Greinar

Bandaríki á brauðfótum

Greinar

Upplýst var í síðustu viku, að skuldir Bandaríkjamanna við útlönd væru orðnar meiri en eignir þeirra í útlöndum. Einhvern tíma hefði þótt saga til næsta bæjar, að slíkt kæmi fyrir mesta peningaveldi heimsins. En nú vekur þetta samt furðulega litla athygli.

Áratugum saman hafa Bandaríkin verið uppspretta fjármagns. Þaðan hafa komið peningarnir til fjárfestinga um heim allan. Nú hefur dæmið snúizt við. Það eru arabar og Evrópumenn, sem eru að kaupa Bandaríkin. Þau eru orðin að skuldugasta ríki heimsins.

Bandaríkjamenn skulda í útlöndum sem svarar rúm lega fjörutíu þúsund milljörðum króna. Spáð er, að skuldin komist upp í tæpa sextíu þúsund milljarða, áður en hún geti farið að lækka aftur. Fjármagnskostnaðurinn, sem þessu er tengdur, er auðvitað gífurlegur.

Dæmigerður um ástandið er hinn stjarnfræðilegi halli á ríkissjóði Bandaríkjanna. Hann hefur farið hríðvaxandi í tíð núverandi forseta, sem ekki virðist skilja bókhald, þótt honum sé ýmislegt annað til lista lagt. Margir fræðimenn telja, að þetta muni leiða til hruns.

Bandarískur almenningur virðist ekki hafa ýkja miklar áhyggjur af þessu. Menn telja það jafnvel dæmi um, hversu gott sé að fjárfesta í Bandaríkjunum. Hitt ætti þó ekki að vefjast fyrir fólki, að peningavald hefur færst í auknum mæli í hendur útlendinga.

Staðreyndin er, að Bandaríkjamenn hafa um langt skeið lifað um efni fram. Það dylst fáum, sem ferðast um Bandaríkin, að víða lifir fólk furðulegu lúxuslífi, langt umfram það, sem hliðstætt fólk gerir í öðrum löndum. Bandaríkjamenn eru orðnir þessu of vanir.

Þetta er ekki gott veganesti í hinni hörðu samkeppni við Japani og Evrópubandalagið á heimsmarkaði. Japanskar þjóðartekjur á mann eru orðnar svipaðar og bandarískar, en Japanir fara mun sparlegar með sitt fé. Enda sækja þeir fram á flestum sviðum.

Engin merki hafa enn sézt um, að hækkun japanska jensins og lækkun bandaríska dollarans hafi snúið við þróuninni, sem hér er lýst. Ef hátt gengi yensins linar tök Japana á markaðinum, er líklegast, að einhverjir aðrir en Bandaríkjamenn komi þar til skjalanna.

Þegar Bandaríkjamenn átta sig á, hversu afleit staða þeirra er, má búast við, að þeir forherðist í hafta- og einangrunarstefnu, sem er afar áberandi þar vestra um þessar mundir. Þetta getur haft óþægileg áhrif á samskipti Vesturlanda og stöðu þeirra í heiminum.

Í vetur lágu 400 haftatillögur fyrir fulltrúadeild bandaríska þingsins. Þær sýna stemmninguna meðal þingmanna, þótt Reagan forseta hafi tekizt að koma í veg fyrir, að þær yrðu að lögum. Hætt er við, að stíflan bresti eftir nokkur ár og fríverzlun hrekist á flótta.

Ekki er síður hættulegt sjónarmiðið, sem á vaxandi fylgi að fagna, að Bandaríkin beri hlutfallslega of miklar byrðar og Evrópa of litlar af varnarsamstarfinu í Atlantshafsbandalaginu. Æ fleiri þingmenn vilja láta kalla bandaríska herinn heim frá Evrópu.

Þessi einangrunarstefna tengist haftastefnunni. Sameiginlega marka þær verulega hættu á versnandi samskiptum Vesturlanda. Nauðsynlegt er, að allir málsaðilar reyni að ráða bót á vandamálunum, sem hafa leitt til hinna hættulegu sjónarmiða.

Þetta varðar Íslendinga eins og aðra. Við höfum bandarískt varnarlið og höfum frjálsan Bandaríkjamarkað að hornsteini atvinnulífs okkar. Hve lengi?

Jónas Kristjánsson

DV

Allir vilja vernd

Greinar

Framsóknarmennirnir Jón Helgason og Þorsteinn Pálsson Suðurlandsráðherrar eru ekki sér á parti, þegar þeir setja 40­50% toll á innfluttar kartöflur, svo að þær verða dýrari til neytenda en ella. Slíkir ráðherrar eru um allan heim, ákaft studdir skammsýnum kjósendum.

Við eigum ekki að verða undrandi, þótt lagður sé aukatollur á saltfiskinn, sem við reynum að selja Portúgölum. Við eigum ekki að verða hissa þótt Bandaríkjastjórn bjóði okkur sjónhverfingar, þegar þarlendir borgarar þurfa að ná flutningum til varnarliðsins.

Verndarstefna þeirra Jóns og Þorsteins á auknu fylgi að fagna í heiminum. Hún getur orðið okkur skeinuhættari en nú. Hér í blaðinu á fimmtudaginn var í leiðara um fríverzlun meðal annars fjallað um tvær tillögur amerískra þingmanna, er gætu orðið okkur dýrar.

Í augsýn er viðskiptastríð milli hinna þriggja efnahagsjötna heimsins, Bandaríkjanna, Japans og Evrópubandalagsins. Í auknum mæli er beitt tollum, innflutningskvótum og öðrum hugvitsamlegum aðgerðum til að vernda þrýstihópa á kostnað neytenda.

Enginn haftasinni vill vakna til vitundar um, að haftastefna er tvíhliða., Þar gildir gamla lögmálið um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Allir tapa um síðir á höftunum og mest auðvitað almenningur, sem þarf að borga meira fyrir vörurnar en væri við fríverzlun.

Einna óhugnanlegust er haftastefnan gagnvart þjóðum þriðja heimsins. Það eru fleiri en kaupmaðurinn í Flónni, sem kvarta um undirboð fátækra þjóða, þar sem börn vinna við framleiðslu. Í uppsiglingu er siðlaust viðskiptastríð norðurs gegn suðri.

Lönd þriðja heimsins eru flest í miklu skuldafeni, einkum vegna vinfengis þarlendra harðstjóra og vestrænna bankastjóra. Hinar fátæku þjóðir geta ekki greitt vexti af þessum skuldum, nema þær fái tækifæri til að koma hinni ódýru framleiðslu sinni í verð.

Ef vestrænum markaði er lokað, hefur þriðji heimurinn ekki fé til að kaupa tækni og aðrar lyftistengur efnahags. Þannig hefur haftastefnan viðskipti af ríku löndunum, um leið og hún kippir fótunum undan stöðu lýðræðis í heiminum og öryggi í alþjóðasamskiptum.

Í þessu andrúmslofti gagnkvæmrar skammsýni liggja fyrir fulltrúadeild bandaríska þingsins um 400 haftatillögur þingmanna á atkvæðaveiðum. Að minnsta kosti tvær beinast gegn löndum eins og Íslandi, sem hafa hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum.

Fáar þjóðir í heiminum eru eins háðar fríverzlun og Íslendingar eru. Við eigum hvarvetna að berjast fyrir jafnrétti innfluttrar og heimaframleiddrar vöru. Þannig getum við selt vörur, sem við getum framleitt ódýrar en aðrir ­ og keypt vöru, sem aðrir bjóða ódýrar.

Slík verkaskipting lækkar vöruverð og tilheyrandi vísitölur verðbólgu. Hún bætir lífskjör neytenda, stéttarinnar, sem jafnan má sín lítils gegn þrýstihópum. Hún flýtir fyrir, að úreltar greinar á borð við hefðbundinn landbúnað víki fyrir atvinnugreinum hárra tekna.

