Greinar

Hugsjónagöt og önnur göt

Greinar

Fundin hafa verið jarðgöng, sem borga sig. Hjá Vegagerðinni hefur verið reiknuð 15% arðsemi í vegargöng undir Hvalfjörð. Það er svipuð arðsemi og stofnunin hefur reiknað í bundið slitlag á vegum landsins og mun meiri en er í venjulegum brúm, hvað þá Hvalfjarðarbrú.

Í reikningi þessum er miðað við, að afskrifa megi göng nálægt járnblendiverksmiðjunni á 30 árum á þennan hátt, ef 800 bílstjórar á dag vildu greiða hóflegan vegartoll. Hugmyndir um göng utar í firðinum og 2.000 bíla umferð á dag virðast óraunsærri við fyrstu sýn.

Allar arðsemistölur Vegagerðarinnar verður að taka af varúð. Stofnunin hefur leikið sér að því að telja alla undirbyggingu vega til byggðastefnu, sem ekki má verðleggja, og reikna síðan arðsemi í slitlagið ofan á. Þannig hafa ótal vegir á landinu orðið arðbærir með handafli.

Stofnunin er kölluð Vegagerð ríkisins, en ætti raunar að heita Vegagerð þingmanna. Allt bútastarf hennar er miðað við að þjóna hagsmunum þingmanna landsbyggðarinnar í réttum hlutföllum. Þess vegna er slitlag aðeins hér og þar í allt of dýrum bútum hringvegarins.

Samt eru tölur Vegagerðarinnar um arðsemi hinar einu, sem við höfum. Ef stofnunin vill verða Vegagerð þjóðarinnar, ber henni að efla útreikninga á arðsemi ýmissa vegakosta og gera þá traustari en nú er, en einkum þó ýta niðurstöðunum að þingmönnum og þjóð.

Athyglisvert er, að fólk talar um vegartoll í Hvalfjarðargöngum eins og sjálfsagðan hlut. Menn vilja geta valið milli þess að borga hóflegan toll, til dæmis 400 krónur á bílinn, og að borga benzín og rekstur í 45­50 kílómetra krók fyrir fjörðinn. Það eru heiðarleg viðskipti.

Hins vegar dettur engum í hug að reikna toll í Ólafsfjarðargöngin fyrirhuguðu. Fólk veit, að umferðin þar verður svo lítil, að tollur, sem bílstjórar gætu sætt sig við að borga, mundi samanlagt vart duga fyrir launum tollheimtumanna og alls ekki upp í vexti af lánum.

Aðdragandi gatsins í Ólafsfjarðarmúla er annar. Þingmenn og fjölmiðlungar svæðisins fóru með fríðu föruneyti suður til samgönguráðherra til að fræða hann um, að frá byggðasjónarmiði vantaði hálfan milljarð í svona göng. Degi síðar ákvað ráðherra að fá þessi göng.

Ólafsfjarðargöngin eru ekki versta fjallagat, sem hugsazt getur. Kostnaðaráhyggjur vegna þeirra byggjast miklu fremur á hræðslu við ráðagerðir, sem fylgja í kjölfarið. Vegagerðin og Byggðastofnunin hafa nefnilega reiknað göt í fjöll um Aust- og Vestfirði vítt og breitt.

Fyrr en síðar má búast við, að þingmenn og fjölmiðlungar fjölmenni á fund samgönguráðherra og segi honum, að frá byggðasjónarmiði vanti milljarð í Vestfjarðagöng og tvo milljarða í Austfjarðagöng. Þessum gildu rökum getur ráðherra líklega ekki andmælt.

Af ýmsum slíkum ástæðum er þjóðin peningasnauð um þessar mundir. Sjálfvirk afgreiðsla fjármagns til fagurra hugsjóna veldur því, að ekkert er gert í hugmyndum um Hvalfjarðargöng, enda ekki byggðagöng í hefðbundnum skilningi og þar á ofan líklega arðbær.

Meðan fagrar hugsjónir blómstra í borun fjalla býr meirihluti þjóðarinnar við sífellt og samfellt umferðaröngþveiti frá Hafnarfirði til Mosfellssveitar og frá Breiðholti til Seltjarnarness. Í Kringlunni hefur verið opnuð sýning á óleystum vegaverkefnum þessa svæðis.

Þannig stendur þjóð, sem veit ekki aura sinna tal, þegar í húfi eru æðri verðmæti að hennar mati, en á ekki fyrir salti í graut, ef um arðbær verk er að ræða.

Jónas Kristjánsson

DV

Kosið í vor

Greinar

Þegar samstarf í ríkisstjórn er gott, ganga ráðherrar og þingmenn stjórnarflokka úr vegi til að sætta sjónarmið. Þegar feigð sækir að slíku samstarfi, ganga þeir hins vegar úr vegi til að rækta ágreining, svo sem verið hefur frá upphafi ferils núverandi ríkisstjórnar.

Til að finna dæmi um sæmileg heilindi í stjórnarsamstarfi þarf ekki að leita lengra en til síðustu ríkisstjórnar á undan þessari, til yngstu helmingaskiptastjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokka. Valdamenn sátu á friðarstóli í þeirri ríkisstjórn til loka kjörtímabilsins.

Nú er hins vegar allt í hers höndum. Ráðherrar og þingmenn stjórnarflokkanna vinna ekki saman að niðurstöðu mála, heldur finna sér til ágreinings hvert tilefni, sem gefst. Þeir og flokkar þeirra eru að reyna að ná góðri taflstöðu fyrir næstu kosningar.

Slíkar ríkisstjórnir springa yfirleitt fyrir tímann. Þátttakendur þeirra fjalla ekki um mál eins og þau séu verkefni, sem gefa þurfi sér tíma til að leysa. Þeir hafa meiri áhuga á, hvernig þessi sömu mál líti út frá sjónarhóli kjósenda, þegar til mjög skamms tíma er litið.

Ýmis deilumál benda til, að forustumenn stjórnarflokkanna séu byrjaðir að undirbúa baráttu fyrir kosningar að vori. Þeir hafa magnað með sér ágreining um mörg stærstu mál dagsins, fjárlög, matarskatt, húsnæðislánakerfi, útgerðarkvóta og landbúnaðarstuðning.

Í vaxandi mæli er talað um, að frumvörp um þessi mál séu eins konar einkafrumvörp eins ráðherra. Einstakir þingmenn, jafnvel ráðherrar og heilir stjórnarflokkar áskilja sér rétt til að vera meira eða minna andvígir ýmsum eða flestum atriðum frumvarpa.

Í sumum tilvikum er líklegt, að sérstaðan sé ekki djúpstæð, heldur framleiðsla á eins konar skiptimynt til að beita gegn annarri sérstöðu. Þá er líklegt, að niðurstaðan af hvoru tveggja verði engin. Það er einmitt markmið síðari sérstöðunnar að eyða hinni fyrri.

Andstöðu alþýðuflokksmanna við kvótafrumvarp framsóknarráðherra er að nokkru leyti beint gegn andstöðu framsóknarmanna við húsnæðisfrumvarp alþýðuflokksráðherra. Andstaðan er sumpart uppgerð, þótt hún byggist á frambærilegum efnisrökum.

Ágreiningsatriði stjórnarflokkanna verða þó engan veginn skýrð með þessum hætti einum. Meginástæða þeirra er, að flokkarnir gera ráð fyrir kosningum í vor og eru að reyna að skapa sjálfum sér ímynd, sem sé önnur og betri en ímynd ríkisstjórnarinnar í heild.

Framsóknarflokkurinn nýtur mikils fylgis í skoðanakönnunum. Forustumenn hans geta vel hugsað sér að ná fylgisaukningunni í hús í kosningum sem fyrst. Auk þess telja þeir tímabært, að Steingrímur Hermannsson leysi Þorstein Pálsson af hólmi í stjórnarforsæti.

