Greinar

Þeir benda á ógengin spor

Greinar

Ríkisstjórnin og málflutningsmenn hennar í Þjóðhagsstofnun og á sjónvarpsfréttastofum leggja mikla áherzlu á að kenna væntanlegum kjarasamningum um núverandi verðbólgu og önnur vandræði, sem tvær ríkisstjórnir hafa hjálpazt að við að kalla yfir þjóðina.

Frá því nokkru fyrir áramót hafa valdsmenn þessir margtuggið, að kjarasamningarnir á næsta leiti valdi óvissu í efnahagsmálum þjóðarinnar. Birtar hafa verið tölur um gífurleg verðbólguáhrif þeirra. Ennfremur er sagt, að þeir muni valda gengislækkun krónunnar.

Þjóðhagsstofnun hefur meira að segja látið frá sér heyra, að núverandi raunvextir, sem mörgum finnast óþægilega háir, séu væntanlegum kjarasamningum að kenna. Virðist hún telja, að möguleikinn á verkföllum og launahækkunum sé að rugla lántakendur í ríminu.

Háu vextirnir stafa auðvitað ekki af slíkri framtíðarsýn, heldur af þegar fram kominni reynslu lánamarkaðarins. Ríkið hefur, einkum síðasta árið, haft forgöngu um að auka eftirspurn peninga og minnka framboð þeirra. Þetta eitt er nægileg skýring á háum vöxtum.

Ríkið hefur aukið eftirspurn með því að slást af hörku um peninga og yfirbjóða aðra með freistandi tilboðum um háa vexti. Um leið hefur það minnkað framboð með því að halda krónugengi föstu og fá þannig fólk til að nota sparifé sitt til að kaupa innfluttar vörur.

Verðgildi krónunnar hefur þegar rýrnað. Ennfremur vita allir, að ríkisstjórnin er að fresta formlegri viðurkenningu þess fram yfir kjarasamninga. En verðgildið er fallið og væri fallið, jafnvel þótt launþegasamtök semdu um óbreytt krónukaup og fallinn kaupmátt.

Verðbólgan, er komst niður í 13% í hittifyrra, tvöfaldaðist í fyrra. Hún var þá um 25% að meðaltali, en komst upp í 55% núna um áramótin. Ekki er hægt að kenna ógerðum kjarasamningum um þessa verðbólgu eða verðbólguna, sem bætist við, er genginu verður breytt.

Upphafs þessara ófara er að leita í hugleysi næstsíðustu ríkisstjórnar. Hún missti móðinn í samningum við opinbera starfsmenn fyrir ári og gaf allt laust til að kaupa sér fylgi í kosningunum, sem voru í aðsigi. Hún sat síðan með hendur í skauti fram yfir kosningar.

Framhalds ófaranna er svo að leita í hugleysi núverandi ríkisstjórnar, sem hefur í vetur verið dugleg við að reyna að kaupa sér fylgi heima í héruðum. Afleiðingin er gífurleg þensla á rekstri og framkvæmdum ríkisins, sem eykur skattbyrðina um nokkra milljarða króna.

Ríkisstjórnina leiðir svo fjármálaráðherra, sem er óvenjulega ósvífinn í málflutningi og hagar sér eins og lífið sé málfundur í miðskóla. Flokksráð Alþýðuflokksins maulaði skoðanasætindin úr lófa ráðherrans um helgina. Ríkisstjórnin vonar, að svo verði um fleiri.

Stjórninni hefur mistekizt að spara fé. Hún hefur búið til vítahring sex milljarða aukningar á skattbyrði, gengisfölsunar og sex milljarða halla utanríkisviðskipta, 55% verðbólgu, svo og gífurlegra raunvaxta, sem samt megna ekki að hamla gegn þenslu vítahringsins.

Hugleysið er meira en flestra undanfarinna stjórna, af því að stjórnin er sundurþykk og leitar þægilegra lausna, sem yfirleitt kosta fé. Hugleysið hefur svo leitt til uppgjafar, sem lýsir sér í, að ráðherrar og málflutningsmenn þeirra vísa ábyrgð til ógerðra kjarasamninga.

Þessir samningar munu ekki framleiða nýja erfiðleika, heldur lítillega auka vandkvæði, sem síðasta ríkisstjórn hóf og núverandi stjórn breytti í öngþveiti.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagkvæmni hefnir sín

Greinar

Bandaríkjastjórn hefur neyðzt til að samþykkja að loka herstöð sinni á Torrejon-flugvelli á Spáni, þótt fulltrúar hennar hafi lagt afar hart að Spánarstjórn að leyfa henni að vera. Þessi niðurstaða er töluvert skakkafall í hermálasamskiptum Bandaríkjanna við umheiminn.

Samningaharka Spánarstjórnar dafnaði í útbreiddri Bandaríkjaóbeit meðal Spánverja. Óbeitin á sér rætur í óbeinum stuðningi Bandaríkjanna við einræðisstjórn Francos, sem var við völd til ársloka 1975. Sú tímaskekkja verður seint þurrkuð úr minni Spánverja.

Bandaríkjastjórn á enn erfiðari samskipti við Grikki og stjórnina í Grikklandi, þar sem einnig eru bandarískar herstöðvar. Grikkir hafa ekki fyrirgefið og munu seint fyrirgefa Bandaríkjunum óbeinan stuðning þeirra við grísku herforingjastjórnina árin 1967­1974.

Sárin, sem Bandaríkin hafa skilið eftir í þessum tveimur gamalgrónu þjóðum vestrænnar menningar, eru ekki nærri eins djúp og í ýmsum þjóðum þriðja heimsins, þar sem sendimenn Bandaríkjanna hafa af sígildum hagkvæmnisástæðum stutt margs konar dólga.

Þjóðir Suður- og Mið-Ameríku eru skýrasta dæmið um þetta. Bandaríkin hafa beinlínis rústað lýðræði og efnahag margra þjóða svæðisins með stuðningi við helztu varmenni þess, svo sem Batista á Kúbu, Somoza í Nicaragua, Duvalier á Haiti og Pinochet í Chile.

Í sumum tilvikum tóku Bandaríkjamenn þátt í að koma slíkum til valda, en misstu síðan tökin á þeim. Þannig fara sínu fram Noriega í Panama og Pinochet í Chile án þess að leita ráða hjá Bandaríkjastjórn eða þiggja ráð þaðan. En ábyrgðin er eigi að síður Bandaríkjastjórnar.

Persónugervingur hins svokallaða hagkvæmnissjónarmiðs í utanríkisstefnu Bandaríkjanna er Henry Kissinger. Hann hefur bæði í skrifum og verki haft þá stefnu, að ekki þýddi fyrir heimsveldi að vera að vasast í mannréttindum og öðrum kerlingalegum vælumálum.

Til dæmis kom Kissinger Pinochet til valda í Chile. Og hann sagði sjálfur við glæpa-herforingjana í Argentínu, að Bandaríkjastjórn neyddist til að gagnrýna, að þeir pynduðu og myrtu þúsundir Argentínumanna, en þeir skyldu bara ekki taka neitt mark á gagnrýninni.

Hatrið á Bandaríkjunum í kjölfar eyðingaráhrifa Kissingers og annarra slíkra er gífurlegt í Suður- og Mið-Ameríku. Óbeitin, sem ríkir á Spáni og í Grikklandi, er lítilfjörleg í samanburði. Bandaríkin verða áratugi að bæta Rómönsku Ameríku fyrir brot sín.

Eini Bandaríkjaforsetinn, sem vék í verki af þessari óheillabraut, var Jimmy Carter. Á valdaskeiði hans fór vonarneisti um þjóðir þriðja heimsins. Bandaríkin urðu þá á nýjan leik tákn frelsis og reisnar mannsins. Öll verk Carters hafa síðan skipulega verið eyðilögð.

