Greinar

Þjófnaður aldarinnar

Greinar

Ríkisstjórnin framdi þjófnað aldarinnar á föstudaginn í síðustu viku. Þá ritaði landbúnaðarráðherra undir samning um, að ríkið ábyrgist sölu á kindakjöti og mjólkurafurðum fyrir 28 milljarða króna á næstu fjórum árum. Neytendur og skattgreiðendur borga tjónið.

Þegar búið er að deila samningsupphæðinni niður á fjölskyldurnar í landinu, kemur í hlut hverrar fjögurra manna fjölskyldu að greiða 480.000 krónur á fjögurra ára samningstíma. Það er árleg 120.000 króna greiðsluskylda á hverja fjögurra manna fjölskyldu.

Engu máli skiptir, hvort hinir rændu vilja nota þessar vörur í því magni, sem ríkisstjórnin hefur samið um, eða borga þær á hinu svokallaða fulla verði. Þeir, sem ekki vilja það, borga tjónið í skattinum. Hinir borga það í skattinum og í verðinu yfir búðarborðið.

Með samningi föstudagsins svarta er reynt að hindra markaðsaðlögun hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda. Samningurinn frystir árlega framleiðslu sauðfjárafurða í 11.000 tonnum og eykur árlega mjólkurframleiðslu úr 102.000 lítrum í 104.000 lítra.

Sérfræðinganefnd úr landbúnaðinum, svokölluð landnýtingarnefnd, hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að framleiðendur í hinum hefðbundna landbúnaði séu tvöfalt fleiri en þörf er fyrir. Þessi óþarfa framleiðsla á að haldast áfram samkvæmt nýja samningnum.

Þess vegna verður áfram haldið að greiða niður búvöru á kostnað skattgreiðenda til að koma henni út. Þess vegna verður áfram haldið að gefa osta, mjólkurduft og kjöt til útlanda, svo að ekki hlaðist upp meiri fjöll afurða þeirra, sem ríkið hefur ábyrgzt.

Í rauninni er offramleiðslan meiri en fram kemur í niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum. Ef almenningur hefði aðgang að ódýrari búvöru frá útlöndum, kæmi í ljós, að markaður í landinu fyrir afurðir kúa og kinda er ekki nema brot af því, sem ráðamenn halda.

Ef ríkið telur sig, fyrir hönd neytenda og skattgreiðenda landsins, hafa efni á að kaupa á einu bretti fjögurra ára framleiðslu hefðbundinnar búvöru, væri skynsamlegra að bjóða viðskiptin út á ódýrum alþjóðamarkaði og láta útlendinga undirbjóða hver annan.

Þá kæmi í ljós, að ríkið þarf ekki að sæta afarkostum einokunarsamnings upp á 28 milljarða. Það getur fengið handa þjóðinni sams konar vörur, svipaðar og hliðstæðar, fyrir svo sem fimm milljarða. Þar með mundi ríkið spara almenningi í landinu um 23 milljarða.

Með því að beita ekki útboði á þessu mikilvæga sviði kemur ríkisstjórnin í veg fyrir, að lífskjör fjögurra manna meðalfjölskyldu batni um 100.000 krónur á hverju ári eða um 8.000 krónur á hverjum mánuði í fjögur ár. Á sama tíma er hart barizt um kaup og kjör.

Um leið er ríkisstjórnin að binda hendur þeirrar ríkisstjórnar, sem við tekur eftir kosningar. Hún er búin að leggja á herðar hennar greiðsluklafa út allt kjörtímabilið. Viðtakandi ríkisstjórn getur því lítið lagfært núverandi öngþveiti í fjármálum ríkissjóðs.

Þetta er að sjálfsögðu gersamlega siðlaust. Atkvæði bænda eru keypt í trausti þess, að almenningi sé sama. Svona samning, einokunar- eða útboðssamning, á fráfarandi ríkisstjórn ekki að gera mánuði fyrir kosningar, heldur ný ríkisstjórn mánuði eftir kosningar.

Með þjófnaði aldarinnar hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur lýst yfir, að kjósendur þeirra í þéttbýli og við sjávarsíðuna séu algerir bjöllusauðir.

Jónas Kristjánsson

DV

Glöp Alberts og Þorsteins

Greinar

Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, vissi fyrir nokkrum vikum af bréfi skattrannsóknastjóra til Alberts Guðmundssonar, iðnaðarráðherra og fyrsta manns á framboðslista flokksins í Reykjavík. Hann vissi af bréfinu fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins.

Á landsfundinum var rétti staðurinn og rétta stundin til að ræða alvarleg mál á borð við stöðu Alberts. Ekkert gerðist í máli hans frá því fyrir landsfund og fram að blaðamannafundi Þorsteins á fimmtudaginn var, þegar formaðurinn sagði, að málið væri alvarlegt.

Gagnrýnivert hlýtur að teljast að taka ekki upp á landsfundinum svo alvarlegt mál fyrir flokkinn, úr því að formaðurinn vissi þá þegar um málið. Ef deilur hefðu risið þar vegna þessa, hefði Þorsteinn að vísu ekki fengið rússneska endurkosningu sem formaður.

En hann átti að telja sig nógu sterkan á fundinum til að taka svokallaðan Albertsvanda flokksins föstum tökum, ­ til að taka slaginn á réttum stað og tíma. Hann kynni að hafa fengið dálítið af mótatkvæðum, en ekki verið sakaður um skort á forustu og hugrekki.

Hins vegar er Þorsteinn ranglega sakaður um að hafa skipulagt og tímasett aðför að Albert. Hann var að vísu búinn að sá til fjölmiðlunar með því að kynna málið í hriplekum þingflokki sjálfstæðismanna. En hann gat ekki séð fyrir, hvernig atburðarásin yrði.

Þorsteinn neyddist einfaldlega til að halda blaðamannafundinn á fimmtudaginn. Það var ekki heldur honum að kenna, að fjölmiðlar litu réttilega á fundinn sem stórfrétt. Og tímasetningin hindrar Albertsmenn ekki í sérframboði í tæka tíð, ef þeir telja þess þörf.

Þorsteinn verður því ekki sakaður um aðför að Albert. Hann verður hins vegar sakaður um skort á dómgreind og hugrekki á landsfundi flokks síns, svo og um að hafa farið aftan að landsfundarmönnum og þjóðinni með því að geyma til seinni tíma að ræða málið.

Albert er ekki síður gagnrýniverður. Löng hefð er fyrir, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum, að ráðherrar segi af sér, ef þeir eru grunaðir um misferli, enda þótt saklausir séu. Tveir íslenzkir ráðherrar hafa gert það og annar tók sæti sitt á ný eftir sýknu Hæstaréttar.

Raunar átti Albert að segja af sér fyrr í vetur, þegar í ljós kom, að hann hafði tekið við gjöfum og endurgreiðslum frá Hafskipi. Þá var hann kominn í kreppu, svo að heppilegast var fyrir hann og lýðræðið, að hann sæti ekki að sinni við stjórnvöl í ráðuneyti.

Öðru máli gegnir um fyrsta sæti hans á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Því sæti náði hann eftir að upplýst var um gjafirnar og endurgreiðslurnar. Því ber að líta svo á, að þátttakendur í prófkjörinu hafi viljað Albert, þrátt fyrir skuggann, sem á hann bar.

Þótt Albert eigi að segja af sér sem ráðherra, á hann ekki að segja lausu sætinu á framboðslistanum. Og fulltrúaráðið á ekki að svipta hann því sæti. Hann fékk traust sjálfstæðismanna til þess sætis, þrátt fyrir vandamálin, sem hann var kominn í fyrir prófkjör.

Þannig má segja um þá félaga báða, að sumt hafa þeir gert rétt og annað rangt í efni þessu. Þorsteinn hlaut að fjalla opinberlega um málið. En hann átti að gera það strax á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.