Stjórnarandstaða Framsóknarflokksins innan ríkisstjórnarinnar beinist einkum gegn ráðherrum Alþýðuflokksins, er fjalla um fjármál ríkisins og húsnæðismál. Með gagnsókn Alþýðuflokksins í sjávarútvegsmálum hefur spennan í stjórninni magnazt um allan helming.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hægar um sig en hinir flokkarnir, en stundar þó yfirboð í stuðningi við landbúnað. Í skoðanakönnunum hefur flokkurinn ekki náð til baka neinum umtalsverðum hluta af fylgi Borgaraflokksins og er afar illa í kosningastakk búinn.

Ríkisstjórn er bráðfeig, þegar gagnkvæmt tillitsleysi mótar afstöðu ráðherra og stjórnarliða, svo sem nú er. Brautin liggur til kosninga, er verða líklega í vor.

Jónas Kristjánsson

DV

Haft vit fyrir öðrum

Greinar

Stuðningsmenn og andstæðingar bjórsins hafa hvorir tveggja rétt fyrir sér, þegar þeir fjalla um áhrif drykkjarins. Bjórinn hefur sínar björtu hliðar og aðrar skuggahliðar. Síðan fer eftir sjónarhóli hvers og eins, hvaða hlið hann lætur ráða afstöðu sinni til bjórfrumvarpsins.

Bjór reynist flestum góður vinur. Þeir geta oftast notað hann í hófi, sér og vinum sínum til ánægju. Þeir fara sjaldan yfir markið, enda er bjór afar vægur vímugjafi í samanburði við áfengisflokka, sem leyfðir eru og vinsælastir eru hér á landi, brennda drykki af ýmsu tagi.

Þar á ofan eru vaxandi líkur á, að bjór í miklu hófi sé fremur heilsusamlegur. Rannsóknir benda til, að lítið áfengismagn hafi góð áhrif á æðakerfið og dragi úr líkum á hjartasjúkdómum. Athuga ber þó, að fljótlega fer áfengismagn yfir þessi mörk hagstæðra heilsuáhrifa.

Um leið er bjór hættulegur eins og annað áfengi. Fjölmennur minnihluti fólks er þannig gert frá náttúrunnar hendi, að líkami þess myndar fíkn við neyzlu bjórs eins og annars áfengis. Efnahvörf í lifur og heila eru önnur og skaðlegri hjá þessu fólki en venjulegu fólki.

Þetta fólk þjáist af ættgengum sjúkdómi, sem hefur göngu sína með uppsöfnun acetaldehýðs í lifrinni og endar svo oft með líkamlegum, sálrænum, félagslegum og andlegum ósköpum, er ekki vinnst bugur á nema með algeru hvarfi frá hvers konar neyzlu áfengis.

Í enskumælandi löndum er sagt, að 10% fólks sé næmt fyrir áfengissýki. Hér hafa verið nefndar hærri tölur, frá 15% upp í 20%. Altjend er ljóst, að til er fjölmennur minnihluti, sem ekki má drekka áfengi án þess að koma af stað skaðlegum efnahvörfum í skrokknum.

Af þessu vaknar spurningin um, hvort rétt sé að neita meirihlutanum um hinn hjartastyrkjandi gleðigjafa til þess að forða minnihlutanum frá áfengisbölinu. Séu menn þessarar skoðunar, er rökrétt, að þeir fylgi algeru áfengisbanni frekar en banni á veikum bjór eingöngu.

Þeir verða þá einnig að hafa í huga, að vín og bjór hafa árþúsunda hefð að baki í samfélagi manna. Áfengir drykkir eru grunnmúraðir í hefðum þjóða. Dýrkun á Díonýsosi er með fjölmennari trúarbrögðum hins vestræna heims, studd ótal lofgerðum í bókmenntum.

Auðveldara er að berjast gegn vímugjöfum, sem ekki hafa þennan uppsafnaða mátt úr fortíðinni. Fíkniefnin eru tiltölulega ný af nálinni utan afmarkaðra hópa og sama er að segja um róandi lyf og svefnlyf af hvers konar tagi. Allt eru þetta vanabindandi vímuefni.

Séu menn í raun þeirrar skoðunar, að rétt sé að hafa vit fyrir mönnum og meina þeim, sem vilja, að komast í bjór, nema í útlöndum, fríhöfninni á Keflavíkurvelli og á svarta markaðnum, væri æskilegt, að þeir könnuðu hug sinn til annarra hættulegra efna en bjórsins eins.

Tóbak drepur áreiðanlega fleiri en áfengið gerir. Hvernig væri að banna sígarettur algerlega og heimila sölu vindla í sérstökum ríkisverzlunum. Er ekki rétt að hafa með afli vit fyrir fólki á þessum sviðum á sama hátt og reynt er í áfengi og sérstaklega í bjór.

Sykur er viðurkenndur manndrápari. Hvernig væri, að banna sykurinnflutning eða að minnsta kosti skattleggja hann margfalt og banna sölu hans annars staðar en í sérstökum ríkisverzlunum Og hvað um háa skatta, ríkisverzlanir eða algert bann við smjöri og lambakjöti.

Sumt ætti að mega leyfa fólki að velja sjálft, án þess að hafa með handafli vit fyrir því. Sem þáttur í styrkleikalitrófi áfengis ætti bjórinn að fylgja frjálsum vilja.

Jónas Kristjánsson

DV

Síminn knúinn til þjónustu

Greinar

Matthías Á. Mathiesen samgönguráðherra hefur knúið Póst- og símamálastofnunina gegn vilja hennar til að hefja undirbúning að útgáfu sundurliðaðra símareikninga. Þar með er í augsýn, að gamalt baráttumál DV gegn kerfiskörlum fái farsæla og sjálfsagða niðurstöðu.

DV hefur margsinnis bent á, að í Bandaríkjunum fá símnotendur sundurliðaða reikninga, þar sem fram kemur, hvenær hringt er í hvaða númer, hversu lengi er talað og hve mikið hvert símtal kostar. Símnotendur fá reikninga, sem eru líkir venjulegum reikningum.

Póst- og símamálastofnunin hefur ætíð fjandskapazt við hugmyndir um, að hún gefi út reikninga með sama hætti og aðrir seljendur vöru og þjónustu. Hún hefur á sínum snærum sérstakan blaðafulltrúa, sem hefur hamazt gegn tilraunum til að hafa vit fyrir stofnuninni.

Hugarfarið hjá Póst- og símamálastofnuninni hefur verið, að hún viti bezt, hvað sé símnotendum fyrir beztu. Sundurliðun símareikninga kosti peninga, sem notendur verði að borga og “þeir hefðu áreiðanlega ekki verið tilbúnir til að taka þann kostnað á sig”.

Ekki ætti að vera á verksviði embættismanna að ákveða, hvað fólk vill fá og borga og hvað ekki. Í þess stað hefði Póst- og símamálastofnunin fyrir löngu átt að vera búin að gefa almenningi kost á að vita, hvað hann er að borga, þegar hinir fjallháu reikningar birtast.

Frægt var, þegar 90 þúsund króna reikningur kom í Stykkishólmi á síma, er hafði verið lokaður allt greiðslutímabilið. Póst- og símamálastjórnin gafst ekki upp í málinu, fyrr en sýslumaður var kominn í það. En ekki eru allir svo heppnir að geta sannað símabindindi sitt.

Enn eru símnotendur yfirleitt varnarlausir gegn ofbeldi Póst- og símamálastofnunarinnar. Einskisnýtt er að segja, að reikningur hljóti að vera rangur, því að síminn hafi ekki verið notaður eins mikið og gjaldið sýni. Þú færð bara fógeta og kostnað í hausinn.

“…stjóri hjá Pósti og síma telur þarna ekki um stórt mál að ræða. Þegar viðkomandi Grafarvogsbúi fær sinn síma tengdan, hvenær sem það verður, verði flutningsgjaldið á síma hans einfaldlega lækkað um þá upphæð, sem hann verður þá búinn að ofgreiða í afnotagjöldum.”

Ofangreind tilvitnun í viðbrögð stofnunarinnar við kvörtunum um gjaldtöku af síma, sem ekki var til, er dæmigerð um ástandið á þeim bæ. Svo að segja úr hverju orði drýpur hugarfar, sem aðeins getur orðið til við langvinna ræktun í opinberri einokunarstofnun.

