Greinar

Ofbeldi fylgir trúarofsa

Greinar

Flugræningjarnir, sem undanfarna daga hafa verið að misþyrma farþegum og drepa á vegum guðs síns, segjast stefna að sigri eða píslarvættisdauða fyrir Allah. Þeir eru félagar í vopnuðum ofsatrúarflokki í Líbanon, sem fylgir trúarsjónarmiðum Khómeinis klerks í Persíu.

Múhameðstrúarmenn, einkum af sérgrein sjíta, standa framarlega í trúarofstæki, sem hefur einkennt heimsbyggðina síðustu áratugi. Þeir eru samt ekki einir um hituna. Menn af öllum helztu trúarbrögðum heims standa fyrir hryðjuverkum og styrjöldum í nafni guðs.

Kristnir menn á Norður-Írlandi skipast í ofbeldissveitir eftir sértrúarskoðunum rómversku og skozku kirkjunnar og drepa hver annan úr launsátri. Undir hatrinu kynda klerkar á borð við Ian Paisley, sem þar gegnir eins konar hlutverki Khómeinis í röðum andpápista.

Í þessum heimi trúarofbeldis hefur tiltölulega veraldlegur félagsskapur á borð við Palestínusamtökin PLO ekki vakið athygli fyrir hryðjuverk á síðustu árum. Þau hafa þvert á móti gerzt friðsamari með tímanum og reyna núna jafnvel að hafa vit fyrir flugræningjunum.

Margir þeir, sem vilja ekki, að utanríkisráðherra okkar tali við Arafat eða aðra fulltrúa samtaka Palestínumanna, láta sér í léttu rúmi liggja, að við höfum stjórnmálasamband við afar herskátt ofsatrúarríki, Ísrael, sem er að verða æxli á Miðausturlöndum.

Um langt árabil hafa stjórnendur Ísraels verið gamlir hryðjuverkamenn á borð við Begin og Shamir. Í vetur hafa þeir látið herinn stunda skipuleg hryðjuverk á arabískum unglingum, ákaft hvattir af hálftrylltum klerkum, sem ráða stjórnarmyndunum á þingi Ísraels.

Á sama tíma hafa kristnir Armenar og múhameðskir Azerbadsjar verið að slátra hver öðrum í Kákasusfjöllum Sovétríkjanna. Reynt hefur verið að breiða yfir fréttirnar, en ljóst er, að hin verstu fólskuverk hafa verið unnin í nafni tveggja höfuðtrúarbragða heims.

Í Indlandi ganga hryðjuverkin í þríhyrning. Þar stendur stríðið milli hindúa, múhameðstrúarmanna og sjíka. Í nágrannaríkinu Sri Lanka eru hryðjuverkin enn stórkarlalegri, þar sem eigast við tamílar og sinhalar, það er að segja hindúar og búddistar.

Í Afríkuríkinu Súdan ríkir blóðbað milli kristinna Dinka í suðurhlutanum og múhameðskra valdhafa í norðurhlutanum og höfuðborginni Kartúm. Á Filippseyjum er taflið öfugt. Þar berjast múhameðskir Moros á úteyjum við kristna valdhafa í höfuðborginni Manila.

Trúarbragðasagan er blóði drifin. Þegar frumkristnir menn komust til valda í Rómaveldi, fóru þeir strax að kvelja og myrða heiðið fólk. Síðan skiptust þeir í fylgismenn biskupanna Aríanusar og Aþaníasar, steiktu hver annan á víxl og stunduðu útrýmingarherferðir.

Kunnugt er aldagamalt blóðbað kaþólskra í Róm og orþódoxra í Miklagarði og síðar þrjátíu ára stríð kaþólskra og mótmælendatrúarmanna norðan Alpafjalla, svo og rannsóknarrétturinn á Spáni. Alls staðar voru klerkar í fararbroddi ofstækis, ofbeldis og hryðjuverka.

Hið eina, sem kemst í samjöfnuð við trúarbrögð annars heims í að baka mannkyni þjáningar, eru trúarbrögð þessa heims, svo sem í Sovétríkjum Stalíns og í Kambodsíu Pols Pots. Á síðustu árum hafa slík hryðjuverk þó vikið fyrir hryðjuverkum í nafni annars heims.

Íslenzk kirkja ætti að hvetja kristna klerka um heim allan til að leita samstarfs við klerka annarra trúarbragða um andóf gegn ofbeldishneigðu trúarofstæki.

Jónas Kristjánsson

DV

Dreift fjölmiðlavald

Greinar

Ef fréttastjóri Ríkissjónvarpsins hefur einhvern tíma verið ráðherraígildi eða þriðji valdamesti maður landsins, eins og haldið hefur verið fram, þá er hann það ekki lengur. Notkun fjölmiðla hefur breytzt á þann veg, að enginn fjölmiðill sameinar lengur mestalla þjóðina.

Áratugum saman gegndi fréttastofa Gufunnar þessu hlutverki. Allur þorri þjóðarinnar vissi hvað hafði verið sagt í helztu fréttatímum hennar. Þegar sjónvarp hóf göngu sína, tók fréttastofa Sjónvarps við hlutverkinu. Allur þorri landsmanna horfði á kvöldfréttir þess.

Fyrstu skrefin í átt til frelsis fjölmiðlunar í lofti hafa þegar eytt þessari stöðu, sem kalla mátti einokun. Skoðanakannanir hafa hvað eftir annað sýnt, að notkun útvarps og sjónvarps hefur ekki aukizt með nýjum fjölmiðlum, heldur hefur notkunin dreifzt á fleiri fjölmiðla.

Þegar sjónvarp kom til skjalanna, datt hlustun vinsælustu útvarpsþáttanna, hádegis- og kvöldfrétta, niður fyrir 50%. Þegar fleiri útvarpsstöðvar komu til sögunnar, fór hlutur þessara fyrri hornsteina niður fyrir 40%. Fréttir Gufunnar eru bara eins og hverjar aðrar fréttir.

Þegar sjónvarpsstöðvarnar urðu tvær, datt heildarnotkun Ríkissjónvarpsins úr 75% í innan við 50% þeirra, sem spurðir hafa verið í skoðanakönnunum. Ákvarðanir á fréttastofu þess eða ritskoðunarhneigð að ofan ráða ekki lengur, hvað þjóðin telur vera í fréttum.

Athyglisvert er, að aukin samkeppni hefur ekki veikt stöðu dagblaðanna, heldur styrkt hana. Morgunblaðið nær samkvæmt skoðanakönnunum lestri 75% þjóðar innar og DV 67%. Þetta eru töluvert hærri tölur en loftfjölmiðlarnir ná og hafa ekki verið vefengdar.

Samkvæmt þessu er Morgunblaðið orðið mest notaði fjölmiðill á Íslandi og DV hinn næstmesti. Ríkissjónvarpið kemur í þriðja sæti, Gufan í fjórða og Stöð 2 í fimmta. Stjarnan, Bylgjan og Rás 2 eru svo á lægra róli, meira að segja rétt neðan við Tímann og Þjóðviljann.

Þessi dreifing fjölmiðlunarvaldsins er að flestu leyti af hinu góða. Ekki er hollt, að á einum stað eða tveimur séu teknar ákvarðanir um, hvað sé í fréttum og hvað ekki. Bezt er, að það sé ákveðið í samkeppni margra fjölmiðla, svo sem nú er orðið á fréttamarkaðnum.

