Greinar

Hannes er kominn heim

Greinar

Fjaðrafokið í hænsnabúinu bendir til, að rebbi sé kominn í heimsókn og kjúklingarnir séu hræddir við að vera étnir í þrætubókarlist. Sjálfsagt verða félagshyggjumennirnir að gæta sín, þegar einn frjálshyggjumaður er kominn í deildina til að fokka upp fræðunum.

Þótt flestir geti verið sammála um, að hvergi eigi Hannes H. Gissurarson fremur heima en hjá kennurum félagsvísindadeildar, er eðlilegt, að háskólamenn séu lítið hrifnir af aðferðinni, sem notuð var, ­ að pólitískur ráðherra skipaði pólitískan mann í lausa kennarastöðu.

Allt frá upphafi háskólans hafa menntaráðherrar einstaka sinnum skipað flokksgæðinga í kennarastöður gegn vilja háskólamanna. Bezt væri, að sá kaleikur yrði tekinn frá ráðherrunum og fundin önnur leið til að gæta þeirra sjónarmiða, sem ráðherra ætti að hafa.

Flestir aðrir en starfsmenn háskólans mundu að athuguðu máli telja nauðsynlegt, að fleiri en starfsmenn hans fjölluðu um ráðningu nýrra starfsmanna og réðu jafnvel úrslitum við slíka ákvörðun. En þessi utanaðkomandi aðili þarf ekki að vera pólitískur ráðherra.

Ætla má, að í eðlilegum stofnunum myndist óformlegur klúbbur starfsmanna, sem þekkja hver annan. Þeir taka hver annan fram yfir utanaðkomandi menn og reyna að hagræða málum á þann veg, að slíkt sé fram kvæmanlegt. Afleiðingin er, að þessar stofnanir staðna.

Algengasta aðferðin við að útvega innanhússmanni stöðu í samkeppni við utangarðsmann er að búa stöðuna til á þann hátt, að hún sé klæðskerasaumuð fyrir starfsmanninn. Þannig hafa ýmsir hæfir menn óbeint verið hindraðir í að sækja um stöður við háskólann.

Íslendingar, sem hafa náð langt í starfi fyrir erlenda háskóla og vildu gjarna hverfa heim, þjóðinni til mikils gagns, hafa sumir ekki treyst sér til að sækja um lausar stöður við íslenzka háskólann, af því að stöðuauglýsingar hans eru sniðnar fyrir ákveðna innanhússmenn.

Smíði stöðunnar er miklu virkara tæki að þessu leyti heldur en skipun dómnefnda. Dæmin benda svo líka til, að starfsmenn félagsvísindadeildar hafi óeðlilega háar hugmyndir um getu sína til að vera algerlega óháðir starfsbræðrum sínum, þegar þeir sitja í dómnefndum.

Háskólinn þarf meira en flestar aðrar stofnanir á því að halda, að þangað streymi hæfileikar að utan, úr þjóðlífinu og frá erlendum háskólum. Satt að segja er okkar háskóli að mörgu leyti orðinn mosavaxinn og illa samkeppnisfær, ­ meira að segja í íslenzkum fræðum.

Til þess að hindra háskólann í að verða mosagróinn hvíldarstaður starfsmanna þarf einhver utanaðkomandi aðili að ráða úrslitum, bæði um, hvernig stöður eru auglýstar og hverjir eru ráðnir í þær. Það ætti ekki að vera ráðherrann, heldur valinkunnir menn úti í bæ.

Þessir menn ættu allir að vera gersamlega óháðir háskólanum. Einhverjir þeirra mættu gjarna hafa sýn yfir það, sem er að gerast úti í löndum, og vita um, hvort einhverjir Íslendingar koma þar nærri. Þeir ættu að líta á sig sem mótvægi við klíkuskapinn innanhúss.

Liður í slíku mótvægi fælist í að koma svo sem einum frjálshyggjumanni og doktor á borð við Hannes H. Gissurarson inn í hálfmenntað félagshyggjuhreiður félagsvísindadeildar háskólans, ­ í von um, að rebbi éti ekki öll hænsnin, heldur lífgi bara þrætubókarlistina.

Altjend er Hannes kominn heim. Hann verður félagsvísindadeild háskólans til hressingar og álitsauka, þótt það sé gegn makráðum vilja hennar og háskólans.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin vill Jón Helgason

Greinar

Jón Helgason landbúnaðarráðherra hefur hvað eftir annað beygt ráðherra Alþýðuflokksins á eins árs ferli ríkisstjórnarinnar. Hér í blaðinu í dag er rakin þessi harmsaga, sem sýnir, að flestar hinna stórtæku fjárkrafna landbúnaðarins hafa náð fram að ganga.

Fjármálaráðherra varð að fella söluskatt af mjólkurafurðum. Hann varð að falla frá niðurskurði útflutningsbóta og niðurgreiðslna. Hann varð að greiða meiri útflutningsbætur og niðurgreiðslur en fjárlög gerðu ráð fyrir. Hann varð að veita fé aukalega í riðuveiki.

Fjármálaráðherra varð að falla frá tollfrelsi grænmetis. Og þegar hann lækkaði verndartolla á innfluttum kartöflum, setti landbúnaðarráðherra margfalt jöfnunargjald á móti og hafði sitt fram. Og núna um daginn varð fjármálaráðherra enn að auka niðurgreiðslurnar.

Þessi skák Jónanna er ójöfn, því að sætabrauðsarmur Framsóknarflokksins, svokallaður Sjálfstæðisflokkur, stendur jafnan með landbúnaði og gegn neytendum og skattgreiðendum, þegar á herðir. Þannig er ekið langsum og þversum yfir Alþýðuflokkinn í stjórninni.

Utan við ríkisstjórn sitja svo stjórnmálaflokkar á borð við Kvennalista og Alþýðubandalag, sem einnig eru andvígir neytendum og skattgreiðendum, þegar hagsmunir landbúnaðar eru í húfi. Því eru ekki horfur á, að linni kverkataki landbúnaðar á þjóðfélaginu.

Allur þorri stjórnmálaflokka landsins styður ekki að ástæðulausu í reynd fjárkröfur landbúnaðarins á hendur neytendum og skattgreiðendum. Þessir tveir hagsmunahópar eiga sér engan málsvara, ­ engin samtök á borð við þau, sem gæludýrin hafa komið sér upp.

Neytendur eru að því leyti verst settir, að þeir hafa að nafninu til samtök, sem heita Neytendasamtök, en standa í veigamiklum atriðum með landbúnaði og gegn neytendum, þegar á reynir. Um þetta vitnar stefnugrein formannsins í nýútkomnu blaði samtakanna.

Þar segir berum orðum, að Neytendasamtökin styðji innflutningsbann á landbúnaðarvörum meðan innlend gæðaframleiðsla sé til í landinu. En svo vill til, að engin ein aðgerð mundi bæta hag íslenzkra neytenda stórfenglegar en einmitt afnám þessa innflutningsbanns.

Einfalt er að minnast smjörsins. Ef það væri keypt á skynsamlegan hátt í útlöndum, mundi það kosta á borði íslenzkra neytenda tíu sinnum minna en smjörið kostar í dag, auk þess sem kostnaður við niðurgreiðslu þess hyrfi alveg úr byrðum íslenzkra skattgreiðenda.

Svo virðist sem Neytendasamtökin telji sér skylt að bætast í hinn fjölmenna hóp verjenda hagsmuna landbúnaðarins, jafnvel þótt það kosti minni áherzlu á hagsmuni neytenda, sem eiga sér formælendur fáa, ekki einu sinni verkalýðsfélögin, þegar til kastanna kemur.

Í grein formanns Neytendasamtakanna er innflutningsbannið sagt vera annað grundvallaratriðið í landbúnaðarstefnu samtakanna. Hitt grundvallaratriðið er yfirstjórn hins opinbera á málefnum landbúnaðarins, en hún er einmitt hin stóra byrðin á herðum neytenda.

Meðan samtök, sem kalla sig Neytendasamtökin, haga sér eins og útibú frá landbúnaðinum, er engan veginn unnt að vona, að öflugir stjórnmálaflokkar sjái sér hag í að hætta að sparka í neytendur, þegar hagsmunir þeirra og landbúnaðarins stangast á.