Síðan ráðherra setti stofnunina upp við vegg hefur hún skyndilega uppgötvað, að stafrænu símstöðvarnar geri sundurliðun ódýrari en áður hefði orðið. Hið rétta mun vera, að í þessum nýju stöðvum þurfi sundurliðun lítið annað að kosta en aukinn pappír í reikninga.

Vegna þessarar uppgötvunar er þess skammt að bíða, að 25 þúsund notendur fái sundurliðaða reikninga frá Póst- og símamálastofnuninni. Það eru þeir, sem hafa símanúmer, er byrja á tölustafnum 6. Þetta er mikilvægt skref að sæmilegum friði milli fólks og stofnunar.

Þegar sumir eru farnir að fá sundurliðaða reikninga frá þessari stofnun eins og venjulegt er í viðskiptum með vöru og þjónustu, getur hún ekki lengur staðið gegn því, að sama þjónusta verði síðan veitt hinum, sem ekki eru tengdir hinum nýju, stafrænu símstöðvum.

Knésetning Póst- og símamálastofnunarinnar í máli þessu er tímamótaviðburður, sem felur í sér einn af markverðustu sigrum almennings á þessum áratug.

Jónas Kristjánsson

DV

Dómstóla-doðinn

Greinar

Hæstiréttur er orðinn skotspónn sérstakrar ádeilubókar eftir þekktan lögmann, auk fyrri gagnrýnisgreina í tímaritum lögfræðinga og laganema. Ennfremur hafa fimm saksóknarar sent dómsmálaráðherra bréf og kvartað yfir ruglingslegum hæstaréttardómum.

Hæstiréttur er ekki eini skotspónninn í réttarkerfi Íslands. Um þessar mundir er rekið mál gegn því fyrir mannréttindadómstóli Evrópuráðsins í Strasbourg. Ennfremur ríkir vaxandi óánægja með stjórnleysi og seinagang hjá Borgardómi og Sakadómi í Reykjavík.

Samanlagt segir allt þetta þá sögu, að taka megi til hendinni í réttarkerfinu. Sumpart þarf að setja lög, til dæmis um aðskilnað stjórnsýslu og dómsvalds. Einnig verða dómstólar að bæta starf sitt innan ramma núgildandi laga, einkum með því að vinna meira og hraðar.

Borgardómur og Sakadómur bera stundum svip bandalags smákonungsríkja. Sumir dómarar virðast ekki nenna að vinna neitt að ráði og komast upp með að liggja á einstökum málum langt umfram hefðbundinn tíma. Yfirmenn þeirra þykjast engu ráða um þetta.

Ef allir dómarar ynnu verk sín af samvizkusemi og hóflegum dugnaði og væru skemur í kaffi, má fullyrða, að enginn umtalsverður málahali væri stíflaður hjá dómstólum landsins. Gera þarf yfirmönnum dómstóla kleift að aga doðnu dómarana eða losa sig við þá.

Það er líka doði, en ekki fyrirlitning á mannréttindum, sem veldur því, að Ísland er dregið fyrir dómstól Evrópu. Dómsmálaráðuneytið hefur einfaldlega ekki nennt að hafa frumkvæði að lagafrumvörpum um aukinn skilnað framkvæmda- og dómsvalds í landinu.

Hinar skammarlegu fréttir frá Strasbourg hafa knúið ráðuneytið til bragarbótar. Gera má ráð fyrir, að á þessu þingi verði sett lög, sem samræmi íslenzka kerfið vestrænum mannréttindahefðum. Hinn nýi ráðherra hefur lagt áherzlu á, að þessi merki árangur náist.

Hugsanlegt er, að doðinn, sem hér hefur verið nefndur, setji einnig svip á Hæstarétt. Hinn fátæklegi rökstuðningur réttarins fyrir dómum sínum getur hreinlega stafað af, að dómararnir nenni ekki eða telji sig ekki hafa tíma til að fara ofan í svokölluð smáatriði.

Forseti Hæstaréttar er ekki sannfærandi, þegar hann heldur fram, að ekki þurfi að fjalla um allar hliðar málsins, ef dómstóllinn telur, að ein málsástæða nægi til að komast að niðurstöðu. Í löndum eins og Bandaríkjunum og Noregi eru ítarleg rök talin nauðsynleg.

Enn síður er traustvekjandi, er forseti Hæstaréttar segir dæmin um óhóflega hollustu dómstólsins við ríkisvaldið vera of ný til að vera marktæk um 67 ára sögu hans. Vandinn er ekki sagnfræðilegur, heldur lifandi vandi, sem brennur á þjóðfélaginu þessa dagana.

Hitt má svo segja Hæstarétti til málsbóta, að hann hefur á síðari árum ekki haft eins mikla tilhneigingu til að draga taum ríkisvaldsins og hann hafði fyrr á árum. Á þetta hafa bent sumir þeir, sem hafa fjallað um ádeiluna á Hæstarétt og viðbrögð forseta réttarins.

Umræðan í þjóðfélaginu á öndverðum þessum vetri um vandamál í réttarkerfinu hefur verið nytsamleg og mun áreiðanlega leiða til endurbóta í mörgum eða jafnvel flestum þáttum þess. Það sýnir, að þjóðin hefur burði til að koma lýðræði sínu í sómasamlegt horf.

Annmarkarnir eru fæstir kerfisbundnir, heldur stafa fyrst og fremst af doðanum, sem löngum hefur einkennt dómsmálin í landinu, dómstólana og einstaka dómara.

Jónas Kristjánsson

DV

Neytendur eru sauðfé

Greinar

Komið hefur í ljós, að neytendur halda áfram að kaupa egg eins og ekkert hafi í skorizt, þótt verð þeirra margfaldaðist í vikunni og Neytendasamtökin hvettu fólk til að hætta að kaupa egg. Frá þessu skýrðu verzlunarstjórar Miklagarðs og Hagkaups hér í blaðinu í gær.

Í Bandaríkjunum stóð fólk einhuga með formanni neytendasamtakanna, þegar hann hvatti það til að svara hækkun nautakjöts með því að hætta að kaupa nautakjöt, þar til annað yrði ákveðið. Eftir tvær vikur hrundi nautakjötsverðið niður fyrir upprunalegt verð.

Í nágrannalöndum okkar láta neytendur ekki bjóða sér samsæri um 30% hækkun og hvað þá 300% hækkun án þess að svara af hörku. Það gildir til dæmis jafnt um danska sem bandaríska neytendur, að þeir eru reiðubúnir að neita sér um vöru til að gæta hagsmuna sinna.

Hér láta neytendur sem egg séu einhver lífsnauðsyn, er þeir geti ekki verið án í einn dag og hvað þá nokkrar vikur. Samt er mataræði Íslendinga með þeim hætti, að hollara væri að draga úr eggjaáti en halda því óbreyttu og bráðhollt væri að fara í langt eggjafrí.

Egg geta stuðlað að auknu kólesteróli, sem er meira hjá Íslendingum en næstum öllum öðrum þjóðum veraldar. Læknar, sem eru sérfræðingar í hjartasjúkdómum, ráðleggja yfirleitt fólki að fara varlega í eggjaáti til að draga úr líkum á bilunum í hjarta- og æðakerfinu.

Hér í blaðinu hefur verið bent á, að egg eru engan veginn nauðsynleg í bakstri. Birtar hafa verið uppskriftir því til stuðnings. Ekkert af þessu hefur fengið neytendur ofan af þeim bjargfasta ásetningi að kaupa alltaf jafnmikið af eggjum, hvað sem þau kosta.

Við aðstæður af þessu tagi er auðvelt að skilja, af hverju máttur neytendasamtaka er minni hér á landi en í nálægum löndum. Augljóst er, hvers vegna hagsmunir neytenda verða hér jafnan að víkja, ef árekstrar verða við sérhagsmuni seljenda vöru og þjónustu.

Engir hafa af þessu meiri hag en umboðsmenn hagsmuna hins hefðbundna landbúnaðar. Þeir eru vanir að umgangast sauðfé heima hjá sér og þeir kunna að umgangast neytendur á sama hátt. Enda verður ekki betur séð en neytendur eigi skilið að vera taldir sauðfé.

