Greinar

Útrýmingarstríð

Greinar

Gorbatsjov hefur skipt um lepp í Afganistan. Í stað sjúklingsins Karmal hefur hann sett yfirmann leyniþjónustunnar, Nadsibúlla, sem kunnur er af að láta verkin tala. Í ríkjum Stóra bróður verður ástarmálaráðuneytið smám saman helzta uppspretta ráðamanna.

Gorbatsjov taldi sig þurfa grimmari lepp í Afganistan. Nánast öll þjóðin er andvíg hinum innlendu kommúnistum og innrásarliði Sovétríkjanna. Af 100.000 manna her landsins eru aðeins 30.000 eftir, flestir nauðugir. Hinir hafa flúið eða gengið í lið með þjóðinni.

Síðan Gorbatsjov komst til valda í Sovétríkjunum að undirlagi þarlendrar leyniþjónustu, hefur aukizt grimmdaræði 120.000 manna hers Sovétríkjanna í Afganistan. Er nú svo komið, að milljón manns hefur verið drepin og þriðjungur þjóðarinnar hefur flúið land.

Rauði herinn gerir engan greinarmun á skæruliðum og þorpsbúum. Sjónarvottar hafa lýst, hvernig skriðdrekar leggja í eyði hvert þorpið á fætur öðru, fyrst með skotárásum og síðan með því að jafna það við jörðu. Uppskera er eyðilögð og áveitum spillt.

Fólk, sem finnst á lífi, er drepið með því að rista það á kviðinn. Í mörgum tilvikum sætir það hroðalegum pyntingum, sem raktar hafa verið í skýrslum frá Amnesty og sérstakri nefnd Sameinuðu þjóðanna. Fyrir öllu þessu stendur hinn brosmildi Gorbatsjov.

Sérgrein Rauða hersins og sérstök uppfinning hans er að koma sprengjum fyrir í leikföngum, sem dreift er úr flugvélum. Þannig hefur Gorbatsjov tekizt að gera tugþúsundir afganskra barna að öryrkjum. Norskir læknar hafa rakið þessa viðbjóðslegu hernaðaraðferð.

Fá dæmi eru um slíka villimennsku í hernaði. Pol Pot hefur hugsanlega hagað sér verr í Kampútseu, en örugglega ekki Hitler í síðari heimsstyrjöldinni. Enda hefur Rauði herinn að markmiði í Afganistan að útrýma þjóðinni með því að drepa hana eða hrekja úr landi.

Gorbatsjov hyggst ná Afganistan á sitt vald, með eða án íbúa. Í augum ráðamanna Sovétríkjanna er Afganistan viðbót við land. Það land má síðan nema, eins og Síbería var numin á sínum tíma. Aðalatriðið er, að Sovétríkin stækki og verði minna innilokuð en áður.

Stöðvuð hefur verið sókn Sovétríkjanna til vesturs eftir Evrópu og til austurs á landamærum Kína. Við suðurlandamærin hafa nágrannarnir verið veikari fyrir. Þess vegna eru Sovétríkin að leggja Afganistan undir sig. Síðan kemur Íran og aðgangur að Indlandshafi.

Gorbatsjov hefur hert útrýmingarstríðið í Afganistan, alveg eins og hann hefur eflt ofsóknir gegn mannréttindasinnum heima fyrir, þrengt möguleika Sovétmanna á að flytjast til útlanda og lagt aukna áherzlu á, að Austur-Evrópa dansi á réttri línu.

Hinn brosmildi og hugljúfi Gorbatsjov er grimmasti og gráðugasti leiðtogi Sovétríkjanna, að minnsta kosti síðan Stalín féll frá. Hann er jafnframt sá hættulegasti, af því að hann hefur lag á að telja vestrænum friðardúfum trú um, að hann hafi góðan vilja.

Hann er maðurinn, sem lætur eyðileggja afkomu afganskrar alþýðu, rústa heimili hennar, misþyrma henni, gera börn hennar að öryrkjum, drepa hana eða hrekja úr landi. Hann er eins gersamlega samvizkulaus og nokkur glæpamaður getur verið, verri en Hitler.

Því miður virðast Vesturlandabúar ætla að vakna seint til vitundar um útrýmingarstríðið í Afganistan og til öflugrar hreyfingar gegn þjóðarmorðinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Ábyrgðarlítið Alþingi

Greinar

Viðskiptaráðherra hefur í blaðaviðtali sagt, að það sé aðför að Alþingi, er rannsóknarnefnd Hafskipsmálsins gagnrýnir þá háu stofnun út af kosningu í bankaráð Útvegsbankans. “Ég tel, að nefndin hefði ekki þurft inn á það að koma”, sagði ráðherrann.

Samkvæmt þessu telur Matthías Bjarnason ástæðulaust að draga Alþingi til ábyrgðar fyrir að velja ekki nógu hæft bankaráð, sem velur ekki nógu hæfa bankastjóra og hefur ónógt eftirlit með þeim. Hann vill, að Alþingi og alþingismenn séu án ábyrgðar.

Flestum öðrum mun þó finnast eðlilegt, að bent sé á hlutdeild Alþingis í 600 milljón króna tjóni Útvegsbankans af Hafskipsmálinu. Ennfremur, að slíkar rannsóknarnefndir séu oftar skipaðar og að þær hlífi ekki Alþingi frekar en öðrum, ef þær telja ástæðu til.

Engin hliðstæð rannsóknarnefnd var skipuð út af miklu meira tjóni ríkissjóðs vegna Kröflumálsins, 2037 milljónum króna. Þar var að verki nefnd alþingismanna, sem fór afar óvarlega með fé, þótti henni væri bent á, að hætta væri á, að fjárfestingin nýttist ekki.

Hinni frægu Kröflunefnd alþingismanna tókst að verja 3207 milljónum króna í glæfralegt fyrirtæki, sem ríkið gat síðan losað sig við til Landsvirkjunar fyrir 1170 milljónir króna. Tap ríkisins nam 2037 milljónum. Ekki er ljóst, hvert verður tap Landsvirkjunar.

Ef rannsóknarnefnd hefði verið skipuð vegna Kröflutjónsins og hún, eins og Hafskipsnefndin, haft manndóm til að gagnrýna stórfellda málsaðild Alþingis og þingmanna, hefðu alþingismenn fengið ástæðu til að fara varlegar í ævintýramennsku í framtíðinni.

Rannsóknarnefndir mætti einnig skipa út af fjölda annarra glæfra þingmanna. Nýlegt dæmi er graskögglaverksmiðan að Vallhólma í Skagafirði, sem varð gjaldþrota í ár eftir þriggja ára glórulausan rekstur. Þar nema eignir 20 milljónum og skuldir 80 milljónum.

Þingmenn voru varaðir við Vallhólmaverksmiðjunni. Þeim var bent á, að enginn markaður væri fyrir grasköggla hennar, því að fyrir voru í landinu fimm graskögglaverksmiðjur með mikla vannýtta afkastagetu. Þeir létu þessar aðvaranir eins og vind um eyru þjóta.

Á þessum tíma voru áform um að byggja tvær aðrar graskögglaverksmiðjur. Alþingismenn börðust meira að segja um, hverja þessara þriggja verksmiðja skyldi fyrst reisa. Skagafjarðarverksmiðjan bar sigurorð af Borgarfjarðar- og Þingeyjarsýsluverksmiðjunum.

Nú er svo komið, að ekki aðeins er Vallhólmur gjaldþrota, heldur hefur ríkið auglýst til sölu graskögglaverksmiðjunar í Flatey, Ólafsdal og Stórólfsvöllum, sem allar eru reknar með miklu tapi. Samanlagt nam tapið í fyrra á ríkisreknum graskögglum 38 milljónum króna.

Í ævintýri graskögglanna komu þingmenn fram af fullkomnu ábyrgðarleysi, alveg eins og þeir höfðu gert í Kröfluævintýrinu og eru á degi hverjum að gera í ævintýrum bankaráðanna og á fjölmörgum öðrum sviðum. Það er eins og þeir eigi sjálfir fé þjóðarinnar.

