Greinar

Kjósendur styrki flokkana

Greinar

Kunnur forstjóri hefur gortað af, að fyrirtæki hans styrki alla stjórnmálaflokkana. Hann sagðist ennfremur kjósa, að formenn flokkanna hringdu sjálfir í sig til að sníkja peninga. Sama fyrirtæki nýtur þess, að bannað er að flytja smjörlíki til landsins.

Vafalaust er ekkert samband milli fjárstuðnings fyrirtækisins við stjórnmálaflokkana og bannsins við innflutningi á smjörlíki. En dæmið sýnir þó, hversu háskalegt er, að stjórnmálaflokkarnir séu fjárhagslega háðir stórfyrirtækjum á borð við Smjörlíki hf.

Forstjórar stórfyrirtækja hafa mikið efnahagslegt vald. Þeir eiga ekki að fá að hrifsa til sín pólitískt vald, sem með réttu á að vera hjá kjósendum. Nauðsynlegt er að draga úr hættunni á, að stjórnmálaflokkar telji sig nauðbeygða til að stunda vændi af þessu tagi.

Lagt hefur verið til, að ríkið styrki stjórnmálaflokka í auknum mæli. Það gerir þegar nokkuð af því með styrkjum til starfsemi þingflokka og blaðastyrkjum. Með auknum framlögum væri auðvitað unnt að auka frelsi flokkanna gagnvart efnahagsöflum þjóðfélagsins.

Hins vegar mun Alþingi reynast erfitt að setja sanngjarnar reglur um dreifingu fjárins. Því hefur að vísu tekizt að dreifa núverandi styrkjum réttlátlega milli þingflokka. En hætt er við, að það taki minna tillit til flokka, sem ekki hafa enn komið manni á þing.

Betra er, að ríkið styrki stjórnmálaflokkana aðeins óbeint, það er með því að hvetja kjósendur til að styrkja þá. Það getur Alþingi með lögum um, að framlög kjósenda til stjórnmálaflokka og -manna verði að vissu marki frádráttarbær til skatts og útsvars.

Slíkan frádrátt má aðeins miða við framlög kjósenda, en ekki fyrirtækja, samtaka eða stofnana. Í aðferðinni felst, að kjósendur eru hvattir til að taka sjálfir fjárhagslegan þátt í stjórnmálunum og láta hann ekki að mestu eftir fyrirtækjum, samtökum og stofnunum.

Þessi frádráttur má aðeins gagnast kjósendum, ef stuðningur þeirra er veittur þeim stjórnmálaflokkum, sem veita opinberlega upplýsingar um veltu sína og um annan stuðning, sem ekki kemur fram í bókhaldi. Þetta gildi einnig um stuðning við einstaka frambjóðendur.

Brýnt er, að flokkar verði að upplýsa, hverjir kaupi happdrættismiða þeirra umfram ákveðið mark eða styrki þá á annan hátt umfram markið, til dæmis með láni á húsnæði eða síma, ­ í báðum tilvikum umfram það sem einstökum kjósendum verði skattfrjálst.

Eðlilegt er, að sett verði verðtryggð hámarksupphæð, sem frádráttarbær sé á hverju ári af stuðningi hvers kjósanda við stjórnmálaflokka eða stjórnmálamenn. Á núverandi verðlagi mætti upphæðin nema til dæmis 5.000 krónum á hvern kjósanda.

Taka þarf sérstakt tillit til, að núverandi reglur um fastan frádrátt einstaklinga valda því, að fæstir sjá sér hag í að nota breytilegan frádrátt. Tryggja þarf, að skattalög veiti kjósendum raunverulegan skattafrádrátt af stuðningi við stjórnmálalífið í landinu.

Markmið hugmyndarinnar er að hvetja kjósendur til fjárhagslegra fórna í þágu lýðræðisins og gera þeim kleift að komast að raun um, hvað hin fjárhagslega öflugu fyrirtæki, samtök og stofnanir gera í sama skyni.

Markmiðið er ekki að auka tekjur flokkanna, heldur færa uppsprettu peninganna frá hinum fáu og stóru, þar á meðal Smjörlíki hf., til hinna mörgu og smáu. Þetta er tilraun til að gera lýðræðið virkara.

Jónas Kristjánsson

DV

Vinnukonuútsvörin

Greinar

Ef við gerum ráð fyrir, að fjölskylda búi í 200 fermetra einbýlishúsi á dýrri eignarlóð á Seltjarnarnesi, má reikna með, að hún taki einnig drjúgan þátt í rekstri þjóðfélagsins, ­ hún sé siðferðilega skyldug til að taka hlutfallslega mikinn þátt í sameiginlegum kostnaði.

Ef þar við bætist, að fjölskylda þessi sækir mjólkina á átta gata torfærutæki, dvelst vikum saman í stóru sumarhúsi norður í landi og er tíður gestur í fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli, er enn frekar hægt að ætlast til, að hún leggi sitt af mörkum til sameiginlegra þarfa.

Ef fjölskylda þessi greiðir samtals 666.945 krónur í opinber gjöld á þessu ári, fyrir utan söluskatta, má þjóðfélagið vera ánægt með sinn hlut. Báðir hafa greinilega grætt, fjölskyldan og þjóðfélagið. Ef allir græddu svona, væri ekki erfitt að reka fyrirtækið Ísland með gróða.

Raunar gæti allt verið í lagi, þótt fjölskyldan greiddi ekki nema 500.000 krónur í opinber gjöld. Það væri bitamunur, en ekki fjár. Þjóðfélagið fengi svo mikið í sinn hlut, að starfskröftum skattamála væri betur og gróðavænlegar varið í annað en að rexa út af mismuninum.

Ef við gerum hins vegar ráð fyrir, að fjölskyldan greiði aðeins 300.000 krónur í opinber gjöld, er greinilega eitthvað að hvoru tveggja, skattakerfinu og siðferðisvitund fjölskyldunnar. Aðrir skattborgarar þurfa að reiða fram mismuninn, svo að þjóðfélagið fái sitt.

Ef við gerum loks ráð fyrir, að fjölskyldan greiði aðeins vinnukonuútsvar, eins og hún sé svo fátæk, að hún þurfi að reisa hótel eða kaupa olíufélög til að bjarga sér fyrir horn, er tímabært að hringja aðvörunar-bjöllu, ­ vegna allra hinna, sem verða að borga brúsann.

Þetta er einmitt helzta ástæða óvinsælda skatta hér á landi. Meirihluti þjóðarinnar borgar háa skatta, en telur sig samt búa við lakari lífsskilyrði en fólkið með vinnukonuútsvörin. Þessi þverstæða stuðlar að því, að hver reynir, sem betur getur, að ná tekjum undan skatti.

Skattstofur og skattrannsóknastofur hafa léleg vopn í höndum, þegar þeim er sigað á minniháttar fríðindi í skattskýrslum opinberra starfsmanna og annars launa fólks. Úr slíku vafstri fær ríkið lítið, en magnar um leið hatur fólks á augljósu ranglæti skattakerfisins.

Ef skattstofur og skattrannsóknastofur mættu hins vegar lyfta sjónum upp úr skattskýrslum og fá að meta lífsskilyrði þeirra, sem greiða vinnukonuútsvör, en búa í dýrum húsum, aka dýrum bílum og stunda dýr sumarleyfi, kynnu summurnar að fara að velta inn í sjóðinn.

Svo kann að vera, að ekkert af þessu sjáist á skattskýrslu. Þess vegna þurfa að vera til viðbótaraðferðir til að minnka aðstöðumun skattgreiðenda, ekki til að stunda sparðatíning, heldur til að ná til þeirra, sem virðast hlunnfara hinn sameiginlega sjóð um stórfé.

Margir munu segja, að með þessu sé verið að hnýsast í einkamál fólks. Það kann rétt að vera og verður að gerast án þess að fara með nefið niður í hvern kopp. En hinir hagsmunirnir eru yfirgnæfandi ­ að auka traust þjóðarinnar á skattkerfinu og draga úr skattsvikaþrá.

