Greinar

Vernduð þjóðfélög tapa

Greinar

Fulltrúar Íslands eru nú í Washington að reyna að fá bandarísk stjórnvöld til að hætta við að beita okkur viðskiptaþvingunum vegna hvalveiðanna, sem við köllum vísindaveiðar og stundum enn í trássi við heilbrigða skynsemi og hagsmuni okkar í utanríkisviðskiptum.

Hingað til hafa Bandaríkjamenn verið hinir þverustu og vísað til laga, sem skylda stjórnvöld til að beita okkur viðskiptaþvingunum vegna þessa leiðindamáls. Er nú svo komið, að lagakrókar og orðhengilsháttur vísindaveiða duga okkur tæpast lengur í vörninni.

Hvalveiðikárínur okkar eru dæmi um, hvernig þrýstihópar geta stjórnað viðskiptastefnu voldugra ríkja. Þar vestra ráða ferðinni tiltölulega fámennir en afar háværir hópar róttækra náttúru- og dýravina, alveg eins og hér stjórna afar þröngir eiginhagsmunir Hvals hf.

Fleira getur orðið okkur að harmi en hin mikla og síðbúna vísindahugsjón. Við gerum okkur vonir um að geta selt mikið af eldislaxi til Bandaríkjanna. Sá útflutningur mun rekast á þrönga hagsmuni bandarískra laxeldismanna, svo sem Norðmenn hafa fundið fyrir.

Matvæla- og lyfjaeftirlit Bandaríkjanna hefur hótað innflutningsbanni á norskan eldislax á þeim forsendum, að laxinn sé fóðraður á rækjuskel, sem geti haft að geyma skaðleg efni. Rækjuskel er einmitt fóðrið, sem Íslendingar nota til að gera laxinn rauðan og girnilegan.

Skaðsemi rækjuskeljar er yfirskin. Matvælaeftirlitið bandaríska er notað þar á svipaðan hátt og embætti yfirdýralæknis hér á landi til að vernda innlenda hagsmuni. Hér er bannað að flytja inn kjöt til að vernda landbúnaðinn, en ekki til að varðveita heilsu neytenda.

Við getum ekki kvartað um höft í Bandaríkjunum og öðrum löndum, þegar við sjálf bönnum að flytja til landsins kjöt og smjör, osta og stundum grænmeti. Við erum sjálf á fullu í sjálfseyðingarstefnu haftanna. Við tökum þátt í leik, sem heitir: Allir gegn öllum.

Þegar sérhagsmunir ríkja, verða almannahagsmunir að víkja. Haftastefnan er rekin á kostnað neytenda. Í Bretlandi var nýlega reiknað út, að verndun innlendrar framleiðslu á skóm úr gerviefnum kostaði brezkt þjóðfélag tólf sinnum meira en fríverzlun mundi gera.

Íslenzkir neytendur borga íslenzka haftastefnu með því að greiða miklu meira og í sumum tilvikum margfalt meira en þeir þyrftu fyrir kjöt og smjör, osta og grænmeti. Við gætum öðlazt glæsileg lífskjör með því einu að leyfa frjálsa milliríkjaverzlun þessara vara.

Ef Bandaríkjamenn refsa okkur fyrir hvalveiðar með því að leggja stein í götu íslenzks freðfisks, eru þeir um leið að þrengja samkeppnina og hækka vöruverð í landinu. Hið sama er að segja, ef þeir reyna að koma í veg fyrir innflutning á norskum og íslenzkum eldislaxi.

Því miður blása haftavindar í Bandaríkjunum. Fyrir þinginu í Washington liggja nokkur hundruð þingmannafrumvörp, sem stefna að varðveizlu þröngra hagsmuna gegn innflutningi. Smám saman er þannig verið að smíða efnahagslífinu verndað umhverfi.

Fáar þjóðir eru eins háðar utanríkisviðskiptum og Íslendingar eru. Við ættum því að hafa forustu um að afnema eigin höft á viðskiptum milli landa og beita okkur af alefli á alþjóðlegum vettvangi fyrir eins mikilli fækkun slíkra hafta og frekast er unnt.

Allir tapa í leiknum: Allir gegn öllum. En mest tapa þeir, sem ekki telja sig þola vinda erlendrar samkeppni og búa sér, með höftum, verndað umhverfi sérhagsmuna.

Jónas Kristjánsson

DV

Vesturbrestir varða okkur

Greinar

Vestræn ríki eru sundurþykkari um þessar mundir en þau hafa lengi verið. Ekki eru horfur á, að ástandið batni. Miklu frekar má reikna með, að þau rási enn frekar sitt á hvað á næstu árum. Ágreiningsefnin eru helzt í varnarmálum og alþjóðlegum viðskiptum.

Í flestum tilvikum hafa úfar tilhneigingu til að rísa í samskiptum Bandaríkjanna annars vegar og annaðhvort Japans eða ríkja Evrópubandalagsins hins vegar. Þótt Bandaríkin séu að þessu leyti í sviðsljósinu, er óvíst, að þeim einum sé um að kenna, þegar tveir deila.

Til dæmis er eðlilegt, að Bandaríkjamenn hafi áhyggjur af, að Vestur-Evrópa leggi of lítið til sameiginlegra varna. Velmegun ríkja Evrópubandalagsins er orðin hin sama og í Bandaríkjunum og íbúafjöldinn raunar meiri en í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

Bandaríkjamenn leggja sífellt meiri áherzlu á, að Vestur-Evrópa sjái sjálf um og kosti sínar varnir, svo að Bandaríkin geti einbeitt sér að vandamálum utan Evrópu. Sú tíð nálgast, að Bandaríkjamenn fækki verulega í herliði sínu í löndum evrópskra bandamanna.

Til viðbótar sjá Evrópuríki Atlantshafsbandalagsins nú fyrir sér, að yfirvofandi sé samkomulag heimsveldanna tveggja, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, um róttækan samdrátt í kjarnorkuviðbúnaði. Þá má búast við, að gisni hin bandaríska kjarnorkuregnhlíf Evrópu.

Viðbrögðin eru margvísleg. Talað hefur verið um að endurreisa hið andvana fædda varnarbandalag Evrópu. Í Vestur-Þýzkalandi heyrast raddir um, að stofna þurfi sameiginlegan her Frakka og Þjóðverja undir frönskum yfirhershöfðingja og franskri kjarnorkuregnhlíf.

Aðrir telja skynsamlegt, að Vestur-Þýzkaland stefni að sameiningu við Austur-Þýzkaland í hlutlausu ríki, sem verði þungamiðja Mið-Evrópu og hafi víðtæk áhrif á Austur-Evrópu, þar sem nú eru leppríki Sovétríkjanna. Þeir telja sögulegt samhengi í slíkri stefnu.

Altjend má reikna með, að væntanlegur samningur Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um samdrátt kjarnorkuviðbúnaðar muni verða fyrsta skrefið frá núverandi jafnvægiskerfi Atlantshafs- og Varsjárbandalaga. Núgildandi trúarsetningar geta orðið harla lítils virði.

Íslendingar þurfa að fylgjast vel með þessari framvindu. Við þurfum að átta okkur á, hvaða möguleikum við getum haldið opnum og hvert við viljum helzt halla okkur, þegar á reynir. Við höfum ekki eigin varnir að neinu gagni og erum háðir bandalögum við nágranna.

Ofan á þetta sjáum við fyrir, að samningar um mikla fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu geta leitt til aukins kjarnorkuviðbúnaðar í Norður-Atlantshafi. Þar með erum við komnir enn fjær gömlu einangruninni og nær spennumiðju í glímu heimsveldanna.

Við stöndum einnig andspænis örlagaríkum ákvörðunum um afstöðu okkar í breyttu mynztri viðskipta. Milli Bandaríkjanna, Japans og Evrópubandalagsins fara vaxandi hin efnahagslegu illindi. Hver sakar annan um haftastefnu og magnar viðskiptastríð Vesturlanda.