Alþingi ætti að læra af gagnrýni Hafskipsnefndarinnar og ákveða að koma upp rannsóknarnefndum á fleiri sviðum, svo sem í graskögglum. Alþingismenn verða að átta sig á, að sameiginlegt fé þjóðarinnar er takmarkað og að ábyrgðarhluti er að grýta því á allar hendur.

Umfram allt mega þeir ekki hugsa eins og viðskiptaráðherra, sem finnst aðfinnsluvert, að rannsóknarnefnd sé að amast við skorti fjármálaábyrgðar á Alþingi.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvað kostar næsti gísl

Greinar

Okkur þætti miður, ef Íslendingur yrði tekinn í gíslingu, til dæmis á sólarströnd í arabaríki. Við mundum þó sennilega einnig líta á atburðinn af því raunsæi, að við mundum ekki heimta, að stjórnvöld okkar fórnuðu þjóðarhagsmunum fyrir hagsmuni hins óheppna gísls.

En það eru stjórnvöld á Vesturlöndum einmitt að gera hver um önnur þver, líka þau, sem hafa gortað af, að þau muni aldrei láta kúga sig til samninga við hryðjuverkamenn. Stjórn Reagans Bandaríkjaforseta er fremst í flokki í þessari stuðningssveit hryðjuverka.

Í hálft annað ár hafa fulltrúar öryggismálanefndar Hvíta hússins staðið í samningamakki við ráðamenn í Íran um skipti á gíslum fyrir hergögn. Þessar viðræður hafa verið svo leynilegar, að utanríkis- og hermálaráðuneyti Bandaríkjanna fengu ekki að vita um þær.

Fram til þessa hafa Bandaríkin, með milligöngu Ísraels, afhent Íran hergögn fyrir sem svarar 2,5 milljörðum íslenzkra króna og fengið í staðinn afhentan gíslinn Jacobsen, sem shítar í Líbanon höfðu í haldi. Hergögnin notar Íran í hinni langvinnu styrjöld við Írak.

Mikla fákænsku þurfti til að halda, að ráðamenn Írans gætu eða vildu halda leyndum þessum viðskiptasigri yfir aðilanum, sem þeir kalla djöfulinn sjálfan. Enda er komið í ljós, að þeir hafa ekki neitað sér um að gera grín að hinum bandarísku viðsemjendum sínum.

Vonandi leiða viðskiptin ekki til, að Íran sigri í stríðinu við Írak. Eldhugar Khomeinis erkiklerks hafa margoft svarið að stöðva ekki sóknina fyrr en allir vantrúarhundar hafi verið sigraðir. Óþægilegt væri til dæmis að vita þá ráða yfir olíulindum Arabíuskaga.

En hvað gera stjórnir Bandaríkjanna og annarra Vesturlanda, ef fleiri gíslar verða teknir, ýmist til að láta lausa fyrir dæmda hryðjuverkamenn í vestrænum fangelsum eða fyrir fé og hergögn til að nota í styrjaldarsigrum, sem koma Vesturlöndum afar illa.

Má líta svo á, að úr þessu verði eins konar vestræn þróunarhjálp við hryðjuverkamenn og mannræningja? Þeir geti fjármagnað hermdarverk sín og náð hryðjuverkamönnum úr haldi með því að hafa alltaf á boðstólum nokkra gísla til að leysa úr haldi í skiptum.

Bandaríkjamenn og aðrir Vesturlandabúar þurfa að losna úr þessari nýju martröð. Fólk þarf að átta sig á, að lög og vald ríkisins ná ekki út fyrir landsteinana. Þeir, sem fara til útlanda, taka áhættu. Stjórnvöld þeirra geta ekki ábyrgzt öryggi þeirra.

Nauðsynlegt er, að ekki séu stunduð viðskipti með gísla, heldur séu þeir hreinlega afskrifaðir. Þetta kann að virðast kaldranalegt, en er nauðsynlegt til varnar þeim, sem annars yrðu teknir í gíslingu í framtíðinni. Og án viðskiptavonar hætta glæpamenn að taka gísla.

Í stað þess að senda öryggismálafulltrúa með tertur og vopn til Teheran, eiga vestræn ríki að standa þétt saman gegn hryðjuverkamönnum og ríkisstjórnum, sem vernda þá. Hryðjuverkamenn á að handtaka, framselja, dæma, og halda inni fullan tíma samkvæmt dómi.

Ennfremur ber að slíta stjórnmálasambandi við verndarríki hryðjuverkamanna og mannræningja, svo sem Sýrland og Íran, stöðva samgöngur við þau, þar á meðal flug, banna borgurum þeirra að koma til vestrænna ríkja og draga verulega úr viðskiptum við þau.

Að öðrum kosti myndast ný tegund gengisskráningar. Spurt verður, hvert sé verðið á næsta gísli. Fljótlega mun það hækka úr 2,5 milljörðum króna á mann.

Jónas Kristjánsson

DV

Friðhelgir ofbeldismenn

Greinar

Paul Watson sá, sem segist bera ábyrgð á skemmdarverkunum í Hvalfirði og Reykjavíkurhöfn, hefur að undanförnu stundað borgaralega kosningabaráttu í Vancouver í Kanada. Hann virðist öruggur með sig, þótt hann hafi látið vinna spellvirki í mörgum löndum.

Nafn Watsons birtist með reglubundnu millibili undir mótmælaskjölum með nöfnum virðulegra góðborgara í stjórn samtaka á borð við Alþjóða náttúruverndarsjóðinn, alveg eins og Watson hafi aldrei hrósað sér af að hafa sökkt skipum og stofnað til árekstra á hafi.

Paul Watson hefur skipulagt ýmis hryðjuverk gegn sjómönnum og tekið sjálfur þátt í sumum. Hann stjórnaði aðgerðum á Sea Shepherd í sumar, þegar skotið var línubyssum að gúmbátum færeysku lögreglunnar, reynt að kveikja í þeim og síðan að sigla þá niður.

Paul Watson hrósar sér ennfremur af að hafa sökkt einu dönsku skipi og tveimur spánskum. Eftir slík afreksverk situr hann á friðarstóli í Vancouver, dundar sér í stjórnmálum og skrifar undir skjöl með ekki minna frægum manni en Peter Scott.

Forvitnilegt væri að komast að, hvers vegna erlend stjórnvöld, sem eiga um sárt að binda vegna Watsons, hafa ekki gert alvarlegar tilraunir til að koma lögum yfir hann og helztu samstarfsmenn hans, svo sem Rodney Coronado, er fór héðan um síðustu helgi.

Getur verið, að stjórnvöld nágrannalandanna séu hrædd við Watson og lið hans, ­ að þau vilji ekki abbast upp á hann af ótta við hefndaraðgerðir? Frammistaða ríkisstjórna gagnvart öðrum hryðjuverkamönnum bendir til, að slík hræðsla sé útbreidd á Vesturlöndum.

Vesturþýzk stjórnvöld létu lausa hryðjuverkamenn, sem frömdu ódæði á ólympíuleikunum í München. Ítölsk stjórnvöld létu Accille Lauro-hryðjuverkamann sleppa úr landi. Nú síðast hefur komið í ljós, að frönsk og bandarísk stjórnvöld makka við mannræningja.

Frakkar eru nýbúnir að fá leysta tvo gísla úr haldi, líklega í skiptum fyrir fangelsaða hryðjuverkamenn. Bandaríkjamenn hafa verið staðnir að því að bjóða Khomeini erkiklerki ­ í skiptum fyrir gísla ­ vopn til að nota í styrjöld Írans við Írak.

Schulz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, mótmælti þessum viðskiptum, en varð að láta í minni pokann. Röksemd hans var hin rétta. Ef stjórnvöld láta mannræningja og hryðjuverkamenn kúga sig, kalla þau á endurtekna kúgun og verða þannig fangar glæpamanna.

