Greinar

Keypt og seld góðverk

Greinar

Ekki koma á óvart fréttir um, að lánsloforð Húsnæðisstofnunar gangi kaupum og sölum á 100.000 krónur. Við lifum enn í skömmtunarkerfi kreppuáranna. Úthlutanir hafa alltaf gengið kaupum og sölum, enda hefur skömmtunarstjórum alltaf liðið vel.

Til skamms tíma gengu úthlutanir lóða kaupum og sölum í Reykjavík. Það stafaði auðvitað af því, að eftirspurn var meiri en framboð, alveg eins og í húsnæðislánunum. Í öllum slíkum tilvikum úthluta stjórnmálamenn og embættismenn vörunni til hinna réttlátu.

Í gamla daga fengu stjórnarmenn Húsnæðisstofnunar flokkakvóta, svo að allir, sem vildu lán, urðu að hórast með einhverjum stjórnmálaflokknum. Þá var einnig augljóst, að hollusta við Sjálfstæðisflokkinn var líkleg til að veita aðgang að góðri lóð í borginni.

Á báðum þessum sviðum hefur skömmtunarkerfið linazt, en ekki lagzt niður. Meðan úthlutun eða skömmtun eftirsóttrar vöru gengur kaupum og sölum, er ekki unnt að segja, að við höfum fyllilega losnað við höftin, sem við vöndum okkur við á kreppuárunum.

Til skamms tíma hefur skömmtunarkerfi verið haldið uppi í bankakerfinu með því að hafa vexti lága og helzt neikvæða. Að fá lán jafngilti þá happdrættisvinningi, enda var slíkum vinningum gjarna úthlutað, oft á flokkspólitískum eða öðrum pólitískum forsendum.

Með hækkun raunvaxta hafa lán orðið lakari happdrættisvinningar. Skömmtunarkerfið hefur því linazt í bankakerfinu eins og í mörgum öðrum kerfum hins opinbera. En leifar þess verða þó áfram í bankakerfinu, meðan eftirspurn lána er meiri en framboð þeirra.

Margvísleg skömmtun, sem áður þótti sjálfsögð, hefur nú verið lögð niður. Einu sinni var hægt að fá erlendan gjaldeyri á tvenns konar verði. Einu sinni voru bílar skammtaðir og þá var auðvitað kátt í höllum skömmtunarstjóra. Enn hafa þeir þó mörg gleðiefnin.

Af einhverjum ástæðum hefur hið opinbera ákveðið að styðja íslenzka kvikmyndagerð. Engum datt í hug að gera það með því að greiða niður verð aðgöngumiða, svo að mestan stuðning fengju þeir kvikmyndagerðarmenn, sem næðu eyrum og augum fólks.

Í þess stað var myndaður einn af þúsund sjóðum landsins. Þar sitja þrír kerfisprinsar í einni af þúsund sjóðsstjórnum landsins. Þeir úthluta eða skammta fé til hinna réttlátu. Auðvitað vita þeir minna en markaðurinn um, hverjir eru réttlátir og hverjir ekki.

Að undanförnu hefur staðið í fjölmiðlum feiknarmikið rifrildi um síðustu úthlutun skömmtunarstjóranna í Kvikmyndasjóði. Enginn botn fæst í rifrildið, fyrr en kerfisprinsunum verður gefið frí og markaðnum leyft að ráða, hverjir fá að kvikmynda meira en aðrir.

Heilt ráðuneyti og fullt af stofnunum úti í bæ hefur tæpast gert annað í nokkur ár en að úthluta búmarki og fullvirðisrétti út og suður í hinum hefðbundna landbúnaði, svona til að staðfesta, að sú þjóðaríþrótt er endanlega orðin að æviráðnum niðursetningi.

Meira að segja sjávarútvegurinn hefur verið reyrður í kvóta, sem hafa ýmsar jákvæðar hliðar, en hindra þó eðlilega endurnýjun skipaflotans og halda uppi fáránlega háu verði á manndrápsfleytum, sem eiga kvóta.

Vandann, sem skömmtun er ætlað að leysa, má yfirleitt leysa á skynsamlegri hátt. Helzta fyrirstaðan er, að þá mundu skömmtunarstjórar missa af ánægjunni af að vinna góðverk, sem geta gengið kaupum og sölum.

Jónas Kristjánsson

DV

Nokkurn veginn nothæft

Greinar

Ríkisstjórnin hefur að mestu hætt við fyrri áform um að nota tækifæri staðgreiðslu skatta til að hækka álögur á fólki. Staðgreiðslufrumvarpið, sem nú er til umræðu á Alþingi, er komið í nokkurn veginn samþykkjanlegt horf. Það verður því vonandi að lögum á þessu þingi.

Þegar málið var til umræðu fyrir og eftir áramótin, var reiknað með 35­40% skatti. Eftir gagnrýni hér í blaðinu og víðar var frumvarpið síðan lagt fram með álagningu við lægri mörk þessa sviðs, það er að segja á bilinu 34,75­35,5%, sem gróft reiknað er 35%.

Haldið hefur verið fram með rökum, að hinu opinbera nægi 31% álagning til að ná sömu tekjum eftir staðgreiðslukerfi og það hefði annars fengið eftir núgildandi kerfi. En með tilliti til breyttrar verðbólgu og ýmissa hliðaraðgerða má telja 35% vera verjandi.

Launafólk öðlast við breytinguna aukið skattaöryggi. Það þarf ekki að borga skatt af ákveðnum lágmarkstekjum og veit sig munu borga flatan skatt, þriðjung af öllum tekjum umfram þær. Þessi þriðjungur kemur í stað núverandi tekjuskatta og útsvars.

Þriðjungur tekna greiðist í skatt, hvort sem þær eru litlar eða miklar, vaxandi eða minnkandi, ef þær eru á annað borð umfram lágmarkið. Þriðjungurinn greiðist jafnóðum af viðbótartekjum, svo að fólk getur alltaf séð, hvað það hefur í rauninni til eigin ráðstöfunar.

Miklu máli skiptir, að fólk sér aldrei þennan þriðjung tekna sinna. Það lendir því ekki í blekkingu núverandi kerfis, þar sem viðbótartekjur eru fyrst borgaðar fólki og síðan teknar af því aftur. Fólk veit, hvað það hefur raunverulega handa milli og hvað er tímabundið lán.

Við núverandi aðstæður sækir fólk oft fram í launum, þegar vel árar. Þá fær það mikið fé í hendurnar. Þetta fé notar það eins og sitt eigið. Síðan neyðist það til að endurgreiða féð til skattsins ári síðar, þegar hin ytri fjárhagsskilyrði kunna að vera mun lakari.

Margir hafa lent í ótrúlegustu vandræðum vegna þessa. Þeir hafa eytt eða fjárfest í góðæri og síðan fengið skattinn í hausinn ári síðar, þegar verr áraði. Þeir hafa síðan setið uppi með nánast óleysanlegan skuldahala. Staðgreiðslan á að að geta hindrað slíkan vanda.

Einkum kemur staðgreiðslan sér vel, þegar fólk vill minnka við sig tekjur eða verður að minnka þær við sig af einhverjum ástæðum, til dæmis vegna aldurs, veikinda eða endurmenntunar. Það hefur ekki yfir sér martröð hárra skatta á tekjulitlu eða tekjulausu ári.

Á móti kemur aukin byrði á herðar þeirra, sem eru að ljúka námi og fara út í atvinnulífið. Hingað til hafa þeir í reynd haft fyrsta árið skattlaust og notað það til að koma undir sig fótunum, til dæmis með því að fjárfesta í húsnæði. Nú verður það stórum erfiðara.

Á sama tíma er áhugi innan ríkisstjórnarinnar á að skerða kjör þeirra, sem eru að ljúka námi, með því að hækka árlegar endurgreiðslur námslána og leggja á þau bæði vexti og kostnað. Þannig ræðst ríkisstjórnin að námsmönnum með tangarsókn lána- og skattakerfis.