Hvort sem litið er á samstarf um varnir eða um verkaskiptingu í viðskiptum og efnahagsmálum, er ljóst, að gífurlegir brestir eru komnir í hina tiltölulega heildstæðu mynd iðnþróaðra ríkja vestantjalds. Brestunum fjölgar og þeir gliðna, þótt reynt sé að mála yfir þá.

Við erum þjóð, sem lifum annars vegar á alþjóðlegri fríverzlunarstefnu og hins vegar í hernaðarlegu skjóli. Brestirnir varða okkur meira en flestar aðrar þjóðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Kærkomin hvíld til hausts

Greinar

Íslenzk stjórnmál munu nú leggjast í dvala, þegar nýja ríkisstjórnin hefur komið sér fyrir í hægum sessi. Hvorki stjórn né stjórnarandstaða er líkleg til átaka fyrr en í byrjun október, því að þreytan er mikil eftir kosningar vorsins og stjórnarmyndun sumarsins.

Ekki gekk þrautalítið hjá stjórnmálamönnum okkar að koma sér í laxveiðar og annað dútl við hæfi. Ríkisstjórnin fór afar illa af stað. Aðgerðir hennar komu út með afturfæturna á undan, svo að fyrsta aðgerð hennar reyndist verða sú að fresta fyrstu aðgerðum.

Úti í atvinnulífinu þætti auðvitað til skammar að vera vikum saman á svokölluðum rífandi gangi við að mynda stjórn, með þeim árangri, að útkoman verður slíkt rugl, að ekki er unnt að framkvæma það að sinni. En það er tæpast nýtt, að stjórnmálamenn klúðri málum.

Eðlilegt er, að kjósendur velti fyrir sér, hvort umboðsmenn þeirra gætu unnið fyrir sér í öðru starfi, til dæmis úti í atvinnulífinu. Líklega yrði það erfitt, því að stjórnmálin fjalla að verulegu leyti um annað en árangur. Þau fjalla um risnu og stóla, fé og ráðherrabíla.

Stjórnarandstaðan mun hafa hægt um sig til hausts. Alþýðubandalagið vék sér skynsamlega undan tilraunum til stjórnarmyndunar, enda mun það ekki hafa orku til annars næstu mánuði en að höggva á hnút ágreiningsins um, hver eigi að stjórna flokknum næstu árin.

Kvennalistinn var ekki eins heppinn. Eftir atrennu að stjórnarmyndun sat hann uppi sem sértrúarflokkur, er verður seint beðinn aftur um að taka þátt í ríkisstjórn. Hann kann ekki að sveigja málefni sín í farveg, sem hægt er að ná samkomulagi um að sigla eftir.

Fyrir neytendur var fróðlegt að heyra í síðustu viku, að Kvennalistinn vill lækka dilkakjötsfjallið með því að hætta að borða ýmsa innflutta neyzluvöru, væntanlega með valdboði. Þetta er miðaldaskoðun þess flokks, sem sennilega verður harðastur í stjórnarandstöðu.

Kvennalistinn mun halda áfram að rækta sértrú sína og sérstöðu með hinni grónu sjálfsvorkunn, að allir séu vondir við hann. Kvartað verður áfram um lítinn aðgang að fjölmiðlum, þótt listinn hafi í rauninni ekki nennt að nota sér hinn mikla aðgang, sem hann hefur.

Borgaraflokkurinn hefur svo gersamlega týnzt eftir kosningar, að erfitt er að trúa, að hann hafi sjö fulltrúa á þingi. Samanlögð er fyrirferð þeirra eins og tæplega einnar kvennalistakonu. Hugsanlegt er, að enginn nenni að auglýsa í haust eftir hinum týnda flokki.

Af stjórnarflokkunum er hlutur Alþýðuflokksins sýnu verstur. Allir virðast vera sammála um, að flokkurinn hefur einfaldlega gerzt þriðja hjólið undir gömlu stjórnarkerrunni. Flokkurinn fær engum stefnumálum framgengt að launum, ekki einu sinni kaupleiguruglinu.

Í stöðu Alþýðuflokksins sjáum við í hnotskurn hinn pólitíska raunveruleika. Flokkar virðast ekki vera mjög virk tæki til að koma stefnumálum fram, en geta við vissar aðstæður komið að gagni við að bæta kjör og aðstöðu þeirra flokksforingja, sem verða ráðherrar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur fá og valdalítil embætti í ríkisstjórn, sem hann hefur þó tekið forustu fyrir. Næstum útilokað er, að flokkurinn geti notað ríkisstjórnina til að marka slík spor í þjóðlífið, að hann geti borið höfuðið hátt í næstu kosningabaráttu.

Ríkisstjórnin ekur í sumarleyfið í gamalli kerru, þar sem Jón Baldvin er viðgerðarmaðurinn, Þorsteinn vagnstjórinn og Steingrímur farþeginn, sem ræður ferðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Ollie skáti í leikhúsinu

Greinar

“Ef þingið hefði gert skyldu sína, hefði ég ekki þurft að gera þetta”, sagði Oliver North, fyrrum öryggisfulltrúi Reagans Bandaríkjaforseta, nýlega í yfirheyrslu hjá þingnefnd. Hann hefði ekki þurft að ljúga og stela, falsa skjöl og eyða þeim, ef þingið hefði gert skyldu sína.

Þetta brenglaða viðhorf til leikreglna þjóðfélagsins er gamalkunnugt og útbreitt. Við þekkjum spakmæli, sem segir, að nauðsyn brjóti lög. Við eigum nýjan forsætisráðherra, sem keypti Mjólkursamsöluhús og óperu, af því að Alþingi hafði ekki gert skyldu sína.

Komið hefur greinilega í ljós, að öryggisnefndarliðið í kjallara Hvíta hússins, allt frá Fanny Hall og upp úr, taldi nauðsyn brjóta lög og naut til þess stuðnings þáverandi yfirmanns leyniþjónustunnar, sem nú er látinn. “Stundum verður að fara hærra en lögin”, sagði Fanny.

Efnisatriði þessa máls hafa vakið minni ólgu í Bandaríkjunum en leikhúsið í kringum höfuðpersónurnar. Samanlagt eru Fanny og Ollie og fleira fólk eins og í óraunverulegri James Bond bíómynd. Sem hetjur tjaldsins og skjásins eru þau orðin að almenningseign.

Framganga Olivers Norths í sjónvarpi vekur mikla athygli. Í yfirheyrslum leikur hann hlutverk hins góða skáta, sem ávallt er reiðubúinn. Með barnslegum og heiðskírum svip rekur hann, hvernig hann hefur barizt við hið illa og gert skyldu sína, er þingið brást.

Þetta hefur gert hann að ljúflingi fjölda fólks í Banda ríkjunum. Aðdáunarbréfin berast í stríðum straumum. Háværar hugmyndir eru um, að hann verði kosinn næsti forseti Bandaríkjanna. Við liggur, að telja megi, að hann yrði sjálfkjörinn, ef hann kvæntist Fanny Hall.

Vestrænt þjóðskipulag er komið í mikla hættu, þegar viðbrögð mikils fjölda fólks eru í þessum dúr. Áhorfendur eru þá í nokkrum mæli hættir að gera greinarmun á draumaheimi Bonds og raunverulegum afbrotaheimi Norths. Sjónvarpsfréttir og sápa renna saman í eitt.

Sjónvarpið er að eðlisfari afþreyingarmiðill fremur en fréttamiðill. Fréttir þess þarf að beygja undir hin myndrænu lögmál leikhússins. Áhorfendur muna betur eftir einföldum eða flóknum klæðasmekk fréttaþularins en innihaldi fréttanna, sem hann var að segja.

Kenning Marshalls McLuhans er, að miðillinn sjálfur sé skilaboðin, sem hann flytur. Það skilst illa á íslenzku. Hefði hann unnið á Keflavíkurvelli á tíma frægrar gamansögu, hefði hann orðað þetta svo, að hjólbörurnar séu hlassið, sem smyglað er út af vellinum.