Skrifstofa verðlagsstjóra gegnir mikilvægu hlutverki í þjóðfélagi, þar sem neytendur eru eins konar sauðfé. Stofnunin gerir sér þó mun atvinnugreina, er hún fjallar um hagsmuni neytenda. Landbúnaður nýtur mildari meðferðar en aðrar greinar, einkum í lögfræðideildinni.

Ef grunur leikur á verðsamkomulagi venjulegra framleiðenda, er lögfræðingur stofnunarinnar óðar búinn að kæra. Þegar eggjamenn semja um að margfalda eggjaverð, eru þeir beðnir um að koma á stofuna til að ræða, hvort ekki sé hægt að skila hluta þýfisins aftur.

Þar á ofan er eggjamönnum ógnað með sexmannanefnd, sem er ein þeirra stofnana, er mesta ábyrgð bera á því skrímsli, sem landbúnaðurinn er orðinn í þjóðfélaginu. Búast má við, að eggjamenn fagni því á laun, að svo hliðholl nefnd ákveði eggjaverð í landinu.

Allt byggist þetta á, að neytendur hafa ekki bein í nefinu til að fara í taugastríð við þá, sem meðhöndla þá eins og sauðfé. Neytendur hafa í raun hafnað að stjórna sjálfir verði á kjöti og mjólkurafurðum, eggjum og grænmeti í landinu með sjálfsstjórn á innkaupum.

Enn er ekki vitað, hver verður niðurstaða eggjamálsins. En hún mun hafa hliðsjón af, að neytendur hyggjast ekki bera hönd fyrir höfuð sér frekar en fyrri daginn.

Jónas Kristjánsson

DV

Bænarskrár-andrúmsloft

Greinar

Þegar 32 þingmenn senda bænarskrá til fiskveiðinefndar, sem á að gefa Alþingi góð ráð í kvótamálum, er ljóst, að svo mikið er orðið valdaafsal löggjafans, að meirihluti þingmanna áttar sig ekki lengur á, að þeir fara enn formlega séð með löggjafarvaldið í landinu.

Sjávarútvegurinn er bara eitt, en gott dæmi um reglugerðabáknið, sem er að myndast hér á landi. Fyrir löngu var varpað fyrir róða náttúrlegri stjórn framboðs og eftirspurnar í þessari atvinnugrein. Og upp á síðkastið hafa heimildir og reglugerðir tekið við af lögum.

Nú orðið hefur einn lítt öfundsverður ráðherra lagaheimildir til að ákveða örlög útgerðar smábáta og frystitogara, staðsetningu rækjuvinnslu og framtíð sjávarútvegs á suðvesturhorninu, svo að dæmi séu nefnd. Sér til aðstoðar lætur hann semja mýgrút reglugerða.

Því flóknari sem málin eru, þeim mun þyngra er að stjórna þeim með þessum hætti. Enginn ráðherra, nefnd og þingmannahópur getur séð fyrir hinar margvíslegu óbeinu afleiðingar út um allar trissur af tiltölulega góðviljuðum tilraunum til að koma stjórn á sjávarútveg.

Hart er deilt um kvótakerfið þessa dagana. Sumir finna því allt til foráttu og aðrir telja það allra meina bót. Verst er, að hvorir tveggja hafa nokkuð til síns máls. Kvótakerfið hefur sumpart góð áhrif og sumpart vond. En einkum hefur það þó ófyrirséð áhrif.

Mest er deilt um, hverjum beri kvótinn. Margir harma, að hann fylgir skipum og þar með útgerðinni beint og sjómönnum óbeint, en ekki fiskvinnslu eða sveitarfélögum. Eftir á að hyggja er orðið ljóst, að handhöfum kvótans hafa verið afhent gífurleg verðmæti.

Svo er nú komið, að söluverð notaðra fiskiskipa endurspeglar fyrst og fremst kvótann, sem fylgir í kaupbæti. Ennfremur sogast skip af suðvesturhorninu til annarra landshluta vegna mismununar í kvóta, sem kerfið hefur komið á fót til að efla jafnvægi í byggð landsins.

Til er leið, sem getur grisjað myrkvið laga, heimilda og reglugerða og hleypt inn birtu hinnar gömlu sjálfvirkni markaðsins, sem við höfum í ár séð ná árangri í hinum nýju fiskmörkuðum. Æ fleiri benda á þessa leið, sem felst í, að kvótinn verði seldur hæstbjóðandi.

Út af fyrir sig varðar ekki mestu, hvort kvótinn er gefinn eða seldur. Aðalatriðið er, að hann geti gengið kaupum og sölum, svo að hann finni verðgildi sitt á sjálfvirkan hátt. Það leiðir til, að fiskveiðin færist á hendur þeirra sjómanna og skipstjóra, sem bezt kunna til verka.

Þorkell Helgason prófessor lagði nýlega til, að 20% kvótans yrðu seld árlega í fimm ár. Hér í blaðinu bar Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður upp, að kvótinn yrði seldur í árlegum 10­20% áföngum. Báðir eru að reyna að vísa á milda leið til markaðskerfis.

Gallinn er, að hvorki fólk né ráðamenn skilja, hvílíkt þjóðfélagslegt réttlæti felst í frjálsri kvótaverzlun. Þess vegna mun verða reynt í lögum, heimildum og reglugerðum að setja markaðnum þröngar skorður með alls konar parta-réttlæti, það er að segja sérhagsmunum.

Í rauninni er þjóðin ekki næm fyrir skynsemi í skipulagi sjávarútvegs. Sem dæmi má nefna, að útvegsmenn samþykktu nýlega að hafna frjálsu fiskverði, bara til að spara sér óþægindi af viðræðum við sjómenn. Undir niðri vildu útvegsmenn helzt friðsælt ríkisverðlag.

Í þessu andrúmslofti er ráðherra gerður að slíkum einræðisherra, að þingmenn hafa gleymt löggjafarvaldi sínu og eru farnir að senda bænarskrár að gömlum sið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðizt að Tjörn og Kvos

Greinar

Mikill meirihluti Reykvíkinga og einnig Íslendinga er andvígur fyrirhuguðu ráðhúsi í norðvesturhorni Tjarnarinnar. Skoðanakönnun DV hefur leitt í ljós, að borgarstjórn Reykjavíkur er á hálum ís á Tjörninni, sem á sér fleiri vini en steypusinnar hafa gert ráð fyrir.

Ráðhúsið í Tjörninni er aðeins eitt dæmið af mörgum um eyðingarafl hins opinbera, sem ræðst að Tjörninni og Kvosinni úr ýmsum áttum. Til dæmis eru rökstuddar grunsemdir um, að nýja uppfyllingin við Fríkirkjuveg sé lævís undanfari breikkunar bílaumferðar-holræsis.

Tímabært er, að yfirvöld skipulags Reykjavíkur láti almennt af smíði nýs og stórkarlalegs miðbæjar ofan í hinum gamla og látlausa. Almennt á að hætta að rífa gömul hús og fara fremur að láta nýleg hús víkja, ef alvarlegir árekstrar verða milli gamals og nýs tíma.

Annað fyrirhugað hús er enn óvinsælla en ráðhúsið. Það er steindauði alþingiskassinn, sem stjórnmálaflokkarnir hyggjast reisa alla leið frá ráðhúsinu fyrirhugaða og að Austurvelli, teiknaður í óvenjulega víðáttumiklum bankakassastíl, sem við höfum miklu meira en nóg af.

Ekki er auðvelt að sporna við framkvæmdum af þessu tagi, nema benda jafnframt á, hvernig lina megi húsnæðisskortinn, án þess að reisa þurfi stóra og freka steypukassa á viðkvæmum og fínlegum stöðum. Það er raunar auðveldara en ætla mætti við allra fyrstu sýn.

Hafa þarf í huga, að suma starfsemi ber að laða að miðbæ og ýta annarri frá honum. Glæða þarf verzlanir og aðra afgreiðslu fyrir almenning, en losna við umfangsmiklar skrifstofur, sem ekki eru í miklu sambandi við fólkið á götunni, til dæmis sumar borgarskrifstofur.

