Greinar

Ráðumst að Rambó

Greinar

Hið fyrsta, sem Alþingi ætti að gera, þegar það kemur saman í október, er að afgreiða ný lög um vöruflutninga milli landa. Samkvæmt lögunum væri óheimilt að flytja til landsins vöru í skjóli einokunarlaga, sem önnur ríki setja. Nýju lögin geta verið stuttorð.

Ein afleiðing laganna er, að ólöglegir verða vöruflutningar Rainbow Navigation milli Bandaríkjanna og Íslands í þágu varnarliðsins á Keflavíkurvelli. Þannig fá Bandaríkjamenn það, sem þeir eiga skilið vegna viðskiptaofbeldis þeirra gagnvart okkur.

Slík lög mundu ekki færa okkur einokunina, sem við höfðum einu sinni á þessum flutningum, enda var hún ekki réttlát fremur en sú, sem nú gildir. En þau mundu sýna Rambóum ríkisstjórnar Bandaríkjanna, að það kosti þá óþægindi, þegar þeir sparka ítrekað í okkur.

Ennfremur þarf Alþingi að úrskurða í október, að lög um bann við innflutningi kjöts gildi einnig um varnarliðskjöt. Lögin voru á sínum tíma sett af heilbrigðisástæðum og eru marklaus, ef kjöt er flutt inn af öðrum ástæðum, svo sem utanríkispólitískum.

Að vísu leikur grunur á, að heilbrigðisástæðurnar hafi verið yfirvarp eitt og hin raunverulega forsenda laganna hafi verið verndun hins hefðbundna landbúnaðar. En meðan þau eru í gildi eiga þau að ná til allra, þar á meðal til varnarliðsins á Keflavíkurvelli.

Slík ákvörðun löggjafans mundi ekki leiða til aukinnar sölu á kjötfjalla-lambi hins hefðbundna landbúnaðar. Ekki er hægt að þvinga menn til að snæða það, sem þeir ekki vilja snæða, þótt þeir séu annars gefnir fyrir feitmeti. En eitthvað færi af nautakjöti og kjúklingum.

Slík ákvörðun mundi ekki heldur þvinga hvalkjöti ofan í varnarliðsmenn. Ekki er hægt að ætlast til, að þeir borði það, sem við viljum tæpast borða sjálf. Hins vegar mundi hún sýna Rambóum ríkisstjórnar Bandaríkjanna, að við erum ekki algerar gólfmottur þeirra.

Einokun vöruflutninga til varnarliðsins og hótanir um viðskiptastríð vegna hvalveiða eru að ýmsu leyti óskyld mál. En þau sýna bæði tilhneigingu bandarískra yfirvalda til að ganga eins langt í frekju og þau framast geta gagnvart öðrum ríkjum, vinveittum sem öðrum.

Þeir segjast fara eftir sínum lögum og það er alveg rétt. Verra er, að löggjafi þeirra er kominn í mikið haftastuð. Um 400 haftatillögur bíða nú afgreiðslu í bandaríska þinginu. Ef illa gengur einhvers staðar í bandarísku atvinnulífi, er útlendingum um kennt.

Einhvern tíma kemur sennilega að því, að bandaríski fiskiðnaðurinn tekur upp frystitækni. Þrýstifulltrúar hans munu samstundis hlaupa vælandi fyrir þingmenn og ráðherra til að heimta tolla og önnur höft á innflutning frá Íslandi. Á þá mun verða hlustað.

Kanadamenn standa Bandaríkjamönnum nær en Íslendingar gera. Samt hafa Kanadamenn mátt þola, að alls kyns hömlur hafa á síðustu árum verið lagðar á langvinnan og hefðbundinn innflutning kanadískra fiskafurða til Bandaríkjanna. Við erum líka í hættu.

Íslenzk stjórnvöld ættu að hefja ráðstafanir til að beina utanríkisviðskiptum okkar til dreifðari markaða, svo að áhættan minnki á einum stórum markaði eins og Bandaríkjunum. Leggja þarf aukna áherzlu á sölu frystra og ferskra sjávarafurða til Evrópu og Japans.

Þannig eigum við annars vegar að sýna, að ekki er ókeypis að sparka í okkur og hins vegar að reyna að koma í veg fyrir frekari spörk í framtíðinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvalveiðum er lokið

Greinar

Hvalveiðum Íslendinga er lokið í ár og sennilega um ófyrirsjáanlega framtíð. Á öndverðri vertíð fara menn ekki í mánaðarfrí til að komu öllu í gang á nýjan leik 20. ágúst. Það er óhagkvæmt og verður ekki gert, þótt gefið sé í skyn, að veiðistöðvunin sé aðeins frí.

Ekki eru heldur neinar horfur á, að hvalveiðar verði teknar upp á næsta sumri. Í því ráða ekki úrslitum hótanir við okkur. Bandaríkjamönnum nægir að skelfa Japani, sem munu alls ekki kaupa af okkur hval af ótta við missi leyfa til veiða í bandarískri landhelgi.

Niðurstaðan var fyrirsjáanleg fyrir löngu. Hvalveiðar eru svo óvinsælar í heiminum og sér í lagi í Bandaríkjunum, að þær eru eru að heyja sitt dauðastríð. Í því skiptir engu, hvort hvalveiðar eru réttlætanlegar eða ekki. Þetta er einfalt tilfinningamál.

Hins vegar hafa tilraunir okkar til að snúa út úr hlutum gert illt verra og flýtt fyrir, að í odda skærist. Í fyrsta lagi trúir enginn úti í heimi, að hundrað hvali þurfi að veiða í svokölluðu vísindaskyni, hvort sem Alþjóða hvalveiðiráðið hefur heimilað slíkt eða ekki.

Enn verra var að halda fram, að hvalveiðar okkar fyrir Japansmarkað væru í rauninni einkum til innanlandsneyzlu á Íslandi. Steininn tók úr, þegar sérfræðingar okkar í útúrsnúningum reyndu á pappír að sýna fram á, að einungis 47% afurðanna færu til Japans.

Eftir situr í okkur hin dólgslega meðferð Bandaríkjastjórnar á máli þessu. Viðskiptaráðherra þeirra gamnar sér við refsiaðgerðir gegn bandalagsþjóð, þótt forseti þeirra hafi margsagt og segi enn, að ekki megi beita Suður-Afríku efnahagslegum refsiaðgerðum.

Gögnin, sem forsætisráðherra okkar hefur birt, sýna, svo ekki verður um villzt, að Bandaríkjamenn hafa leikið hlutverk Rambós. Þeir hafa heimtað og heimtað á hinn frekjulegasta hátt. Þeir hafa ekki einu sinni tekið mark á, að viðsemjandinn þyrfti hlé í eina viku.

Þetta er ekki einsdæmi í viðskiptum Bandaríkjastjórnar við stjórnir vinveittra ríkja. Á valdatíma Reagans hefur yfirgangur Bandaríkjanna gagnvart bandalagsríkjum farið vaxandi, einkum í viðskiptum, en einnig í hermálum og raunar öðrum samskiptum. Í þessu nýtur Reagan vaxandi einangrunarhneigðar Bandaríkjamanna og vaxandi óbeitar þeirra á útlendingum, þar á meðal Evrópumönnum, sem þeir telja vera vanþakklátt og veikgeðja lið, sem ekki nenni eða tími að verja

Svo langt gengur þetta, að vestra er krafizt aðgerða Þjóðverja og Japana til að auðvelda Bandaríkjamönnum afleiðingar af fjármálaóstjórn Reagans, sem einkum hefur komið fram í geigvænlegum halla á ríkisbúskap Bandaríkjanna og er honum sjálfum að kenna.

Í máli okkar, eins og mörgum öðrum, þar með töldu Rainbow Navigation málinu, hefur berlega komið í ljós, að Bandaríkjamenn telja, að minnsta kosti óbeint, að amerísk lög gildi um allan heim. Ríkisstjórn þeirra rekur þessa stefnu skefjalaust gegn okkur.