Hið alvarlegasta í máli þessu er, að áhorfendur trúa betur fréttum sjónvarps en lesendur trúa fréttum prentaðra fjölmiðla. Þetta hefur hvað eftir annað verið mælt í Bandaríkjunum og raunar einu sinni líka hér á Íslandi. Leikhúsið er trúverðugra en raunveruleikinn.

Bandaríkjamenn eru orðnir svo grátt leiknir af sjónvarpi, að sjónvarpssápa er orðin að veruleika margra. Einföld og brengluð heimsmynd sækir fram. Þetta hefur á síðustu árum meðal annars komið fram í grófari dólgshætti í bandarískri framkomu við bandamannaþjóðir.

Mesta hvalveiðiþjóð heims ætlar að beita viðskiptaofbeldi til að skrúfa fyrir tiltölulega litlar hvalveiðar Íslendinga. Mesta haftaþjóð heims er sífellt að beita viðskiptaofbeldi gegn Japönum og Vestur-Þjóðverjum. Stefnan vestra er að sjá aldrei bjálka í eigin auga.

Hetja hins nýja óraunsæis úr bíómyndum og sjónvarpsfréttum er þessa dagana skúrkurinn Oliver North, sem hefur svo einstaklega skátalegan svip í leikhúsinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Gorbatsjov og gróðinn

Greinar

Gorbatsjov Sovétleiðtogi er að reyna að efla hagstyrk Sovétríkjanna og auka hagkvæmni efnahagslífsins. Hann hefur áttað sig á, að til þess þarf hann að virkja gróðahvatir og leyfa markaðsöflum að leysa miðstýringu af hólmi. Um þetta standa deilur í flokki hans.

Aðgerðir Gorbatsjovs stefna ekki að annarri þróun í átt til lýðræðis og mannúðar en nauðsynleg kann að reynast til að ná hinum hagrænu markmiðum. Opnun í þjóðfélaginu er ekki markmið út af fyrir sig, heldur ill nauðsyn til að gera Sovétríkin arðsamari og ríkari.

Hinn villimannlega styrjöld Sovétríkjanna í Afganistan er rekin af sömu hörku og fyrr. Fólki hefur ekki verið gert auðveldara að flytjast frá Sovétríkjunum. Ekkert lát er á misþyrmingum andófsmanna á geð veikrahælum. Leppríkin eru tugtuð í sama mæli og áður.

Jákvæð áhrif af hagstefnu Gorbatsjovs sjást helzt í samskiptum austurs og vesturs. Frumkvæði Sovétríkjanna í tilraunum til samkomulags um takmörkun og samdrátt vígbúnaðar er mikilvægur þáttur í að beina afli atvinnulífsins að hagkvæmari verkefnum.

Hin hagrænu sjónarmið, sem eru að baki þíðustefnunnar, draga ekki úr gildi hennar fyrir Vesturlönd. Atlantshafsbandalagið þarf að mæta frumkvæðinu á virkari hátt en gert hefur verið að undanförnu og láta þíðuna leiða til samninga um hjöðnun vígbúnaðar.

Heima fyrir má búast við frekari deilum um hina nýju hagstefnu Gorbatsjovs. Yfirstétt kommúnistaflokksins mun ekki átakalaust sleppa neinu umtalsverðu af völdum sínum og lífsþægindum. Þegar hefur verið reynt að spilla fyrir breytingunum og tefja þær.

Herferðin gegn ofneyzlu áfengis hefur gengið fremur illa. Ennfremur hafa tilraunir til að leyfa mönnum að stunda brask utan vinnu í mörgum tilvikum haft þveröfug áhrif, því að kerfið hefur einmitt tekið þá hastarlega í gegn, sem ætluðu að hafa hag af nýbreytninni.

Hinir fjölmörgu og valdamiklu, sem hafa hag af kyrrstöðu, bíða þess færis, að í ljós komi, að efnahagsávinningur breytinganna reynist lítill, en herkostnaður sé of þungbær, til dæmis í formi of mikillar tilætlunarsemi hinnar nýju miðstéttar, sem eflist í breytingunum.

Mikil valdastreita út af þessu getur á óbeinan hátt aukið ófriðarhættuna í heiminum. Það er gamalkunnug saga, að menn reyna að draga úr ágreiningi inn á við eða breiða yfir hann með því að draga upp ýkta mynd af erlendum óvini, sem menn verði að sameinast gegn.

Ef hins vegar Gorbatsjov tekst að herma vel eftir Ungverjum og Kínverjum í að virkja markaðshyggjuna, er óhjákvæmilegt, að sovézka þjóðfélagið fari að ókyrrast og vilji losna úr fleiri spennitreyjum. Það getur leitt til friðsamari og hættuminni Sovétríkja í framtíðinni.

Gorbatsjov er að hreinsa flokk, ríkisbákn, her og leyniþjónustu. Hafin eru endurmenntunarnámskeið til að sníða nýja tegund stjórnenda. Alls staðar er þörf á menntuðu fólki til að gera Sovétríkjunum kleift að fylgja efnahagslega í humátt á eftir vestrinu.

Þetta hámenntaða fólk sættir sig ekki endalaust við að hafa ekkert að segja í stjórnmálum og þurfa að sæta ömurlegum fjölmiðlakosti. Það fer að heimta frelsi til að hafa fjölbreyttar skoðanir og til að njóta fjölbreytts upplýsingaflæðis utan kerfis ríkis og flokks.

Gorbatsjov getur misst völdin eins og Krjústjov. Tilraun hans er vörðuð hættum, bæði heima fyrir og út á við. En hún getur einnig reynzt efla frelsi og frið.

Jónas Kristjánsson

DV

Út á gaddinn með hann

Greinar

Sjávarútvegur okkar sækir afurðir í takmarkaða auðlind. Fiskifræðingar áætla, hversu mikið sé óhætt að veiða af hverri tegund. Þetta mat þeirra samþykkja málsaðilar undanbragðalítið. Settur er veiðikvóti, sem endurspeglar í stórum dráttum mat fiskifræðinga.

Þjóðaróvinurinn sækir líka afurðir í takmarkaða auðlind. Hinn hefðbundni landbúnaður ber höfuðábyrgð á, að gróður á afréttum minnkar þrisvar sinnum meira en sem svarar uppgræðslu. Ekkert mark er tekið á viðvörunum gróðurfræðinga um hnignun auðlindarinnar.

“Nálin er svo holl”, segja bændur, þegar þeir reka sauðfé á fjall á viðkvæmasta tíma í trássi við óskir landgræðslumanna. Þannig er hratt og örugglega verið að eyðileggja flesta afrétti landsins, fremsta í flokki afrétti Mývetninga, Landmanna og Biskupstungna.

Þótt sjávarútvegurinn taki ekki meira en svo af sinni auðlind, að hún haldi heildarverðgildi sínu, er aflinn oft meiri en góðu hófi gegnir, til dæmis núna. Fiskvinnslan getur ekki tekið við honum. Aukið magn er selt á lágu sumarverði á erlendum uppboðsmarkaði.

Hið lága verð, sem kemur út úr slíkum viðskiptum, hvetur sjómenn og útgerðarmenn til að haga veiðum sínum með auknu tilliti til markaðarins. Útgerðarmenn dreifa togarasölum erlendis og eru að reyna að byrja að stuðla að hliðstæðu framboðsjafnvægi í gámafiski.

Lögmál framboðs og eftirspurnar, gæða og verðlags hafa haldið innreið sína í verzlun sjávarafurða innanlands. Fiskmarkaðir hafa tekið til starfa og fiskverð hefur verið gefið frjálst. Þessar breytingar munu enn treysta stöðu sjávarútvegs sem sjálfstæðs atvinnuvegar.

Í höfuðóvini þjóðarinnar er engin slík samræming á framboði og eftirspurn. Ríkið hefur nýlega gert samning til fjögurra ára um að ábyrgjast óskerta offramleiðslu á dilkakjöti og mjólk, á 11 þúsund lestum af kjöti og 104 milljón lítrum af mjólk, hvort tveggja á ári hverju.