Í stað minniháttar eltingaleiks við frádrátt af ýmsu tagi og annað smáræði á skattframtölum á ríkið að beina geiri sínum að hinum, sem greinilega lifa í vellystingum praktuglega og borga samt aðeins vinnukonuútsvar. Þá gæti kerfið lækkað skattana á öllum hinum.

Lækkaðir skattar mundu svo enn draga úr skattsvikaþorsta þjóðarinnar. Lækning vinnukonuútsvarsins yrði spírall í átt til betra og sáttara Íslands.

Jónas Kristjánsson

DV

Vill vera niðursetningur

Greinar

Á fyrri tímum þótti eins og nú sjálfsagt að hlúa eftir getu að þeim, sem minna máttu sín. Þá var margt slíkt fólk sett niður hjá öðrum, er betur máttu sín. Hinir fyrrnefndu voru svokallaðir niðursetningar, sem margir hverjir gátu lítið lagt til sameiginlegra heimilisþarfa.

Nú á tímum hefur heil stétt verið gerð að niðursetningi. Það eru bændur landsins. Hópur góðmenna í Reykjavík hefur skipulagt þessa fátæktarþjónustu. Hann er í ráðuneytinu, búnaðarfélaginu, stéttarsambandinu, framleiðsluráðinu, sísinu og sjóðunum.

Niðursetningurinn er að verða svo samgróinn hlutverkinu, að nánast daglega birtast í Tímanum greinar eftir sauðfjár- og kúabændur, þar sem hlutverkið er dásamað og hvatt til nánari útfærslu. Þeir eru svo sjálfsánægðir, að þeir láta birta bæði nafn og mynd.

Í stórum dráttum minnir iðja niðursetninganna á skipulag, sem sagan segir, að Þórður læknir hafi komið upp á Kleppi. Hann lét vitleysingja bera sand í fötum upp á aðra hæð og sturta síðan úr þeim niður á fyrstu. Þetta er góð lýsing á hefðbundnum landbúnaði okkar.

Bændur landsins eru styrktir með ráðum og dáðum til að framleiða í stórum stíl ýmsar vörur, sem fólk vill ekki kaupa upp, þótt niðurgreiddar séu. Niðursetningnum finnst sjálfsagt, að allar þessar vörur komist í verð, þótt viðskiptavinina skorti. Enginn annar hugsar svona.

Tíminn er prentaður í 10.000 eintökum, af því að það upplag hentar markaðnum. Engum þar dettur í hug að prenta 30.000 eintök og heimta, að þjóðin borgi allt. Engum þar dettur í hug, að þjóðinni verði bannað að kaupa önnur dagblöð og að minnsta kosti útlend blöð.

Hins vegar finnst niðursetningnum þetta sjálfsagt um sína framleiðslu. Honum finnst sjálfsagt, að hans kjöt sé stutt fram yfir samkeppniskjöt. Einnig, að þjóðin sé skylduð til að kaupa hans smjör á einkasöluverði, þótt það sé meira en tíu sinnum dýrara en erlent smjör.

Niðursetningurinn vill áfram fá að vera hrjáður og hæddur niðursetningur, þótt hrópað sé á starfskrafta úr öllum alvöru atvinnugreinum þjóðfélagsins, allt frá togaraútgerð yfir í tölvuútgerð. Hann segist meira að segja vera orðinn hluti af landslaginu.

Niðursetningurinn segir líka, að áfram verði að framleiða dýrasta smjör í heimi á kostnað lífskjara almennings, svo að þjóðin hafi mat í atómstríði. Hann telur ekki til matar ódýran og samkeppnishæfan freðfiskinn og saltfiskinn, sem fylla geymslur um allt land.

Og nú vilja fleiri verða niðursetningar en þeir, sem sýsla við sauðfé og kýr. Stefnt er að breytingu eggja-, kjúklinga- og svínabænda í niðursetninga, þótt alþýðan í verkalýðsfélögunum hafi í bili hindrað það, af því að hún er farin að skilja lífskjararán kerfisins.

Góðmennin í ráðuneytinu, búnaðarfélaginu, stéttarsambandinu, framleiðsluráðinu, sísinu og sjóðunum bíða nú átekta. Þeir hafa margsagt, að vísu með öðru orðalagi, að þeir hyggist gera þá bændur, sem enn eru sjálfstæðir Íslendingar, að niðursetningum.

Til þessa verks hafa þeir dyggan stuðning Alþýðubandalagsins, Framsóknarflokksins, Kvennalistans og Sjálfstæðisflokksins, sem þykist stundum vera á móti, en er alltaf með, þegar á reynir. Á móti standa bara nokkrir frjálshyggjugaurar í Alþýðuflokknum.

Þeir bændur, sem ekki vilja vera niðursetningar, ættu að beina geiri sínum að búvörumafíunni og stjórnmálaflokkum hennar, er hafa búið til ástandið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hálf veltan er tap

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja 28 milljón króna nýtt hlutafé í Steinullarverksmiðjuna á Sauðárkróki, sem er ein hinna frægu framkvæmda, er ríkið hefur staðið fyrir eða tekið þátt í, þrátt fyrir aðvaranir beztu manna um, að dæmið geti ekki gengið upp.

Orkuverið við Kröflu er venjulega tekið sem merkasta og dýrasta dæmið um gæludýr af þessu tagi. Einnig má nefna Þörungavinnsluna á Reykhólum og nokkrar graskögglaverksmiðjur hér og þar um landið. En Steinullarverksmiðjan sómir sér vel í þessum fríða flokki.

Helzta afrek verksmiðjunnar er, að á þessu öðru starfsári hennar tekst henni að tapa um 50 milljónum af um 100 milljóna króna veltu. Hún tapar annarri hverri krónu, sem veltur um hendur hennar. Afar sjaldgæft er að frétta af svo sérstæðri afkomu fyrirtækis.

Í fyrra tapaði verksmiðjan 40 milljónum króna þann hluta úr árinu, sem hún var starfrækt. Þannig hefur hún alls tapað 90 milljónum eða rúmlega öllu hlutafénu, sem í hana hefur verið lagt. Hluthafarnir, með ríkið í broddi fylkingar, hafa tapað hverri krónu.

Fyrirsjáanlegt er, að á næsta ári verði enn tap á svipuðum nótum eða um 40 milljónir króna. Til að standa undir því hyggjast hluthafarnir leggja fram 70 milljónir króna í nýju hlutafé. Fremst fer þar í flokki ríkið sjálft, sem á 40% í gæludýrinu og þarf að borga 28 milljónir.

Í venjulegum rekstri teldu menn tímabært að leggja niður vopn og beina kröftum sínum að ánægjulegri verkefnum. En það má ekki í þessu tilviki, því að Steinullarverksmiðjan er eitt gæludýranna, sem talið er vera hornsteinn byggðastefnu og þjóðernis í þessu landi.

Í rauninni er Steinullarverksmiðjan byggðagildra, sem sogar til sín fjármagn bæjarsjóðs Sauðárkróks, ýmissa fyrirtækja og einstaklinga á staðnum og býr til tímabundna atvinnu, sem hefur truflandi áhrif á eðlilega framvindu. Allir málsaðilar tapa á henni.

Verksmiðjan var reist með því að brjóta fyrstu grein sérstakra laga um hana, þar sem ljóst stóð, að 40% aðild ríkissjóðs væri háð því, að heildarhlutaféð næði 30% af stofnkostnaði. Þetta skiptir þó litlu núna, þegar stofnkostnaður er að verða smáræði miðað við tapið.

Sem dæmi um blindnina, sem stjórnaði ferðinni, má nefna, að verksmiðjan kom með áætlaða 6000 tonna árlega afkastagetu inn á markað, sem hafði tekið við 600 tonnum á ári. Hún var reist til að anna hvorki meira né minna en tíföldum steinullarmarkaði í landinu.

