta ári situr því hver fjögurra manna fjölskylda uppi með nærri 150.000 króna meiri skattgreiðslur en ella hefði verið. Dýrt spaug er að hafa ríkisstjórnir, sem eru örlátar á annarra fé.

Ef haldið yrði áfram á sömu braut, yrði ekkert eftir í landinu nema ríkið eitt, að einungis tveimur áratugum liðnum. Slíkt er auðvitað óframkvæmanlegt, en sýnir sem talnaleikur, hversu alvarlegur raunveruleiki er að baki ofangreindra hlutfallstalna um skattheimtu.

Ríkið var á svipaðri óheillabraut árin 1980 til 1982, þótt mun hægar færi. Stjórnmálamenn báru árið 1982 gæfu til að snúa dæminu við og skera hlutdeild ríkisins í þjóðfélaginu niður í 23­24%. Það hlutfall hélzt svo óbreytt allt fram á þetta síðasta og versta ár.

Eðlilegt er, að hlutdeild ríkisbúsins í þjóðarbúinu haldist óbreytt milli ára og um langt árabil. Með óbreyttu hlutfalli tekur ríkið, eins og aðrir, þátt í fjárhagslegri gleði og sorg þjóðarinnar. Með hækkuðu hlutfalli neitar ríkið slíkri þáttöku af sinni hálfu.

Ríkisstjórnum ber að setja sér og ríkinu ákveðin mörk í þessu efni, til dæmis skattheimtu upp á 23% af landsframleiðslunni. Til viðbótar við hana kemur svo skattheimta sveitarfélaga, svo að þáttur hins opinbera fer samt í 30% og má það teljast ærið hlutfall.

Ef markmið af þessu tagi eru ekki sett, er hætt við, að ráðamenn láti vaða á súðum í ýmissi óskhyggju, fyrirgreiðslu og atkvæðakaupum, svo sem handboltahöll, skipasmíða-ríkisábyrgð og atvinnutryggingasjóði útflutningsgreina, svo að nýleg dæmi séu nefnd.

Ef óskhyggjan, fyrirgreiðslan og atkvæðakaupin eru framkvæmd, leiðir það oft til hækkunar á hlutdeild ríkisbúsins af þjóðarbúinu og gerir atvinnulífinu erfiðara fyrir sem dráttardýri ríkisvagnsins. Það hagnast minna en ella á rekstrinum og tapar jafnvel á honum.

Þetta hefnir sín á stjórnmálamönnunum eins og öðrum. Ofkeyrsla á hlutdeild ríkisins leiðir til stöðnunar eða minnkunar á kökunni, sem er til skiptanna milli ríkis, atvinnulífs og fjölskyldna. Minni keyrsla mundi efla getu atvinnulífsins til að stækka köku þjóðarbúsins.

Mistök síðustu ríkisstjórnar hafa þegar verið gerð og verða ekki tekin aftur. En mistökin, sem hinn nýi fjármálaráðherra ætlar að gera með stuðningi ríkisstjórnarinnar, hafa hins vegar enn ekki komizt til framkvæmda, svo að enn er tími til að vara alla við.

Ráðgerð aukning skatta á næsta ári um hálfan fjórða milljarð er þeim, sem að henni standa, varhugaverð byrði, er verður hættuleg í næstu kosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Smáir og knáir

Greinar

Við getum lært margt af smáríkjum Evrópu, sem hafa komið sér vel fyrir, þótt þau séu á landamærum öflugra ríkja, er hafa sum hver myndað voldugt Evrópubandalag. Á okkar tíma og þróunarstigi virðist evrópskum smáríkjum vegna nokkru betur en stóru ríkjunum.

Ekki er langt síðan smæðin sjálf var smáríkjum fjötur um fót. Hún dró úr aðgangi að fjölmennum markaði og var hemill á verksmiðjuiðnað, sem var undirstaða evrópskra auðþjóða, áður en hann fluttist til Austur-Asíu og þekkingariðnaður tók við í gamla heiminum.

Núna er engin framtíð í stórum verksmiðjum í Evrópu og allra sízt þeim, sem eru vinnuaflsfrekar. Evrópumenn eru orðnir svo vanir háum tekjum, að handavinna á borð við skipasmíði á heima í Kóreu og vélmennavinna á borð við bílasmíði á heima í Japan.

Sjálfstæðið er sá kostur smáríkja, sem gerir meira en að vega upp smæðina. Smáríki hafa sitt eigið miðsóknarafl, sem beinist ekki til Lundúna, Parísar eða Rómu, heldur til eigin höfuðborgar. Þetta hefur margvísleg áhrif, allt frá sálrænum yfir í fjárhagsleg.

Sameiginlegt með mörgum hinna hagkvæmu eiginleika smáríkja er kunnáttan við að nota sérstöðuna. Færeyingar kunna mun betur en við að nota sér útgáfu frímerkja til ávinnings og hinir sterkríku Sanmarínar eru hátt yfir okkur hafnir á því sviði.

Ferðaþjónusta er skyld frímerkjaútgáfu. Alveg eins og sumir frímerkjasafnarar verða að eignast frímerki frá San Marinó verða sumir ferðasafnarar að geta státað af að hafa komið þangað. Menn flykkjast þangað, en ekki til næstu borgar, sem kann að vera mun fegurri.

Fjármálaþjónusta er gróðavænlegasta iðjan í smáríkjum. Þar hefur Sviss riðið á vaðið og í kjölfarið fylgt Lichtenstein og Luxemburg. Smáríki geta leyft sér sveigjanleika og svigrúm í bankarekstri, sem erfiðara er hjá stóru ríkjunum, reyrðum í þungar ríkisreglur.

Oft hefur verið bent á, að Íslendingar eigi góða möguleika á að byggja upp bankafríhöfn, sem geti tekið við útlendum peningum og skilað þeim, án þess að peningaveltan sé fryst að hluta, skattlögð, vaxtaheft eða þvinguð á annan hátt af hálfu hins opinbera Stóra bróður.

Hugsanlegt er, að lega landsins milli Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku geti orðið grundvöllur umskipunar varnings frá Austur-Asíu og sjálfvirkrar samsetningar tæknibúnaðar frá sama heimshluta. Opnun norðausturleiðarinnar yfir Íshafið mundi stuðla að því.

