Greinar

Bákninu tekið haustak

Greinar

Bezta eða skásta hlið hinnar nýju ríkisstjórnar felst í viðleitni Jóns Hannibalssonar fjármálaráðherra við að koma viti í fjárlagafrumvarpið, sem lagt verður fyrir Alþingi eftir mánuð. Hann kynnti ríkisstjórninni raunhæfar hugmyndir um þetta fyrr í vikunni.

Viðskilnaður fyrrverandi fjármálaráðherra, Þorsteins Pálssonar, var óvenjulega ömurlegur, þriggja milljarða halli á A-hluta fjárlaga á þessu ári og spá um hálfs fjórða milljarðs halla á A-hlutanum á næsta ári. Við þetta bætist svo halli á B og C hluta ríkisfjármála.

Jón hefur lagt til, að halli næsta árs verði skorinn niður úr hálfum fjórða milljarði í tæplega hálfan annan milljarð og að síðan verði ríkissjóður gerður út hallalaust árið þar á eftir, 1989. Hingað til hefur ríkisstjórnin talað um, að ná þessu marki á þremur árum.

Réttar eru röksemdir Jóns fyrir harkalegri viðbrögðum. Hinn mikli halli ríkisbúskaparins er veigamesti spennuvaldurinn í atvinnulífinu og grefur hratt undan áformum um stöðugt verðlag og fast gengi krónunnar. Þennan spennuvald verður að taka strax frá þjóðinni.

Æskilegast er að ná sem mestum hluta mismunarins með því að skera niður ríkisútgjöld. Þau eru því miður meira eða minna mörkuð ákveðnum verkefnum eða hafa tilhneigingu til að hækka sjálfvirkt. Þessa mörkun og sjálfvirkni þarf að afnema til að ná árangri.

Til dæmis verður að setja hömlur við smíði sjúkrahúsnæðis, sem ekki er hægt að reka. Einnig verður að setja sjúkrahúslið fjárlaga ákveðið hámark, til dæmis hundraðshluta af þjóðartekjum, og halda rekstrarútgjöldum innan rammans, þótt kveinað verði um allt land.

Annar liður, sem hingað til hefur haft siðferðilegt haustak á kerfinu, eru vegamálin. Einnig þar verður að setja framkvæmdum og rekstri eitthvert hámark, hundraðshluta af þjóðartekjum, og láta ekki óskhyggju eða aðrar fagrar hugsjónir trufla einbeittan niðurskurð.

Fjármálaráðherra hefur réttilega staðnæmzt við niðurgreiðslur búvöru sem vænlegasta niðurskurðarliðinn, heilan milljarð króna. Það hefur vakið lítinn fögnuð í hjörtum annarra ráðherra, sem yfirleitt gæta hagsmuna hefðbundins landbúnaðar gegn þjóðarhagsmunum.

Þeir benda á, að niðurskurður dragi úr sölu þessara afurða, og viðurkenna um leið, að niðurgreiðslur eru fyrir landbúnaðinn, en ekki neytendur. Þeir benda á, að söluminnkunin auki þörfina á útflutningsuppbótum, af því að ríkið tekur ábyrgð á öllu sukkinu.

Þessar ábendingar minna á, að fyrrverandi ríkisstjórn framdi undir andlátið verknað, sem líklega er lögbrot. Hún ábyrgðist kaup á einokunarverði á verulegu magni af kindakjöti og mjólkurafurðum, sem er langt umfram það, er þjóðin þarf að nota.

Að svo miklu leyti sem niðurskurður dugar ekki til að ná endum saman kemur til greina að hækka skatta. En þá verður ríkisstjórnin að gera sér grein fyrir, hvern hún telur vera eðlilegan hámarkshlut ríkisbáknsins af þjóðarbúskapnum. Sá hlutur er nú um þriðjungur.

Alltaf er freistandi að leysa mál ríkissjóðs með því að hækka skatta. Smám saman verður hlutur hans of hár og sligar undirbyggingu efnahagslífsins. Skattahækkanir hafa tilhneigingu til að enda með skelfingu. Um það eru ótal dæmi í veraldarsögunni, fyrr og síðar.

Miklu nær er að líta á þriðjung ríkisins sem hámark og skipta honum síðan í samræmi við handbært fjármagn, en ekki meintar þarfir, sem vaxa endalaust.

Jónas Kristjánsson

DV

Greindarlægð við Háaleiti

Greinar

Ef Reykjavíkurborg heimskast til að afhenda Iðnaðarbankanum hina umdeildu lóð á horni Miklubrautar, Háaleitisbrautar og Safamýrar, er líklegt, að borgin þurfi síðar að kaupa bankahúsið til niðurrifs, ­ ekki í þágu nágrannanna, heldur vegna umferðarslaufu.

Umferðarkerfið í Reykjavík er að hrynja. Misræmi flutningaþarfar og flutningagetu hefur í sumar orðið meira en það hefur verið í að minnsta kosti nokkra áratugi. Umferðarþunginn hefur reynzt vanáætlaður í meira lagi og á enn eftir að magnast verulega.

Reykjavíkurborg á erfitt með að létta hluta umferðarþungans af Miklubraut. Kleppsvegurinn er of afskekktur í borgarstæðinu. Svigrúmið við Bústaðaveginn er of þröngt, einmitt vegna þröngsýninnar, sem hefur lengi einkennt og einkennir enn borgarskipulag Reykjavíkur.

Tálsýnin um Fossvogsbraut er svo kapítuli út af fyrir sig. Þar skipulagði Reykjavík hraðbraut á útivistarsvæði Kópavogs. Borgaryfirvöld ímynda sér enn, að þau komist upp með þá óvenjulegu frekju, enda er borgarstjóri vanur að komast upp með ýmsan yfirgang.

“Þessari ákvörðun verður ekkert breytt”, getur borgarstjóri sagt við íbúa Safamýrar, sem hafa valið hann til embættis. En hann getur ekki sagt þetta við íbúa Kópavogs, sem hafa ekkert með borgarstjórann að gera og láta hann auðvitað ekki komast upp með moðreyk.

Niðurstaðan verður, að Miklabraut þarf að taka við meginhlutanum af austur-vestur umferðinni í borginni. Nú þegar er ástandinu bezt lýst sem hreinu öngþveiti, sem nær austur alla brautina, síðan áfram Vesturlandsveg og loks Suðurlandsveg upp undir Rauðavatn.

Tímabært er orðið fyrir borgarstjóra og hirðmenn hans að átta sig á, að líklegt er orðið, að öll gatnamót Miklubrautarássins þurfi um síðir að verða á brúm, allt vestan frá Umferðarmiðstöð austur í Smálönd. Líkurnar nægja til að kalla á, að land sé tekið frá.

Víða sjáum við slys, sem felast í, að leyft hefur verið að byggja á lóðum, sem síðan kom í ljós, að þurfti að nota til annars. Þrengslin við Bústaðaveg eru bara eitt dæmið um þetta. Komið hefur í ljós, að eitt alvarlegasta dæmið er nýi miðbærinn við Kringlumýrarbraut.

Opnun Kringlunnar hefur sýnt, að byggt hefur verið allt of þröngt á þessu svæði. Götur og bílastæði samsvara ekki þörfinni. Þetta er afar sérkennilegt, því að allt er þetta nýbyggt svæði og ætti að vera skipulagt í samræmi við þekkingu og reynslu líðandi stundar.

Við nýja miðbæinn hefur Reykjavíkurborg orðið að breyta of þröngu skipulagi, nýlegu, og setja flóknar slaufur og brú við erfiðar aðstæður í kringum benzínstöðvar Miklubrautar. Betra hefði verið að sýna framsýni á sínum tíma og taka frá land í þessu skyni.

Stóraukin verzlun í nýja miðbænum er einn mikilvægasti þáttur hins aukna álags á Miklubraut. Það mátti auðvitað sjá fyrir. Þetta gæti borgarstjóri nú séð eftir dúk og disk og sparað sér digurbarkalegar yfirlýsingar um bankabyggingu í slaufurými götunnar.

