Greinar

Hræðslulið í hremmingum

Greinar

Erfiðleikar Steingríms Hermannssonar við myndun stjórnar sýna, að seint og sennilega alls ekki næst saman stjórn, sem getur setið langleiðina út kjörtímabilið. Einfaldast og fljótlegast er því að efna til kosninga sem fyrst og leyfa gömlu ofstjórninni að sitja á meðan.

Ekki er sérstök ástæða til að ætla, að ný ofstjórn eftir kosningar verði skárri en aðrar. Hins vegar má búast við, að hún endurspegli betur ríkjandi viðhorf og njóti því meira trausts hjá fólki. Slíkt þykir gott veganesti, þegar talið er, að grípa þurfi til stórræða.

Áhugi ýmissa stjórnmálamanna á nýrri stjórnarmyndun byggist ekki á því sjónarmiði, að nauðsynlegar séu aðgerðir í efnahagsmálum, heldur á hræðslu þeirra við kosningar. Þetta á einkum við um foringja Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Borgaraflokksins.

Af hálfu hins síðastnefnda hefur margoft komið í ljós, að flokkinn þyrstir í að komast í stjórn, nánast með hverjum, sem til þess fengist. Ráðherrastólar yrðu þá virðulegur undanfari að hinu margspáða andláti flokksins, auk hins fornkveðna, að frestur er á illu beztur.

Ofan á skeytingarleysi þjóðarinnar um Alþýðubandalagið, sem birtist í skoðanakönnunum, leggst svo formannsvandinn. Ólafur Ragnar Grímsson er umsetinn innanflokksóvinum, sem munu kenna honum sem formanni um ósigur flokksins í næstu kosningum.

Það var nokkuð sniðugt hugsað hjá Steingrími Hermannssyni að tefla upp á slíka veikleika og safna saman hræðslubandalagi allra flokkanna þriggja, sem ekki þola kosningar um þessar mundir, og fylkja þeim undir ofstjórnarstefnu og forsæti Framsóknarflokksins.

Dæmið byggðist á þeim styrk Framsóknarflokksins, að hann var eini flokkurinn af fyrirhuguðum fjórum stjórnarflokkum, sem gat látið sér standa á sama, hvort kosningar yrðu eða ekki. Samkvæmt valdataflsfræðum átti það að gefa Steingrími góða samningsaðstöðu.

Af ýmsum ástæðum gekk þetta ekki upp. Borgaraflokkurinn fann upp á þeim óskunda, að telja sér trú um, að hann gæti ráðið ferðinni með því að semja í allar áttir í senn. Auk þess átti formaðurinn sælar minningar úr húsi, sem hann hafði byggt við Bolholt.

Alþýðubandalagið sá líka, að ótækt væri að fara í stjórn með Steingrími, ef Kvennalistinn væri utan stjórnar með vinsælar hugmyndir um þjóðstjórn til bráðabirgða og snarlegar kosningar. Enda hefur formaður bandalagsins ekki getað dulið gremju sína.

Niðurstaða þessara hremminga varð sú, að formaður Framsóknarflokksins hefur talið sig tilneyddan að fara út í vafasamar hugmyndir um minnihlutastjórn, sem kæmi í gegn efnahagsofstjórn og síðan fjárlögum með einhvers konar hlutleysi utanstjórnarþingmanna.

Steingrímur telur sig hafa fordæmi fyrir slíku í ýmsum nágrannaríkjum. En hætt er við þungum róðri, ef áhyggjur hans af velferð nokkurra skuldugra frystihúsa Sambandsins leiða til myndunar stjórnar með A-flokkunum einum og aðeins 32 þingmenn.

Enginn heimsendir verður, þótt stjórnmálaflokkarnir haldi áfram enn um sinn að reyna að berja saman ríkisstjórn, sem ekki nýtur trausts úr kosningum. Altjend má vona, að þjóðin hafi í stjórnarkreppunni frið fyrir ýmissi ofstjórnaráráttu í efnahagsmálum.

Heppilegra væri að fá sem allra fyrst nýja ríkisstjórn með nýjan þingmeirihluta að baki sér, jafnvel þótt ástæðulaust sé að gera sér gyllivonir um afrek hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Lélegt var og lokið er

Greinar

Dauðastríð ríkisstjórnarinnar í beinni útsendingu Stöðvar 2 var eftirminnilegur og dæmigerður punktur aftan við harmsögu, sem kalla má “Þrír hanar á sama haug”. Sérstaklega er athyglisvert, að formennirnir skuli telja sér hag í að heyja þetta stríð á skjánum.

Ríkisstjórnin, sem nú hefur sagt af sér, þjóðinni til nokkurs léttis, var alla tíð hálfgert leikhús. Þar tjáðu menn sig með miklum tilþrifum og stórum yfirlýsingum, en kunnu lítt til hversdagslegra verka, svo sem að passa aurana, sem ríkið fékk til varðveizlu og ávöxtunar.

Ágætur mælir á nytsemi ríkisstjórnar er, hve lítið fer fyrir henni og hve sjaldan hún er í fréttum. Það eru tímar góðæris, þegar allir keppast við að rækta garðinn sinn í friði. Á þessum mælikvarða fékk hin nýlátna ríkisstjórn lægstu einkunn íslenzkrar stjórnmálasögu.

Fjölmiðlar fengu ekki einu sinni að hafa sína gúrkutíð í friði. Daglega var ríkisstjórnin í heild eða einstakir ráðherrar uppi á leiksviði fréttanna. Sífellt voru þeir að eigin sögn að bjarga málum fyrir horn. Ævinlega var það með eins miklum hávaða og frekast var unnt.

Ríkisstjórnin fór af stað með loforð um stöðugleika, sem margir höfðu lengi þráð. Aðferðir hennar dugðu ekki til að standa við loforðið, þrátt fyrir ágætan meðbyr ytri aðstæðna. Um síðustu helgi var ráðherrunum orðið ljóst, að stjórnin hafði riðið sér rembihnút.

Til þess að skilja þetta, þurfa kjósendur ekki annað en að horfa á leikræna tjáningu formannanna í sjónvarpi og spyrja sjálfa sig: “Mundi ég treysta einhverjum eða öllum þessara manna til að reka svínabú á Vatnsleysuströnd?” Svarið yrði auðvitað samhljóma “Nei”.

Ef þeir tækju við af Þorvaldi í Síld og fiski, kæmu þeir umsvifalaust fyrirtækinu í varanlegan og vaxandi yfirdrátt í bankanum. Þeir mundu ráða til sín hagfræðingagengi og taka upp hvers kyns bókfærslu og undanfærslu. Þeir færu að væla um háa vexti og há laun.

Öllum má ljóst vera, að svínabúið færi fljótt fjandans til, enda gæti það ekki látið Seðlabankann prenta handa sér seðla og skyldað þjóðina til að kaupa afurðirnar á uppsettu verði. Formennirnir yrðu ekki ríkir menn, ef þeir þyrftu að vinna sig upp í atvinnulífinu.

Harmleikurinn er því miður fólginn í, að ráðherrarnir voru einmitt ötulastir við að reyna að reka atvinnulífið í landinu. Þeir ímynduðu sér, með sjávarútvegsráðherra í broddi fylkingar, að þeir gætu stjórnað atvinnulífinu. Þeir settu sjávarútveginn beint á höfuðið.

Ef hægt er að gefa viðtakandi ríkisstjórn eitt ráð, byggt á reynslu hinnar fyrri, þá er það þetta. “Látið fólkið í friði. Ruglið ekki athafnir þess með efnahagslegu skipulagi, svo sem gengi, vöxtum, bókfærslum, kvótum og skömmtun. Reynið heldur að passa ríkiskassann.”

Lélegt var og lokið er. Rýtingarnir hafa gengið í bakið á víxl. Opinberað hefur verið margslungið undirferli, sem ekki náði ætluðum árangri. Leikararnir þrír hafa tapað. Meira að segja hefur fallið á utanríkisráðherra, sem hingað til hefur haft teflon-húð eins og Reagan.

