Greinar

Allt á sama stað

Greinar

Með símanum greiðum við atkvæði í sönglagakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva. Síminn flytur okkur fréttir, til dæmis af gengi hlutabréfa eða úrslitum íþróttaleikja. Við tökum þátt í spurningaleikjum í símanum, skoðum gengi gjaldmiðla og látum símann vekja okkur eða minna okkur á mikilvæga fundi.

Fljótlega kemur að kröfu um að fá að kjósa í gemsanum í stað þess að fara á kjörstað. Það er freistandi leið til að halda uppi kjörsókn í alþingis-, byggða- og forsetakosningum og kjörin aðferð til að virkja þjóðaratkvæðagreiðslur sem hornstein lýðræðis, enda kostar símakosning ekki mikið.

Gemsinn er þegar kominn í harða samkeppni við tölvuna, til dæmis um tölvupóst. Hvar sem er sendum við stutt skilaboð símleiðis og tökum við þeim. Með lofttengingu tölvunnar mun hún veita símanum samkeppni, en allur almenningur hefur þegar veðjað á gemsann sem félagslegt samgöngutæki sitt.

Bandarískir kvalarar í fangelsum Íraks tóku myndir hver af öðrum við iðju sína. Þessar myndir láku út og breyttu gangi heimssögunnar. Menn vissu að vísu af pyndingunum áður, en þá voru þær sagðar vera ímyndun dálkahöfunda. Það var ekki fyrr en myndgemsar komu, að siðferðisþakið hrundi ofan á herinn.

Smám saman mun síminn taka að sér meira af þeim hlutverkum, sem upphaflega voru ætluð lófatölvum. Síminn verður dagbók með minnislistum og fundatímum. Síminn verður leiktæki og útvarp og sjónvarp. Krafa markaðarins er, að síminn taki sífellt að sér fleiri verksvið, sem áður voru tölvunnar.

Gemsinn þarf ekki aðeins að taka að sér hlutverk lófatölvu, síma og útvarps. Hann þarf líka að taka að sér hlutverk staðsetningartækis, sem segir eigandanum, hvar hann er staddur og hvaða leið hann eigi að fara til að komast á tiltekinn stað. Gemsinn verður bæði Palm og GPS-tæki.

Auðvitað verður það tæknilegt afrek að sameina öll þessi þrjú tæki í léttum gemsa, en annað eins hefur verið leyst. Helzti þröskuldurinn á veginum er rafmagnið. Útvíkkaður gemsi þarf miklu meira rafmagn en núverandi gemsi til að haldast í sambandi við umheiminn milli hleðslustunda.

Tugþúsundir tæknimanna í tæknideildum gemsaframleiðenda vinna við að þróa búnað, sem geri gemsanum kleift að gera allt, sem hér hefur verið talið upp og raunar margt fleira. Flest bendir til, að gemsinn sé, fremur en fistölvan, að verða einkennistæki og einkennistákn hinnar nýju aldar.

Sigurganga gemsans byrjaði raunar, þegar fólk áttaði sig á, að þar var komið tæki, sem gat sagt nákvæmlega, hvenær það kæmi heim í mat. Þá varð gemsinn hluti af lífinu sjálfu.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgarstjóri stokki

Greinar

Nú er góður tími til naflaskoðunar hjá Reykjavíkurlistanum, mitt á milli síðustu kosninga og hinna næstu. Borgarstjórinn er mitt á milli þess að gera sig eða gera sig ekki. Margir eru orðnir leiðir á þaulsætnum oddvitum samstarfsins. Og í skipulagsmálum sætir listinn mikilli og vaxandi gagnrýni.

Vandi Reykjavíkurlistans er samt lítilfjörlegur í samanburði við vandræði samstarfsins í ríkisstjórn, þar sem helzti þjóðarleiðtoginn hefur glatað sambandi við fólkið og hinn býr við nagandi ótta um að fá ekki að verða forsætis. Þar er færi á naflaskoðun, ef einhvers staðar er færi á henni.

Borgarstjórinn nýlegi er greinilega vandamál og hlaut að verða það. Hann kom ekki úr pólitíkinni, ekki brýndur af úrslitum kosninga, heldur eins og álfur út úr hól, handvalinn og signdur af fyrirrennara, sem hélt að hún væri að verða forsætisráðherra, en vantaði svo herzlumuninn.

Borgarstjórinn reynir að vera góður við alla og hleypur milli grillboða og almannaskokks í stað þess að stjórna borginni og gera hana að vin í þeirri eyðimörk, sem ríkisstjórnin hefur búið til í landsmálunum. Í haust fer að koma tími hjá honum til að gera sig pólitískt eða ekki.

Um svipað leyti fer að koma tími hjá oddvitum flokkanna, sem standa að Reykjavíkurlistanum að gera upp hug sinn og ákveða, hvort mildar óvinsældir þeirra eru vandræði, sem muni bara magnast næstu tvö árin. Ef svo er, þá er kominn tími til að gefa fleiri bolta á þá, sem neðar standa.

Tvö kjörtímabil án hlutverkaskipta eru fólki langur ferill í stjórnmálum. Þrjú kjörtímabil eru stórhættuleg eins og við höfum fengið áminningu um í landsmálunum. Menn fara að haga sér eins og þeir eigi plássið, breyta til dæmis Orkuveitunni í spilavíti áhættufjárfestinga í margvíslegum hugarórum.

Skipulegust eru mistök Reykjavíkurlistans þó í skipulagi borgarinnar, einkum umferðar og þéttingu byggðar. Þess hefur þar aldrei orðið vart, að oddamenn listans hafi hlustað á gagnrýni. Verri en Hringbrautin er sú árátta þeirra að tefja árum saman fyrir mislægum gatnamótum í Kringlumýri.

Oddvitar Reykjavíkurlistans búa við hugmyndafræðilegan vanda í skipulagsmálum. Þeir eru undir niðri andvígir einkabílisma og eiga sér þann draum að geta troðið fólki með góðu eða illu inn í strætó. Þeir trúa í blindni á þéttingu þeirrar byggðar, sem fyrir er, í stað þess að þétta í nýrri byggð.