Einn mesti hryðjuverkamaður heimsins um þessar mundir er Assad Sýrlandsforseti. Á vegum hans var gerð tilraun til að sprengja í loft upp farþegavél, sem var á leið frá London. Samt hafa vestrænar ríkisstjórnir tregðazt við að taka þátt í refsiaðgerðum gegn honum.

Assad tekur vel eftir þessari tregðu. Hann tekur líka eftir, að gott er að hafa jafnan handbæra í Beirút nokkra gísla af hverju þjóðerni, svo að unnt sé að skipta á þeim og útsendum hryðjuverkamönnum hans, sem hafa verið staðnir að verki í heimalöndum gíslanna.

Stjórnvöld, sem frelsa gísla með slíkum samningum, sæta því, að nýir gíslar séu teknir. Þau stjórnvöld verða t.d. að læra að sætta sig við, að geta ekki verndað borgara sína í útlöndum. Svipað yrðu okkar stjórnvöld að gera, ef þau takast á við glæpamenn á borð við Watson.

Rétt er að reyna að koma lögum yfir lið Watsons og gera sér jafnframt grein fyrir líklegum hefndaraðgerðum þeirra og ekki sízt, hvernig þeim verði mætt.

Jónas Kristjánsson

DV

Ráðgera 8% ríkishalla

Greinar

Svo mikil þensla er í þjóðfélaginu, að laus störf, sem bíða eftir fólki, eru margfalt fleiri en þeir, sem atvinnulausir eru. Þjóðhagsstofnun áætlar, að um 3000 störf séu laus eða sem svarar nærri 3% alls mannaflans, en vinnuveitendasambandið telur þau vera 4500­6000.

Þetta eru að því leyti góðar tölur, að þær sýna kraft í atvinnulífinu og gefa vonir um vaxandi þjóðarframleiðslu í náinni framtíð. En þær benda líka á, að mikil hætta er á, að þenslan leiði til nýrrar aukningar verðbólgu eftir samdrátt hennar á undanförnum misserum.

Við slíkar aðstæður er brýnna en oftast áður, að ríkið beiti áhrifum sínum í átt til jafnvægis. Það gerir ríkið bezt með því að beita ströngu aðhaldi í rekstri sínum, draga úr opinberum millifærslum og fresta framkvæmdum, sem í sjálfu sér má telja brýnar.

Þegar atvinnulífið er í doða, getur verið eðlilegt, að ríkið þenji seglin til að auka atvinnu. Hins vegar er öruggt, að það verður að rifa seglin, þegar önnur eins þensla er í atvinnulífinu og er um þessar mundir. Ríkisstjórnin hefur gersamlega brugðizt í þessu efni.

Þorvaldur Gylfason prófessor hefur bent á, að ráðgerður halli á ríkisbúskap næsta árs sé 12,4 milljarðar króna. Þetta er samanlögð lánsfjárþörf samkvæmt A-hluta, B-hluta og því, sem hann kallar C-hluta fjármála ríkisins. Þetta er 8% af áætlaðri landsframleiðslu.

Hversu hrikalegur þessi hallarekstur er, má til dæmis sjá af því, að hann samsvarar 30% af fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Hann er raunar töluvert meiri en er á þessu ári og hlýtur að teljast verulega hættulegur yfirlýstu markmiði hjaðnandi verðbólgu.

Þorvaldur hefur einnig reiknað út svokallaðan þensluhalla, það er að segja þann hluta hallarekstrar ríkisins, sem líklegur er til að valda þenslu innanlands og þar með verðbólgu. Sá halli nemur 3,5 milljörðum samkvæmt frumvörpum til fjárlaga og lánsfjárlaga.

Hliðstæður þensluhalli á því ári, sem nú er senn á enda, verður sennilega um 1,6 milljarðar króna. Í fyrra nam hann 4,5 milljörðum króna. Því virðist sem barátta stjórnvalda við verðbólguna hafi náð hámarki í ár og ríkisstjórnin hyggist slaka á klónni á næsta ári.

Fyrirhuguð óráðsía ríkisstjórnarinnar á næsta ári kemur einnig fram í, að hún hyggst auka erlendar skuldir hins opinbera um 1,3 milljarða umfram afborganir eldri skulda. Þetta er nærri 1% af landsframleiðslu og hækkar skuldir þjóðarinnar í útlöndum, en lækkar ekki.

Ríkisstjórnin ráðgerir því ekki að nota góðærið til að reka sitt fyrirtæki hallalaust eins og önnur fyrirtæki í landinu verða að gera og heimilin í landinu verða að gera. Hún hyggst auka skuldirnar í útlöndum, þótt skuldahlutfallið sé þegar eitt hið hæsta í heimi.

Nauðsynlegt er að ítreka, að samkvæmt frumvörpum ríkisstjórnarinnar til fjárlaga og lánsfjárlaga er ráðgert, að lánsfjárþörfin eða tapreksturinn á næsta ári nemi 12,4 milljörðum króna. Þar af er 3,5 milljarða þensluhalli og 1,3 milljarða skuldaaukning í útlöndum.

Þessara talna er rétt að minnast, þegar fjármálaráðherra og ríkisstjórnin þykjast vera að minnka skuldirnar í útlöndum, þykjast vera að minnka verðbólguna og þykjast vera að minnka taprekstur hins opinbera. Allur sá rembingur er hrein firra, ­ lygi á góðri íslenzku.

Ráðamenn okkar ætla á komandi kosningaári vitandi eða óafvitandi að auka skuldirnar, magna verðbólguna og efla hallarekstur opinberra aðila.

Jónas Kristjánsson

DV

Við getum valið verkefni

Greinar

Skortur er á vinnuafli í mörgum greinum atvinnulífsins. Þjóðhagsstofnunin gerir ráð fyrir, að alls séu um 3000 stöður lausar samanlagt í atvinnulífinu eða sem svarar nærri 3% alls mannafla í landinu. Vinnuveitendur telja þessi störf allt að tvöfalt fleiri eða 4500-6000 alls.

Við erum lánsöm að búa ekki við eitt mesta böl annarra þjóða, atvinnuleysið. Algengt er í nágrannalöndunum, að 10% þjóðarinnar séu án vinnu. Í mörgum þessara landa hefur myndast stétt ungs fólks, sem aldrei hefur haft vinnu og hefur enga von um að fá vinnu.

Atvinnuleysisböl erlendra þjóða er þeim afar dýrt. Atvinnuleysisbætur eru veigamikill liður á fjárlögum hins opinbera. Einnig fer iðjuleysið illa með fólk, ekki bara fjárhagslega, heldur fyrst og fremst andlega. Það verður sljótt og lendir utangarðs í samfélaginu.

Ofan á þetta er stórfé varið úr opinberum sjóðum til að halda uppi vinnu í úreltum atvinnugreinum, svo að ekki fjölgi enn fólki á atvinnuleysisskrá. Þetta er hið svonefnda dulda atvinnuleysi. Stjórnvöldum finnst skárra en ekki að styrkja sjónhverfingu atvinnulífs.

Þannig er haldið uppi alltof miklum landbúnaði í flestum nágrannalöndum okkar. Það er dýrasta dæmið af mörgum. Flest ríki hafa líka reynt að halda uppi skipasmíðum, stáliðju og ýmsum öðrum iðngreinum, sem hafa sætt samkeppni uppgangsríkja Suðaustur-Asíu.

Í þessu skyni er ekki aðeins beitt beinum styrkjum, heldur margvíslegum hindrunum í vegi innflutnings, svo sem verndartollum og jafnvel hreinu innflutningsbanni. Þannig láta stjórnvöld neytendur í eigin landi borga herkostnaðinn við verndun úreltra greina.

Hvenær sem grundvöllurinn byrjar að bresta undan atvinnugrein, hefja forvígismenn hennar sönginn um undirboð og óheiðarlega samkeppni útlendinga. Þeir etja stjórnvöldum landsins út í vernd, sem kallar á erlendar gagnaðgerðir og endar í viðskiptastríði.