Þegar svo er komið, geta stjórnmálamenn, útvarpsráðsmenn og aðrir sérfræðingar í ritskoðun frétta hætt að eyða tíma í iðju, sem ekki kemur að gagni. Ritskoðun á einum stað hefur ekki lengur nein áhrif, því að allir aðrir en hinn ritskoðaði eru undanþegnir ritskoðun.

Þegar svo er komið, geta áhugamenn um fjölmiðlun líka hætt að hafa umtalsverðar áhyggjur af, að einhver fréttastjóri sé næstum fremst í númeraröð valdastigans í þjóðfélaginu. Með núverandi dreifingu valdsins stefnir allt að minnkandi völdum hliðvarða í fjölmiðlakerfinu.

Í útlöndum er hefðbundið að tala um fjölmiðlunga sem fjórðu stéttina og þá í rauninni átt við, að þeir séu og eigi að vera utan stétta, þar með valdastétta. Það er gott, að íslenzkir fjölmiðlamenn venji sig við þá hugsun, að þeir séu utan valdakerfa og megi vera það.

Samkvæmt nýjustu tölum eru félagsmenn Blaðamannafélags Íslands orðnir 360. Allir hafa þeir hlutdeild í ábyrgð og valdi, en enginn einn getur haft umtalsverð áhrif á hugsanir þjóðarinnar. Þannig á það að vera og þannig getur fjölmiðlun smám saman öðlazt traust.

Þjóðinni er gott vegarnesti til framtíðarinnar að hafa marga fjölmiðla, sem bjóða fjölbreyttar útgáfur upplýsinga, er þjóðin getur metið eins og henni sjálfri hentar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hreint og tært verð

Greinar

Verðlagsstofnun gæti tekið upp á að bera saman verð málverka. Í niðurstöðunum kæmi sennilega í ljós, að fermetraverðið hjá Jóni frænda væri mun lægra en hjá Kristjáni Davíðssyni. Þetta væri nytsamleg ábending þeim, sem þurfa að klæða bera veggi málverkum.

Í rauninni væri fróðlegt að vita, hvert sé markaðsverð fermetrans hjá ýmsum listmálurum, lífs og liðnum. Verð er alltaf þáttur í mati á vörum og öðrum gæðum. En mat fólks á innihaldinu hlýtur einnig að vera mikilvægt. Það er bara erfiðara að meta innihald gæðanna.

Verðlagsstofnun hefur borið saman verð fermingarmynda hjá ýmsum ljósmyndastofum og komizt að raun um, að það er afar misjafnt. Munurinn var mestur þrefaldur. Þetta eru afar hagnýtar upplýsingar, þótt þær segi ekkert um listrænt innihald fermingarmyndanna.

Ástæðulaust er að gagnrýna Verðlagsstofnun fyrir að skoða eingöngu verðlagið. Hlutverk hennar er að segja fólki, hvernig það geti verzlað á sem hagkvæmastan hátt. Þeir, sem vilja borga meira fyrir það, sem þeir telja vera meiri list, ráða áfram gerðum sínum.

Kannanir Verðlagsstofnunar eru raunar að flestu leyti til fyrirmyndar, sem og annarra þeirra, er hafa fengizt við verkefni af því tagi. Um langan aldur hafa verðkannanir til dæmis verið mikill og vaxandi þáttur í upplýsingamiðlun DV og munu verða það áfram.

Við höfum ekki umtalsverðar áhyggjur af, að innihald kunni að einhverju leyti að vera misjafnt, þannig að samanburður á verði segi ekki alla söguna. Það nægir, að samanburðurinn segi nokkra sögu, sem eigi erindi til þeirra, er hafa lítið fé handa milli.

Hitt er svo líka þarflegt að reyna að bera saman fleira en verðið, þegar það er mögulegt. Í matvöru er til dæmis hægt að skoða efnainnihald. Í sumum tilvikum er fróðlegt að kanna bilanatíðni og viðgerðakostnað. Hér á DV höfum við árvisst kannað bragðgæði páskaeggja.

Æskilegt væri, að Verðlagsstofnun, Neytendasamtökin og aðrir aðilar, sem hafa kannað mál með þessum hætti, reyni að víkka könnunarsviðið frá verðinu einu og láti það ná yfir alla þætti gæðanna, sem fólk sækist eftir, þegar það hyggst verja peningum til einhvers.

Meira að segja er unnt að fá sérfróða menn til að meta listrænt gildi fermingarmynda. Alls staðar er verið að meta listrænt gildi. Dagblöðin eru til dæmis full af greinum, sem meta gæði ritverka, tónleika, leiksýninga, kvikmyndaspóla og jafnvel veitingahúsa.

Margt fleira mætti kanna einstaka sinnum. Það er til dæmis ekki nóg að vita, að nokkrir stórmarkaðir hafi lægra vöruverð en almennt gildir. Við þurfum að vita, hvort strimlarnir, sem við fáum við greiðslukassann, séu í samræmi við vörurnar, er við höfum keypt.

Í erlendum stórmörkuðum eru vörur merktar á sama hátt og gert er hjá Ríkinu í Kringlunni. Á strimlunum er vöruheiti í hverri línu. Við getum því auðveldlega séð, hvort reikningurinn er í samræmi við raunveruleikann. Það getum við hins vegar ekki í stórmörkuðum.

Við kassann er enginn tími til að kanna innihald 50­100 lína strimils. Hann gæti, auk okkar viðskipta, náð yfir viðskipti þess, sem var næstur á undan. Gróði viðskiptavina af lágu vöruverði er fljótur að fara í súginn, ef einstöku sinnum verða mistök af slíku tagi.

Allt slíkt þarf að kanna. Samt hlýtur helzta verkefni Verðlagsstofnunar að vera að kanna hreint og tært verð út af fyrir sig, einnig fermingarmynda og páskaeggja.

Jónas Kristjánsson

DV

Guðjón á Sambandið

Greinar

Erlendir fræðimenn hafa vakið athygli á, að formlegt eignarhald skiptir litlu máli í öflugum og grónum fyrirtækjum. Þeir hafa dæmi sín úr hlutafélögum, en gætu þó fengið mun betri dæmi úr samvinnurekstri, þar sem eignarhald er frá upphafi fremur lítt áþreifanlegt.

Hlutafé, sem upphaflega var í eigu fárra manna, dreifist smám saman til erfingja, sem ekki hafa sömu samstarfshagsmuni og upprunalegu eigendurnir. Algengt er, að fjölskyldufyrirtæki séu komin úr ættarhöndum á tímum annarrar kynslóðar frá stofnendum.

Erlendis er algengt, að almennt hlutafjárútboð flýti fyrir þessari þróun. Fyrirtæki í örum vexti þurfa meira fé en þau treystast til að taka að láni eða geta tekið að láni. Afleiðingin verður fljótlega sú, að öflugustu fyrirtækin hafa dreifðan og ósamstæðan eigendahóp að baki.

Komið hefur í ljós, að slík fyrirtæki eru traustari en fjölskyldufyrirtæki, sem gjarna eru undir stjórn óhæfra erfingja, sem hafa fengið stöðu sína í ætternisskjóli. Að fyrirtækjum með dreifðu eignarhaldi ráðast hins vegar forstjórar, sem kunna til verka.

Í útlöndum eru flest stærstu og öflugustu fyrirtækin í eigu nafnleysingja, sem klippa arðmiða og hafa engin áhrif á reksturinn. Hlutafé þeirra fellur meira eða minna dautt á hluthafafundum. Slíka fundi sækja menn, sem eru hallir undir forstjórana og hlýða vilja þeirra.