Við erum í rauninni heppin að mæta yfirgangi Bandaríkjanna á aðeins tveimur ómerkilegum sviðum, hvalveiðum og varnarliðsflutningum. Við erum heppin, að Rambó skuli ekki hafa heimtað viðskiptajöfnuð. Hann hefur lengi verið þeim afskaplega óhagstæður.

Allt þetta kennir okkur að umgangast Bandaríkin með varúð og halda þeim í hæfilegri fjarlægð, svo að Rambó hafi sem minnsta möguleika á að skaða okkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðin er siðgrönn

Greinar

Sigfús Jónsson, nýráðinn bæjarstjóri Akureyrar, vék af fundi Byggðastofnunar fyrr í þessum mánuði, þegar tekin var afstaða til flutnings stofnunarinnar til Akur eyrar. Hann gerði laukrétt, því að öðrum kosti hefði hann lent í dæmigerðum hagsmunaárekstri.

Sigfús hlaut litlar þakkir fyrir að haga sér eins og siðuðum manni sæmir. Hins vegar rigndi yfir hann óbótaskömmum. Táknræn fyrir blindu manna í ábyrgðarstöðum eru orð formanns fjórðungssambands Vestfjarða, sem sagði: “Þetta hefði ég ekki gert”.

Grófastur var Dagur á Akureyri, sem réðst harkalega á Sigfús og sagði þetta “heldur dapurlega byrjun á bæjarstjóraferli” hans. Síðan bætti blaðið við gersamlega órökstuddum dylgjum um, að bæjarstjórinn hefði lofað starfsmönnum Byggðastofnunar þessu.

Sigfús sagðist hins vegar hafa sem bæjarstjóri haft beinna hagsmuna að gæta. “Menn verða að hafa eitthvert siðferði”, sagði hann. Um Dagsmenn sagði hann einfaldlega, að hann tæki “ekkert mark á þeim”, ­ þeir virtust ekki skilja hugtakið hagsmunaárekstur.

Ef til vill er siðgæði smám saman að síast inn í stjórnmálin með ungu fólki á borð við Sigfús Jónsson. Ef svo er, megum við fagna því að vera á réttri braut, þótt breytingin taki langan tíma, þegar hún fylgir kynslóðaskiptum. En sumir vilja, að þetta gerist hraðar.

Í umræðum hér í blaðinu um helgina um spillinguna í stjórnmálum landsins kom fram almennur skilningur stjórnmálamanna ­ einnig þeirra í gömlu flokkunum ­ að ekki væri nóg, að þeir færu að lögum. Þeir yrðu að gera meiri siðakröfur til sín en aðrir gera.

Þar var bent á, að við höfum fátæklegar lagareglur um, hvað sé löglegt og hvað ekki. Þess vegna skipti formið eitt ekki öllu máli, heldur siðmenningin að baki, ­ rótgrónar siðavenjur, sem í heiðri eru hafðar. Þeirri siðrænu reisn hafa Íslendingar ekki náð.

Athyglisvert var, en engan veginn óvænt, að tillögur til úrbóta komu fyrst og fremst frá fulltrúum nýju flokkanna, sem hafa ­ hingað til ­ lítinn eða engan þátt tekið í stjórnmálaspillingunni, er kraumað hefur umhverfis gömlu flokkana fjóra, ­ svokallaðan fjórflokk.

Önnur hugmyndin er Kvennalistans. Fulltrúi hans kvað samskiptamynztur karla einkenna spillinguna. Þetta mynztur hentaði hins vegar ekki konum. Í röksemdafærslunni lá, að heppilegast væri að hríðfækka körlum og stórfjölga konum í stjórnmálum.

Kenning Bandalags jafnaðarmanna er kunnuglegri, enda kemur hún alveg heim og saman við það, sem margoft hefur verið haldið fram hér í blaðinu. Hún er sú, að rýra megi spillinguna með því að brjóta hið pólitíska skömmtunarkerfi, sem fjórflokkurinn hefur komið upp.

Staðreyndin er, að fjórflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Alþýðubandalag og Alþýðuflokkur, skammtar réttlæti, peninga og embætti, ­ sumir flokkar meira, aðrir minna. Þar sem þjóðin kýs þessa fjóra flokka, ber hún sjálf ábyrgð á spillingunni.

Margir fulltrúar fjórflokksins vilja, að dregið verði úr spillingunni. Enda ber að viðurkenna, að hún hefur rýrnað smám saman undanfarinn aldarfjórðung. En það veikir viljann, er þeir taka eftir, að þjóðin hefur í raun ekki umtalsverðan áhuga á breytingum til bóta.

Þegar menn eru ófeimnir við að ráðast opinberlega á siðræn viðhorf nýja bæjarstjórans á Akureyri, hlýtur þjóðin í heild enn að teljast of siðgrönn.

Jónas Kristjánsson

DV

Árátta gegn athvarfinu

Greinar

Kvennaathvarf á að vera dæmigert verkefni sveitarstjórna, liður í hinu umfangsmikla félagsmálastarfi, sem þær stunda. Þess vegna er sérkennilegt, hversu lítið athvarf Kvennaathvarfið í Reykjavík hefur hjá meirihluta Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn.

Borgin ver milljónum í félagslega aðstoð, meðal annars til að halda uppi tugum róna. Hún hefur hins vegar ekki haft neitt framtak til að reka kvennaathvarf fyrir fórnardýr þessara róna sinna. Það hefur orðið hlutverk sjálfboðaliða meðal borgarbúa.

Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur hefur með semingi kastað ruðum til Kvennaathvarfsins í Reykjavík. Í ár er upphæðin hin sama í krónugildi og hún var í fyrra, 625 þúsund krónur. Það er í raunverulegum verðmætum töluverð lækkun milli áranna.

Þar á ofan koma þessir peningar seint og illa frá borginni. Borgarstjóri og forseti borgarstjórnar svara með hálfgerðum skætingi, ef aðstandendur Kvennaathvarfsins, fjölmiðlar eða fulltrúar minnihlutans í borgarstjórn spyrja, hverju þetta sæti.

Það er eins og forustumenn Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þurfi að gera sér upp karlrembu, væntanlega fyrir hönd flokksins. Áráttan gegn athvarfinu verður ekki skýrð nema með einhverjum slíkum hætti. Hún er ekki ómeðvituð, heldur meðvituð.

Spurning er, hvort hinar fáu konur, sem taka þátt í meirihluta borgarstjórnar, hafa mátt eða vilja til að vinda ofan af hinni einkennilegu hegðun ráðamanna meirihlutans, er taka rónana sína langt fram yfir konur, sem þurfa tímabundið athvarf.

Ekki er þó sanngjarnt, að borgin ein standi undir kostnaði við athvarfið í borginni. 40% kvennanna koma frá öðrum sveitarfélögum. Þau hafa fæst tekið þátt í skyldu sinni á þessu sviði. Hafnarfjörður, Garðabær og Selfoss hafa þó lagt fram nokkurt fé.

Merkasta undantekningin er Kópavogur, sem hefur stutt athvarfið myndarlegar en önnur sveitarfélög. Miðað við höfðatölu er framlag Kópavogs langtum hærra en framlag Reykjavíkur. Ef til Í reynd hefur það svo verið ríkið sjálft, sem hefur lagt langsamlega mest af mörkum, tvær milljónir á fjárlögum þessa árs. Þar með komast heildarframlög opinberra aðila til athvarfsins upp undir þrjár milljónir króna, ­ekki mikið, miðað við reksturinn.

Það kostar mikið að reka athvarf, sem hefur í einu hýst mest 29 konur og börn yfir nótt, ­sem hýsti í fyrra 145 konur og 106 börn. Margt af þessu fólki er ekki aðeins blátt og marið, heldur gersamlega peningalaust og getur því engin daggjöld borgað.