Niðurstaðan er, að þjóðin styður landbúnað gegn neytendum og skattgreiðendum. Ráðherrar, sem halda annað, verða að beygja sig fyrir Jóni Helgasyni.

Jónas Kristjánsson

DV

Sitja kyrrir og kasta sandi

Greinar

Sandkassaslagurinn í ríkisstjórninni hefur verið harðari að undanförnu en nokkru sinni fyrr og er þá mikið sagt. Munurinn á þessu sandkasti og hinum fyrri er, að forsætisráðherra hefur hætt að leika friðsaman fundarstjóra og er farinn að taka þátt í slagnum.

Hingað til hefur ríkisstjórnin hangið saman á fundarstjóranum, sem hefur séð um, að mál fengju afgreiðslu, þótt smákóngarnir í kringum hann steyttu hnefann hver framan í annan. Nú, þegar hann er hættur að sitja á friðarstóli, er farið að spá endalokum stjórnarinnar.

Forsætisráðherra segir formann þingflokks Framsóknar vera með ómálefnalegan skæting; flokkinn vera með kröfur um vinstristjórnarmennsku, sem ekki verði sinnt; utanríkisráðherra vera að búa til ágreining út af engu; og gelt framsóknarhvolpa sé ekki svaravert.

Allt eru þetta þung orð, sem gætu hentað vel í efnislegri gagnrýni úti í bæ, svo sem í leiðara dagblaðs. Hins vegar eru þau óvenjuleg í munni þess, sem hefur meðal annars það verkefni að stýra fundum þeirra manna, sem hann telur eiga skilið svona hvassa umfjöllun.

Hin nýfengna orðgnótt forsætisráðherra er skýrð á þann hátt, að hann sé í rauninni varfærinn geðprýðismaður, seinþreyttur til vandræða, en hafi loksins látið ganga fram af sér hinar stöðugu árásir framsóknarmanna á meðreiðarmenn sína í ríkisstjórninni.

Forsætisráðherra hefur í rauninni áttað sig á, að Framsóknarflokkurinn og Steingrímur Hermannsson hafa skapað sér þægilega sérstöðu í stjórninni. Sérstaðan hefur gert flokknum kleift að halda fylgi í skoðanakönnunum, þótt öðrum stjórnarflokkum vegni miður.

Sérstaða Framsóknarflokksins felst annars vegar í, að hann gerir harðar kröfur fyrir hönd gæludýra sinna og fær þeim framgengt um síðir, svo sem dæmin sanna í landbúnaði. Hins vegar leikur hann hlutverk andstæðings eða hlutlauss áhorfanda innan ríkisstjórnarinnar.

Sérstöðuleikur er stundaður meira eða minna af öllum aðilum ríkisstjórnarinnar. Ráðherrar eru meira að segja farnir að bera fram mál á þingi, án þess að um þau sé samkomulag í ríkisstjórninni. Ráðuneytin koma í vaxandi mæli fram sem sjálfstæð og óháð ríki.

Ágreiningur hefur verið í vetur um fjárlög, matarskatt, húsnæðislánakerfi, sýslumannastörf, útgerðarkvóta, vexti og verðtryggingu, og svo auðvitað um allan skattfjárausturinn í landbúnað, svo að fræg dæmi séu nefnd. Slíkur ágreiningur mun halda áfram í haust.

Í flestum ágreiningsmálunum hefur niðurstaðan orðið sú, að ráðherra málaflokksins hefur fengið sínu framgengt. Þetta hefur einkum skipt miklu í landbúnaði. Á því sviði hefur ráðherranum tekizt að vinna hverja einustu orrustu við ráðherra Alþýðuflokksins.

Þótt stríðið innan ríkisstjórnarinnar hafi magnazt með þáttöku forsætisráðherra, er ekki þar með sagt, að hún sé nær falli en hún var á slagsmálatímum í vetur. Raunar má segja, að hún sé orðin svo vön ágreiningi, að hún hafi lært að búa við hann ­ sé orðin ónæm.

Við megum ekki gleyma, hversu mikill viðloðunarkraftur felst í sambandi ráðherra og stóls, þegar þeir fara að gróa saman. Það er ánægjulegra að vera ráðherra í sundurþykkri óstjórn, en að vera einn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, hrópandi úti í eyðimörkinni.

Vegna þess, sem hér hefur verið rakið, verður sandi áfram kastað í sandkassanum, en stjórnin mun sitja áfram lengi enn og halda áfram að skaða þjóðarhag.

Jónas Kristjánsson

DV

Alfaðir kvótanna

Greinar

Varðgæzlumenn kvótakerfa sjávarútvegsráðherrans treysta sér ekki til að andmæla rökum gegn þeim. Þeir játa meira að segja annmarka kerfanna, en segja þau varðveita byggðastefnu og vera smíðuð eftir margvísleg samráð við ýmsa aðila, sem hagsmuna hafi að gæta.

Sjávarútvegsráðherra er vanur að tefla saman ýmsum hagsmunum í svokölluðu samráði hans við sjávarútveg. Í samráðinu er reynt að finna leið, sem veldur öllum hagsmunaaðilum nokkrum vandræðum, en engum aðila yfirþyrmandi miklu meiri vandræðum en öðrum.

Niðurstaðan er jafnan sú, sem sótzt er eftir í sjávarútvegsráðuneytinu og í Landssambandi íslenzkra útvegsmanna. Með lögum og reglugerðum er sjávarútvegsráðherra “heimilað” að stjórna eftir eyranu hverju sinni. Geðþótti ráðherra leysir fastar leikreglur af hólmi.

Rækjukvótinn er gott dæmi um þetta ástand, sem fullkomnazt hefur í tíð núverandi sjávarútvegsráðherra. Á grundvelli samanlagðra byggðahugsjóna eru útvegaðir ódýrir forgangspeningar á allt of marga staði, sem síðan sitja uppi með ónotaða framleiðslugetu.

Þá er komið á fót opinberu kvótakerfi til að bjarga málunum fyrir horn. Hinn mikli alfaðir í sjávarútvegsráðuneytinu, sjálfur ráðherrann, situr með sveittan skallann við að finna af innsæi sínu, hverjir eigi skilið 500 tonna kvóta og hverjir eigi skilið 2000 tonna kvóta.

Enginn má heyra minnzt á, að ekki hefði átt að útvega með handafli alla þessa ódýru peninga til að búa til offramleiðslugetu í rækjunni. Slík rök eru talin vera villutrú, er stríði gegn byggðastefnu, sem í íslenzkum sið jafngildir fyrsta boðorðinu í kristnum sið.

Þannig er búin til ein tegund byggðagildru. Sveitarfélög, fyrirtæki og einstaklingar, sem falla undir byggðastefnu, fá tækifæri til að taka á sig skuldabagga, sem síðan verða svo yfirþyrmandi, að fólk verður að flýja staðinn og alla offjárfestinguna, sem þar liggur.

Allt er þetta svo rökfræðilega allsnakið, að ráðherrann hefur neyðzt til að finna ný nöfn til að dylja ofskipulagið. Kvótinn má til dæmis ekki lengur alltaf heita kvóti. Orðaleikir ráðuneytisins minna á landbúnaðinn, þar sem kvótinn heitir fullvirðisréttur eða búmark.

Fyrir helgina var settur kvóti á útflutning ferskfisks, þótt verð hans á erlendum markaði sé hátt í samanburði við vinnslufisk og þótt verðið hafi einmitt hækkað þá í vikunni. Þetta var gert til að framleiða verkefni handa fiskvinnslustöðvum, ­ “fullvinna” aflann heima.

Sjávarútvegsráðherrann sagði, að þessi kvóti væri raunar alls ekki kvóti, enda væri raunar óheppilegt að hugsa um kvótann sem kvóta. Þetta væri bara takmörkun á ferkfiskútflutningi við 600 tonn á viku. Það er helmingur af því, sem hefði orðið án afskipta ráðherrans.