Steingrími hefur enn ekki tekizt að mynda hræðslubandalag Alþýðuflokks, Alþýðubandalags og Borgaraflokks undir stjórn og stefnu Framsóknarflokks. Hinn dasaði Borgaraflokkur hefur ekki fallizt á að hlaupa í slíka stjórn til að koma í veg fyrir kosningar.

Útlit er því fyrir væna stjórnarkreppu og kosningar, svo að kjósendur með of lítinn stjórnmálaþroska fái færi á að kjósa yfir sig nýja leiksýningu af sama tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Örlátir stigamenn

Greinar

Íslenzka þjóðin er svo stórauðug, að ríkisstjórn hennar gerði samgönguráðherra sinn út til Seoul að afla forsendu fyrir byggingu eins milljarðs króna handboltahallar í Laugardal. Hlaut ráðherrann hálfan sigur í þeirri ferð, því að höllina þarf að reisa fyrir árið 1995.

Fyrstu áætlanir um hallarsmíðina hafa 300 milljónir króna að niðurstöðutölum. Eftir teikningum að dæma er kostnaður varlega áætlaður. Auðvelt á að vera að nota gamalreynda aðferð og margfalda óskhyggjuna með 3,3 til að fá raunveruleika upp á milljarð.

Á sama tíma og ríkisstjórnin sendir ráðherra í mikilmennaleik af þessu tagi eru hinir ráðherrarnir að hnakkrífast um, hvernig fá megi botn í fjárhag ríkissjóðs og nokkurra helztu atvinnuvega landsins. Það er eins og þeir séu búnir að gleyma, hversu ríkir þeir eru.

Við nánari athugun verður þó ljóst, að beint samband er milli handboltahallarinnar og stjórnarkreppunnar. Ráðherrar, sem í ölæði atkvæðakaupa að kvöldlagi strá þjóðarpeningunum í kringum sig, vakna að morgni með alvarlega timburmenn og galtómt ávísanahefti.

Þess er skemmst að minnast, að fjármálaráðherra gerði sig breiðan á dögunum vegna umframeyðslu ýmissa opinberra stofnana og kallaði forstöðumenn þeirra “síbrotamenn”. Hann snarþagnaði svo, er í ljós kom, að ráðherrarnir voru mestu síbrotamennirnir.

Í rauninni býr þjóðin aðeins við tvo meginvanda. Annar er stjórnlaust sukk þessarar ríkisstjórnar og þeirra, sem á undan henni voru. Hinn er gersamlega ástæðulaus sannfæring ráðherra, að þeir séu bezt fallnir til að stjórna fjármálum og hagmálum atvinnulífsins.

Einkennilegt er, að menn, sem mega ekki svo sjá eina krónu, að þeir eyði henni ekki fjórum sinnum samtímis, með aðstoð efnahagsráðgjafa, skuli ímynda sér, að þeir bæti efnahagsástandið með því að ákveða í smáatriðum, hvernig efnahagslífið skuli vera í landinu.

Ráðherrar, sem samþykkja handboltahöll á færibandi, telja sig geta ákveðið, hvert skuli vera gengi krónunnar, hvaða vextir fjárskuldbindinga henti þjóðinni, hvaða sjóði skuli tæma hverju sinni, hversu mikinn landbúnað þjóðin þoli og hverjir megi afla gjaldeyris.

Ráðherrar, sem eru einhuga um, að hinni mikillátu þjóð dugi ekkert minna en eins milljarðs handboltahöll, eru nú að þrátta um, hvaða millifærslur, niðurfærslur, bakfærslur, allskynsfærslur og undanfærslur séu heppilegastar til að rupla þjóðina eina ferðina enn.

Ef ríkisstjórnin sæi hið augljósa, að gengi krónunnar eigi að finna sjálft sitt jafnvægi, að vextir fjárskuldbindinga eigi að finna sjálfir sitt jafnvægi, að ekki skuli millifæra, niðurfæra, bakfæra, allskynsfæra og undanfæra í efnahagskerfinu, má fara að ræða handboltahöll.

Ef ríkisstjórnin hættir að halda uppi krónugengi með handafli, hættir að halda niðri vöxtum með handafli, hættir að millifæra hluti bakatil í atvinnulífinu, verður þjóðin fljótlega svo rík, að hana munar ekkert um að reisa handboltahöll fyrir einn milljarð króna.

Ef ríkisstjórnin vildi þar á ofan gera svo vel að eyða sjálf ekki um efni fram og héldi sér, án aukinnar skattheimtu, innan við ramma fjárlaga og lánsfjárlaga, mundi hún stuðla að minni spennu og léttbærara frelsi í gengisskráningu, vöxtum og athafnalífi yfirleitt.

Þá mundum við léttilega hafa efni á hálfs milljarðs þjóðminjasafni og hálfs milljarðs náttúrugripasafni ofan á eins milljarðs handboltahöll. Og þótt fleira væri.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðnýtt sjávarsíða

Greinar

Á vegum ríkisstjórnarinnar hefur að undanförnu verið gælt við hugmyndir um að þjóðnýta sjávarútveginn. Það yrði framkvæmt á þann hátt, að bankar eignuðust atvinnuveginn smám saman með því að breyta lánum til sjávarútvegs í hlutabréf hjá skuldunautunum.

Hugmyndirnar voru til umræðu í svokallaðri niðurfærslunefnd, sem meðal annars var skipuð efnahagsráðunauti ríkisstjórnarinnar, formanni bankastjórnar Seðlabankans og nokkrum fleiri embættismönnum, sem aldir eru upp á stjórnarskrifstofum í Reykjavík.

Þessar hugmyndir hafa ekki vakið verðskuldaða athygli. Þó hefur óbeint verið tekið undir þær í Alþýðusambandi Íslands. Forseti þess lagði til í fyrradag, að ríkið eignaðist 20% af hlutafé fyrirtækja í sjávarútvegi og fengi tvo menn í stjórn sérhvers þeirra.

Væntanlega verða þjóðnýtingaráformin lögð til hliðar að sinni. En þau eru engan veginn dauð, því að miklir valdamenn standa að baki þeirra, þar á meðal tveir hinir valdamestu þeirra og ráðuneytisstjóri sjávarútvegsins að auki. Allir starfa þeir í umboði ríkisstjórnarinnar.

Ennfremur eru miklir hagsmunir að baki. Hugsið ykkur, hve margir pólitískir auðnuleysingjar í Reykjavík gætu fengið stjórnarstóla í fyrirtækjum úti um allt land, ef þjóðnýtingin yrði að veruleika. Þetta er þverpólitískt áhugamál, sem ekki má vanmeta.

Jarðvegur slíkra hugmynda virðist góður um þessar mundir. Í gær stakk Þjóðviljinn upp á, að stóreignamenn yrðu gerðir gjaldþrota á tíu árum með því að taka af þeim 10% eignanna á hverju ári. Þetta er sama aðferð og beitt var við þjóðnýtingu austan járntjalds.

Tvö atriði hafa umfram önnur fleytt sjávarútveginum upp á sker þjóðnýtingaráforma á vegum núverandi ríkisstjórnar. Annað atriðið liggur í augum uppi. Það er, að áratugum saman hefur rangri gengisskráningu verið beitt til að flytja fjármagn úr sjávarútvegi.

Hitt atriðið hefur dulizt flestum hingað til. Það er, að allra síðustu árin hefur sjávarútvegsráðherra byggt upp skömmtunarkerfi, sem beitir kvótum og nú síðast næturlöngum biðröðum til að flytja völd og ábyrgð úr sjávarplássunum inn á stjórnarkontóra í Reykjavík.

Margoft og einkum í þessu dagblaði hefur verið bent á, hvað eigi að gera til að snúa við þeirri öfugþróun í sjávarútvegi, sem hér hefur verið lýst. Því miður hefur sjávarútvegsfólk ekki borið gæfu til að taka þær hugmyndir upp og gera að sínum baráttumálum.