Kvennaathvarfið er í vandræðum með að greiða laun starfsfólks. Það er í vandræðum með að greiða afborganir af sjálfu húsnæðinu. Það hefur lengi ekkert viðhald getað greitt, svo að húsið heldur ekki vatni eða vindum. Heilbrigðiseftirlitið kann að loka því senn.

Athvarfið hefur notið velvildar einstaklinga, sem hafa gefið því fé og hvert einasta húsgagn, sem í húsinu er; ennfremur fyrirtækja, sem hafa látið peninga af hendi. Rekstrarþörfin er hins vegar svo mikil, að meira þarf til, einkum myndarlegri aðstoð Reykjavíkurborgar.

Það er misskilningur ráðamanna Reykjavíkur, ef þeir telja sig verða stærri karla ­í augum annarra en rónanna sinna­ fyrir að sýna óbeit á athvarfinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Enskukennslan mistókst

Greinar

Sjávarútvegsráðherra okkar hefur mistekizt að reyna að kenna Bandaríkjamönnum ensku. Viðsemjendur hans þar vestra hafa neitað að trúa, að “primary for local consumption” þýði útflutning hvalafurða til Japans fremur en neyzlu þeirra hér innanlands.

Þeir hafa óformlega látið íslenzka ráðamenn vita, að þeir muni biðja viðskiptaráðherra Bandaríkjanna um að fara þess á leit við Bandaríkjaforseta, að hann láti beita Íslendinga efnahagsþvingunum vegna rangtúlkunar okkar á ofangreindu orðalagi hvalveiðiráðsins.

Þeir reikna með, að viðskiptaráðherra þeirra geri þetta á mánudaginn. Síðan hefur forsetinn 60 daga frest til að hugsa sig um, hvort hann eigi að verða við óskinni. Talið er, að hann eigi erfitt með að ganga fram hjá enskusérfræðingum viðskiptaráðuneytisins.

Þannig er smám saman að koma fram, sem DV hefur lengi spáð, að hvalveiðiþrjózka sjávarútvegsráðherra okkar eigi eftir að verða þjóðinni dýr, ef hann verður ekki stöðvaður tímanlega. Hagsmunir okkar eru fólgnir í öllu öðru en vafasömum hvalveiðum.

Við erum ekki aðeins í vandræðum með Bandaríkjamenn. Japanir óttast svo fiskveiðihömlur þeirra, að komið hefur fram, að þeir munu tæplega þora að kaupa meira af hvalafurðum okkar. Það getur endað með, að við verðum sjálf að snæða hið vísindalega hvalkjöt.

Við getum dregið margs konar lærdóm af mistökum sjávarútvegsráðherra okkar í enskukennslu. Við megum til dæmis engan veginn leggja eins mikla áherzlu á Bandaríkjamarkað í útflutningi og við gerum nú. Stórhættulegt er að hafa svo mörg egg í einni körfu.

Þetta er orðið enn hættulegra síðan dólgsháttur fór að vaxa í utanríkisviðskiptastefnu núverandi Bandaríkjastjórnar. Við erum ekki hinir einu, sem verðum fyrir barðinu á Rambó. Japanir og Vestur-Evrópumenn mega líka sæta ýmsum viðskiptahótunum.

Bandaríkjastjórn er í þann veginn að hætta að líta okkur jafnelskulegum augum og hún lítur Suður-Afríku og Sovétríkin, sem hún beitir ekki viðskiptaþvingunum. Við erum að lenda í sama báti og Nicaragua, sem er beitt bandarískum viðskiptaþvingunum.

Nicaragua má þakka fyrir að hafa ekki bandarískan her í landi. Spurning okkar er að verða, hvort lengur sé óhætt að hafa hér bandarískan her, þegar Ísland er í augum ráðamanna hans orðið verra en Suður-Afríka og Sovétríkin, jafnvont og Nicaragua.

Til lítils er að tala um siðferði í máli þessu. Okkar menn snúa út úr ályktunum hvalveiðiráðsins, ef það hentar þrjózku þeirra. Bandaríkjastjórn þvingar þá, sem hún ræður við. Hún ræður ekki við Rússa, en telur sig væntanlega geta fengizt við okkur.

Ekki dugar heldur að benda á hina hlálegu þverstæðu, að Bandaríkjamenn veiða margfalt fleiri hvali en við, meira að segja höfrunga, sem taldir eru gáfaðri hvalir en hinir, sem við veiðum. Það er nefnilega vitað, því miður, að við erum að veiða fyrir Japansmarkað.

Við eigum að fara að skilja, að tími hvalveiða er liðinn. Við getum ekki farið í kringum aðra með rangtúlkun orðalags, svo sem nú hefur greinilega komið í ljós. Og við getum ekki sannfært neinn um, að veiða þurfi hundrað hvali á ári í svokölluðu vísindaskyni.

Við eigum líka að skilja, að við verðum að dreifa sölu sjávarafurða sem víðast, einkum til Evrópu og Japans, svo að Rambó geti ekki þvingað okkur.

Jónas Kristjánsson

DV

Olían lækkar enn

Greinar

Olíuframleiðsluríkjunum í Opec-samtökunum hefur enn einu sinni mistekizt að ná samkomulagi um minnkun framleiðslu. Þar með er orðið ljóst, að olíuverð hækkar ekki í bráð. Raunar er fremur búizt við, að verðið fari um skeið niður fyrir tíu dollara á tunnuna.

Þetta eru að sjálfsögðu góðar fréttir fyrir olíuinnflutningsríki eins og Ísland. Við höfum þegar notið góðs af olíuverðhruni síðasta vetrar, þegar olían fór úr rúmlega 30 dollurum niður fyrir 20 dollara. Þetta verð hrun var lykill að kjarasamningunum í febrúar.

Almenningur hefur helzt orðið þessa var í lækkuðu bensínverði. Að vísu hefur sú lækkun ekki endurspeglað til fulls allt olíuverðhrunið, af því að hin opinberu gjöld vega mjög þungt í bensínverði. En bensínið hefur þó lækkað og hagur almennings batnað.

Í rauninni hafa allar samgöngur orðið ódýrari. Skip, bílar og flugvélar nota ódýrara eldsneyti en áður. Þar að auki hafa ýmsar hliðarafurðir orðið ódýrari. Efniskostnaður við lagningu bundins slitlags á þjóðvegi landsins hefur til dæmis lækkað um helming.

Fiskveiðiflotinn ætti að geta notið góðs af lækkuninni eins og samgöngutækin. Í því ætti að felast mikilvægasti ávinningur þjóðarinnar af lækkuðu olíuverði úti í heimi. En gasolíuverðið hefur því miður lækkað allt of lítið og tregt hér á landi.

Því er ekki að leyna, að búast hefði mátt við meiri hagsbótum. Nauðsynlegt er, að vel sé vakað yfir olíukaupum landsmanna og skoðað rækilega, hvort við njótum til fulls hinnar miklu lækkunar úti í heimi. Ástæða er til að ætla, að svo sé ekki.

Til dæmis er ótrúlegt, að flugfélög þurfi 8% hækkun á fargjöldum í innanlandsflugi, ef verð á flugvélabensíni hefði lækkað eins mikið hér á landi og það hefur gert í öðrum löndum. Eðlilegt væri að ætla, að fargjöldin ættu fremur að geta lækkað.

Eldsneyti á að vera keypt til landsins á svokölluðu Rotterdamverði. Það verð hefur undanfarna mánuði endurspeglað vel lækkun hráolíuverðsins. Mörgum finnst, að það hefði átt að endurspeglast betur hér á landi í hraðari og meiri verðlækkunum.

Þegar hráolía lækkar úr 30 dollurum niður í 10 dollara, er eðlilegt að búast við verulegum lækkunum hér. Stjórnvöld ættu að athuga, hvort ekki sé allt með felldu á þessu sviði. Skýringar kunna að vera til. Þá er bezt, að þær komi fram og verði öllum aðgengilegar.