Reykjavíkurlistinn getur hafið naflaskoðun sína á að láta stokka spilin í stjórn Orkuveitunnar og borgarskipulagsins og veita borgarstjóranum pólitíska stöðu til að stokka.

Jónas Kristjánsson

DV

Tólf mínútur

Greinar

Hinn guðdómlegi forsætisráðherra okkar þoldi forustumenn stjórnarandstöðunnar í tólf mínútur. Þar af talaði hann sjálfur í sex mínútur. Þegar andstæðingarnir höfðu talað í tvær mínútur á mann, var honum nóg boðið. Hann sagði fundinum slitið og æpti á þá að hypja sig út í hvelli.

Þetta var ekki bara götustrákurinn að snapa fæting. Þetta var götustrákurinn, sem var orðinn að kóngi, er lítur á það sem hegðunarvandamál, ef einhver lýsir andstöðu við skoðanir hans. Þetta var maður, sem var orðinn ófær um að juða mönnum til samkomulags, ófær um að vera sáttasemjari stjórnvalda.

Utanríkisráðherra fannst þetta greinilega fyndið. Hann brosti meira að segja í sjónvarpinu í fyrsta skipti síðan í kosningabaráttunni fyrir ári. Honum fannst fyndið, að forsætisráðherra skyldi varpa stjórnarandstöðunni á dyr eftir tólf mínútna samvist um aðalmál ríkisstjórnarinnar.

Auðvitað er ekki allt í lagi með þessa menn. Ekki er heldur allt í lagi með viðhlæjendur forsætisráðherra í hans eigin flokki, sem finnst gott að hafa götustrák með kórónu fyrir leiðtoga. Ekki er gott, þegar pólitíkin er orðin eins og Davíð Oddsson hefur gert hana hér á Íslandi, að leðjuslag.

Það er ekki bara, að stjórnmálaflokkarnir séu orðnir að eins konar fótboltafélögum, þar sem menn halda með sínu liði, hvað sem tautar og raular. Þeir eru orðnir að götuklíkum, þar sem öll brögð eru leyfileg, þar sem heimurinn skiptist í okkur og svo alla hina, sem eru ekki einu sinni mennskir.

Nú hafa landsfeðurnir handvalið sér nefnd minni háttar lögfræðinga á skrifstofum Jóns Steinars og annarra slíkra sérfræðinga í mannlegum samskiptum. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um atkvæðagreiðslu, sem feli í sér, að stjórnarsinnar geti greitt atkvæði með því að sitja heima.

Götustrákum með og án kóróna þykir það fínasta ferli að haga þjóðaratkvæðagreiðslu um fjölmiðlalögin á þann hátt, að stuðningsmenn geti ráðið niðurstöðunni með því að sitja bara heima og draga þátttökuna niður fyrir einhverja prósentu, sem verður að vísu lægri en 75% dómsmálaráðherrans.

Tillaga Björns Bjarnasonar um 75% þáttöku sem skilyrði er dæmigerð fyrir hugsunarhátt liðsins, sem stendur þétt að baki leiðtoganna, sem stjórna landinu með ofsa og illindum. Hún er dæmigerð fyrir rustana við dúkuðu borðin að baki skilrúmanna, dæmigerð fyrir þá, sem beita símahótunum.

Þjóðin getur nú farið og er farin að átta sig á, að henni er stjórnað af götustrákum, sem hafa náð svo miklum völdum, að þeir hafa ruglazt í ríminu og glatað jarðsambandinu.

Jónas Kristjánsson

DV

85.000 síður

Greinar

Mikið blómaskeið er í þýðingum á Möltu um þessar mundir. Verið er að þýða 85.000 síður af reglugerðum á maltversku á kostnað Evrópusambandsins, þótt margir Maltverjar tali ensku vegna ferðamanna. Maltverska er orðin ein af tungum Evrópusambandsins og nýtur auðvitað forgangs yfir íslenzku.

Maltverjar eru 400.000, lítið fleiri en Íslendingar. Þeir kusu að ganga í Evrópusambandið, ekki til að fjölga störfum við þýðingar milli tungumála, heldur til að verða aðilar að göngu Evrópu fram eftir efnahagsvegi, rétt eins og þjóðir Austur-Evrópu. Tungumálið nýtur breytingarinnar í leiðinni.

Eins og Íslendingar hafa Evrópumenn almennt fremur lítinn áhuga á Evrópusambandinu. Búizt er við, að innan við helmingur kjósenda greiði atkvæði um helgina í þingkosningum stærsta efnahagsveldis heims, sem telur rúmar 450 milljónir íbúa í 25 ríkjum Evrópu eftir stækkunina snemma á þessu ári.

Hvorki Íslendingar né þjóðirnar í Evrópusambandinu gera sér grein fyrir áhrifum sambandsins á líf þeirra. Fyrir flestum er sambandið fjarlægt skriffinnskubákn í Bruxelles, sem framleiðir reglugerðir um allt milli himins og jarðar, þar á meðal um svefntíma langferðabílstjóra og blaðburðarbarna.

Allar nýju þjóðirnar vilja taka upp evruna, mikilvægasta afrek Evrópusambandsins, krúnuna á frjálsum markaði allrar Evrópu. Allar taka þær upp flókinn lagaramma, er miðast við félagslegan markaðsbúskap, sem er að ýmsu leyti öðru vísi en grimmur frumskógur markaðsbúskaparins í Bandaríkjunum.

Evrópusambandið hefur tekið miklu drengilegar á velferð og umhverfi en nokkur annar heimshluti. Þetta kann að hafa dregið úr hagvexti í Evrópu í samanburði við Bandaríkin. Þegar slíkur samanburður er gerður, má þó ekki gleyma, að öll ár er hagvöxtur í Evrópu. Álfunni miðar fram eftir vegi.

Menn taka kostum Evrópusambandsins sem gefnum hlutum og einblína á galla þess. Menn gleyma, hvernig markaðsmál og önnur samskipti milli ríkja voru í Evrópu fyrir tíð sambandsins. Því hefur sem fjarlægu skriffinnskubákni ekki tekizt að skapa sér sæti í hjörtum evrópskra kjósenda.