Albert átti að segja af sér ráðherraembætti fyrr í vetur og á nú að gera það, sóma síns vegna. En hann á ekki að verða við kröfum um að segja af sér fyrsta sæti á lista flokks síns í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV

Of lítið of seint

Greinar

Sumir bændur, sem eru andvígir nýlegum áherzlubreytingum á landbúnaðarstefnu hins opinbera, hafa sakað ráðamenn stefnunnar um að gera sjónarmið DV að sínum. Segja þeir, að kvótakerfi búmarks og fullvinnsluréttar sé upprunnið hjá bændaóvininum sjálfum.

Þetta er hinn mesti misskilningur. Hið eina, sem gerzt hefur, er, að ráðamenn ríkjandi landbúnaðarstefnu hafa viðurkennt fimmtán ára gamalt sjónarmið úr þessu blaði og forverum þess, ­ að draga þurfi saman seglin í hefðbundnum landbúnaði sauðfjár og nautgripa.

Hins vegar eru sjónarmiðin, sem flutt voru í Vísi fyrir fimmtán árum, fyrir nokkru orðin úrelt, því að ástandið hefur stórversnað síðan þá. Ekki er lengur unnt að mæla með opinberum stuðningi við rólega aðlögun hins hefðbundna landbúnaðar að veruleikanum.

Fyrir fimmtán árum var unnt að verja, að framlög hins opinbera til hins hefðbundna landbúnaðar yrðu nokkurn veginn óbreytt um skeið, en þeim yrði breytt úr stuðningi við framleiðslu yfir í stuðning við atvinnuskipti í aðrar búgreinar eða störf í þéttbýli.

Þá var í Vísi lagt til, að niðurgreiðslufé, uppbótafé og annað styrkjafé væri notað til að byggja upp fiskeldi og loðdýrarækt í sveitum, iðngarða í bæjarfélögum og til að kaupa jarðir úr ábúð, svo að bændur gætu keypt sér húsnæði og endurmenntun í þéttbýli.

Ef hlustað hefði verið á þessi sjónarmið fyrir fimmtán árum, væri hinn hefðbundni landbúnaður núna ekki þjóðaróvinur númer eitt, tvö og þrjú. Þá væru aðeins um 1500 bændur í hefðbundnum landbúnaði og hann hefði lagað sig að raunhæfum markaði í landinu.

Raunhæft var og er að stefna að framleiðslu hefðbundinnar búvöru upp í hluta heildarmarkaðarins innanlands, eins og hann væri án niðurgreiðslna og með innflutningsfrelsi, ­ það er að segja með fullu tilliti til hagsmuna skattgreiðenda og neytenda.

Fyrir fimmtán árum var hægt að sætta sig við tímabundið framhald útgjalda til landbúnaðar, af því að aðgerðirnar, sem mælt var með, hefðu leitt að nokkrum árum liðnum til sparnaðar í útgjöldum skattgreiðenda og lækkunar á matarkostnaði heimilanna.

Vandinn hefur hins vegar aukizt á fimmtán árum. Bilið milli markaðshæfni og framleiðslu hefur breikkað svo, að sambandslaust er orðið á milli. Vandinn hefur aukizt svo, að almenningur yrði stórauðugur á einu bretti, ef hann fengi aðgang að erlendri búvöru.

Vandinn hefur belgzt svo út, að hinn hefðbundni landbúnaður er orðinn að þrautskipulögðu ríkiskerfi, þar sem hið opinbera ábyrgist ekki aðeins tekjur bænda, heldur kaupir einnig í raun ákveðið framleiðslumagn, sem er langt umfram þarfir heilbrigðs markaðar.

Vandinn er orðinn svo hrikalegur, að ekki er fyrirsjáanlegt, að byrði ríkisins af þessum niðursetningi sínum geti nokkuð lækkað. Hver króna, sem fer frá útflutningsuppbótum yfir í framleiðnisjóð, er notuð til að halda í horfinu, ­ halda óbreyttri framleiðslu.

Liðið er fimmtán ára tímabilið, þegar þjóðin hefði getað lagað niðursetninginn tiltölulega sársaukalítið að hinum kalda veruleika. Nú er það aðeins hægt með harkalegum aðgerðum, ­ með því að skera á hnútinn og friða heil héruð fyrir bændum og fylgidýrum þeirra.

Undanhald forustuliðs landbúnaðarstefnunnar er of lítið og kemur of seint. Ekki verður komizt hjá uppgjöri þjóðarinnar við óvin sinn númer eitt, tvö og þrjú.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðalþarfir og sérþarfir

Greinar

Auðvelt er að kaupa og selja bíla í Bandaríkjunum. Jón og Páll fylla út einn miðann, sem fylgir gögnum hvers bíls. Þeir fara síðan með miðann til næsta lyfsala, er staðfestir undirskriftir þeirra með stimpli sem notarius publicus. Þeir póstleggja síðan miðann til við komandi stofnunar. Ekki er skipt á númerum og enginn kostnaður greiddur, nema einn dollar til lyfsalans.

Í Bandaríkjunum er fólk með sérþarfir eins og annars staðar í heiminum. Munurinn er þó sá, að þar vestra er slíkum sérþörfum fullnægt, ­ fyrir peninga. Fólk getur til dæmis haldið bílnúmerum sínum, en verður þá að sæta dýrari bílaskiptum, svo sem tíðkast hér á landi.

Þar getur fólk fengið fullnægt margvíslegum öðrum sérþörfum um bílnúmer en lágum tölum einum saman. Það getur fengið bókstafanúmer, til dæmis með nafninu sínu. Fólk segir bara, hvað það vill, og borgar fyrir það. Málið er úr sögunni og allir eru ánægðir.

Hér á landi er Alþingi Íslendinga hins vegar sett á annan endann dögum saman í einu versta tímahraki í sögu þess, af því að þingmenn deila um, hvort bílnúmer skuli fylgja bílum eða bíleigendum. Enginn má vera að því að láta sér detta í hug að leysa málið skynsamlega.

Bílnúmeramálið velkist milli þingdeilda, ýmist af því að eigendur lágra bílnúmera eru fjölmennari í neðri deild en í hinni efri, eða af því að einn stuðningsmaður þess, að bílnúmer fylgi bílum, er í stólnum hjá tannlækni, þegar boðað er til atkvæðagreiðslu um málið.

Ef vinnubrögð Alþingis væru ekki með þeim endemum, sem greinilega hafa komið í ljós í æðibunugangi þessarar viku, væri hægt að leysa mál á borð við bílnúmerin með tiltölulega almennu samkomulagi, sem tæki tillit til beggja sjónarmiða, ­ amerískri lausn málsins.

Við erum ekki óvön slíkum lausnum. Skemmst er að minnast, að hatrammar deilur um hundahald í bæjum á Reykjavíkursvæðinu voru víðast hvar leystar með grundvallarreglu um bann við hundahaldi og með því að menn gátu með gjaldi keypt sig undan reglunni.

Við getum ennfremur beitt hliðstæðri skynsemi í öðrum ágreiningsefnum, bara ef menn gefa sér tíma til að setjast niður og hugsa. Þannig hefði mátt leysa bílnúmeramálið án sárinda og eftirmála. Og þannig hefði líka verið hægt að leysa bílbeltamálið vandræðalaust.

Þegar Alþingi ákvað í vikunni, að heimilt yrði að sekta fólk fyrir að nota ekki bílbelti, hefði það getað sett inn ákvæði um sérþarfir. Unnt hefði verið að heimila þeim, sem ekki lærðu upphaflega að nota þau og hafa ekki vanizt þeim, að kaupa sig undan reglunni.

Þannig væri smám saman hægt að koma á almennri notkun bílbelta eftir því sem nýir ökumenn koma til sögunnar og gamlir detta úr skaftinu. En ekki væri troðið á þeim, sem aldrei lærðu að nota beltin og eru fúsir til að borga fyrir sérstaka undanþágu, ­ sérþarfirnar.

