Greinar

Báðir gefi eftir

Greinar

Fjárhagur Sovétríkjanna versnaði mjög í vetur, þegar olía hrundi í verði. Þetta bættist við hinn árvissa uppskerubrest þar í landi. Er reiknað með, að ríkið verði að taka sem svarar þúsund milljörðum króna að láni á næstu fimm árum og tvöfaldi erlendar skuldir sínar.

Þetta er líklegasta skýringin á, að Sovétríkin hafa í sumar lagt fram ýmis tilboð, sem leitt geta til slökunar í samskiptum austurs og vesturs. Þau hafa nefnilega tæpast lengur ráð á að taka eins virkan þátt í vígbúnaðarkapphlaupinu og þau hafa hingað til gert.

Mestu máli skiptir, að Sovétríkin hafa linazt í andstöðunni við margs konar eftirlit með efndum á samningum. Ekki er enn ljóst, hvort þessar eftirgjafir nægja til samkomulags við Vesturlönd, sem hafa ástæðu til að telja undirskriftir Sovétmanna marklausar.

Á fundunum í Stokkhólmi um traustvekjandi aðgerðir hafa Sovétríkin og fylgiríki þeirra tregðazt við að samþykkja eftirlit á svokölluðum lokuðum svæðum, sem eru víðáttumikil í þeim heimshluta. Sem dæmi má nefna, að tveir þriðju hlutar Austur-Þýzkalands eru lokaðir.

Hins vegar hafa Bandaríkin nú síðast fallizt á að láta Sovétríkin vita í hvert sinn sem herafli er færður frá Bandaríkjunum til Evrópu. Það er sáttaskref, sem þrýstir á samsvarandi eftirgjafir Sovétríkjanna og eykur vonir um samkomulag í lok fundanna, 19. september.

Fleiri eftirgjafa er þörf af beggja hálfu. Kominn er tími til, að Bandaríkjastjórn viðurkenni, að núverandi tækni skjálftamælinga nægi til virks eftirlits með, að fylgt sé væntanlegu samkomulagi um bann við kjarnorkuvopnatilraunum eða um takmörkun þeirra.

Sex manna hópur ráðamanna Indlands, Svíþjóðar, Grikklands, Tanzaníu, Mexíkó og Argentínu hefur lagt fram freistandi boð um að koma á fót alþjóðlegri vísinda- og skrásetningarstöð, sem vaki yfir, að fylgt sé samkomulagi um bann við kjarnorkuvopnatilraunum.

Ráðamenn Sovétríkjanna hafa tekið tillögu þessari vinsamlega, en ráðamenn Bandaríkjanna hafa hunzað hana. Ósennilegt er, að þeir komist lengi upp með það, því að eftirlit tiltölulega lítt háðra og óháðra aðila ætti að geta orðið eins óumdeilt og veðurfréttirnar.

Þá er kominn tími til, að Sovétstjórnin láti af einhliða þróun eiturvopna og átta ára andstöðu sinni við virkt eftirlit með, að slíkum vopnum verði eytt og að fylgt verði væntanlegu banni við söfnun slíkra vopna. Um það hefur löngum verið þjarkað á fundum í Genf.

Í almenningsálitinu á Vesturlöndum hefur farið minna fyrir andstöðu við eiturvopn en andstöðu við kjarnorkuvopn, þótt þau séu ekki minna ógnvænleg. Heimsveldin hafast ólíkt að á því sviði, Sovétríkin í einkakapphlaupi, en Bandaríkin stikkfrí síðan 1969.

Loks er athyglisvert, að fimm fyrrverandi ráðherrar Nixons, Fords og Carters hafa hvatt Reagan opinberlega til að fallast á tíu ára bann við tilraunum með svokölluð stjörnustríðsvopn, sem margir vísindamenn telja raunar vera draumóra forsetans.

Hér hefur verið bent á nokkur atriði, sem heimsveldin tvö ættu að gefa eftir til að auka líkur á virku samkomulagi um minnkaða stríðshættu í heiminum. Þau eru þess eðlis, að erfitt er að hafna þeim án þess að vera talinn áhugalaus um framtíð mannkyns.

Sem betur fer hafa aðstæður leitt til, að á þessu ári eru meiri líkur en lengi hafa verið á samkomulagi, sem byrji að vinda ofan af vígbúnaðarkapphlaupinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Áttu að mæta hjá Anker

Greinar

Meðan heimsveldin tvö eru að feta sig áfram til tímamótasamnings í vetur um virkt eftirlit með takmörkun vígbúnaðar eru stjórnmálaleiðtogar á Norðurlöndum enn á hliðarspori kjarnorkuvopnalauss svæðis og tala um það eins og hverja aðra alvöru lífsins.

Þar sem Norðurlönd eru kjarnorkuvopnalaus, er ekki auðséð, hvaða tilgangi þjóna yfirlýsingar þeirra um, að þau séu kjarnorkuvopnalaus svæði. Ekkert hefur komið fram, sem bendir til, að færri kjarnorkuvopnum verði beint að Norðurlöndum vegna slíkrar yfirlýsingar.

Sovétríkin hafa löngum hvatt til yfirlýsinga um kjarnorkuvopnalaus svæði, alveg eins og þau hafa hvatt til margvíslegra yfirlýsinga um góðan vilja. Hins vegar hafa þau til skamms tíma verið afar treg til að fallast á eftirlit með, að hinum góða vilja sé framfylgt.

Nú er hins vegar svo komið, að Sovétríkin geta líklega fallizt á nánara eftirlit en þau gátu áður. Þar með hefur myndazt grundvöllur fyrir gagnkvæmu trausti, er getur leitt til stöðvunar hins sjálfvirka vígbúnaðarkapphlaups, sem hefur einkennt síðustu áratugi.

Mannkynið þarf á að halda virku eftirliti með stöðvun kjarnorkutilrauna og efnavopnaframleiðslu: með flutningum hermanna og hergagna; með fækkun kjarnaodda, einkum þeirra, sem að er stefnt að nota í skyndiárás fremur en í hefndarárás sem svari við skyndiárás.

Slíkar aðgerðir heimsveldanna mundu auka öryggi mannkyns. Yfirlýsingar um kjarnorkuvopnaleysi auka hins vegar öryggisleysið. Þær magna hina gömlu freistingu Kremlverja, að þeir þurfi ekki að taka þátt í afvopnun, af því að Vesturlönd muni bila á taugum.

Ráðamenn Sovétríkjanna hafa nú séð, að ráðamenn Bandaríkjanna ætla sér engan veginn að bila á taugum og sætta sig ekki við minna en virkt eftirlit. Við slíka vonarglætu spillir bara fyrir, að Norðurlönd séu að auglýsa hliðarspor yfirlýsinga um kjarnorkuleysi.

Hverjum hálfvita má vera ljóst, að ekki verður hægt á hervæðingu Kolaskaga, þótt Norðurlönd lýsi yfir, að eitthvað sé, sem er. Hins vegar er bráðskemmtilegt að víkka hugmyndina um kjarnorkuleysið og heimta, að það nái yfir Kolaskaga og raunar allt til Úralfjalla. Sjálfstæðisflokkurinn og upp á síðkastið einnig Alþýðuflokkurinn hafa það fram yfir aðra stjórnmálaflokka hér á landi, að þeir hafa haldið á loft kröfunni um, að kjarnorkuvopnaleysið nái út fyrir Norðurlönd, allt austur til Úralfjalla. Í slíku er ólíkt meira vit.

Á Kolaskaga og á svæðinu austur að Úralfjöllum er fullt af kjarnorkuvopnum, sem ekki eru á Norðurlöndum. Full þörf er á að losna við slík vopn. Það ræður ekki úrslitum um öryggi mannkyns, en er þó ólíkt vitrænna umræðuefni en kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd.

Gallinn er hins vegar, að Sjálfstæðisflokkurinn skuli ekki fylgja eftir Úralfjallastefnunni á norrænum vettvangi og skuli ekki reyna að fá hægri flokka á Norðurlöndum til fylgis við þá ágætu stefnu, sem hefur farið svo gleðilega í taugar nytsamra sakleysingja.