Annars vegar er brýnt að taka handaflsvald gengisskráningar af ríkisstjórn og Seðlabanka og koma upp opnum gjaldeyrismarkaði. Þeir, sem afla gjaldeyris, geta þar selt gjaldeyri þeim, sem vilja nota gjaldeyri, og á verði, sem ræðst hverju sinni af framboði og eftirspurn.

Hins vegar er brýnt að taka upp sölu veiðileyfa til þeirra, sem hæst bjóða, og leyfa frjálsan markað með hin seldu leyfi, svo að heilbrigð rekstrarsjónarmið geti tekið við af miðstýringu kvótakerfisins. Þetta er ekki síður brýnt en afnám opinberrar gengisskráningar.

Því miður skilur fólkið við sjávarsíðuna ekki kosti þess, að sala veiðileyfa leysi kvótakerfið af hólmi. Þaðan koma jafnan harðvítug mótmæli, þegar minnzt er á veiðileyfasölu eða auðlindaskatt. Þetta er skilningsleysið, sem hefur framkallað skömmtunarvald í Reykjavík.

Meðan sjávarsíðan sér ekki og skilur ekki hagsmuni sína, er ljóst, að sjávarútvegurinn mun halda áfram að síga niður í þjóðnýtinguna, sem bíður á næsta leiti.

Jónas Kristjánsson

DV

Látið okkur í friði

Greinar

Í ævintýrið um nýju fötin keisararns vantar kaflann um samskipti ráðherranna, sem deildu um, hvort fötin hefðu verið rauð eða græn, köflótt eða teinótt, úr líni eða silki. Kaflinn er líkur þeim, sem við fylgjumst með í harmþrunginni spennusögu núverandi ríkisstjórnar.

Ráðherrar okkar búa í þjóðfélagi, þar sem vaxtarverkir eru miklir. Hvarvetna má sjá framtak, sem kostar lánsfé. Alls staðar er auglýst eftir fólki til starfa. Peningar eru dýrir, af því að skortur er á þeim. Og ýmsir starfsmenn eru dýrir, af því að skortur er á þeim.

Mikla skipulagshyggju þarf til að búa til kreppu úr þessu ástandi. En það hefur ríkisstjórninni tekizt. Hún hefur komið sér upp ímyndunarheimi, sem haldið er við af hagfræðingum og blaðamönnum, sem eru að vinna sig í álit hjá valdamönnum í þjóðfélaginu.

Ríkisstjórnin gæti vel vitað eins og við hin, að erlendum ferðamönnum hefur fækkað, af því að gengi krónunnar er of hátt skráð. Okkur munar lítið um þessa ferðamenn, en þeir eru þó eins konar hitamælir, sem segir okkur sögu, er ríkisstjórnin neitar að hlusta á.

Skipulagshyggja ríkisstjórnarinnar og ráðunauta hennar einkennist af þeirri skoðun, að sjúkdómarnir byggist á og felist í háum hita. Aðgerðir þeirra beinast því að hitamælum af ýmsu tagi. Til dæmis er breytt tölum á skölum eða hitamælar hreinlega bannaðir.

Hornsteinn vandamálafræða ríkisstjórnarinnar er, að krónugengið megi ekki falla eða að minnsta kosti ekki meira en 3%. Hagfræðingar hennar hafa nefnilega reiknað út, að gengislækkanir étist upp, en endist ekki. Í draumaheimi heimta menn varanlegar lausnir.

Mönnum væri hollt að hugleiða, hvort sífelldar gengislækkanir síðustu áratugi hafi framleitt kreppu í þjóðfélaginu eða komið því á hausinn. Ekki mundi saka að hugleiða, hvert ástandið væri nú, ef gengi krónunnar hefði ekki sífellt verið lækkað, þegar syrti í álinn.

Annar hornsteinn skottulæknanna er, að vextir þurfi að lækka og helzt raunvextir líka. Í alvörulöndum eru þó háir og hækkandi vextir taldir vænlegir til að draga úr of mikilli þenslu og skapa meira jafnvægi í athafnaþránni. En ráðherrarnir lifa ekki í alvörulandi.

Þriðji hornsteinn ráðherranna er, að einstæðu mæðurnar og annað láglaunafólk sé á of háu kaupi. Þess vegna er kastað fram geðveikislegum hugmyndum um að færa lágu launin í landinu niður um 9% og flytja þannig nokkra milljarða árlega frá fátækum til ríkra.

Reynslan og skynsemin segja okkur, að launafrysting og launalækkun gilda aðeins um láglaunafólk, en ekki um þá, sem njóta launaskriðs. Þessar aðhaldsaðgerðir ná ekki heldur til forstjóra, sem eru svo önnum kafnir við laxveiðar, að fyrirtæki þeirra eru að fara á hausinn.

Forstjóranefndin, sem skipuð var til að bjarga málum, er dæmigerð fyrir lánleysi ríkisstjórnarinnar og raunar upphaf vandræða hennar. Forstjórarnir sáu það ráð helzt til bjargar, að ríkisstjórnin ómerkti kjarasamninga, sem forstjórarnir voru nýlega búnir að undirrita.

Þegar hornsteinar stjórnvaldsgerða eru slíkir, getur niðurstaðan aðeins falizt í sjóðandi rugli á borð við niðurfærslur, millifærslur eða annað ómengað handafl, sem lögmál lífsins munu síðan ómerkja. Þannig bakar stjórnin þjóðinni efnahagsvandræði af pólitískum toga.

Gott væri að fá einhvern tíma ríkisstjórn, sem reyndi að passa peningakassann sinn og færi að því hollráði vitringsins Lao Tse að láta fólkið í landinu í friði.

Jónas Kristjánsson

DV

Skipulagt með skömmtun

Greinar

Hin vikulega biðröð í Tryggvagötunni eftir leyfi til að afla gjaldeyris með því að flytja út ferskan fisk hefur lengzt úr hálfum sólarhring í hálfan annan. Ekki er vitað til, að biðraðir í Sovétríkjunum hafi náð svo háum aldri, þegar ástandið var sem verst þar eystra.

Biðraðirnar, sem Landssamband íslenzkra útvegsmanna hefur komið á fót í Tryggvagötunni, eru þó skárri en pukrið, sem sjávarútvegsráðherra hefur efnt til í ráðuneyti sínu í sama skyni. Menn fá þó afgreiðslu hjá landssambandinu, ef þeir hafa úthald til að bíða.

Eins og íslenzks stjórnvitrings er von og vísa hefur sjávarútvegsráðherra bannað, að upplýst sé, hverjir hafi hverju sinni náðarsamlegast fengið leyfi til að afla gjaldeyris fyrir þjóðarbúið með því að flytja út ferskan fisk. Niðurstaða skömmtunar hans er leyndarmál.

Þjóðin sættir sig nokkurn veginn við þetta ástand, sem á sér ekki margar hliðstæður í nálægum löndum. Fólk vill í rauninni skömmtun og biðraðir, ef ekki þarf að nefna hlutina þessum réttu nöfnum, heldur öðrum nöfnum á borð við “kvóta” eða “niðurfærslu”.

Ef frjáls markaður fær áhrif á einhverju sviði, svo sem tíðkast í útlandinu, verður fljótlega mikil reiði í garð hans. Almenningur og stjórnmálamenn ráðast á “gráan markað” og fá svartan í hausinn. Þjóðin hamast gegn “vaxtaokri” og rænir gamla fólkið um leið.

Í raun byggist þessi munur Íslands og nálægra landa aðallega á því, að hér vilja menn skipuleggja vandamál, sem upp koma. Þessi vandamál stafa yfirleitt af fyrra skipulagi sömu vandamála á lægra stigi. Afleiðingin er meiri vandamál, sem þarf að skipuleggja meira.

Þetta skýrir viðgang Framsóknarstefnu hjá flestum, ef ekki öllum stjórnmálaflokkum hér á landi. Þannig hefur landbúnaðurinn verið rústaður sem atvinnuvegur og honum breytt í félagsmálastofnun, er brennir milljörðum af peningum skattborgaranna á hverju ári.

Meðan Jón Helgason hefur haft lítið að gera að bæta við nokkrum refabúum og graskögglaverum, hefur Halldór Ásgrímsson haft mikil umsvif við að drepa sjávarútveginn, sem var hornsteinn þjóðfélagsins, áður en hinn mikli skömmtunar- og kvótastjóri komst til valda.