Til að bæta stöðuna var ákveðið að ryðjast með steinullina inn á markað glerullar og plasteinangrunar. Þar með var ógnað atvinnu um 50 manna í 16 smáfyrirtækjum hér og þar á landinu. Þetta var gert með undirboðum. Verðið var lækkað niður fyrir glerullarverð.

Ráðamenn verksmiðjunnar kvarta um undirboð annarra. Samt er verð Steinullarverksmiðjunnar sjálfrar skólabókardæmi um undirboð, þar sem það hefur á þessu ári aðeins reynzt geta staðið undir helmingi kostnaðar. Undirboð verksmiðjunnar nemur því 50%.

Nú hefur ríkisstjórnin ákveðið, að hún hafi nóga peninga til að ausa meira fé í botnlausa kelduna. Þess vegna verður verksmiðjan enn rekin um sinn. Eftir því sem leikurinn verður lengri, munu freistingar ráðamanna magnast. Þeir munu reyna aðrar aðferðir.

Næst fáum við að heyra, að banna þurfi innflutning á samkeppnisvörum verksmiðju, sem hefur hálfa veltuna í tapi. Húsbyggjendur verða látnir borga.

Jónas Kristjánsson

DV

Veikgeðja fjárlög

Greinar

Í nálægum löndum hefur tíðkazt áratugum saman, að ríkið beiti eigin fjármálum til að stuðla að jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það gerir ríkisvaldið með því að auka umsvif sín, þegar illa árar og atvinna er lítil, en minnka þau, þegar vel árar og atvinna er mikil.

Þegar atvinnuleysi er mikið, eru gild rök fyrir, að hið opinbera reyni að fylla í skarðið með ýmsum hætti, meðal annars með því að taka mikið fé að láni og leggja út í stórframkvæmdir. Þannig hafa margar ríkisstjórnir reynt að þenja hagkerfið á samdráttartíma.

Jafngild rök eru fyrir, að ríkið stefni í öfuga átt, þegar þensla er í hagkerfinu, er eftirspurn eftir starfs-röftum er meiri en framboð á þeim. Þá reyni ríkið að endurgreiða fyrri lán og fresta framkvæmdum til að vega á móti athafnagleði annarra og draga úr verðbólgu.

Þetta síðara ástand ríkir hér á landi um þessar mundir, hið margnefnda góðæri. Mikið fjör er í atvinnulífinu og laus störf eru margfalt fleiri en hinir atvinnulausu. Hagfróðir menn hafa varað við, að í þessu felist spenna, sem geti ýtt verðbólgunni á fulla ferð á nýjan leik.

Í samræmi við það ættu fjárlög ríkisins á næsta ári að vera hallalaus og hið opinbera ætti að grynna á skuldum sínum í útlöndum. Það geta ríkisstjórnin og þingmannameirihluti hennar gert með því að fresta framkvæmdum og skera niður rekstur í stórum stíl.

Þetta er ekki bara skynsamlegt, heldur einnig í samræmi við loforð, sem ríkisstjórnin hefur gefið samtökum vinnumarkaðsins. Hún hefur skriflega lofað þeim jafnvægi í efnahagsmálum á næsta ári, stöðugu gengi, minni lántökum í útlöndum og sparsemi í fjármálum.

Samkvæmt þessu ættu ríkisstjórnin og þingmenn hennar að vera í önnum þessa dagana við að skera á brott hallann á fjárlagafrumvarpinu, sem stjórnin lagði fram í haust. Þessir aðilar ættu að vera að ákveða að fresta framkvæmdum og draga úr ýmsum rekstri.

En því er ekki til að dreifa. Um þessar mundir er verið að bæta ofan á fjárlagafrumvarpið og auka hinn upphaflega halla þess. Og svo makalaus er þessi iðja, að aukningin er hlutfallslega mikil í fyrirhugaðri fjárfestingu ríkisins á næsta ári.

Í fyrstu útgáfu frumvarpsins var gert ráð fyrir, að aukning yrði um 6% á magni opinberra framkvæmda milli áranna 1986 og 1987. Eðlilegra hefði verið í góðærinu að minnka magn opinberra framkvæmda. Og eftir meðhöndlun þingmanna hefur hlutfallið enn hækkað.

Ekki er hægt að segja, að ríkið sé svelt í fjárfestingu. Samkvæmt frumvarpinu eiga meira en átta milljarðar að fara til opinberra framkvæmda á næsta ári. Það samsvarar yfir 20% af niðurstöðutölum fjárlaga. Vel hefði mátt skera eitthvað af þessum ósköpum.

Þingmenn telja þetta vafalaust nauðsynlegar framkvæmdir. En þú og ég vitum hins vegar, að við sjálfir getum ekki ráðizt í alla fjárfestingu, sem okkur langar í. Við verðum að fresta mörgu. Og við teldumst lánsamir, ef við gætum notað 20% tekna okkar í fjárfestingu.

Niðurstaðan er, að stjórnarflokkarnir stefna í verki í þveröfuga átt við það, sem þeir hafa lofað og skynsamlegt væri að gera. Þeir eru að auka framkvæmdir hins opinbera og magna skuldasúpuna í útlöndum í stað þess að reyna að hamla á móti þenslunni í þjóðfélaginu.

Ástæðan er, að stjórnarflokkarnir eru veikgeðja. Þeir eiga erfitt með að segja nei. Þeir lofa út og suður og búa svo til veikgeðja fjárlög, þjóðinni til bölvunar.

Jónas Kristjánsson

DV

Stjórnað í Garðastræti

Greinar

Landinu hefur á þessu ári verið stjórnað í Garðastræti. Þar hafa komið saman fulltrúar Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins og sent ríkisstjórninni skilaboð um, hvernig hún skuli framkvæma vilja aðila vinnumarkaðsins.

Fyrsta ákvörðun Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins var tekin í febrúar og hin síðari nú í desember. Í bæði skiptin hefur hin formlega ríkisstjórn tekið vel fyrirmælum aðila vinnumarkaðsins og lofað að haga efnahagsstefnunni í samræmi við þau.

Ýmis fyrirmælanna eru á sviðum, sem til skamms tíma voru fremur talin heyra undir hina pólitískt kjörnu fulltrúa þjóðarinnar á Alþingi og ríkisstjórnina, sem Alþingi myndar um meirihluta. Þetta vald virðist smám saman vera að leka til aðila vinnumarkaðsins.

Ríkisstjórnin hefur tekið að sér að draga úr lántökum sínum í útlöndum, reyna að sýna aðhald í peningamálum og í verðskrám opinberra aðila og landbúnaðarins, halda gengi krónunnar föstu og neita kjúklinga- og eggjabændum um að komast á ríkisframfæri.

Forsætisráðherra hefur tekið fram, að erfitt sé að fara eftir öllum þessum fyrirmælum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins, en reynt verði að gera það í öllum liðum, enda fari þau að flestu leyti saman við eigin áhugamál ríkisstjórnarinnar.

Svo vel vill til, að bæði í febrúar og nú í desember hafa fyrirmæli heildarsamtaka vinnumarkaðsins verið af hinu góða. Þau hafa falið í sér viðleitni við að tryggja góðan þjóðarhag, svo að lífskjör megi batna án þess að afkomu atvinnulífsins sé stefnt í hættu.

Í febrúar var á þennan hátt lagður grundvöllur að verulegum lífskjarabótum og nú í desember að sérstökum lífskjarabótum hinna lægst launuðu. Samningurinn í febrúar fól í sér litla verðbólgu og nýi samningurinn virðist ekki heldur munu fela í sér mikla verðbólgu.

Að þessu sinni er sérstaklega mikilvægt, að samið var um, að hinir betur settu héldu lífskjarabótum ársins 1986, en fengju ekki auknar kjarabætur árið 1987 umfram verðbólgu ársins, svo að allt svigrúmið yrði notað til að bæta lægstu launin í þjóðfélaginu.