Þegar Anker Jörgensen heldur þingmannaráðstefnur um kjarnorkuvopnalaus svæði, á Sjálfstæðisflokkurinn að senda fjölmennt lið til að rökstyðja stefnu kjarnorkuleysis allt til Úralfjalla og gera grín að stefnunni um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd. Það er létt verk.

Öll iðja, sem sýnir Kremlverjum, að ráðamenn á Norðurlöndum séu ekki að fara á taugum, hvetur þá fyrrnefndu til að leggja sitt af mörkum til heimsfriðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Glæpafyrirtækið Mexíkó

Greinar

Mexíkó er athyglisvert ríki eða fyrirtæki, eitt hið fjölmennasta í heimi, með 75 milljónum íbúa. Það hefur í 57 ár verið í eigu stjórnmálaflokks, sem nefnir sig Byltingarstofnunarflokkinn. Forseti ríkisins eða forstjóri fyrirtækisins heitir Miguel de la Madrid Hurtado.

De la Madrid baðar sig í alþjóðlegu sviðsljósi, svo sem gerðu nálægustu fyrirrennarar hans, Portillo og Echeverría. Hinn síðastnefndi gekk svo langt að reyna að verða forstjóri Sameinuðu þjóðanna að tilstuðlan ríkja þriðja heimsins. Ekki tókst það, sem betur fer.

Um daginn var Madrid gestgjafi sexmannaklúbbsins, þar sem hann þáði faðmlög Gandhis frá Indlandi, Carlsons frá Svíþjóð, Alfonsíns frá Argentínu og tveggja smærri ljósa alheimssviðsins. Vikunni síðar var hann í Washington að þiggja hrós Reagans fyrir hagvizku sína.

Staðreyndin er hins vegar, að Madrid þessi hefur eins og fyrirrennararnir mergsogið þjóðina og stjórnað ríkinu eins og þrælabúðum. Hann drottnar ekki frekar en fyrirrennararnir í umboði þjóðarinnar, því að kosningar í landinu eru ekkert annað en skrípaleikur.

Algengasta kosningasvindl Madrids er að meina viðurkenndum eftirlitsmönnum andstöðuflokkanna aðgang að kjörstöðum og troða svo útfylltum kjörseðlum í kassana, að fyrstu morgunkjósendur geta ekki komið seðlum sínum í þá. Þetta er hin almenna regla.

Í júlí í sumar kom Madrid þannig í veg fyrir, að hægri flokkur næði völdum í norðurríkinu Chihuahua. Nokkru síðar, í ágúst, kom hann á sama hátt í veg fyrir, að vinstri flokkur næði sveitarstjórnarvöldum í suðurríkinu Oaxaca. Þannig heldur Madrid völdum.

Biskupar í landinu hafa sameinazt um messufall út af siðlausum kosningasvikum Madrids. Rithöfundur á borð við Octavio Paz hefur formdæmt þau. Og útlendingar hafa beinlínis horft á þau. Í raun er svindl Madrids verra en Marcosar á Filippseyjum á sínum tíma.

Eiturlyfjaframleiðsla og -smygl er stundað í skjóli ráðamanna og sumpart á vegum þeirra. Blaðamenn, ritstjórar og útgefendur, sem fjalla um það, eru einfaldlega skotnir til bana úti á götu um hábjartan dag. Þannig fór í borgunum Matamoros, Sinaola og Reynosa.

Flokkur Madrids hefur þjóðnýtt mikilvægustu hluta atvinnulífsins. Þar hefur gæðingum flokksins verið hrúgað hverjum ofan á annan. Þeir stela öllu steini léttara. Þess vegna eru fyrirtækin á hausnum, atvinnulífið á hausnum, Mexíkó sem ríki á hausnum.

Dæmi um svívirðu Byltingarstofnunarflokksins er verkalýðsrekandi hans, Fidel Velázquez, sem sagt var ítarlega frá hér í blaðinu 26. júlí. Þar var skýrt, hvernig hann misnotar aðstöðuna og heldur fólki í sárustu eymd, líka þeim, sem vinna tvöfaldan vinnudag.

Umheimurinn fór fyrst að gera sér ljóst, hvernig ástandið væri, þegar sviðsljós heimsmeistarakeppninnar í knattspyrnu beindist að landinu. Þeir leikar hafa ekki orðið Madrid sú upphefð, sem að var stefnt, heldur varpað ljósi á sukkið, græðgina og fúlmennskuna.

Vestrænir bankar, einkum bandarískir, hafa lánað Mexíkó sem svarar 4000 milljörðum íslenzkra króna, vitandi vits, að töluverður hluti upphæðarinnar kom landinu ekki að gagni, heldur rann í vasa gæðinganna. Mexíkanar bera enga ábyrgð á þessari skuld.

En hinn ábyrgi Madrid baðar sig til skiptis í ljósi Carlsons frá Svíþjóð og Reagans frá Bandaríkjunum. Við skulum bara segja: Svei þeim öllum þremur.

Jónas Kristjánsson

DV

Gáfust upp

Greinar

Á Þingvallafundinum í síðustu viku gáfust ráðherrarnir formlega upp við að stjórna ríkisfjármálunum, en ætla samt að sitja sem fastast út kjörtímabilið. Þeir ákváðu að leggja fram fjárlagafrumvarp fyrir árið 1987 með miklum halla, líklega 2,2 milljörðum króna.

Þótt oft hafi reynzt vera halli á ríkissjóði að loknu fjárhagsári, hefur verið venja, að ríkisstjórnir leggi fram hallalaus fjárlagafrumvörp. Fyrirfram ráðgerður halli upp á meira en 5% er nýstárleg ævintýramennska, sem þessi ríkisstjórn er að gera sig seka um.

Ef að líkum lætur, verður hallinn meiri í reynd. Búast má við, að ríkisstjórnin verði í upphafi næsta árs að kaupa sér frið á vinnumarkaði með félagsmálapakka og öðrum útgjöldum. Hallinn á fjárlögum gæti hæglega nálgast 10%, þegar öll kurl eru komin til grafar.

Þetta er slæmur viðskilnaður, sem bendir til, að ráðherrarnir hafi tekið trú á þau hjáfræði, að halli megi vera á rekstri ríkisins, svo framarlega sem hann sé fjármagnaður með innlendum lánum, en ekki erlendum. Þetta sé skuld sumra barna okkar við önnur börn okkar.

Allt tal um innlenda fjármögnun er raunar marklítið, svo framarlega sem tekin eru á sama tíma önnur lán í útlöndum. Það verður gert á næsta ári. Halli á ríkisbúskapnum eykur því óbeint skuldir okkar í útlöndum, þótt reynt sé að sýna annað á pappír.

Jafnvel þótt engin lán séu tekin í útlöndum, er hægt að minnka skuldir okkar við útlönd um þá upphæð, sem ráðherrarnir neita sér um að taka á innlendum markaði. Auk þess eru innlendu lánin tekin í samkeppni við aðra innlenda lántakendur.

Hinn ráðgerði halli á ríkisbúskapnum mun stuðla að viðgangi hárra vaxta og verðbólgu. Hann tryggir, að vaxtalækkun ríkisskuldabréfa úr 8% í 6,5% verður ekkert annað en fjögurra mánaða sjónhverfing. Í raun er verið að þrýsta vöxtum upp á við.

Þrátt fyrir hallann hefur ríkisstjórninni ekki tekizt að efna loforðið um afnám tekjuskatts af venjulegum tekjum. Það átti að gera í þremur áföngum, en við fengum aðeins að njóta hins fyrsta þeirra. Og í ár hefur tekjuskatturinn í raun verið hækkaður aftur.

Þetta er síðasta fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar, því að kosningar verða fyrri hluta næsta árs. Með frumvarpinu hefur ríkisstjórnin glatað síðasta tækifærinu til að sýna varkára fjármálastjórn og efna loforðið um afnám tekjuskatts af venjulegum tekjum.

Ríkisstjórnin mun því mæta kjósendum að vori með endurnýjuð loforð, en engar efndir. Það verður þá kjósenda að ákveða, hvort þeir vilja sætta sig við þá frammistöðu. Skynsamlegt væri, að þeir gerðu það ekki, öllum ríkisstjórnum til verðugrar áminningar.

Viðurkenna ber, að fjárhagsvandi ríkisstjórnarinnar var ekki auðleystur. Það er erfitt að lækka skatta og halda ríkissjóði hallalausum í senn. Til þess að ná slíkum árangri hefði ríkisstjórnin þurft að sýna meiri kjark en hún er reiðubúin til að gera.

Hún hefði þurft að ráðast á einhverja heilögu kúna og skera til dæmis einhverja af milljörðunum, sem renna til hins hefðbundna landbúnaðar. En tveir stærstu framsóknarflokkar landsins eru auðvitað ófærir um slíkt. Þess vegna fóru ríkisfjármálin í hnút.

Á fundi ráðherranna á Þingvöllum í síðustu viku gáfust þeir endanlega upp við að reyna að leysa hnútinn, sem þeir hafa bundið á ríkisfjármálin.

Jónas Kristjánsson

DV

Sjónhverfinga-stjórnin

Greinar

Síðan formaður Sjálfstæðisflokksins varð fjármálaráðherra hefur ríkisbúinu verið stjórnað með sjónhverfingum. Það hefur líkað vel í ríkisstjórninni. Hún samþykkti fyrir helgina að fara eftir vinnubrögðum ráðherrans og reyna að halda áfram að gabba þjóðina.

Fyrst hækkaði fjármálaráðherra skatta þessa árs og sagðist hafa lækkað þá. Næst jók hann með fjárlagafrumvarpi hallann á ríkisbúskap næsta árs og sagðist hafa minnkað hann. Og nú síðast hækkaði hann gamla raunvexti og sagðist hafa lækkað raunvextina.

Síðasta sjónhverfingin verður vinsælli en hinar fyrri. Vel lætur í eyrum, að raunvextir lækki úr 8% í 6,5%, því að margir hafa undanfarin misseri stunið undir því, sem þeir kalla vaxtaokur. Auk þess vilja menn, að ríkið gangi jafnan á undan með góðu fordæmi.

Í rauninni er ríkið þegar búið að taka meiri lán með 8­9% raunvöxtum á innlendum markaði en ráð var fyrir gert. Bragð ráðherra felst í að hætta að taka slík lán til áramóta, en bjóða nýja 6,5% raunvexti þeim, sem eiga innlausnarhæf eldri lán með um 4% raunvöxtum.

Ráðgert hafði verið, að sala ríkisskuldabréfa umfram innlausn næmi 380 milljónum króna í ár. Hún er þegar komin í 600 milljónir. Til þess að ná þeirri sjónhverfingu, að raunvextir ríkisins séu ekki lengur 8%, heldur 6,5%, er bara hætt að selja slík bréf í rétta fjóra mánuði.

Og nú er komið að stóra vinningnum, þegnskyldukaupum lífeyrissjóða á skuldabréfum Húsnæðisstofnunar. Nú fá þeir ekki 8% raunvexti, heldur 6,5%, af því að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafa á Þingvöllum lækkað raunvexti ­ með handafli einu saman.

Hinir trúlausu gætu sagt, að í rauninni væri ráðherrann og ríkisstjórnin að hækka gamla raunvexti úr 4% í 6,5%, en ekki að lækka raunvexti. En eins líklegt er, að þjóðin hugsi eins og hinir skuldugu og fagni sjónhverfingunni sem djúpviturri fjármálastjórn.

Á Þingvallafundi ríkisstjórnarinnar í síðustu viku var áður búið að ákveða, að hallinn á fjárlagafrumvarpi næsta árs skyldi vera 2,2 milljarðar króna. Það er 2,3 milljörðum lakara en í fyrra, þegar fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar var lagt fram hallalaust.

Hins vegar eru ýmis bjargráð ríkisstjórnarinnar búin að koma kassanum á hvolf og halla ársins upp í 2,5 milljarða. Við þá tölu miðar ráðherrann, þegar hann segist vera að minnka hallann. Það er eins og við eigum að trúa, að engin bjargráð þurfi á næsta ári.

Fjárlagafrumvarp næsta árs á auðvitað að bera saman við fjárlagafrumvarp þessa árs, alveg eins og endanleg fjárlög næsta árs á að bera saman við fjárlög þessa árs og ríkisreikning næsta árs við ríkisreikning þessa árs. Samanburður í kross er bara sjónhverfing.

Tilraunir ráðherrans til að gabba þjóðina hófust fyrir alvöru í apríl síðastliðnum, þegar kom í ljós, að ríkið hafði ætlað sér um of í skattheimtu. Í stað þess að leiðrétta stefnuna, ákváðu ráðherra og ríkisstjórn að nota mismuninn sjálf og féfletta skattborgarana um leið.

Mismunurinn fór ekki í að greiða opinberum starfsmönnum laun, því að verðbólga launa skilar sér í verðbólgu skatta án þess að hún þurfi að kosta verðbólgu skattbyrðarinnar. Mismunurinn fór í hinn hefðbundna landbúnað og aðrar hliðstæðar hugsjónir.

Vel getur verið, að hinir trúgjörnu haldi, að fjármálaráðherra hafi lækkað skattana, minnkað ríkishallann og lækkað vextina. Ríkisstjórnin treystir því.

Jónas Kristjánsson

DV

Eftirlit er lykillinn

Greinar

Sovétríkin hafa framlengt einhliða bindindi sitt í tilraunum með kjarnorkuvopn. Það hefur staðið í rúmt ár, síðan 6. ágúst í fyrra. Nokkrum sinnum hefur það verið framlengt, nú síðast til næstu áramóta. Þetta er mikilvægt skref í friðvænlega átt.

Á sama tíma hafa Bandaríkin gert átján tilraunir með kjarnorkuvopn. Þau afsaka sig með, að verr hafi staðið á hjá sér en Sovétríkjunum, sem hafi valið tíma, er hentaði þeim sjálfum. En sú röksemd gildir ekki endalaust og hún gildir ekki lengur, rúmu ári síðar.

Ef leiðtogar heimsveldanna tveggja undirrita á fundi sínum í vetur eitthvað, sem varðar takmörkun vígbúnaðar, er eðlilegt og gagnlegt, að þar verði kveðið á um bann við tilraunum með kjarnorkuvopn og um fullnægjandi eftirlit með, að bannið verði virt.

Annað friðarskref hefur verið stigið og það gagnkvæmt. Bandaríkin og Sovétríkin hafa fallizt á að taka að nýju upp í Genf viðræður um aðgerðir til að koma í veg fyrir styrjöld fyrir slysni. Viðræðurnar hefjast í næsta mánuði og er stefnt að árangri fyrir toppfundinn.

Bandaríkin hafa lagt fram girnilega tillögu um, að komið verði í Moskvu og Washington á fót stofnunum, þar sem Bandaríkjamenn og Sovétmenn skiptist á upplýsingum um hernaðarlegar aðgerðir, svo sem tilraunir og heræfingar, svo að þær komi ekki á óvart.

Mikilvægt er, að heimsveldin geti fylgzt nákvæmlega með flutningum hermanna og hergagna hvort annars, svo að misskilningur leiði ekki til ósjálfráðra viðbragða. Tækniþróunin hefur gert viðbragðstímann svo skamman, að brýn þörf er á slíkri upplýsingamiðlun.

Friður og öryggi verða bezt tryggð með aðgerðum, sem koma í veg fyrir ótta við skyndiárás. Sá ótti veldur því, að menn eru sífellt með fingurinn við hnappinn. Eftirlit og upplýsingastreymi eru réttu aðferðirnar til að byggja upp gagnkvæmt traust á þessu sviði.

Hingað til hefur Sovétmönnum verið í nöp við tillögur um eftirlit og upplýsingar. Á fundum Evrópu- og Norður-Ameríkuríkja í Stokkhólmi, þar sem í hálft þriðja ár hefur verið þjarkað um aðgerðir til að efla traust, hafa þeir núna loksins slakað á andstöðunni.