Sjávarútvegsráðherra hefur gott lag á skömmtunarkerfinu. Hann lætur til dæmis stjórnendur Landssambands íslenzkra útvegsmanna éta úr lófa sér með því að afhenda þeim lítinn hluta skömmtunarvaldsins, svo að þeir hafi líka eitthvað til að leika sér að.

Þjóðarvilji og ráðherrahagsmunir fara saman og orsaka hinn sérstæða íslenzka efnahagsvanda, sem magnaður er með endalausum handaflsgerðum í vöxtum, gengisskráningu, seðlaprentun, niðurgreiðslum, millifærslum, uppbótum, niðurfærslum og allskynsfærslum.

Ráðherrar hafa skömmtunarvaldið, sem byggzt hefur upp í mörgum handaflsgerðum á löngum tíma. Það er valdið, sem máli skiptir í skömmtunarríki. Fyrir því valdi krjúpa flestir, líka þeir, sem verið er að misþyrma hverju sinni. Og margir vilja hlutdeild í þessu valdi.

Vegna alls þessa er ástæðulaust að gera því skóna, að ríkisstjórnin muni springa í loft upp, þótt ráðherrar séu ósammála um, hvort skammta skuli upp, niður, út eða suður. Þeir eru sammála um, að skammta þurfi, og að heppilegast sé, að þeir sjálfir sjái um skömmtunina.

Sá, sem orðinn er skömmtunarstjóri, hættir því ekki af fúsum vilja. Því mun ríkisstjórnin hanga áfram og reyna að skipuleggja heimagerða vandann enn frekar.

Jónas Kristjánsson

DV

Klisjuburðarmenn

Greinar

Skiljanlegt er, að útflytjendur ferskfisks telji, að ýmsir fjölmiðlamenn séu á mála hjá frystiiðnaðinum. Svo eindregið hlutdrægt er margvíslegt fréttaefni af þessum málum, einkum í ríkissjónvarpi allra landsmanna. En hlutdrægnin á sér aðrar skýringar en fjárhagslegar.

Margir blaða- og fréttamenn eru afar háðir klisjum, sem valdamenn nota til að spara sér rök og til að losna við að þurfa að taka afstöðu til óþægilegra raka. Í samspili valdamanna og allt of margra blaðamanna koma klisjur í stað efnislegrar meðferðar mála.

Eitt dæmi um klisju, sem hefur öðlast sess trúarsetningar í valdakerfinu, er orðalagið “fullvinnsla”. Það er notað um geymsluaðferð frystingar, sem ver fiskinn skemmdum, svo að hann verði seljanlegur á næstum eins háu verði og hann er ferskur og ófrystur.

Með því að nota orðið “fullvinnslu” um þessa afar dýru starfsemi, sem gefur lítið í aðra hönd, er því komið á framfæri, að hún sé bæði göfug og brýn. Orðið minnir mjög á orðalagið um, að við eigum “að vera sjálfum okkur nógir” í framleiðslu landbúnaðarafurða.

Jafnvel þótt þjóðin hafi áratugum saman flutt inn meirihlutann af matvælum sínum, er klisja sjálfsþurftarbúskapar notuð til að verja umfangsmikla starfsemi, er hentar frekar tempruðu loftslagi en hinu napra loftslagi, sem er hér norður við jaðar freðmýrabeltisins.

Þótt margoft sé bent á, að ótal klisjur af þessu tagi séu til óþurftar og skekki yfirsýn fólks, gæta notendur þeirra þess vandlega að svara slíku aldrei efnislega og taka aldrei þátt í neinum skoðanaskiptum um, hvað felist í raun og veru í hinum heittelskuðu klisjum.

Blaða- og fréttamenn hafa í sumum tilvikum aðeins svipað gripsvit á málefnum og ráðherrar hafa eða ef til vill lítið meira. Auðveld leið úr þeim vanda er hin sama og hagfræðinganna, sem vonast til, að valdamenn líti til þeirra með velþóknun, þegar embætti losna.

Þær tvær stéttir, sem helzt gætu flett ofan af klisjum stjórnmálamanna, gera það ekki, af því að hlutar þeirra vilja baða sig í endurkasti sólargeisla valdsins. Sumir hagfræðingar vilja verða hagstjórar og sumir fréttamenn ímynda sér sig vera innanbúðarmenn í valdakerfinu.

Á takmarkaðri þekkingu má ná langt með að láta vaða á klisjusúðum. Heilu ræður og tilkynningar ráðherra eru lítið annað en röð af innihaldsrýrum og jafnvel merkingarfölsuðum klisjum. Hið sama er að segja um ýmsar fréttir af framtaki þessara sömu ráðherra.

Hefðbundið er, að fjölmiðlamenn líti á sig sem svokallaða fjórðu stétt, utan valdakerfisins. Þess vegna er miður, að of margir úr þeim hópi vilja líta á sig sem hluta valdakerfisins og bera sig jafnvel saman við ráðherra. Sú glýja er byggð á misskilningi á eðli valds.

Vald byggist ekki á að birta klisjur stjórnmálanna í fjölmiðlum. Vald á Íslandi byggist á skömmtun. Stjórnmálamenn keppa um að komast í aðstöðu til að skammta, verða ráðherrar, það er að segja skömmtunarstjórar eins og nokkrir helztu embættismenn kerfisins.

Þótt blaða- eða fréttamaður klæðist í hálstau og jakka, hafi daglegan samgang við skömmtunarstjórana, ráðherra og embættismenn, kunni tungumál þeirra og komi klisjum þeirra á framfæri við þjóðina, eru þeir ekki orðnir valdastétt, þótt sumir þeirra ímyndi sér það.

Blaða- og fréttamönnum ber að líta raunsæjum augum framhjá geislabaugum skömmtunarvaldsins og hafna klisjum, sem þeir eru látnir magna í fjölmiðlum.

Jónas Kristjánsson

DV

Við þurfum Karlalistann

Greinar

Æskilegt væri, að stjórnmálaþróunin leiddi fyrr en síðar til myndunar flokks um hin hörðu gildi í þjóðfélaginu. Þau eiga sér engan málsvara, meðan hin spilltu gildi og hin mjúku gildi eiga hvor um sig öfluga fulltrúa, sem ráða þjóðfélaginu með sterkri miðstýringu.

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar eru meira eða minna uppteknir af valdabraski í kvótaráðuneytum og ríkisbönkum og öðrum slíkum valdsöfnunarstofnunum, sem settar hafa verið upp til að reyra þjóðfélagið í viðjar miðstýringar af hálfu embættis- og stjórnmálamanna.

Hrossakaupin einkenna stjórnkerfi hinna hefðbundnu pólitíkusa. Á máli þeirra heita hrossakaupin “að vera í pólitík”. Í því felst það mat þeirra, að hin spilltu gildi séu raunhæf og hagnýt stjórnmál, en önnur gildi séu eins konar óraunhæf óskhyggja skýjaglópa.

Í kerfi hinna spilltu gilda skiptir höfuðmáli, hverjir verða bankastjórar Landsbankans; hvort Samband íslenzkra samvinnufélaga getur fengið ríkisstjórnina til að lækka vaxtabyrðina; og hvort Sambandið getur fengið Landsbankann til að kaupa ónýtu Nígeríuvíxlana.

Þessi spilltu gildi hafa verið á undanhaldi fyrir hinum mjúku gildum Kvennalistans. Þar er ekki spillingunni fyrir að fara, en hins vegar mikið af hugsjónamálum, sem kosta mikla peninga. Hjá Kvennalistanum er fjallað um, hvernig megi dreifa lífsgæðum á réttlátan hátt.