Meðal kontóra, sem hrekja mætti úr Kvosinni, eru þeir hlutar bankanna, sem ekki eiga bein viðskipti við fólkið af götunni. Ennfremur forstjóraskrifstofur og flestar aðrar skrifstofur stofnana á borð við Póst og síma og heilar stofnanir á borð við Reiknistofu bankanna.

Hin upprunalegu hús Landsbankans og Útvegsbankans gætu hvort um sig hentað vel sem ráðhús. Því miður yrði dýrt að fjarlægja hinar afkáralegu viðbætur þessara húsa, sem yrði að sjálfsögðu nauðsynlegt, ef auka ætti virðingu þeirra sem ráðhúsa eða Hæstaréttarhúsa.

En önnur hús eru hentugri. Nýja Seðlabankahúsið hefur það umfram önnur ný hús að vera ekki ljótt og hentar því prýðilega sem ráðhús við höfnina. Starf Seðlabanka, Þjóðhagsstofnunar og Reiknistofunnar getur flutzt brott og raunar hvert á land sem er.

Annað hús, sem kemur ekki síður til greina, er gamla Landsbókasafnshúsið, sem er með fegurri húsum miðbæjarins. Eftir nokkur ár flytzt safnið í Þjóðarbókhlöðuna. Þá er kjörið, að borgin kaupi húsið fyrir ráðhús. Sá hængur er þó á, að húsið hentar líka Hæstarétti.

Þriðja húsið er Hótel Borg, sem ber sig tígulega við hefðartorg borgarinnar og er hannað í eðlilegu framhaldi borgarskrifstofanna í Pósthússtræti. En sárt væri að missa eina hótelið í Kvosinni, því að evrópsk hefð er fyrir grónum virðingarhótelum við aðaltorg.

Hótel Borg gæti raunar líka verið útibú Alþingis. En svo vel vill til, að andspænis við Austurvöll standa ein mitt hinir dauðu og gestasnauðu kastalar Pósts og síma, kjörnir fyrir kontóra þingmanna og starfsmanna Alþingis, svo að forðast megi nýjan alþingiskassa.

Af þessu má sjá, að nægir og góðir kostir eru aðrir en þeir að reisa fyrirhugað ráðhús í Tjörninni og fyrirhugaðan alþingiskassa ofan í stóran hluta Kvosarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Leyndarstefnan hefnir sín

Greinar

Bezt er, að fólk rasi ekki um ráð fram í mati á fregnum af lausagangi fyrrverandi leyndarskjala, þar sem fjallað er útlendum augum um samskipti Íslands við umheiminn. Hins vegar er upphlaupið út af Stefáni Jóhanni gagnlegt, því að það bendir á, hvað gera þarf.

Umræður á Alþingi í fyrradag um leyniskjalamálið beindust í stórum dráttum í réttan farveg. Margir þingmenn og ráðherrar bentu á, hve nauðsynlegt er, að íslenzk trúnaðarskjöl séu birt þjóðinni eftir föstum reglum að ákveðnum tíma liðnum. Það er kjarni málsins.

Því miður er upplýsingaskylda íslenzkra stjórnvalda miklu minni en í flestum nágrannalöndunum, til dæmis Norðurlöndunum og Bandaríkjunum. Verra er, að kerfiskarlar ráðuneytanna hafa látið semja frumvarpsdrög, sem staðfesta, að allt skuli alltaf fara leynt.

Þegar menn kerfisins festa ekki viðkvæm mál á blað eða gæta þess, að þau fréttist ekki út, eru þeir að magna vanþekkingu og grunsemdir þjóðarinnar. Auk þess eru þeir óbeint að sverta minningu látinna manna, í þessu tilviki Stefáns Jóhanns Stefánssonar forsætisráðherra.

Afleiðing leyndaráráttunnar hér á landi er, að utanríkissaga Íslands er skoðuð með útlendum augum. Sagnfræðingar fara í erlend söfn til að skoða skjöl, þegar leyndinni hefur verið létt af þeim. Þessi skjöl varpa dýrmætu ljósi á Íslandssöguna, en segja hana ekki alla.

Sérstaklega er varhugavert að horfa á söguna augum bandarískra embættismanna. Saga utanríkisþjónustu Bandaríkjanna er stráð stórslysum, sem stafa af, að fulltrúar þeirra hafa átt furðulega erfitt með að skilja hugarfar, venjur og stjórnmál í öðrum ríkjum.

Hugsanlegt er, að bandarískir embættismenn hafi á tímum kalda stríðsins talið, að sumir ráðamenn Íslands væru þeim sammála um, að Rússarnir væru að koma. Sú skoðun mundi þó ekkert segja um, hvort hinir íslenzku ráðamenn voru í raun sammála þeim eða ekki.

Hið gagnlega við bandarísku skjölin er, að fjölmiðlar geta sagt frá þeim og þar með þrýst á ráðamenn heima fyrir um, að settar verði traustar reglur um upplýsingaskyldu stjórnvalda og þar á meðal um birtingu leyndarskjala að liðnum aldarfjórðungi frá atburðum.

Sem betur fer er enn á lífi einn ráðherranna þriggja, sem fóru á sínum tíma vestur um haf til að ræða öryggismál við Bandaríkjastjórn. Brýnt er, að Eysteinn Jónsson verði nú fenginn til að gera opinbera grein og ítarlegri en áður fyrir rás hinna umtöluðu atburða.

Meirihluti þjóðarinnar mun frekar treysta því, sem gamli fjármálaráðherrann segir um mál þetta, en því, sem norskan sagnfræðing minnir að hafa séð í bandarísku safni. Einnig betur en því, sem stendur í skáldsögunni Atómstöðinni um sama efni eftir Halldór Laxness.

Liðinn er sá tími, að umtalsverður hluti þjóðarinnar sé reiðubúinn að stimpla fjölda manna sem landráðamenn fyrir að stýra utanríkisstefnu Íslands í þann farveg, sem að fjórum áratugum liðnum hefur í helztu dráttum reynzt vera farsæll og verður fram haldið.

Þjóðin var fyrir löngu undir það búin, að kerfið opnaði skjöl sín til skoðunar og birtingar, jafnt í hinum viðkvæmu varnarmálum sem í öðrum málum. Nú er komið tækifæri til að ítreka, að brýnt er að setja lög um nánast skilyrðislausa upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Ógæfulegt er, að stjórnvöld komist áratugum saman upp með að telja þjóðina óhæfa um að draga ályktanir af upplýsingum um mikilvægustu þætti þjóðmálanna.

Jónas Kristjánsson

DV

Helmingafélag hrökk í kút

Greinar

Viðbrögð formanna stóru hagsmunaflokkanna tveggja við auknu frelsi til útflutnings eru skiljanleg. Einhverjir hinna sex nýju aðila í útflutningi freðfisks til Bandaríkjanna gætu náð betri árangri en einokunarfyrirtæki Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins.

Engum kemur á óvart, að Framsóknarflokkurinn skuli gæta hagsmuna Sambands íslenzkra samvinnufélaga. Það hefur hingað til verið og verður áfram aðalverkefni flokksins. Og uppákoman í Útvegsbankasölunni rifjaði upp gamalkunna stöðu Sjálfstæðisflokksins.

Fyrr á árum voru hinar tiltölulega tíðu ríkisstjórnir Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks kallaðar helmingaskiptastjórnir vegna þeirrar áráttu að misnota óhóflegt ríkisvald til að hygla Sambandinu annars vegar og nokkrum gælufyrirtækjum í Reykjavík hins vegar.

Í núverandi þríhyrningsstjórn hefur viðskiptaráðherra Alþýðuflokksins á skömmum tíma lent tvisvar milli þessara öflugu hagsmunaafla, sem stundum keppa og stundum starfa saman. Í Útvegsbankamálinu kepptu þau, en í nýja freðfiskmálinu vinna þau saman.

Jón Sigurðsson viðskiptaráðherra fór sem gæzlumaður almannahagsmuna halloka í Útvegsbankamálinu. Þar skar hann ekki á hnútinn, svo að bankinn er enn óseldur og selzt tæplega fyrir svipaðar upphæðir og boðnar voru í slag Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.

Í freðfiskmálinu hefur Jón hins vegar gætt almannahagsmuna. Hann hefur þar dregið úr ríkisafskiptum í atvinnulífinu, hvatt til flutnings viðskiptahæfileika frá innflutningi til útflutnings og stofnað til aukinnar fjölbreytni í framboði íslenzkra útflutningsafurða.

Fyrirtækin sex, sem fengu tímabundna undanþágu til að selja freðfisk til Bandaríkjanna, hafa flest, ef ekki öll, unnið sér sess í útflutningi annarra fiskafurða. Þau hafa tekið þátt í að opna nýja markaði á nýjum stöðum fyrir nýjar afurðir. Þau eru þáttur í vaxtarbroddinum.

Þegar fyrirtækjum hefur verið treyst fyrir frjálsum útflutningi margs konar sjávarafurða til Evrópu og Japans og það með góðum árangri, er orðið tímabært að leyfa þeim að spreyta sig á freðfiski í Bandaríkjunum, í þágu íslenzkra almannahagsmuna, ekki sérhagsmuna.

Athyglisvert er, að formaður þess stjórnmálaflokks, sem löngum hefur þótzt vera flokkur einkaframtaksins og stundum hefur gælt við frjálshyggju, skuli sem forsætisráðherra snúast gegn framtaki viðskiptaráðherra og afgreiða það sem eins konar skort á mannasiðum.

Einnig er athyglisvert, að formaður stjórnmálaflokks Sambandsins skuli nú sem utanríkisráðherra vara fyrirtækin sex við að nota hið nýfengna frelsi, því að hann muni taka við utanríkisviðskiptunum eftir nokkrar vikur og hugsanlega afturkalla þetta verzlunarfrelsi.

Viðskiptaráðherra vakti í september athygli forsætis-, utanríkis- og sjávarútvegsráðherra á fyrirætlunum sínum. Auk þess eru hin veittu leyfi tímabundin. Þannig hefur hann gefið stjórnmálaflokkum hagsmunaaflanna gott og nægilegt tækifæri til áhrifa á gang mála.

Í freðfiskmálinu eru helmingaskiptaflokkarnir tveir að venju að gæta annarlegra sérhagsmuna. Fólk áttar sig ef til vill ekki á þessu, því að helmingaskiptin í freðfiskútflutningi eru í senn gamalgróin og klædd margþvældu kenningakerfi um snilld einokunarfyrirtækja.

Hávaðinn í freðfiskmálinu sýnir, að helmingafélagið hefur hrokkið í kút, eins og skiljanlegt er, þegar framtíð og fortíð takast á. Og máttur fortíðarinnar er mikill.

Jónas Kristjánsson

DV

Fiskvinnsla er félagsmál

Greinar

Sjávarútvegsráðuneytið hyggst auka verndun láglaunastarfa í fiskvinnslu með því að auka skattlagningu hálaunastarfa í sjómennsku. Þessi lífskjarajöfnun niður á neðsta samnefnara felst í tvöföldun úr 10% í 20% á svokölluðum kvótaskatti á útfluttan ísfisk.

Þetta er hluti hinnar almennu, pólitísku hugsjónar Íslendinga að draga máttinn úr vaxtarbroddinum og hlúa að kalviðnum. Þessi hugsjón er rekin áfram af öllum stjórnmálaflokkunum og hefur náð fullkomnun í ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda.

Ríkiskerfið er smám saman að byrja að taka fiskvinnsluna upp á sína arma. 20% kvótaskatturinn er skref á þeirri leið, vegvísir á leið greinarinnar úr atvinnulífinu inn í eins konar félagsmálastofnun á borð við þá, sem skattgreiðendur þekkja í landbúnaði.

Miklu nær væri, að ríkið styddi fiskvinnsluna til sjálfshjálpar. Á vegum Rannsóknaráðs ríkisins hefur verið fundið, að unnt væri að spara milljarða í fiskvinnslu með 500­600 milljóna tæknivæðingu. Ríkið gæti hjálpað við að útvega lánsfé til að knýja þetta fram.

Ríkismat sjávarafurða hefur reynt, að fjórðungur frystihúsa notar gallað vatn eða óhæft til framleiðslunnar. Sveitarfélögin, sem einna hæst jarma um byggðastefnu, gætu lyft litla fingri til stuðnings fiskvinnslu sinni með því að útvega henni frambærilegt vatn.

Meirihluti þjóðarinnar telur enn, að fiskvinnsla auki verðmæti fisks. Fólk er næmt fyrir órökstuddum fullyrðingum um, að “fullvinna” eigi aflann hér heima og ekki selja útlendingum of mikið af “óunnum” fiski. Þess vegna er reynt að draga aflann inn í frystihúsin.

Samt er óunni fiskurinn, ísfiskurinn, verðmætasti fiskurinn. Hlutverk fiskvinnslunnar er raunar einkum að bjarga undan skemmdum þeim afla, sem ekki er hægt að selja sem verðmætan ísfisk. En þessi rök mega sín lítils gegn grónum trúarbrögðum meirihlutans.

Fiskvinnslan er orðin að hálfgerðri óperettu. Til hliðar á sviðinu syngur grátkór Verkamannasambandsins sorgarlög um láglaunastörfin í greininni. Í hinum kantinum eru umboðsmenn frystihúsanna í símanum til London að gabba saklausa útlendinga í vinnu til sín.

Því meira sem alvöruatvinnuvegi með hálaunafólki er refsað fyrir að sigla með ferskan fisk eða senda hann í gámum til útlanda, þeim mun meira fyllast frystihúsin af fiski, sem mannafla skortir til að bjarga undan skemmdum, vegna lágra launa og lélegrar tækni.

Ef við lifðum í alvöruþjóðfélagi, heimtaði fólk, að stjórnvöld notuðu sameiginlega sjóði okkar til að efla hálaunagreinar, svo sem tölvutækni, fiskveiðar, ísfiskútflutning og orkubúskap, svo og til að skapa nýjar, einkum á sviði alþjóðlegra viðskipta og fjármála.

Hér vilja menn hins vegar halda sem flestum á lága kaupinu í fiskvinnslu og flytja inn til viðbótar farandverkafólk frá útlöndum til þess að halda uppi sem mestum umsvifum í grein, er siglir í höfn hliðstæðrar félagsmálastofnunar og er í hefðbundnum landbúnaði.

Að baki fiskvinnslunnar eru sölusamtök, sem gegna sama hlutverki og Sambandið í landbúnaði. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda hafa misst spón úr aski til ísfiskútflutnings og eru að verja hagsmuni sína, svo sem eðlilegt er.

Ef þjóðin skildi hagsmuni sína, kæmust fiskvinnslan og sölusamtökin ekki upp með tilraunir sínar til að draga úr framtíðargrein hins arðsama ísfiskútflutnings.

Jónas Kristjánsson

DV

Tími ímynda og eftirlæsis

Greinar

Sumir bandarískir fræðimenn hafa lengi gert greinarmun á ólæsi, læsi og eftirlæsi. Fyrst í tímaröð er ólæsi, síðan kemur tímabil læsi og loks rekur lestina eftirlæsi, sem er nýlegt af nálinni. Hinir eftirlæsu eru þeir, sem eiga að hafa lært að lesa, en notfæra sér það ekki.

Tækninni hefur fleygt svo fram, að fólk getur lifað góðu lífi og jafnvel komizt áfram í heiminum án þess að þurfa að lesa og skrifa. Til dæmis er prentað mál ekki lengur aðgöngumiði að upplýsingum. Það breyttist fyrst með útvarpi og síðan einkum með sjónvarpi.

Breytingar af þessu tagi valda ýmsum vandamálum, sem hér er ekki rúm til að rekja. Eitt þeirra er myndin, sem fjarlægist raunveruleikann, er hún átti upphaflega að endurspegla, og verður að ímynd. Fólk horfir á ímynd aðstæðna og atburða og á ímynd fólks, persónu þess.