Hinn sérstæði stjórnunarstíll Reykjavíkur, þar sem kokhraustur borgarstjóri situr með jámenn eina í kringum sig, eilífðar-embættismenn á aðra hönd og beinleysis-borgarfulltrúa á hina, dregur úr möguleikum á, að unnt sé að sjá að sér og leiðrétta ranga kúrsa.

Þetta eru kjörnar aðstæður til að detta beint ofan af háaleiti hrokans niður í greindarlægð aukinna þrengsla við mikilvægustu umferðaræð borgarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Kveinað í heitum pottum

Greinar

Fyrir kosningar gaf Sjálfstæðisflokkurinn þjóðinni flugstöð við Keflavíkurflugvöll. Mikið var um dýrðir, þegar stjórnmálamenn og embættismenn stimpluðu í þjóðarsálina, hver væri gefandinn. Eftir kosningar hefur þjóðin smám saman verið að fá reikningana senda.

Þetta eru venjuleg vinnubrögð, sem hafa tíðkazt hér á landi áratugum saman. Stjórnmálaflokkarnir eru alltaf að gefa kjósendum eitthvað fyrir kosningar. Reikningar eru aldrei gerðir upp fyrr en að kosningum loknum. Þá kemur alltaf í ljós, að kjósendur borga.

Kröfluvirkjun hefur þá sérstöðu meðal gjafanna, að hún var svo dýr, að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið hafa ekki enn þorað að láta þjóðina borga. Krafla er enn að mestu ógreidd í skuld og bíður eftir greiðslugetu barna okkar.

Viðbrögð hins svokallaða almenningsálits eru ævinlega hin sömu. Í heitum pottum sundlauga og annars staðar, þar sem menn hittast á förnum vegi, er kvartað og kveinað út af framferði stjórnmálamanna. Svo kjósa kveinendur hina sömu leiðtoga í næstu kosningum.

Yfirgripsmesta og langdýrasta hneyksli stjórnmálasögu síðustu þriggja áratuga eru gerðir allra íslenzkra stjórnmálaflokka í hefðbundnum landbúnaði. Framsóknarflokknum er oftast kennt um þær, en aðrir flokkar bera þó á þeim nákvæmlega hina sömu ábyrgð.

Núverandi stjórnmálaflokkar, sem eiga fulltrúa á Alþingi, hafa annað hvort skipað ríkisstjórnir, sem hafa rekið stefnu móðuharðinda af mannavöldum í hefðbundnum landbúnaði, eða verið í stjórnarandstöðu, sem hefur heimtað meiri peninga í botnlausu hítina.

Kjósendum er að sjálfsögðu heimilt að verðlauna með stuðningi sínum hvern þessara flokka sem er. Hitt er undarlegt, að þeir skuli líka kvarta og kveina yfir því, sem þeir kalla yfir sig. Það sýnir starblindu þeirra sjálfra á eðlilegt pólitísk samhengi í lýðræðiskerfi.

Okkar þjóðskipulag reiknar með, að kjósendur taki þátt í stjórnmálaflokkum til að hafa áhrif á stefnu þeirra. Það gerir ráð fyrir, að þeir kjósi menn og stefnur, sem þeir telja mest til heilla. Og loks býst það við, að kjósendur láti ekki ljúga að sér nema einu sinni.

Íslenzkir kjósendur láta hins vegar gabbast hvað eftir annað. Í stað þess að sjá samhengið og taka afleiðingunum, safnast þeir saman í heita potta sundlauganna eða á öðrum stöðum og fárast út af eigin sök, hrista höfuðið út af leiðtogum, sem þeir hafa sjálfir endurkosið.

Síðasti samgönguráðherra hafði að lokaverkefni að gefa gæludýrum útboðsframkvæmdir við Egilsstaðaflugvöll. Bráðum verður farið að taka við hann viðhafnarviðtöl sem aldraðan stjórnvitring. Og eftirmaður hans hefur ekki enn stöðvað gæludýrin.

Íslendingar þurfa ekkert að furða sig á, að þeir fái boruð göt í gegnum fjöll, ef einhverjum stjórnmálamanni dettur í hug að gefa kjósendum sínum göt. Þeir þurfa ekkert að verða hissa, þótt byggður sé forljótur alþingiskassi til að gleðja forseta sameinaðs Alþingis.

Kveinendur heitu pottanna geta sjálfum sér um kennt, þegar þeir kvarta um, að leiðtogar séu að pexa um, hver hafi sagt hvað í hvaða sandkassa. Eða öllu heldur í hvaða bíltúr, því að þeir hafa verið í tízku í sumar. Það eru kjósendur, sem halda pexurum uppi.

Svo glápa menn eins og naut á nývirki, þótt ríkisstjórnin sé í hefðbundnum helmingaskiptum að finna jafnvægi í bankagjöfum til Sambands og Pilsfaldaliðs.

Jónas Kristjánsson

DV

Komið að skuldadögum

Greinar

Íslendingar nútímans geta ekki áfellzt forfeður sína á fyrri öldum fyrir að hafa kollvarpað gróðurjafnvægi landsins, fyrir að hafa nálega eytt skóginum og minnkað gróðurflötinn um helming. Þetta var samfelld sorgarsaga, en þjóðin átti öldum saman engra kosta völ.

Nú er öldin önnur og hefur raunar lengi staðið. Þjóðin á vel til hnífs og skeiðar. Miklu meira af matvælum er framleitt hér en við þurfum sjálf að nota. Munar þar mest um fiskinn, sem við seljum útlendingum og fáum fyrir flestar þekktar heimsins lystisemdir.

Þar á ofan höfum við áratugum saman búið við öfundsvert hungur í starfskrafta. Við þekkjum ekki lengur atvinnuleysisvofu erlendra þjóða. Þúsundir fólks vantar til að sinna arðbærum störfum, sem auglýst eru í fjölmiðlum. Ný verkefni blasa við á framtíðarvegi.

Við þessar aðstæður er komið að skuldadögum í viðskiptum þjóðar við landið sitt. Þjóðin er gengin svo langt götuna fram eftir vegi, að tímabært er orðið að snúa vörn í sókn, fara að skila landinu aftur því, sem forfeður okkar tóku af því í volæði fyrri alda.

Tilraunir okkar til landverndar og landgræðslu eru enn feimnislegar og fátæklegar. Viðskiptareikningur okkar gagnvart landinu er enn neikvæður um 1000 hektara á hverju ári. Á móti 2000 hektörum, sem við vinnum, töpum við 3000 hektörum út í veður og vind.

Allt of lítið gagn er í friðuðum reitum, sem víða hefur verið komið upp. Fjárbændur rífa bara niður girðingar og reka fé sitt hvert sem þeim þóknast, í krafti þess, að svoleiðis hafi það alltaf verið. Girðingamenn þora varla að æmta, af því að kindur virðast heilagar.

Kominn er tími til að taka til hendinni. Allar móbergsafréttir landsins þarf að alfriða fyrir ágangi húsdýra. Það á einkum við um miðhálendið og afréttir Sunnlendinga og Þingeyinga, sem sauðféð hefur leikið verst. Þetta svæði þarf að girða rammlega og rækta.

Langan tíma tekur að láta skóginn vaxa saman yfir Kjöl á nýjan leik. Víða þarf að nota lúpínu til að búa til jarðveg, svo að hefðbundinn gróður geti síðan numið land. Og ekki er skuldin fullgreidd, fyrr en kominn er skógur, sem bindur jarðveginn til langframa.

Alfriðun verulegs hluta hálendisins kallar að sjálfsögðu á mikla fækkun sauðfjár, að minnsta kosti helmings fækkun, enda þurfum við hvorki á að halda öskuhaugakjöti né framleiðsluhvetjandi og söluhvetjandi styrkjum á borð við uppbætur og niðurgreiðslur.

Mál hafa æxlast þannig, að sauðféð er á ofsakaupi við að eyðileggja landið. Með fækkun sauðfjár sparast stórfé í styrkjum og annarri fyrirgreiðslu. Þessa peninga má sumpart nota til að kosta hina nýju landgræðslu, nota þá til uppbyggingar í stað niðurrifs.