Svo lokaðir eru Bandaríkjamenn fyrir hinum sagnfræðilegu hættum hagkvæmnisstefnunnar, að jafnvel fréttaskýrendur þar vestra, sem eiga að vita betur, telja enn Carter hafa verið ómögulegan forseta og Kissinger hafa verið mjög snjallan skákmann í alþjóðamálum.

Rústir stefnu Kissingers og núverandi utanríkisstefnu Bandaríkjastjórnar eru sýnilegar víða um álfur. Í Mósambík í Afríku hafa Bandaríkin til dæmis árangurslaust stutt fjöldamorðingja Renamos, sem eru sennilega mestu varmenni álfunnar og er þá mikið sagt.

Bandarískt framferði í Nicaragua og annars staðar varðar allar vestrænar þjóðir, því að hagkvæmni líðandi stundar hefnir sín á Vesturlöndum framtíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsmunir og hugsjónir

Greinar

Þegar umboðsmenn stjórnarflokkanna réðu Sverri Hermannsson sem Landsbankastjóra, voru þeir að staðfesta þann megintilgang íslenzkra stjórnmálaflokka að gæta hagsmuna. Í þessu tilviki var verið að varðveita pólitískan forgang að takmörkuðu lánsfé bankanna.

Hér í blaðinu hefur mjög oft verið bent á einstaka þætti þessa hefðbundna verkefnis stjórnmálaflokka hér á landi, til dæmis á landbúnaðinn, sem fær að herfangi sex milljarða árlega af peningum skattborgaranna. En ekkert lát hefur verið sjáanlegt á hagsmunagæzlunni.

Hin síðari ár hefur stundum verið reynt að fara með löndum við þessa iðju, til dæmis með því að velja tiltölulega hæfa fagmenn sem flokksbankastjóra. Ráðning Sverris er hins vegar óvenju ósvífin yfirlýsing um, að hæfni verður áfram algert aukaatriði í hagsmunagæzlu.

Aðgangur að fjármagni getur orðið sérstaklega mikilvægur á næstu árum, ef ríkisstjórnin fer að óskum Steingríms Hermannssonar, heykist á raunvöxtum og lætur sparendur aftur fara að niðurgreiða vexti í þágu gæludýra, sem komast gegnum pólitíska nálaraugað.

Í sundrungu stjórnarflokkanna síðustu vikur á þingi hefur greinilega komið fram, að ágreiningsefnin varða oftast staðbundna hagsmuni. Einstakir stjórnarþingmenn hafa gert uppsteyt og jafnvel svikið lit í atkvæðagreiðslum til þess að sýna dugnað við hagsmunagæzlu.

Þetta hefur meðal annars komið fram í umræðu um fiskkvóta og lánsfjárlög á síðustu vikum. Vald ríkisins til að deila og drottna er orðið svo flókið og víðfeðmt, að margir telja sér arðbærast að spila í kerfinu. Þingmenn koma svo fram sem umboðsmenn spilafólksins.

Hinir andstæðu hagsmunir leiða oft til pattstöðu, sem gjarnan er leyst með setningunni “ráðherra er heimilt” í lögunum, er Alþingi setur. Fiskveiðikvótalögin nýju eru skýrasta og grófasta dæmið um framleiðslu og afsal á pólitísku og peningalegu valdi í hendur ráðherra.

Alþingi framleiðir vald með því að setja lög um alla skapaða hluti og ákveða þar í smáatriðum, hvernig þeim skuli hagað. Þar með keyrir það þjóðlífið í spennitreyju, sem hagsmunapólitík stjórnar. Síðan afhendir það ráðherrum óhófsvaldið með heimildarákvæðum í lögum.

Athyglisvert er, hversu lítið fjölmiðlar gera að því að segja fólki frá þessum raunverulega gangi mála í stjórnmálunum. Einkum er eftirtektarvert, hversu höfðingjahollar eru fréttastofur sjónvarpsstöðvanna, sem halda stíft í ráðherrarófuna og beita ráðherraklisjunum.

Til dæmis var sífellt fjallað um svokallað málþóf stjórnarandstöðunnar í afgreiðslulotu Alþingis um jól og nýár. Samt áttu stjórnarþingmenn verulegan þátt í umræðunum. Og þær gátu ekki talizt málþóf, því að málin voru greinilega illa unnin af ráðherra hálfu.

Þótt margt megi út á stjórnmálamenn setja, er ekki hægt að gagnrýna, að þeir leyfi sér að taka tíma til að ræða tillögur um stórfelldar breytingar á högum þjóðarinnar, sem koma í skæðadrífu frá framkvæmdavaldinu. Afar hlutdrægt er að segja slíka umræðu vera málþóf.

Hitt er lakara, að áberandi mikill hluti umræðunnar um jól og áramót endurspeglaði það, sem hér hefur verið sagt um markmið flokkanna, og staðfesti, að flestir stjórnmálamenn á þingi líta ekki á sig sem umboðsmenn hugmynda eða hugsjóna, heldur hagsmuna.

Ráðning nýs Landsbankastjóra má gjarna minna kjósendur á, að enn eru flokkarnir í sífellu að bregðast trúnaði við þjóðina í heild ­ í þágu sérhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Ísrael er að verða skrímsli

Greinar

Fulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum átti fyrir fjórum áratugum mikinn þátt í að fá samtökin til að viðurkenna Ísrael með því að samþykkja skiptingu landsins. Frá þessum þætti segir í endurminningum Abba Ebans, fyrrverandi utanríkisráðherra Ísraels.

Fyrstu þrjá áratugina höfðu Íslendingar mikið dálæti á hinu unga ríki, þar sem menn breyttu eyðimörk í aldingarð og sendu hingað Davíð Ben Gurion og Goldu Meir. Við sáum okkur sjálf í dugnaði og áræði þeirra, sem fóru yfir haf og sand til fyrirheitna landsins.

Þá voru við völd Ísraels evrópskir flóttamenn, sprottnir úr andrúmslofti gamla heimsins og tiltölulega friðsamir í trúmálum. Þeir voru úr meginarmi þjóðfrelsishersins og fylktu sér einkum um Verkamannaflokkinn, sem réð mestu í landinu þessa þrjá áratugi.

Síðasta áratuginn hafa þessi viðhorf verið á hægu undanhaldi í Ísrael. Til valda komst bandalag gamalla hryðjuverkamanna á borð við Menachem Begin og trúarofstækismanna, sem eru til vandræða í Ísrael eins og víða annars staðar, svo sem í Íran og Írlandi.

Arftakar Begins eru þeir Yitzhak Shamir og hinn ógeðfelldi Ariel Sharon, sem stjórna landinu í samstarfi við mjög svo veiktan Verkamannaflokk undir forustu Símonar Peresar. Stjórnarstefnan hefur orðið illskeyttari í garð hernuminna araba og arabískra nágranna.

Hryðjuverk stjórnar Ísraels á Gaza-svæðinu og á öðrum hernumdum svæðum síðasta mánuðinn eru eðlilegt og hörmulegt framhald á siðferðislegu hruni Ísraelsríkis hins nýja.

Frumherjaríkið er óðum að breytast í skrímsli, sem fjarlægist vestræna hugmyndafræði. Unglingarnir, sem Ísraelsstjórn lætur myrða þessa dagana, eru ekki skæruliðar Arafats, heldur sjálfgerður þáttur í uppreisn kúgaðrar þjóðar. Shamir og Sharon þekkja ekkert andsvar annað en meira ofbeldi af hálfu ríkishersins, meiri kúgun og aukna forherðingu.

Ísrael er smám saman að einangrast á svipaðan hátt og Suður-Afríka, enda dregur stjórnarfarið vaxandi dám af aðskilnaðarstefnunni. Við höfum lengi séð einkennin í þvingaðri búsetu ódýrs vinnuafls á þröngum svæðum. Gaza minnir okkur á illræmt Soweto í Suður-Afríku.

Nú sjáum við einkennin í fruntaskap herlögreglu, í stuðningi Ísraela við ríkishryðjuverkin og í ritskoðun efnis til erlendra fjölmiðla. Ísraelsríki og Ísraelar virðast vera reiðubúnir til að vaða áfram í einstrengingslegri blindni, án tillits til álitshnekkis í umheiminum.