Athyglisvert er, að sjávarútvegsráðherra og helztu varðgæzlumenn kvótakerfa hans viðurkenna, að Nýsjálendingar hafa komizt framhjá verstu göllum okkar fiskveiðikvóta og búa við hagkvæmara kerfi. En það samrýmist bara ekki okkar byggðastefnu, segja þeir svo.

Með þessu eru þeir að saka byggðastefnu um, að hún valdi tjóni víðar en í hefðbundnum landbúnaði og loðdýrarækt. Þeir eru að segja, að ekki megi reka hér hagkvæman sjávarútveg, af því að það geti skaðað fámenn kauptún. Hvað má þá gera á arðbæran hátt hér á landi?

Þegar við höfum losnað við alföðurinn úr ráðuneytinu, verður mikið verk að hreinsa brott alla kvótana, sem hann hefur í góðsemi hert að hálsi sjávarútvegs.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýsjálenzkur gustur

Greinar

Nýsjálendingar voru fyrir sex árum komnir í svipaðan sjávarútvegsvanda og við erum í. Þeir ofveiddu fiskinn og höfðu samt lítið upp úr krafsinu. Þeir voru hins vegar svo gæfusamir að taka þá upp kvótakerfi, sem er miklu betra en okkar og gerði útgerð þeirra arðbæra.

Veigamesti munur nýsjálenzka og íslenzka kerfisins er, að þar er frjáls markaður með kvótann. Hann gengur kaupum og sölum eins og hver vill, að öðru leyti en því, að útlendingar mega mest eiga 50% í hverri útgerð. Árangurinn er frábær og minnir helzt á kraftaverk.

Hér hins vegar er drottnunargjarn sjávarútvegsráðherra látinn skammta kvótann á nokkurra ára fresti eftir flóknum reglum og enn flóknari undantekningum. Sú aðferð hæfir þjóðfélagi, þar sem almenningur telur embættismenn hæfasta til að reka atvinnulífið.

Annar mikilvægasti munur nýsjálenzka og íslenzka kerfisins er, að þar er kvótinn ekki miðaður við skip. Þar þurfa menn því ekki eins og hér að liggja á gömlum manndrápsfleytum eða komast yfir þær með ærnum tilkostnaði til að halda kvóta eða komast yfir hann.

Hitt skiptir svo minna máli, hverjum upphaflega var úthlutaður kvótinn í gamla daga á Nýja-Sjálandi. Það er orðin sagnfræði, því að 20% kvótans ganga kaupum og sölum á hverju ári. Einhverjir hafa þénað vel fyrir sex árum, en nú er það þjóðfélagið, sem þénar mest.

Árum saman hefur hér í blaðinu og af mörgum fleiri aðilum verið mælt með, að íslenzki kvótinn færi á frjálsan markað. Ragnar Árnason lektor hefur lagt til, að hver einasti Íslendingur fái eignarbréf upp á sinn hluta kvótans til ráðstöfunar að sínum eigin geðþótta.

Slíkt hljómar eins og klám í eyrum Framsóknarmanna allra flokka og ráðuneyta, sem vilja hafa vald til að deila og drottna. Þeir vilja hafa einhvern guð almáttugan á borð við núverandi sjávarútvegsráðherra til að skammta brauðið ofan í gæludýr og útigangshross.

Hinn þriðji meginmunur nýsjálenzka kerfisins og hins íslenzka er, að þar er kvótinn ekki ókeypis, heldur tekur samfélagið af honum leigugjald eða skatt. Það minnir á tillögur um sölu veiðileyfa, sem mætustu menn hafa löngum lagt til, að komið verði á fót hér á landi.

Raunar er ekkert í nýsjálenzka kerfinu, sem ekki hefur verið tönnlast á hér á landi árum saman. Í þeirra gæfu er ekkert, sem meinar hana Íslendingum. Með hæfari útvegsráðherrum og hæfari oddamönnum hagsmunaaðila hefðum við getað náð nýsjálenzkum árangri.

Þar hefur fækkað skipunum, sem gerð eru út. Það hefur lækkað fastakostnað útgerðarinnar langt umfram leigugjaldið, sem tekið er. Allir hafa grætt á þessu, sjómenn, útvegsmenn, fiskvinnslan og samfélagið. Enginn vill þar í landi snúa frá þessu hagkvæma frelsi.

Frjáls verzlun með kvóta er leið markaðskerfisins að þeim árangri, að beztu skipin séu notuð og að þar stjórni beztu skipstjórarnir, sem hafi sér við hlið beztu áhafnirnar og hafi beztu útgerðarstjórana sér til halds og trausts í landi. Þetta getur orðið raunveruleiki hér.

Komu Nýsjálendinga til Íslands á ráðstefnu um kvóta fylgir hressilegur gustur, sem feykir burt mollunni, sem gufað hefur upp af skrifborðum mæðulegra skömmtunarstjóra í sjávarútvegsráðuneyti og í skrifstofum hagsmunaaðila og lagzt yfir íslenzkan sjávarútveg.

Leggja þarf niður samráðin í kjaftaklúbbum sjávarútvegsráðherrans og gefa kvótann frjálsan, svo að menn fái loksins frið til að ganga til arðbærra verka sinna.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjá ekki eigin hag

Greinar

Einn helzti vandi okkar sem þjóðar er, að við erum yfirleitt ófáanleg til að líta pólitískt á okkur sem neytendur og skattgreiðendur. Fólk greiðir atkvæði á ýmsum forsendum, allt öðrum en þessum. Stundum eru hagsmunir að baki, en þá allt aðrir en þessir.

Við greiðum ekki lengur atkvæði í kosningum á grundvelli vanans. Liðin er sú tíð, að stjórnmálaviðhorf gengu í ættir og að kosningastjórar gátu nokkurn veginn nákvæmlega getið sér til um niðurstöðutölur kosninga. Núna rambar stór hluti kjósenda milli fylkinga.

Að einhverju leyti kunna hugsjónir að hafa komið í staðinn. Það er kannski helzta skýringin á lélegum árangri af pólitískri þátttöku almennings. Það er ekki gæfulegt að láta stjórnast af ýmsum hugsjónaklisjum á borð við þær, sem við lesum í leiðurum sumra blaða.

Þegar fólk trúir til dæmis, að brýnt sé, að “fullvinna” afla hér á landi, að hamla gegn “röskun” á búsetu og að búa við innlent “matvælaöryggi”á ófriðartímum, er fljótlega kominn saman eins konar fátæktar- og Framsóknarpakki í pólitískum trúarbrögðum.

Að öðru leyti hafa hagsmunir komið í stað hefðbundinna og ættgengra hugsjóna. Þeir hafa raunar alltaf staðið við hlið hugsjóna og tengst þeim mjög náið. Þannig hafa byggðahagsmunir og byggðahugsjónir runnið saman í órjúfanlega og allsráðandi heild.

Þessi heild vinnur í flestum tilvikum gegn hagsmunum þeirra, sem af hagsmunaástæðum styðja allan byggðapakkann. Íbúar Akureyrar, Ísafjarðar, Reyðarfjarðar og Vestmannaeyja eru ekki aðallega landsbyggðarfólk, heldur einnig neytendur og skattgreiðendur.

Kaupmætti íbúa þessara staða er haldið niðri eins og kaupmætti annarra Íslendinga með banni við innflutningi á þeim landbúnaðarafurðum, sem eru í samkeppni við afurðir innlends landbúnaðar. Þetta bann, sem flestir styðja, kostar alla miklar fjárhæðir.

Margfalt fleiri eru milljarðarnir, sem landsbyggðarfólk fórnar árlega á altari þeirrar sjálfsmennskustefnu í landbúnaði, er felst í innflutningsbanni, en þeir, sem það fær til baka í niðurgreiðslum. Það eru ekki bara Reykvíkingar, sem tapa á að neita sér um ódýra búvöru.

Kaupmætti íbúa Akureyrar, Ísafjarðar, Reyðarfjarðar og Vestmannaeyja er líka haldið niðri með flóknu styrktarkerfi, sem einkum beinist að landbúnaði. Þetta kerfi er stór liður hinna sameiginlegu útgjalda, sem þjóðin reiðir af hendi í síhækkandi óhófssköttum.