Við þurfum einnig að taka frumkvæði í afstöðu okkar til efnahagsbandalaga á borð við Evrópubandalagið, sem sogar til sín rúmlega helminginn af útflutningi okkar. Við þurfum annaðhvort að stefna að þátttöku eða fara hina leiðina og efla sérstöðu okkar úti á Atlantshafi.

Ef við viljum hagnýta okkur til fulls möguleika okkar sem íbúa smáríkis úti í hafi, er eðlilegt, að við eflum frekar sérstöðuna og reynum jafnframt með viðskiptasamningum að milda tollmúra Evrópubandalagsins, svo sem raunar hefur verið stefna okkar hingað til.

Til þess að það megi takast, verðum við að draga úr einstefnunni í útflutningi og leggja meiri áherzlu á að afla afurðum okkar markaða í Japan og nágrannaríkjum þess í Austur-Asíu, um leið og við reynum að hamla gegn frekari samdrætti viðskipta við Norður-Ameríku.

Í ráðagerðum af þessu tagi er hagkvæmt að læra af auðugum smáríkjum, er hafa áður farið ýmsar þær leiðir, sem okkur standa til boða um þessar mundir.

Jónas Kristjánsson

DV

Tæplega hálfur sigur

Greinar

Þótt hreinsanir í æðstu stöðum Sovétríkjanna séu hinar mestu þar eystra í þrjá áratugi, fer því fjarri, að Gorbatsjov hafi unnið sigur í styrjöldinni innan kommúnistaflokksins. Hann hefur í mesta lagi unnið hálfan varnarsigur í einni orrustu af mörgum í þessu stríði.

Erkifjandinn Ligatsjev er ekki lengur opinber hugmyndastjóri flokksins, en hann er orðinn landbúnaðarstjóri í staðinn. Hinn óvinurinn, Tsjebrikov, er ekki lengur lögreglustjóri, en er orðinn dómsmálastjóri í staðinn. Nýju störfin eru jafnvaldamikil og hin gömlu.

Athyglisvert er, að þessir tveir kunnustu andstæðingar “perestrojka” og “glasnost” bera nú ábyrgð á einmitt þeim málaflokkum, þar sem einna mest reynir á, að stefna Gorbatsjovs nái árangri sem fyrst, það er að segja í matvælaframleiðslu og í lögmætu réttarfari.

Eftir hreinsanirnar getur Gorbatsjov reitt sig á fylgi fimm af tólf miðstjórnarmönnum. Hann verður því sem fyrr að gera bandalag við miðjumenn til að fá málum sínum framgengt. Og þeir gera sér grein fyrir, að almenningur hefur hingað til ekki grætt á Gorbatsjov.

Hin nýja stefna hefur einkum komið fram í kröfum um aukin afköst og meiri samvizkusemi, en ekki enn skilað árangri í meira vöruúrvali eða betri lífskjörum. Og líklegast er, að almenningur í Sovétríkjunum verði enn um sinn að þreyja þorrann, áður en birta tekur.

Þetta veldur Gorbatsjov vandræðum, því að andstæðingar hans kenna hinni nýju og tvíeggjuðu stefnu hans um vandamálin, þótt þau séu í raun og veru afleiðing hinnar langvinnu stöðnunar á tímum fyrirrennara hans. Khrústjov féll á sínum tíma á svipuðu máli.

Ekki má vanmeta langvinna þjálfun skriffinna flokksins á öllum valdastigum. Þeim hefur hingað til tekizt að drepum flestum umbótum Gorbatsjovs á dreif. Þótt sumir þeirra séu hreinsaðir á þessum staðnum, koma þeir aftur fram í nýju hlutverki á hinum staðnum.

Aðgerðir Gorbatsjovs felast mest í hinni alkunnu aðferð að leggja niður gamlar stofnanir og búa til nýjar. Í báðum tilvikum eru þær skipaðar gömlum flokkshundum, sem kunna afskiptasemi eina til verka. Þetta fyrirbæri er meira að segja vel þekkt á Íslandi.

Vandinn felst nefnilega í valdaeinokun flokksins í Sovétríkjunum. Búast má við, að tilraunir til markaðsbúskapar, svo sem frjálsrar verðmyndunar, gangi afar stirðlega í harkalega miðstýrðu þjóðfélaga, enda hefur flestum slíkum hugmyndum verið slegið á frest.

Hinn rússneski kjarni í flokknum hefur þungar áhyggjur af áhrifum stefnu Gorbatsjovs á þjóðernishyggju og trúarofstæki í ýmsum lýðveldum ríkisins. Baltnesku ríkin eru farin að efla sjálfræði sitt, til dæmis á kostnað rússneskumælandi aðkomumanna.

Ennfremur veikir það Gorbatsjov, að öflugustu iðnaðarríkin austantjalds láta umbætur hans eins og vind um eyru þjóta. Austurþýzkir ráðamenn hafa skýrt tekið fram, að þeir anzi ekki ábendingum hans. Í Tékkóslóvakíu sitja eftir aðeins erkiíhaldssamir ráðamenn.

Kyndugt er, að hinn svokallaði “frjálslyndi” Gorbatsjov, sem segist vilja valddreifingu, tvöfaldaði embætti sín um daginn þegar hann var kosinn forseta, án umræðu á klukkustundar fundi, með 1.500 atkvæðum gegn engu. Þetta er eins og hjá Stalín í gamla daga.

Hin “rússneska kosning” Gorbatsjovs í embætti forseta varpar þó dulu á þá staðreynd, að hans bíður langvinnur skotgrafahernaður gegn valdamiklum óvinum.

Jónas Kristjánsson

DV

Klisjur og kreddur

Greinar

Þótt flestir stjórnmálamenn fullyrði og flestir landsmenn trúi í blindni, að raunvextir séu mun hærri hér en annars staðar og hærri en eðlilegt megi teljast, eru þessir vextir í raun á svipuðu róli og vextir í öðrum löndum og jafnvel lægri en í sambærilegum löndum.

Síbyljan um háa raunvexti hér á landi er ágætt dæmi um klisju, sem orðin er svo útbreidd og föst í sessi, að hún er orðin að þjóðarkreddu. Mörg dæmi eru til um slíkar trúarsetningar, sem koma samanlagt í veg fyrir vitræna umræðu um ýmsa brýnustu þjóðarhagsmuni.