Þessa tangarsókn þarf Alþingi að stöðva um leið og það gerir staðgreiðslu skatta að lögum. Við meðferð málsins hlýtur að vera unnt að taka sérstakt tillit til erfiðleika námsmanna, sem koma stórskuldugir út í lífið. Annars munu hinir beztu þeirra hreinlega flýja land.

Að lokum er athyglisvert að minnast þess, að ódýrir stjórnmálamenn, sem sífellt lofa afnámi tekjuskatts, eru að festa hann í sessi með staðgreiðslufrumvarpinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Hæstiréttur í ham

Greinar

Hingað til hefur hér á landi það fyrst og fremst verið framkvæmdavaldið, sem hefur abbast upp á önnur valdsvið þjóðfélagsins. Minna hefur farið fyrir dómsvaldinu, sem til skamms tíma var minnsti bróðirinn í þrenningu framkvæmdavalds, löggjafarvalds og dómsvalds.

Nú eru teikn á lofti um, að þetta sé að breytast. Forseti Hæstaréttar hefur leyft forsætisráðherra að flytja Alþingi skilaboð dómforsetans um, hvernig ekki sé rétt að fara þar með þingmál, sem spunnizt hafa af brottrekstri fræðslustjórans á Norðurlandi eystra.

Frá því er forsætisráðherra flutti Alþingi skilaboð forseta Hæstaréttar hefur hinn síðarnefndi haft bæði tíma og tækifæri til að leiðrétta ráðherrann. Þegar þetta er ritað, hafði hann enn ekki notfært sér það, svo að líta verður á skilaboðin sem rétt flutt á Alþingi.

Þessi uppákoma forseta Hæstaréttar var að vísu ekki framin í nafni Hæstaréttar sem slíks og það raunar sérstaklega tekið fram. Hins vegar er athyglisvert, að forseti réttarins skuli telja það í verkahring sínum að gefa út óbeint álit sitt á meðferð mála á Alþingi.

Forsætisráðherra flutti Alþingi skilaboð forseta Hæstaréttar, þegar Alþingi var að ræða frávísunartillögu, það er að segja tillögu um, hvort ræða skyldi eða ekki skyldi ræða frumvarp um, að Hæstiréttur tilnefndi menn í nefnd til að rannsaka svokallað Sturlumál.

Nú má það öllum vera ljóst, nema ef til vill forseta Hæstaréttar, að honum eða Hæstarétti kemur ekkert við, hvort Alþingi ákveður að ræða eða ræða ekki einhver frumvörp, sem þar koma fram. Það er að sjálfsögðu Alþingi sjálft, sem ákveður slíkt hjálparlaust.

Sjálfsagt er, að Alþingi verjist afskiptasemi forseta Hæstaréttar og samþykki að ræða málið. Hitt er svo allt annað mál, hvort niðurstaða þeirrar umræðu verður, hvort biðja eigi eða ekki eigi að biðja Hæstarétt um að tilnefna menn í rannsóknarnefnd Sturlumálsins.

Ef málið endar á, að Hæstiréttur fær frá Alþingi erindi, sem hann telur sig ekki hafa aðstæður til að sinna af formlegum ástæðum, á hann loks þá að svara því, að hann geti ekki skipað nefnd í mál, sem kunni að koma til kasta réttarins eftir venjulegri dómsmálaleið.

Hins vegar er sérkennilegt, að forseti Hæstaréttar skuli leyfa, að hafðar séu eftir sér yfirlýsingar um, hvort eðlilegt sé eða vafasamt, að á Alþingi sé lagt fram frumvarp um að biðja réttinn um að taka að sér algengt verkefni, það er að skipa menn í enn eina nefndina.

Merkilegra er þó, að þetta skuli vera innskot í málið á því stigi, er Alþingi er ekki að gera annað en að ræða tillögu um, hvort það sjálft eigi að ræða þetta frumvarp eða ekki. Formlega séð var Alþingi ekki einu sinni farið að ræða efnislega um frumvarpið sjálft.

Allra dularfyllst er þó, að afskipti forseta Hæstaréttar skuli berast í óáþreifanlegum og óstaðfestum símtölum manna í milli, í þessu tilviki hans og forsætisráðherra. Hingað til hefur rétturinn lítt notað símatæknina sem miðil dóma og annarra yfirlýsinga sinna.

Ef til vill er forseti Hæstaréttar að tileinka sér hin skjótvirku vinnubrögð, sem forsætisráðherra hefur hvatt til, að tekin verði upp í kerfinu. Ef til vill hefur hann smitazt af menntaráðherrum og borgarstjórum, sem hvassast hafa gengið á þann hátt til verka.

Hvað sem því líður, er öruggt, að Alþingi getur hvorki tekið mark á símaskilaboðum forseta Hæstaréttar, né neitað sér um að ræða Sturlufrumvarpið.

Jónas Kristjánsson

DV

Vaxandi valdsdýrkun

Greinar

Almenningur hefur löngum hneigzt að hollustu við sterka leiðtoga, bæði þá, sem reynzt hafa vel, og hina, sem miður hafa stjórnað. Til dæmis nutu Hitler og Mussolini mikils fylgis og sumpart stjórnlausrar dýrkunar í löndum sínum á mestu velgengnisárunum.

Það er eitthvað við valdið, sem veldur hrifningu fólks og sogar það til sín. Ef ráðherra eða annar valdsmaður heggur í einu vetfangi á hnút í stað þess að reyna að leysa hann á löngum tíma, eru margir reiðubúnir að klappa saman lófunum og lofa hinn sterka leiðtoga.

Þegar hinir sömu valdsmenn átta sig á, að þeir afla sér vinsælda og jafnvel hrifningar með öflugri beitingu valds, eru þeir í hættu staddir. Sumir lenda í vítahring valdafíknar. Þeir ganga æ lengra á þessari braut og lenda að lokum utan ramma þess valds, sem þeir hafa.

Í langri sögu hafa Vesturlönd svo slæma reynslu af sterkum og valdasjúkum leiðtogum, að smíðaðir hafa verið rammar til að hemja þá, hvort sem þeir eru marskálkar, hershöfðingjar, forsetar, forsætisráðherrar, ráðherrar, borgarstjórar eða aðrir valdsmenn.

Íslendingar voru svo hræddir við valdsmenn í fyrndinni, að sagt var, að engan vildu þeir hafa yfir sér nema lögin. Höfðu þeir þá reynsluna af Haraldi harðráða í Noregi. Auðvitað er unnt að ganga of langt í slíkri hræðslu eins og unnt er að ganga of langt í ást á valdi.

Nú á tímum ríkir hér á landi eins og í nágrannalöndunum tiltölulega fastmótað jafnvægi, í fyrsta lagi framkvæmdavalds og í öðru lagi laga, sem meðal annars setja valdinu skorður, svo og í þriðja lagi dómsvalds, er úrskurðar í ágreiningsefnum af margs konar tagi.

Samt virðist svo, að margir kjósendur dýrki framkvæmdavaldið svo mjög, að þeir séu reiðubúnir að fagna í hvert sinn, sem þeirra maður beitir valdi, hvort sem það er innan ramma laga eða utan. Þetta hugarfar afvegaleiðir suma stjórnmálamenn, svo sem dæmin sýna.

Af okkar valdsliði eru Sverrir Hermannsson menntaráðherra og Davíð Oddsson borgarstjóri hættast komnir á þessu sviði. Þeir hafa báðir hvað eftir annað lent að jaðri laga eða yfir hann í sætri nautn valdbeitingar. Og þeir æsast upp af fagnaðarlátum og mótmælalátum.

Segja má, að þeir félagar hafi til skiptist sett allt á annan endann. Fræðsluskrifstofumál Davíðs kom í kjölfar fræðslustjóramáls Sverris, sem kom í kjölfar borgarspítalamáls Davíðs, sem kom í kjölfar lánasjóðsmáls og mjólkurstöðvarmáls Sverris. Og svo framvegis.