Oftast liggja þröngir hagsmunir landbúnaðar að baki haftastefnu. Evrópubandalagið ver 70% tekna sinna til að verjast ódýrri framleiðslu Norður-Ameríku, Ástralíu og þriðja heimsins. Við verjum milljörðum á ári hverju til að halda dauðahaldi í bændafortíð okkar.

Við skulum vara okkur á haftasinnum á borð við Jón og Þorstein. Við skulum aflétta hömlum á verzlun með innfluttar vörur og semja við aðra um slíkt hið sama.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir vilja vernd

Greinar

Framsóknarmennirnir Jón Helgason og Þorsteinn Pálsson Suðurlandsráðherrar eru ekki sér á parti, þegar þeir setja 40­50% toll á innfluttar kartöflur, svo að þær verða dýrari til neytenda en ella. Slíkir ráðherrar eru um allan heim, ákaft studdir skammsýnum kjósendum.

Við eigum ekki að verða undrandi, þótt lagður sé aukatollur á saltfiskinn, sem við reynum að selja Portúgölum. Við eigum ekki að verða hissa þótt Bandaríkjastjórn bjóði okkur sjónhverfingar, þegar þarlendir borgarar þurfa að ná flutningum til varnarliðsins.

Verndarstefna þeirra Jóns og Þorsteins á auknu fylgi að fagna í heiminum. Hún getur orðið okkur skeinu hættari en nú. Hér í blaðinu á fimmtudaginn var í leiðara um fríverzlun meðal annars fjallað um tvær tillögur amerískra þingmanna, er gætu orðið okkur dýrar.

Í augsýn er viðskiptastríð milli hinna þriggja efnahagsjötna heimsins, Bandaríkjanna, Japans og Evrópubandalagsins. Í auknum mæli er beitt tollum, innflutningskvótum og öðrum hugvitsamlegum aðgerðum til að vernda þrýstihópa á kostnað neytenda.

Enginn haftasinni vill vakna til vitundar um, að haftastefna er tvíhliða., Þar gildir gamla lögmálið um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. Allir tapa um síðir á höftunum og mest auðvitað almenningur, sem þarf að borga meira fyrir vörurnar en væri við fríverzlun.

Einna óhugnanlegust er haftastefnan gagnvart þjóðum þriðja heimsins. Það eru fleiri en kaupmaðurinn í Flónni, sem kvarta um undirboð fátækra þjóða, þar sem börn vinna við framleiðslu. Í uppsiglingu er siðlaust viðskiptastríð norðurs gegn suðri.

Lönd þriðja heimsins eru flest í miklu skuldafeni, einkum vegna vinfengis þarlendra harðstjóra og vestrænna bankastjóra. Hinar fátæku þjóðir geta ekki greitt vexti af þessum skuldum, nema þær fái tækifæri til að koma hinni ódýru framleiðslu sinni í verð.

Ef vestrænum markaði er lokað, hefur þriðji heimurinn ekki fé til að kaupa tækni og aðrar lyftistengur efnahags. Þannig hefur haftastefnan viðskipti af ríku löndunum, um leið og hún kippir fótunum undan stöðu lýðræðis í heiminum og öryggi í alþjóðasamskiptum.

Í þessu andrúmslofti gagnkvæmrar skammsýni liggja fyrir fulltrúadeild bandaríska þingsins um 400 haftatillögur þingmanna á atkvæðaveiðum. Að minnsta kosti tvær beinast gegn löndum eins og Íslandi, sem hafa hagstæðan viðskiptajöfnuð gagnvart Bandaríkjunum.

Fáar þjóðir í heiminum eru eins háðar fríverzlun og Íslendingar eru. Við eigum hvarvetna að berjast fyrir jafnrétti innfluttrar og heimaframleiddrar vöru. Þannig getum við selt vörur, sem við getum framleitt ódýrar en aðrir ­ og keypt vöru, sem aðrir bjóða ódýrar.

Slík verkaskipting lækkar vöruverð og tilheyrandi vísitölur verðbólgu. Hún bætir lífskjör neytenda, stéttarinnar, sem jafnan má sín lítils gegn þrýstihópum. Hún flýtir fyrir, að úreltar greinar á borð við hefðbundinn landbúnað víki fyrir atvinnugreinum hárra tekna.

Oftast liggja þröngir hagsmunir landbúnaðar að baki haftastefnu. Evrópubandalagið ver 70% tekna sinna til að verjast ódýrri framleiðslu Norður-Ameríku, Ástralíu og þriðja heimsins. Við verjum milljörðum á ári hverju til að halda dauðahaldi í bændafortíð okkar.

Við skulum vara okkur á haftasinnum á borð við Jón og Þorstein. Við skulum aflétta hömlum á verzlun með innfluttar vörur og semja við aðra um slíkt hið sama.

Jónas Kristjánsson

DV

Hin hraða leið til heljar

Greinar

Ríkisstjórn hvítra manna í Suður-Afríku er farin á taugum. Hún sigar stjórnlausri lögreglu á svart fólk, lokar það inni hundruðum saman og setur bann á fréttaflutning hvítra blaðamanna í landinu. Hún flýtir óhjákvæmilegri valdatöku svarta meirihlutans.

Atburðarásin í Suður-Afríku hefur verið nákvæmlega eins og spáð var í leiðara þessa blaðs fyrir rúmlega hálfu ári. Hvíti minnihlutinn í Suður-Afríku er ófær um að sjá, að boðskapur er letraður á vegginn. Ríkisstjórnin hagar sér eins og sært og tryllt villidýr.

Hinn óttaslegni forseti Suður-Afríku er drýgindalegur og segist sýna heiminum, að hvítu mennirnir þar í landi séu engir aumingjar. Röksemdafærsla af því tagi ber dauðann í sér, því að önnur atriði ráða framtíð hvítra manna í þessu volaða landi.

Til eru hvítir menn í Suður-Afríku, sem skilja, að hinn fjölmenni svarti meirihluti hlýtur að taka völdin í landinu með góðu eða illu. Þeir eru þó fáir og áhrifa lausir með öllu. Botha forseti hefur meiri vanda af fasistum í hópi stjórnarandstæðinga.

Blóðbaðið í Suður-Afríku hefur til þessa eingöngu kostað svarta menn lífið. Fyrr eða síðar kemur að því, að þeir grípa til vopna og færa hryðjuverkin inn í hverfi hvítra manna. Borgarastyrjöldin getur hæglega endað með, að hvítu fólki verði útrýmt í landinu.

Stefna ríkisstjórnar hvítra manna leiðir eindregið til þeirrar niðurstöðu. Stjórnin tekur ekki mark á neinum góðum ráðum. Hún hefur gróflega hunzað tilraunir ráðamanna brezka samveldisins til að koma á samtali milli hvítra og svartra manna í Suður-Afríku.

Um þessar mundir líta Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, og Reagan, forseti Bandaríkjamanna, út eins og kjánar, sem skilja ekki lögmál lífsins. Tilraunir þeirra til að styðja ríkjandi ástand í Suður-Afríku eru örugglega dæmdar til að mistakast með öllu.

Að vísu skiptir litlu, hvort vestrænar þjóðir setja Suður-Afríku í algert viðskiptabann eða halda áfram hinu hálfgerða banni, sem gilt hefur um nokkurt skeið. Örlög fólks í Suður-Afríku ráðast ekki af ákvörðunum, sem teknar eru í útlöndum. Þau ráðast heima.

Efnahagur Suður-Afríku stendur og fellur með sex milljónum svartra verkamanna. Þeir ákváðu um daginn að sitja heima til að minnast þess, að tíu ár eru liðin frá hryðjuverki ríkisstjórnarinnar í Soweto. Það verður ekki síðasta atlaga þeirra að efnahagskerfinu.

Fráleitt er, að öflugustu ríki Vesturlanda óhreinki sig á stuðningi við hina trylltu ógnarstjórn hvítra manna í Suður-Afríku. Framkoma Thatchers og Reagans hjálpar ekki hvítu fólki í Suður-Afríku. Hún skaðar málstað Vesturlanda, þegar hinir svörtu taka völdin.