Hér á ritstjórninni var zetustríðið leyst fyrir löngu með því að hætta almennt við zetu, en heimila þeim, sem höfðu lært zetu og höfðu á henni sérstakt dálæti, að halda áfram að skrifa zetu. Allir urðu sáttir um þessa lausn. Hefur síðan ekki verið deilt um zetu á blaðinu.

Alþingi á að hætta að afgreiða umdeild mál í belg og biðu á síðustu vinnudögum þings. Það á að fresta þeim til næsta þings og fá greinda menn, Ljósvetningagoða nútímans, til að leggjast undir feld til að finna lausnir eins og þær, sem hér hafa verið nefndar, ­ sem hafa aðalþarfir í fyrirrúmi, en taka tillit til sérþarfa.

Jónas Kristjánsson

DV

Örir á annarra fé

Greinar

Nýjustu verðbólgutölur benda til, að rætast muni spá Þráins Eggertssonar prófessors um 40% verðbólgu í lok þessa árs. Hún var komin niður í 12% undir lok síðasta árs, en er nú komin á skrið á nýjan leik og mældist 23% 1. marz á mælikvarða vísitölu framfærslukostnaðar.

Veigamesta skýringin á þessari skyndilegu öfugþróun er, að ríkisstjórnin hefur misst tök á fjármálum ríkisins. Þorvaldur Gylfason prófessor hefur bent á, að þensluhalli ríkisfjárlaga þessa árs sé röskir fimm milljarðar eða næstum 4% af landsframleiðslunni.

Seðlabankastjórar vöruðu líka við þessu í lok síðasta árs. Þeir sögðu: “Halli ríkissjóðs í ár og á hinu næsta á sér stað þrátt fyrir mikið góðæri og hlýtur því að teljast til marks um grundvallarveilu í ríkisfjármálum”.

Þjóðhagsstofnun, sem jafnan þykir höll undir ríkisstjórnir, hefur einnig þorað að æmta. “Betra jafnvægi í opinberum fjármálum og peningamálum er forsenda …” þess, að hægt sé að nota hin hagstæðu ytri skilyrði þjóðarbúsins til að varðveita árangurinn.

Góðærið hefur fært okkur verðhrun á innfluttri olíu, góðan afla og verðhækkanir á útfluttum sjávarafurðum. Til skamms tíma færði það okkur einnig sæmilegt samkomulag á vinnumarkaði um skiptingu gróðans á þann hátt, að lífskjör almennings bötnuðu verulega.

Þótt góðæri sé gott, getur það haft óþægileg og jafnvel hættuleg hliðaráhrif, ef ríkisstjórnin gætir sín ekki. Góðæri veldur nefnilega þenslu í þjóðfélaginu, sem veldur skorti á vinnuafli, er síðan veldur launaskriði og loks auknum innflutningi á vöru og þjónustu.

Ríkisstjórnin má alls ekki magna þessa þenslu með fimm milljarða þensluhalla á fjárlögum. Ríkið verður að fresta framkvæmdum, þótt þær séu taldar mikilvægar og jafnvel nauðsynlegar. Það verður að neita sér um að fjármagna ýmis gæluverkefni og niðursetninga.

Ríkisstjórnin getur neitað sér um að leggja fé til að halda steinullarverksmiðju á floti eitt ár í viðbót. Hún getur frestað að bora göt í fjöll til að leggja þar vegi. Hún getur unnið skipulega að afnámi fjárhagslegra afskipta hins opinbera af landbúnaði. Þetta eru örfá dæmi.

Á núverandi ríkisstjórn sést eins og öðrum slíkum, að jafnan er torvelt að fara sparlega með annarra fé, í þessu tilviki skattgreiðenda. Sérstaklega vill það reynast erfitt á kosningaárum, þegar freistingar sækja að veiklunduðum og skelkuðum stjórnmálamönnum.

Ofan á venjulegar freistingar kosningabaráttunnar leggst að þessu sinni órói á vinnumarkaði opinberra starfsmanna. Hætt er við, að ríkisstjórnin sem vinnu veitandi leiðist til meiri eftirgjafa en ella til að kaupa sér frið og vinsældir hjá starfsfólki, í stað óvinsælda.

Ríkisstjórnin hefur lyft verðbólgunni úr 12% í 23% með því að efna til fimm milljarða þensluhalla á fjárlögum ríkisins á þessu kosningaári. Ef ekki er að gert í tíma, fer sveiflan í 40% verðbólgu í árslok. Frekari atkvæðakaup munu enn magna skrið verðbólgunnar.

Sorglegt er, að ríkisstjórn, sem fór vel af stað og náði verðbólgunni niður í nágrenni við þær tölur, er tíðkast í nágrannalöndunum, skuli missa stjórnina úr höndum sér á síðustu mánuðum fyrir kosningar, af því að hún hefur ekki kjark til að segja fólki sannleikann.

Flest bendir til, að ríkisstjórnin muni ekki bera gæfu til að fá um sig betri eftirmæli en þau, að fjármálastjórn hennar sjálfrar hafi komið í veg fyrir, að þjóðinni tækist að hagnýta sér góðærið sem skyldi.

Jónas Kristjánsson

DV

Fát og fum á Alþingi

Greinar

Alþingi er sér enn einu sinni til skammar með óðagoti á síðustu dögum þinghaldsins. Flaustrið er raunar óvenju mikið í þetta skipti, af því að reynt er að flýta þinglokum vegna kosninganna, sem verða 25. apríl. Margt málið fær miklu minni skoðun en eðlilegt er.

Sem dæmi um vinnubrögðin má nefna, að nýju umferðarlögin voru afgreidd án breytingar á númerakerfi bíla, af því að ekki náðist að boða einn þingmann á aukalegan atkvæðagreiðslufund, sem haldinn var á óvenjulegum tíma. Þetta eina atkvæði réð úrslitum.

Fólk getur verið ósammála um, hvort réttara sé að taka upp nýtt bílnúmerakerfi, sem er einfaldara og ódýrara í meðförum en núgildandi kerfi eða að taka tillit til hagsmuna þeirra, sem hafa komið sér upp númerum, er þeir hafa dálæti á og vilja helzt ekki missa.

Hitt ætti fólk að geta verið sammála um, að niðurstaða eigi ekki að ráðast af því, hvort einn þingmaður finnst ekki, þegar í skyndingu og pati er verið að boða til aukalegs fundar, utan venjulegs fundartíma, til þess að greiða atkvæði um ekki ómerkara atriði en landslög.

Annað dæmi um skeytingarleysið voru umræður síðasta mánaðar um, hvenær skyldi kjósa. Framsóknarþingmenn höfðu bent á 9. maí, sem heppilegan dag. Þingflokksformanni sjálfstæðismanna og ýmsum öðrum þingmönnum lá mjög á og þótti þetta alltof seint.

Þeir sögðu opinberlega, að réttast væri að hafa Alþingiskosningar mánuði fyrr, 4. eða 11. apríl. Samkomulag varð um að fara bil beggja og velja ómögulegan dag, 25. apríl, beint ofan í sumardaginn fyrsta, páska og dymbilviku. Þingmenn virtust ekki eiga dagatal.

Síðan kom í ljós, að niðurstaðan var beinlínis tæknilega röng, því að stytta þurfti flesta lögbundna fresti vegna of skamms tíma til stefnu. Gott var þó, að tillagan um 4. eða 11. apríl náði ekki fram að ganga, því að þá hefði Alþingi orðið að algeru viðundri.

Mikið af óðagoti síðustu daga hefur farið í að knýja fram lög, sem ýmist eru umdeild eða of seint fram komin. Þar á meðal eru stórir lagabálkar, sem þingmenn ættu að fá að sofa á í heilt sumar, áður en ákvörðun er tekin í betra tómi og við nánari skoðun næsta vetur.

Áðurnefnd umferðarlög eru dæmi um mál, sem er allt í senn, viðamikið, umdeilt og seint fram komið. Samt hefur miklum tíma verið varið í að keyra það í gegn. Alþingi hefði síður glatað virðingu, ef umferðarlögunum hefði verið ýtt til næsta þings á komandi vetri.