Margfalt fleiri eru milljarðarnir, sem landbyggðarfólk fórnar árlega í uppbætur, niðurgreiðslur og beina styrki til framkvæmda og rekstrar á sviðum, er falla undir hinar ráðandi pólitísku hugsjónir í landinu, en þeir, sem það fær hugsjónanna vegna til baka í staðinn.

Akureyringar, Ísfirðingar, Reyðfirðingar og Vestmannaeyingar eru ginntir til fylgis við gæludýrafóðrun kerfisins með því að hengja hana á almenna landsbyggðarhugsjón, sem ætlað er að hamla gegn ofurvaldi Reykjavíkur, er sögð er liggja uppi á landsbyggðinni.

Íbúar sjávarsíðunnar úti á landi eru ófáanlegir til að líta á hina yfirþyrmandi hagsmuni sína sem neytendur og skattgreiðendur, en þeim mun fúsari að gína yfir ruðunum, er þeir fá af hagsmunagæzluborði landsbyggðarstefnu, þar sem landbúnaður situr í hásæti.

Lífskjör við sjávarsíðuna munu þá fyrst taka stökk fram á við, þegar íbúar hennar átta sig á þungu vægi hagsmuna sinna sem neytendur og skattgreiðendur.

Jónas Kristjánsson

DV

Hér hafa þeir hitann úr

Greinar

Freðfisksalar Íslendinga í Bandaríkjunum eru loksins byrjaðir að segja frá viðskiptatjóni vegna hvalveiðihugsjónar sjávarútvegsráðherra og meirihluta íslenzku þjóðarinnar. Til skamms tíma báru freðfisksalarnir sig vel, en eru nú byrjaðir að kveina í viðtölum á prenti.

Um helgina kom fram, að stór skyndibitakeðja hafði gert drög að samningi við Coldwater um að kaupa töluvert magn fiskbita. Á síðustu stundu hættu skyndibitamenn við að skrifa undir og sögðust ekki þora að kaupa af Íslendingum af ótta við missi viðskiptavina.

Freðfiskmarkaðurinn í Bandaríkjunum hefur áratugum saman verið hornsteinn útflutningstekna Íslendinga. Hann hefur látið á sjá á síðustu árum vegna aukinnar samkeppni annarra freðfiskþjóða og lækkaðs verðgildis dollarans. Nú bætist hvalveiðin við vandann.

Við eigum undir högg að sækja í fisksölu víðar en í Bandaríkjunum. Í Kanada og Vestur-Þýzkalandi hafa verið sýndar sjónvarpsmyndir af iðandi hringormum í fiski frá Íslandi. Þessar myndir fæla suma neytendur frá íslenzkum fiski og raunar frá fiski yfirleitt.

Andstæðingar hvalveiða hafa áttað sig á, hversu viðkvæmir markaðir okkar eru fyrir kvikmyndum af þessu tagi. Þeir hafa imprað á hótunum um að stuðla að frekari framleiðslu slíkra mynda og dreifingu þeirra á almennum markaði, en ekki komið því enn í verk.

Meiri áherzlu hafa þeir lagt á að hafa upp á íslenzku hvalkjöti í gámum í evrópskum höfnum, þar sem það er á leið til Japans. Þeim hefur tekizt að vekja almenna og neikvæða athygli í Þýzkalandi og Finnlandi á hvalveiðum okkar og tilraunum til að smygla hvalkjöti.

Erfitt hefur verið að sannfæra Þjóðverja og Finna um, að okkur beri skylda til að reyna að brjóta þarlend lög um flutninga á hvalkjöti um þarlendar hafnir. Þeir skilja ekki, hvaða brennandi hugsjónir knýja okkur til að ofbjóða gömlum kunningsskap við þessar þjóðir.

Hvalveiðar Íslendinga má einmitt flokka sem hugsjón fremur en atvinnugrein, á svipaðan hátt og einn helzti hagfræðingur Íslendinga flokkaði nýlega landbúnað sem listgrein fremur en atvinnugrein. Hugsjón hvalveiða á sér djúpar rætur í þrjózkum þjóðarvilja okkar.

Hvalveiðar eru orðnar nánast alveg marklaus þáttur í atvinnulífi okkar, enda er hvalafjöldinn, sem Bandaríkjastjórn heimilar okkur að veiða, orðinn svo lítill, að veiðarnar og vinnslan geta ekki talizt arðbær. Samt er eitthvað brýnt, sem knýr okkur til að halda áfram.

Í fyrsta lagi er útvegsráðherra okkar og raunar þjóðarmeirihluti haldinn brennandi vísindaáhuga á hinu afmarkaða sviði. Hugsjónafólkið talar um “vísindaveiðar” af slíkri innlifun, að telja verður vísindi vera forsendu iðjunnar, sem spillir fiskmörkuðunum.

Hvorki ráðherrann né meirihlutinn hafa nokkru sinni sýnt minnsta áhuga á vísindaafrekum á öðrum sviðum íslenzks atvinnulífs. Gott er því, að til sé þó eitt svið vísinda, þar sem við erum reiðubúin að fórna miklu fé og mikilli erlendri virðingu til að ná árangri.

Í öðru lagi er meirihluti þjóðarinnar afar andsnúinn því, að útlendingar séu að segja okkur fyrir verkum, og allra helzt, ef það er að undirlagi ríkra, bandarískra kerlinga, sem borgi brúsann fyrir Watson og grænfriðunga. Þetta telja menn árás á sjálfstæði Íslendinga.

Hugsjónir vísindaveiða og þjóðrækni munu vafalaust verma hjörtu ráðherra og þjóðar, þegar fiskmarkaðir hafa hrunið og lítið annað verður að orna sér við.

Jónas Kristjánsson

DV

Skipulögð skuldasöfnun

Greinar

Skiljanlegt er, að ríkisstjórnin reyni að hamla gegn óskum fyrirtækja um að fá að taka ódýr lán í útlöndum í stað dýrra eða alls engra lána á innlendum markaði. Lánsumsóknirnar í viðskiptaráðuneytinu eru komnar upp í átta milljarða króna, sem er hrikaleg tala.

Ríkisstjórnin er að reyna að halda niðurstöðutölu lánsheimildanna í hálfum öðrum milljarði króna. Það er aðeins lítill hluti af heildarupphæð umsóknanna og hefur samt í för með sér hækkun erlendrar lántöku ársins úr 9,2 milljörðum króna í 10,8 milljarða.

Þótt þannig takist að halda erlendu lántökunum í nokkrum skefjum, verða erlendar skuldir þjóðarinnar komnar yfir 110 milljarða í árslok. Það jafngildir 1,7 milljónum króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu, svo að notaður sé auðskiljanlegur mælikvarði.

Engin fátæktarþjóð heims er jafnskuldug við útlendinga og við erum hér á landi. Fólkið í Costa Rica, Nicaragua og Jamaica stendur okkur langt að baki. Helzt er það styrjaldarþjóðin Ísraelar, sem nálgast okkur, en hún hefur ótæmandi fjáruppsprettur í Bandaríkjunum.

Vegna mikillar þjóðarframleiðslu höfum við lengi haft betri aðstöðu en flestir aðrir til að standa undir skuldum. Sú aðstaða er þó farin að versna á nýjan leik eftir nokkurra ára stöðugleika. Í ár hækka heildarskuldirnar úr 40% af þjóðarframleiðslu ársins upp fyrir 45%.

Byrðin, sem við berum af vöxtum og afborgunum þessara miklu skulda, hefur að undanförnu numið um 16% af útflutningstekjum, en fer í ár upp í 20%. Með öðrum orðum fór sjötta hver króna útflutningstekna í rekstur skulda, en í ár fer fimmta hver króna í þá hít.

Í ljósi þessara alvarlegu staðreynda kann að koma á óvart, að mælt sé með, að stjórnvöld láti af stjórn á erlendum lántökum. En staðreyndin er þó sú, að hið opinbera skipulag, sem við búum við, kallar einmitt á meiri þrýsting á lántökur í útlöndum en góðu hófi gegnir.