Í nýjasta málinu hefur Davíð með óvenju grófum hætti vaðið yfir lög og rétt til að koma í veg fyrir eðlilega starfrækslu Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur. Hann hefur tekið lögskipuð verkefni frá ráðinu og skipað liði sínu að halda alls enga fundi í stjórn skrifstofunnar.

Í þessu nýtur hann þegjandi samkomulags við hinn valdshyggjusjúklinginn, menntaráðherrann, er hefur ákveðið að láta kyrrt liggja, svo að borgarstjórinn geti farið sínu fram í friði. Sem betur fer er félagsráðherrann í öðrum flokki og hefur blásið til lögmætrar andstöðu.

Álitsgerð frá ráðgjafarþjónustu Lagastofnunar Háskóla Íslands eyðir öllum vafa um, að borgarstjóri hefur farið offari í máli þessu. Vandinn er þó ekki sá mestur, að lög séu brotin, heldur hversu margir kjósendur eru reiðubúnir að fagna lögbrotum sinna valdsmanna.

Ef fjölmennir hópar manna eru sífellt reiðubúnir að fagna valdbeitingu, endar það á, að við sitjum uppi með íslenzkar vasaútgáfur af Hitler og Mussolini.

Jónas Kristjánsson

DV

Í beinna jarðsamband

Greinar

Merkasta málið, sem Alþingi fjallar um þessa dagana, er frumvarp til laga um heimild til að leyfa fiskmarkaði á Íslandi, eins og tíðkast í nærri öllum löndum, sem kaupa af okkur sjávarafurðir. Frumvarpið hefur hlotið góðar viðtökur og verður líklega samþykkt.

Til skamms tíma hafa Íslendingar sætt sig við þá sérstæðu aðferð, að verð á fiski sé ákveðið af embættismanni í yfirnefnd opinbers verðlagsráðs, sem tekur fremur lítið tillit til misjafnra gæða og annarra markaðsaðstæðna. Þetta breyttist snögglega á síðasta ári.

Eftir nokkrar umræður um málið var í fyrrahaust gerð tilraun með frjálst verð á loðnu. Eftir nokkra byrjunarerfiðleika gekk dæmið upp og málsaðilar urðu að lokum tiltölulega sáttir. Þá vöknuðu vonir um, að unnt yrði að koma á almennu frelsi um síðustu áramót.

Ýmsar efasemdir, er einkum heyrðust frá litlum sjávarplássum, þar sem menn óttuðust að verða undir í samkeppninni, ollu drætti við gerð fiskmarkaðsfrumvarpsins í sjávarútvegsráðuneytinu. Það hefur nú fyrst komið fram og nýtist ekki á nýhafinni vetrarvertíð.

Um tíma voru horfur á, að Verðlagsráð sjálft mundi gefa fiskverð frjálst um áramótin, svo að unnt yrði að fá reynslu af fyrstu fiskmörkuðum landsins þegar á þessari vertíð. Fulltrúar í ráðinu voru jákvæðir í tali, en heyktust, þegar á hólminn kom.

Mestur áhugi á málinu hefur verið við Faxaflóann. Þar koma á land tæplega 200 þúsund tonn af fiski á ári hverju eða hæfilegt magn fyrir þrjá fiskmarkaði af hentugustu stærð. Hafnfirðingar voru fyrstir af stað og Reykvíkingar fylgdu fast á eftir.

Hugmyndir beggja aðila eru svipaðar. Hafnfirðingar eru að reisa 4.000 fermetra hús við Óseyrarbryggju og Reykvíkingar ætla að nota 3.500 fermetra í Faxaskála. Fjármagn til framkvæmda virðist tryggt og annar undirbúningur hefur verið í góðu og traustu lagi.

Lítill vafi er á, að þessir markaðir, svo og aðrir, sem kunna að verða stofnaðir á öðrum útgerðarsvæðum, svo sem í Vestmannaeyjum og Eyjafirði, munu draga til sín viðskipti og efla viðkomandi bæi á kostnað hinna, sem ekki þora eða ekki geta fetað í fótsporin.

Markaðirnir munu örugglega hækka fiskverð. Vinnslustöðvar munu hætta að kaupa afla holt og bolt og fara að velja fisk í ákveðnar vinnslulínur. Það gerir rekstur þeirra hagkvæmari og auðveldar þeim að greiða hærra fiskverð, er síðan mun almennt gefa tóninn.

Um leið batnar aðstaða vinnslustöðvanna til að keppa í verði við erlendar stöðvar, sem kaupa íslenzkan fisk á erlendum fiskmarkaði. Gámafiskur og annar útfluttur ferskfiskur verður þá ekki til að rústa íslenzkan fiskiðnað, eins og horfur voru á um tíma.

Fiskmarkaðirnir fela í sér afnám miðstýringar og upptöku markaðslögmála framboðs, eftirspurnar og gæða, sem mun efla íslenzkan sjávarútveg. Fiskmarkaðirnir munu auka tekjur sjómanna og útvegsmanna og hindra um leið, að fiskvinnslan færist til útlanda.

Einnig er mikilvægt, að fiskmarkaðir koma öllum málsaðilum í beinna jarðsamband og stuðla að vandaðri vinnubrögðum, sem gefa hátt verð fyrir gæðafisk. Þeir munu á þann hátt auka verðmæti íslenzka sjávaraflans í heild og þar með þjóðartekjurnar.

Samþykkt frumvarpsins um heimild til innlendra fiskmarkaða verður eitt af allra mestu framfarasporum þjóðarinnar á níunda áratug tuttugustu aldar.

Jónas Kristjánsson

DV

Við erum útlendingar

Greinar

Íslendingar eru í hópi þeirra þjóða, sem veita litlu fé til varnarmála og hafa gífurlega hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum. Hvort tveggja er afar óvinsælt þar vestra. Kröfur um breytingu á þessu ástandi eru sífellt að verða háværari.

Í fyrra samþykkti fulltrúadeild bandaríska þingsins með 295 atkvæðum gegn 115 lagafrumvarp um, að þau ríki, sem hafi hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum, minnki muninn um 10% á ári og sæti ella hækkuðum tollum og innflutningskvótum.

Frumvarpið dagaði síðan uppi í öldungadeildinni, þar sem repúblikanar voru þá í meirihluta. Nú eru demókratar í meirihluta í báðum deildum og eru haftasinnaðri en nokkru sinni fyrr. Áðurnefnt frumvarp hefur verið lagt fyrir þingið á nýjan leik.

Frumvarpið endurspeglar vel vaxandi einangrunar- og haftastefnu í Bandaríkjunum. Þar vestra sæta útlendingar aukinni gagnrýni. Þeim er kennt um margt, sem aflaga fer í Bandaríkjunum. Þeir eru sagðir lifa í skjóli Bandaríkjanna og stunda óheiðarlega samkeppni.

Í rauninni stafa vandræði Bandaríkjamanna einkum af rangri stjórnarstefnu gífurlegs halla á ríkisbúskap og utanríkisviðskiptum, samfara því að þjóðin lifir langt um efni fram. Gjaldmiðill hennar er að grotna niður. Og ekki er enn séð fyrir endann á því hruni.

Hinar raunverulegu ástæður skipta þó minna máli en sú ákvörðun að kenna útlendingum um ófarir sínar, mest Japönum og Vestur-Þjóðverjum, en raunar einnig öllum öðrum, sem hafa hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum. Í þeim hópi er Ísland.

Við megum búast við, að í ár verði sett lög í Bandaríkjunum, sem skyldi okkur til að minnka hinn hagstæða viðskiptajöfnuð um 10% á ári. Það mundi gerast á þann hátt, að við minnkuðum freðfiskútflutning vestur um haf og keyptum meira af bandarískum vörum.

Að svo miklu leyti sem þetta tækist ekki, yrðum við líklega að sæta sérstökum tolli á söluvörur okkar, fyrst og fremst freðfiskinn. Ekki er ljóst, hversu hár tollurinn verður, en Bandaríkjamenn eru þessa dagana að hóta Evrópubandalaginu 200% tolli á ýmsar vörur.

