Greinar

Orðaslæður gefast illa

Greinar

Rétt eins og ríkisstjórnin mun snarlega lækka hina formlegu skráningu á gengi krónunnar, þótt hún haldi öðru fram, er hún einnig að hækka raunvextina, þótt hún þykist vera að gera annað. Hvort tveggja fer eftir blekkingarhefð, sem hér er talin til stjórnvizku.

Í sjónhverfingum af þessu tagi er jafnan talið brýnt að nefna hlutina aldrei réttum nöfnum. Nýjasta vaxtahækkunin heitir til dæmis lántökuskattur. Ríkisstjórnin er að undirbúa slíkan skatt á erlend lán til að gera vexti þeirra jafnháa hinum háu vöxtum af innlendum lánum.

Með gjaldinu er girt fyrir, að lántakendur geti vikið sér undan háum vöxtum í landinu með því að nýta sér lægri vexti í útlöndum. Þetta jafngildir hækkun heildarvaxta lántakenda um nokkur hundruð milljónir króna á ári, hugsanlega nokkuð yfir heilan milljarð króna.

Um leið nælir ríkið sér í sömu peningaupphæð án þess að kalla það nýja skattheimtu. Ríkið eykur veltu sína á einfaldan hátt, um leið og það hækkar heildarupphæð þeirra vaxta, sem greiddir eru í landinu. Svona vinnubrögð þykja afar sniðug í stjórnmálunum.

Sennilega er þessi vaxtahækkun og þessi skattahækkun gagnleg ráðstöfun, alveg eins og gengislækkunin er gagnleg. Hins vegar má efast um, að nauðsynlegt sé að fela slíkar ráðstafanir undir fölskum nöfnum, þegar málsaðilar og almenningur vita í rauninni betur.

Seðlabankinn hefur verið einna duglegastur opinberra stofnana við að slá ryki í augu fólks. Hann fann á sínum tíma upp á að nota orðið gengisbreytingu yfir gengislækkun. Það er samkvæmt reglunni, að orð eigi að gefa sem minnstar upplýsingar um innihaldið.

Orðið gengisbreyting er lævísara en fræg orð stjórnmálamanns um eina gengislækkunina, að hún væri ekki gengislækkun, heldur hratt gengissig í einu stökki. Seðlabankinn var þó snjallastur í orðaslæðum, þegar hann tók upp á að nota orðið frystingu um sparifé.

Orðið frysting gaf í skyn, að peningar væru læstir inni í Seðlabanka til að minnka verðbólgu. Í rauninni voru þessir peningar teknir af hinum tiltölulega heiðarlega lánavettvangi bankanna og notaðir í ósæmileg gæluverkefni stjórnvalda, með milligöngu Seðlabanka.

Einnig hafa fastmótaðar klisjur, sem eru endurteknar í síbylju, öðlast sess sem mikilvægur þáttur í að þyrla upp ryki til að hylja raunveruleikann. Ein klisjan, sem heyrist daglega um þessar mundir, er setningin: “Gengislækkun leysir ein út af fyrir sig engan vanda”.

Þessi klisja hefur til dæmis ruglað ýmsa frystihúsamenn svo í ríminu, að þeir telja brýnna en gengislækkun að fá aðgerðir stjórnvalda til að koma í veg fyrir, að fólk fái gott kaup í þjónustu á Reykjavíkursvæðinu, svo að það hlaupi ekki frá færiböndum fiskvinnslunnar.

Með alls konar rugli af þessu tagi er reynt að viðhalda þeirri blekkingu, að stjórnvöld geti leyft eða bannað efnahagslögmál, sem minna á náttúrulögmál. Tilraunir til slíks hafa alltaf skaðað þjóðarhag og munu halda áfram að gera það. Þær skaða þjóðarhag núna.

Skyld þessu er hefðin að framleiða pappír, þegar peningar eru ekki til. Löngum hefur til dæmis verið reynt að leysa húsnæðisskortinn með nýjum lögum og reglum um húsnæðislán, verkamannabústaði og nú síðast kaupleigu, eins og þannig sé unnt að búa til fé úr engu.

Auðveldara væri að stjórna landinu til lengdar, ef ráðmenn vildu hverju sinni taka á sig óþægindin af að neita sér um að bregða slæðu yfir raunveruleikann.

Jónas Kristjánsson

DV

Fleira er dýrt en feitt kjöt

Greinar

Þegar nýir menn koma til skjalanna í áróðursstofnunum landbúnaðar svo sem á tíu ára fresti, finnst þeim snjallt til varnar að benda á, að fleira sé dýrt en feitt kjöt, til dæmis Alþýðublaðið, ef verð á grammi af því sé borið saman við verð á grammi af útlendu dagblaði.

Þessi sjaldséði samanburður er kærkominn, því að hann kemst nær kjarnanum en flest annað, sem frá samtökum landbúnaðarins kemur. Samanburðurinn leiðir nefnilega athyglina að þeirri hlið landbúnaðarvandans, sem sjaldan er skoðuð, innflutningsbanninu.

Við höfum leyfi til að kaupa hvaða útlend dagblöð sem er og án þess að þau kaup séu tolluð eða sköttuð sérstaklega. Við getum, ef við viljum, tekið ódýrt gramm af Politiken eða New York Times fram yfir dýrt gramm af Alþýðublaðinu, nákvæmlega eins og okkur þóknast.

Ef eitthvað selzt af Alþýðublaðinu, sem einn áróðursfulltrúa landbúnaðarins telur mjög dýrt, stafar það væntanlega af, að blaðið þjónar einhverjum sérstökum þörfum kaupandans. Hann getur valið milli þess og margra annarra innlendra og útlendra dagblaða.

Þetta er svipað því, að neytendur gætu tekið rosalega dýrt íslenzkt smjör fram yfir tíu króna smjör frá Bandaríkjunum eða Evrópubandalaginu, af því að þeir sjálfir teldu það henta sér, en ekki af því að landeigendur hafi fengið stjórnvöld til að banna honum útlenda smjörið.

Innflutningsbannið er einmitt versti þáttur landbúnaðarstefnu stjórnmálaflokkanna og meirihluta þjóðarinnar. Það kemur í veg fyrir, að neytendur geti magnað kaupmátt sinn með því að velja frá útlöndum ódýrar afurðir, sem mundu einmitt henta láglaunafólki.

Hitt er líka alvarlegt, en fær þó aðeins önnur skammarverðlaun, að ríkið skuli borga sex milljarða árlega til að beina neyzlunni frá ódýrum matvælum til hinna dýru afurða landbúnaðarins. Það er hliðstætt þeim milljónum, sem ríkið ver til að greiða niður Alþýðublaðið.

Heppilegast væri tollfrjálst innflutningsfrelsi, samfara afnámi fjárhagslegra afskipta ríkisins, hvort sem er af Alþýðublaði eða smjörstykki. Þá þarf ekki lengur að ræða, hvað fólk vill eða hvað á að leyfa því, heldur fær það sjálft að ákveða, hvaða vöru það notar.

DV er ekki að væla um, að markaður sé lítill hjá 250.000 manna þjóð og að erfitt sé að halda úti íslenzkri tungu. Blaðið biður hvorki um ríkisstyrki né innflutningsbann dagblaða. Eins og aðrir seljendur telur blaðið eðlilegt, að kaupendur ráði, hvort blaðið sé gefið út.

Sömu reisn á íslenzki landbúnaðurinn að hafa. Hann á að hafna innflutningsbanni og ríkisstyrkjum og láta reyna á, hve mikið neytendur vilja kaupa af svokölluðu fjallalambi og á hvaða verði. Í ljós kann að koma, að sumir séu tilbúnir að greiða margfalt verð fyrir það.

Íslendingar eiga að hafa borgaralegan rétt til að velja milli styrkjalauss Alþýðublaðs og ótollaðs Politiken. Og þeir eiga líka að hafa borgarlegan rétt til að velja milli styrkjalauss fjallalambs annars vegar og hvers konar hliðstæðrar, ótollaðrar vöru frá útlöndum hins vegar.