Mál þróast gjarna á þann veg, að forstjórar stórfyrirtækjanna beita áhrifum sínum til að setja hliðholla menn yfir hlutafjárpakka og fá þá til að mæta á hluthafafundi. Hinir almennu hlutafjáreigendur hafa enga ástæðu til að hópa sig saman gegn stjórn og forstjórum.

Að lokum verður niðurstaðan sú, að fyrirtækjum er stjórnað af forstjórum í bandalagi við stjórnarmenn, sem eru í senn kunningjar og forstjórar í öðrum fyrirtækjum. Forstjórarnir sitja á víxl í stjórnum hver hjá öðrum og mynda sameiginlega peningalega yfirstétt í landinu.

Þessa þróun í átt til forstjóraveldis sjáum við hér á landi í nokkrum stórum fyrirtækjum á borð við Eimskipafélagið, Flugleiðir og einkabankana. Vegna dreifingar hlutafjár gætu þetta kallazt almenningshlutafélög, en almennir hluthafar ráða þar í rauninni engu.

Samband íslenzkra samvinnufélaga er svo langsamlega bezta íslenzka dæmið um, hvernig völd færast frá hinum mörgu og smáu til hins eina og sterka forstjóra. Í tilviki Sambandsins er ekki einu sinni um að ræða, að eigendur sitji úti í bæ og klippi þar hlutafjármiða.

Hinir formlegu eigendur Sambandsins geta ekki bjargað sér undan gjaldþroti með því að bjóða hlutabréf á margfeldisverði, sem endurspeglar heildarstöðu fyrirtækisins. Þeir geta aðeins fengið þann hluta eignarinnar, sem skráður er sem stofnfjársjóðshluti þeirra.

Þannig varð Kaupfélag Svalbarðseyrar gjaldþrota, og þannig eru bændurnir í stjórn þess persónulega komnir á höggstokkinn. Ef kaupfélög halda áfram að fara á hausinn, mun Sambandið hins vegar dafna og þeim mun meira, sem minni verða skyldur þess við strjálbýlið.

Ekki er síður athyglisvert, að nýlega ráðinn forstjóri Sambandsins hefur þegar safnað að sér slíkum völdum, að stjórnarformaður þess og meirihluti stjórnarmanna telja affarasælast að halda friðinn og láta hann ráða ferðinni, þótt deilt sé um, hvaða laun honum beri.

Afdrif þeirra Sambandsmanna, sem tóku þátt í atlögunni að forstjóranum, munu á næstu árum staðfesta kenninguna. Ef einhver á Sambandið, er það Guðjón.

Jónas Kristjánsson

DV

Faðmlög kæfa gæludýr

Greinar

Víða í Bandaríkjunum er notuð sérhæfð prentvél, sem er svo dýr, að einungis geta rekið hana þau fyrirtæki, sem treysta sér til að keyra hana allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, og nota til þess starfslið á fjórum vöktum. Þrjár vaktir duga ekki til að greiða niður vélina.

Hér á Íslandi er hins vegar allt fullt af dýrum vélum, sem sjaldnast eru í gangi. Til dæmis eru sagðar hér vélar, sem geti annað þörfum alls mannkyns fyrir kantlímingar og gluggatjaldatappa, svo ekki sé minnst á allan vélakostinn í greinum, sem hafa forgang að lánsfé.

Í fréttum DV að undanförnu hafa verið rakin dæmi um offjárfestingu í atvinnulífinu. Þótt ekki hafi allt verið tínt til, náði heildarupphæð hennar rúmum sextíu milljörðum króna. Gera má ráð fyrir, að árlega kosti þjóðina sex milljarða að standa undir óþarfanum.

Þessar tölur benda til, að offjárfestingin sé álíka viðamikið vandamál og hinn hefðbundni landbúnaður, sem kostar ríkið einmitt líka sex milljarða króna á hverju ári. Hvor sex milljarðurinn út af fyrir sig jafngildir öllum tekjuskattinum, sem þjóðin greiðir ríkinu árlega.

Ef við hefðum hvorki búið við forgang að ódýrum lánum né ríkisrekstur hefðbundins landbúnaðar á undanförnum árum, gætum við ekki aðeins verið laus við tekjuskatt, heldur hefðum aðra eins upphæð til ráðstöfunar til viðbótar til að bæta lífskjör okkar.

Skýringin á offjárfestingunni er í mörgum tilvikum, en ekki öllum, hin sama og á hinum hefðbundna landbúnaði. Stjórnmálakerfið hefur tekið ákveðna þætti atvinnulífsins upp á sína arma og ákveðið, að gæludýrin njóti forgangs að ódýru lánsfé og jafnvel styrkjum.

Ekki græða gæludýrin á atlætinu. Frystihúsin ættu til dæmis ekki í sömu erfiðleikum við að greiða fiskverkunarkonum mannsæmandi laun, ef þau hefðu ekki fengið of frjálsan aðgang að peningum til að kaupa vélar, sem standa meira eða minna ónotaðar í sölunum.

Þorskflökunarvélar íslenzkrar fiskvinnslu gætu afgreitt allan þorskafla okkar á sex dögum og allan ýsu- og ufsaaflann á tveimur dögum til viðbótar. Karfaflökunarvélarnar gætu skilað sínu verki á átján sólarhringum og flatfiskflökunarvélarnar á tíu sólarhringum.

Alkunnugt er, að kvótakerfið í fiskveiðum er notað til að skipta takmörkuðum afla milli allt of margra skipa. Sérfræðingar eru ekki alveg sammála um, hversu mikil offjárfesting er á þessu sviði, en mat þeirra á henni nemur frá fjórðungs og upp í helmings offjárfestingu.

Í landbúnaði er sama sagan. Sláturhúsin geta annað allri slátrun á nítján dögum ársins. Mjólkursamlögin geta annað tvöfaldri mjólkurframleiðslu hið minnsta. Og svo er búið að koma upp kvótakerfi, sem gerir bændum ókleift að nýta fjárfestingu sína að marki.

Í orkuverum er líka búið að festa meiri peninga en við höfum þurft að nota. Annar hverfill Kröfluvirkjunar var aldrei tekinn upp úr kössunum. Framkvæmdir við algerlega óþarfa Blönduvirkjun liggja niðri. Samt er framleiðslugeta orkukerfisins um 10% umfram þörf.

Af ýmsum hugsjónaástæðum, til dæmis vegna byggðastefnu eða vegna misjafnrar virðingarstöðu atvinnugreina, færir stjórnmálakerfið til peninga, sem búa til offjárfestingu, er síðan veldur vandræðum gæludýranna. Þeir, sem njóta faðmlaganna, kafna í þeim.

Ákaflega væri þetta rík þjóð, ef ráðamenn væru ekki alltaf að skipuleggja tilfærslu á peningum til gæluverkefna, sem þeir og þjóðin ímynda sér, að séu brýn.

Jónas Kristjánsson

DV

Vorhreinsun mannréttinda

Greinar

Margs þarf að gæta, þegar lögð verður síðasta hönd á frumvarpið, sem á að koma í veg fyrir, að mannréttindadómstóllinn í Strasbourg smækki Ísland í máli Jóns Kristinssonar á Akureyri. Jafnframt þarf að hraða frumvarpinu, því að skammt er eftir af þingi vetrarins.

Hreinsa þarf frumvarpið af orðalaginu: “Ákveðið skal með reglugerð…” og “Dómsmálaráðherra er heimilt, að…” Slíkt afsal löggjafarvalds hefur tíðkazt allt of lengi í lögum, sem samþykkt hafa verið á þreyttu Alþingi og eru því til sífelldrar minnkunar og ævarandi háðungar.