Ísrael hefði ekki farið að breytast í skrímsli, ef það hefði ekki getað treyst á því sem næst skilyrðislausan stuðning Bandaríkjanna. Ísrael er að verulegu leyti fjármagnað af bandarískum peningum og allt til hins síðasta varið bandarískri utanríkisstefnu á alþjóðavettvangi.

Með ólíkindum er, hvílík heljartök vinir Ísraels hafa á bandarískum stjórnmálum. Þrýstistofnun þeirra, sem nefnist Aipac, hefur lengi verið fyrirmynd þeirra, sem eru að læra, hvernig á að beita þrýstingi gagnvart þingmönnum, ráðherrum og öðrum stjórnmálamönnum.

Nú fer hinn bandaríski stuðningur ört minnkandi. Á sama tíma sér margt æskufólk í Ísrael siðblindu ríkisstefnunnar, neitar að gegna herþjónustu og flýr úr landi. Eftir sitja að völdum hálftrylltir rabbíar og ofbeldishyggjumenn, sem minna óþægilega á nasista.

Því miður virðist Ísrael óumflýjanlega stefna í átt til hinnar stjórnmálalegu eyðimerkur Suður-Afríku. Það er sár hugsun þeim, sem virtu Ísrael fyrir áratug.

Jónas Kristjánsson

DV

Merk og dýr sjálfsblekking

Greinar

Raunverulegt aðalhlutverk ríkisvalds á Íslandi er að færa fé úr sjávarútvegi til landbúnaðar. Þetta felur í sér mesta peningaflutning í landinu. Hann nemur í ár nokkrum Keflavíkurflugstöðvum, því að landbúnaðurinn brennir sex milljörðum af ríkisfjárlögum ársins.

Fjárheimtan er tiltölulega einföld. Ríkið hefur tekið sér vald til að skrá gengi krónunnar með handafli og hagar skráningunni á þann hátt, að sjávarútvegurinn sé rekinn á því sem næst núlli, samkvæmt umfangsmiklum reikningum í opinberum hagfræðistofnunum.

Þetta er samkvæmt hinni rómversku fyrirmynd í skattheimtu að rýja þegnana, en flá þá ekki. Þjóðarauðurinn er að mestu upprunninn í hinni einu, sönnu stóriðju landsins, fiskveiðunum, en er síðan dreift um þjóðfélagið til að halda uppi velmegun og landbúnaði.

Til réttlætingar kerfinu hefur byggzt upp viðamikið kerfi hugsjóna, er hefur byggðastefnu að þungamiðju. Talið er þjóðlegt og mannlegt að haga málum á þennan hátt og jafnframt er fordæmd sú auðhyggja, sem talin er felast í gagnrýni á hið aldagamla millifærslukerfi.

Svipað ástand var fyrir tveimur og þremur öldum, þegar íslenzkir embættismenn úr stétt landeigenda héldu uppi einokunarverzlun konungs til að hindra myndun lausalýðs á mölinni og draga úr atvinnufreistingum, sem kynnu að magna kjarakröfur vinnumanna.

Millifærslan hefur lifað góðu lífi öldum saman og fram á þennan dag, af því að hugsjón byggðastefnunnar hefur náð almennri viðurkenningu. Þurrabúðarmenn nútímans, íbúarnir við sjávarsíðuna, taka að vísu óljóst eftir millifærslunni, en skilja ekki eðli hennar.

Fólkið í útgerðarplássunum er að vísu stundum að velta fyrir sér, hversu mikið af þjóðartekjunum myndist þar og hversu litlu af þeim sé varið þar. En það dregur ekki af þessu þá ályktun, að millifærsluna eigi að stöðva, heldur vill það fá hluta herfangsins til baka.

Hugsjóna- og hagsmunamenn byggðastefnunnar halda stíft fram þeim áhugamálum, sem þeir segjast eiga sameiginleg með þurrabúðarfólki. Þau felast einkum í að fá til sín sem mest af opinberri þjónustu, er greiðist af sameiginlegum sjóði þjóðarinnar, ríkissjóði.

Þannig er pólitísk orka fólks í sjávarplássum virkjuð í baráttu fyrir ríkispeningum í vegi, flugvöll, síma, rafmagn, skóla, sundlaug og vegagöt í fjöll. Baráttan er háð undir merkjum byggðastefnu, sem útvegar smáaura í þetta, en dreifir alvöruupphæðum til landbúnaðar.

Sjávarsíðan fær til baka með þessum hætti aðeins hluta af verðmætasköpun sinni. Fyrst eru nefnilega teknir til landbúnaðar og brenndir þar til ösku sex milljarðar króna árlega af aflafé stefnunnar. Tiltölulega lítið verður því afgangs til annarra verkefna byggðastefnu.

Vanmáttur þurrabúðarfólks fellur í farveg andstöðu við Reykjavíkursvæðið, þaðan sem ríkisvaldinu er stýrt. Íbúar fiskibæja heimta meira í sinn hlut, í mynd aukinnar byggðastefnu. Þeir átta sig ekki á, að hagsmunir Reykjavíkur og sjávarsíðunnar eru hliðstæðir.

Miklu hagkvæmara væri fyrir íbúa fiskveiðibæja að fá því framgengt, að gengi krónunnar verði ekki skráð með handafli, heldur eftir framboði og eftirspurn á svipaðan hátt og í alvöruríkjum. Þá yrði miklu meira af arðinum eftir heima fyrir í bæjum gjaldeyrisöflunar.

Stuðningur sjávarsíðunnar við ríkjandi byggðastefnu og við aukna fjáröflun til hennar er merkasta og dýrasta dæmið, sem til er um sjálfsblekkingu hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Atkvæði greidd í verki

Greinar

Fólk greiðir atkvæði með ýmsum öðrum hætti en í kosningum einum. Það gerir það með því að haga sér á þennan veg frekar en hinn, þegar það á um kosti að velja. Niðurstöður þessara atkvæðagreiðslna fólks úti í bæ eru oft þveröfugar við það, sem stjórnvöld mæla með.

Ríkisstjórnin hefur undanfarna mánuði tjáð fólki, að gengi íslenzku krónunnar yrði áfram haldið föstu, enda væri lítið gagn í gengislækkun, sem mundi leiða til aukinnar verðbólgu. Ef fólk hefði tekið mark á þessu, hefði það ekki flýtt sér að kaupa innfluttar vörur.

Þeim mun meiri ástæða var fyrir fólk að fara sér að engu óðslega í kaupum á gjafavörum og tízkuvörum í desember, að ríkisstjórnin hafði boðað tollalækkun þessara leikfanga peningafólks á kostnað nauðsynja lágtekjufólks, sem lifir á fiski, grænmeti og ávöxtum.

Ennfremur hafa ráðherrar á undanförnum vikum og í áramótaprédikunum tekið undir gagnrýni á háa raunvexti, sem séu að sliga atvinnulífið, húsbyggjendur og þjóðfélagið í heild. Ef fólk hefði trúað þessu, væri það nú að kaupa spariskírteini, meðan vextir eru enn háir.

Í rauninni flæddu peningar um þjóðfélagið í síðasta mánuði. Kaupæðið fyrir jólin var gífurlegt. Greinilegt var, að margt fólk hafði mikið eyðslufé handa milli. Ennfremur var augljóst, að það lagði ekki peningana fyrir, heldur vildi koma þeim í lóg sem allra fyrst.

Ef þetta fólk hefði trúað, að tímabili hárra raunvaxta væri um það bil að ljúka, hefði meira af því keypt sér og sínum ríkisskuldabréf eða aðra pappíra hinna háu vaxta, til dæmis sem jólagjafir. Þannig hefði það varðveitt hinar háu vaxtatekjur mörg ár fram í tímann.