Einnig er vafasamt að brýnt hafi verið að samþykkja í fáti umboðsmann Alþingis, lögbundinn sjómannadag og afnám prestskosninga, svo að örfá dæmi séu tekin. Tímanum hefði verið betur varið til að kryfja til beins hið brýna lagafrumvarp um staðgreiðslu skatta.

Breytingin í staðgreiðslukerfi skatta er svo afdrifarík, að hún ætti að fá rækilega skoðun á Alþingi. Þar sem ekki vinnst tími til þess, er í staðinn skipuð milliþinganefnd, sem á í sumar að leiðrétta lögin og leggja breytingartillögur fyrir næsta þing í haust.

Þetta eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð. Enda hafa þingmenn ekki hugmynd um, hvort þeir eru að setja lög, sem minnka skattbyrði fólks eða auka hana. Báðum kenningum hefur verið haldið fram um staðgreiðsluna, svo að ljóst er, að hún þarf rækilegri skoðun.

Ekki er unnt að ætlast til, að þjóðin beri virðingu fyrir Alþingi, sem gerir sig bert að fáti og fumi í vinnubrögðum á borð við þau, sem hér hefur verið lýst.

Jónas Kristjánsson

DV

Hengið heldur smiðinn

Greinar

Hin harða gagnrýni, sem lyfsalar, bæði í heildsölu og smásölu, hafa sætt að undanförnu, hefur beinzt að röngum aðila, því að sökin virðist í flestum tilvikum eiga heima í heilbrigðisráðuneytinu og undirstofnunum þess, sem eiga að hafa stjórn á lyfsölu í landinu.

Hið sama má segja um þann hluta gagnrýninnar, sem snúið hefur að læknum. Efnisatriðin benda til, að þar liggi sökin fremur hjá landlæknisembættinu, sem á að hafa og getur haft eftirlit með störfum lækna, þar með töldum ávísunum þeirra á lyf af ýmsu tagi.

Ekki hefur enn verið hrakin fullyrðing um, að átta læknar í Reykjavík gefi út helming allra lyfjaávísana í borginni, að einn læknir af tuttugu gefi út helming allra lyfjaávísana á Reykjanesi og að einn læknir gefi út helming allra lyfjaávísana í Árnessýslu.

Landlæknir hefur slíkar upplýsingar í höndunum og getur gripið til aðgerða. Það var einmitt gert fyrir áratug, árin 1976-1980. Á þeim tíma tókst að minnka um helming útgáfu ávísana á róandi lyf og svefnlyf, þar með talin lyf af valíumætt. Þetta var mikil hreinsun.

Síðan hefur því miður verið slakað á klónni. Ávísunum á þessi lyf hefur aftur fjölgað um fjórðung. Virðist því hæfilegt, að á ný verði gerð atlaga að þessari útgáfu, auk þess sem kannaðar verði ásakanir um, að útgáfukóngar sitji í leiguhúsnæði hjá lyfsölum.

Þótt lyf séu bráðnauðsynleg í mörgum tilvikum, kunna þau að vera óþörf og jafnvel skaðleg í öðrum tilvikum. Það gildir raunar um fleiri lyf en þau, sem notuð eru til að komast í vímu. Til dæmis virðist óhæfilegt frjálslyndi ríkja í útgáfu fúkalyfja handa börnum.

Viðurkennt hefur verið, að lyfjaframleiðendur eða dreifingaraðilar lyfja kosti ýmsan funda- og ferðakostnað lækna eða taki þátt í honum. Landlæknir þarf að snúast gegn þessum vanda og fá aðstöðu til að flytja meira af lyfjafræðslu úr höndum hagsmunaaðilanna.

Lyfjakostnaður er allt of hár hér á landi og fer óhugnanlega vaxandi. Á einum áratug hefur lyfjakostnaður utan sjúkrahúsa rúmlega tvöfaldazt í raunverði á hvern íbúa. Þetta er orðið að meiriháttar rekstrarlið í þjóðfélaginu, 2.500 krónur árlega á hvern íbúa landsins.

Það eru ekki lyfsalar, sem stjórna þessu, heldur ráðuneytið og stofnanir þess, er miðstýra öllum lyfjamálum landsins. Ráðuneytið getur hæglega lækkað smásöluálagningu um helming, úr 68% í 33%, svo að hún komist í það, sem hæfilegt er talið í Noregi og Svíþjóð.

Forsendur hárrar álagningar eru fallnar úr gildi. Lyfsalar blanda ekki lengur lyfin sjálfir, þurfa ekki að halda uppi miklum lyfjabirgðum og geta þar að auki skilað lyfjum, sem ekki seljast. Ráðuneytið á því að láta setja reglur um 33% álagningu í smásölu.

Ráðuneytið hefur ennfremur í hendi sér að fá breytt reglum um álagningu, til dæmis á þann hátt, að hún sé föst krónutala, en leggist ekki með auknum þunga á dýru lyfin. Einnig getur það hagað endurgreiðslum sínum þannig, að hvatt sé til notkunar ódýrra lyfja.

Loks hefur verið bent á, að ráðuneytið getur reynt að hagnýta sér kostina, sem markaðurinn hefur sýnt á ýmsum öðrum sviðum í ríkiskerfinu, svo sem í vegagerð. Ríkið greiðir meginhluta lyfjakostnaðar og getur hæglega efnt til útboða til að ná niður verðinu.

Ráðuneytið getur þetta allt, ýmist sjálft eða með breyttri skipan lyfjaverðlagsnefndar og annarra undirdeilda sinna. Ráðuneytið er smiðurinn, sem á að hengja.

Jónas Kristjánsson

DV

Þversum með sæmd

Greinar

Ánægjulegt er, að Íslandi hefur tekizt að losna undan norrænum grillum einhliða yfirlýsinga um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum. Þær grillur hafa stuðlað að trú Sovétstjórnarinnar á, að hún fái vestrænar eftirgjafir ókeypis, án þess að gefa eftir á móti.

Matthías Á. Mathiesen utanríkisráðherra hefur verið í eldlínunni í þessu máli, bæði gagnvart öðrum utanríkisráðherrum á Norðurlöndum og gagnvart nytsömum sakleysingjum og friðardúfum á Alþingi heima fyrir. Festa hans í þessu máli hefur verið Íslandi mikils virði.

Einnig skiptir miklu, að stjórnarandstöðuflokkurinn, sem virðist hafa mest fylgi um þessar mundir, Alþýðuflokkurinn, hefur gengið í berhögg við stefnu hliðstæðra flokka á Norðurlöndum. Hann hefur eindregið skipað sér í fylkingu vestræns varnarsamstarfs.

Kaldhæðnislegt er, að norrænir ráðherrar og þingmenn skuli liggja í dómgreindarrugli á hliðarspori, meðan fulltrúar heimsveldanna sjálfra eru að ræða skynsamlegar hugmyndir um virkt eftirlit með áþreifanlegum samdrætti vígbúnaðar á ýmsum sviðum.

Afstaða ríkisstjórnarinnar og bakstuðningur Alþýðuflokksins hefur leitt til, að ekki hefur náðst norrænt samkomulag um skipun embættismannanefndar til að kanna möguleika á kjarnavopnalausu svæði á Norðurlöndum. Við stöndum þar þversum með sæmd.

Hinn nýi utanríkisráðherra Noregs er sagður vinna að frestun fundar norræns utanríkisráðherrafundar, sem vera á í Reykjavík 25. marz. Hann vill nota tímann, sem vinnst, til að leita orðalags, er Íslendingar sætti sig við. Frestun getur leitt til skárra orðalags.

Hugsanlegt er, að á endanum verði embættismönnunum falið að undirbúa víðari skilgreiningu, þannig að talað verði um nyrsta hluta allrar Evrópu, allt frá Íslandi til Úralfjalla. Þar með yrðu víghreiðrin á Kolaskaga og við Eystrasalt réttilega inni í myndinni.

Vígbúnaður á Norðurlöndum er lítilfjörlegur og felur hvorki í sér ógnun við heimsfrið, né við frið á norðurslóðum. Vígbúnaður Sovétstjórnarinnar á þessum slóðum, þar með talin kjarnorkuvopn, er hins vegar alvarleg ógnun við heimsfrið og við frið á norðurslóðum.

Verið getur, að Sovétstjórnin vilji ekki ræða slík mál við fulltrúa smáríkja á Norðurlöndum. En sú afstaða er ekki gagnslaus, því að hún mundi leiða til raunsærri viðhorfa á Norðurlöndum í stað óskhyggjunnar, sem tröllríður friðardúfum og sakleysingjum svæðisins.

Hitt er ekki óhugsandi, að Sovétstjórnin telji sér nauðsynlegt, til dæmis af efnahagsástæðum, að sætta sig við núverandi valdajafnvægi, í stað fyrri stefnu heimsyfirráða. Þá gæti einörð og sáttfús afstaða Norðurlanda stuðlað að eftirgjöfum Sovétstjórnarinnar.

Mestu máli skiptir, að nytsamir sakleysingjar á Norðurlöndum verði kveðnir í kútinn og að ekki verði gefnar út einhliða yfirlýsingar, sem Sovétstjórnin mun fyrirlíta. Ísland á norrænu hlutverki að gegna á þessu sviði, þar sem sjónarmiðin eru raunsærri hér á landi.

Einmitt vegna þess á Sjálfstæðisflokkurinn að láta af andstöðu við þátttöku í ráðstefnum þeim, sem danski stjórnmálamaðurinn Anker Jörgensen hefur staðið fyrir. Þar eiga menn einmitt að mæta fjölmennir til að gera markvisst grín að einfeldni frænda vorra.

Skandinavar, þar á meðal ráðherrar og þingmenn, eiga að læra af Íslendingum og leggja niður þann ósið að láta yfirgang Sovétstjórnarinnar taka sig á taugum.

Jónas Kristjánsson

DV

Reykjavíkurþráðurinn

Greinar

Forustumenn heimsveldanna tveggja hafa nú, að frumkvæði Gorbatsjovs, tekið að nýju upp þráðinn, sem þeir spunnu í Reykjavík í október á síðasta ári. Fulltrúar beggja aðila eru að ganga til samningaviðræðna um útrýmingu meðaldrægra kjarnorkueldflauga í Evrópu.

Þetta er raunar atriði, sem Gorbatsjov og Reagan voru orðnir ásáttir um í Reykjavík, þegar toppfundur þeirra sprakk á orðalagi í allt öðru máli, geimvarnaáætlun Bandaríkjaforseta. Gorbatsjov heimtaði þá, að slík vopn yrðu ekki reynd utan rannsóknarstofa.

Nú hefur hann fallizt á, að tengja ekki þessi tvö mál saman, svo að semja megi um meðaldrægu kjarnaflaugarnar án tillits til, hvernig heimsveldunum gengur að semja á öðrum sviðum samdráttar í vígbúnaði. Það er tímamótaskref í átt til árangurs á öllum sviðunum.

Fulltrúar Sovétríkjanna hafa raunar gengið lengra, síðan Gorbatsjov sló fram þessu trompi. Þeir segja, að Sovétríkin muni geta fallizt á gagnkvæmt eftirlit með efndum á samkomulagi um meðaldrægu flaugarnar og á samkomulag um fækkun skammdrægra kjarnaflauga.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa tekið þessu skynsamlega. Þau hafa látið í ljósi ánægju með hugmyndir Gorbatsjovs og ákveðið, að láta fulltrúa sína hefja viðræður við fulltrúa Sovétríkjanna. Um leið hafa þau bent á, að málið væri þar með ekki alveg leyst.

Þegar sovézk stjórnvöld spila einhverju út á alþjóðlegum vettvangi, er nærtækast að reikna með, að það sé liður í áróðursstríði, fremur en dæmi um raunverulegan sáttavilja. Hingað til hafa þau litið á gagnkvæmt eftirlit sem eins konar ávísun á vestrænar njósnir.

Markmið Sovétstjórnarinnar koma fyrst í ljós, þegar farið verður að ræða um gagnkvæma eftirlitið. Ef áhugi þeirra verður minni á borði en hann hann er nú í orði, er unnt að flokka frumkvæði Gorbatsjovs fremur sem áróðursbragð en skref til minnkaðrar ófriðarhættu.

Markmiðin koma einnig í ljós, þegar rætt verður nánar um þá fækkun skammdrægra kjarnaflauga, sem þarf að fylgja fækkun meðaldrægu kjarnaflauganna til þess að ná fram betra jafnvægi í viðbúnaði austurs og vesturs í Evrópu. Annars mundi halla á vestrið.

Óhætt er að slá föstu, að samkomulag um meðaldrægar kjarnaflaugar er ekki pappírsins virði, nema það feli í sér nákvæm ákvæði um virkt eftirlit. Slíkt hið sama gildir raunar um samkomulag á öðrum sviðum, svo sem um skammdrægar og langdrægar kjarnaflaugar.

Ennfremur gildir það um hvert það samkomulag, sem heimsveldin kunna að gera með sér um takmörkun kjarnorkutilrauna, samdrátt í efnavopnum og hefðbundnum vopnum og tilkynningaskyldu í heræfingum og herflutningum. Eftirlitið er ætíð hornsteinninn.

Samkomulag um meðaldrægar kjarnaflaugar verður einnig að taka tillit til yfirburða Sovétríkjanna í skammdrægum kjarnaflaugum og hefðbundnum vopnum í Evrópu. Það má alls ekki verða til að freista Sovétstjórnarinnar til ævintýra á þeim sviðum.

Afnám meðaldrægra og fækkun skammdrægra kjarnaflauga í Evrópu hefur það sérstaka gildi, að það eykur á ný umþóttunartímann, sem báðir aðilar hafa, ef slys eða misskilningur fer að valda kláða í gikkfingri. Þessi vopn höfðu gert viðvörunartímann of stuttan.

Þráðurinn frá toppfundinum í Reykjavík hefur verið tekinn upp. Vonandi tekst ráðamönnum heimsveldanna að spinna úr honum traustari frið en við búum nú við.

Jónas Kristjánsson

DV

Aðalráður ráðlausi

Greinar

Donald Regan væri sennilega enn starfsmannastjóri Hvíta hússins, ef hann hefði nennt að sinna betur símtölum frá forsetafrúnni, Nancy Reagan. Þeim hefur sinnazt í símanum og því hefur hún mánuðum saman unnið að því að koma honum frá. Það hefur nú tekizt.

Forsetafrúin hefur smám saman verið að færa sig upp á skaftið í stjórnmálunum og reynt að fylla í ráðleysisskarð forsetans. Hún hefur haft áhrif á mannaráðningar og lagt mikla áherzlu á sendiherrastöður. Hún er sögð vera dýrasti kaupleysingi fjárlaga ríkisins.

Til marks um ráðleysi Ronalds Reagan forseta má hafa, að þessa andstöðu frúarinnar þurfti til að hann fengist eftir dúk og disk til að losa sig við óhæfan starfsmannastjóra. Hann hefur ætíð átt erfitt með að manna sig upp í að reka róttæklingana í kringum sig.

Donald Regan stjórnaði Hvíta húsinu með valdshyggjusniði, enda gortaði hann af því fyrir Irangate, að hann réði þar öllu, þótt hann síðan hafi þótzt engu ráða. Engar efasemdir voru leyfðar í þessu keisararíki, enda hrundi það eins og spilaborg í Irangate.

Forsetanum voru ekki afhentir mismunandi kostir til að velja úr eins og venja hafði verið fyrir valdatíð Reagans. Ekki voru talin upp rök með og móti, heldur hnigu öll rök, sem hann fékk, að einni ákvörðun. Allt var dregið upp í svart-hvítum myndum róttæklinganna.

Í gráum litbrigðum hins raunverulega heims þarf forseti Bandaríkjanna fleiri en einn kost til að velja milli. Enn nauðsynlegra er slíkt, þegar við völd er forseti, sem ekki nennir sjálfur að kryfja mál til beins, heldur treystir í blindni á óhæfa ráðgjafa sína.

Reagan Bandaríkjaforseti hefur einfaldar hugsanir, sem fela í sér róttækar hugsjónir. Hann er um leið latur og gleyminn. Hann hefur reynzt vera áhugalaus um framkvæmd mála og hefur ekki veitt starfsmönnum sínum nægilegt aðhald. Hann er fjarri raunveruleikanum.

Til viðbótar við þetta er hann óhæfilega góðviljaður. Það kemur ekki bara fram í tregðu við að reka óhæfa róttæklinga úr starfi. Það kom enn skýrar fram í hinni langvinnu áráttu að kaupa frelsi handa bandarískum gíslum, sem nú hefur orðið stjórnarstíl hans að falli.

Það voru ekki rugludallar í öryggismálanefnd Hvíta hússins, sem einir framleiddu Irangate. Þeir voru hvattir til þess af forsetanum, sem fann til með gíslunum og var sífellt að tala um að kaupa þá lausa. Þeir töldu sig réttilega vera að framkvæma vilja forsetans.

Í gíslamálinu lenti Reagan í svipaðri stöðu og Aðalráður ráðlausi fyrir tíu öldum. Hann keypti víkingana af sér, með þeim afleiðingum, að þeir komu aftur að ári, hálfu frekari en fyrr. Hann varð því að kaupa þá af sér aftur og aftur með svonefndum Danagjöldum.

Árangur góðvilja Reagans hefur orðið, að nýir gíslar hafa verið teknir fyrir hina gömlu og verðlag þeirra hefur hækkað. Samúðin hefur því þveröfug áhrif og stofnar Bandaríkjamönnum í útlöndum í enn meiri hættu en þeir voru í, áður en Íransgjöld hófust.

Tower-skýrslan staðfestir það, sem sagt hefur verið hér í blaðinu allt frá upphafi valdaferils Reagans, að hann er illa hæfur til að gegna forsetaembættinu. Hann hefur byrði af hugsjónum og kaus sér til aðstoðar óhæfa róttæklinga, sem gerðu illt úr ráðleysi hans.

Við sjáum á skjánum forsetann baða út höndum og höfum það óþægilega á tilfinningunni, að hann skilji ekki sjálfur, hvort hann er að veifa eða drukkna.

Jónas Kristjánsson

DV

Tökum erlenda þræla

Greinar

Of lengi hafa Íslendingar haft hinn hefðbundna landbúnað að þræl, sem stritar fyrir litla umbun. Svo lengi hefur þrællinn vanizt hlutskipti sínu, að hann er farinn að líta á sig sem ríkiseign ­ lögskipaðan niðursetning þjóðfélagsins. Hann er sívælandi og síheimtandi.

Nágrannar okkar í Vestur-Evrópu hafa í nokkra áratugi flutt inn erlenda þræla til að strita fyrir litla umbun. Um leið hafa þeir flutt inn vandamál farandverkamanna, sem reynzt hefur erfitt að ráða við. Til er betri leið ­ að láta þrælana sitja heima hjá sér.

Við hagnýtum okkur þetta raunar á flestum sviðum landbúnaðar. Við neitum okkur ekki um að njóta innflutnings ódýrrar búvöru, sem við kaupum á heimsmarkaðsverði. Það er verð hagkvæmasta framleiðandans, stutt niðurgreiðslum hinna, sem óhagkvæmari eru.

Við neitum okkur samt um þessi þægindi á sviðum, þar sem hinum innlenda þræl tekst með herkjum að framleiða vöru. Við látum hann til dæmis stritast við að búa til smjör, þótt það sé tíu til tuttugu sinnum dýrara en það, sem við getum keypt frá útlöndum.

Í sumum löndum sérstakra skilyrða eru ákveðnar afurðir framleiddar á afar ódýran og hagkvæman hátt. Þar er þessi vara hliðstæð undirstaða og sjávarvaran er hér á landi. Verðlag hennar ræður síðan heimsmarkaðsverði og neyðir aðra til að selja á svipuðu verði.

Þannig hafa Nýja-Sjáland, Ástralía og Argentína náð sérstöðu á vissum sviðum, einkum í kjötframleiðslu. Þannig ráða Bandaríkin ferðinni og verðinu á ótal sviðum landbúnaðar, af því að framleiðni þeirra er tvöfalt meiri en til dæmis framleiðni Evrópubandalagsins.

Við getum fengið allar tegundir kjöts frá útlöndum á mun lægra verði en kostar að framleiða þær hér. Við getum fengið flestar mjólkurvörur frá útlöndum á mun lægra verði en kostar að framleiða þær hér. Þess vegna eigum við leggja niður innlenda þrælahaldið.

Ef við gæfum okkur innflutningsfrelsi á þessum sviðum, mundu allar hinar mikilvægu neyzluvörur lækka í verði yfir búðarborðið. Það yrði gífurleg kjarabót, einkum fyrir barnmargar fjölskyldur. Engir kjarasamningar sögunnar kæmust í hálfkvisti við þetta happ.

Lækkun verðsins mundi stuðla að verðhjöðnun, til mótvægis öðrum áhrifaþáttum, sem stuðla að verðbólgu. Þannig yrði fimm ára áætlun um innflutningsfrelsi að mikilvægu stjórntæki, sem afnæmi verðbólgu og gerði stöðugt verðlag í landinu að hefð og vana.

Innflutningsfrelsið mundi ennfremur smám saman leiða til, að ríkið sparaði sér og skattgreiðendum hinn gífurlega kostnað, sem nú fylgir því að halda uppi þrælahaldi innanlands í hefðbundnum landbúnaði. Sá kostnaður fer hríðvaxandi með hverju árinu, sem líður.

Margoft hefur verið rakið í smáatriðum, hvers vegna okkur er þetta óhætt ­ að við mundum samt búa við eðlilegt matvælaöryggi og fulla atvinnu í landinu. Þrælahald niðursetningsins eykur ekki matvælaöryggið og dregur að auki úr sókn Íslendinga í arðbær störf.

Við skulum því létta stritinu af þrælnum og flytja það til útlendinga, Bandaríkjamanna og annarra, sem geta búið til ódýran mat. Við skulum veita þrælnum frelsi og kenna honum að vinna arðbær störf, sem skapa gjaldeyri eða spara gjaldeyri. Af nógu er að taka.

Innflutningsfrelsi búvöru og afnám fjárhagslegra afskipta ríkisins af innlendu þrælahaldi í landbúnaði eru hornsteinn bættra lífskjara neytenda og skattgreiðenda.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi vandi

Greinar

Rangt er, að hert stjórn á hinum hefðbundna landbúnaði Íslendinga sé byrjuð að draga úr stórvandræðunum, sem hann veldur þjóðinni. Þvert á móti hefur hin aukna stjórn fullgert sjálfvirkan vítahring, sem leggur frá ári til árs þyngri byrðar á herðar almennings.

Vítahringurinn felst í, að annars vegar ábyrgist ríkið tekjur bænda og hins vegar sölu á umsömdu magni afurða þeirra. Ef eitthvað fer úr böndum, sem alltaf gerist, verður ríkið að koma til skjalanna í umboði skattgreiðenda, neytenda og launþega, allra þolenda kerfisins.

Þessa dagana erum við að sjá, að auknar verða niðurgreiðslur á afurðum hins hefðbundna landbúnaðar, svo að hækkun á launum bænda leiði ekki til minni sölu afurðanna. Ef ríkið leyfði sölunni að minnka, yrði það að grípa til enn dýrari ráða í útflutningsuppbótum.

Ekki er í fjárlögum ríkisins gert ráð fyrir þessum auknu niðurgreiðslum. Raunar var fyrir á fjárlögunum halli, sem fjármagna átti með lántökum innanlands. Þær lántökur eru byrjaðar að þrýsta vöxtum upp á við og þrýsta öðrum lántakendum á erlendan lánamarkað.

Hinar auknu niðurgreiðslur munu bætast ofan á þennan vanda. Þær munu auka lánsfjárþörf ríkisins og þar með hækka vexti og óbeint auka lántökur í útlöndum. Þær munu auka hallann á þjóðarbúskapnum, leiða til seðlaprentunar og auka hraða verðbólgunnar.

Rauðu strikin verða rofin von bráðar. Þau voru þegar komin í hættu, af því að verðbólgan var farin að aukast aftur. Í kjölfarið verður að hækka launin í landinu. Þær tölur mun svokölluð sex manna nefnd nota til að reikna út enn eina hækkun á launum bænda.

Í millitíðinni mun hinn sameiginlegi sjóður landsmanna punga út ýmsum fjárupphæðum utan fjárlaga, til dæmis til að borga fyrir ullargjafir til útlanda, af því að ullin er ekki lengur söluhæf vara. Er þá raunar horfin síðasta vörn sauðfjárræktar í landinu.

Á sama tíma er forsætisráðherra í Moskvu að reka áróður fyrir, að Sovétmenn taki við meiri gjöfum ullarvöru og nýjum gjöfum kindakjöts, svo að íslenzkir skattgreiðendur megi njóta þess að fá að borga skæði og fæði þeirra eins og Egypta. Þetta krefst aukins fjár.

Frá ómunatíð hefur hinn hefðbundni landbúnaður átt aðgang að björgunaraðgerðum utan fjárlaga. Breytingin er hins vegar sú, að björgunaraðgerðunum fer ört fjölgandi og upphæðirnar verða stórfenglegri. Vítahringurinn er smám saman að komast á aukna ferð.

Fjárlög eru marklaus. Kjarasamningar eru marklausir. Baráttan við rauðu strikin og verðbólguna er marklaus. Baráttan gegn hallabúskap er marklaus. Baráttan gegn skuldasöfnun í útlöndum er marklaus. Vítahringur hins hefðbundna landbúnaðar sér um það.

Þrýstistjórar greinarinnar eru ekki á undanhaldi. Þeir eru þvert á móti í sókn. Búnaðarmálastjóri hvatti nýlega til, að hinn hefðbundni landbúnaður yrði verndaður gegn samkeppni “bæði með tollum og ýmiss konar innflutningshömlum og stórfelldum stuðningi”.

Þessa dagana er Búnaðarþing að krefjast aukins aðlögunartíma, þótt aldarfjórðungur sé liðinn, síðan markvisst var farið að benda á eitrun hins hefðbundna landbúnaðar. Formaður Stéttarsambands bænda er sigurviss og segir: “Bændur munu fá kjör sín lagfærð”.

Betra er, að ríkið hætti kvótum, niðurgreiðslum, útflutningsuppbótum, innflutningsbanni og öðrum afskiptum af þessari sífellt dýrari peningabrennslu.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjálfur þjóðaróvinurinn

Greinar

Uppákoma helgarinnar við verðlagningu búvöru sýnir enn einu sinni, að útilokað er að reka skynsamlega efnahagsstefnu fyrir þetta land, meðan hinn hefðbundni landbúnaður kúa og kinda ríður húsum og krefst sífellt meira framlags og stuðnings almennings.

Ríkisvaldið getur í rauninni ekki átt aðild að skynsamlegum kjarasamningum milli launafólks og atvinnurekenda, af því að í kjölfar þeirra fylgja frá hinum hefðbundna landbúnaði bakreikningar, sem kollvarpa niðurstöðum þessara sömu kjarasamninga.

Svokölluð sexmannanefnd hefur reiknað út, að lögum samkvæmt beri bændum í dag 20% kauphækkun til að halda í við þær stéttir á mölinni, sem kjör bænda eru miðuð við. Þetta hefði leitt til um það bil 10% meðalhækkunar í dag á verði dilkakjöts og mjólkurafurða.

Forsætisráðherra og fjármálaráðherra sögðu, sem satt var, að allt færi í loft upp á vinnumarkaði, ef verðbólguskriðu yrði hleypt af stað með þessum hætti. Fjármálaráðherra bætti því við, sem satt var, að ekki væru til skattapeningar til að greiða þetta niður.

Forsætisráðherra bað því sex manna nefnd um að fresta hækkuninni. Eftir makk um helgina náðist samkomulag um 10% launahækkun bænda og 5% verðhækkun dilkakjöts og mjólkurafurða til bráðabirgða í hálfan mánuð, meðan málið væri skoðað nánar.

Athyglisvert er, að upprunalega hækkunin hefði runnið sjálfkrafa í gegnum hið sjálfvirka mjólkunarkerfi, sem hinn hefðbundni landbúnaður hefur á ríkissjóði, ef Alþýðusambandið hefði ekki bent á, að með nýja verðinu væri verið að eyðileggja síðustu samninga.

Dæmigert fyrir frekju stjórnenda hins hefðbundna landbúnaðar er, að þeir kvörtuðu sáran í sjónvarpsviðtölum um helgina út af því, að Alþýðusambandið skyldi vera að skipta sér af málinu, áður en niðurstaða um verðlagningu var fengin í sex manna nefndinni.

Einnig er athyglisvert, að ráðamenn Alþýðusambandsins skuli vera farnir að átta sig á, að þeir eru alltaf að gera marklausa kjarasamninga við ráðamenn vinnuveitenda, af því að ráðamenn landbúnaðarins sigla í kjölfarið og kollvarpa forsendum kjarasamninganna.

Heljartök hins hefðbundna landbúnaðar á ríkissjóði og skattgreiðendum hafa farið vaxandi á síðustu árum. Jón Helgason búnaðarráðherra gortaði nýlega af því í blaðaviðtali, “að með búvörulögunum hefur landbúnaðurinn fengið meira fjármagn en með gömlu lögunum”.

Hinn hefðbundni landbúnaður hefur í valdatíð Framsóknarflokkanna tveggja í ríkisstjórninni náð samningum við ríkið um búmark og fullvirðisrétt, sem skylda ríkið til að kaupa ákveðið magn af kjöti og mjólkurvörum, langt umfram það, sem markaður er fyrir í landinu.

Samkvæmt gamalgrónum lögum á að vera jafnræði í kjörum bænda og nokkurra viðmiðunarstétta á mölinni. Vegna þess hækka mjólkurvörur og dilkakjöt nokkurn veginn sjálfkrafa í verði, svo sem verða átti um helgina. Þetta veldur því, að þær seljast verr.

Ríkið hefur hins vegar ábyrgzt sölu á þessum afurðum. Það getur reynt að koma þeim út innanlands með auknum niðurgreiðslum eða gefa þær til útlanda með auknum útflutningsuppbótum. Þetta er vítahringur, sem ríkissjóður og skattgreiðendur hafa ekki ráð á.

Hinn hefðbundni landbúnaður er óvinur þjóðarinnar númer eitt, tvö og þrjú. Það er fyrst og fremst hann, sem skerðir þjóðarauð og heldur niðri lífskjörum.

Jónas Kristjánsson

DV

Verkin tala en ekki orðin

Greinar

Gorbatsjov Sovétleiðtogi þarf að fá sæmilega einkunn í sex prófum, áður en Vesturlandabúum er óhætt að reikna með, að raunveruleg breyting sé að verða á stefnu Sovétríkjanna í mannréttindum, lýðræði, vígbúnaði og samskiptum við önnur ríki.

Þótt 140 andófsmenn hafi verið látnir lausir á nokkrum vikum, eru enn margfalt fleiri í haldi í fangabúðum og á svokölluðum geðveikrahælum. Ekkert bendir til, að meðferð þúsundanna, sem eftir sitja, hafi skánað. Hún hefur raunar versnað á valdatíma Gorbatsjovs.

Líta má á frelsun 140 manna sem tímabundna andlitslyftingu til að undirbúa nýliðna friðarráðstefnu í Moskvu og minnka árvekni Vesturlandabúa, ef straumurinn heldur ekki áfram. Það er ekki nóg að sleppa bara þekktum mönnum á borð við Sakharov og Begun.

Annað próf, sem Gorbatsjov þarf að þreyta, er að leyfa fólki, sem vill flytja til annarra landa, að gera það í jafnstríðum straumum og áður. Á undanförnum árum hefur að mestu verið skrúfað fyrir hinn fyrri flaum, þannig að ástandið hefur einnig versnað á þessu sviði.

Ekki er ástæða til að skoða fækkun á hömlum í hagkerfinu sem merki um, að fetað verði í átt til lýðræðis í Sovétríkjunum. Aðgerðir Gorbatsjovs hafa til þessa eingöngu stefnt að hagvexti. Ekkert sýnir, að ætlazt sé til, að frelsi á öðrum sviðum fylgi í kjölfarið.

Auðvitað er líklegt, að aukið efnahagslegt frelsi kalli á meira tæknilegt frelsi, vísindalegt, menningarlegt og loks stjórnmálalegt. Stefna Gorbatsjovs kann að leiða til slíks og má sennilega þegar sjá þess merki í menningunni. En meira þarf hann til að standast þriðja prófið.

Svartasti bletturinn á Sovétríkjunum í utanríkismálum er villimannlegur hernaður þeirra í Afganistan. Ekki dugir, að sendimenn Gorbatsjovs láti í veðri vaka, að Sovétstjórnin sé til viðræðu um að kalla herinn heim, meðan verkin tala frá degi til dags í formi þjóðarmorðs.

Fjórða próf Gorbatsjovs felst í að flytja glæpaherinn heim á sex mánuðum og leyfa myndun þjóðstjórnar í Afganistan án þátttöku núverandi kvislinga í Kabúl, ­ gegn því, að þjóðstjórnin og stórveldin ábyrgist vinsamlegt hlutleysi Afganistan gagnvart Sovétríkjunum.

Bezt hefur Gorbatsjov tekizt að sýna vilja til stöðvunar viðbúnaðarkapphlaupsins og samdráttar í vígbúnaði. Áróðurssókn hans á því sviði hefur notið þess, að þriðjudeildarlið er við völd í Hvíta húsinu í Washington. En meira þarf, ef duga skal til prófs.

Friður byggist ekki á fögrum yfirlýsingum um kjarnorkuvopnalaus svæði eða annað rugl. Hann byggist á samkomulagi um áþreifanlegar tölur um samdrátt í vígbúnaði, en einkum þó og aðallega á ströngu eftirliti með, að samkomulagið sé virt í hvívetna.

Þess hafa sézt merki á fjölþjóðlegum slökunarfundum, að sendimenn Sovétríkjanna séu að byrja að gefa eftir á þessu sviði. Þeir tala ekki lengur um eftirlit sem dulbúnar njósnir óvinarins. Hins vegar er ekki enn tímabært að meta, hvort þetta sé meira en orðin tóm.

Sjötta og síðasta próf Gorbatsjovs getur reynzt það þyngsta. Ef hann vill í rauninni ná hinum prófunum fimm, þarf hann að vinna sigur á þeim flokksöflum, sem eru andvíg breytingum, er óhjákvæmilega fylgja í kjölfar aukins lýðræðis inn á við og aukins friðar út á við.

Sjötta prófið er einfaldlega spurningin um, hvort Gorbatsjov ekki bara vill, heldur getur líka staðið við að láta ekki bara orðin, heldur líka verkin tala.

Jónas Kristjánsson

DV

Loforðið fjarlægist

Greinar

Eitt hafa hægri og vinstri ríkisstjórnir átt sameiginlegt á Vesturlöndum undanfarin ár. Þær hafa rekið hægri stefnu í fjármálum og efnahagsmálum. Þær hafa hægt á eða stöðvað útþenslu velferðarríkisins og reynt að halda aftur af kröfum fólks um aukið öryggi.

Sama er hvort litið er til íhaldsfrúarinnar Thatcher í Bretlandi eða sósíalistans Gonzales á Spáni. Alls staðar er reynt að beita aðhaldi til að hindra, að þjóðarbúið sligist undan kröfum um hraðari aukningu velferðar og öryggis en efnahagsgrunnurinn megnar að bera.

Skattprósentur eru um þessar mundir að lækka beggja vegna Atlantshafsins. Bandaríkin hafa forustu á þeirri braut og eru komin niður í 28% tekjuskatt á hátekjufólk. Japan, Frakkland, Bretland og Ítalía eru varfærnislega að feta í fótspor forusturíkisins.

Hér á landi hefur lengi verið sterkur, pólitískur vilji fyrir lækkun skatta, einkum tekjuskatts. Eindregnastur hefur hann verið í Sjálfstæðisflokknum. Þar hefur í aldarfjórðung verið rætt um, hversu gott og brýnt væri að afnema tekjuskatt af almennum verkamannalaunum.

Þeir, sem fylgja þessari stefnu, telja mikilvægara, að almenningur fái meiri hluta verðmætasköpunar sinnar í eigin vasa, heldur en að auka enn frekar hina opinberu forsjá, sem fylgir hverju mannsbarni frá vöggu til grafar hér á landi sem annars staðar á Vesturlöndum.

Ríkisstjórnin, sem senn hefur setið að völdum í heilt kjörtímabil, hefur að undirlagi Sjálfstæðisflokksins stefnt að afnámi tekjuskatts af venjulegum lágtekjum í þjóðfélaginu. Seta formanns flokksins í stól fjármálaráðherra ríkisins leggur áherzlu á þetta mál.

Ekki vantar, að mikið hafi verið talað og loforð hafi verið ítrekuð, en minna hefur orðið úr verki. Tilraunir til að afnema almennan tekjuskatt í áföngum, til dæmis þremur, hafa farið út um þúfur. Fyrst var dregið úr áföngunum og nú síðast hefur verið gefizt upp á þeim.

Í staðinn hafa komið í ljós tillögur, sem fela ekki í sér minni skattheimtu, heldur meiri. Alvarlegast er frumvarp flokksformannsins og fjármálaráðherrans um virðisaukaskatt, sem felur í sér miklu meiri opinbera skattheimtu en felst í núverandi söluskatti.

Ábendingar og aðvaranir af þessu tagi hafa fryst virðisaukaskattinn á Alþingi, svo að hann verður ekki að lögum að þessu sinni. Ef málið verður tekið upp aftur á nýkjörnu Alþingi á næsta vetri, er ástæða til að vona, að skattagræðgin verði sniðin af frumvarpinu.

Hins vegar er líklegt, að samþykkt verði í næsta mánuði frumvarpið um staðgreiðslu tekjuskatta launafólks. Tæknilega séð er það framfaramál. Hins vegar er tækifæri kerfisbreytingarinnar ekki notað til að framkvæma hugsjónina um lækkun tekjuskatta.

Deila má um, hvort staðgreiðslufrumvarpið felur í sér óbreytta skattheimtu eða lítillega aukna skattheimtu ríkisins. En ekki er unnt að vefengja, að það felur í sér endanlega uppgjöf flokks og formanns, ráðherra og ríkisstjórnar, í hugsjónamálinu mikla.

Stjórnarflokkarnir ganga senn til kosninga með þá siðferðilega þungu byrði á bakinu að hafa ekki getað lækkað skatta á kjörtímabilinu, þrátt fyrir góðan vilja og stór orð og þrátt fyrir góða fyrirmynd frá mestu velgengnis- og auðríkjum Vesturlanda.

Fróðlegt verður að fylgjast með, hvort slagorð skattalækkana verða notuð í kosningabaráttunni og hvort einhverjir kjósendur muni fást til að trúa þeim.

Jónas Kristjánsson

DV