Greinar

Minnkum ójöfnuð

Greinar

Þjóðarsátt hefur verið og er um, að nauðsynlegt sé að hækka lágmarkslaun í landinu. Undanfarin ár hafa kjarasamningar meira eða minna snúizt um þetta. Síðustu kjarasamningar einkenndust af kröfunni um 42.000 króna lágmarkslaun og 36.500 króna niðurstöðunni.

Árangurinn hefur látið á sér standa. Með launaskriði hefur hækkun lágmarkslauna gengið upp allan launastigann og skilið láglaunafólkið eftir í sömu súpu og áður. Enn hefur ekki verið fundin lausn á þessum vanda, sem framkallar verðbólgu í stað kjarajöfnunar.

Erlendis hefur sums staðar, til dæmis í Bandaríkjunum, verið farin sú leið að semja ekki um lágmarkslaun í kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins, heldur lögfesta þau á þjóðþinginu sem pólitíska ákvörðun. Nú stendur þar fyrir dyrum ný hækkun lágmarkslauna.

Á þann hátt má líta á, að lágmarkslaun séu orðin hluti af hinu opinbera tryggingakerfi og þá á þann hátt, að löggjafarvaldið skyldar atvinnurekendur til að borga ákveðið lágmark í laun, jafnvel þótt þeir telji vinnuna, sem þeir kaupa, ekki vera þeirra peninga virði.

Margir hagfræðingar eru andvígir þessari aðferð. Þeir segja réttilega, að hún leiði til fækkunar atvinnutækifæra. Ríkið geti að vísu skyldað atvinnurekendur til að borga ákveðin laun, en það geti ekki skyldað þá til að ráða fólk til starfa á hinum lögskipuðu launum.

Samkvæmt þessu eru færri en ella ráðnir til starfa, sem álitin eru ómerkari en sem svarar lágmarkslaunum. Þetta kemur mest niður á ungu fólki, sem er að sækja inn á vinnumarkaðinn, og á konum, sem löngum hafa skipað lægstu þrep launastiga í flestum greinum.

Einnig er þetta talið leiða til, að niður leggist rekstur fyrirtækja, sem byggja afkomu sína á ódýru vinnuafli. Andstæðingar lágmarkslauna segja, að betra sé að hafa prjónastofur, er borgi konum lágt kaup, en hafa alls engar prjónastofur, sem gerir þær atvinnulausar.

Reiknað hefur verið út, að sérhver 10% hækkun lágmarkslauna eyði 200.000 störfum í Bandaríkjunum. Það svarar til 200 starfa hér á landi. Þetta þykir afleitt í löndum, þar sem atvinnuleysi er eitt helzta vandamálið, sem stjórnvöld glíma við. En það þarf ekki að gilda hér.

Við erum svo heppin á Íslandi að búa við langvinna umframatvinnu, sem metin er á nokkur þúsund störf. Það er mismunurinn á lausum störfum og skráðu atvinnuleysi. Er þá að vísu ekki tekið tillit til dulbúins atvinnuleysis í landbúnaði og fleiri atvinnugreinum.

Vel má hugsa sér, að í þjóðfélagi umframatvinnu sé heppilegt að setja lög, sem hvetji til samdráttar og lokunar fyrirtækja í láglaunagreinum á borð við prjónastofur og frystihús, svo að slík atvinna sé ekki lengur eins konar gildra, sem hindri straum í arðbærari störf.

Með talnaleik má hugsa sér, að hækkun íslenzkra lágmarkslauna úr 36.500 krónum í 55.000 krónur sé 50% aukning og muni leiða til 1000 starfa fækkunar. Hagkerfið ætti að þola slíkt, án þess að atvinnuleysi verði meira en fjöldi lausra starfa í þjóðfélaginu.

Ef lögfesting 55.000 króna lágmarkslauna leiddi ekki til launaskriðs, væri hægt að minnka kjarabil undirstéttar og yfirstéttar í landinu úr sjöföldu í fimmfalt. Það er hæfilegt launabil í jafnréttisþjóðfélagi, sem hefur tekið upp flatan tekjuskatt í stað skattþrepa.

Þótt hingað til hafi ekki tekizt að bæta kjör láglaunafólks með slíku handafli, er ekki ástæða til að gefast upp, því að þjóðarvilji vill minni ójöfnuð í tekjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvartmilljón á fjölskyldu

Greinar

Með vorinu er að koma í ljós, að breytingar stjórnvalda á sköttum í vetur valda þjóðinni aukinni skattbyrði. Aukningin kemur út af fyrir sig ekki á óvart, því að ríkisstjórnir hafa áratugum saman notað breytingar á skattkerfi til að hafa meiri peninga af fólki.

Athyglisvert er hins vegar, að aukningin er óvenjulega mikil og raunar nokkru meiri en gagnrýnendur ríkisstjórnarinnar héldu fram í vetur. Þetta er smám saman að koma í ljós í mánaðarlegum skýrslum hins opinbera um innheimt skattfé á fyrstu mánuðum ársins.

Einna hrikalegust er hækkun söluskatts, sem felur nú í sér matarskattinn, er kom til sögunnar eftir áramót. Söluskatturinn var í marz 50% hærri en hann var í sama mánuði í fyrra. Er þá reiknað á föstu verðlagi, búið að draga frá verðbólguhækkun milli ára.

Á móti hækkun söluskattsins vegur lækkun ýmissa tolla. Þegar allt er reiknað, hækkuðu óbeinir skattar um 10% milli ára á þremur fyrstu mánuðum þessa árs, að verðbólgunni frádreginni. Þar að auki hefur svo orðið umtalsverð hækkun gjalda á bílum og fóðri.

Þegar matarskatturinn var lagður á, var fullyrt, að verið væri að einfalda innheimtu óbeinna skatta, en alls ekki verið að auka hana. Nú hefur nokkrum mánuðum síðar hins vegar komið í ljós, að réttar voru viðvaranir gagnrýnenda, sem þá voru sagðir fara með fleipur.

Enn verri hefur þróun tekjuskatta orðið. Hún er nákvæmlega sú, sem sagt var fyrirfram hér í blaðinu. Ríkisstjórnin notaði kerfisbreytingu staðgreiðslunnar til að hækka tekjuskatt einstaklinga um 35% og fyrirtækja um annað eins, hvort tveggja að frádreginni verðbólgu.

Ekki eru öll kurl komin til grafar í tekjuskatti. Fjármálaráðuneytið gerir sjálft ráð fyrir 35% hækkun milli ára, en rök hafa verið færð að tölunni 45% sem líklegri niðurstöðu. Tekjuskattur ársins verður þá tæplega 8,7 milljarðar í stað tæplega 5,9 milljarða að óbreyttu.

Þetta spáir ekki góðu um virðisaukaskattinn, sem verður næsta aðferð ríkisstjórnarinnar við að ná meiri peningum út úr þjóðfélaginu. Við munum þá heyra enn á ný sömu, gömlu og innihaldslausu rökin um, að æskilegt sé að einfalda skattkerfið og bæta það.

Skattanefnd samstarfsráðs verzlunarinnar hefur spáð, að ríkissjóður muni á árinu auka herfang sitt um sem svarar 2,3% landsframleiðslunnar. Það þýðir heildaraukningu skattbyrðar um 5,7 milljarða. Á hverja fjögurra manna fjölskyldu er aukningin 90.000 krónur.

Í skattheimtu heldur núverandi ríkisstjórn áfram stefnu fyrri ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Innganga Alþýðuflokksins í stjórnarsamstarfið í fyrrasumar hefur engin áhrif haft til bóta, þótt flokkurinn hafi fengið embætti fjármálaráðherra.

Ef litið er þrjú ár til baka og rakinn skattheimtuferillinn frá 1985 til 1988, kemur í ljós, að ríkið tekur nú 15 milljörðum meira umfram verðbólgu en það gerði þá. Þetta eru 230.000 krónur á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu. Ekki er furða, þótt fólk kveinki sér.