Þetta hefði auðvitað hlaðið upp peningum í stofnunum, sem taka við fé til útlána. Hið þveröfuga gerðist í desember, að lausafjárstaða banka versnaði svo snögglega, að aukning innlána varð í heild minni á síðasta ári en árið áður, þrátt fyrir töluvert góða byrjun.

Tiltölulega mild verðbólga var um nokkurra mánaða skeið árið 1986 og fram á 1987. Þetta olli háum raunvöxtum, sem hefðu gert sitt gagn og lokið ætlunarverki sínu, ef verðbólgan hefði haldizt í skefjum. Um síðir hefði þjóðin farið að spara og ríkið hætt að sóa.

Aldrei reyndi á, hvort raunvextirnir næðu þessum árangri og gætu síðan lækkað aftur. Verðbólgan var vaxandi í fyrra og hungur ríkisins í lánsfé var áfram óseðjandi. Hins vegar eru ráðherrarnir, sem eyðilögðu tilraunina, farnir að kvarta um, að vextir séu of háir.

Ef raunvextir yrðu nú lækkaðir með handafli, yrði enn minna fé lagt til hliðar og skömmtun lánsfjár yrði enn strangari en nú. Það mundi bæta hag þeirra, sem hafa pólitískan forgang að lánsfé, en spilla stöðu allra hinna, sem ekki teljast til gæludýra kerfisins.

Ríkisstjórnin hefur ekki aðeins klúðrað jafnvægi lánamarkaðarins, heldur hefur hún valdið þjóðinni ómælanlegu tjóni með fastgengisstefnu, sem hefur gert innfluttar vörur óeðlilega ódýrar og kallað á óhóflegan innflutning, svo sem við sáum bezt í jólaösinni.

Þjóðin trúir ekki ríkisstjórn, sem nú segist ætla að halda genginu föstu og jafnvel lækka raunvexti. Í desember notaði fólk ekki sparifé sitt til að ná til langframa í háa raunvexti, heldur til að kaupa útlendar vörur á hagstæðu gengi, meðan það taldi vera enn vera tækifæri.

Með þessu er fólk að greiða atkvæði gegn veiklundaðri ríkisstjórn, sem er farin að kenna ógerðum kjarasamningum um hagtjón, er stjórnin hefur þegar unnið.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýi kvótinn er úreltur

Greinar

Deilur alþingismanna um aukið kvótakerfi í fiskveiðum eru eðlileg afleiðing stjórnarhátta, sem hafa gengið sér til húðar. Kerfið var gallað frá fyrstu, en tilraunir til að skera annmarkana hafa leitt til nýrra lýta, sem hafa orðið sífellt tilefni endurskoðunar og átaka.

Niðurstaða nýjustu kvótalaganna, sem alþingismenn hafa hnakkrifizt um síðustu daga, er magnaðri miðstýring fiskveiða og meira geðþóttavald sjávarútvegsráðherra en nokkru sinni fyrr. Að lögunum settum hefjast svo ný átök til undirbúnings næstu lotu í lagasmíði.

Heimildir ráðherra til að ráðskast að geðþótta með hagsmuni í sjávarútvegi eru að gera hann að einvaldsherra greinarinnar. Það einvald kann að vera sæmilega menntað um þessar mundir, en gæti hæglega afmyndazt í höndum næsta ráðherra eða hins þarnæsta.

Sagnfræðin segir okkur, að svokallað menntað einræði þykir oft fínt í fyrstu, en leiðir alltaf fljótlega til hrakfalla. Hagfræðin segir okkur, að miðstýring á óskipulegum raunveruleika þykir oft nauðsynleg í hita leiksins, en leiðir jafnan innan skamms til ófarnaðar.

Meira að segja hafa yfirvöld í Sovétríkjunum siglt í kjölfar yfirvalda í Kína og gefizt upp á frekari miðstýringu af því tagi, sem felst í kvótalögunum. Í þessum höfuðríkjum kvótastefnu á öllum sviðum efnahagslífs er þegar farið að víkja frá henni í veigamiklum efnum.

Kvótalögin í sjávarútvegi minna á Framsóknarflokkinn eins og kvótareglurnar í landbúnaði gera, enda hefur flokkurinn um margra ára skeið lagt til ráðherra beggja sviða. Hann er þó ekki eini sökudólgur málsins, því að allir flokkar hafa tekið þátt í smíði kerfisins.

Árum saman hefur hér í blaðinu verið sagt, að bezt væri að taka upp sölu veiðileyfa í hinni takmörkuðu auðlind, sem fiskstofnarnir eru. Þessari skoðun hefur aukizt fylgi á síðustu mánuðum. Nokkrir lærdómsmenn hafa ritað dagblaðagreinar til stuðnings sölu veiðileyfa.

Með veiðileyfum bindur ríkið heildarmagn aflans og verndar þar með fiskstofnana. Um leið leyfir það veiðunum að leita hins eðlilega og hagkvæma farvegs, er leiðir til sem mests árangurs með sem minnstri fyrirhöfn, án þess að skömmtunarstjórar séu á hverju strái.

Þetta er ekki auðveldur biti í hálsi stjórnmálamanna. Deilur þeirra snúast nefnilega að nokkru leyti um, hverjir þeirra eigi að skipa hlutverk skömmtunarstjóra, hvort það eigi að vera ráðherrann með embættismönnum sínum eða þingmenn ýmissa kjördæmishagsmuna.

Þótt veiðileyfi séu boðin upp og seld þeim, sem bezt býður, geta stjórnmálamenn áfram gælt við ýmsa sérhagsmuni og greitt þá niður, til dæmis af stórfé því, sem aflast með sölu veiðileyfa. Þannig geta þeir áfram stuðlað að byggð á þessum stað frekar en hinum, ef þeir vilja.

Uppboð veiðileyfa leiðir til sérhæfingar. Sumir munu sérhæfa sig í að eiga góð skip til að leigja öðrum. Afla skipstjórar munu gera bandalög við góðar áhafnir um að taka skip á leigu. Það geta líka vinnslustöðvar gert, til dæmis í félagi við starfsfólk eða sveitarstjórnir.

Sala veiðileyfa er leið markaðslögmála að því markmiði, að beztu skipunum stýri mestu aflakóngarnir með beztu áhafnirnar og landi hjá þeim vinnslustöðvum, sem hagkvæmastar eru í rekstri og bezt borga. Þannig græðir þjóðfélagið á góðu hlutfalli árangurs og fyrirhafnar.

Greindarskortur, hagsmunastríð og íhaldssemi valda því, að þingmenn eru ekki að setja lög um sölu veiðileyfa, heldur um kvóta, einveldi, skömmtun og fátækt.

Jónas Kristjánsson

DV

Aldagamalt afturhald

Greinar

Hin illræmda einokunarverzlun Danakonungs á Íslandi á sautjándu og átjándu öld bar greinileg einkenni landbúnaðarstefnunnar, sem er hornsteinn ríkisvalds og stjórnmála Íslendinga á ofanverði tuttugustu öld. Sagan endurtekur sig öldum saman í lítt breyttri mynd.

Doktorsritgerð Gísla Gunnarssonar sagnfræðings um einokunarverzlunina kom út á íslenzku fyrir jólin. Þar kemur meðal annars fram, að íslenzki landaðallinn studdi einokunarverzlunina og barðist gegn afnámi hennar, þegar brezk fríverzlunarstefna breiddist út.

Markmið íslenzka embættis- og landeignaaðalsins komu vel fram í ummælum Ólafs Stephensens stiftamtmanns, er hann sagði áríðandi, að “landjarðir verði eigi yfirgefnar vegna of mikilla tillokkana fólks að sjó”. Þetta er sama stefna og ríkir hér á landi tveimur öldum síðar.

Landeignamenn fyrri tíma vildu halda sjávarútvegi í skefjum til að aftra atvinnufreistingum á mölinni og hindra tilsvarandi kjarakröfur dugmikilla vinnumanna. Þeir töldu líka, að sjávarsíðan yki lausagang á lýðnum og græfi undan hefðbundinni skipan þjóðfélagsins.