Þegar sjónvarp hóf göngu sína hér, komust helztu stjórnmálamenn landsins inn á gafl á heimilum fólks. Sumir þeirra risu við þetta og aðrir hnigu, allt eftir ímyndinni, sem þeir megnuðu að sýna á skjánum. Aðrir áttu í erfiðleikum, sem þeir smám saman sigruðust á.

Langt er í land, að Íslendingar nái tökum á umgengni við hina nýju tækni, svo sem sjónvarpið. Bandaríkja menn hafa búið við hana miklu lengur og miklu harkalegar en við. Samt hefur mikill hluti þeirra ekki enn lært að gera greinarmun á ímynd og raunveruleika.

Ýmsir illa hæfir og óhæfir menn hafa komizt langt í tilraunum til að ná völdum í Hvíta húsinu í Washington. Reagan Bandaríkjaforseti er skólabókardæmi um ímynd, sem geislar frá sér hlýju, karlmennsku og jafnvægi, en hefur að baki dapran raunveruleika getuleysis.

Frambjóðendur til forsetaembættis næsta kjörtímabils hafa risið á grundvelli ímyndar í sjónvarpi, en hafa síðan sumir hverjir hrapað til jarðar á grundvelli uppljóstrana í dagblöðum. Ef til vill er þar að koma í ljós merki þess, að ímyndir séu loksins á undanhaldi.

Athyglisvert er þó, að fleiri Bandaríkjamenn treysta enn upplýsingum sjónvarps betur en dagblaða. Hinn ímyndaði heimur á skjánum virðist fólki raunverulegur, eins og því finnst leikhús raunverulegt. Og fréttasjónvarp er einmitt leikhús eins og annað sjónvarp.

Fólk horfir á skjáinn og því finnst það sjá veruleikann, af því að fréttirnar virðast gerast á skjánum. Það gerir sér ekki grein fyrir, hvort fall verðbréfa í Wall Street er sambærilegt við hrunið á undan kreppunni miklu, þegar það horfir á leikþátt eftir Yngva Hrafn.

Í Bandaríkjunum hafa margir lengi haft afar arðbæra vinnu við að framleiða ímynd vöru, þjónustu, fyrirtækja, skemmtifólks, leikara og stjórnmálamanna. Hér á landi er þessi atvinnugrein að skjóta rótum. Við því er ekkert að segja ­ annað en að vekja athygli á því.

Um þetta gildir hið sama og um önnur neytendamál, að fólk verður að læra að umgangast sjónvarp og aðra framleiðendur ímynda af meiri varúð. Fólki er til dæmis skynsamlegt að hætta að ímynda sér, að fréttir í sjónvarpi séu áreiðanlegri en fréttir á prenti.

Sjónvarp er í eðli sínu fremur afþreying eða leikhús, en ekki fréttamiðill eins og dagblöð. Sjónvarpið er mikilvægur þáttur í breytingunum, sem bandarísku fræðimennirnir voru að hugsa um, þegar þeir fundu orðið “eftirlæsi” til að lýsa nýju menningarástandi.

Ef fólk nær áttum, er ástæða til að vona, að eftirlæsi verði hér ekki alls ráðandi og að ímyndir í leikhúsi sjónvarps muni ekki stjórna viðhorfum fólks til skaða.

Jónas Kristjánsson

DV

Vafasamir umbótamenn

Greinar

Hvarf Íslendinga frá kaþólsku til lútersku var áður fyrr oft nefnt “siðbót”. Þær leifar af hlutdrægni sigurvegarans hurfu að mestu fyrir nokkrum áratugum. Nú er breytingin jafnan réttilega kölluð “siðaskipti”. Það er skynsamlegt orð, sem felur ekki í sér hlutdrægni.

“Umbót” er hlutdrægt orð, sem er í tízku um þessar mundir. Deng hinn gamli í Kína og Gorbatsjov í Sovét ríkjunum eru kallaðir “umbótasinnaðir”, þótt ábyrgara væri að kalla þá “umskiptasinnaða”, því að þeir vilja breytingar, sem deila má um, hvort séu til bóta.

Blaða- og fréttamenn eiga að kunna að verjast tilraunum til að lita upplýsingar þeirra. Þess vegna er undarlegt að sjá í sjónvarpi, heyra í útvarpi og lesa í blöðum, að “umbótasinnar” hafi tekið við stjórnvelinum í Beijing og “umbótasinnum”Gorbatsjovs fjölgi í Moskvu.

Við skulum líta nánar á stefnu Dengs og þeirra manna, sem hann hefur stutt til valda í Kína. Hann hafði frumkvæði að stöðvun veggblaðanna í Beijing, þar sem fólk hafði getað sagt meiningu sína. Hann lét refsa höfundum blaðanna til að fæla aðra frá sömu iðju.

Tíbetbúar hafa ekki orðið varir við neinar umbætur af hálfu Dengs og hans manna. Þar í landi urðu í síðasta mánuði uppþot, er hin kínversku stjórnvöld bældu niður harðlega. Ekki eru séð nein merki þess, að menn Dengs hyggist bæta fyrir kínverska glæpi í Tíbet.

Lengst af voru Tíbetar sjálfstæð þjóð og bjuggu við afar sérstæða menningu munklífis. Kínverski herinn réðst inn í landið 1950 og innlimaði það í Kína. Í menningarbyltingunni 1966 voru um 6000 klaustur skemmd og eyðilögð til að útrýma þjóðareinkennum Tíbeta.

Uppþotin í síðasta mánuði sýna, að enn lifir í þjóðernisglæðum Tíbeta, á svipaðan hátt og Eistlendingar, Lettar og Lithaugamenn reyna að hlúa að þjóðerni sínu, þrátt fyrir sífelldar ofsóknir Kremlverja. Þau sýna líka, að valdhafarnir hafa ekki sett upp silkihanzka.

Hinar meintu umbætur Dengs felast ekki í virðingu fyrir sjálfstæðri hugsun í veggblöðum eða fyrir sjálfsákvörðunarrétti kúgaðra þjóða. Þær felast fyrst og fremst í, að hann vill beizla gróðafíkn manna til að efla þjóðarhag, eins og gefizt hefur vel á Vesturlöndum.

Umskiptastefnur Dengs og Gorbatsjovs miða ekki að auknu lýðræði og meiri mannréttindum. Þær eru aðferðir til að knýja meiri afköst út úr þjóðarbúskapnum með því að gefa þrælunum tímabundna og óvissa hlutdeild í hagnaðinum af auknum afköstum þeirra.

Einnig felast þær í auknu aðhaldi og eftirliti með, að settum markmiðum verði náð. Í því skyni vill Gorbatsjov til dæmis draga úr, að íbúar Sovétríkjanna eyði dýrmætum tíma til að drekkja sorgum sínum í vodka. Þetta á að fá þá til að vinna meira og slóra minna.

Hugsanlegt er, að einstök atriði breytinganna í Kína og Sovétríkjunum megi flokka undir umbætur, ekki sízt bætt samskipti við umheiminn. Séu þær hins vegar skoðaðar í heild, er traustara að forðast fullyrðingar um, að breytingarnar feli í sér “umbótastefnu”.

Erfitt er að hugsa sér sem umbótasinna þá valdhafa, sem kúga fólk í svipuðum mæli og fyrirrennararnir gerðu og eru næstum eins hættulegir umhverfi sínu og fyrirrennararnir voru. Allra sízt ættu lífsreyndir fjölmiðlungar að falla í slíka gryfju hugsanaletinnar.

Íslenzka lúterskan bauð af sér betri þokka, en verður þó að sæta því raunsæi í orðavali að vera ekki lengur kölluð “siðbót”, heldur eingöngu “siðaskipti”.

Jónas Kristjánsson

DV

Stór og tíð friðarskref

Greinar

Skammt er nú stórra högga milli í samningum heimsveldanna tveggja um aukið öryggi. Í september var undirritaður samningur um gagnkvæmar öryggis- og aðvörunarstofnanir. Og í næsta mánuði á að skrifa undir bann við skamm- og meðaldrægum kjarnaflaugum.