Með opinberum bankaábyrgðum tekur þjóðin óbeint á sig ábyrgð af skuldum, sem fyrirtæki og stofnanir efna til í útlöndum. Ef þjóðin tæki sem heild enga ábyrgð á þessum skuldum, er líklegt, að hinir erlendu aðilar mundu aðeins lána þeim, sem þeir teldu trausta lántaka.

Þar með mundi hin meinta lánaþörf grisjast verulega. Auk þess mundu lánin ekki endurgreiðast, ef fyrirtækin færu á höfuðið. Þetta er hinn eðlilegi gangur lífsins. Skömmtunarkerfi bankaábyrgða er hins vegar dæmi um óheilbrigt ofskipulag af hálfu hins opinbera.

Í rauninni hafa stjórnmálaflokkarnir búið til sóunarkerfi, sem gerir gæludýrum þeirra í efnahagslífinu kleift að fá ódýr lán í útlöndum á ábyrgð þjóðarheildarinnar. Það kerfi þarf að afnema og gera lántakendur sjálfa ábyrga fyrir sínum lántökum. Þá mundi þörfin minnka.

Framundan er mikil dýrð gæzlumanna hinna pólitísku hagsmuna í bönkunum. Þeir fá enn eitt tækifærið til að deila og drottna. Einn bankastjórinn sagði í viðtali við DV í vikunni: “Það er náttúrlega alltaf hættan sú, að amlóðarnir verði látnir sitja fyrir.”

Í heild má segja, að árátta stjórnmálamanna við að deila og drottna hafi búið til óeðlilega mikinn þorsta í erlend lán og hlaðið upp óhóflegum skuldum þjóðarinnar í útlöndum. Hin væntanlega úthlutun leyfa upp á einn til tvo milljarða er angi af þessari spillingu.

Vandinn felst ekki í frelsi fólks til að taka lán, heldur í pólitísku valdi til að búa til ódýr lánakjör, sem skekkja jafnvægið og drekkja þjóðinni í óþarfri skuldasúpu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sterk stjórn í vændum

Greinar

Stundum sakna menn hinna sterku ríkisstjórna, sem þeir telja, að hafi oftar verið myndaðar fyrr á árum, þegar stjórnmálaflokkar voru færri á þingi. Eiga menn þá við tveggja flokka stjórnir, sem hafa orðið fátíðar á síðari árum og eru orðnar fegurri í fjarlægð tímans.

Umræða af þessu tagi vaknar einkum, þegar við völd er veik stjórn margra flokka eins og sú, sem nú situr. Auðvelt er að sjá, að núverandi ríkisstjórn veldur ekki hlutverki sínu og er raunar hin þyngsta byrði á þjóðinni. Ósamkomulag og hrossakaup einkenna hana.

Aðstæður eru þannig, að þjóðin gæti fengið hina svokölluðu sterku ríkisstjórn, ef gengið yrði til kosninga innan tíðar. Skoðanakannanir í vetur og vor hafa kerfisbundið leitt í ljós, að tveir stjórnmálaflokkar gnæfa í fylgi yfir aðra flokka. Þeir hafa 30% fylgi hvor um sig.

Sjaldgæft hefur verið í stjórnmálasögu landsins, að unnt væri að mynda tveggja flokka ríkisstjórn með samtals 60% fylgi að baki sér. Það getur orðið kleift eftir næstu kosningar, ef Sjálfstæðisflokkurinn og Kvennalistinn ná saman um myndun nýrrar ríkisstjórnar.

Svo sérkennilega vill til, að þessum tveimur stjórnmálaöflum svipar saman um margt. Er þá annars vegar miðað við reynsluna, sem fengizt hefur af aðild Sjálf stæðisflokksins að ríkisstjórnum, og hins vegar spáð í, hver framkvæmdin yrði á stjórnaraðild Kvennalistans.

Báðum flokkum svipar í reynd til Framsóknarflokksins. Í núverandi ríkisstjórn stendur Sjálfstæðisflokkurinn jafnan með sérhagsmunum gegn almannahagsmunum og yfirbýður jafnvel Framsóknarflokkinn í fyrirstöðu, þegar Alþýðuflokkurinn vill minnka spillingu.

Þessi aðgreining núverandi stjórnarflokka skiptir að vísu ekki miklu í raun, því að Alþýðuflokkurinn hefur lítið úthald. Ráðherrar hans láta sér nægja að þjarka um tíma út af fyrirgreiðslum á borð við þær, sem landbúnaðurinn vill fá um þessar mundir og mun fá.

Hins vegar má treysta því, að ráðherrar Sjálfstæðisflokksins vilja, að sérhagsmunir eins og landbúnaðarins fái sitt á hreint og þá auðvitað á kostnað almannahagsmuna eins og neytenda og skattgreiðenda. Þetta kemur fram í deilum ríkisstjórnarinnar þessa dagana.

Sjálfstæðisflokkurinn má ekkert aumt sjá í atvinnulífinu. Hann leyfði Framsóknarflokknum að gera hinn illræmda búvörusamning til fjögurra ára. Þingmenn hans eru jafnan fremstir í flokki í fyrirgreiðslum vegna staðbundinna vandamála í lélegum fyrirtækjum.

Einnig Kvennalistinn líkist Framsóknarflokknum og má ekki sjá neitt aumt í atvinnulífinu. Hann mun styðja fjárveitingar, sem ætlað er að tryggja búsetu bændakvenna í sveitinni, stöðu frystihúsakvenna við færiböndin og setu prjónakvenna við prjónavélarnar.

Kvennalistinn og Sjálfstæðisflokkurinn mundu í ríkisstjórn sameinast um stefnu Framsóknarflokksins og veita fjármagni úr arðbærum rekstri yfir í arðlausan rekstur til þess að konur geti fengið hærra kaup fyrir arðlaus störf við færibönd, prjónavélar og búskap.

Ríkisstjórn Kvennalista og Sjálfstæðisflokks gæti orðið eindræg og sterk ríkisstjórn, eins konar hæna, sem breiddi vængi sína yfir gæludýrin, og sendi síðan reikninginn til neytenda og skattgreiðenda, sem jafnan verða að borga fyrir takmarkalitla gæzku stjórnmálaflokka.

Þjóðin lítur aldrei á sig sem neytendur og skattgreiðendur og fær eftir næstu kosningar ríkisstjórn, sem hún á skilið, sterka gæzlustjórn sérhagsmuna gæludýranna.

Jónas Kristjánsson

DV

Á mörkum tveggja heima

Greinar

Tilraunin til að drepa Turgut Özal forsætisráðherra segir í sjálfu sér ekkert um Tyrkland eða Tyrki. Síðan Olof Palme var myrtur í Svíþjóð, gera menn sér grein fyrir, að voðaverk eru framin hvar sem er í heiminum, jafnvel þar sem siðareglur eru í heiðri hafðar.

Tyrkir líkjast Grikkjum um margt. Þeir eiga sameiginlegar rætur í meira en tveggja árþúsunda sögu, frá því er Grikkir settust að í Litlu-Asíu. Matur og drykkur er svipaður í þessum löndum, svo og dansar og skemmtanir. Heiðarleiki einkennir Grikki og Tyrki í senn.

Munurinn sést á hvítu skyrtunum í stoltu Grikklandi og hinum svörtu í feimnu Tyrklandi. Grikkir brosa líka meira en Tyrkir. Þeim finnst ferðamenn vera heppnir að vera í Grikklandi, meðan Tyrkjum finnst þeir sjálfir vera heppnir að hafa ferðamenn í landi sínu.

Grikkir eru stoltir af sér sem tiltölulega nýfrjálsri þjóð á uppleið og tengja sig vel við gullöld fornaldar. Tyrkir sitja hins vegar í fátækum rústum gamals heimsveldis og eiga erfitt með að ná sambandi við fortíðina. Martröð soldánanna hvílir enn á herðum þeirra.

Í Tyrklandi er sagnfræðilega allt miðað við árið 1923, þegar Mústafa Kemal Tyrkjafaðir steypti síðasta soldáninum og stofnaði lýðveldi. Hann fetaði í fótspor Péturs mikla í Rússlandi og hófst þegar handa með heimsfrægu offorsi við að þvinga evrópskum háttum upp á Tyrki.