Kvennalisti hinna mjúku gilda er að því leyti líkur stjórnmálaflokkum hinna spilltu gilda, að hann stefnir að sterkri miðstýringu. Gæludýr hans eru bara önnur en gæludýr hinna flokkanna, svo sem einstæðar mæður og börn í stað Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Kvennalistinn vill, að stjórnmál snúist um að hjálpa lítilmagnanum, fremur en aflóga fyrirtækjum. Í hans heimi rennur fjármagnið um hendur félagsmálastofnana til þeirra, sem minnst mega sín. Í heimi hinna flokkanna rennur fjármagnið til þeirra, sem aðstöðu hafa.

Það, sem vantar í þessa mynd, þegar gömlu flokkarnir grotna niður af eigin illverkum, er karlalisti gegn kvennalista, flokkur hinna hörðu gilda til mótvægis mjúku gildunum. Okkur vantar flokk til að stuðla að framleiðslu verðmæta, fremur en dreifingu þeirra.

Flokkur hinna hörðu gilda ætti að stefna að strangri markaðshyggju og gróðahyggju með miskunnarlausu úrvali fyrirtækja, sem hafi næga rekstrarlega þjálfun til að standast samkeppni við umheiminn, meira eða minna frjáls af fjötrum embættis- og stjórnmálamanna.

Flokkur hinna hörðu gilda á að geta sagt með töluverðum rétti, að afrakstur hans aðferða sé meðal annars bezta leiðin til að útvega fjármagn til að kosta hin mjúku gildi á þann hátt, að atvinnulífið sé ekki þess vegna reyrt í viðjar skattheimtu, reglugerða og kvóta.

Flokkur hinna hörðu gilda mun hafna gæludýrum flokka hinna spilltu gilda. Hann hafnar hins vegar ekki gæludýrum flokks hinna mjúku gilda, en bendir á, að þau gæludýr eru dýr í rekstri eins og önnur. Heppilegt sé að framleiða verðmæti upp í kostnaðinn við þau.

Þjóðin er byrjuð að efast um notagildi hinna hefð bundnu stjórnmálaflokka, sem segjast “vera í pólitík”, það er að segja fyrst og fremst í spillingu og valdsöfnun. Hún hefur uppgötvað hin mjúku gildi Kvennalistans, sem nálgast fylgi Sjálfstæðisflokksins í könnunum.

Næsta skref er, að þjóðin uppgötvi, að hún þurfi einnig alvöruflokk hinna hörðu gilda, eins konar Karlalista, sem geti verið hentugt mótvægi við Kvennalistann.

Jónas Kristjánsson

DV

Listrænn landbúnaður

Greinar

Málsvarar hins hefðbundna landbúnaðar hafa tekið undir skemmtilegar hugmyndir í fjölmiðlum um, að fremur beri að líta á búsýslu sem listgrein en sem at vinnuveg. Þeir telja, að leggja verði listrænt eða menningarlegt mat á landbúnað og kostnaðinn við hann.

Líta má svo á, að íslenzkur landbúnaður hafi svo mikið listrænt og menningarlegt gildi, að réttmætt sé að hlúa að honum í samkeppni við útlendan landbúnað. Það er nokkurn veginn alveg eins og við höldum uppi Þjóðleikhúsi, Sinfóníuhljómsveit og Kvikmyndasjóði.

Málsvarar landbúnaðarins eru ósköp fegnir að geta fallizt á, að í rauninni sé landbúnaður mikill fjárhagslegur baggi. Þeim er léttir að fá að viðurkenna, að frjáls innflutningur erlendrar búvöru mundi lækka matvöruverð og bæta þar með lífskjör fólksins í landinu.

Þeir hafa dregið upp mynd af verzlunum, sem fyllist af “mjög ódýrum, erlendum matvælum”; af innlendri framleiðslu, sem seljist ekki; af gríðarlegum fólksflutningum til útgerðarstaða og Reykjavíkur; af dýrri húsbyggingaþörf; og af hræðilegu borgríki framtíðarinnar.

Málsvarar landbúnaðarins benda á, að talin sé menningarleg eða listræn ástæða til að halda uppi sinfóníuhljómsveit, þótt hægt sé fyrir lítið fé að hlusta á erlenda hljóðfæraleikara á Listahátíð og kaupa vandaða tónlist á geisladiskum frá útlöndum fyrir enn minni peninga.

Ekki má gleyma, að í listum veitum við okkur hvort tveggja, aðgang að erlendri og innlendri list. Engar hömlur eru lagðar á innflutning erlendrar listar eða menningar. Engir tollar eru á erlendum bókum, listatímaritum, nótubókum, málverkum eða höggmyndum.

Engum dettur í hug að banna innflutning erlends listafólks til að taka þátt í listahátíð eða hvenær sem okkur langar annars til. Við verjum gjaldeyri til að fá hingað tónlistarfólk og leikara, auk þess sem við kaupum afurðir þeirra í þeim mæli, sem okkur þóknast.

Yfir okkur situr enginn alfaðir í ráðuneyti til að ákveða, hvort okkur sé fyrir beztu að neyta erlendrar eða innlendrar listar. Við fáum að ráða því sjálf. Við höfum hins vegar marga alfeður, sem ákveða, að okkur sé fyrir beztu að nota ekki ýmsa erlenda búvöru.

Til þess að styðja innlenda list í samkeppni við erlenda og halda menningarlegri reisn verjum við í ár 629 milljón krónum á fjárlögum. Til þess að koma út óseljanlegri búvöru og halda þar með menningarlegri og listrænni reisn í landbúnaði verjum við 3.361 milljónum.

Ef meta ætti afurðir kinda og kúa til jafns við allar aðrar afurðir lista samanlagt, en ekki fimm sinnum hærra, þyrftu framlög til venjulegra lista að hækka um meira en milljarð króna og framlög til hefðbundins land búnaðar að lækka um meira en milljarð til jafnvægis.

Eðlilegt framhald af almennri viðurkenningu á varðveizlu kúa og kinda sem helmingi af allri list í landinu, væri að skera niður opinber framlög til landbúnaðar og nota féð til að styðja hinn helminginn. Varla er hægt að líta á landbúnað sem meira en helming allrar listar.

Ennfremur er eðlilegt framhald, að leyfður verði tollfrjáls innflutningur erlendrar búvöru, svo að fólk geti veitt sér aðgang að erlendri list á því sviði, svo sem að fimm krónu smjöri frá Evrópubandalaginu, eins og það veitir sér í öðrum listgreinum, ef það kærir sig um.

Óravegur er frá peningalegri viðurkenningu á menningarlegu og listrænu gildi landbúnaðar yfir í árlega milljarðaútgerð á herðum 240 þúsund manna þjóðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Blandin ánægja af áli

Greinar

Þótt nýtt álver í Straumsvík auki þjóðarframleiðslu, er margt, sem getur komið í veg fyrir, að það verði okkur óblandið ánægjuefni. Sumt af því þekkjum við frá Ísal, sem þar er fyrir, eða getum gert okkur grein fyrir, einmitt í ljósi reynslunnar af fyrsta stóriðjuverinu.

Að þessu sinni eru sjónarmið byggðastefnu miklu harðvítugri en þau voru, þegar Ísal var reist. Reyðfirðingar, Akureyringar og Sunnlendingar hafa heimtað þetta álver eða annað álver til sín. Málgagn iðnaðarráðherra þræðir slík ver daglega upp á fréttakrókinn.

Einn gæludýraforstjórinn á Akureyri hefur lagt til, að gerð verði byggðakaup um álverið. Reykvíkingar og Reyknesingar afsali sér einhverjum öðrum gæðum í skiptum fyrir álver í Straumsvík, til dæmis fiskveiðikvóta. Ummæli hans gefa tóninn um framhaldið.

Reykvíkingar og Reyknesingar hafa ekki verið spurðir um, hvort þeir vilji fá álver. Ólíklegt er, að þeim sé það slíkt hjartans efni, að þeir séu reiðubúnir að fórna því sínum litlu molum af nægtaborði skömmtunarstjóranna í ráðherrastólum núverandi ríkisstjórnar.

Líklegra er, að Reykvíkingar og Reyknesingar væru fegnir að sjá á eftir álverinu og vandamálum þess til Reyðarfjarðar, Akureyrar eða Þorlákshafnar. Gallinn er bara sá, að útlendingarnir, sem borga brúsann, vilja ekki leggja krónu í hina séríslenzku byggðastefnu.