Um þessa síðustu niðurstöðu er þjóðarsátt, einhver merkasta þjóðarsátt síðustu ára. Það er einmitt vegna hennar, að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið geta sent ríkisstjórninni fyrirmæli um, hvernig hún eigi að standa að stjórn efnahagsmála á næsta ári.

Hitt er svo enn óvíst, hvernig ríkisstjórninni muni ganga að standa við loforð sín. Hún er veiklunduð, svo sem bezt kemur fram í, að vinnumarkaðurinn skuli þurfa að knýja hana til góðra verka. Þetta veiklyndi kemur vel fram í fjárlagafrumvarpi hennar.

Ef ríkisstjórnin ætlar að standa við gefin loforð um litla verðbólgu, fast gengi og litlar lántökur í útlöndum, þarf hún að skera niður fyrirhugaðar framkvæmdir opinberra aðila í frumvörpum til fjárlaga og lánsfjárlaga. Því miður virðist lítil hreyfing vera í þá átt.

Jafnvel þótt ríkisstjórninni takist að verða fullgildur aðili að þjóðarsáttinni, sem varð til í Garðastræti um síðustu helgi, er æskilegt, að við völdum taki í vor ríkisstjórn, sem hefur bein í nefinu til að halda uppi góðri efnahagsstjórn, án þess að vera neydd til þess.

Hversu góðar reglur sem hafa nú komið úr Garðastræti er eðlilegt, að framvegis komi frumkvæði í málum þjóðarhags frá húsum við Lækjartorg og Austurvöll.

Jónas Kristjánsson

DV

Óhóflegt sjálfstraust

Greinar

Tilraun Davíðs Oddssonar til að selja ríkinu Borgarspítalann felur í sér ýmis mistök. Önnur af tveimur þeirra alvarlegustu er að vanmeta almenna andstöðu reykvískra flokksbræðra sinna gegn útþenslu ríkisbáknsins. Sú andstaða hefur skýrt komið fram í vikunni.

Margir stuðningsmenn Sjálfstæðisflokksins spyrja, hvers vegna borgarstjóri þeirra hafi skipt um skoðun frá því í kosningunum og tekið upp á sína arma kosningamál Framsóknarflokksins, sem hann gerði grín að. Fólk telur Davíð ekki sjálfum sér samkvæman.

Hin stóru mistökin eru ekki síður alvarleg. Þau eru að klúðra málinu, svo að það nái tæpast fram að ganga. Kjósendur Davíðs taka nefnilega í mesta lagi einn hlut fram yfir hugsjónina gegn ríkisrekstri. Það er, að forustumönnum þeirra takist sæmilega að ná sínu fram.

Svo virðist sem borgarstjórinn hafi verið svo fullur sjálfstraust, að hann hélt, að hann gæti upp á sitt eindæmi selt Borgarspítalann án þess að tala við kóng eða prest. Hann þyrfti ekki samþykki borgarstjórnar og enn síður samráð við fjölmennt starfslið sjúkrahússins.

Sennilega hefur Davíð miklast af því, hve auðvelt honum hefur reynzt hingað til að taka mikilvægar ákvarðanir á borð við að afhenda fasteignasölu lóð í miðbænum og kaupa lóðir og lönd af gömlum vinum flokksins. Loksins fór svo, að hann kunni sér ekki hóf.

Þá hefur hann ofmetið getu ráðherra til að kaupa Víðishús og Mjólkurstöðvar framhjá fjárlögum og án nokkurra heimilda. Það fór líka svo, að fyrirhuguð kaup á Borgarspítala fóru yfir mark hins mögulega að mati hluta þingflokksins, sem mótmælti á kvöldfundi.

Davíð situr nú uppi með að hafa meira eða minna í kyrrþey reynt að framkvæma stefnu Framsóknarflokksins án þess að flokksbræður hans í ríkisstjórn geti leyft sér að kaupa. Hann sé ekki lengur sá kraftaverkamaður, er nái öllu fram, sem hugurinn girnist.

Þingmenn Framsóknarflokksins hafa af eðlilegum ástæðum tekið vel í söluna og vitna til þess, að upprunalega hafi hún verið kosningamál reykvískra framsóknarmanna. Hins vegar hafa þingmenn Sjálfstæðisflokksins fundið hina eindregnu óánægju sinna manna.

Margt má læra af þessu. Eitt er, að skyndisókn gengur ekki, nema hún sé framkvæmd af sama hraða og kaupin á Olísbréfunum. Ef þau hefðu tekið meira en helgi, hefðu þau verið stöðvuð, alveg eins og Davíð hefur nú verið stöðvaður, af því að hann var of seinn.

Annað er, að ekki er gulltryggt, að einræðisaðferðir nái alltaf árangri, þótt það takist nokkrum sinnum. Jafnvel borgarstjórar og ráðherrar verða að sæta því, að völd þeirra eru ekki fullkomin. Svo getur farið, að hefðbundnar lýðræðisleiðir séu gagnlegri.

Flestir, sem um Borgarspítalamálið hafa fjallað, eru sammála um, að Davíð hafi staðið of geyst að málum. Ennfremur, að málið sé komið í slíkt óefni, að affarasælast sé að fresta framkvæmdinni um eitt ár, meðan allir málsaðilar séu að ná áttum í því.

Um viðskipti með spítala á að gilda hin sama regla og ætti líka að gilda í viðskiptum með Víðishús og Mjólkurstöðvar, lóðir í Skuggahverfi og lönd í Grafningi, að heppilegast er að gefa sér tíma til að fara eftir lögum, reglugerðum og ekki sízt almennum siðvenjum.

Sagt er, að allt vald spilli og alræðisvald gerspilli. Við höfum hins vegar séð dæmi um, að það getur ruglað valdhafann og valdshyggjumanninn í ríminu.

Jónas Kristjánsson

DV

Rífum nýju húsin

Greinar

Hin gagnlega umræða um skipulag Kvosarinnar hefur leitt í ljós, að unnt er að setja tiltölulega einfaldar og skýrar línur um æskilegt skipulag hennar. Flestar, ef ekki allar, ganga í berhögg við úreltar hugmyndir, sem borgarstjórnin er að velta fyrir sér.

Fyrsta reglan er að setja tímamörk við árið 1950. Öll hús Kvosarinnar, sem eru eldri, skuli verða gerð upp með tilliti til upprunalegrar fegurðar þeirra. Öll hús, sem eru yngri, skuli rifin eða lækkuð og máluð lítt áberandi litum, svo að ófríðleiki þeirra ami okkur síður.

Ef Jónassenshúsið að Lækjargötu 8 væri fært í upprunalegt horf frá 1870, yrðum við einu fallegu húsi ríkari. Ef Nýja bíó yrði rifið, yrðum við einu ljótu húsi fátækari. Þannig má rekja slóðina um Lækjargötu, Austurstræti, Aðalstræti og Kirkjustræti.

Önnur reglan er að fækka akreinum í Kvosinni og gera sprengjuheldar bílageymslur inni í Arnarhól og undir ýmsum auðum lóðum í næsta nágrenni Kvosarinnar. Það forðar okkur frá hörmulegum bílageymsluhúsum og aflar aðstöðu fyrir stjórnvöld á stríðstímum.

Flestum má vera ljóst gildi þessarar reglu. Hún verndar Tjörnina í núverandi stærð, dregur úr bílaumferð um Kvosina og auðveldar akandi fólki að komast í verzlanir og þjónustu gamla bæjarins. Um þetta geta kaupmenn og aðrir borgarar verið sammála.

Þriðja reglan er að reka bankana úr Kvosinni og senda þá í útibú þeirra hér og þar í bænum. Nútíma tölvu- og símatækni gerir þetta kleift. Seðlabankann mætti senda upp á Sprengisand, ef hann verður þá ekki lagður niður í sparnaðar- og ábataskyni fyrir þjóðina.