Halli á lýðræði er gallinn við Evrópusambandið. Embættismenn þess skilja ekki, hvernig fólk hugsar. Leiðtogar þess hafa ekki sannfæringarkraft fyrirrennara á borð við Adenauer og De Gaulle, Monnet og Schuman. Í samanburði við þá eru Chirac og Schröder smápólitíkusar á borð við Davíð og Halldór.

Íslendingar hafa valið þá leið að nýta ekki kosti evrunnar, en aðlagast Evrópu með því að þýða reglur hennar grimmt á íslenzku án þess að hafa nokkuð um innihaldið að segja.

Jónas Kristjánsson

DV

Capo og Consiglione

Greinar

Capo og Consiglione tala sín í milli um að fara í stríð við Afganistan og Írak í von um, að síðustu flugvélar hersins fari ekki frá Keflavíkurvelli. Þeir tala sín í milli um að láta endurskoða stjórnarskrána til að losna við ákvæði hennar um lagasynjunar- eða málsskotsrétt forseta Íslands.

Stjórnarfarið á Íslandi hefur þróazt úr þingræði í samleik Capo og Consiglione. Þeir tvímenningar spyrja hvorki kóng né prest og allra sízt Alþingi, hvort Ísland eigi fyrst að taka þátt í blóði drifnum krossferðum Bandaríkjanna gegn ríkjum múslima og síðan að taka þátt í hernámi þessara ríkja.

Er þó ævarandi hlutleysi slíkur hornsteinn utanríkisstefnu þjóðarinnar, að Ísland gat í upphafi ekki gerzt aðili að Sameinuðu þjóðunum, af því að þáverandi ráðamenn þjóðarinnar neituðu að lýsa stríði á hendur Þýzkalandi. Kúvendingin í utanríkisstefnunni fæddist fullbúin í tveggja manna tali.

Capo og Consiglione segjast vera að undirbúa breytingar á stjórnarskrá. Tvímenningarnir spyrja hvorki kóng né prest og allra sízt Alþingi, hvernig skuli breyta stjórnarskránni þannig, að forseti landsins geti ekki lengur skotið lögum til þjóðarinnar með því að synja þeim undirskriftar.

Capo og Consiglione eru á sama tíma að ráðgast um, hvernig megi haga þjóðaratkvæðagreiðslunni um fjölmiðlalögin á þann hátt, að hún renni út í sandinn. Það gera tvímenningarnir til dæmis með því að setja hátt lágmark á þáttöku kjósenda. Þeir hafa þar fordæmi flugvallarmáls Reykjavíkurlistans.

Langur valdaferill Capo og Consiglione hefur falið í sér hrun þingræðis í landinu. Hvor um sig hefur sína hirð að baki sér, sem í stórum dráttum stendur með þeim gegnum þykkt og þunnt, allt frá lögum yfir öryrkja yfir í sértækar aðgerðir á borð við gullhúðuð eftirlaunalög fyrir Capo.

Valdahroki Capo og Consiglione er orðinn slíkur og svo flæktur stjórnmálaflokkunum að baki þeim, að þingræði verður ekki endurreist nema forsetinn fái gott endurkjör, fjölmiðlalög verði felld í haust og síðan verði flokkum Sjálfstæðis og Framsóknar hafnað í næstu þingkosningum.

Við þekkjum bulluskap og reiðiköst Capo, sem hringir með hótunum í embættismenn og leggur embætti þeirra niður til að ná sínu fram. Við höfum fylgzt með, hvernig Consiglione hefur breytzt í stríðsmálaráðherra á gæsagangi með tindátum á flugvelli kristna hernámsliðsins í Kabúl í Afganistan.

Eins og á Ítalíu hafa bullurnar á Íslandi misst jarðsamband. Umkringdar viðhlæjendum halda Capo og Consiglione sig vera guðum líkasta. Og þjóðin er loksins orðin þreytt á ruglinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðaratkvæði

Greinar

Oddamenn stjórnarflokkanna hafa báðir sagt, að ekki verði reynt að hunza synjun forsetans á fjölmiðlafrumvarpinu. Því verður almenn þjóðaratkvæðagreiðsla um málið síðar í sumar eða í haust. Ef atkvæðagreiðslan dregst fram eftir hausti, væru stjórnaflokkarnir að brjóta ákvæði í stjórnarskránni.

Halldór Ásgrímsson var fljótur til að segja hug sinn í þessu efni. Það endurspeglar vafalaust þá staðreynd, að Framsókn, þar á meðal tveir þingmenn, voru tregir til stuðnings við hið umdeilda frumvarp. Davíð Oddsson þurfti sólarhring til umhugsunar áður en hann féllst á þjóðaratkvæðagreiðslu.

Lögspekingar höfðu þá allir, utan Þór Vilhjálmsson, tekið afstöðu með þjóðaratkvæðagreiðslu, talið hana sjálfsagða og eðlilega í þeirri stöðu, sem nú er uppi. Í Kastljósi sjónvarps ríkisstjórnarinnar neitaði forsætisráðherrann sér um haldreipi Þórs og féllst á sjónarmið utanríkisráðherrans.

Þjóðin hefur því tvö tækifæri til að taka afstöðu til synjunar forsetans, fyrst í sjálfum forsetakosningunum síðar í þessum mánuði. Mikið eða lítið fylgi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta í þeim kosningum verður vafalaust túlkað á grundvelli ákvörðunar hans að synja fjölmiðlalögunum.

Ef kosningaþáttaka verður góð í samanburði við fyrri slíkar, þar sem forseti hefur leitað endurkjörs, og ef hann fær þar góða útkomu, má telja líklegt, að hann fái líka stuðning síðar í sumar eða í haust, þegar þjóðin greiðir atkvæði um synjun hans á fjölmiðlalögunum. Þetta er núna líklegast.

Það eina, sem getur kollvarpað þessu mati á framvindu málsins, er, að höfuðsmaður Baugsveldisins verði settur í gæzluvarðhald í millitíðinni á einhverjum þeim forsendum, sem þjóðin tekur þá gildar. Og þær mega þá vera fjandi góðar, annars teldu menn málið vera nýtt dæmi um bulluskap.

Gott er, að þjóðin fær tækifæri til að segja álit sitt á fjölmiðlafrumvarpinu. Enn betra væri, að stjórnmálamenn notuðu tækifærið til að setja á næsta þingi lög um þjóðaratkvæðagreiðslur í mikilvægum málum og að þau lög yrðu síðan notuð til að framkalla slíka málsmeðferð reglulega.

Í Sviss og í Kaliforníu er þjóðaratkvæðagreiðslum beitt sem föstum þætti lýðræðisins. Við hæfi væri, að mál á borð við Kárahnjúkastífluna, öryrkjalögin og aðildina að Evrópska efnahagssvæðinu hefðu fengið slíka meðferð, jafnvel þótt niðurstaðan hefði í ljósi síðari reynslu talizt óhentug.

Þingræðið hefur hér verið að breytast í ráðherraræði og ráðherraræðið í samtal tveggja oddamanna í ríkisstjórn. Þjóðaratkvæðagreiðslur væru vörn gegn slíkum afvegum.

Jónas Kristjánsson

DV

Gyðingarnir fimm

Greinar

Anthony Zinni er gamall hershöfðingi úr Víetnamstríðinu. Hann hefur mikið verið notaður af bandarískum stjórnvöldum til að slökkva elda í þriðja heiminum. Ríkisstjórn George W. Bush notaði hann fram í október s.l., þegar hann lýsti yfir andstöðu við framvindu hernáms Íraks og þróun mála þar.

Nú hefur Zinni kastað pólitískri sprengju á pólitíkina í Bandaríkjunum. Hann kennir fimm nafngreindum mönnum um stríðið við Írak. Þeir eru allir róttækt hægri sinnaðir í pólitík og allir gyðingar. Þetta eru þeir Dough Feith, Paul Wolfowitz, Lewis Libby, Richard Perle og Elliot Abrams.

Feith og Wolfowitz eru ráðgjafar Donald H. Rumsfeld stríðsmálaráðherra, Lewis Libby er ráðgjafi Dick Cheney varaforseta, Elliot Abrams er ráðgjafi Condoleezza Rice öryggisstjóra og Richard Perle er almennur hugmyndafræðingur stjórnvalda. Rumsfeld, Cheney og Rice hafa síðan eyra Bush.

Hugmyndin, sem Zinni er að reyna að koma á framfæri án þess að segja hana beint, er, að þessir menn séu frekar að gæta hagsmuna Ísraels en Bandaríkjanna. Hann fetar í fótspor Ernest Hollings öldungadeildarþingmanns, sem telur hagsmuni Ísraels hafa ráðið styrjöld Bandaríkjanna gegn Írak.

Það má hafa til marks um þreytu Bandaríkjamanna á þessu tilgangslitla stríði, að hvorki helztu ráðamenn demókrata né helztu ráðamenn repúblikana hafa andmælt Zinni eða Hollings. Sá síðarnefndi segir raunar, að stríðinu sé ætlað að draga kjörfylgi gyðinga frá demókrötum til repúblikana í haust.

Ekki er ástæða til að ætla, að heimspólitískur kapall hafi verið lagður í Ísrael. Hinu er ekki að leyna, að stefna Bush Bandaríkjaforseta hefur verið óvenjulega höll undir Ísrael og Ariel Sharon forsætisráðherra, þótt Sharon hafi hvað eftir annað komið illu af stað á hernumdu svæðunum.

Ekki er nóg með, að Bush styðji Sharon takmarkalaust, heldur hermir bandaríski herinn í Írak eftir ísraelska hernum í Palestínu. Stríðsglæpirnir í Írak minna á stríðsglæpina í Palestínu. Á báðum stöðum eru á ferð ríki, sem telja sig ekki skulda alþjóðasamfélaginu reikningsskil gerða sinna.

Ásakanir Zinni hljóta að beina augum manna að óeðlilegu bandalagi Bandaríkjanna og Ísraels, sem hefur lengi hindrað sættir milli þjóða Vesturlanda annars vegar og þjóða Íslams hins vegar. Stríðið gegn Írak hefur svo framleitt almennt og djúpstætt hatur múslima á “staðföstum” Vesturlandabúum.

Við pólitíska sambúð á hægri kanti stjórnmálanna bætist svo róttækur stuðningur kristinna ofsatrúarmanna í Bandaríkjunum við Ísrael, þar á meðal nokkurra ráðherra í ríkisstjórninni.

Jónas Kristjánsson

DV

Afsakið, afsakið

Greinar

Devon Largio hefur tölvukeyrt yfirlýsingar ríkisstjórnar George W. Bush Bandaríkjaforseta og fundið 23 mismunandi forsendur stríðsins gegn Írak. Þær snúast um allt milli himins og jarðar, frá meintum gereyðingarvopnum Saddam Hussein yfir í meint getuleysi Sameinuðu þjóðanna við að breiða vestrænt lýðræðiskerfi út um allan heim.

Í viðtali við Washington Post sagðist Largio eftir tveggja ára vinnu ekki hafa komizt að raunverulegri ástæðu stríðsins. Það stafar auðvitað af, að fyrst var ákveðið að fara í stríð og síðan var leitað að afsökunum fyrir þeirri ákvörðun. Þær afsakanir fylgdu því, sem heppilegast og mest sannfærandi var talið á hverjum tíma.

New York Times hefur fyrst bandarískra dagblaða beðist afsökunar á þætti sínum við að koma á framfæri hinum ýmsu forsendum stríðsins gegn Írak. Svo virðist sem blaðið hafi ekki fylgt vinnureglum sínum og í þess stað gleypt hráar hinar ýmsu yfirlýsingar CIA, bandarísku leyniþjónustunnar, sem var úti að aka allan aðdraganda stríðsins.

Komið hefur í ljós, að Amad Tsalabi fóðraði leyniþjónustuna á alls konar upplýsingum, sem hún þráði að heyra til að geta fóðrað ríkisstjórn Bandaríkjanna á upplýsingum, sem hún þráði að heyra. Nú segir leyniþjónustan, að Tsalabi hafi í rauninni verið njósnari á vegum Írans. Spurningin er svo, hvort við eigum að trúa henni núna.