Kísilmálmverksmiðjan varð aldrei að raunveruleika, af því að hún var bundin við Reyðarfjörð. Ef hana hefði mátt byggja við hlið járnblendiverksmiðjunnar í Hvalfirði, væri hún nú í smíðum, af því að útlendingarnir hefðu þá talið hana nokkurn veginn arðbæra.

Ætlunin er að nota fyrirhugað álver í Straumsvík til að hefja nýjan öfundarsöng í garð Reykjavíkursvæðisins. Því er nærtækt að sleppa álverinu, alveg eins og við létum kísilmálmverksmiðjuna eiga sig. Næg er spenna dreifbýlis og þéttbýlis, þótt álver bætist ekki við.

700­900 manns þarf til að reisa álverið nýja og virkjanir, sem því fylgja. 400­500 manns þarf til að reka verið, þegar það er fullgert. Hvort tveggja veldur töluverðri þenslu, þótt á Reykjavíkursvæðinu sé. Hún leggst ofan á hina miklu þenslu, sem fyrir er á þessu svæði.

Stjórnvitringar okkar geta varla litið upp úr vandræðalegri og vonlausri baráttu sinni við að koma niður verðbólgu og vöxtum í landinu og að ná jafnvægi í atvinnulífi þjóðarinnar. Nýtt álver mun gera þetta eilífðarstríð þeirra enn minna marktækt en það er núna.

Ekki hefur verið mikið fjallað um, hve hættulegt er að hafa mörg egg í einni körfu. Ef við gerum útflutning áls að uppsprettu þriðjungs útflutningstekna okkar, erum við orðin eins háð heimsmarkaðsverði áls og sumar þjóðir þriðja heimsins eru háðar sinni einhæfu stóriðju.

Ekki er nóg með, að við lendum í dæmigerðum þriðja heims vanda í sveiflum verðs á áli sem útflutningsafurðar. Að auki koma svo sveiflur orkuverðs, sem sennilega verða látnar fylgja heimsmarkaðsverði áls. Það hefur nú á hálfu öðru ári sveiflazt milli 12,5 og 18,5 mills.

Einnig er áhyggjuefni, að hugsjónamenn stóriðju gera ráð fyrir, að nýtt álver í Straumsvík gleypi flesta hagkvæmustu virkjanakostina. Það þýðir óbeint, að við þurfum síðar að virkja dýrar fyrir okkur sjálf, og hækkar þannig óbeint orkuverð til almennings í framtíðinni.

Aukin byggðaöfund, þensla, mengun og einhæfni og hækkað orkuverð almennings eru atriði, sem við verðum að hafa í huga, áður en við fögnum nýju álveri.

Jónas Kristjánsson

DV

Sanngirni villir sýn

Greinar

Vextir á Íslandi eru sagðir sanngjarnir eða ósanngjarnir eftir sjónarhóli hvers og eins. Sama er að segja um verðtryggingu vaxta og vísitöluna, sem látin er mæla hana. Um fjármagnskostnað af ýmsu tagi ræða menn á þeim grundvelli, að sanngirni þurfi að ráða.

Þeir, sem fylgjandi eru háum eða hærri vöxtum, verðtryggingu og lánskjaravísitölu, ræða gjarna um gamla fólkið, sem hafi með þrotlausri vinnu á langri starfsævi safnað sér til ellinnar og þurfi að sjá óverðtryggt sparifé sitt brenna upp á neikvæðum vöxtum í bönkunum.

Hinir, sem andvígir eru háum eða hærri vöxtum, verðtryggingu og lánskjaravísitölu, sjá allt annað peningafólk gegnum sín gleraugu. Þeir sjá slefandi okrara, sem leika sér að því að eyðileggja framtíð fólks með því að drepa það í skuldadróma frá unga aldri.

Fyrra hópnum finnst sanngjarnt, að sparendur fái umbun erfiðis síns og síðari hópnum finnst ósanngjarnt, að peningamönnum sé gert kleift að níðast á auralausu fólki. Í báðum tilvikum er málið metið á grundvelli þess, hvað sé sanngjarnt og ósanngjarnt.

Sé litið á viðtakendur lánsfjárins, þá sér annar hópurinn gegnum sín gleraugu margs konar gæludýr hins opinbera, fyrirtæki á borð við SÍS og aðra slíka aðila, sem hafa meira eða minna lifað á aðgangi að peningum, sem ekki þurfti að endurgreiða að fullu.

Hinn hópurinn sér aftur á móti vaxtarbrodd atvinnulífsins. Hans gleraugu sýna þjóðhagslega hagkvæmar hugmyndir, sem ekki komast til framkvæmda eða eru kæfðar í fæðingu af hrikalegum fjármagnskostnaði. Enn er talað um, hvað sé sanngjarnt og ósanngjarnt.

Þegar byggt er á slíku gæðamati, er venjulega skammt í handaflslausnir. Vextir eru hækkaðir eða lækkaðir með handafli til að auka sanngirni. Verðtrygging og vísitala eru teknar upp eða afnumdar með handafli til að auka sanngirni. Menn skipuleggja vandamálið.

Í öllum þessum tilvikum er litið á lánsfjármarkaðinn sem ákveðna stærð, sem sé til skiptanna. Síðan er litið á útlönd sem almenna fjáruppsprettu, sem ganga megi í til viðbótar eftir þörfum. Í þessum hugmyndaheimi er gott rúm fyrir mat á sanngirni og ósanngirni.

Í reynd er leitast við að taka frá eins mikið af peningum, sem koma á lánsfjármarkaðinn. Þessu fé er beint í farvegi til gæludýra og forgangsverkefna og gjarna á lágum vöxtum, sem ákveðnir eru með sanngjörnu handafli. Ýmsir opinberir sjóðir gegna þessu hlutverki.

Ennfremur er í reynd leitast við að fá sem mest af peningum frá útlöndum. Sú leið hefur verið ofnotuð svo lengi, að jafnvel sérfræðingum í sanngirni er farið að ofbjóða. Enda erum við nú orðin ein allra skuldugasta þjóð heimsins og senn komin þar á leiðarenda.

Einnig hafa í reynd yfirleitt orðið hlutadrýgst þau sjónarmið, að sanngjarnt sé, að lántakendur borgi hóflega vexti, það er að segja lága. Með því handafli hefur verið dregið úr sparifjármyndun í landinu. Hungrið í lánsfé er alltaf miklu meira en hægt er að seðja.

Þegar saman koma langvinn ofnotkun á erlendu lánsfé, langvinnur forgangur gæludýra og forgangsverkefna að ódýru lánsfé og langvinnir öfugvextir á almennum markaði, verður útkoman óhjákvæmilega óstjórnleg lántökufíkn, sem ekki sefast, þótt vextir hækki um skeið.

Hlutverk stjórnvalda er samt ekki að beita handafli til að auka vaxtasanngirni, heldur að haga svo málum, að meira lánsfé en ella verði til á innlendum markaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Algerlega umboðslaus

Greinar

Niður fljótin runnu atkvæðaseðlar, þar sem krossað hafði verið við nöfn frambjóðenda stjórnarandstöðunnar. Á öskuhaugum til sveita fuku slíkir atkvæðaseðlar til og frá. Öllum þekktum leiðum til atkvæðafölsunar var beitt í nýafstöðnum forsetakosningum í Mexíkó.

Glæpaflokkur að nafni Byltingarstofnunarflokkurinn hefur í nærri sex áratugi ráðið ríkjum í Mexíkó í skjóli vinnubragða af þessu tagi. Nokkrum dögum fyrir kosningarnar lét hann myrða manninn, sem sá um eftirlit stjórnarandstöðu með framkvæmd kosninganna.

Hið hefðbundna kosningasvindl nægði ekki til sigurs. Þegar fyrstu tölur komu á borð kosningastjórna, var ljóst, að annar af frambjóðendum stjórnarandstöðunnar, Cuauhtémoc Cárdenas, mundi verða sigurvegari, ef ekki yrði gripið til aukinna og nýrra falsana.