Hann lét þá taka upp latneskt letur í stað arabísks, skildi að ríki og íslamska trú, skipaði fólki að klæðast að evrópskum hætti, bannaði andlitsslæður kvenna og fez-húfur karla, tók upp vestur-evrópska lagabálka og skozkt viskí. Tyrkir skyldu verða evrópsk þjóð.

Tyrkir hafa ekki enn náð hinu nýja hlutverki. Undir niðri kraumar trúin á Allah, sem meðal annars veldur því, að bönnuð eru ritverk höfunda á borð við David Hume og Henry Miller og brenndar eru 109 kvikmyndir Tyrkjans Yilmaz Günev, svo að örfá dæmi séu nefnd.

Fjölmiðlar í Tyrklandi verða að fara afar varlega gagnvart stjórnvöldum. 25 blaðamenn og ritstjórar sitja í fangelsi. Sjónvarp er algerlega undir hæl ríkisstjórnarinnar og má lítið segja frá stjórnarandstæðingum, sem sumir mega alls ekki taka þátt í stjórnmálum.

Verst er framganga lögreglunnar. Pyndingar eru enn stundaðar í fangelsum og stjórnvöld gera lítið til að draga úr þeim. Saffet Beduk lögreglustjóri segir bara, að mistök geti orðið og lítið sé við því að gera. 169 manns hafa dáið af pyndingum í fangelsum landsins síðan 1980.

Mjög mikið er bogið við stjórnvöld, sem láta sig litlu varða, þótt mannréttindasamtök landsins hafi upplýst, að fimm ára drengur var pyndaður fyrir framan foreldra sína til að fá þá til að játa misgerðir. Á öllu þessu bera ábyrgð Turgut Özal og herstjórarnir að baki hans.

Vandi þessi á sér rætur í, að ekki eru nema nokkrir áratugir síðan Tyrkir losnuðu undan aldagamalli grimmdarhefð soldánaveldisins. Lögregla og her hafa ekki verið siðvædd nægilega á evrópska vísu, þrátt fyrir róttækar tilraunir Kemals Tyrkjaföður í þá átt.

Stjórnarfar í Tyrklandi þarf að verða lýðræðislegra og mannlegra, áður en Vestur-Evrópa getur tekið landið sem fullgildan aðila í sinn hóp. Fram að því ber Evrópubandalaginu að hafna beiðni Tyrklandsstjórnar um aðild og Evrópuráðinu að meina henni fullgilda þátttöku.

Tilraunin til að myrða Turgut Özal minnir á, að Tyrkland stendur á mörkum tveggja heima og hefur enn ekki ákveðið, hvorum megin það ætlar að festa rætur.

Jónas Kristjánsson

DV

Kerfið skiptir ekki miklu

Greinar

Aðfaraumræður forsetakosninganna um vald og stöðu forseta Íslands eru að mörgu leyti gagnlegar. Af þeim er ljóst, að túlka má stjórnarskrána á ýmsa vegu í þessu tilliti. Engan veginn er tryggt, að sú túlkun, sem farið hefur verið eftir, sé hin eina rétta og nothæfa.

Ef stjórnarskráin gerir ráð fyrir, að forsetinn sé nokkurn veginn valdalaus í pólitískum skilningi, segir hún það óneitanlega með afar óljósum og villandi orðum. Þess vegna er ekki ástæða til að vísa algerlega á bug nýjum túlkunum á valdastöðu forsetans í kerfinu.

Hins vegar er þungt á metunum, að frá upphafi hefur verið farið eftir túlkun þeirri, sem nú er í gildi. Sennilega er þorri þjóðarinnar á þeirri skoðun, að sú túlkun hafi gefizt nægilega vel til þess, að ekki sé augljós ástæða til að breyta nærri hálfrar aldar gamalli hefð.

Eðlilegt er, að mörgum finnist freistandi að hugsa til þess, að góður forseti getið bjargað þjóðinni frá slysum lélegra alþingismanna og skotið vandræðamálum til þjóðaratkvæðagreiðslu, svo að þjóðin fái sjálf að úrskurða milliliðalaust, hver skuli vera lög í landinu.

Satt að segja er þjóðaratkvæðagreiðslum allt of lítið beitt hér á landi. Gott væri til dæmis, ef kerfið gerði ráð fyrir ákveðnum kosninga-laugardegi á hverju vori. Þá mætti bera undir þjóðina ýmis mál, auk þess sem kosið væri til alþingis og byggðastjórna, þegar það á við.

Um kostnað við kosningar hefur í blöðum verið slegið fram tölum, sem ekki eru ógnvekjandi. Með árvissum kosningum og aukinni rafeindatækni við framkvæmd þeirra og talningu atkvæða má auðveldlega minnka kostnaðinn. Lýðræði þarf alls ekki að vera dýrt.

Óskir um fleiri þjóðaratkvæðagreiðslur þurfa ekki að fara saman við óskir um meiri völd forseta Íslands. Ástæða er til að efast um, að hið síðara nái þeim markmiðum, sem sótzt er eftir. Breytingar leiða oftar en ekki til annarrar niðurstöðu en reiknað var með í upphafi.

Ef forsetinn hefði meiri afskipti en nú af meðferð Alþingis á pólitískum málum, má reikna með, að forsetakosningar yrðu miklu pólitískari en verið hefur. Til framboðs mundu sumpart veljast annars konar forsetaefni en valin eru nú á þeim forsendum, sem nú gilda.

Hugmyndir um þvílíkar kerfisbreytingar á landsstjórninni eru ekki nýjar af nálinni. Fyrir nokkrum árum byggði Bandalag jafnaðarmanna tilveru sína að verulegu leyti á þeirri trú, að það, sem þjóðina vantaði, væru einmitt kerfisbreytingar sem lækningatæki.

Þjóðin tók ekki þessa trú Bandalagsins. Af náttúrugreind sinni sá hún þá og sér núna, að kerfi skiptir miklu minna máli en innihald. Bretar hafa önnur lýð ræðiskerfi en Bandaríkjamenn, sem hafa önnur lýðræðiskerfi en við. Öllum þjóðunum vegnar lýðræðislega vel.

Á lýðveldishátíðinni á morgun getum við raunar fagnað gæfu okkar. Við erum í hópi örlítils minnihluta þjóða heims, sem býr við raunverulegt lýðræði. Við höfum að vísu vandamál, en þau liggja ekki í kerfum, heldur í okkur sjálfum sem sjálfstæðum borgurum.

Þrátt fyrir náttúrugreindina í þjóðfélaginu, skortir nokkuð á rökhyggjuna. Fámennið veldur því líka, að erfitt er að manna vel allar mikilvægar stöður. Innihald formsins er því oft lítið og lélegt. Mikilvægasta lækningatæki okkar ætti að vera að þjálfa rökræna hugsun.

Þótt fólk sjái vitleysur gerðar allt í kringum sig, má það ekki verða svo bergnumið af útsýninu, að það telji kerfisbreytingar einar geta orðið þjóðinni til bjargar.

Jónas Kristjánsson

DV

Glannafengið ævintýri

Greinar

Fiskeldismenn kenna stjórnvöldum um offramleiðslu laxaseiða. Þannig virðast þeir líta á ríkið sem stóra bróður. Að því leyti er hugarfar þeirra ekki hið sama og annarra framkvæmdamanna, sem hafa hliðsjón af markaði, þegar þeir hefjast handa eða stækka við sig.

Fiskeldismenn segjast fyrir löngu hafa sent landbúnaðarráðuneytingu upplýsingar um, að framleidd yrðu í ár tólf milljón laxaseiði í stað þeirra sjö milljóna, sem talið var unnt að koma í lóg. Þessum upplýsingum hafi verið stungið niður í skúffu í ráðuneytinu.

Ekki er auðvelt að skilja, að það eigi að vera mál stjórnvalda, hvort menn hagi sér skynsamlega eða óskynsamlega í einhverri atvinnugrein, nema greinin sé landbúnaður, þar sem menn hafa leyfi stjórnvalda til að offramleiða á kostnað neytenda og skattgreiðenda.