Seðlabankinn kannaði nýlega vaxtakjör í ýmsum löndum og reyndi að bera saman þá vexti, sem sambærilegir eru. Í ljós kom, að vextir eru lægri hér á landi en á Spáni, í Írlandi, Belgíu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi, svo að dæmi séu tekin af ríkjum á svipuðu þróunarstigi.

Athyglisvert væri fyrir okkur að fræðast um, hvernig Ástralir og Nýsjálendingar hafa á síðustu árum rifið sig upp úr fyrri stöðnun, kastað frá sér gömlum kennisetningum og til dæmis stórhækkað vexti, með þeim árangri, að þjóðarhagur blómstrar á nýjan leik.

Annað trúaratriði þessu skylt er síbyljan um, að fjármagnskostnaður sé að sliga íslenzk fyrirtæki. Sannleikurinn er hins vegar sá, að vaxtakostnaður atvinnulífsins í heild er 4% af heildartekjum, sjávarútvegsins 6% og 8% hjá fiskvinnslunni, sem einna verst er sett.

Raunar ætti að vekja meiri undrun okkar, að fjármagnskostnaðurinn skuli ekki vera meiri en þetta, jafnvel í fiskvinnslufyrirtækjum með lítið sem ekkert hlutafé. Fyrirtæki í útlöndum, sem standa á slíkum brauðfótum eiginfjárskorts, búa við hærri fjármagnskostnað.

Hinn hagnýti tilgangur kreddukenninganna um okurvexti á Íslandi og ósæmilegan fjármagnskostnað er að búa til andrúmsloft, þar sem gæludýr þjóðfélagsins, svo sem Samband íslenzkra samvinnufélaga, geta fengið nægan aðgang að ódýru lánsfé, svo að þau haldi lífi.

Þriðja klisjan, sem mæðir þjóðarhag, er orðið “undirstöðuatvinnugrein”, sem gefur í skyn, að dulbúið atvinnuleysi á borð við landbúnað sé að einhverju leyti æðra en ýmis starfsemi, sem á sér skemmri aldur hér á landi og telst því ekki til hefðbundinna atvinnugreina.

Þetta er skylt trúarsetningunni um, að brýnt sé að “fullvinna” sjávarafla hér heima, en senda hann ekki “óunninn” úr landi. Með þessu er verið að gefa í skyn, að frystur fiskur sé að einhverju leyti göfugri eða verðmætari en ferskur fiskur, sem er hrein fjarstæða.

Þessa dagana hamast hagfræðingastóð stjórnvalda við að senda frá sér tölur um, að verðbólgan sé ört minnkandi og muni fara niður í svokallaða eins stafs tölu eftir áramótin. Þetta afrek er unnið með þeirri einföldu aðferð að taka hitamæla hagkerfisins úr sambandi.

Klisjan, sem notuð er í þessu skyni, er að setja samasemmerki milli verðbólgu og falsaðra vísitalna. Hagfræðingar lesa tölur af hitamæli, er tekinn hefur verið úr sambandi um skamman tíma, og láta líta svo út, sem þessar marklausu tölur mæli raunverulega verðbólgu.

Öllu þessu og meiru til trúir þjóð, sem vill vera “sjálfri sér nóg” í framleiðslu matvæla og trúir því líka, að “þjóðhagslega hagkvæmt” sé að veita íslenzka ríkisábyrgð til að smíða í Perú togara fyrir Marokkó, svo að hinar þjóðlegu skipasmíðar megi eflast hér á landi.

Ýmsar landlægar klisjur og kreddur af þessu tagi mynda eins konar þjóðhagsleg og þjóðleg trúarbrögð og koma í veg fyrir, að unnt sé að ræða af viti um málin.

Jónas Kristjánsson

DV

Loftið þarf að hreinsa

Greinar

Aukizt hafa grunsemdir um, að ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar hafi verið laumað inn á þjóðina í skjóli ósanninda um styrk hennar á Alþingi. Þess vegna er mikilvægt, að sem allra fyrst komi í ljós, hvort nýsett bráðabirgðalög hennar hljóti staðfestingu þings.

Forsætisráðherra hefur reynt og er enn að reyna að tefja fyrir, að afstaða Alþingis til bráðabirgðalaganna komi í ljós. Fyrst gamnaði hann sér við hugmynd um, að hann gæti sent þingið heim að lokinni þingsetningu, alveg eins og landið væri eitthvert Paraguay.

Hugmyndin um brottrekstur Alþingis verður seint kölluð annað en sjúkleg. Hún er grein af sama meiði og setning bráðabirgðalaga aðeins tólf dögum fyrir upphaf þings. Hvort tveggja lýsir andþingræðislegu hugarfari manna, sem kunna illa mannasiði lýðræðis.

Tólf daga bráðabirgðalögin og óskhyggjan um brottrekstur Alþingis eru dæmi um hugarfar, sem telur þingræði of þungt í vöfum, er handhafar framkvæmdavalds telja sig þurfa að fá að ráðskast í friði með milljarða úr vösum skattborgara, sparifjáreigenda og neytenda.

Bráðabirgðalög eru í sjálfu sér ósiður, sem hefur öðlazt hefð við áratuga misnotkun. En brott fellur hin upprunalega forsenda slíkra laga, að ekki náist til Alþingis, þegar aðeins tólf dagar eru til þingsetningar. Þannig hefur misnotkunin verið hert að þessu sinni.

Enn er forsætisráðherra að reyna að fresta sannleikanum um viðhorf Alþingis til bráðabirgðalaganna. Hann leggur þau fyrir efri deild, þar sem staða ríkisstjórnarinnar er tryggari en í neðri deild. Hann getur í efri deild fengið töfina, sem neðri deild mundi ekki veita.

Heiðarlegra hefði verið að viðurkenna, að setning viðamikilla og afdrifaríkra bráðabirgðalaga aðeins tólf dögum fyrir byrjun Alþingis kallaði á tafarlausa niðurstöðu í málinu að hinum tólf dögum liðnum. Á það hefði strax reynt í atkvæðagreiðslu í neðri deild.

Með því að leggja málið fyrir efri deild verður bið á, að það fái eldskírn sína í neðri deild. Fyrst þarf það væntanlega að fara í nefnd í efri deild. Þar verða stjórnarsinnar látnir reyna að tefja málið sem mest má verða, svo sem með því að kalla til ótal umsagnaraðila.