Ef þessir samningar virðast ætla að gefast vel, má reikna með, að fleiri geti fljótlega fylgt í kjölfarið. Fulltrúar heimsveldanna hafa rætt helmings minnkun langdrægra eldflauga, takmörkun efnavopna, samdrátt hefðbundinna vopna og friðarbelti við járntjaldið.

Þeir Gorbatsjov og Reagan munu væntanlega undirrita 7. desember samkomulagið um afnám skamm- og meðaldrægra kjarnorkuvopna, sem þeir voru næstum búnir að ná í Reykjavík fyrir rúmu ári. Toppfundur hefði ekki verið boðaður, ef slíkt stæði ekki til.

Mikilvægi september- og desembersamninga þessa árs felst einkum í, að þeir lengja svigrúm beggja til að íhuga viðbrögð, ef viðbúnaðartækni þeirra gefur vísbendingu um, að hinn aðilinn hafi gert árás. Þannig verður dregið úr líkum á tæknilegum mistökum.

Sameiginlegar stofnanir í höfuðborgum heim- og meðaldrægra flauga eyðir hættunni, sem skemmstan flugtíma hefur. Hvort tveggja eflir raunsætt mat á hugsanlegu hættuástandi.

Margs er að gæta við þessa samningagerð. Reynslan hefur sýnt, að stjórn Sovétríkjanna brýtur stundum gegn gerðum samningum, ef hún telur sér það henta. Og stjórn Bandaríkjanna er ekki heldur yfir það hafin að flytja nýja og langsótta túlkun gamalla samninga.

Strangt og virkt eftirlit með efndum hlýtur að vera einn mikilvægasti þáttur allra slíkra samninga. Lengst af hafa menn óttazt ­ og ekki að ástæðulausu ­ að stjórn Sovétríkjanna væri ófáanleg til að samþykkja eftirlit, sem gengi nógu langt. Hún hefur kallað það njósnir.

Á Vesturlöndum hafa menn staðið fast á, að fráleitt væri að treysta sovézkum orðum um góðan vilja. Þess vegna þyrfti ákvæði um eftirlit með efndum, þótt það ylli herstjórum hugarangri. Sovétstjórnin virðist nú hafa gefið þetta eftir, svo að brautin er beinni en áður.

Með ströngu og virku eftirliti er meðal annars átt við rétt til reglubundinnar skoðunar á verksmiðjum og geymslum vopna og rétt til ákveðins fjölda óvæntra skyndiskoðana á hverju ári. Ef einhverjir telja þetta njósnir, verða þeir bara að sætta sig við þær.

Ef allt gengur þetta vel, má vona, að fyrr en síðar verði samið um helmings fækkun langdrægra eldflauga, um bann við framleiðslu, söfnun og notkun efnavopna og um samdrátt hefðbundinna vopna, einkum á viðkvæmum svæðum, svo sem á breiðu belti við járntjaldið.

Menn Gorbatsjovs í Moskvu hafa gefið ádrátt um, að Sovétstjórnin sé til viðræðu um alla þessa mikilvægu þætti aukins öryggis jarðarbúa. Við verðum að vona, að hugur fylgi máli og að þessi nýja stefna nái að festa rætur, þrátt fyrir andstöðu harðlínumanna í Kreml.

Með slíkum samningum draga Vesturlandabúar ekkert úr þeim rétti, sem þeir áskilja sér til að draga Sovétríkin til ábyrgðar fyrir hernaðinn í Afganistan, mannréttindabrot og svik við samninga, sem kenndir eru við Helsinki og Jalta, svo að örfá dæmi séu nefnd.

Með tíðum viðræðum heimsveldanna aukast ört horfur á, að í fyrsta sinn frá upphafi kjarnorkualdar hætti öryggi fólks að minnka og byrji að vaxa á nýjan leik.

Jónas Kristjánsson

DV

Of háir og of lágir vextir

Greinar

Stjórnmálamenn okkar, og þá ekki síður ráðherrar en aðrir, tala af töluverðu ábyrgðarleysi um vexti. Mætti ætla af orðum þeirra, að vextir séu fyrirbæri, sem Seðlabankinn eða einhver önnur opinber stofnun geti hækkað og lækkað með eins konar handafli.

Þeir sjá, að vextir og jafnvel raunvextir geta verið óþægilega háir. Við sjáum til dæmis vel í húsnæðisumræðunni, að vandinn felst að töluverðu leyti í, að íbúðaeigendum er ekki talið kleift að borga sömu vexti í húsnæðislán og kerfið borgar lífeyrissjóðunum.

Vextirnir, sem lífeyrissjóðirnir fá, eru byggðir á erfiðum samningum húsnæðisstjórnar ríkisins og sjóðanna. Þeir eiga að endurspegla markaðsvexti í þjóðfélaginu. Væru þessir vextir allt of lágir, gætu lífeyrissjóðirnir ávaxtað fé síns fólks á annan og skynsamlegri hátt.

Ríkið tekur svo á sig að niðurgreiða þessa vexti um þriðjung eða meira til venjulegs fólks og um meira en tvo þriðju til forréttindahópa verkamannabústaða. Þetta er svo dýr niðurgreiðsla, að reiknað er með, að eftir nokkur ár gleypi hún allt húsnæðisfé ríkisins.

Hins vegar sýnist erfitt að minnka þessa niðurgreiðslu og ókleift að afnema hana með öllu. Enda má segja, að fráleit sé slík arðsemi í húsnæðiskaupum, að hún standi undir raunvöxtum markaðarins. Á sama hátt er slík arðsemi ekki sögð vera í lánum námsmanna.

Útilokað er, að peningar geti borið núverandi raunvexti um aldur og ævi. Uppsafnaður arður þeirra næmi fljótlega miklu meiri upphæð en sem svarar öllum peningum þjóðarinnar. Núverandi raunvextir hljóta því að vera tímabundin blaðra, sem springur einhvern tíma.

Þetta er flókinn vandi, því að stjórnvöld geta ekki með handafli náð raunvöxtum niður í tölur, sem húseigendur, námsmenn og aðrir geta borgað. Til þess að geta lánað þarf nefnilega peninga. Af þeim er alls ekki nóg, svo sem auglýsingar bankanna sýna greinilega.

Hægt væri að nálgast eðlilega og greiðanlega raunvexti, ef jafnvægi væri í lánamarkaðinum. Við mundum þekkja slíkt jafnvægi á, að bankarnir auglýstu útlán sín og útlánakjör jafngrimmt og þeir auglýstu innlánin og innlánakjörin. Engum banka dettur slíkt í hug núna.

Við stöndum því andspænis þverstæðunni, að raunvextir eru í senn of háir og of lágir. Þeir eru ekki nógu háir til að framkalla svo mikinn sparnað, að nægilegt lánsfé myndist fyrir meintar lánsþarfir. Um leið eru þeir svo allt of háir, að ríkið þarf að niðurgreiða þá.

Ríkið gæti reynt að lina þessa spennu með því að hætta að niðurgreiða vexti og draga þannig úr eftir spurn lána. En margvíslegar ástæður valda því, að slík markaðshyggja er af öllum þorra fólks talin óframkvæmanleg frá félagslegu og menningarlegu sjónarmiði.

Í staðinn reyna ríki og Seðlabanki að hafa raunvexti hverju sinni eins háa og framast er unnt til að draga úr eftirspurn. Þetta hefur minnkað spennu, en aldrei nálgast raunverulegt jafnvægi. Miklu fleira þarf að gera til að draga úr eftirspurn, svo að vextir megi lækka.

Á þenslutíma þarf ríkið að draga úr eigin framkvæmdum og rekstri til að minnka samkeppnina um hið takmarkaða fjármagn. Sömuleiðis þarf ríkið að skrá gengi peninganna rétt, svo að innflutningsspenna magni ekki peningaþörf. Hvorugt er gert af nokkurri alvöru.

Meðan ríkið keyrir á fullu og gengi krónunnar er skakkt, verða raunvextir allt of háir og lágir í senn og verða ekki læknaðir með stjórnvaldi eða öðru handafli.

Jónas Kristjánsson

DV