Greinar

Frekjan er þjóðaróvinur

Greinar

Nýlega bað landssamband kartöflubænda landbúnaðarráðuneytið um að banna innflutning á kartöfluflögum, þar sem framleiðsla kartaflna hefði verið mikil innanlands í sumar. Ennfremur krafðist það útflutningsuppbóta, svo að minna magni þyrfti að henda á haugana.

Framleiðendur morgunkorns hafa ekki beðið um innflutningsbann til að sitja einir að markaðinum og ekki heldur beðið um útflutningsuppbætur, svo að þeir geti gefið útlendingum umframmagnið, sem Íslendingar vilja ekki kaupa. Milli þessara tveggja viðhorfa er hyldjúp gjá.

Annars vegar eru til í landinu menn, jafnvel heilar stéttir, sem telja þjóðfélagið skulda sér lífsframfæri. Ef þeim dettur í hug að framleiða eitthvað, telja þeir samfélaginu skylt að ábyrgjast kaup á öllu framleiðslumagninu og á verði, sem endurspeglar tilkostnað þeirra.

Á hinum, heilbrigða kantinum er fólkið, sem telur sér skylt að svara spurningum um, hvort neytendur þurfi á afurð þess að halda, í hvaða magni og á hvaða verði. Það verður að finna rétt svör, svo að framtak þess leiði ekki til gjaldþrots eða annars ófarnaðar.

Stjórnmálamenn hafa hér á landi reynzt mjög liprir við að styðja málstað fámennra og þröngra sérhagsmunahópa, sem vilja fá sitt fram á kostnað hins fjölmenna, en dreifða hóps neytenda og skattgreiðenda. Fáir stjórnmálamenn styðja í raun hina síðarnefndu.

Sláturhúsmálið á Bíldudal er dæmi um, að margir þingmenn eru reiðubúnir að heimta sérstök lög gegn gildandi lögum og reglugerðum um heilbrigðismál, svo að unnt sé að slátra á heimaslóðum og framleiða kjöt, sem neytendur séu síðan forspurðir látnir borða.

Eitt bezta dæmið um hina landlægu frekju sérhagsmunahópa var ferð nokkurra Austfirðinga að sjúkrabeði samgönguráðherra til að fá hann ofan af ráðagerð um að bjóða út framkvæmdir við flugvöllinn á Egilsstöðum. Þeir þóttust eiga forgang að verkinu.

Fyrri samgönguráðherra var sérfræðingur í dekri við sérhagsmuni af þessu tagi, enda nýlega helzti upphlaupsmaður Bíldudalsmálsins. Í Egilsstaðamálinu var hann að láta semja beint við nokkra heimamenn á grundvelli kostnaðaráætlunar, er hann datt úr embætti.

Nú er verið að bjóða verkið út. Árangurinn felst eins og venjulega í lægri kostnaði fyrir skattgreiðendur. Sérhagsmunir hafa vikið fyrir almannaheill í flugvallarmálinu, eins og þeir hafa raunar líka gert í sláturhúsmálinu. Hið heilbrigða sigrar öðru hvoru hér á landi.

Stundum verða heimamenn varir við kosti réttlætisins. Nýlega börðust Vestfirðingar gegn innrás steypustöðvarútibús frá Reykjavík. Nú verða þeir að viðurkenna, að nýja steypustöðin hefur kollvarpað einokun heimaaðila og lækkað byggingarkostnað á svæðinu.

Hrikalegasta dæmið um frekju sérhagsmunaaðila er hinn hefðbundni landbúnaður. Hann telur neytendum skylt að borða afurðir sínar og skattgreiðendum skylt að ábyrgjast tiltekið magn á tilteknu verði, ýmist með styrkjum, niðurgreiðslum eða útflutningsuppbótum.

Í þessu tilviki ráða sérhagsmunirnir. Neytendum er meinað að nota samkeppnisvöru frá útlöndum og skattgreiðendur eru látnir borga offramleiðsluna, ekki bara með styrkjum, niðurgreiðslum og uppbótum, heldur nú síðast einnig í flutningi kjöts á haugana.

Þannig er frekjan sumpart löggilt, en verður annað veifið að láta undan síga. Í öllum tilvikum er barátta gegn henni eitt brýnasta hagsmunamál þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Saurgerlasaga

Greinar

Nýlega var sendur hingað dýralæknir frá Evrópubandalaginu vegna hugsanlegrar sölu íslenzks dilkakjöts til Vestur-Evrópu. Hann skoðaði þrjú hin beztu af fimmtíu sláturhúsum landsins og taldi ekkert þeirra þriggja nógu gott að viðhaldi, aðstöðu og búnaði.

Okkar kröfur eru vægari, því að sautján sláturhús hafa löggildingu til að slátra sauðfé fyrir innlendan markað. Þau eru mjög afkastamikil, enda telur sláturhúsanefnd, að þau geti annað allri sauðfjárslátrun í landinu og raunar þótt víðar væri leitað.

Ýmsir þröngir sérhagsmunir valda því, að tvöfalt fleiri sláturhús til viðbótar, eða 33 alls, hafa undanþágu til rekstrar, þótt þau séu ekki frambærileg samkvæmt hinum vægu heilbrigðiskröfum, sem hér eru gerðar. Undanþágur hafa hreinlega verið veittar á færibandi.

Samanlögð afköst hinna samtals fimmtíu sláturhúsa landsins eru 43.450 fjár á dag. Í fyrra jafngilti það 19 daga notkun að meðaltali á ári. Þessi lélega nýting afkastagetunnar stuðlar að háum fjármagns- og rekstrarkostnaði og gerir slátrun afar dýra hér á landi.

Lýsing sláturhúsanefndar á undanþáguhúsunum er löng og ekki fögur. Víða er slátrað í gömlum kofum, jafnvel timburkofum, eða í fiskverkunarhúsum, sem tímabundið er breytt í sláturhús, með skaðlegum áhrifum á hvort tveggja, fiskvinnsluna og slátrunina.

Undanþágurnar eru veittar með pólitísku handafli. Stundum tregðast dýralæknar staðarins og yfirdýralæknir við að veita leyfin. Þá knýja þingmenn kjördæmisins landbúnaðarráðherra til að kreista út undanþágu. Það gerðist til dæmis í haust í Vík í Mýrdal.

Sláturhúsið á Bíldudal í Arnarfirði er hins vegar svo lélegt, að ráðherra treysti sér ekki til að keyra yfir dýralæknana, enda eru aðeins 30 kílómetrar frá Bíldudal til löggilts sláturhúss á Patreksfirði. Vegna þessa hafa nokkrir þingmenn gengið berserksgang við Austurvöll.

Undir forustu Eyjólfs Konráðs Jónssonar og Matthíasar Bjarnasonar var í skyndi búið til frumvarp til sérstakra laga um þetta hús. Ráðgert var að keyra málið í gegn á einum sólarhring með því að beita afbrigðum. Fjölmiðlar hafa skýrt rækilega frá gangi málsins.

Sem betur fer sáu ýmsir aðrir alþingismenn, að mál þetta var Alþingi til hinnar mestu vansæmdar. Þess vegna fékk Bíldudalsfrumvarpið ekki þann forgang, sem ráðgerður var, og málið féll á tíma. Nú er sauðfénu ekið skamman veg til slátrunar á Patreksfirði.

Upphlaupið skilur hins vegar eftir óbragð í munni. Það hefur hreyft ýmsum spurningum, sem ekki hefur verið svarað. Er til dæmis rétt hjá sumum þingmönnum, að sláturhús kaupfélaga megi að mati dýralækna vera skítugri en hin, sem eru í eigu hlutafélaga.

Þá er ekki síður athyglisvert, að í umræðunni á Alþingi taldi enginn þingmanna sig knúinn til að ræða málið frá sjónarhóli neytenda og með hagsmuni þeirra í huga. Af 63 þingmönnum voru margir fúsir að þjóna sérhagsmunum, en fáir fúsir að þjóna neytendum.