Á síðustu misserum hefur oft verið bent á þetta afsalshneyksli, sem hefur farið vaxandi og náð hámarki í nýjustu fiskveiðikvótalögunum. Tímabært er orðið að stöðva hliðrun löggjafarvaldsins til ráðherrareglugerða og ráðherraúrskurða og að nota einmitt þetta tækifæri.

Ráðherrar eiga að fara með framkvæmdavald og ekki löggjafarvald. Enn síður eiga þeir að fara með þriðja valdið, dómsvaldið, svo sem sjá má merki um í drögum að frumvarpi til laga um skipan dómstóla og ríkisumboða, er framleidd hafa verið í ýmsum útgáfum í vetur.

Frumvarpið er einmitt samið til að sýna mannréttindadómstólnum, að Ísland virði þrískiptingu valdsins, sem er hornsteinn vestræns samfélags. Því er mjög gróft að fylla einmitt það frumvarp af endalausum þráðum framkvæmdavaldsins til dómsvalds og löggjafarvalds.

Annað atriði, sem ber að varast, er, að hagsmunaaðilar nái að hafa of mikil áhrif á frumvarpið. Til dæmis er óþarfi, að fulltrúar við embætti sýslumanna og bæjarfógeta noti tækifæri kerfisbreytingarinnar til að búa til fleiri stöður hjá kerfinu á kostnað skattborgaranna.

Drögin gera af skynsemi ráð fyrir, að fimm embætti sýslumanna og bæjarfógeta verði lögð niður, en í stað inn stofnuð sjö embætti héraðsdómara. Hagsmunaðilarnir vilja stofna fleiri embætti. Þeir fela græðgina að baki hugsjónarinnar um jafnvægi í byggð landsins.

Margt má gera til að hindra, að kerfisbreytingin færi sýslumenn og héraðsdómara fjær fólki í strjálbýli. Þeir geta haft gagnkvæma vinnuaðstöðu og farið milli kaupstaða, til dæmis til að halda dómþing, án þess þó að það þurfi að kosta fjárfestingu í auknu húsnæði.

Eðlilegt er, að hinir nýju héraðsdómarar hafi aðsetur á þeim stöðum, þar sem embætti bæjarfógeta eða sýslu manna verða lögð niður. Þannig missa í rauninni engir kaupstaðir frá sér embætti og þannig fær ríkið húsnæði og aðstöðu fyrir hina nýju embættismenn.

Þriðja atriðið, sem þarf að gæta, er að koma í veg fyrir pólitíska tortryggni með því að ákveða, að núverandi sýslumenn og bæjarfógetar, sem verða lagðir niður í því hlutverki, verði sjálfkrafa skipaðir héraðsdómarar, nema aðrir sýslumenn og fógetar vilji skipta við þá.

Hingað til hefur ráðherravald yfirleitt verið pólitískt misnotað við skipun í þessi embætti. Eðlilegt er, að menn fyllist tortryggni, þegar pólitískur ráðherra á í einu vetfangi að fá vald til að skipa í fjölmargar stöður héraðsdómara. Þessari tortryggni þarf að eyða strax.

Mikilvægt er, að strax eftir páska verði lagt fram nothæft frumvarp til laga um aðskilnað dómsvalds og framkvæmdavalds í héraði, með tvískiptingu þess í embætti héraðsdómara og sýslumanna. Ekki er þó nauðsynlegt, að frumvarpið verði að lögum fyrir vorið.

Kosturinn við aðild okkar að mannréttindadómstólnum í Strasbourg er, að hún knýr okkur til að gera ærlega og síðbúna vorhreinsun í okkar eigin mannréttindum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgðin er kennara

Greinar

Þegar Þjóðverjar hófu síðari heimsstyrjöldina með því að ráðast á Pólverja, sagði Hitler, að það væri Pólverjum að kenna. Þeir hefðu getað komið í veg fyrir stríð með því að fallast á nokkrar kröfur. Með því að hafna hógværum kröfum bæru þeir ábyrgð á stríðinu.

Röksemdafærsla Hitlers hefur æ síðan verið notuð sem kennslubókardæmi um rökleysu eða hundalógík. Sá sem fremur verknað, svo sem að fara í stríð eða í verkfall, ber á verknaðinum fulla ábyrgð og getur ekki kennt hinum aðilanum um, hvernig málum sé komið.

Samtök kennara á Íslandi beita nú rökleysu Hitlers, þegar þau vísa ábyrgð á fyrirhuguðu verkfalli kennara á hendur fjármálaráðherra, ríkisstjórn eða stjórnvöld um almennt. Þessi frávísun verkfallsábyrgðar hefur einkennt áróðursherferð kennara að undanförnu.

Fundir kennara hafa þessa daga verið að “átelja stjórnvöld harðlega fyrir að etja kennurum enn einu sinni út í verkfallsaðgerðir”. Orðalagið er fengið beint frá Hitler sáluga, sem að eigin sögn lét Pólverja etja sér út í hernaðaraðgerðir og átaldi þá harðlega fyrir.

Fólk getur haft deildar skoðanir um, hvort fyrirhugað verkfall sé nauðsynlegt eða ekki og hvort ríkisvaldið hafi með stífni stuðlað að því eða ekki. Það breytir ekki því, að sá sem framkvæmir verkfall, getur ekki með neinum rökum vísað ábyrgðinni á annarra herðar.

Fróðlegt er, að kennarar saka stjórnvöld um að hafa ítrekað att sér út í verkfall. Það vísar til, að kennarar hafa á síðustu árum verið verkfallsfíknasta stétt landsins. Margir hópar hafa mátt sæta stífni ríkisins í samningum, en enginn látið etja sér á borð við kennara.

Fjármálaráðuneytið semur við marga hópa. Ef einn þessara hópa fer miklu oftar í verkfall en aðrir, er óhjákvæmilegt að álykta, að afar líklegt sé, að mikinn hluta orsaka og ábyrgðar ágreiningsins megi finna hjá einmitt þessum aðila, sem fer oftar í verkfall en aðrir.

Fyrr í vetur þótti kennurum eins menntaskólans í Reykjavík ekki í frásögur færandi, þótt kennsla félli niður í viku vegna erfiðleika á tölvukeyrslu stundataflna. Kennarar segja hins vegar óbærilegt, að nemendur missi af leiðsögn, ef orsökin sé ríkisstífni.

Satt að segja verða stjórnvöld að gefa sér sem staðreynd, að skólastarf geti á nokkurra ára fresti fallið niður um nokkurra vikna skeið, af því að kennarar telja sig þurfa meiri laun. Ríkið verður að geta mætt með æðruleysi þessum hversdagslega og endurtekna vanda.

Stjórnvöld verða líka að líta á það sem náttúrulögmál, að kennarar reyni að koma verkföllum sínum þannig fyrir, að þau trufli skólastarf sem mest, svo að þau hafi sem mest kúgunargildi. Ríkið má ekki taka á sig neina ábyrgð af skaðlegum áhrifum truflunarinnar.

Þjóðin sekkur ekki í neitt fen fáfræðinnar, þótt nokkrum sinnum sé gripið til þess ráðs að hleypa nemendum próflaust milli ára. Í sumum tilvikum getur það valdið tæknilegum erfiðleikum. Þeir verða þó seint flóknari en önnur vandamál, sem menn eru alltaf að fást við.

Ennfremur er líklegt, að ríkisvaldið verði að geta sýnt fram á, að stjórnlítil verkfallafíkn leiði ekki til árangurs. Þess vegna væri skynsamlegt að gera strax ráð fyrir, að skólastarf liggi niðri frá páskum og fram á haust, svo að menn fái tíma til að kæla sig niður.