Stjórnarandstaðan getur auðvitað beitt þrýstingi og það ber henni að gera. Hún á fyrir engan mun að sætta sig við, að forsætisráðherra geti látið bráðabirgðalög, sem ekki er meirihluti fyrir, verða að sögulegri staðreynd, sem ekki er lengur marktækt að hnekkja.

Forsætisráðherra hefur myndað stjórn á grundvelli ímyndunar um, að hún njóti á örlagastundum stuðnings huldumanns á Alþingi. Í krafti þess meira en lítið vafasama umboðs hefur hann sett óvenjuleg bráðabirgðalög, sem hann er nú sjálfur að reyna að tefja á þingi.

Ofan á þennan hála ís hefur forsætisráðherra sprautað köldu vatni með því að reiða sig á stuðning þingmanns Alþýðubandalagsins, sem efnislega er andvígur ríkisstjórninni, en hefur formlega lofað að taka samvizkuna úr sambandi, þegar stjórninni hentar.

Að vísu munu þingmenn áður hafa tekið samvizku sína úr sambandi. En einsdæmi er, að menn geri það fyrirfram og á formlegan hátt. Sigurður Líndal lögfræðiprófessor hefur hér í blaðinu dregið í efa, að Skúli Alexandersson megi gera annan mann að “atkvæði sínu”.

Langar leiðir leggur ólyktina af tveggja vikna gamalli ríkisstjórn. Alþingi ber að hreinsa loftið með því að ákveða sem allra fyrst örlög bráðabirgðalaganna.

Jónas Kristjánsson

DV

Takk fyrir Tyrkjaránið

Greinar

Sjóræningjar komu hingað fyrir 361 ári frá ströndum Norður-Afríku, löndum, sem þá voru stundum talin lúta Tyrkjaveldi, en nú eru kölluð Alsír og Marokkó. Sægarpar þessir voru hér kallaðir Tyrkir, fóru með litlum friði og urðu frægir í Íslandssögunni.

Um langan aldur höfum við litlar spurnir haft af löndum þessum, nema hvað Danakóngur veitti þeim þróunaraðstoð fyrir 360 árum með því að kaupa heim til Íslands hluta þess fólks, sem verið hafði í ánauð þar syðra og ekki samlagazt þjóðfélaginu fyllilega.

Nú er loksins aftur komið að þróunarbeiðni. Íslenzk skipasmíði hefur óskað eftir 130 milljón króna þróunaraðstoð við Marokkó. Með styrk til markaðsátaks í löndum hins gamla Tyrkjaveldis er áætlað, að upphæðin fari í 350 milljónir, auk 500 milljóna ríkisábyrgðar.

Mikil samkeppni er um að fá að veita þróunaraðstoð af þessu tagi. Íslendingar eru ekki einir um hið virðulega hlutverk. Forsvarsmaður skipasmiðjanna sagði í blaðaviðtali, að “Íslendingar verði að undirbjóða Norðmenn til að ná fótfestu á mikilvægum markaði”.

Ekki er einu sinni reiknað með, að skipin verði smíðuð hér norður í höfum nema að hluta, enda segir forsvarsmaður skipasmiðjanna: “Þessi samningur byggist á, að við látum smíða meirihlutann af þessu erlendis til að verða samkeppnisfærir við Norðmenn”.

Hinum fróðlegu hugmyndum hefur auðvitað verið tekið fálega í iðnaðarráðuneytinu, því að ríkiskassinn hefur sjaldan verið aumari en einmitt núna, þegar ný ríkisstjórn hefur farið hamförum í myndun milljarðasjóðs í þróunaraðstoð Stefáns Valgeirssonar.

Skipasmíðar eiga erfitt uppdráttar víðar en hér á landi. Þær hafa að mestu lagzt niður í Vestur-Evrópu. Finnar héldu lengi út við smíði ísbrjóta og olíuborpalla, en eru nú í vandræðum með verkefni. Við vitum, hvernig fór fyrir Kochum og öðrum smiðjum í Svíþjóð.

Rúmlega helmingur allra skipa er nú smíðaður í Japan og Suður-Kóreu. Síðarnefnda landið hefur á stuttum tíma stokkið úr 3% heimsframleiðslunnar á skipum í 37%. Engin leið er fyrir Vesturlönd að keppa við verðið í Kóreu, nema með miklum og vaxandi ríkisstuðningi.

Á sama tíma hefur orðið mikill samdráttur í skipasmíðum heimsins. Ekki er fyrirsjáanlegt annað en að svo verði áfram. Það er því lítil framtíð í því fyrir okkur að byggja upp aðra skipasmíði en þá, sem felst í viðhaldi og endurbótum þeirra skipa, sem fyrir eru.

Við berum þyngri byrði en aðrar þjóðir af starfsemi, sem ekki er samkeppnishæf í alþjóðlegu samhengi. Við höfum nóg með landbúnaðinn, sem kostar okkur meira á hvern íbúa en hernaðarútgjöld kosta íbúa annarra landa. Við getum ekki bætt skipasmíðum ofan á það.

Við eigum að láta Norðmenn og aðra olíuauðkýfinga um þróunaraðstoð af því tagi, sem Marokkómenn hafa beðið um. Marokkó er stórskuldugt ríki, sem skuldar meira en ársframleiðslu sína. Það hefur lítið lánstraust, er í 73. sæti af 112 ríkjum á alþjóðaskránni.

Verið er að bjóða upp á eins konar Nígeríuviðskipti, sem munu reynast þungbær að leiðarlokum. Málið fer að kárna fyrir alvöru, ef Marokkómenn geta að venju ekki staðið í skilum og íslenzkir skattgreiðendur verða enn að hlaupa undir bagga og borga allan pakkann.

Engar líkur eru á, að stjórnmálamenn okkar láti glepjast í máli þessu. Nýtt Tyrkjarán verður því ekki að veruleika að sinni. En við skulum vera á verði.

Jónas Kristjánsson

DV

Auralaus sjóðaþjóð

Greinar

Íslendingar ættu rúmlega 20 milljörðum króna meira sparifé á þessu ári og skulduðu útlendingum sennilega mörgum milljörðum minna, ef raunvextir hefðu fengið að dafna hér í lengri tíma en heimilað hefur verið af stjórnmálamönnum, sem eru fangar eigin lýðskrums.

Guðmundur Magnússon, fyrrum háskólarektor, benti nýlega í erindi á nokkrar slíkar tölur. Rétt fyrir upphaf verðtryggingar, árið 1978, nam sparnaður Íslendinga 19% af þjóðarframleiðslu. Eftir eins áratugar verðtryggingu hafði sparnaðurinn aukizt í 34% árið 1987.

Þetta þýðir, að innlent fjármagn, sem er til ráðstöfunar handa þeim, er hungrar og þyrstir í lán, er ekki 38 milljarðar, eins og verið hefði við óbreytt ástand, heldur 68 milljarðar. Verðtrygging og raunvextir hafa fært þjóðinni 30 milljarða króna aukasparnað á áratug.

Ef raunvextir hefðu ekki fæðst í skjóli Ólafslaga, væri annaðhvort 30 milljörðum minna til útlána um þessar mundir eða þjóðin skuldaði útlendingum 30 milljörðum meira. Sennilega hefði tjónið skipzt tiltölulega jafnt milli fjársveltis og erlendrar skuldasöfnunar.

Þótt skynsemin hafi fengið að ráða í einn áratug, erum enn töluvert á eftir iðnaðarþjóðum heims, þar sem raunvextir hafa lengur haft frið fyrir handafli stjórnmála manna. Við höfum aukið sparnað úr 19% í 34%, en aðrir eru með sparnað á bilinu 40­45% og Japanir með 50%.

Munurinn á okkur og þessum samanburðarþjóðum er rúmir 20 milljarðar króna. Það er sparifé, sem við höfum ekki, en hefðum, ef við hefðum búið við raunvexti í nokkru lengri tíma en frá Ólafslögum. Það eru peningar, sem margir vildu fá að láni, ef til væru.

Ef sjóðahönnuðir stjórnmálanna leyfðu auralausri þjóðinni að halda óbreyttum raunvöxtum, mundum við á nokkrum árum komast í meira en 40% sparnað eins og hinar þjóðirnar. Þá mundu rúmlega 20 milljarðar bætast við innlendan sparnað og nýtast til athafna.

Aukinn innlendur sparnaður hefur einkum þrenns konar gildi. Í fyrsta lagi gerir hann kleift að grynna á erlendum skuldum, sem flestir viðurkenna, að eru orðnar of miklar. Annars vegar færir hann þjóðinni aukið fé til að mæta hinni miklu lánsfjárþörf í landinu.

Ekki skiptir þriðja atriðið minnstu máli. Það er, að aukinn sparnaður til jafns við aðrar þjóðir færir okkur nær langþráðu markmiði jafnvægis milli framboðs og eftirspurnar lánsfjár. Það er hornsteinn þess, að raunvextir geti lækkað á nýjan leik án handafls.

Athyglisvert er, að stjórnmálamenn, sem sjá ofsjónum yfir verðtryggingu og raunvöxtum til þeirra innlendu aðila, sem þeir á ögurstundu kalla fjármagnseigendur og jafnvel okurkarla, eru meira en fúsir að láta þjóðina borga raunvexti til útlanda í staðinn.

Skiljanlegt er, að formaður Alþýðubandalagsins telji henta sér að hóta svokölluðum fjármagnseigendum öllu illu. Hann er að leika ljúfa tónlist fyrir öfundsjúku miðstéttarhópana, sem eftir eru í stuðningsliði flokksins, síðan alþýðufylgið hvarf til Kvennalistans.

Dapurlegra er fyrir formann Framsóknarflokksins að sitja yfir höfuðsvörðum stefnunnar, sem forveri hans bar gæfu til að koma til framkvæmda fyrir áratug. En Ólafur Jóhannesson var stjórnmálamaður, en ekki lukkuriddari á borð við þá, sem nú ráða ríkjum hér.

Ömurlegast er þó fyrir hagfræðing á borð við banka- og sjóðaráðherra Alþýðuflokksins að bera ábyrgð á vaxtahandafli, sem stórskaðar auralausa sjóðaþjóð.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjöreggið hjá róturum

Greinar

Rótarinn í spilverki sjóðanna mun hafa hinn nýja félagsmálasjóð gæludýranna í Reykjavík, þar sem fyrir eru sjóðir hinnar svokölluðu byggðastefnu. Þannig munu gerðir ríkisstjórnarinnar efla vöxt Reykjavíkur sem skömmtunarstaðarins, er strjálbýlið mænir á.

Kópaskersmenn munu segja Stefáni Valgeirssyni, að þeir geti fremur sótt skömmtunina til Reykjavíkur en til Akureyrar. Það er reynsla byggðastefnumanna, að þægilegast er að geta á einum stað skriðið milli allra þeirra stofnana og sjóða, sem skammta gæludýrum fé.

Gott dæmi um mikilvægi einnar skömmtunarmiðju í landinu er eitt helzta ágreiningsefnið í Fjórðungssambandi Norðlendinga. Það er óánægja jaðarbúa svæðisins, vestan og austan Eyjafjarðar, með að þurfa að sækja þjónustu hins ágæta sambands til Akureyrar.

Hin hefðbundna byggðastefna, sem einnig mætti kalla byggðastefnu óskhyggjunnar, byggist einmitt á auknum aðgerðum stjórnvalda til að afla fjár og skammta það til þeirra verka, sem mikilvægust eru að mati rótarans í spilverki sjóðanna og að annarra beztu manna yfirsýn.

Þessi stefna er hornsteinn hinnar miklu og vaxandi miðstýringar í þjóðfélaginu, þeirrar stefnu, sem oft er kennd við Framsóknarflokkinn, en er raunar rekin af öllum stjórnmálaflokkunum. Miðstýringin hefur eðli málsins samkvæmt aðeins eina þungamiðju, Reykjavík.

Hin gagnstæða stefna, sem einnig mætti kalla byggðastefnu raunveruleikans, vill flytja ákvarðanir og ábyrgð frá einni valdamiðju yfir til einstaklinganna og mikils fjölda samtaka þeirra í fjölskyldum, fyrirtækjum, félögum og sveitarfélögum, hvar sem er í landinu.

Byggðastefna raunveruleikans biður ekki um enn einn skömmtunarsjóðinn í Reykjavík ofan á alla hina. Hún sendir ekki fulltrúa sína til að skríða á hnjánum milli kontóra í Reykjavík til að þiggja ruður af nægtaborði hinna afar góðgjörnu stjórnmálamanna landsins.

Raunhæf byggðastefna hafnar slíkum ræfildómi, sem drepur byggðir landsins í dróma. Um leið og hún hafnar miðstýringu vill hún einnig leggja niður miðstýrða skráningu á gengi krónunnar og miðstýrða skömmtun kvóta til að veiða fisk og selja hann fyrir gjaldeyri.

Ef fiskveiðileyfi væru boðin út og væru í frjálsri sölu og ef gengi krónunnar væri ákveðið á markaði þeirra, sem hafa gjaldeyri, og hinna, sem vilja gjaldeyri, mundi gífurlega mikið vald, bæði fjárhagslegt og annað, flytjast af ríkiskontórum í Reykjavík til sjávarsíðunnar.

Því miður hefur fólkið í landinu ekki borið gæfu til að skilja muninn á byggðastefnu raunveruleikans og óskhyggjunnar. Það hefur sett fjöregg sitt í hendur góðgjarnra rótara í spilverki sjóðanna. Þessir rótarar lifa á miðstýringu frá Reykjavík og vilja auka hana.

Ekki má gleyma hagsmunum rótaranna. Þeir ganga allir með lítinn ráðherra og bankastjóra í maganum. Stýring og skömmtun er þeirra líf og yndi, auk þess sem hún gefur töluvert í aðra hönd. Sá, sem einu sinni er orðinn rótari, vill efla völd rótara, einkum sjálfs sín.

Hinn nýi milljarðasjóður, sem á að efla velferð fyrirtækja á vegum Sambands íslenzkra samvinnufélaga og annarra slíkra gæludýra, verður í Reykjavík, þar sem miðstýringin og skömmtunin er fyrir. Hann er ný grein á meiði hefðbundinnar byggðastefnu óskhyggjunnar.

Vonandi verður hún leyst af hólmi af raunhæfri byggðastefnu, sem hafnar miðstýringu og veitir í þess stað frelsi frá sjávarútvegskvótum og gengisskráningu.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt fer á annan veg

Greinar

Hækkun skatta lendir á þeim, sem greiða háa skatta, en ekki á hinum, sem losna undan háum sköttum. Þessi einföldu sannindi vilja flækjast fyrir þeim stjórnmálamönnum, sem vilja sækja auð í grannans garð til að kosta gjafmildi sína gagnvart gæludýrum atvinnulífsins.

Í hópi þeirra, sem samkvæmt skattskýrslum eru hátekjumenn, eru fjölmennastir opinberir starfsmenn og aðrir þeir, sem af ýmsum ástæðum verða að telja rétt fram eða sjá sóma sinn í að telja rétt fram. Þar eru ekki hinir frægu atvinnurekendur með vinnukonuútsvörin.

Sagan endurtekur sig í sífellu. Þegar stjórnmálamenn eru búnir að fárast yfir, að tekjuskattar skili sér ekki nógu vel, er niðurstaða þeirra sú, að ekkert sé hægt að gera í málinu, en hins vegar sé hægt að hækka skatta á þeim, sem áður er búið að leggja á háa skatta.

Þegar hinn nýi og fjárfreki fjármálaráðherra er búinn að finna formúlu fyrir hækkun tekjuskatta, til dæmis þá að bæta við nýju skattþrepi fyrir þá, sem hafa meira en 100.000 krónur í tekjur á mánuði, kemur eins og venjulega í ljós, að það eru opinberir starfsmenn, sem munu borga.

Önnur einföld sannindi fara líka jafnan fyrir ofan garð og neðan hjá fjárfrekum stjórnmálamönnum. Þau eru, að atlögur að svokölluðum fjármagnseigendum afla minna fjár en til er ætlazt og minnka fjármagnið, sem þjóðfélagið fær á lánamarkaði til uppbyggingar.

Í hópi þeirra fjármagnseigenda, sem fjárfrekir stjórnmálamenn geta náð til með lögboðinni vaxtalækkun og skatti á vaxtatekjur og fjármagn, eru fjölmennastir hinir öldruðu og aðrir þeir, sem ávaxta fé eftir hefðbundnum leiðum. Þar eru ekki hinir frægu okurkarlar.

Ríkisstjórnin er að reyna að róa gamla fólkið og aðra þá, er spara á hefðbundinn hátt, með því að biðja það að taka ekki mark á rugli í nýjum fjármálaráðherra. En ákvörðunin um lækkun raunvaxta um 3% er þó ekki frá honum komin, heldur sjálfum forsætisráðherra.

Lækkun vaxta er auðvitað beinn skattur á alla þá mörgu og smáu, sem eiga peninga í bönkum og öðrum lánastofnunum. Það er skattur á sparisjóðsbækur og ríkisskuldabréf gamla fólksins og almennings yfirleitt, hvað sem Steingrímur Hermannsson segir.

Um leið minnkar vaxtalækkunin þann skattstofn, sem ríkisstjórnin hyggst ná meiri tekjum af. Hún segist samt munu hækka skatta á fjármagnstekjum, sem væntanlega eru aðallega vextir, og ná þannig auknu fé í ríkissjóð. Mikið skortir á, að þetta reikningsdæmi gangi upp.

Samanlagt munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn svokölluðum fjármagnseigendum hrekja lánsfé úr bönkum og öðrum lánastofnunum. Eitthvað af því mun verða notað í ferðir og aðra neyzlu, en annað fara af hvíta markaðinum yfir á hinn gráa og einkum hinn svarta.

Eftir því sem þessar aðgerðir þrengja hinn hefðbundna lánamarkað munu þær sprengja upp vexti á öðrum markaði, þar sem þeir geta leitað að sjálfvirku jafnvægi, til dæmis í mynd affalla af fjárskuldbindingum, sem eru vel þekkt fyrirbæri hér á landi.

Fjármálaráðherra og forsætisráðherra segjast veifa sverði sínu yfir ríkisbubbum og okurkörlum, en munu í staðinn hitta fyrir opinbera starfsmenn, aldrað fólk og annan almenning. Þeir segjast ná réttlæti í vöxtum, en munu uppskera lánsfjárskort og hækkaða raunvexti.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem fjárfrekir stjórnmálamenn verða fangar síns eigin lýðskrums og valda almenningi stórtjóni með beitingu handafls í fjármálum.

