Greinar

Yfirstéttin sleppur

Greinar

Skattur af vinnutekjum venjulegs fólks er fjórfalt hærri en skattur af fjármagnstekjum yfirstéttarinnar. Hún borgar 10% af tekjum sínum, en almenningur rúmlega 40%. Yfirstéttin kemst upp með þetta, af því að fjármagn er hreyfanlegra en vinnuafl og getur flotið milli landa eftir hentugleikum.

Skúringakonan getur ekki flutt vinnu sína til útlanda, ef henni finnst of mikið að borga 40% skatt. Stórforstjórinn getur hins vegar flutt fjármagn sitt til útlanda, ef þar bjóðast betri skattakjör en hér á landi. Í hnattvæddum heimi nútímans er hann nokkrar sekúndur að koma fénu í betri höfn.

Þótt stjórnvöld hefðu eins mikið dálæti á skúringakonunni og þau hafa á stórforstjóranum, gætu þau ekki eytt mismuninum á skattlagningu fjármagns og vinnu. Þau gætu dregið úr honum, en verða jafnframt því að fylgjast með stöðu og framvindu skattamála í öðrum löndum, einkum þeim, sem næst standa.

Hnattvæðing fjármála veldur því, að smáríki getur ekki eitt og sér jafnað skattprósentuna. Það verður að sigla svipaðan sjó og önnur ríki. Ef það vill auka skattinn, er bezta ráðið að taka þátt í fjölþjóðlegu samstarfi um sameiginlega stefnu margra ríkja í skattamálum, einkum í Evrópusambandinu.

Spurningin er því ekki, hvort ríkisstjórn Íslands vill koma á jafnvægi í skattheimtu fjármagns og vinnu, heldur hvort Evrópusambandið fæst til þess. Á því eru tormerki, því að sum ríki, einkum Bretland, eru algerlega andvíg forræði Evrópusambandsins í skattamálum eins og ýmsum öðrum málum.

Ef Evrópusambandið getur komið á jafnrétti í skattamálum, getur það um leið notað risavaxna stærð sína til að þvinga skattaparadísir til að makka rétt, svo að fjármagnið flýi ekki til eyríkja í Karabíska hafinu. Evrópusambandið er orðið stærsta efnahagsveldi heims og getur ráðið við þetta.

Ef hér á landi kemst til valda ríkisstjórn, sem hefur sama áhuga á skúringakonunni og stórforstjóranum, er hægt að minnka misræmið. Skattar á launum eru tiltölulega háir hér á landi miðað við Evrópusambandið og skattar á fjármagni eru langtum lægri hér á landi en í mörgum nálægum Evrópulöndum.

En tilraunir til algers réttlætis koma ekki að gagni, nema tryggt sé, að hliðarverkanir á borð við fjármagnsflótta séu innan hóflegra marka. Í hnattvæddum heimi vinnst réttlæti ekki á vettvangi Alþingis eða ríkisstjórnar Íslands, heldur á samevrópskum vettvangi fjöldans, í Evrópusambandinu.

Sjálfsagt er að styðja stjórnmálaöfl til að minnka bilið í skatti almennings og yfirstéttar. En full jafnstaða og fullt réttlæti næst aðeins með baráttu innan Evrópusambandsins.

Jónas Kristjánsson

DV

1562 krónur á mánuði

Greinar

Einstæð móðir var nýlega dæmd í Héraðsdómi Reykjavíkur í sex mánaða fangelsi fyrir að hnupla jakka, bol og kjól á dóttur sína, að verðmæti 9370 krónur. Hún þarf að sitja þennan geðveikislega dóm, sem er að tímalengd svipaður og fyrir nauðganir og misþyrmingar, sem valda fólki varanlegum skaða.

Það var ungur og nýskipaður dómari, sem fór út af kortinu að þessu sinni, trúr þeirri hefð, að smávægileg auðgunarbrot undirstéttarinnar á kostnað hinna ríku séu alvarlegri en líkamlegt ofbeldi innan undirstéttarinnar eða fjárglæfrar yfirstéttarinnar, ef þeir skipta tugum milljóna eða meiru.

Hefðin liggur sumpart í laganna hljóðan og sumpart í túlkun dómara, sem oftast er í lægsta kanti hins leyfilega, ef um ofbeldi eða fjárglæfra er að ræða. Hvort tveggja er arfur af hugsanagangi gamallar yfirstéttar, er hefur litið á lögin sem hentugt tæki til að halda fátækum puplinum á mottunni.

Ofbeldi innan undirstéttarinnar skiptir litlu í lögum og dómahefð. Ef fylliraftur ber tvo aumingja í höfuðið með riffilskefti, kastar öðrum út úr bíl, aflæðir hann og úðar með málningu, auk tíu svipaðra ofbeldisglæpa, þarf hann að sitja inni í þrjá mánuði, helmingi styttri tíma en móðirin.

Hingað til hefur verið talið, að afkáralegt mat dómstóla á mikilvægi mismunandi tegunda glæpa sé mest að kenna öldruðum dómurum, sem séu frosnir í gömlum hefðum fyrri alda, þegar tilgangur þjóðskipulagsins var að sjá um, að vinnufólk héldi sig möglunarlaust við þrældóminn og flýði ekki á mölina.

Hæstiréttur er hornsteinn þessa ljóta dómkerfis. Hann veitti til dæmis margföldum nauðgara afslátt af tíma í fangelsi, af því að hann gaf fórnarlambinu að éta. Hæstiréttur hefur alltaf séð gegnum fingur sér við líkamlegt ofbeldi og nógu stóra fjárglæfra, en dæmir búðahnuplara eins og terrorista.

Ungi og krumpaði dómarinn, sem dæmdi konuna í sex mánaða fangelsi fyrir að stela vörum að verðmæti 9370 krónur, er ekki að brydda á neinu nýju. Hann er hluti afkáralegrar dómvenju frá miðöldum, sem við þurfum að brjóta niður á leið okkar frá vistarbandi vinnuhjúa til siðvædds nútíma.