Meginatriðið er, að ríkið neiti að taka við ábyrgðinni úr höndum kennara og neiti að láta sífellt kúga sig til hlýðni, jafnvel þótt festan kosti nokkuð langt stríð.

Jónas Kristjánsson

DV

Láglauna-varðveizla

Greinar

Íslendingar reka umfangsmikla og kostnaðarsama fiskgeymslu um alla sjávarsíðuna. Við köllum hana fiskiðnað og teljum okkur trú um, að hún sé eins konar iðnaður, eins og í bílaverksmiðjum. Enda er hún rekin með flóknum færiböndum og hugvitsamlegum tækjum.

Svo skiljum við ekkert í, að fiskvinnslan er rekin með tapi og getur ekki borgað starfsfólki nógu mikil laun til að lifa í nútímaþjóðfélagi. Samt borgar atvinnugreinin yfirleitt mun minna fyrir fiskinn en hliðstæð samkeppnisfyrirtæki geta borgað í öðrum löndum.

Samningaviðræður samtaka verkamanna og vinnuveitenda sprungu einmitt á fiskvinnslunni. Þar geta vinnuveitendur sízt borgað hærri laun og þar þurfa starfsmenn jafnframt allra helzt á hærri launum að halda. Þverstæðan hefur nú hleypt vítahring af stað.

Verkfall er hafið hjá fiskvinnslukonum í Vestmannaeyjum og ástand er orðið ótryggt í fjölmörgum verstöðvum. Þetta virðist vera torleystur vandi, því að fáir fiskverkendur hafa eins góða afkomu og þeir, sem sömdu í Grindavík um 2000 króna mánaðaruppbót.

Bæta mætti margt í sjávarútvegi og þjóðfélaginu í heild, ef ríkisstjórnin félli frá fastgengisstefnu og hætti opinberri skráningu á gengi krónunnar. En það mundi aðallega gagnast fiskveiðunum, en miklu síður fiskvinnslunni, svo sem sjá má af samanburði við útlönd.

Fiskveiðarnar eru svo hagkvæmar og samkeppnishæfar, að þær blómstra, þótt þær selji afurðir sínar til innlendrar fiskvinnslu á lægra verði en til útlendrar fiskvinnslu. Í rauninni borgar sig fyrir þær, að skipin sigli með aflann eða afhendi hann í gáma til útflutnings.

Um leið er fiskvinnslan svo óhagkvæm og ósamkeppnishæf, að hún er rekin með tapi, þótt hún fái aflann á lægra verði en útlendir keppinautar. Á afkomu fólks og fyrirtækja í útgerð og fiskvinnslu er því eðlismunur, sem ekki verður skýrður með krónugengi.

Bent hefur verið á, að unnt er að auka hagkvæmni í fiskvinnslu. Áætlað hefur verið, að með hálfs milljarðs króna tæknivæðingu mætti spara nokkra milljarða á ári í greininni. Þetta er nauðsynlegt að gera, en leysir ekki vanda, sem á dýpstu rætur sínar annars staðar.

Vítahringur fiskvinnslu felst í, að hún er ekki fyrst og fremst iðnaður, er framleiðir verðmæti og há laun, heldur geymsla, er varðveitir verðmæti og lág laun. Afurðirnar, sem koma út úr frystihúsunum, eru í ýmsum tilvikum verðminni en afurðirnar, sem koma inn í þau.

Ísfiskurinn er í rauninni verðmætasta ástand aflans, því að kröfuharðir viðskiptavinir taka ísfisk fram yfir freðfisk eða annan verksmiðjufisk. Því er hagkvæmara að koma ísfiski í sem ferskustu ástandi á markað heldur en að breyta honum í varanlegt geymsluástand.

Þetta endurspeglast í kröfum um skattlagningu gámafisks í þágu fiskvinnslu. Það er í samræmi við hina útbreiddu skoðun hér á landi, að vaxtarbrodd skuli kæfa til að vernda kalvið hefðbundinna greina. Í því skyni er talað óvirðulega um ísfisk sem “óunninn” fisk.

Þegar slíkar kröfur ná ekki fram að ganga, er farið fram á, að ríkið komi til skjalanna og greiði hluta af launum starfsfólks, til dæmis með því að veita því sérstakan skattaafslátt. Þessar óskir, sem heyrast núna, varða veg fiskvinnslunnar í átt til félagsmálastofnunar.

Rætur kjaraátakanna í fiskvinnslu liggja í þróun tækni og samgangna í heiminum. Vandanum mun linna, er þjóðin lítur upp frá færiböndum fiskvinnslunnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Evrópuaðild er hugsanleg

Greinar

Evrópubandalagið er ágæt röksemd með þjóðareign íslenzkra fiskimiða og sölu veiðileyfa. Með því að leggja niður óskapnað kvótakerfisins og fara að bjóða út veiðar í hinni takmörkuðu auðlind, sem fiskistofnarnir eru, treystum við samningsstöðu okkar gegn bandalaginu.

Í leiðara DV á fimmtudaginn var rökstutt, að við þurfum ekki að einblína á Evrópubandalagið, kosti þess og galla, heldur leggja áherzlu á að halda einnig opnum viðskiptaleiðum til Vesturheims og Austur-Asíu til þess að geta hagað seglum eftir vindi í milliríkjaviðskiptum.

Evrópubandalagið er samt álitlegur kostur, því að það er nálægur markaður, sem spannar nú þegar rúmlega helming utanríkisviðskipta okkar. Aðild að því verður áleitnari með hverju ríkinu, sem flytur sig um set úr Fríverzlunarsamtökunum yfir í bandalagið.

Við höfum gert við Evrópubandalagið nothæfan samning, sem ekki rennur út, nema menn hafi sérstaklega fyrir að segja honum upp. Við getum reynt að víkka fisksölufrelsið með beinum þrýstingi og einnig óbeinum, á vegum Fríverzlunarsamtakanna og Norðurlandaráðs.

Ekki er samt hægt að neita, að auknar líkur á aðild Noregs að bandalaginu setja okkur í nokkurn vanda vegna versnandi samkeppnisaðstöðu gagnvart Norðmönnum, ef þeir verða innan bandalagsins, en við utan. Þetta hlýtur að endurvekja hugmyndir um aðild okkar.

Hingað til hafa menn staðnæmzt við kröfur Evrópubandalagsins um gagnkvæma aðild að auðlindum. Íslendingar hafa réttilega verið sammála um, að fiskimiðin væru einmitt gulleggjahænan, sem við mættum ekki selja í hendur öðrum, heldur halda í eigin höndum.

Aðild að auðlind jafngildir ekki ókeypis aðild. Ef íslenzka ríkið færi að bjóða upp leyfi til fiskveiða og við værum innan bandalagsins, gætu erlendir aðilar að vísu reynt að bjóða. Ef þeir væru ríkisstyrktir, mundi boðunum vera hafnað eða lagður á þau samsvarandi skattur.

Útgerð í löndum Evrópubandalagsins er ríkisstyrkt á borð við landbúnað og getur ekki keppt við íslenzka útgerð á jafnréttisgrunni. Þess vegna mundu veiðileyfin lenda hjá íslenzkum aðilum og þjóðfélag okkar hafa tekjurnar af hvoru tveggja, veiðunum og leyfunum.

Önnur hindrun í vegi aðildar Íslands að Evrópubandalaginu er hinn frjálsi flutningur starfsfólks milli landa. Ekkert bendir til, að útlendingar muni sækjast eftir að setjast að í hráslaganum hjá okkur, þótt lífskjör séu góð. Þeir hafa hingað til ekki verið áfjáðir.

Að vísu erum við svo fámennir, að við getum ekki leyft okkur að taka neina áhættu á þessu sviði. Við hljót um að skammta aðgang að ríkisborgararétti nógu þröngt til að laga nýja borgara að tungu og háttum okkar. Þetta er án efa alvarlegasta hindrun bandalagsaðildar okkar.

Frjálsi fjármagnsmarkaðurinn ætti hins vegar að vera lítil hindrun í vegi aðildar, ef við lítum hann réttum augum. Við ættum að fagna því, að erlent hlutafé leysi erlent lánsfé af hólmi, enda erum við farnir að auka erlendar skuldir okkar um tíu milljarða árlega.

Við ættum einmitt að fylgja fordæmi Svisslendinga og Lúxemborgara og nota smæð okkar til að freista erlendra banka, sjóða og annarra stofnana, sem annast varðveizlu og flutning peninga, til að koma sér upp útibúi eða aðalstöðvum hér á eyju í miðju Atlantshafi.

Að öllu samanlögðu á frelsi í fiskveiðum, flutningi starfsfólks og í fjármálum ekki að vera ókleif hindrun í vegi aðildarviðræðna okkar við Evrópubandalagið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvorki váleg né brýn

Greinar

Hvorki er aðild að Evrópubandalaginu Íslendingum eins váleg né eins brýn og stjórnmálamenn vilja vera láta. Umræða þeirra um bandalagið er þó gagnleg og mætti vera meiri, því að hún beinir athyglinni að framtíð okkar í samfélagi og viðskiptum þjóða heims.

Viturlegast er að hafa svigrúm og eiga ýmissa kosta völ. Við þurfum að efla markaði okkar í Japan og öðrum nýríkum löndum á þeim slóðum, meðal annars með því að opna þar viðskiptaskrifstofu, jafnvel sendiráð. Þar er markaðurinn, sem stækkar hraðast nú um hríð.

Til að draga úr áhættu þurfum við að leggja jafna áherzlu á þrjú auðug markaðssvæði, Norður-Ameríku, þar sem Bandaríkin eru í þungamiðju, Vestur-Evrópu, þar sem Evrópubandalagið er í þungamiðju, og Suðaustur-Asíu, þar sem Japan er í þungamiðju.

Um þessar mundir er Evrópubandalagið okkur veigamesta horn þríhyrningsins. Rúmur helmingur utanríkisviðskipta okkar er við það. Engar horfur eru á mikilli breytingu á hlutfallinu á allra næstu árum. Hins vegar er ýmissa veðra von, þegar líður á næsta áratug.

Vaxandi horfur eru á, að ríki Fríverzlunarsamtakanna renni eitt af öðru inn í Evrópubandalagið og samtökin leysist smám saman upp. Alvarlegust fyrir okkur verður aðild Norðmanna að bandalaginu, því að þeir eru helzti keppinautur okkar í sölu fiskafurða.

Mikilvægt er að nota fjölþjóðavettvang, sem við höfum aðgang að, til að vinna að sem mestu frelsi í viðskiptum með sjávarfang. Þess vegna er rétt að hamra í Norðurlandaráði og Fríverzlunarsamtökunum á Svíum fyrir andstöðu þeirra, svo sem raunar hefur verið gert.

Þótt Fríverzlunarsamtökin séu komin á hrörnunaraldur, er mikilvægt, að þau geri frjálsa fiskverzlun að stefnumáli, því að slíkar yfirlýsingar hafa töluvert fordæmisgildi. Reynslan sýnir, að unnt er að beita þeim í viðræðum við aðra, til dæmis Evrópubandalagið.

Samningur okkar við bandalagið og tilheyrandi bókanir hafa reynzt okkur bærilega, þótt við viljum gjarna aukið svigrúm fyrir saltfisk. Við eigum að leggja höfuðáherzlu á, að ekki sé hróflað við þessari hefð, nema til að draga úr hindrunum í vegi fiskverzlunar.

Sem smáþjóð í heimsins ólgusjó er heppilegast fyrir okkur að bindast sem minnst samtökum, sem krefjast afsals á hluta fullveldis, svo sem Evrópubandalagið gerir. Okkur mun ganga betur sem fátækum herrum í eigin landi en sem ríkum þrælum útlendra embættismanna.

Til þess að sigla slíkan sjálfstæðissjó, þurfum við að læra af öðrum smáþjóðum, sem hafa snúið smæðinni sér í hag. Við þurfum til dæmis að skapa hér fríhöfn fyrir vörur og þjónustu, einkum fjármagnsflutninga. Og við þurfum að gera frímerkjaútgáfu að gróðalind.

Svisslendingar og Luxemborgarar hafa sýnt okkur, að unnt er að hafa góðar tekjur af fjármagnsflutningum, en þá þurfum við að hleypa inn erlendum bönkum og sjóðum. San Marinómenn og Lichtensteinar hafa sýnt okkur, að unnt er að gera póstþjónustu að gullnámu.

Ef þróunin þvingar okkur til aðildar að Evrópubandalaginu, þurfum við ekki að örvænta, því að öðrum smáþjóðum hefur vegnað vel í fangi þess. Við getum til dæmis komið í veg fyrir það, sem margir óttast, að útlendingar gleypi gullkistuna okkar, sjávarútveginn.

Við sláum bara þjóðareign á fiskimiðin, hefjum uppboð á veiðileyfum og tryggjum okkur gegn þeim, er telja sér trú um, að þeir geti keppt við okkur í fiskveiðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Við heiðrum skálkinn

Greinar

Við höfum ekki sendiherra í lýðræðisríkinu Japan, þótt það sé okkur mikilvægur og vaxandi markaður, sem eykur fjölbreytni útflutningsmöguleika okkar og gerir okkur minna háð tollahækkunum og öðrum viðskiptaþvingunum í Bandaríkjunum og Evrópubandalaginu.

Nýútkomin utanríkisskýrsla ríkisstjórnarinnar vekur umhugsun um, að stjórnmálasamband Íslands við önnur ríki er tilviljunum háð. Sambönd af því tagi ættu að eiga sér stoð í stjórnmálastöðu okkar og viðskiptahagsmunum og ættu að byggja markvisst á slíkri stoð.

Athyglisvert er, hve víða hefur tilefnislítið verið komið á fót stjórnmálasambandi, sem kostar fé, þótt enginn sendiherra sé á staðnum. Hrikalegur er hinn hefðbundni ferða- og veizlukostnaður í tengslum við afhendingu trúnaðarbréfa á nokkurra ára fresti.

Við höfum til dæmis stjórnmálasamband við Mongólíu, þótt við höfum hvorki átt pólitíska né viðskiptalega samleið með því ríki. Þetta samband kostar okkur dýrt ferðalag og mikinn veizlukostnað á nokkurra ára fresti, þegar skipt er um sendiherra á hefðbundinn hátt.

Miklu merkilegra er samband okkar við stjórnvöld, sem ekki mundu teljast húsum hæf á Vesturlöndum. Við höfum meðal annars stjórnmálasamband við Norður-Kóreu, þar sem við völd eru feðgar, er láta sendimenn sína stunda eiturlyfjasölu og morð í öðrum löndum.

Við höfum líka stjórnmálasamband við Kólumbíu, þar sem ríkjum ráða eiturlyfjasalar, er valda miklum hörmungum á Vesturlöndum. Hin formlega ríkisstjórn í Kólumbíu er valdalaus, enda eru menn þar myrtir átölulaust, ef þeir eru fyrir eiturlyfjasölunum.

Ekki er síður dapurlegt, að ríkisstjórn okkar heldur uppi stjórnmálasambandi við ógnarstjórn Pinochets í Chile. Um langt árabil hefur sú stjórn verið andstyggð góðra manna, á svipaðan hátt og herforingjastjórnir hafa yfirleitt verið í ríkjum Suður-Ameríku og víðar.

Sérkennilegt er samband okkar við stjórnvöld í Íran, sem eru til vandræða á öllum sviðum, svívirða mannréttindi heima fyrir, standa í styrjöld við nágranna, stuðla að mannránum og hatast við allt og alla á Vesturlöndum. Þetta samband jaðrar við sjálfspíslarstefnu.

Á listanum yfir sérstaka vini Íslands, sem kosta okkur stjórnmálasamband, eru stjórnvöld í Eþiópíu. Þau hafa hvað eftir annað framleitt í landi sínu hungursneyð af mannavöldum og hafa sýnt högum íbúanna fádæma fálæti, eins og kreddukommúnistar eru vanir.

Austurríkismenn hafa að undanförnu sætt óþægindum út af pólitískri samskiptafrystingu vegna Waldheims forseta. Þrýstingur af slíku tagi hefur áhrif. Því væri æskilegra að efla samstöðu um frystingu ýmissa glæpastjórna í Þriðja heiminum fremur en Austurríkis.

Erfitt er að draga mörkin, því að meirihluti ríkisstjórna á jörðinni er tæplega húsum hæfur. Í Mexíkó hefur glæpaflokkur verið við völd áratugum saman. Í Tanzaníu hefur ríkisstjórninni tekizt, með hjálp Norðurlanda, að breyta ríkri nýlendu í örbirgðarbæli.

Miða má við Sovétríkin, sem við verzlum töluvert við. Ef stjórn ríkis er verri en í Sovétríkjunum og viðskiptahagsmunir léttvægari, ættum við að geta neitað okkur um stjórnmálasamband. Þess vegna gætum við haldið tengslum við ríki á borð við Indland og Kenya.

Fáránlegt er að eyða fé í að sýna virðingu ýmsum heimsfrægum glæpamönnum og illmennum með því að senda fulltrúa til að afhenda þeim trúnaðarbréf.

Jónas Kristjánsson

DV

Enginn roðnar ­ fáir mögla

Greinar

Upphrópanir samtaka neytenda og kaupmanna út af 190% verndartolli á frönskum kartöflum eru gott dæmi um eitt af lögmálum Parkinsons. Ef upphæðin, sem fer í súginn, er nógu lítil skilja menn hana og rífast um hana. Stóru summurnar eru hins vegar látnar í friði.

Herkostnaður neytenda við að vernda tvo innlenda framleiðendur franskra nemur um 100 milljónum króna á þessu ári. Það er samanlögð verðhækkun á öllum frönskum, flögum, skrúfum og öðru ruslfæði, svo og á allri tilbúinni kartöflustöppu, sem fólk snæðir.

Þetta eru 1.700 krónur á árinu á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Þessi skattur, sem ríkisstjórnin hefur lagt á herðar fólks, er nógu lítill til að menn skilji hann. Hann nemur þremur fimm hundruð króna seðlum og tveim tvö hundruð króna seðlum í veskinu.

Neytendasamtökin reyndu fyrr í vetur að vekja fólk til vitneskju um mun harðari ránsferð landbúnaðarins og stjórnarinnar, þegar framleiðsla eggja og kjúklinga var gerð að embættisstarfi á vegum ríkisins á sama hátt og verið hefur í hefðbundnum landbúnaði.

Vakningin mistókst. Neytendur héldu áfram að kaupa egg og kjúklinga eins og ekkert hefði gerzt. Enda hefur verið reiknað, að herkostnaður þeirra af innlendri einokun eggja- og kjúklingamarkaðarins nemur ekki hundrað milljónum, heldur heilum milljarði.

Ef heimilt væri að flytja inn þessar tvær vörutegundir, mundi fjögurra manna fjölskylda spara að meðaltali 17.000 krónur á árinu. Þetta virðist vera svo há upphæð, að fólk lætur sér hana í léttu rúmi liggja. Hún er hætt að vera heimilisfræði og orðin að hagfræði.

Neytendur og skattgreiðendur eru svo sammála um að láta kyrrt liggja, að umboðsmenn þeirra á Alþingi samþykki árlega að verja sex milljörðum króna til að halda úti framleiðslu hefðbundinnar búvöru. Þetta er svo há upphæð, að fólk tekur hana ekki alvarlega.

Ef ríkið hætti þessum peningalegu afskiptum af landbúnaði, mundi hver fjögurra manna fjölskylda spara að meðaltali 100.000 krónur á þessu ári. Það eru rúmlega 8.000 krónur í hverjum einasta mánuði. Lífskjör í landinu mundu batna langt umfram alla kjarasamninga.

Verkalýðsrekendur hafa jafnan látið sér þetta í léttu rúmi liggja. Formenn Alþýðusambands og Verkamannasambands hafa sjaldan harmað, að ríkið skuli ræna svona miklu af hverri fjölskyldu. Alþýðusambandið tók meira að segja lengi þátt í Sexmannanefnd.

Fiskverkunarkonur, sem nú fella samninga, er fela í sér 32.000 króna lágmarkslaun, mundu vafalaust geta notað 8.000 króna skattfrjálsan kjaraauka, er fengist með afnámi ríkisafskipta af fjármálum hins hefðbundna landbúnaðar. En þær segja ekki orð um ránið.

Íslenzkur landbúnaður kostar ekki bara 100.000.000 krónur á ári í kartöfluflögum, 1.000.000.000 krónur á ári í innflutningsbanni eggja og kjúklinga og 6.000.000.000 krónur á ári á fjárlögum ríkisins. Hann er þar fyrir utan vandamálaframleiðsla, sem daglega kemur á óvart.

Fyrir nokkrum misserum var bændum borgað fyrir að fara að rækta ref og kaupa fóður af stöðvum, sem ríkið kostaði. Nú á að fara að borga þeim fyrir að hætta að rækta ref og borga fóðurstöðvunum fyrir tilheyrandi viðskiptatap. Stjórnmálaöflin eru sammála um þetta.

Svo situr Búnaðarþing þessa daga á kostnað almennings og gerir daglega nýjar kröfur á hendur þjóðfélaginu. Enginn roðnar á þinginu og fáir mögla úti í bæ.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðalaus og rænulaus

Greinar

Fyrsta afleiðing vaxtalækkunar ríkisstjórnarinnar er, að spariskírteini og aðrir ríkispappírar rokseljast. Fólk flýtir sér að kaupa þessar skuldbindingar, meðan vextir þeirra eru enn háir. Vextir haldast nefnilega háir á bréfum, sem fólk er búið að afla sér fyrir lækkun.

Þetta þýðir, að staða ríkissjóðs batnar um stundarsakir og fjármálaráðherra verður afar kátur. Markmið ráðstafana stjórnarinnar er nefnilega ekki að leysa neinn vanda, heldur lina þjáningar líðandi stundar og vernda ímyndunina um, að eiturlyf lækni sjúkdóminn.

Timburmennirnir koma svo síðar, þegar stjórnin fremur hina tilefnislausu vaxtalækkun. Þá mun sala ríkispappíra stöðvast og fjármagnið flýja á önnur mið. Stjórnin mun reyna að elta það uppi með nýjum ráðstöfunum, því að sjúklingurinn þarf sífellt nýjar sprautur.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin geti ekki hætt eltingaleiknum, fyrr en hún er búin að þvinga fólk til að kaupa frystikistur og annað slíkt fyrir peningana, í stað þess að leggja þá fyrir og magna þar með þjóðarauð. Vaxtalækkunin er því gott dæmi um afar skaðlega ráðstöfun.