Tæknimenn voru látnir slá nýjar atkvæðatölur inn á talningartölvurnar. Sjálf talningin tafðist í marga daga umfram venju, meðan stjórnin tryggði sínum manni ímyndaðan meirihluta með þessum hætti. Fjöldi útlendinga hefur verið vitni að talningarsvindlinu.

Hægri andstöðuflokkurinn hefur árum saman haft mikið fylgi og sennilega meirihluta í ýmsum norður fylkjum landsins. Það kom þó ekki á óvart, að undir lok talningarinnar birtust þaðan tölur, sem sýndu, að stjórnarflokkurinn hefði hirt nærri allt fylgið.

Þessi grófi endasprettur talningarinnar var talinn nauðsynlegur til að koma Carlos Salinas de Gortari, frambjóðanda glæpaflokksins, yfir 50% atkvæða í forsetakosningunum. Í rauninni fékk hann mun minna, sennilega minnst fylgi frambjóðendanna þriggja.

Salinas mun nú taka við þrælkun 75 milljón Mexikana úr höndum Miguels de la Madrid, sem hér á landi er þekktur fyrir þáttöku í klúbbi nokkurra misindismanna úr þriðja heiminum, sem vilja, með aðstoð Ólafs Ragnars Grímssonar, segja stórveldunum fyrir verkum.

Athyglisvert er, hvernig menn, sem hafa flesta hugsanlega glæpi á samvizkunni, og það í stórum stíl, komast upp með að láta taka sig fullgilda í umheiminum. Fyrirrennari Madrids, Echeverria, lét sig til dæmis dreyma um að verða forstjóri Sameinuðu þjóðanna.

Echeverria, Madrid og Salinas hafa notað og nota enn Mexíkó sem þrælabúðir til að halda uppi glæpaflokknum. Efnahagslíf landsins er meira eða minna ríkisrekið. Forstjórarnir og verkalýðsrekendurnir stela öllu steini léttara og halda fólki í sárustu örbirgð.

Einn versti leikur harðstjóranna í Mexíkó er svipaður og sálufélaga þeirra úti um allan heim, svo sem í Tanzaníu, að raka saman erlendum lánum, sem ekki eru notuð til að bæta hag þjóðarinnar. Í Mexíkó hverfa lánin í gráðugar hendur glæpaflokks Salinas de Gortari.

Þannig stelur Byltingarstofnunarflokkurinn ekki aðeins þeim verðmætum, sem 75 milljón þrælar framleiða, heldur leggur þeim þar á ofan á herðar byrðina af ógreiðanlegum skuldum, sem stofnað er til í Bandaríkjunum og víðar. Ánauðin í Mexíkó verður varanleg.

Við getum harla lítið gert í málum Mexikana. Við getum hins vegar neitað að tala við fulltrúa glæpaflokksins sem umboðsmenn fólksins. Ástæðulaust er fyrir okkur að vera í stjórnmálasambandi við óþokka og þrælahaldara, sem hafa falsað umboðið, er þeir sýna.

Forsetakosningarnar í Mexíkó hafa ekkert gildi annað en að staðfesta fyrir umheiminum, að Carlos Salinas de Gortari er algerlega umboðslaus valdhafi í Mexíkó.

Jónas Kristjánsson

DV

Forneskjan lifir hér

Greinar

Þetta voru dökkklæddir menn, sem töluðu ekki um mat, heldur um afurðir, einingar, flök eða blokkir. Það voru þátttakendur heimsráðstefnu frystiiðnaðar í Nizza, sem alþjóðablaðið International Herald Tribune gerði grín að um daginn í grein yfir þvera baksíðuna.

Með greininni fylgdi skrípamynd eftir Niculae Asciu, sem sýndi dökkklæddu mennina lokaða við frystikisturnar inni í fílabeinsturni sínum, meðan allt iðaði af lífi og fjöri og gerlum á ferskvörumarkaðinum í Cours Saleya, nokkur hundruð metra frá ráðstefnunni.

International Herald Tribune sagði, að frystimennirnir hefðu á ráðstefnunni verið að fárast yfir, að almenningur tæki í vaxandi mæli ferska vöru fram yfir frysta. Bætt flutningatækni og gæðaeftirlit hefur innleitt ferska vöru á ný til vegs og virðingar.

Heimsráðstefna frystimanna hefði átt að fá forneskjuna beint í æð með því að láta sjávarútvegsráðherra Íslendinga segja frá, hvernig hann fór að því að takmarka sölu á ferskum fiski frá Íslandi. Það hefði líklega þítt freðin hjörtu dökkklæddu mannanna.

Heimsráðstefna frystimanna hefði líka átt að fá formann Landssambands íslenzkra útvegsmanna til að segja frá, hvernig honum tækist enn á tölvu- og telexöld að hrúga mestöllum ferskfiski landsins inn á örfáa markaði, í stað þess að haga seglum eftir vindi.

Á sama tíma eru framtakssamir Íslendingar að tengjast gagnabanka, sem gefur upplýsingar um verð morgunsins á fjölda fiskmarkaða, einkum í Evrópu, rétt eins og DV gefur á hverjum degi upplýsingar um verð á innlendu fiskmörkuðunum. Þetta er nýjung hér á landi.

Gagnabankinn leiðir í ljós, að skortur er á ferskum fiski og að verðlag er hátt á flestum mörkuðum, þótt mikið framboð og lágt verð sé á þeim mörkuðum, sem íhaldssamir Íslendingar nota. Aðeins sjö aðilar á Íslandi eru tengdir tuttugustu öldinni á þennan hátt.

Á Bretlandi hefur verð á þorski verið um 87 krónur á kíló að meðaltali síðustu daga. Augljóst er, að íslenzkir ráðherrar, sem skammta útflutning á ferskfiski, valda þjóðarbúinu miklu tjóni, að því er virðist til að þjóna úreltum sérhagsmunum frystiiðnaðarins í landinu.

Verð á innlendum mörkuðum er fremur lágt um þessar mundir, enda er sumum fiskvinnslustöðvum lokað vegna sumarleyfa eða þær hafa ekki fólk til að bjarga fiskinum sómasamlega undan skemmdum. Á sama tíma er þjóðarbúinu neitað um 87 króna verð í Evrópu.

Sjávarútvegsráðherra og utanríkisráðherra eru báðir úr Framsóknarflokknum. Þeir höfðu samráð á föstudaginn um að banna útflutning 550 tonna í þessari viku, en hleypa 650 tonnum í gegn. Með banni einnar viku skaða ráðherrarnir þjóðarbúið um 50 milljónir króna.

Sú hugsun er áleitin, að skemmdarverk ráðherranna sé til að útvega frystihúsum samvinnufélaganna meira af ódýrum fiski. Þeir, sem ekki hlutu náð við hið leynilega skömmtunarborð ráðherranna, telja svo, að fjórir aðilar hafi fengið óeðlilegan forgang í skömmtuninni.

Meðan íslenzkir ráðherrar eru önnum kafnir við að raka saman völdum sem skömmtunarstjórar í eysteinskum stíl og reyra sjávarútveginn í viðjar hafta-, kvóta- og fátæktarkerfis, er komin til sögunnar tækni, sem gerir þjóðinni kleift að nota erlenda markaði.

Næsta heimsþing frystivöru ætti að halda á Íslandi, undir vernd ráðherranna tveggja. Hér á landi ríkir einmitt rétta forneskjan fyrir þing af slíku tagi.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir vildu spána kveða

Greinar

Ekki er unnt að sjá, hvern forstjóri Þjóðhagsstofnunar var að reyna að blekkja, þegar hann sagði í yfirlýsingu hér í blaðinu í gær, að nýjasta þjóðhagsspá hefði ekki velkzt um í kerfinu, heldur orðið til á þriðjudaginn var, þegar hún var kynnt ríkisstjórn og fjölmiðlum.

Öllum þeim, sem fylgjast með, var þó kunnugt um, að fyrir þá helgi höfðu bæði forsætisráðherra og fjármálaráðherra komið fram í fjölmiðlum til að ræða innihald þeirrar þjóðhagsspár, sem forstjórinn segir nú, eins og hann sé nýkominn frá Marz, að hafi ekki verið til.

Munurinn á þessu volki þjóðhagsspár og hinum fyrri er, að í þetta sinn tókst pólitískum hagsmunum í ríkisstjórninni ekki að fá spánni breytt, áður en hún var birt almenningi. Stafar það af, að Þjóðhagsstofnun er að reyna að reka af sér orðspor þjónustulundar.

Í þetta sinn verður því að taka meira mark á þjóðhagsspá en löngum áður hefur verið hægt. Hún er ekki lengur eins eindregin stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar og hún hefur allt of oft verið áður. Hins vegar er engin ástæða til að taka hana allt of bókstaflega.

Ef þjóðhagsspáin er skökk, er það ekki í áttina, sem fjármálaráðherra heldur fram. Spáin ofmetur ekki fjárhagserfiðleika ríkissjóðs eða forustu ríkisins í framleiðslu heimatilbúinnar verðbólgu. Hún er ekki of svartsýn, heldur of bjartsýn, ef einhverju skeikar.

Í umræðunni um þjóðhagsspá kemur á óvart, hversu dólgslega fjármálaráðherra hefur haldið fram atriðum, sem ekki er sjáanlegt, að séu annað en algerar firrur og þverstæður. Breytingar á tekjukerfi ríkissjóðs hafa ekki dregið úr tekjum hans, heldur stóraukið þær.

Þótt ríkissjóður sé á hausnum, hafa tekjur hans aukizt um 4,3 milljarða umfram áætlun fjárlaga. Skattheimtan hefur verið langt umfram fyrri venju. Það er einkum vegna eftirminnilegra skattabreytinga, svo sem matarskattsins og staðgreiðslu tekjuskatts og útsvars.

Líta má á spá fjármálaráðherra um enn auknar tekjur síðari hluta ársins sem yfirlýsingu um, að fyrri orð hans séu ómerk, og sem eins konar almenna hótun um, að skattbyrði ársins verði ekki eins þung og hörðustu gagnrýnendur héldu fram í vetur, heldur enn þyngri.

Tekjurnar, sem þegar hafa innheimzt, benda til, að ríkissjóður ætli að taka til sín stærri hlut landsframleiðslunnar en áður hefur tíðkazt, 24,7% í stað 22,4%. Nú er fjármálaráðherra að hóta því, að Íslandsmet hans verði enn stærra, þótt hann hafi áður neitað metinu.

Þessa gífurlegu tekjuaukningu hefur fjármálaráðherra ekki notað til að koma ríkissjóði á réttan kjöl, heldur til að sóa henni í allar áttir og einkum þó í landbúnað, sem er svo þurftarfrekur, að ekki virðast til þeir peningar í heiminum, er hann gæti ekki torgað.

Í stað tekjuafgangsins, sem ráðgerður var, er kominn hálfs milljarðs fjárlagahalli. Þar á ofan er lánsfjáráætlun ríkisins komin þrjá milljarða fram úr áætlun. Í hvorugu tilvikinu eru öll kurl komin til grafar, svo að ástandið á enn eftir að versna, þegar líður á síðari hluta ársins.

Nú síðast er fjármálaráðherra farinn að heimta meira fé úr bönkunum og hótar þeim ella aukinni frystingu sparifjár. Augljóst er, að frystingin fer til verðbólgu hvetjandi verkefna og magnar enn hina gífurlegu samkeppni um rándýrt fjármagn, sem einkennir þjóðfélagið.

Eitt atriði er öruggt í þjóðhagsspánni. Það er, að fjármálaráðherra hefur rækilega misst tökin á starfi sínu. Þess vegna vildi hann fá að ráða niðurstöðum spárinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hryðjuverkaríki

Greinar

Hryðjuverkaríkið Ísrael er orðið alvarlegt vandamál og á eftir að versna. Telja má fullvíst, að það búi nú yfir kjarnorkuvopnum, sem það mun nota til að reyna að hræða nágranna sína til hlýðni. Ógnanir eru nefnilega eina umgengnisvenjan, sem Ísraelsríki kann.

Þótt minna hafi frétzt af ógnarstjórn Ísraela á herteknum svæðum, af því að fjölmiðlar hafa ekki staðið sig sem skyldi gegn aðgerðum þarlendra stjórnvalda til að skrúfa fyrir fréttaflutning, hefur ástandið síður en svo batnað. Villimennskan hefur þvert á móti aukizt.

Helzt er hægt að líkja ógnarstjórninni við aðgerðir þýzkra SS-manna á hernumdum svæðum í síðari heimsstyrjöldinni. Með skipulögðum hrottaskap er reynt að kúga almenning til uppgjafar, sem ekki tekst, af því að hryðjuverkaríkið neitar að skilja þjóðfrelsishugsun.

Þetta er sorgarganga, sem hófst, þegar gamlir hryðjuverkamenn á borð við Menachem Begin, Yitzhak Shamir og Ariel Sharon komust til ísraelskra valda í stað siðmenningarfólks á borð við David Ben Gurion, Goldu Meir og Abba Eban. Og sorgargangan er fetuð án afláts.

Siðferðilega er Ísrael hrunið ríki. Það er orðið æxli heimshlutans. Vestræn hugmyndafræði á þar ekki lengur bandamann, heldur ólánsmann, sem kemur óorði á Vesturlönd, því að þar um slóðir er Ísrael álitið vera eins konar skjólstæðingur hins vestræna heims.

Æxlið stafar frá Bandaríkjunum, sem hafa stutt Ísrael í blíðu og stríðu. Herkostnaður hryðjuverkaríkisins er greiddur af bandarískum peningum. Þar vestra má stjórnmálamaður vart opna munninn gegn Ísrael án þess að sæta skipulegum andróðri í næstu kosningum.

Aipac heitir áróðurs-, ímynda- og þrýstistofnunin, sem gætir hagsmuna Ísraels í Bandaríkjunum. Hún virðist hafa heljartök á þarlendum stjórnmálamönnum og mikil áhrif á fjölmiðlun. Aðrar stofnanir af slíku tagi eru sem smáfuglar í samanburði við Aipac.

Engar horfur eru á, að tengsl Bandaríkjanna og Ísraels muni minnka við forsetaskipti vestra. Forsetaefni repúblikana heldur fram óbreyttri stefnu og forsetaefni demókrata hefur gengið úr vegi til að leggja áherzlu á aukinn og óbrigðulan stuðning sinn við Ísraelsríki.

Ísrael mun áfram nota sér bandarísku aðstöðuna til að fara sínu fram og hita undir suðukatli Miðausturlanda. Það mun hafa þau hliðaráhrif að fæla arabíska heiminn enn frekar frá hinum vestræna en þegar er orðið og gera hann róttækari í trú og stjórnmálum.

Í baráttunni um áhrif á hnetti okkar kæmi sér vel fyrir Vesturlönd að ná sómasamlegum tökum á sambúð við arabíska heiminn, svo að þau séu ekki að eyða kröftum í margar vígstöðvar. Vestræn menning og arabísk þyrftu að geta ræktað betur snertifleti sína.

Íslendingar hafa sérstaka ástæðu til að harma ummyndun Ísraels í hryðjuverkaríki, því að löngum var sérstaklega gott samband milli ríkjanna, þegar hinir siðmenntuðu voru enn við völd í Ísrael. En við getum lítið gert, því að Ísraelsmenn vilja ekki hlusta á ráð.

Öðru máli gegnir um Bandaríkin. Þar verða fjölmiðlar og stjórnmálamenn að brjótast undan skoðanakúgun Aipac og fara að átta sig á, hversu grátt Ísraelsríki leikur ímynd og aðstöðu Bandaríkjanna, svo og Vesturlanda allra, í löndum Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku.

Ísrael nútímans er lítið, en frekt kjarnorkuríki hryðjuverkamanna, sem eiga eftir að valda okkur miklum og vaxandi vandræðum á næstu árum og áratugum.

Jónas Kristjánsson

DV