Löngum hefur verið undrunarefni áhorfenda, hvernig fiskeldi hefur getað blómstrað hér á landi, þótt flestir fiskeldismenn hafi eingöngu treyst sér til að framleiða seiði handa öðrum til fóstrunar. Hefur oftast verið treyst á, að Norðmenn keyptu afganginn af seiðum ársins.

Óráðlegt er að byggja nýja atvinnugrein á þeirri forsendu, að Norðmenn kaupi offramleiðsluna. Þeirra menn vilja sjálfir útvega seiðin, ef þeir geta, og fá áreiðanlega forgang umfram íslenzka fiskeldismenn, ef á þarf að halda. Þeir fá vernd síns landbúnaðarráðuneytis.

Einhvern tíma hljóta íslenzku seiðamilljónirnar að eiga að verða að stórum matfiski, sem fari á borð neytenda. Fáir hafa lagt út í slíka framleiðslu, enda virðast tekjur vera seinteknari í henni en í skjótræktuðum seiðum. Einnig þarf þá að hugsa dæmið alla leið til neytenda.

Tilraunir íslenzkra fiskeldismanna til útflutnings á laxi hafa gengið misjafnlega. Á fiskmarkaðinum í New York hefur íslenzkur eldislax fengið hættulegt óorð fyrir að vera linur og hreisturskemmdur. Hann hefur selzt þar á lægra verði en eldislax frá öðrum löndum.

Fiskeldismenn hafa ekki komið sér upp neinu sameiginlegu gæðakerfi til að tryggja lágmarksgæði í útflutningi. Aðeins þrjár vinnslustöðvar í landinu standast kröfur Bandaríkjamanna, en laxinn er unninn hér við frumstæðar aðstæður í tíu vinnslustöðvum öðrum.

Fiskeldismenn þurfa að gera sér grein fyrir, að erlendis er lax markaðsvara eins og annar fiskur. Þar verður að heyja baráttu við mikið framboð af laxi frá erlendum aðilum, sem hafa aflað sér nákvæmrar þekkingar á þörfum neytenda á hinum og þessum stöðum.

Hér virðast fiskeldismenn hafa hugsað eins og gert er í landbúnaðinum. Þeir hefjast bara handa með gassagangi við að framleiða seiði. Ekkert er unnt að spá um, hvort einhverjir vilji kaupa seiðin og enn síður, hvort einhverjir vilji um síðir borða fullvaxinn laxinn.

Fjárfesting í fiskeldi nemur nú 3,5 milljörðum króna hér á landi. Til að verja þessa fjárfestingu hefur ríkið ákveðið að bjarga gullæðismönnum fiskeldisins fyrir horn með því að lána þeim 800 milljónir króna til að koma offramleiðslu seiða í framhaldseldi innanlands.

Síðan má búast við árlegu upphlaupi út af erfiðleikum við að koma seiðum ársins í verð. Eftir um það bil tvö ár hefst svo nýtt árlegt upphlaup út af erfiðleikum við að koma fullvöxnum laxi ársins í verð. Eiga íslenzkir skattgreiðendur að taka allt þetta á bakið?

Senn þarf að finna skynsamleg mörk á fyrirgreiðslu þjóðarinnar við grein, sem rambar glannalega milli ævintýralegra möguleika og ævintýralegrar óráðsíu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjá ei ­ heyra ei ­ tala ei

Greinar

Samvinnumenn hafa valið kost, sem veldur þórðargleði andstæðinga Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Fulltrúar á aðalfundi Sambandsins í gær og fyrradag kusu að sjá ekki, heyra ekki og tala ekki. Vandamálin fá því að hreiðra um sig í samvinnuhreyfingunni.

“Menn sneru bökum saman”, sagði í gær á forsíðu málgagns Sambandsins. Við nánari athugun kemur í ljós, að þetta felur í sér, að fundarmenn stóðu saman um að ræða ekki mörg þeirra vandræðamála, sem samvinnuhreyfingin hefur ratað í að undanförnu.

Þetta eru kunnugleg viðbrögð. Fólk hættir oft að vera reiðubúið að ræða fjölskylduvandann, þegar hann er kominn á það stig, að um hann er fjallað úti í bæ, stundum fremur illkvittnislega. Þá er varpað gegnsærri dulu yfir ágreininginn og reynt að sýna samstöðu út á við.

Þetta er verulega athyglisvert og afdrifaríkt mál, því að samvinnuhreyfingin er að grunni til afar öflug hér á landi, þótt innviðir hennar hafi fúnað. Heildarvelta hennar nemur tæpum 90 milljörðum króna á ári, sem nemur einum fimmta hluta allrar veltu í landinu.

Segja má, að samvinnuhreyfingin eigi landbúnaðinn eins og hann leggur sig og tíu sjávarpláss í ofanálag. Í þessum tíu bæjum fer allur fiskur um hendur hreyfingarinnar. Í ellefu verstöðvum öðrum fer meirihluti aflans inn í veldi Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Því er afkoma heilla byggða háð getu þessarar hreyfingar til að standa sig í lífsbaráttunni. Svo virðist sem breytingar á samkeppnisskilyrðum hafi veikt Sambandið og kaupfélögin. Í fyrra tapaði hreyfingin í heild 560 milljónum króna eða meira en hálfum milljarði.

Forréttindi Sambandsins og aðildarfélaga þess hafa farið rýrnandi á undanförnum árum. Rekstur fyrirtækja byggist ekki eins mikið og áður á pólitískum ákvörðunum stjórnvalda á borð við þær að beita handafli til að halda vöxtum fjárskuldbindinga neikvæðum.

Á tímabilinu 1979­1984 breyttust útlánavextir úr því að vera neikvæðir um 15,4% í að vera jákvæðir um 4,9%. Mörgum fyrirtækjum veittist erfitt að laga sig að þessum nýju aðstæðum og kaupfélögunum sérstaklega. Í fyrra jókst fjármagnskostnaður þeirra um 600 milljónir.

Samvinnumenn eiga að vita, að hættulegt er, ef rekstur þeirra er orðinn svo háður pólitískri fyrirgreiðslu, að hann getur ekki lifað við heilbrigðar aðstæður. Það er til dæmis glæfralegt til lengdar að byggja afkomu sína á að stela sparifé landsmanna. Gæludýrin eiga bágt.

Rekstur rotnar að innan, ef hann venur sig á að geta haft að láni 800 milljónir frá bönkum án þess að leggja veð á móti eins og aðrir. Hann grotnar niður, ef hann venur sig á að geta þvingað Landsbankann til að kaupa af sér verðlausa Nígeríuvíxla fyrir 160 milljónir króna.

Ofan á peningaraunir, sem stafa meira eða minna af óhóflega löngum legum við kjötkatla þjóðfélagsins, koma svo hin siðferðilegu vandamál samvinnuhreyfingarinnar, allt frá kaffibaunamálinu yfir í meðferðina á bændum í stjórn Kaupfélags Svalbarðseyrar.

Siðblindir menn bola kaupfélagsstjóra úr stjórn fyrir að hafa aðrar skoðanir en forstjórinn á kjaramálum forstjórans. Siðblindir menn koma upp stéttaskiptingu starfsfólks, sem er í launagreiðslum töluvert umfram það, er þekkist annars staðar í þjóðfélaginu.

Aðalfundur Sambandsins aðhafðist hvorki nokkuð til að lækna siðblindu né til að gera gæludýrinu kleift að lifa af úti í hinu náttúrulega umhverfi markaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV

“Stétt með stétt”?

Greinar

Til skamms tíma hrósuðum við okkur af að vera ein þjóð í einu landi. Við bárum okkur saman við erlendar þjóðir og sögðumst hafa komið á meira jafnrétti hárra og lágra en þekktist annars staðar. “Stétt með stétt” sagði þá í slagorði stærsta stjórnmálaflokksins.

Í leiðurum DV hefur nokkrum sinnum verið fjallað um fráhvarf okkar frá þessari stefnu stéttajafnaðar, nú síðast á laugardag og þriðjudag. Þetta fráhvarf er engin ímyndun, heldur má lesa það í nýbirtum greinargerðum Kjararannsóknanefndar og Þjóðhagsstofnunar.