Ríkið reynir að koma hluta af þessu út á innlendum markaði með því að niðurgreiða verð á afurðum heilagra kúa og kinda og með því að leggja ofsahátt kjarnfóðurgjald á afurðir vanhelgra alifugla og svína, sem ekki teljast til hefðbundins landbúnaðar.

Dálítið af kjötinu er gefið Japönum á 15 krónur kílóið og refum á 5 krónur kílóið. Afgangurinn er svo notaður í nokkur ár til að hjálpa vinnslustöðvum til að greiða niður fjármagnskostnað af frystigeymslum. Síðan er honum ekið á haugana, svo sem frægt er orðið.

Ef ríkið væri ekki að reyna að hagræða matarvenjum þjóðarinnar og halda uppi fáránlega dýrri framleiðslu á smjöri, ostum og annarri búvöru, væri markaður hér fyrir um það bil 5.000 lestir af dilkakjöti og um 40.000 lítra af mjólk eða innan við helming núverandi magns.

Ríkið á að hætta niðurgreiðslum, uppbótum, millifærslum, styrkjum og öðrum peningatilfærslum í landbúnaði og gefa verzlun búvöru frjálsa innanlands og milli landa. Þar með réði markaðurinn framleiðslumagninu og ofbitið Ísland fengi langþráðan frið.

Því miður felst hin pólitíska staða í, að flokkar hinnar nýju ríkisstjórnar vilja óbreytta ofbeit og offramleiðslu, og stjórnarandstaðan vill yfirbjóða stjórnina í stuðningi við ofbeit og svokallað jafnvægi í byggð landsins. Enginn einasti flokkur vill lina á vitleysunni.

Íslendingar væru ríkasta þjóð í heimi, ef landbúnaðinum væri hleypt út á gaddinn, þar sem fyrir er frískur sjávarútvegurinn, hornsteinn velmegunar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Nýja stjórnin er gömul

Greinar

Nýja ríkisstjórnin, sem tekur við á morgun, mun starfa nokkurn veginn í sama anda og hin fyrri. Helzta breytingin er, að nýir menn koma inn fyrir gamla. Að stefnu til felst veganesti nýju stjórnarinnar í að halda áfram í sama farvegi og gamla stjórnin.

Eina umtalsverða frávikið í stjórnarstefnunni er, að nýja stjórnin hefur fyrirfram gefizt upp við tilraunir til að spara og skera niður í opinberum rekstri. Slík voðamál voru alls ekki rædd í samningum um myndun stjórnarinnar. Áður gátu menn ekki, en reyndu þó.

Úr því að hvorki má spara né skera niður, að mati nýju stjórnarinnar, er illskárra að hækka skatta en að halda áfram miklum halla á ríkisbúskapnum. Nýja stjórnin ætlar sem betur fer að hækka skatta í stað þess að hlýða skottulæknum, sem segja halla meinlítinn.

Að mörgu leyti er hinn gamli farvegur ágætur. Raunvextir hafa innleitt bætta notkun peninga og aukið framboð á lánsfé. Fiskmarkaður og frjálst fiskverð hafa ýtt sjávarútvegi á framtíðarbraut. Verðbólga hefur verið mun minni en allar götur síðan í Viðreisn.

Ef nýja stjórnin varðveitir þessa nýlegu hornsteina velmegunar, verður hægt að fyrirgefa henni margt annað. En í margorðum gögnum hennar bendir fátt til, að hún ætli að bæta við nýjum hornsteinum. Það er ekki kjarkmikil ríkisstjórn, sem tekur við á morgun.

Stóri meginþröskuldurinn í vegi framfara verður látinn liggja óhreyfður. Fyrsta atriðið, sem flokkarnir þrír komu sér saman um, var, að ekki skyldi hreyfa við stefnunni í hefðbundnum landbúnaði. Hún felst m.a. í ríkisábyrgð í nýlegum og umdeildum búvörusamningi.

Ekki skiptir miklu, hver framkvæmir þessa makalausu verðmætabrennslu. Jón Helgason er að því leyti heppilegri en margir aðrir, að hann hefur ekkert samvizkubit. Önnur efni í öskuhaugaráðherra gætu farið á taugum, þegar gefur á bátinn. Sem verður oft.

Hið eina, utan nýrra ráðherra, sem Alþýðuflokkurinn hefur í farteski sínu í flutningnum upp í stjórnarkerruna, er óljóst og lítt áþreifanlegt tillit, sem á að taka til sérútgáfu Jóhönnu Sigurðardóttur af gömlu kerfi verkamannabústaða og af nýjum kenningum um búsetu.

Líklega verður Jóhanna eini ráðherrann, sem ekki mun líða feiknarvel í sessi. Hætt er við, að áhugamál hennar hafi lítinn hljómgrunn í þessari ríkisstjórn. Því verður henni nánast ókleift að mæta kjósendum aftur í kosningum sem eins konar íslenzk Jóhanna af Örk.

Atriðin, sem hér hafa verið nefnd, má lesa milli lína í annars marklitlum gögnum á borð við stefnuyfirlýsingu og verkefnaskrá. Sjálfur textinn er hins vegar meiningarlaust hjal um takmarkalaust góðan, 24 blaðsíðna vilja hinnar nýju ríkisstjórnar á öllum sviðum.

Auðvitað eru það svo mennirnir, en ekki málefnin, sem mestu skipta. Málefnin eru bara orð á pappír, en mennirnir hafa völd. Íslenzka stjórnkerfið afhendir ráðherrum mikil völd og því miður líka mikla möguleika á að misnota völdin og hundsa stjórnarskrá og lög.

Sem betur fer bendir allt til, að Sverrir Hermannsson verði ekki aftur ráðherra. Ráðherraferill hans var með þeim hætti, að Bandaríkjamenn hefðu sagt, að hann sveipaði sig þjóðfánanum og hrækti á stjórnarskrána. Bezt væri að fá að líta á þetta sem afmarkað slys.

Annars er nýja stjórnin framhald gömlu stjórnarinnar og markar engin sérstök tímamót. Hún flytur ekki með sér nýjar hættur og ekki heldur ný ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV

Ný mýri í fenjaráðuneytinu

Greinar

Margar eru góðgerðarstofnanirnar og mörg eru samtökin, sem leita ásjár hjá skattborgaranum. Á hverju hausti eru lögð inn hundruð umsókna um fé úr ríkissjóði. Hjá sumum eru nokkur hundruð þúsunda króna í húfi, en aðrir telja sig þurfa á milljónum að halda.

Fjárveitinganefnd Alþingis úthlutar skattborgarafé til þessara þarfa sem annarra. Heildarfjármagnið takmarkast af pólitísku mati á, hversu mikil velta megi vera á ríkissjóði hverju sinni. Peningarnir fara mest í fastan rekstur og lítið er afgangs til ýmissar ölmusu.

Fjárveitinganefnd er skipuð meirihluta, sem ræður ferðinni í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar, og minnihluta, sem gagnrýnir gerðir meirihlutans. Úr þessu fæst niðurstaða, sem byggist á umfjöllun, er nú á tímum getur talizt meira eða minna málefnaleg.

Sameinað Alþingi staðfestir síðan fjárlögin frá fjárveitinganefnd rétt fyrir áramót og setur þannig skorður ríkisrekstri næsta árs. Þetta er veigamikill þáttur í þjóðskipulagi okkar og einn af helztu hornsteinum lýðræðisins. Þetta á að vera vörn gegn geðþóttastjórn.

Við skömmtun fjármagnsins verður útundan langur listi góðra mála. Ekki er hægt að kaupa ákveðin hjálpar tæki handa fötluðum börnum. Ekki er hægt að veita ýmsar tegundir sérkennslu. Ekki er hægt að aðstoða ýmsa merka rithöfunda við að ná mannsæmandi tekjum.

Einn þeirra ótal aðila, sem hafa farið bónleiðir til búðar, er Íslenzka óperan í Gamla bíói. Ekki náðist pólitískt meirihlutasamkomulag um, að þarfir hennar væru eins brýnar og þarfir annarra, sem komust á fjárlög ársins. Enda eru Íslendingar ekki milljónaþjóð.