Þá fyrst hefðu áróðursstofnanir landbúnaðarins siðferðilegan rétt á að birta landslýð upplýsingar um, hversu miklu ódýrara sé að kaupa helgarútgáfu New York Times en Alþýðublaðið, alveg eins og blöðin hafa siðferðilegan rétt á að birta slíkt um búvöruna.

Án banna og millifærslna á fólk rétt á að fá að velja sér vöru, hvort sem það er innlent eða útlent dagblað, innlend eða útlend afurð landbúnaðar. Það er kjarninn.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölva er þjónn en ekki guð

Greinar

Tölvur eiga að vera þjónar manna, en ekki húsbændur og allra sízt guðir þeirra. Við neyðumst þó í mörgum tilvikum að líta á tölvuna sem eins konar guð, sem ekki náist samband við, nema fyrir milligöngu klerkastéttar sérfræðinga í tölvumálum.

Einkatölvur eru að byrja að rjúfa hin óviðkunnanlegu trúarbrögð, þótt þjóðfélagið sé enn fullt af gufuvélum gamla tímans, sem valda sífelldum vandræðum og embættisverkum klerkastéttar í tölvuvæddum stórfyrirtækjum, svo sem í Reiknistofnun bankanna.

Sá tími er liðinn, að niðri í kjallara muldri eins konar guð, sem stjórni mörgum tugum útstöðva úti um allt fyrirtæki eða allt land. Einkatölvur eru orðnar nógu öflugar til að leysa gufuvélar af hólmi og geta með sameiningu samhæft þessa nýju krafta.

Einkatölvunum fylgir herskari hugbúnaðarfyrirtækja, sem veita okkur miklu meira og sveigjanlegra úrval verkfæra en gömlu gufuvélarnar í tölvustétt hafa getað veitt. Mun líklegra er en áður, að tölvunotendur geti fundið sér hugbúnað við sérhvert hæfi.

Íslendingar hafa tekið einkatölvum tveim höndum, en hafa þær þó í mörgum tilvikum aðeins til skrauts á skrifborðum sínum. Það stafar sumpart af, að tölvurnar hafa sjaldnast verið hannaðar sem þjónar, ekki verið nógu strangt miðaðar við þarfir notenda.

Við höfum mest keypt tölvur með svokölluðu Dos-stýrikerfi. Það hefur lengst af krafizt skipana í mynd ásláttar stafaruna á lyklaborð. Það hefur haft litla grafíska hæfni. Það býður agaleysi í gerð hugbúnaðar, svo að við þurfum að eyða tíma í að læra ný forrit.

Dosinn, stundum kallaður PC, er úreltur. IBM er að yfirgefa hann og fara í humátt á eftir Macintosh yfir í eigið OS-2 kerfi, sem erfitt verður að stæla. Meðan sú Maginot-lína er í smíðum til varnar gegn Macintosh, er þriðji staðallinn í uppsiglingu, svokallaður Unix.

Framtíð einkatölva verður á þessum þremur brautum, sem munu nálgast hver aðra, þegar fram líða stundir. Í þeim heimi verður lítið rúm fyrir Dosinn, sem Íslendingar hafa gert að hálfgildings staðli, þótt hann sé beinlínis fjandsamlegur notendum.

Við þurfum hins vegar tölvur, er þjóna okkur. Við þurfum tölvur og hugbúnað, sem ekki kostar okkur tugþúsunda króna námskeið að kynnast. Við þurfum tæki, er spara okkur að miklu leyti tölvufræðsluæðið, sem heltekur veski okkar um þessar mundir.

Við þurfum tölvur, er ekki nýtast bara í reikningi og vélritun, heldur eru jafnvígar á texta og myndir; tölvur sem kunna að setja fram gögn sín á grafískan og myndrænan hátt, sem fólk skilur, ­ og á fagran og myndrænan hátt, þar á meðal á góðri íslenzkri tungu.

Við þurfum tölvur, er ekki krefjast flettinga í handbókum eða minnis á bókstafi og bókstafarunur, heldur gera okkur kleift að benda á þá þjónustu, sem við viljum fá og leiða okkur sjálfkrafa um hina víðfeðmu akra, sem áður töldust myrkviðir tölvuheima.

Við þurfum tölvur, er gera okkur kleift að spila af fingrum fram milli alls konar sérhæfðra forrita og gera okkur kleift að nota óundirbúið áður ókannaðan hugbúnað. Við þurfum og við fáum tölvur, sem ekki eru handa tölvufræðingum, heldur handa notendum.

Gufuvélarnar gömlu munu áfram duga sæmilega til færibandavinnu, en eru engir guðir og munu senn víkja fyrir einkatölvum, sem verða gerðar fyrir fólk.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslandsklukka í útlegð

Greinar

Tveir stjórnmálamenn boðuðu hér í blaðinu í fyrradag, að ríkisvaldið mundi sitja með hendur í vösum og ekkert hafast að til að ná til landsins átta alda gamalli kirkjuklukku, sem hefur verið í útlegð í London. Vildu þeir láta þjóðina spreyta sig á 650.000 króna smásöfnun.

Rétt er, að upphæðin ætti að vera lítil í augum þjóðar, sem hefur náð úr útlegð síðasta geirfuglinum og Skarðsbók. Reynir nú á, hvort sögutilfinning okkar nær til Íslandsklukku þessarar, sem er sennilega merkasti forngripurinn, sem nú er unnt að endurheimta að utan.

Athyglisverður tvískinnungur kom þó fram í ummælum stjórnmálamannanna. Menntaráðherra afsakaði aðgerðaleysi sitt með, að “menntamálaráðuneytið hefur … ekki úr digrum sjóðum að spila”. Ráðuneyti hans veltir rúmlega tíu milljörðum króna árlega.

Sami ráðherra sagðist um daginn “blása á” þær tæpu hundrað milljónir, sem einhverjir kvörtuðu um, að væri kostnaður umfram áætlun við byggingu Listasafns ríkisins. Var í því máli þó rætt um hugsanlegan skort á ráðdeild eða nákvæmni í meðferð opinberra peninga.

Af þessu mætti ætla, að útgjöld til einstakra þátta menntamála yrðu annaðhvort að fara yfir einhver peningamörk eða út í nægilegt sukk til að hrífa menntaráðherrann. Lítil og

sukklaus fjárhæð til að kaupa litla og gamla klukku kveikir ekki hugsjónaeld ráðherrans. Formaður fjárveitinganefndar afsakaði sig með, að nefndin “hefði ekki heimild til að úthluta fé í kaup sem þessi”. Það er út af fyrir sig rétt, en virðist bara gilda um klukkuna, en ekki þegar um er að ræða alvörumál, sem formaðurinn og aðrir leiðtogar telja brýn.

Aukafjárveitingar skipta tugum á hverju ári og nema yfirleitt margföldu klukkuverði. Sú notkun peninga, sem ekki eru til, er, eins og annarra peninga ríkisins, á vegum Alþingis og fjárveitinganefndar þess. Það er Alþingi, sem setur lög og aukalög, en ekki ríkisstjórn.

Sumar þjóðminjar njóta þegjandi samkomulags ríkisstjórnar og fjárveitingavalds um meðferð brýnna mála. Mörgum sinnum á hverju ári þarf utan fjárlaga að verja hundraðföldum klukkuverðum til að tryggja rekstur dýrustu þjóðminjanna, hins hefðbundna landbúnaðar.

Ríkisstjórnin, Alþingi og fjárveitinganefnd þess ákveða hverju sinni, hvenær beita skuli afbrigðum eða láta þau viðgangast. Framangreindar tilvitnanir gætu bent til, að stjórnmálamennirnir tveir ætluðu að standa fyrir nýrri og siðlegri meðferð á fé skattborgaranna.

Ef hins vegar kemur í ljós, að áfram verður beitt aukafjárveitingum, verður ekki komizt hjá að álykta, að stjórnmálamennina tvo skorti áhuga á að stuðla að heimkomu hinnar átta alda gömlu Íslandsklukku. Yfirlýsingar þeirra um annað reynast þá vera hræsni.

Auðvitað verður þjóðin að grípa sjálf í taumana og ná klukku Tröllatungukirkju úr útlegð. Þessi klukka er frá miðri tólftu öld og var hluti af lífi og dauða þjóðarinnar í hálfa áttundu öld, unz hún lenti með öðrum kirkjumunum á uppboði í byrjun þessarar aldar.

Ef þjóðin gefur sér klukkuna, er það góð áminning til landsfeðra um, að fólk lítur niður á skeytingarleysi þeirra um íslenzkar minjar, bæði þjóðminjar og náttúruminjar, sem endurspeglast í lélegum og engum aðbúnaði að söfnum, sem ætlað er að hýsa þessar minjar.

Skorað hefur verið á þjóðina að leysa kirkjuklukkuna út til Íslands fyrir 650.000 krónur. Sómi okkar býður, að við vinnum það til skilnings á eigin þjóðarsögu.

Jónas Kristjánsson

DV

Öfund fylgir lítil reisn

Greinar

Ríkisstjórnin hefði betur tekið boði Sovétríkjanna til forseta Íslands um að koma í opinbera heimsókn um næstu mánaðamót. Rökin gegn tímasetningu boðsins eru að verulegu leyti fyrirsláttur, því að með sæmilegum vilja hefði verið hægt að þola þennan nauma tíma.

Hið eina óþægilega við tímann er, að hann rekst á forsætis- og utanríkisráðherrafund ríkja Atlantshafsbandalagsins. Utanríkisráðherra hefði því líklega orðið að hraða sér vestur í miðri forsetaheimsókn og annar ráðherra orðið að taka við í föruneyti forsetans.

Hugsanlegt er, að skörun forsetaheimsóknar og Natófundar hefði getað orðið nytsamleg. Til stóð, að Gorbatsjov Sovétleiðtogi hitti forseta Íslands og utanríkisráðherra 29. febrúar. Það hefði verið hentugt tækifæri til að biðja Steingrím fyrir skilaboð til vesturs.

Heimsfriðurinn stendur að vísu ekki og fellur með einum skilaboðum frá Sovétríkjunum til ríkja Atlantshafsbandalagsins. Hins vegar er mikilvægt, að næg tækifæri séu til slíkra skilaboða, ekki sízt þegar heimsveldin stíga sátta- og slökunardans, svo sem nú er.

Eðlilegt er, að fólki detti í hug öfund, þegar forsætisráðherra og ráðherrar Alþýðuflokksins beita fyrirsláttarrökum til að koma í veg fyrir, að utanríkisráðherra geti baðað sig í sviðsljósi ráðherra Atlantshafsbandalagsins, beint ofan í heimsókn til Gorbatsjovs í Kreml.

Samkvæmt öfundarkenningunni hafa hinir heimasitjandi ráðherrar líka áhyggjur af, að ferðin til Kremlar mundi verða notuð til að lýsa yfir samkomulagi um verð á ullarvörum og einhverju slíku, sem hefur lengi verið alfa og ómega samskipta okkar við Sovétríkin.

Það styður kenninguna, að Steingrímur Hermannsson hefur í vaxandi mæli leikið einleik í ríkisstjórninni sem eins konar landsfaðir í sumarfríi, án þátttöku og ábyrgðar í umdeildum aðgerðum ríkisstjórnarinnar. Margir telja hann ekki eiga skilið meira sólskin.

Ljóst mátti vera, að ákvörðun um að meina utanríkisráðherra að fara til Kremlar mundi magna grunsemdir um, að öfundin og reiðin í garð Steingríms væri á svo háu stigi, að ekki mætti einu sinni fá út á ferðalagið frambærilegt ullarverð og góða kveðju til Nató.

Ennfremur mátti ljóst vera, að höfnun boðs með þessari tímasetningu mundi draga embætti forseta Íslands inn í ágreining, sem fólk úti í bæ kallar ráðherrapóker. Með hliðsjón af þessu öllu hefði verið skynsamlegt að velja ekki fyrirsláttarrökin gegn Kremlarferðinni.

Sem dæmi um fyrirsláttareðli rakanna gegn ferðinni er, að forsætisráðherra og Morgunblaðið leggja feiknarlega áherzlu á, að utanríkisráðherra hafi lagt fram bókun sína gegn niðurstöðu ríkisstjórnarinnar í málinu eftir ráðherrafundinn, en ekki á honum sjálfum.

Utanríkisráðherra hefur svarað í sömu mynt og sagzt hafa lagt fram bókunina á fundinum. Ekki skiptir miklu, nema ef til vill lögfræðilega, hvað rétt er í málinu. Ljóst er hins vegar, að verið er að gera hliðaratriði, lögfræðilegan orðhengilshátt, að meginatriði.

Ólíklegt er, að forsætisráðherra og ráðherrar Alþýðuflokksins auki dræmar vinsældir sínar með að skaða hagsmuni Íslands og friðsamlegrar sambúðar í heiminum og draga forsetaembættið í pókerinn. Ef tugta þarf utanríkisráðherra, á að velja hentugra tækifæri.

Enn einu sinni hefur atvik orðið til að efla þá skoðun, að ráðherrarnir séu margir hverjir of litlir karlar og að ríkisstjórnina í heild skorti þá reisn, sem þarf.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir vilja skipuleggja plastið

Greinar

Erlendis auglýsa margar verzlanir, að þær gefi staðgreiðsluafslátt, sé greitt í reiðufé. Önnur fyrirtæki auglýsa, að krítarkortahafar fái staðgreiðsluafslátt. Kaupmenn ráða, hvorum kostinum þeir stuðla að og viðskiptamenn ráða, hvar þeir verzla.

Nokkuð fer eftir tegundum viðskipta, hver er staða greiðslukorta í útlöndum. Bandarískir kaupmenn, sem sérhæfa sig í ódýrum afsláttarvörum, kjósa sumir hverjir peningaseðla og hækka vöruverðið, þegar greitt er með plasti, ef það er þá hægt.

Ýmsir kæra sig ekki um, að nafn þeirra og númer tengist sumum tegundum viðskipta. Allir, sem stunda ljósfælin viðskipti, nota eingöngu peningaseðla, svo að forvitnir geti ekki síðar séð, hver greiddi hverjum hvenær hvaða fjárupphæð.

Þetta síðasta stuðlar svo aftur á móti að notkun krítarkorta, þegar trausts er krafist í viðskiptum, til dæmis þegar viðskiptamanni er trúað fyrir verðmæti bíls, sem tekinn er á leigu. Algengt er, að slíkir bílar fáist aðeins leigðir gegn framvísun plastkorts.

Þegar senda þarf vöru langar leiðir, til dæmis tímarit í áskrift, þykir mörgum seljendum töluvert hald í að fá senda undirritaða pöntun með skrásettu númeri greiðslukorts, jafnvel þótt ekki sé ástæða til að taka afrit af korti á hefðbundinn hátt.

Sameiginlegt með öllum þessum dæmum er, að seljandi og kaupandi ákveða, hvaða greiðsluháttur hentar þeim bezt. Enginn stóri bróðir ákveður fyrir þá, hvernig gera skuli, hvorki einokunarsamtök né ríkið sjálft. Slíkt er hins vegar gert hér á landi.

Fyrir helgina skrifuðu ferðaskrifstofurnar og krítarkortafyrirtækin á Íslandi undir samning um að láta kortafólk borga 5% meira en aðra. Þannig eru aðilarnir, sem einoka markaði ferða og korta, farnir að hafa með sér hættulegt samráð um verð.

Alvarlegri eru hugmyndir stjórnmálamanna og embættismanna í viðskiptaráðuneytinu um að skylda kaupmenn til að taka seðlaviðskipti fram yfir kortaviðskipti með því að þvinga þá til að veita sérstakan staðgreiðsluafslátt út á peningaseðla.