Það er hins vegar staðreynd, að vinslit hafa orðið milli bandarísku landstjórnarinnar í Írak og Tsalabi, eins og raunar milli bandarísku landstjórnarinnar og innlendu ráðgjafarnefndarinnar, sem bandaríska landstjórnin skipaði raunar sjálf á sínum tíma. Leppur Bandaríkjanna í Írak hefur þannig reynzt vera skapara sínum ótraustur ráðgjafi.

Enn er spurt, hver eigi að bera ábyrgð á allri þessari vitleysu. Eru það ritstjórar bandarísku stórblaðanna, sem létu fóðra sig á þvættingi? Eru það yfirmenn bandarísku leyniþjónustunnar, sem fóru heljarstökk í tilraunum við að þjónusta ríkisstjórnina? Er það ríkisstjórnin sjálf, einkum forseti landsins og varaforsetinn?

Sennilega var ísraelska leyniþjónustan Mossad upphaflega að verki og hægri sinnaðir hugmyndapáfar á borð við Paul Wolfowitz, sem voru undir áhrifum frá Mossad. Ísraelska leyniþjónustan vildi flækja Bandaríkin inn í vandræði í heimi múslima og hefur svo sannarlega tekizt það. Ísrael var þúfan, sem velti bandaríska fjallinu.

New York Times hefur beðizt afsökunar á aðild sinni að ruglinu, sem hefur skaðað mannkyn, vestrænt samstarf og Bandaríkin, sem nú hafa beðið þvílíkt skipbrot í hernaði, að þau geta ekki farið í fleiri stríð næstu árin. En bandarísk leyniþjónusta og ráðherrar hafa ekki beðizt afsökunar og ekki heldur leyniþjónusta og ráðamenn Ísraels.

Enn er haldið áfram að ljúga að okkur. Enn eru Bush og Blair hástöfum að selja stríð, sem var til þess fallið að magna hættu á hryðjuverkum á Vesturlöndum og grafa undan einingu Vesturlanda.

Jónas Kristjánsson

DV

Kína og Indland

Greinar

Afstaða alþjóðlegs fjármagns til Kína og Indlands er bezta dæmið um heimsku þess. Allir vilja fjárfesta í Kína, en enginn vill fjárfesta í Indlandi. Samt sýnir reynslan mun betri árangur af fjárfestingum í Indlandi, sem hefur miklu betra dómskerfi og margfalt betra bankakerfi en Kína.

Reynsla íslenzks fjármagns er hin sama. Fræg er sagan af lakkrísverksmiðjunni, sem Íslendingar ætluðu að reka í Kína með stuðningi íslenzkra stjórnvalda. Samstarfsaðilarnir þar í landi reyndust ekki vera nógu traustir og fyrirtækið varð gjaldþrota nokkurn vegin um leið og því var hleypt af stað.

Samanburðurinn milli Kína og Indlands skiptir máli, því að þetta eru tvö langfjölmennustu ríki í heiminum, með meira en milljarð íbúa hvort um sig. Kína er enn kommúnistaríki, þar sem myrkur hvílir yfir kerfinu, en Indland er gamalt krataríki, sem hefur fetað rólega inn í markaðshagkerfið.

Indland er lýðræðisríki, þar sem valdhafar eru sendir heim í kosningum, nú síðast fyrir mánuði, þegar Kongress-flokkurinn komst aftur til valda og gerði Manmohan Singh, föður markaðshagkerfisins í landinu, að forsætisráðherra. Í Kína eru valdhafar aldrei sendir heim í frjálsum kosningum.

Fyrirtæki, sem skila hagnaði í Kína, eru flest erlend. Innlendu stórfyrirtækin eru yfirleitt rekin með miklum halla, sem er fjármagnaður með bankalánum. Þetta rugl verður seint gert upp, því að það mundi verða ávísun á kreppu í landinu. Indversk fyrirtæki eru hins vegar mörg hver öflug.

Indland er meira eða minna gegnsætt ríki að vestrænum hætti, síðan Manmohan Singh var þar fjármálaráðherra 1991. Frá þeim tíma hefur verið 5% hagvöxtur í landinu, núna 8%. Singh telur, að 6,5% hagvöxtur verði til frambúðar, enda er Indland komið í fremstu röð ríkja heims í tölvuiðnaði.

Alþjóðlegt fjármagn hefur ekki næga yfirsýn. Það sogast að ríkjum, þar sem eru svokallaðir sterkir leiðtogar, sem halda þjóðum sínum í skefjum með harðri hendi. Það áttar sig ekki á, að einhvern tíma hlýtur að koma að því, að fólkið rísi upp gegn kvölurum sínum og þeim, sem hafa stutt kvalarana. Indverjar gera slíkt í kosningum. Nú unnu veraldlega sinnuð öfl sigur í kosningunum gegn trúarofstækisflokkum hindúa. Flokksmenn Atal Bihari Vajapayee höfðu reynt að siga kjósendum á múslíma, sem eru fjölmennir í landinu. Það tókst ekki, indverskir kjósendur höfnuðu trúarofstækisflokkum.

Indland er fjölbreytt land sárustu fátæktar og mikils ríkidæmis, sem reynir að nota vestrænt hagkerfi með góðum árangri. Það hefur sigrazt á vanda, sem kraumar enn í Kína.

Jónas Kristjánsson

DV

Pyndingar að ofan

Greinar

Rætur pyndinga bandaríska hersins í Írak liggja í verkefni, sem trúarofstækismaðurinn George W. Bush Bandaríkjaforseti fól trúarofstækismanninum John Ashcroft dómsmálaráðherra snemma árs 2001, þegar Bush var nýtekinn við völdum. Verkefnið fólst í að finna leiðir til að kvelja óvinina.

Að verkefninu vann mest John Yoo prófessor, sem gegnir svipuðu hlutverki fyrir bandarísku ríkisstjórnina og Jón Steinar Gunnlaugsson gegnir fyrir þá íslenzku, að finna einhverja langsótta þrætubók til að rökstyðja löglausar ákvarðanir, sem valdasjúkar ríkisstjórnir vilja taka.

Yoo og aðrir sérfræðingar fundu út þá langsóttu þrætubók, að Bandaríkin gætu neitað að taka mark á Genfarsáttmálanum um meðferð stríðsfanga og neitað að taka þátt í nýja Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum í Haag. Á grundvelli þessa mannhaturs að ofan hófst vítahringur bandarísks ofbeldis og pyndinga.

Á þessu stigi kom Donald Rumsfeld stríðsmálaráðherra til skjalanna. Trúarofstækismaðurinn William Boykin hershöfðingi var fenginn til að skipuleggja einskismannsland í fangabúðum Bandaríkjanna í Guantánamo, þar sem hundruðum manna var haldið án dóms og laga á grundvelli þrætubókar lögfræðinga.

Boykin er frægur fyrir ferðir sínar um Bandaríkin, þar sem hann prédikar krossferð gegn trúarbrögðum Satans, þar sem öll meðöl séu heimil sannkristnum. Á þeim grundvelli var hann síðan sendur til Afganistans til að skipuleggja illa meðferð stríðsfanga og loks til Íraks í sömu erindagerðum.

Að málinu kemur einnig Ricardo Sanchez, yfirmaður herafla Bandaríkjanna í Írak. Hann gegndi þar svipuðu hlutverki og Donald Rumsfeld í Guantánamo, undirritaði tilskipanir um aðferðir við yfirheyrslur, sem fóru úr böndum. Nýjustu fréttir herma, að hann hafi sjálfur horft á pyndingarnar.

Allt ferlið var skipulagt að ofan og verður rakið beint til sjálfs Bandaríkjaforseta, sem setti það í gang, hvattur af Dick Cheney varaforseta, sem er hinn illi andi að baki vitgranns forseta. Pyndingarnar í Írak eru stjórnarstefna, sem á sér hliðstæður bæði í Afganistan og Guantánamo.

Það bætir svo ekki úr skák, að hermenn Bandaríkjanna eru atvinnumenn, að nokkru leyti úrhrök, sem ekki geta unnið heiðarlega vinnu og leita í faðm hersins í leit að góðu lifibrauði. Mikið af þessu fólki er sjúkt af bandarískri aðdáun á ofbeldi og kynórum, lifir í heimi kvikmyndanna.

Við þekkjum afleiðingarnar. Ástandið í Írak er orðið verra en það var hjá Saddam Hussein og ástandið í Afganistan er orðið verra en það var hjá talibönum. Hvarvetna verða til herir fórnardýra, sem hata bandalag “hinna viljugu ríkja”.

DV

Bullurnar

Greinar

Einn úr klíkunni hefur samið óháð lögfræðiálit til stuðnings ráðherrum. Hann er orðinn prófessor og skiptir tíma sínum milli hnitmiðaðra og innrammaðra greina í Mogganum til varnar Hinum Mikla og ruddalegra mannlýsinga í fleiri bréfum en því eina, sem hengt var upp á töflu í Verzlunarskólanum.

Annar prófessor skiptir líka tíma sinum milli hnitmiðaðra og innrammaðra greina í Mogga til varnar Hinum Mikla og annarra skrifa, sem felast í að klippa og líma saman að nýju texta annarra manna og þykjast hafa skrifað hann sjálfur. Hann telur þetta eðlilegt og sjálfsagt, hafið yfir lög og rétt.

Þriðji var einu sinni ráðherraígildi sem fréttastjóri ríkissjónvarpsins og rekur núna útvarpsstöð, þar sem hann bendir þjóðinni á, hvílíkt úrþvætti forseti landsins sé. Hann hefur um það langt og samansúrrað mál að hætti útvarpsstöðva róttækra Neanderdalsmanna í Bandaríkjunum.

Enginn kemst þó með tærnar, þar sem sjálfur Hinn Mikli landsfaðir hefur hælana. Hann kastar ítrekað skít í forseta landsins og lætur framkvæmdastjóra flokksins fylgjast með stöðu ritstjóra Moggans í Landsbanka til að ná á honum hreðjatökum, svo að notað sé eigið orðaval landsföðurins.

Hinn Mikli skiptir tíma sínum milli hótana í símtölum og hótana inni á teppi. Hann lagði niður Þjóðhagsstofnun, af því að forstjórinn fór í taugarnar á honum. Hvar sem Hinn Mikli fer, sáir hann um sig ótta og skelfingu, hvort sem það eru embættismenn, samflokksþingmenn, prestar eða umbar.

Þjóðfélagið í heild snýst um Hinn Mikla, reiðiköst hans og ofbeldishneigt hatur í garð þeirra, sem hann telur leggja steina í götu sína. Sértæk lög eru sett á færibandi um margvísleg áhugamál hans, allt frá digrum eftirlaunum Hins Mikla yfir í afnám einkafyrirtækja, sem honum hugnast ekki.

Um þessa hegðun fann Velvakandi Moggans orð, sem hæfir. Það eru bullurnar, sem hér á landi og raunar víðar hafa spillt fyrri leikreglum vestræns samfélags eins og við þekkjum þær frá þeim tíma, þegar leikreglumenn á borð við Jón Baldvin Hannibalsson og Steingrím Hermannsson voru í pólitík.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki einn um bullurnar, þótt hann sé umsvifamestur. Satt að segja var margumræddur forseti þjóðarinnar ein af þeim verstu, þegar hann var í pólitík. Annar formaður stjórnarandstöðunnar skrifar bréf að hætti framangreinds prófessors og hinn sleppir sér í ræðustóli.

Vandi okkar stjórnmála nú er hinn sami og í Bandaríkjunum. Vandinn fylgir þeim tíðaranda, að hinn sterki skuli hafa öll völd óspöruð. Bullurnar hafa tekið völdin í pólitíkinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Neita að fullorðnast

Greinar

Kannanir leiða í ljós, að tveir þriðju hlutar þjóðarinnar fylgjast ekki með íþróttaefni og fjórir þriðju hlutar fylgjast ekki með fótbolta. Samt breiðir boltinn úr sér á síðum blaða. Beinar útsendingar eru dýrasta efni ljósvakans og ryðja oft fréttum og öðru föstu dagskrárefni til hliðar.

Boltinn, einkum fótboltinn, er orðinn svo fyrirferðarmikill í lífi sumra áhangenda, að þeir skilgreina tilveru sína beinlínis á grunni hans. Þeir eru ekki fyrst og fremst Reykvíkingar, framsóknarmenn, sölustjórar eða heimilisfeður, heldur takmarkalausir stuðningsmenn Manchester United.

Þetta verður á endanum eins og í Miklagarði á miðöldum. Í stað þess að verjast ágangi Feneyinga og Tyrkja voru borgarbúar uppteknir af ágreiningi milli stuðningsmanna græna og bláa liðsins í hestvagnakappakstri og enduðu með því að berjast á götunum eins og fótboltabullur nútímans.

Mikligarður hrundi, en paðreimurinn stendur enn til minnis um borgarlíf, sem beið lægri hlut í lífsbaráttunni, af því að borgarbúar voru að horfa á barnalegan leik, sem leysti alvöru lífsins af hólmi. Meðan Feneyingar eða Tyrkir klifu borgarmúrana veifaði skríllinn bláu og grænu á paðreiminum.

Þótt ofsatrúarmenn fótboltans séu tiltölulega fámennur minnihluti Íslendinga eins og annarra Evrópumanna, hefur þeim tekizt að vekja slíkan áhuga fjölmiðla á leiknum, að ætla mætti, að blóðug styrjöld eða kosningabarátta geisi á leikvöllum fótboltafólks, að ímyndunin sé full alvara.

Will Buckley, fótboltafréttaritari brezka blaðsins Observer, hefur skrifað bók og grein, þar sem hann biðst afsökunar á löngum ferli sínum. Hann segir, að fótbolti sé barnaleg íþrótt, sem hafi farið úr böndum. Sérstaklega sé afleit umfjöllun fjölmiðla, full af barnalegum ýkjum og bulli.

Hann segist hafa tekið viðtöl við fótboltahetjur í fimmtán ár og enginn þeirra hafi haft neitt vitrænt að segja. Þessi viðtöl hafi verið tímasóun til að fylla fótboltasíður blaðsins. Hann hafi allan þennan tíma verið að þjónusta lífsflótta, flótta lesenda, sem neita að fullorðnast.

Hann furðar sig á, að ábyrgir fjölmiðlar gæli við þá heftingu þroskans, að fólk heldur áfram að haga sér eins og börn fram eftir aldri, neitar að breytast í fullgilda ríkisborgara og stundar í þess stað skjáinn í bland við tómlegt spjall um stór boltabörn á uppsprengdu kaupi.

Buckley telur, að fótboltinn yrði ekki eins leiðinlegur, ef málsaðilar hættu að taka sig alvarlega og gerðu sér grein fyrir, að hann er bara leikur, sem á að meðhöndla sem leik.

Jónas Kristjánsson

DV

Að kunna að hætta

Greinar

Kládíus, Kalígúla og Neró byrjuðu vel sem rómverskir keisarar, en misstu smám saman jarðsamband. Umkringdir viðhlæjendum fóru þeir að haga sér undarlega og síðan að halda sig guðdómlega og urðu að lokum afleitir keisarar. Slík eru örlög margra valdamanna með óheflað sjálfsálit.

Lýðræðiskerfið reynir að komast hjá þessum vanda með því að skipta út valdhöfum í tæka tíð, áður en þeir telja sig goðumlíka og ómissandi. Stundum hefur þetta ekki tekizt. Þannig enduðu Helmut Kohl Þýzkalandskanzlari og Francois Mitterand Frakklandsforseti feril sinn með skít og skömm.

Landsfeður þurfa að átta sig á, hvenær er kominn tími til að hætta, þótt kjósendur hafi ekki vit fyrir þeim. Urho Kekkonen þaulsat sig inn í barndóm og Margaret Thatcher var hrakin frá völdum. Charles de Gaulle hafði hins vegar vit á að draga sig í hlé, ekki bara einu sinni, heldur tvisvar.

Upp hlaðast einkenni þess, að kominn sé tími á Davíð Oddsson forsætisráðherra. Verst er, að hann skuli vera með forseta Íslands á heilanum og láta ekkert færi hjá sér fara til að efna til illinda á toppi þjóðfélagsins. Það er fyrir utan alla mannasiði, sem flestum okkar voru kenndir í æsku.

Það er vont, þegar forsætisráðherra er með einstaklinga á heilanum og stýrir stjórnkerfinu með hliðsjón af því. Það er vont, þegar hann hringir í embættismenn og fer undir rós með hótanir. Það er vont, þegar hann kallar rithöfund á teppið og fer með skrítnar einræður, sem hneyksla viðmælandann.

Það er vont, þegar forsætisráðherra talar um svokölluð hreðjatök í pólitíkinni, rétt eins og hann hafi horft á of margar mafíukvikmyndir. Það er vont, þegar forsætisráðherra fær hvað eftir annað reiðiköst og hagar sér eins og illa uppdreginn götustrákur, sem reynir að koma illu af stað.

Það er vont, þegar forsætisráðherra gargar á fólk á förnum vegi í húsakynnum Alþingis og lætur búa til sérstakt horn fyrir sig með dúklögðum borðum, þar sem hann getur haft hirð viðhlæjenda kringum sig og þarf ekki að sæta jarðsambandi. Hin flókna stéttaskipting umhverfis kónginn er afar vond.

Það er vont, þegar forsætisráðherra lætur setja sértæk lög um eftirlaun forsætisráðherra, sniðin að meintum þörfum sínum. Það er vont, þegar forsætisráðherra lætur setja sértæk lög um Spron og önnur um Norðurljós. Það er vont, þegar áhrifafólk í flokknum skelfur af ótta við kóng sinn.

Eftir öll þessi ár er orðin spurning, hvort flokkurinn hefur lengur efni á goðumlíkum formanni og hvort þjóðin hafi efni á flokki, sem sættir sig endalaust við goðumlíkan formann.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaldárhöfðasverðið

Greinar

Frábær er hugmyndin um að reisa átta metra höggmynd af Kaldárhöfðasverðinu við Þjóðminjasafnið. Myndin í DV á miðvikudaginn af fyrirhuguðu sverði reknu á ská í Melatorg segir allt sem þarf. Höggmyndin yrði eitt helzta einkenni borgarinnar og einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna.

Betra væri þó að færa sverðið af torginu sjálfu yfir á kantinn Þjóðarbókhlöðumegin, þar sem gera má bílastæði, svo að ferðamenn leggi sig ekki í lífshættu við að mynda hver annan framan við sverðið. Það er nefnilega nauðsynlegt til frægðar mannvirkjum, að hægt sé að láta mynda sig við þau.

Reykjavík á tvo aðra staði af þessu tagi. Annar er styttan af Leifi Eiríkssyni framan við Hallgrímskirkju. Þar er auðvelt að leggja bílum og rútum og þar mynda ferðamenn í gríð og erg flesta daga ársins. Hvorki styttan né kirkjan eru merk listaverk, en eru sameiginlega afar myndvæn.

Síðara dæmið er Sólfar Jóns Gunnars Árnasonar við Sæbraut, sem Vesturbæjarsamtökin gáfu borginni. Þar er auðvelt að leggja bílum og rútum og þar er líka myndað alla daga ársins. Þetta ágæta listaverk stundar harða samkeppni við Leifsstyttuna sem megintákn borgarinnar í augum ferðafólks.

Kaldárhöfðasverðið eins og það lítur út á myndinni í DV yrði umsvifalaust þriðja einkenni borgarinnar frá sjónarhóli myndglaðra ferðamanna. Þetta er hugmynd, sem getur ekki mistekizt, minnir á Excalibur, frægt töfrasverð þjóðsögunnar um Alfreð Englandskonung og hringborðsriddara hans.

Reykjavík þarf að eiga nokkur einstæð útilistaverk, hvert með sínu sniði. Ágæt er hugmyndin um að setja risavaxna Helreið Ásmundar Sveinssonar klofvega yfir eitthvert þekkt stræti borgarinnar. Slík myndefni bjargar degi hvers myndatökumanns og gerir honum höfuðborgina minnisstæða.

Þjóðminjasafnið býr við sult og seyru áhugalítils ríkisvalds og hefur ekki ráð á að reisa Kaldárhöfðasverðið. Það leitar þjóðminjavinar, sem vill leggja fram þær sex milljónir króna, sem talið er, að mannvirkið muni kosta fullbúið.

Raunar stendur næst Reykjavíkurborg að leggja hönd á plóginn. Hún stóð hvorki fyrir Leifi Eiríkssyni né Sólfarinu, svo að tími er kominn til, að hún reisi sjálf eitt útilistaverkanna, sem einkenna hana og gera hana að ferðamannaborg, fjölmennri atvinnugrein til hagsældar.

Líkan Kaldárhöfðasverðsins vísar til tíu alda arfleifðar. Hún er myndræn vísun til safnsins handan götunnar. Hún endar á tugþúsundum geisladiska í eigu ferðamanna um allan heim.

Jónas Kristjánsson

DV

Bjánar og brjálæði

Greinar

Hálf bandaríska þjóðin styður George W. Bush forseta á hverju sem gengur. Þótt hver vikan líði með hörmulegum fréttum af utanríkismálum og ríkisfjármálum, halda menn áfram að styðja forsetann. Myndir af mannvonzku bandaríska hersins í Írak hreyfa ekki skoðanir bandarískra kjósenda.

Það er alveg sama, þótt komið hafi í ljós, að stríðinu við Írak var logið upp á Bandaríkjamenn. Það er alveg sama, þótt sýnt hafi verið fram á, að Írak átti alls engan þátt í hryðjuverkum í Bandaríkjunum. Það er alveg sama, þótt bandaríski herinn drepi saklaust fólk í þúsundatali.

Vanheilagt samband ríkisstjórnar George W. Bush og hálfrar bandarísku þjóðarinnar er sérkennileg blanda bjánaskapar og brjálæðis. Sem dæmi má nefna, að fólk, sem á Íslandi og annars staðar í Evrópu væri lokað inni í fámennum sértrúarsöfnuðum, er við stjórnvölinn í Bandaríkjunum.

Hálf bandaríska þjóðin er haldin trúarofstæki og styður krossferðir gegn vantrúarhundum. Þriðjungur repúblikana trúir beinlínis kenningum um að hleypa þurfi öllu í bál og brand í Miðausturlöndum til að tryggja endurkomu Krists á næstu mánuðum eða misserum. Þetta fólk er í ríkisstjórn.

Eins og oft vill verða, fer hroki og hræsni saman við trúarofstækið. Helztu ráðamenn Bandaríkjanna eru ófærir um að hafa rangt fyrir sér og kenna síðan öðrum um, þegar vikulega kemur í ljós, að þeir eru úti að aka. Hálf þjóðin er sátt við, að svona gangi málin viku eftir viku.

Donald H. Rumsfeld stríðsmálaráðherra er frægasta dæmið um óhæfan ráðamann, sem gerði engar ráðstafanir til að skipuleggja hernám Íraks og sagði Íraka mundu strá blómum á bandaríska herinn. Hann gerði heldur engar ráðstafanir til að stöðva stríðsglæpi hersins í Írak, þótt hann vissi um þá.

Bush forseti kann að vera læs, en notfærir sér það ekki. Hann treystir því, sem róttækir brjálæðingar á borð við Condoleezza Rice hvísla að honum. Hann sér heiminn í svart-hvítu og telur sig óskeikulan. Hann fær fyrirmæli frá grimmum guði gamla testamentisins á hverjum morgni.

Hálfri bandarísku þjóðinni þykir allt þetta hið bezta mál. Henni finnst alveg tilvalið að gefa skít í Evrópu, alla fjölþjóðasamninga og Sameinuðu þjóðirnar. Henni finnst frábært að drepa fólk til að frelsa það. Þetta er fólk, sem væri talið vera bjánar og brjálæðingar í öðrum löndum.

Bjánar og brjálæðingar eru alls staðar til og ráða víðar örlögum þjóða. En hvergi annars staðar eru þeir ógnun við öryggi heimsbyggðarinnar og sitja yfir örlögum mannkyns.

Jónas Kristjánsson

DV