Árum saman hefur í leiðurum þessa blaðs verið varað við hverri skattkerfisbreytingunni á fætur annarri. Blaðið hefur reynzt sannspátt um, að hver einasta breyting hefur verið notuð til að ná til ríkisins meiri hluta af þeim verðmætum, sem þjóðin hefur til skiptanna.

Þegar fjármálaráðherra fer í haust að sverja fyrir annarleg sjónarmið að baki virðisaukaskattinum, skulum við muna, hver reynslan hefur hingað til verið.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæfrar í vaxtakukli

Greinar

Fát og fum er ekki traustvekjandi, allra sízt þegar það er öllum sýnilegt. Endurteknar tilraunir ríkisstjórnarinnar til bráðabirgðalaga hljóta að efla fyrri kröfur um, að hún segi af sér, þar sem fólki er ljóst, að hún gerði sér litla grein fyrir afleiðingum gerða sinna.

Forsætisráðherra tók af skarið hér í blaðinu á föstudaginn og sagði öllum ráðherrum það mátt vera ljóst, að ákvæði laganna um afnám verðtryggingar átti að gilda bæði um innlán og útlán. Enda er ekki auðvelt að sjá, að unnt sé að verðtryggja bara aðra áttina.

Í þessu tilviki er meiri ástæða til að trúa forsætisráðherra en utanríkisráðherra, sem gerði sér upp fákænsku eins og stundum áður, þegar hann hefur sagt sig gabbaðan og komizt upp með það. Ófært er, að hann geri sér tilbúna einfeldni hvað eftir annað að skálkaskjóli.

Ekki er góð lykt af fullyrðingu utanríkisráðherra um, að Framsóknarflokkurinn hafi alls ekki lagt til, að verðtrygging yrði afnumin strax. Allt fikt ríkisstjórnarinnar við afnám verðtryggingar er upprunnið hjá hinum pólitíska armi Sambands íslenzkra samvinnufélaga.

Framsóknarflokkurinn hefur þann megintilgang í lífinu að vernda Sambandið og fyrirtæki þess, svo og landbúnaðinn og nokkra fleiri skuldara, sem eiga erfitt með að standa undir vöxtum. Þessir aðilar eru góðu vanir og heimta allir, að þjóðin borgi fyrir þá vextina.

Allt frá 1982 hefur verið reynt að koma á raunvöxtum í landinu. Í fyrra náðist svo góður árangur, að spariinnlán voru ekki með nema tæpt 1% í öfuga vexti. Þetta hefur aukið sparnað í landinu frá 1982 úr sem svarar 50% af landsframleiðslu í sem svarar 80% af henni.

Vaxtabjörgun Sambandsins og annarra gæludýra Framsóknarflokksins hefði dregið á nýjan leik úr sparnaði þjóðarinnar, minnkað framboð á lánsfé á innlendum vettvangi og bundið þjóðarhag í hnút. Bankamenn sáu fram á hrun hinna margauglýstu sparireikninga.

Athyglisverður og ömurlegur er þáttur hagfræðingsins, sem Alþýðuflokkurinn hefur gert að bankaráðherra ríkisstjórnarinnar. Hann lét hinn pólitíska arm Sambandsins vaða á skítugum skónum yfir sig og málaflokkinn, þar sem hann ber hina stjórnarskrárlegu ábyrgð.

Þegar allt kerfi fjármálastofnana og hagfræðikunnáttu í þjóðfélaginu rak upp ramakvein, faldi bankaráðherrann sig í tæpa viku. Þegar hornsteinn peningamálanna var að molna, fannst hvergi ráðherra þeirra mála og hafði ekkert um málið að segja í tæpa viku.

Einnig er slæmur þáttur forsætisráðherra, sem hefur látið meira en aðrir slíkir undan þeirri þróun, að starf hans verði valdalítið embætti fundarstjóra, er reyni að bræða saman einhverja niðurstöðu, sama hverja, úr þverstæðum kröfum sér kónganna í ráðherrastólum.

Ekki er málinu lokið, þótt samin hafi verið ný bráðabirgðalög til að afnema hluta hinna fyrri. Eftir lagfæringuna er komið hið sérkennilega ástand, að fjárskuldbindingar eru verðtryggðar inn, en ekki út. Lítill hagfræðiljómi er af því skyni skroppna ráðalagi.

Misræmið milli peningahreyfinga út og inn mun leita jafnvægis í hækkuðum nafnvöxtum útlána. Sambandið og önnur gæludýr munu þá reka sig á, að til skamms tíma er þyngra að búa við háa nafnvexti en verðtryggingu. Framsókn mun því fljótt ókyrrast á nýjan leik.

Komið hefur í ljós, að ríkisstjórnin er skipuð ábyrgðarlitlum kuklurum, sem hneigjast til glæfra í fjármálum og ættu að hætta, áður en þeir hafa bakað meira tjón.

Jónas Kristjánsson

DV

Óvinsæl ótíðindi

Greinar

Erfiðleikar lögreglunnar í samskiptum við almenning stafa af vandamálum, sem eiga rætur sínar hjá lögreglunni sjálfri, en ekki hjá fjölmiðlum, sem stundum segja frá þessum erfiðleikum. Fráleitt er að kenna sögumanni um atburði, sem hann skyldu sinnar vegna segir frá.

Skaftamálið rak á sínum tíma fleyg milli lögreglunnar annars vegar og hluta almenningsálitsins hins vegar. Hið nýlega Sveinsmál hefur breikkað gjána og aukið vantrú meðal fólks á lögreglunni. Í báðum tilvikum voru gerendur lögreglumenn, en ekki fjölmiðlungar.

Viðbrögð yfirstjórnar lögreglu eru yfirvegaðri og betri núna en þau voru áður. Horfin er hin skilyrðislausa vernd, sem fyrri lögreglustjóri veitti liði sínu, á hverju sem dundi. Núverandi lögreglustjóri hefur meiri tilhneigingu til að meta slík mál eftir aðstæðum.

Að vísu er óþægilegt, að lögreglumenn þeir, er nú síðast hafa varpað skugga á stéttina, eru skjólstæðingar lögreglustjórans, sem hann flutti með sér úr héraði, þegar hann tók við embætti. En viðbrögð hans við vandanum benda til, að hann átti sig á þeim mistökum.

Í öllum lýðræðisþjóðfélögum þarf lögreglan að skilja vandamál í samskiptum við þá, sem hún er ráðin til að vernda, það er að segja borgarana. Sums staðar hefur lögreglan haft frumkvæði að bættum samskiptum. Annars staðar ber hún höfðinu við steininn.

Fyrir nokkrum árum leiddi rannsókn brezkra lögregluyfirvalda í ljós, að ekki var mark takandi á vitnisburði lögreglumanna fyrir rétti, ef hann varðaði stéttarbræður þeirra. Ennfremur leiddi hún í ljós algenga fyrirlitningu lögreglumanna á smælingjum og sérvitringum.

Samt þykir brezka lögreglan hafa náð betri árangri í samskiptum við fólk en lögregla flestra landa. Rannsóknin, sem sagt er frá hér að ofan, dugði þó ekki til að hindra Stalker-málið, sem varpað hefur alvarlegum skugga á álit brezkra borgara á lögreglumönnum.

Stalker var einn helzti rannsóknalögreglumaður Bretlands, ofsóttur og beittur ljúgvitnum af lögreglumönnum og loks hrakinn úr starfi, þegar honum var falið að rannsaka meint mistök lögreglumanna og í ljós kom, að hann tók það hlutverk sitt alvarlega.

Stalker hefur síðan verið hreinsaður og þykir hafa staðið sig af miklum hetjuskap gegn sameinuðu fölsunarafli lögreglunnar. Hið sama er að segja um tvo norska fræðimenn, sem lentu í útistöðum við lögregluna í Björgvin, er verndaði ofbeldismenn í röðum sínum.

Eins og í Bretlandi kom í ljós í Noregi, að lögreglumenn lugu fremur fyrir rétti en að vinna gegn starfsbræðrum sínum. Þar kom einnig í ljós, að lögreglan sem stétt bar ábyrgð á, að hinir fáu ofbeldismenn stéttarinnar komust upp með að misþyrma varnarlausu fólki.