Í dóminum yfir konunni, sem hnuplaði jakka, bol og kjól á dóttur sína, endurspeglast botnlaust skilningsleysi á þjóðfélagi nútímans. Þessi dómur eins og margir aðrir slíkir er til þess fallinn að grafa undan réttarríkinu og gera ríkið að gróðrarstíu ranglætis, ójafnaðar og siðleysis.

Einstæð móðir þarf samkvæmt hinum forneskjulega dómara að sitja inni í einn mánuð fyrir hverjar 1562 krónur, sem hún stal. Dómarinn er auðvitað yfirstéttar og heldur starfinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sykurskattur

Greinar

Fáir hafa áttað sig á, að fíkniefnið sykur er eitt mesta ógnarvopn nútímans, meginorsök margra sjúkdóma og fleiri dauðsfalla en þeirra, sem stafa af áfengi eða tóbaki, ólöglegum fíkniefnum eða löglegum lyfjum. Sykur er skæðari en bíllinn og allir hryðjuverkamenn heimsins samanlagðir.

Eðlilegt og sjálfsagt er, að fyrr en síðar verði reynt að stemma stigu við sykri með skatti og öðrum takmörkunum, sem notaðar hafa verið gegn öðru eitri. Áfengi og tóbak og bílar eru strangt skattlagðar vörur, tóbak er selt undir borði í verzlunum, áfengi og lögleg lyf í sérstökum verzlunum.

Ef menn telja, að reynslan sýni, að unnt sé að draga úr notkun áfengis og tóbaks með skatti og öðrum takmörkunum, er eðlilegt framhald að beita sömu aðferðum gegn sykri. Það þýðir, að hreinn sykur og viðbættur sykur í matvælum sæti háum skatti og að hreinn sykur verði seldur í sérverzlunum.

Sykur varð ekki almenningseign fyrr en fyrir tæpri öld og hefur orðið á þeim tíma að heilsufarslegu reiðarslagi fyrir mannkynið. Fremst í flokki birtingarmynda hans er gosið, sem unga fólkið drekkur í lítratali. En viðbættur sykur er til dæmis líka í nánast öllum vörum íslenzka mjólkuriðnaðarins.

Margir hafa ekki enn áttað sig á þessu. En niðurstöður rannsókna tala sínu máli. Mannslíkaminn er ekki gerður fyrir sykur. Blóðið fer á ringulreið og boðefnaskipti heilans einnig. Verst er, að sykur er fíkniefni. Mikil notkun kallar á enn meiri notkun. Menn verða háðir honum eins og tóbaki.

Sykurneyzla er stærsti þátturinn í offitu nútímafólks og sjúkdómum, sem fylgja offitunni. Bandarískar bókabúðir eru fullar af hundruðum mismunandi titla, sem boða ýmsar megrunaraðferðir. Fólk kaupir bækurnar og heldur áfram að fitna. Svo sterkur er sykur, að góður vilji má sín lítils.

Íslendingar eru aðrir mestu sykurneytendur heims, næst á eftir Bandaríkjamönnum. Offita er orðinn að sprengjunni í heilbrigðiskerfi landsins og mun fyrr en síðar setja fjármögnun þess endanlega úr skorðum. Samfélagið hefur ekki ráð á að greiða herkostnaðinn af óhóflegri sykurneyzlu.

Ríkið mun fljótt reyna að hafa upp í herkostnaðinn af sykri með skatti á hann. Þær hugmyndir, sem Hagfræðistofnun Háskólans er að gæla við, eru hins vegar svo lágar, að þær eru ekki raunhæfar. Verð á sykurkílói þarf ekki að hækka um einhverjar prósentur, heldur þarf að margfalda verðið.

Skattur leysir ekki vandann, en útvegar stjórnvöldum fé til að halda áfram að standa vörð um velferðarkerfið, þegar heilsu þjóðarinnar heldur áfram að hraka af völdum sykurs.

Jónas Kristjánsson

DV

Bakþankar í Framsókn

Greinar

Jarðbundin samtök um fjárhagslega hagsmuni félagsmanna fara að tvístíga, þegar ógnað er stöðu þeirra í valdakerfinu. Þannig hefur Framsóknarflokkurinn áttað sig á, að tökum hans á þjóðfélaginu er núna ógnað af fylgishruni vegna eins máls, sem formaður flokksins hefur sótt af óviðeigandi kappi.

Lykilmenn í flokknum hafa komizt að þeirri niðurstöðu, að ekki sé í lagi að hafa bara kennitöluskipti á lögum, sem forseti landsins vísaði til þjóðaratkvæðagreiðslu og koma þannig í veg fyrir atkvæðagreiðsluna. Þeir hafa verið í sambandi við almenna flokksmenn og áttað sig á stöðunni.

Halldór Ásgrímsson flokksformaður hefur hins vegar misst tökin á framvindunni. Hann virðist ekki vera í sambandi við grasrótina, enda kemur hann um þessar mundir dauflega fyrir í sjónvarpi og á opinberum vettvangi, eins og hann sé ekki heill heilsu og átti sig ekki á látunum umhverfis hann.

Sumir flokksmenn segja upphátt, að hann hafi raðað kringum sig ungum ráðgjöfum, sem séu meira að hugsa um eigin frama en að gæta hagsmuna flokks og formanns. Þeir hafi einangrað hann frá umheiminum og teflt honum í þá erfiðu stöðu, sem hann og hans flokkur eru í vegna fjölmiðlamálsins fræga.

Vandræði formannsins stafa þó fremur af einbeittri þrá hans í embætti forsætisráðherra. Hann telur samkomulag um það efni verða svikið af samstarfsflokknum, ef hann fylgi ekki sjónarmiðum Davíðs Oddssonar fast fram. Hann telur, að andstaða við fjölmiðlamálið mundi spilla framavonum sínum.

Hins vegar er hinn augljósi bulluskapur forsætisráðherrans og helztu ráðgjafa hans fjarlægur Framsóknarflokknum, sem sækist fremur eftir friðsamlegu þjóðfélagi, þar sem menn geta gaukað molum að gæludýrum, en stunda ekki hótanir, ógnanir, reiðiköst, lagabrellur og stjórnarskrárbrot.

Þess vegna jaðrar nú við uppreisn í flokki Halldórs Ásgrímssonar. Almennir flokksmenn, studdir valdamiklum aðilum í flokknum, vilja gera flokkinn að nýju að flokki sátta í þjóðfélaginu, fresta málinu til hausts og taka þá góða umræðu og leita sátta út fyrir stjórnarflokkana.

Framsóknarmenn eru farnir að átta sig á, að slík afstaða er meira í stíl flokksins og líklegri en önnur til að treysta stöðu hans í næstu kosningum, hvenær sem þær verða.

Jónas Kristjánsson

DV

Kannanir og kosningar

Greinar

Skoðanakannanir á miðju kjörtímabili hafa lítið forspárgildi um úrslit næstu kosninga. Eftir endasprett kosningabaráttu reynast úrslitin yfirleitt fela í sér minni sveiflu en lesa hafði mátt úr skoðanakönnunum. Þannig hefur Framsókn síðustu áratugina fengið meira fylgi í kosningum en könnunum.

Hins vegar segja skoðanakannanir okkur, hverjir eigi við vanda að glíma þá stundina og hverjir ríði öldufaldinn. Sagan segir okkur líka, að flokkar, sem hafa farið illa út úr könnunum, fá sjaldnast góða kosningu. Þeir tapa fylgi, en ekki eins miklu fylgi og kannanir höfðu áður gefið í skyn.

Þetta er kallað varnarsigur. Margir ruglast á varnarsigri og hefðbundnum sigri. En orðið varnarsigur gefur flokki með slæma útkomnu færi á að túlka niðurstöðuna jákvætt fyrir sig. Þannig hefur Framsókn borið úrslit saman við kannanir og reynt að bera höfuðið hátt á pólitísku undanhaldi sínu.

Samkvæmt könnunum fer Framsóknarflokkurinn verr út úr bulluskap og kennitölusvindli formanns Sjálfstæðisflokkurinn en höfundur vandans. Það byggist væntanlega á, að kjósendur Framsóknar eru viðkvæmari fyrir pólitísku braski og brellum en foringjadýrkandi kjósendur Sjálfstæðisflokksins.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf líkst ítölsku fasistunum í gamla daga og flokki Berlusconis á Ítalíu nú á tímum. Slagorðin voru og eru hin sömu Stétt með stétt í gamla daga og Áfram Ísland í dag. Mikið af kjósendum flokksins vill hafa sinn Mussolini, sinn Berlusconi, sína pólitísku bullu.

Þessa dagana hafa margir kjósendur þungar áhyggjur af ferli stjórnmálanna út í geðþótta, sífelldar hótanir, æðisköst og kennitöluskipti á lögum gegn frjálsri fjölmiðlun. Þessi staða nagar fylgi af Sjálfstæðisflokknum og sópar því burt af Framsóknarflokknum, sem enn er úti að aka í þessum leik.

Menn sjá, að formaður Framsóknarflokksins er fangi löngunnar sinnar í embætti forsætisráðherra. Hann þorir ekki að æmta eða skræmta af ótta við stjórnarslit og kosningar, sem kæmu í veg fyrir framavonir hans. Hann þorir ekki að standa gegn bulluskapnum, sem er meginstefna Sjálfstæðisflokksins.

Kennitölusvindl fjölmiðlalaganna stafar af, að flokkar ríkisstjórnarinnar óttast útreiðina, sem þau mundu fá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þeir vilja ekki hleypa kjósendum að fyrr en eftir þrjú ár, þegar gömul mál frá árinu 2004 verða mörgum gleymnum kjósendum orðin dauð og grafin sagnfræði.

Eftir þrjú ár verða fjölmiðlalögin jafn gleymd og virkjanir á hálendinu eru núna. Þá tapa bullurnar litlu og Framsókn meiru. Nema kjósendur séu loks að ákveða, að nóg sé komið.

Jónas Kristjánsson

DV

Herinn fer samt

Greinar

Bandaríkjastjórn er ekki alveg eins tillitslaus við gamla bandamenn sína og hún hefur lengst af verið. Illt gengi einstefnu hennar hefur leitt til aukinna viðræðna við erlenda ráðamenn, þar á meðal við landsfeður Íslands um framtíð umdeildrar eftirlitsstöðvar á Keflavíkurflugvelli.

Eftir nokkra snúninga með japli og jamli verður niðurstaðan hin rökrétta í stöðunni. Herinn fer. Bandaríkjastjórn er orðin ofbeldishneigðari í þriðja heiminum en herafli hennar stendur undir. Þess vegna þarf hún að flytja mannskapinn og tæknina á Keflavíkurflugvelli til mikilvægari hernaðarstaða.

Ísland er orðið afskekkt í heiminum. Kalda stríðinu er lokið. Rússland hefur tekið við af Sovétríkjunum og hefur misst áhugann á þjóðbraut vígvéla suður eftir íshafinu beggja vegna Íslands. Hernaðarleg áhugamál Rússlands eru í suðri, þar sem hægt er að abbast upp á veikburða ríki.

Stór hópur Suðurnesjamanna missir atvinnu á vellinum, björgunarþyrlur hverfa og Ísland þarf að leggja meira fé til flugs á Keflavíkurvelli. Þetta er óþægilegt til skamms tíma, en nauðsynlegt, þegar frá líður. Við getum ekki haldið uppi hermangi, þegar viðsemjandinn hefur misst áhuga á hersetu.

Vallarvinnan dregur úr áhuga Suðurnesjamanna að skapa ný atvinnutækifæri. Ekki er heilbrigt, að öflug sveitarfélög og íbúar þeirra séu háð skammgóðum vermi hersetu. Samfélögin suður með sjó verða að horfast í augu við veruleikann. Þau þurfa að vinna fyrir sér eins og önnur samfélög í heiminum.

Flugvélarnar eru farnar, en þyrlurnar eru enn eftir. Við þurfum nú þegar að efla flugdeild landhelgisgæzlunnar til að mæta ástandinu, sem verður, þegar þær fara. Miklu ábyrgara er að vera sjálfum sér nógur í björgunarmálum í tæka tíð en að dilla sér umhverfis verndara, sem hefur misst áhugann.

Við þurfum líka að fara að horfast í augu við að geta ekki endalaust ýtt kostnaði við borgaralegt flug um völlinn yfir á herðar Bandaríkjanna. Þetta er okkar mikið notaði millilandavöllur og við verðum hreinlega að taka því að þurfa fyrr en síðar að kosta rekstur hans að öllu leyti.

Allt kostar þetta fé. Þess vegna eru landsfeður sífellt að dilla sér umhverfis ráðamenn Bandaríkjanna til að fresta hinu óhjákvæmilega eða hægja á þróuninni í átt til þess. Miklu farsælla til langs tíma fyrir þjóðina er að borga fyrir sig eins og aðrar og vera sjálfstæð í umheiminum.-

Herinn fer, frekar fyrr en síðar. Hlutverk stjórnvalda er að fara að hætta að væla út af hinu óhjákvæmilega og fara að undirbúa brottförina, svo að truflunin verði sem minnst.

Jónas Kristjánsson

DV

Þetta eru sömu lögin

Greinar

Oddvitar ríkisstjórnarinnar hafa fundið út, að 30% eða 44% forgjafir dugi ekki til að koma í veg fyrir, að lögin um fjölmiðla verði felld í þjóðaratkvæði í ágúst. Þess vegna hafa þeir ákveðið að hindra atkvæðagreiðsluna með því að draga lögin til baka og leggja þau síðan aftur fram sem ný.

Í stað þess að sumarþing ákveði, hvernig þjóðaratkvæðið fari fram, á það með einnar nætur fyrirvara að taka fyrir nýtt lagafrumvarp, sem að 95% leyti er sama frumvarpið. Þetta er ekki bara tveggja manna æði, heldur tveggja þingflokka æði, því að þingflokkar stjórnarinnar hafa samþykkt aðferðina.

Samkvæmt fyrri reynslu er líklegt, að forseti Íslands vísi nýjum lögum til þjóðarinnar, þar sem þau eru 95% eins og fyrri lögin. Þá getur ríkisstjórnin enn breytt lögunum um 5% og síðan haldið skrípaleiknum áfram, þangað til lögin verða orðin nógu mikið breytt til að forsetinn staðfesti þau.

Hver umferð í skrípaleiknum, sem tveir þingflokkar hafa efnt til, getur tekið tvo mánuði. Á meðan getur þjóðin velt fyrir sér, hvers vegna er svona mikilvægt, að hún fái ekki að tjá sig í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvers vegna tveir þingflokkar haga sér eins og þeir séu týndir og tröllum gefnir.

Ef ekki er ætlunin, að lögin taki gildi fyrr en eftir þrjú ár, eftir næstu alþingiskosningar, er eðlilegra að draga bara hin illræmdu lög til baka, henda ekki inn nýrri útgáfu þeirra, heldur hefja viðræður við stjórnarandstöðuna um, hvernig ný lög geti litið út. Nægur tími er til stefnu.

Undarleg aðferðafræði felst í að koma aftur með frumvarpið og boða afgreiðslu þess á nokkrum dögum og boða jafnframt samráð eftir afgreiðslu þess. Hvers vegna þarf samráð við stjórnarandstöðu eftir að sama frumvarpið hefur í tvígang verið keyrt yfir hana og einu sinni yfir þjóðina í heild?

Trikkið í aðferðinni er, að eftir þrjú ár verða almennar alþingiskosningar um þau mál, sem þá verða efst á baugi. Þær verða aldrei eins máls atkvæðagreiðslur og allra sízt um mál, sem voru í sviðsljósinu fyrir þremur árum. Kosningar eftir þrjú ár koma ekki í stað þjóðaratkvæðagreiðslu nú.

Svona bragðvísi stunda pólitíkusar ekki nema þeir hafi orðið viðskila við siðaðra manna hætti. Og þetta er ekki vandi tveggja manna, sem hafa verið of lengi í ráðherraembættum, heldur vandi heilla tveggja þingflokka, sem hafa misst fótanna í blindu ofstæki og algerum skorti á mannasiðum.

Forseti Íslands er ekki ábyrgur fyrir skrípaleik, sem felst í að draga lög til baka til að hindra þjóðaratkvæði og leggja þau síðan nánast óbreytt fram sem nýtt frumvarp.

Jónas Kristjánsson

DV

Mörk í forgjöf

Greinar

Fimmtán mínútna maðurinn, sem þolir ágreining á fundum í fimmtán mínútur, er ósáttur við væntanlegan eftirmann sinn. Báðir vilja þeir forgjöf í pólitískum fótboltaleik sínum, eftirmaðurinn vill eitt mark í forgjöf, en fimmtán mínútna maðurinn og flokkur hans vilja fá tvö mörk í forgjöf.

Forgjöf hefur ekki tíðkast í pólitískum kosningum á Íslandi fremur en í fótbolta. Í golfi er notuð forgjöf, sem byggist á misjöfnum fyrra árangri. Þeir fá forgjöf í golfi, sem minna mega sín. Í pólitík á Íslandi eru hins vegar ítrekað lagðar fram kröfur um forgjöf þeirra, sem betur mega sín.

Í umræðum um forgjöf í væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu er eingöngu fjallað um kröfu þeirra, sem styðja lögin gegn Jóni Ásgeiri, um að andstæðingar laganna verði að fá tiltekna prósentu allra kjósenda, hvort sem þeir koma á kjörstað eða ekki. Halldór vill 30% þröskuld og Davíð vill 44% þröskuld.

Ekki er til umræðu, að hliðstæð krafa verði sett á fylgismenn laganna. Ekki er talað um, að lögin þurfi að fá 30% eða 44% stuðning allra kjósenda, líka þeirra, sem ekki mæta. Það þykir til dæmis vera í lagi, að 29% þjóðarinnar segi nei og 14% segi já. Í því tilviki skal jáið gilda.

Ef stuðningsmönnum laganna er skýrt frá þessari þverstæðu, skilja þeir hana ekki. Þeim er fyrirmunað að sjá fyrir sér þann möguleika, að einhverjir aðrir en þeir sjálfir fái forgjöf. Þetta stafar af, að þeir eru vanir forgjöf í þjóðfélaginu, þeir styðja flokka, sem lifa á forgjöfinni.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn hafa frá ómunatíð stjórnað landinu og rekið forgjafarkerfi, sem áratugum saman var kallað helmingskiptareglan, en fól þó nákvæmar í sér, að fyrri flokkurinn réði um 60% af þjóðfélaginu og síðari flokkurinn réði um 40% af því.

Annars vegar átti minni flokkurinn lengst af samband fyrirtækja, kallað SÍS, sem stýrði 40% af atvinnulífinu, og fyrri flokkurinn átti losaralegra samband, sem síðar var kallað kolkrabbinn og átti 60% af atvinnulífinu. Bankar landsins voru pólitískt notaðir í þjónustu tveggja afla.

Með tilkomu markaðshagkerfis losnaði smám saman um heljartök helmingaskiptanna á þjóðfélaginu. Enn eru menn þó ráðnir á pólitískum forsendum til opinberra áhrifastarfa, þar á meðal til að vera hæstaréttardómarar. Gælufyrirtæki fá enn ríkisábyrgð og einkaleyfi, gælumenn verða ekki gjaldþrota.

Fimmtán mínútna maðurinn og fylgismenn hans vilja byrja fótboltaleikinn um Jóns Ásgeirs lögin með tvö mörk í forgjöf, af því að forgjafarkerfið er þeim í blóð borið.

Jónas Kristjánsson

DV

Sörli týnist ekki

Greinar

Að venju munu tíu til tólf þúsund manns heimsækja landsmót hesta og hestamanna, sem að þessu sinni er haldið á Hellu á Rangárvöllum. Þar af verða um þrjú þúsund útlendingar, sem hafa tekið þvílíku ástfóstri við íslenzka hestinn, að þeir koma langan veg hingað á landsmót á tveggja ára fresti.

Erfitt er að finna dæmi um annan eins mannfagnað á landinu, allra sízt á tveggja ára fresti. Mikilvægustu boltaleikir draga ekki að sér annan eins fjölda og enn síður annan eins fjölda erlendra manna, þótt landsleikir séu. Hesturinn einn getur reglubundið kallað saman þennan mikla fjölda fólks.

Íslenzki hesturinn er sérstakur. Hann er lítill og loðinn miðaldahestur, skapgóður sjarmör og þægilegur í samanburði við önnur hestakyn, fæst í fleiri litbrigðum en önnur kyn og hann hefur fimm gangtegundir, meðan önnur hestakyn hafa þrjár og fáein hafa fjórar. Hann töltir bæði og skeiðar.

Af öllu æðinu umhverfis íslenzka hestinn hér heima og erlendis hefur risið grein af landbúnaði, sem stendur undir sér án hinna miklu afskipta ríkisvaldsins, sem einkenna hefðbundnar greinar, nautgripi, sauðfé og jafnvel garðyrkju. Íslenzki hesturinn er hluti markaðshagkerfis nútímans.

Á Hellu eru mörg hundruð keppnishesta. Sumir koma úr vögnum, sem eru hesthús að stærð. Umhverfis suma hestana er hópur aðstoðarfólks, sem stuðlar að gengi hestsins um ýmsa forkeppni, sem nær hámarki á landsmóti. Ef allur tími væri talinn, kostar þetta mörg hundruð þúsund krónur á hest.

Til mikils er líka að vinna, ef vel gengur. Margir gera það gott í hestamennsku, þótt aðrir lepji dauðann úr skel. Helzt er það ræktunin, sem er fjárhagslega erfið, enda getur vel ættað folald undan vinsælum stóðhesti og dýrkeyptri hryssu kostað nokkur hundruð þúsund krónur, þegar það fæðist.

Nánast hvern föstudag má sjá íslenzka reiðkennara í Leifsstöð á leið í kennslu út í heim. Þetta er sérstæður angi af þotuliðinu, sem fer vikulega milli landa í brýnum erindagerðum. Tekjurnar af íslenzka hestinum koma vel fram í tamningum, sölu og kennslu og margvíslegri þjónustu.

Meira en helmingur íslenzka hestakynsins er núna erlendis. Áhugamenn um hestinn eru miklu fleiri í útlöndum en hér á landi. Tímarit um íslenzka hestinn eru gefin út hér á landi á ensku og þýzku. Auk þess eru til 10-15 sérhæfð tímarit í helztu markaðslöndunum, sum hver í nokkur þúsund eintökum.

Alþjóðasamband íslenzka hestsins ákvað fyrir löngu, að allir þessir hestar skuli heita íslenzkum nöfnum. Löngu eftir að Jónar og Pálar verða týndir verða því til Sörlar og Blesur.

Jónas Kristjánsson

DV

Alls engin tímamót

Greinar

Ráðamenn landsins virðast lifa í sérstökum heimi, þegar þeir fara til útlanda, sérstaklega þegar þeir hitta starfsbræður sína. Þennan heim má sjá, þegar málgagn ríkisstjórnarinnar skýrir frá viðbrögðum þeirra við fundum, sem þeir sækja, til dæmis fundi Atlantshafsbandalagsins, sem nú var í Istanbul.

Þetta er enginn tímamótafundur bandalagsins. Erlendir fréttaskýrendur kalla hann: Beðið eftir Godot eða Beðið eftir nóvember. Með öðrum orðum eru allir að bíða eftir, að nýr forseti verði kosinn í Bandaríkjunum, svo að hjól samstarfs Vesturlanda geti byrjað að hökta fram að nýju.

Meðan George W. Bush er Bandaríkjaforseti reyna ráðamenn í Evrópu að tefja tímann, samþykkja eitthvað, sem heldur friðinn, en færir þeim engar skyldur. Menn samþykkja ekki að senda hermenn til Íraks, en samþykkja í staðinn að taka að sér að þjálfa írakska hermenn annars staðar í heiminum.

Frá því að Bush og stjórn hans lýstu algeru frati á Atlantshafsbandalagið fyrir þremur árum hefur verið biðstaða í málum þess. Það á erfitt með að fóta sig í lífinu, er að missa friðargæzlu á Balkanskaga til Evrópusambandsins og gengur illa að halda uppi friði í stríðshrjáðu Afganistan.

Öllum er ljóst, að Atlantshafsbandalagið er í vandræðum með sig og framtíð sína. Meðan Bush er forseti gerist ekki neitt annað en, að menn samþykkja gildisrýrar yfirlýsingar. Ef utanríkisráðherra Íslands trúir slíkum yfirlýsingum, er hann úti að aka í embætti sínu og ætti ekki að fjölyrða margt.

Bandaríkjastjórn hefur gert ýmislegt til sátta við Evrópu, en það dugar ekki að mati Frakklands, Þýzkalands og Spánar og ýmissa annarra landa. Fréttir af víðtækum stríðsglæpum Bandaríkjanna og augljóst þjóðarhatur Íraka á Bandaríkjunum veldur því, að evrópskir ráðamenn fara einstaklega varlega.

Allir vita þessa stöðu og tala um hana, nema ráðamenn Íslands, sem virðast ímynda sér, að tímamótaatburðir séu að gerast í Atlantshafsbandalaginu. Það, sem þar er að gerast, er einmitt andstæðan við tímamót. Menn eru að halda sjó meðan þeir skima eftir skárri tíð með Kerry í stað Bush.

Menn vilja sýna slétt og fellt yfirborð, þótt undir kraumi. En ábyrgðarlaust er af ráðamönnum Íslands að reyna að telja sér og öðrum trú um, að ástandið sé öfugt við veruleikann.

Jónas Kristjánsson

DV

Reiknað fríhendis

Greinar

Þótt Ólafur Ragnar Grímsson forseti hafi valtað yfir keppinauta sína um forsetaembættið með öllum þorra gildra atkvæða, var sigur hans ekki alger. Minni þáttaka en áður og þó enn frekar hin mörgu auðu atkvæði valda því, að hér eftir er næstum hægt að tala um hann sem umdeildan forseta.

Andstæðingar hans mikla fyrir sér, að hann hafi ekki fengið stuðning helmings kjósenda. Þeir telja saman þá, sem heima sátu, sem auðu skiluðu eða gerðu ógilt og sem kusu annan hinna tveggja. Með sama reikningi má benda á, að flokkar stjórnarinnar fengu síðast ekki fylgi helmings kjósenda.

Þáttakan og auðu atkvæðin varpa ekki miklum skugga á traust þjóðarinnar á forsetanum. Þau eru hins vegar ábending um, að andstæðingar fjölmiðlalaganna eiga ekki auðvelt tafl í þjóðaratkvæðagreiðslunni í haust. Þau benda til, að fjölmennur minnihluti styðji fjölmiðlastefnu stjórnvalda.

Ríkisstjórnin á mikið í auðu atkvæðunum, enda gaf málgagn forsætisráðherra út óbeina dagskipun á forsíðu um gildi auðra atkvæða. Ætla má, að það séu einkum eindregnir stuðningsmenn fjölmiðlalaganna, er valdi því, að auðir seðlar voru margfalt fleiri en verið hefur hér á landi.

Einnig má ætla, að hún eigi mikið í atkvæðum Baldurs Ágústssonar, sem byggði kosningabaráttu sína á andstöðu við málskotsréttinn og stuðningi við fjölmiðlafrumvarpið. Ætla má, að allur þorri fylgis hans muni í haust falla á sama veg og allur þorri þeirra, sem skiluðu auðu í kosningunum.

Í þriðja lagi má reikna með, að fjölmiðlalögin hafi nokkuð gott fylgi meðal þeirra, sem venjulega hafa komið á kjörstað, en sátu heima að þessu sinni. Að öllu samanlögðu má segja, að þriðjungur kjósenda hafi í forsetakosningunum gefið í skyn, að hann muni styðja fjölmiðlalögin í haust.

Þótt forsetinn hafi fengið mun meira fylgi en hér hefur fríhendis verið reiknað á fjölmiðlalögin, er óvíst, að allir kjósendur hans séu andvígir þeim. Búast má við, að nokkur meirihluti þjóðarinnar sé gegn þeim núna, en það getur breytzt í haust, ef stjórnarflokkarnir ná vopnum sínum.

Ef flokkar ríkisstjórnarinnar hvetja fólk til að sitja heima í þjóðaratkvæðagreiðslunni til að hindra þjóðarviljann í að komast yfir smíðaða þröskulda, jafngildir það uppgjöf hennar. Því má búast við snarpri baráttu um fjölmiðlalögin. Þar mun hvorugur aðilinn láta hinn eiga neitt inni hjá sér.

Forsetakosningarnar segja okkur ekki, hvernig atkvæði þjóðarinnar muni falla í haust. En þær benda eigi að síður til, að fylgismunur sjónarmiðanna sé ekki eindreginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Sálgreindur forseti

Greinar

Sálgreindur forseti

Justin Frank er sálfræðingur, prófessor í sálgreiningu við George Washington háskólann í Washington og höfundur nýútkominnar bókar um George W. Bush Bandaríkjaforseta: “Bush á bekknum, hugmyndaheimur forsetans.” Í stuttu máli telur Frank í bókinni, að Bandaríkjaforseti sé geðveikur.

Í bókinni notar Frank sömu aðferðir og CIA, bandaríska leyniþjónustan notar til að sálgreina leiðtoga erlendra ríkja. Greiningarnar hófust við lok síðasta heimsstríðs með athugunum á Hitler. Slíkar greiningar á leiðtogum Ísraels og Egyptalands voru þáttur í Camp David samkomulaginu 1978.

Að mati prófessorsins er drykkjusýki Bush forseta lykillinn að geðveiki hans. Hann var drykkfelldur fram á miðjan aldur og hætti ekki að drekka með aðferðum svokallaðs tólf spora kerfis, sem notað er hjá stofnunum á borð við SÁÁ og AA, heldur snerist hann skyndilega til kristinnar ofsatrúar.

Frank segir Bandaríkjaforseta vera drykkjusjúkling, sem ekki hafi fengið eðlilega meðferð. Hann segir hann vænisjúkan stórmennskubrjálæðing, haldinn kvalalosta. Sem unglingur hafi hann leikið sér að því að sprengja froska. Og sjö ára gamall hafi hann ekki getað sýnt sorg við lát systur sinnar.

Frank kennir uppeldi móðurinnar um þetta. Fjölskylduvinir telji hana vekja ótta í umhverfi sínu og hún hafi aldrei náð neinu sambandi við soninn. Síðan varð hann drykkjusjúklingur og skaddaðist andlega við það. Hegðunarmynztur hans sé svipað og annarra slíkra, en hinir eru bara ekki forsetar.

Í bókinni og viðtölum í tengslum við útkomu hennar hefur Frank rakið ýmsa hegðun forsetans. Þar á meðal er gleði hans yfir aftökum sakamanna, tilhneiging hans til að lyfta sér yfir lög og rétt, sýndarmennska hans, svo sem þegar hann stóð í flugmannabúningi og lýsti yfir lokum Íraksstríðsins.

Aðstoðarmenn Bush hafa nafnlaust sagt frá miklum geðsveiflum Bush, þegar hann vitnar eina mínútu upp úr biblíunni og tvinnar saman ókvæðisorðum næstu mínútuna. Frank telur Bush rugla saman guði, Bandaríkjunum og sjálfum sér. Hann sé ófær um að stjórna landi og þjóð og eigi að hætta sem forseti.

Sálfræðiprófessorinn bendir á ýmsa starfsbræður, sem styðji skoðun hans, svo sem James Grotstein prófessor við Kaliforníuháskóla í Los Angeles og Irvin Yalom prófessor við Stanford háskóla. Hann ver aðferðir sínar með því að bera þær saman við aðferðirnar, sem leyniþjónustan notar sjálf.

Samkvæmt bók Franks er forsetinn maður, sem forðast sorg og víkur sér undan ábyrgð. Hann sé eins og átta ára gamalt barn að leika Superman og trúi því, að hann hafi sigrað í stríði.

Jónas Kristjánsson

DV

Spánskt fyrir sjónir

Greinar

Neytendablaðið efast í leiðara um, að áhugi stjórnvalda á hagsmunum almennings hafi ráðið ferð þeirra með frumvarp um fjölmiðla. Stjórnvöldin hafi almennt ekki sýnt hagsmunum almennings neinn sérstakan sóma. Nefnir blaðið innheimtulög, matvælaverð og fjársvelti Samkeppnisstofnar sem dæmi.

Raunar eru það ekki bara mál neytenda, sem sitja á hakanum hjá núverandi ríkisstjórn. Almennt hefur hún lítinn áhuga á hagsmunum smælingja. Hún sveltir sjúkrahús og skóla. Hún reynir að brjóta niður velferðarkerfið og búa til kerfi, þar sem menn greiða sjálfir sem mest fyrir opinbera þjónustu.

Hugmyndafræðilega ræður Sjálfstæðisflokkurinn ríkisstjórn landsins, studdur Framsóknarflokknum, sem hefur verið að flytjast til hægri í pólitíkinni. Í þessari hugmyndafræði skiptir aukið og sem allra mest svigrúm einkaframtaksins og fjármagnsins miklu meira máli en velferð smælingjanna.

Kjarni málsins er, að við höfum lengi búið við ríkisstjórn í þágu hinna sterku og hinna ríku. Ekki er eðlilegur liður í þeirri hægri sinnuðu hugmyndafræði, að ríkið ráðskist með fjölmiðla. Það er sagnfræðileg tilviljun, að ríkisstjórnin fékk ákveðnar sviptingar í fjölmiðlun landsins á heilann.

Fyrir tveimur árum áttu aðilar tengdir Sjálfstæðisflokknum DV og aðilar tengdir honum sóttust eftir væntanlegu þrotabúi Stöðvar 2. Ef þau dæmi hefðu gengið upp, hefði ríkisstjórnin ekki haft neinn áhuga á einokun og hringamyndun fjölmiðla. Ríkisstjórnin hefði talið sig og sín gæludýr í góðum málum.

Með fjölmiðlalögunum eru flokkar ríkisstjórnarinnar ekki að gæta almannahagsmuna, heldur að reyna að hefna sín á þeim aðilum, sem hindruðu fyrirhugaða einokun hennar á mikilvægum fjölmiðlum. Eins og Neytendablaðið bendir á, kemur þessi skyndilegi áhugi stjórnvalda heldur spánskt fyrir sjónir.

Ríkisstjórnin er nú að innleiða skólagjöld og spítalagjöld, annars vegar til að spara ríkispeninga og hins vegar til að binda þessa þjónustu við þá, sem betur mega sín og hafa ráð á að borga sinn hluta. Þetta er hugmyndafræði, sem hefur í auknum mæli verið að ryðja sér til rúms á Vesturlöndum.

Gegn þessari hugmyndafræði er lítið um varnir, nema helzt frá reglugerðum Evrópusambandsins, sem íslenzk stjórnvöld neyðast til að láta þýða á íslenzku vegna skuldbindinga sinna á vegum Evrópska efnahagssvæðisins. Í þessum reglum er oft mikil velferðarhugsun, margvísleg verndun smælingja.

Þegar hægri sinnuð ríkisstjórn tekur upp hjá sjálfri sér að berjast fyrir meintum almannahagsmunum í einu og einstöku máli, er eðlilegt, að slíkt komi okkur spánskt fyrir sjónir.

Jónas Kristjánsson

DV

Kraftaverkið

Greinar

Meðan fótbolti sundrar þjóðum Evrópu samþykktu landsfeður 25 ríkja í Evrópu stjórnarskrá álfunnar í tæplega 350 greinum. Meðan fótboltabullur með málaða þjóðfánaliti í andlitinu drekktu þjóðsöngvum keppninauta í bauli, ákváðu landsfeður evrópskan forseta, utanríkisráðherra og ríkissaksóknara.

Meðan enskir drykkjusjúklingar urðu sér eins og venjulega til skammar á götum í Portúgal leystu landsfeðurnir erfiða hnúta og höfnuðu kröfu páfans um að geta kristinnar trúar í stjórnarskránni. Síðast en ekki sízt afgreiddu þeir vægi atkvæða milli ríkja og fólksfjölda í evrópskum kosningum.

Landsfeður í Evrópu eru komnir langt fram úr lýðnum, sem baular á þjóðsöngva annarra ríkja og drekkur frá sér ráð og rænu á opinberum vettvangi. Landsfeðurnir hafa sameinað álfu, sem vill ekki sameinast. Síðan eiga þeir eftir að selja fótboltalýðnum og öðrum almenningi niðurstöðuna.

Næsta vor tekur evrópska stjórnarskráin gildi, að vísu ekki fyrir öll lönd. Bretar og Danir munu líklega fella plaggið í þjóðaratkvæðagreiðslum, alveg eins og þeir vildu ekki vera með í evrunni. Evrópusinnuðu ríkin með Frakkland og Þýzkaland í fararbroddi munu staðfesta stjórnarskrána.

Tveggja hraða Evrópa fær aukna staðfestingu. Fremst fara ríkin, sem taka allan pakkann. Eftir fylgja nokkur ríki, sem spyrna við fótum og vilja varðveita leifar af fullveldi sínu. Norðmenn munu fyrr eða síðar stökkva í þann flokk og skilja Íslendinga og Serba eftir utan Evrópusambandsins.

Lausn fannst á öllum ágreiningsefnum evrópsku leiðtoganna nema nafn nýs framkvæmdastjóra. Það kemur í lok mánaðarins. Afrekið vann Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, sem tók fyrir hálfu ári við formennsku í Evrópu af Ítalanum Silvio Berlusconi, sem hafði klúðrað dæminu fyrir hálfu ári.

Ahern er eindregin andstæða leiðtoga á borð við Berlusconi og Davíð Oddsson, sem ekki finna sættir, heldur snapa fæting við allt og alla. Það eru menn á borð við Ahern, sem hafa með seiglu framleitt evrópskt samstarf undanfarna áratugi og komið því á blússandi ferð sem efnahagsundur heimsins.

Gallinn við þessa frægðarsiglingu Evrópusambandsins er, að fólkið í aðildarríkjum þess skilur alls ekki, hvað því hefur verið fært með sameiginlegri mynt, sameiginlegum markaði og ekki sízt sameiginlegum reglugerðum, sem almennt eru litnar illu auga af fótboltabullum og öðrum almenningi í Evrópu.

Evrópusambandið á nú aðeins eftir einn þröskuld. Það á eftir að selja fólki þá staðreynd, að sambandið er kraftaverk, sem hefur fært álfunni almenna velmegun og mun gera það áfram.

Jónas Kristjánsson

DV

Kraftaverkið

Greinar

Meðan fótbolti sundrar þjóðum Evrópu samþykktu landsfeður 25 ríkja í Evrópu stjórnarskrá álfunnar í tæplega 350 greinum. Meðan fótboltabullur með málaða þjóðfánaliti í andlitinu drekktu þjóðsöngvum keppninauta í bauli, ákváðu landsfeður evrópskan forseta, utanríkisráðherra og ríkissaksóknara.

Meðan enskir drykkjusjúklingar urðu sér eins og venjulega til skammar á götum í Portúgal leystu landsfeðurnir erfiða hnúta og höfnuðu kröfu páfans um að geta kristinnar trúar í stjórnarskránni. Síðast en ekki sízt afgreiddu þeir vægi atkvæða milli ríkja og fólksfjölda í evrópskum kosningum.

Landsfeður í Evrópu eru komnir langt fram úr lýðnum, sem baular á þjóðsöngva annarra ríkja og drekkur frá sér ráð og rænu á opinberum vettvangi. Landsfeðurnir hafa sameinað álfu, sem vill ekki sameinast. Síðan eiga þeir eftir að selja fótboltalýðnum og öðrum almenningi niðurstöðuna.

Næsta vor tekur evrópska stjórnarskráin gildi, að vísu ekki fyrir öll lönd. Bretar og Danir munu líklega fella plaggið í þjóðaratkvæðagreiðslum, alveg eins og þeir vildu ekki vera með í evrunni. Evrópusinnuðu ríkin með Frakkland og Þýzkaland í fararbroddi munu staðfesta stjórnarskrána.

Tveggja hraða Evrópa fær aukna staðfestingu. Fremst fara ríkin, sem taka allan pakkann. Eftir fylgja nokkur ríki, sem spyrna við fótum og vilja varðveita leifar af fullveldi sínu. Norðmenn munu fyrr eða síðar stökkva í þann flokk og skilja Íslendinga og Serba eftir utan Evrópusambandsins.

Lausn fannst á öllum ágreiningsefnum evrópsku leiðtoganna nema nafn nýs framkvæmdastjóra. Það kemur í lok mánaðarins. Afrekið vann Bertie Ahern, forsætisráðherra Írlands, sem tók fyrir hálfu ári við formennsku í Evrópu af Ítalanum Silvio Berlusconi, sem hafði klúðrað dæminu fyrir hálfu ári.

Ahern er eindregin andstæða leiðtoga á borð við Berlusconi og Davíð Oddsson, sem ekki finna sættir, heldur snapa fæting við allt og alla. Það eru menn á borð við Ahern, sem hafa með seiglu framleitt evrópskt samstarf undanfarna áratugi og komið því á blússandi ferð sem efnahagsundur heimsins.

Gallinn við þessa frægðarsiglingu Evrópusambandsins er, að fólkið í aðildarríkjum þess skilur alls ekki, hvað því hefur verið fært með sameiginlegri mynt, sameiginlegum markaði og ekki sízt sameiginlegum reglugerðum, sem almennt eru litnar illu auga af fótboltabullum og öðrum almenningi í Evrópu.

Evrópusambandið á nú aðeins eftir einn þröskuld. Það á eftir að selja fólki þá staðreynd, að sambandið er kraftaverk, sem hefur fært álfunni almenna velmegun og mun gera það áfram.

Jónas Kristjánsson

DV