Óperumenn snéru sér þá að því að sleikja ráðherra menntamála, sem er orðinn illræmdur fyrir algeran skort á skilningi á eðlilegum vinnubrögðum í ríki lýðræðis og þingræðis og hefur víðtæka minnimáttarþörf á að baða sig í málskrúði um íslenzka menningu.

Sverrir Hermannsson hafði áður afhent Kvikmyndasjóði húsnæði og tíu milljónir króna, þótt hann hefði ekki til þess heimild, þar sem þær þarfir komust ekki gegnum nálarauga Alþingis. Hann hefur líka keypt Mjólkursamsölu undir Þjóðskjalasafn, án leyfis.

Sem betur fer fyrir lýðræðið í landinu er Sverrir að hætta skrautlegum ráðherraferli sínum. Hann getur því ekki efnt loforð um, að stóreignaskattur Þjóðarbókhlöðu verði innheimtur áfram til að byggja Tónlistarhöll. Örlæti hans á annarra fé verða takmörk sett.

Því miður gildir ekki hið sama um fjármálaráðherrann, sem hefur í vetur verið meðsekur menntaráðherranum í hinum ólöglegu fjármagnsflutningum, þar á meðal í ríkisrekstri Óperunnar. Þorsteinn Pálsson verður í næstu viku gerður að forsætisráðherra.

Þeir hafa tekið saman höndum um að veita Óperunni þrettán milljónir króna framhjá fjárlögum þessa árs og lofa henni átta milljónum króna á ári næstu þrjú árin. Samtals hafa þeir skuldbundið hina örlátu skattgreiðendur til að greiða Óperunni 37 milljónir króna.

Með þessu hafa tveir ráðherrar í stjórn, sem ekki hefur meirihluta á Alþingi, ákveðið að gera Óperuna að hliðstæðu ríkisfyrirtæki og Þjóðleikhúsið, án þess að spyrja Alþingi ráða eða fara á nokkurn hátt eftir þeim reglum, sem fylgt hafa og fylgja eiga þingræði.

Ekki er víst, að Óperan blómstri lengi sem ný mýri í því fenjaráðuneyti, sem menntaráðuneytið er orðið. En hún þarf ekki lengur á velvild almennings að halda.

Jónas Kristjánsson

DV

Steingrím á þríhjólið

Greinar

Almenningsálitið hér á landi er eindregið fylgjandi, að mynduð verði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Alþýðuflokks og að Steingrímur Hermannsson verði forsætisráðherra. Þetta kom fram í skoðanakönnun DV, sem birtist í blaðinu í gær.

Hvorugt kemur á óvart og sízt gengi Steingríms. Undanfarna mánuði hefur hann jafnan borið höfuð og herðar yfir aðra stjórnmálamenn í könnunum af þessu tagi. Ljóst er því, að ríkisstjórninni, sem nú er verið að mynda, kæmi bezt, að Steingrímur yrði í forsæti.

Segja má, að Steingrímur haldi persónulega uppi Framsóknarflokknum. Án hans væri flokkurinn nánast rúinn öllu fylgi á suðvesturhorninu, þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar búa. Búast má við, að flokkurinn andist á eðlilegan hátt, þegar Steingrímur hættir.

Þorsteini Pálssyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni hefur ekki tekizt að vinna sér þjóðarleiðtogatraust. Tölur könnunar DV sýna, svo ekki verður um villzt, að þeim ber að láta Steingrími eftir forsætið. Þannig verður hin annars veika ríkisstjórn sterkari en ella.

Hér er hin fyrirhugaða ríkisstjórn kölluð veik, þótt að henni standi þrír stærstu þingflokkarnir, sem hafa óvenju ríflegan meirihluta þjóðarinnar að baki sér. Hún er veik af mörgum ástæðum, til dæmis vegna þess að hún verður tekin með keisaraskurði í fæðingu.

Þjóðin hefur í fjórar vikur horft á stjórnarsamninga, sem boða hættur í fyrirhuguðu samstarfi. Flokksleiðtogarnir væna hver annan um lygar og fals og keppast um að gefa yfirlýsingar, sem lyfta þeim sjálfum á kostnað hinna tveggja. Allt innra traust skortir.

Ríkisstjórnin er einnig veik, af því að hún er beint framhald fyrri ríkisstjórnar. Alþýðuflokkurinn gerist þriðja hjólið undir stjórnarvagninum og býður fram sem ráðherra helzta efnahagsfræðing fyrri ríkisstjórnar. Engin málefni fylgja þátttöku Alþýðuflokksins.

Þríhjólið hefur beinlínis samið um óbreytt ástand á ýmsum sviðum, til dæmis í landbúnaði. Því er ljóst, að næstu árin verður kastað á glæ þeim peningum, sem stjórnin þyrfti að geta notað til að stuðla að framförum í landinu. Hún verður rígbundin á landbúnaðarklafa.

Samt er þetta ríkisstjórnin, sem kjósendur vilja fá, samkvæmt könnun DV. Ef til vill stafar stuðningurinn af, að kjósendur telji þriggja flokka stjórn vera illskárri en fjögurra flokka stjórn og að þessi þriggja flokka kostur hefur lengi verið einn til umræðu.

Þrátt fyrir annmarkana kemur niðurstaða könnunarinnar ekki á óvart. Það stafar af, að gamla ríkisstjórnin hafði ekki bakað sér neina óvild kjósenda og að þetta mynztur gengur að mati kjósenda einna næst hinu fyrra samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hin nýja ríkisstjórn sækir bæði styrk og veikleika til gömlu stjórnarinnar. Styrkurinn felst í, að þjóðin er í stórum dráttum sátt við gömlu stjórnina. Og veikleikinn felst í, að gamla stjórnin var búin að ljúka því góða, sem hún gat sameinazt um, og átti vandamálin ein eftir.

Hin óviðkunnanlega togstreita flokkanna þriggja og ráðherraefna þeirra um stóla virðist ekki hafa spillt almenningsáliti væntanlegrar stjórnar. Líklega skilja kjósendur, að í raun hafa ráðherrastólar meira stjórnmálagildi en orðskrúð og óskhyggja málefnasamninga.

Líklega verður nú myndað stjórnarþríhjólið, sem almenningur hefur óskað eftir í könnun DV. Hitt er vafasamara, að valinn verði réttur stýrimaður hjólsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Illorðir í Alþýðubandalagi

Greinar

Ekkert fólk í landinu talar verr um eigin flokkssystkin en alþýðubandalagsfólk. Þar talar fólk hvað um annað af fullkomnu hatri. Ekkert þessu líkt þekkist annars staðar í stjórnmálunum. Til dæmis talar annarra flokka fólk ekki svona um alþýðubandalagsfólk.

Dæmi eru um, að framámenn í Alþýðubandalaginu tali þannig hver til annars á almannafæri, þar sem annarra flokka fólk má vel heyra, að það fer hreinlega hjá sér. Fyrirlitningin og hálfkveðnu vísurnar ganga á víxl eins og hnúturnar hjá Goðmundi á Glæsivöllum.

Miðstjórnarfundur Alþýðubandalagsins um helgina sýndi, að ástandið fer versnandi og stefnir að formlegu uppgjöri á landsfundi flokksins í haust. Ágreiningurinn er sumpart málefnalegur, en væri ekki svona hatrammur, ef hann væri ekki fyrst og fremst persónulegur.

Línurnar liggja í stórum dráttum þannig, að ótryggt bandalag flokkseigenda og verkalýðsrekenda stendur andspænis menntasveit opinberra starfsmanna. Þessi klofningur endurspeglar málefnalegan ágreining um, hvaða hagsmuna Alþýðubandalagið eigi helzt að gæta.

Verkalýðsrekendur gæta einkum hagsmuna vel stæðs miðstéttarfólks í bláflibbastörfum, til dæmis uppmælingaraðals. Oddamaður þeirra er Ásmundur Stefánsson, sem hefur bakað sér innanflokksóvild með því að stjórna landinu í samstarfi við Vinnuveitendasambandið.