Viðbrögð íslenzkrar lögreglu voru mjög slæm í Skaftamálinu, en mun betri í Sveinsmálinu. Svo virðist sem yfirvegaðir lögreglumenn sjái nú betur en áður, að ekki er í þágu stéttarinnar, að haldið sé verndarhendi yfir skaphundum, sem ekki eiga erindi í starfið.

Samt er í þessu tvískinnungur. Öðrum þræði bölsótast yfirmenn í lögreglunni út af fréttum af slíkum málum. Þeir gagnrýna meðal annars, að fjölmiðlar séu of opnir fyrir alls kyns umkvörtunum á hendur lögreglunni, og séu jafnvel neikvæðir í umfjöllun sinni.

Orkan, sem fer í að kenna sögumanni um ótíðindin, kæmi að meira gagni í virkari aðgerðum lögreglunnar til að hreinsa til í stéttinni og aga hana betur.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðni í dauðastríði

Greinar

Við sjáum nú, hversu mikils þjóðin missti, er Jón Baldvin Hannibalsson varð ekki bankaráðherra í ríkisstjórninni og fékk ekki tækifæri til að kvelja Seðlabankann eins mikið og sá banki á skilið fyrir langvinna óstjórn á peninga- og gengismálum þjóðarinnar.

En fjármálaráðherra gerði vel þá daga, sem hann leysti af flokksbróður sinn í embætti bankaráðherra. Hann náði að vekja almenna athygli á, að Seðlabankanum tókst að hámarka skaða þjóðarinnar af nýjustu gengislækkuninni, er fuku 2,5 milljarðar gjaldeyris.

Svo er komið, að allir, sem verulegra hagsmuna eiga að gæta, vita nákvæmlega, hvenær gengi krónunnar verður fellt. Það er þegar seðlabankastjóri fjölyrðir sem mest um, að það verði alls ekki fellt, af því að það leysi alls engan vanda, heldur framleiði bara verðbólgu.

Hrun gjaldeyrisforðans er áminning til okkar um, að ekki borgar sig að leyfa ríkisstjórn og Seðlabanka að ráðskast með gengi krónunnar og láta það hrapa í áþreifanlegum stökkum. Skynsamlegra er að taka upp frjálst gengi og leyfa markaðinum að ráða útkomunni.

Hrun gjaldeyrisforðans er einnig áminning um, að Seðlabankinn er óþörf og skaðleg stofnun. Hann ofstjórnar ekki aðeins gengisskráningunni, heldur skipuleggur hann líka verðmætabrennslu í svokallaðri frystingu sparifjár, sem hefur farið vaxandi upp á síðkastið.

Fjármálaráðherra hefur ekki aðeins tekizt að gera Seðlabankann hlægilegan, heldur einnig utanríkisráðherra, sem enn einu sinni hefur verið staðinn að ósannindum og bakreikningum út af Leifsstöð. Það var þarft verk, ekki síður en uppákoman út af Seðlabankanum.

Þegar Leifsstöðvaruppgjörið fór fram með látum á Alþingi í haust, var fullyrt, að öll kurl væru komin til grafar. Nú hefur hins vegar komið í ljós, sem fjölmiðlar og stjórnarandstaða héldu þá fram, að enn væri lumað á bakreikningum, sem ekki væru komnir fram.

Framtak ráðherrans út af Seðlabanka og Leifsstöð er hið eina jákvæða, sem sézt hefur eða heyrzt til ríkisstjórnarinnar í margar vikur. Efnahagsráðstafanirnar svokölluðu, sem menn eru að reyna að skilja, verða engin rós í hnappagatið, heldur nagli í líkkistuna.

Komið hefur í ljós, að í fyrra voru raunvextir sparireikninga neikvæðir um 1%, þrátt fyrir ýmis gylliboð bankanna. Nú er verðbólgan í þann mund að rjúka úr 16% í 40% og þá er ríkisstjórnin einmitt að þrengja möguleika sparenda á jákvæðum raunvöxtum.

Afleiðing aðgerða ríkisstjórnarinnar verður sú, að menn munu draga sparifé sitt úr bönkum og öðrum fjármálastofnunum og nota það í verðbólgufjárfestingu, svo sem tíðkaðist hér fyrr á árum, áður en farið var að streitast við að koma á raunvöxtun sparifjár.

Þetta mun hafa afar hættuleg áhrif á bankakerfið. Landsbankinn er mjög illa stæður um þessar mundir og hefur orðið að fá örþrifa-fyrirgreiðslu í Seðlabankanum. Erfitt verður fyrir Landsbankann að mæta sparifjárflóttanum, sem nú er að hefjast af þunga.

Í heild bendir efnahagsyfirlýsing ríkisstjórnarinnar til, að hún geri sér litla grein fyrir afleiðingum aðgerðanna. Yfirlýsingin er óljós og loðin, svo sem búast má við, þegar verið er að sætta ósamrýmanleg sjónarmið í stað þess að hætta hinu sjálfdauða stjórnarsamstarfi.

Nytsamleg stríðni fjármálaráðherra er eini ljósi punkturinn í allt of hægu dauðastríði ríkisstjórnar, sem hefur setið lengur en sætt er, þjóðinni til mikils tjóns.

Jónas Kristjánsson

DV

Hollur og illur bjór

Greinar

Bjór er hollur eins og annað áfengi, ­ í hófi. Margar, umfangsmiklar rannsóknir, sem staðið hafa áratugum saman í Bandaríkjunum, benda til, að áfengi, í mjög litlu magni, víkki æðarnar og dragi úr líkum á einkennis sjúkdómum nútímans, hjarta- og æðasjúkdómum.

Gallinn er sá, að þetta hóf felst í afar litlu magni, svo sem einum litlum bjór, einum snafsi eða tveimur rauðvínsglösum á dag. Það er hóf, sem temja sér tiltölulega fáir af þeim, sem á annað borð nota áfengi. Það er raunar innan við magn hefðbundinnar menningardrykkju.

Í gamalgrónum vínlöndum, svo sem við Miðjarðarhafið, er drukkið mun meira en þessu nemur, án þess að til ofdrykkju eða ósiðar sé talið. Sjúkrahús í þessum löndum eru þéttsetin fólki, sem þjáist af skorpulifur af völdum hefðbundinnar og óátalinnar dagdrykkju.

Íslendingar hafa verið blessunarlega lausir við skorpulifur. Það stafar af, að við drekkum ekki daglega, heldur um helgar, og leyfum lifrinni að jafna sig á milli. Líklegt má telja, að sterki bjórinn muni auka dagdrykkju og þar með líkur á skorpulifur hér á landi.

Við höfum hins vegar meira en nóg af öðrum sjúkdómi, sem sjaldgæfari er í gamalgrónum vínlöndum. Það er áfengissýki eða alkóhólismi. Margar bandarískar rannsóknir hafa leitt í ljós, að sá sjúkdómur er líkamlegs eðlis og felst í röngum efnaskiptum í lifur.

Í áfengissjúklingum eru efnaskipti áfengis í lifur of hæg, svo að acetaldehýð hleðst þar upp og breytir boðskiptum uppi í heila. Þetta leiðir oft til ýmissa annarra vandræða, sem geta verið sálræn, félagsleg eða fjárhagsleg og gjarna fylgja í kjölfar alkóhólisma.

Menn drekka ekki af því, að þeir eigi bágt, heldur eiga þeir bágt, af því að þeir drekka. Þessi orðaleikur segir, að áfengissýki verður ekki hamin með sálrænum, félagslegum eða fjárhagslegum aðgerðum, heldur með þeim einfalda hætti, að menn hætti alveg að drekka.

Sem betur fer eru horfur á, að fljótlega verði hægt að mæla mjög snemma á ferli áfengissýkinnar, hvort menn þjáist af henni. Þá verður hægt að benda verðandi alkóhólistum á hina einu gagnaðgerð, sem reynslan sýnir, að dugir og notuð er hér á meðferðarstofnunum.