Þótt okkar tollur yrði ekki nema brot af þessari hótun, yrði hann samt rothögg á freðfiskviðskipti okkar við Bandaríkin. Þau viðskipti hafa að undanförnu verið að gerast erfiðari en áður vegna verðlækkunar dollarans, sem líklega á enn eftir að lækka í verði.

Við megum því ekki treysta of mikið á Bandaríkjamarkað á næstu misserum. Við þurfum að efla freðfiskmarkað í öðrum löndum og leggja aukna áherzlu á ferskfiskinn, sem gefur okkur meiri verðmæti með minni fyrirhöfn. Það er framtíð í Vestur-Evrópu og Japan.

Í darraðardansinum, sem haftastefna Bandaríkjamanna á eftir að valda, munu umbjóðendur þeirra sennilega komast að raun um, að við beitum þá höftum í mynd innflutningsbanns á ýmsar landbúnaðarvörur, sem framleiddar eru dýrum dómum hér á landi.

Við gætum sennilega dregið úr öðrum viðskiptavandamálum okkar með því að afnema þetta bann. Bandaríkjamenn eru á kafi í ódýrum landbúnaðarvörum, sem þeir eiga erfitt með að losna við. Og við fengjum ódýrari mat en nú, betri lífskjör og minni verðbólgu.

Höfuðatriðið er, að ráðamenn okkar geri sér grein fyrir yfirvofandi viðskiptablikum í Bandaríkjunum og hefji undirbúning aðgerða til að mæta þeim.

Jónas Kristjánsson

DV

Hættuleg staðgreiðsla

Greinar

Aðalhættan við fyrirhugað staðgreiðslukerfi skatta er, að breytingin verður sennilega notuð til að hækka álögur á almenning. Það verður gert á sama hátt og til stóð í hinum andvana fædda virðisaukaskatti ­ með því að áætla álagningarprósentuna of háa.

Fjármálaráðherra hugðist fyrr í vetur ná rúmlega tveimur milljörðum aukalega í ríkissjóð með því að nota sömu prósentu í virðisaukaskattinum og gildir í söluskattinum, þótt ráðgert væri að láta virðisaukaskattinn ná til mun fleiri tegunda vöru og þjónustu.

Þetta komst ráðherrann ekki upp með og mun því reyna aftur, í þetta sinn með staðgreiðslukerfinu, sem hann vill gera að lögum á ofanverðum vetrinum. Hann mun leggja fram frumvarp með nokkurra prósenta hærri álagningu en þarf til að samsvara núverandi kerfi.

Fyrir tæpum áratug var áætlað, að álagningarprósentan í staðgreiðslukerfi þyrfti að vera 25% til að ná sömu tekjum og í þágildandi kerfi. Ef bætt er við 6% útsvari, ætti heildarálagningin á tekjur manna að ná 31%. En í kerfinu er nú talað um 35­40%.

Í þá daga var verðbólgan meiri en nú, svo að munurinn kann að vera nokkru minni núna. Á móti kemur, að álagningarprósentan hefur lækkað á þessum tíma. Altjend er ekki fráleitt að ætla, að fjármálaráðuneytið hyggist ná inn 4­9% meiri skatti með staðgreiðslukerfi.

Þar sem fjármálaráðherrann kemur frá flokki, sem þykist vilja lækka skatta og hefur raunar lofað að afnema tekjuskattinn af venjulegum tekjum, er þeim mun brýnna fyrir hann og kerfið að ná peningunum inn með öðrum hætti, það er með breytingum á sjálfu kerfinu.

Markmið virðisaukaskattsins var ekki að lækna skattakerfið, heldur að ná inn meira fé. Hið sama mark mið hefur staðgreiðslukerfið núna. Það á óvart að hækka skattana, svo að pólitíkusar geti áfram slegið gamalkunnar keilur á baráttu fyrir lækkun skatta.

Annars er staðgreiðslukerfið að flestu leyti gott, ef tekst að koma í veg fyrir, að það hækki skattana. Það gerir fólki kleift að fara í nám á miðjum aldri eða minnka við sig vinnu af öðrum ástæðum. Og það gefur fólki raunhæfari mynd af ráðstöfunartekjum sínum.

Vandamál óeðlilega hárra tekna á skattlausa árinu má leysa með dönsku aðferðinni, það er með því að leggja á því ári skatt á þær tekjur, sem eru meira en 20% umfram tekjur síðasta árs að viðbættri verðbólgu milli ára. Þar með er svindli haldið í hófi.

Ýmsir tæknilegir erfiðleikar fylgja þó hinu fyrir hugaða kerfi. Til dæmis verður erfitt að afnema ýmsan hefðbundinn frádrátt. Á til dæmis að telja ráðuneytisstjóra viðskipta það til tekna eða fríðinda að þurfa að kúldrast vikum saman í Moskvu fyrir þjóð sína?

Ennfremur verður erfitt að láta hreint staðgreiðslukerfi ná til annarra en launafólks, sem hefur lítt breytilegar tekjur. Skattar þeirra, sem hafa eigna- og vaxtatekjur eða stunda sjálfstæðan atvinnurekstur hljóta áfram að reiknast meira eða minna eftir á.

Í sjálfu sér er æskilegt að losna við hina ýmsu tekjuskatta og koma í staðinn á flötum skatti með fastri prósentu fyrir alla, svo og föstum frádrætti, sem gerir lágmarkstekjufólk skattlaust. Aðeins tvö atriði mæla gegn slíku, en þau eru því miður bæði veigamikil.

Í fyrsta lagi er tímahrak, því að skammt er til þingloka og frumvarpið ekki enn komið fram. Í öðru lagi mun skattagræðgi kerfisins spilla vinsældum málsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Ef bara áttin er rétt

Greinar

Vönduð og heiðarleg vinnubrögð hafa smám saman rutt sér til rúms í hinum hefðbundnu fjölmiðlum á Íslandi. Til dæmis gæta pólitísk málgögn sín betur en áður á eðlislægri hlutdrægni sinni. Fjölmiðlar virða höfundarétt, svo sem ljósmynda, betur en áður tíðkaðist.

Lengi mætti telja dæmi um aukinn siðferðilegan aga hinna hefðbundnu fjölmiðla, dagblaða, útvarps og sjónvarps. Enn skortir þó nokkuð, að þeir jafnist á við ýmsa erlenda fjölmiðla, sem til dæmis neita að þiggja ferðir eða góðgerðir án þess að borga fyrir.

Um leið hafa komið til skjalanna hér á landi nokkrir fjölmiðlar, sem hafa stigið ýmis skref aftur á bak í siðferðilegum aga, þótt þeir hafi að mörgu öðru leyti haft jákvæð áhrif. Alvarlegast er, hvernig þeir hafa deyft hin skýru mörk auglýsinga og upplýsinga.

Á sama tíma og sérstök auglýsingablöð með viðtölum við auglýsendur voru að hverfa úr dagblöðum sagðist þáverandi aðstoðarfréttastjóri sjónvarpsins hafa einfaldan smekk í klæðaburði. Sú stefna hans hefur fengið byr undir báða vængi á hinni nýju sjónvarpsstöð.

Einar Karl Haraldsson hefur í tveimur kjallaragreinum hér í blaðinu réttilega bent á vandamál af þessu tagi og hlotið fyrir málefnasnautt skítkast af hálfu sjónvarpsstjóra og einkum fréttastjóra Stöðvar tvö. Ástæða er til að vekja athygli á sjónarmiðum Einars Karls.

Alls staðar eru hættur á ferðinni. Hér á blaðinu létum við nýlega gabbast til að birta óperugrein eftir blaðamann úti í bæ, sem síðan kom í ljós, að var á mála hjá áróðursfyrirtæki íslenzku óperunnar. Okkur þykir það miður og hyggjumst gæta okkar betur næst.