Menntasveitin gætir aftur á móti hagsmuna meðal- og langskólagengins fólks í opinberum stöðum. Oddamaðurinn er Ólafur Ragnar Grímsson, sem hefur bakað sér innanflokksóvild með því að vera klárari og ósvífnari en aðrir valdastreitumenn Alþýðubandalagsins.

Milli þeirra stendur formaðurinn, Svavar Gestsson, oddamaður flokkseigendafélagsins, sem undanfarið hefur stjórnað með bandalagi við verkalýðsrekendur flokksins. Svavar hefur bakað sér innanflokksóvild sem persónugervingur hins óheilbrigða ástands í flokknum.

Í sjónvarpi sýnir Svavar mynd hrokafulls manns með höfuðverk. Hann er þar brúnaþungur, reiðilegur og frámunalega yfirlætislegur. Áhorfendur tengja þetta við flokkinn og telja hann margir hverja vera svartagallsflokk pirraðra merkikerta, sem hafi allt á hornum sér.

Myndin styðst við þá staðreynd, að stefna Alþýðu bandalagsins og alþýðubandalagsfólks er að mörgu leyti öfundsýkt og á annan hátt neikvæð, til dæmis í garð verzlunar og viðskipta, bifreiða- og íbúðaeignar, sjónvarps og myndbanda ­ og lífsstíls nútímans yfirleitt.

Raunar er ekki sanngjarnt að gera Svavar að persónugervingi þessa, því að hann hefur sem sjóaður flokkseigandi betri sýn yfir þjóðfélagið en margt af stofublómaliði Ólafs, er ber skýrari merki öfundar og óbeitar út af peningadýrkun og lífsstíl nútímans.

Á hinn bóginn er Ólafur svo fyrirferðarmikill, að á hann duga aðeins tvö ráð. Annað er að reka hann út eins og Framsóknarflokkurinn gerði. Hitt er að fela honum völdin. Hvar sem Ólafur er, verður ekki rúm fyrir fleiri á tindinum. Hann er flokkur út af fyrir sig.

Meðan Ólafur er ekki orðinn oddviti Alþýðubanda lagsins, mun hann grafa undan þeim, sem fyrir sitja á fleti, og þannig rækta upplausnina og úlfúðina í flokknum. Nái hann svo völdum, kann hann aftur á móti sennilega ráð til að breyta dapurri ímynd flokksins.

Meðan streitt og herpt Alþýðubandalag étur sig upp í innra hatri, fá önnur stjórnmálaöfl að valsa á grundum, sem það taldi einu sinni heimavöll, í alþýðutúninu.

Jónas Kristjánsson

DV

Braggablús í Tjörninni

Greinar

Braggarnir tveir, sem borgarstjórnin ætlar að reisa í Tjörninni og kallar ráðhús, eru tiltölulega látlausir og skemmtilegir. Beztir eru þeir þó fyrir að bera engan veginn utan á sér, að þeir séu veizlu- og monthús. Þeir eru ekki þrúgaðir af þykjustuleik hefðarinnar.

Merkilegt er, hversu illa fjölmiðlar hafa sinnt úrslitum verðlaunasamkeppninnar um ráðhús í Tjörninni. Yfirleitt hafa þeir aðeins sýnt almenningi, hvernig braggarnir tveir munu líta út í augum flugmanna, sem eru búnir að hefja sig á loft eftir 02 flugbrautinni.

Aðeins hér í DV hafa verið birtar myndir, sem sýna, hvernig ráðhúsið blasir við vegfarendum um Tjarnargötu, Vonarstræti og Fríkirkjuveg. Þær sýna, að fleira er við ráðhúsið en braggaþakið eitt. Þær sýna tiltölulega hógvært og létt hús, sem fellur að umhverfinu.

Ekki er allt gott við þetta ráðhús. Í fyrsta lagi er það síður en svo fallegra en húsið, sem stendur fyrir á lóðinni. Er því enn einu sinni ástæða til að ítreka spurninguna um, hvenær borgarstjórn hyggist láta af niðurrifi gamalla og fagurra húsa til að rýma fyrir öðrum lakari.

Áður hefur hér í blaðinu verið bent á, að umhverfisstefna borgarstjórnar er mjög neikvæð gagnvart gamla miðbænum í Kvosinni. Þar er ráðgert að láta sögulega fræg hús víkja fyrir hollenzkum síkishúsum, sem raðað er upp, svo að þau myndi mannfjandsamlegar stormgjár.

Í öðru lagi verða hinir fyrirhuguðu ráðhúsbraggar byggðir langt út í Tjörnina, því að núverandi lóð er ekki nógu stór. Þar með skerðist Tjörnin. Það er skaðleg iðja, ekki sízt, ef hún er skoðuð í samhengi við áform um að breikka Fríkirkjuveginn út í Tjörnina.

Ætlunin er að bæta skerðingu Tjarnarinnar með smátjörn að ráðhúsbaki við hornið á Tjarnargötu og Vonarstræti. Það er út af fyrir sig fallega hugsuð tjörn, eins konar lón úr Tjörninni með ós milli bragganna, en bætir þó ekki upp skerðingu stóru Tjarnarinnar.

Í þriðja lagi virðast braggarnir fyrirhuguðu ekki vera svo einstakir, frábærir eða merkilegir, að þeir megni að eyða efasemdum um, að rétt eða þarft sé að hola ráðhúsi niður í Tjörnina. Margoft hefur verið bent á betra svigrúm til ráðhúss annars staðar í borginni.

Miklu ódýrara væri til dæmis fyrir borgina að kaupa Landsbókasafnið, þegar það flyzt í Þjóðarbókhlöðuna. Það er fallegra hús og hentar vel til veizluhalda. Og svo má ekki gleyma, að borgin á fyrir eins konar veizluráðhús í Höfða og að Kjarvalsstöðum. Þarf hið þriðja?

Í fjórða lagi stríðir ráðhúsið gegn því, sem ætti að vera grundvallarlögmál borgarskipulags, að nýja miðbæi skuli ekki byggja ofan í gamla. Um allan heim er algilt, að heppilegast og fegurst hefur reynzt að leyfa gömlu miðbæjunum að halda sér, þótt fátæklegir séu.

Öll stefna borgarstjórnar um fjögurra hæða síkishús í miðbænum er gegnsýrð af minnimáttarkennd hinna nýríku menningarleysingja, sem ímynda sér, að gamlir timburskúrar, eins og þeir í Bakarabrekkunni, séu eins konar fátæktarmerki, er stingi í stúf við nútímann.

Þrátt fyrir þessa fjórþættu gagnrýni felst í fyrirhuguðu ráðhúsbröggunum tveim í Tjörninni mun skárri misþyrming á Kvosinni en í hinum hræðilega alþingiskassa, er nú á að fullhanna fyrir nokkrar milljónir króna, sem sljóir þingmenn veittu í vetur sem leið.

Bezt væri að losna við byggingu ráðhússins. En þolanlegt væri að skipta á því og alþingiskassanum fyrirhugaða. Margt mætti þola til að fá hann úr sögunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hastarleg ráðherraveiki

Greinar

Af mörgu undarlegu í langdreginni tilraun Jóns Baldvins Hannibalssonar og Jóns Sigurðssonar til að verða ráðherrar er einna sérkennilegast, að aldrei er minnst á sparnað í ríkisrekstri. Niðurskurður ríkisútgjalda er algert bannorð í stjórnarmyndunarviðræðum þeirra.

Þótt margar undirnefndir hafi framleitt handa Jónunum og viðmælendum þeirra mikið af pappír um fjármál ríkisins, er þar hvergi vikið að sparnaði. Hin mikla reiknivinna undirnefndanna fjallar eingöngu um aukna skattheimtu, aðallega vegna kúa og kinda.

Einnig er eftirminnilegt, að ráðherraveikin er svo hastarleg, að Alþýðuflokkurinn hefur kastað fyrir róða öllum sínum skoðunum, þar á meðal á landbúnaði. Tilraun Jónanna fjallar að verulegu leyti um verndun og aukningu fjárveitinga til kúa og kinda.