Ekki verður í fljótu bragði séð, að ný áfengistegund á borð við sterkan bjór muni auka áfengissýki hér á landi. Ákveðinn hluti þjóðarinnar býr í lifrinni við röng efnahvörf, sem leiða til áfengissýki, hvort sem það er með hjálp bjórs, borðvína eða brenndra drykkja.

Einn versti áfengisvandi okkar felst í uppákomum, sem fylgja mikilli drykkju á skömmum tíma, einkum um helgar, til dæmis meiðingum og manndrápum, sem eru stöðugt í fréttum. Engar líkur eru á, að sterkur bjór muni magna hinn mikla brennivínsofsa, sem fyrir er.

Í heild má segja, að ólíklegt sé, að bjór auki að ráði áfengisvandamál okkar, önnur en skorpulifur, og að líklegt sé, að bjór geti orðið til heilsubótar mörgum þeim, sem annars fengju hjartasjúkdóma. Bjórinn hefur kosti og galla eins og annað áfengi, sem okkur er leyft að nota.

Vangaveltur af þessu tagi geta leitt til þeirrar niðurstöðu, að gallar bjórsins séu mikilvægari en kostirnir, það er að segja að bjórinn sé meira illur en hollur. Samt er ekki ástæða til, að þeir, sem slíku trúa, hindri aðra en sjálfa sig í að nota þessa umdeildu og útbreiddu vöru.

Ríkisvald, sem leyfir almenna sölu tíu sinnum lífshættulegra efnis, tóbaks, á ekki að meina bjórinn þeim meirihluta þjóðarinnar, sem langar að nota hann.

Jónas Kristjánsson

DV

Er óvissa óbærileg?

Greinar

Rétt er hjá fastgengissinnum, að óeðlilegt er að miða skráningu á gengi krónunnar við afkomu fiskveiða og fiskvinnslu. Slík viðmiðun leiðir til að atvinnugreinin er árum saman rekin á núlli, hvort sem hún eykur hagkvæmni og framleiðni sína eða stendur í stað.

Í fiskvinnslustöðvum okkar eru flökunar- og flatningsvélar, sem geta tekið við öllum þorskafla ársins á sex dögum og öllum afla af ýsu og ufsa á tveimur dögum til viðbótar. Flatfiskvélarnar geta sinnt sínu hlutverki á tíu dögum og karfavélarnar á átján dögum.

Offjárfesting í fiskvinnslu, einkum í frystihúsum, bendir til, að skort hafi aðhald og að landað sé í of mörgum höfnum. Menn kaupa ekki eina vél af hverri gerð, ef þeir þurfa að velta hverri krónu fyrir sér og ef þeir geta komið á sérhæfingu vinnslustöðva á staðnum.

Fiskvinnslan er að neyðast til að auka framleiðni sína með sérhæfingu. Samkeppni hennar við útflutning á ferskum fiski þvingar hana til að einfalda vinnsluna. Og fiskmarkaðirnir nýju gera miklum hluta hennar kleift að velja fisk við hæfi og að einfalda vinnsluna.

Ferskfiskútflutningur og fiskmarkaðir eru tæki, sem aukið athafnafrelsi færir okkur til að magna arðsemi þjóðfélagsins. Fiskmarkaðir munu blómstra í þéttbýli og gera fiskvinnslu þar arðbæra. Hins vegar verður strjálbýlið fremur að treysta á ferskfiskútflutning.

Þetta höfum við ekki fengið með auknu skipulagi að ofan, heldur með minnkun þess og afnámi. Við erum ekki lengur í viðjum opinberrar ákvörðunar fiskverðs og ekki háð eins miklum höftum á útflutningi og áður var. Frjálst krónugengi er næsta skrefið á þessari braut.

Viðurkenning þess, að gengi krónunnar skuli ekki miða við útreikning Þjóðhagsstofnunar á afkomu fiskvinnslu, á sér ekki rökrétt framhald í fastgengisstefnu ríkisstjórnarinnar, hagstjóra hennar og Seðlabanka. Rökrétt framhald felst í markaðsgengi krónunnar.

Fastgengisstefnan hefur hættuleg hliðaráhrif. Hún eykur innflutning erlendrar vöru og þjónustu og dregur úr getu útflutningsgreina til að keppa við aðrar atvinnugreinar í þjóðfélaginu. Hún eykur halla viðskiptanna við útlönd og stækkar skuldasúpu okkar í útlöndum.

Að fara úr sjávarútvegsviðmiðun á gengi krónunnar yfir í fastagengi er að fara úr öskunni í eldinn. Í stað gamalkunnugs vandamáls, sem felst í skorti á hagkvæmni í einni atvinnugrein, fáum við miklu stærri vanda, sem felst í óhagkvæmara þjóðfélagi yfirleitt.

Sjávarútvegsviðmiðun og fastagengi eiga það sameiginlegt að vera ákvörðun að ofan, byggð á útreikningum í stofnunum. Hvort tveggja er í stíl opinbers fiskverðs, kvótakerfis og annarra hafta, sem stjórnmálamenn hafa notað til að leysa lítinn vanda með stórum vanda.

Markaðsverð á gengi er hins vegar í stíl nýja tímans, sem tekur kaleik skipulagsins af valdamönnum og hagstjórum þeirra. Ákvarðanir í þeim stíl hafa gefizt okkur vel. Alþjóðleg reynsla segir okkur líka, að markaðurinn sé bezti skipuleggjandi efnahags- og fjármála.

Í hvert einasta skipti, sem við höfum staðið andspænis ákvörðunum um að létta af höftum og skipulagi, hafa menn fengið hland fyrir hjartað og ímyndað sér, að upplausn mundi fylgja í kjölfarið. Því óttast margir núna markaðsgengi krónunnar og vilja fastagengi.

Ríkisstjórnin, hagstjórar hennar og Seðlabankinn eru sammála um, að óvissa frelsisins sé svo óbærileg, að betra sé að setja þjóðfélagið í spennitreyju fastagengis.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðsgengi og -vextir

Greinar

Stjórnmálamenn og hagstjórar eiga sumir hverjir afar erfitt með að sætta sig við tilhugsunina um, að betra sé að leyfa ýmsum efnahagslegum fyrirbærum að vera í friði heldur en að skipuleggja þau á ýmsan hátt í samræmi við umdeilanlegar hugsjónir og fordóma.

Athyglisverðasta dæmið um þetta er skjaldborgin, sem slegin hefur verið um hina kolröngu skráningu Seðlabanka og ríkisstjórnar á gengi íslenzku krónunnar. Þetta er fastgengisstefnan, sem nú saumar að alvöruatvinnuvegunum og viðskiptastöðu þjóðarinnar.

Aðstandendur stefnunnar geta ekki af neinu viti svarað spurningunni um, hvers vegna ekki megi vera jafnvægi milli eftirspurnar og framboðs á erlendum gjaldeyri. Á tíma verðbólgumunar milli Íslands og útlanda er ótrúlegt, að fast ríkisverðlag sé betra.

Opinber skráning á verði ýmissa annarra fyrirbæra en erlends gjaldeyris hefur undantekningarlaust gefizt illa. Ríkisvaldið hefur stundum ákveðið að stöðva laun fólks eða verð þjónustu og vöru við ákveðnar krónutölur, en ævinlega runnið á rassinn með afskiptasemina.

Fastgengisstefnan er dauðadæmd. Fólk sér betur en ráðamenn og hagstjórar þeirra, að hún felur í sér niðurgreiðslu á gjaldeyri til óhæfilega mikils innflutnings á erlendri vöru og þjónustu, sem magnar allt of mikla og vaxtadýra skuld þjóðarinnar í útlöndum.

Fólk sér líka betur en ráðamenn og hagstjórar þeirra, að fastgengisstefnan refsar einmitt þeim atvinnuvegum og starfsmönnum, sem vinna að öflun gjaldeyristekna. Þessa má sjá ótal merki í taprekstri og lágum launum, allt frá Granda yfir í Flugleiðir.