Í rannsókninni, sem væntanlega siglir í kjölfar upphlaupsins, verður vonandi fjallað um, hvort eftirlit með sláturhúsum og leyfisveitingar þeirra séu eða eigi að vera fyrir neytendur eða einhverja aðra og þá hverja. Einnig hvers konar handalögmál stjórni undanþágum.

Þótt málið hafi til þessa verið Alþingi til vansæmdar, er hægur vandi að veita umræðunni framvegis í þann farveg, að leiði um síðir til heilla fyrir landsmenn.

Jónas Kristjánsson

DV

Dagur hrakmennafélags

Greinar

Suður-Afríka hefur um langan aldur verið helzta hneykslunarhella Sameinuðu þjóðanna. Það stafar af, að þar í landi beitir fámennur hvítur minnihluti lög regluofbeldi og aðskilnaðarstefnu, þar á meðal búsetureglum, til að kúga fjölmennan meirihluta svartra.

Sameinuðu þjóðirnar amast hins vegar ekki við, að fámennur kommúnistaflokkur í Sovétríkjunum beiti þjóðir þeirra ofbeldi, sem í flestu er hliðstætt hinu suðurafríska. Lögmál hræsninnar hjá Sameinuðu þjóðunum veldur því, að Sovétfulltrúar bera höfuðið hátt.

Einfaldast er að bera Suður-Afríku saman við Eþiópíu. Í síðara landinu beitir fámennur stjórnarhópur þjóðina ofbeldi hers og lögreglu, skipuleggur nauðungarflutninga, þar sem þúsundir farast úr hungri, og drekkur viskí á meðan Vesturlönd stunda hjálparstörf.

Fulltrúar harðstjóranna í Eþiópíu þykja samt húsum hæfir í sölum Sameinuðu þjóðanna. Svo blindir eru Vesturlandamenn á varmenni þriðja heimsins, að jafnvel Amnesty gefur félögum sínum forskrift að skjallbréfi til Mengistu harðstjóra til að milda grimmd hans.

Öll fleðulæti í garð hrakmenna þriðja heimsins, hvort sem þau koma fram í skjallbréfum frá Amnesty eða í sölum Sameinuðu þjóðanna, staðfesta trú harðstjóranna á, að þeim sé í stórum dráttum kleift að halda áfram að kúga og kvelja þjóðir sínar, rupla þær og ræna.

Næst á eftir Suður-Afríku í óvinsældum hjá Sameinuðu þjóðunum er Ísrael, sem óneitanlega er orðið ofbeldisríki, þar sem gamlir hryðjuverkamenn í Likud-bandalaginu hafa náð hlutdeild í völdum og beita arabíska landa og nágranna ójöfnuði af ýmsu tagi.

Hins vegar er vanzi ráðamanna Ísraels sízt meiri en ráðamanna arabaríkjanna, sem mest hamast gegn Ísrael. Begin og Shamir og Sharon í Ísrael blikna í samanburði við Assad í Sýrlandi og Hussein í Írak, svo ekki sé minnzt á Khomeini í Íran og Kaddafi í Líbýu.

Raunar má segja, að um það bil 120 ríki Sameinuðu þjóðanna búi við meiri harðstjórn og ofbeldi en stjórn Ísraels stendur fyrir. Ráðamenn þessara ríkja hafa komizt til valda eða halda völdum á meira eða minna ólýðræðislegan hátt og margir á mjög hraklegan hátt.

Vesturlönd eiga að láta fulltrúa sína á vettvangi Sameinuðu þjóðanna neita að taka þátt í hræsninni, sem felst í síbylju samtakanna um Suður-Afríku og Ísrael og dauðaþögn þeirra um harðstjórn um það bil 120 ríkja þriðja heimsins, sem ráða ferðinni í samtökunum.

Sameinuðu þjóðirnar og ýmsar sérstofnanir þeirra, svo sem menntastofnunin Unesco, hafa smám saman verið að breytast úr musterum í ræningjabæli. Þar hefur allt fyllzt af umboðsmönnum harðstjóra, sem ekkert lýðræðislegt umboð hafa til valda í aðildarríkjunum.

Bandaríkin og Bretland gengu úr Unesco og flest önnur Vesturlönd fóru að andæfa gegn stjórnarháttum M’Bows framkvæmdastjóra. Slíkt andóf þarf að efla og færa yfir á vettvang allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, ýmissa nefnda samtakanna og sérstofnana þeirra.

Vesturlönd mega ekki missa sjónar á grundvallarforsendu Sameinuðu þjóðanna, er lesa má í mannréttindasáttmála samtakanna. Þar má ljóst sjá, að stjórnir alls þorra þátttökuríkjanna vanvirða mannréttindi íbúanna, eins og þau eru skilgreind í mannréttindasáttmálanum.

Dag Sameinuðu þjóðanna er gott að nota til að minna Vesturlönd á að fá samtökunum breytt í upprunalega mynd eða ganga að öðrum kosti úr félagi hrakmenna.

Jónas Kristjánsson

DV

Bleika skýið er horfið

Greinar

Heimskreppa er ekki í aðsigi, þótt verðbréfamarkaðurinn í Wall Street hafi á mánudaginn var tekið dýfu, sem tölulega séð jafnast á við svarta fimmtudaginn á sama stað fyrir tæpum sex áratugum. Dýfan hefur stöðvazt og mun ekki hafa veruleg áhrif til skamms tíma.

Líkja má verðlagi pappíra í Bandaríkjunum við blöðru, sem einfeldningar, bjartsýnismenn og Reaganistar hafa verið að þenja út í fimm ár og hættulega mikið síðasta árið. Nú hefur blaðran verið sprengd og verðlagið hefur nálgast gráan raunveruleikann.

Reikna má með, að stjórn Reagans Bandaríkjaforseta geti ekki lengur flotið á bleiku skýi í fjármálum. Hún neyðist til að hefja baráttu við geigvænlegan halla á rekstri ríkisins og á utanríkisviðskiptum landsins. Hún lærir sennilega mánudagslexíuna frá Wall Street.

Fjölmiðlar í Bandaríkjunum og víðar hafa undanfarnar vikur spáð dýfunni, svo að hún átti ekki að koma á óvart þeim, sem hagsmuna hafa að gæta. Öll lögmál bentu til, að blaðran hlyti að springa fyrr en síðar, því að ekki er hægt að fljóta á bleiku skýi til eilífðarnóns.

Það var ekki aðeins í Bandaríkjunum, að verðlag hlutabréfa var komið langt fram úr afkastagetu bréfanna til arðgreiðslu. Einnig í Japan hlaut slík blaðra að springa og gerði það. En víða annars staðar í heiminum voru dýfurnar minni og jöfnuðu sig fljótt og vel.

Til langs tíma er aðalhættan sú, að útlendingar fái varanlega ótrú á fjárfestingu í Bandaríkjunum og dragi jafnvel til baka fjármagn, sem þeir hafa fjárfest þar. Slíkt mun hafa alvarleg áhrif á hagþróun vestra og á kaupgetu fólks, sem hefur vanizt að lifa um efni fram.

Sennilega hefur þetta lítil áhrif á helztu útflutningsafurð Íslendinga, freðfiskinn. Hann er matur, sem fólk vill og getur síður sparað við sig en margt af eyðsluvörunum. Fiskur verður því áfram keyptur og ætti að geta haldið eðlilegum verðhlutföllum, miðað við annan mat.

Þá eru ekki heldur teikn á lofti um, að dollarinn muni halda áfram að falla gagnvart hörðu gjaldmiðlunum og magna enn frekar þann halla okkar, sem stafar af tiltölulega mikilli sölu í dollurum og miklum kaupum í annarri mynt. Dollarinn hefur þegar fallið nóg.

Að sjálfsögðu þurfum við að fylgjast vel með þróun mála. Við rekum sérhæft atvinnulíf og erum þjóða háðastir viðskiptum við önnur ríki. Allar dýfur í viðskiptalöndunum eru óþægilegar. Verstar eru útblásnar blöðrur, sem springa skyndilega og jafnvel óvænt.