Hingað til hafa krítarkortin fengið að finna sér sess í þjóðfélaginu án mikilla afskipta ríkisins, alveg eins og verðbréfamarkaður hefur byrjað að dafna án þess að stjórnmálamenn og embættismenn hafi sér til máttar og dýrðar smíðað um hann lög og reglugerðir.

Það er hins vegar hluti af náttúru þessara valdastétta, einkum þegar þær koma saman í ráðuneytum, að telja sig vita betur en reynslan, hvernig skuli haga ýmsum samskiptum í þjóðfélaginu. Þess vegna er framleidd skæðadrífa af lögum og reglugerðum.

Stjórnmálamenn og embættismenn öðlast meiri völd við að skipuleggja þjóðfélagið sem mest. Embættismenn verða stjórar fjölmennra eftirlitsdeilda hins opinbera. Stjórnmálamenn kaupa sér atkvæði út á undanþágur og aðgang að ódýru lánsfé.

Með opinberum úrskurði um eins konar sektir fyrir notkun krítarkorta í staðgreiðsluviðskiptum er ríkið að leggja drög að útþenslu báknsins um eina stjórnardeild, sem fylgist með því, að kaupmenn og neytendur fari eftir óþörfum lögum og reglugerðum.

Embættis- og stjórnmálamenn eins og viðskiptaráðherra virðast ekki vilja sjá, að skipulag að ofan er yfirleitt óþarft og oft beinlínis skaðlegt.

Jónas Kristjánsson

DV

Embættispróf bænda

Greinar

Ekki er furða, þótt ríkisstjórnin og þingflokkar hennar séu þessa dagana í fullri alvöru að ræða frumvarp landbúnaðarráðherra um embættispróf fyrir bændur, enda mun lögverndun embættisheitis þeirra væntanlega fylgja í kjölfarið, eins og hjá kennurum í fyrrahaust.

Samanlagt velta bændur um tíunda hluta fjárlaga ríkisins. Það er næstum eins mikið fé og skólakerfið veltir. Eðlilegt er, að ríkisvaldið skipuleggi menntun og miðstýri stöðu þeirra eins og annarra embættismanna, sem fara þó með minni fjárfúlgur á vegum ríkisins.

Íslenzkur landbúnaður er ekki atvinnuvegur, heldur hluti ríkisgeirans, dæmigerð opinber starfsemi. Þess vegna er ekki eðlilegt, að bændur valsi um meira eða minna próflausir eins og hverjir aðrir iðnrekendur eða kaupsýslumenn, sem búa við sviptingar markaðsafla.

Einnig verður að hafa í huga, að mikilvægi og þyngd þessa hluta ríkisgeirans fer vaxandi með hverju árinu. Fyrir stuttu ákvað landbúnaðarráðherra að veita eggja- og kjúklingabændum opinber embætti eins og bændum í hinum hefðbundnu greinum kúa- og kindaumsýslu.

Svokölluð sexmannanefnd, sem hefur áratuga reynslu af að reikna laun embættismanna í hefðbundnum búgreinum, hefur nú tekið að sér að reikna laun eggja- og kjúklingabænda á sama hátt. Í því skyni verður almenningur að venju látinn taka upp budduna.

Senn líður að inngöngu refabænda í embættiskerfi ríkisins. Vegna misskilnings hafa þeir verið látnir keppa á erlendum markaði eins og um einhvern atvinnuveg væri að ræða. Að vísu hafa opinberir sjóðir borgað fjárfestinguna og ekki rukkað neinar afborganir.

Svo virðist sem hinir opinberu hafi aldrei reiknað með að fá neitt til baka af milljarðinum, sem þeir hafa sökkt í refina. Og nú gera þeir ráð fyrir að byrja að borga með rekstri refabúa og fóðurstöðva. Síðar má endanlega gera þessi störf að embættum hjá ríkinu.

Undanfarið hefur gætt vaxandi óánægju meðal embættismanna í landbúnaði út af of miklum fjölda í stéttinni. Sex milljarðarnir, sem ríkið ver til þessa geira hins opinbera, fara í of marga vasa, svo að flestir þeirra eru á of lágum launum eins og aðrir embættismenn.

Þegar embættispróf í landbúnaði leysa frjálsa aðgöngu af hólmi, hefur skipulag landbúnaðar nálgazt fullkomnun. Prófin draga úr líkum á, að ungir menn með nýjar hugmyndir fari að raska ró gömlu embættismannanna. Síðar má svo loka stéttinni alveg.

Sérstakur yfirdýralæknir er hafður til að verja innflutningsbann, sem verndar embættiskerfið í landbúnaði. Bannið dregur úr óæskilegum verðsamanburði, sem gæti komið illu af stað. Enn mikilvægara er, að það tryggir ákveðin lágmarksumsvif í þessum ríkisgeira.

Ríkið kaupir framleiðsluna fyrir hönd skattgreiðenda og niðurgreiðir hana til neytenda og útlendinga eða gefur hana rottunum, allt til að halda festu og öryggi í hinum virðulega embættisrekstri, sem ýmsir telja, að sé sjálfur hornsteinn menningar okkar og þjóðernis.

Ekki er amalegt að hugsa til, að handhafar íslenzkrar menningar og þjóðernis hafi framvegis skólapróf í skattabókhaldi og efnahagslegum fræðum, svo að við getum treyst, að jafnan hafi þeir þjóðarhag að æðstu hugsjón, svo sem allir sannir embættismenn hafa.

Á tíma þyngdarauka landbúnaðar er embættispróf bænda einmitt þáttur í, að þjóðin enduröðlist sem fyrst gullöldina 1602­1786 og kaupi ekki ólögmæt snæri.

Jónas Kristjánsson

DV

Hræsni á grafarbakka

Greinar

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar á Íslandi eru komnir á elliárin og eiga fyrir sér hægt andlát á næsta áratug. Þeir þjóna ekki þörfum kjósenda og eru ekki í stakk búnir til að taka upp slíka þjónustu í tæka tíð, áður en ný stjórnmálaöfl taka völdin í landinu.

Stjórnmálaflokkarnir eru þungar stofnanir með flóknum virðingarstigum og hagsmunatengslum. Valdastöðvar þeirra eru þéttskipaðar fólki, sem telur sig þurfa að vernda stöðu sína innan flokkanna, bæði hennar vegna og vegna áhrifa hennar úti í þjóðfélaginu.

Þótt Sjálfstæðisflokkurinn hafi sigið úr 40% flokki niður í 30% flokk, hafa margir áhrifamenn þar enn þann dag í dag minni áhyggjur af því heldur en hinu, hvort ýmsir fyrrverandi eða núverandi flokksfélagar eigi skilið að vera þar með í ráðum eða ekki.

Þeir, sem ríkjum ráða í stjórnmálaflokkum, hafa meiri hag af að sitja áfram efst á haugnum, þótt hann fari minnkandi, heldur en þeir hefðu af stækkandi haug, ef einhverjir aðrir en þeir tækju sér sæti efst á honum. Þetta er sjálft tregðulögmál stjórnmálaflokkanna.

Þróunin mun ekki stöðvast við, að Sjálfstæðisflokkur hefur sigið úr 40% í 30% fylgi, Framsóknarflokkur úr 25% í 20%, Alþýðubandalag úr 20% í 10% og Alþýðuflokkur úr 15% í 10% fylgi. Tímans tönn nagar áfram hægt og bítandi, en með afturkippum inn á milli.

Þegar skýringa er leitað á sókn Kvennalistans, ekki aðeins í atkvæði frá Alþýðubandalaginu, heldur upp á síðkastið í vaxandi mæli frá Sjálfstæðisflokknum, nægir ekki að vísa til stefnumála. Sífellda fylgisránið stafar ekki nema að hluta af aukinni félagshyggju þjóðarinnar.

Rangt væri einnig að telja fylgisvöxt Kvennalistans stafa af, að hann hafi horfið frá marxismanum, sem einkennir alla gömlu flokkana ­ mest Sjálfstæðisflokkinn ­ og felst í að telja hagkerfið vera grunn að öðrum kerfum þjóðfélagsins. Listinn líkist öðrum í þessu efni.

Miklu nær er að bera rísandi gengi Kvennalista saman við hnígandi gengi Borgaraflokks. Síðari flokkurinn er með hefðbundnu sniði og virðist, ef honum endist aldur til, ætla að efla þátt sinn í hinni hefðbundnu valdastreitu flokkanna, sem kjósendur eru einmitt að hafna.

Smám saman eru kjósendur að átta sig á, að hefðbundin stjórnmál á Íslandi byggjast á takmarkalítilli hræsni. Á vegum flokka eru samdar stefnuskrár, sem aldrei er reynt að framkvæma. Í þess stað fer orkan í stríð um peninga og völd, hagsmuni og fyrirgreiðslur.

Sumir flokkar þykjast til dæmis styðja skattgreiðendur og neytendur. Sömu flokkar taka virkan þátt í og hafa jafnvel forustu um að magna ofbeldið, sem þessir víðtæku hagsmunir þurfa að sæta af hálfu sérhagsmuna, er sitja að kjötkötlum í skjóli flokkanna.

Stækkandi hópur kjósenda hafnar stjórnmálaflokkum, sem eru á kafi í bankaráðum, bankastjóraráðningum, sjóðakerfum, arðsömum millifærslum, stórgjöfum af almannafé til gæludýra sinna og eflingu eigin miðstjórnarvalds til að geta millifært ennþá meira.

Ekki hefur enn komið í ljós, að Kvennalistinn taki þátt í hinu umfangsmikla sjónhverfingakerfi hræsninnar. Sumir telja, að hann muni smám saman gera það, þegar hann fái völd, því að allt vald spilli. Að minnsta kosti nýtur listinn þess nú, að vera fjarri fnyknum.

Hver sem framtíð Kvennalistans verður, er líklegt, að stjórnmálin erfi samtök, er hafna eins og hann þáttöku í bralli, sem kjósendur eru að byrja að skilja.

Jónas Kristjánsson

DV

Refirnir gerðir arðlausir

Greinar

Refaræktin ætti að vera okkur skólabókardæmi um margar af gildrunum, sem felast í byggðastefnu þjóðarinnar. Atvinnuvegur, sem ætti að vera arðbær og er það víða um lönd, hefur verið gerður að beiningamanni, er leitar nú á náðir skattgreiðenda til að verjast hruni.

Bændastjórar í Reykjavík hafa ýtt nærri tvö hundruð embættismönnum úr ríkisrekna landbúnaðinum og dubbað þá upp sem athafnamenn í áhættuiðnaði. Stjórarnir víkjast nú undan ábyrgðinni og segja, að bændum hafi ekki verið ýtt, heldur hafi þeir verið “hvattir”.

Hinir ógæfusömu embættismenn eru vanir hinu örugga lífi lágtekjumannsins, þar sem reikningsmenn bændastjóranna framleiða tölur um, hversu miklar tekjur kúa- og kindabændur “þurfa” hverju sinni. Síðan eru tekjur hefðbundinna bænda lagaðar að tekjuþörf þeirra.

Þetta veldur rosaverði á kjöti og mjólkurvörum. Það eru skattgreiðendur látnir greiða niður, svo þeir hafi sem neytendur efni á að kaupa mestan hluta afurðafjallsins, sem ríkið hefur ábyrgzt. Afgangurinn er sendur úr landi fyrir farmgjöldum eða brenndur á sorphaugum.

Framleiðendur kjöts og mjólkurafurða eru í slíku kerfi eins konar embættismenn, sem fá öruggar lágtekjur eftir þörfum. Þeim er svo skyndilega kastað út í raunverulega atvinnugrein, þar sem menn búa ekki við reiknuð kjör, heldur kaldranalegt markaðsverð.

Skinnamarkaðurinn er meira að segja svo frjáls, að þar duga hvorki persónuleg sambönd að íslenzkum fyrirgreiðsluhætti né sölutæknibrellur, sem við erum að reyna að læra af útlendingum. Skinnin eru einfaldlega seld á uppboði, þar sem hæst verð fæst fyrir mest gæði.

Stundum er hátt verð á þessum markaði og í annan tíma er það lágt. Þegar verðlagið lækkar, minnkar kjarkur framleiðenda og heildarframleiðslan minnkar. Þeir þrauka, sem minnstan tilkostnað hafa að baki hæsta verðinu, og græða síðan, þegar verð hækkar að nýju.

Kostnaður refaræktar hefði orðið Íslandi mjög í vil, ef iðnaðarleg hagkvæmnissjónarmið hefðu fengið að ráða ferðinni. Nytsamlegast hefði verið að þjappa búunum saman á tiltölulega fáa staði við sjávarsíðuna, þar sem mest fellur til af ódýru og hentugu refafóðri.

Byggðahugsjón bændastjóranna í Reykjavík réð því hins vegar, að á kostnað skattgreiðenda voru settar upp ellefu fóðurstöðvar víðs vegar um land og refabú stofnuð inn um alla dali. Fóðurframleiðslan verður því dýrari en ella og flutningskostnaðurinn miklu dýrari.

Sem gæludýr stjórnmálanna fékk refaræktin stofnkostnaðinn að mestu greiddan af almannafé. Það leiddi til offjárfestingar, sem er gamalkunnugt fyrirbæri í vinnslustöðvum búvöru og hefðbundnum landbúnaði. Afborganir af ódýrum lánum eru að sliga refabændur.

Ofan á óhóflegan fjárfestingar- og flutningskostnað bætist síðan herkostnaður óðagotsins. Á skömmum tíma hefur refafjölgunarþörfin þynnt stofninn, því að menn hafa ekki haft ráðrúm til að setja aðeins beztu dýrin á. Viðkoman er því minni en hjá erlendum keppinautum.

Allt væri þetta í hefðbundnu lagi, ef ríkið keypti skinnin á útreiknuðu tilkostnaðarverði fyrir fé skattborgara. En sérhvert þessara atriða gerir gæfumuninn, þegar uppboðsmarkaður ákveður óbeint, að finnski bóndinn græði, en hinn íslenzki fari á hausinn.

Nú sjá bændastjórar, að láglauna-embættismönnum gengur illa að leika hlutverk áhættu-iðnrekenda á markaðsvelli. Skattborgarar greiða hina síðbúnu uppgötvun.

Jónas Kristjánsson

DV

Hin þjóðlega þrjózka vor

Greinar

Eins og Ísraelsmenn eru Íslendingar þrjózkir og láta útlendinga ekki segja sér fyrir verkum. Hvalveiðar okkar eru ekki lengur aðallega atvinna, heldur fyrst og fremst hugsjón, sem við teljum okkur verða að halda uppi, sumpart til að sýna, að við séum sjálfstæð þjóð.

Helmingur þjóðarinnar stendur að baki sjávarútvegsráðherra sínum. Fjölmiðlar verða að fara varlega, ef þeir fjalla um löggiltan þjóðaróvin á borð við Paul Watson. Þeim hefur líka verið bent á, að óþjóðlegt sé að nota orðið hvalur fyrir það, sem nú heitir sjávarspendýr!

Til að fylgja eftir þessari nýju þjóðarhugsjón hefur sjávarútvegsráðherra tekið forustu fyrir hvalveiðiríkjum heims, það er að segja þeim fáu, sem þora að senda menn á ráðstefnu til Reykjavíkur. Allt bendir til, að Ísland muni knýja fram fleiri fundi af slíku tagi.

Fljótlega mun Ísland með sama áframhaldi taka við af Japan í augum Bandaríkjamanna sem höfuðvígi hugsjónar hvalveiða eða veiða á sjávarspendýrum, eins og það heitir nú. Vafalaust hefur þjóðin manndóm til að standa undir vandamálum, sem fylgja þeirri vegsemd.

Erlendir sérfræðingar í svonefndum ímyndarfræðum hafa bent okkur á, að nauðsynlegt sé að ráða þá sjálfa til að vinna að breyttri ímynd hvalveiða meðal útlendinga, ekki sízt hinna frægu amerísku ríkidæmis-kerlinga, sem sagðar eru gefa Watson sparifé sitt.

Þeir hafa meðal annars bent á, að kanadískir umhverfisverndarmenn hafi gert sjónvarpskvikmynd, þar sem hringormar sjáist engjast í þorskflaki á steikarpönnu. Þetta eigi fljótlega að sýna í kanadísku sjónvarpi til að refsa okkur fyrir viðhorfin til hvalveiða.

Hugmynd ímyndarfræðinganna er vafalaust, að með gífurlegum samskotum hvalveiðiþjóða megi fá fé til að breyta viðhorfum amerískra kerlinga á þann hátt, að kanadískar sjónvarpsstöðvar telji ekki hringorma jafngóða söluvöru og þýzku sjónvarpi þótti í fyrra.

Áður fyrr var unnt að segja, að einfaldasta leiðin út úr vandræðum af þessu tagi væri að losa sig við fornfálegan atvinnuveg, sem gefi lítið í aðra hönd og haldi starfsfólki frá öðrum verkefnum, sem virðist nóg af hér á landi, ef marka má atvinnuauglýsingar í dagblöðum.

Nú má hins vegar halda fram, að vernda beri hvalveiðar eins og landbúnað og að það sé þjóðernisleg skylda okkar að þrjózkast við þær, jafnvel þótt það kosti stórfé til áróðurs- og ímyndarfræðinga, til viðbótar við kostnað af ráðstefnum um svokölluð sjávarspendýr.

Alþingi var áður búið að taka fyrri afstöðuna með því að fallast á, að hvalveiðar yrðu lagðar niður. En margt hefur síðan gerzt. Sjávarútvegsráðherra hefur fundið upp svokallaðar vísindaveiðar á hvölum, sem hafa breytt hagrænni hugsun þjóðarinnar í hugsjón.

Af hugsjónaástæðum neyðumst við til að veiða hundrað hvali árlega með miklum veiði- og vinnslukostnaði og útgjöldum við ráðuneyti og ráðstefnur, þótt lítið sé tryggt af tekjum á móti, jafnvel þótt Japanir reyni að kaupa í laumi eitthvað af hvalaafurðum.

Hagrænna væri að nota peningana, sem fara í þennan kostnað og í útgjöldin við ímyndarfræðinga sjávarútvegsráðuneytisins, til að verjast hinu raunverulega vandamáli þjóðarinnar, sem er, hvernig verði hægt að fá útlendinga til að halda áfram að borða þorsk.

En sjávarútvegsráðherra og helmingur þjóðarinnar eru sammála um, að meira máli skipti að láta útlendinga vita, að þeir geti ekki sagt okkur fyrir verkum.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkt höfumst við að

Greinar

Skoðanakannanir fengu góða uppreisn æru á mánudaginn, þegar birtar voru nokkurn veginn samhljóða niðurstöður skoðanakannana DV og Hagvangs um stjórnmálafylgið í landinu. Eru þeir nú fáir eftir, sem segja slíkar kannanir ekki spegla raunveruleikann.

Önnur könnun hefur lent heldur betur í hremmingum að undanförnu. Það er könnunin á lestri tímarita, sem Verzlunarráð lét Félagsvísindastofnun Háskólans gera fyrir sig í vetur. Aðilar þeirrar könnunar hafa sætt þungri og efnislegri gagnrýni á meðferð málsins.

Hlutur Félagsvísindastofnunar er minni í því máli, en þó ámælisverður. Stofnunin kaus að setja niðurstöður sínar fram á þann hátt, að þær yrðu ósambærilegar við fyrri kannanir af því tagi. Þar með vantaði hið mikilvæga og raunar nauðsynlega sögulega samhengi í málið.

Hingað til hafa lestrarkönnuðir jafnan lagt mesta áherzlu á að komast að raun um, hversu margir lesi ákveðið blað eða tímarit að staðaldri eða oft. Tölur um slíkan lestur hafa ætíð verið þær, sem kynntar hafa verið opinberlega sem niðurstöður könnunarinnar.

Í skýrslu Félagsvísindastofnunar voru þær tölur hins vegar ekki reiknaðar út, heldur lögð megináherzla á tölur um fólk, sem hafði séð tímaritið á einu ári, þar með talið fólk, er hafði séð það aðeins einu sinni. Í slíkar tölur vantar sögulegt samhengi við fyrri kannanir.

Starfslið DV reyndi stíft að fá hinar raunverulegu upplýsingar. Á endanum voru tölurnar reiknaðar út á ritstjórn DV. Í fyrradag gat blaðið birt samlagningartölur, sem Félagsvísindastofnun hafði ekki hirt um að birta. Þannig gátum við leiðrétt niðurstöður hennar.

Annars staðar í DV í dag er skýrt frá, hversu mikið blaðið hafði fyrir að afla upplýsinga í máli þessu. Við vildum ekki trúa, að könnunin væri án samhengis við eldri lestrarkannanir, þótt endurtekin viðtöl blaðsins við talsmann Verzlunarráðs bentu til, að svo væri.

Hins vegar gátum við ekkert gert í skekkjunni, sem er afleiðing mikillar útbreiðsluherferðar fyrir nokkur tímaritanna á vikunum fyrir lestrarkönnun. Sú skekkja er enn í útkomunni, þótt við höfum lagfært hinar villandi tölur, sem Félagsvísindastofnun lét frá sér fara.

Deila má um, hvort það var af ásettu ráði eða fávísi hjá Verzlunarráði, að skoðanakönnunin fylgdi í kjölfar hinnar hrikalegu útbreiðsluherferðar. En alténd er ljóst og viðurkennt af öllum, að Verzlunarráði var bent á vandamálið nokkru áður en könnunin var framkvæmd.

Með vinnu DV í málinu hefur verið upplýst, að Félagsvísindastofnun og Verzlunarráð gáfu út til almennings villandi tölur um tímaritalestur, sem gátu fengið ókunnuga til að halda ranglega, að lestur tímarita hefði tvöfaldazt síðan síðast var kannaður lestur tímarita.

Ennfremur hefur verið upplýst, að Félagsvísindastofnun og Verzlunarráð gáfu út til almennings villandi tölur um tímaritalestur, sem gátu fengið ókunnuga til að halda, að lestur tímarita Frjálsrar verzlunar væri töluvert meiri en hann er í raun og veru.

Því miður benda viðbrögð ráðamanna Félagsvísindastofnunar og Verzlunarráðs til, að báðir aðilar séu að minnsta kosti sáttir við frammistöðu sína, ef ekki hreinlega ánægðir. Það bendir til, að framvegis verði að taka niðurstöðutölum kannana þeirra með varúð og efa.

Framvinda málsins vekur líka ótta við, að það sé fremur ásetningur en fávísi, sem valdi hinum gagnrýndu vinnubrögðum, einkum af hálfu Verzlunarráðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Hingað og ekki lengra

Greinar

Samtök neytenda hér á landi hafa verið að braggast allra síðustu árin. Hörð viðbrögð þeirra við einokun eggja og kjúklinga er hið snaggaralegasta, sem hefur sézt til þeirra. Viðbrögðin kunna að vera tímanna tákn um, að íslenzkir neytendur láti ekki lengur sparka í sig.

Mikil verðbólga hefur stuðlað að tregum skilningi neytenda á verðlagi og dregið úr samtakamætti þeirra. Fólk hefur litið afstæðum augum á verð, sem var eitt í gær, annað í dag og verður hitt á morgun. Samanburður verðs hefur jafnan reynzt neytendum erfiður.

Þetta er raunar eðlilegt á verðbólgutímum, þegar gengi einstaklinga og fyrirtækja ræðst fremur af aðgangi þeirra að gæludýrafóðri, það er að segja að ódýru fjármagni með niðurgreiddum vöxtum, heldur en af hefðbundinni útsjónarsemi í meðferð peninga.

Viðbrögð neytenda við tæplega þreföldun eggjaverðs á öndverðum þessum vetri gáfu þó ekki tilefni til bjartsýni. Úthald þeirra reyndist vera nákvæmlega ein vika. Eftir einnar viku ládeyðu í eggjasölu færðist salan aftur í það horf, sem verið hafði fyrir verðsprenginguna.

Neytendasamtökin hafa nú kosið að treysta minna á almenning og þeim mun meira á þá kaupmenn, sem hafa góða reynslu af að bjóða lágt verð. Margir þeirra hafa fallizt á að neita að kaupa egg og kjúklinga inn í búðir sínar á hærra verði en samtökin telja hæfilegt.

Eftir er að sjá, hvort margir kaupmenn bili á taugum og taki að sér að selja dýru eggin og kjúklingana í von um, að ístöðuleysi íslenzkra neytenda dragi þá til viðskipta. Tilfærsla viðskipta frá hinum, sem standa með neytendum, mundi slæva bitið í hnífi samtakanna.

Auðvitað munu margir neytendur taka eftir, hvaða kaupmenn það eru, sem vilja leggja á sig eggja- og kjúklingabannið vegna samstöðu með neytendum og samtökum þeirra, og hvaða kaupmenn það eru, sem standa með sívaxandi kúgun, er neytendur hafa orðið að sæta.

Þjóðfélagslega er mjög mikilvægt, að sem flestir neytendur skipi hópinn, er stendur með þeim kaupmönnum, sem standa með neytendum. Ef það gerist í eggja- og kjúklingastríðinu, sem nú geisar, markar það þáttaskil í sögu verzlunar, þjónustu og neyzlu á Íslandi.

Ef stjórnmálamenn okkar sjá neytendur loksins verða að afli, munu margir þeirra snúa við blaðinu. Hingað til hafa þeir fyrirlitið neytendur, jafnvel þótt þeir hafi orðið að sækja fylgi til þeirra. Þingmenn Reykjavíkur svæðis og sjávarsíðu hafa aldrei stutt neytendur.

Sem dæmi um ástandið má nefna, að ekki er langt síðan stærsti stjórnmálaflokkurinn gerði að formanni sínum sveitaþingmann, sem er og verður upptekinn við að vernda kartöfluflöguverksmiðju og gæta annarra hliðstæðra hagsmuna hins hefðbundna landbúnaðar.

Framsóknarflokkurinn hefur oft verið hengdur af almenningsálitinu fyrir að hafa forustu í kúgun íslenzkra neytenda. Það er ekki fyllilega sanngjarnt, því að svo lengi, sem munað verður, hafa Alþýðubandalag og Kvennalisti yfirboðið hann í þjónkun við landbúnað.

Í ríkisstjórninni sömdu Framsóknarflokkur og Alþýðuflokkur bróðurlega um, hversu langt skyldi ganga í þjónkun við landbúnað og kúgun neytenda. Samkomulagið féll á yfirboði Sjálfstæðisflokks, sem fékk framgengt, að orðið yrði við öllum kröfum landeigenda.

Ef neytendur og kaupmenn standa sig að þessu sinni, er valdastéttin hefur gagnsókn, munu pólitíkusarnir fá hland fyrir hjartað og þáttaskil verða á skákborðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Verzlunarráð vill hálan ís

Greinar

Framkvæmdastjóri Verzlunarráðs fer með rangt mál, þegar hann segir, að ritstjóri tímaritsins Heimsmyndar sé hinn eini, sem hafi gagnrýnt könnun ráðsins á lestri tímarita. Á fundi hans með fulltrúum dagblaðanna fyrir þessa könnun var hann varaður við henni.

Sú gagnrýni kom úr fleiri áttum en einni og byggðist á því, að fundarmenn höfðu orðið varir við, að hrikaleg útbreiðsluherferð nokkurra tímarita hafði verið tímasett rétt fyrir þann tíma, er vænta mátti könnunarinnar, sem var í umsjá Félagsvísindastofnunar Háskólans.

Á fundinum var dagblöðunum boðin þátttaka í lestrarkönnun ráðsins. Hún átti að verða í spurningavagni, er fundarmenn gátu með sjálfum sér nokkurn veginn tímasett upp á viku. Útgefandi herferðartímaritanna sat í undirbúningsnefnd könnunarinnar hjá ráðinu.

Aðrir tímaritaútgefendur, er fréttu beint eða óbeint af framtakinu, hefðu getað hleypt af stað slíkri herferð til að reyna að vega upp á móti forskoti þess, sem undirbjó könnunina. En vafasamt er, að það sé í verkahring Verzlunarráðs að þvinga útgefendur til herferða.

Þegar Félagsvísindastofnun Háskólans lætur í fátækt sinni ginnast til að kanna lestur tímarita beint ofan í útbreiðsluherferðir, er við að búast, að niðurstöðurnar bendi til, að lestur tímarita hafi aukizt almennt og þá einkum þeirra, sem kynnt voru vikurnar fyrir könnun.

Dagblöðin þágu ekki boð Verzlunarráðs um þátttöku í lestrarkönnun. Á fundinum var ráðinu bent á, að taka kannanir Sambands auglýsingastofa sér til fyrirmyndar, ef ráðið hygðist ryðjast inn á þennan markað. Ekki hefur verið deilt á aðferðafræði þeirra kannana.

Fróðlegt er, að talsmaður Félagsvísindastofnunar telur könnun Verzlunarráðs sýna, að lestur tímarita hafi stóraukizt á undanförnum árum. Ef talsmaðurinn lifði í raunverulegum heimi, vissi hann, að lestur stóreykst ekki eða stórminnkar, heldur rís eða hnígur hægfara.

Ef niðurstaða könnunar bendir til, að breytingar af þessu tagi hafi verið hraðar, en ekki hægar, er eitthvað athugavert við könnunina sjálfa. Hér hefur verið bent á atriði, herferðina, sem Verzlunarráði var skýrt frá fyrir könnun. En það kaus að hlusta ekki á ráð.

Eftir á hefur komið í ljós, að fleira var bogið við könnun Verzlunarráðs og Félagsvísindastofnunar. Samkvæmt fréttum ráðsins virðist fólk hafa verið spurt, hvort það hafi skoðað nafngreind tímarit á árinu. Tölur um það voru hafðar sem niðurstöður könnunarinnar.

Eftir þessu að dæma telja ráð og stofnun það vera lestur, ef fólk flettir slíku tímariti einu sinni á ári á biðstofu. En frægt er einmitt, að sum þessara tímarita eru skipulega gefin á biðstofur í kynningarskyni, svo að auglýsendur telji, að ýmsir sjái auglýsingar frá sér.

Allt önnur viðhorf til lestrar birtust í vönduðum lestrarkönnunum Sambands auglýsingastofa. Þar var spurt, hvort fólk læsi ákveðin dagblöð eða tímarit reglulega. Ósvífið er að bera slíkar kannanir saman við könnun á skoðun einu sinni á ári, svo sem nú hefur verið gert.

Því miður voru lestrarkannanir auglýsingastofunum fjárhagsleg og hvimleið áhætta og byrði. Þess vegna hefur Verzlunarráði tekizt, í krafti óhóflegs eyðslufjár þess, að ryðjast inn á markaðinn og létta lestrarkönnunum af herðum þeirra, sem kunnu þó til verka.

Annarlegast við þetta er, að framkvæmdastjóri Verzlunarráðs var greinilega fyrirfram ákveðinn í að taka ekkert mark á vel rökstuddum viðvörunum um hálan ís.

Jónas Kristjánsson

DV

Hver barði Vestfirðinga

Greinar

Vestfirðingar minna á manninn, sem var sleginn, en reis úr rotinu og barði næsta mann. Vestfirðingar telja sig vera arðrænda, svo að notað sé gamalt og úrelt orð. En þeir gera sér ennþá hvorki grein fyrir, hvernig stendur á því, né hvernig bezt sé að verjast arðráninu.

Í kjaraviðræðum á Vestfjörðum sáu málsaðilar í fyrstu bjargvætt sinn í ríkinu. Fyrir síðustu helgi bentu þeir á lykil að samningsgrundvelli, er gæti raunar gilt um allt land. Hann fólst í, að ríkið niðurgreiddi samninginn með skattaívilnunum handa fiskvinnslufólki.

Þegar það fékkst ekki, gáfust Vestfirðingar ekki upp, heldur héldu áfram að semja upp á eigin ábyrgð, en ekki ríkisins. Í niðurstöðu þeirra er merkilegt fordæmi, nýtt afkastakerfi. Þar sýna þeir hliðstæða forustu og þeir hafa sýnt í andstöðu við aflakvótakerfið.

Vestfirðingar hafa einkum tvenns konar sérstöðu í efnahagslífinu. Í fyrsta lagi er sjávarútvegur og fiskvinnsla stærri hluti þess á Vestfjörðum en í öðrum kjördæmum. Og í öðru lagi er landbúnaður þar vestra minni en í öðrum kjördæmum utan Reykjavíkursvæðis.

Vestfirðingar hneigjast hins vegar til að einblína á þriðja einkennið, sem kjördæmið á sameiginlegt með kjördæmum utan Reykjavíkursvæðis. Það er lágt hlutfall þjónustustarfa. Í því vilja Vestfirðingar sjá skýringu á, hvers vegna þeir beri skarðan hlut frá borði.

Þjónustugreinar eru sagðar á verðbólgutímum geta hækkað laun starfsliðs síns og velt hækkuninni út í verðlagið, meðan fiskvinnslan á Vestfjörðum sé háð föstu gengi krónunnar og geti ekki keppt við þjónustuna um starfskrafta. Þetta er í stórum dráttum rétt.

Eðlileg afleiðing þessarar kenningar væri krafa um, að horfið yrði frá fastgengisstefnu og krónunni leyft að fljóta. Það stríðir hins vegar gegn hagfræðilegum trúarbrögðum, sem hafa í vaxandi mæli sett svip sinn á klisjulið íslenzkra stjórnmála síðustu árin.

Þjóðinni mundi samt vegna betur, ef hún hætti að skrá gengi krónunnar, það er að segja hætti að halda henni uppi með handafli. Hér í blaðinu hefur oft verið hvatt til notkunar erlendra gjaldmiðla eða alþjóðlegra reikningseininga í viðskiptum hér á landi.

Rétt skráning efnahagslegra verðmæta, hvort sem það er í íslenzkum krónum, svissneskum frönkum eða evrópskum reiknieiningum, er forsenda þess, að þeir aðilar, sem taka þátt í stóriðju verðmætasköpunarinnar, sjávarútveginum, njóti hæfilegs hluta afrakstursins.

Gengi krónunnar er haldið uppi, af því að ríkið þarf sjálft að nota verðmætasköpunina úr sjávarútvegi. Sumpart er það vafalaust gert til að geta haldið uppi góðum lífskjörum embættismanna og annarra íbúa Reykjavíkursvæðis, en það er ekki nema brot af skýringunni.

Ríkið hefur, með stuðningi Vestfirðinga, tekið að sér að reka hefðbundinn landbúnað í landinu. Þessi hluti ríkisrekstrarins kostar þjóðina og þar með Vestfirðinga sex milljarða króna á þessu ári einu, samkvæmt fjárlögum, sem hingað til hafa vanmetið kostnaðinn.

Í stað þess að beina geiri sínum að þessum ríkisrekstri, sem hirðir af þeim arðinn, hafa Vestfirðingar látið ginnast til að mynda bandalag, þar sem andstæðir hagsmunir landbúnaðar og sjávarsíðu sameinast gegn því, sem þeir telja vera þjónustuveldið fyrir sunnan.

Andúð Vestfirðinga á ónýtu aflakvótakerfi bendir þó til, að þeir hugsi nógu sjálfstætt til að geta fyrstir séð, hver lemur hvern. Þótt þeir hafi ekki séð það enn.

Jónas Kristjánsson

DV

Deilt og drottnað í fáti

Greinar

Deilingar- og drottnunarárátta þeirra, sem komast til valda, er jafnan hættuleg lýðræðinu og þeim sjálfum, sem haldnir eru. Hér hefur ráðherraveikin leitt til millifærslna og miðstýringar, sem torveldar þjóðinni að meta, hvað er efnahagslega heilbrigt og skynsamlegt.

Verra er ástandið, þegar áráttan er reist á öryggisleysi og hræðslu stjórnmálamannanna, svo sem nú er. Skelfdir valdsdýrkendur eru hættulegastir. Ríkisstjórnin rambar milli þverstæðra ákvarðana og gefur til baka með annarri hendinni það, sem hún tók með hinni.

Ekki kemur á óvart, að ríkisstjórnin hefur bannað birtingu hinnar nýju þjóðhagsspár. Ráðherrarnir telja, að upplýsingar eigin áróðursráðuneytis séu of hættulegar óútreiknanlegri þjóð. Þær kunni að leiða til aukinna launakrafna og vaxandi óbeitar á ríkisstjórninni.

Áróðursráðuneytið í Þjóðhagsstofnun á ekki sjö dagana sæla. Ýmsir aðilar úti í bæ hafa tekið að sér að spá nákvæmar fyrir þjóðinni en gert er af hálfu landsstjórnarinnar. Steininn tók úr, þegar stofnunin breytti skyndilega mati sínu á viðskiptahalla síðasta árs.

Í október taldi stofnunin, að hallinn yrði hálfur þriðji milljarður. Þremur mánuðum síðar telur hún núna, að hann hafi orðið hálfur sjöundi milljarður. Hún virðist í fyrra skiptið hvorki hafa vitað um stöðu útflutningsbirgða né um áhrif gengisskráningar á innflutning.

Efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar í vetur hafa frá upphafi einkennzt af millifærslum. Matarskatturinn var upphaflega öðrum þræði tilraun til að einfalda skattakerfið, en missti þess marks, þegar farið var að fjölga skattstigum og stórauka niðurgreiðslur í landbúnaði.

Þótt ríkishakkavélin hafi verið voldug fyrir, reyndist enn unnt að magna hana. Það var gert með því að auka niðurgreiðslur um þrjá milljarða og koma landbúnaðarliðum fjárlaga upp í sex milljarða. Afar erfitt mun reynast að losna úr slíkum millifærslu-frumskógi.

Ráðagerðir stjórnarinnar voru handahófslega unnar og leiddu til óvandaðrar nætur- og helgidagavinnu á Alþingi. Niðurstöður raunveruleikans urðu ekki hinar sömu og í talnaleikjum ríkisstjórnarinnar. Í ljós kom, að byrðar fólks höfðu verið þyngdar verulega.

Svipuð skelfing greip um sig í ríkisstjórninni og hafði orðið fyrr í vetur, þegar matarskatturinn fæddist á afturfótum. Ráðherrar gefa þessa dagana í skyn hver um annan þveran, að til greina komi að lækka skattleysismörk til að bæta sumu láglaunafólki skattahækkunina.

Á óreiðuflótta af þessu tagi hafa menn ekki tíma og kjark til að horfast í augu við, að eftirgjafir á tekjuskatti hafa sömu áhrif og eftirgjafir á matarskatti. Þær rýra tekjuhlið fjárlaga, magna þannig hallarekstur ríkissjóðs og auka með því veltu, vexti og verðbólgu.

Hræðslan við krónugengið er þó flestu öðru yfirsterkari. Reynt er að bæta hag frystihúsanna með að gefa eftir söluskatt og ennfremur reynt að kaupa frið fiskvinnslufólks með því að veifa sérstökum skattfríðindum, það er að ríkið taki óbeint að sér hluta kaupgreiðslnanna.

Með því að neita að horfast í augu við gengisstaðreyndir er stjórnin að kippa fiskvinnslunni með sér inn í draumaheiminn og byggja þar upp miðstýrðan ríkisrekstur á borð við landbúnað, þar sem millifærslur og talnaleikir leysa efnahagslögmálin af hólmi.

Deilingar- og drottnunarveikin varð margfalt skæðari við að blandast ráðleysi og fáti skelfingar. Þessa dagana bakar blandan okkur millifærslur og miðstýringu.

Jónas Kristjánsson

DV