Annað atriði, sem skiptir miklu, er, að heimsveldin semji um samdrátt sóknarvopna fremur en varnarvopna, skyndiárásarvopna fremur en hefndarvopna, fyrstu hrinu vopna fremur en annarrar hrinu vopna. Slíkur samdráttur ætti fremur en annar að efla traust.

Sovétríkin eru afar sek á þessu sviði. Þau hafa lagt áherzlu á vopn, sem henta til skyndiárásar, meðan Bandaríkin hafa framleitt mest af vopnum, sem ætlað er að standast skyndiárás og notast í næstu hrinu. Fyrrnefndu vopnin leiða greinilega til meira öryggisleysis.

Í bréfaskriftum leiðtoga heimsveldanna í sumar hefur verið skákað fram og aftur hugmyndum um 30­50% samdrátt kjarnorkuvopna. Endanlegar tölur skipta minna máli en það samkomulag, sem hugsanlega kann að nást um eftirlit með, að samdrátturinn sé framkvæmdur.

Alfa og ómega friðar og öryggis í heiminum er, að Sovétríkin fallist á strangt og gagnkvæmt eftirlit og upplýsingaflæði. Ef þau eru nú á þessu ári farin að linast í andstöðunni við eftirlit, er í fyrsta sinn hægt að ræða af viti um takmörkun og samdrátt vígbúnaðar.

Endurteknar framlengingar á tilraunabindindi Sovétríkjanna má túlka sem merki um síðbúinn sáttavilja, er getur ráðið úrslitum um gengi friðarviðræðna.

Jónas Kristjánsson

DV

Innanhúss­ágreiningur

Greinar

Í utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna voru menn og eru ósáttir við meðferðina, sem Íslendingar fengu í viðskiptaráðuneyti landsins vegna hvalveiðimálsins. Þeir sáu áratuga ræktun samstarfs við Íslendinga hverfa í súginn vegna lítilfjörlegs viðskiptamáls.

Þetta er einungis örlítið dæmi af mörgum um, að ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ekki einn vilja. Þar er hver höndin uppi á móti annarri. Ráðuneytin fara sínu fram hvert fyrir sig án tillits til hinna. Ástandið er afleiðing stjórnleysis af hálfu Reagans forseta.

Nýlega seldu Bandaríkin fjögur milljón tonn hveitis til Sovétríkjanna og greiddu hvert tonn niður um þrettán dollara. Þar með glöddu Bandaríkin höfuðandstæðing sinn og rústuðu um leið efnahag bandamanna sinna í Ástralíu, sem ekki hafa efni á að greiða niður hveiti.

Schulz utanríkisráðherra varð ókvæða við og sagðist andvígur þessu háttalagi. En hagsmunir bandarískra hveitibænda fengu að ráða á kostnað samskipta Bandaríkjanna við vinveitt ríki. Þannig varð utanríkisráðuneytið að sæta eyðileggingu langvinnrar uppbyggingar.

Alvarlegast er þetta ástand í afstöðunni til viðræðna og samninga við Sovétríkin um takmörkun vígbúnaðar. Ágreiningurinn innan Bandaríkjastjórnar er raunar illvígari en ágreiningurinn við Sovétríkin og stendur í vegi fyrir, að samið sé um aukið alþjóðaöryggi.

Dæmigerður var fundurinn í síðustu viku í Moskvu, þar sem reynt var að undirbúa utanríkisráðherrafund heimsveldanna, er á að halda eftir tæpan mánuð. Moskvufundurinn átti upphaflega að vera fámennur og persónulegur, en varð að hálfgerðum fjöldafundi.

Í stað þriggja manna frá hvorum aðila mættu sjö fulltrúar Bandaríkjastjórnar. Það kom nefnilega í ljós, að hinar ýmsu klíkur urðu að hafa hver sinn fulltrúa. Sérstaklega var varnarmálaráðuneytinu í nöp við, að utanríkisráðuneytið eitt sæti að fundinum.

Weinberger, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, er róttækur sovéthatari, sem hefur um sig hirð manna, er draga ákaft í efa gildi og nauðsyn samninga við Sovétríkin. Hann fékk því framgengt, að harðlínumaðurinn Richard Perle fengi að vera með til eftirlits.

Ennfremur varð öryggismálanefnd forsetans að hafa sinn fulltrúa, svo og afturhaldssamir ráðgjafar hans. Afleiðingin var auðvitað, að nefndin í heild varð stefnulaus. Fulltrúarnir lágu hver á baki annars til að gæta þess, að þeir spiluðu engu út.

Mjög erfitt hlýtur að vera að semja við svona ósamstæðan hóp, þar sem sumir eru beinlínis andvígir samkomulagi ­ á þeim forsendum, að það leiði til andvaraleysis á Vesturlöndum. Það gerir bandaríska utanríkisráðuneytinu ókleift að fylgja mótaðri stefnu.

Stefnuráf Reagans milli hinna ýmsu sértrúarhópa í ráðuneytunum dregur úr trausti Vesturlandabúa á forustu Bandaríkjanna í samskiptum austurs og vesturs. Þannig skaðast Bandaríkin í vígbúnaðarmálunum eins og þau skaðast í hveitimálinu og hvalamálinu.

Við vitum, að stjórnleysið í Bandaríkjunum hefur spillt samskiptum ríkisins við Ísland. Við sjáum, að það spillir samskiptum þess við Ástralíu og raunar velflest vinveitt ríki. Verst er, að það dregur úr líkum á, að mannkynið lifi af vígbúnaðarkapphlaupið.

Á þessu ári hefur nýja Sovétstjórnin spilað út hverju friðar- og vinsældakortinu á fætur öðru, meðan Bandaríkjastjórn er óvirk vegna innbyrðis rifrildis.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjarlægt ljós ­ vonarglæta

Greinar

Samskipti heimsveldanna hafa í sumar orðið minna fjandsamleg en þau hafa verið um langt skeið. Þeir Gorbatsjov og Reagan hafa sent hvor öðrum bréf, sem miða annars vegar að öðrum fundi þeirra í vetur og hins vegar að árangri í takmörkun vígbúnaðar.

Í bréfi Gorbatsjovs frá 23. júní lagði hann til, að geimvarnavopn yrðu ekki sett upp næstu 15 árin að minnsta kosti. Í svarbréfi Reagans frá 25. júlí féllst hann á, að slík vopn yrðu ekki sett upp næstu 5­7 árin. Telja má, að samkomulag eigi að geta náðst um 10 ára frestun.

Þá hafa báðir aðilar slegið fram svipuðum hug myndum um 30­50% fækkun kjarnorkueldflauga eða kjarnaodda. Þeir munu nú vera um 10.000 eða fleiri, svo að full ástæða er til grisjunar. Telja má, að samkomulag eigi að geta náðst um 35% fækkun í áföngum.

Ekki skiptir minna máli, að Gorbatsjov og aðrir fulltrúar Sovétstjórnarinnar hafa í sumar gefið eftir í veigamiklum atriðum, sem áður stóðu í vegi samninga um takmörkun vígbúnaðar. Þeir hafa fallizt á nákvæmara eftirlit með efndum en þeir töldu sig áður geta.

Hið umdeilda eftirlit er margs konar. Í fyrsta lagi þarf eftirlit með hugsanlegu samkomulagi um takmörkun eða bann kjarnorkutilrauna. Í öðru lagi þarf eftirlit með hugsanlegu samkomulagi um fækkun langdrægra og meðaldrægra eldflauga og tilheyrandi kjarnaodda.

Fleira er hættulegt en kjarnorkan. Í þriðja lagi þarf eftirlit með hugsanlegu banni við framleiðslu og varðveizlu eiturefnavopna. Og í fjórða lagi þarf eftirlit með hefðbundnum herflutningum og heræfingum á landi, sjó og í lofti til að draga úr líkum á óvæntri árás.

Bandaríkjastjórn ætti í sumum tilvikum að geta fallizt á eftirlit úr fjarlægð, ef nútímatækni leyfir slíkt. Í öðrum tilvikum getur ekkert komið í stað eftirlits á vettvangi. Grundvallaratriði slökunar í heiminum er, að Sovétríkin leyfi þess konar gagnkvæmt eftirlit.

Hins vegar er marklaust að fá rithönd Gorbatsjovs undir loforð um frið og vináttu, kjarnorkuvopnalaus svæði og ýmsar viljayfirlýsingar, sem Sovétstjórnin hefur hingað til tekið fram yfir raunhæft eftirlit. Vesturveldin eru löngu orðin þreytt á lygum og svikum.

Á móti eftirgjöf í eftirliti á ýmsum sviðum má ætla, að Sovétstjórnin geri harða kröfu um algert bann við kjarnorkutilraunum. Eðlilegt er, að Bandaríkjastjórn fallist á þá kröfu, enda hefur hún í ár að nokkru bætt sér upp nokkurs konar fyrra misvægi á því sviði.

Mál þessi voru til umræðu í fyrri viku á fundi, sem hernaðarsérfræðingar beggja aðila sátu í Moskvu. Fleiri slíkir fundir verða vafalaust haldnir fram að mikilvægum áfanga, fundi utanríkisráðherranna Shevardnadze og Schulz í New York 19. og 20. september.

Utanríkisráðherrafundurinn hefur að meginverkefni að undirbúa svokallaðan toppfund þeirra Gorbatsjovs og Reagans í vetur. Þar má vonast til, að undirritaður verði eins konar rammasamningur um ofangreind mál, sem varða frið og öryggi mannkyns í nútíð og framtíð.

Ekki er við að búast, að formlegur samningur verði gerður um einstök atriði, þótt vel gangi. Leiðin til takmörkunar vígbúnaðar er flókin og torsótt og reynsla vesturvelda af fyrri samningum er bitur, því að Sovétstjórnin hefur reynzt afar undirförul og svikul.

Eftir langt tímabil myrkurs og vonleysis skiptir þó miklu máli, að ljós sést í fjarlægð og þar með vonarglæta um tryggari framtíð manna á viðkvæmri jörð.

Jónas Kristjánsson

DV

Viðey í góðum höndum

Greinar

Þegar ríkið ákvað að gefa Reykjavík Viðeyjarstofu, Viðeyjarkirkju og ríkislandið í Viðey, var það sagt vera bjarnargreiði. Þar með kæmi ríkið yfir á borgina dýru verkefni, endurreisn gamalla húsa, sem hafði gengið afar hægt á vegum ríkisins, svo að ekki sé meira sagt.

Hins vegar mun koma í ljós, að verkefni þetta er í góðum höndum. Við móttöku gjafarinnar sagði borgarstjóri, að ekki mætti taka lengri tíma að gera upp Viðeyjarstofu en að reisa hana á sínum tíma. Ætti viðgerð hennar að ljúka að tveimur árum liðnum.

Borgin ráðgerir, að síðan muni taka tvö ár til viðbótar að gera við kirkjuna í Viðey. Má því reikna með, að mannvirki Skúla fógeta Magnússonar verði aftur komin í fulla reisn árið 1990, 238 árum eftir að hann hóf hinar merku menningarsögulegu framkvæmdir.

Ríkið hefur aldrei sýnt þjóðminjum sínum nægan sóma. Sem dæmi um það má nefna tvö af elztu steinhúsum landsins, Viðeyjarstofu og Nesstofu. Lagfæring síðara hússins hefur gengið nokkru hraðar, enda hefur ríkið þar notið aðstoðar ýmissa félagasamtaka.

Viðeyjarstofa hefur setið á hakanum, þótt nokkuð hafi þar einnig verið gert, einkum til að verja húsið skemmdum. Almennt má segja, að tímabært sé, að ríkisvaldið endurskoði menningarsögulega stefnu sína og kanni, hvernig stendur á fátæktinni á því sviði.

Hægagangurinn í Viðeyjarstofu er einkar hliðstæður þeim, sem ríkt hefur undanfarin ár við byggingu Þjóðarbókhlöðunnar, sem átti að vera gjöf þjóðarinnar til sjálfrar sín á ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar. Þar hafa framkvæmdir meira eða minna legið niðri.

Reykjavíkurborg hefur löngum haft markvissari stefnu í menningarsögulegum efnum. Árbæjarsafn er einn þátturinn, sem ber vitni um það. Þar er risið heilt hverfi merkra húsa frá fyrri tímum, ánægjuleg vin heimamönnum og gestum utan af landi og frá útlöndum.

Eðlilegar skýringar kunna að vera á misjöfnu ríkidæmi borgar og ríkis, þegar að menningarsögulegum atriðum kemur. En alténd verður að telja vel til fundið að fela Reykjavík að sjá um Viðeyjarstofu. Ríkið getur þeim mun frekar einbeitt sér að hinu húsinu, Nesstofu.

Reykjavík hefur nú eignazt elzta hús borgarinnar og eitt af elztu steinhúsum landsins. Það er merkur minnisvarði um byggingarsöguna í landinu og borginni. Borgarstjóri lofaði þegar við móttökuna, að hendur yrðu látnar standa fram úr ermum við endurreisnina.

Landið í Viðey er einnig menningarsögulega merkileg eign. Eyjan var lengst af hinn kunni hluti borgarlandsins, meðan Reykjavík var í gleymsku og dái. Klaustur og menntasetur var í Viðey allt frá 1226. Þar voru skráð fornrit, svo sem Styrmisbók Landnámu.

Oft gleymist, að ekki er langt síðan töluvert athafnalíf var í Viðey. Þar hafði Milljónafélagið mikil umsvif árin 1907-1914 og þá var í Viðey sæmilegt þorp á íslenzkan mælikvarða. Þá voru austan í eynni tvær hafskipabryggjur meðan enn var engin í Reykjavíkurhöfn.

Borgin hyggst efna til hugmyndasamkeppni um notkun Viðeyjar í framtíðinni. Það er spennandi viðfangs efni, því að margra kosta er völ. Eyjan hefur til dæmis þá sérstöðu að vera í senn nálægt og fjarri, af því að hún býr við frið fyrir ys og þys bílaumferðar.

Viðeyjargjöfin er ekki bjarnargreiði, ekki lævís aðferð til að koma kostnaði af ríki yfir á borg. Hún er einfaldlega tilraun til að koma málinu í góðar hendur.

Jónas Kristjánsson

DV

Samstarf um strætó

Greinar

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu starfa vel saman á ýmsum sviðum. Það hefur ekki gerzt samkvæmt valdboði að ofan eða skerðingu sjálfsákvörðunarréttar einstakra sveitarfélaga. Þörfin sjálf, en ekki markviss stefna, hefur kallað á samstarf í hverju einstöku tilviki.

Oftast er það Reykjavík, sem hefur tekið að sér að sjá um þjónustu fyrir nágrannana, auðvitað gegn hæfilegu gjaldi. Þannig flæðir hitaveitan um flestar nágrannabyggðirnar. Ennfremur selur borgin kalt vatn, slökkviliðsþjónustu og strætisvagnaþjónustu.

Sameiginlega sjá sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu um rekstur fólkvangsins í Bláfjöllum. Þau hafa í áratug skipað sérstaka samstarfsnefnd um gagnkvæm áhugamál og rekið sameiginlega skipulagsskrifstofu í nokkur ár. Þetta er eðlileg og heilbrigð þróun samstarfs.

Eftir því sem byggðin þenst á Reykjavíkursvæðinu verður brýnna að auka samstarfið í fólksflutningum innan svæðisins. Nú eru rekin á svæðinu fjögur kerfi almenningsvagna, sem ekki þjóna hlutverki sínu til fulls, af því að þau vinna ekki nógu vel saman.

Einkabílarnir eru og verða mikilvægasta samgöngutæki svæðisins. Samt má ekki gleyma, að tæpur þriðjungur íbúanna getur ekki notað einkabíla. Það eru börnin, sem ekki hafa bílpróf, og gamalmenni og öryrkjar, sem ekki geta ekið eða treysta sér ekki til þess.

Sveitarfélögunum ber að gera þessu fólki kleift að ferðast milli staða á öllu svæðinu, ekki aðeins innan hvers sveitarfélags, heldur einnig milli þeirra. Börn og gamalmenni þurfa til dæmis að komast greiðlega milli Kópavogs og Breiðholts, Mosfellssveitar og Álftaness.

Áætlanir gera ráð fyrir, að eftir nokkra áratugi verði komin nokkurn veginn samfelld byggð frá Kjalarnesi til Straumsvíkur. Það verður greinilega flókið og verðugt verkefni í samstarfi sveitarfélaganna að laga almenningssamgöngur að þessari byggðarþenslu.

Ekki er nauðsynlegt að setja upp eitt kerfi. Forsendurnar eru svo misjafnar, að slíkt gæti reynzt erfiðleikum bundið. Til dæmis greiðir Reykjavík verulega niður sína þjónustu, en Hafnarfjörður og Mosfellssveit skipta við einkafyrirtæki, sem verða að standa undir sér.

Tvennt skiptir mestu máli, skiptimiðakerfi fyrir allt svæðið og skiptistöðvar fyrir allt svæðið. Skiptimiðakerfi hefur um nokkurt skeið verið notað með góðum árangri innan Reykjavíkur og til Kópavogs. Ekkert ætti að þurfa að hindra samkomulag um útvíkkun þess.

Með tilkomu hinnar nýju Reykjanesbrautar hljóta að koma óskir um, að fólk þurfi ekki að fara um Lækjargötu eða Hlemmtorg til að komast milli Breiðholts og Kópavogs eða milli Kjalarness og Straumsvíkur. Nothæfra skiptistöðva er þörf austar í borginni.

Í fljótu bragði virðist liggja í augum uppi, að slíkar meginstöðvar þurfi að vera nálægt gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar, gatnamótum Vesturlandsvegar og hinnar nýju Reykjanesbrautar og loks nálægt gatnamótum Vesturlandsvegar og Höfðabakka.

Auðvitað tekur nokkurn tíma að koma á fót samstarfi af þessu tagi. Það hlýtur líka að mótast eftir byggðarþróun svæðisins. Markaðurinn þarf að myndast, svo að þjónustan geti staðið undir sér. En skynsamlegt er að reyna strax að spá í, hver þörfin verði síðar.

Enginn vafi er á, að sveitarstjórnarmenn á svæðinu gera sér grein fyrir þessu verkefni og eru reiðubúnir að fást við það með sama árangri og á öðrum sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Borgarloftið

Greinar

Íslendingar eru lánsamir að hafa eignazt borg á skömmum tíma. Í Reykjavík hefur þjóðin fengið öfluga þungamiðju með flestu því, sem heimsborg getur prýtt og fæstu því, sem skaðlegt má telja við slíkar borgir. Reykjavík er borg, sem getur borið og ber höfuðið hátt.

Reykjavík er helzta vígi íslenzkrar byggðastefnu. Meðan borgin blómstrar er landið byggilegt. Víðs vegar um land kunna byggðir að fara í eyði, án þess að þjóðfélagið bíði hnekki. En Reykjavík má ekki bila, því að þá væri sjálfur hryggur þjóðfélagsins brostinn.

Þótt Reykjavík sé talin eiga sér Ingólf Arnarson og Skúla Magnússon að feðrum og haldi í dag hátíðlegt 200 ára kaupstaðarafmæli, er borgarsagan mun styttri, frá æviskeiði Tómasar Guðmundssonar. Um aldamótin var Reykjavík meðal jafningja í hópi þorpa landsins.

Sjálf borgarsagan hefur öll gerzt á þessari öld og það með undraverðum hraða. Meira en hálf þjóðin hefur flutt í borgina og nágrenni hennar. Reykjavík hefur megnað að breiða faðminn á móti öllu þessu fólki. Á afmælisdaginn er eins og borgin hafi ætíð verið til.

Stundum hefur þetta hlutverk verið erfitt, einkum á tíma braggahverfa eftirstríðsáranna, þegar borgarinnar virtust ætla að bíða þau örlög flestra stórborga þriðja heimsins að verða vonleysisstaður flóttamanna úr sveitum. En borgin megnaði að skipuleggja sig og hreinsa sig.

Reykjavík er gróin borg, bókstaflega, félagslega og menningarlega. Engum, sem um borgina fer, dylst, að borgin er ekkert stundarfyrirbæri. Hún er komin til að vera. Og það sem meira er: Hún hefur meira eða minna tekið við hlutverki landsins og gert það að borgríki.

Íslendingar eru meira eða minna orðnir Reykvíkingar, hvort sem þeir búa í Kvosinni, Breiðholti, Mosfellssveit, Flóanum eða austur á Héraði. Menn sækja til Reykjavíkur sem miðstöðvar sinnar. Meira að segja Byggðastofnun er í Reykjavík og ætlar sér að vera þar.

Þegar rætt er um að flytja flugvöllinn úr miðbænum, rís landsbyggðarfólk til andmæla. Úti á landi vita menn bezt, hversu þægilegt er að geta skotizt um Vatnsmýrina beint í Kvosina og brekkurnar í kring, þar sem öll ráð landsins eru hugsuð og þar sem peningarnir velta.

Nú orðið tengir fólk oft Reykjavíkurerindi sín við helgarfrí til að geta notið þess, sem staðurinn hefur upp á að bjóða sem borg, hvort sem það eru skröllin eða sinfónían, bíóin eða óperan ­ eða allt þetta í senn. Reykjavík hefur raunar flest það, sem útlönd prýðir.

Á nokkrum áratugum hefur Reykjavík orðið fullvaxta borg. Landið og þjóðin eru lánsöm að hafa eignazt slíka borg, sem er lykill að göngu okkar inn í nútíma og framtíð. En um leið hefur segull borgarinnar orðið slíkur, að ekki mun reynast rúm fyrir aðra slíka.

Á einni eða tveimur kynslóðum hafa Íslendingar lært að búa í tiltölulega ópersónulegu fjölmenni, þar sem menn þekkjast ekki á götum úti, þar sem nágrennið hirðir ekki um að veita félagslegt eða annað taumhald. Sveitamaðurinn hefur í vetfangi breytzt í borgarbúa.

Merkilegast er, hversu vandalítið þetta er. Stórborgarvandamál eru ekki umtalsverð í Reykjavík, en stórborgarhagurinn þeim mun auðsénni. Þegar hverfur áráttan að byggja ný hús í gömlum hverfum, má telja, að Reykvíkingar séu endanlega orðnir borgarbúar.

Á 200 ára afmæli Reykjavíkur hafa Íslendingar þegar fyrir löngu kynnzt réttmæti hins gamla spakmælis, sem segir, að borgarloftið muni gera yður frjálsa.

Jónas Kristjánsson

DV

Alþingiskassi í Kvosinni

Greinar

Að tilhlutan forseta Alþingis hefur verið teiknaður og verðlaunaður alþingiskassi í Kvosinni. Þetta er voldugur kassi, sem minnir á bankakastala þá, sem hingað til hafa stuðlað að flótta lífs úr Kvosinni. Þar á ofan er hann nokkrum sinnum víðáttumeiri en þeir.

Þetta er þriðja atlagan á skömmum tíma að elzta hluta borgarinnar. Önnur atlagan var afturganga hugmyndarinnar um ráðhús í Tjörninni og hin fyrsta var ráðagerð borgaryfirvalda um, að öll Kvosin verði hverfi fimm hæða hárra síkishúsa með stormgjám á milli.

Alþingiskassinn hefur án efa verið verðlaunaður fyrir hentuga innri skipan. En að utan lítur hann út eins og yfirstærðar bankakassi, sem á að ná götuhorna milli. Að massa fellur hann að dapurlegum hugmyndum borgaryfirvalda um samfellda klettaveggi í Kvosinni.

Stormgjár milli slíkra veggja þekkjum við úr Austurstræti og Pósthússtræti. Klettaveggir bankanna flétta vindinn saman í stormreipi eftir götunum, gangandi fólki til vandræða og skapraunar. Þaðan kemur vetrarmynd Reykjavíkurlífsins, álútt fólk að berjast upp í vind.

Eina leiðin til að gera slíkar gjár sæmilega göngufærar í okkar veðráttu er að byggja yfir þær og fyrir enda þeirra. Erlendis eru mörg dæmi um glerþök. Síkishúsahugmyndir borgarinnar gera ekki ráð fyrir þeim. Ekki heldur teikningin að alþingiskassanum.

Hinar samfelldu bankahliðar Kvosarinnar stuðla að fábreytni götulífs og götumyndar. Fólk er látið ganga meðfram löngum steinveggjum, sem vekja lítinn áhuga og draga ekki að sér athygli. Að þessu leyti er Laugavegurinn líflegri en norðurhlið Austurstrætis.

Eina leiðin til að gera gjár banka og alþingiskassa sæmilega mannlegar er, að þessar stofnanir dragi sig í hlé frá götu, láti sér þar nægja virðulegan inngang og gefi smáverzlunum og smáþjónustu rými við stéttina, svo að fólk geti að minnsta kosti horft í búðarglugga.

Síkishúsayfirbragðið á Kvosarhugmyndum borgar innar var tilraun til að milda kulda stormgjárstefnunnar með því að setja skarpar lóðréttar línur í klettaveggina. Alþingiskassinn gerir enga tilraun til slíks. Hann minnir þannig á þunga valdsins, sem ögrar almenningi.

Ekki er eins mikið vitað um ráðagerðir borgarinnar um ráðhús í Tjörninni. Þó virðist svo sem þrefalda eigi lóðina á horni Tjarnargötu og Vonarstrætis og minnka Tjörnina sem því nemur. Að vísu er það minna Tjarnarrán en áður voru fyrirhuguð, en samt of mikið.

Borgin er öflug stofnun, sem þarf miklar skrifstofur. Sú starfsemi er of umfangsmikil til að hægt sé að koma henni fyrir í Kvosinni eða Tjörninni. Nýja hugmyndin viðurkennir þetta að verulegu leyti, en ekki alveg. Tjarnarráðhús verður ekki gott, fyrr en þetta skilst.

Í ráðhúsi við Tjörnina ætti að vera hátíðasalur með því þjónusturými, sem slíkur salur þarf, en engir aðrir kontórar. Allar skrifstofur borgarinnar mega svo gjarna vera undir einu þaki annars staðar í bænum. Ráðhús má ekki og þarf ekki að vera stórt, aðeins fallegt.

Enginn vafi er á, að ráðhúsleysi borgarinnar og húsnæðisleysi Alþingis má leysa með mildari og mannlegri aðferðum og af meira tilliti til umhverfis annarra mannvirkja í Kvosinni og við hana, einkum gömlu húsanna, svo og til fólksins, sem þar er og verður á ferð.

Brýnast er, að yfirvöld borgar og Alþingis sjái, að stefna síkishúsa og alþingiskassa við stormgjár verður hinum ábyrgu ekki að neinum frægðarauka.

Jónas Kristjánsson

DV

Grænfriðungar, hverjir?

Greinar

Fólk vanmetur grænfriðunga, þegar það segir, að okkur beri ekki að láta amerískar kerlingar segja okkur fyrir verkum. Grænfriðungar hafa verið að baka okkur vandamál og munu áfram gera það. Okkar er svo að meta, hversu dýrt og hættulegt það verður okkur.

Ekki dugir að láta tilfinningar ráða. Marklaust er að leggjast í hvalveiðiþrjózku út á þá kenningu, að grænfriðungar hafi rangt fyrir sér, skilji ekki málið eða séu beinlínis kaldrifjaðir fjáraflamenn. Mörg okkar láta því miður reiðina hlaupa með sig í gönur.

Við höfum séð, að ein frönsk kona hefur eyðilagt lífsafkomu heilla byggðarlaga í Grænlandi og Kanada með heimsfrægri andúð sinni á selveiðum. Við skulum ekki vanmeta, hvaða böl megi færa okkur á herðar, jafnvel þótt nú sé ekki fyrirsjáanlegt, hvernig leikar fari.

Í Bandaríkjunum einum saman er yfir hálf milljón manna í samtökum grænfriðunga. Í næstöflugustu samtökunum gegn okkur þar í landi er tæplega hálf milljón manna. Samtals eru fern eða fimm samtök af þessu tagi að skipuleggja samstarf um aðgerðir gegn okkur.

Tvenn fjölmennustu samtökin hafa samanlagt um 100 fastráðna starfsmenn í Washington, einmitt á þeim stað, þar sem auðveldast er að ráðast að hagsmunum okkar. Við vitum ekki enn, hvort þeim tekst að skaða fisksölu okkar, en við verðum að vera undir það búin.

Hugsanlegt er, að allt sé rétt, sem ljótt er sagt um grænfriðunga. Verið getur, að þar sé saman kominn kaldrifjaður hópur atvinnumanna, sem svífist einskis til að tryggja og efla fjárstrauma frá amerískum kerlingum til að halda við hátekjum sínum og auka þær.

Hins vegar verður að teljast afar ótrúlegt, að markviss kynningarherferð okkar geti sannfært Bandaríkjamenn um slíkt. Miklu líklegra er, að hugsanlegur áróður okkar gegn grænfriðungum muni enn æsa Bandaríkjamenn gegn okkur. Er þó þegar nóg að gert á því sviði.

Tilfinningasemin vestra í málinu er svo mikil, að menn urðu ókvæða við, þegar fréttist, að Íslendingar hygðust troða hvalnum ofan í refi og minka. Þá kom til viðbótar til skjalanna andúðin á eldi dýra í fangelsum til að hafa af þeim pelsa handa hofróðum heimsins.

Ef við rekum einhvern áróður, þarf hann að vera varfærinn. Það þýðir ekki að senda sjávarútvegsráðherra vestur til að flytja mönnum þar hinn hefðbundna orðhengilshátt og útúrsnúninga, sem Íslendingar urðu illræmdir fyrir við dönsku hirðina fyrr á öldum.

Grænfriðungar eru ekki þögli meirihlutinn á götunni í Bandaríkjunum. Þeir eru menntafólkið, sem las Moby Dick í skóla, notar dagblöð í stað imbakassa, skrifar þingmanninum bréf, lifir góðu lífi á háum launum, er í valdastöðum, ­ jafnvel inni í ráðuneytunum sjálfum.

Í stuttu máli eru grænfriðungar í kallfæri við máttarvöldin í Bandaríkjunum. Þeir eru virkir þátttakendur í þjóðmálunum og hafa áhrif í samræmi við það. Þess vegna er einn grænfriðungur á við þúsund þeirra, sem horfa sljóum augum á sápuóperur í sjónvarpinu.

Þetta eru auðsjáanlega gerólíkar aðstæður og voru í þorskastríðum okkar, þegar við gátum stutt okkur við samstöðu áhrifafólks um öll Vesturlönd. Nú leikum við hlutverk hins illa, erum kallaðir svívirðileg ómenni, sem drepum hvali til að gefa refum og minkum að éta.

Hvernig sem sveiflast tilfinningar annarra, skulum við ekki æsa okkur upp, heldur muna, að við erum fiskveiðiþjóð, sem þarf kaupendur að fiski, ­ ekki að hval.

Jónas Kristjánsson

DV

Síðbúin vísindaárátta

Greinar

Íslendingar ákváðu fyrir hálfu fjórða ári að hætta hvalveiðum. Margir voru að vísu óánægðir með þá niðurstöðu, en Alþingi hafði tekið af skarið. Ef sú niður staða hefði fengið að standa í friði, væru lífsbjargarmöguleikar Íslendinga mun traustari en þeir eru nú.

Slysið, sem síðan gerðist, var, að sjávarútvegsráðherra fann upp vísindahugsjón, setti undir sig haus og vann henni almennt fylgi hér á landi og meirihlutafylgi í fjölþjóðaklúbbi, sem kallast Alþjóða hvalveiðiráðið. Það er súpan, sem við sitjum í og sem á eftir að hitna.

Nefna má nýja ályktun Landssambands smábátaeigenda um hvalveiði sem dæmi um, hvernig vísindaáráttan hefur seint og um síðir heltekið þjóðina. Þar er hvað eftir annað getið um vísindi, vísindaveiðar og vísindaiðkanir. Síðasta orðið, vísindaiðkanir, er fegurst.

Ekki er vitað, að Landssamband smábátaeiganda hafi nokkru sinni fyrr fjallað um vísindaiðkanir eða tjáð ást sína á þeim. Sambandinu hefur að því leyti svipað til þjóðarinnar í heild, sem lætur sig vísindi litlu skipta og ver þjóða minnstu fé til vísindaiðkana.

Meðan úr öllum hornum heyrast harmafregnir um sáran fjárskort til vísindaiðkana hefur Hafrannsóknastofnun fengið á fjárlögum þessa árs 15.576.000 krónur til hvalarannsókna. Nemur þetta þremur fjórðu af allri fjárveitingu til sérstakra verkefna stofnunarinnar.

Margir hefðu verið fegnir að sjá þótt ekki væri nema helminginn af þessari upphæð renna til tölvurannsókna fyrir sjávarútveginn og kannski hinn helminginn í tilraunir í lífefnaiðnaði, svo að nokkur brýn dæmi séu nefnd. En vísindaárátta hvalveiðanna hefur forgang.

Hinar rúmu fimmtán milljónir ríkisfjárlaga virðast þó ekki ætla að segja alla sorgarsögu ársins, því að sjávarútvegsráðherra hefur hótað þjóðinni, að hún verði sennilega að greiða niður stórtapið af útgerðinni. Verður vísindaárátta ráðherra og þjóðar þá orðin dýr.

Sorglegt er að sjá starfsmenn Hafrannsóknastofnunar koma fram og játa trú á vísindahugsjón sjávarútvegsráðherra. Með því hafa þeir stuðlað að þeirri sjálfsblekkingu Íslendinga, að hvalveiðar okkar séu ekki stundaðar í ábataskyni, heldur vísindaskyni.

Fyrir utan landsteinana hafa fáir trú á þessari hugsjón vísindaiðkana. Menn fást alls ekki til að samþykkja, að veiða þurfi 120 stórhveli til að útvega vísindamönnum eitthvað að gera. Næstum allir halda því fram, að vísindaveiðar okkar séu yfirvarp eitt.

Mál þetta versnaði, þegar sjávarútvegsráðherra tók upp á að halda fram, að innanlandsneyzla hvalkjöts væri hið sama og sala þess til Japans. Það var svo augljós orðhengilsháttur, að hann varpaði skugga á fyrri kenningu ráðherrans um vísindahugsjónir okkar.

Vafalaust hyggst ráðherrann halda með fylktu liði á næsta fund Alþjóða hvalveiðiráðsins, þegar fjallað verður um, hversu mikið hóf verði að hafa á vísindum af þessu tagi. Þar mun hann berjast eins og naut í flagi og valda þjóðinni fögnuði ­ og ómældum skaða um leið.

Ekki skiptir aðalmáli, hvort hinum óþreytandi ráðherra tekst eða tekst ekki að verja undanhaldið á næsta fundi ráðsins. Hitt er mikilvægara, að Íslendingar verða þá enn betur en nú stimplaðir sem hinir verstu menn, er ekki beri að kaupa af neinar sjávarafurðir.

Gott væri, að Landssamband smábátaeigenda og Íslendingar almennt láti æði vísindaáráttu renna af sér og fari að líta raunsæjum augum á þjóðarhagsmuni.

Jónas Kristjánsson

DV

Niðurgreitt hvalfjall

Greinar

Eftir hraklega meðferð sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnarinnar á hvalveiðimálinu situr þjóðin uppi með eitt fjallið enn, hvalfjallið. Sjávarútvegsráðherra hefur meira að segja hótað okkur, að við verðum að greiða niður kjötið til að koma því ofan í refi og minka.

Sorglegt er að heyra leiðtoga stjórnarandstöðunnar lýsa yfir, að myndun hvalfjalls á Íslandi hafi verið skásti kosturinn í stöðunni. Þannig hefur allt litróf íslenzkra stjórnmála fyrst náð samræmi ­ í hreinu rugli, rökfræðilegri endaleysu og fjárhagslegu tjóni.

Samkvæmt útkomunni, sem íslenzkir stjórnmálaskörungar virðast innilega sammála um, fáum við nú eitt fjallið til viðbótar við lambafjallið, mjólkurfjallið, smjörfjallið og ostafjallið. Þar með munu skattgreiðendur fá enn einn heimagerðan vanda til að glíma við.

Ef andstæðingum okkar úti í heimi tekst að nýta heimsku okkar og ólán til fulls, fáum við líka fiskifjall ofan á önnur fjöll, sem við höfum orðið okkur úti um. Við erum nefnilega ekki búin að bíta úr nálinni, þótt friður hafi verið saminn milli tveggja ríkisstjórna.

Ein fyrstu mistökin, sem okkar menn gerðu, voru að vanmeta áhugamenn um bann við hvalveiðum. Okkar menn hafa nú ítrekað þau mistök með því að líta svo á, að bandarískir fiskkaupendur eða stjórnvöld muni ekki láta undan frekari þrýstingi úr þeirri átt.

Næstu mistök okkar manna voru að knýja fram svokallaðar vísindaveiðar 120 stórhvela, í stað þess að sætta sig við orðinn hlut. Þótt stjórnarerindrekar geti samið um slíkt í einhverju ráði, breytir það ekki afar neikvæðu og hríðversnandi almenningsáliti í heiminum.

Þriðju og verstu mistök okkar manna voru að telja sjálfum sér trú um, að orðalag um innanlandsneyzlu þýddi í raun, að við gætum haldið uppteknum hætti og selt þorra afurðanna til Japans. Ótrúlega einsýni og þrjózku þurfti til að ímynda sér þetta. Og það var gert.

Afleiðingarnar eru nú komnar í ljós. Þeim 70% okkar, sem samkvæmt skoðanakönnun studdu hinar svokölluðu vísindalegu hvalveiðar, má nú vera ljóst, að þau hafa þá stjórnmálaforingja, sem þau eiga skilið. Þau geta byrjað, undir forustu þeirra, að éta hvalinn.

70% þjóðarinnar eiga skilið stjórnmálamenn, sem eru svo rökfirrtir, að þeir blanda saman í einum málslið stuðningi við svokallaða vísindastefnu, hvalnýtingarstefnu og jafnvel fiskifriðunarstefnu – og hafa loks fengið niðurgreidda hvalfjallsstefnu í eðlilega útkomu.

Komið hefur fram, að hvalfjallið er ekki samkeppnishæft á innanlandsmarkaði sem hráefni í lýsi, mjöl eða refafóður. Það stafar einfaldlega af, að það er dýrara en fiskúrgangur. En stjórnvitringar okkar geta hins vegar reynt að láta það keppa við kjötfjallalambið.

Mátulegt væri, að þeir legðu saman í flokk sjónvarpsmynda, þar sem þeir kenndu 70% landsmanna átið og birtu þeim gagnlegar uppskriftir að hvalkjötsréttum. Síðan gætu þeir reynt að skýra áhrif þessa áts á snæðing annarra fjalla, sem þeir hafa komið upp.

Dæmigert fyrir íslenzka stjórnmálamenn er að hafa reynt að skapa þjóðinni gróða með flóknum undanbrögðum í hvalveiðum og sitja svo uppi með að hafa bakað þjóðinni stórtjón. Táknrænt er, að stjórn og stjórnarandstaða skuli einmitt vera sammála um rugl.

Þjóðin getur sjálfri sér um kennt. Hún hefur hlustað á og lesið endemis þvæluna úr þessum mönnum á degi hverjum án þess að hafa kennt til merkjanlegrar ógleði.

Jónas Kristjánsson

DV