Athyglisvert er, að Jónarnir eru búnir að verja 23 dögum, meira en þremur vikum, í tilraunir sínar til að verða þriðja hjólið undir kerru núverandi ríkisstjórnar. Þorsteinn Pálsson var skammaður fyrir seinagang, en hann notaði þó ekki nema 16 daga, rúmar tvær vikur.

Eftirtekt hlýtur líka að vekja, að stjórnarmyndendur telja reiknivinnu langt fram í tímann vera höfuðmálið. Það er eins og þeir þykist geta reiknað þorsk á miðin, verðgildi í dollarann og hagþróun í viðskiptalönd okkar. Þeir virðast trúa blint á vafasamar spátölur.

Þegar málsaðilar voru búnir að mála sig út í horn, fann Þorsteinn Pálsson upp á munnlegu snjallræði til að draga viðræðurnar á langinn. Hann lagði til, að stjórnkerfið yrði stokkað upp í stjórnarmynduninni með því að sameina ráðuneyti og sundra þeim á ýmsa vegu.

Þessi skondna hugmynd kallar á sérstök bráðabirgðalög. Merkara er þó, að málsaðilar skuli telja rétt að blanda í stjórnarmyndunarviðræður tæknilegum stjórnkerfisbreytingum, sem annað fólk telur, að eigi að taka langan tíma og hafa auk þess kosningar á milli.

Þegar búið var að sóa viku í að ræða flutning ráðuneyta fram og aftur, fann svo hinn sami formaður Sjálfstæðisflokksins upp á þveröfugri skoðun í sama máli, það er að segja, að stokkunin skipti litlu máli. Þetta var síðbúin hugljómun, en óneitanlega réttmæt.

Þá hefur komið fram í viðræðunum, að fulltrúum Alþýðuflokks finnst erfitt að hnika Sjálfstæðisflokki í neinu, sem máli skiptir. Hinn síðarnefndi hefur að leiðarljósi, að flest sé í stakasta lagi í fjármálum ríkisins, eftir góða fjármálastjórn Alberts og Þorsteins.

Í raun eru það þó fulltrúar Framsóknarflokksins, sem hafa sýnt og sýna enn viðræðunum minnstan áhuga. Steingrímur Hermannsson gaf sér tíma til að skreppa til Portúgal. Nokkru síðar fór hann í lax og kom ekki í bæinn fyrr en kominn var tími til að heilsa kónginum.

Steingrímur fór í laxinn um leið og Halldór Ásgrímsson fór til Bournemouth til að spilla meira en orðið er fyrir áliti Íslands í útlöndum. Að sjálfsögðu er mikilvægt fyrir Halldór að sýna fram á, að hann geti ekkert lært og kunni alls ekki að hætta vonlausu máli.

Hitt er merkilegra, að Steingrímur skuli nota þessa bráðnauðsynlegu fjarveru hins mikla hugsjónamanns hvalveiða til að fara sjálfur til laxveiða og skilja Guðmund Bjarnason eftir í reiðileysi í viðræðum við hina óvenjulega ráðherrasjúku fulltrúa Alþýðuflokksins.

Meðan viðmælendur hlaupa þannig út og suður, hefur Jón Hannibalsson í rúmar þrjár vikur verið stórorður um, að allt væri að renna saman. En úti er ævintýri.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkir gegn fátækum

Greinar

Mörgum þætti einkennilegt, ef spurt væri, hvað sé líkt með Thatcher sigurvegara á Bretlandi og Alþýðusambandi Íslands. Fleirum þætti einkennilegt, ef svarað væri, að hvorir tveggja stæðu með hinum ríku gegn hinum fátæku. Svarið er samt tiltölulega rökrétt.

Hagfræðingur Alþýðusambandsins kaus sér nýlega að standa frammi fyrir umræðu um lögfestingu lágmarkslauna. Hann hefði getað sagt, að kjarajöfnun væri æskileg, ekki framkvæmanleg með þessum hætti, en hins vegar á annan hátt, sem hann síðan rekti.

Þetta gerði hann ekki, heldur lét sér nægja að segja, að lögfesting lágmarkslauna næði ekki tilgangi sínum. Auk þess bætti hann við, að kjarajöfnun í landinu væri komin á svipað stig og var í Mesópótamíu fyrir nokkur þúsund árum, líklega hjá Hammúrabí í Babýlon.

Hagfræðingurinn notaði enga hugmyndafræði til að rökstyðja, hvers vegna eðlilegt væri, að lífskjaramunur Íslendinga frysi í ástandi sem ríkti fyrir Krist í Mesópótamíu. Hann þurfti það ekki, af því að samtök hans standa með hinum vel settu í launakerfinu.

Margoft hefur komið fram, að í raun ráða uppmælingaraðall og ýmsir forréttindahópar ferðinni í Alþýðusambandinu og flestum sérsamböndum þess. Þegar upp er staðið eftir kjarasamninga, hafa þessir aðilar yfirleitt hirt rjómann og smjörið af niðurstöðunni.

Málsvarar launþega komast upp með þetta á sama hátt og frú Thatcher kemst upp með sína stefnu á Bretlandi. Vestrænt þjóðfélag hefur nefnilega breytzt svo, að hinir tiltölulega vel settu eru orðnir fleiri en einstæðar mæður og aðrir þeir, sem skipa undirstéttina.

Um allan hinn vestræna heim hefur myndast tiltölulega vel stæð miðstétt sem er fjölmennust allra stétta. Hún er orðin kjölfestan í þjóðfélaginu. Hún á sínar eigin íbúðir og er farin að kaupa hlutabréf og verðbréf. Hún er farinn að finna til sinna eigin hagsmuna.

Miðstéttarfólk Vesturlanda kemst smám saman á þá skoðun að þjóðfélagið sé um of reyrt í viðjar velferðar. Það hallast sífellt meira að markaðshyggju. Það styður stjórnmálamenn sem leggja áherzlu á stækkun þjóðarauðsins, en sinna síður jafnri dreifingu hans.

Slíkt fólk hefur borið Reagan til valda í Bandaríkjunum og Thatcher í Bretlandi. Það lætur sér vel líka, að Thatcher smjaðri ekki fyrir fátæklingum og segi letingjum til syndanna. Það lætur sér fátt um finnast, þegar hana er sögð skorta hlýju í garð hinna lakast settu.

Í kringum þetta hefur verið smíðuð hugmyndafræði, sem segir, að stjórnaraðgerðir í þágu hinna vel settu, svonefnd örvandi hagstjórn, efli þjóðarhag og myndi auð sem síðan sáldrist frá hinum ríku niður til hinna fátæku, í mynd aukinnar og betur borgaðrar atvinnu.

Raunar er þetta einkar rökrétt hugmyndafræði. Stækkun þjóðarköku er yfirleitt til góðs fyrir alla um síðir, þótt hún komi fyrst að gagni þeim, sem aðstöðu hafa til að nota sér hvetjandi stjórnaraðgerðir á borð við háskattalækkanir og aðra þrengingu skattstiga.

Thatcher og Reagan telja sér brýnt að beita hugmyndafræði til varnar stuðningi við hina ríku. Uppmælingaraðall Alþýðusambandsins hefur hins vegar ekkert fyrir slíku, heldur vísar bara til Mesópótamíu.

Íslenzkir stjórnmálamenn munu líka höfða meira til eiginhagsmuna, þegar þeir fara að átta sig á, eins og Thatcher, að hinir vel stæðu eru orðnir fjölmennasta stéttin. Fá atkvæði eru hins vegar í einstæðum mæðrum.

Jónas Kristjánsson

DV

Við erum enn að læra

Greinar

Fiskmarkaðurinn, sem hófst í Hafnarfirði í þessari viku, er mikilvægt spor í atvinnusögu Íslendinga. Hann er þáttur í hruni skipulagsstefnunnar, sem átti fyrra blómaskeið sitt á einokunartíma einveldiskonunga og hið síðara á verðlagsráðatíma framsóknarmanna.