Nokkrum öldum síðar vinna allir stjórnmálaflokkarnir enn að þessu sama markmiði. Verulegum hluta af peningum sameiginlegra sjóða okkar er varið til að hamla gegn flutningi fólks á mölina, þar sem tækifærin eru. Byggðastefnan er sögð vera þjóðleg verndarstefna.

Landeigendur fyrri alda komu því svo fyrir í einokunarkerfi konungs, að verði á sjávarvörum var haldið lágu til að halda uppi háu verði á ullarvörum. Þannig var sjávarútvegur látinn fjármagna landbúnað á einokunartímanum eins og hann er látinn gera enn þann dag í dag.

Goðar þjóðveldisins áskildu sér rétt til að stjórna vöruverði, meðal annars til að gæta hefðbundins jafnvægis milli atvinnuvega. Hliðstætt eftirlit stunduðu síðar sýslumenn og aðrir embættismenn í nafni konungs. Kvótakerfi og verðlagsráð eiga sér fornar rætur.

Allir stjórnmálaflokkar landsins eru í höfuðdráttum sammála um, að varið skuli til landbúnaðar sex milljörðum króna af sameiginlegu fé á þessu ári. Peningarnir spretta í sjávarútvegi, en eru hirtir þaðan með atvinnupólitískri skráningu á gengi krónunnar.

Einokunarverzlun sautjándu aldar var aðferð valdastéttar þess tíma til að láta sjávarútveginn fjármagna landbúnaðinn. Stjórnmál nútímans snúast um hið sama. Fjárlög eru smíðuð utan um millifærsluna, genginu er haldið uppi með valdi og útgerðin drepin í kvótadróma.

Munurinn er þó sá, að hinn landlausi lýður, sem landeigendur kúguðu með einokunarverzlun fyrir nokkrum öldum, var valdalaus með öllu. Nú er hins vegar fólkið á mölinni komið með kosningarétt og er orðið í meirihluta kjósenda og gæti borið hönd fyrir höfuð sér.

Fólkið í sjávarplássunum hefur hins vegar látið telja sér trú um, að hagsmunir þess lúti byggðastefnu landeigenda, sem gefur vegagöt í fjöll og aðrar ruður af borði landbúnaðarins. Það hefur látið telja sér trú um, að malarfólkið á Reykjavíkursvæðinu sé óvinurinn.

Þurrabúðarfólk nútímans kýs sex stjórnmálaflokka, sem hafa það eitt sameiginlegt að gæta sömu hagsmuna og yfirvöld landsins hafa gætt öldum saman, sjá til þess, að hefðbundnu þjóðfélagsmynztri sé sem minnst breytt og brenna öllu tiltæku fé í þjóðlegri byggðastefnu.

Sagnfræðilega er vel við hæfi, að ættarlaukur kaupfélaga fái nú sem sjávarútvegsráðherra auknar heimildir til að kvóta sjávarútveginn í þágu fortíðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kvarta og kveina

Greinar

Myndarlegur hópur menningarvita hefur skrifað undir ályktun gegn niðurskurði ríkispeninga til tónlistarskóla um nokkra tugi milljóna. Ekki er vitað, að neinn listvinurinn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Austfirðingum og Vestfirðingum finnst ganga seint að fá ríkið til að hefja undirbúning að örfárra milljarða króna vegagöngum milli fjarða. Ekki er vitað, að neinn heimamaðurinn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Íþróttaforkólfar hafa kvartað sáran yfir nokkurra milljóna almennum niðurskurði ríkisfjár til byggingar íþróttahúsa og styrktar íþróttum. Ekki er vitað, að neinn íþróttafrömuðurinn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Reykvískur borgarstjóri og þingmenn Reykjavíkur kveina um, að borgin sé afskipt við úthlutun peninga til skóla og heilsustofnana. Ekki er vitað, að neinn þessara mektarmanna hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Menntaráðherra og menntafólk standa í ströngu við að fá nokkrar milljónir til að ljúka bókhlöðu-þjóðargjöfinni. Ekki er vitað, að neinn þessara andans manna hafi lyft litla fingri til að benda á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Námsmenn og húsnæðisskertir þreytast ekki á að fræða stjórnvöld mörgum sinnum árlega um, að þeir fái ekki nógu mikil og niðurgreidd lán. Ekki eru margir í þessum hópum, sem benda á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Náttúruverndarráð og landverndarsamtök harma sáran nokkurra milljóna niðurskurð á gustukafé ríkisins til uppgræðslu sauðbitins Íslands. Ekki er vitað, að neinn náttúrudýrkandi hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Bílaeigendur kvarta um, að ekki var tekið tilboði verktaka um að lána slitlag á hringveginn, sem alls er talið munu kosta einn eða tvo milljarða. Ekki er vitað, að margir ökumenn hafi bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Skattgreiðendur byrja senn að gráta aukna skattbyrði eftir áramót, þegar staðgreiðslukerfið verður notað til að seðja glorsoltna ríkishít. Ekki hafa enn margir skattkvaldir menn bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Samtök kennara hafa lengi staðið í ströngu við að sýna ríkisvaldinu fram á, að þeir séu vanhaldnir í launum og tolli ekki í starfi. Ekki verður munað eftir neinum læriföður, sem bent hefur á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Sveitarstjórnarmenn af öllu landinu hafa gengið bónleiðir frá búð fjárveitinganefndar Alþingis, án langþráðs flugvallar, hafnar, sjúkrahúss og skóla. Ekki hefur heldur neinn byggðastjóri bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Fjárveitinganefndarmenn kvarta um að þurfa að verja hundruðum stunda til að taka við bænarskrám upp á samtals tvo milljarða og geta ekkert fé fundið. Enginn þeirra hefur bent á ríkissparnað á móti, til dæmis af sex milljörðunum, sem hverfa í landbúnaði.

Þjóð, sem hefur ráð á að brenna á hverju ári sex milljörðum í landbúnaði, á ekki að vera að kvarta og kveina, þótt hún fái ekki öðrum hugsjónum framgengt.

Jónas Kristjánsson

DV

Sauðir óskast

Greinar

Oft höfum við heyrt að undanförnu, að gengi krónunnar sé fallið í raun, en ekki megi viðurkenna það formlega vegna fyrirhugaðra kjarasamninga. Til að koma í veg fyrir, að gengislækkun magni frekju í kjarasamningum verði að fresta henni fram yfir þá.

Þessi sérkennilega umræða vekur spurningu um, hverjir séu sauðirnir, sem blekkja eigi með frestun gengislækkunar. Er kannski talið, að stjórnendur launþegasamtaka og allir þeirra menn verði meðfærilegri að gengislækkun yfirvofandi en að henni framkvæmdri

Nýlega tók þingmaður frá Alþýðuflokknum þátt í baráttu fréttaleikhúss Stöðvar tvö gegn háum vöxtum. Að þjóðlegum sið grét hann örlög skuldara, en hirti ekki um að ræða og reyna að hrekja rökin gegn lækkun vaxta. Hann virtist afar ánægður með frammistöðu sína.

Fleirum en Stöð tvö kæmi vel niðurgreiðsla á vöxt um. Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur töluverðan forgang að lánsfé og mundi hagnast á niðurgreiðslu vaxta. Fréttaleikhúsið hefur hampað forstjóra fyrirtækisins kvöld eftir kvöld sem stuðningsmanni í málinu.

Forstjóri Sambandsins lætur eðlilega stjórnast af hagsmunum eigin fyrirtækis, þegar hann vill niðurgreiða vexti og einnig þegar hann vill lækka gengið. Það er svo óskylt mál, að hann hefur rangt fyrir sér í fyrra tilvikinu og rétt fyrir sér í hinu síðara.

Rétt og rangt eru aukaatriði í hagsmunagæzlunni, sem einkennir íslenzka þjóðmálaumræðu. Gæzlumenn hagsmuna líta ekkert á mótrök og virðast telja, að hugsanlegum áheyrendum sé nokkuð sama. Þeir séu sauðir til að blekkja. Og svo geta gæzlumenn líka verið sauðir.