Sjávarsíða Íslands mundi hagnast á að afsala sér núverandi byggðastefnu og fá í staðinn markaðsbúskap á gjaldeyri. Núverandi sníkjukerfi veitir sjávarsíðunni ruður af nægtaborði landbúnaðar og beinir athyglinni frá því, að Reykjavík er ekki óvinurinn, heldur gengið.

Gegn þessum röksemdum þýðir ekki lengur að þylja í sífellu, að gengislækkun ein leysi ekki allan vanda. Engin ein aðgerð út af fyrir sig leysir allan vanda. En stórt skref fram eftir vegi fælist í að taka kaleik gengisskráningar frá stjórnmálamönnum og hagstjórum.

Mjög svipað má segja um kröfurnar um, að gengi vaxta af fjárskuldbindingum verði skráð af öflugra handafli en nú er gert. Skuldarar segja, að lækka verði svokallaða okurvexti af lánum, því að atvinnulífið sé að sligast undir þeim. Samt vantar alltaf lán.

Vaxtalækkunarsinnar neita að horfast í augu við, að núverandi vextir eru ekki meiri okurvextir en svo, að fleiri vilja taka lán en veita lán, jafnvel til nýrra framkvæmda, sem menn gætu frestað, ef þeim ógnaði vaxtabyrðin. Í raun eru vextirnir nefnilega of lágir.

Þrátt fyrir nokkra hækkun raunvaxta úr neikvæðum tölum í jákvæðar á síðustu árum hefur enn aldrei reynt á, hvar jafnvægi næst milli eftirspurnar og framboðs. Tímabært er, að kákinu verði hætt og vöxtum leyft að finna sitt svigrúm á frjálsum markaði.

Valdastofnanir og valdamenn hafa tilhneigingu til að vilja ráðskast með margvísleg fyrirbæri, því að skipulagshyggja færir þeim völd, sem markaðshyggja tekur frá þeim. Þess vegna hefur þjóðin ekki enn fengið að hagnast á frjálsu markaðsgengi og markaðsvöxtum.

Valdamenn á Íslandi hafa alltaf verið hræddir við, að upplausn mundi fylgja í kjölfar afnáms opinberrar verðskráningar. Sá ótti hefur jafnan reynzt ástæðulaus.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvennalisti og fjórflokkur

Greinar

Velgengni Kvennalistans og hugsanleg þáttaka hans í næstu ríkisstjórn eru á margra vörum þessa dagana, þegar hann hefur reynzt fylgisríkasti stjórnmálaflokkurinn í hverri skoðanakönnuninni á fætur annarri. Spurt er, hvað Kvennalistinn hafi umfram aðra flokka.

Þegar gömlu flokkarnir og Borgaraflokkurinn eru bornir saman við Kvennalistann, er ljóst, að grundvallarhugsunin er ólík. Allir flokkar aðrir en Kvennalistann túlka stjórnmál í stórum dráttum á hefðbundinn hátt og saka Kvennalistann um að vera ekki “í pólitík”.

Í þessum samanburði geta skipt miklu máli lítil atriði á borð við, að Kvennalistinn neitar að taka þátt í hinni árlegu veizlu alþingismanna og ýmsum öðrum fríðindum, sem hefðbundnir stjórnmálamenn telja sig eiga skilið. Kvennalistinn er ekki herfangsflokkur.

Þjóðin hefur á allra síðustu árum verið að átta sig á, að hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar hafa engan áhuga á að framkvæma stefnuyfirlýsingar sínar, en hins vegar gífurlegan áhuga á að taka þátt í að þjónusta hvers konar sérhagsmuni á kostnað almannahagsmuna.

Orka gömlu flokkanna og Borgaraflokksins fer í peningavaldastreitu á borð við skipan manna í bankaráð og aðrar skömmtunarstofur fjármagns og fyrirgreiðslu, kvótakerfi í atvinnuvegunum. Hver flokkur hefur sín gæludýr, sem þurfa margvíslegan forgang til að lifa.

Gæludýraþjónustan getur farið upp í sex milljarða króna á ári fyrir aðeins einn aðila, svo sem dæmi hins hefðbundna landbúnaðar sýnir. Í heild hefur fyrirgreiðslustefnan, sem gömlu flokkarnir og Borgaraflokkurinn reka, gert okkur að skuldugustu þjóð veraldar.

Kvennalistinn hefur sín gæludýr, en þau eru önnur, svo sem mæður, börn, námsmenn og fiskverkunarkonur. Ekki er vitað, hvort þessir mjúku hagsmunahópar verði þjóðfélaginu ódýrari eða dýrari en hinir hörðu, sem nú orna sér við elda hinna hefðbundnu flokka.

Ekki er heldur vitað, hvort Kvennalistinn mun, þegar á reynir, treysta sér til að taka snuðið af gömlu gæludýrunum. Til dæmis verður fróðlegt að vita, hvort landbúnaðurinn verður jafnfrekur á fóðrum fjármálaráðherra Kvennalistans og hann er hjá Alþýðuflokknum.

Eina leiðin til að rýma til við jötuna fyrir gæludýr Kvennalistans er að hrekja frá eitthvað af gömlu gæludýrunum. Og raunar þarf að reka í burtu fleiri en kalla má til, ef stefna hinnar hagsýnu húsmóður á að endurspeglast í hallalausum rekstri ríkisbús og þjóðarbús.

Rangt er að segja Kvennalistann ekki vera “í pólitík”, þótt hann sé í annarri pólitík en hefðbundnir valdastreitu- og goggunarflokkar stjórnmálamanna, sem láta eins og hanar á haug eða apar í dýragarði. Hins vegar má vefengja, að pólitík hans sé raunhæfari.

Skoðanakannanir sýna, að sífellt fjölgar þeim kjósendum, sem vantreysta málfundadrengjum sérhagsmuna og eru, að nokkurn veginn óséðu, tilbúnir að veita Kvennalistanum traust. Það verður svo síðari tíma mál, ef kjósendur telja listann hafa brugðizt sér.

Sennilega áttar Kvennalistinn sig á, að höfuðáhugamál samstarfsflokka hans í ríkisstjórn mundi verða að sýna kjósendum, að misráðið hafi verið að styðja listann. Þess vegna hljóta kröfur listans í stjórnarmyndunarviðræðum að verða afar harðar og harðsóttar.

Líklega leiðir gengi Kvennalistans ekki til þátttöku hans í stjórn á næstu árum, heldur til nánari samstarfs milli hefðbundnu flokkanna, -fjórflokksins svonefnda.

Jónas Kristjánsson

DV

Hómilía bólgubankans

Greinar

Allt frá því er Seðlabankinn var töfraður upp úr skrifborðsskúffu í Landsbankanum fyrir þremur áratugum og unz hann er nú orðinn að svörtum steinkastala með 149 manns á launum, hefur hann átt mikinn þátt í að framleiða hina heimatilbúnu verðbólgu Íslands.

Seðlabankinn hefur gegnt þessu verðbólguhlutverki með ýmsum hætti, til dæmis með því að haga seglum eftir pólitískum vindum. Hann hefur alltaf þjónustað ríkisstjórnina, hver sem hún hefur verið, einkum með því að búa til handa henni seðla, sem ekki var til fyrir.

Óhófleg seðlaprentun Seðlabankans hefur stuðlað að verðbólgu. Hið sama er að segja um svokallaða frystingu hans á sparifé. Það var og er engin frysting, heldur upptaka peninga af lánamarkaði til notkunar í óarðbær eða arðfjandsamleg hugsjónalán á vegum stjórnvalda.

Í þessu skyni hefur Seðlabankinn verið laginn við að töfra fram þoku til að leyna ásetningi sínum og ríkisstjórnarinnar. Orðið “frysting” er frábært dæmi um þetta og minnir á orðaleiki Georges Orwells. Önnur orðaslæða var “gengisbreyting” yfir gengislækkun.

Sá orðaleikur Seðlabankans er frá tímum, er bankinn taldi sig þurfa að búa í haginn fyrir gengislækkanir. Nú er öldin önnur, því að við völd er fastgengisstjórn, sem bankinn telur sig þurfa að þjónusta. Orðið “gengisbreyting” er horfið og gamla orðið nothæft að nýju.

Áhugamenn um holtaþokuorðfæri ættu að kynna sér hómilíur þær, sem formaður bankastjórnar Seðlabankans hefur flutt andagtugum leiðtogum stjórnmála og fjármála á svokölluðum ársfundi bankans í þrjá áratugi. Sérstaklega er gaman að lesa þær allar í einni bunu.

Hómilíur þessar eru kennslubók í japli og jamli, en hafa þó grunntón, sem felst í að segja pakkinu, að vandamál þess komi ekki að ofan, heldur sé íslenzka þjóðin með þeim ósköpum gerð, að hún eyði um efni fram. Engin ráð séu við því nema prédikanir bankastjórans.

Seðlabankinn er ekki einn um ósvífna frávísun ábyrgðar af þessu tagi. Fyrr í þessari viku var haft eftir efnahagsráðunaut ríkisstjórnarinnar, að fastgengis stefna hennar væri komin á fínan grundvöll, af því að hún væri búin að koma á hallalausum rekstri ríkissjóðs.

Staðreyndin er hins vegar, að halli ríkisins er mikill og fer vaxandi, einkum á þeim sviðum, sem eru utan við svokallaðan A-hluta fjárlaga. Þessi mikli og vaxandi halli veldur því, að dæmi fastgengisstefnunnar gengur ekki upp og bakar þjóðinni gífurleg vandræði.

Fastgengisstefna ríkisstjórnar og Seðlabanka hefur magnað hungur þjóðarinnar í óeðlilega ódýrar vörur frá útlöndum og tilsvarandi skuldasöfnun. Það hungur slær þó ekki við hungri ríkisvaldsins, sem hefur að undanförnu gengið fram fyrir skjöldu við að slá erlend lán.

Athyglisvert er, að hinir bersyndugu, viðskiptaráðherrann og bankastjórinn, keppast um að kenna kauphöllum og kaupleigum um skuldasöfnunina. Hefur þó verið sýnt fram á, að lán þeirra eru skiptimynt í samanburði við fúlgurnar, sem kerfið sjálft hefur sníkt.

Í þessu sem öðru kemur fram, hvert er meginhlut verk Seðlabankans. Það er að slá upp þoku, svo að fólk sjái ekki afglöp bankans og stjórnvalda og trúi prédikunum formanns bankastjórnar um, að syndirnar komi ekki að ofan, heldur frá almenningi sjálfum.

Í fyrradag var flutt nýjasta hómilían af þessu tagi. Ekki er ástæða til að taka mark á henni fremur en ástæða var til að taka alvarlega hinar fyrri.

Jónas Kristjánsson

DV

Meðferð tóbaksfíknar

Greinar

Við höfum, eins og ýmsar aðrar vestrænar þjóðir, náð nokkrum árangri í að minnka notkun tóbaks. Sérstaklega er ánægjulegt, að meðal skólabarna fer þeim sífellt fækkandi, sem reykja. Þetta bendir til, að fræðsla um skaðsemi tóbaksreykinga hafi haft töluverð áhrif.

Liðin eru 35 ár síðan fyrst kom í ljós í vísindalegri rannsókn í Bandaríkjunum, að tóbak væri eitur. Síðan hafa niðurstöðurnar verið staðfestar mörg hundruð sinnum, svo að langt er síðan efasemdir voru kveðnar í kútinn. Raunar fer syndaskrá tóbaks ört vaxandi.

Skaðsemi tóbaks er ekki bundin við lungnakrabbamein eitt, svo sem menn héldu í fyrstu. Komið hefur í ljós, að tóbak veldur einnig banvænum hjartasjúkdómum og ýmsum öðrum óþægindum. Að öllu samanlögðu er tóbak mesti manndráparinn á Vesturlöndum.

Í Bretlandi og Bandaríkjunum er talið, að tóbak drepi tíu sinnum fleira fólk en áfengi, sem er það fíkniefni, er næst gengur tóbaki í framleiðslu banvænna vandamála. Í Bandaríkjunum er talið, að sjö sinnum fleira fólk látist af notkun tóbaks en í umferðarslysum.

Þótt tóbak sé tíu sinnum banvænna en áfengi, fer minna fyrir tilraunum yfirvalda til að draga úr neyzlu tóbaks. Það er fíkniefnið, sem nýtur þeirrar sérstöðu að vera selt fullorðnu fólki án lyfseðils í annarri hverri verzlun. Segja má, að sölu tóbaks séu lítil takmörk sett.

Fræðslan ein skiptir þó miklu máli, því að hér á landi þarf hún ekki að berjast við auglýsingar á tóbaki, sem tröllríða fjölmiðlum í mörgum öðrum löndum. Í þeim auglýsingum er reynt að búa til útilífs-ímynd reykingamannsins sem hestamanns við varðeld í villiskógum.

Enn meiri áhrif hafa ákvarðanir, sem þrengja kosti reykingamanna á almannafæri. Reykingar eru bannaðar í almenningsvögnum og í þjónustudeildum opinberra fyrirtækja, svo að dæmi séu nefnd. Reykingafólk sætir sífellt auknum takmörkunum á reykingafrelsi sínu.

Að baki viðleitninnar eru nýlegar upplýsingar um, að reykingar séu ekki bara skaðlegar þeim sem reykja, heldur líka hinum, er ekki reykja, en anda að sér sama lofti. Það eru kallaðar óbeinar reykingar, sem eru skaðlegar, þótt þær séu ekki eins banvænar og hinar beinu.

Þar með er komið að lýðræðisreglunni um, að frelsi eins endar, þar sem nef hins byrjar. Þess vegna er reykleysisréttur þeirra, sem ekki reykja, æðri en reykingaréttur hinna. Þess vegna er með lögum og reglum verið að ýta reykingum af almannafæri inn í sérstök herbergi.

Þróunin er komin svo langt á veg, að beina þarf athyglinni í vaxandi mæli að fólki, sem vill hætta að reykja, en hefur ekki getað það, af því að notkun tóbaks er afar brýn fíkn, sem lætur ekki að sér hæða. Margt fólk hefur ótal sinnum reynt að hætta, en án árangurs.

Kanna þarf til dæmis, hvort árangurs sé að vænta af aðferðum, sem væru hliðstæðar þeim, er hafa reynzt ótrúlega árangursríkar við meðferð fíknar í áfengi, ekki sízt hér á landi. Þær aðferðir hafa þegar verið teknar upp við meðferð fíknar í eiturefni, róandi lyf og svefnlyf.

Sjúkrahús landsins eru full af dýrum sjúklingum, sem ekki væru þar, ef þeir hefðu ekki reykt. Þjóðfélagið gæti sparað stórfé á fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem ódýrri tóbaksmeðferð, er gæti komið í veg fyrir, að fólk legðist á dýr sjúkrahús af völdum tóbaksreykinga.

Margt tóbaksfólk flýr á náðir skottulækninga til að losna undan tóbaksfíkninni. Betra væri, að hin opinbera heilsugæzla tæki frumkvæði í að hjálpa þessu fólki.

Jónas Kristjánsson

DV

“Óþolandi höfuðverkur”

Greinar

“Það getur ekki verið okkar höfuðverkur”, sagði formaður Stéttarsambands bænda fyrir nokkrum dögum í blaðaviðtali. Hann var að tala um, að ríkið er á þremur mánuðum búið að greiða milljarð ársins í útflutningsuppbætur og framleiðnisjóð landbúnaðar.

Rétt fyrir páska kom í ljós, að einungis voru eftir 30 milljónir af 550 milljónum, sem skattborgararnir áttu samkvæmt fjárlögum ársins að greiða til útflutningsuppbóta. Ennfremur kom þá í ljós, að eftir voru 90 milljónir af 500, sem áttu að fara til framleiðnisjóðs.

Til að endar nái saman á þessu ári í ríkisrekstri íslenzkrar sauðfjárræktar vantar 800 milljónir í viðbót. Formaður Stéttarsambands bænda telur, að skattgreiðendur eigi kost á að greiða aukafjárveitinguna á árinu eða taka hana að láni og borga á næstu árum.