Loksins er farið að verðleggja fisk hér á landi á sama hátt og tíðkazt hefur frá örófi alda annars staðar í heiminum. Við erum að eignast okkar Billingsgate, Fulton og Rungis. Markaðshyggjan hefur haldið innreið sína í langsamlega mikilvægustu atvinnugrein okkar.

Fyrsta uppboðið er strax farið að hafa áhrif. Kaupendur kvarta um, að seljendur kunni ekki að ísa fisk í kassa. Vafalaust mun misjafnt markaðsverð fljótlega leiða til, að sjómenn og skipstjórar læri að ganga þannig frá vörunni, að hún gefi hæst verð á markaði.

Eftir upphafið getum við farið að furða okkur á, hvernig okkur tókst að halda áratugum saman slíku dauðahaldi í skipulagsstefnuna, að við erum nú fyrst að veita okkur munað markaðsins. Við munum fljótlega hætta að skilja, hvernig gamla kerfið var kleift.

En á þessu andartaki þróunarinnar getum við um leið skilið, hvers vegna öll stjórnmálaöfl þjóðarinnar eru enn sammála um að halda áfram skipulögðu og dauðvona kerfi ríkisrekstrar í landbúnaði. Menn eru einfaldlega svona rígbundnir í hefðbundnum formum.

Allt til hins síðasta olli tilhugsunin um fiskmarkað mikilli skelfingu framsóknarflokksmanna allra flokka. Afturhaldsmönnum tókst að koma í veg fyrir, að fiskmarkaðir hæfust í vertíðarbyrjun eftir áramótin. Þeir gerðu það með því að halda áfram opinberu fiskverði.

Alþingismenn sæta oft strangri gagnrýni. En þeim til mikils hróss má þó segja, að þeir settu á ofanverðum vetrinum lög, sem heimiluðu stofnun fiskmarkaða í landinu. Þar með var grundvellinum skyndilega kippt undan hinu gamla verðlagningarkerfi hins opinbera.

Afturhaldið virðist ekki hafa áttað sig á, hvað var að gerast. Meðan menn kepptust við að innrétta fiskmarkaði í Hafnarfirði og Reykjavík, voru málsvarar hinna gömlu tíma að dunda sér í varnarstríði gegn frjálsu fiskverði og í heilagri krossferð gegn gámafiski.

Samband íslenzkra samvinnufélaga og helmingurinn af Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna höfðu forustu um að verjast frjálsu fiskverði. Þegar fyrsti söludagur nýja markaðsins í Hafnarfirði var kominn í einnar viku nálægð, gafst þessi armur afturhaldsins skyndilega upp.

Lífseigari og alvarlegri er krossferðin gegn gámafiskinum. Forstjórar Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna og Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda hafa skipulega reynt að blekkja þjóðina á því sviði, með öflugum stuðningi grófra fréttafalsana í Ríkissjónvarpinu.

Afturhaldið er enn að reyna að fá þjóðina til að trúa, að freðfiskur sé verðmætari en ferskur fiskur og að Evrópubandalagið tolli freðfisk meira en ferskan fisk í atvinnubótaskyni fyrir sinn eigin fiskiðnað. Allt er þetta hin aumasta lygi, sem hefur því miður síazt inn.

Fiskmarkaðurinn í Hafnarfirði og förunautar hans í Reykjavík og vonandi víðar um land munu slá vopnin úr höndum afturhaldsins. Íslenzkur fiskur mun hér eftir strax á hafnarbakkanum finna sitt markaðsverð, hvort sem hann síðan lendir í gámi, frystingu eða söltun.

Með fiskmörkuðum hafa Íslendingar stigið síðbúið risaskref inn í efnahagslega framtíð, sem öðrum þjóðum hefur verið kunn fortíð öldum og árþúsundum saman.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofbeitarfé á öskuhauga

Greinar

Fimmtán þúsund dilkum var ekið í kyrrþey á öskuhauga Reykjavíkur í Gufunesi í síðustu viku. Þar var jarðýta látin moka yfir 250 tonn af kindakjöti frá 1985. Okkar menn voru á varðbergi eins og oft áður, svo að lesendur DV fengu að vita af myrkraverkinu.

Mistökin, sem ollu þessari offramleiðslu, voru ekki grafin með dilkunum fimmtán þúsund. Þau er verið að endurtaka í ár og verða endurtekin á næstu árum. Allir stjórnmálaflokkar, sem hafa komið nálægt viðræðum um nýja stjórn, eru sammála um að halda þeim áfram.

Fyrir skömmu kvartaði Landgræðsla ríkisins yfir, að sauðfé hefði verið rekið allt of snemma inn á viðkvæman Austurafrétt Mývetninga, þar sem Landgræðslan hefur girt fimm stór friðunarsvæði til að tefja af veikum mætti fyrir, að þar myndist alger sandauðn.

Mývatnsmálið og Gufunesmálið sýna í hnotskurn, hvernig komið er fyrir sauðfjárrækt hér á landi. Ísland er ofbeitt af óhóflegum fjölda sauðfjár, sem síðan verður að fleygja á öskuhaugana. Allir stjórnmálaflokkar eru í raun sammála um að standa vörð um þennan glæp.

Norðanverðar Strandir eru eini hluti landsins, þar sem gróðri hefur farið fram í stórum stíl. Þær hafa líka verið í eyði um langt skeið. Þær fá því að vera í friði fyrir höfuðóvinum landsins, sauðkindinni og sauðfjárbændum. Samt er reynt að hindra, að meira fari í eyði.

Áður en 15.000 dilkunum var fleygt á öskuhauga Reykjavíkur, var búið að reyna margt til að koma út afleiðingum ofbeitarinnar, hinu óþarfa dilkakjöti. Lengi var hægt að gefa dilkakjötið útlendingum, en þeir hafa gerzt slíkum gjöfum fráhverfir á undanförnum árum.

Enda kemur féð svo magurt af hinum ofbeittu afréttum, að bændur telja sig neydda til að beita því á vegkanta og fóðurkál til að ná upp þyngdinni í fitu. Þaðan koma hin fóðurkálsöldu vegalömb, sem reynt er að selja sem villibráð, en auðvitað án árangurs.

Næsta skref feigðarflansins var stigið í síðasta mánuði, þegar kerfið var látið kaupa í refafóður kjöt af 25 þúsund kindum, samtals 500 tonn, svo og 600 tonn af nautgripakjöti. Refabændur borguðu fimm krónur fyrir hvert kíló, gegn því að lofa að borða það ekki sjálfir.

Þetta dugði skammt, því að ekki er nóg af loðdýrum og loðdýrabændum í landinu. Þess vegna var gripið til örþrifaráðsins á sorphaugunum í síðustu viku. Og áfram munu kerfismenn þurfa að læðast á haugana á næstu mánuðum, því að þeir þurfa að losna við 6.500 tonn.

Tonnin 6.500 eru gamlar birgðir, sem verða fyrir í sláturtíðinni í haust, þegar til falla 12.900 tonn til viðbótar. Þrátt fyrir niðurgreiðslur og uppbætur verður ekki unnt að borða nema um 10.000 tonn af öllu þessu ofbeitarkjöti. Afgangurinn er öskuhaugamatur.

Í stjórnarmyndunarviðræðunum hefur komið í ljós, að kostnaður ríkisins af umsamdri offramleiðslu í landbúnaði verður miklu meiri en fram kemur í fjárlögum ársins. Jón Helgason landbúnaðarráðherra áætlar, að um 1,2 milljarða vanti til viðbótar í ofbeitarhítina.

Þess vegna er verið að tala um að leggja á okkur bílaeignarskatt, aukinn bensínskatt, krítarkortaskatt og aukinn söluskatt, svo að unnt sé að mynda ríkisstjórn um það meginmarkmið stjórnvitringanna, að haldið verði áfram að rækta ofbeitarfé í öskuhaugamat.

Sérkennileg er sú þjóðaríþrótt að misþyrma Íslandi með ofbeit til að afla dilkakjöts, sem sumpart er selt á fimm krónur í refafóður og afganginum hent á hauga.

Jónas Kristjánsson

DV