Uppfræðari ungmenna á Akureyri hefur um skeið verið talinn líklegt þingmannsefni. Hann skrifaði nýlega grein, þar sem hann kvartaði um, að DV hefði í leiðara tekið afstöðu gegn borun vegagata í fjöll. Hann forðaðist að rökstyðja götin, nema sem lið í byggðastefnu.

Athyglisvert er, að þingmannsefnið taldi andstöðu DV við götin stinga í stúf við stuðning DV við annað byggðamál, frjálst gengi krónunnar. Hann virtist ekki telja, að mál gætu haft eigin kosti og galla, burtséð frá því, hvort þau stuðluðu að byggðajafnvægi eða ekki.

Gæzlumenn hagsmuna byggðastefnu vilja ekki ræða þá frá öðrum sjónarhóli, til dæmis þjóðhagslegum. Þeir vilja ekki, að fólk átti sig á, að þjóðarhagur geti í sumum tilvikum, og ekki öðrum, farið saman við byggðastefnu. Þeir virðast raunar ekki skilja það sjálfir.

Merkasta dæmið um þetta er hinn hefðbundni landbúnaður. Ótal rök hafa verið færð að því, að hætta beri opinberum afskiptum, er felast í innflutningsbanni, uppbótum, niðurgreiðslum og styrkjum. Fæstum rakanna hefur nokkru sinni verið mætt með gagnrökum.

Nýtt dæmi um sérkenni umræðunnar um þjóðmál er, að fjármálaráðherra sagði skattahækkanir sínar ekki vera hækkanir, því að þær rynnu til sameiginlegra þarfa okkar. Hann virðist telja þá, sem fylgjast með umræðunni, vera algera sauði. Og kannski eru þeir það.

Hér hefur verið sagt frá ýmsum lauslega tengdum atriðum, sem benda til, að flóknar og erfiðar röksemdir fari hér á landi nú sem fyrr mjög halloka fyrir hreinum og tærum hagsmunum, annaðhvort af því að menn skilja ekki betur eða vilja ekki skilja betur.

Blekkingin sigrar oftast þekkinguna. En ekki er auðvelt að sjá, hverjir séu fremur blekktir, sauðirnir, sem blekkja á, eða sauðirnir, sem eru að reyna að blekkja.

Jónas Kristjánsson

DV

Frækilegt Íslandsmet

Greinar

Kræfasti skylmingamaður ríkisstjórnarinnar er fjármálaráðherrann, sem segir fullum fetum, að svart sé hvítt og hvítt sé svart og að önnur sjónarmið séu bara rugl eða skepnuskapur úr DV. Í ráðuneytinu endurtekur sölustjóri ráðherrans þetta með minni tilþrifum.

Rök ráðherrans og upplýsingafulltrúans eru þau, að skattahækkanirnar staldri ekki við í ríkissjóði, heldur renni jafnóðum til brýnustu nauðsynja borgaranna, hvort sem þær felast í feitu kjöti eða smjöri. Samkvæmt þessu tekur ríkið raunar alls enga skatta af fólki!

Óneitanlega eru þetta skemmtilegri fullyrðingar en nöldur málsvara Sjálfstæðisflokksins um, að gagnrýnendur geti ekki í senn heimtað hallalaus fjárlög og engar skattahækkanir. Þessi rök fótgönguliðsins eru orðin ósköp slitin og hæfa vel öldnum stjórnmálaflokki.

Fjárlög og ríkisrekstur má hafa án halla með því að hækka skatta og einnig með því að lækka útgjöld. Menn geta því hafnað halla og skattahækkunum í senn, ef þeir þora að benda á, hvaða útgjöld megi skera niður. Og svo vel vill til, að af nógu slíku er að taka.

Landbúnaðurinn á að fá til sín tæpa sex milljarða króna á næsta ári. Það er meira en tvöföldun milli ára. Þessi þurftarfreki ómagi á að gleypa tæplega tíunda hlut útgjalda ríkisins á næsta ári. Ríkisbúskapurinn snýst raunar um þennan þjóðlega félagsmálapakka.

Fólk grætur hástöfum út af smápeningum, sem hafa runnið til ævintýra á borð við Kröflu og Leifsstöð og jafnvel smáaurum, sem hafa runnið til minni háttar ævintýra á borð við Þörungaverksmiðju og Sjóefnavinnslu. Margir gráta þetta meira en landbúnaðinn.

Fáir þingmenn tárast, þegar þeir samþykkja að verja til landbúnaðar fjárhæð, sem mundi nægja til að malbika allan hringveginn um landið rúmlega tvisvar sinnum á hverju einasta ári. Það er heilög byggðastefna að taka landbúnaðinn fram yfir allt, líka hringveginn.

Segja má, að mikilvægasti tilgangur ríkisvaldsins sé nú á dögum hinn sami og hann var á einokunartímanum: að halda þjóðinni í gíslingu hins hefðbundna landbúnaðar og láta peninga, sem fæðast í sjávarútvegi, renna um kerfið til að deyja að lokum í landbúnaði.

Núverandi ríkisstjórn er trúrri fangavörður en flestar fyrri stjórnir. Hún hefur verið ötulli en aðrar við að afla fjár handa eigendum landsins. Vikulega hefur hún hækkað álögur um 420 milljónir króna að meðaltali eða samtals um tíu milljarða króna á 22 vikum ævi sinnar.

Ríkisstjórnin, sem var á undan þessari, hafði skattlagt þjóðina tiltölulega hóflega. Á valdaskeiði hennar dansaði skattbyrðin í kringum 22% af vergri framleiðslu landsins. Nýja ríkisstjórnin er hins vegar svo skattaglöð, að skattbyrðin fer í 25% á næsta ári.

Í tilefni Íslandsmets í skattlagningu er hressilegast og hugmyndaríkast að segja eins og fjármálaráðherrann, að skattar hafi alls ekki hækkað. Málsvararnir, sem játa hækkunina og verja hana með hugsjón jafnvægis í ríkisrekstri, eru hversdagslegri og leiðigjarnari.

Með því að stara á A-hluta fjárlagafrumvarpsins sjá málsvarar ríkisstjórnarinnar hallaleysið, sem þeir tala um. En ráðgerður heildarhalli á búskap hins opinbera á næsta ári verður rúmlega 14 milljarðar, svo sem sést af, að sú verður lánsfjárþörf hins opinbera árið 1988.

Landsfeður okkar sameina stórfelldan hallarekstur og Íslandsmet í skattheimtu ­ í blindri trú á þá hugsjón, að fé þjóðarinnar skuli brenna til ösku í landbúnaði.

Jónas Kristjánsson

DV

Lítill árangur toppfundar

Greinar

Þegar Gorbatsjovs-æði fréttaleikhúsanna í sjónvarpi er að mestu runnið af fólki, er tímabært að vekja athygli á, að takmarkaður árangur náðist á toppfundinum í Washington. Ekki rættust þar vonir um víðtækara samkomulag en það, sem fyrirfram átti að skrifa undir.

Samkomulagið á fundinum um afnám skamm- og meðaldrægra kjarnorkuflauga er til dæmis eitt sér ekki eins mikilvægt og samningur, sem undirritaður var í september um stofnun gagnkvæmra öryggis- og aðvörunarstofnana í höfuðborgum heimsveldanna tveggja.

Fækkun kjarnorkuflauga veitir takmarkað öryggi, ef samt er eftir of mikið af kjarnorkuflaugum og -oddum. Venjulegt fólk hefur ekki mikil not af að vera aðeins drepið áttfalt, en ekki tífalt, svo að notuð séu ógnvekjandi hugtök úr heimi herfræðinnar á kjarnorkuöld.

Athyglisvert er, að fulltrúar heimsveldanna á toppfundinum virðast hafa samið um, að í viðræðum um fækkun langdrægra kjarnorkuflauga, sem haldnar eru í Genf, verði ekki gengið lengra en svo, að hvor aðili um sig haldi eftir tæplega 5.000 kjarnaoddum.