Sigraðar eru kenningar um, að Vesturlönd verði að halda stjórnmála- og viðskiptatengslum við Suður-Afríku til að sefa hvíta minnihlutann og ná fram umbótum.

Hvíti minnihlutinn tekur ekki mark á slíku og stefnir óafvitandi að blóðugum úrslitum. Hörmulegt er að horfa á þessa atburðarás. Í Suður-Afríku er skynsemin á undanhaldi. Áhrif hvítra fasista fara vaxandi og sáttasinnar sæta aðkasti sem ræflar og föðurlandssvikarar. Þetta er atburðarás, sem stefnir eindregið að tortímingu ríkjandi valdakerfis.

Verst er, að ekkert er hægt að gera. Viðskiptaþvinganir skipta engu. Við verðum að sætta okkur við að vera aðeins áhorfendur að hinum hrikalega harmleik.

Jónas Kristjánsson

DV

Engar kosningar í haust

Greinar

“Æskulýðsfylking Alþýðubandalagsins og Samband ungra sjálfstæðismanna eru ósammála um margt. En um eitt erum við þó sammála: Ríkisstjórnin verður að fara frá.” Þannig hljóðaði auglýsing frá Æskulýðsfylkingunni, sem birtist hér í blaðinu á miðvikudaginn.

Auglýsingin sýnir, hvert kosningamálið mundi verða, ef Samband ungra sjálfstæðismanna fengi haustkosningavilja sínum framgengt. Stjórnarandstaðan mundi hamra á, að ríkisstjórnin hefði hlaupizt frá vandanum, sem hefði hrannazt upp í höndum hennar.

Eftir nokkurra daga spennu út af hugsanlegum haustkosningum eru stjórnmálamenn farnir að átta sig á, að málið nær ekki fram að ganga. Kosningar verða ekki í haust, einfaldlega af því að ríkisstjórnin mun ekki geta skýrt fyrir fólki, að þeirra sé þörf.

Baráttulið haustkosninga rökstuddi þær með því að segja, að ríkisstjórnin mundi eiga erfitt með að ná saman nothæfu fjárlagafrumvarpi og að hindra verðbólguniðurstöðu í næstu kjarasamningum. Þetta túlkar fólk sem tækifærissinnað sjónarmið baráttuliðsins.

Ef ríkisstjórnin féllist á sjónarmið haustkosningasinna, mundi fólk túlka það svo, að hún þyrði ekki að sýna þjóðinni niðurskorið fjárlagafrumvarp og þyrði ekki að heyja kosningabaráttu í kjölfar erfiðra kjarasamninga. Þetta yrði henni að álitshnekki.

Til viðbótar við þennan stjórnarvanda mundi svo bætast ásteytingarsteinninn, sem stjórnarflokkarnir yrðu að uppgötva, svo að þeir gætu haldið því fram, að þeir ættu ekki lengur að vinna saman. Ágreiningurinn mundi skaða stöðu beggja stjórnarflokkanna í haust.

Augljóst er af tóni framsóknarmanna, að þeir eru andvígir haustkosningum. Þeir segja, að krafa Sambands ungra sjálfstæðismanna sé vantraust á Þorstein Pálsson, af því að haustkosningar séu yfirlýsing um, að hann geti ekki komið saman fjárlagafrumvarpi.

Páll Pétursson, formaður þingflokks framsóknarmanna, segir, að það væru tafllok fyrir Þorstein sem stjórnmálaforingja, ef honum tækist ekki að koma saman skynsamlegu fjárlagafrumvarpi. Páll segir haustkosningar vera of dýra lausn á vandamálum Þorsteins.

Fólk þarf ekki að vera efnislega sammála áróðri af þessum toga og toga Æskulýðsfylkingarinnar til að sjá, að hann mun hafa töluverð áhrif á kjósendur í haustkosningum. Þess vegna hafa tvær grímur runnið á sjálfstæðismenn eins og framsóknarmenn áður.

Hugmyndin um haustkosningar spillir fyrir stjórnarflokkunum, þótt hún verði ekki að veruleika. Fólk hefur komizt að raun um, að ástand mikilvægustu mála er ekki eins gott og ráðherrarnir hafa viljað vera láta. Fólk telur, að haustkosningasinnar hafi séð þetta.

Að baki vinnufriðar og hægari gangs verðbólgunnar leynast margvísleg vandræði, ekki aðeins hættan á verðbólguhvetjandi fjárlögum og kjarasamningum, heldur einnig verðbólguhvetjandi gengislækkun, sem fer að virðast óumflýjanleg vegna frystihúsanna.

Framtak Sambands ungra sjálfstæðismanna hefur þannig spillt fyrir ráðherrum flokksins og flokknum í heild. Fyrir það mun sambandið fá skömm í hattinn. En um leið hefur það stuðlað að auknu raunsæi fólks í skoðunum þess á stöðu verðbólgu og ríkisfjármála.

Þess verður nú krafizt, að ríkisstjórnin leggi til atlögu við vanda næsta vetrar. Umræður um haustkosningar munu jafnframt fá hægt og sanngjarnt andlát.

Jónas Kristjánsson

DV

Viðskiptasiðferði

Greinar

Hafskipsmálið hefur í nokkrar vikur verið í sérkennilegri biðstöðu. Ekki er vitað, hvort einhverjir þeirra, sem setið hafa í gæzluvarðhaldi, verða kærðir og fyrir hvað. Lekinn úr rannsókninni er of óljós og þversagnakenndur til að núna sé hægt að hafa á því skoðun.

Annars vegar er sagt, að ný og alvarleg atriði séu sífellt að koma í ljós og rannsóknin verði stöðugt umfangsmeiri, enda hafi yfirheyrslur verið tíðar og ítarlegar. Hins vegar er sagt, að yfirheyrslur hafi verið stopular, stuttar og spurningar rýrar að innihaldi.

Meðan ástandið er slíkt er tómt mál að tala um viðskiptasiðferði þeirra, sem í hlut eiga. Hins vegar getur verið hentugt tækifæri að fjalla um á almennan hátt, hvernig siðferði eigi að vera í viðskiptum, án þess að þær hugleiðingar beinist að neinum sérstökum.

Ferðalög forstjóra í Concorde-þotu og gisting á dýrum hótelum eru ekki mikið málsefni. Í viðskiptum getur verið nauðsynlegt að sýna reisn, einkum þegar mikið er í húfi. Kostnaður við slíkt hlýtur að vera matsatriði eftir efnum og ástæðum hverju sinni.

Ef kostnaður við ferðalög og risnu fer hins vegar úr þeim ramma að vera í þágu fyrirtækisins, til dæmis á þann hátt, að borgað sé fyrir ferðir maka eða ferðaþætti, sem flokkast undir sumarfrí, hlýtur málið að verða alvarlegra frá sjónarmiði þeirra, sem borga.

Einkaneyzla stjórnenda framhjá launum varðar ekki aðeins hluthafa í hlutafélögum, félagsmenn í samvinnufélögum og skattborgara, þegar um embættismenn er að ræða, heldur einnig þjóðfélagið í heild, ef það verður af skatttekjum vegna brots á framtalsskyldu.

Gjafir flokkast eins. Þar getur verið um að ræða, að ráðherrum eða seðlabankastjórum sé boðið í laxveiði eða í ferðalag til Nizza í einkaerindum; að seðlabankastjóra sé gefið málverk, sem kostar yfir hálfa milljón; eða að verkalýðsforingja sé gefinn fátæktarstyrkur.

Í öllum slíkum tilvikum bilar hvort tveggja, siðferði þeirra, sem gefa, og hinna, sem þiggja. Bresturinn er alvarlegastur, ef stórgjafir eru ekki taldar fram til skatts. Smágjafir mega liggja milli hluta, en ekki þær, sem skipta tugum og jafnvel hundruðum þúsunda króna.