Auglýsingar í efni eru mest áberandi hjá hinum nýju fjölmiðlum, Rás tvö, Bylgjunni og einkum þó og sér í lagi hjá Stöð tvö. Þar fellur jafnvel eldamennska kokksins í skugga af upplýsingum um, hvar sé hægt að kaupa fötin, sem hann klæðist. Þar er klukkan líka auglýsing.

Helgarpósturinn hefur lent í annars konar vanda. Hafandi komið á framfæri afar nytsamlegum upplýsingum um vafasöm viðskipti hefur blaðið klæðzt skikkju lögreglustjóra. Sem slíkt hefur það lagt menn í einelti óralangt umfram hina upprunalegu upplýsingaskyldu.

Á endanum var ritstjóri blaðsins staðinn að óheiðarlegum auglýsingaviðskiptum, er voru nánast nákvæmlega eins og viðskiptin, sem blaðið hafði áður harðlega gagnrýnt. Ritstjórinn hafði sem betur fer manndóm til að segja af sér, svo að vænta má betri tíma þar á bæ.

Sorglegt er að sjá fagmann í blaðamennsku á borð við fréttastjóra Stöðvar tvö fara í eins konar gervi Sverris Hermannssonar og ráðast ómálefnalega á stéttarbróður, sem ekki gerði annað en að hvetja til bættra mannasiða blaðamanna og annarra fjölmiðlunga.

Blaðmannastéttin þarf ekki á að halda fólki með hinn illræmda, einfalda smekk. Hún þarf fólk, sem tekur mark á viðvörunum Einars Karls. Fólk, sem áttar sig á, að það er ekki bara pólitísk hætta, er sækir að fjölmiðlunum, heldur einnig önnur auglýsingahætta.

Fjölmiðlarnir þurfa ennfremur ekki á að halda fólki, sem vokir eins og hrægammar yfir bókum og plötum, þorramat og flugeldum, sem berast ritstjórnum í kynningarskyni. Blaðamennska er göfugt fag, þar sem herfangshyggja á síður heima en í nokkru öðru fagi.

Blaðamenn og fjölmiðlar eiga að feta og geta fetað í átt til aukins sjálfstæðis gagnvart öflum þjóðfélagsins. Hraðinn þarf ekki að vera mikill, ef bara áttin er rétt.

Jónas Kristjánsson

DV

Of fáir eru reknir

Greinar

Allt of lítið er um, að opinberir embættismenn séu reknir úr starfi eða færðir til hliðar, svo að þeir valdi minna tjóni. Æviráðning og aðhaldsleysi embættis manna veldur mestu um, að rekstur hins opinbera stenzt engan samjöfnuð við annan rekstur í landinu.

Mikill sannleikur er í Pétursreglunni, sem segir, að menn hækki í starfi, unz þeir komist í embætti, er þeir ráða ekki við. Á því stigi framabrautarinnar staðnæmist fólk, óhæft um að gegna starfi sínu. Kerfi hins opinbera er stíflað af dæmum um þessa reglu.

Tjónið af þessu verður meira en ella fyrir þá sök, að íslenzkir embættismenn verða gjarna eins konar smákóngar með einræðisvaldi á afmörkuðu sviði. Það væri verðugt verkefni í stjórnsýslunni að brjóta þessa smákónga á bak aftur og innlima konungsríki þeirra.

Embættismenn valda tjóni á ýmsan hátt. Sumir reyna að hindra, að almenningur nái rétti sínum. Aðrir streitast við að synda gegn straumnum, sem þeim er ætlað að fylgja. Flestir nota meira fé skattgreiðenda, en þeim er heimilt. Þannig má rekja ýmis dæmi um vanhæfni.

Fræðslustjórinn á Norðurlandi eystra er sakaður um að fylgja eigin skólastefnu eða eins konar byggðastefnu, sem stangast að einhverju leyti á við línur fjárlaga og menntaráðuneytis. Það er alvarleg ásökun, því að embættismenn hafa ekki pólitískt hlutverk.

Ekki er hægt að láta viðgangast, að fræðslustjóri lifi sig svo inn í pólitískar hugsjónir byggðastefnu umdæmisins, að gerðir hans gangi sumpart í berhögg við ákvarðanir, sem yfirstofnun hans, menntaráðuneytið, tekur í samræmi við gildandi fjárlög á hverjum tíma.

Fræðslustjórinn hefur ennfremur verið sakaður um að fara 4% fram úr fjárlögum. Það er að sjálfsögðu 4% of mikið, því að gilda þarf hið sama um opinberan rekstur og annan rekstur, bæði fyrirtækja og fjölskyldna, að hann verður að standast áætlanir.

Raunar á ríkið að geta smíðað ramma um, hversu alvarleg sé talin hver prósenta umfram fjárlög. Lág umframtala gæti varðað skriflegri aðvörun, hærri tala flutningi embættismannsins í starf, sem síður varðar fjármál, og loks gæti enn hærri tala varðað brottrekstri.

Almennar og viðurkenndar viðmiðunarreglur af slíku tagi mundu auðvelda stjórnvöldum að losna við fjárfreka embættismenn án þess að þurfa síðan að borga þeim stórfé í skaðabætur. Þær mundu líka tryggja, að smákóngarnir gættu peninganna betur en ella.

Fræðslustjóranum er engin vörn í að vísa í grunnskólalög. Hefð er fyrir því hér á landi, að lög eru eins konar óskhyggja, sem nánar er útfærð í fjárlögum hverju sinni. Fjárlögin ganga oft mun skemur í fjárveitingum en gert er ráð fyrir í öðrum lögum. Og ráða.

Hins vegar er hætt við, að fleiri þurfi að fjúka en fræðslustjórinn einn, ef brottrekstrarramminn er miðaður við 4%. Í stórum dráttum má segja, að algert hrun yrði í stétt ráðuneytisstjóra, ef allir væru reknir, sem syndguðu upp á 4% af veltunni eða meira.

Ennfremur væri nauðsynlegt að byrja á að reka ráðuneytisstjórann og ráðherrann í menntaráðuneytinu á undan fræðslustjóranum. Þeir fóru nefnilega fjórum sinnum lengra fram úr fjárlögum en hann, það er að segja rúmlega 17% á sama tíma og hann fór 4% framúr.

Gild rök eru sennilega fyrir nýjasta brottrekstrinum. En sé svo, mættu gjarna aðrir fjúka fyrst. Fremstir eru þar í flokki ráðherra og ráðuneytisstjóri menntamála.

Jónas Kristjánsson

DV

Hnífinn í bakið

Greinar

Efnislega hafði Þorsteinn Pálsson rétt fyrir sér, þegar hann hindraði áform allra hinna ráðherranna í ríkisstjórninni um að banna sjómannaverkfallið með lögum. Þeir höfðu verið óþarflega taugaveiklaðir út af deilu, sem síðan var leyst á einfaldari hátt.

Í heiðarlegu samstarfi hefði formaður Sjálfstæðisflokksins farið að með öðrum hætti. Þá hefði hann byrjað á að setjast að Steingrími Hermannssyni, sagt honum skoðun sína og án upphlaups gefið forsætisráðherra tækifæri til að leggja til að málinu yrði frestað.

Í þess stað fór Þorsteinn fjármálaráðherra beint í stólinn. Málflutningur hans kom öllum viðstöddum greinilega á óvart, ekki sízt hinum ráðherrunum. Á þennan hátt kom hann ekki framan að þeim, heldur aftan að þeim og stakk hnífnum í bak þeirra.

Þorsteinn valdi sjálfur þessa grófu málsmeðferð í stað hinnar kurteislegri, sem venjulegri er í samskiptum samstarfsmanna. Með því vakti hann meiri skammtímaathygli á réttmætum málstað sínum, en bjó sér og flokki sínum jafnframt til hættulegan langtímavanda.

Hnífstunga ráðherrans er önnur og alvarlegri en laus skot af ýmsu tagi, sem þotið hafa milli manna á þessum kosningavetri. Hún ristir dýpra en ummæli hans um, að ekki sé ástæða til að taka forsætisráðherra of alvarlega, þegar hann fjalli um Seðlabankann.