Jónas Kristjánsson

DV

Lýðræðið þynnist

Greinar

Steingrímur Hermannsson er siðferðilega og lýðræðislega á óvenjulega hálum ís, þegar hann setur víðtæk bráðabirgðalög aðeins tólf dögum fyrir setningu Alþingis, án þess að hafa sýnt fram á, að hann hafi þingmeirihluta til að fá lögin samþykkt í neðri deild.

Þegar forsætisráðherra rambar þannig á barmi stjórnarskrárbrota, er brýnt, að bráðabirgðalögin fái aðra og skjótari meðferð á þingi en slík lög hafa fengið, þegar öllum

er ljóst, að þingmeirihluti er fyrir þeim og að staðfestingin er lítið annað en formsatriði. Stjórnarandstaðan getur stuðlað að lýðræðislegri meðferð þessa vafamáls með því að krefjast þess, að bráðabirgðalögin verði tekin fyrir fyrst allra mála á Alþingi, og fylgja kröfunni eftir með því að neita að fjalla um önnur mál, fyrr en þetta er afgreitt.

Í stjórnarandstöðunni verða vafalítið uppi efasemdir um, að hagkvæmt sé að veitast þannig að ríkisstjórninni í upphafi ferils hennar, þegar samúð fólks með henni er í hámarki. Ýmsir munu telja heppilegra að nota frekar tækifærið síðar, þegar betur standi á.

Skoðanakönnun DV, sem birt var í gær, bendir til, að stjórnin njóti núna, við upphaf ferils síns, eindregins fylgis meirihluta þjóðarinnar. Slíkur stuðningur er hefðbundinn, þegar ríkisstjórnir ýta úr vör. En í þetta sinn er stuðningur fólksins óvenjulega mikill, 65%.

Ríkisstjórnin er því ekki árennileg þessa dagana. Íslendingar hafa greinilega ekki látið af konunghollustu sinni, þótt hún beinist nú að nýjum ríkisstjórnum. Við virðumst jafnan reiðubúin að fylgja foringjunum, unz komið hefur í ljós, hvort þeir duga eða duga ekki.

Hins vegar má benda á, að stjórnarandstaðan hefur skyldur við lýðræðið alveg eins og stjórnin. Ef forsætisráðherra hefur teflt skákina út af taflborðinu, ber stjórnarandstöðunni að koma henni inn á borðið aftur, svo að taflreglurnar komist sem fyrst í lag aftur.

Bráðabirgðalög eru misnotuð hér á landi. Í upphafi lýðræðis á Vesturlöndum var Estrupska af slíku tagi eitur í beinum lýðræðissinna. Við erum hins vegar orðin of léttúðug í þessum efnum. Nýjustu bráðabirgðalögin fela í sér aukna misnotkun, sem ber að forðast.

Stjórnarandstaðan getur leitað trausts í þeirri staðreynd, að hin sama skoðanakönnun DV, sem vísað var til hér að ofan, sýndi, að stjórnarflokkarnir eru sem flokkar í algerum minnihluta meðal þjóðarinnar, samanlagt með aðeins 43% fylgi allra, er hafa skoðun.

Þetta bendir til, að stuðningur þjóðarinnar við hina nýju ríkisstjórn í upphafi ferils hennar sé á hefðbundnum, veikum grunni reistur og muni rjúka út í veður og vind mun hraðar en stuðningurinn, sem síðasta ríkisstjórn naut í upphafi vegferðar sinnar fyrir rúmu ári.

Til hvatningar atlögu að bráðabirgðalögunum má benda á, að hún mundi líka hreinsa andrúmsloftið og leiða í ljós, hvort forsætisráðherra hefur einhvern huldumann í neðri deild til að fleyta sér yfir aðgerðir, er Alþingi, en ekki hann, á að ákveða, lögum samkvæmt.

Því miður bendir fátt til, að stjórnarandstaðan hafi í heild kjark til að verja leikreglur lýðræðisins með þessum hætti. Þess vegna er líklegt, að þjóðin verði að bergja til botns bikarinn, sem henni hefur verið réttur í bráðabirgðalögum. Skólagjöldin verða há í skóla reynslunnar.

Alvarlegra er þó, að kjarkleysi af hálfu stjórnarandstöðu mun skapa enn eitt fordæmi handa stjórnvöldum á leið þeirra í burt frá lýðræðislegum vinnubrögðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Stefán er stjórnartáknið

Greinar

Aldraður maður fylgdi nýju ríkisstjórninni úr hlaði í fréttaleikhúsum þjóðarinnar. Hann sagðist hafa gefið eftir ráðherrastól, því að hann fengi mikil völd við að dreifa þremur til fjórum milljörðum af fé almennings og héldi öðrum störfum sínum við skömmtunarstjórn.

Í öðru leikhúsinu var reiknað út, að tekjur Stefáns Valgeirssonar væru þegar meiri en ráðherratekjur. Það er áður en búið er að ákveða, hvað hann fái fyrir að stjórna hinum nýja velferðarsjóði illa rekinna fyrirtækja og annarra gæludýra ríkisstjórnarinnar.

Í sjálfu sér skiptir minnstu, hvað holdtekja Samtaka jafnréttis og félagshyggju fær fyrir að skipuleggja forneskjuna, sem nýja ríkisstjórnin hefur ákveðið að innleiða. Mestu máli skiptir, að þjóðin horfði á Stefán og skildi á augabragði, hvaða ríkisstjórn hún var að fá.

Þjóðin hefur fengið ríkisstjórn, sem hefur að meginmarkmiði þá stefnu Framsóknarflokksins að flytja allmarga milljarða frá almenningi til fyrirtækja, einkum þeirra fyrirtækja, sem hafa safnað skuldum í trausti þess, að stjórnmálamenn björguðu þeim fyrir horn.

Kostirnir, sem stjórnmálamennirnir deildu um, áður en þeir náðu samkomulagi, snerust engir um efnahagsúrbætur. Þeir snerust allir um, hvernig mætti sem hljóðlegast laumast ofan í vasa þjóðarinnar til að bjarga Sambandi íslenzkra samvinnufélaga og fyrirtækjum þess.

Eftir mikið þjark um það, sem stjórnmálamenn kalla niðurfærslur, uppfærslur, millifærslur og bakfærslur, en eins mætti kalla bókfærslur eða undanfærslur, höfum við nú fengið niðurstöðu, sem sameinar flest hið versta í hugmyndunum, er fram hafa komið í haust.