Jafnvel þótt slíkar gjafir séu skilmerkilega bókaðar, situr eftir, að valdaaðilar eins og ráðherrar eða seðlabankastjórar eða verkalýðsleiðtogar geta ekki leyft sér að þiggja þær, ef hugsanlegt getur verið, að vottur af óbeinni hagsmunagæzlu liggi að baki gjafmildinnar.

Afsláttur, sem fyrirtæki veita hvert öðru, flokkast ekki undir slíkar gjafir, ef hann er færður til bókar hjá fyrirtækjunum. Ef hann rennur hins vegar í vasa stjórnanda fyrirtækisins, sem afsláttinn fær, getur hann bæði verið að hafa fé af fyrirtækinu og skattstofunni.

Ef stjórnendur reynast hafa hagrætt bókhaldi fyrirtækis með því að breyta skjölum eða láta þau hverfa, er brot þeirra mjög alvarlegt. Hins vegar er tiltölulega lítilfjörlegt, ef þeir hafa bara sýnt óhæfilega bjartsýni í eignamati, bókhaldi og skýrslugerð.

Af hinum fjölbreytta og afar misjafna siðferðisbresti, sem hér hefur verið fjallað um, er forvitnilegast að staðnæmast við greiðslu fyrirtækja og stofnana á einkakostnaði stjórnenda framhjá skatti. Ráðherrabílarnir voru löngum frægasta dæmið um þá þjóðaríþrótt.

Á þessu stigi er ekki vitað, hversu mikill siðferðisbrestur er í Hafskipsmálinu. En það mál hefur þó varpað ljósi á útbreiddan skort á viðskiptasiðferði í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzk neyzla í Japan

Greinar

“Einkum til neyzlu innanlands” er orðalagið á niðurstöðu Alþjóða hvalveiðiráðsins um, hvað gera megi við afurðir af hvölum, sem veiddir eru í svokölluðu vísindaskyni. Á enskri tungu er þetta orðað á jafneinfaldan hátt: “Primary for local consumption”.

Sjávarútvegsráðherra, sem segist hafa unnið mikinn sigur á aðalfundi ráðsins, þegar þetta orðalag var samþykkt, túlkar það svo, að Íslendingar megi selja Japönum þær afurðir, sem afgangs verða, er Íslendingar hafa neytt 200 tonna af hvalkjöti.

Gera má ráð fyrir, að 100 hvalir, sem Íslendingar ætla að veiða í ár í svokölluðu vísindaskyni, verði að nærri 2000 tonnum af hvalkjöti. Það þýðir, að einn tíundi hluti fer til neyzlu innanlands og níu tíundu verða seldir Japönum, ef þeir þora að kaupa af okkur.

Áður vorum við búnir að vinna alþjóðlegt afrek í orðhengilshætti, þegar við ákváðum, að við þyrftum að veiða 100 hvali á ári í svokölluðu vísindaskyni. Að magni til ætti það að vera einhver stórkarlalegasta vísindarannsókn, sem sögur fara af á síðustu árum.

Hver, sem vill, getur trúað, að veiða þurfi 100 hvali á ári til að halda uppi hvalvísindum. Alþjóða hvalveiðiráðið telur að svo sé. Það ágæta ráð getur svo sem stigið skrefinu lengra og tekið upp á að telja neyzlu Japana á hvalkjöti vera íslenzka innanlandsneyzlu.

Séu vísindin í svokölluðum vísindalegu veiðum ótrúleg, er enn sérkennilegra, að unnt sé að telja hvalveiðar fyrir Japansmarkað vera veiðar “einkum fyrir innanlandsneyzlu”. Lengra verður tæpast gengið í hinni séríslenzku hugaríþrótt, orðhengilshætti.

Þetta er ekki sagt af dálæti á hvölum og áhuga á friðun þeirra, heldur frá sjónarmiði hagkvæmni. Hvalveiðar skipta okkur afar litlu. Þær mega ekki spilla afkomumöguleikum okkar á markaðstorgi umheimsins. Sigur á alþjóðlegum hvalfundum getur skaðað okkur.

Verið getur, að við komumst upp með að telja hvalveiðar vera vísindalegar rannsóknir og viðskipti við Japani vera íslenzka innanlandsneyzlu. Hitt er þó líklegra, að hinar svokölluðu “bandarísku kerlingar” og aðrir hvalfriðunarmenn séu annarrar skoðunar.

Spurningin er ekki, hvaða orðaleikir verða ofan á í Alþjóða hvalveiðiráðinu, heldur, hvort hvalfriðunarmenn láta okkur í friði eða ekki. Ef þeir kjósa að beina geiri sínum að útflutningsafurðum okkar, er mikil hætta á ferðum, hugsanlega hætta á óbætanlegu tjóni.

Enginn vafi er á, að hvalfriðunarmenn geta, ef þeir telja sig hafa hljómgrunn, þvingað ýmsa mikilvæga viðskiptavini okkar til að hætta að kaupa íslenzkar sjávarafurðir. Spurningin er ekki, hvort slíkt sé sanngjarnt eða ekki, heldur hvort það gerist eða ekki.

Hvalfriðunarmenn munu brátt komast að, hvort þeir hafi hljómgrunn fyrir andstöðu við, að 100 hvali þurfi að veiða í vísindaskyni og að sala á níu tíundu hlutum afurðanna til Japans sé íslenzk innanlandsneyzla. Þeir munu spyrja hinar svokölluðu “bandarísku kerlingar”.

Hvalfriðunarmenn munu sennilega komast að raun um, að hinar margumræddu kerlingar skilja ekki röksemdafærsluna á bak við svokallaðan sigur Íslendinga á aðalfundi Alþjóða hvalveiðiráðsins. Þær munu opna tékkheftin sín og gefa hvalfriðungum grænt ljós.

Þannig getur verið ástæða til að óska þess, hagsmuna okkar vegna, að sjávarútvegsráðherra vinni ekki fleiri orðalagssigra á alþjóðlegum hvalveiðifundum.

Jónas Kristjánsson

DV

Afturhaldið allsráðandi

Greinar

Tilraunir Landssambands sauðfjárbænda til að breyta hefðbundnum viðhorfum ráðamanna bænda báru engan árangur á aðalfundi Stéttarsambands bænda í þessari viku. Tillagan um að lækka verð á kindakjöti til að auka söluna náði ekki fram að ganga.

Allra stærst af fjölmörgum vandamálum hins hefðbundna landbúnaðar er framleiðsla á kindakjöti fyrir neytendur, er kaupa minna magn með hverju árinu, sem líður. Í fyrra voru framleidd 12.215 tonn, en aðeins 9.405 tonn seld. Óseldar birgðir námu 6.820 tonnum 1. apríl.

Fráfarandi formaður Stéttarsambandsins viðurkenndi í setningarræðu sinni, að seljendur kjötsins kvörtuðu yfir, að það væri of dýrt í samanburði við annan mat og sömuleiðis of feitt. Hvort tveggja er síðbúin hugljómun, en samt sem áður þakkarverð.

Stjórnendum landbúnaðarins finnst fráleitt að leysa vandann með því að lækka verðið, nema þá að ríkið taki að sér að reyna að auka söluna með því að hækka niðurgreiðslurnar, sem bændastjórarnir segja raunar sífellt, að séu ekki fyrir bændur, heldur neytendur.

Í hvert sinn, sem frá landbúnaðinum heyrist imprað á hugmyndum um að leysa vandamál í greininni með auknum eða nýjum niðurgreiðslum, er rétt fyrir neytendur að rifja upp, að niðurgreiðslur búvöru eru framkvæmdar í meinta þágu bænda en ekki neytenda.

Þegar ríkissjóður rambar á barmi greiðsluþrots eins og um þessar mundir og getur ekki orðið við kröfum um niðurgreiðslur, hafa bændastjórar séð aðra leið í málinu. Hún er falin í auglýsingaherferð, þar sem neytendur eru hvattir til að kaupa dýrt og feitt kjötið.