Síðarnefnda skítkastið er svipað öðru slíku, sem tíðkast hefur og tíðkast enn í samskiptum stjórnmálamanna hér á landi. Það felst bara í orðum, marklitlum orðum, sem stjórnmálamenn hafa illu heilli tamið sér og taka ekki mark á frekar en áhorfendur að stjórnmálunum.

Að vísu eru gífuryrðin vandamál, sem stjórnmálaleiðtogum ber að hemja hjá liðsforingjum sínum. Við sjáum til dæmis, að einn ráðherrann, Sverrir Hermannsson, opnar tæpast svo munninn, að hann flytji ekki skæting, níð og hótanir, alveg eins og honum sé ekki sjálfrátt.

En það er allt annað og ómerkara að kasta dónalegu orðbragði hver í andlit annars en að stinga hnífnum í bakið. Steingrímur Hermannsson reyndi að bera sig vel eftir sárið, en enginn vafi er á, að hann gleymir því seint. Hið sama má segja um aðra ráðherra.

Vel getur verið, að Þorsteinn hafi efni á að gera sjálfstæðisráðherrana að fíflum, fyrst og fremst Matthíasana Bjarnason og Mathiesen, sem gegndu starfi fjármálaráðherra í fjarveru hans, svo og Sverris, sem hafði heimtað bráðabirgðalög á sjómenn.

Hugsanlega undirstrikar þetta svo rækilega, að Þorsteinn ætli að skipta um ráðherragengi flokksins eftir kosningar, að gamla gengið muni nú lyppast niður eins og barðir rakkar. En jafnlíklegt er, að einhvern tíma telji einhver þeirra gott að hefna sín lítillega.

Hitt er alvarlegra, að eftir næstu, þarnæstu og aðrar kosningar þarf formaður Sjálfstæðisflokksins að hyggja að stjórnarsamstarfi við aðra flokka. Eftir hnífstungu síðustu viku munu formenn annarra flokka umgangast stungumanninn með varúð og engu trúnaðartrausti.

Það er ekki aðeins Steingrímur, sem Þorsteinn þarf þá að tala við. Formenn annarra flokka hafa einnig tekið greinilega eftir vinnubrögðum formanns Sjálf stæðisflokksins og munu reyna að forðast að verða fórnardýr sömu eða hliðstæðra vinnubragða.

Góð ríkisstjórn eins og Viðreisnin krefst gagnkvæms trausts, einnig í kosningabaráttu. Þorsteinn hefur spillt væntanlegum tilraunum sínum til stjórnarmyndunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Áfengisóvinir í öngstræti

Greinar

Stundum er haldið fram, að minna framboð áfengis muni draga úr vandamálum, sem því fylgja. Er þetta meðal annars opinber skoðun eða trúarjátning Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Hún var nýlega ítrekuð í yfirlýsingu tólf forustulækna í heilbrigðiskerfinu.

Ný rannsókn á vegum félagsmálastofnunar sænska ríkisins bendir til, að þetta sé ekki einhlítt. Þar kom til dæmis fram, að andlát af völdum áfengistengdra sjúkdóma séu samanlagt ekki fleiri í hinni frjálslyndu Danmörku en í hinum stjórnlyndu Svíþjóð og Finnlandi.

Framboð áfengis er gífurlega misjafnt í þessum löndum. Aðeins 550 íbúar eru um hvert vínveitingahús í Danmörku, en 1.280 í Svíþjóð og 3.190 í Finnlandi. Aðeins 300 íbúar eru um hverja áfengisútsölu í Danmörku, en 23.000 í Finnlandi og 26.000 í Svíþjóð.

Ástandið hér á landi er svipað og í Finnlandi og Svíþjóð. 2.000 íbúar eru hér um hvert vínveitingahús og 20.000 um hverja áfengisútsölu. Íslenzk stjórnvöld reyna eftir megni að hamla gegn nýjum vínveitingaleyfum og neita óskum bæjarfélaga um áfengisútsölur.

Sænska rannsóknin sýnir, að niðurstaðan er eins, hvort sem framboð áfengis er mikið eða lítið. Munurinn er, að Danir deyja frekar úr skorpulifur, en Svíar úr áfengiseitrun. Af hverjum 100.000 íbúum deyja árlega 19 Danir og 21 Svíi úr áfengistengdum sjúkdómum.

Samkvæmt þessu er Alþjóða heilbrigðisstofnunin, íslenzka Áfengisvarnaráðið og læknarnir tólf á villigötum. Ef þessir aðilar eru andvígir áfengi, væri jafnvel nærtækara að berjast fyrir algeru áfengisbanni, svo að ekki deyi þessir 19 eða 21 af 100.000 íbúum.

Að vísu yrðu þessir aðilar þá að taka tillit til tæknikunnáttu fólks. Þeir gætu ekki komið í veg fyrir heimabrugg, þótt þeim tækist að loka áfengisútsölum og banna vínveitingar á veitingahúsum. Helzt yrðu þeir einnig að geta hindrað ferðalög til útlanda.

Um tólf ár eru síðan læknisfræðilegar rannsóknir sýndu fram á, að hófleg notkun áfengis dregur úr hjartasjúkdómum. Þetta hefur margoft síðan verið staðfest, svo sem fram hefur komið í brezka læknatímaritinu Lancet og blaði bandaríska læknafélagsins.

Menn deila um skýringuna, en helzt er talið, að vínandi efli svokölluð háþétt lipoprotein, sem eyða æðafitu. Almenning skiptir slíkt þó minna máli en hin vísindalega sannaða niðurstaða, að það er hinn illræmdi vínandi, sem hefur þessi hagstæðu áhrif á heilsuna.

Hin hóflega og hagkvæma notkun er sögð nema 70 sentílítrum af bjór eða 25 sentílítrum af víni eða 7 sentílítrum af sterku á dag. Hún er sögð breytast í óhóflega notkun, þegar hún fer yfir 140 sentílítra af bjór, 50 sentílítra af víni eða 15 sentílítra af sterku á dag.

Ein bezta röksemd áfengisandstæðinga er ölvunarakstur, sem veldur miklum hörmungum og tjóni. Síðustu fréttir herma, að fundnar hafi verið tæknilegar leiðir til að hindra akstur ölvaðs fólks. Innan nokkurra ára ætti að vera unnt að koma slíkum búnaði í alla bíla.

Hér hefur verið sagt, að aukið framboð áfengis magni ekki alvarlegasta áfengisvandamálið, dauðann. Ennfremur að koma megi í veg fyrir ölvunarakstur. Einnig, að algert bann sé tæplega framkvæmanlegt, auk þess sem það taki ekki tillit til hollustu áfengis.

Rétt væri af heilbrigðisyfirvöldum að forðast boð og bönn á þessu sviði, en einbeita sér fremur að því að benda á hin skörpu skil hóflegrar og óhóflegrar áfengisneyzlu.

Jónas Kristjánsson

DV

Námsmenn ofsóttir

Greinar

Eitt sérkenna íslenzka menntakerfisins er, að háskólanemum eru ekki veittir styrkir, svo sem algengt er í öðrum löndum, heldur fá þeir nokkurn veginn sjálfvirk lán sér til framfærslu. Þetta er í eðli sínu gott kerfi, því að það er hlutlaust og skilar fé til baka.

Í styrkjakerfi, sem núverandi menntaráðherra vill koma á fót, er valið milli nemenda. Sumir fá, en aðrir ekki. Um það mun gilda eins og hefur gilt um embættaveitingar ráðherrans, að kerfið verður misnotað til að hygla óverðugum á kostnað verðugra.

Ofan á slíkar freistingar munu skömmtunarstjórar námsstyrkja þurfa að ákveða, hvaða háskólanám sé hagkvæmt og hvað ekki. Sagan sýnir, að spár um slíkt standast ekki. Hagnýtastar reynast oft þær fræðigreinar, sem skömmtunarstjórar vita varla, að séu til.