Um leið fást starfskraftar til að sinna margfaldaðri landgræðslu, að svo miklu leyti sem önnur arðbær störf í þjóðfélaginu kalla ekki á þá, sem nú sóa tíma sínum í sauðfjárhald á kostnað neytenda og skattgreiðenda. Allir liðir uppgjörsdæmisins við landið eru jákvæðir.

Við erum að svíkjast undan merkjum, þegar við látum líða hvert velmegunarárið á fætur öðru, hvert ofbeitarárið á fætur öðru, hvert offramleiðsluár kindakjöts á fætur öðru, hvert eftirspurnarár atvinnu á fætur öðru, ­ án þess að byrja að endurgreiða skuldina við landið.

Öll rök málsins falla á einn veg. Þjóðin verður að hrista af sér ok þjóðaróvinarins og gera upp skuld sína við landið, sem hefur fóstrað hana í ellefu aldir.

Jónas Kristjánsson

DV

Toppfundur í nóvember

Greinar

Síðasti hjalli viðræðna heimsveldanna tveggja um fækkun skammdrægra og meðaldrægra kjarnorkueldflauga hefur reynzt greiðfærari en reiknað var með. Bendir nú flest til, að samkomulag sé á næsta leiti og verði undirritað fyrir lok þessa árs, líklega í nóvember.

Þessi velgengni viðræðnanna um svokallaðar Evrópuflaugar er eðlilegt framhald af hinni óvæntu og jákvæðu stefnu toppfundar Gorbatsjovs og Reagans í Reykjavík fyrir ári. Þótt þar næðist ekki samkomulag, varð ljóst, að bilið milli aðila hafði þrengzt skyndilega.

Fyrir tæpu ári var talað um, að Reykjavíkurfundur heimsveldanna tveggja hefði farið illilega út um þúfur. Það var rangt mat. Sá fundur braut ísinn í afvopnunarviðræðunum og hefur gefið tóninn í margvíslegum eftirgjöfum, sem nú gera senn undirritun mögulega.

Ánægjulegast við gang viðræðna á síðustu vikum er, að eftirlit með efndum á samkomulagi virðist ekki ætla að verða ófær þröskuldur. Margir hafa alla tíð óttazt, að samkomulag mundi að lokum stranda á andúð ráðamanna Sovétríkjanna á virku eftirliti með vopnabanni.

Það létti mjög þennan þátt málsins, að viðræðurnar víkkuðu úr banni við Evrópuflaugum yfir í bann við öllum flaugum á umræddu sviði, þótt þær væru geymdar í Asíu eða Ameríku. Auðveldara er að fylgjast með efndum á algeru banni en svæðisbundnu banni.

Um leið kom í ljós, að leyniþjónustur Bandaríkjanna höfðu áhyggjur af of miklu svigrúmi Sovétríkjanna til að notfæra sér eftirlitsrétt til að stunda njósnir gagnvart Bandaríkjunum. Þetta deyfði bitið í kröfu Bandaríkjanna um mjög nákvæman eftirlitsrétt aðilanna.

Eftirlit með efndum getur verið af ýmsu tagi, til dæmis réttur til að skoða á reglubundinn hátt verksmiðjur og geymslur, þar sem hin bönnuðu vopn gætu leynzt. Einna mestu máli skiptir réttur til ákveðins fjölda óvæntra skyndiskoðana á hverju ári.

Æskilegast væri, að heimsveldin næðu samkomulagi um strangt eftirlit. Hins vegar er betra en ekki, að þau nái samkomulagi um virkt eftirlit, þótt ekki sé af strangasta tagi, til dæmis úrtakseftirlit eða sýnishornaeftirlit, ef ekki næst samkomulag um heildareftirlit.

Þungum steini var rutt úr vegi samkomulags, þegar kanzlari Vestur-Þýzkalands féllst á, að í kjölfar samkomulags heimsveldanna yrðu meðaldrægar kjarnorku flaugar Vestur-Þýzkalands lagðar niður í áföngum samhliða flaugum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna.

Í stórum dráttum má segja, að verið sé að semja um 2.000 kjarnaodda fækkun, 1.500 austan tjalds og 500 vestan þess. Þar með hefur klukka kjarnorkuviðbúnaðar verið færð aftur til ársins 1976, þegar Sovétríkin fóru að hraða kapphlaupinu með SS-20 flaugum sínum.

Hlutföllin í væntanlegu samkomulagi heimsveldanna tveggja eru sanngjörn í ljósi þess, að Sovétríkin hafa í rúman áratug verið mun harðskeyttari í kjarnorkuvígbúnaði en Bandaríkin. Vesturveldin hafa eftir sem áður ástæður til að hafa áhyggjur af öryggi sínu.

Enn er eftir að semja um 10.000 kjarnaodda, sem eru á langdrægum eldflaugum heimsveldanna. Einnig er eftir að semja um vaxandi yfirburði Sovétríkjanna í eiturvopnum og hefðbundnum vopnum og um stjörnustríðsáætlun Bandaríkjanna á sviði geimvarnavopna.

Undirritun á toppfundi í nóvemberlok um afnám 2.000 kjarnaodda skammdrægra og meðaldrægra eldflauga er því aðeins fyrsta skrefið af mörgum nauðsynlegum.

Jónas Kristjánsson

DV

Sumarsögur af sauðfé

Greinar

Snemma í sumar var rafmagnsgirðing rifin niður á Auðkúluheiði og rúmlega þúsund fjár hleypt inn á friðaðan tilraunareit. Umsjónarmenn reitsins forðuðust að skoða mörkin á sauðfénu og sögðu einfaldlega, að “ómögulegt væri að komast að því, hver gerði þetta”.

Fyrr í vor var fé hleypt á ólöglegum tíma inn á Austurafrétt í Suður-Þingeyjarsýslu. Landgræðsla ríkisins, sem hafði bundizt skyldum um að vernda svæðið, féll frá kæru í von um, að þetta gerðist ekki aftur. Sauðfjárbændur voru friðhelgir í þessum tveimur dæmum.

Sauðfjárbændur og sveitarstjórnin í Grafningi komu í sumar í veg fyrir, að jörðin Hlíð yrði keypt úr sauðfjárrækt og friðuð. Séð var um, að nýr ábúandi stundaði sauðfé. Grafningur er eitt mest beitta og lengst beitta dæmið um yfirgang sauðfjárræktar hér á landi.

Margir þeirra, sem um málið fjalla, velta sér kollhnísa til að draga úr broddinum gagnvart sauðfjárbændum. Landgræðslustjóri sagði nýlega sauðfjárrækt til afsökunar, að “náttúruleg gróðureyðing hefði alltaf orðið einhver”, þótt sauðféð hefði ekki komið til.

Það er eins og landgræðslustjóri haldi, að eldfjöll hafi ekki gosið fyrir landnám og ekki orðið öskufall. Það er eins og hann haldi, að ekki hafi orðið sveiflur í árferði fyrir landnám. Hvort tveggja gerðist fyrir landnám og var láglendið þó gróið saman yfir Kjöl.

Í ofbeit og uppblæstri á Kili komu í sumar fram kolagrafir frá fyrri tíma. Þær staðfesta orð gamalla bóka um, að áður fyrr var jafnvel uppi á hálendinu nægur skógur til að gera til kola á Kili. Gróðureyðingin stafar alls ekki af náttúrunnar völdum, heldur mannsins.

Hinn sami landgræðslustjóri, sem afsakar sauðfjárbeitina, neyðist til að sjá nálina étna, ­ að 2000 hektara árleg landgræðsla í landinu nægir ekki til að vega á móti 3000 hektara gróðureyðingu af völdum ofbeitar. Hið árlega tap landsins og hans nemur 1000 hekturum.

Verjendur sauðfjárræktar kenna ekki bara náttúrunni um ofbeit sauðfjárins, heldur líka hrossum þéttbýlismanna. Samt er sú þaulræktun hrossa, sem nú er stunduð í þéttbýli og strjálbýli, að nærri öllu leyti á ræktuðu landi og þá nær eingöngu sem sumarbeit.

Hinn óþarfi hluti hrossastofnsins er að verulegu leyti í eigu sömu manna og þeirra, er reka sem sauðfjárbændur rányrkju á gróðri landsins. Undir forustu þingmanna reka þeir stóð sitt á fjall eins og þeim þóknast, þrátt fyrir lagaákvæði. Þéttbýlismenn koma þar ekki nærri.

Auk þess að kenna eldfjöllum og hrossum um afrek sauðfjár hefur einnig verið reynt að skella skuldinni á jeppa, fjórhjól og jafnvel vélsleða. Er þó hreinn og beinn eðlismunur á útlitsmengun, sem getur fylgt þessari tækni, og á hreinni landeyðingu, sem leiðir af sauðfé.

Undanbrögð af ýmsu því tagi, sem hér hafa verið rakin, eru sett fram til að drepa málinu á dreif, svo að sauðfjármenn geti haldið áfram hinni þjóðlegu iðju að láta kindur sínar éta upp landið. Ofbeitin var líka skiljanleg áður, þegar þjóðin átti varla málungi matar.

Nú eru hins vegar aðstæður slíkar, að hvarvetna þarf þjóðfélagið fólk til starfa í alvöru atvinnugreinum. Ennfremur mundi lausum störfum fjölga, ef þjóðfélagið þyrfti ekki lengur að borga árlega stórfé í styrki, uppbætur og niðurgreiðslur til að halda uppi ofbeit.

Dæmi þessa sumars eru enn ein sönnun þess, að brýnasta mál lands og þjóðar er að fækka sauðfé með því að afnema hvers konar stuðning við ræktun þess.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinsælt vandræðabarn

Greinar

Eitt helzta vandræðabarn ríkisins, Útvegsbankinn, er skyndilega orðið að söluhæfri vöru, sem margir vilja eignast. Svo er fyrir að þakka samvinnuhreyfingunni, sem fyrir helgina lagði fram djarft og gilt tilboð í bankann, innan þess ramma, sem ríkið hafði sett sölunni.

Þeir, sem litu málefnalega á tilboð Sambands íslenzkra samvinnufélaga og fylgifyrirtækja þess, sáu, að því var ekki hægt að hafna, eins og fjármálaráðherra orðaði það réttilega. Samvinnuhreyfingin ein hafði boðizt til að taka Útvegsbanka-kaleikinn af ríkissjóði.

Tilþrif Sambandsins ollu framámönnum Sjálfstæðisflokksins nokkrum hugklofa með tilheyrandi geðshræringu. Annars vegar fól tilboðið í sér þátt í þeirri stefnu flokksins, að ríkið losaði sig við fyrirtæki sín. Hins vegar var kaupandinn ekki flokknum að skapi.

Þegar flokksbroddarnir höfðu auglýst vandræði sín á misjafnlega broslegan hátt, gafst þeim tími til að átta sig á, að eina vörnin í stöðunni fælist í, að einkaaðilar, sem flokknum væru þóknanlegri en gamli óvinurinn í SÍS, byðu ríkinu betur í hlutabréf bankans.

Fyrir hádegi í dag hófst fundur ríkisstjórnarinnar, þar sem fjalla átti um, hvernig hún eigi að meta biðlana, sem eru orðnir tveir. Fjárhagslega er skynsamlegast að selja bankann þeim aðila, sem bezt býður að lokum, en siðferðilega ætti SÍS að hafa forgang.

Þótt hinn nýi hópur útgerðarmanna og Iðnaðarbankamanna hafi boðið nokkru betur en SÍS-hópurinn, verður hið minnsta að gefa hinum síðarnefnda tækifæri til að hækka sig. Úr þessu getur orðið hið skemmtilegasta uppboð, afar nytsamlegt ríkissjóði.

Ekki dugir að hafna SÍS á þeim forsendum, að æskilegt sé, að bankinn verði í höndum margra. Ef litið er á Sambandið og fylgifiska þess sem einingu, væntanlega hlynnta Framsóknarflokknum, má líta á einkaframtakshópinn sem einingu, hlynnta Sjálfstæðisflokknum.

Raunar svipar samvinnuhreyfingunni að ýmsu leyti til almenningshlutafélags. Formlegir eigendur eru afar margir, skipta raunar tugum þúsunda. Ef tilboði Sambandsins verður tekið, munu eigendur að baki bankans skipta þessum tugum þúsunda einstaklinga.

Efnislega eru þeir að vísu álíka valdalausir og hluthafar almenningshlutafélaga. Í báðum tilvikum eru nærri öll völd í höndum stjórnenda fyrirtækjanna. Þeir “eiga” fyrirtækin, hvort sem þeir eiga formlega séð krónu í þeim eða ekki. Það gildir bæði um SÍS og hina.

Hið eina, sem skiptir ríkissjóð og skattgreiðendur verulegu máli, er að losna fyrir sem hæst verð við fyrirtæki, sem löngum hefur verið illa stjórnað og hefur hvað eftir annað þurft á að halda peningagjöfum og eftirgjöfum af hálfu hins sameiginlega sjóðs okkar.

Hitt er svo hliðaratriði, hvort þessu happi ríkissjóðs og þjóðar fylgir samruni í bankakerfinu, annað hvort Útvegsbanka með Samvinnubanka og Alþýðubanka eða með Iðnaðarbanka og Verzlunarbanka. Í báðum tilvikum rætist gömul og ný ósk stjórnvalda.

Menn hafa auðvitað misjafnar skoðanir á, hvort æskilegra sé, að þriðji stórbankinn við hlið Landsbankans og Búnaðarbankans verði banki einkaframtaks eða samvinnuframtaks. Ágreiningurinn má þó ekki hindra, að sá fái verkefnið, sem bezt býður.

Hvernig sem máli þessu lyktar, hefur SÍS aukið hróður sinn sem stofnun framtaks og áræðis. Stjórnendur þess þorðu, þegar aðrir tvístigu og horfðu í gaupnir sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Spennusig og spennuris

Greinar

Hafið hefur löngum verið mikilvægur þáttur í hervaldi. Grikkir byggðu landnám sitt á sæveldi. Rómverjar héldu heimsveldi sínu saman á skipum. Portúgalir og Spánverjar sigruðu heiminn á flotanum. Bretar tóku við sem flotaveldi og urðu helzta nýlenduþjóðin.

Eftir síðari heimsstyrjöldina voru Bandaríkin helzta flotaveldi heims, alls ráðandi á Atlantshafi og Kyrrahafi. Smám saman hafa Sovétríkin tekið upp þráðinn í samkeppninni. Þegar nýtt flotaveldi ógnar gamalgrónu flotaveldi, er líklegt, að spenna færist í leikinn.

Þegar rætt er um, að þungamiðjan í spennu flotaveldanna hafi færzt nær Íslandi, byggist það á hinum miklu flotastöðvum, sem Sovétríkin hafa komið upp við Kolaskaga. Barentshafið hefur leyst Eystrasalt og Svartahaf af sem langmesta flotahreiður heimsveldisins.

Um nokkurt skeið hafa Bandaríkin og bandamenn þeirra í Atlantshafsbandalaginu byggt viðbúnað sinn gegn hinni nýju ógnun á því að geta lokað svonefndu Giuk-hliði, en það er herfræðilegt nafn á hafþrengslunum milli Grænlands, Íslands og Bretlandseyja.

Eftirlitsstöðin á Keflavíkurvelli er hlekkur í varnar-eðju, sem liggur þvert yfir Atlantshaf frá Thule um Færeyjar til Skotlands. Sem slík er hún í senn hernaðarlega mikilvægur og hernaðarlega viðkvæmur staður, er hefur valdið miklum deilum hér heima fyrir.

Tilvist stöðvarinnar getum við og höfum afsakað með því að benda á, að um ómunatíð hafa menn ýmist myndað bandalög með nágrönnum sínum eða vinum. Í Atlantshafsbandalaginu erum við með nágrönnum okkar og þeim, sem við eigum mest sameiginlegt með.

Önnur þessara forsenda hefði út af fyrir sig verið nægileg, en við höfum þær báðar. Að vísu er vinskapur ríkja Atlantshafsbandalagsins stundum blendinn, þegar kemur að sumum hagsmunamálum. En þau hanga þó saman á að búa við skásta þjóðskipulag í heimi.

Hingað til höfum við tekið því með þolinmæði, er mikilvægi Keflavíkurvallar hefur verið talið aukast í takt við vöxt flotaveldis Sovétríkjanna við Kolaskaga. Við höfum fallizt á margvíslegar endurbætur, þar á meðal á smíði ratsjárstöðva í öllum landshornum.

Hugmyndir í Bandaríkjunum um að færa átakalínu flotaveldanna til norðurs frá svonefnda Giuk-hliðinu hafa ekki veruleg áhrif á hina hernaðarlegu spennu, sem segja má, að tengist Keflavíkurvelli og Íslandi. Líklegt er þó, að hún minnki fremur en vaxi.

Ef gert er ráð fyrir, að átök flotaveldanna verði í nágrenni Jan Mayen og Svalbarða, er Ísland komið í þægilegri stöðu en áður að baki hættulegustu víglínunni. Þess vegna getum við fagnað hinum bandarísku hugmyndum um nýja átakalínu í Atlantshafinu.

Þær valda því, að í bili eru horfur á, að spennan við Ísland minnki. Því miður er ekki við langvinnu spennusigi að búast. Önnur atriði og fjarlægari munu valda því, að hafið í heild verði enn mikilvægari vígvöllur en áður var, þótt hlutföll einstakra svæða breytist.

Ef risaveldin ná samkomulagi um mikla fækkun kjarnaodda á landi, er líklegt, að um tíma að minnsta kosti muni þau leggja stóraukna áherzlu á kjarnaodda sína í hafi, einkum þá, sem kafbátar þeirra bera. Þar með flytzt spennan í auknum mæli af landi og út á haf.

Tímabundið spennusig í hafinu umhverfis okkur getur fyrr en varir breytzt í nýtt spennuris, sem færir okkur ný úrlausnarefni í samskiptum við önnur ríki.

Jónas Kristjánsson

DV

Hóf er á örlætinu bezt

Greinar

Húsnæðislánakerfið má laga verulega með því að hætta að niðurgreiða vexti af lánum til annarra en þeirra, sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta skipti. Þeir, sem eiga íbúðir fyrir eða eru að minnka við sig húsnæði, eigi kost á húsnæðisláni með raunvöxtum.

Undanfarið hefur húsnæðislánakerfi ríkisins keypt peninga af lífeyrissjóðunum á 6,5% vöxtum og endurlánað þá á 3,5%. Niðurgreiðsla ríkisins nemur 3%, nærri helmingi raunvaxtanna. Þessi niðurgreiðsla er hugsuð sem aðstoð við ungt fólk, sem er nýlega byrjað á búskap.

Deila má um, hvort yfirleitt sé rétt að greiða niður raunvexti húsnæðislána, alveg eins og deilt er um raun vexti námslána. Í báðum tilvikum ríkir þó réttmætur pólitískur skilningur á, að ungu fólki reynist ella harðsótt að brjótast til mennta og festu í þjóðfélaginu.

Stefnan gengur hins vegar út í öfgar, þegar allir fá slík vildarkjör með sjálfvirkum hætti. Félagar í lífeyrissjóðum, sem fjármagna húsnæðislánakerfi ríkisins, fá sjálfvirkan aðgang að kerfinu á fimm ára fresti, þótt þeir séu að bæta við sig íbúð eða fara í minni íbúð.

Ógöngurnar eru orðnar slíkar, að samþykkt hefur verið umsókn frá manni, sem á fimm íbúðir fyrir. 1.200 lánshæfar umsóknir eru frá aðilum, sem hver um sig á fyrir yfir þrjár milljónir í skuldlausri eign. Samanlagt geta lán til þeirra numið hálfum öðrum milljarði króna.

Sóknin í ódýra lánsféð er orðin svo mikil, að tveggja ára biðtími er eftir lánum. Peningar þessa árs og hins næsta munu rétt rúmlega duga fyrir umsóknum, sem voru komnar fyrir 12. marz. Þeir, sem lögðu inn umsóknir í júnílok mega bíða úrlausnar fram á haustið 1989.

Svona fer gjarna, þegar reynt er að skipuleggja góðmennsku af hálfu hins opinbera. Menn sjá ekki fyrir hliðarverkanir og sitja uppi með meira eða minna ónothæft kerfi. Segja má, að húsnæðislánakerfi ríkisins sé risavaxin góðgerðastofnun án fjárhagslegs innihalds.

Samt er þetta nokkurn veginn nýtt kerfi, sem komið var á fót í tíð síðustu ríkisstjórnar í samvinnu við samtök launafólks og atvinnurekenda. Og raunar hefur það veitt stórauknu fé til húsnæðislána og stórhækkað lánin, svo að miklu fleiri en áður geta eignazt húsnæði.

Hins vegar var strax vitað, að kerfið hafði ekki fjárhagslegt bolmagn til að standa við háleitt markmið sitt. Þáverandi húsnæðisráðherra þoldi ekki að heyra slíkt og bolaði úr starfi þeim embættismanni, sem gaf almenningi beztar upplýsingar um raunverulega stöðu mála.

Þetta var Stefán Ingólfsson verkfræðingur, sem síðan hefur skrifað fjölda kjallaragreina um húsnæðismál í DV. Hinn nýi húsnæðisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur nú fundið upp á því snjallræði að ráða hann sem sérstakan ráðgjafa í húsnæðismálum.

Þetta er merkasta aðgerð hinnar nýju ríkisstjórnar og hefur þegar leitt til, að spilin liggja á borðinu, almenningi til sýnis. Félagsmálaráðuneytið hefur sent frá sér fréttatilkynningu, þar sem alvarleg staða og þver brestir kerfisins eru skýrð á auðskilinn hátt.

Lausn málsins felst ekki í að hrúga í húsnæðismálin meiru af opinberu fé, sem ekki er til. Lausnin hlýtur miklu fremur að vera sú að draga úr lánaþorsta eignafólks með því að krefja það um raunvexti. Þannig munu biðlistar grisjast og færri en ella bætast á þá.

Hinir niðurgreiddu vextir eiga að vera gjöf þjóðfélagsins aðeins til fólks, sem er að byrja lífsbaráttuna og er að reyna að eignast þak yfir höfuðið í fyrsta sinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitískur sumartími

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ekki fengið við upphaf ferils síns hinn venjulega tíma friðar og hvíldar, sem notið hafa flestar ríkisstjórnir, er myndaðar hafa verið í sumarfríi Alþingis. Þvert á móti hefur allt gengið á göflunum í kringum hana. Og þetta er af hennar eigin völdum.

Sjálfur stjórnarsáttmálinn vakti mikla óánægju langt út fyrir raðir stjórnarandstöðunnar. Síðan kom fálmið og fátið við framkvæmd og frestun fyrstu aðgerða. Landbúnaðurinn hefur fengið að leika lausum hala. Útgáfa spariskírteina og nýtt söluskattstig magna ófriðinn.

Merkilegt er, að ríkisstjórn skuli lenda í svona miklum hremmingum við upphaf ferils síns. Eiginlega ætti hún að vera mjög sterk. Hún hefur verulegan þingmeirihluta að baki sér og tiltölulega ósamstæða stjórnarandstöðu á móti sér. Hún ætti því að þora að taka á málum.

Um þessar mundir þarf þjóðin einmitt fumlausa ríkisstjórn, sem þorir. Óveðursskýin hrannast á loft. Verzlunarráð spáði fyrr í vikunni stóraukinni verðbólgu næstu árin, gengislækkun eftir áramót og átökum á vinnumarkaði í kjölfar verðbólgu og skattahækkana.

Álit Verzlunarráðs er óvenju harðort. Þar segir, að fyrstu aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skattheimtu gangi þvert á meginstefnu hennar í skattamálum. Ennfremur, að ekkert hafi verið stokkað upp í allt of dýrum velferðarmálum á borð við landbúnað og húsnæðislánakerfi.

Ríkisstjórnin hefur mest misstigið sig í landbúnaðarmálum og ríkisfjármálum. Óbreytt landbúnaðarstefna var fyrsta samkomulagsatriðið. Stjórnarsáttmálinn staðfesti nýja búvörusamninginn og fjögurra ára þrælkun neytenda og skattgreiðenda í þágu kinda og kúa.

Landbúnaðarráðherra hefur á fyrstu vikum ríkisstjórnarinnar fengið að ganga berserksgang við að efla þrönga sérhagsmuni í landbúnaði. Einkum hefur honum orðið verulega ágengt við að þrengja völ neytenda á grænmeti á hagstæðu verði. Full einokun er í augsýn.

Meira að segja hefur íslenzkum málvenjum verið breytt á svipaðan hátt og alræðisstjórnin gerði í sögunni “1984″ eftir George Orwell. Að undirlagi landbúnaðarráðherra notar ríkisstjórnin orðin “nýtt” yfir gamalt grænmeti og “markað” yfir grænmetiseinokun.

Fyrsta skref ríkisstjórnarinnar í eigin fjármálum var að hafna niðurskurði og sparnaði í ríkisrekstri og taka upp stefnu hækkaðra skatta, sem mun leiða til átaka á vinnumarkaði að mati Verzlunarráðs. Hefðbundinn landbúnaður og önnur hefðbundin hít eru heilagar kýr.

Annað skrefið í ríkisfjármálunum var að reyna að hækka vexti á spariskírteinum án þess að hækka þá. Stjórnin reyndi að komast hjá hinni óhjákvæmilegu staðreynd, að mögnuð innrás ríkissjóðs á lántökumarkaðinn mun breyta hlutföllum framboðs og eftirspurnar.

Ríkisstjórnin virðist hafa takmarkaðan skilning á fjármálum. Hún kvartar um, að aukinn ríkishalli stafi af vansköttun ársins. Samt er sífellt verið framhjá fjárlögum að greiða úr ríkissjóði og skuldbinda hann á annan hátt til að kaupa óperur og mjólkursamsölur.

Þriðja skref stjórnarinnar fólst í að bæta við söluskattsþrepi, sem leggst á harðfisk, en ekki saltfisk, suma svaladrykki, en ekki aðra, soðin svið, en ekki ósoðin og svo framvegis út í það fáránlega. Hún hefur flækt söluskattinn og boðið heim auknum skattsvikum.

Verkhræðsla og fálm á þessum mörgu sviðum hefur magnað ótrú fólks á stjórninni, aflað henni stjórnarandstöðu utan Alþingis og gert sumarfríið pólitískt.

Jónas Kristjánsson

DV

Hræddir snyrta og fresta

Greinar

Nýir vextir nýrrar ríkisstjórnar af spariskírteinum ríkissjóðs sýna óttaslegin vinnubrögð, sem minna á fyrstu ráðstafanir hennar í efnahagsmálum. Fyrst er reynt að snyrta verkin í veikburða viðleitni við að blekkja. Svo er öllum vanda meira eða minna frestað.

Uppruni flestra þyngstu vandamála stjórnarinnar er, að hún tók við óvenju hastarlegu sukki í fjármálum ríkisins og neitaði algerlega að taka á því með niðurskurði og sparnaði í ríkisrekstri. Þess vegna þarf hún að ná í meiri tekjur, meðal annars með spariskírteinum.

Áður hafði verið ráðgert að ná hálfum öðrum milljarði í útgáfu nýrra spariskírteina. Fyrri ríkisstjórn spillti þeim möguleika í september í fyrra, er hún vildi þykjast fyrir fólki með því að sýna, að raunvextir færu lækkandi. Hún gerði skírteinin þar með illseljanleg.

Hingað til hefur aðeins náðst í um það bil 15% af hálfa aðra milljarðinum. Afganginn af skírteinunum hyggst nýja stjórnin selja með því að gera þau girnilegri á markaðinum. Það gerir hún auðvitað með því að hækka raunvextina, en það er einmitt feimnismál.

Fyrst sagði fjármálaráðherra, kotroskinn að venju, að ekki þyrfti að hækka vextina nema lítillega, af því að selja mætti skírteinin með afföllum í staðinn. Í fjölmiðlum var honum þá vinsamlega bent á, að afföll af skuldaviðurkenningum jafngiltu illa dulbúnum vöxtum.

Þess vegna hefur nú afföllunum verið frestað. Spariskírteinin fara á flot með tiltölulega lítilli hækkun raunvaxta. Ef þeir reynast ekki nógu háir til að selja bréfin eins grimmt og ríkisstjórnin telur þurfa, verður enn að hækka vextina, hreina eða dulbúna sem afföll.

Raunvextirnir voru hækkaðir úr 6,5% í 7,2%­8,5%. Sagt er, að það dugi lífeyrissjóðunum, sem ætlað er að reiða fram megnið af peningunum. Spurningin á þó ekki að vera, hvað dugi þeim, heldur hvernig þeir geti bezt ávaxtað féð, sem fólk er að safna til elliáranna.

Lífeyrissjóðirnir munu vafalaust athuga fyrst, hvort skírteinin seljast nógu vel á þessum kjörum. Þannig mun markaðurinn leiða í ljós, hverjir raunvextir þurfa að vera. Síðan munu vextir húsnæðislána fylgja á eftir. Og þá er komið að einu feimnismáli stjórnarinnar enn.

6,5% húsnæðisraunvextir skiptast nú þannig, að húseigendur greiða 3,5% og hið opinbera niðurgreiðir 3% á móti, fyrir hönd skattgreiðenda. Ljóst er, að hækkun raunvaxta, hversu mikil sem hún verður, mun endurspeglast í beinum eða niðurgreiddum húsnæðisvöxtum.

Raunvaxtadæmið felst ekki í ógáfulegum vangaveltum um, hvaða raunvextir nægi lífeyrissjóðunum og hvort fundin séu svokölluð hlutleysismörk raunvaxta af spariskírteinum, það er að segja næsta stig áður en þeir fara að hafa áhrif á aðra vexti í þjóðfélaginu.

Stóra málið er auðvitað framboð og eftirspurn peninga. Þegar ríkið ryðst af miklum þunga inn á þennan markað og ætlar á hálfu ári að ná í 1,3 milljarða að láni, þar af 1,2 milljarða umfram innlausn eldri lána, hlýtur óhjákvæmilega eitthvað mikið undan að láta.

Þessa merku staðreynd er ekki unnt að galdra brott með sjónhverfingum. Engu máli skiptir, hversu mjög ríkisstjórnin reynir að blekkja fólk með því að snyrta vandamálið og fresta því til hausts. Hinni geigvænlegu fjárþörf stjórnarinnar hlýtur að fylgja keðjuverkun.

Hrædd ríkisstjórn, sem hagar fjármálum sínum eins illa og þessi gerði strax fyrir fæðingu, hlýtur að sprengja upp raunvextina, sem voru þó óþægilega háir fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Mafían sækir fram

Greinar

Daginn eftir síðustu kosningahelgi gaf landbúnaðarráðherra út grænmetisreglugerð, sem þrengdi verulega rétt neytenda frá því, sem lög gera ráð fyrir. Eftir þessum nýju starfsreglum er nú verið að vinna til að endurreisa fyrri einkasölu í hertri og grimmari mynd.

Athyglisvert er, að ráðherra skyldi velja mánudaginn eftir kosningar til að setja reglur, sem taka til baka hinn tímabundna ávinning, er neytendur náðu, þegar djarfir heildsalar rufu kartöflueinokun Grænmetisverzlunar ríkisins eftir fræga, finnska kartöfluævintýrið.

Þannig malar kerfið hægt, en örugglega. Það reynir að gefa sem minnst eftir, þegar hneykslismálin eru komin í forsíðufréttir. Þegar svo storminn lægir, fer samsæri landbúnaðarkerfisins aftur í gang til að geta afturkallað ávinninginn, þegar búið er að telja atkvæði neytenda.

Þegar boðað er til blaðamannafundar út af haugakjöti, er hann haldinn hjá Sambandi íslenzkra samvinnufélaga. Þar hefur Landbúnaðarráðuneytið orð fyrir mafíunni, en fulltrúar Búnaðarfélags, Stéttarsambands og Framleiðsluráðs fylla fjölskyldumyndina.

Þannig er mafían ein og heil, hvaða nafni sem hún nefnist eftir aðstæðum hverju sinni. Hún fyrirlítur neytendur og skattgreiðendur og telur tilverugrundvöll þeirra vera þann einan að standa undir andstyggilegu búvörukerfi, sem heldur þjóðinni í sífelldum fjárskorti.

Ekki hefur tekizt að gera gælufyrirtækin Ísfugl og Ísegg að fullgildum félögum í einkasölukerfi land búnaðarins. Það stafar þó ekki af, að haldið hafi verið uppi nægum vörnum fyrir neytendur, heldur hreinlega af, að fyrirtækin eru svo illa rekin, að með eindæmum er.

Hins vegar hefur tekizt að gera Sölufélag garðyrkjumanna að verðugum arftaka Grænmetisverzlunar landbúnaðarins í mafíunni. Í skjóli reglugerðar ráðherrans hefur félaginu tekizt að kúga og knýja framleiðendur til að skríða undir verndarvæng einokunarinnar.

Neytendur hafa ef til vill tekið eftir, að súlurit DV um grænmetisverð sýna, að í sumar hefur að verulegu leyti lagzt niður samkeppni í grænmetisverði. Hún hefur verið nokkurn veginn afnumin í framleiðslu og heildsölu og hefur því lítið svigrúm í smásölunni einni.

Afleiðingarnar eru margar og meðal annars sú, að neytendur borga kúafóður á borð við hvítkál á 80 krónur kílóið eða á svipuðu verði og kílóið af eplum. Auðvitað leiðir þetta til, að neytendur kaupa frekar epli og mafían verður að fleygja vöru sinni á haugana.

Starfsreglur ráðherrans miða líka að því, að framvegis megi banna innflutning á grænmeti, þótt sama tegund sé ekki framleidd innanlands, heldur hliðstæð tegund. Þannig má banna innflutning á hrísgrjónum, ef kartöflur seljast illa. Þetta mun hann reyna næst.

Lygin er mikilvægur hornsteinn þessa kerfis. Sama daginn og talsmaður mafíunnar sagði ekki koma til greina, að tómötum yrði fleygt á haugana, gat DV náð ljósmynd af þeim hinum sama verknaði. Og mafían notar núna orðið “markaður” yfir einokunarkerfið.

Neytendur hafa litla vörn. Stjórnmálaflokkarnir styðja mafíuna allir sem einn. Verðlagsstjóri vísar frá sér öllu, sem varðar hina heilögu kú, landbúnaðinn. Neytendasamtökin hafa ekki bolmagn til mikillar baráttu, en þau reyna þó að klóra í bakkann eftir beztu getu.

Ef neytendur vildu losna úr þrældómnum, gætu þeir þó sameinazt um að neita alveg að kaupa vörur mafíunnar. Það gera þeir þó ekki og því versnar ástandið.

Jónas Kristjánsson

DV

Rétt skal vera rétt

Greinar

Þegar ekki er gert, þegar gera á, vill framkvæmdin dragast og falla niður. Þetta þekkja margir húsbyggjendur vel. Ef tækifæri sjálfra byggingaframkvæmdanna er ekki notað til að ljúka þeim, getur farið svo, að endahnúturinn verði seint eða aldrei bundinn á þær.

Þannig er það líka í göngu þjóðanna fram eftir vegi. Við höfum oft fylgt í kjölfar Danmerkur og annarra Norðurlanda í nytsamlegri nýbreytni. En fari svo, að við missum af lestinni, verðum við oft að bíða án árangurs eftir annarri lest. Því höfum við enn sýslumenn.

Bandaríkjamenn eru heppnir að hafa notað tækifæri sjálfstæðis síns til að semja stjórnarskrá, sem tók mjög alvarlega ýmis grundvallaratriði, er voru mönnum þá ofarlega í huga. Þessi gamla forsenduharka lýsir nú leið þeirra um myrkviði kúrekanna í Hvíta húsinu.

Þegar Bandaríkjamenn sömdu stjórnarskrá sína og lögðu önnur drög að sjálfstæðu ríki, skildu þeir mjög kerfisbundið að hina nýuppgötvuðu þrjá meginþætti valdsins, framkvæmdavald, dómsvald og löggjafarvald. Þessi aðskilnaður varð þar skýrari en víðast hvar.

Við Íslendingar notuðum hvorki sjálfstæðið 1918 né lýðveldið 1944 til að veita grundvallaratriðum samskipta borgaranna innan ríkisins í farvegi, sem skynsamlegastir voru að beztu manna yfirsýn. Við höfum sífellt dregið að semja okkur nýja stjórnarskrá.

Við höfum eins og húsbyggjandinn komizt að raun um, að vel er unnt að búa í húsinu, þótt það sé ekki fullfrágengið. Þetta hefur á löngum tíma sljóvgað tilfinningu okkar fyrir því, að húsið er í raun ekki tilbúið til notkunar. Við búum því við ófullkomna stjórnarskrá.

Meðal augljósra vankanta á ríkiskerfi okkar er sameining framkvæmdavalds og dómsvalds í sýslumönnum og bæjarfógetum. Til stóð að kljúfa þetta sundur um svipað leyti og Danir lögðu niður sýslumenn. En einhverra hluta vegna varð ekki af því þá. Og stendur svo enn.

Í rauninni höfum við komizt sæmilega af með vankanta þennan. Sýslumenn og fógetar hafa í friði fengið að dæma fólk eftir vitnisburði undirmanna sinna í lögreglunni. Yfirleitt hafa þeir reynt að gera þetta af samvizkusemi. En enginn veit, hvenær það bregzt.

Rannsóknir í útlöndum hafa sýnt, að lögreglumönnum er ekki síður en öðrum hætt við að bera rangt fyrir dómi. Almennir borgarar eiga að njóta þess réttar, að kærumál lögreglunnar á hendur þeim séu þegar á fyrsta dómstigi alls ekki dæmd af sjálfum lögreglustjóranum.

Menn eru orðnir svo sljóir fyrir þessu, að jafnvel er þvælst fyrir með því að tala um, að skipting sýslumannsembætta sé of dýr. Er þó ekkert hægara en að stækka umdæmin úr sýslum í kjördæmi, þegar embættunum er skipt milli héraðsdómara og lögreglustjóra.

Einnig er þvælzt fyrir með því að segja menn geta að lokum náð rétti sínum hjá Hæstarétti. Það er hundarökfræði ráðuneytisstjóra dómsmála. Hann er með þessu að segja, að öllum málum, sem sýslumenn úrskurða, eigi í raun að bæta við málaflóð Hæstaréttar.

Íslendingar hafa ekki mikinn áhuga á nákvæmni í grundvallaratriðum. Til dæmis fékk Bandalag jafnaðarmanna lítinn hljómgrunn í stjórnmálum, þótt mörg helztu málefni þess fjölluðu einmitt um vandaðri lagningu ýmissa hornsteina á borð við aðskilnað valdsins.

Við erum svo sljó, að bezt er, að Evrópuráðið noti mál Jóns Kristinssonar til að þvinga okkur til að gera það, sem við áttum að vera búin að fyrir löngu.

Jónas Kristjánsson

DV

Stofnun trausti rúin

Greinar

Fyrir nokkrum áratugum var útilokað að rökræða af viti um þjóðhagslegar stærðir. Hagstofur voru veikburða, að svo miklu leyti sem þær voru til. Deiluaðilar, til dæmis í vinnudeilum, fóru sínu fram og bjuggu til eigin mynd af þjóðarhag eftir þörfum hverju sinni.

Smám saman lagaðist þetta töluvert. Samtök atvinnurekenda og launamanna fóru að geta talað saman á sameiginlegu tungumáli hagtölufræðinnar. Um tíma var mest mark tekið á upplýsingum forvera þeirrar stofnunar, sem nú er kölluð Þjóðhagsstofnun.

Síðan jókst samkeppni í hagspám. Samtök öflugustu aðila vinnumarkaðarins komu sér upp eigin hagdeildum. Hið sama gerðist hjá öðrum heildarsamtökum og allra stærstu stofnunum og fyrirtækjum. Tölur sumra þessara fóru oft nær hinu rétta en Þjóðhagsstofnunar.

Fyrir tæplega tveimur árum var farið að kvarta á nýjan leik yfir, að hagspár Þjóðhagsstofnunar ein kenndust af þjónustu við sjónarmið ríkisstjórnarinnar. Stofnunin spáði þá jafnan miklum mun lægri verðbólgu en aðrar hagdeildir í þjóðfélaginu gerðu.

Þá hafði ríkisstjórnin lagt fram fjárlagafrumvarp, sem ljóst var, að mundi stuðla að meiri verðbólgu en annars yrði. Þjóðhagsstofnun tók ekki tillit til þessa verðbólguhvata í næstu verðbólguspá, þótt aðrar hagstofur, óháðar ríkinu, gerðu það á almennri spástefnu.

Þáverandi forstjóri Þjóðhagsstofnunar hefur dregið eðlilega ályktun af gagnrýninni, sem stofnun hans hefur sætt á síðustu árum. Hann hefur fundið sér heppilegri vettvang í stjórnmálum. Þar getur hann nýtt diplómatíska hæfileika, sem áður sköðuðu reiknistofnunina.

En enginn veit, hvað átt hefur, fyrr en misst hefur. Ástandið hefur versnað með nýjum forstjóra. Forsmekkinn fékk þjóðin, þegar Þjóðhagsstofnun spáði mildri verðbólgu og indælum þjóðarhag fyrir kosningar, þótt allir aðrir vissu, að ríkið kynti undir verðbólgu.

Eftir síðustu áramót gekk ríkisstjórnin til verðbólgusamninga við opinbera starfsmenn til að kaupa sér frið fyrir kosningar. Í sama skyni var hún einnig að ýmsu öðru leyti örlát á fé skattgreiðenda. Þessa verðbólguhvata vanmat Þjóðhagsstofnun í hagspám sínum.

Ekki varð öllum þó ljóst, hvað var á seyði í Þjóð hagsstofnun, fyrr en Efnahagsþróunarstofnunin birti Íslandsspá sína í júní. Þar var ríkisstjórnin gagnrýnd óvenju harðlega fyrir skort á aðhaldi í fjármálum ríkisins sjálfs. Var hún vöruð við frekari hallarekstri.

“Skýrsla OECD undirstrikar mikinn árangur”, voru hin opinberu viðbrögð forstjóra Þjóðhagsstofnunar við gagnrýninni að utan. Hann lagði sérstaka áherzlu á að verja fjármálastjórn ríkisstjórnarinnar og sagði Íslandsspána síður en svo vera áfellisdóm yfir henni.

Steininn tók svo úr, þegar Þjóðhagsstofnun afhenti nýmyndaðri ríkisstjórn nýja þjóðhagsspá, þar sem verðbólguspáin hafði nærri tvöfaldast á fimm mánuðum, úr 11,5% í 20%. Þjóðhagsstofnun var, eins og í fyrri spá sinni, réttum yfirvöldum til þjónustu reiðubúin.

Gömlu ríkisstjórninni hentaði rétt fyrir kosningar að fá þjóðhagsspá, sem teldi kjósendum trú um, að gífurlegt góðæri ríkti fyrir tilverknað ríkisstjórnarinnar. Nýju ríkisstjórninni hentar hins vegar að fá spá, sem telur launafólki trú um, að allt sé á hverfanda hveli.

Þjóðhagsstofnun, sem venur sig á að þjónusta ósk hyggju ríkisstjórna á færibandi, er rúin öllu trausti. Réttilega er ekkert mark lengur tekið á tölum hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Umbúðir eyðist skjótt

Greinar

Léleg umgengni er áberandi í fari margra Íslendinga. Mest tengist hún drykkjusiðum þjóðarinnar, sem felast í að taka heilann úr sambandi með mikilli notkun áfengis á skömmum tíma. Við það hverfa um tíma ýmsar góðar venjur, sem siðmenntaðar þjóðir temja sér.

Um daginn var skýrt frá, að ráðizt hefði verið á líkneski af Maríu guðsmóður í garði Kristskirkju. Þessa dagana er verið að segja frá þungum áhyggjum eigenda sumarhúsa af skemmdarverkum á fyrirhugaðri Húsafellshátíð. Og alkunn er meðferðin á almenningssímum.

Undir annarlegum áhrifum grýta menn frá sér, hvar sem er, hverju sem er, einkum umbúðum. Þetta gera einnig margir, sem ekki geta afsakað sig með að hafa verið ósjálfráðir gerða sinna. Þeir eru einfaldlega ekki búnir að ná áttum í umbúðaflóði nútímaþjóðfélagsins.

Töluvert hefur að undanförnu verið rætt um aukna umbúðamengun á Íslandi. Hún er brýnt viðfangsefni, en umræðan hefur að ýmsu leyti verið reist á röngum forsendum. Margnota umbúðir eru ekki eins góð lausn og margir halda og brennanlegar umbúðir ekki heldur.

Umbúðir ropvatns stinga mest í augun. Einna illskástar þeirra eru hálfs annars lítra plastflöskurnar. Þær rúma mikið magn og eru því lengi að tæmast. Ennfremur sjást þær vel og eru auðtíndar. Þær eyðast hins vegar ekki af sjálfu sér í náttúrunni.

Næstar koma málmdósirnar, sem mest hafa verið gagnrýndar. Þær er ekki hægt að brenna. Hins vegar verða þær skjótt ryðbrúnar og falla þannig að nokkru leyti inn í landslagið og eyðast síðan að lokum. Gallinn er sá, að allt of hægt ryðga þær og eyðast.

Verri eru plastdósirnar nýju, þótt þær brenni. Þeir, sem eru sóðar og taka ekki umbúðir með sér heim, munu ekki brenna dósirnar. Auk þess er slík brennsla oft vandkvæðum bundin, þótt viljann vanti ekki. Og verst er, að plastið ryðgar ekki á sama hátt og málmur.

Í rauninni eru svo verstar hinar margnota umbúðir, sem margir mæla með. Glerið má að vísu nota aftur, svona fræðilega séð. En reynslan sýnir, að það framkallar sérstaka athafnaþrá í fullum og ófullum Íslendingum, sem telja, að gosflöskum beri að varpa í nálægt grjót.

Nokkrir áhugamenn, sem nýlega hreinsuðu úr náttúrunni ropvatnsumbúðir af öllu tagi, bölvuðu glerinu mest. Hver flaska hafði brotnað í þúsund mola, sem ógerlegt var að ná upp. Vinnan við að hreinsa hverja flösku var á við hundrað dósir og þúsund plastflöskur.

Engu máli skiptir, þótt unnt sé að skila glerflöskum og fá fyrir þær peninga. Íslendingar eru svo ríkir, að þeir þykjast ekki þurfa á því fé að halda, allra sízt yngstu kynslóðirnar, sem eyðslusamastar eru. Gler er þessu fólki einnota umbúðir, hvað sem fræðin segja.

Ropvatnsmengun verður því ekki minnkuð hér á landi með því að banna einnota umbúðir, svo sem sumir virðast halda og reynt hefur verið í öðrum löndum, þar sem árátta til glerbrota er minni en hér á landi. Við erum einfaldlega ekki eins siðmenntaðir og Danir.

Ropvatnsmengun verður ekki heldur minnkuð með því að taka upp brennanlegar plastdósir í stað ryðganlegra málmdósa. Hún verður fyrst og fremst minnkuð við að taka upp nýlega uppgötvun, dósir sem eyðast á undraskömmum tíma eftir að þær hafa verið opnaðar.

Þessari japönsku nýjung þurfum við að kynnast. Hún hentar sennilega vel íslenzkum umgengnisvenjum og getur leitt til, að banna megi aðrar umbúðir ropvatns.

Jónas Kristjánsson

DV