Neytendur, sem kaupa dilkakjötið dýrum dómi og skera utan af því þykka fitukeppi, geta reynt að telja sér trú um, að lömb séu fjalladýr, en ekki feitir fóðurkálsþegar. Samt er hætt við, að þeir hlaupi ekki upp til handa og fóta vegna auglýsinga einna saman.

Sumir hefðu talið skynsamlegra að leysa fyrst vandamál verðs og fitu og fara svo í auglýsingaherferð. En gallinn er, að enn er grunnt á hinu gamla sjónarmiði í landbúnaði, að neytendur eigi að gera svo vel að haga sér eftir óskum framleiðenda, en alls ekki öfugt.

Landssamband sauðfjárbænda vildi koma á samstarfi bænda og milliliða um að lækka verð á kjötinu til að það seldist betur og að síður yrði þörf á framleiðsluskerðingunni, sem nú er yfirvofandi. Það kom auðvitað í ljós, að milliliðunum líkaði þetta stórilla.

Fráfarandi formaður Stéttarsambandsins hræddi aðalfundarmenn með þeim tíðindum, að tillaga sauðfjárbænda hefði skotið milliliðunum slíkan skelk í bringu, að búvörudeild Sambands íslenzkra samvinnufélaga hefði hreinlega stöðvað alla kjötsölu sína.

Fundarmenn spurðu ekki, hvort í þessu fælist óviðurkvæmileg hótun af hálfu búvörudeildarinnar, heldur slátruðu þeir tillögunni um lækkun kjötverðs. Þess vegna verður nú tekin upp jafngrimmileg ofstjórn á framleiðslu dilkakjöts og komin er í mjólkinni.

Bændur munu eins og neytendur finna fyrir, að ofstjórnin eykur vandann, en leysir ekki. Enda má af samanburði sjá, að óseljanlegar birgðir hlaðast ekki varanlega upp í búgreinum, sem ekki er stjórnað að ofan, ­ í framleiðslu eggja, nauta-, fugla- og svínakjöts.

Á aðalfundi Stéttarsambands bænda vann afturhaldið fullan sigur. Bændastjórarnir hafa í raun ekkert lært og ætla áfram að vera höfuðbyrði þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV

Þeir óttast ríkistaprekstur

Greinar

Vakið hefur athygli, að áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hafa eftir bæjar- og sveitarstjórnarkosningar reynt að koma á framfæri áhuga á þingkosningum í haust. Þetta hefur gengið svo langt, að málið hefur verið tekið til meðferðar í valdastofnunum flokksins.

Auðvitað kom í ljós á fundum þessum, að úrslit kosninganna gáfu út af fyrir sig ekkert tilefni hugleiðinga um að flýta til hausts alþingiskosningum, sem að öðrum kosti yrði að halda á næsta vori. Kjósendur voru ekki að senda stjórnarflokkunum skilaboð eða aðvörun.

Áhangendur haustkosninga viðurkenna þetta, en segja, að erfitt sé að heyja kosningabaráttu á tímum átaka á vinnumarkaði. Þeir telja, að heildarkjarasamningar upp úr næstu áramótum verði mjög erfiðir vegna kosningafiðrings og tilheyrandi kröfuhörku.

Að baki þessarar skoðunar er vantraust á ríkisstjórninni. Það vantraust er raunar ótímabært, því að enn sem komið er hafa markmið þjóðarsáttarinnar í vetur staðizt reynsluna. Verðbólgan er í hægagangi, kaupmáttur fer vaxandi og bjartsýni er meiri en var.

Ef ástandið hefur ekki versnað á nýjan leik, þegar kemur að næstu lotu heildarsamninga eftir áramótin, verður ekki auðvelt fyrir þjóðmálaskúma að æsa til ófriðar á vinnumarkaði sem þáttar í atlögu að ríkisstjórninni í alþingiskosningum í apríl eða maí.

Miklu fremur má þá gera ráð fyrir, að samningsaðilar telji, að ekki sé stætt á öðru en að semja aftur með svipuðum hætti og gert var í vetur, því að umbjóðendur þeirra verði tiltölulega ánægðir með eins árs reynslu af friðsamlegum vinnubrögðum í kjarasamningum.

Ef illska hleypur í næstu heildarkjarasamninga, hlýtur það að stafa af, að þjóðarsátt þessa árs hafi mistekizt. Og sömuleiðis er ljóst, hvar slík mistök muni helzt geta gerzt. Hættumerkin koma öll úr einni átt, ­ það eru fréttir af uggvænlegum taprekstri hins opinbera.

Ríkið lagði upp í ferðalag þessa árs með vond fjárlög, sem gerðu ráð fyrir hálfs annars milljarðs halla á rekstri ríkisins. Baggarnir, sem ríkið batt sér með aðildinni að þjóðarsátt kjarasamninganna, hafa hækkað áætlaðan halla töluvert upp fyrir tvo milljarða króna.

Ekki fer skárri sögum af drögum fjárlagafrumvarps næsta árs, sem ríkisstjórnin fer dult með um þessar mundir. Talið er, að drögin sýni svipaðan halla á rekstri ríkisins á næsta ári, þótt hagfræðingar stjórnvalda hafi opinberlega og eindregið varað við frekari taprekstri.

Fólki kann að finnast, að tveir milljarðar á ári séu aðeins tölur á blaði. En þeir eru meira. Þeir draga dilk á eftir sér. Þeir stuðla að þenslu, ekki sízt að ójafnvægi á peningamarkaði, vaxta- og verðbólgu. Taprekstur ríkisins grefur undan markmiðum þjóðarsáttarinnar.

Frá ársbyrjun hefur skuld ríkisins við Seðlabankann hækkað úr fjórum milljörðum í sjö. Hún kann að minnka síðari hluta ársins og enda í sex milljörðum. Seðlabankinn getur þetta á hinn gamalkunna hátt, ­ með því að prenta fleiri seðla, ­ framleiða verðbólgu.

Árið er hálfnað. Fjármálaráðherra viðurkennir, að engar alvarlegar tilraunir hafi verið gerðar til aðhalds í útgjöldum. Forsætisráðherra talar óljóst um minnkun á næturvinnu ríkisstarfsmanna og betri árangur í baráttunni gegn skattsvikum. Og skattahækkanir mundu stríða gegn skattalækkunum þjóðarsáttarinnar.

Það eru óveðursskýin, er hrannast upp af ríkisfjármálunum, sem valda því, að sumir telja heppilegast, að ríkisstjórnin hlaupist sem fyrst frá vandanum.

Jónas Kristjánsson

DV

Austurríki tapaði

Greinar

Austurríki tapaði í síðari umferð forsetakosninga landsins um helgina. Austurríkismenn kusu sér forseta, sem hefur reynzt ósannsögull í meira lagi og á þess ekki kost að verða boðinn í margar opinberar heimsóknir til útlanda. Hann verður baggi á landinu.

Í Bandaríkjunum er uppi öflug hreyfing meðal þingmanna um að hindra, að Waldheim komi þangað. Ætla þeir að setja hann á skrá yfir óæskilega útlendinga. Gyðingar eru fjölmennir í Bandaríkjunum og munu þeir ekki láta sitt eftir liggja í þessari baráttu.

Í mörgum löndum Evrópu minnast menn nasismans með lítilli gleði. Það veldur því, að til dæmis Hollendingar vilja hvorki sjá né heyra Waldheim. Svipaða sögu má sennilega segja af Dönum og fleiri þjóðum, sem áttu um sárt að binda í síðari heimsstyrjöldinni.

Þar með er ekki sagt, að Waldheim hafi verið staðinn að stríðsglæpum. Ekkert slíkt hefur sannazt á hann. Hins vegar er ljóst, að hann hefur að minnsta kosti orðið var við, að félagar hans í þýzka hernum stunduðu hrottalegar hreinsanir á Balkanskaga.

Á síðustu mánuðum hefur Waldheim orðið að afklæðast hverri spjörinni á fætur annarri. Fyrst hélt hann því fram, að hann hefði ekki verið í SA-sveitum nasista, en varð síðan að játa, að hann hefði talið sig neyddan til þess, svo að hann hefði ekki verra af.