Þess vegna er ekki í augsýn núlifandi kynslóða nein ný von um öryggi gegn skipulögðu kjarnorkustríði. Draumsýnir Reagans og Gorbatsjovs á toppfundinum í Reykjavík um afnám langdrægra kjarnorkuflauga hafa verið skotnar niður af ráðgjöfum málsaðila.

Samningurinn um afnám skamm- og meðaldrægra eldflauga er samt mikilvægur. Hann leiðir til aukins svigrúms í slysavörnum. Í fyrsta sinn í vígbúnaðarkapphlaupinu lengist tíminn, sem menn hafa til að meta upplýsingar á tölvuskjám um, að árás sé í aðsigi.

Eldflaugarnar, sem leggja á niður, eru svo skjótar í förum, að varnarmenn hafa aðeins fáar mínútur til að meta, hvort hætta sé á ferðum eða aðeins truflanir í viðbúnaðarkerfi. Samningur um afnám skjótustu flauganna dregur því úr líkum á atómstríði af misskilningi.

Enn mikilvægara atriði samningsins er, að í fyrsta sinn er samið um víðtækt eftirlit með efndum á samkomulagi um takmörkun vígbúnaðar. Komið verður upp föstum eftirlitsmönnum hvors aðila í landi hins og þar að auki gert ráð fyrir ýmiss konar skyndikönnunum.

Þetta bætist við núverandi eftirlit gervihnattaljósmynda og sendingagreininga, sem er svo nákvæmt, að báðir aðilar hafa beinlínis orðið að viðurkenna í samningnum að hafa áður farið rangt með fjölda eigin kjarnorkuflauga og -odda. Svindl verður nánast ókleift.

Þriðji og síðasti merkisþáttur samningsins felst í viðurkenningu á, að samdráttur vígbúnaður megi vera misjafnlega mikill, þegar stefnt er að markmiði jafnvægis í þessum vígbúnaði. Í samræmi við þetta munu Sovétríkin skera meira niður en Bandaríkin gera.

Nákvæmt eftirlit með efndum og jafnvægisleit í misjöfnum niðurskurði eru afskaplega mikilvægt veganesti í viðræðum heimsveldanna á fleiri sviðum viðbúnaðar. Þetta fordæmisgildi er margfalt meira virði en ákvæði samningsins um sjálfa fækkun oddanna.

Svo má ekki gleyma, að toppfundurinn veldur vonbrigðum með, að ekki skuli þar hafa verið stigin merkjanleg skref í átt til afnáms efnavopna; til samdráttar hefðbundinna vopna; og til myndunar breiðs svæðis án vopna og hermanna beggja vegna járntjalds.

Eftir Gorbatsjovs-æðið skulum við loks muna, að fundurinn markaði hvorki skref í átt til friðar í Afganistan né í átt til aukinna mannréttinda í heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Sælt er líf í sjálfstrausti

Greinar

Menn eru óvenjulega ósvífnir eða undarlega mikið úti að aka, þegar þeir verja misgerðir sínar í byggingarnefnd flugstöðvar með því, að þeir hafi reist glæsilegt hús, sem sé eitt arðbærasta mannvirki í landinu. Þeir munu ekkert læra af áminningum Ríkisendurskoðunar.

Ef gert er ráð fyrir, að Leifsstöð sé arðsöm, stafar það engan veginn af umframútgjöldum við byggingu stöðvarinnar. Raunar væri stöðin arðbærari en hún er, ef kostnaðurinn hefði ekki sprungið úr böndum byggingarnefndar, sem hagaði sér af landsfrægu ráðleysi.

Réttara er að segja, að byggingarnefndin vó svo harkalega að arðburðargetu flugstöðvarinnar með hækkun útgjalda, að leigjendur húsnæðisins, er eiga engra annarra kosta völ, verða að greiða okurleigu, sem er margföld á við það, er þekkist á öðrum sviðum.

Gott dæmi um blindu Leifsstöðvarmanna er einmitt, að þeir vörðu okurleiguna með samanburði við flugstöðina í Kastrup, þar sem farþegar eru margfalt fleiri. Vörnin er byggð á algeru skilningsleysi gróinna embættismanna ríkisins á grundvallaratriðum rekstrarfræða.

Okurleiguna verða flugfarþegar síðan að borga í verðhækkun farseðla, sem þegar er komin í ljós í mynd lausnargjalds, er fólk verður að greiða til að komast af landi brott. Þessi nýi skattur er hluti kostnaðar þjóðarinnar af vítaverðum vinnubrögðum byggingarnefndar.

Um glæsibrag stöðvarinnar má deila. Hitt er vitað, að stærri og afkastameiri flugstöð var reist á sama tíma í Harrisburg í Pennsylvaníu fyrir minna en helming af kostnaði Leifsstöðvar. Mikinn höfðingsbrag hefði mátt kaupa fyrir minna almannafé en þann mismun.

Leitt er til að vita, að ábyrgðarstöður hjá ríkinu skuli vera skipaðar mönnum, sem lítið skynbragð bera á peninga og taka ekki gagnrýni, heldur hrósa sér af sukki. Vont er líka, að við skulum þurfa að nota slíka menn í viðskiptum við heimsveldi varnarliðsins.

Kostnaðarsprengingu Leifsstöðvar var haldið leyndri fram yfir kosningarnar í vor. Þá fyrst fékk þjóðin að vita, hvað var á seyði. Töluvert af aukakostnaðinum stafar einmitt af óðagoti við að flýta vígslu flugstöðvarinnar, svo að hún nýttist í kosningabaráttunni.

Byggingarnefndin gætti þess að gefa sem minnstar upplýsingar um fjárreiður sínar, jafnvel eftir að hún var komin í algera fjárþröng. Það var ekki fyrr en viku eftir kosningar, að hún játaði gjaldþrot sitt í bréfi til furðu lostinna manna fjármálaráðuneytisins.

Byggingarnefndin ber sjálf ábyrgð á að hafa látið misnota sig í pólitískum tilgangi. Hitt er svo rétt hjá henni, að hún deilir ábyrgðinni með yfirmönnum utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðherrum byggingartímans, sem áttu að kynna sér, hvað var á seyði.

Leifsstöðvarmálið er utanríkisráðuneytinu álitshnekkir. Uppákoman spáir illu um velferð utanríkisviðskipta eftir flutning þess málaflokks úr viðskiptaráðuneyti yfir í utanríkisráðuneyti, þar sem meira er vitað um hirðsiði og hanastél en viðskipti og veruleika.

Hið jákvæða er, að framvegis má búast við, að embættismenn taki tillit til ábendinga í niðurstöðum Ríkisendurskoðunar, þar sem hvatt er til vandaðri undirbúnings framkvæmda, áætlana og annarra vinnubragða við verkefni, sem skattgreiðendur borga.

Þessi endurhæfing nær þó ekki til embættismannanna í byggingarnefnd Leifsstöðvar. Þeir lifa enn sælir í sjálfstrausti og neita alveg að læra af reynslunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hollt og ódýrt hækkar

Greinar

Ekkert fúsk er í frumvörpum ríkisstjórnarinnar til öflunar aukinna ríkistekna. Sjaldan hefur sézt jafn nakin og beinskeytt atlaga sérhagsmunahópa að hagsmunum almennings. Ríkisstjórnin er að afla sér milljarða frá almenningi til að leggja í hefðbundinn landbúnað.

Eins og jafnan áður er árásin í formi einföldunar og hagræðingar á tekjuöflunarkerfi ríkisins. Að gamalli venju telja ráðamenn sig þurfa að einfalda þetta kerfi og hagræða því, af því að þeir sjá í uppstokkuninni greiða leið til að ná auknum tekjum til gæludýra sinna.