En það er ekki höfuðverkur Stéttarsambandsins, hvernig þessar 800 milljónir verða fundnar og greiddar. Formaðurinn bendir á, að ríkið hafi gert samning um að tryggja landbúnaðinum sölu á föstu magni af kindakjöti. Raunar nær tryggingin líka til verðs kjötsins.

“Það er óþolandi”, segir formaðurinn um þá ósvinnu, að ríkið er farið að safna upp ógreiddum birgðum af kindakjöti, sem búizt er við, að nemi um 2.400 tonnum í lok verðlagsársins. Þá hefst ný slátrun, sem mun fela í sér 1.500 tonna offramleiðslu kindakjöts til viðbótar.

Samningurinn, sem vísað er til, var eitt síðasta verk núverandi landbúnaðarráðherra, þegar hann var landbúnaðarráðherra næstu ríkisstjórnar á undan þessari. Hann samdi þá við landbúnaðinn um ríkisábyrgð á offramleiðslu hans heil fjögur ár fram í tímann.

Með þessu setti Jón Helgason þjóðina og núverandi ríkisstjórn í skuldafangelsi. Lítið er hægt að gera til að byggja upp þjóðfélagið á því kjörtímabili, sem nú stendur, af því að allt fé, sem tiltækt er, og meira til, er frátekið til að borga samninginn við landbúnaðinn.

Komin er hefð á, að ráðherra og ráðuneyti landbúnaðar gæta ekki hagsmuna ríkisins, heldur landbúnaðarins. Raunar er ráðuneytið helzti málsvari landbúnaðarins. Samningurinn illræmdi frá í fyrra var í raun samningur landbúnaðarins við sjálfan sig.

Í ráðuneyti og öðrum stofnunum landbúnaðarins hafa frá ómunatíð verið smíðaðar áætlanir, sem kerfisbundið gera ráð fyrir meiri neyzlu landbúnaðarafurða en síðan reynist verða. Í að minnsta kosti aldarfjórðung hefur ekki verið hlustað á aðvaranir óháðra aðila.

Reynt er að halda neyzlunni uppi með því að láta yfirdýralækni banna innflutning samkeppnisvöru á borð við kjöt og smjör og með því að setja fjallhá gjöld á innlenda samkeppnisvöru, svo sem kjúklinga og svínakjöt. Samt torga Íslendingar ekki öllu því, sem spáð er.

Ef ríkið hætti þessum afskiptum, sparaðist nægur gjaldeyrir í aðföngum landbúnaðar til að mæta auknum innflutningi búvöru. Ennfremur lækkaði matvöruverð og kaupmáttur neytenda ykist verulega. Loks spöruðu ríki og skattgreiðendur sex milljarða króna á ári.

Kerfið er samt ekki afnumið, heldur fært nær því að verða sjálfvirkt. Landbúnaðurinn fær fyrst sitt, sem er það, er hann hefur samið um við sjálfan sig. Síðan fær þjóðfélagið afganginn, ef einhver er. Þetta er þrælahald nútímans á Íslandi, ákveðið til fjögurra ára í senn.

Ef ríkið sligast svo undir byrðunum, að það borgar ekki í grænum hvelli, er ástandið “óþolandi” að mati bændastjóra, enda hafna þeir slíkum “höfuðverk”.

Jónas Kristjánsson

DV

Víetnam í Afganistan

Greinar

Afganistan eru eins konar Víetnam Sovétríkjanna. Þau hafa þar orðið fyrir svipuðu heimsveldisáfalli og Bandaríkin urðu fyrir í Víetnamstríðinu. Rauði herinn hefur ekki ráðið við skæruliða og neyðist til að hverfa heim við lítinn orðstír og skert sjálfstraust ríkisins.

Afganistan var orðið að myllusteini um háls Sovétríkjanna. Ungu mennirnir komu vonsviknir og eiturlyfjasjúkir úr stríðinu. Paradís öreiganna sætti álitshnekki í ríkjum múhameðstrúar og þriðja heimsins. Lepparnir í Kabúl voru hvarvetna fyrirlitnir.

Að undirlagi Gorbatsjovs flokksleiðtoga hafa Sovétríkin lært af reynslunni í Afganistan. Þau fara sér mun varlegar en áður í valdatafli heimsveldanna. Brottför Rauða hersins frá Afganistan er mikilvægt skref í átt til þolanlegrar sambúðar heimsveldanna á næstu árum.

Á yfirborðinu er hrakför Sovétríkjanna í Afganistan minni en hrakför Bandaríkjanna í Víetnam á sínum tíma. Leppstjórnin fær enn um sinn að lafa í Kabúl og Bandaríkin hafa tekið á sig hluta af ábyrgð á svokallaðri hlutleysisstefnu Afganistans í framtíðinni.

Ekki er samt hægt að reikna með langlífi Nadsíbúlla lepps í Kabúl. Her hans var ótryggur, þegar hann hafði stuðning Rauða hersins, og hrynur væntanlega, þegar skjólið er farið. Eftir mun berjast glæpalýðurinn, sem hefur engu að tapa, þegar hefnd skæruliða nálgast.

Vesturlandabúar hafa þrátt fyrir allt þetta enga ástæðu til að líta með fögnuði til framtíðar Afganistans. Meðal skæruliða er hver höndin uppi á móti annarri. Öflugastir eru þeir, sem fyrirlíta Vesturlönd jafnmikið og Sovétríkin og vilja stofna múhameðskt klerkaríki.

Að undanförnu hafa skæruliðar skipzt í sjö fylkingar, sem gætu hæglega sundrazt í nokkra tugi á næstu árum. Fjórar af fylkingunum sjö eru múhameðskrar ofsatrúar, þótt þær gangi yfirleitt ekki eins langt og róttæku klerkarnir í nágrannaríkinu Íran.

Barátta skæruliða innbyrðis mun tefja fyrir, að tæplega sjö milljón flóttamenn geti snúið aftur til síns heima. Þeir, sem það geta, munu koma að hrundum húsum, brenndum ökrum og sprengdum áveitum. Vandamálin í Afganistan munu áfram vera hrikaleg.

Allir aðilar munu hafa fullar hendur vopna, þegar Rauði herinn fer. Sovétríkin og Bandaríkin grýta vopnum inn í landið til að bæta sem bezt stöðu sinna manna, áður en heimsveldasamningurinn um Afganistan tekur gildi á næstu mánuðum. Blóðbaðið mun lítið minnka.

Samkomulag heimsveldanna gerir ráð fyrir, að hernaðaraðstoð þeirra minnki í takt á þessu ári og leggist niður um áramót, þegar síðustu hermenn Sovétríkjanna eiga að yfirgefa landið. Vonandi leiðir þetta til hjöðnunar innanlandsátaka, þegar líður fram á næstu ár.

Skásta niðurstaðan í Afganistan væri sigur bandalags tiltölulega hægfara skæruliða, sem ekki færu að reyna að stjórna heiminum eins og klerkarnir í Persíu, héldu sæmilegan frið við björninn í norðri og sköpuðu aðstæður fyrir flóttamenn til að snúa heim til sín.

Miklu máli skiptir, að menn vænti ekki of mikils af brottför Rauða hersins. Engin rök mæla með, að Afganistan verði hluti hins frjálsa heims. Landið verður hluti múhameðska heimsins, vonandi ekki eins hvimleitt og Íran, en sennilega jafnerfitt og Líbanon eða Írak.

Fagnaðarefni er einkum fólgið í, að Sovétríkin hafa loksins lært sömu lexíu og Bandaríkin voru áður búin að læra, ­ að jafnvel heimsveldi eru takmörk sett.

Jónas Kristjánsson

DV

Uppreisn undirstéttar

Greinar

Formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur á vafasaman heiðurinn af að hafa í tvígang látið fella fyrir sér kjarasamninga. Hann vísar samt allri gagnrýni frá sér og hefur tíma til að stæla Davíð Oddsson borgarstjóra og rífast út í Reykvíkinga vegna ráðhússins.

Allt bendir þetta til skorts á sambandi við umheiminn og einkum við verzlunarmenn í Reykjavík. Sjaldgæft er, að stéttarfélagsmenn sýni forsvarsmönnum sínum það vantraust að fella fyrir þeim samning. Og einsdæmi er, að það gerist í tvígang með stuttu millibili.

Formaðurinn hefur sér til afsökunar, að fleiri verkalýðsstjórar hafa vanmetið félagsmenn sína, þótt dæmin séu ekki eins gróf og í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Guðmundur J. Guðmundsson og Karvel Pálmason létu líka fella fyrir sér samning, en bara einu sinni.

Athyglisverð er hin almenna frávísun ábyrgðar, sem slíkir foringjar hafa sýnt að undanförnu. Karvel lýsti til dæmis sérstökum fögnuði sínum, þegar skjólstæðingar hans felldu samning, sem hann hafði gert og undirritað. Síðan hafa aðrir leiðtogar hermt þetta eftir Karvel.

Átakanlegt er að horfa á forustumann atvinnurekenda koma daglega í sjónvarp með harmþrunginn ábyrgðarsvip út af hverju nýjasta áfalli og fjölyrða um, að atvinnulífið hafi ekkert frekar efni á að borga kaup, þótt samningar séu felldir, jafnvel tvisvar í röð.

Miklu nær væri fyrir hann að lýsa vantrausti á sambandslausa og ábyrgðarlausa viðsemjendur sína og heimta nýja umboðsmenn, sem séu í sambandi við umbjóðendur sína, fólkið í stéttarfélögunum, og geti þess vegna staðið við það, sem þeir skrifa undir.

Málsaðilar keppast við að útskýra vandamálið í burtu, en þeim hefur ekki tekizt það. Fyrst voru verzlunarmenn úti á landi sagðir hafa fellt samning, af því að þeir væru á berum töxtum, en ekki yfirborgaðir eins og verzlunarmenn á Reykjavíkursvæðinu.

Síðan voru verzlunarmenn í Reykjavík sagðir hafa fellt samning, af því að starfslið stórmarkaða vildi ekki vinna á laugardögum. Sagt var, að það hefði fjölmennt á fund í því skyni. Næst var ekið með kjörkassa út í fyrirtæki til að fá fleiri atkvæði, en allt kom fyrir ekki.

Samningamenn hafa ekki áttað sig á, að fólk er orðið þreytt á þversögnum lífskjara á Íslandi. Það skilur ekki, að fyrirtæki og þjóðarbú skuli hafa efni á gífurlegri yfirvinnu, yfirborgunum og launaskriði, en að allt þurfi svo að fara á hvolf út af hækkun á lægstu launum.

Fólk skilur ekki heldur, að verzlunin geti byggt stórar verzlunarhallir á skömmum tíma og að í Sambandi íslenzkra samvinnufélaga geti menn deilt um milljónamun í túlkun forstjóralauna, án þess að hafa efni á að borga venjulegu starfsfólki sómasamleg laun.

Kringlan í Reykjavík og forstjóralaun hjá Sambandsfyrirtækjum eru dæmi um ástand, sem hefur hleypt illu blóði í fólk. Slíkir minnisvarðar eru slæmur bakgrunnur hefðbundinna röksemda um, að hækkun láglauna sé hættuleg, af því að hún kyndi undir verðbólgu.

Þjóðfélagið hefur klofnað í fjölmenna og vel stæða millistétt, sem hefur nóg að bíta og brenna í krafti ætternis, menntunar, aðstöðu, hæfileika eða dugnaðar, og mun fámennari undirstétt, sem lepur dauðann úr skel á taxtalaunum. Þessi klofningur stenzt ekki til lengdar.

Jafnan hafa samningamenn stéttarfélaga einkum gætt hagsmuna vel stæðra félagsmanna og verið án sambands við hina, sem nú hafa gert uppreisn.

Jónas Kristjánsson

DV

Gengi, vextir og gæludýr

Greinar

Ráðamenn þjóðarinnar eru sumir hverjir að byrja að skilja, að viðskiptahalli Íslands er orðinn hættulegur og fer ört vaxandi. Forustumenn í Framsóknarflokknum hafa lýst áhyggjum út af því, að ekkert er gert til varnar, og eru búnir að kalla saman sitt lið til fundar.

Hugmyndir þeirra um, hvað gera skuli, eru hins vegar ekki upp á marga fiska. Formaður þingflokksins heldur fram, að lækka beri vexti og auka byggðastefnu. Hvort tveggja mun þvert á móti magna spennu og peningaþörf og stuðla að innflutningi og skuldasöfnun.

Eitt af því, sem gera þarf til að draga úr viðskiptahalla, er að leyfa vöxtum að halda áfram að hækka, unz jafnvægi næst milli sparnaðar og notkunar á peningum. Slíkt jafnvægi hefur ekki náðst, af því að stjórnvöld hafa í hræðslu hamlað gegn eðlilegri hækkun vaxta.

Lágir vextir og óhófleg sókn í lánsfé leiðir til aukins innflutnings á erlendum vörum og erlendu lánsfé. Með því að leyfa vöxtum að finna jafnvægi í hærri tölum er unnt að draga úr þessari spennu, sem þegar hefur gert Íslendinga að langsamlega skuldugustu þjóð í heimi.

Of hátt skráð gengi íslenzku krónunnar er annað atriði, sem hvetur til notkunar á innfluttum vörum og þjónustu í stað innlendrar og gerir útflutningi á vöru og þjónustu erfitt fyrir í samkeppni við útlenda vöru og þjónustu. Krónan fær ekki sjálf að finna sitt jafnvægi.

Hin ranga gengisskráning, sem er stefnuskrármál ríkisstjórnarinnar, spillir til dæmis samkeppnisstöðu fiskvinnslu og flugfélaga á erlendum vettvangi. Slík fyrirtæki hafa tiltölulega mikinn innlendan kostnað og fá ekki nóg af krónum úr gjaldeyrinum, sem þau afla.

Ekki skiptir minna máli, að frjálst eða rétt gengi krónunnar fer ekki allt í súginn, þótt innlendar kostnaðarhækkanir hafi tilhneigingu til að elta eigið skott og skekkja gengið á nýjan leik. Rétt gengi hlýtur að draga varanlega úr notkun innfluttrar vöru og þjónustu.

Með réttum hliðarráðstöfunum má koma í veg fyrir, að gengislækkun krónunnar leiði til lífskjaraskerðingar. Með frjálsari innflutningi búvöru er hægt að gefa neytendum kost á ódýrari mat. Tollfrjáls innflutningur búvöru mun snarlækka vísitölur framfærslukostnaðar.

Marklaust er að tala um aukna gjaldeyrisnotkun við innflutning búvöru. Oft hefur verið bent á, að landbúnaðurinn kostar miklu meira í erlendum aðföngum á borð við benzín og olíur, vélar og tæki, fóður og áburð, en hann sparar í minni innflutningi búvöru.

Raunar má finna lykilinn að brúun viðskiptahallans og stöðvun skuldasöfnunar í útlöndum með því að hætta stuðningi ríkisins við gæludýr þess, hvort sem þau heita landbúnaður eða eitthvað annað, sem kallar á ódýrt lánsfé, styrki, niðurgreiðslur, uppbætur og aðra vernd.

Hinar pólitísku gælur hafa leitt til sextíu milljarða króna offjárfestingar í landinu. Hún kostar okkur sex milljarða króna í vexti á þessu ári. Og til að þjónusta rekstur offjárfestingarinnar í landbúnaði einum þurfum við að borga aðra sex milljarða króna á þessu ári.

Við getum ekki forðað okkur frá tólf milljarða viðskiptahalla með sýndarmennsku og káki. Við verðum að höggva að rótum vandans, ódýrum lánum og offjárfestingu gæludýra og ríkisrekstri landbúnaðar, sem samtals kosta okkur tólf milljarða á þessu ári.

Til þess þarf að leggja niður búvörusamninga og önnur afskipti ríkisins af landbúnaði og öðrum gæludýrum og hætta að skrá gengi og vexti með pólitísku handafli.

Jónas Kristjánsson

DV