Íslendingar eru svo heppnir að hafa tvöfalda sérstöðu í þessu efni. Í fyrsta lagi byggist efnahagslífið á útflutningsatvinnuvegum, sem þurfa hindrunarlausan aðgang að erlendum markaði. Og í öðru lagi er nóg að gera í landinu fyrir allar vinnufúsar hendur.

Fyrri sérstaðan á að gera okkur að fríverzlunarsinnum í alþjóðlegum viðskiptum. Hin síðari á að gera okkur að andstæðingum dulins atvinnuleysis í þjóðlífinu. Við þurfum að verða mun markvissari í hvoru tveggja en við erum og knýja ráðamenn okkar til meiri dáða.

Við eigum að gjalda varhug við hverju því væli, sem upp rís um meint undirboð útlendinga, sem séu að drepa íslenzk fyrirtæki. Við eigum að gæta okkar á óskum fyrirtækja og heilla atvinnugreina um ýmsar eftirgjafir og ívilnanir til að bæta samkeppnisaðstöðu þeirra.

Við eigum að sætta okkur við, að útlendingar hafi aðstöðu til að gera suma hluti betur og ódýrar en við. Á móti eigum við að hafa okkar sérgreinar eins og fiskinn til að selja útlendingum. Við eigum að verja kröftum okkar á skynsamlegan hátt, af því að við höfum val.

Við eigum til dæmis ekki að banna innflutning kjöts og mjólkurafurða, ekki að styrkja útflutning þessara afurða með uppbótum og ekki að halda uppi neyzlu þeirra innanlands með niðurgreiðslum. Við höfum 3000 lausar stöður og þurfum ekki að dulbúa atvinnuleysi.

Tækifærið er okkar, af því að við búum við umframatvinnu í stað atvinnuleysis. Við getum valið mun arðbærari verkefni en við höfum hingað til stundað.

Jónas Kristjánsson

DV

Traustasta prófkjörsleiðin

Greinar

Vandræði framsóknarmanna á Norðurlandi eystra og sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi eru góð dæmi um, hversu erfitt er að finna algilda aðferð við val á frambjóðendum til kosninga. Allar aðferðir, sem reyndar hafa verið, geta farið hastarlega út um þúfur.

Reynd hafa verið galopin og mismunandi opin prófkjör stuðningsmanna, lokuð prófkjör flokksmanna og mismunandi þröngra hópa starfandi flokksmanna. Einnig hafa verið reyndar ráðgefandi skoðanakannanir flokksmanna og mismunandi þröngra hópa þeirra.

Aðstæður ráða, hvenær hver aðferð gefst vel og hvenær illa. Þeim, sem aðferðunum ráða, tekst stundum vel að spá, hvað sé heppilegast. Stundum tekst þeim það líka hrapallega, eins og bezt sést nú af dæmunum frá Reykjaneskjördæmi og Norðurlandi eystra.

Fyrir síðustu kosningar láðist sjálfstæðismönnum á Vestfjörðum að hafa prófkjör. Þar fékk reiði manna útrás í sérframboði. Í þetta sinn var prófkjör látið ráða ferðinni og framboðsniðurstaða fékkst með ljúfri löð. Þannig geta prófkjör oft gert mikið gagn.

Meira eða minna opin prófkjör eru til þess fallin að brjóta innanflokksstíflur. Þau henta bezt eftir langt tímabil lokunar, þegar stuðningsmenn flokksins eru farnir að efast um, að valdakerfið og fulltrúarnir endurspegli lengur raunveruleg viðhorf stuðningsmannanna.

Sé ekki um neinn slíkan ágreining að ræða, eru prófkjör oft óþörf og geta jafnvel orðið til að framleiða ágreining. Þau hafa líka freistað frambjóðenda til að beita kostnaðarsömum aðferðum við að koma persónu sinni og skoðunum á framfæri við kjósendur.

Flestir munu til dæmis vera sammála um, að auglýsingar frambjóðenda í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík hafi gengið út í öfgar. Menn eiga ekki að þurfa að safna saman hundruðum þúsunda króna til þess að geta orðið virkur frambjóðandi í prófkjöri.

Hinu má fólk heldur ekki gleyma, að hið dýra prófkjör sjálfstæðismanna í Reykjavík leiddi þó til óumdeildrar röðunar á lista, meðan klíkumakk og feluleikur sjálfstæðismanna í Reykjaneskjördæmi hefur leitt til ósættis, sem getur skaðað þann flokk í kjördæminu.

Ekki má heldur gleyma, að hin galopnu prófkjör, sem voru meira notuð áður fyrr en núna, soguðu fylgi til flokkanna, sem þorðu að halda þau. Þeir, sem þátt tóku í þeim, freistuðust síðan til að kjósa sama flokk. Og ótti um árásir úr öðrum flokkum reyndist ástæðulítill.

Til er traust aðferð til prófkjörs, sem útilokar ýmsa galla, er hér hafa verið nefndir. Hún leiðir ekki til, að stuðningsmenn annarra flokka hafi óeðlileg afskipti. Hún leiðir ekki til innanflokksósættis fyrir kosningar. Og hún leiðir ekki til óhóflegra útgjalda frambjóðenda.

Lausnin er að færa prófkjör inn í kosningarnar með því að hafa listana í sjálfum kosningunum óraðaða. Dregið sé um röð frambjóðenda á listunum. Setji kjósendur ekki númer við nöfn frambjóðenda, er gert ráð fyrir, að þeir sætti sig við röðun hinna, sem það gera.

Þá geta þeir ­og aðeins þeir­, sem kjósa flokkinn, raðað lista hans. Engin sárindi út af þeirri röðun hafa áhrif á samstöðu innan flokks í kosningabaráttu. Og erfitt er fyrir einstaka frambjóðendur að stunda persónuauglýsingar framhjá kosningabaráttu flokksins.

Þeir, sem fyrr eða nú hafa lent í vandræðum við val á framboðslista, mættu gjarna minnast þess, að til er leið, sem leysir vandann, ­óraðaðir framboðslistar.

Jónas Kristjánsson

DV

Virðisaukaskattur drepinn

Greinar

Fjármálaráðherra hefur á vegum ríkisstjórnarinnar látið gera drög að frumvarpi um virðisaukaskatt, sem ráðgert hafði verið, að tæki við af söluskatti eftir rúmt ár. Þessi drög eru allt önnur og langtum verri en stuðningsmenn virðisaukaskatts höfðu vonað.

Í stað einfaldra skipta á söluskatti og virðisaukaskatti er gert ráð fyrir að nota tækifærið til að stórauka millifærslukerfi ríkissjóðs. Snúa á við af brautinni í átt til náttúrulegs hagkerfis og stefna í átt til miðstýrðs hagkerfis, þar sem hver króna fer um hendur ríkisins.

Svo kann að vera, að embættismenn fjármálaráðuneytisins telji heppilegast, að sem mestu af peningum þjóðarinnar sé velt í gegnum ríkissjóð. En furðulegt er, að ríkisstjórn, sem ekki er vinstri stjórn, skuli hyggjast koma á margefldu millifærslukerfi á þennan hátt.

Drög fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar gera ráð fyrir, að hinn fyrirhugaði virðisaukaskattur auki árleg umsvif ríkissjóðs um 2,6 milljarða króna. Eru það um 6­7% af fjárlagafrumvarpi næsta árs. Þar á ofan er ljóst, að upphæðin er vanáætluð vegna húsnæðisráðagerða.

Virðisaukaskatturinn leggst á mun breiðari grunn en söluskatturinn gerir nú. Þess vegna hefði verið hægt að lækka álagningarprósentuna. Þá hefði sum vara og þjónusta hækkað í verði og önnur lækkað. Það hefði í stórum dráttum komið út á eitt fyrir þjóðina.

Þar sem matvörur eru í þeim flokki, sem virðisaukaskatturinn hækkar, hefði mátt hagræða prósentunni lítillega, svo að örfá hundruð milljóna væru til ráðstöfunar til fjölskyldu- eða barnabóta, svo að barnmargar fjölskyldur sköðuðust ekki sérstaklega af breytingunni.