Gengisskráning stjórnarinnar stuðlar að harmleiknum. Eftir 6% lækkun er gengi krónunnar allt of hátt skráð, svo að frystikistur og aðrar innfluttar eyðsluvörur verða áfram miklu ódýrari en þær væru við heilbrigðar aðstæður. Þetta eflir eyðslu og minnkar sparnað.

Eftir ráðstafanir ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir yfir tíu milljarða halla á viðskiptum Íslands við um heiminn. Engin hagtala sýnir betur en sú, hvílík reginvitleysa felst í að reyna að halda með handafli óeðlilega lágum vöxtum og óeðlilega háu krónugengi.

Niðurskurður ríkisútgjalda um 300 milljónir króna er kák eitt, svo sem sést af samanburðinum við 260 milljónirnar, sem ríkisstjórnin vill, að sveitarfélögin í landinu skeri niður. Það er sama gamla sagan, að ríkið gerir miklu meiri kröfur til allra annarra en sjálfs sín.

Oft hafa íslenzkar ríkisstjórnir lent í erfiðleikum við að vernda ímyndanir, en sjaldan hefur blekkingin verið jafn eindregin og einmitt núna. Margar ríkisstjórnir hafa verið ráðafáar og rænulitlar, en þessi virðist komast þeirra næst því að vera bæði ráðalaus og rænulaus.

Meðan ríkisbú og þjóðarbú eru á samfelldum fíknisprautum ríkisstjórnarinnar, eru ráðherrar í einleik, alveg eins og hver stund sé hin síðasta þeirra í starfi. Landbúnaðarráðherra skellir 190% jöfnunargjaldi á franskar kartöflur til að hefna sín á fjármálaráðherra.

Ekki er minni einleikur húsnæðisráðherra, sem leggur fram hvert lagafrumvarpið á fætur öðru, meira eða minna án samráðs við aðra. Frumvörp þessi vernda ímyndunina um, að eitthvað sé verið að gera til að fjármagna íbúðir landsmanna, nú síðast með kaupleigu.

Á sama tíma og reynt er að fá fólk til að ímynda sér, að pappírar á borð við kaupleigufrumvörp útvegi lánsfé, sem ekki er til, er ríkisstjórnin beinlínis að skera niður peningana, sem renna til íbúðalánakerfisins. Þriðjungur alls niðurskurðarins er á því sviði einu.

Gott væri, ef sjónhverfingarnar væru boðberi afsagnar ríkisstjórnarinnar. Sjaldan hefur verið meiri þörf á, að ríkisstjórn taki afleiðingum eigin getuleysis. Sjaldgæft er, að ríkisstjórn þurfi að láta ráðstafanir koma linnulaust á hæla ráðstafana til að vernda ímyndanir.

Því miður bendir ekkert til, að stjórnin fari frá. Hún er svo ráðalaus og rænulaus, að hún trúir enn á kraftaverk í eiturlyfjasprautum, svokölluðum ráðstöfunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Milljón króna menn

Greinar

Þegar Verkamannasambandið semur um 35.000 króna lágmarkslaun, berast fréttir af ágreiningi æðstu manna Sambands íslenzkra samvinnufélaga um túlkun á forstjórasamningi, þar sem milljónir ber á milli. Þetta eykur tal um eðlilegt og óeðlilegt tekjubil í landinu.

Samanburður af þessu tagi er ýmsum annmörkum háður, ekki sízt þegar hærri launin eru í raun hluti af tekjubili í öðru þjóðfélagi. Í Bandaríkjunum hefur jafnan tíðkazt mikið bil í lífskjörum fólks, en hér hefur lengst af verið státað af tiltölulega miklum tekjujöfnuði.

Ekki virðist óeðlilegt, að forstjórar íslenzkra fyrirtækja í Bandaríkjunum hafi kjör, sem dragi dám af kjörum starfsbræðra í þarlendum fyrirtækjum, sem hafa svipaðan arð og íslenzku fyrirtækin. Hægt er að ímynda sér, að forstjórarnir vinni fyrir slíkum kjörum.

Léttara er að gagnrýna háar tekjur forstjóra ýmissa fyrirtækja hér heima, þar sem yfirleitt er ekki þvílík arðsemi, sem algeng er vestan hafs. Í sumum tilvikum virðist markmið íslenzkra fyrirtækja fremur vera að framfleyta forstjórum en magna arð og þjóðararð.

Hafa verður í huga, að góð lífskjör eins eru ekki endilega eða oftast fengin á kostnað lífskjara annars. Þess er krafizt af stjórnendum, að þeir búi til verðmæti, sem ekki voru til, finni til dæmis leiðir til að framleiða eða selja vöru eða þjónustu mun ódýrar en áður var gert.

Ef lögð eru saman einstök dæmi um lífskjör, sem að almannaáliti eru óeðlilega góð, er ólíklegt, að heildarmismunurinn verði þvílíkur, að hann skipti umtalsverðu máli í heildarrekstri þjóðfélagsins, ekki sízt þar sem lífskjör almennings eru meðal hinna beztu í heimi.

Málið verður alvarlegra, þegar það er skoðað í samhengi við einstæðu mæðurnar og aðra, sem hafa 35.000 krónur á mánuði. Í slíkum lágtekjum, jafnvel þótt umsamdar séu, felst þjóðfélagslegt vandamál, jafnvel þótt segja megi, að sum störf séu ekki meiri peninga virði.

Til dæmis er örugglega ekki 35.000 króna virði að prjóna trefla handa Sovétmönnum. En það er ekki prjónakonum að kenna, heldur stjórnvöldum, sem gera margvíslegar tilraunir til að halda úti arðlausri iðju, jafnvel heilum atvinnuvegum, svo sem landbúnaði.

Væru þjóðminjar af þessu tagi lagðar af, yrðu prjónakonur og bændur af tekjum. Sem betur fer er nóg af arðbærum verkefnum í þjóðfélaginu, eins og atvinnuauglýsingar í dagblöðum sýna. Við höfum verk að vinna að þjálfa bændur og marga aðra til arðbærra starfa.

Eitt veigamesta verkefni stjórnmálanna ætti að vera fólgið í að leggja niður hindranir í vegi atvinnuþróunar úr arðlitlum fortíðargreinum í arðmiklar framtíðargreinar og að bjóða fólki margvíslega endurmenntun til að auðvelda því breytinguna og hraða henni.

Aldrei verður unnt að lögbinda ákveðið hámarksbil launa í þjóðfélaginu. Veruleikinn skýtur sér alltaf undan stjórnmálamönnum og embættismönnum, sem reyna að skipuleggja hann. Hins vegar þarf að vera umræða um bilið, svo að um það sé eins konar þjóðarsátt.

Fullyrða má, að Íslendingar séu svo jafnréttissinnaðir, að þeir telji launabil frá 35.000 krónum upp í milljón krónur á mánuði vera ósiðlegt. Ekki er fráleitt, að óformlegt samkomulag geti verið um, að siðlegt sé, að þetta bil sé frá 50.000 krónum upp í 250.000 krónur.

Neðri kantinum má lyfta með breytingu á atvinnuháttum. Um efri kantinn er minna hægt að segja, þótt ótrúlegt sé, að margir geti hér verið milljón króna menn.

Jónas Kristjánsson

DV