Í fyrsta sinn breiðir ríkisstjórn ekki af alúð yfir staðreyndina. Á blaðamannafundi sagði fjármálaráðherra næstum berum orðum, að ein aðalskýring aðgerðanna væri, að afla þurfi meira en milljarðs til að unnt sé að greiða niður kjöt og mjólkurvörur í auknum mæli.

Stjórnin hyggst hækka verð á fiski, brauði, ávöxtum og grænmeti um hvorki meira né minna en heilan fjórðung. Þessar vörur eru bezta hollustufæðan á boðstólum: viðurkennd vörn við menningarsjúkdómum, sem meðal annars stafa af ofáti á feitu kjöti og mjólkurvörum.

Um leið eru í þessum flokki einmitt vörurnar, sem almenningur hefur efni á að kaupa. Þetta kemur þyngst við fólkið, sem kaupir í matinn ódýran fisk, en ekki kjöt: notar mikið af hollustubrauði og þá með ódýru viðbiti, en ekki því smjöri, sem dýrast er í heiminum.

Auknar niðurgreiðslur á dilkakjöti gagna lítt fólki, sem telur hæfa pyngju sinni að hafa fisk fimm daga í viku. Auknar niðurgreiðslur á smjöri og osti gagna lítt fólki, sem telur fé sínu betur varið í meira brauð og smjörlíki. Þetta eru niðurgreiðslur í þágu vel stæðra.

Allt stafar þetta af, að hinn hefðbundni landbúnaður hefur samið við sjálfan sig, það er að segja við landbúnaðarráðherra, um, að ríkið kaupi í raun næstum alla framleiðsluna. Til að koma offramleiðslunni í lóg telur ríkið sig þurfa að skekkja verðlagið í landinu.

Fróðlegt er, að fjármálaráðherrann, sem býr til umfangsmiklar tilfæringar á tekjuaukningarkerfinu til að þjónusta sérhagsmuni hins hefðbundna landbúnaðar, kemur frá Alþýðuflokki, sem nýlega er búinn að sættast við Framsóknarflokk um, hvað gæludýrið skuli fá.

Ekki er síður athyglisvert, að samkomulag þetta strandaði á yfirboði Sjálfstæðisflokks, sem allur þingflokkur hans stóð að. Flokkurinn heimtaði enn meiri þjónustu við sérhagsmunina. Yfirboðið setti af stað skriðu, sem endaði í skattahækkun síðustu helgar.

Þetta ættu í huga að hafa þeir, sem hneigjast til að kenna Framsóknarflokki um gælurnar við hinn hefðbundna landbúnað og til að sýkna um leið aðra flokka. Hinir stjórnarflokkarnir bera ekki minni ábyrgð á gæludýrinu, svo sem nú hefur rækilega komið í ljós.

Ennfremur ættu kjósendur einnig að minnast þess, að föst venja hefur verið, að flokkarnir, sem nú skipa stjórnarandstöðu, yfirbjóði Framsóknarflokk í dálæti á sérhagsmunum hins hefðbundna landbúnaðar. Í raun vinna nærri allir flokkar gegn almannahagsmunum.

Hér hefur verið gefin rétt og köld mynd af skattahækkunaráformum ríkisstjórnarinnar. Myndin stingur að sjálfsögðu í stúf við fleðulætin, sem einkenndu fréttaflutning ríkisfjölmiðla um helgina, einkum spariviðtöl þeirra við ráðherra, er sýndu rammfalska ímynd.

Rétt er orðað, að ekkert fúsk er í skattheimtunni. Ríkisstjórnin siglir þöndum seglum í þjónustu við sérhagsmuni á kostnað hagsmuna og hollustu almennings.

Jónas Kristjánsson

DV

Gæfulítill Seðlabanki

Greinar

Seðlabankinn ber hluta ábyrgðar á öngþveiti, sem hefur verið í peningamálum þjóðarinnar á þessu ári. Hann hefur eins og jafnan áður misskilið hlutverk sitt á svipaðan hátt og Þjóðhagsstofnunin hefur gert og litið á sig sem auðmjúkan þræl sérhverrar ríkisstjórnar.

Í lögum um bankann segir, að stjórn hans megi opinberlega lýsa ágreiningi við ríkisstjórnir í efnahagsmálum, þótt honum beri að vinna að því, að hagstefna ríkisstjórna nái tilgangi sínum. En Seðlabankinn hefur í aldarfjórðung ekki flíkað sjálfstæðri skoðun.

Þessi ákvæði eru mikilvæg, þegar ríkisstjórn getur ekki framkvæmt eigin efnahagsstefnu, vegna þess að hún telur sig þurfa að kaupa atkvæði með tímabundnu góðæri fyrir kosningar. Þá á Seðlabankinn eftir mætti að standa vörð um stefnuna til að brúa bilið yfir kosningar.

Frá upphafi þessa árs og fram yfir mitt ár horfði Seðlabankinn áhugalaus á hrunið, sem hófst, þegar Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra og Þorsteinn Pálsson fjármálaráðherra urðu helteknir kosningaskjálfta. Í júlí reyndi bankinn fyrst að hemla.

Fleiri tóku þátt í ábyrgðinni á þessu. Aðilar vinnumarkaðarins töldu sér trú um, að þeir gætu hækkað lægstu laun án þess að hækkunin færi í launaskriði upp alla hálaunaflokka. Og bankarnir, með Landsbankann í broddi fylkingar, kunnu sér ekki hóf í útlánum.

Nú eru þessir aðilar með allt niðrum sig á kostnað þjóðarinnar. Ný ríkisstjórn er með ráðgerðan þensluhalla næsta árs upp á fjóra­fimm milljarða og fer mun hærra. Hún hefur í raun magnað verðbólgu, afskræmt gengi krónunnar og efnt til milljarða viðskiptahalla.

Umræðan um þátt Seðlabankans í þessari ógæfuþróun er gagnleg og brýn, rétt eins og nýleg umræða um mikinn og vaxandi skriðdýrshátt Þjóðhagsstofnunar gagnvart sérhverri ríkisstjórn. Seðlabankastjóra skortir ekki völd, heldur kjark til að nýta þau til góðs.

Sumir segja, að þetta sýni, að veita beri bankanum aukin völd til að fyrirskipa hitt og banna þetta, í hefðbundnum skömmtunarstíl íslenzkum. Það er ekki rétta leiðin, enda er löng harmsaga af peningafrystingu Seðlabankans, sem hefur magnað fjármögnun gæludýra.

Þjóðin á að geta heimtað af hinum fjölskipaða Seðlabanka, að hann safni ítarlegri, betri og skjótari tölum um stöðu fjármála þjóðarinnar og birti þær hraðar. Ástæðulaust er, að launaskrá bankans sé eitt athyglisverðasta dæmið um dulbúið atvinnuleysi í landinu.

Til þess að auðvelda bankanum þetta verk er hugsanlega hægt að geta þess ítarlegar í lögum um bankann, þótt frestur á slíku megi ekki verða honum til afsökunar. Á tölvuöld ætti þjóðin raunar að hafa aðgang að tölum, sem sýna alla peningastöðu líðandi stundar.

Um leið er brýnt, að Seðlabankinn túlki þessar tölur jafnóðum, en bíði ekki eftir ársfundi sínum. Seðlabankastjórum er líka skylt að mótmæla, ef aðgerð eða aðgerðaleysi ríkisstjórnar stríðir gegn yfirlýstum markmiðum hennar, og skýra þann ágreining sinn rækilega.

Áhrifamáttur Seðlabanka til góðs felst ekki í valdi hans til boða og banna, heldur í siðferðilegu aðhaldi, sem byggist á skýrum upplýsingum um stöðu mála í núinu ­ og á vilja kjósenda til að hafna stjórnmálamönnum, sem reyna að virða þetta aðhald að vettugi.

Það eru seðlabankamenn, sem hafa sjálfir valið að hafa hann illa rekinn og ósjálfstæðan. Það er þeim sjálfum, sem ber að nota umræðuna til að bæta starf sitt.

Jónas Kristjánsson

DV