Fyrst hélt Waldheim fram, að hann hefði hætt í stríðinu árið 1942, þegar hann hafði særzt á austurvígstöðvunum. Síðan varð hann að játa, að hann hefði eftir það tekið þátt í baráttunni gegn skæruliðum í Júgóslavíu og Grikklandi og ofsóknum á hendur gyðingum.

Einnig hefur komið í ljós, að doktorsritgerðin, sem Waldheim varði á stríðsárunum, var full af nasistarugli. Fróðir menn telja, að hún sé dæmigerð þvæla eftir tækifærissinna, sem var að reyna að koma sér í mjúkinn hjá valdhöfum þess tíma, nasistum.

Mál Waldheims hefur varpað óþægilegu ljósi á Austurríki. Til skamms tíma voru Austurríkismenn taldir hafa verið í hópi fórnardýra nasismans eins og til dæmis Hollendingar og Danir. Nú hafa menn áttað sig á, að nasisminn var jafnsterkur þar og í Þýzkalandi.

Þjóðverjar hafa horfzt í augu við fortíðina. Þeir hafa gengið í gegnum hreinsunareldinn. Þeir hafa tekið á sig sögulega og sameiginlega ábyrgð á hermdarverkum nasista. Austurríkismenn hafa hins vegar ekki gert upp neina reikninga nasistafortíðar sinnar.

Austurríkismenn hafa gert illt verra með því að fylkja sér um Waldheim. Þeir hafa forherzt. Þeir sögðust ekki láta neina útlendinga segja sér, hvern þeir ættu að kjósa í forsetakosningunum. Þeir sögðu, að útlendingar ættu ekki að hafa afskipti af innanríkismálum Austurríkis.

Slík forherðing er ekkert einsdæmi. Við þekkjum hetjuskap Íslendinga, þegar við segjumst ekki láta móðursjúkar, bandarískar kerlingar segja okkur, hvort við eigum að veiða hvali í svokölluðu vísindaskyni eða ekki. Við segjumst mega veiða hvali og gerum það.

Slíkur hetjuskapur er og verður okkur hættulegur. Hið sama er að segja um hetjuskap Austurríkismanna, þegar þeir völdu sér Waldheim í ögrun gegn umheiminum. Þeir munu einangrast í samskiptum við nágrannaþjóðirnar og í alþjóðlegu samstarfi.

Austurríkismenn áttu einfalda leið úr ógöngum sínum með því að hafna Waldheim í forsetakosningunum. Þeir gerðu það ekki og sitja uppi með ósannindamann.

Jónas Kristjánsson

DV

Agaskortur í flugturninum

Greinar

Íslenzk flugumferðarstjórn fær þessa dagana kaldar kveðjur í heimskunnum fjölmiðlum. Eftir einum flugfarþega var haft: “Þeir hafa allan himingeiminn. Samt voru þeir næstum búnir að drepa okkur”. Sagt er frá agaleysi og sinnuleysi í flugturninum í Reykjavík.

Ekki bæta úr skák yfirlýsingar flugumferðarstjóra um, að þeir séu í flugturninum með hugann við annað en starfið, af því að ástandið í mannlegum samskiptum sé svo slæmt á vinnustaðnum. Slíkar yfirlýsingar bera vitni um barnalegan skort á tilfinningu ábyrgðar.

Sem dæmi um agaskortinn má nefna, að hingað til hafa flugumferðarstjórar á Reykjavíkurflugvelli neitað að sýna með skýrslum, hvenær þeir taka við flugumferðarstjórn og hvenær þeir hætta. Slíkt er gert á Keflavíkurflugvelli og annars staðar í heiminum.

Mistökin í flugumferðarstjórn hafa hrannazt upp á undanförnum árum. Í júní 1983 tókst Arnarflugsmanni með snarræði af afstýra árekstri við kafbátaleitarvél varnarliðsins. Og í september 1985 munaði minnstu, að tvær Flugleiðaþotur rækjust á skömmu eftir flugtak.

Þetta ástand er þeim mun alvarlegra fyrir þá sök, að Íslendingum hefur verið trúað fyrir flugumferðarstjórn yfir Grænlandi og stórum hluta Norðurhafa allt til pólsins. Um þetta svæði fer þriðjungur af fluginu yfir Norður-Atlantshafið eða um 40.000 flug á ári.

Fyrir þessa þjónustu fékk Ísland 140 milljónir króna í fyrra. Þetta fé greiddi laun 94 manna við flugumferðarstjórn, fjarskipti og veðurspár. Þetta er umtalsverður atvinnuvegur hér á landi og getur ekki talizt gulltryggur, frekar en önnur forgengileg atvinna.

Ef Íslendingar fá á sig orð fyrir kæruleysi í flugum ferðarstjórn, er hætt við, að Alþjóða flugmálastofnunin taki aftur til athugunar, eins og hún gerði fyrir réttum áratug, hvort rétt sé að treysta Íslendingum áfram fyrir þessu viðkvæma og agaða nákvæmnisverkefni.

Komið hefur í ljós, að íslenzka flugmálastjórnin reynir að halda málunum leyndum, þegar við hefur legið, að flugvélar rekist á. Svo virðist sem danskur útvarpsáhugamaður hafi að þessu sinni heyrt samskipti flugvéla og flugturns og komið erlendum fjölmiðlum á sporið.

Slík þagnarstefna er að sjálfsögðu ekki traustvekjandi. Íslenzkir flugfarþegar telja sér vafalaust koma við, hvort búast megi við nokkurn veginn einu sinni á ári eða oftar, að flugvélar lendi í árekstrarhættu á flugstjórnarsvæðinu, sem Íslendingar ferðast um.

Ekki er heldur hugnanlegt að lesa eftir frammámönnum í fluginu, að “svona atvik, misjafnlega alvarleg, séu að gerast daglega úti um heim”. Með þessu er því óbeint haldið fram, að flugmálastjórnir og samtök þeirra reyni að halda því leyndu, að flug sé almennt stórhættulegt.

Rétt er að athuga, að hættan stafar ekki af tækni, heldur af mannlegum mistökum. Eðlilegt er, að Alþjóða flugmálastofnunin svari íslenzkum fullyrðingum um, að agaleysi og sinnuleysi sé ekki bundið við Ísland, heldur hin almenna regla í heimi flugumferðarstjórnar.

Íslenzka flugmálastjórnin er sögð hafa þolanlegan tækjabúnað. Á næstu árum verður unnt að auka öryggið, bæði með fjölgun ratsjárstöðva og auknum búnaði í flugturni, svo og með sjálfvirkri tölvuskráningu á vöktum flugumferðarstjóra við tölvurnar.

Ekkert getur þó komið í staðinn fyrir, að agi og nákvæmni verði leidd til vegs og virðingar í flugumferðarstjórn, sem alþjóðaaðilar hafa treyst okkur fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV

Unesco er ónýt

Greinar

Ljóst er orðið, að Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, verður ekki siðvædd innan frá. Framkvæmda stjóri stofnunarinnar, Amadou Mahtar M’Bow, verður að öllum líkindum endurkjörinn á næsta ári til sex ára. Það þýðir, að hann verður við völd til 1993.

Ísland ber hluta af ábyrgðinni á þessum slæmu horfum. Fulltrúi Íslands hefur fyrir hönd Norðurlanda átt sæti í stjórnarnefnd Unesco. Og stjórnarnefndin hefur gersamlega gefizt upp fyrir M’Bow. Hún leyfir honum að fara sínu fram að eigin vild.

Meðal annars hefur stjórnarnefndin fallizt á afbrigðilega snögga brottvikningu ríkisendurskoðanda Bretlands sem utanaðkomandi endurskoðanda Unesco. Þar með minnka líkur á, að hægt sé að veita fjárhagsóstjórn M’Bows endurskoðunaraðhald á vestræna vísu.

Ennfremur er orðið ljóst, að stjórnarnefndin leyfir M’Bow að hefna sín fyrir brotthvarf Bandaríkjanna og Bretlands með því að ýta til hliðar og út starfsmönnum frá þessum löndum. Í Unesco er þannig ekki rekin sáttastefna, heldur ögrunarstefna gegn Vesturlöndum.

M’Bow hefur stjórnað Unesco í rúman áratug í umboði bandalags harðstjóra þriðja heimsins, arabaríkjanna og járntjaldsríkjanna. Þetta bandalag hefur notað Unesco til að stuðla að kúgun fátækra þjóða, takmörkun upplýsinga og lögverndun áróðursráðuneyta.

Á vegum Unesco er miklu fé varið til að hefta fjölmiðlun og sveigja hana undir áróðursstofnanir, sem ekki vilja, að sagt sé frá ránskap harðstjóranna, pyndingum og morðum. Þeir vilja ekki heyra um ágirnd þeirra, mistök, hroka og endalausa valdníðslu.

Í þessu skyni hefur verið reynt að koma upp skrásetningu blaðamanna hjá áróðursráðuneytunum. Reynt hefur verið að taka fjölmiðlunarrétt af alþjóðlegum fréttastofum og búa til einokun áróðursráðuneyta, sem rekin eru á vegum harðstjóranna sjálfra.

Þetta er önnur hliðin á Unesco. Hin hliðin er hin ógnvænlega óráðsía í meðferð fjármuna. Þar fer fremstur M’Bow sjálfur, sem hagar sér eins og vestur-afrískur keisari með stjarnfræðilegum tilkostnaði, svo sem vistarverur hans í Unesco og bílafloti sýna.

Afleiðing óstjórnarinnar er, að meirihluti fjármagns Unesco kemst aldrei út til þriðja heimsins, heldur brennur upp í París, þar sem aðalstöðvarnar eru. Frægt er, að sá næturklúbbur borgarinnar, sem lengst hefur opið fram á morgun, Keur Samba, lifir á Unesco-liðinu.

M’Bow hefur komið því svo fyrir, að embættismenn, sem eru fulltrúar þátttökuríkjanna, líta margir hverjir á aðild sína sem sumarfrí í París. Auk þess hefur M’Bow tök á að láta rætast drauma þeirra um að fá embætti við stofnunina sjálfa. Það gerir þá þægari en ella.

Ljóst er orðið, að hvarf Bandaríkjanna og Bretlands úr þessari gerspilltu stofnun hefur ekki falið í sér neina aðvörun til M’Bows og harðstjórabandalagsins að baki honum. Ljóst er líka, að hótanir annarra ríkja um brottför hafa ekki heldur haft hin minnstu áhrif.

Kominn er tími til, að íslenzk stjórnvöld viðurkenni, að tilraunir til að siðbæta Unesco hafa engan árangur borið og munu engan árangur bera. Eyðsluklær og hatursmenn lýðræðis munu áfram ráða Unesco og hafa hinn skaðlega M’Bow á oddinum næstu sjö árin.

Við höfum vansæmd af þátttöku í stofnuninni. Þess vegna er rétt að undirbúa nú þegar að segja Ísland formlega úr Unesco fyrir næstu áramót.

Jónas Kristjánsson

DV

Áhrifalitlir fjölmiðlar

Greinar

Þótt dæmin sýni annað, er stöðugt talað um, að fjölmiðlar ráði úrslitum í kosningum. Kveinað er um mátt Morgunblaðsins og kvartað yfir skorti á daglegu málgagni. Ennfremur er fullyrt, að birting skoðanakannana í dagblöðum segi okkur, hvað við eigum að kjósa.

Ekki hafði Alþýðuflokkurinn fjölmiðlamátt í þessum kosningum, hvorki í lítt keyptu Alþýðublaði né í blöðum sínum á þeim stöðum, þar sem hann vann mikinn – nánast ótrúlegan sigur. Samt er árangur flokksins á þessum stöðum ekki bara góður, heldur frábær.

Þessa sögu höfum við heyrt oft áður. Þannig vann Vilmundur Gylfason sérstæðan kosningasigur fyrir sama flokk í þingkosningunum 1978.Og þannig komust Bandalag jafnaðarmanna og Kvennalistinn inn á þing 1983. Og þannig var Kvennalistinn enn inni um helgina.

Að venju var Morgunblaðið þungt af áróðri fyrir kosningarnar. Vikum saman hafði Davíð Oddsson spurningaþátt í blaðinu. Og síðustu tveir dagarnir voru nánast ekkert annað en áróður fyrir kosningu hans. Samt lak skoðanakannanafylgi af flokknum.

Varnarsigur Davíðs í Reykjavík er ekki dæmi um áhrifamátt fjölmiðla. Skoðanakannanir margra aðila sýndu, að sigur hans hefði orðið mikill, ef kosningarnar hefðu verið háðar, áður en kosningabaráttan hófst. Ef hún hefði orðið lengri, hefði hann fallið.

Sérfræðingar hafa komið fram í útvarpi og sjónvarpi til að skýra niðurstöður kosninganna. Oddamenn flokkanna gerðu það í DV í gær og leiðarahöfundar hinna blaðanna í morgun. Ekkert af þessu færir okkur sannfærandi mynd af því, sem raunverulega gerðist.

Hér verður ekki gerð tilraun til að leysa gátuna, enda er það sennilega ekki hægt. Hvernig stendur á, að Alþýðuflokkurinn lætur greipar sópa í öðru bæjarfélaginu, en nær ekki nokkrum árangri í hinu bæjarfélaginu við hliðina Þessu halda kjósendur leyndu.

Svo dularfullar eru þessar kosningar, að Alþýðuflokkurinn hrósar mestum sigri í bæ og kjördæmi brottrekins formanns, Kjartans Jóhannssonar, en nær engum árangri í bæ og kjördæmi núverandi formanns og konu hans. Hver vill skýra þetta, svo vel sé.

Ekki er einu sinni hægt að segja, að Ámundi hafi unnið þessar kosningar. Allur kraftur hans aðferða fór í slaginn í Reykjavík, þar sem árangurinn varð enginn. Hins vegar vann flokkurinn mikinn sigur í bæjum, þar sem almannatengsl voru ekki með slíku nútímasniði.

Líklega er rétt að þakka kjósendum fyrir að torvelda okkur sérfræðingunum vanmáttugar tilraunir til útskýringa. Þannig á lýðræðið að vera, einmitt óútreiknanlegt. Þetta sama lýðræði skilaði sautjánhundruð atkvæðum á Flokk mannsins, vonlausan að mati flestra.

Hefðbundið er, að vitringar og aðrir túlkendur kosningatalna segi okkur, hvaða áhrif þetta hafi á næstu alþingiskosningar. Á því sviði er öryggið meira, þegar fullyrt er, að engin bilun verði í stjórnarsamstarfinu. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa enga aðvörun fengið.

Einnig er hægt að fullyrða, að Kvennalistinn muni telja rétt að bjóða fram í flestum kjördæmum að ári. Hið sama gildir um Flokk mannsins. Þá mun árangur þessara lista verða óháður svokölluðum áhrifamætti fjölmiðla, rétt eins og árangur Alþýðuflokksins nú.

Slá má föstu, að hvorki fjölmiðlar né skoðanakannanir vinni kosningar eða tapi þeim. Kjósendur fara sínu fram í trássi við þessa meintu áhrifaaðila. Sem betur fer.

Jónas Kristjánsson

DV

Mikilvægur dagur

Greinar

Kjördagur sveitarstjórnarkosninga er ekki síður mikilvægur kjósendum en kjördagur alþingiskosninga. Mennirnir, sem kosnir verða, eru aðrir ­ og málefnin, sem kosið er um, eru önnur. Hvort tveggja er í sveitarstjórnarkosningum nær daglegu lífi kjósenda.

Sveitarfélögin reka drjúgan hluta hinnar almennu þjónustu við borgarana, bæði verklegrar og félagslegrar. Þau dreifa vatni, hita og rafmagni til fólks, reisa og reka skóla og heilsugæzlustöðvar í samstarfi við ríkið, og sjá um dagvistun fyrir börn og aldraða.

Í DV einum fjölmiðla hafa birzt frásagnir forvígismanna framboðslistanna í tæplega 60 sveitarfélögum um helztu baráttumálin í þessum kosningum. Þar hefur komið fram, að áherzlan er afar misjöfn, áhugaefnin ólík. Kjósendur hafa því um eitthvað að velja.

Sumir hafa lagt mesta áherzlu á verklegar framkvæmdir, svo sem gatnagerð. Aðrir hafa meiri áhuga á félagslegri þjónustu, svo sem barnaheimilum. Enn aðrir telja mest virði að efla atvinnu á staðnum, svo sem með þátttöku í hlutafélögum eða öðrum atvinnurekstri.

Þótt frambjóðendur hafi tilhneigingu til að segjast hafa áhuga á öllu, er samt ljóst af máli þeirra, að sumir þættir eru ofar í hugum þeirra en aðrir. Kjósendur munu væntanlega hafa hliðsjón af samræminu milli eigin áhugasviðs og áhugasviðs frambjóðenda.

Einnig er töluverður munur á stöðu sveitarfélaganna. Í sumum er atvinna tæp og þar vilja margir láta sveitarfélagið styðja atvinnutækifærin. Í öðrum hefur félagsleg þjónusta setið á hakanum. Í enn öðrum eru það verklegu framkvæmdirnar. Engir staðir eru eins.

Í ljósi þessa er skiljanlegt, að sveitarfélög séu borin saman í kosningabaráttunni. Til dæmis hafa verið birtar tölur með samanburði á biðlistum dagvistunarrýmis barna. Slíkan samanburð mætti raunar gera á mörgum öðrum sviðum, kjósendum til glöggvunar.

Helzt skortir á, að frambjóðendur hafi nógu víðan sjóndeildarhring. Margir sjá aðeins þau mál, sem hafa verið til umræðu árum saman. Þeir átta sig ekki á, að ýmis önnur mál munu verða lykilmál á næstu árum. Sum þeirra kunna að ráða örlögum einstakra byggða.

Hversu margir frambjóðendur í fiskiplássum gera sér t.d. grein fyrir, að þeir staðir, sem hafa aðstæður og framtak til að koma sér upp fiskmarkaði, munu soga til sín útgerð og tilheyrandi atvinnulíf frá hinum stöð unum, sem verða seinni til í þessari merku nýjung

Breytingarnar í þjóðfélaginu eru orðnar svo örar, hraðinn svo mikill, markaðurinn svo straumþungur, að mikil byggðaröskun er óhjákvæmileg á næstu árum. Byggðirnar og sveitarstjórnirnar verða afar misjafnlega búin undir þátttöku á markaðstorgi framtíðarinnar.

Slík framsýni byggist á víðsýni, sem skort hefur víða í orðum frambjóðenda í þessari kosningabaráttu ­ eins og raunar jafnan áður. Sumir eru líka fyrir löngu orðnir fangar eigin áróðurs og áróðurs málgagnanna. Það gildir bæði um reykvíska frambjóðendur og aðra.

Óhjákvæmilegt er, að þeir, sem hafa áróðursrit framboðslistanna, allt frá Morgunblaðinu yfir til Þjóðviljans, að daglegu kosningafóðri, sem þeir taka mark á, verði ruglaðir í ríminu og lítt hæfir til ákvarðana. Gildir það bæði um frambjóðendur og þá, sem kjósa þá í dag.

Mikilvægast er, að kjósendur átti sig á, að þetta er ekki dagur minni háttar kosninga, heldur dagur mikilvægra ákvarðana, sem munu hafa áhrif á framtíð allra.

Jónas Kristjánsson

DV

Ævintýri í tösku

Greinar

Danskur sölusnillingur hefur ferðazt um landið þvert og endilangt með tösku. Þetta er töfrataska, sem hefur þá náttúru að vera full af því, sem marga sveitarstjórnarmenn dreymir oftast um. Hún er full af iðnaðarævintýrum handa litlum sveitarfélögum á Íslandi.

Galdurinn felst í, að sölusnillingurinn segir iðnhungruðum sveitarstjórnarmönnum frá ýmsum ævintýrum, sem leynast í töfratöskunni. Þeir mega síðan kíkja í ævintýrið, sem þeim lízt bezt á, ef þeir reiða fram sem svarar 200 þúsund íslenzkum krónum.

Þannig geta þeir valið um að skoða áætlun um framleiðslu á töppum í gluggatjaldastengur fyrir áttfaldan danskan markað, á götuðum þakjárnplötum, á hitabeltisrækjum af guatemölskum ættum og á bleium handa hálfum heiminum, svo að nokkur dæmi séu nefnd.

Ekki er mikið að borga 200 þúsund krónur fyrir slík ævintýri, ef þau ná ekki lengra. Gallinn er, að sveitarstjórnarmenn eiga síðan kost á að fá drauminn framkvæmdan. Daninn útvegar vélar og tæki í einum pakka. Það heitir að fá “eitt stykki iðnað”.

Ef málið gengur svona langt, eins og dæmi eru um, þarf að borga vélar og tæki. Koma þarf upp húsnæði, ráða starfsfólk og þjálfa það. Síðan þarf að koma framleiðslunni í gang. Það hefur tekizt í sumum tilvikum, en ekki í öðrum. Hið síðara hefur reynzt betra.

Ef menn lenda í þeim ógöngum, að iðnaðarævintýrið hleypur af stokkunum, er oftast fjandinn laus. Þá þarf að selja vöruna, sem yfirleitt er alls ekki hægt. Þá fyrst byrjar tapið fyrir alvöru að hrannast upp. Þá verður málið að vítahring, sem drepur sveitarfélagið.

Freistandi væri að álykta, að á einhvern slíkan hátt hafi orðið til í landinu þörungaverksmiðja, svo og stálver og steinullarverksmiðja. Ennfremur hafi orðið til vangaveltur um pappírsver, moldarver, trjákvoðuver og sykurver, svo og sitthvað fleira vinsælt.

Um þennan hugsunarhátt sagði Daninn frægi í viðtali við DV: “Vandamálið við verksmiðjuna á Stokkseyri er einfaldlega, að mennirnir fóru ekki að mínum ráðum. Þeir keyptu vélarnar og gerðu síðan ekki meir. Þeir héldu, að þetta gengi af sjálfu sér.”

Ekki er við sveitarstjórnarmenn eina að sakast. Samtök sveitarstjórna víða um land hafa komið sér upp svokölluðum iðnráðgjöfum, sem eiga að hafa forustu í hugmyndafræði af þessu tagi og reyna að greina kjarnann frá hisminu. Það hefur tekizt misjafnlega vel.

Um iðnráðgjafana gildir eins og um sveitarstjórnarmennina, að þeir eru opinberir aðilar. Þeir taka ekki sjálfir fjárhagslega áhættu og ábyrgð. Þess vegna er öllum þessum aðilum hætt við að dreyma, ekki sízt þeim, sem freistast til að lofa iðnaði fyrir kosningar.

Í iðnaðarævintýrunum eru sveitarstjórnir komnar út fyrir heppilegt verksvið. Þær geta reynt að hlúa að iðnaði, til dæmis með afslætti af gjöldum eða með því að reisa iðngarða og bjóða þar ódýra leigu. En þær geta tæpast ákveðið, svo vel fari, hvaða iðnaður rísi.

Svo er velgengni hins snjalla Dana fyrir að þakka, að sveitarstjórnarmenn eru farnir að átta sig á, að hættulegt getur verið að láta sig dreyma um “eitt stykki iðnað”, sem fari af stað, þegar ýtt sé á hnapp, ­ og einnig hættulegt að lofa kjósendum slíkum skýjaborgum.

Fögur eru iðnaðarævintýri, sem byggð eru á óskhyggju. En þau halda ekki fegurð sinni, nema þau séu áfram geymd í töfratöskunum.

Jónas Kristjánsson

DV