Milljarðarnir, sem sogaðir verða í sjóðina, koma beint og óbeint úr vasa almennings. Sumpart verða þeir fengnir að láni í útlöndum, en rukkanir um vexti og afborganir sendar börnum okkar. Hvorki innlendir né erlendir milljarðar verða galdraðir upp úr hatti.

Þetta er nokkurn veginn hið sama og gert hefur verið undanfarin ár. Munurinn er aðallega sá, að fráhvarfið frá velferðarríki fólksins yfir í velferðarríki fyrirtækjanna verður við stjórnarskiptin eindregnara og harðskeyttara en verið hefur í tæpa þrjá áratugi.

Afleiðingar lífskjaraskerðingarinnar verða margvíslegar. Verðlaunaveitingar til skussa munu halda aftur af framleiðni í þjóðfélaginu og koma í veg fyrir, að þjóðin fái ránsféð til baka í auknum þjóðartekjum. Þær munu magna þensluna og kynda undir verðbólgu.

Ríkisstjórnin hefur farið af stað með miklum bægslagangi hins nýja fjármálaráðherra, sem segist ætla að sækja peningana, sem þarf, í hendur svokallaðra fjármagnseigenda. Líklega væri hann fær um að gera heilt sólkerfi gjaldþrota, ef hann fengi að ráða einn.

Sem betur fer hefur ríkisstjórnin ekki mátt til langvinnrar uppbyggingar á velferðarkerfi fyrirtækjanna. Einstakir þingmenn á borð við Karvel Pálmason og Ólaf Þórðarson munu fljótlega átta sig á, hvert stefnir. Hinn svokallaði meirihluti mun gufa upp í vetur.

Yfirlýsing Ólafs Ragnars Grímssonar um upptöku sparifjár stuðlar að hvarfi fjármagns úr bönkum og öðrum varðveizlustofnunum. Hún var afar tímabær á fyrsta degi hinnar nýju ríkisstjórnar, enda spillir hún fyrir því, að ríkisstjórnin nái ránsfengnum.

Rembingur ráðherrans segir þjóðinni þó ekki eins skýra sögu og hæglát framkoma öldungsins, sem hyggst nú verða meiri skömmtunarstjóri en nokkru sinni fyrr.

Jónas Kristjánsson

DV

Afleit og skammlíf

Greinar

Yfir þjóðinni vofir afleit ríkisstjórn, en sem betur fer skammlíf. Það verður niðurstaðan, ef Steingrími Hermannssyni tekst að ná saman hagsmunabandalagi Sambands íslenzkra samvinnufélaga og þeirra stjórnmála flokka, sem alls ekki þola kosningar á næstunni.

Engin stemmning er að baki ríkisstjórnar Framsóknarflokks, Alþýðuflokks, Alþýðubandalags, Borgaraflokks og Stefáns Valgeirssonar, þótt hún muni hafa tryggan þingmeirihluta að baki sér, hugsanlega 39 þingmenn af 63. Þingmeirihluti segir ekki allt.

Stjórnarflokkarnir fengu samanlagt innan við 40% fylgi í síðustu skoðanakönnun okkar. Á móti standa þau tvö stjórnmálaöfl, sem skoðanakannanir sýna, að eru núna hin öflugustu í landinu, með um 60% fylgi. Almenningsálitið verður ríkisstjórninni því þungt í skauti.

Það er einmitt andsnúið almenningsálit, sem hrekur Alþýðuflokkinn, Alþýðubandalagið og Borgaraflokkinn í náðarfaðm Framsóknarflokksins. Enginn flokkanna þriggja þorir í kosningar á næstunni. Stjórnaraðild er eina undankomuleið þeirra til að fresta kosningum.

Fylgisleysi Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks er svo algert, að það getur tæpast versnað, að mati leiðtoga flokkanna. Með því að tefja kosningar er alltaf fræðilegur möguleiki á betri tíð með blóm í haga. Þetta var beitan, sem Steingrímur notaði.

Hann má svo láta sér í léttu rúmi liggja, þótt stjórnin endist ekki út kjörtímabilið. Flokkur hans getur farið út í kosningar, hvenær sem er, án þess að búast við tilfinnanlegu fylgistapi. Markmið hans, að bjarga fyrirtækjum Sambandsins, er til fremur skamms tíma.

Steingrímur Hermannsson þarf eftir krókaleiðum að lækka tekjur starfsfólks frystihúsa, lækka gengi krónunnar og lækka raunvexti fjárskuldbindinga, svo að fyrirtækin, sem standa að baki Framsóknarflokksins, komist úr taprekstri og á sléttan sjó.

Efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar munu hafa þetta að markmiði, þótt það verði sumpart klætt í orðaleiki, einkum til að dylja kjaraskerðinguna. Þegar þeim aðgerðum er lokið, hefur stjórnin lokið hlutverki sínu og getur farið að sinna innri ágreiningsefnum.

Steingrímur getur að vísu sjálfur setið á friðarstóli, þar sem hann hefur náð stólnum, sem gerði hann friðlausan, þegar hann var bara óbreyttur utanríkisráðherra. En hann mun hafa nóg að gera, þegar hvatvísir formenn A-flokkanna taka upp fyrri sandkassaerjur.

Mjög fljótlega mun hegðun ráðherra í nýju stjórninni byrja að einkennast af undirferli til að búa í haginn fyrir sig og sína fyrir næstu kosningar og hnífstungum til að spilla sem allra mest fyrir samráðherrunum og þeirra flokkum. A-flokkarnir eru sérfræðingar í þessu.

Ofan á þennan eldivið bætist svo, að oddamenn flokkanna eru einmitt hinir hvatvísu stjórnmálamenn, sem uppteknastir eru af eigin persónu, hafa mesta þörf fyrir að baða sig í sviðsljósi sjónvarpsins og gera minnstan greinarmun á góðum og vondum sjálfsauglýsingum.

Þegar glansinn verður farinn af efnahagsaðgerðum þessarar helgar, mun smám saman koma í ljós, að samkomulagsgrundvöllur ríkisstjórnarinnar verður þjóðinni óhagstæður. Smám saman mun ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar takast að breyta góðæri í kreppu.

Að lokum mun stjórnin hrökklast frá við lítinn orðstír og hagsmunabandalagið ekki fá sneitt hjá örlögum, sem það hefur óttazt og flúið á allra síðustu dögum.

Jónas Kristjánsson

DV