Ef okkur tekst að njóta olíuverðlækkunarinnar til fulls, ætti innkaupareikningur þjóðarinnar að geta lækkað um tvo eða þrjá milljarða króna á ári. Það er ekki lítil upphæð. Stærðargráðan er svipuð og hinn árlegi halli á ríkisbúskapnum nú á tímum.

Sérfræðingar reikna með, að olíuverðfallið muni staðnæmast við tíu dollara markið, þótt brezk olía hafi nýlega farið niður í níu dollara. Við svo lágt verð fer að draga að lokun óarðbærra olíulinda og samdrætti í framleiðslu. Tíu dollararnir eru raunhæft lágmark.

Við eigum, eins og aðrir olíukaupendur, að geta notið lágs olíuverðs í nokkur misseri, jafnvel nokkur ár. En um síðir mun verðið stíga að nýju, af því að olía er takmörkuð auðlind, sem hlýtur að verða dýr um síðir, þegar eftirspurnin fer að nýju fram úr framboðinu.

Á meðan hefur þessi gamla verðbólguþjóð tíma og tækifæri til að festa í sessi hið stöðuga verðlag, sem er mikilvægasta afleiðing olíuverðlækkunarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjárlögin eru lykillinn

Greinar

Vangaveltur um haustkosningar hafa lognazt út af. Ljóst er orðið, að ekki verður kosið fyrr en á næsta ári og líklega ekki fyrr en kjörtímabilið er nokkurn veginn eða alveg runnið út. Kröfur úr Sjálfstæðisflokknum um fyrirmálskosningar hafa ekki náð fram að ganga.

Þar með hyggst ríkisstjórnin mæta tveimur vandamálum, sem spáð hefur verið, að mundu reynast henni þung í skauti. Annað er fjárlagafrumvarpið, sem lagt verður fyrir Alþingi í október. Hitt eru kjarasamningar aðildarfélaga Alþýðusambandsins í upphafi næsta árs.

Þetta er í fyllsta máta eðlileg niðurstaða. Rökin fyrir haustkosningum voru ekki sannfærandi. Eðlilegra er, að ríkisstjórnin reyni að tryggja árangurinn, sem náðist í vetur sem leið í baráttunni gegn verðbólgu. Næstu fjárlög og kjarasamningar vega þar þungt.

Ekkert hefur enn komið fram, sem bendir til, að næst verði ekki hægt að ná heildarsamningum um laun á svipuðum nótum og gert var í upphafi þessa árs. Þvert á móti mun góð reynsla af hóflegum kjarasamningum hvetja til framhalds á hinni sömu braut.

Launafólki er vel ljóst, að óhófssamningar fyrri ára leiddu til kjararýrnunar og að hinir hóflegu samningar í ár voru hinir fyrstu í langan tíma, sem leiddu til kjarabóta. Árið 1986 er fyrsta kjarabótaárið um langt skeið. Það verður fólki í fersku minni eftir áramót.

Hugsanlegt er, að ýmsir forustumenn í aðildarfélögum Alþýðusambandsins telji mikilvægara að klekkja á ríkisstjórninni rétt fyrir kosningar heldur en að ná hóflegum kjarabótum fyrir sitt lið. En um leið getur verið áhættusamt að láta slík annarleg sjónarmið ráða.

Ekki dugar að þessu sinni að vísa til fyrri dæma um, að stjórnarflokkar hafi farið illa út úr kosningum, sem háðar hafa verið í kjölfar harðrar kjarabaráttu. Aðstæðurnar eru aðrar núna en þær voru á sínum tíma. Stöðvun verðbólgunnar er vinsæl og verður svo enn um sinn.

Meiri hætta er á ferðinni við smíði fjárlagafrumvarpsins. Lausafregnir af henni benda til, að ríkisstjórnin taki hana ekki nógu alvarlega. Verst er, að stefnt er að framhaldi hins gífurlega og skaðlega hallarekstrar, sem hefur einkennt þetta ár og síðasta ár.

Ekki er nógu gott að leggja á borð fyrir kjósendur óljósar hugmyndir um, að hallann megi afmá á nokkrum árum, til dæmis þremur. Ríkisstjórnin verður að vera búin að ná árangri, þegar kjörtímabilinu lýkur. Hún á ekki að spá árangri þeirrar stjórnar, sem við tekur.

Venjan er, að ríkisstjórnir miði loforð og efndir við kjörtímabil, enda er marklaust að lofa upp í ermi annarra ríkisstjórna, sem síðar koma. Ríkisstjórnin hefur komið ríkisfjármálunum í ömurlegan hnút og á sjálf að leysa hann, áður en hún gengur til kosninga.

Ríkisstjórnin fer illa út úr kosningunum, ef hún mætir kjósendum með þriðja árið í röð upp á tveggja milljarða halla, ­ skefjalausa samkeppni um lánsfé á innlendum markaði og tilheyrandi vaxtabólgu, ­ og svik við loforð um afnám tekjuskatts á venjulegum tekjum.

Þar sem ríkisstjórnin má ekki og vill ekki leysa vandann með skattahækkunum, verður hún að horfast í augu við, að tímabært er að skera niður við trog sumar af heilögu kúnum á ríkisjötunni. Til dæmis má skera tvo milljarða af hinum hefðbundna landbúnaði.

Ef ríkisstjórnin þyrði að koma slíku viti í fjárlagafrumvarpið, gæti hún óttalaus mætt kjarasamningum næsta vetrar og síðan kjósendum að vori.

Jónas Kristjánsson

DV

Gott flug og ódýrt

Greinar

Ánægjuleg tíðindi af framtíð flugs milli Íslands og annarra landa hafa borizt undanfarna daga. Svo virðist, að áfram muni halda hin óbeina samkeppni, sem um nokkurt skeið hefur ríkt milli innlendra aðila, og að erlendir aðilar muni hefja beina samkeppni að ári.

Beztu fréttirnar eru, að tekizt hefur að dæla nýju blóði í Arnarflug. Til skjalanna eru komnir hluthafar með verulegt hlutafé, sem á að veita félaginu svigrúm til að ná góðum og traustum flugbyr eftir mikla og vaxandi sviptivinda á undanförnum árum.

Það liggur í hlutarins eðli, að samkeppni er góð. Hún hvetur keppinauta til dáða. Þar með heldur hún niðri verði og lækkar það jafnvel. Þannig eykur hún kaupmátt viðskiptavina ­ bætir lífskjör fólks. Aukin samkeppni er eitt bezta hagstjórnartæki, sem til er.

Því miður hefur það löngum verið ógæfa íslenzkra ráðamanna að styðja fremur þrönga hagsmuni einokunarinnar en almannahagsmuni samkeppninnar. Liður í þeirri áráttu er útgáfa einkaleyfa til áætlunarflugs í flugi, bæði innanlands og milli landa.

Ráðamenn hafa með semingi leyft óbeina samkeppni í flugi. Slík samkeppni kemur að notum, þótt hún sé ekki eins áhrifamikil og bein. Til dæmis hefur samkeppni Flugleiða í Lúxemborgarflugi og Arnarflugs í Amsterdamflugi verið flugfarþegum til hagsbóta.

Margir hafa getað valið milli flugs til Amsterdam og til Lúxemborgar. Þeir hafa vafalaust tekið eftir, að fargjöld á þessum leiðum eru tiltölulega hagkvæm og að atlæti er tiltölulega gott. Það er af því, að hvort félag um sig vill toga fólk inn á sína flugleið.

Samkeppnin milli Lúxemborgarflugs og Amsterdamflugs hefur einnig stuðlað að auknum áróðri flugfélaganna fyrir ferðum Evrópumanna til Íslands. Þannig hefur hin óbeina samkeppni átt þátt í auknum straumi ferðamanna til landsins og vaxandi gjaldeyristekjum.