Í stað smávægilegrar millifærslu af því tagi hyggst embættismannakerfið, fjármálaráðherrann og ríkisstjórnin koma upp stórfelldu millifærslukerfi, sem meðal annars á að koma út óseljanlegum landbúnaðarvörum, troða meira dilkakjöti og mjólkurvörum í þjóðina.

Í þjóðfélagi, þar sem arðbær verkefni kalla sífellt á fleiri vinnufúsar hendur en til eru, ætlar kerfið að nota tækifæri virðisaukaskatts til að halda dauðahaldi í sem mest af dulbúnu atvinnuleysi hins hefðbundna landbúnaðar. Það ætlar að tvöfalda niðurgreiðslur búvöru.

Samkvæmt skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru niðurgreiðslur gerðar fyrir þá atvinnugrein, sem framleiðir hina niðurgreiddu vöru, en ekki fyrir neytendur. Ef ákveðnar vörur eru niðurgreiddar en ekki aðrar, er það í þágu hagsmunaaðila, en ekki almennings.

Ef virðisaukaskattur er notaður til slíks verkefnis, er um hreina skattaaukningu að ræða, sem þar að auki skekkir atvinnulífið, styður vanheilsu þess í stað heilbrigðis. Slíkur skattur er verri en söluskatturinn, sem við búum nú við ­ fer með okkur úr öskunni í eldinn.

Margir hafa lýst áhyggjum af aukinni skriffinnsku, sem erlendis hefur komið í ljós, að fylgir virðisaukaskatti. Sumir þeirra hafa þó stutt skattinn, af því að hann væri sanngjarnari en söluskattur að því leyti, að hann væri alveg eða næstum án undantekninga.

Í umræðunum hefur verið gert ráð fyrir, að breiðari grunnur virðisaukaskattsins lækkaði hina háu álagningarprósentu söluskattsins, sem hefur gert skattinn óvinsælan og stuðlað að skattsvikum. Ekki var talað um að nota hann til millifærslu og miðstýringar.

Hvort sem frumvarpsdrögin stafa af græðgi, heimsku eða kommúnisma, þá er ljóst, að samúðin með virðisaukaskattinum hverfur. Hann hefur verið drepinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Þoka á 400 síðum

Greinar

Í annað skipti í röð hafa höfundar fjárlagafrumvarpsins sýnt lesendum þess þann sóma að birta aftast tvær fróðlegar skrár um aukafjárveitingar. Hins vegar er gengið þannig frá skránum, að óþarflega erfitt er að átta sig á, í hvaða skyni fénu er varið.

Sem dæmi má nefna, að í fremri skránni kemur fram, að veitt hefur verið hálfri milljón króna aukalega til “byggingar íþróttamannvirkja”. Til þess að átta sig á, hvað þetta er, þarf að fara í síðari skrána, sem raðað er á allt annan hátt, í tímaröð í stað málaflokkaraðar.

Með þessari fyrirhöfn er hægt að komast að raun um, að þetta er styrkur til eins íþróttafélags. Ennfremur, að ríkið hefur aukalega styrkt hótelin á Húsavík og Ísafirði um hálfa níundu milljón króna og Áburðarverksmiðjuna um hvorki meira né minna en 170 milljónir.

Þetta eru bara örfá dæmi um 150 aukafjárveitingar ársins. Ef markmiðið með birtingu skránna er að auðvelda þingmönnum, blaðamönnum og öðru áhugafólki að skilja ríkisfjármálin, væri aðgengilegra að sameina þær í eina skrá, sem skýrði innihald fjárveitinganna.

Enn er verið að fela liði í fjárlagafrumvarpinu. Sem dæmi má nefna sérstakt gæludýr ríkisins, Lífeyrissjóð bænda. Í atriðisorðaskrá er vísað til hans í kafla fjármálaráðuneytis. Þar kemur fram, að verja eigi 34 milljónum króna til þessa nauðsynjamáls á næsta ári.

Ætla mætti, að þar með væri öll sagan sögð. Kunnugan mann og þjálfaðan í lestri fjárlagafrumvarpa þarf til að átta sig á, að Lífeyrissjóður bænda á samkvæmt frumvarpinu einnig að fá 22 milljónir króna hjá landbúnaðarráðuneytinu undir liðnum: “Stofnlánadeild”.

Enn má leita í 400 blaðsíðum frumvarpsins og finna, að samkvæmt því á þessi vinsæli sjóður að fá 112 milljjónir króna hjá viðskiptaráðuneytinu undir liðnum: “Niðurgreiðslur á vöruverði”. Samtals fær sjóðurinn því 168 milljónir, en ekki 34, svo sem gefið er í skyn.

Tveir aðrir forgangssjóðir eru lífeyrissjóðir alþingismanna og ráðherra. Í fjárlagafrumvarpinu fyrir ári mátti með lagi finna, að 33 milljónum króna átti í ár að verja til þeirra undir liðnum: “Uppbætur á lífeyri”. Þetta er ekki lengur hægt í nýja frumvarpinu.

Á þessu sviði eykst þoka frumvarpsins, enda er sennilegt, að einstæð gjafmildi fjárlagafrumvarpsins í garð hinna fátæku lífeyrissjóða alþingismanna og ráðherra sé orðin að slíku feimnismáli, að hennar megi ekki einu sinni geta lengur í skýringum aftarlega í bókinni.

Enn eitt þokudæmið felst í styrkjum til flokkspólitískrar blaðaútgáfu. Í einni línu frumvarpsins er 16 milljónum varið “til blaðanna” og í annarri línu 10 milljónum “til útgáfumála”. Í þriðju línunni er fjármálaráðherra heimilað að kaupa 250 eintök af hverju blaði.

Þannig er reynt að dylja, að samtals eiga þessir styrkir að nema 32 milljónum króna á næsta ári. Ekki er síður athyglisvert, að 250 eintaka kaupin eru jafnan heimildarákvæði, sem koma ekki fram í niðurstöðutölum, þótt þau séu fastur kostnaður ríkisins.

Spyrja má einnig, hvers vegna ýmsir merkustu liðir frumvarpsins eru settir fram án krónutalna í heimildarákvæðum. Ennfremur, hvers vegna niðurgreiðslur á búvöruverði eru settar á viðskiptaráðuneytið í trássi við leiðbeiningar Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Þetta eru dæmi um, að á 400 síðum fjárlagafrumvarpsins er víða – og sumpart í auknum mæli – fremur reynt að dylja sannleikann heldur en að upplýsa hann.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðasta færinu glatað

Greinar

Um langt skeið hefur atvinnuleysi í landinu numið innan við 1% af mannafla þjóðarinnar, en laus störf verið yfir 2% af mannafla. Ísland er nánast einstakt samfélag í heiminum að þessu leyti. Annars staðar eru þessi hlutföll öfug, yfirleitt hastarlega öfug.

Þetta þýðir auðvitað, að meira en nóg er að gera á Íslandi. Þjóðin kemst ekki alveg yfir þau verkefni, sem hún hefur sett sér fyrir. Hún þarf því ekki að eyða orku sinni í dulbúið atvinnuleysi, heldur getur beint henni að arðbærum verkefnum. Ef hún raunverulega vill.

Þetta er ákaflega jákvætt, en ekki eingöngu þó. Hin neikvæða hlið er þenslan, sem fylgir umframeftirspurn. Hún veldur launaskriði, sem eykur bil kauptaxta og greiddra launa. Um leið stuðlar hún að því, sem alvarlegra er, verðbólgu, einum höfuðóvina okkar.

Þótt verðbólga sé ekki mikil um þessar mundir, blundar hún undir niðri og leitar færis til að ná sér upp á nýjan leik. Á þessu ári hefur nokkurn veginn tekizt að halda henni á hinum svonefndu rauðu strikum, sem samkomulag er um að ráði vinnufriði.