Vítahringur Bandaríkjanna var ekki flókinn. Gífurlegur viðskiptahalli rýrði gengi dollarans í sífellu. Gengissigið framkallaði vaxtahækkanir, sem gerðu hlutabréf arðminni en áður. Framan af neituðu menn að horfast í augu við þetta og fengu loks stóran skell.

Við getum lært af þessu hér norður í höfum. Við búum við gífurlegan viðskiptahalla, samfara krampakenndri fastgengisstefnu og ótrúlegri tregðu ríkisstjórnar við að draga saman seglin í ríkisrekstri. Við fáum af þessu efnahagslega skelli eins og Bandaríkjamenn.

Kauphallarhrunið getur orðið öllum ríkjum til góðs, ef menn læra af reynslunni. Bandaríkjamenn geta til dæmis farið að snúa sér að öflun tekna með samkeppnishæfri framleiðslu og að minnkaðri ofneyzlu. Og eftir rúmt ár fer Reagan forseti hvort sem er frá völdum.

Við Íslendingar megum svo hætta að trúa, að leiðtogar okkar geti komið okkur hjá óþægindum með því að reisa stíflur, er stöðvi framrás efnahagslegra fljóta.

Jónas Kristjánsson

DV

Unesco verður endurreist

Greinar

Í augsýn er hinn langþráði nóvemberdagur, er Amadou Mahtar M’Bow lætur af embætti framkvæmdastjóra Unesco, menntastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Við hlutverki hans tekur væntanlega Spánverjinn Federico Major, er ætti að geta endurreist Unesco.

Federico Major er líffræðingur, sem sneri sér að stjórnmálum á vegum spánskra jafnaðarmanna. Hann hefur gott orð á sér og er talinn geta tekizt á við hvort tveggja, stjórnleysið og spillinguna í stofnuninni, svo og andstöðu hennar við vestrænar lýðræðishefðir.

Þótt Major yrði á endanum eini frambjóðandinn í síðustu atkvæðagreiðslunni, fékk hann tuttugu mótatkvæði af fimmtíu. Það bendir til, að sumir harðstjórar þriðja heimsins geti hugsað sér að blása saman liði gegn honum á aðalfundi stofnunarinnar í nóvember.

Fulltrúar frá fimmtíu ríkjum áttu aðild að atkvæðagreiðslunni í stjórn stofnunarinnar. Á aðalfundinum verða fulltrúar frá öllum aðildarríkjunum 158. Á báðum stöðum eru í meirihluta lögreglu- og ofbeldisríki af ýmsu tagi, svo að málið er ekki alveg komið í höfn.

Herforingjastjórnin í Pakistan harmar fall frambjóðanda síns, hershöfðingjans Jakub Kahn. Hún er nú að reyna að tefla honum fram á nýjan leik til málamiðlunar og æsir í því skyni til andstöðu harðstjóra þriðja heimsins gegn Major sem vestrænu forstjóraefni.

Kahn hefði orðið betri forstjóri en M’Bow, enda væri leitun að manni, sem ekki væri það. Hins vegar geta Vesturlönd aldrei stutt til valda í Unesco fulltrúa ríkisstjórnar, sem brýtur gróflega gegn mannréttindum. Því verðum við að vona, að kjör hins spánska Majors standi.

Fyrstu viðbrögð brezku og bandarísku ríkisstjórnanna við úrslitum atkvæðagreiðslunnar í París eru dapurleg. Í stað þess að fagna niðurstöðum og gefa góð orð um, að þær gerist aðilar að Unesco á nýjan leik, hafa þær látið í ljós efasemdir um, að svo verði.

Auðvitað er eðlilegt, að útgönguríkin taki heimferðina rólega og fylgist með, hvort endurreisn og siðvæðing Unesco verður að veruleika, áður en þau ákveða endanlega að vera aftur með. En viðbrögð Bretlands og Bandaríkjanna hefðu mátt vera bjartsýnni og jákvæðari.

Þegar farið verður að taka til hendinni í Unesco, er gott að hafa með í ráðum þau ríki, sem ætlazt er til, að leggi mest fé af mörkum, og sem hafa einna lengsta reynslu allra ríkja af lýðræði og mannréttindum. Meira en nóg er af auralausu harðstjóraríkjunum í Unesco.

Brýnasta verkefni Majors verður að hreinsa til í starfsmannaskrá stofnunarinnar, einkum efst í henni. Losna þarf við hirðmenn M’Bows og aðra getuleysingja, sem hafa komið í stað hinna, er flúið hafa sukkið og svínaríið. Allt æxli M’Bows þarf að nema á brott.

Hitt fylgir svo í kjölfarið, að hætt verði að sóa fjórum krónum af hverjum fimm í rekstur höfuðstöðvanna í París og farið að nota meginhluta fjárins til að sinna hinum raunverulegu verkefnum stofnunarinnar, svo sem baráttu fyrir læsi og menntun í þriðja heiminum.

Einnig er tímabært, að Unesco hætti að þjóna hagsmunum harðstjóra. Stofnun M’Bows hefur mælt með einokun þeirra á upplýsingaflæði innan ríkja þeirra, til þeirra og frá þeim. Major hefur hins vegar spánska reynslu af Franco og hættum, sem fylgja slíkri einokun.

Fulltrúar Íslands í Unesco og stjórn þess eiga að vinna af alefli að staðfestingu á kjöri Majors og að árangri í miklu starfi, sem framundan er í menntastofnuninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hókus pókus

Greinar

Fjárlagafrumvarpið, lánsfjáráætlun ríkisins og þjóðhagsáætlun ríkisstjórnarinnar valda áhyggjum um velferð þjóðarinnar undir handleiðslu hinnar nýju ríkisstjórnar. Í gögnum þessum og ýmsum hliðargögnum eru meiri sjónhverfingar og minni hagfræði en ætlað var.

Spámenn ríkisstjórnarinnar tala um aðgerðir gegn sex milljarða viðskiptahalla á næsta ári og spámenn Verzlunarráðs tala um allt að tíu milljarða. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar gegn þessum vanda eru of vægar og munu ekki leiða til fullnægjandi minnkunar hallans.

Ráðherrar, sem standa fyrir umfangsmikilli prentun verðlausra peningaseðla á vegum Seðlabankans, fara villir vegar, ef þeir halda, að sífelldar yfirlýsingar þeirra um, að gengið verði áfram fast, séu teknir trúanlegar af þeim, sem taka þátt í kapphlaupi við gengislækkanir.

Stjórnin er að koma sér í þær ógöngur að neyðast til að halda dauðahaldi í fastagengið miklu lengur en hollt er, bara til að geta kennt öðrum um gengislækkunina, er hún kemur. Stjórnin mun segja, að þeir, sem spá gengislækkun, séu að biðja um hana og framkalla hana.

Hins vegar hefur ríkisstjórninni næstum tekizt að telja flestum trú um þá firru, að gerðir hennar stefni að hallalausum ríkisbúskap á næsta ári. Þá er einblínt á svonefndan A-hluta fjárlaga og neitað að horfast í augu við hallann, sem felst í lántökum ríkisins.

Ennfremur er of mikið af fjárlaganiðurskurði síðustu vikna fólgið í handahófskenndum lækkunum holt og bolt, sem ekki fela í sér neinar efnislegar aðgerðir, er tryggi, að hinn góði ásetningur verði að veruleika. Þetta er ekki lækning, heldur snyrting, það er sjónhverfing.

Reynslan sýnir, að pennastrik af þessu tagi leiða til aukafjárveitinga eða umframeyðslu, þegar til kastanna kemur. Við höfum gott dæmi af niðurgreiðslum landbúnaðarafurða, sem oft eru skornar niður í fjárlögum, en belgjast síðan aftur út í meðförum ríkisstjórnar.

Annars er fjármögnun landbúnaðarins bezta dæmið um vel heppnaða sjónhverfingu ríkisstjórnarinnar. Framleiddur hefur verið stormur í vatnsglasi, þar sem mikill fjöldi leikara hefur komið fram og grátið út af illri meðferð á landbúnaði í fjárlagafrumvarpinu.

Staðreyndin er hins vegar þveröfug. Milli ára hækka tveir stærstu landbúnaðarliðir frumvarpsins, niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur, um 700 milljónir eða tæplega 40%, sem er langt umfram verðbólgu milli ára. Aðrir liðir eru skiptimynt í samanburði við þessa tvo.

Í heild hefur verið reynt að gefa falska mynd af fjármálastefnu ríkisstjórnarinnar. Látið er í veðri vaka, að hún hafi í farangrinum hallalausan ríkisrekstur, fast gengi krónunnar, hóflegan viðskiptahalla þjóðarbúsins og niðurskurð hins hefðbundna landbúnaðarskrímslis.

Við raunsæju fólki blasir hins vegar önnur mynd, sem sýnir á næsta ári óvenjulega mikinn hallarekstur ríkisins, hastarlega gengislækkun krónunnar, methalla á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd og aukna byrði skattborgara og neytenda af hinum heilögu kindum og kúm.

Of snemmt er að spá, að allt fari þetta á versta veg hjá ríkisstjórninni. En óneitanlega er uggur við hæfi, því að allt of margt í fjármálaverkum stjórnarinnar ber meiri keim af sjónhverfingum en hagfræði og að á allt of mörgum sviðum er þetta tvennt í óskýrri blöndu.

Mikilvægast í stöðunni er, að fólk átti sig á ofangreindum hættum og láti ekki ráðherra komast upp með að láta sjónhverfingar leysa hagfræði af hólmi.

Jónas Kristjánsson

DV

Arias gegn róttæklingum

Greinar

Oscar Arias Sánchez er vel að friðarverðlaunum Nóbels kominn. Hann er forseti Costa Rica, herlauss ríkis á ófriðarsvæði Mið-Ameríku, og höfundur friðarsamkomulagsins 7. ágúst, sem varð grundvöllur aukins lýðræðis í Nicaragua, er áður var á leið til einræðis.

Arias er betur að verðlaununum kominn en þjóðarleiðtogarnir Corazon Aquino á Filippseyjum og Raul Alfonsin í Argentínu, sem eru meira eða minna undir hælnum á herforingjum ríkja sinna. Val Ariasar bendir til, að verðlaunanefndin hafi hugsað málið vandlega.

Róttæklingurinn Reagan Bandaríkjaforseti var seinheppinn um daginn, þegar hann reyndi á ýmsan hátt að lítillækka Arias við komu hans til Bandaríkjanna, meðal annars með því að láta ekki embættismenn vera viðstadda, þegar hann ávarpaði bandaríska þingið.

Friðarsamkomulag Ariasar var einnig undirritað af Ortega frá Nicaragua, Duarte frá El Salvador, Azcona frá Honduras og Cerezo frá Guatemala. Það leggur þessum Mið-Ameríkuríkjum ýmsar skyldur á herðar til að ná friði innan landamæra sinna og milli þeirra.

Hingað til hefur stjórn sandinista í Nicaragua framkvæmt það, sem hún lofaði í samkomulaginu. La Prensa, óháða dagblaðið, sem barðist áður gegn einræðisherranum Somoza og síðan gegn sandinistum, hefur hafið útgáfu að nýju og er að þessu sinni ekki ritskoðað.

Útvarpsstöð kaþólikka er aftur tekin til starfa. Talsmanni kaþólsku kirkjunnar, Bismarck Carballo, hefur verið hleypt inn í landið að nýju. Kardínálinn og stjórnarandstæðingurinn Miguel Obando y Bravo hefur verið gerður að formanni svokallaðrar Þjóðarsáttarnefndar.

Margt bendir til, að sandinistar séu meira að snyrta á yfirborðinu en undir niðri. Nýlega voru handteknir Lino Hernandez, formaður mannréttindanefndar landsins, og Alberto Saborio, forseti lögmannafélagsins. Lögregluhundum er sigað á mannréttindafundi

Þegar Cruz Flores frá La Prensa tók mynd 15. ágúst af lögregluhundum, sem sigað var á friðsamt fundar fólk, var filman gerð upptæk og ljósmyndaranum varpað í svartholið. Það er í ýmsu slíku afar grunnt á stalínismanum í sandinisma stjórnvaldanna í Nicaragua.

Sandinistar treysta völd sín með því að skipa hvarvetna hverfisnefndir sandinista, sem hafa tvenns konar hlutverk. Þær útdeila nauðsynlegum skömmtunarseðlum til sumra, en ekki annarra. Og þær gefa skýrslur til leyniþjónustunnar um stjórnmálaskoðanir fólks.

Raunar hafa sandinistar ekki lýðræðislegt umboð til að fara með völd í Nicaragua. Stjórnarandstaðan tók ekki þátt í síðustu kosningum, af því að sandinistar réðu öllum fjölmiðlum landsins og beittu slagsmálaliði til að hleypa upp fundum stjórnarandstöðuflokkanna.

Í þessum efnum skjóta sandinistar sér á bak við Reagan Bandaríkjaforseta. Þeir segjast verða að láta hart mæta hörðu, því að hann haldi uppi sveitum skæruliða í landinu. Þetta eru svonefndir Contras, hópar ribbalda undir stjórn glæpamanna frá Somoza-tímanum.

Bandaríkin ættu að reyna að bæta fyrir brot sín frá Somoza-tímanum með því að stuðla að friði í Nicaragua. Í staðinn bætir forsetinn gráu ofan á svart með því að halda uppi glæpasveitum Contras með löglega og ólöglega fengnu fé, meðal annars frá vinunum í Íran.

Arias verðlaunahafi hefur hins vegar sómann af að hafa tekizt að vinda lítillega ofan af ósómanum, sem róttæklingar Reagans og sandinista hafa undið upp.

Jónas Kristjánsson

DV

Gufuvélin er að springa

Greinar

Síðari atlaga ríkisstjórnarinnar að fjárlagahallanum er raunhæfari en hin fyrri. Í aðgerðum síðustu helgar er minna af sjónhverfingum en var í lotunni fyrir þremur vikum. Lagfæring fjárlagafrumvarpsins er því markverðari og áhrifameiri í þetta síðara skipti.

Ástandið er orðið svo alvarlegt, að sjónhverfingar nægja ekki lengur. Ríkisstjórnin hefur orðið uppiskroppa með töfrabrögð og telur sér sem betur fer skylt að mæta vandanum að hluta til með raunverulegum aðgerðum. Hún er farin að skera niður og skattleggja.

Í stórum dráttum má segja, að vandinn felist aðallega í, að þjóðin lifir um efni fram. Ríkið, fyrirtækin og fjölskyldurnar nota peninga, sem hafa ekki verðmæti að baki. Á næsta ári stefnir þessi þensla í viðskiptahalla, sem metinn hefur verið á sex til tíu milljarða króna.

Við þessar aðstæður verður að stíga hemlana í botn. Ríkið þarf að skera niður ráðagerðir um framkvæmdir og rekstur á næsta ári. Fyrirtækin verða að sæta tekjurýrnun vegna skattlagningar. Og fjölskyldurnar neyðast til að sætta sig við óbreyttan eða skertan kaupmátt.

Ef ríkisstjórninni tekst að láta aðgerðirnar gegn þenslunni koma tiltölulega jafnt niður á öllum þessum þremur aðilum, getur hún vænzt friðar um þær, ekki sízt ef ríkið verður látið bera sinn hlut að fullu. Nýja atlagan bendir til, að svo geti hugsanlega orðið.

Til að ríkið sæti nægu aðhaldi er brýnt, að umræðan um aukafjárveitingar leiði til nýrra vinnubragða, sem Magnús Pétursson hagsýslustjóri hefur bent á. Í kjölfar fjárlagafrumvarps þarf að leggja fram frumvarp til fjáraukalaga, sem afgreitt verði fyrir þinglok í vor.

Í raun þurfa ríkisstjórn og fjárveitinganefnd Alþingis að hafa nokkurn veginn frá degi til dags rétta hugmynd um, hvað er að gerast í ríkisfjármálunum og hver eru frávikin frá áætlun fjárlaga. Frávikin á að rekja í fjáraukalögum á sjálfu fjárhagsárinu, en ekki löngu síðar.

Sumar aukafjárveitingar eru eðlileg afleiðing breyttra aðstæðna, til dæmis í verðlagi eða kauptöxtum, í tilboðsverðum eða lagabreytingum. Aðrar stafa af skorti á aðhaldi í einstökum stofnunum eða skyndilegri gjafmildi ráðherra í skálaræðum á hátíðastundum.

Hvert svo sem eðli aukafjárveitinga er hverju sinni, mega þær ekki vera leyndarmál. Þær eiga skilið eðlilega umfjöllun ríkisstjórnar og fjárveitinganefndar, þar sem eru fulltrúar allra þeirra stjórnmálaflokka, sem sæti eiga á Alþingi, svo og opinbera umræðu í fjölmiðlum.

Til þess að ríkisstjórn, Alþingi og aðrir, sem um málið fjalla, geti hugsað og talað af fullu viti um stöðu ríkisfjármála, er brýnt, að fjárlagafrumvarpið nái yfir alla þætti ríkisins og stofnana á þess vegum. Deilur um jafnvægi í svokölluðum A-hluta þess segja of litla sögu.

Einnig er komið í eindaga, að ráðamenn þjóðarinnar átti sig á, að sífelldur niðurskurður félagslegra útgjalda og stöðug skattaukning leiðir til, að augu fólks beinast eindregnar að óeðlilegum forgangi niðurgreiðslna, uppbóta og annarra styrkja til hefðbundins landbúnaðar.

Með síðustu aðgerðum hefur ríkisstjórnin stigið léttilega á hemlana til að draga úr þenslunni, sem hótar sex til tíu milljarða viðskiptahalla og viðeigandi gengishruni krónunnar á næsta ári. Hér hefur verið bent á nokkur atriði, sem þurfa að fylgja, svo að árangur náist.

Efnahagsvél þjóðarinnar leikur nú á reiðiskjálfi. Draga verður snarlega úr þrýstingnum, áður en hún springur. Okkur er engrar annarrar undankomu auðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Andarslitur í áratug

Greinar

Íslendingar bera hluta ábyrgðarinnar á, hvernig komið er fyrir menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco. Við höfum ekki aðeins vannýtt hið heila atkvæði, er við höfum þar sem aðildarþjóð, heldur einnig stjórnarsætið, er við höfum haft þar allra síðustu árin.

Menntamálaráðherrar og ríkisstjórnir síðasta áratugar hafa ekki sér til afsökunar að vita ekki, hvað hefur verið að gerast í Unesco. Í rúm ellefu ár hefur í að minnsta kosti jafnmörgum leiðurum hér í blaðinu verið varað við öfugþróuninni í hinni heillum horfnu stofnun.

Valdamenn okkar hafa eins og valdamenn Norður landa og margra Vesturlanda ekki tekið Unesco nógu alvarlega. Þangað hafa verið sendir fulltrúar og stjórnarmenn, sem hvorki hafa taflgetu né harðfylgi til að etja kappi við glæpalið M’Bows framkvæmdastjóra.

Stjórnarmönnum Vesturlanda í Unesco og öðrum fulltrúum þeirra þar hefur mistekizt að finna frá þriðja heiminum frambjóðanda, er geti náð öruggu kjöri sem nýr framkvæmdastjóri menntastofnunarinnar. Fylgið gegn M’Bow hefur dreifzt á of marga frambjóðendur.

Í fyrstu atkvæðagreiðslum hefur næstur á eftir M’Bow komið pakistanski hershöfðinginn Jakub. Hann er auðvitað, eins og aðrir, illskárri en M’Bow. Eigi að síður er hann óviðeigandi, því að hann er fulltrúi herforingja, sem komu lýðræðislega kjörinni stjórn Pakistans á kné.

Leiðtogum þriðja heimsins er auðvitað flestum sama um slíkt, en Vesturlönd mega ekki sætta sig við framkvæmdastjóra af því tagi. Bezt hefði verið að fá mann frá þjóðum Suður-Ameríku, sem hafa verið að losa sig við harðstjórnir herforingja á undanförnum árum.

Enn er ekki loku fyrir það skotið, að samkomulag náist um ágætis mann á borð við Iglesias, utanríkisráðherra Uruguay. Horfurnar virðast samt mjög daufar, því að M’Bow trónir á tindi hverrar atkvæðagreiðslunnar á fætur annarri og hershöfðinginn nær öðru sæti.

Meira en áratugur er síðan öllum mátti ljóst vera, að M’Bow mundi rústa Unesco. Síðan hafa dæmin hvert á fætur öðru sannað kenninguna. Menntastofnunin rambar á barmi siðferðilegs og fjárhagslegs hruns. Stjórnarmenn hennar hafa ekki náð neinu taumhaldi.

Nær allir embættismenn, sem eitthvað hafa getað unnið, hafa flúið Unesco eða verið hraktir þaðan. Í staðinn hafa komið frændur M’Bows og aðrar pöddur, sem hafa það eitt hlutverk að verja veldi hans. Þremur fjórðu af peningum stofnunarinnar er sóað í Parísarsukk.

Hið litla, sem Unesco megnar að gera, er neikvætt. M’Bow hefur beint fé og kröftum stofnunarinnar að málum, sem auðvelda harðstjórum að kúga þjóðir þriðja heimsins, meðal annars með því að takmarka upplýsingaflæði og efla áróðursráðuneyti harðstjóra.

Unesco er beitt gegn mannréttindahugsjónum Vesturlanda. Þess vegna nýtur M’Bow mikils stuðnings meðal harðstjóra þriðja heimsins, arabaríkjanna og austurblakkarinnar, jafnvel þótt þeim sé ljóst, að hann er einnig búinn að koma menntastofnuninni á vonarvöl.

Seta íslenzks fulltrúa í stjórn Unescos á þessum hörmungatíma er okkur til vansæmdar. Við hefðum betur farið frá borði í tæka tíð, áður en við tókum ábyrgð á ósómanum. En raunar er þó aldrei of seint að játa sannleikann og ganga úr hinni vegavilltu menntastofnun.

Hinn nýi menntaráðherra okkar hefur því miður aðeins sagt, að Ísland taki aðild sína til endurskoðunar, ef M’Bow nær endurkjöri. Það er allt of vægt orðað.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðarstofnun á Íslandi

Greinar

Of snemmt er að gera því skóna, að alþjóðlegri friðarstofnun verði komið upp á Íslandi. Það er enn bara hugmynd, sem Steingrímur Hermannsson kom á framfæri við sovézka og bandaríska ráðamenn, er hann var forsætisráðherra. En henni hefur ekki verið illa tekið.

Frá okkar sjónarmiði er að flestu leyti gott að fá slíka stofnun hingað til lands. Auðvitað eru slæmar hliðar á því eins og raunar á öllum málum. Þær vega þó ekki þungt í samanburði við hinar góðu, auk þess sem unnt er að milda þær með því að vita af þeim fyrirfram.

Íslendingar eru yfirleitt andvígir sumu því tilstandi, er víða fylgir yfirstéttunum, sem ráða ferðinni í alþjóðlegum samskiptum. Hraðakstur bílalesta undir sírenuvæli er dæmi um fíflaskap, sem við munum ekki sætta okkur við sem fastan þátt í þjóðlífinu.

Unnt er að sætta sig við meiriháttar röskun af og til, ef við getum lagt eitthvað af mörkum til að gera fundi heimsleiðtoga árangursríka. En við venjulega fyrirmannafundi munum við frábiðja okkur fyrirgang á borð við þann, sem tengdist Nató-fundinum í sumar.

Hefðbundið mun vera, að ákveðinn hluti sendimanna heimsvelda starfi undir fölsku flaggi og sinni í raun njósnum. Við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af slíku og getum raunar litið svo á, að slík vinna hér á landi jafngildi í stórum dráttum sóun á starfskröftum.

Margt kemur á móti þessu, auk ánægju okkar af að hjálpa til við gagnlega vinnu í alþjóðlegum samskiptum. Alþjóðastofnun í Reykjavík mundi verða okkur eins konar gluggi að umheiminum, gera okkur heimsvanari og raunsærri í viðhorfum okkar til umhverfisins.

Einnig skiptir máli, að stofnunum af þessu tagi fylgja margvísleg störf, sem mörg hver hafa tilhneigingu til að vera hátekjustörf. Þau eru auk þess á sviðum, sem við þurfum að efla hjá okkur til að draga úr atvinnueinhæfni og verða fullgildir þáttakendur í nútímastörfum.

Loks má hafa í huga, að föst alþjóðastofnun treystir grundvöll ferðaþjónustunnar í landinu. Viðskipti hennar dreifast betur og jafnar yfir allt árið, svo að ekki þarf að miða fjárfestingu nærri eingöngu við afar stutta sumarvertíð. Jafnvægi er gott í þessu eins og ýmsu öðru.

Á þetta er bent hér til að hvetja ráðamenn til að taka á máli þessu af alvöru. Afleitt er, þegar Þorsteinn Pálsson forsætisráðherra svarar út í hött og raunar með hálfgerðum skætingi, þegar hann er spurður um, hvað hann sé að gera til að fá hingað nýjan toppfund.

Ísland verður ekki tíðari eða fastur vettvangur alþjóðlegra samskipta, ef okkar menn vinna að því með hangandi hendi. Margir aðrir staðir koma til greina, svo sem Vínarborg og Helsinki, þar sem góð reynsla er af mikilvægum ráðstefnum og toppfundum af ýmsu tagi.

Forseti Íslands, ríkisstjórn og utanríkisþjónusta eiga að stunda samræmda og öfluga viðleitni að áþreifanlegu marki á þessu sviði. Hin umrædda friðarstofnun austurs og vesturs er einmitt slíkt markmið. Henni verður fyrr en síðar komið á fót, ­ einhvers staðar í heiminum.

Í friðarstofnun verður væntanlega rætt um samdrátt kjarnorkuvopna, bann við eiturvopnum og stjörnustríði, samdrátt hefðbundinna vopna, herlaus landamærabelti og friðun hafsins. Ef til vill líka um aðgerðir gegn ozon-eyðingu og gegn annarri viströskun jarðar.

Okkur Íslendingum væri mikill heiður og ánægja af, að starf af slíku tagi tengdist á stöðugan og varanlegan hátt nafni landsins eða höfuðborgar þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Samið um öryggisventil

Greinar

Fáir tóku eftir heimssögulegum viðburði í síðustu viku, þegar utanríkisráðherrar heimsveldanna, Shultz og Shevardnadze, hittust til að undirbúa væntanlegan leiðtogafund í vetur. Þeir undirrituðu samkomulag um gagnkvæmar öryggis- og aðvörunarstofnanir.

Bandaríkjamenn munu koma slíkri stofnun á fót í Moskvu og Sovétmenn hliðstæðri í Washington. Markmið þeirra verður að draga úr hættu á, að slysni eða mistök leiði til kjarnorkustyrjaldar heimsveldanna, svo að fyrirvaralaust sé hægt að víkja af braut dauðans.

Samningur þessi er síðbúið en rökrétt framhald af aldarfjórðungs gömlum samningi um beina símalínu milli Kremlar og Hvíta hússins. Stofnanirnar tvær eiga að vera skipaðar mönnum, sem hafa þekkingu og aðstöðu til að grípa í taumana gegn sjálfvirkni stríðskerfa.

Nýi samningurinn var tímabær. Kjarnorkutækni hefur fleygt svo fram, að saman hefur skroppið tíminn, sem stjórnendur varnarkerfa hafa til að meta tölvuupplýsingar um, að árás óvinar sé hafin. Klukkutími fyrir aldarfjórðungi jafngildir fimm mínútum nú á tímum.

Þessi samdráttur tímans hefur breytt eðli kjarnorkuvopna. Áður voru þau fyrst og fremst regnhlíf, sem tryggðu frið. Vesturlönd notuðu tilvist vopna sinna til að hræða Sovétríkin frá útþenslustefnunni, sem hefur riðið húsum Rússlands frá því löngu fyrir byltingu.

Nú eru vopnin hins vegar orðin að ógn í sjálfu sér. Segja má, að atómbyssurnar skjóti sjálfar, því að mannshugurinn hefur knappan tíma til að meta tölvuskjámyndir, sem sýna árás, er svara þurfi samkvæmt fyrirfram gerðri áætlun. Þannig verður óvart stríð.

Símalína milli leiðtoga dugir ekki lengur, til dæmis að næturlagi á öðrum hvorum staðnum. Hinar nýju stofnanir eiga að mæta tímaskortinum. Þær eiga að gera sérfræðingum kleift að meta á augabragði rangar eða skakkar upplýsingar og hindra sjálfvirk viðbrögð.

Samningurinn um þær hefur ekki minna gildi en væntanlegur samningur um afnám skammdrægra og meðaldrægra eldflauga, því að miklu meira en nóg verður samt til af langdrægum kjarnorkuflaugum. Samningnum ber mun meiri athygli en hann hefur fengið.

Undirritun hans í síðustu viku styrkir vonir um tryggari framtíð mannkyns. Honum hafa líka fylgt lausafréttir um, að minna bil en áður sé milli heimsveldanna á ýmsum sviðum viðbúnaðar. Meðaldrægu og skammdrægu eldflaugarnar eru bara hluti málsins.

Líklegt er, að í framhaldi þess eldflaugasamnings geti heimsveldin náð samkomulagi um helmings fækkun langdrægra eldflauga og síðan enn meiri fækkun þeirra. Einnig er farið að ræða í alvöru um hugsanlegt afnám efnavopna og fækkun hefðbundinna vopna.

Eitt bjartasta ljósið á slökunarhimninum eru hugmyndir um að búa til 150 kílómetra breitt vopnalaust svæði á mörkum Austur- og Vestur-Evrópu. Slíkt belti mundi lengja mjög tímann, sem þarf til undirbúnings árásar og gera ókleifar leiftursóknir á landi.

Ef samningamylla heimsveldanna fær að mala hægt og örugglega næstu mánuði og misseri, eru mestar líkur á, að jörðin verði mun traustari mannabústaður en hún er nú og að aukið fé verði aflögu til friðsamlegrar uppbyggingar og aukinnar velmegunar víða um heim.

Sumt af þessu gerist, án þess að blásið sé í fagnaðarlúðra. Kyrrlátur samningur síðustu viku um öryggisstofnanir í Moskvu og Washington er gott dæmi um slíkt.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjónhverfingar sameina

Greinar

Um helgina kom í ljós, að nýja stjórnarsamstarfið er traust. Ríkisstjórnin mun sitja langt fram eftir kjörtímabilinu. Hún mun ekki láta innri ágreining á sig fá, heldur leita sátta í allra ódýrustu lausnum. Það sýnir sjónhverfingameðferð hennar á fjárlagahallanum.

Um tíma leit svo út, að fjárlagasmíðin yrði ríkisstjórninni að fótakefli. Fjármálaráðherra lagði þunga og leikræna áherzlu á alvöru málsins og setti fram skynsamlegar hugmyndir um minnkun vandans. En síðan beygði hann sig fyrir svokallaðri pólitískri nauðsyn.

Í heimi stjórnmálanna þýðir ekki að tala mikið eða lengi um afnám niðurgreiðslna á forréttindavöxtum og landbúnaðarvörum. Þar hrista menn höfuðið yfir tillögum um hægari ferð í ljúfum málum á borð við sjúkrahús og skóla eða heilögum málum á borð við vegi og risnu.

Ríkisstjórnin hefur sætzt á að minnka hinn formlega fjárlagahalla niður í 1,2 milljarða króna, sem er 2% af fjárlögum. Það væri ágætis árangur, ef hann hefði einkum náðst eftir öðrum leiðum en sjónhverfingum. Og hann segir ekki alla söguna um hallarekstur ríkisins.

Tölurnar, sem sífellt hefur verið fjallað um, ná eingöngu yfir A-hluta fjárlaga. Þær fela hvorki í sér B-hlutann, þar sem ríkisfyrirtækin eru, né C-hlutann eða lánsfjárlögin, þar sem hallarekstur ríkisins og fyrirtækja þess hefur yfirleitt verið og er enn falinn.

Opinber umfjöllun fjármálaráðherra og ríkisstjórnar ber ekki með sér neinn skilning á samhengi lánamarkaðarins í heild. Í ríkisstjórninni er rætt um að miðstýra leigukaupum í þjóðfélaginu út af fyrir sig, án þess að fjallað sé um þau sem þátt í almennu lánahungri.

Ríkisvaldið og aðrir aðilar keppast um að komast yfir lánsfé. Ríkið ber sjálft fulla ábyrgð á sínum hluta þess kapphlaups. Þegar aðrir aðilar nota erlenda peninga í leigukaupum, eru þeir sumpart að víkja fyrir þrýstingi af fyrirferð ríkisins á innlendum lánamarkaði.

Ríkið ætti auðvitað að sjá lánahungrið í heild og stuðla að jafnvægi framboðs og eftirspurnar á peningum, í stað þess að einblína á eina afleiðingu þess, leigukaupin. Og auðvitað ætti ríkið á þenslutímum að vega á móti þenslu með því að draga úr eigin lántökum.

Dapurlegt er að horfa á fjármálaráðherra segja hæfilega vexti ríkisins til lífeyrissjóða vera 3-4% ­ á sama degi og hann sendir bréf til fólks, þar sem hann grátbiður það um að lána ríkinu fé á 8,5%. Þessi gífurlegi munur verður ekki skýrður með misjöfnum lánstíma.

Eini sjáanlegi niðurskurðurinn á ráðgerðum útgjöldum ríkisins á næsta ári er á niðurgreiðslum vaxta á húsnæðislánum, enda var áður búið að áætla þessi útgjöld upp úr öllu valdi. Eftir niðurskurðinn verða þessi útgjöld í rauninni meiri á næsta ári en þessu ári.

Dæmigert fyrir sjónhverfingar í niðurskurði fjárlagafrumvarpsins er, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að skera 600 milljónir jafnt á línuna. Gömul og ný reynsla segir, að þetta felur ekki í sér neinn niðurskurð áþreifanlegra verkefna, heldur meiri vanáætlun útgjalda.

Grunsamlegt er, að ríkisstjórnin hefur skorið niður 800 milljónir með því að finna “skekkju” í fyrri útreikningum, þar af 200 milljónir í niðurgreiðslum landbúnaðarafurða og 600 milljónir í tekjuskatti. Tölvur ríkisins hafa líklega verið taugaveiklaðar eða timbraðar!

Meginatriði þessara reikniæfinga er, að þær fela ekki í sér niðurskurð ríkisútgjalda, heldur eru þær sjónhverfingar, sem ætlað er að sameina ríkisstjórnina.

Jónas Kristjánsson

DV

Wörner eða Willoch

Greinar

Við valið milli Manfred Wörner og Kåre Willoch sem framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins þurfa ríkisstjórnir aðildarríkjanna að sjá yfir tímamótin, sem nú eru í sögu þess. Um leið verða þær að reyna að losa bandalagið við elligigtina, er hrjáir það.

Hafa þarf í huga, að keppinauturinn, Varsjárbandalagið, lýtur nú mun betri forustu. Hvort sem menn telja, að Gorbatsjov Sovétleiðtogi sé að leiða Sovétríkin og fylgiríki þeirra til betri vegar eða ekki, er ljóst, að hann er snjallari í áróðri en vestrænir leiðtogar.

Reiknað er með, að Gorbatsjov og Reagan Banda ríkjaforseti undirriti í vetur sáttmála um afnám skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkuflauga. Breytingin mun hafa áhrif á stöðu Vestur-Evrópu og kalla á ný viðhorf í varnarbandalagi vestrænna ríkja.

Engum, sem fylgdist með fundi Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík í sumar, gat dulizt, að þreyta og ellimæði hrjáir samtökin. Forustumenn Nató horfðu eins og glópar, sem klóruðu sér, þegar Gorbatsjov skoraði hjá þeim hvert áróðursmarkið á fætur öðru.

Formlega séð hafa Sovétríkin gefið eftir miklu meira en Bandaríkin í viðræðunum um kjarnorkusamdrátt. Efnislega er jafnræði í eftirgjöfum, því að kapphlaup Sovétríkjanna hefur verið hraðara í rúman áratug. En eftirgjafir Gorbatsjovs hafa komið Nató á óvart.

Í sumum tilvikum hafa fulltrúar Sovétríkjanna tekið upp gamlar tillögur frá Bandaríkjunum eða Atlantshafsbandalaginu og gert að sínum, en Nató-menn hafa átt erfitt með að kannast við eigin króga. Þeir hugsa hægt, eins og aldraðir embættismenn og herforingjar.

Afleiðingin er, að Atlantshafsbandalagið hefur glatað trausti víða í aðildarríkjunum. Þetta traust þarf bandalagið að endurheimta með því að breyta forustunni. Hún þarf að geta brugðizt á virkan hátt við framtaki Gorbatsjovs og allra helzt tekið sjálf frumkvæðið.

Manfred Wörner, varnaráðherra Vestur-Þýzkalands, er einn herfræðinganna á Vesturlöndum. Það þýðir, að hann talar tungumál gamlingjanna í aðalstöðvum Nató. Hann hefur lent í að fara undan í flæmingi með margvíslegum efasemdum gagnvart frumkvæðinu að austan.

Verið getur, að Bandaríkjastjórn sé að gera mistök með því að semja um algert afnám skammdrægra og meðaldrægra eldflauga og að þrýsta Vestur-Þýzkalandi til að gefa eftir Pershing-flaugarnar. En það virðist búið og gert. Málstaður Wörners tilheyrir liðinni tíð.

Kåre Willoch, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, hefur hins vegar reynzt einn leiknasti stjórnmálamaður Vesturlanda. Hann hefur átt auðvelt með að sætta ólík sjónarmið og er fljótari að hugsa en flestir aðrir. Hann er réttur maður í réttu vandræðamáli.

Atlantshafsbandalagið þarf að geta nýtt sér til fulls hið jákvæða í stefnubreytingu Sovétríkjanna og áttað sig á svipstundu á hinu neikvæða, svo að ekki sé ætíð of seint í rassinn gripið. Samtökin þurfa menn, sem geta teflt skákirnar við Sovétríkin til góðs.

Nató þarf líka menn, sem geta slípað samstarfið og virkjað það á ýmsa vegu. Sum dýr hugsjónamál eru orðin úrelt og ættu eð gleymast sem fyrst. Önnur mál eru jafndýr og bráðnauðsynleg, en skortir samstöðu þátttökuríkjanna. Allt bendir þetta á Willoch.

Wörner táknar meira af hinu gamalkunna og þreytulega, en Willoch er maður þeirra hæfileika, sem Atlantshafsbandalaginu eru allra brýnastir núna.

Jónas Kristjánsson

DV

Gorbatsjov skorar mörkin

Greinar

Undir stjórn Gorbatsjovs hafa Sovétríkin á síðustu vikum stigið mikilvæg skref, sem ekki eru sjónhverfingar. Þau fela í sér raunverulega slökun, sem vekur vonir um, að unnt verði að gera jörðina að friðvænlegri bústað en verið hefur um allt of langt skeið.

Á sama tíma hefur atburðarásin varpað óþægilegu kastljósi að Reagan Bandaríkjaforseta sem hættulegum hugsjónamanni, er standi í vegi heimsfriðar. Í hverju málinu á fætur öðru hafa Bandaríkin lent í vandræðum við að svara af viti slökunarskrefum Sovétríkjanna.

Sanngjarnt er þó að taka fram, að Sovétríkjunum bar að stíga fyrstu skrefin. Þau bera meira en helming ábyrgðar á vígbúnaðarkapphlaupi síðustu tíu­tólf ára. Og þau hafa áratugum saman ógnað umhverfi sínu með Brezhnevs-kenningunni um einstefnugötu sósíalisma.

Ennfremur er nauðsynlegt að taka fram, að á sumum sviðum hefur ekkert komið áþreifanlegt fram, sem bendir til mildaðrar afstöðu Sovétríkjanna. Hæst ber þar grimmdarstríð Rauða hersins í Afganistan. Sovézka friðarhjalið á þeim slóðum hefur reynzt innihaldslítið.

Heima fyrir virðist stjórnarfar Sovétríkjanna hafa mildazt. Aukizt hefur gagnrýni á einstök atriði kerfisins. Fleiri andófsmenn fá að flytjast úr landi. Hafnar eru tilraunir til að bjóða fram í kosningum fleiri flokksmenn en einn á hvert sæti, sem er til ráðstöfunar.

Í Persaflóa hafa Sovétríkin farið gætilega, þótt þau hafi reynt að skara eld að sinni köku, svo sem heimsveldi gera gjarna. Minna hefur farið fyrir þeim en Bandaríkjunum, sem hafa fetað áhættusama braut og orðið óbeinir fangar hernaðaraðgerða Íraks á sjó.

Sovétríkin hafa neitað að láta Nicaragua í té meiri olíu og tilkynnt í staðinn verulegan samdrátt þeirra viðskipta. Þetta spillir rekstri hernaðartækja sandinistastjórnarinnar og bendir til, að Sovétstjórnin geti hugsað sér að draga úr þrýstingi í Mið-Ameríku.

Á sama tíma fer stjórn Reagans fram á nærri tvöföldun hernaðarstuðnings við glæpalýð gamalla somozista, svokallaðra contra-skæruliða. Með þessu grefur Reagan undan tilraunum leiðtoga Mið-Ameríku til að fá fram fylgt friðarsamkomulagi þeirra frá 6. ágúst.

Þar á ofan hefur Reagan rekið hinn sérstaka Mið-Ameríkusendiherra Bandaríkjanna, Philip Habib, sem hefur langa reynslu af friðartilraunum, bæði þar og í Miðausturlöndum. Sök Habibs var að vilja lægja öldurnar, gegn vilja róttæklingsins í Hvíta húsinu.

Sovétstjórnin, sem lengi hefur verið andsnúin virku eftirliti með banni við kjarnorkuvopnum, hefur nú snúið við blaðinu og komið aftan að Bandaríkjastjórn, sem ekki virðist vita, hvaðan á sig stendur veðrið. Gorbatsjov hefur þar slegið væna pólitíska keilu.

Komið hefur í ljós, að Bandaríkin studdu virkt eftirlit í trausti þess, að Sovétríkin gerðu það ekki. Þegar blóraböggullinn hvarf, fengu þeir hland fyrir hjartað, sem vilja ekki, að sovézkir snuðrarar séu á ferli á hernaðarlega mikilvægum stöðum í Bandaríkjunum.

Allt bendir þetta til, að Reagan sé enginn bógur til að stjórna heimsveldi til kapps við Gorbatsjov í Sovétríkjunum. Reagan er haldinn róttækum hugsjónum, sem þvælast fyrir skynsamlegri hugsun, en Gorbatsjov er sem óðast að láta róttækar hugsjónir víkja fyrir viti.

Hið bjarta við þetta er, að Gorbatsjov er að festa sig í sessi og að Reagan mun eftir hálft annað ár víkja fyrir nýjum forseta, sem getur tekið á heimsvandamálum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gámar og útlendingar

Greinar

Þessa dagana er einu sinni sem oftar verið að reyna að fá útlendinga til að starfa í frystihúsunum, svo að þau komist yfir að varðveita aflann, sem berst að landi. Á sama tíma er verið að amast við, að fiskurinn, sem frystihúsin komast ekki yfir, sé fluttur út í gámum.

Veiðikvóti skipa, sem selja í gáma, er skertur um 10% af þeim hluta aflans. Þar á ofan er greitt sérstakt 90 aura gjald á hvert kíló af þorski og 25 aura gjald af öðrum fiski, sem fluttur er út í gámum. Fiskvinnslu-sölusamtökin eru að reyna að fá þessar álögur auknar.

Gjaldið er ólíkt öðru verðjöfnunargjaldi í sjávarútvegi. Það rennur ekki eftir árferði fram og til baka til þeirra, sem greiða það. Ísfiskútflutningurinn fékk til dæmis enga endurgreiðslu, þegar Þýzkalandsmarkaðurinn hrundi vegna hringormakvikmyndar í sjónvarpi.

Í gámamálinu hefur Vestmannaeyjabær fengið gert fyrir sig áróðursplagg, sem kallað er skýrsla. Höfundur þess hefur ítarlegar skoðanir á málinu og flytur þær ákaft, en lætur fylgja með tölur, til að menn haldi, að raunvísindi séu á ferð, en ekki þrætubókarlist.

Með áróðursplaggi þessu hefur Vestmannaeyjabær tekið málstað frystihúsa og fiskvinnslufólks gegn málstað útgerðar og sjómanna í hagsmunaárekstri þessara aðila. Kaupstaðurinn hefur skipað sér í sveit með einokunarsamtökum útflutningsfyrirtækja fiskvinnslunnar.

Þessum hagsmunaaðilum hefur tekizt að knýja fram gámaálögur á útgerð og sjómenn og vilja fá þær auknar. Þar með vilja þeir fá vernduð frystihús, sem hafa svo litla og lélega framleiðni, að þau geta ekki greitt nægilegt kaup til að fá íslenzkt fólk til starfa.

Með færslu fjármuna frá útgerð og sjómönnum til fiskvinnslu vilja frystihúsin geta staðið undir kostnaði við að útvega útlendinga til starfa, greiða ferðir þeirra og uppihald og almennt séð forðað sér frá því að takast á við vanda lítilfjörlegrar framleiðni og lágs kaups.

Eitt helzta markmið okkar ætti að vera að efla atvinnugreinar, sem hafa gífurlega framleiðni og geta borgað sældarlaun, svo sem er í sjómennsku, en draga úr og breyta greinum, sem hafa dapra framleiðni og borga svo vond laun, að fá þarf útlendinga til starfa.

Lág laun í fiskvinnslu stafa af, að verðmætisaukningin er lítil. Ísfiskur selst til dæmis erlendis á sama verði og freðfiskur. Bezti fiskurinn selst á mun hærra verði sem ísfiskur. En lægra ísfiskverð er á ýmsum afgöngum, sem fiskvinnslan hendir í gáma vegna manneklu.

Til að breiða yfir þessar staðreyndir endurtaka talsmenn fiskvinnslunnar sífellt þá blekkingu, að hún sé fullvinnsla, en ísfiskurinn sé hráefni. Hið rétta er, að fiskvinnslan er að verulegu leyti bara geymsluaðferð, sem á í vök að verjast vegna bættrar flutningatækni.

Fiskmarkaðirnir nýju hafa breytt mati á verðgildi afla upp úr sjó og hvatt til nýrra framleiðslurása í fiskvinnslu, sem geta staðið undir markaðsverði á fiski. Slíkum mörkuðum mun fjölga og þeir munu knýja fram endurhæfinguna, sem fiskvinnslan vill forðast.

Fiskmarkaðir eru mun heilbrigðari vörn gegn óhóflegum gámafiski en skattlagning, kvótafrádráttur og aðrar kvaðir, sem færa fé frá arðbærri og launadrjúgri starfsemi yfir til hinnar þreyttu, sem vill verða kvígildi eða ómagi á borð við hefðbundinn landbúnað.

Mikilvægt er, að þjóðin verði á varðbergi gegn freistingum stjórnmálamanna, sem hneigjast til að þjóna hagsmunum útflutningshringa fiskiðnaðarins.

Jónas Kristjánsson

DV