Þessi samkeppni mun nú væntanlega halda áfram. Til viðbótar eru svo allar horfur á, að erlend flugfélög taki upp beina samkeppni við hin íslenzku. Bæði Lufthansa og British Midland hafa sótt um áætlunarleyfi til Íslands, hið síðara um daglegt flug frá Glasgow.

Svo blessunarlega vill til, að einokunarhneigð íslenzkra ráðamanna fær ekki hindrað þetta flug. Í flugi gilda milliríkjasamningar um gagnkvæmni. Ef okkar fyrirtæki fá að fljúga til annarra landa, fá þeirra fyrirtæki líka að fljúga hingað ­ ef þau kæra sig um.

Enginn vafi er á, að hin erlendu félög munu hefja áróðursherferð fyrir Íslandsflugi sínu. Það hefur væntanlega þau áhrif, að fleiri ferðamenn en ella komi til landsins. Þar með eru horfur á, að innlend ferðaþjónusta haldi áfram að blómstra á næstu árum.

Ekki er síður mikilvægt, að annað hinna erlendu félaga, British Midland, er afar vel kynnt fyrirtæki, sem hefur orð fyrir góða þjónustu og lágt verð. Líklegt er, að félagið vilji gjarna bjóða lægra verð á Glasgowflugi og auðvelda okkur að njóta lágs vöruverðs þar í borg.

Þá mun hið hlálega gerast, að innlendir hagsmunaðilar og innlendir ráðamenn munu taka saman höndum gegn innlendum almannahagsmunum og standa gegn því að svokallaðir útlendingar fái að vera með svokölluð undirboð. Það er gamla einokunarlumman.

Í heild má þó segja, að endurlífgun Arnarflugs og tilkoma British Midland gefa þjóðinni vonir um bættar flugsamgöngur við umheiminn ­ og ódýrari en ella væri.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrefalt matarverð

Greinar

“Mér finnst hins vegar ánægjulegast, að í 78% tilvika er innkaupsverð okkar gott”, sagði framkvæmda stjóri Félags stórkaupmanna í blaðaviðtali um helgina. Vísar hann þar til samanburðar, sem Verðlagsstofnun gerði á matvöruverði í Reykjavík og Glasgow. Þar kom í ljós, að innkaupsverð íslenzkra heildsala var í 22% tilvika hærra en verð út úr verzlunum í Glasgow.

Vonandi er framkvæmdastjórinn eini maðurinn í landinu, sem er ánægður með þessa prósentu. Hún er því miður allt of há og gefur tilefni til gagnaðgerða. Í sömu könnun kom í ljós, að í 55% tilvika var innkaupsverð íslenzkra stórkaupmanna hærra en verð frá starfsbræðrum þeirra í Glasgow. Full ástæða er, að málsaðilar kanni, hvernig í ósköpunum stendur á þessum óhagstæðu tölum, en leggist ekki í sæluvímu.

Að minnsta kosti einn íslenzkur heildsali tók harkalega við sér, er könnun Verðlagsstofnunar sýndi, að innkaupsverð einnar vöru hans var hærra en smásöluverð í Glasgow. Hann sendi framleiðandanum strax skeyti og bað um skýringu á hinum mikla verðmun.

Vonandi gera aðrir stórkaupmenn slíkt hið sama í stað þess að taka mark á drýldni framkvæmdastjóra félags þeirra. Markmið aukins verzlunarfrelsis er, að neytendur hagnist. Ef þeir njóta ekki aukins frelsis síðustu ára, eru í mysunni maðkar, sem útrýma þarf.

Könnun Verðlagsstofnunar sýndi, að matvöruverð í Reykjavík var nærri þrefalt hærra en í Glasgow. Í einu tilviki komst verðið í Reykjavík upp í að vera sexfalt Glasgow-verð. Þetta var rétt túlkað af Verðlagsstjóra og af fjölmiðlum, sem sögðu agndofa þjóð frá þessu.

Engin ástæða er fyrir verðlagsstjóra að taka mark á kvörtunum heildsala um rangtúlkun. Ekki er heldur ástæða til, að félag þeirra fái framvegis að skoða niður stöður hans, áður en þær eru sendar fjölmiðlum. Slíkt lyktar af ritskoðun af hálfu eins skálksins í málinu.

En skálkarnir eru fleiri, meðal annars hinir erlendu framleiðendur, sem hlunnfara íslenzka stórkaupmenn og íslenzka alþýðu um leið. Meiri og ítarlegri samanburður af hálfu Verðlagsstofnunar á að geta beint kastljósi að slíkum tilvikum og útrýmt þeim snarlega. Einn versti skálkurinn er íslenzka ríkið sjálft. Það leggur þung gjöld á innfluttar vörur. Ennfremur meinar það stórkaupmönnum að þiggja erlenda vörukrít, sem mundi gera þeim kleift að kaupa inn í stærri skömmtum og ná lægra einingaverði, neytendum til hagsbóta.

Verst er, að sérhver álagning leggst ofan á þær, sem fyrir eru. Fyrst taka heildsalar prósentur í formi umboðslauna. Síðan leggur ríkið gjöld sín, ekki bara á vöruverðið, heldur einnig á umboðslaun og flutningskostnað. Þannig er hægt að tvöfalda verðið.

Næst kemur svo heildsalinn, sem leggur nýja prósentu, ekki aðeins ofan á kaupverð vörunnar, heldur einnig ofan á umboðslaun sín, flutningskostnað og opinberu gjöldin. Loks leggur smásalinn sína prósentu ofan á allt hið sama og ofan á prósentu heildsalans að auki.

Þannig getur vítahringurinn endað með, að smásöluálagningin ein er orðin fyrirferðarmeiri í vöruverðinu hér innanlands en upprunalegt verð vörunnar frá framleiðanda. Vinda þarf ofan af þessum vítahring.

Þjóðhagslega og lífskjaralega er mikilvægast, að nota athuganir á borð við þessa sem tæki til að ná lægra verði frá erlendum framleiðendum. Þannig verður unnt að spara þjóðinni háar fjárhæðir á degi hverjum.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir vilja syðra vera

Greinar

Þegar meirihluti stjórnar Byggðastofnunar ákvað í þessari viku, að hún skyldi ekki flutt frá Reykjavík til Akureyrar, varð um leið ljóst, að ekki verður unnt að flytja aðrar stofnanir út á land. Hver á að fara eftir byggðastefnu, ef Byggðastofnun gerir það ekki?

Þingmenn landsbyggðarinnar, sem mynduðu meirihlutann í stjórninni, rökstuddu niðurstöðu sína á tvennan hátt. Í fyrsta lagi þyrfti stofnunin að hafa náið samband við aðrar stofnanir, sem væru í Reykjavík. Í öðru lagi mundi starfsliðið ekki fara norður.

Akureyringar kvarta réttilega yfir þessari niðurstöðu. Hvað verður nú um háskólann nyrðra, spyrja þeir. Ekki eru meiri líkur á, að hægt sé að flytja starfsemi og starfsfólk háskólans norður en reyndust vera, þegar reynt var að ýta Byggðastofnun norður.

Augljóst er, að hið sama verður uppi á teningnum, þegar aðrar stjórnir taka ákvörðun um, hvort láta eigi undan þrýstingi um flutning stofnana og fyrirtækja út á land eða vistun nýrra stofnana og fyrirtækja úti á landi. Sú er einnig reynsla nágrannaþjóðanna.

Ráðamenn stofnana vilja hafa þær í Reykjavík, af því að Ísland er orðið að borgríki, þar sem allar mikilvægar ákvarðanir eru teknar syðra, líka þær, sem varða heill og hag landsbyggðarinnar. Þar eru allar hinar stofnanirnar og allir hinir valdamennirnir.

Starfsmennirnir vilja líka vinna á Reykjavíkursvæðinu, þar sem tveir þriðju hlutar þjóðarinnar eru. Þar er líka allt að hafa, frá sinfóníu og óperu yfir í klámsýningar og fíknilyf. Reykjavíkursvæðið er fyrir löngu komið yfir 100.000 manna töfratölu stórborgarsvæðis.

Fólk vill vera syðra, fara suður og vera þar um kyrrt. Ekki skiptir máli, þótt meðaltekjur séu 6% undir landsmeðaltali í Reykjavík. Samt er það svæðið, þar sem stofnað er til 85% allra nýrra ársverka. Aðeins 15% nýrra ársverka verða til utan Reykjavíkursvæðisins.

Víkjum sögunni til Flateyrar: “Hér er nóg vinna. Hingað vantar alltaf fólk. Togarinn mokfiskaði á síðastliðnu ári. Hér er öll þjónusta, sem sveitarfélög geta veitt, ný sundlaug, leikskóli, tónlistarskóli, elliheimili, læknir og hjúkrunarkona og talsvert mikið félagslíf.”

Þetta er lýsing sveitarstjórans í viðtali við DV. Samt fækkaði fólki á Flateyri í fyrra um 8%. Það er mikill flótti á aðeins einu ári. Og sveitarstjórinn segir: “Þetta er einkum fólk í yngra lagi, fólk á góðum aldri, sem hefur verið að fara … Fólk vill bara ekki vinna í fiski.”

Forustumenn landshlutasamtaka tala í alvöru um, að stíflan sé að bresta, ­ fólk fari að flykkjast til höfuðborgarsvæðisins. Það telur sig hafa verið ginnt í byggðagildru sjöunda áratugarins, þegar reynt var að færa þjóðfélagið frá Reykjavík út á landsbyggðina.

Nú er komið að skuldadögunum. Hin hefðbundna byggðastefna hefur ekki náð árangrinum, sem stefnt var að. Hún hefur kostað mikið fé og mikla sóun. Samt sagði Eskfirðingur nýlega í viðtali við DV: “Okkur fundust engir möguleikar þarna fyrir austan.”

Þeir, sem nú spara, fjárfesta á Reykjavíkursvæðinu. Hlutdeild afgreiðslustaða Reykjavíkursvæðisins í innlánsfé Landsbankans er komið upp í 86% alls innlánsfjár bankans. Litið er á fjárfestingar tímabils byggðagildru áttunda áratugarins úti á landi sem glatað fé.

Líta má á tímamótaákvörðun meirihluta stjórnar Byggðastofnunar sem punktinn yfir i-inu í hruni hinnar hefðbundnu byggðastefnu hér á landi.

Jónas Kristjánsson

DV

Það vottar fyrir raunsæi

Greinar

Tvær nýútkomnar skýrslur um landbúnað marka þáttaskil í umræðum um hann. Önnur er landnýtingarskýrsla frá sjálfu ráðuneytinu og hin er almenn landbúnaðarskýrsla frá Verzlunarráði Íslands. Í gögnum þessum kveður við tón, sem þekktastur er úr DV.

Ein helzta niðurstaða landnýtingarskýrslu ráðuneytisins er, að bændur í hefðbundnum búgreinum séu tvöfalt fleiri en starfsgrundvöllur sé fyrir ­ eins og nú sé ástatt. Ennfremur, að í framtíðinni verði í þessum greinum rúm fyrir enn færri bændur en þennan helming.

Þetta er sama niðurstaða og í skýrslu Verzlunarráðs. Þar segir, að gera eigi helmingi bænda kleift að hætta hefðbundnum búskap, svo að þeir geti tekið til við arðbær störf og á þann hátt aukið tekjur sínar verulega og þar með um leið aukið tekjur þjóðarinnar.

Ráðuneytisskýrslan fetar lengra og gengur í berhögg við ríkjandi byggðastefnu. Þar segir, að byggðaröskun sé í raun aðlögun að breytingum á atvinnu- og lífsháttum þjóðarinnar. Við það má bæta, að byggðaröskun er nærri aldargamalt fyrirbæri hér á landi.

Skýrslan um landnýtingu, sem samin var af fjölmennri nefnd á vegum landbúnaðarráðuneytisins, er að mörgu leyti eðlilegt framhald af nýjum viðhorfum í hópi hinna yngri manna, er starfa á vegum landbúnaðarins sem ráðunautar, sérfræðingar og stjórnendur.

Stefán Aðalsteinsson búvísindamaður hefur ritað greinaflokka, þar sem hann varar landbúnaðarmenn við yfirvofandi hruni hinna hefðbundnu búgreina, nautgripa- og sauðfjárræktar, og hvetur til eflingar annarra greina í staðinn, svo sem loðdýraræktar og fiskeldis.

Svipaða sögu segja menn á borð við Guðmund Stefánsson, hagfræðing Stéttarsambands bænda. Hann hvetur til, að vinnuafl færist úr spennitreyju hefðbundinna búgreina yfir í loðdýr, fiskeldi, hlunnindi, ferðaþjónustu og ýmsar fleiri hliðargreinar.

Meira að segja Hákon Sigurgrímsson, framkvæmdastjóri Stéttarsambands bænda, hefur opinberlega viðurkennt, að í landbúnaði starfi mun fleira fólk en nokkur möguleiki sé, að geti haft framfæri af búvöruframleiðslunni, sem markaður er fyrir í landinu.

Í síðasta ársyfirliti Jónasar Jónssonar búnaðarmálastjóra eru langir kaflar um, hversu æskilegt sé, að bændur snúi sér frá hefðbundnum búskap yfir í hinar nýju greinar, sem ekki eru á framfæri neytenda og skattgreiðenda. Einnig hann hefur óbeint viðurkennt hrunið.

Ráðamenn landbúnaðar hafa reynt að horfast í augu við þessar staðreyndir með því að koma á kvótum á sauðfé og nautgripi og skiptingu framleiðsluréttar milli bænda. Þessir kvótar fela í sér eindregna stýringu í átt til jöfnunar á framleiðslu stórbænda og smábænda.

Í landnýtingarskýrslu ráðuneytisins er hins vegar sagt, að framleiðslueiningar muni stækka í landbúnaði. Það þýðir, að stórbændum hljóti að vegna betur en smábændum, sem muni og eigi að fækka meira en sem svarar nauðsynlegri minnkun framleiðslunnar.

Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, er þessu andvígur. Hann segir ekki rétt að fækka bændum, heldur smækka stórbúin. Hann vill líka þvinga kjúklinga- og svínabændur til að minnka við sig, svo að neytendur neyðist til að kaupa meira dilkakjöt.

Fróðlegt verður að sjá, hvort raunsæisvottur hinna yngri manna má sín mikils gegn forherðingu manna á borð við Pál, sem hingað til hafa ráðið Íslandi.

Jónas Kristjánsson

DV

Vér landráðamenn

Greinar

Eftir nokkra deyfð á undanförnum árum hefur dagblaðið Tíminn í ritstjórnargrein mótmælt þeirri stefnu, að leyfður verði innflutningur þeirra landbúnaðaraf urða, sem nú er bannað að flytja inn. Röksemdafærslan er sem fyrr ekki upp á marga fiska.

Til marks um rénandi reisn Tímans er, að blaðið segir ofangreinda stefnu vera landráðastefnu. Slík fullyrðing er oft ábending um, að hinn orðhvati sé kominn í rökþrot eða að hugsun hans sé ekki mikilla sæva. Hvort tveggja gildir um nafnlausan leiðarahöfund Tímans.

Að stefna að innflutningsfrelsi er ekki sama og að stefna að ósjálfstæði. Við getum ekki hætt að vera sjálfum okkur nóg í matvælaframleiðslu, einfaldlega af því að við erum ekki sjálfum okkur nóg í matvælaframleiðslu. Við flytjum inn flestar okkar nauðsynjar.

Umræðuefnið er ekki sjálfsmennskan, heldur hvort halda skuli áfram að vernda tvær mjög svo afmarkaðar búgreinar, sauðfjárrækt og nautgriparækt, sem fá að einoka innlenda markaðinn, þótt þær ráði svo sem engum úrslitum í matvælaöryggi þjóðarinnar.

Raunar búa Íslendingar við þjóða mest öryggi í aðgangi að matvælum. Það stafar ekki af kjötfjalli eða smjörfjalli, heldur af því að geymslur fiskvinnsluhúsanna eru fullar af matvælum, sem bíða útflutnings. Þar eigum við nóg af ódýrum mat á örlagastundu.

Afurðir sjávarútvegs geta á neyðarstundu hæglega komið í stað afurða sauðfjár og nautgripa. Hitt er svo erfiðara að leysa, hvernig við eigum að komast yfir ávexti, grænmeti, korn og aðra búvöru, sem engum dettur í hug að framleiða hér á kostnað neytenda.

Að stefna að innflutningsfrelsi er ekki heldur sama og að stefna að ósjálfstæði, sem sagt er mundu felast í kaupum á svokölluðum niðurgreiddum búvörum frá útlöndum. Fríverzlunarhyggjan vill, að við öðlumst frelsi til að kaupa sem ódýrasta vöru, ­ í þessu sem öðru.

Heimsmarkaðsverði á búvöru er stjórnað annars vegar af nokkrum sérhæfðum afkastalöndum og hins vegar af varanlegri og vaxandi offramleiðslu. Afkastalöndin geta þolað lága verðið, en önnur lönd, til dæmis í Evrópu, greiða niður sína framleiðslu ­ fyrir heimsku sakir. Við eigum ekki að framleiða dýr smjör- og kjötfjöll, heldur aðstoða aðra við að losna við ódýr fjöll af slíku tagi. Skiptir þá litlu, hvort við skiptum við afkastamiklu löndin, sem ekki greiða niður vöru sína, eða eitthvert niðurgreiðslulandið í Evrópu. Í eðli viðskipta er fólgið að reyna að græða á þeim. Við reynum að selja vörur á borð við sjávarafurðir, sem við höfum aðstöðu og þekkingu til að framleiða, og kaupa í staðinn vöru, sem aðrir hafa aðstöðu og þekkingu til að bjóða okkur við vægu verði.

Þær þjóðir, sem mesta áherzlu leggja á slík viðskipti og græða mest, eru sjálfstæðar, en ekki hinar, sem líta á sig sem safngripi í minjasafni hefðbundins landbúnaðar, svo sem leiðarahöfundur Tímans gerir. Efnalegt sjálfstæði leiðir til annarra tegunda sjálfstæðis.

Efnalegt sjálfstæði, sem fylgir í kjölfar skynsamlegra viðskipta við erlendar þjóðir, er ekki keypt með afnámi íslenzkrar tungu eða stuðningi við svokallaða aronsku í varnarmálum, þótt leiðarahöfundur Tímans haldi því fram, trúr lágkúru sinni allt á leiðarenda.

Fríverzlunarsinnar verða áfram kallaðir landráðamenn af ómerkingum Tímans. En fríverzlunin sigrar og mun almennt verða talin þjóðhollasta stefnan.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitíska peningaflæðið

Greinar

Stjórnmálaflokkar þurfa fé til starfsemi sinnar, mikið fé. Það gildir bæði um rótgróna flokka og þá, sem eru að reyna að hasla sér völl í þjóðfélaginu. Úr einhverjum áttum hljóta peningarnir að koma. Það á ekki að vera talið neitt feimnismál og því síður glæpamál.

Hitt er skynsamlegt, að fjármál stjórnmálaflokkanna séu opin almenningi. Eðlilegt er, að kjósendur fái að vita, hvernig fjárhagur flokks er myndaður, hvort það sé á framlögum margra smárra aðila eða hvort þeir séu fáir og öflugir, hugsanlega hagsmunahópar.

Þar sem flokkarnir hafa ekki reynzt að fyrra bragði fúsir til að fræða kjósendur um þetta, er rétt, að þeir verði skyldaðir til þess með lögum. Þetta felur ekki endilega í sér, að niðurstöðutölur ársreiknings séu á borðinu, heldur fremur ýmsar sérhæfðar upplýsingar.

Til dæmis segir litla sögu, að stjórnmálaflokkur hafi selt happdrættismiða fyrir ákveðna upphæð. Það, sem máli skiptir, er, hvort kaupendur miðanna séu eða séu ekki í einhverjum mæli stórfyrirtæki eða voldugir hagsmunaaðilar, sem kaupa mikið magn miða.

Til viðbótar ársreikningi þurfa aðgengileg að vera atriði eins og viðskiptamannaskrá, þar sem komi fram, hverjir séu hinir stóru viðskiptavinir stjórnmálaflokkanna, ef einhverjir eru, þar með taldir mikilvægir kaupendur happdrættismiða.

Ennfremur eiga lög um fjárreiður stjórnmálaflokka að ná yfir ýmsan óbeinan stuðning, svo sem greiðslu auglýsinga, útvegun aðstöðu gegn vægu eða engu endurgjaldi. Líklegt má telja, að stuðningur valdaaðila sé fremur veittur í slíkri óbeinni mynd en beinni.

Hliðstæðar reglur eiga raunar að gilda um stuðning við einstaka stjórnmálamenn. Viðurkenna á, að til dæmis prófkjör kosta þátttakendur peninga, sem eðlilegt er, að komi frá stuðningsfólki. Um leið eiga reglurnar að sýna, hvernig það fjármagn verður til.

Kjósendur hafa gagn af að vita, hvort barátta frambjóðanda í prófkjöri er kostuð af breiðum hópi stuðningsmanna, sem hver um sig leggur af mörkum hóflega fjárhæð, eða hvort mestur hluti kostnaðarins er greiddur af fáum hagsmunasamtökum eða fyrirtækjum.

Ennfremur er eðlilegt, að viðurkennt sé, að ýmis samtök og stórfyrirtæki eru jafnframt í eðli sínu þrýstihópar, sem hafa hag af samskiptum við stjórnmálamenn og flokka. Slíkri viðurkenningu á jafnframt að fylgja upplýsingaskylda þrýstihópanna.

Lög um upplýsingaskyldu stjórnmálaflokka, stjórnmálamanna og þrýstihópa á þeim fjárreiðum, sem varða samskipti þessara aðila, munu sennilega reynast götótt eins og önnur lög, jafnvel þótt reynt verði að taka tillit til óbeins stuðnings og fyrirgreiðslu.

Þau væru þó tilraun til að lagfæra ástand, sem er óviðunandi. Með þeim væri reynt að viðurkenna, að peningaflæði er nauðsynlegt í stjórnmálunum og reynt að gera kjósendum kleift að vita um þetta flæði. Þetta er skynsamlegra en að reyna að banna sjálft flæðið.

Bandaríkjamenn hafa slæma reynslu af bönnum á þessu sviði, svo sem lögbundnum hámarksfjárhæðum. Miklu líklegra er, að minna verði farið í kringum lög, ef þau fela aðeins í sér upplýsingaskyldu, en ekki fyrirmæli um, hve mikið hverjir megi gefa eða þiggja.

Aðalatriðið er, að kjósendur viti í stórum dráttum um peningaflæði stjórnmálanna og geti tekið mikið eða lítið tillit til þess, ef þeir kæra sig um.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýr fjöll til sölu

Greinar

Offramleiðsla landbúnaðarafurða hefur farið, fer og mun fara ört vaxandi í öllum álfum jarðar nema Afríku. Fjöll óseljanlegra afurða hrannast svo upp, að Evrópubandalagið hefur neyðzt til að taka á leigu vöru geymslur í löndum utan bandalagsins, svo sem í Sviss.

Jafnvel Indverjar, sem fyrir nokkrum áratugum bjuggu við árvissa hungursneyð, eiga nú svo mikið af korni, að þeir hafa ekki rúm fyrir það lengur í geymslum sínum. Svipuð birgðasöfnun er í nágrannalöndum Indlands, svo sem Taiwan, Indónesíu og Thailandi.

Smjör er gott dæmi um birgðavöru af þessu tagi. Evrópubandalagið eitt situr uppi með rúmlega milljón tonn af smjöri. Samtals nema smjörbirgðir heimsins meiru en tveimur milljónum tonna. Það samsvarar tveggja ára milliríkjaverzlun jarðarinnar á smjöri.

Stóraukin efnafræðiþekking og framleiðsla nýrra afbrigða í jurta- og dýraríkinu hafa valdið byltingu í framleiðslumagni landbúnaðar á undanförnum árum. Framundan er önnur eins bylting í kjölfar aukinnar þekkingar á erfðaeiginleikum í jurta- og dýraríkinu.

Nokkur lönd hafa tekið forustu í ódýrri framleiðslu í miklu magni og eru fyrirferðarmikil á heimsmarkaði. Nýja-Sjáland selur kindakjöt og smjör, Ástralía selur nautgripakjöt og sykur, Argentína selur nautagripakjöt og korn og Bandaríkin selja flestar tegundir búvöru.

Slík lönd geta boðið afar lágt verð og sílækkandi verð. Þau hafa þvingað offramleiðendur á borð við Evrópubandalagið til að verja sem svarar meira en 600 milljörðum íslenzkra króna á ári til stuðnings hinum ósamkeppnishæfa landbúnaði aðildarríkjanna.

Vegna hagkvæmrar framleiðslu í Bandaríkjunum, Eyjaálfu og víðar er ekki lengur rúm fyrir landbúnað í köldu landi, þar sem skilyrðin eru mun lakari en í Evrópubandalaginu. Verð íslenzkrar búvöru í útflutningi er fallið niður fyrir vinnslu- og flutningskostnað.

Sovétríkin hafa hagað sér skynsamlega á þessum markaði offramleiðslunnar. Þau eru hætt að reyna að vera sjálfum sér nóg í matvælum. Árlega kaupa þau gífurlegt magn af korni frá Bandaríkjunum, Kanada og Argentínu. Þau fá það á ævintýralega lágu verði.

Í hvert sinn sem Evrópubandalagið er á reglubundinn hátt í sem mestri örvæntingu með smjörfjallið, koma Sovétríkin til skjalanna og bjóðast til að hirða svo sem hundrað þúsund tonn, auðvitað fyrir sama sem ekkert verð. Bandalagið sættir sig við lága verðið.

Þannig verður til heimsmarkaðsverð á smjöri, sem er einn tíundi eða einn tuttugasti af því, sem kostar að framleiða smjör á Íslandi. Vegna vaxandi offramleiðslu mun þetta lága verð haldast lágt um ófyrirsjáanlega framtíð. Sama er að segja um aðra búvöru.

Í þessari viku birtist sem stórfrétt í fjölmiðlum, að Evrópubandalagið og Bandaríkin sömdu um að fresta viðskiptastríði í búvöru til næstu áramóta. Ástandið er slíkt, að svo lítill árangur sem frestur á illu varð fagnaðarefni í herbúðum beggja aðila.

Um ófyrirsjáanlega framtíð mun smáþjóðum á borð við Íslendinga henta bezt að framleiða sem allra minnst af landbúnaðarafurðum og kaupa sem mest frá þeim löndum, sem treysta sér til að selja eða neyðast til að selja á hinu lága og sílækkandi heimsmarkaðsverði.

Á þessu sviði höfum við mesta möguleika á bættum lífskjörum, varanlegu afnámi verðbólgu, lækkun ríkisútgjalda og skatta ­ og svigrúmi til arðbærra athafna.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkishalla-hjáfræði

Greinar

Undanfarna daga hefur látið á sér kræla hjáfræðikenning um, að heppilegt sé ­ eða að minnsta kosti ekki hættulegt ­ að reka ríkissjóð með halla. Er vísað til, að slíkt hafi árum saman og í auknum mæli verið gert í Bandaríkjunum, án þess að leitt hafi til ófarnaðar.

Lykilvörn hjáfræðinga er þó, að mestu máli skipti, að hallinn sé ekki fjármagnaður með erlendum lánum, heldur innlendum. Þar með séu síðari skuldaskil orðin að millifærslum Íslendinga ­ milli skuldabréfaeigenda og skattgreiðenda ­ og varði ekki stöðuna út á við.

Á sama ári og þessu er haldið fram, er ríkið að taka lán í útlöndum. Ef ríkið getur tekið hallarekstrarlán sín á innlendum markaði, gæti það í staðinn tekið einhver önnur lán á innlendum markaði og sparað þjóðinni þar með jafnstóran skuldavanda gagnvart útlöndum.

Raunar er bókhaldsatriði að segja annað lánið vera á innlendum markaði og hitt á erlendum. Svo framarlega sem innlendi markaðurinn leggur ekki fram allt lánsfé, sem ríkið þarf, felur öll viðbót í sér aukningu skulda við útlönd, þótt annað sé formlega bókfært.

Ef þjóðin, stjórnmálamennirnir og ráðherrarnir eru að ræða, hvort rétt sé að reka ríkið með halla eða ekki, er verið að ræða um, hvort eigi að auka erlendar skuldir ríkisins um hallatöluna. Þetta gildir öll þau ár, sem ríkið tekur einhver lán á erlendum peningamarkaði.

Þetta er raunar konunglegt dæmi um, hve mörgum er ósýnt um að hugsa meira en eitt skref fram á veg. Saga meðferðar hins pólitíska geira á fjárhags- og atvinnumálum er endalaus röð aðgerða, þar sem aðeins er hugsað um næstu afleiðingu, en ekki þarnæstu.

Íslenzkir stjórnmálamenn eiga afar erfitt með að reikna nokkra leiki fram í tímann. Dæmið um hjáfræði hallarekstrar ríkisins er tiltölulega einfalt. Flóknari dæmi eru til um ímyndaðar aðstæður, sem ætla mætti að væru hagstæðari hinni freistandi hallastefnu.

Ef ríkið tæki engin erlend lán á ímynduðu hallarekstrarári, væri samt ekki hægt að halda því fram, að innlend lántaka upp í hallann væri hrein innlend millifærsla. Ef enginn væri hallinn, væri hægt að nota sömu upphæð til að grynna á fyrri skuldum við útlönd.

Við skulum halda áfram og ímynda okkur, að hvorki ríkið né þjóðin skulduðu krónu í útlöndum. Þá mætti hugsanlega vænta þess, að innlend fjármögnun hallarekstrar væri innlend millifærsla, ­ einkamál skuldabréfaeigenda og skattgreiðenda í hópi barna okkar.

Svo er raunar ekki. Líklegt er, að slík lántaka ríkisins mundi hrekja aðra lántakendur af innlenda markaðinum út á erlendan. Annars yrði að gera ráð fyrir, að lánveitendur á Íslandi hefðu svo fullar hendur fjár, að þeir gætu leyst fjárþörf allra í senn.

Þetta síðasta dæmi er orðið afar langsótt. En það sýnir, að nánast ókleift er að hugsa sér þvílíkt ríkidæmi í landinu, að hallarekstur ríkisins sé ekki hættulegur. Í öllum tilvikum felur hann í sér veðsetningu barna okkar í hendur erlendra fjármagnseigenda.

Ofan á allt þetta er svo einnig rangt, að velja þurfi milli hallarekstrar og skattlagningar, þar sem sparnaðar- og niðurskurðarleiðir séu þrotnar. Enn er mikil fita á ríkisgeiranum. Nægir þar að minna á, að milljörðum króna er sáð í grýtta jörð hins hefðbundna landbúnaðar.

Ríkishalli er hættulegur, svo sem bæði við og Bandaríkjamenn munu um síðir komast að. Stuðningskenning hallarekstrar er ekki hagfræði, heldur hrein hjáfræði.

Jónas Kristjánsson

DV