Ríkisstjórnin á að leitast við að halda verðbólgunni í skefjum, um leið og hún notar tækifærið til að draga úr dulbúnu atvinnuleysi. Það getur hún með því að lækka ríkisútgjöld og forðast á þann hátt að magna umframeftispurn þjóðfélagsins eftir starfskröftum.

Fjárlögin eru tæki ríkisstjórnarinnar í þessari viðleitni. Í fjárlagafrumvarpinu getur hún forðazt að styðja úrelta atvinnuvegi og forðazt að auka umsvif og framkvæmdir ríkisins. Þetta tæki notar hún alls ekki, heldur hefur hún þvert á móti slakað á aðhaldsklónni.

Samkvæmt fjárlagafrumvarpi ársins 1987 er gert ráð fyrir, að framkvæmdir hins opinbera aukizt um 6% frá fyrra ári. Þetta er kúvending eftir þriggja ára tímabil samdráttar opinberra framkvæmda. Á þessu ári nam samdrátturinn til dæmis tæpum 9% frá árinu áður.

Þetta þýðir, að á næsta ári hyggst ríkisstjórnin herða samkeppnina um starfskrafta landsmanna við atvinnulífið, sem á að standa undir þjóðartekjum og velmegun. Þetta þýðir, að hún leggur sitt lóð á vogarskál aukinnar þenslu og þar með nýrrar verðbólguhættu.

Samkvæmt þessu sama fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir, að 5% ríkisútgjaldanna eða rúmir tveir milljarðar króna verði notaðir til að halda uppi hinum hefðbundna landbúnaði. Þetta eru útflutningsuppbæturnar, niðurgreiðslurnar og fjölmargir beinir styrkir.

Þetta þýðir, að á næsta ári hyggst ríkisstjórnin hindra af sama krafti og áður, að dulbúið atvinnuleysi hins hefðbundna landbúnaðar breytist smám saman í arðbær störf, sem stuðla að hærri þjóðartekjum og aukinni velmegun. Fyrir þetta borgar hún tvo milljarða.

Skynsamlegra hefði verið á þessum tímum rúmlega fullrar atvinnu í landinu að draga úr framkvæmdum hins opinbera og draga úr styrkjum til hins hefðbundna landbúnaðar. Það mundi stuðla að arðbærum verkefnum, auknum þjóðartekjum og vaxandi velmegun.

Um leið hefði ríkisstjórnin með þeim hætti getað komizt hjá 1600 milljón króna halla á fjárlagafrumvarpinu. Hún hefði getað lagt fram hallalaust fjárlagafrumvarp. Þar með hefði hún líka dregið úr samkeppni um fjármagnið í landinu og stuðlað að lægri vöxtum.

Með fjárlagafrumvarpinu hefur ríkisstjórnin glatað síðasta tækifæri kjörtímabilsins til að beita ríkisfjármálunum til aukinnar hagsældar þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fangi harðlínumanna

Greinar

Reagan Bandaríkjaforseti var fangi harðlínumanna í hópi fylgdarmanna sinna, þegar hann þorði ekki í Höfða á sunnudaginn að stíga síðasta skrefið til tíma mótasamkomulags við Gorbatsjov Sovétleiðtoga um víðtækan niðurskurð kjarnorkuvopna.

Leiðtogarnir voru efnislega búnir að ná samkomulagi, en gátu ekki undirritað það vegna ósamkomulags um, hvort rannsóknir til undirbúnings geimvarnavopnum mættu aðeins fara fram í rannsóknastofum eða einnig utan þeirra. Það var þúfan, sem velti hlassinu.

Enginn vafi er á, að Gorbatsjov vann áróðursstríðið í Reykjavík. Hann kom til leiks vel birgur eftirgjöfum, meðan Reagan virtist ekki geta hreyft sig eins mikið. Hinar umdeildu ráðagerðir hans um svokallað stjörnustríð eða geimvarnir voru honum fjötur um fót.

Samt verður að hafa í huga, að geimvarnamálið er afleiðing þess, að Sovétríkin hafa um margra ára skeið hlaupið mun hraðar en Bandaríkin í vígbúnaðarkapphlaupinu. Stjörnustríð er óskhyggja þess, sem vill loka sig inni í kastala fyrir ágengum óvinum sínum.

Einnig verður að hafa í huga, að það stóð Gorbatsjov nær að slaka til, einmitt vegna ofkeyrslu vígbúnaðar Sovétríkjanna á mörgum undanförnum árum. Hann er að bæta fyrir það brot með því að fallast á vestræn sjónarmið um samdrátt vígbúnaðar og eftirlit með honum.

Samkomulagið, sem Gorbatsjov og Reagan náðu í Reykjavík, en gátu ekki undirritað, er nokkurn veginn eins og lagt hefur verið til í ýmsum blöðum á Vesturlöndum, þar á meðal í DV. Það markar tímamót og hefur mikið gildi, þótt það sé ekki undirritað.

Fólk verður að vona, að málið verði ekki lagt á hilluna, þótt eitt skref hafi vantað í átt til samkomulags. Það skref má stíga á öðrum toppfundi í vetur, þegar leiðtogarnir og ráðgjafar þeirra hafa áttað sig á, hversu lítið, en bráðnauðsynlegt síðasta skrefið er í raun.

Ekki er tímabært að útiloka, að Reagan geti á síðustu tveimur valdaárum sínum náð svo sögulegu samkomulagi við Gorbatsjov, að samkomulag Nixons, forvera hans, við Kínverja falli í skuggann. Hann var síðdegis á sunnudaginn aðeins hársbreidd frá því.

Eðlis málsins vegna er auðveldara fyrir harða repúblikana eins og Nixon og Reagan að semja um slíka hluti. Þeir eiga að geta róað hægri kantinn í flokki sínum og haft meiri frið fyrir gagnrýni en forsetar demókrata geta. Þetta gat Nixon, en Reagan ekki enn.

Að öðrum kosti verður mannkyn enn til viðbótar að búa við nokkur ár vaxandi öryggisleysis. Ef það lifir af, verður hlutverkið forsetans, sem tekur við af Reagan, sennilega úr flokki demókrata, að semja við Sovétríkin um aukið öryggi gegn styrjöld heimsveldanna.

Mikilvægast er, að Reagan hætti að ramba milli hinna tiltölulega mildu sjónarmiða, sem einkum gætir í utanríkisráðuneytinu, og hinna grjóthörðu sjónarmiða, sem einkum gætir í hermálaráðuneytinu. Honum ber nú orðið að halla sér að hinum fyrrnefndu.

Þótt Reagan hafi mistekizt að Höfða, hefur hann enn tækifæri til að skrá nafn sitt í veraldarsöguna sem friðarforsetans, er kom öryggismálum heimsins í traustan farveg með sögulegu samkomulagi við Sovétríkin. Til þess þarf hann að losna úr fangelsi harðlínumanna.

Hið óundirritaða samkomulag Reykjavíkurfundarins um verulegan samdrátt kjarnorkuvopna getur hæglega fæðst, þótt herzlumuninn hafi vantað að þessu sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Það tókst

Greinar

Þegar Gorbatsjov og Reagan ákváðu í viðræðum sín um í dag að halda fjórða fundinn að áliðnum degi, var engum blöðum lengur um að fletta, að stórtíðindi voru í aðsigi. Litli vinnufundurinn var orðinn að einum mikilvægasta toppfundinum í samskiptum heimsveldanna.

Eftir þriðja fundinn sagði Georgy Arbatov, ráðgjafi Gorbatsjovs, að Sovétmenn hefðu lagt fram á fundunum tímamótatillögur um víðtækan niðurskurð kjarnorkuvopna, bæði langdrægra og meðaldrægra. Þar með rofnaði fréttabannið og upplýsingar fóru að leka út.

Því miður varð starfsfólk DV að koma þessari aukaútgáfu út, áður en lauk fjórða fundi Gorbatsjovs og Reagans síðla dags. Nánari upplýsingar um niðurstöður toppfundarins verða því að bíða næsta blaðs, sem kemur út undir hádegi á morgun.

Þegar er ljóst, að leiðtogar heimsveldanna hafa í Höfða smíðað ramma um markvissa sáttavinnu embættismanna beggja aðila til undirbúnings öðrum toppfundi, sem verður í Bandaríkjunum í vetur. Það er Reykjavíkur-ramminn, sem hljóta mun sögulegan sess.

Þar að auki er líklegt, að leiðtogarnir telji sig þegar í dag geta stigið eitthvert eða einhver skref í átt til sátta og sett stafina sína undir samkomulag um það. Helzt er líklegt, að það verði á sviði samdráttar kjarnorkuvopna, bæði langdrægra og meðaldrægra.

Þegar Gorbatsjov og Reagan hittast svo í Bandaríkjunum í vetur, munu þeir formlega staðfesta á viðhafnarhátt þau atriði, sem þeir hafa rammað inn í Reykjavík. Í dag er of snemmt að ræða um, hver þau atriði muni vera, umfram það sem sagt er á blaðamannafundum.

Öllum kunnugum mátti ljóst vera af aðdraganda fundarins, að nokkur árangur væri líklegur. Sumarið einkenndist af stöðugum eftirgjöfum málsaðila á ýmsum áður erfiðum sviðum. Og haustið einkenndist af löngum utanríkisráðherrafundum heimsveldanna í New York.

Þegar toppfundurinn var svo skyndilega tilkynntur, tóku fjölmiðlar heimsins við sér. Enginn trúði, að fundurinn í Reykjavík yrði tómt snakk. Hingað þyrptust um 2500 blaðamenn, þótt fréttabann væri af fundinum og af bandarískri hálfu reynt að gera lítið úr honum.

Strax í gær kom fram vísbending um, að árangurs væri að vænta af toppfundinum, er skipaðar voru tvær nefndir til að undirbúa lokafundina í dag. Önnur fjallaði um samdrátt vígbúnaðar og hin um önnur ágreiningsefni heimsveldanna, þar á meðal mannréttindi.

Í morgun lyftist svo enn brúnin á fólki, þegar kom í ljós, að nefndirnar höfðu setið að störfum í alla nótt. Toppfundurinn í dag hófst svo klukkustund fyrr en ráð hafði verið fyrir gert og stóð þó um hálftíma fram yfir áætluð fundarlok. Þá var ákveðið að halda annan fund.

Í kvöld og næstu daga mun sitthvað fleira síast út um atriðin, sem til umræðu hafa verið á toppfundinum í gær og í dag, svo og um hugsanlega niðurstöðu í sumum þeirra. Endanlega mun þó árangurinn ekki koma í ljós fyrr en að liðnum næsta toppfundi.

En nú þegar er unnt að fullyrða, að Reykjavíkurfundur Gorbatsjovs og Reagans markar upphaf aukins öryggis mannkyns eftir langt tímabil vaxandi öryggisleysis. Nafn Reykjavíkur fær varanlega og einkar jákvæða varðveizlu í stjórnmálasögunni.

Íslendingar geta þar að auki glaðst yfir að hafa átt ríkan þátt í að búa til farsælan ramma utan um toppfundinn, sem skóp heiminum Reykjavíkur-rammann.

Jónas Kristjánsson

DV

El País grætur­Ísland hlær

Greinar

Blaðamaður El País kom af fjöllum á ritstjórn DV á þriðjudag, þegar honum var sagt, að nóg væri af gistiherbergjum í bænum á 2.000 krónur. Þá hinn sama morgunn hafði blað hans í Madrid birt heilsíðugrein hans um húsnæðisokur í tengslum við toppfundinn.

Svo virðist sem menn El País hafi ekki frekar en ýmsir aðrir trúað á getu Íslendinga til að skipuleggja slík mál. Þeir útveguðu sér ekki húsnæði hjá Ferðaskrifstofu ríkisins, þótt þeir fengju símanúmer þess hjá blaðafulltrúa íslenzku ríkisstjórnarinnar.

Í stað þess að nota hvíta markaðinn, sem öllum stóð opinn, kusu þeir að fara á svarta markaðinn og taka á leigu á okurverði íbúð þá illa frágengna, sem lýst var með áhrifamiklum hætti í harmagrein El País. Það var þeirra ákvörðun og þeir bera sjálfir ábyrgð á okrinu.

Fólk, sem er úti að aka, tapar peningum, hvar sem er í heiminum, bæði í Reykjavík og Madrid. Heppilegast er að fara ekki opinberlega að gráta út af því á heilli síðu, svo að síður verði tilefni aðhláturs annarra. Skynsamlegra er að reyna næst að vera betur með á nótunum.

Erlendir blaðamenn þurfa að vísu langt minni til að muna eftir Heimaeyjargosinu, þegar nærri 6000 manns var flutt á tveimur klukkustundum til meginlandsins og komið þar í húsaskjól. 2500 blaðamenn og 1000 embættismenn eru ekkert flóknara mál fyrir vana reddara.

Staðreyndin er, að fátt lætur Íslendingum betur en að vinna í skorpum. Bændur rífa upp hey sín á þremur þurrkavikum. Sjómenn leggja nótt við dag í aflahrotum. Hvorir tveggja taka það svo rólega þess á milli. Slík vinnubrögð einkenna líka aðra hópa þjóðfélagsins.

Líklega hefði ekki gengið miklu betur að skipuleggja toppfundinn í Reykjavík, þótt fyrirvarinn hefði numið sex mánuðum eða lengri tíma. Menn hefðu látið undirbúning dragast úr hömlu, lent í tímahraki og síðan unnið með sama hætti og gert er þessa dagana.

Fjarlægðir milli manna eru ennfremur svo stuttar, bæði í láréttum og lóðréttum skilningi, að hægt er með eins konar handafli forsætisráðherra að brjóta ótal lög og reglugerðir, án þess að nokkur embættismaður eða stjórnarandstæðingur vilji rísa upp til andmæla.

Þannig fjúka tollalög, fjarskiptalög og útvarpslög eins og ekkert sé, þegar hjálpa þarf erlendum fjölmiðlum. Ennfremur fjúka lög um útlendinga eins og ekkert sé, þegar hjálpa þarf erlendum öryggisvörðum. Mesta furða er, að bjórbannið skuli ekki hafa fokið líka!

Beðið er dögum saman eftir óljósum, þverstæðum og síbreytilegum upplýsingum heimsveldanna um, hvað þau vilji á hinum ýmsu sviðum. Svo einfalt atriði sem það, að hingað komi frá þeim 200 eða 900 menn, vefst fyrir þeim. En okkar menn bjarga öllu. Í núinu.

Grát og gífuryrði í fjölmiðlum á borð við El País og Bild Zeitung eigum við að láta okkur í léttu rúmi liggja. Þann vanda, sem þeir lentu í og lýst hafa, leystu okkar menn nánast áður en hann varð til. Á svipaðan hátt hefur líka ýmis annar vandi verið snaggaralega leystur.

Fjarskipti við umheiminn verða í sæmilegu horfi á toppfundinum, þótt ástandið væri einkar ófullkomið, þegar tekin var ákvörðun um fundinn. Öryggisvarzla virðist ekki aðeins verða fullnægjandi, heldur töluvert umfram það, Íslendingum til nokkurra óþæginda.

Flest bendir til, að afskipti íslenzkra aðila af undirbúningi toppfundarins verði til slíks sóma, að útlendingar telji mega halda hér fleiri mikilvæga fundi.

Jónas Kristjánsson

DV

Stefnumarkandi fundur

Greinar

Þeir, sem hafa atvinnu af að segja fólki, hvað sé að gerast í heimsmálunum, hafa deildar skoðanir um, hvað muni gerast á toppfundinum í Reykjavík um helgina. Meira að segja gætir misræmis í því litla, sem málsaðilar sjálfir hafa viljað láta frá sér fara um dagskrána.

Sumir ganga svo langt að segja toppfundinn einkum haldinn til að sýnast fyrir fólki. Gorbatsjov og Reagan hafi heimahagsmuni af fréttum um, að þeir talist við. Í samanburði við það skipti þá litlu máli, um hvað sé í rauninni talað eða hvort yfirleitt sé talað um neitt.

Sjónhverfingar eru ævinlega þáttur toppfunda. Leiðtogar tímasetja toppfundi gjarna að einhverju leyti með tilliti til hagsmuna sinna heima fyrir. En hingað til hafa slíkir fundir þó ekki reynzt hafa slíkar meginforsendur. Og svo er einnig um fundinn í Reykjavík.

Ef leiðtogar heimsveldanna ætluðu sér að nota toppfund fyrst og fremst í sjónhverfingaskyni, mundu þeir fljótlega verða uppvísir að því. Fréttamennska er orðin svo hörð og leki embættis- og ráðamanna svo stríður, að markleysi slíkra funda mundi fljótt koma í ljós.

Aðrir halda fram, að þetta sé ekki eiginlegur toppfundur, heldur eins konar undirbúningsfundur. Bandarískir valdamenn leggja sérstaka áherzlu á þetta sérkennilega atriði, enda sömdu leiðtogarnir fyrir tæpu ári um, að næsti toppfundur yrði í Bandaríkjunum.

Augljóst er, að það er ekki verkefni leiðtoga heimsveldanna að undirbúa toppfundi. Það hefur alltaf verið verkefni sérskipaðra embættismanna, er það enn og verður svo áfram. Þeir leggja fram vinnslugögn, reyna að skýra línurnar og finna, hver ágreiningurinn er.

Leiðtogarnir hafa fyrst og fremst það verkefni að skrifa undir það, sem embættismennirnir hafa barið saman. Ef herzlumuninn vantar, að embættismönnunum hafi tekizt það, er hlutverk leiðtoganna að höggva hnútinn í einkasamræðum, án nærveru embættismanna.

Þannig er einmitt staðan núna. Embættismenn málsaðila hafa í sumar og haust skýrt og skilgreint ágreininginn á nokkrum mikilvægum sviðum. Það hefur gerzt á sérstökum fundum í Stokkhólmi, Vínarborg og Genf, svo og á röð funda utanríkisráðherranna í New York.

Í ýmsum þessara atriða hefur komið í ljós, að bilið milli deiluaðila er ekki eins mikið og áður var talið. Í leiðurum DV hefur í sumar og að undanförnu nokkrum sinnum verið fjallað um, hvert bilið væri á hverju sviði. Ekki er rúm til að endurtaka það hér.

Staðan er orðin þannig, að leiðtogarnir hafa á nokkrum sviðum tiltölulega einfalda hnúta að höggva. Í einkaviðræðum sínum í Reykjavík hafa þeir til þess frið. Annað mál er svo, hvort þeim tekst það. En tækifærið er betra en verið hefur um margra ára skeið.

Ef sæmilega gengur í Reykjavík, er sennilegt, að ekki verði langt í annan toppfund í Bandaríkjunum, þar sem skjöl verði undirrituð á formlegan hátt í virðulegri athöfn. Það breytir ekki því, að vatnaskilin í sambúð heimsveldanna verða hér, en ekki þar.

Í Reykjavík setja leiðtogarnir stafina sína í mesta lagi undir þau atriði, þar sem þeir hafa höggvið hnútinn í sundur. Ef til vill verður það um meðaldrægar kjarnaeldflaugar í Evrópu. Ef til vill og vonandi verður það um sitthvað fleira, því að til þess standa málsefnin.

Reykjavíkurfundurinn er hvorki sjónhverfingafundur né vinnufundur, hvað sem ráðamenn segja. Hann er stefnumarkandi fundur um nánustu framtíð mannkyns.

Jónas Kristjánsson

DV

Ef báðir vilja

Greinar

Líta má á deiluefni heimsveldanna tveggja sem stækkaða útgáfu af ágreiningsmálum, sem hversdaglega eru á borðum sáttasemjara ríkisins hér á landi. Ef grannt er skoðað, er gjáin milli deiluaðila ekki meiri en svo, að Guðlaugur Þorvaldsson hefur margoft lamið slík mál saman á styttri tíma en Gorbatsjov og Reagan hafa til umráða í Reykjavík um næstu helgi.

Í Stokkhólmi hafa fulltrúar þeirra þegar samþykkt gagnkvæma tilkynningaskyldu um alla meiriháttar herflutninga og heræfingar, svo og það, sem meiru skiptir, gagnkvæmt eftirlit með, að þessi tilkynningaskylda sé haldin. Þessa skyldu og eftirlit má auðveldlega víkka.

Í Genf hafa verið stigin jákvæð skref í viðræðum heimsveldanna um aðgerðir til að koma í veg fyrir styrjöld af slysni. Talað er um að koma á fót í Moskvu og Washington stofnunum, þar sem heimsveldin skiptist á upplýsingum um hernaðarlegar aðgerðir, svo að þær komi ekki á óvart. Að undirrita slíkt er fimm mínútna verk í Reykjavík um næstu helgi. Ef báðir vilja.

Staðbundin ágreiningsefni er líka hægt að leysa. Stóra málið á því sviði er Afganistan. Fyrr eða síðar komast ráðamenn Sovétríkjanna að raun um, að hernaður þeirra þar í landi kostar of mikið í samskiptum við Arabaheiminn og að skynsamlegra er að semja við Bandaríkjastjórn um breiða afganska ríkisstjórn, sem mundi sýna Sovétríkjunum vinsamlegt hlutleysi.

Ekki ætti síður að vera létt að semja um mannréttindi. Raunar þarf ekki að semja um þau, því að Sovétstjórnin þarf ekki að gera annað en að framkvæma undirskrift sína undir þriðju körfu Helsinkisáttmálans. Hún getur gert það á fimm mínútum, ef hún vill. Augljóst er, að fólk á að hafa leyfi til að fara frá löndum eins og því þóknast sjálfu, svo og að koma til þeirra.

Eitt auðveldasta mál fundar Gorbatsjovs og Reagans í Reykjavík um helgina gæti verið að semja um bann við kjarnorkuvopnatilraunum. Tæknin er komin á slíkt stig, að eftirlit með slíku banni er barnaleikur. Bandaríkjastjórn kemst fyrr eða síðar að raun um, að tregðan gegn þessu verður henni of dýr í almenningsáliti.

Ekkert mælir á móti, að fimm mínútna verk sé að samþykkja að fækka meðaldrægum kjarnaorkuflaugum í Evrópu niður í 100 eða kannski bara 200 til að þóknast hinum svartsýnu. Hvort tveggja er of mikið, en eigi að síður auðveldur álitsauki fyrir hvorn þeirra um sig.

Ekki er lengra verk fyrir þá félaga að semja um, að framkvæmd hins svokallaða stjörnustríðs verði frestað um tíu ár. Gorbatsjov hefur heimtað 15 ár og Reagan hefur samþykkt 7 ár. Guðlaugur hefur séð það svartara, að minnsta kosti einu sinni á ári hverju.

Ef til vill tekur lengri tíma að komast að samkomulagi um bann við framleiðslu eiturefnavopna, eyðingu birgða á því sviði og virkt eftirlit með, að hvort tveggja sé haldið. Það er bara ákvörðun Gorbatsjovs um, hvort hann vill halda áfram að ögra heiminum eða ekki.

Flóknasta mál þeirra félaga er samkomulag um fækkun langdrægra kjarnaodda. Ekki er það þó flóknara en svo, að báðir aðilar hafa kastað á milli sín hugmyndum um 50% eða 30% fækkun, eins og það sé bitamunur en ekki fjár. Erfiðast á því sviði er auðvitað eftirlitið, sem verður að vera gott, alveg pottþétt.

Þannig er tæpast hægt að finna neitt ágreiningsefni heimsveldanna, sem ekki er hægt að semja um á fimm mínútum, hvað þá tveimur dögum. Ef báðir vilja.

Jónas Kristjánsson

DV