Skömmtunarstjórar þurfa ekki að vera neitt óvenjulega skammsýnir, þótt þeir eigi erfitt með að átta sig á, hvað verði hagkvæmast að fimm eða tíu árum liðnum, þegar nýta á þekkingu manns, sem verið er á líðandi stund að ákveða, hvort styrkja skuli eða ekki.

Sjálfvirk námslán til allra eru mun heppilegri leið, ekki sízt þegar þau skila sér eins vel til baka og raun ber vitni um hér á landi. Áætlað hefur verið, að 85% veittra lána skili sér í formi endurgreiðslu í Lánasjóð íslenzkra námsmanna. Það er frábær árangur.

Sjálfvirkni námslánanna veldur því, að ráðamenn þurfa hvorki að gerast skömmtunarstjórar yfir námsmönnum né að taka að sér að gera rangar framtíðarspár. Þar á ofan geta þeir glaðst yfir sparnaðinum, sem felst í að fá 85% lánsfjárins til baka í kassann.

Skynsamlegt er að líta svo á, að þau 15%, sem vantar á, að námslán séu endurgreidd, séu hliðstæður herkostnaður hins opinbera í menntamálum og önnur ríki hafa í námsstyrkjum sínum. Einnig ber að líta svo á, að vaxtaleysi lánanna feli í sér hliðstæðan styrk.

Ríkið fer alls ekki halloka í viðskiptum sínum við námsmenn. Í rauninni sleppur það ódýrt í samanburði við styrkjalöndin. Og þar að auki fær það aukagróða í viðskiptum sínum við þá námsmenn, sem kjósa að notfæra sér aðstöðu, sem borguð hefur verið í útlöndum.

Einkennandi fyrir núverandi menntaráðherra, og raunar kerfið í heild, er að amast við, að námsmenn spari ríkinu bygginga- og rekstrarkostnað með því að stunda nám í útlöndum. Nær væri að veita þeim viðbótarlán til að mæta viðbótarkostnaði þeirra.

Merkilegast er þó, að menntaráðherrann skuli, með stuðningi Sjálfstæðisflokksins, sífellt vera að reyna að koma höggi á námsmenn, en það hefur einmitt verið eitt helzta verkefni hans frá því að hann tók illu heilli við þessu ráðuneyti fyrir rúmlega ári.

Menntaráðherra hefur til dæmis hvað eftir annað reynt að setja lágt þak á námslánin, koma á þau vöxtum og kostnaði, stytta endurgreiðslutíma þeirra, hækka árlegt endurgreiðsluhámark og takmarka aðgang að þeim, svo og að breyta kerfinu að hluta í styrkjakerfi.

Svo er flumbrugangi ráðherrans sjálfs fyrir að þakka, að þetta hefur ekki tekizt enn. Viljinn virðist þó vera nægur, þrátt fyrir ýmsar hrakfarir hans. Verst er, að frammámenn í Sjálfstæðisflokknum skuli vera að mæla þröngsýnina og slagsmálagleðina upp í honum.

Þótt námslánakerfinu hafi reynzt þungt að mæta undanfarinni skriðu námsmanna, er það í aðalatriðum gott og heilbrigt. Það ber að verja af öllu afli.

Jónas Kristjánsson

DV

Engin slökun eystra

Greinar

Þótt Sakharov hafi verið leyft að hverfa til Moskvu, sumpart til að létta stöðu Sovétríkjanna gagnvart Vesturlöndum, fer því fjarri, að komin sé hláka í mannréttindamálum þar eystra. Raunar er harka sovézkra stjórnvalda meiri en hún hefur verið um langt skeið.

Enn eru þúsundir manna af pólitískum ástæðum í útlegð og fangabúðum í Síberíu og á geðveikrahælum leyniþjónustunnar. Enn er það talið merki um geðveiki að fylgja mannréttindayfirlýsingunni frá Helsinki. Og meðferðin á fórnardýrum kerfisins hefur versnað.

Hinu er ekki að leyna, að þrýstingur að vestan hefur þvingað ráðamenn Sovétríkjanna upp í horn í mannréttindamálum. Einn fyrirrennara Gorbatsjovs, Brezhnev, skrifaði undir Helsinki-yfirlýsinguna og sveik jafnharðan, sem að sjálfsögðu gleymist aldrei.

Lengi framan af svöruðu austanmenn vestrænni gagnrýni með því, að hún væri íhlutun í sovézk innanríkismál. Fjallaði gagnrýnin þó aðeins um svik við alþjóðlegan samning um mannréttindi. Ekki er unnt að telja alþjóðasamninga vera sovézk innanríkismál.

Upp á síðkastið hafa Sovétfulltrúar svarað í sömu mynt með því að gagnrýna skort á svokölluðum efnahags-mannréttindum á Vesturlöndum, atvinnuleysi, húsnæðisskort og minnihlutamisrétti. Þar með viðurkenna þeir, að mannréttindi eru ekki innanríkismál.

Margir sakleysingjar ímynda sér, að Gorbatsjov muni auka mannréttindi í Sovétríkjunum. Engin merki eru um slíkt, ekki einu sinni heimkoma Sakharovs. Raunar væri það ekki í stíl valdshyggjumanns, sem meiri áhuga hefur á afköstum en hugsunum almennings.

Gorbatsjov hefur dregið úr möguleikum fólks að flytjast úr landi. Fyrir mörgum árum var nokkur straumur fólks úr landi, en nú hefur að mestu verið skrúfað fyrir hann. Stjórnvöld ofsækja þá, sem sækja um að komast á brott, til dæmis með því að reka þá úr vinnu.

Sakleysingjar hrósa Gorbatsjov fyrir að hvetja til gagnrýni í landinu. En í rauninni má sú gagnrýni eingöngu beinast að lágt og miðlungssettum embættismönnum á afmörkuðum sviðum. Engin raunveruleg pólitísk gagnrýni er leyfð í þessu risastóra fangelsi.

Sovétríkin standa langt að baki Kína í þessu efni. Mótmælagöngurnar í Kína sýna, að þar er leyfð pólitísk gagnrýni, svo framarlega sem hún dregur ekki í efa rétt kommúnistaflokksins til að stjórna landinu. Okkur þætti slíkt lítið, en er samt skárra en í Sovétríkjunum.

Ef Íslendingar byggju við kínverskt kerfi, mætti Svavar Gestsson kvarta, ef hann tæki skýrt fram, að hann efaðist ekki um rétt Sjálfstæðisflokksins til að stjórna ríkinu til eilífðar. Ef hér væri rússneskt kerfi, sæti Svavar á geðveikrahæli með öðrum stjórnarandstæðingum.

Þótt Gorbatsjov sé brosmildur, er hann samt foringi glæpaflokks, sem heldur íbúum ríkisins í járngreipum, stundar útrýmingarstríð í Afganistan og skipar Austur-Evrópubúum, hvar þeir skuli sitja og standa, auk þess sem hann stundar hryðjuverk á alþjóðlegum vettvangi.

Bros Gorbatsjovs stefnir að því að svæfa þjóðir Vesturlanda og framleiða þar nytsama sakleysingja, svo sem þá, er fagna innantómum yfirlýsingum á borð við kjarnorkuvopnalaus svæði, og fá ekki skilið, að það eru gerðir, en ekki yfirlýsingar, sem skipta máli.

Heimkoma Sakharovs er leikur í skák Gorbatsjovs og táknar síður en svo, að Sovétstjórnin sé minna hættuleg en áður eða meira gefin fyrir mannréttindi.

Jónas Kristjánsson

DV

Flumbrugangsferill

Greinar

Mikið hefur farið fyrir Sverri Hermannssyni á því rúma ári, sem hann hefur verið menntamálaráðherra. Hann hefur staðið í ólöglegum húsakaupum og öðrum fyrirgreiðslum framhjá fjárlögum. Hann hefur margoft skipað í embætti gegn afstöðu ráðgefandi aðila.