Hjá Kjararannsóknanefnd kom fram, að stéttaskipting, mæld í kaupmætti, jókst verulega frá því í árslok 1984 fram á mitt ár 1985 og síðan aftur frá árslokum 1986 og allt til þessa dags. Góðæri þessara síðustu ára hefur algerlega farið fram hjá lágkjarafólkinu.

Hjá Þjóðhagsstofnun kom fram, að hátekjufólk er margt og hefur það mjög gott. Á þessu ári er reiknað með, að hinn bezt setti tíundi hluti launþega landsins hafi 252.000 króna mánaðarlaun á sama tíma og lágmarkslaun hafa nýlega verið hækkuð í 36.500 krónur.

Afleiðingarnar hafa ekki látið á sér standa og það á mörgum sviðum. Hin hörðu átök á vinnumarkaðnum í vor fólu í sér örvæntingarfulla, en misheppnaða tilraun láglaunafólks, einkum í verzlun og fiskvinnslu, til að fá stefnuna leiðrétta á nýjan leik til fyrra jafnvægis.

Hin mikla þensla í fylgi Kvennalistans er einnig að hluta afsprengi ójafnaðarins, er hefur síazt inn í þjóðfélagið á síðustu árum, því að konur eru fjölmennar í þeim hópi, sem orðið hefur útundan í góðærinu. Gremja þeirra hefur magnazt um allan helming á þessu ári.

Á hvorugu sviðinu hefur láglaunafólkið sagt sitt síðasta orð. Búast má við vaxandi hörku í vinnudeilum á næstu árum. Og um síðir kemur einnig að þingkosningum, þar sem meðal annars verður kosið með og móti hinni auknu stéttaskiptingu í þjóðfélaginu.

Yfirstéttin í landinu getur auðvitað haldið áfram að láta eins og ekkert hafi gerzt. Hún getur fært gild rök að því, að flestar tilraunir til endurheimts jafnaðar hafi farið út um þúfur og sumar raunar haft þveröfug áhrif, svo sem lágmarkslaunaákvæði í kjarasamningum.

Hitt er svo jafnljóst, að sómasamlegur stéttafriður og þolanlegur vinnufriður næst ekki hér á landi, nema fundnar verði leiðir til að minnka hinn nýja lífskjaramun. Hér í blaðinu hefur verið lagt til, að þjóðin setji sér að marki að færa hann úr sjöföldu niður í fimmfalt.

Er þá miðað við, að mánaðarlaunabilið er núna frá 36.500 króna lágmarkslaunum upp í 252.000 laun þess tíunda hluta þjóðarinnar, sem hefur það bezt. Þetta er sjöfaldur munur. Ef lágmarkslaun hækkuðu úr 36.500 krónum í 55.000 krónur, minnkaði bilið í fimmfalt.

Hugsanlegt er, að Alþingi setji lög að bandarískri fyrirmynd, þar sem ákveðin séu lágmarkslaun á föstu eða lausu verðlagi, miðað við fullan vinnudag. Hér í blaðinu var á laugardaginn rökstutt, að slíkt er auðveldara í landi fullrar atvinnu en í löndum atvinnuleysis.

Einnig gætu pólitísku öflin, sem fylgja öll minnkuðum ójöfnuði, sameinazt um að láta ríkið sem vinnuveitanda ganga á undan með góðu fordæmi. Það gæti verið undirbúningsskref að lögum um almenn lágmarkslaun í landinu, að ríkið greiddi sínu fólki minnst 55.000 krónur.

Aðalatriðið er þó, að þessi vandi, sem ógnar samstöðu og samkennd þjóðarinnar, verði viðurkenndur og fái almenna og fjölbreytta umfjöllun í fjölmiðlum.

Jónas Kristjánsson

DV

Endurheimtum stéttafrið

Greinar

Hremmingar ríkisstjórnarinnar byrjuðu í alvöru í vinnudeilum vorsins. Hin vanhugsuðu bráðabirgðalög hennar voru tilviljanakenndur áfangi í þokugöngu, sem varð fyrst mögnuð í sífelldu vanmati hennar og raunar flestra annarra á þunganum í gremju láglaunafólks.

Það var verzlunar- og skrifstofufólk utan Reykjavíkursvæðisins, sem kom mest á óvart í vinnudeilunum. Hvað eftir annað kom í ljós, að það sætti sig ekki við niðurstöður, sem reyndir menn töldu vera í þolanlegu samræmi við hefðir og reynslu fyrri ára á þessu sviði.

Eftir á að hyggja eru á þessu gildar skýringar. Kjarni verzlunarstéttar þessa svæðis starfar hjá kaupfélögum og öðrum samvinnufélögum, sem hafa verið í fararbroddi hinnar auknu stéttaskiptingar í landinu á undanförnum árum. Þetta starfsfólk gerði uppreisn.

Láglaunafólk verzlunarmannafélaga landsbyggðarinnar taldi sig ekki eiga frumkvæði að rofi hefða. Það taldi sig vera í vörn gegn atvinnurekendum, sem hefðu rofið hefðbundin hlutföll í stéttakjörum þjóðarinnar. Það bar sig saman við nýráðinn Sambandsforstjóra.

Enginn vafi er á, að óvæntar upplýsingar um kjör dýrustu yfirmanna samvinnuhreyfingarinnar voru olía á eld óánægju láglaunafólks. Hin afbrigðilegu launakjör forstjóra sölufélags íslenzkra samvinnumanna í Bandaríkjunum voru borin saman við eigin smánarkjör.

Samvinnuhreyfingin er ekki ein um að hafa rofið hefðbundin hlutföll í kjörum starfsfólks, þótt hún hafi gengið einna lengst. Milljón krónur á mánuði þekkjast ekki í einkarekstri, en þar eru menn þó farnir að skríða í hálfa milljón, meðan þrælarnir hafa tæp 40 þúsund.

Samkvæmt nýrri úttekt Þjóðhagsstofnunar er tíundi hluti launþega með rúmlega 250 þúsund krónur á mánuði að meðaltali um þessar mundir. Þetta er tekjuyfirstétt þjóðarinnar, þau 10%, sem fá 27% kökunnar. Í rauninni er þetta furðulega fjölmennur hópur.

Í hinum endanum eru þeir, sem taka lágmarkslaunin, sem tókst með hörku í vor að hækka upp í 36.500 krónur, einn sjöunda af launum hátekjufólks. Úttekt Þjóðhagsstofnunar sýnir að vísu mun lægri tekjutölur á botninum, en það eru tekjur fólks í hlutastörfum.

Samkvæmt útreikningum Kjararannsóknanefndar hófst misgengi almenns kaupmáttar og kaupmáttar lágmarkslauna eftir samningana í árslok 1984. Í stað þess að jafna kjörin, juku þeir ójöfnuðinn fram á mitt ár 1985. Síðan varð hlé, sem stóð fram undir árslok 1986.

Misræmið magnaðist svo í alvöru í fyrra. Hefur ekki annar eins aðskilnaður tekjuþróunar hálauna- og láglaunafólks orðið í manna minnum. Verulegur hluti þjóðarinnar baðaði sig í góðærinu, meðan sá hluti hennar, sem verst var settur, mátti sæta skerðingu lífskjara.

Þetta misgengi hleypti illu blóði í kjarasamingana í vor. Láglaunafólkið setti hnefann í borðið. Niðurstaða upphlaupsins varð engin. Það þýðir ekki, að málið sé úr sögunni. Búast má við harðnandi stéttaátökum í landinu á næstu árum, ef misgengið verður ekki leiðrétt.

Slæm reynsla er af minnkun tekjubils í kjarasamningum. Launaskriðið hefur jafnan eyðilagt slíkar tilraunir og jafnvel breikkað bilið enn frekar. Hér í leiðaranum á laugardag var bent á kosti og galla annarrar leiðar, lagasetningar, svo sem tíðkast í Bandaríkjunum.

Þótt málið sé erfitt í framkvæmd, er nauðsynlegt, að þjóðin geri sér grein fyrir, að sæmilegur stéttafriður næst ekki nema með minnkun munar lífskjara í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV