Greinar

Elliheimilið var hér

Greinar

Einn gesta á fundi Atlantshafsbandalagsins í Reykjavík dáðist að eskimóunum, sem hann taldi nýstigna úr kajökum sínum. “Þeir eru í sjálflýsandi veiðigöllum”, sagði hann. Hann átti við björgunarsveitarmenn, er stóðu umhverfis Hótel Sögu og nöguðu prinspóló.

Hinir skrautbúnu varðmenn Íslands þóttu nokkuð fyndnir, því að sjaldgæft er, að varðsveitamenn séu í sjálflýsandi fötum. Annars staðar í heiminum er lögð áherzla á, að þeir stingi ekki mjög í stúf við umhverfið. Þeir séu á staðnum, en sjáist helzt ekki.

Sumir útlendinganna töldu öryggisgæzlu umfangsmeiri hér en verið hefur á hliðstæðum ráðherrafundum bandalagsins. Lögreglumenn léku hlutverk blindra bókstafstrúarmanna af stakri prýði, eins og heimsstyrjöld væri vís, ef vikið yrði millímetra frá settum reglum.

Samt var erlend fréttastofa að grínast með, að Íslendingar ættu í mesta basli við skipulag fundarins. Í frétt hennar var fjallað um, hversu lítil Reykjavík væri fyrir svona stóran fund. Er þó mannfærra umhverfis Nató-undinn en var, þegar leiðtogar heimsveldanna hittust.

Ekki er laust við, að einnig sumum heimamönnum finnist fundur vera of umfangsmikill, ef hann raskar háttum manna, sem eru alsaklausir af þátttöku í tilstandinu. Unnt er að efast um, að skynsamlegt sé að sækjast eftir komu margra slíkra, marklítilla stórfunda.

Hin tímabundna nálægð við Nató er þó fróðleg þeim, sem vilja fylgjast með alþjóðamálum og ófriðarhættu. Ráðherrafundurinn í Reykjavík í síðustu viku auglýsti fyrir Íslendingum, hversu fótafúin eru orðin þessi samtök, sem lengi hafa þakkað sér Evrópufriðinn.

Á einu ári hefur allt frumkvæði í samskiptum austurs og vesturs færst í hendur Gorbatsjovs, flokksleiðtoga í Sovétríkjunum. Hann hefur spilað út hverju sáttaspilinu á fætur öðru ­ við síðbúnar eða alls engar undirtektir viðsemjendanna í Atlantshafsbandalaginu.

Georgi Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, varð orðvant í Moskvu fyrir nokkrum vikum, þegar Gorbatsjov bauðst til að gefa einhliða eftir skammdrægar eldflaugar sínar í Evrópu sem kaupbæti upp á samkomulag um afnám meðaldrægra eldflauga í álfunni.

Af sanngirnisástæðum verður þó að taka fram, að nýjasta tilboð Sovétleiðtogans fjallar í raun um að færa kjarnorkuviðbúnaðinn aftur á stigið, sem hann var á fyrir ellefu árum, þegar Sovétmenn hófu einhliða vígbúnaðarkapphlaup, sem hefur raskað öryggi í Evrópu.

En óneitanlega hafa síðustu útspil Gorbatsjovs sett Nató út í horn. Þar á bæ virðist skorta getu til að mæta frumkvæðinu að austan með viðbrögðum og gagnfrumkvæði, sem endurheimti traust Vesturlandabúa á gagnsemi hins aldraða og þreytta bandalags.

Fleiri eru nefnilega skondnir en sjálflýsandi varðmenn við Sögu. Ráðamenn Atlantshafsbandalagsins eru sjálfir dálítið broslegir, þegar þeir taka fullir tortryggni og efasemda við austrænum tilboðum, sem eru orðréttar þýðingar á nokkurra ára gömlum Nató-tilboðum.

Reykjavíkurfundur bandalagsins staðfesti enn einu sinni, að kominn er tími til að hrista upp í elliheimili Nató. Í áróðurskapphlaupi austurs og vesturs er nauðsynlegt, að Vesturlönd nái á ný frumkvæði í viðræðum um gagnkvæma minnkun vígbúnaðar í austri og vestri.

Fyrst og fremst er Atlantshafsbandalaginu brýnt að endurheimta traust Vesturlandabúa sem lifandi stofnun, er sé í samræmi við öryggisþarfir nútímafólks.

Jónas Kristjánsson

DV

Stólar skipta öllu máli

Greinar

Jón Sigurðsson, fyrrum forstjóri Þjóðhagsstofnunar, hefur nú tvisvar reynt að mynda nýja ríkisstjórn. Fyrri tilraunina gerði hann, þegar Þorsteinn Pálsson hafði umboð til stjórnarmyndunar, og hina síðari er hann að gera núna, þegar Jón Hannibalsson hefur umboðið.

Margt er svipað með báðum tilraunum Jóns Sigurðssonar. Í báðum tilvikum hefur hann reynzt vera hinn ókrýndi leiðtogi viðræðnanna, þótt aðrir hafi að formi til haft forustu. Hann hefur reynt að berja saman niðurstöðu eins og gamall oddamaður úr verðlagsnefndum.

Í fyrra skiptið lék Kvennalistinn hlutverk vandræðabarnsins. Honum var falið að koma með tillögur, sem þá voru kallaðar kröfur. Í þetta sinn hefur Alþýðuflokkurinn leikið hlutverkið. Hann hefur lagt fram tillögur, eins og Kvennalistinn gerði í fyrra skiptið.

Þá lögðu Alþýðuflokkur og Sjálfstæðisflokkur lítið til málanna og létu sér nægja að hlusta. Fyrst kinkuðu menn kolli, en síðan hristu þeir hausinn. Nú leggja Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur lítið til málanna og hafa til skamms tíma látið sér nægja að hlusta.

Þá snérust viðræður þriggja stjórnmálaflokka um, hvort Kvennalistinn væri fáanlegur ókeypis til að punta upp á nýja útgáfu af viðreisnarstjórn. Í ljós kom, að listinn vildi eitthvað fyrir snúð sinn. Þess vegna fór út um þúfur sú tilraun til stjórnarmyndunar.

Í tilrauninni, sem stendur yfir þessa daga, snúast viðræðurnar um, hvort Alþýðuflokkurinn sé fáanlegur ókeypis til að blása lífsanda í líkið af ríkisstjórninni, sem nú er við völd. Í ljós er að koma, að Alþýðuflokkurinn þarf lítið fyrir sinn snúð. Nema ráðherrastóla.

Vandamálin úr fyrri tilrauninni hafa verið afnumin með nýju slagorði, sem heitir fjölskyldustefna. Aðilar viðræðnanna hafa tekið orðinu fegins hendi, því að það felur í sér, að hægt er að fjalla um óþægilegt mál á þægilegan hátt með almennu og verðlausu snakki.

Alþýðuflokkurinn gafst fyrst upp á umbótum í landbúnaði. Síðan gaf hann eftir lífeyrissjóð fyrir alla landsmenn. Kaupleiguíbúðirnar lágu óafgreiddar, þegar þetta var skrifað. Þá hafði ekki heldur verið tekið á tillögum Alþýðuflokks um skatta upp í allt sukkið.

Núna undir helgina er að koma í ljós, hvort Morgunblaðið fær strax þá ríkisstjórn, sem það pantaði í leiðara, þegar hófst önnur tilraun Jóns Sigurðssonar. En Morgunblaðsmynztrið getur orðið síðari niðurstaða, þótt ekki takist að vefa það saman í þessari umferð.

Gangur viðræðnanna hefur verið svipaður undir merki Jóns Hannibalssonar og var hjá Þorsteini Pálssyni. Samningamenn hafa aflað sér upplýsinga um stefnuskrár flokkanna og almennt látið eins og þeir séu álfar út úr hól eða nýkomnir til jarðarinnar frá Mars.

Eftir tvær vikur í þessari umferð er nú að koma í ljós kjarni málsins, sem er, hvort Steingrímur Hermannsson sættir sig við að verða utanríkisráðherra. Ef hann gerir það ekki, þarf boltinn að rúlla eitthvað áfram, unz aðrir málsaðilar komast að, hver ræður.

Steingrímur á fjóra mismunandi kosti á fjögurra flokka vinstri stjórn, með eða án Borgaraflokksins. Hann getur þurft að veifa því sverði dálítið meira til að láta Sjálfstæðisflokkinn átta sig á, að heppilegt sé að fórna forsæti Þorsteins fyrir hægri stjórn.

Stjórnarviðræður verða marktækar, þegar þær hætta að snúast um fjölskyldustefnu og fara að snúast um, hverjir verða ráðherrar og hver verður í forsæti.

Jónas Kristjánsson

DV

Næstmesti skaðvaldurinn

Greinar

Þessa dagana er að renna upp fyrir fólki, að fjórhjólin nýstárlegu hafa á einu vori valdið meiri skaða á náttúru landsins en jepparnir hafa gert í nærri hálfa öld. Fjórhjólin hafa reynzt ganga næst sauðkindinni í röð hættulegustu óvina náttúru þessa lands.

Skemmdirnar sjást víða á höfuðborgarsvæðinu, til dæmis í Öskjuhlíð og á Valhúsahæð, í Elliðaárdal og í Heiðmörk. Hvarvetna hafa auð svæði dáleitt þá, er hafa nautn af að þjösnast um vegleysur á vélknúnu ökutæki, sem hægt er að nota í leysingum að vori.

Vélknúin leiktæki hafa misjöfn áhrif á náttúruna. Beztir eru vélsleðarnir, er skilja slóð sína eftir í snjó, sem hverfur. Spyrnubílar og torfærutröll hafa eigin leiksvæði. Jepparnir eru oftast notaðir að vetri eða sumri, en síður að vori, þegar náttúran er viðkvæmust.

Fjórhjólin er hins vegar auðvelt að nota á vorin, þegar frost er að fara úr jörð. Á þeim tíma geta þjösnar ekki notað önnur ökutæki að gagni, svo að þeir hafa tekið fjórhjólunum fegins hendi ­ með hinum hörmulegu afleiðingum, sem hvarvetna má sjá í kringum okkur.

Íslendingar eru dellukallar og hafa fengið skyndilegt æði á þessu sviði. Yfir 1200 fjórhjól hafa verið flutt til landsins á örskömmum tíma. Verið er að koma á fót sérstökum fjórhjólaleigum til að veita útrás þeim, sem ekki hafa ráð á að kaupa sér fjórhjól sjálfir.

Notkun þessara leiktækja er í nærri öllum tilvikum ólögleg. Samkvæmt náttúruverndarlögum er allur óþarfur akstur óheimill utan vega og merktra vegaslóða. Og samkvæmt umferðarreglugerðum er óheimilt að nota fjórhjól á vegum og götum landsins.

Hin eina leyfilega notkun fjórhjóla er á einkalóðum, til dæmis við sveitabæi, þar sem slík farartæki geta komið að gagni, til dæmis við ferðir í útihús. En hingað til hafa fjórhjól svo til eingöngu verið notuð á ólöglegan hátt sem leiktæki í torfærum náttúrunnar.

Af 1200-1800 fjórhjólum, sem flutt hafa verið til landsins, er aðeins lítill hluti, eða innan við 200 hjól, löglega skráð. Hin eru í sjálfu sér ólögleg og á skilyrðislaust að gera upptæk sem slík. Eitthvað hefur verið gert að því, en alls ekki nógu rösklega.

Ennfremur er nauðsynlegt að margfalda árlegt gjald eigenda af notkun fjórhjóla sinna. Það þarf að gera til að kosta margfaldað eftirlit með notkun þeirra, því að núverandi eftirlit er allt of ófullkomið og lélegt, enda komu fjórhjólin lögreglunni í opna skjöldu.

Á vorin þarf löggæzlan að hafa ráð á þyrlum og öðrum tæknibúnaði til að standa fjórhjólamenn að verki í náttúrunni. Sanngjarnt er, að kostnaður af öllu slíku greiðist af notkun sjálfra tækjanna, sem hafa reynzt svo skaðleg, að eftirlitið verður bæði brýnt og dýrt.

Dómsmálaráðuneytið hefur sent öllum lögreglustjórum bréf, þar sem bent er á ólöglega notkun fjórhjóla. Bréfið sýnir, að yfirvöld eru að vakna til lífsins. Það er að vísu of seint til að bjarga þessu vori, en ætti að geta dregið úr frekara tjóni í framtíðinni.

Mikilvægt er, að stjórnvöld kveði fastar að orði um fjórhjól í lögum og reglugerðum, svo að öllum megi ljóst vera, að ólögleg notkun þeirra leiði til sekta og upptöku hjóls. Ennfremur er æskilegt, að bæjarfélög taki þátt í vörninni með því að banna fjórhjól í bæjarlandinu.

Eigendur fjórhjóla eiga svo að geta fengið að leika sér, eins og torfæru- og spyrnumenn, á afmörkuðum svæðum, sem þeir kaupa sameiginlega eða taka á leigu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ört safnað í gengislækkun

Greinar

Spádómar um gengislækkun, sem heyrzt hafa í þessari viku, eru ekki ástæðulausir, þótt aðstæður séu að ýmsu leyti aðrar en venjulega eru undanfari gengislækkunar. Í þetta sinn kallar óstand ríkisfjármála, en ekki útflutningsatvinnuveganna, á gengislækkun.

Fiskveiðar og fiskvinnsla hafa hagnað um þessar mundir, þótt genginu hafi lengi verið haldið stöðugu og kostnaður samt farið hækkandi í landinu. Aukin samkeppni annarra greina um vinnuafl og fjármagn hefur ekki hindrað sjávarútveginn í að byggja sig upp.

Mikil og vaxandi spenna er á vinnumarkaði. Fyrir ári voru 1.900 laus störf í þjóðfélaginu. Í haust voru þau komin upp í 2.700. Og nú eru lausu störfin orðin 3.200 alls, þar af um 1.700 utan höfuðborgarsvæðisins. Á móti þessu koma ekki nema 560 atvinnuleysingjar.

Athyglisvert er, að í fiskvinnsluna eina vantar 650 manns til starfa utan Reykjavíkursvæðisins. Vinnuaflsskorturinn stingur í stúf við sífellt sífur fiskvinnslumanna um, að útflutningur á ferskum fiski sé að drepa fiskvinnsluna og valda landauðn í sjávarplássunum.

Í þessari gífurlegu þenslu reynir ríkisvaldið ekki að hamla á móti með sparnaði og samdrætti. Þvert á móti hefur hið opinbera haft forustu í að magna þensluna. Það jók raunar forustuna síðustu mánuðina fyrir kosningar, þegar atkvæðakaup stjórnarflokkanna voru mest.

Svo er nú komið fjármálum ríkisins, að undir mitt ár eru horfur á, að þensluhalli þeirra verði um fimm milljarðar á þessu ári og heildarþörf ríkisins fyrir lánsfé verði tæpir níu milljarðar á árinu. Hvort tveggja eru tölur af áður óþekktri stærðargráðu.

Ríkið þarf auðvitað að fá aura upp í þennan halla í útlöndum og heima fyrir. Ekki er vænlegt að leita mjög á fjarlæg mið, því að erlendar skuldir þjóðarinnar eru komnar upp í 310 þúsund krónur á hvert einasta mannsbarn í landinu og lánstraust okkar er tiltölulega lítið.

Ríkið þarf að bjóða hærri vexti á spariskírteinum sínum til að brúa bilið. Þar með stuðlar ríkið að almennri hækkun vaxta í þjóðfélaginu. Miklu verra er þó, að þetta hleypir kjarki í skottulækna, sem segja, að í lagi sé að hafa mikinn halla á ríkisbúskapnum.

Ekkert lát er á eyðslusemi ríkisstjórnarinnar, þótt hún hafi misst þingmeirihluta sinn í kosningunum og eigi bara að vera að gæta sjoppunnar að beiðni forseta, meðan verið er að mynda nýja ríkisstjórn. Daglega grýtir hún tugum milljóna króna út um gluggann.

Einn daginn kaupir hún nýtt hlutafé í vonlausri Steinullarverksmiðju fyrir nokkra tugi milljóna. Næsta daginn kaupir hún sjúkrahús í Hafnarfirði fyrir enn fleiri tugi milljóna. Hinn þriðja lofar hún að ábyrgjast alþjóðlegt handboltamót einhvern tíma í framtíðinni.

Á sama tíma hvetur hún verðbólguna með því að hafa opinberar verðhækkanir tvöfalt hærri en gert hafði verið ráð fyrir í almennu kjarasamningunum í vetur. Þar með fer hún yfir öll rauð strik og slær svo sérstakt met með því að hækka afnotagjald ríkisútvarps um 67%.

Í viðræðum um stjórnarmyndun hefur birzt almenn hugsjón stjórnmálamanna, að brennsla opinberra peninga í landbúnaði verði ekki minnkuð á þessu kjörtímabili og að staðið verði við 28 milljarða króna samning ríkisins frá í vetur um kaup á mjólk og kjöti.

Að öllu samanlögðu er engin furða, þótt ástand og horfur ríkisfjármála leiði til spádóma kunnáttumanna um, að í aðsigi sé lækkun gengis hinnar hrjáðu krónu.

Jónas Kristjánsson

DV

Kunnáttulítill hægagangur

Greinar

Hægagangur er að verða hættuleg hefð í stjórnarkreppum. Rosatíma er eytt í einfalda hluti á borð við að leita að stefnuskrám flokka, setja óskir í númeraröð og láta reikna þær út. Hið raunverulega pólitíska innsæi, ­ að kunna list hins mögulega, verður útundan.

Svokallaðar könnunarviðræður taka heila viku. Á þeim tíma þykist formaður eins stjórnmálaflokksins vera að kanna, hvort ákveðnir flokkar vilji ræða þáttöku í ríkisstjórn. Í venjulegum viðskiptum væri slíkt afgreitt í nokkrum símtölum fyrir klukkan tíu.

Síðan hefjast svokallaðar samningaviðræður, sem taka aðra viku. Í þeirri viku kynnir fyrrgreindur formaður sér, hverjar séu stefnuskrár hinna flokkanna í viðræðunum. Allir flokkarnir, sem þátt taka, draga úr pússi sínu kosningastefnuskrár og afhenda þær.

Í venjulegum samskiptum og viðskiptum er mönnum kunnugt um slík atriði og þurfa ekki að spyrja um þau. Raunar þætti á öðrum sviðum þjóðlífsins skrítið, að fólk setjist að samningaborði án þess að hafa fyrir hádegi hugmynd um, hvað hinir hafa til málanna að leggja.

Stefnuskrár stjórnmálaflokkanna eru aðgengilegar á prenti löngu fyrir kosningar. Verkstjórar í stjórnarmyndunarviðræðum eru að gera sér upp fánahátt með því að verja heilli viku í að kynna sér eftir kosningar, hvað flokkarnir höfðu fram að færa fyrir kosningar.

Að þessu loknu kemur þriðji liður hægagangsins, sem felst í, að verkstjórinn kynnir sér á heilli viku, hvaða atriði í stefnuskrám flokkanna skipti þá meira máli en önnur. Á þessari þriðju viku virðast samningsaðilar fyrst uppgötva það, sem alþjóð vissi fyrir kosningar.

Í venjulegum samskiptum eru menn beðnir um að númera áhugamál sín í röð mikilvægis eins og á hverjum öðrum óskalista, þegar þeir leggja fram gögn sín. Upplýsingar um úrslitamálin eiga að liggja á samningaborðinu strax síðdegis á fyrsta degi viðræðnanna.

Síðast eru óskalistar aðila viðræðna um stjórnarmyndun sendir til opinberra stofnana, sem hafa að hlutverki að framleiða tölur fyrir stjórnvöld. Fjórða vikan fer í að afla hagfræðilegra spádóma, sem ættu að hafa verið til, áður en viðræðurnar hófust.

Þjóðhagsstofnun á að fylgjast með þjóðarhag. Fyrir kvöldmat á fyrsta degi viðræðna um stjórnarmyndun á stofnunin að geta svarað fyrirspurnum verkstjóra viðræðnanna um, hvaða áhrif á þjóðhagsspár hafi hinar ýmsu útgáfur atriðanna, sem efst eru á óskalistunum.

Þannig ætti á einum degi að vera hægt að átta sig á, hvort takast kunni stjórnarmyndun á borð við þá, sem Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, var að dunda við að undirbúa í langan tíma, áður en kom í ljós, að stjórnarmyndun er ekki einfalt hagdæmi.

Tilraun hans til stjórnarmyndunar var kunnáttulítil. Raunveruleg stjórnmál felast í list hins mögulega, eins og Gunnar Thoroddsen sýndi, þegar hann myndaði ríkisstjórn á fjórum dögum, eftir að annar verkstjóri hafði safnað gagnslitlum hagskýrslum í 38 daga samfleytt.

Stjórnmálin taka við, er hagspánum sleppir. Glöggur stjórnmálamaður áttar sig á, hvað er í rauninni kleift og hvað ekki. Hann býst ekki við, að Þjóðhagsstofnun reikni saman ríkisstjórn. Hann býr til samkomulag í stöðu, sem kunnáttulitlir menn töldu vonlausa.

Í tilraunum til myndunar ríkisstjórna á Íslandi hefur síðustu tvo áratugina oft skort hið pólitíska þefskyn, innsæi og lipurð, sem einkenndi suma gömlu foringjana.

Jónas Kristjánsson

DV

Étið þið hvítkál

Greinar

Komið hefur í ljós, að landbúnaðarráðherra er enn að bauka við að lemja á neytendum til að halda uppi offramleiðslu og milljarðasóun í gælugrein allra stjórn málaflokka, landbúnaðinum. Í ár voru settar reglur í ráðuneytinu, sem takmarka aðgang fólks að grænmeti.

Í ráðuneytinu er sérstök nefnd, sem á að gæta þess, að íslenzkt grænmeti hafi forgang fram yfir erlent. Í nýju starfsreglunum er nefndin skylduð til að taka tillit til þess, ef ein tegund innflutts grænmetis hamlar sölu á annarri tegund, sem ræktuð er innanlands.

Fræðilega séð skylda reglurnar nefndina til að banna innflutning á hrísgrjónum, ef mikið framboð er af innlendum kartöflum. Neytendur gætu nefnilega látið sér detta í hug að kaupa hrísgrjón, þegar kartöflur væru betur við hæfi að mati ráðherra og ráðuneytis.

Líklegra er, að nefndin byrji á mildari aðgerð, svo sem að banna innflutning á kínakáli og ísbergssalati, þegar mikið framboð er af innlendu hvítkáli. Samkvæmt starfsreglunum ætti þessi innflutningur að leggjast af, þar sem hann hamlar sölu á innlendu vörunni.

Vopn landbúnaðaráðuneytisins snúa að fleirum en innlendum neytendum. Erlendir ferðamenn þyrftu auðvitað einnig að borða kartöflur og hvítkál, þótt þeir vildu hrísgrjón og kínakál. Má búast við, að Íslendingar verði fljótt kunnir af slíkri meðhöndlun ferðamanna.

Í raun er ráðherra með starfsreglunum að færa klukkuna aftur á bak til fyrri einokunartíma, þegar lands menn áttu í mesta lagi kost á eplum um jólin. Verið er að setja upp þá grundvallarreglu, að neytendur borði það, sem hentar í milljarðasukki landbúnaðarins.

Neytendasamtökin hafa mótmælt starfsreglum nefndarinnar í ráðuneytinu. Forustumenn þeirra hafa beðið um viðtal við forsætisráðherra, af því að þeir segja gamla reynslu af, að ekkert þýði að tala við landbúnaðarráðherra. Hann sé staurblindur sérhagsmunamaður.

Um leið er gott fyrir kjósendur að átta sig á, að vaxandi einokun í landbúnaði er ekkert náttúrulögmál. Það eru þeir sjálfir, sem hafa kosið hana yfir sig með eindregnum stuðningi við stjórnmálaflokka, sem alltaf hossa hagsmunum landbúnaðarins á kostnað neytenda.

Í stjórnarmyndunarviðræðum síðasta mánaðar kom greinilega fram, að enginn flokkur er fáanlegur til að víkja frá ríkjandi gæludýrastefnu í landbúnaði. Alþýðuflokkurinn amaðist lítillega við 28 milljarða búvörusamningnum, en gafst fljótlega upp á því.

Með milljarðasamningnum ábyrgðist ríkið 120 þúsund króna greiðsluskyldu á hverja fjögurra manna fjölskyldu á ári. Ef ríkið hefði gert sömu vörukaup í útlöndum, hefði verið unnt að hækka tekjur hvers einasta Íslendings um 8.000 krónur á mánuði.

Stjórnmálamenn okkar hafa verið að láta reikna og reikna fyrir sig skiptimynt á borð við kostnað af hækkun lágmarkslauna upp í 36.000 krónur á mánuði, á sama tíma og þeir ítreka, að ekki komi til mála að hrófla við milljarðabrennslu peninga í landbúnaði.

Kjósendur, sem í kosningum eftir kosningar fela stjórnmálamönnum af því tagi umboð til að stjórna landinu og fara með fjármál þess, þurfa ekki að verða hissa, þótt landbúnaðarráðherra skyldi þá til að borða kartöflur og hvítkál í stað hrísgrjóna og kínakáls.

Spurningin er raunar, hvort kjósendur og neytendur eiga ekki bara fyllilega skilið að sæta því, sem leiðtogi þeirra í landbúnaðarráðuneytinu skipar fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Babýlon hin nýja

Greinar

Garðastrætis-ríkisstjórnin, það er að segja Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið, hefur upplýst, að ekki þurfi að minnka kjarabilið í landinu. Alþýðusambandið hafi sjálft þegar náð sama árangri og var í Mesópótamíu fyrir 3500 árum og sé það nóg í bili.

Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni, sem menn hrósa sér af samanburði við Babýlon. Eftir það má búast við, að Jón Helgason dómsmálaráðherra segi, að ekki þurfi fleiri lög í landinu, af því að lagasafnið sé orðið nokkurn veginn eins gott og hjá Hammúrabí.

Garðastrætis-ríkisstjórnin hefur verið á móti stjórnarmyndunartilraun vikunnar frá því fyrir upphaf hennar. Raunar má undrast, að Sjálfstæðisflokkurinn skyldi fá leyfi til að reyna þetta mynztur. En tilraun hans reyndist að lokum hafa verið gerð til málamynda.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins voru undir lokin ákveðnir í að víkja hvergi frá stefnu núverandi stjórnar með Framsóknarflokki. Fulltrúar Kvennalistans voru allan tímann ákveðnir í að víkja ekki frá launajöfnun, þótt það kostaði eftirgjafir gagnvart varnarliðinu.

Fulltrúar Alþýðuflokksins voru hinir einu, sem raunverulega reyndu að semja. Þeir lögðu til, að reynt yrði að ná markmiði Kvennalistans með annarri leið og hægar. Alþýðublaðið segir, að málamiðlunin hafi strandað á kergju beggja hinna. Er það nærri lagi.

Slæm reynsla er af tilraunum til að minnka launabil með valdboði stjórnvalda. Það stafar af, að verið er að reyna að lina félagslegt vandamál á verksviði markaðarins, í stað þess að reyna að lina það í félagslegum geira hins opinbera, ­ hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Konur hafa tekið að sér störf, sem karlar vilja ekki. Það eru verst launuðu störfin í arðminnstu atvinnugreinunum. Þessar greinar verða sízt arðmeiri, þegar reynt er að hífa upp lágmarkslaunin. Launajöfnunartilraunir leiða hjá sér slíkar staðreyndir lífsins.

Miklu nær er að viðurkenna, að markaðsbúskapurinn megnar ekki að búa til næga arðsemi í lélegustu atvinnugreinunum til að fólk geti lifað mannsæmandi lífi af verst launuðu störfunum þar. Mannsæmandi líf við slíkar aðstæður er frekar viðfangsefni samfélagsins.

Hópurinn, sem stendur fjærst mannsæmandi lífi, felur í sér einstæðar mæður og börn þeirra. Vandamál þeirra er skynsamlegast að lina með barnabótum úr sameiginlegum sjóði, í stað þess að rugla markaðskerfið. Veruleg hækkun barnabóta er raunar sjálfsagt réttlætismál.

Hækkun barnabóta kostar að sjálfsögðu peninga eins og hækkun á lífeyri aldraðs fólks og öryrkja. Það ætti ekki að koma á óvart þeim fjármálaráðherra, sem hefur komið halla ríkisrekstrarins upp í níu milljarða á þessu ári og þar með slegið flest met frá dögum Babýlons.

Auðvitað er líka unnt að fá peninga í mjúku málin með því að leggja niður árlegar milljarðagreiðslur til hins hefðbundna landbúnaðar. Allt er spursmál um vilja og forgangsröð, ekki hvort peningar séu til í þetta eða hitt, jafnvel í aukið steinullarhlutafé þessa dagana.

En milljarðaflokkarnir tveir, Sjálfstæðisflokkur og Kvennalisti, eru þó sammála um það eitt, að ekki megi hreyfa við milljarðasukki landbúnaðarins. Því hefðu milljarðarnir til barna og gamals fólks ekki fundizt með sparnaði hjá ríkinu, heldur með auknum sköttum.

Nú er það mál úti. Undir handleiðslu Garðastrætis er unnt að fara að endurmynda gamalkunnar stjórnir um, að allt skuli áfram vera eins og var í Babýlon.

Jónas Kristjánsson

DV

Síbylja í sífurtóni

Greinar

Þegar við lærðum og náðum tökum á að beita frystingu til að verja fisk skemmdum og geyma hann í langan tíma, opnaðist Bandaríkjamarkaður og blómaskeið hófst í sjávarútvegi okkar. Við urðum svo ánægð með nýjungina, að við misskildum, hvað hún fól í sér.

Almennt er talið, að svokölluð fullvinnsla felist í að fara með fisk í gegnum frystihús með ærnum tilkostnaði, í stað þess að selja hann beint til útlanda eins og hann kemur upp úr sjónum. Það síðara er kallað að selja útlendingum hráefni í stað fullunninnar vöru.

Ekkert þýðir að benda á, að hærra verð fæst fyrir svokallað hráefni en svokallaða fullunna vöru. Enda sjá ráðamenn og talsmenn fiskvinnslunnar, einkum samtaka frystihúsa, sér hag í að viðhalda misskilningi sundurgreiningar milli hráefnis og fullvinnslu.

Umræður um stöðu fiskvinnslu eru að verða eins vonlausar og umræður um hinn hefðbundna landbúnað. Talsmenn fiskvinnslunnar endurtaka bara í síbylju gömlu slagorðin um hráefni og fullvinnslu, þegar þeir berjast gegn frjálsu fiskverði, fiskmarkaði og gámafiski.

Þetta kom greinilega fram í síðustu viku í ræðum stjórnarformanns og nýlegs forstjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna á aðalfundi fyrirtækisins. Svipuð síbylja kom skömmu áður fram í viðtali nýlegs forstjóra Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda við DV.

Sífrað er um, að efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé í voða, ef útgerðarmenn og sjómenn græða stórfé á að selja verðmætan ísfisk til landa Evrópubandalagsins, í stað þess að selja hann á lágu verði til fiskvinnslu, svo að þar megi varðveita vítahring lága kaupsins.

Þetta sífur er athyglisvert í þjóðfélagi fullrar atvinnu, þar sem barizt er um vinnuaflið. Í stað þess að ýta fólki út í arðsamari atvinnugreinar, sem gefa meiri laun, er verið að reyna að byggja upp landbúnaðarlegt verndarkerfi utan um lágu launin í fiskvinnslunni.

Síbylja forvígismanna fiskvinnslunnar stríðir gegn grundvallarlögmáli, sem segir, að hagkvæmast sé að ná sem mestum árangri með sem minnstri fyrirhöfn. Þetta grundvallarlögmál vinnsluvirðis og markaðar er meginþáttur allrar skynsamlegrar hagfræði.

Frá Japan eru okkur sagðar þær fréttir, að markaðsverð sé mun hærra og jafnvel margfalt hærra á ferskum fiski en á frystum. Þetta stafar af, að Japanir hafa mun meira vit á fiskgæðum en Vesturlandabúar. Japönskum sjónarmiðum mun vaxa fiskur um hrygg hér vestra.

Ferskur fiskur er enn innan við 20% af sölu íslenzkra þorskfiskafurða. Eðlilegt er, að hlutdeildin fari vaxandi með auknu áliti erlendra neytenda á ferskum fiski og tilsvarandi hækkun á verði hans. Ekki er fráleitt að stefna að um það bil helmingi útflutningsins.

Frystur fiskur mun áfram verða mikilvægur í útflutningi. Nóg er til í útlöndum af skólum, sjúkrahúsum og fangelsum, sem vilja kaupa slíka vöru. Og einnig er þar nóg til af sjónvarpssjúklingum, sem vilja kaupa þrautunninn ruslmat, sem er tilbúinn í örbylgjuofninn.

Mestu máli skiptir, að við vörum okkur á tilraunum forustumanna fiskvinnslunnar til að bregða fæti fyrir útflutning á ferskum fiski, alveg eins og við vörum okkur á tilraunum þeirra til að koma í veg fyrir aðra markaðshyggju, svo sem frjálst fiskverð og fiskmarkaði.

Þegar talsmenn fiskvinnslunnar eru komnir með síbylju í sífurtóni, sem við þekkjum úr landbúnaðinum, megum við vita, hver á að borga brúsann, ­ þjóðin.

Jónas Kristjánsson

DV

Burðarþol í bananaborg

Greinar

Komið hefur í ljós við athugun á vegum félagsmálaráðuneytisins, að hús í Reykjavík hafa mörg hver allt of lítið burðarþol. Hafþór Jónsson hjá Almannavörnum kallar niðurstöðurnar “skelfilegar” og Stefán Thors, skipulagsstjóri ríkisins, kallar þær “hrikalegar”.

Í greinum í nýlegu blaði byggingatæknifræðinema hafa Guðbrandur Steinþórsson, deildarstjóri byggingatæknideildar Tækniskóla Íslands, og Gunnar Torfason byggingaverkfræðingur gagnrýnt harðlega fúsk sumra byggingamanna og eftirlitsleysi opinberra aðila.

Í grein Gunnars segir m.a.: “Virkasti hópurinn af slíkum fúskurum er ekki stór, kannski innan við 20 manns. Flest nöfnin þekkja byggingafulltrúarnir á höfuðborgarsvæðinu og væri því leikur einn að stöðva þetta fúsk í gegnum skrifstofur embættanna. En einnig hér er ríkjandi landlæg drullusokkadýrkun og linka.”

Rúmt ár er síðan fram kom í nefndaráliti til félagsmálaráðherra rökstuddur grunur um, að ekki væri allt með felldu í byggingaeftirliti Reykjavíkur, að því er varðar burðarþol húsa. Í kjölfarið voru tíu hús rannsökuð. Þau reyndust öll hafa of lítið burðarþol.

Niðurstöðurnar voru sendar borgarverkfræðingi 9. apríl. Hann virðist lítið hafa sinnt þeim, því að málið kom borgarstjórn á óvart, þegar félagsmálaráðuneytið hélt blaðamannafund um það 19. maí. Borgarverkfræðingur hafði 11. maí verið boðaður á þann fund.

Allir málsaðilar hins opinbera virðast sammála um að halda leyndu fyrir fólki, hvaða tíu hús þetta séu. DV hefur upplýst, að eitt þeirra sé Foldaskóli. Það hefur verið staðfest. Hinum níu húsunum er enn haldið leyndum, væntanlega á þeirri forsendu, að þekking sé fólki hættulegri en hús með of litlu burðarþoli.

Mál þetta hefur leitt til, að Almannavarnir ríkisins verða að endurskoða fyrri áætlanir um neyðaraðgerðir. Þær gera ráð fyrir, að hús séu byggð í samræmi við ákveðna jarðskjálftastuðla. Þau valdi því ekki tjóni í jarðskjálftum og nýtist eftir þá í starfi almannavarna.

Málið felst í, að nafnkunnir fúskarar komast ýmist upp með að skila ekki burðarþolsteikningum til byggingafulltrúa eða fá þær áritaðar athugunarlaust, ef þeir leggja þær fram. Eðlilegt er, að reiði ráðamanna og almennings beinist helzt að byggingafulltrúanum.

Athyglisvert er, að þessi sami byggingafulltrúi Reykjavíkur sætti í vetur gagnrýni vegna skorts á eftirliti með lélegri steypu. Augljóst má því vera, að vítavert sinnuleysi ræður almennt ríkjum hjá þessu embætti.

Ekki er síður athyglisvert, að borgarverkfræðingur hefur ekki aðeins reynzt seinfær og fáskiptinn um burðarþolsskýrsluna, heldur hefur hann heimilað starfsmönnum byggingaeftirlitsins að hanna hús, sem þeir síðan samþykkja og stimpla fyrir hönd stofnunarinnar.

Athyglisverðast er þó, að úrbótatillögur borgarstjóra og meirihluta hans í borgarstjórn fjalla nær eingöngu um, að hér eftir verði burðarþolsútreikningar að fylgja teikningum af ákveðnum tegundum húsa. Ekkert er reynt að taka á innri vanda borgarkerfisins.

Nærtækast væri þó að svipta réttindum frægustu fúskarana tuttugu, reka byggingafulltrúann og víta borgarverkfræðinginn, sem hafa árum saman látið viðgangast “hrikalegt” og “skelfilegt” ástand í burðarþoli mannvirkja, sem hæglega geta orðið tugum eða hundruðum borgara að bana í myndarlegum jarðskjálfta.

En Reykjavík kvað vera hálfgert bananalýðveldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Úr búð í Björgvin

Greinar

Samanburður Verðlagsstofnunar á verði í Björgvin og Reykjavík er mikið áfall stuðningsmönnum frjálsrar samkeppni. Komið hefur í ljós, að við sambærilegar aðstæður hefur markaðnum ekki tekizt að færa íslenzkum neytendum lægra vöruverð með frjálsri álagningu.

Heildsölum eru ekki lengur haldbærar röksemdirnar frá samanburðinum við Glasgow í fyrra. Björgvin er á stærð við Reykjavík og er einnig tiltölulega afskekktur staður. Lítið vörumagn og langar flutningsleiðir gera þennan samanburð því ekki of óhagstæðan Reykjavík.

Íslenzkar heildsölur gera að meðaltali 20% óhagkvæmari innkaup en tíðkast í nágrenninu. Sennilega er rétt sú skýring verðlagsstjóra, að þetta stafi af umboðslaunum erlendis, sem hafi haldið velli, þótt fyrirtækin geti náð sínu í frjálsri álagningu innanlands.

Hin gamla álagningaraðferð umboðslauna er neytendum þung í skauti. Hún hækkar nefnilega grunninn, sem aðrar prósentur leggjast á, svo sem í tollum, vörugjaldi og álagningu í heildsölu og smásölu. Hún átti að hverfa samkvæmt formúlu frjálsrar álagningar.

Samanburðurinn sýnir líka, að frjálsa álagningin er há í krónum, þótt hún líti ekki illa út í prósentum. Með undangengnum prósentum ofan á prósentur er búið að hækka grunninn svo mjög, að lág álagningarprósenta getur verið í krónum talið hærri en innkaupsverðið!

Hin hörmulega frammistaða íslenzkrar heildsölu hefur endurvakið hugmyndir um aukið aðhald, jafnvel verðlagshöft í gamla stílnum. Augljóst er, að hingað til hefur hin frjálsa verzlun ekki megnað að skila viðskiptavinunum þeim árangri, sem að var stefnt.

Bent hefur verið á, að á ýmsum sviðum ríki enn hálfgerð einokun í innflutningi og að hugsanlega sé um að ræða samtryggingu nokkurra heildsala á öðrum sviðum. Samkvæmt formúlu frjálsrar verzlunar hefðu nýir aðilar átt að geta séð sér hag í að rjúfa þessa fjötra.

Ef til vill hafa neytendur ekki verið nógu duglegir við að gæta hagsmuna sinna með því að verzla þar, sem hagkvæmast er. En þeir hafa þó sýnt í viðskiptum við stórmarkaði, sem státa sig af tilboðsverðum, að Hagkaupsstefnan á hljómgrunn meðal íslenzkra neytenda.

Formaður Neytendasamtakanna hefur stungið upp á afmörkuðum verðlagshöftum á þeim sviðum, þar sem okrið í heildsölunni er grófast. Hann telur það geti orðið til viðvörunar hinum, sem næstir standa í okursamanburðinum. Og sýnt er, að eitthvað þarf að gera.

Forseti Alþýðusambandsins hefur lagt fram enn róttækari og rökréttari hugmynd. Hún er, að á þessum okursviðum verði ákveðið hámarksverð út úr búð í Reykjavík, sem skuli vera hið sama og út úr búð í Björgvin. Milliliðirnir geti svo bitizt um skiptingu teknanna.

Önnur aðferð gæti einnig orðið til hjálpar. Hún felst í að auka verðmæti þess varnings, sem ferðafólki sé heimilt að hafa með sér til landsins. Þannig má veita íslenzkum kaupmönnum viðvörun með því að flytja meira af verzluninni úr landi til góðra kaupmanna.

Nú reynir verulega á talsmenn og baráttumenn frjálsrar verzlunar í landinu. Á þeim hvílir kvöðin að finna leiðir til að láta hugsjón þeirra leiða til lægra vöruverðs og meiri vörugæða í þágu neytenda. Annan tilgang hefur frjáls verzlun ekki og á ekki að hafa.

Umfram allt þurfum við þó tíðari og fjölbreyttari samanburð Verðlagsstofnunar á frjálsri verzlun í út-öndum og svokallaðri frjálsri verzlun hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Kjallaralið gegn lýðræði

Greinar

Lýðræði á í vök að verjast í þriðja heiminum þessa dagana eins og oftast áður. Stundum gengur betur sums staðar, en oftast gengur þó verr víðast hvar. Síðustu daga höfum við fengið fréttir af margs konar vandræðum, er steðja að þessu illskásta þjóðskipulagi jarðar.

Svo virðist á yfirborðinu, að lýðræði hafi unnið sigur á Filippseyjum í síðustu viku, þegar Corazon Aquino vann yfirburðasigur í heiðarlegustu þingkosningum, sem þar hafa farið fram. Enrile og Marcosarmenn fengu þar hina háðulegu útreið, sem þeir áttu skilið.

Undir niðri hafa vandamál Filippseyja hrannast upp. Aquino hefur tregðast við að framkvæma loforð um skiptingu lands milli fátækra bænda og þar með fært skæruliðum kommúnista vopn í hendur. Jafnframt hefur hún í vaxandi mæli hallað sér að Bandaríkjunum.

Sendimenn bandarísku leyniþjónustunnar og varnarmálaráðuneytisins hafa verið að flykkjast til Filippseyja. Þar er nú verið að endurtaka í hundraðasta skipti hinn alþjóðlega sorgarleik um ljóta Ameríkanann, sem hvarvetna hefur óafvitandi komið þjóðum í klandur.

Síðan Marcos var hrakinn frá völdum og gerður að óvirkum þjófi, hefur Suharto, forseti Indónesíu, verið stórtækasti virki þjófur heimsins. Hann hefur löngum getað nuddað sér utan í Bandaríkin, síðan hann lét í upphafi ferils síns myrða nokkur þúsund kommúnista.

Um daginn hélt Suharto gervikosningar til þingsins í landi sínu. Allt var notað til að tryggja hans mönnum sigur, þar á meðal allt litróf siðleysisins. Nú má búast við, að hann noti kosningasigurinn til að slá sig til riddara í augum hins fávísa Bandaríkjaforseta.

Ekki er langt síðan vinstri menn unnu meirihluta af hægri mönnum í þingkosningum á Fidji-eyjum. Um daginn var her landsins notaður til að reyna að strika yfir niðurstöðu lýðræðisins. Síðustu fréttir herma, að þetta hafi ekki tekizt, en í nokkra daga var staðan tæp.

Víðar í austurálfum jarðar stendur lýðræði höllum fæti. Suður-Kóreu er stjórnað með ofbeldi, þótt skammt sé til ólympíuleikanna þar í landi. Í Singapúr hefur prentfrelsi verið stórlega skert, auk þess sem stjórnarstörf einræðisherrans verða sífellt sérvizkulegri.

Suður-Ameríku hefur ekki tekizt að feta áfram í átt til lýðræðis, þar sem Alfonsín Argentínuforseti er fremstur í flokki. Hann hefur átt í mestu erfiðleikum með herinn í landinu og varð að ganga til samninga til að hindra, að uppþot í hernum yrðu að uppreisn.

Alfonsín hefur reynt að koma lögum yfir nokkur hundruð af verstu glæpamönnunum, sem léku lausum hala á valdatíma hersins. Í því hefur hann sérstöðu meðal lýðræðislega kjörinna valdhafa í Rómönsku Ameríku, því að þeir hafa engum lögum komið yfir slíka.

Þetta varnarleysi gegn hernum einkennir alla álfuna. Valinkunnir leiðtogar á borð við Duarte í El Salvador, Cerezo í Guatemala og Sanguinetti í Uruguay hafa neyðzt til að halda hlífiskildi yfir dauðasveitum hersins. Sömu sögu er að segja frá Brasilíu og Perú.

Herinn í þessum löndum skákar óbeint í bandarísku skjóli, því að reynslan sýnir, að bandaríska leyniþjónustan og varnarmálaráðuneytið hafa tekið opnum örmum dólgum suður-amerískra herja, en litið af tortryggni á lýðræðislega kjörna valdhafa álfunnar.

Sorglegt er, að Bandaríkin skuli leyfa leyniþjónustunni, varnarmálaráðuneytinu og kjallaramönnum í Hvíta húsinu að stjórna utanríkisstefnu ríkisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Hún spillti góðærinu

Greinar

Hin litla stjórn, sem var á fjármálum ríkisins, hefur horfið eftir kosningar. Áætlanir um fjárlagahalla ársins eru komnar upp í fjóra milljarða, sem þýðir, að raunverulegur þensluhalli ríkisins fer upp í sex milljarða á þessu ári. Báðar tölurnar eru uggvænlegar.

Gælur við hugmyndir um skaðleysi ríkishalla eru til marks um uppgjöfina í baráttunni gegn hallarekstri ríkissjóðs. Hið eina vitlega í þeim gælum er, að illskárra er að stofna til ríkisskulda innanlands en á erlendum markaði. Samt sem áður er það slæmt.

Ríkishalli er sérstaklega hættulegur, þegar mikil þensla er í þjóðfélaginu, ­ þegar verkefni þjóðarinnar eru meiri en starfskraftar hennar. Þetta er sjaldgæft fyrirbæri í umheiminum, þar sem hagfræðikenningar eru samdar, en algengt hér á landi, sem betur fer.

Við slíkar aðstæður er mikilvægt, að ríkið haldi sínum eigin verkefnum í skefjum til að vega á móti þenslunni. Með þeim hætti nýtast kraftar þjóðarinnar bezt til sóknar í atvinnulífinu, án þess að veruleg hætta sé á, að spennan leiði til vaxandi verðbólgu.

Undir núverandi stjórn fjármála ríkisins hefur hins vegar verið stefnt í þveröfuga átt. Hinn mikli og vaxandi halli á rekstri ríkisins hefur magnað þensluna og er langstærsta orsök þess, að verðbólgan er byrjuð að leika lausum hala á nýjan leik og stefnir til skýja.

Þorsteinn Pálsson hefur sér til forláts að hafa í farteskinu ráðherra á borð við Sverri Hermannsson, sem hækkar afnotagjald Ríkisútvarpsins um 67% í einu vetfangi, og Jón Helgason, er semur við landbúnaðinn um, að ríkið ábyrgist 28 milljarða á fjórum árum.

Það er samt verkefni fjármálaráðherra að reyna að halda aftur af samráðherrum sínum, sem eru allra manna örlátastir á annarra fé. Þetta hefur illa tekizt, síðan Þorsteinn varð fjármálaráðherra, og alls ekki nú eftir kosningar, þegar allt rekur á reiðanum.

Hinn mikli halli á ríkisrekstrinum margeflir þensluna í þjóðfélaginu. Hallinn og þenslan hafa þegar leitt til launaskriðs á almennum vinnumarkaði og hárra samninga við ýmsa opinbera starfsmenn. Verðbólgan nú í maí er komin yfir það, sem hún átti að verða í september.

Öðrum hvorum megin við síðustu áramót hætti verðbólgan að stefna niður á við, þegar hún var farin að nálgast siðmenningarlega eins stafs tölu. Nú er hraði hennar kominn upp undir 20% og stefnir hraðbyri upp fyrir 30% í árslok. Þetta stafar af ríkishallanum.

Þessi afturför skiptir öllu máli í umræðum um ríkishallann. Í ljósi hennar er skammsýnt að gæla við kenningar um, að þjóðin skuldi ríkinu meira en ríkið þjóðinni, og gæla við óstaðfærðar tilgátur um, að lántökur ríkisins innanlands valdi ekki verðbólgu.

Við sjáum vaxandi ríkishalla leiða til vaxandi samkeppni, ekki bara um starfskrafta, heldur einnig um lánsfé. Í bönkunum hefur myndazt útlánahalli og gagnvart útlöndum hefur myndazt viðskiptahalli. Þetta mun fljótlega leiða til hækkunar á háum vöxtum.

Fyrstu mánuði ársins þurftum við að þola ríkisstjórn, sem reyndi að kaupa sér atkvæði með gjafmildi á annarra fé. Eftir kosningar þurfum við að þola sömu stjórn, sem þykist nú alls ekki þurfa að stjórna, af því að hún sé bara að passa sjoppuna fyrir næstu stjórn.

Niðurstaðan er að verða sú, að ríkisstjórnin skilji ríkisfjármálin eftir í mun verra ófremdarástandi en var, þegar hún tók við. Hún hafi spillt góðærinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Eignarréttur á fylgi

Greinar

Talsmenn flokkanna, sem halloka fóru í alþingiskosningunum, hafa velt fyrir sér reikningsdæmum um, að fylgið hafi ekki glatazt, heldur sé það í eins konar láni hjá nýjum og nýlegum flokkum. Þannig komast þeir hjá að fjalla um sjálft efni málsins, fylgistapið.

Á þennan hátt eignar Sjálfstæðisflokkurinn sér fylgi Borgaraflokksins, Alþýðubandalagið eignar sér fylgi Kvennalistans og Framsóknarflokkurinn eignar sér fylgi Stefáns Valgeirssonar. Útkoman er, að enginn gömlu flokkanna hafi í rauninni tapað neinu.

Kenningin um lán á fylgi er studd fleiri dæmum. Meðal annars er sagt, að Alþýðuflokkurinn hafi í rauninni ekki grætt neitt í alþingiskosningunum, heldur hafi hann fengið skilað til baka Vilmundarfylgi, sem hafi verið í láni hjá Bandalagi jafnaðarmanna.

Dæmið er þó ekki svona einfalt. Við hvarf Vilmundarfylgisins úr Alþýðuflokknum lækkaði þingmannatala flokksins úr fjórtán í sex. Í síðustu kosningum tókst flokknum aðeins að ná til baka hálfum mismuninum eða fjórum þingmönnum af átta, ­ að fara upp í tíu.

Því má búast við, að hinum gömlu flokkunum muni reynast erfitt að ná til baka fylgi, sem þeir segjast hafa lánað nýjum og nýlegum flokkum. Kjósendur eru ekki eins traust fasteign og þeir voru áður fyrr. Skynsamlegra er að líta á fylgi sem lausafé en sem fasteign.

Dæmi Stefáns Valgeirssonar er tiltölulega einfalt. Ef flokkur hans býður ekki fram í næstu alþingiskosningum, veltur á ýmsu, hvert fylgið fer. Líklegast er, að það dreifist víða og leiti einkum til þeirra flokka, sem þá vekja mesta athygli, en ekki til Framsóknarflokksins.

Ekki styður það kenningarnar um lán á fylgi, að spenna og úlfúð léku lausum hala í kosningabaráttu Stefánsmanna og Framsóknarflokksins í Norðurlandskjördæmi eystra. Erfitt er að sjá fyrir, að gróið verði um heilt, þegar næst verður gengið til kosninga.

Talsmenn Alþýðubandalagsins hafa hagað sér greindarlegar gagnvart því fylgi, sem þeir telja sig hafa lánað Kvennalistanum. Þeir leggja sig í líma við að vera almennilegir við konurnar, styðja málefni þeirra og vekja athygli á þeim í Þjóðviljanum. Þeir bíða færis.

Þeir hafa hagað sér gagnvart Kvennalistanum eins og Alþýðuflokkurinn hefur hagað sér gagnvart forustuliði Bandalags jafnaðarmanna. Hugsanlegt er, að þeir nái svipuðum árangri, ef Kvennalistinn hættir, ­ um það bil helmingi fylgisins, en hitt dreifist eftir aðstæðum.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins eru ekki á slíkum buxum. Þeir sýna Borgaraflokknum fullkomna óvild. Yfirlýsingar um, að ekki komi til mála að fara í stjórn með honum, eru eitt dæmið um gamla heygarðshornið. Flokkseigendafélagið fyrirgefur aldrei neitt.

Gaman verður að sjá, hvernig forustumönnum Sjálfstæðisflokksins tekst að endurheimta lánið á fylgi, þegar komið er að næstu kosningum og annar flokkurinn hefur verið innan stjórnar og hinn utan. Refsingarstefna hins reiða guðs mun þá koma að litlu gagni.

Ef Borgaraflokkurinn býður þá ekki fram, er líklegast, að ráðamenn Sjálfstæðisflokksins telji sér áfram skylt að halda stuðningsmönnum Borgaraflokksins frá áhrifum. Fylgi hans muni því dreifast til Alþýðuflokksins og annarra flokka fremur en til Sjálfstæðisflokksins.

Af þessu má ráða, að þeir flokkar, sem töpuðu fylgi, mega hafa sig alla við ­ og vera heppnir að auki, ef þeir ætla að eiga von í að erfa helming þess til baka.

Jónas Kristjánsson

DV

Miðjustjórn eða kantstjórn

Greinar

Einna sérkennilegustu afstöðu í viðræðum um myndun nýrrar ríkisstjórnar hér á landi er að finna hjá ráðamönnum Sjálfstæðisflokksins. Þótt sá flokkur hafi tapað mest allra flokka í kosningunum, eru oddvitar hans önnum kafnir við að leika guðshlutverk í pólitík.

Óraunsæi þeirra kemur annars vegar fram í, að þeir telja sér kleift að reyna að refsa grasrótinni í flokknum fyrir að styðja nýjan flokk til áhrifa. Hins vegar kemur það fram í, að þeir telja sér kleift að reyna að refsa forsætisráðherra fyrir að vera úr hófi vinsæll.

Viðhorf leiðtoga Sjálfstæðisflokksins eru skýrustu dæmin um, að hér á landi skipta úrslit kosninga ekki sköpum um völd í þjóðfélaginu. Hér er kosningasigur ekki talinn vera ávísun á þátttöku í ríkisstjórn, heldur fremur sem smitsjúkdómur, er einangra beri stranglega.

Ef allt væri með felldu hér á landi, væri fyrst og fremst litið á sigurvegara alþingiskosninganna sem nauðsynlega og sjálfsagða aðila að nýrri ríkisstjórn. Þar færi fremstur í flokki Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar, sem stærstan sigurinn vann.

En þvert á móti eru flestir oddvitar og sérfræðingar stjórnmálanna sammála um, að ekki komi til greina, að Borgaraflokkurinn taki þátt í ríkisstjórn. Meira að segja Albert sjálfur hefur látið frá sér fara, að bezt sé, að flokkur hann byrji ferilinn í stjórnarandstöðu.

Næst á eftir Borgaraflokknum var Kvennalistinn sigurvegari kosninganna. Til að sporna gegn staðreyndinni eru oddvitar og sérfræðingar stjórnmálanna sammála um að gera til listans meiri kröfur en til annarra um málatilbúnað, svo að hann detti sem fyrst úr myndinni.

Þriðji sigurvegari kosninganna er Alþýðuflokkurinn, sem náði hálfu Vilmundarfylgi til baka. Ef mark væri tekið á kosningaúrslitum, ætti hann að vera aðili að nýrri ríkisstjórn eins og Borgaraflokkur og Kvennalisti. Þá vantar aðeins fjórða flokkinn í þingmeirihluta.

Ekkert er til fyrirstöðu, að fjórir flokkar myndi stjórn. Það er ekki lakara mynztur en þriggja flokka stjórn og er algengt í öðrum löndum. Kenningar um annað eru bara illa dulbúin tilraun til að segja, að stjórnaraðild Sjálfstæðisflokks sé eins konar náttúrulögmál.

Fjórði flokkurinn í nýrri ríkisstjórn ætti efni málsins vegna að vera Framsóknarflokkurinn, sem tapaði nánast engu í kosningunum og getur þar á ofan lagt fram vinsælasta stjórnmálamann landsins sem forsætisráðherra. Þetta yrði fjögurra flokka miðjustjórn.

Utan stjórnar ættu að sjálfsögðu að vera þeir flokkar, sem hrundu, Sjálfstæðisflokkur og Alþýðubandalag. En það er dæmigert um sambandsleysi kosningaúrslita og stjórnarmyndunar, að nú er talað um þessa tvo sigruðu flokka sem hornsteina nýrrar ríkisstjórnar.

Í kosningunum gekk bezt nýjum og nýlegum flokkum, sem töldu sér til ágætis að vera með mildari stefnu en kantflokkarnir tveir til vinstri og hægri. Niðurstaðan ætti að vera ávísun á ríkisstjórn á miðjunni, án þátttöku Alþýðubandalagsins og Sjálfstæðisflokksins.

Því miður er marklítið að fjalla á þennan hátt um, hver sé eðlileg niðurstaða kosninganna. Ráðamenn flokka, með oddvita Sjálfstæðisflokksins í broddi fylkingar, telja heppilegast, að hinir sigruðu myndi ríkisstjórn, enda eigi þeir í rauninni fylgi sigurvegaranna.

Óraunsæjar hugmyndir um gamalt eignarhald á fylgi annarra og um refsingar fyrir vinsældir valda því, að nú er ekki talað um miðjustjórn heldur kantstjórn.

Jónas Kristjánsson

DV

Auglýsa ósjálfstæði sitt

Greinar

Á götum New York sjást konur ganga með leðurtöskur, sem þær hafa keypt á 1.000 dali í tízkuverzlun. Á leðurtöskunum stendur stórum stöfum: Gucci. Það er nafn eins af mörgum sjónhverfingamönnum, sem taka prósentur fyrir að leigja nafn sitt á tízkuvarning.

Með því að ganga um stéttar New York með stóra auglýsingu fyrir Gucci eru konur þessar að kynna fyrir öðrum, að þær tolli í fyrsta lagi í tízkunni og að þær hafi í öðru lagi ráð á að kaupa 100 dala tösku á 1.000 dali. Og Gucci hlær í hvert skipti, sem taska er seld.

Við sjáum sama mynztrið í smærri stíl hér á landi. Gallabuxur eru áberandi merktar Levi’s og hálsbindi merkt Lanvin, svo að dæmi séu nefnd. Þetta er ekkert einkamál kvenna, því að karlmenn ganga ekki síður í auglýsingum, sem eru merktar sjónhverfingamönnum.

Tízka, sem er svo ljót, að skipt er um hana tvisvar á ári, er ekki heldur lengur neitt einkamál Vesturlanda. Tízkukóngar, sem gamna sér við að láta fólk borga stórfé fyrir að ganga um með auglýsingar sínar á almannafæri, eru ekki heldur neitt einkamál Vesturlanda.

Fyrr í þessum mánuði kom út í Moskvu fyrsta tölublað tízkublaðsins Burda á rússnesku. Þar geta félagar skoðað auglýsingar frá Cartier, Chanel og Calvin Klein, svo að dæmi séu nefnd. Blaðinu var hleypt af stokkunum að viðstaddri Raisu Gorbatsjov Reykjavíkurfara.

Sovétmenn geta því farið að herma eftir Vesturlandabúum í að borga stórfé fyrir að fá að klæða sig eftir tilskipunum tvisvar á ári. Slíkt ósjálfstæði ætti raunar að falla vel í kramið á Volgubökkum, því að þar þykir sporganga heppileg leið til pólitísks frama.

Eftirhermustefna tízkuiðnaðarins hefur einnig haldið innreið sína í Kínaveldi. Þar er hægt að kaupa Cardin-föt til þess að nota í heimsóknum í Maxim’s veitingahús, sem stofnað hefur verið í Peking. Kínverjar þurfa eins og Rússar að auglýsa, að þeir tolli í tízkunni.

Cardin er gott dæmi um þessa atvinnugrein. Sá, sem vill selja vöru, biður Cardin um að lána sér nafnið gegn ákveðnu prósentugjaldi af hveri sölu. Þannig hefur Cardin gert um 840 samninga um notkun á nafni sínu á fatnað, glingur, kaffikönnur, skyndisúpur og sardínur.

Tízkukóngarnir mynda um sig hirð sporgöngufólks, sem lifir og hrærist í vörum og þjónustu, er ber töfranafn viðkomandi tízkukóngs. Ósjálfstæða sporgöngufólkið er hentug hirð, af því að það er reiðubúið að borga tífalt verð fyrir að fá að þjóna kóngi.

Eitt hið broslegasta við þetta er, að fólkið, sem lætur skipa sér að skipta um tízku tvisvar á ári, ímyndar sér, að það sjálft sé eins konar forustufólk, af því að það tollir í tízkunni. Það sér ekki, að það er fyrst og fremst að auglýsa ósjálfstæði sitt, sporgönguna, eftirhermuna.

Íslendingar eru orðnir svo gegnsýrðir þessum þrældómi, að inn um bréfarifur fólks eru farnir að berast kosningabæklingar, sem líkjast fremur tízkubæklingum en áróðursbæklingum. Þar eru sýndar litmyndir af frambjóðendum í pússi, sem fylgir kröfum tízkunnar.

Senn fáum við hinn fullkomna frambjóðanda, sem klæðist skyrtu, merktri Dior; bindi, merktu Saint Laurent; jakka, merktum Boss; berandi stresstösku, sem á stendur Gucci, stórum stöfum, svo að greinilega sjáist úr fjarlægð, að frambjóðandinn sé steyptur í mótið.

Í rauninni þarf mikið ósjálfstæði til að skipta tvisvar á ári um útlit, sem er svo ljótt, að skipta þarf um það tvisvar á ári, þegar endurnýja þarf tízkuvörubirgðirnar.

Jónas Kristjánsson

DV