Hins vegar mega elztu hlutar Landsbankans og Útvegsbankans halda sér, enda teiknaðir á tímum hinnar listrænu smekkvísi, sem felst í hófsamlegum stærðum. Marmaraskúrinn við austurhlið Landsbankans mætti rífa á nýársnótt, Reykvíkingum til fagnaðar.

Fjórða reglan er að koma hinum fyrirhugaða alþingiskassa fyrir undir Austurvelli. Hann má hafa sprengjuheldan, svo að Alþingi geti áfram gefið út lög og ályktanir um áhugamál sín, þótt styrjaldir geisi. Hins vegar á að láta í friði gömlu húsin við Kirkjustræti.

Skilyrði fyrir þessu er þó, að framkvæmdir verði háðar að vetrarlagi og standi aðeins í sex mánuði. Ef íslenzkir verkfræðingar og verktakar mikla þetta fyrir sér, má ráða til þess starfsbræður þeirra frá New York, sem mundu leika sér að þessu verki á þremur mánuðum.

Fimmta reglan er, að almennt verði hinar reglurnar látnar gilda um allan gamla bæinn innan Hringbrautar og Snorrabrautar, þar á meðal Skuggahverfið, sem borgarstjórnin vill eyðileggja. Ekki þarf langa göngu um svæðið til að sjá, að almennt eru hús því fallegri, sem þau eru eldri, og því ljótari, sem þau eru yngri.

Helzta undantekningin er, að gott væri að byggja glerþak yfir ásinn frá Hallærisplani til Hlemmtorgs, svo að Reykvíkingar geti verzlað í góðu veðri allan ársins hring. Við þyrftum þá ekki að hlaupa upp í vindinn og regnið milli búða, heldur gætum gefið okkur góðan tíma.

Þessar reglur, sem hér hafa verið skráðar, eru betra veganesti borgarstjórnar en hinar fáránlegu skipulagshugmyndir um hollenzk síkishús við stormgjár, sem hún er að velta fyrir sér þessa dagana.

Að lokum má benda borgarstjóranum á, að kjörið er að hlífa Tjörninni við ráðhúsi og kaupa í staðinn elztu hluta Landsbankans eða Útvegsbankans fyrir ráðhús.

Jónas Kristjánsson

DV

Búvörumafían sækir fram

Greinar

Ánægjulegt er, að þingmenn, með Karl Steinar Guðnason í broddi fylkingar, hafa gert tilraun til að vara ríkisstjórnina við áformum búvörumafíunnar um að ná tökum á eggjaframleiðslu í landinu ­ gegn hagsmunum launþega, neytenda og skattgreiðenda.

DV hefur undanfarnar vikur skýrt frá tilraunum gælufyrirtækisins Íseggs til að kaupa eggjaframleiðsluhluta Holtabúsins og ná þannig tæpum eða rúmum helmingi eggjadreifingarinnar í landinu. Með því fengi Ísegg lagalegan grunn til að heimta kvótaskiptingu.

Ísegg er eitt af nýjustu gæludýrum búvörumafíunnar. Því var komið af stað með fé úr sjóðum, sem neytendur halda uppi í verði ýmissar einokunarvöru hins hefðbundna landbúnaðar. Það átti að safna smáframleiðendum saman undir hatti búvörumafíunnar.

Þannig átti að nota peninga neytenda til að gera framleiðslu mafíubændanna ódýrari en framleiðslu hinna sjálfstæðu bænda, sem reka stórbú og halda niðri verði á eggjum. Þannig átti smám saman að koma upp einokun, eins og einnig hefur verið reynt með Ísfugli.

Þetta hefur gengið hrapallega. Ísegg er á heljarþröm og rambar á barmi gjaldþrots. Reksturinn hefur verið í þungum stíl búvörumafíunnar. Fyrirtækið hefur greitt eggjabændum seint og illa og lítið, svo að margir þeirra hafa gefizt upp á viðskiptunum við gæludýrið.

Ráð búvörumafíunnar til lausnar er, að Ísegg kaupi stærsta eggjabú landsins, eggjahluta Holtabúsins. Þar með fengi Ísegg hinn langþráða helming eggjadreifingarinnar í landinu og gæti krafizt þess, að samkeppni yrði lögð niður með kvótakerfi.

Samkvæmt búvörulögum, sem Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn bera ábyrgð á, er landbúnaðarráðherra heimilt að skella kvótakerfi á nýjar búgreinar, ef meirihluti framleiðenda í viðkomandi grein fer fram á það. Þetta vald vill ráðherra nota.

Þar sem Ísegg getur ekki keypt eggjahluta Holtabúsins af eigin rammleik, er enn einu sinni leitað til eins hinna mörgu sjóða, sem búvörumafían liggur á. Fram leiðnisjóður landbúnaðarins hefur tekið á sínar herðar 50­70 milljón króna ábyrgð handa Íseggi til kaupanna.

Framleiðnisjóður hefur beðið landbúnaðarráðherra að heimila þessa fáránlegu fyrirgreiðslu. Í umræðunum á Alþingi í gær lofaði ráðherrann að bera málið upp í ríkisstjórninni. Því er ekki enn ljóst, hvort búvörumafíunni tekst að ná eggjaframleiðslunni undir sig.

Ef það tekst, er fyrst settur á kvóti og verðið síðan hækkað í skjóli einokunarinnar, nákvæmlega eins og gert hefur verið í hinum hefðbundnu greinum, mjólkur- og sauðfjárafurðum. Þar hefur slík framleiðslustýring leitt til okurverðs og offramleiðslu í senn.

Markmið búvörumafíunnar er tvíþætt. Annars vegar vill hún gera smáum og óhagkvæmum framleiðendum kleift að halda áfram í skjóli okurverðs. Hún vill hlífa þeim fyrir samkeppni frá stóru búunum, sem hafa þanizt út, af því að þau hafa boðið neytendum lægra verð.

Hitt markmiðið er að hækka svo verð á afurðum hliðarbúgreinanna, að þær valdi hinum hefðbundnu búgreinum minni samkeppni en ella. Búvörumafían vonar, að á þann hátt megi aftur færa hluta neyzlunnar til hinna hefðbundnu greina og lækka afurðafjöllin þar.

Sókn búvörumafíunnar er á kostnað neytenda, einkum láglaunafólks, svo og skattgreiðenda. Ef hún nær eggjunum, tekur hún kjúklingana og svínakjötið næst.

Jónas Kristjánsson

DV

Tvíeggjuð prófkjör

Greinar

Niðurstöður prófkjörs og forvals stjórnmálaflokka um síðustu helgi hafa eflt stuðning við tillögu um breytt kosningalög, sem Jón Skaftason alþingismaður flutti fyrir tæpum áratug og Magnús H. Magnússon og fleiri alþingismenn hafa nú lagt fyrir Alþingi.

DV hefur frá upphafi stutt þessa hugmynd, sem felur í sér, að prófkjör verði sameinuð kosningum, þannig að kjósendur raði sjálfir frambjóðendum þess lista, sem þeir kjósa. Þessi aðferð er heimil í Danmörku og hafa flestir stóru flokkarnir notað hana með góðum árangri.

Aðferðin tryggir, að ekki hafi aðrir afskipti af vali frambjóðenda á lista en þeir, sem kjósa listann. Hún tryggir að allir frambjóðendur berjast fyrir framgangi listans, einnig þeir, sem fara halloka í númeraröðinni, sem kjósendur ákveða í kosningunum.

Önnur hugmynd gerir ráð fyrir, að flokkarnir sameinist um prófkjör og hagi því þannig, að hver kjósandi geti aðeins tekið þátt í prófkjöri eins flokks. Þetta mun þó ekki hindra, að stjórnmálamenn hafi svigrúm til að fara í fýlu og sérframboð, sem spilli fyrir flokkunum.

Óraðaðir listar eru ekki allra meina bót. Búast má við, að áfram reyni einstakir frambjóðendur að vekja athygli á sér umfram aðra frambjóðendur á sama lista. Þannig má gera ráð fyrir, að umstang og kostnaður prófkjörs leggist ekki niður við breytinguna.

Persónulegar auglýsingar og kynning einstakra frambjóðenda mundu þó falla í ramma kosningabaráttu viðkomandi flokks og þannig væntanlega hafa á sér annan og mildari svip en hefur að undanförnu verið á baráttu einstakra frambjóðenda í prófkjöri.

Ekki má heldur líta svo á, að persónuleg spenna sé eingöngu af hinu illa. Prófkjör hafa ekki dottið úr lausu lofti ofan á flokkana. Þau eru komin til sögunnar, af því að flokkarnir þurftu að finna leiðir til að velja frambjóðendur, er sem flestir væru sáttir við.

Prófkjör hafa í mörgum tilvikum gefizt vel. Þau hafa stundum beinlínis verið nauðsynleg, sérstaklega eftir tímabil prófkjörsleysis. Þau hafa skorið úr, hvort valdamynztur flokksins í kjördæminu væri eðlilegt eða hvort gera þyrfti á því umtalsverðar breytingar.

Þegar Sjálfstæðisflokknum láðist fyrir fjórum árum að hafa prófkjör á Vestfjörðum, leiddi það til vandræða og sérframboðs. Í þetta sinn var haft prófkjör og verður ekki betur séð, en allt hafi fallið þar í ljúfa löð. Þannig geta prófkjör gert flokkum mikið gagn.

En það er eins og þau henti stundum og stundum ekki. Í sumum tilvikum skilja þau flokka eftir í rúst. Og það virðist ekki fara eftir aðferðinni, sem notuð er. Allar aðferðir geta reynzt vel eða illa, eftir því hvernig á stendur. Um þetta höfum við nýleg dæmi.

Í Norðurlandi vestra bjó Framsóknarflokkurinn til prófkjörsreglur, er áttu að hindra allt það böl, sem komið hefur óorði á prófkjör. Niðurstaðan var þveröfug á við það, sem til var ætlazt. Reglurnar framkölluðu harðvítug bræðravíg, sem tekur langan tíma að jafna.

Framsóknarflokkurinn liggur í sárum eftir prófkjör í nokkrum kjördæmum. Klofningsframboð Stefáns Valgeirssonar er boðað á Norðurlandi eystra. Þingmaður flokksins í Reykjavík er kolfallinn og kennir um vondum og ríkum öflum, sem hafi hertekið flokkinn.

Að fenginni prófkjörsreynslu má vona, að smám saman sé að mótast pólitískur vilji á Alþingi fyrir, að teknir verði upp óraðaðir listar í alþingiskosningum.

Jónas Kristjánsson

DV

Hagsmunaárekstur

Greinar

Dapurleg var útkoma svonefnds verkalýðsarms í forvali Alþýðubandalagsins í Reykjavík um síðustu helgi. Hið hefðbundna annað sæti náðist ekki. Framkvæmdastjóri Dagsbrúnar lenti í sjötta sæti og forseti Alþýðusambandsins tók land í hinu þriðja.

Ekki munaði ýkja miklu, að Ásmundur Stefánsson hafnaði í fjórða sæti og Þröstur Ólafsson í hinu sjöunda. Þeir máttu raunar teljast heppnir, að ekki fór verr. Ásmundur getur þó varpað öndinni léttar, því að hann náði sæti, sem telja má öruggt þingsæti.

Sú spurning hlýtur að verða áleitin, hvort alþýðubandalagsfólk sé ekki eins og annað fólk tiltölulega efagjarnt í garð manna, er bjóða sig fram til stjórnmála sem umboðsmenn öflugra hagsmunasamtaka, ­ og hafi viljað vekja athygli þeirra félaga á þessum efasemdum.

Það liggur í augum uppi, að hagsmunaágreiningur hlýtur að geta orðið milli þingmannsefnanna Ásmundar Stefánssonar og Þrastar Ólafssonar annars vegar og verkalýðsleiðtoganna Ásmundar Stefánssonar og Þrastar Ólafssonar hins vegar.

Svo virðist einmitt sem pólitískar framavonir þessara tveggja forvalsframbjóðenda hafi haft umtalsverð áhrif á gang kjarasamninga. Ef þeir hefðu ekki verið í samkeppni í forvali, hefðu ekki orðið þau læti, sem urðu í samningaviðræðunum í síðustu viku.

Segja má, að Dagsbrúnarmenn hafi byrjað darraðardansinn með því að kvarta yfir því þegar á miðvikudaginn var, eftir aðeins tveggja daga samningaviðræður við atvinnurekendur, að þessar viðræður væru komnar í stöðu, sem væri Dagsbrún mjög á móti skapi.

Síðan var bætt um betur með því að koma á framfæri, að Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið hefðu í nokkra daga verið með á borði sínu drög að samkomulagi um hækkun lágmarkslauna upp í 25.000 krónur gegn eftirgjöf af væntanlegri desemberhækkun.

Frétt um þetta fannst Ásmundi Stefánssyni vera stefnt gegn sér sem frambjóðanda í forvali Alþýðubandalagsins. Hann óttaðist, að samkomulagsdrögin yrðu notuð gegn sér í forvalinu. Hann beinlínis trylltist, svo sem sjá mátti og heyra í fjölmiðlum á föstudag.

Þannig var ekki lengur hægt að tala af viti í bili um kjarasamninga. Allt gekk út á forval Alþýðubandalagsins, hvaða verkalýðsfulltrúi væri þar að grafa undan hvaða verkalýðsfulltrúa. Menn komust ekki niður á jörðina aftur fyrr en að lokinni talningu.

Eftir talninguna er ljóst, að Dagsbrún liggur í meiri sárum en Alþýðusambandið. Meðal annars þess vegna er Dagsbrún farin heim í fýlu, meðan önnur félög Verkamannasambandsins og öll stjórn þess, nema Guðmundur J. Guðmundsson, halda áfram samningaviðræðum.

Öll þessi atburðarás lyktar af því, að gangur heildarkjarasamninga á vinnumarkaði sé meira eða minna að mótast af þörfum nokkurra manna, sem telja sig þurfa meiri völd í þjóðfélaginu en þeir hafa sem forustumenn í stéttarfélögum og samtökum þeirra.

Hitt er svo líklegt, að daufa útkomu beggja leiðtoganna í forvali Alþýðubandalagsins megi að nokkru leyti skilja sem skilaboð frá kjósendum forvalsins um, að þeir hafi fyrir helgina verið staðnir að hagsmunaárekstri forvals og kjarasamninga.

Í þessu sem öðru reynist mönnum erfitt að þjóna tveimur herrum ­ og verða svo sárreiðastir, þegar bent er á tvískinnunginn í afstöðu þeirra og viðbrögðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Kaupin á eyrinni

Greinar

Nú er komin niðurstaða úr átökum Alþýðubandalagsins um skipan framboðslista þess í Reykjavík. Hinn svokallaði verkalýðsarmur þess getur nú, eftir fremur dapurlega niðurstöðu, snúið sér að minni háttar málum á borð við gerð nýrra kjarasamninga.

Um leið er líklegt, að réni taugaveiklun þeirra leiðtoga, sem voru fyrir löngu búnir að semja um, hver yrði líkleg niðurstaða samninganna. Litlu skiptir, hvort það er kallað leynisamkomulag eða eitthvað annað. Aðalatriðið er, að málsaðilar eru á réttum nótum.

25.000 króna lágmarkslaun þýða í framkvæmd 27.600 króna laun. Það er lægri tala en þær 30.000 eða 36.000 krónur, er veifað hefur verið að undanförnu sem sanngjörnum lágmarkslaunum. En 27.600 krónur eru þó umtalsverð breyting á núverandi ófremdarástandi.

Augljóst er, að siðað þjóðfélag getur ekki boðið lágmarkslaun, sem eru innan við framfærslukostnað einnar manneskju, hvað þá ef hún er einstæð móðir með börn á framfæri sínu. Ásmundur þarf ekki að skammast sín fyrir að bæta kjör hennar á kostnað annarra.

Hitt er svo jafnaugljóst, að uppmælingaraðall og aðrar yfirstéttir verkalýðshreyfingarinnar eru ekki sátt við niðurstöðu, sem felur í sér, að þeirra fólk verði að fórna einhverju fyrir hinar raunverulegu lágstéttir þjóðfélagsins, einstæðar mæður á taxtakaupi.

Nú er komið í ljós, að fulltrúi Dagsbrúnar og sambands byggingamanna hefur farið mun verr út úr forvali Alþýðubandalagsins heldur en leynisamningaforseti Alþýðusambandsins. Því er minni ástæða en áður fyrir hinn síðarnefnda að hlusta á hinn fyrrnefnda.

Aðalatriði málsins var, að ekki er hægt að semja um kjör á þessu landi, meðan Alþýðubandalagið í Reykjavík stendur í forvali. Nú er þeim burtreiðum lokið, og menn geta aftur setzt niður við að ganga frá því samkomulagi, sem þeir eru fyrir löngu búnir að gera.

Ef einhver efast enn um, að búið hafi verið að ná samkomulagi, má spyrja hann, hvers vegna Dagsbrún taldi sér nauðsynlegt í upphafi viðræðna að mótmæla þessu samkomulagi, hvers vegna Dagsbrún taldi sér nauðsynlegt að sprengja hið ónefnanlega samkomulag.

Sennilega verða það menn Dagsbrúnar, sem bíða ósigur í þessum skærum. Þeir hafa verið staðnir að því að reyna að eyðileggja samkomulag, sem miðaði að því að færa lífskjör frá uppmælingaraðli til einstæðra mæðra á taxtakaupi.

Við slíkar aðstæður getur hentað Dagsbrún að hafa í forsvari véfréttamann, sem talar út og suður, gengur úr samfloti og heldur samfloti áfram í senn. Við slíkar aðstæður er sniðugt, að formaður Dagsbrúnar og Verkamannasambandsins er einn og sami maðurinn.

Úr því að uppákoman hefur gerzt, er ekki hægt að undirrita áður gert samkomulag. Hugsanlegt er, að samningsaðilar verði að þrúkka í tvo mánuði um einstök atriði, svo sem að samningurinn gildi ekki í heilt ár, heldur átta til tíu mánuði.

Uppmælingaraðallinn, sem Guðmundur J. Guðmundsson ber fyrir brjósti, fær sín 2,5% um þessi mánaðamót. Þjóðfélagið stendur ekki eða fellur með því fráviki frá þegar gerðu samkomulagi. Einstæðu mæðurnar borga það eins og svo margt annað.

Þjóðin hefur enn einu sinni orðið vitni að því, hvernig kaupin gerast á eyrinni. Þau kaup eru merk, en undir engum kringumstæðum má kalla þau leynisamkomulag.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjóshaugur forsetans

Greinar

Því miður hefur Reagan Bandaríkjaforseti ákveðið að framkvæma hótun sína frá í vor um að hverfa frá hinu undirritaða en óstaðfesta SALT-samkomulagi við Sovétríkin frá árinu 1979 um ákveðnar takmarkanir á fjölda langdrægra kjarnorkueldflauga.

Þessi ákvörðun kemur í kjölfar ýmissa tilrauna forsetans til að víkjast undan árangrinum, sem náðist á toppfundi hans og Gorbatsjovs, flokksleiðtoga í Sovétríkjunum, í Reykjavík í síðasta mánuði. Sú braut, sem forsetinn hefur fetað eftir toppfundinn, er ógæfuleg.

Að sjálfsögðu verða menn jafnan að gæta sín til hins ýtrasta, þegar reynt er að semja við óargaríki á borð við Sovétríkin. En ekki dugar að hlusta bara á herforingja og hergagnaframleiðendur, sem halda fram ýktum kenningum um hernaðarmátt Sovétríkjanna.

Rangt er til dæmis, að yfirburðir Sovétríkjanna í hefðbundnum vopnabúnaði séu svo eindregnir, að Reagan Bandaríkjaforseti neyðist til að hörfa til baka frá ófullgerðu samkomulagi toppfundarins um stórfelldan niðurskurð kjarnorkuvopna af öllu tagi.

Á síðustu vikum hefur smám saman verið að koma í ljós, að forseti Bandaríkjanna er ekki nógu hæfur leiðtogi. Íslendingar fengu smjörþefinn af því í sjónvarpinu, þegar hann flutti kveðjuræðu sína við brottförina frá Keflavíkurflugvelli eftir toppfundinn í Reykjavík.

Hann talaði þar á lágu plani, rétt eins og hann væri í framboði til sveitarstjóra á Keflavíkurflugvelli, sagði nokkra fúla brandara og var rokinn. Þetta var í skarpri andstöðu við áherzluþungan blaðamannafund Gorbatsjovs, hins snjalla áróðursmeistara Sovétríkjanna.

Síðan hefur forsetinn verið staðinn að alvarlegum dómgreindarskorti í leynilegum samskiptum við grimmdarstjórn klerkanna í Persíu. Hann lét senda þangað vopn í skiptum fyrir gísla. Samt eru hinir bandarísku gíslar í Miðausturlöndum jafnmargir og áður.

Augljóst er, að tilgangslítið er að kaupa gísla. Mannræningjarnir taka bara nýja gísla fyrir hina gömlu og hækka verðið. Gíslar eru eins konar stríðsfangar. Heimsveldi mega ekki hafa svo mikla samúð með þeim, að alþjóðlegum hagsmunum ríkisins sé stefnt í voða.

Steininn tók svo úr, þegar upp komst, að hluti bandarísku vopnanna hafði raunar verið seldur Persíuklerkum fyrir peninga, sem lagðir voru inn á bankareikning glæpamanna, svokallaðra Contra-skæruliða, er Reagan vill, að steypi ríkisstjórninni í Nicaragua.

Þessi fáránlegi vopnaþríhyrningur var skipulagður í kjallara Hvíta hússins og framkvæmdur á þeim tíma, er slíkur stuðningur við Contra var ólöglegur. Ennfremur varðaði hann við ýmis lög um samráð við bandaríska þingið, utanríkis- og varnarmálaráðuneytin.

Komið hefur í ljós, að Reagan hefur safnað um sig hirð undirmálsmanna, sem haga sér í utanríkismálum eins og fílar í glervörubúð. Fremstur fer þar starfsmannastjóri Hvíta hússins, yfirmaður öryggismálanefndar þess, svo og yfirmaður leyniþjónustunnar.

Nú er allt á hvolfi í Bandaríkjunum. Þingið og fjölmiðlarnir eru komnir á fulla ferð við að róta í fjóshaug forsetans. Alvarlegast er, að almenningur, sem hingað til hefur treyst honum, er að ganga af trúnni. Reagan hefur tæmt hinn ótrúlega mikla vinsældakvóta sinn.

Gamalmenni, sem nennir ekki að kafa sjálfur í málin og treystir á dómgreind jámanna, lendir fyrr eða síðar í vandræðum, sem ekki verða göldruð burt með brosi.

Jónas Kristjánsson

DV

Svindl virðisaukaskatts

Greinar

Virðisaukaskatturinn, sem ríkisstjórnin vill, að leysi núverandi söluskatt af hólmi, á að gefa ríkissjóði 18.150 milljónir á ári í stað 15.500 milljóna, sem söluskatturinn gefur. Í þessu felst árleg aukning skattheimtu ríkisins um 2.650 milljónir. Oft hefur munað um minna.

Sanngjarnt er þó að taka fram, að ríkisstjórnin hyggst jafnframt lækka tolla og vörugjald ­ og þar með tekjur sínar ­ af innfluttum matvælum um 550 milljónir króna. Sé þessi tala dregin frá, hyggst hún auka umsvif ríkissjóðs um heilar 2.100 milljónir króna á ári.

Ef ríkisstjórnin hefði aðeins ætlað sér að skipta á söluskatti og virðisaukaskatti, hefði henni nægt að láta 21% virðisaukaskatt leysa 25% söluskatt af hólmi. Þá hefði hún fengið í vasann sömu upphæð í nýja skattinum og í hinum gamla, 15.500 milljónir króna á ári.

Fyrir nokkrum vikum fréttist, að ríkisstjórnin ætlaði sér að hafa virðisaukaskattinn 25% eins og söluskatturinn er. Af því spruttu mótmæli, sem virðast hafa leitt til, að hún hefur lækkað sig niður í 24%. Það er skref í rétta átt, en samt alls ekki nógu langt.

Með frumvarpinu um virðisaukaskatt, sem ríkisstjórnin er að leggja fyrir Alþingi, leggur hún til, að ríkisumsvif verði aukin um rúmlega 2.100 milljónir króna á ári eða meira en 5%. Það er eitt stærsta ríkisdýrkunarskref hennar í átt til Stóra bróður.

Ríkisstjórnin afsakar sig með, að hún þurfi peninga til að milda áhrif skattbreytingarinnar á almenning, einkum fólk með þung heimili. Virðisaukaskatturinn leggist á almennar neyzluvörur þess, einkum innlenda búvöru og aðra matvöru, sem söluskatturinn geri ekki.

Ein spurningin, sem vaknar við þessa röksemd, er, hvers vegna þurfi að skipta á sköttum, ef það felur í sér 2.100 milljóna herkostnað í millifærslum af hálfu ríkissjóðs. Má þá ekki alveg eins hafa söluskattinn áfram og láta matvæli almennings í friði.

Ráðgjafar ríkisstjórnarinnar hafa sagt, að virðisaukaskatturinn sé réttlátari, af því að hann leggist á allt, en ekki bara flest eins og söluskatturinn. Þess vegna muni verða erfiðara að svindla undan virðisaukaskatti og að hann muni innheimtast betur.

Ein spurningin, sem vaknar við þessa röksemd, er, hvers vegna þurfi þá að fjölga starfsmönnum skattstofa úr 35 söluskattsmönnum í 70 virðisaukaskattsmenn. Felst ekki í því viðurkenning á, að virðisaukaskatturinn sé flóknari í vöfum og kosti meiri skriffinnsku.

Alvarlegasti veikleikinn í virðisaukapakka ríkisstjórnarinnar er, að 2.100 milljón króna tekjuauki ríkisins fer ekki nema að hluta til beinna aðgerða til að létta byrði barnafólks og annarra þeirra, sem þurfa að verja miklum hluta tekna sinna til kaupa á mat.

Í barnabætur eiga árlega að fara 525 milljónir og 175 milljónir í ellilífeyri eða samtals 700 milljónir. Þá standa eftir 1.400 milljónir, sem ríkið hyggst verja til lækkunar á húshitunarkostnaði og einkum þó til niðurgreiðslna til söluaukningar á kindakjöti og mjólkurafurðum.

Ríkisstjórnin kann að telja sér skylt að troða sem mestu af kjöti og smjöri ofan í neytendur. En vafasamt er, að það gagni þeim, sem ekki hafa ráð á slíku og verða að halda sig við fisk og smjörlíki, ­ þeim, sem virðisaukaskatturinn hlýtur að verða þungbærastur.

Ríkisstjórnin er bara að reyna að nota sér breytinguna yfir í virðisaukaskatt til að græða peninga til að nota til annarra og skaðlegra áhugamála Stóra bróður.

Jónas Kristjánsson

DV

Gamalt er betra en nýtt

Greinar

Nokkur gömul hús og mannvirki hafa fengið að vera í friði fyrir ásókn skýjakljúfa rétt hjá Wall Street í New York. Svæði þetta, sem heitir South Street Seaport, er orðið að vinsælasta ferðamannastað borgarinnar og einnig að einu af helztu verzlunarhverfum hennar.

Nokkrum dauðvona fiskiplássum í Maine í Bandaríkjunum hefur verið breytt í ferðamannastaði. Frískað hefur verið upp á gamla beitingaskúra og verbúðir og þeim breytt í krár, veitingahús og verzlanir. Fólk flykkist að úr fjarlægum héruðum til að njóta umhverfisins.

Reglan í Bandaríkjunum er að verða hin sama og í Evrópu. Hún er sú, að því eldri og fátæklegri sem húsin eru, þeim mun betra. Þau draga að sér mannlíf, veitingarekstur og viðskipti. Fólk er alveg hætt að hafa áhuga á að rífa gömlu húsin, sem áður voru kölluð kofar.

Í Kvosinni í Reykjavík hefur verið komið upp líflegum veitingarekstri í notalegu umhverfi, ekki í gler- og álhöllum, heldur í gömlum og fátæklegum kofum, sem einu sinni átti að rífa. Fólki líður vel í Torfunni, Lækjarbrekku, Fógetanum, Duus-húsi og Gauki á Stöng.

Þrátt fyrir viðvaranir hefur skipulagsnefnd borgar stjórnar Reykjavíkur samþykkt af Kvosinni skipulag, sem gerir ráð fyrir að ýmis gömul hús verði rifin eða gerð að Pótemkin-tjöldum framan við glerhallir. Vonandi grípur borgarstjórnin í taumana í tæka tíð.

Það á ekki að rífa gömlu og fátæklegu kofana í bænum. Miklu frekar á að rífa nýju og ljótu húsin, sem reist hafa verið síðan um stríð, þegar smekkvísi lagðist niður í byggingarlist á Íslandi. Það á að rífa eða lækka hús á borð við Nýja Bíó og Iðnaðarbankann.

Nóg er komið af misþyrmingum á gamla bænum. Útvegsbankinn og Landsbankinn hafa verið eyðilagðir á afkáralegasta hátt. Gamli Landspítalinn er að hverfa inn í skóg ótal byggingarstíla, þar sem hvert nýtt hús hefur verið teiknað í tillitsleysi við það, sem fyrir var.

Úrelt er orðið að skammast sín fyrir fátækleg hús frá þeim tímum, er þjóðin hafði ekki efni á að byggja hallir úr áli og gleri. Fólk er farið að viðurkenna, að einmitt gömlu húsin glæða bæinn lífi, meira að segja viðskiptum og gróða. Þess vegna á að vernda öll gömul hús.

Við sáum um daginn, að skammsýnir ráðamenn alþingis hafa verðlaunað teikningu að feiknarlegum alþingiskassa í bankakassastíl. Þessi ljóti kassi á að koma í stað nokkurra gamalla, fátæklegra og fallegra húsa við Kirkjustræti ­ og búa til stormgjá í Kvosinni.

Þarna er í uppsiglingu eitt mesta stórslysið í Kvosinni, alvarlegasta dæmið um, hversu lengi sumir eru að átta sig á hinni almennu reglu, að hið gamla er betra en hið nýja. Reykvíkingar verða með öllum tiltækum ráðum að hindra, að alþingiskassinn verði að veruleika.

Út frá sömu reglu má fastlega gera ráð fyrir, að ráðhúsið, sem reisa á við Tjörnina á horni Vonarstrætis og Tjarnargötu, verði ljótara og líflausara en húsið, sem þar stendur nú. Það væri nær að lagfæra gamla húsið eins og svo mörg niðurnídd hús í miðbænum.

Borgarbúar um allan heim mundu nú gefa mikið fyrir að eiga gömlu miðbæina sína og helzt elztu miðbæina sína. Alls staðar grætur fólk tillitsleysi hönnuða og bankastjóra, sem hafa reist bankakassa úr gleri og áli ofan í gamla miðbæi og rúið þá lífi og fegurð.

Tillaga skipulagsnefndar að Kvosinni felur í sér skammsýnt framhald á harmleik Austurstrætis, sem búið er að gera að stormgjá ömurlegra bankakassa.

Jónas Kristjánsson

DV