Menntamálaráðherra á einkar erfitt með að fjalla um gagnrýni á hendur honum. Dæmigert svar hans er: “Ég þarf ekki að leita ráða hjá piltinum þeim.” Svör hans einkennast af strákslegu skítkasti, sem varðar ekki hið minnsta mál það, sem til umfjöllunar er.

Embættisferill Sverris einkennist af skyndilegum ákvörðunum, sem fylgja brak og brestir. Ekki er árangurinn í samræmi við fyrirferðina, svo sem dæmi Lánasjóðs námsmanna sýnir vel. Þar hefur ráðherranum lítt sem ekki gengið að koma fram áformum sínum.

Eitt fyrsta verk ráðherrans var að kaupa Mjólkursamsöluna undir þjóðskjalasafn, þótt nýlega væri búið að taka í því skyni á leigu húsnæði til tíu ára fyrir tvær milljónir á ári. Fyrst sagði hann, að leigumálið væri lygi, en varð síðan að viðurkenna, að satt væri.

Enginn hafði gefið ráðherranum heimild til þessara kaupa. Ekki heldur til kaupa á húsnæði fyrir Kvikmyndasjóð og tíu milljón króna lántöku sjóðsins. Hann sagði bara, að þetta þyrfti að gera. En það er svo margt, sem þarf að gera, en er ekki komið fremst í röðina.

Sverrir er einn af þeim, sem virðist halda, að valdið sé hans óskorað. Hann hefur engan skilning á lagaformum, sem til dæmis segja, að fjárveitingavaldið sé í höndum Alþingis. Hann uppfyllir hvorki skilyrði lagavirðingar né mannasiða til að vera ráðherra.

Ekki var ráðherrann lengi að reka þáverandi framkvæmdastjóra Lánasjóðs námsmanna fyrir afglöp, sem ekki hann, heldur stjórn sjóðsins hafði framið, og fyrir fjárskort, sem var Alþingi að kenna. Síðan urðu skattgreiðendur að borga stórfé í skaðabætur vegna Sverris.

Menntamálaráðherra fannst Lánasjóðurinn illa rekinn og hafði nokkuð fyrir sér í því. Afleiðingin af brauki og bramli hans er hins vegar þveröfug. Rekstrarkostnaður sjóðsins hefur vaxið hrikalega í ráðherratíð hans, mun meira en annarra opinberra stofnana á sama tíma.

Á starfsárinu hefur Sverrir komið fram af fullkominni fyrirlitningu gagnvart fyrirrennara sínum og flokkssystur, Ragnhildi Helgadóttur. Hann tók úr gildi reglugerð hennar um, að námsmenn skyldu ekki fá lán á fyrsta námsári og þyrftu ekki að vera í stéttarfélögum.

Fyrir réttu ári gaf ráðherrann út reglugerð um frystingu námslána, en varð síðan að lúta meirihlutavilja í pólitíkinni. Hann boðaði þá frumvarp, sem aldrei leit dagsins ljós, enda sagði hann síðan, að það væru getsakir einar, að hann hefði í huga breytingar á námslánum.

Enn heyrðust brak og brestir, þegar Sverrir kastaði fyrir Alþingi á næstsíðasta degi þess í vor ýmsum breytingatillögum í skýrsluformi. Var þeim illa tekið, enda sást, að svonefndar “getsakir” voru orðnar staðreynd og hann enn einu sinni orðinn ómerkur orða sinna.

Tvisvar í sumar varð ráðherrann að afturkalla nýjar reglugerðir um Lánasjóð námsmanna. Ekki kom því á óvart óðagotið milli jóla og nýárs, er hann kvaðst hafa náð samkomulagi um frumvarp um sjóðinn. Auðvitað fór allt aftur á hvolf, því orð hans voru marklaus.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn á aðild að næstu ríkisstjórn, væri heppilegt, að hann endurskipaði ekki ráðherra, sem hefur annan eins flumbrugangsferil að baki.

Jónas Kristjánsson

DV

Árangur út í sand

Greinar

Verðbólgan er í þann mund að sækja í sig veðrið eftir tiltölulega rólegan hægagang á síðasta ári. Ríkisstjórnina hefur brostið getu og áræði til að halda áfram á fyrri aðhaldsbraut. Hún er í upphafi kosningavetrar farin að kynda undir verðbólgu á nýjan leik.

Fjármálaráðherra er einn um að telja verðbólgu ársins fara niður undir 5%. Hagfróðir menn telja þvert á móti, að verðbólgan fari að vaxa fyrir mitt ár og verði komin í uggvænlega háa tölu um næstu áramót. Sumir hafa nefnt 30% verðbólgu og aðrir 40% eða meiri.

Ríkisstjórnin á ekki ein alla sök á að missa verð bólguna úr böndum. Kjarasamningarnir í vetur, sem voru að ýmsu leyti jákvæðir, hafa í för með sér mikla hættu á launaskriði, eins og fyrri dæmi sanna. Hinir betur settu munu reyna að auka launamuninn að nýju.

Þeir hafa mikla möguleika að ná árangri. Það er samkvæmt lögmáli framboðs og eftirspurnar. Meiri eftirspurn er eftir fólki á hálaunastörf en láglaunastörf. Það misræmi stuðlar í launaskriði að auknum lífskjaramun, þótt reynt sé í kjarasamningum að minnka hann.

Þá hefur ríkisstjórninni reynzt erfitt að fá ýmsa opinbera og hálfopinbera aðila til að fylgja aðhaldi hennar í gjaldskrárhækkunum. Til dæmis hefur Landsvirkjun, í skjóli einokunar sinnar, hækkað raforkuverð töluvert umfram það, sem ríkisstjórnin hafði lagt til.

Alvarlegast á þessu sviði er þó, að sveitarfélögin hyggjast, undir forystu Reykjavíkurborgar, færa sér í nyt hægagang verðbólgunnar frá miðju síðasta árs til miðs þessa árs, alveg eins og þau gerðu milli áranna 1985 og 1986. Þau ætla að nota of háa skattprósentu.

Bent hefur verið á, að Reykjavík dugi 9% útsvar á þessu ári til að halda óbreyttu verðgildi tekna milli ára. Borgin var þegar í fyrra búin að hagnast á samdrætti verðbólgunnar á móti fyrra tapi vegna aukningar hennar. Hún þarf ekki að höggva í sama knérunn.

Að vísu mun Davíð borgarstjóra ekki gagnast að gerast skattakóngur annað árið í röð. Skattagræðgi hans og annarra hliðstæðra valdsmanna mun einmitt verða til uppfyllingar þeirri spá hans og afsökun, að verðbólguspátölur fjármálaráðherra séu allt of lágar.

Mest ábyrgðin á umskiptunum er fjármálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar. Það er þeirra vegna, að þjóðin situr uppi með nýsamþykkt fjárlög, sem gera ráð fyrir þriggja milljarða halla á svokölluðum A-hluta og fimm milljarða þensluhalla á ríkisbúskapnum í heild.

Þannig er þegar búið að gera ráð fyrir, að hallinn á ríkisbúskapnum nemi 4% af landsframleiðslu ársins. Þá er ekki búið að reikna með kostnaði við Útvegsbankann og margvíslegar freistingar aukafjárveitinga, sem sagan sýnir, að fylgja gjarna kosningaárum.

Þessi halli er margfalt of mikill. Hann veldur samkeppni við atvinnulífið um fjármagn og vinnuafl, einmitt á þenslutíma, þegar slík samkeppni á sízt við. Hallinn ryður öðrum aðilum til hliðar á lánamarkaði og magnar þannig háa vexti og erlendar lántökur.

Með skorti á aðhaldi í opinberum rekstri, aðallega ríkisins sjálfs, en einnig sveitarfélaga og hálfopinberra stofnana, er verið að auka spennuna í efnahagslífinu, magna hættuna á launaskriði og eyða árangrinum, sem náðist á fyrri árum stjórnarsamstarfsins.

Verðbólgan var með mikilli fyrirhöfn komin niður undir 10%. Sorglegt er að sjá þann árangur renna út í sandinn á síðasta starfsári ríkisstjórnarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV