Greinar

Tímamóta-toppfundur

Greinar

Líkur benda til, að Reykjavíkurfundur æðstu manna heimsveldanna um næstu helgi verði ekki aðeins árangursríkur, heldur marki beinlínis tímamót í öryggismálum jarðarbúa. Eftir harðskeytt vígbúnaðarkapphlaup komi tímabil samdráttar í viðbúnaði heimsveldanna.

Taka verður fram, að kenninga um hið gagnstæða hefur orðið vart, einkum í röðum áhrifamanna í stjórnkerfi Bandaríkjanna. Sumpart er þar um að ræða eðlilega viðleitni til að halda vonum í skefjum, svo að endanleg niðurstaða fundarins valdi ekki vonbrigðum.

Einnig er því ekki að leyna, að sumir harðlínumenn í Washington gátu ekki dulið gremju sína. Þeir hafa lengi varað við slíkum toppfundi og sagt hann líklegan til að slæva tilfinningu Vesturlandabúa fyrir nauðsyn þess að vera á varðbergi gagnvart Sovétríkjunum.

Svo virðist sem Reagan Bandaríkjaforseti hafi hætt að ráfa milli hinna ýmsu sjónarmiða og hafi hallað sér að sjónarmiðum utanríkisráðuneytisins og Schulz utanríkisráðherra, sem fyrir nokkru var á langvinnum fundum með Shevardnadze, hinum sovézka starfsbróður.

Áður en utanríkisráðherrafundir heimsveldanna hófust í New York í síðasta mánuði var orðið ljóst, að línurnar í ágreiningsefnunum höfðu skýrzt og gjáin milli aðila var ekki eins breið og áður hafði sýnzt. Margvíslegir fundir embættismanna höfðu miðað á leið.

Samkomulag tókst á fundum í Stokkhólmi um tilkynningaskyldu og eftirlit vegna herflutninga og heræfinga. Vel hafa gengið viðræður um, að heimsveldin komi upp viðvörunarstöðvum hver hjá öðrum til að reyna að koma í veg fyrir, að átök hefjist af slysni.

Slík atriði eru mikilvægust allra, enn mikilvægari en samkomulag um fækkun vopna. Á því sviði hefur einnig verið hreyfing í rétta átt, einkum um fækkun meðaldrægra kjarnaodda í Evrópu. Samkomulag um 100 slíka odda ætti að geta verið í burðarliðnum.

Flóknara er að semja um samdrátt langdrægra kjarnaeldflauga, enda ekki líklegt, að leiðtogar heimsveldanna komist langt á því sviði í Reykjavík um næstu helgi. Ennfremur er ólíklegt, að Gorbatsjov fallist á að slaka mikið til í hinum ýmsu mannréttindamálum.

Lykillinn að árangri hinna ýmsu funda, sem haldnir hafa verið, er, að Sovétmenn eru að byrja að átta sig á, að Bandaríkjamenn trúa engum loforðum og halda fast við, að skýrir samningar séu gerðir um virkt eftirlit með, að staðið verði við undirrituð loforð.

Þannig stóðu málin, þegar fundir utanríkisráðherranna hófust. Þeir töluðu að sjálfsögðu mikið um skipti á mönnum, það er njósnurum, gíslum og mannréttindasinnum, svo sem kunnugt er. Minna er talað um önnur umræðuefni, sem hljóta þó að hafa verið einhver.

Óhætt er að fullyrða, að toppfundurinn hefði ekki verið ákveðinn svona snöggt, ef ekki væri hægt að byggja á einhverjum árangri utanríkisráðherranna. Leiðtogarnir hefðu ekki getað samið um að hittast upp á hið sama og síðast, ­ um góð orð án innihalds.

Vel getur verið, að formlegum undirskriftum verði frestað til toppfundarins, sem halda á í Bandaríkjunum öðrum hvorum megin áramótanna. Vel getur verið, að í einstökum atriðum þurfi embættismenn málsaðila að koma sér saman um orðalag eftir toppfundinn hér.

Eftir stendur, að líklegast er, að Reykjavík verði staðurinn, þar sem leiðtogar heimsveldanna handsala stefnubreytingu í átt til aukins öryggis jarðarbúa.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzk stéttaskipting

Greinar

Algengt er, að í fjögurra manna fjölskyldu hafi heimilisfaðirinn 65 þúsund króna og húsmóðirin 35 þúsund króna mánaðartekjur. Hans tekjur eru tekjur fyrirvinnunnar og hennar eru viðbótartekjur, sem fást fyrir vinnu í ýmsum störfum, einkum svonefndum kvennastörfum.

Þetta er nálægt því að vera vísitölufjölskylda, hjón með tvö börn, samtals 3,66 manns að nákvæmni tölfræðinnar. Slík fjölskylda hefur einmitt 65 þúsund plús 35 þúsund eða samtals 100 þúsund króna tekjuþörf samkvæmt búreikningum, sem framfærsluvísitala byggist á.

Þessir reikningar segja til dæmis, svo að hinar nákvæmu tölur séu notaðar, að vísitölufjölskyldan noti 223.007,54 krónur á ári í mat og 143.111,68 krónur í rekstur bíls. Að meðtöldum sköttum fara heildarútgjöldin á ári upp í 1,2 milljónir króna, 100 þúsund á mánuði.

Ofangreind fjölskylda náði þessum tekjum með því að hafa tvennar tekjur, algengar fyrirvinnutekjur og algengar kvennastarfatekjur. Aðrar fjölskyldur ná þessum tekjum með því, að fyrirvinnan hefur svokallaðar hátekjur, um og yfir 100 þúsund krónur á mánuði.

Hátekjur geta fengizt með ýmsu móti. Sum menntun getur fært einstaklingum slíkar tekjur, einkum ef þeir starfa ekki hjá hinu opinbera. Ennfremur leiðir ábyrgð í starfi oft til hárra tekna. Einnig aðstaða, sem kann að byggjast á fjölskyldutengslum eða klíkuskap.

Ekki má heldur gleyma hinum mörgu, sem ná 100 þúsund króna vísitölutekjum með mikilli vinnu, yfirvinnu, ákvæðisvinnu eða bónus. Þannig geta 65 þúsund króna grunnlaun hæglega orðið að 100 þúsund króna tekjum, án þess að menn telji sig vinnuþrælkaða.

Þannig lifir meirihluti Íslendinga góðu lífi, með 100 þúsund krónur eða meira á mánuði. Þeir gera það í krafti þess, að heimilistekjurnar eru tvennar eða af því að þær eru hátekjur vegna menntunar, ábyrgðar, aðstöðu eða mikillar vinnu. Þetta er höfuðþjóð landsins.

Ekki getur fólk talizt fátækt, þótt vísitölutekjurnar náist ekki. Samkvæmt reikningsaðferðum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD byrja fátæktarmörkin hjá hjónum með tvö börn við 60 þúsund krónur á mánuði. Þar með er fjórðungur Íslendinga fátækur.

Kjararannsóknanefnd miðar við minni tekjur, enda veit hún sennilega betur en útlendingar, hvaða úrræði Íslendingar hafa til að lifa. Hún telur fátæktarmörkin vera við 45 þúsund króna mánaðartekjur hjá vísitölufjölskyldunni margnefndu, hjónum með tvö börn.

Þegar búið er að taka tillit til ýmiss mótvægis í kerfinu, svo sem skattafrádráttar og barnabóta, lækkar tala hinna fátæku. Einnig þarf að taka tillit til skattsvika, því að margir vel stæðir smáatvinnurekendur og einyrkjar hafa aðeins sultarlaun á pappírnum.

Að öllu samanlögðu er ekki fráleitt að ætla, að um tíundi hver Íslendingur búi við fátækt. Það er hin þjóðin, sú sem ekki tekur þátt í velsæld meirihlutans. Þetta eru einkum einstæðar mæður og fjölmennur barnahópur þeirra, en einnig margt aldrað fólk og öryrkjar.

Bilið milli hins vel stæða vísitölufólks og hinna fátæku í landinu hefur breikkað á undanförnum árum vegna þess að launaskrið hefur í auknum mæli tekið við af kauptöxtum. Kaupmáttur greiddra launa hefur staðið í stað, en kaupmáttur taxta minnkað um fjórðung.

Mikilvægasta réttlætismál nútímans og verðugasta stjórnmálaverkefni næstu ára er að minnka þetta bil á nýjan leik, svo að við getum aftur státað af stéttleysi.

Jónas Kristjánsson

DV

Rík og fátæk þjóð

Greinar

Íslendingar búa við ein allra beztu lífskjör í Evrópu samkvæmt nýútgefnum tölum Efnahags- og framfarastofnunarinnar, OECD. Notaðir eru tveir mælikvarðar. Annars vegar er notaður ungbarnadauði, sem er lægstur hjá okkur og Finnum, nokkru lægri en hjá Svíum.

Hinn mælikvarðinn er heildarþjóðarframleiðsla á mann, sem er hér hin fjórða hæsta í álfunni, næst á eftir Sviss, Noregi og Svíþjóð og næst á undan velgengnislöndum á borð við Danmörku, Finnland og Vestur-Þýzkaland. Samkvæmt þessu erum við rík.

Fleiri fréttir en þessar hafa birzt hér í blaðinu að undanförnu. Meðal annars hefur komið í ljós, að launataxtar fyrir uppskipunarvinnu eru nærri þrefalt hærri í Færeyjum en hér á landi. Okkar menn fá 124 krónur á tímann, en Færeyingar 323 krónur.

Ríkidæmi okkar endurspeglast því ekki í Dagsbrúnarkaupi. Það er raunar ein af alvarlegri þverstæðum þjóðfélags okkar, að heildarvelgengni þjóðarinnar lýsir sér ekki í umsömdum launatöxtum. Ef við lítum á taxtana sem mælikvarða, erum við í rauninni fátæk þjóð.

Undanfarin erfiðleikaár hafa hinir betur settu náð sínu á þurrt, ýmist með launaskriði, meiri vinnu eða á annan hátt. Hinir lakar settu hafa borið samdráttinn einir. Sú byrði hefur verið þungbær, af því að hún dreifðist á allt of fáar og veikar herðar.

Landlæknir hefur vakið athygli á, að fólk sé aftur farið að veikjast hér á landi vegna hreinnar fátæktar. Einkum eru það einstæðar mæður og sjúklingar, sem ekki ráða við heilsugæzlukostnað. Um langt skeið höfðu veikindi vegna fátæktar verið nokkurn veginn óþekkt.

Þetta kemur heim og saman við kenningar um, að einstæðar mæður, öryrkjar, aldraðir og sjúklingar taki ekki þátt í ríkidæminu, sem tölur um þjóðarframleiðslu sýna, en hafi hins vegar tekið þátt í kjaraskerðingunni, sem tölur um kaupmátt taxta sýna.

Eftir mismunandi reikningsaðferðum hefur verið fundið út, að 8­24% þjóðarinnar lifi undir fátæktarmörkum. Þótt við gerum ráð fyrir, að lægri talan sé nær sanni, er hér um að ræða fjölmennan minnihluta, sem meirihlutinn hefur skilið eftir á flæðiskeri.

Nýlega töldust 5830 einstæðir foreldrar á skrá Tryggingastofnunar. Þessir foreldrar höfðu 7646 börn á framfæri. Þetta fólk var samt fjölmennt meðal skjólstæðinga félagsmálastofnana, til dæmis fjórða hvert barn einstæðra foreldra í Reykjavík, alls 1000 börn þar.

Alls njóta rúmlega 6% Reykvíkinga einhverrar aðstoðar Félagsmálastofnunar. Það er ef til vill ekki há hlutfallstala, en telur þó 5345 manns. Þetta eru heldur dapurlegar tölur í þjóðfélagi, þar sem atvinnuleysi er nánast ekkert og mikið auglýst eftir fólki til starfa.

Vandinn er, að einstætt láglaunafólk, sem verður að láta sér taxtana nægja og hefur ekki aðstöðu til að vinna aukavinnu, nær ekki nema broti af þeim 100.000 króna mánaðartekjum, sem vísitölufjölskyldan þarf samkvæmt opinberum útreikningum á framfærslukostnaði.

Ellilífeyrisþegar, sem ekki njóta lífeyrissjóðs, hafa um 15.000 krónur á mánuði. Margt láglaunafólk hefur um og innan við 30.000 króna mánaðarlaun. Í vor var rætt um að koma á 30.000 króna lágmarkslaunum í þjóðfélaginu, en náði ekki fram að ganga.

Einkennilegt er þjóðfélag með fjórðu hæstu tekjur í Evrópu, sem hefur 100.000 króna framfærslukostnað, en ræður ekki við að veita 30.000 króna lágmarkslaun.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkt hafast þeir að

Greinar

Fréttir þessarar viku benda til, að sjávarútvegurinn sé að herða sóknina inn í frelsið og hyggist styrkja stöðu sína sem hornsteinn þjóðfélagsins, en að landbúnaðurinn sé að draga sig lengra inn í eitraða skel Framleiðsluráðs og vilji verða jafnvel enn meiri baggi en áður.

Útgerðarmenn og sjómenn sömdu við loðnuverksmiðjur um, að frjáls markaður yrði á loðnu í tilraunaskyni í einn mánuð. Þetta er drjúgt skref að markmiði, sem margir hafa hvatt til: Að komið verði á fót innlendum fiskmarkaði, er leysi verðlagsráð af hólmi.

Á sama tíma gerðu forustumenn hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda harða hríð til að sannfæra eggja-, kjúklinga- og svínabændur um, að þeim yrði bezt borgið í náðarfaðmi Framleiðsluráðs, þar sem boðið er upp á búmark til að geta okrað á neytendum.

Gæludýr Framleiðsluráðs í þessari viðleitni hefur í rúm tvö ár verið eggjadreifingarstöðin Ísegg. Hún var stofnuð með gjafafé úr sjóðum, sem ráðamenn hins hefðbundna landbúnaðar hafa yfir að ráða og myndaðir hafa verið úr hagnaði af okri á neytendum.

Ísegg átti að taka við allri eggjadreifingu í landinu. En stóru framleiðendurnir með hagkvæmu og ódýru framleiðsluna neituðu að leggjast í náðarfaðminn. Þeir hafa haldið áfram að sjá um sína flokkun og dreifingu og selt neytendum á hvaða lágu verði, sem þeim þóknast.

Á sama tíma hefur gæludýr Framleiðsluráðs spillt tannfé sínu, enda rekið í stíl hins hefðbundna landbúnaðar. Dreifingarkostnaður er 20 krónur á kíló, langtum meiri en annarra. Bændur hafa ekki fengið greitt fyrir egg í heila þrjá mánuði. Gjaldþrot blasir við.

Nú hyggst Framleiðsluráð þvinga bændur inn í kerfi, þar sem öllu er stjórnað af gífurlega háu fóðurgjaldi, er endurgreiðist að hluta samkvæmt búmarki, sem sett verður til höfuðs stórbændunum, og að hluta verður lagt í sjóði til að gefa fé í gæludýr á borð við Ísegg.

Jafnan hefur verið auðvelt að fá óhagkvæma framleiðendur til að kvarta yfir svokölluðum undirboðum hinna, sem kunna til verka og geta boðið neytendum upp á tiltölulega ódýra vöru. Í hvert sinn, sem orðið “undirboð” er nefnt, ber neytendum að gæta sín.

Hafa má til marks um eymd neytenda og skort þeirra á samtakamætti, að Neytendasamtökin hafa ekki látið þetta mál til sín taka, svo tekið hafi verið eftir. Er það í stíl við almennt viðbragðsleysi þeirra gagnvart sífellt endurteknum árásum af hálfu Framleiðsluráðs.

Bjartari eru fréttir vikunnar úr sjávarútvegi. Þar samþykktu málsaðilar einróma að gera tilraun, sem getur leitt til mikilla framfara. Í einn mánuð verður loðnuverð ekki ákveðið með valdi að ofan, heldur fer eftir, hvernig kaupin gerast á eyrinni hverju sinni.

Málsaðilar vona, að þetta leysi erfiðan verðlagningarvanda í loðnu einni saman. En einnig eru menn að kanna, hvort ekki sé hægt að koma á fót almennum fiskmarkaði eins og er nánast alls staðar í útlöndum. Þar hlaupa prísarnir upp og niður og gæðin hríðvaxa.

Spáð hefur verið, að sjávarplássin, sem fyrst verða til að afla sér fiskmarkaðar af þessu tagi, muni blómstra umfram önnur. Þau muni soga til sín landanir og viðskipti með fisk. Hin sjávarplássin muni staðna og hugsanlega heltast um síðir úr lestinni.

Í baráttunni um fiskmarkað og búmark takast á nútíð og fortíð. Í fyrra tilvikinu sótti hagkvæmnin fram í síðustu viku, en í hinu síðara blés óhagræðið til sóknar.

Jónas Kristjánsson

DV

Þenslan hefnir sín

Greinar

Við erum komin á fremsta hlunn með að eyðileggja utanaðkomandi góðæri í þjóðfélaginu með of mikilli þenslu innanlands. Þenslan lýsir sér á ýmsum sviðum og boðar endurnýjuð vandamál á næsta ári, þegar olía er hætt að lækka og útflutningsverð hætt að hækka.

Þjóðhagsstofnun telur, að störf, sem fólk vantar til að sinna, nemi um eða yfir 2% af mannafla þjóðarinnar, meðan skráð atvinnuleysi er innan við 1%. Þessa umframeftirspurn vinnuafls má einnig sjá greinilega í smáauglýsingum og öðrum auglýsingadálkum dag blaða.

Við slíkar aðstæður er tiltölulega þægilegt fyrir ríkið að draga saman seglin, því að það veldur ekki atvinnu leysi eins og í mörgum öðrum löndum, þar sem skráð atvinnuleysi er um 10% af mannafla. Þar þarf ríkið að búa til atvinnu, en hér getur það losað um hana.

Ríkið getur þetta með því að draga úr umsvifum sínum og framkvæmdum, ­ með því að fresta þeim til þeirra ára, er atvinna minnkar á öðrum sviðum. Enn fremur með því að draga úr stuðningi við dulið atvinnuleysi í úreltum atvinnuvegi, ­ hinum hefðbundna landbúnaði.

Ríkisstjórnin gerir hvorugt, heldur tekur þátt í að magna spennuna. Það sést bezt af, að hallinn á ríkisbúskapnum mun nema 2,2 milljörðum króna á þessu ári. Þar á ofan er vitað, að mikill halli verður á fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir næsta ár.

Til þess að fjármagna þessa skaðlegu iðju hefur ríkið boðið upp vexti á innlendum markaði til að keppa við aðra aðila um fjármagnið. Þetta hefur stuðlað að háum vöxtum í landinu í ár og mun áfram gera það á næsta ári þrátt fyrir sjónhverfingar á síðustu vikum.

Þetta hefur ekki dugað ríkinu. Það hefur tekið mikið af lánum í útlöndum á þessu ári. Skuldabyrði þjóðarinnar mun því ekki lækka, þrátt fyrir góðærið. Er það mjög miður, að tækifærið skuli ekki vera notað til að létta hættulega stöðu þjóðfélagsins gagnvart útlöndum.

Launaskrið ársins stafar að verulegu leyti af þátttöku ríkisins í þenslunni, sem hefur aukið samkeppnina um það vinnuafl, sem beztar tekjur hafði fyrir. Hins vegar hafa hinir verst settu ekki haft eins góða aðstöðu til að lyfta sér upp úr hinu nakta taxtakaupi.

Þetta hefur aukið ójöfnuð í þjóðfélaginu. Annars vegar hefur aukizt sala á dýrum ferðalögum, dýrum bílum, dýrum rafmagnstækjum og dýrum íbúðum. Hins vegar hefur fjölgað þeim, sem leita ásjár félagsmálastofnana. Þetta er versta hliðin á góðærinu.

Þenslan, sem hér hefur verið lýst, mun á næsta ári verða hættulegur verðbólguhvati. Þá munum við ekki getað notað nýjar verðlækkanir á olíu og nýjar vaxtalækkanir í útlöndum til að minnka heimatilbúnu verðbólguna. Við eigum á hættu, að hún vaxi að nýju.

Fyrsta verðbólgukveikjan verður fjárlagafrumvarp, sem gerir ráð fyrir óbreyttri samkeppni ríkisins við afganginn af þjóðfélaginu um vinnuafl og peninga. Næsta verðbólgukveikja verður vinnustaðasamningar, sem gera hina ríku ríkari og hina fátæku fátækari.

Þá verður farið að líða að kosningum að vori. Þá verða óhagstæðu þenslumerkin byrjuð að koma í ljós, þar á meðal vaxandi verðbólga. Þá verður ríkisstjórnin ekki eins viljug að veifa þjóðhagsspám og hún hefur nú verið. Og þá er hætt við rýrðum vinsældum hennar.

Ríkisstjórnin baðar sig ekki lengi í góðærinu, ef hún hefur ekki kjark til að hefja baráttu gegn þenslunni, sem annars mun leiða til vandræða á næsta ári.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðæri greiðir fyrir lausn

Greinar

Nýjasta þjóðhagsspá ársins sýnir, að tekizt hefur að ná markmiðum heildarkjarasamninganna frá í febrúar. Verðbólgan hefur náðst niður fyrir 10% og kaupmáttur hefur vaxið um 8%. Flestar stærðir þjóðarbúskaparins sýna hagstæða þróun, sumar ótrúlega hagstæða.

Einna verst hefur gengið að koma lagi á rekstur ríkisins sjálfs. Eftir mánuð er búizt við fjárlagafrumvarpi, sem staðfesti árangursleysið. Sumpart stafar það af útgjöldum, sem ríkið tók að sér vegna febrúarsamninganna, og sumpart af ótta við að skera niður útgjöld.

Þetta þýðir, að í næstu samningum, um eða upp úr næstu áramótum, verður ríkið ekki aflögufært. Aðilar vinnumarkaðsins verða sjálfir að finna útkomu án þess að geta átt von í félagsmálapökkum eða annarri opinberri tilfærslu, sem kostar ríkissjóð peninga.

Forsætisráðherra hefur lagt til, að svigrúmið, sem auknar þjóðartekjur eru í þann veginn að færa okkur, verði notað í vetur til að jafna lífskjörin fremur en að auka kaupmátt enn frá því, sem nú er. Þessi tillaga er eðlileg og sanngjörn við núverandi aðstæður.

Að vísu er launaskriðsfólkið ekki eitt um að hafa hagnazt á vexti kaupmáttar á árinu. Horfur eru á, að kaupmáttur taxtakaups verði í árslok orðinn um 7% hærri en hann hefur verið síðustu tvö árin. Það er því ekki rétt, að taxtarnir hafi setið alveg eftir.

En í stórum dráttum stendur enn eftir skilnaðurinn, sem varð undanfarin ár milli alls þorra þjóðarinnar, sem bjargaði sér á tveimur fyrirvinnum, aukavinnu, bónus, menntun eða aðstöðu, og minnihlutans, sem sat eftir í sílækkandi kaupmætti nakins lágtaxtakaups.

Í árslok verður kaupmáttur taxtanna enn um 15­20% lægri en hann var fyrir erfiðleikatímabilið 1983­1985, en hafði verstur orðið um 25% lægri. Auðvelt er að vera sammála forsætisráðherra um, að brýnt sé að nota góðærið, sem nú er hafið, til að minnka bilið enn.

Til þess að svo verði, þurfa aðilar vinnumarkaðsins að stefna að launajöfnun í næstu kjarasamningum. Það hlyti þá að gerast í heildarsamningi, þar sem hin öflugri launamannafélög sættu sig við óbreyttan kaupmátt árið 1987, gegn auknum kaupmætti lágtaxtafólksins.

Nú heyrast hins vegar raddir um, að ekki beri að fara heildarsamtakaleiðina í þessum kjarasamningum, heldur semji fólk á mörgum stöðum, jafnvel á einstökum vinnustöðum. Slík aðferð hefur marga kosti og ætti að auka samræmið í afkomu fyrirtækja og launafólks.

Hins vegar er þetta síður en svo líklegt til að jafna kjör landsmanna og hentar líklega fremur síðar, þegar búið er að jafna launamisræmið, sem hefur orðið á undanförnum árum. En auðvitað er þetta fyrst og fremst ákvörðun, sem Alþýðusambandið og félög þess taka.

Bent hefur verið á, að ekki sé aðeins spenna í skiptingu þjóðaraflans milli launþega og fyrirtækja, heldur innan hvors aðila. Sumar atvinnugreinar hafa farið halloka gagnvart öðrum greinum alveg eins og sumir hópar launafólks hafa farið halloka gagnvart öðrum.

Æskilegt er, að heildarsamtök beggja aðila reyni að slaka á þessari innri spennu, svo að auðveldara verði að komast að heildarniðurstöðu í almennum kjarasamningum. Ríkið er líka málsaðili, því að það ræður miklu, um afkomu einstakra greina, t.d. með gengisskráningu.

Þannig steðja ýmis vandamál að þeim, sem munu bera ábyrgð á næstu kjarasamningum. En góðærið og aukni kaupmátturinn ættu þó að greiða fyrir lausn.

Jónas Kristjánsson

DV

Flokkur fortíðar

Greinar

Framtíð Alþýðubandalagsins er ótrygg, ef marka má niðurstöður þjóðmálakönnunar, sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði nýlega fyrir unga framsóknarmenn. Flokkurinn reyndist hafa mun minna fylgi meðal yngstu kjósendanna en hjá hinum aldurshópunum.

Könnunin sýndi 15,2% fylgi Alþýðubandalagsins meðal þjóðarinnar í heild og tiltölulega jafnt í öllum aldursflokkum yfir 24 ára aldri. Hins vegar var fylgi hans aðeins 9,6% meðal yngstu kjósendanna, þeirra sem eru á aldrinum 18­24 ára.

Forvitnilegt er að skoða fylgi flokkanna í þessum aldurshópi þeirra, sem eiga eftir að erfa landið. Flestir þeirra hafa svipað fylgi unga fólksins og þeir hafa meðal þjóðarinnar í heild. Alþýðubandalagið eitt hefur minna fylgi og Kvennalistinn einn meira fylgi.

Sjálfstæðisflokkurinn heldur sínu nokkurn veginn. Fylgi hans meðal þjóðarinnar í heild er 41,9% samkvæmt könnuninni og 40,8% í þessum aldurshópi. Hann virðist þannig vera að ná sér á sitt gamla skrið eftir fylgismissi niður í 32,8% í 25­34 ára hópnum.

Þarna er um að ræða hægri sveiflu yngstu kjósendanna eftir vinstri sveiflu þeirra, sem næstir eru á undan í aldri. Sveiflan er þó ekki meiri en svo, að hún nægir tæpast til að ná fylginu aftur upp í það, sem er hjá elztu kjósendunum, 45 ára og eldri.

Sjálfstæðisflokkurinn er flokkur gamla fólksins. Í könnuninni fékk hann 48,1% fylgi þeirra, sem eru 60­80 ára að aldri og 47,1% þeirra, sem eru á aldrinum 45­59 ára. Í heild má segja, að framtíðarhorfur flokksins séu sæmilegar, en ekkert umfram það.

Ef við gerum ráð fyrir, að í framtíðinni færist fylgi flokkanna í það horf, sem nú er í 18­24 ára hópnum, verður ríkjandi kerfi eins stórs flokks, Sjálfstæðisflokksins með 41% fylgi, og þriggja minni flokka, sem hver um sig hefur um 14% fylgi.

Þessir þrír flokkar eru Framsóknarflokkurinn, með 14,4% fylgi í könnuninni, Alþýðuflokkurinn og Kvennalistinn, báðir með 13,6% fylgi. Kvennalistinn mun samkvæmt þessu taka sæti Alþýðubandalagsins í fjögurra flokka kerfinu, sem þjóðin hefur komið sér upp.

Framsóknarflokkurinn einn þessara flokka hefur tiltölulega jafnt fylgi í öllum aldurshópum. Alþýðuflokkurinn hefur mest fylgi meðal 25­34 ára kjósenda, 19,2%, og virðist því vera farinn að dala á ný eftir væna sveiflu upp á við í þeim hópi.

Einna björtust virðist framtíð Kvennalistans samkvæmt þessari könnun. Fylgi hans er eindregið samþjappað í þessum yngsta aldursflokki kjósenda. Munurinn er áberandi á 13,6% fylgi þeirra, sem eru 18­24 ára, og á 7,6% fylgi þeirra, sem eru 25­34 ára.

Bandalag jafnaðarmanna fékk lítið fylgi í könnuninni, 3,3%, sem ekki nægir til að koma manni á þing. Flokknum má þó vera nokkur huggun í, að meðal hinna yngstu er fylgið heldur betra, 4,8%, nálægt því að standa undir þingmanni einhvern tíma í framtíðinni.

Í heild er athyglisverðast við niðurstöður könnunar Félagsvísindastofnunar, hversu traust fylgi flokkanna er, þrátt fyrir tízkusveiflur og flokkaflakk. Ekkert bítur til dæmis á Framsóknarflokkinn, þótt hann sé kallaður tækifærissinnaður dreifbýlisflokkur gamalmenna.

Hins vegar hefur Alþýðubandalagið fengið tilefni til að íhuga, hvernig stendur á, að það er orðið fortíðarflokkur, sem megnar ekki að vinna traust hinna ungu.

Jónas Kristjánsson

DV

Við skulum beizla vindinn

Greinar

Við lítum á vindinn sem óvin okkar og fögnum hverjum sumardegi, sem færir okkur golu eða andvara í stað kalda eða hvassviðris. Stundum fárast fólk út af búsetu okkar á eyju í miðju Norður-Atlantshafi, þar sem vindar blási meira en í flestum öðrum mannvistarstöðum.

Við hugsum síður til þess, að vindur hefur líka sínar góðu hliðar, enda höfum við ekki vit á að nýta okkur þær. Við látum nágrönnum okkar Dönum eftir að gera vindinn að einni mikilvægra atvinnugreina landsins, þótt loftslag sé þar stórum lygnara en hér á landi.

Danir standa þjóða fremst í hönnun og framleiðslu vindmylla. Þeir eru töluvert farnir að nota vindmyllur til að framleiða rafmagn heima fyrir og selja auk þess grimmt til útlanda. Við sáum nýlega í sjónvarpinu merkar ráðagerðir um vindmylluvæðingu Borgundarhólms.

Þetta er aðeins byrjun á arðvænlegri framtíð. Fólk um allan heim er ekki síður en Íslendingar seint að átta sig á gildi vindsins sem orkugjafa. Menn átta sig ekki heldur á framförunum, sem hafa undanfarin ár valdið ört lækkuðum framleiðslukostnaði vindorku.

Sérfræðingar halda fram, að ekki séu nema fjögur ár, þangað til vindorkuverð verði komið niður í vatnsorkuverð. Um mitt ár 1990 verði þessar tvær orkulindir hinar ódýrustu í heimi, mun ódýrari en olía, kol og kjarnorka. Við ættum því að fara að sperra eyrun.

Vindurinn á það sameiginlegt með fallvötnunum, að ekki eyðist, þótt af sé tekið. Þess vegna er miklu meiri framtíð í slíkum orkuverum en í olíulindum, sem ganga til þurrðar hver af annarri, eða í kjarnorkuverum, sem hafa reynzt hin hættulegustu fyrirtæki.

Við höfum vafalaust talið, að við þyrftum ekki fleiri orkugjafa en fallvötnin og jarðhitann. Þar hefðum við takmarkalausa uppsprettu, sem mundi endast okkur um aldur og ævi. Það kann rétt að vera, en samt eru virkjunarmöguleikarnir takmarkaðri en margir telja.

Við höfum þá reynslu frá Blönduvirkjun, að orkuver og miðlunarlón vatnsafls kosta landfræðilegar breytingar, sem geta orðið afar dýrar, ef bændur standa fast á ýtrustu fjárkúgun. Og líklegt má telja, að frekar fjölgi en fækki Gullfossunum, sem við tímum ekki að virkja.

Einnig höfum við reynslu frá Hitaveitu Reykjavíkur, sem hefur sífellt þurft að leita víðar og fjarlægar til fanga, af því að fullvirkjað er í nágrenni Reykjavíkur. Hún er nú komin austur að Þingvallavatni með tilraunaboranir á Nesjavöllum og kaup á Ölfusvatni.

Við ættum því að beina athygli okkar betur að vindinum. Hann er orkulind, sem er nálæg hvarvetna á landinu og kostar ekki stórútgjöld til bænda eða annarra landeigenda. Hann er orkulind, sem er í þann veginn að verða jafn ódýr og vatnsorka og jarðvarmi.

Vindmylla hefur verið reist í tilraunaskyni í Grímsey. Hún hefur verið notuð þar til húshitunar og framleiðir um 30 kílóvött á sólarhring. Hún er íslenzk hönnun, gerð til að þola meiri vindstyrk en dönsku vindmyllurnar, hefur gengið á fullu í 12­14 stiga roki.

Nauðsynlegt er, að orkuráðherra, orkuráðuneyti og Orkustofnun sýni málinu meiri áhuga. Aðstæður okkar hæfa vel til notkunar vindmylla, bæði til rafmagnsframleiðslu og vatnshitunar. Þar á ofan eigum við að geta framleitt slíkar gersemar fyrir okkur og aðra.

Okkur er verðugt verkefni að beizla vindinn, okkar gamla óvin, bæta honum í hóp púlshestanna, spenna hann fyrir þjóðarkvörnina til að mala okkur gull.

Jónas Kristjánsson

DV

Deilt um stórbændastefnu

Greinar

Innlendur markaður fyrir hefðbundnar búvörur hefur hægt og bítandi verið að dragast saman undanfarin ár og mun halda áfram að rýrna. Þetta leiðir til, að árlega minnkar magnið, sem ríkið ábyrgist fullt kaupverð fyrir. Þetta eykur mikinn vanda hefðbundnu greinanna.

Núverandi reglur gera í stórum dráttum ráð fyrir, að fullvirðisréttur hvers bónda skerðist frá ári til árs. Með þeim er þó reynt að takmarka meira framleiðslu stórbænda og vernda í þess stað framleiðslu smábænda. Þetta er gert af félagslegri ástæðu, ­ byggðastefnu.

Heildarútkoman er, að sérhver bóndi verður árlega að draga saman seglin, minnka framleiðsluna. Það er tillag hans til að laga hinn hefðbundna landbúnað að litlum og minnkandi markaði. Hann fær sífellt minni tekjur til að greiða fjármagns- og rekstrarkostnað.

Hægt og sígandi eykur kerfið þannig fátækt kinda- og kúabænda. Um leið eflast kröfur um, að ríkið standi við lög um, að bændum séu tryggð sambærileg kjör við svonefndar viðmiðunarstéttir í þéttbýli. Kvótakerfið bindur því ekki fasta alla hina lausu enda dæmisins.

Þeirri skoðun hefur aukizt fylgi innan landbúnaðarins, að heppilegra sé að mæta samdrætti markaðsins með fækkun í bændastéttinni fremur en að skera niður tekjur hvers bónda. Þessi skoðun hefur meðal annars komið fram hjá Landssambandi sauðfjárbænda.

Formaður sambandsins segir, að það sé “alveg ljóst”, að bændur eru of margir. Ennfremur, að “óumflýjanlegt sé, að harðbýlli héruð leggist í eyði og að landbúnaður yrði framvegis stundaður á færri stöðum”. Sé þetta “hvorki óeðlilegt eða slæmt í sjálfu sér”.

Hliðstæð er niðurstaða viðamikillar skýrslu landnýtingarnefndar landbúnaðarráðuneytisins. Þar segir, að ekki sé grundvöllur fyrir starfi nema 2000­2500 kinda- og kúabænda í stað þeirra 4000, sem nú stunda þær greinar. Þeir séu nærri tvöfalt fleiri en þurfi.

Í niðurstöðum skýrslunnar segir einnig: “Margt bendir til, að byggð muni dragast saman víða um land, einkum í hinum afskekktari sveitum og þar sem aðstaða til búskapar er erfið, en styrkjast í og umhverfis þéttbýli”. Þetta sé aðlögun fremur en byggðaröskun.

Einn nefndarmanna, Hákon Sigurgrímsson, hefur sagt, að eftir 5­8 ár sé líklegt, að framleiðslan verði á um það bil 30 kúa eða 630 ærgilda búum. Þau bú, sem séu á 200­400 ærgilda bilinu, séu hins vegar í mikilli hættu. Hinir stóru verði stærri, en hinir minni hætti.

Eðlilegast virðist að létta hömlum af þessari þróun með því að heimila verzlun með búmark og fullvinnslurétt. Vonlitlir bændur gætu þá komið kúa- og kindaréttindum sínum í verð og snúið sér að arðbærum störfum, sem eru næg í þjóðfélagi umframeftirspurnar.

Þeir bændur, sem eru nær því að teljast til stórbænda, gætu aftur á móti keypt sér réttindi til að auka framleiðsluna í það magn, að hún bæti framleiðni búsins og geri atvinnu bóndans tiltölulega arðbæra. Nú er slík verzlun hins vegar algerlega bönnuð.

Meðal ráðamanna landbúnaðarins er afar hörð andstaða gegn hugmyndum af þessu tagi. Þeir segja stórbændastefnuna forkastanlega og kvótaverzlun af hinu illa. Helzt vilja þeir, að ríkið þvingi fram samdrátt í öðrum kjötgreinum til að vernda markað kúa og kinda.

Sumarið hefur einkennzt af sókn hinna ungu með nýju stefnuna og gagnsókn hinna eldri með gömlu úrræðin. Skattgreiðendur ættu að fylgjast með deilunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Skammrif með böggli

Greinar

Ríkisstjórnarflokkarnir ætla að halda áfram að starfa saman eftir kosningar. Þeir telja, að þriggja ára reynsla sýni, að samvinna Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sé traustari en áður var haldið, þegar menn höfðu gamlar helmingaskiptastjórnir þessara flokka í huga.

Helztu hugsjónamenn framhalds núverandi mynzturs eru auðvitað ráðherrar beggja flokka. Þeim er yfirleitt ljóst, að þeir gætu ekki unnið fyrir sér með öðrum hætti á meira kaupi og fríðindum en þeir hafa núna. Þeir horfa ekki bara fimm ár, heldur níu ár fram á við.

Undanfarnar vikur hefur mjög borið á viðleitni í herbúðum Sjálfstæðisflokksins að afsaka eða réttlæta stjórnarsamstarfið. Grunntónn þeirrar umfjöllunar er, að ríkisstjórnin hafi náð þvílíkum árangri, að helzt minni á hina ákaft hörmuðu viðreisnarstjórn.

Hæst ber fréttaskýringu í Morgunblaðinu, þar sem reynt var að sýna fram á, að ungliðaþing Framsóknarflokksins hefði sýnt burði til að gera þann flokk að nýjum, endurfæddum flokki. Áður höfðu birzt greinar í Stefni um, að Framsókn væri ekki sem verst.

Sannleikurinn er hins vegar, að þing ungra framsóknarmanna sýndi algera uppgjöf þeirra gagnvart hinu ráðandi afli flokksins, þingflokknum. Fyrra digurbarkatal um alger umskipti í þingliði varð að mjóróma bæn um, að einhverjum öldungnum yrði skipt út.

Í þessari tilraun til sjálfssefjunar hefur Sjálfstæðis flokkurinn óbeint viðurkennt, að heppilegt sé, að Steingrímur Hermannsson verði áfram forsætisráðherra. Hann sé kjörið sameiningartákn þeirra afla, sem vilja meira af núverandi ástandi í þjóðfélaginu.

Við nánari athugun kemur í ljós, að þetta er ekki svo vitlaust. Eftir langt hlé eru lífskjör þjóðarinnar farin að batna á nýjan leik. Atvinna er rífandi um allt land, fiskveiðiflotinn í ofsagróða og síðast en ekki sízt er verðlag orðið tiltölulega traust, ­hreint kraftaverk.

Að vísu er hætta á, að verkalýðsrekendur átti sig á, að stjórnarsamstarfið sé í þann mund að verða varanlegt og reyni að spilla því með kröfugerð, sem blási vindum í lognmolluna. En þeir yrðu þá að njóta stuðnings fólks, sem er í raun ánægt með núverandi stöðu.

Sennilega verður erfitt fyrir verkalýðshreyfinguna að koma illu af stað eftir áramótin. Þjóðin mun ekki fallast á að fara í pólitískt verkfall gegn ríkisstjórninni. Helzt eru kennarar og nokkrir aðrir hópar ríkisstarfsmanna líklegir til átaka, ­ áhrifalítilla átaka.

Um leið og þjóðin getur hrósað happi yfir, að almenn hagfræðilögmál fái að leika lausum hala í nokkur ár í viðbót eftir markvissar tilraunir ýmissa vinstri aðila til að framleiða efnahagsrugl, verður hún að átta sig á, að ýmis böggull fylgir hinu bragðgóða skammrifi.

Við fáum fjögur, ef ekki átta ár í viðbót af stöðugri blóðtöku til að halda lífi í dauðvona landbúnaði kúa og kinda. Á fjárlögum verður árlega varið til þess milljörðum, sem nýtast ekki til annarra þarfa. Enda segja skoðanakannanir, að þjóðin sætti sig við byggðastefnu.

Við verðum áfram að þola ferðir sjávarútvegsráðherra út um allan heim til að vekja athygli á, að við séum vond hvalveiðiþjóð, sem ekki beri að kaupa af sjávarafurðir. Það er sanngjarnt böl, þar sem allur þorri þjóðarinnar styður þjóðernisruglið um vísindaveiðar.

Slíkir bögglar eru þó léttari á metunum en tilfinningin fyrir stjórnarfestu, sem leggur áherzlu á stöðugt verðlag og almenna virðingu fyrir hagfræðilögmálum.

Jónas Kristjánsson

DV

Allt verður áfram eins

Greinar

Framsóknarflokkurinn hefur ákveðið að vera áfram gamaldags flokkur aldraðra þingmanna, réttar sagt þingkarla, sem reka hentistefnu og gæta hagsmuna dreifbýlis á kostnað þéttbýlis, svo notað sé orðaval úr nýlegri könnun Félagsvísindadeildar Háskólans.

Þetta kom í ljós á þingi Sambands ungra framsóknarmanna um síðustu helgi. Þangað fóru menn vígreifir með digurbarkalegum yfirlýsingum, en koðnuðu síðan niður í nánast ekki neitt. Krafan um alger skipti í þingliði flokksins varð að kröfu um skipti á hluta þess.

Steingrímur Hermannsson var viðstaddur til að gæta þess, að orðalag ungliðanna færi ekki úr skorðum. Það tókst honum að flestu leyti, enda átu ungliðarnir úr lófa hans sem hins óumdeilanlega höfðingja flokksins. Þannig sigraði Steingrímur á fundinum.

Hann er að vísu sjálfur hlynntur því að losna við verulegan hluta þingmanna sinna og fá aðra heppilegri í staðinn. En hann ræður ekki við málið, því að hver þingmaður um sig er kóngur í sínu dreifbýliskjördæmi og lætur ekki átakalaust stjaka við sér.

Ungliðunum var vorkunn. Rétt fyrir þingið voru birtar niðurstöður áðurnefndrar könnunar Félagsvísindadeildar. Þar kom ekki aðeins fram, að almenningsálitið telur Framsóknarflokkinn vera gamaldags hentistefnuflokk dreifbýlishagsmuna, heldur einnig, að það er í lagi.

Í könnuninni kom í ljós, að mikill meirihluti þjóðarinnar styður byggðastefnu, þótt hún kosti peninga. Þótt ekki sé þar með endilega sagt, að þjóðin styðji dreifbýlisstefnu Framsóknarflokksins, hlýtur niðurstaðan að benda til, að hann sé ekki fjarri réttri leið.

Ennfremur kom í ljós, að mikill meirihluti þjóðarinnar telur framboðslista ekki verða girnilegri kost, þótt þar verði meira af ungu fólki og konum. Framsóknarflokkurinn getur þess vegna óhræddur haldið áfram að bjóða upp á gamla karla sem þingmenn flokksins.

Þetta er auðvitað um leið hughreysting öðrum stjórnmálaflokkum, sem hafa eins og Framsóknarflokkurinn átt erfitt með að verjast kröfum ungs fólks og kvenna um aukin áhrif í flokkunum. Nú losna forustumenn allra flokka við broddinn úr væli af því tagi.

Framsóknarkonur voru ekki alls fyrir löngu með háværar kröfur um að fá fast hlutfall öruggra sæta og baráttusæta á framboðslistum flokksins. Nú verður ekki hlustað á slíkt, enda munu kröfurnar falla niður, alveg eins og ungliðarnir heyktust á að krefjast sér valda.

Til þess að undirstrika, að allir væru sáttir og að úlfarnir mættu hætta að góla, lét Ingvar Gíslason fórna sér á ungliðaþinginu. Hann sagðist ekki fara aftur fram. Liðið lét friðast, þótt Ingvar sé tæpast hinn dæmigerði fulltrúi þingmannanna, sem það hafði viljað losna við.

Framsóknarflokkurinn verður áfram ekki síður hagsmunaflokkur Páls á Höllustöðum og annarra slíkra en flokkur Steingríms formanns. Þeir félagar munu áfram geta rifizt í blöðum um, hvor fari oftar til útlanda og hvor þeirra segi fleira, sem betur væri ósagt.

Eftir þing Sambands ungra framsóknarmanna er ljóst, að í næstu kosningum mun Framsóknarflokkurinn bjóða upp á nokkurn veginn nákvæmlega sömu andlit og hann hefur hingað til gert. Hann mun fá slæðing af þingmönnum í dreifbýlinu, en lítið í þéttbýlinu.

Þeir, sem vilja varðveita fornar minjar, geta glaðst yfir, að í fallvöltum heimi sé þó einn stjórnmálaflokkur, sem verður áfram eins og hann hefur alltaf verið.

Jónas Kristjánsson

DV

Gerbreyttur markaður

Greinar

Gengisbreytingar á alþjóðamarkaði á þessu ári hafa gerbreytt verðhlutföllum í útflutningi íslenzkra fiskafurða. Bandaríkjamarkaður er ekki lengur áhugaverðasti markaðurinn, jafnvel þótt verð þar á frystum sjávarafurðum sé nú hærra en nokkru sinni fyrr.

Í fiskútflutningi hafa undanfarin misseri einkennzt af vel heppnuðum tilraunum til að festa íslenzkan fisk í sessi á öðrum markaði en freðfiskmarkaðnum í Bandaríkjunum. Sérstök áherzla hefur verið lögð á að endurlífga freðfiskmarkaðinn í Bretlandi.

Meiri bylting felst í hinni nýju áherzlu á ferskfisksölur. Menn eru farnir að átta sig á, að nútíma flutningatækni gerir kleift að ná ívíð hærra verði á ferskum fiski en næst á fiski, sem hefur farið með miklum viðbótarkostnaði um frystihús og frystigeymslur.

Í rauninni eru þetta gömlu ísfisksölurnar í nútímalegri mynd. Athyglisvert er, að löndunarbann Breta í fyrsta þorskastríðinu olli því á sínum tíma, að þessi markaður vék fyrir freðfiskmarkaðnum vestra, sem var bjargvættur okkar þá og hornsteinn æ síðan.

Nú hefur annars konar löndunarbanni verið veifað framan í okkur, í þetta sinn vegna hvalastríðsins. Bandarísk yfirvöld hafa íhugað að beita okkur viðskiptaþvingunum, sem líklega mundu felast í háum tollum á fiski eða hreinu innflutningsbanni.

Ef ferskfisksölur til Bretlands og fleiri landa eiga eftir að verða okkur hliðstæður bjargvættur og freðfisksalan til Bandaríkjanna varð á sínum tíma, má segja, að sagan hafi gengið í hring. Því meira, sem hlutirnir breytist, þeim mun meira séu þeir eins!

Vonandi komumst við að raun um, að Bretland er ekki eini ferskfiskmarkaðurinn, sem við getum haft gagn af. Verð á góðri vöru af því tagi er enn hærra í löndum á borð við Frakkland, þar sem meiri hefð er fyrir fersku gæðahráefni en á Bretlandi.

Mikilvægt er, að stjórnvöld leggi ekki stein í götu þess, að reynt sé að koma íslenzkum sjávarafurðum á annan markað en bandarískan freðfiskmarkað. Við verðum einmitt að dreifa áhættunni á marga staði meðan við eigum í útistöðum við Bandaríkin.

Tilgangslaust er að etja kappi við öflugan aðila um hvalveiðar, sölu kjötmetis til varnarliðs og flutninga á varnarliðsgóssi, nema hafa undirbúið króka á móti bragði. Ef við hyggjumst standa á okkar rétti, verðum við að geta mætt mótleikjum andstæðingsins.

Greinilegt er, að mikill meirihluti þjóðarinnar vill ekki sætta sig við afstöðu og gerðir bandarískra stjórnvalda í nokkrum málum okkar og allra sízt hótanir þeirra í hvalveiðideilunni. Einstakir ráðherrar hafa sagt, að þeir muni fylgja þessum vilja eftir í verki.

Þótt ekki kæmu til ágreiningsefnin, er varhugavert, hversu ákaft vex stuðningur vestra við atvinnuverndarstefnu, viðskiptaþvinganir gagnvart útlöndum og raunar hvers kyns einangrunarstefnu. Einnig þetta ætti að hvetja okkur til að dreifa áhættunni. Fisksölufyrirtæki okkar í Bandaríkjunum hafa staðið sig vel og eiga allt gott skilið. En aðstæður hafa breytzt svo róttækt á síðustu misserum og einkum síðustu mánuðum, að líklegt má telja, að þau verði að draga saman seglin og sætta sig við minni markaðshlutdeild.

Stjórnvöldum ber af öryggisástæðum að greiða fyrir breytingunum með því að styðja tilraunir til að finna nýja markaði og efla þá, sem nýlega hafa náðst.

Jónas Kristjánsson

DV

Dreifum áhættunni

Greinar

Við erum of háð fiskmarkaði okkar í Bandaríkjunum. Hann hefur áratugum saman verið okkar mesta gullkista og þess vegna stækkað úr hófi fram, meðan annar markaður hefur verið vanræktur, einkum í Evrópu og Japan. Þetta bindur hendur okkar á öðrum sviðum.

Okkur þykir alltof sjálfsagt, að frysti fiskurinn hafi ótakmarkaðan og tollfrjálsan aðgang að bandarískum markaði. Ýmislegt getur breytzt. Aðstæður verða aldrei endalaust hinar sömu. Við sjáum þess einmitt merki núna, að hætta getur verið á ferðum.

Við teljum sanngjarnt, að teflt verði fram í haust nýjum, íslenzkum lögum um siglingar kaupskipa til landsins til mótvægis við gömul einokunarlög í Bandaríkjunum. Við verðum að gera ráð fyrir hugsanlegum gagnhótunum, sem gætu beinzt gegn freðfiskinum.

Við teljum oft, að Bandaríkin mundu aldrei beita okkur ofríki vegna hernaðaraðstöðu þeirra hér á landi. Sum okkar vilja jafnvel beita þeirri stöðu til að sýna Bandaríkjunum ofríki. Til lengdar verður þó báðum farsælast að halda varnarsamstarfi utan við kaupskap.

Við megum heldur ekki gleyma, að einangrunarstefna blómstrar um þessar mundir í Bandaríkjunum. Hver þingmaðurinn á fætur öðrum heimtar, að bandarískt herlið verði flutt frá Vestur-Evrópu. Ástæða er til að búast við, að senn verði meirihluti á þingi fyrir fækkun.

Vægi austurstrandarinnar í almenningsáliti Banda ríkjamanna hefur minnkað og vægi vesturstrandarinnar aukizt. Þar er Evrópa fjarlægari og gjarna litið á hana sem ríka álfu, er ekki tími að verja sig sjálf, en noti féð til að stunda viðskiptastríð gegn Bandaríkjunum.

Bandaríkjamenn eru ófáanlegir til að átta sig á, að heimurinn er ekki vondur við þá. Verndarstefna er hvergi í hinum iðnvædda heimi Vesturlanda meiri en í Bandaríkjunum, nema hugsanlega í Frakklandi og Japan. Þess vegna myndast vítahringur verndarstefnu.

Bandarískir þingmenn sjá almennt rautt í alþjóðaviðskiptum. Frá þinginu má á næstu misserum búast við röð laga um aukna atvinnuvernd og tilheyrandi viðskiptaofsóknir gegn öðrum ríkjum. Þessi lög munu kalla á skjót viðbrögð Evrópubandalagsins og Japans.

Hefndaraðgerðir þessara bandamanna Bandaríkjanna munu svo verða túlkaðar þar vestra sem einhliða ofsóknir og kalla á enn harðari einokunar- og verndarlög. Ef til vill munu menn átta sig á fánýti þess, en fátt bendir til slíks, eins og tónninn er um þessar mundir.

Við vitum aldrei, hvenær eða hvernig við getum sogazt inn í slíkan vítahring, annaðhvort óvart eða vegna gerða okkar. Bandaríkin gætu viljað vernda veikburða sjávarútveg sinn eða veita Kanada og Rómönsku Ameríku forgang umfram aðrar álfur.

Þegar viðskiptaráðuneyti Bandaríkjanna hótaði okkur refsiðagerðum vegna hvalveiða, var kominn tími til, að við áttuðum okkur á, hversu hverfull heimurinn er. Ef við ætlum að halda áfram að veiða hval, eigum við á hættu bandarískt bann við fiskkaupum af okkur.

Auðvitað er illþolandi að hafa slíkt sverð hangandi yfir höfði okkar. Það bindur hendur okkar í hvalveiðum og í öðrum ágreiningsefnum okkar við Bandaríkin. Því er bezt að dreifa markaðsöflun okkar svo um heiminn, að við verðum mun minna háð Bandaríkjamarkaði.

Hækkun japansks og evrópsks gjaldeyris, lækkun dollarans og aukin tækni við flutning á ferskum fiski á að auðvelda okkur að dreifa áhættunni.

Jónas Kristjánsson

DV

Árangur ofstjórnar

Greinar

Engri starfsemi í landinu er meira stjórnað en hinum hefðbundna landbúnaði kúa og kinda. Þar tróna landbúnaðarráðuneyti, búnaðarfélag, stéttarsamband og framleiðsluráð, sem búa til sjóði út og suður og setja á búmark, kvóta og núna síðast fullvinnslurétt.

Árangurinn er margfalt meira misræmi í framleiðslu og sölu búvöru en þekkist á nokkru öðru sviði. Kjötfjöllin eru samanlagt komin upp fyrir 6000 tonn, rétt fyrir 12000 tonna sláturtíð. Smjörfjallið og önnur mjólkurafurðafjöll halda einnig áfram að stækka.

Ofstjórnin hefur í orði hvatt til minni framleiðslu, en á borði stutt misræmið með hagstæðum lánum og styrkjum, til dæmis til byggingar fjósa og fjárhúsa, sem nú rúma tvöfalt fleiri gripi en markaðurinn þolir. Slíka fjárfestingu átti að vera búið að stöðva fyrir löngu.

Ein afleiðing ofstjórnarinnar er, að kúafjöldinn í landinu komst í fyrrahaust upp í hinn mesta, sem verið hefur í sögunni. Og fjölgunin varð ekki á þeim stöðum, þar sem helzt er markað að hafa, svo sem í Reykjavík. Þar fækkaði kúnum meira að segja í fyrrahaust.

Sömu sögu er að segja af Suðurlandsundirlendinu, sem helzt gæti verið mjólkurforðabúr markaðsins á Reykjavíkursvæðinu, bæði vegna nálægðar og sléttlendis, svo og vegna erfiðra aðstæðna fyrir sauðfé, sem er að eyðileggja illa farna afréttina.

Fjölgun kúa varð hins vegar mest allra lengst frá markaðnum, á Austfjörðum. Þetta endurspeglar ofskipulag af hálfu hinna fjölmennu stofnana, sem stjórna hinum hefðbundna landbúnaði, til dæmis með alls konar jöfnun, þar á meðal á flutningskostnaði.

Ofskipulag landbúnaðarráðuneytis, búnaðarfélags, stéttarsambands og framleiðsluráðs hefur víðar sviðið gróður landsins og fjárhirzlur þess, neytendur og skattgreiðendur. Það hefur meðal annars stuðlað að tilvist tvöfalt fleiri sláturhúsa en þarf í landinu.

Í þessu kerfi hafa menn komizt að raun um, að lækka megi sláturkostnað um 30% með fækkun sláturhúsa. Þeir hafa uppgötvað, að þetta eru dýr mannvirki, sem aðeins eru notuð brot úr ári. En þeir hafa í áratugi neitað að hlusta á þá, sem löstuðu ofskipulag þeirra.

Þessir sömu stjórnendur hins hefðbundna landbúnaðar hafa á síðustu árum ofskipulagt graskögglaverksmiðjur, sem sitja uppi með ársframleiðsluna, af því að þær framleiða tvöfalt meira en markaðurinn þolir. Það er enn einn árangurinn af hinu markvissa skipulagi.

Stjórnendur landbúnaðarins eru núna enn einu sinni að semja við sjálfa sig um framhaldið á ofskipulaginu. Ráðuneytið situr öðrum megin við samningaborðið og aðrar stofnanir landbúnaðarins hinum megin. Neytendur og skattgreiðendur koma hvergi nærri.

Afleiðingin er, að ríkið tekur að sér fyrir hönd forspurðra neytenda og skattgreiðenda að kaupa enn einu sinni miklu meira af kjöti og mjólk en hægt er að torga innanlands eða gefa útlendingum. Síðan fjúka milljarðarnir í niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur.

Ennfremur eru stjórnendur landbúnaðarins enn einu sinni að semja við sjálfa sig um, að árangur starfs þeirra í hinum hefðbundna landbúnaði nái smám saman yfir aðrar búgreinar, til dæmis kjúklinga, egg og svínakjöt. Afleiðingin er, að fjöll byrja einnig þar að hlaðast upp.

Á meðan eru fræðingar í þessu sama kerfi að birta skýrslur, sem segja, að bændum þurfi að fækka um helming og harðbýlli héruð að leggjast í eyði sem fyrst.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjöllin vaxa á víxl

Greinar

Kjötfjöll Íslendinga eru nú komin upp í rúm 6000 tonn og hafa nærri tvöfaldazt frá því fyrir réttu ári, þegar þau voru 3500 tonn. Fjöllin nema nú sem svarar ársneyzlu 100 þúsund manna. Síðan er sláturtíð fram undan og þá verður slegið Íslandsmet í kjötfjöllum.

Tvennt hefur gerzt á þessum tíma. Til viðbótar við önnur kjötfjöll er nú komið hvalkjötfjall, sem nam um 1000 tonnum, þegar hlé var gert á veiðum um daginn. Ennfremur hefur ráðamönnum landbúnaðar tekizt að færa hluta af dilkakjötfjallinu yfir í önnur kjötfjöll.

Kindakjötfjallið er þó enn stærsta kjötfjallið og hefur raunar stækkað nokkuð frá sama tíma í fyrra. Þá taldist það 2635 tonn, en nemur nú 3200 tonnum. Næst að mikilfengleika kemur nautakjötfjallið, sem mældist 664 tonn í fyrra, og er nú komið upp í 1234 tonn.

Hið þriðja í röðinni er 1000 tonna hvalkjötfjallið nýja. Síðan er það fuglakjötfjallið, sem var 100 tonn og hefur farið upp í 500 tonn. Hrossakjötfjallið er svipað og áður, 89 tonn. Lestina rekur svínakjötfjallið, sem nam 33 tonnum í fyrra og er nú komið í 61 tonn.

Árið hefur einkennzt af tilraunum til að koma fjöllum í verð á víxl. Í febrúar var haldin dilkakjötútsala. Til að verjast henni lækkuðu kjúklinga- og svínabændur sitt kjöt í sama mæli. Niðurstaðan þá varð eins konar jafntefli, því að þjóðin torgaði ekki meiru en áður.

Aftur var útsala á dilkakjöti í sumar. Í það skiptið gátu kjúklinga- og svínabændur ekki keppt, enda njóta þeir ekki niðurgreiðslna, aukaniðurgreiðslna og viðbótarniðurgreiðslna eins og hinn hefðbundni landbúnaður. Þannig urðu til svína- og fuglafjöll.

Framleiðslustýringin á dilkakjöti beinist að þessu leyti mest að því að auka neyzlu þess á kostnað annars kjöts. Söluaukningin í sumar stafaði af verðlækkun, sem skattgreiðendur borguðu, en ekki af sjónhverfingunni um, að fóðurkálsfitukeppir væru fjallalömb.

Þetta hefur sogað annað kjöt inn í vandamálið. Til skamms tíma hafa svína- og kjúklingabændur látið verðsveiflur á markaði eyða birgðum jafnóðum. En þeir ráða ekki lengur við hörkuna í hinum hefðbundna landbúnaði, sem hefur fjármagn skattgreiðenda að baki sér.

Þjóðarleiðtogar, sem vildu baða sig í sól þjóðernishyggju hvalastríðsins, hafa svo fært okkur hvalkjötfjallið til viðbótar við önnur fjöll. Hin mikla neyzluaukning þess er farin að koma niður á neyzlu nautakjöts, unninna kjötvara og raunar alls kjöts.

Samningar, sem landbúnaðarráðuneytið hefur gert og er að gera fyrir hönd langhrjáðra skattgreiðenda við valdamiðstöðvar hins hefðbundna landbúnaðar, gera ráð fyrir, að ríkið ábyrgist sölu á miklu meira magni en það getur. Þess vegna vaxa fjöllin á víxl.

Búnaðarfélag Íslands, Stéttarsamband bænda og Framleiðsluráð landbúnaðarins munu herða kröfur sínar um að fá að stjórna allri búvöru í landinu eins og þessir aðilar hafa stjórnað afurðum kinda og kúa með hrottalega dýrum afleiðingum fyrir skattgreiðendur.

Undanfarin ár hafa ríkisstjórnir í vaxandi mæli látið skattgreiðendur koma til skjalanna á miðjum fjárlagaárum til að bjarga vandamálum af þessu tagi fyrir horn. Ástandið er nú verra en nokkru sinni fyrr og á eftir að verða enn verra á næsta ári. Fjöllin munu enn vaxa.

Eini kosturinn við þetta feigðarflan er, að það flýtir þeim degi, er kjósendur sameinast um að varpa af sér oki hins hefðbundna landbúnaðar kúa og kinda.

Jónas Kristjánsson

DV