Greinar

Fjör að færast í leikinn

Greinar

Það gneistaði af frummælendum á fjölmennum kosningafundi DV í Háskólabíó í gærkvöldi. Þar mættu til leiks helztu oddvitar og mælskufólk framboðslistanna og létu gamminn geisa, auk þess sem þeir svöruðu yfir sextíu spurningum áheyrenda utan úr sal.

Hinn eini, sem lét sig vanta, var Davíð Oddsson borgarstjóri. Reyndist hann þar smærri í sniðum en starfsbróðir hans á Seltjarnarnesi, sem daginn áður lét sig hafa það að taka þátt í borgarafundi, þótt sérhver hinna flokkanna fengi sama ræðutíma og hans flokkur.

Athyglisvert var, að fjórir af fimm ræðumönnum voru konur. Er það vafalaust tímanna tákn, að stjórnmálaflokkarnir tefla ekki aðeins fram konum í efstu sæti listanna, heldur létu þær einnig standa í eldlínunni á eina borgarafundinum, sem Reykvíkingum stóð til boða.

Fram að fundinum var almennt talið, að áhugi borgarbúa á kosningunum væri daufari en verið hefði við slíkar aðstæður í manna minnum. Hið sama hafa skoðanakannanir sýnt, þar sem ótrúlega og óeðlilega mikill hluti hinna spurðu hefur ekki gert upp hug sinn.

Þetta áhugaleysi sást ekki á kosningafundinum í gærkvöldi. Rúmlega 150 fyrirspurnir bárust fundarstjóra. Fjölluðu þær um flest þau mál, sem hafa verið til umræðu í kosningabaráttunni. Sátu áheyrendur sem fastast, þótt fundurinn færi langt fram úr áætlun.

Frummælendur gerðu sitt bezta til að sýna fram á, að munur væri á listum þeim, sem nú er teflt gegn meirihlutanum í borgarstjórn, auk þess sem þeir gerðu harða hríð að borgarstjóra og hans mönnum. Fátt var um svör, ­ af ástæðum, sem öllum eru orðnar kunnar.

Ljóst var af máli forustumanna lista stjórnarandstöðunnar, að þeir gera sér engar vonir um að fella traustan meirihluta Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Sömu sögu segja raunar allar skoðanakannanir, sem birzt hafa í fjölmiðlum á undanförnum dögum, þar á meðal hér.

Í könnun DV, sem birtist í gær, var fylgi Sjálfstæðisflokksins komið niður í 58%. Kunnugir menn telja, að það muni reynast minna, þegar til kastanna kemur og hinir óákveðnu draga sig í dilka. Fáum dettur þó í hug, að það fari niður fyrir helming greiddra atkvæða.

Líta má svo á, að Sjálfstæðisflokkurinn sé öruggur með átta menn, Alþýðubandalagið með þrjá og Alþýðuflokkurinn og Kvennalistinn með einn hvor. Samtals gerir það þrettán fulltrúa, svo að eftir eru tveir, sem skoðanakönnunin gefur Sjálfstæðisflokknum.

Níundi og tíundi maður lista Sjálfstæðisflokks eru þá í baráttu við fjórða mann Alþýðubandalags, annan mann Alþýðuflokks, annan mann Kvennalista og fyrsta mann Framsóknarflokks. Búast má við tvísýnum úrslitum í þessi sæti, þótt meirihlutinn verði óbreyttur.

Auðvitað getur margt óvænt gerzt, þegar svo margir kjósendur eru enn óráðnir í síðustu viku fyrir kosningar. Ef til vill ráðast úrslitin í sjónvarpinu á föstudaginn, þegar oddamenn listanna leiða saman hesta sína. Þar verða líka síðustu forvöð kjósenda ­ fram að kjörklefa.

Hinn fjörugi fundur í gærkvöldi bar þess ánægjuleg merki, að óræði kjósenda stafar ekki eingöngu af áhugaleysi. Undir niðri vilja borgarbúar taka þátt í kosningum laugardagsins. Þeir eru bara enn opnir fyrir mismunandi sjónarmiðum, svo sem vera ber í lýðræði.

Fundurinn í gærkvöldi markaði þau tímamót, að framvegis munu Reykvíkingar ekki sætta sig við að fara á mis við almenna borgarafundi fyrir kosningar.

Jónas Kristjánsson

DV

Stinningskaldi kosninga

Greinar

Þegar rétt vika er til kosninga, er líklegt, að flestir hafi þegar gert upp hug sinn. Samkvæmt skoðanakönnunum hefur þeim, sem eru óákveðnir, fækkað ört á síðustu mánuðum. Ekki er líklegt, að moldviðri, sem þyrlað verður upp síðustu dagana, beri mikinn árangur.

Baráttan hefur til þessa verið fremur róleg og siðsamleg, að minnsta kosti í flestum sveitarfélögum. Lítið hefur verið um högg neðan beltis, sem voru virkur þáttur baráttunnar á fyrri tímum. Meira hefur verið rætt um menn og málefni, en minna kastað af skít.

Flestir verða aðeins varir við kosningabaráttuna í einu kjördæmi, ef þeir búa í Reykjavík, eða tveimur, ef þeir búa annars staðar. Hinir almennu fjölmiðlar eru flestir af eðlilegum ástæðum uppteknir af reykvísku baráttunni. DV er þó undantekningin.

Hér í blaðinu hafa verið birtar og verða birtar frásagnir af kosningabaráttunni í tæplega 60 sveitarfélögum. Þar hefur verið sagt frá helztu málum byggðarinnar, birt viðtöl við almenna kjósendur á staðnum og síðast en ekki sízt við helztu frambjóðendur allra lista.

Þessar hlutlausu upplýsingar um kosningamál hinna fjölmörgu sveitarfélaga eru einsdæmi í sinni röð, enda hefur framtakinu verið hrósað af fjölmiðlum, sem annars eru ekki sérstaklega vinsamlegir í garð DV. Í þessu blaði einu hafa menn kynnzt öllum sjónarmiðum.

Útvarp og sjónvarp hafa rekið þá stefnu að segja sem minnst frá kosningunum. Dagblöðin hafa, önnur en DV, rekið harðan áróður fyrir þeim flokki, sem þau styðja hvert um sig. Hvert þeirra hefur hagað sinni kosningabaráttu með sínum sérstaka hætti.

Morgunblaðið hefur að venju breytzt úr fréttablaði í áróðursrit, að þessu sinni fyrir borgarstjórann. Daglega hefur hann svarað fyrirspurnum í blaðinu og hann studdur hvað eftir annað í leiðurum og öðru efni. Þetta hefur fyrst og fremst verið barátta fyrir persónu.

Tíminn hefur, eins og Morgunblaðið, beint athyglinni eingöngu að Reykjavík og barizt fyrir miðbæ í Mjóddinni. Bæði blöðin hafa látið heimablöðin í öðrum sveitarfélögum sjá um slaginn fyrir listana, sem þar eru bornir fram á vegum flokkanna sinna tveggja.

Þjóðviljinn hefur hins vegar tekið á herðar sínar baráttuna fyrir listum Alþýðubandalagsins í fjölmörgum sveitarfélögum, til viðbótar harðri baráttu í Reykjavík. Blaðið hefur því verið stútfullt af áróðri vikum saman, sem er raunar engin nýlunda á þeim bæ.

Hvassasti geir Þjóðviljans hefur beinzt að kaupum borgarinnar á Ölfusvatnslandi og meintum ótímabærum framkvæmdum á Nesjavöllum. Þessu hefur verið mótmælt í Morgunblaðinu. DV fer auðvitað sína leið og birtir sérstaka úttekt með viðtölum við sérfræðinga.

Minna hefur borið á dagblaðalausu listunum. Þeir hafa auðvitað litla sem enga umfjöllun fengið í pólitísku dagblöðunum. Þeir hafa hins vegar fengið svipaðan aðgang og aðrir að DV, bæði í kjallaragreinum og fréttum, sem blaðið hefur birt frá hinum ýmsu stöðum.

Að sjálfsögðu hefur stærsti hluti umfjöllunar DV beinzt að baráttunni í Reykjavík. Hápunktur aðildar DV er stóri fundurinn í Háskólabíói kl. 20 á þriðjudaginn kemur. Þar svara spurningum leiðtogar þeirra lista, sem sætta sig við jafnan aðgang flokka að fjölmiðlum.

Þannig hafa kjósendur ­ og munu enn í viku ­ sæta afar fjölbreyttum og margátta stinningskalda upplýsinga og áróðurs. Kjósandans er svo að vega og meta.

Jónas Kristjánsson

DV

Vegasérþarfir víki

Greinar

Skiljanlegar eru sérþarfir vegaverktaka og samgönguráðherra. Verktakana sárvantar verkefni í lægðinni eftir framkvæmdastorm margra ára. Og ráðherrann dreymir um að verða leiðtogi “þjóðarátaks” í vegagerð. Hvorir tveggja veifa freistandi tilboðum.

Fyrst buðust verktakar til að útvega á innlendum markaði lán handa ríkinu til þessa átaks. Þar með þyrftu skattgreiðendur og ríkið ekki að borga framkvæmdirnar fyrr en seinna. Og stjórnmálamenn vilja gjarna fljúga núna, en borga síðar, ­ löngu síðar.

Enda varð samgönguráðherra mjög hrifinn. Hann sá fyrir sér lausn á miklum erfiðleikum í samkeppni sinni við aðra ráðherra um afar takmarkað fé ríkisins. Í þeirri samkeppni hafa hinir einmitt litið öfundaraugum til vegafjárins og reynt að höggva af því hlut.

Greindir menn og Þjóðhagsstofnun sáu þó, að málið var ekki svona einfalt. Mikil þrengsli eru á innlendum lánamarkaði. Ef verktökum tækist með gylliboðum vaxta að yfirbjóða ríkið og aðra lánshungraða í landinu, yrði að sjálfsögðu þeim mun minna eftir handa öðrum.

Samkvæmt þessum upprunalegu hugmyndum hefði þjóðarátakið falist í, að framkvæmdir í landinu hefðu ekki aukizt, heldur hefði vegagerð aukizt á kostnað allra annarra framkvæmda. Slíkt ójafnvægi framkvæmda væri þjóðhagslega afar óhagkvæmt.

Eftir að þetta varð ljóst, kom fram ný hugmynd, sem samgönguráðherra hefur gert að sinni. Hún felst í, að væntanlegar verðlækkanir á benzíni verði frystar. Menn haldi áfram að borga núgildandi verð, en ríkissjóður taki mismuninn til að borga þjóðarátakið.

Þessi leið er þægileg að því leyti, að benzínnotendur verða síður æfir yfir nýrri skattheimtu, ef þeir þurfa ekki að greiða hærra verð, heldur missa eingöngu af verðlækkun, sem þeir eru ekki búnir að fá í hús. Frystiskatturinn verður sennilega ekki tiltakanlega óvinsæll.

Auk þess hefur hún þann kost að draga úr því, að menn fari að nota meira benzín. Hún dregur þannig úr gjaldeyriskostnaði þjóðarinnar. Hátt benzínverð hefur á undanförnum árum dregið úr eftirspurn um allan heim og einmitt valdið verðhruninu, sem við nú njótum.

En þetta er ekki eina hlið málsins. Frysting benzínverðs hvetur til verðbólgu. Ef verðið fær að lækka í friði, hefur það góð áhrif á vísitölur með því að vega upp á móti ýmsum öðrum liðum, sem fara hækkandi. Benzínlækkun mun stuðla að núverandi vinnufriði.

Enn verra er, að frystingin mundi auka spennuna í atvinnulífinu. Þegar eru fyrir fleiri lausar stöður en fólk er til að fylla. Slík umframeftirspurn stuðlar í sjálfu sér að verðbólgu. Ef þjóðarátakið bætist ofan á, er líklegt, að verðbólgan fari aftur á fulla ferð.

Fylgjendur þjóðarátaksins veifa kenningum um, að vegagerð sé afar hagkvæm, því að tækin séu til og asfaltverð sé lágt um þessar mundir. En hliðstæðum kenningum má einnig halda fram um hinar afar nytsömu athafnir, sem yrðu að víkja fyrir þjóðarátakinu.

Þess ber líka að gæta, að svokallaðir útreikningar á hagkvæmni í vegagerð hafa reynzt afar villandi. Reynslan sýnir, að hagkvæmni hefur verið og er enn verið að reikna inn í margs konar vitleysu og jafnvel hreina ævintýramennsku, oft í þágu stjórnmálamanna.

Hagsmunir vegaverktaka og samgönguráðherra eru skiljanlegir, en ættu þó að víkja fyrir þeim þjóðar hagsmunum, að verðlækkun benzíns fái að vera í friði.

Jónas Kristjánsson

DV

Eiturefni á fríum sjó

Greinar

Á neytendasíðu DV var nýlega sagt frá tveggja ára barni, sem át eitrað uppþvottaefni fyrir átta mánuðum og hefur ekki náð sér síðan. Það hefur verið í stöðugum aðgerðum innan lands og utan og getur aðeins nærst gegnum slöngu. Engin vissa er um fullan bata.

Slys þetta ætti að vera öllum málsaðilum áminning, annars vegar hinum fjölmörgu opinberu silkihúfum, sem eiga að hafa stjórn á merkingum eiturefna, svo og hins vegar framleiðendum og stórkaupmönnum, sem eiga að merkja vörur sínar í samræmi við gildandi reglugerðir.

Alvarlegast er, hve illa iðnrekendur og heildsalar standa sig. Almennt sinna þeir hvorki fyrstu aðvörunum heilbrigðiseftirlitsins, né síðari kröfum um innköllun hinna hættulegu vörutegunda. Það er eins og þeir finni ekki til neinnar ábyrgðar á heilsutjóni.

Af þessum ástæðum hafa fyrstu tólf vörurnar verið bannaðar samkvæmt auglýsingu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkursvæðis. Allt eru það erlendar hreinlætisvörur, margar hverjar fluttar inn af þekktum heildsölum, sem eiga að vita betur en að stunda slík lögbrot.

Í meira en ár hefur verið til reglugerð frá heilbrigðisráðuneytinu, þar sem ákveðið er, hvernig merkja skuli vörur, sem innihalda eiturefni. Á þessari reglugerð hefur lítið mark verið tekið enn. Þess vegna er nauðsynlegt að herða opinberar gagnaðgerðir hið bráðasta.

Af innlendum framleiðendum hreinlætisvöru er það aðeins Frigg, sem hefur merkingar sínar í lagi. Bæði Mjöll og Sjöfn fara enn undan í flæmingi og vísa til þess, að innfluttar vörur séu ekki í samræmi við reglur. Það er að vísu laukrétt, en er engin afsökun.

Eiturefni Metasilikat í innfluttu Finish uppþvottaefni varð umræddu barni að alvarlegu tjóni. Þegar DV hafði samband við stórkaupmanninn, sem flytur eitrið inn, kom hann af fjöllum. Hann vissi ekki að efnið væri eitrað og vissi ekki einu sinni um reglurnar.

Þegar heildsalar halda því fram fullum fetum, að þeir hafi ekki hugmynd um, að til sé reglugerð um merkingu eiturefna, hvað þá að þeir fari eftir slíkri reglugerð, er augljóslega eitthvað meira en lítið að. Kærur og dómar gætu bætt nokkuð úr þessum dvala.

Iðnrekendur og stórkaupmenn eru ekki einir ábyrgir. Svo virðist sem seinagangur sé mikill í hinu flókna kerfi hins opinbera. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkursvæðis skrifar Hollustuvernd ríkisins, sem skrifar Eiturefnanefnd, sem skrifar heilbrigðisráðuneytinu.

Frá því að eftirlitið fór fram á, að Metasilikat yrði sett á skrá eiturefna, og þangað til ráðuneytið hafði framkvæmt skráninguna, liðu nærri þrír mánuðir. Og samkvæmt lögskýringum hinna opinberu aðila má selja eitrið allan þennan tíma. Þetta eru ófær vinnubrögð.

Í rauninni ættu öll efni, sem komast á eiturefnaskrá í einhverju viðurkenndu nágrannalandi, að fara beint á bráðabirgðaskrá hér á landi, á meðan yfirvöld eru að fullvissa sig um, hvort þau eigi heima á hinni varanlegu eiturefnaskrá eða ekki.

Auk þess þarf að stytta tímann, sem upplýsingar um slík mál eru á ferðalagi í gegnum opinbera kerfið. Ennfremur þarf að taka upp einfalt merkingakerfi eins og er í löndum Efnahagsbandalagsins. Og loks þarf að setja fulla hörku í að framkvæma reglugerðina.

Sennilega eru málaferli gegn brotlegum seljendum eitraðra vörutegunda bezta leiðin til að hindra fleiri slys af því tagi, sem lýst var í upphafi leiðarans.

Jónas Kristjánsson

DV

Ólíkt hefst hann að

Greinar

Annars vegar lætur Reagan Bandaríkjaforseti varpa sprengjum að hávaðasömum meinleysingja, sem er við völd í smáríkinu Líbýu. Hins vegar fer hann í opinbera heimsókn til eins mesta fjöldamorðingja og rummungsþjófs, sem uppi er nú á tímum, Suhartos í Indónesíu.

Þetta dæmi gengur engan veginn upp. Að baki hinna tveggja ólíku aðgerða forsetans er grófur tvískinnungur og skortur á siðrænu mati, sem skaðar málstað vestrænna ríkja, eins og svo margt annað, sem þessi forseti hefur gert og sagt á erlendum vettvangi.

Indónesía skiptir töluverðu máli fyrir umheiminn, því að það er fimmta fjölmennasta land veraldar, óvenju auðugt að málmum, olíu og timbri. Þar hefur í tvo ára tugi ráðið ríkjum valdaræningi úr stétt herforingja, stórum hættulegri umhverfi sínu en Kaddafi.

Á ferli sínum í Indónesíu hefur Suharto látið slátra um 300 þúsund íbúum landsins. Tugir þúsunda pólitískra fanga hírast í fangabúðum og útlegð án dóms og laga, sumir í meira en áratug. Pyndingum er meira beitt í Indónesíu en flestum öðrum löndum heims.

Þá hefur Suharto stundað útþenslustefnu með hræðilegum afleiðingum fyrir nágrannaþjóðirnar. Hann gerði innrás á eyjuna Timor fyrir einum áratug og hefur síðan látið koma fyrir kattarnef 200.000 af 600.000 íbúum eyjarinnar. Þar eru ofsóknirnar óvenju ógeðfelldar.

Bæði Timor og Irian, sem Indónesía sölsaði áður undir sig, eru vettvangur pyndinga, skipulagðrar eyðileggingar menningar og þjóðhátta, og annarra ofsókna af hálfu hins illræmda hers Suhartos. Þetta framferði er með svartari blettum á mannkyninu.

Að þessu leyti má skipa Suharto í fylkingu mestu ógæfumanna aldarinnar, með Pol Pot, Hitler og Stalín. En hann er líka einn mikilvirkasti þjófur nútímans, hefur mergsogið þjóð sína, er hálfdrættingur á við Marcos, sem nýlega var hrakinn frá Filippseyjum.

Stjórnkerfi Indónesíu er talið eitt hið spilltasta í heimi. Ástralíumaður hefur skrifað afar fróðlega doktorsritgerð um, hvernig kona Suhartos, börn þeirra, bræður hans og aðrir nánustu vinir og ættingjar hafa rakað saman fé með því að misnota valdaaðstöðu sína.

Marcos er talinn hafa stolið sem svarar 200­400 milljörðum íslenzkra króna. Suharto er talinn hafa komizt upp í 80­120 milljarða íslenzkra króna. Marcos hefur nú glatað völdum, en Suharto er fastari í sessi en nokkru sinni fyrr og baðar sig í sól Bandaríkjaforseta.

Þegar Reagan var að búast til ferðar til að heilsa upp á Suharto, birti ástralskt blað yfirlit um þjófnað Indónesíuforseta og spillingu stjórnar hans. Í hefndarskyni var hinum áströlsku blaðamönnum, sem voru í föruneyti forsetans, vísað umsvifalaust til baka.

Þetta olli forseta Bandaríkjanna auðvitað töluverðum óþægindum. En hann lét sig hafa það að halda áfram hinni opinberu heimsókn eins og ekkert hefði í skorizt. En áróðursherferðin, sem Suharto hafði skipulagt gagnvart fjölmiðlum, fór blessunarlega út um þúfur.

Dæmigert fyrir Suharto er, að hann hefur óbeit á upplýsingum. Fréttamenn eiga erfitt með að komast inn í landið, þá aðeins til skamms tíma og er vísað úr landi af minnsta tilefni. Þannig hefur hann reynt að koma í veg fyrir alþjóðlegt umtal um glæpi sína.

Eitt er að veita slíku fóli aðstoð, sem nemur um 80 milljörðum íslenzkra króna. En að heimsækja það þar á ofan opinberlega, tekur út yfir allan þjófabálk.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstjórn án aðhalds

Greinar

Enn hlaðast upp birgðir óseljanlegra afurða hins hefðbundna landbúnaðar, þrátt fyrir mikla og vaxandi ofstjórn. Svo er nú komið, að tíu bændur á Suðurlandi eru búnir með mjólkurframleiðslukvótann, þótt beztu framleiðslumánuðir ársins séu enn eftir.

Reiknað er með, að flestir sunnlenzkir mjólkurbændur verði búnir með framleiðslukvóta sinn í júlí eða ágúst. Á því stigi eiga þeir ekki annarra kosta völ en hella mjólkinni niður, því að stjórnendur landbúnaðarins hafa tekið við of mikilli mjólk til þessa.

Skynsamlegra hefði verið að byrja fyrr að draga saman seglin í hefðbundnum landbúnaði. Ef tekið hefði verið mark á samdráttarsinnum fyrir aldarfjórðungi og framleiðslan minnkuð um svo sem 1-2% á ári, væri landbúnaðurinn ekki í úlfakreppunni, sem nú blasir við.

Aðgerðir Framleiðsluráðs og annarra stofnana, sem stjórna landbúnaðinum, hafa reynzt gagnslausar. Bændur hafa verið hvattir og styrktir allt til hins síðasta til að byggja fjós, sem þeir geta svo ekki notað, af því að ekki er hægt að úthluta þeim neinum kvóta.

Bóndinn með 40 kýr í nýreistu fjósi og engan framleiðslurétt er dæmigert fórnardýr ofstjórnar í landbúnaði. Ráðamenn í greininni hafa staðið grimman vörð um gjafalán og styrki til fjárfestingar og framleiðsluaukningar, þótt samdráttur væri heppilegri.

Sem dæmi um vitleysuna má nefna, að hinn rangnefndi Framleiðnisjóður landbúnaðarins framselur mjólkurframleiðslukvóta, sem hann kaupir dýrum dómum af bændum. Í stað þess að frysta hinn keypta kvóta, er hann seldur öðrum og heldur þannig uppi vandanum.

Ofstjórnin er svo mikil, að sjóðir landbúnaðarins hamast við að kaupa og selja búmark og fullvirðisrétt, svo og að leigja þessi hugtök af bændum til skamms tíma. Í öllum tilvikum missir viðleitnin marks, því að hún dregur ekki úr framleiðslu, sem ekki selst.

Óselt nautgripakjöt í landinu nemur nú 1320 tonnum eða hálfs árs neyzlu þjóðarinnar. Kjötfjall þetta hefur stækkað um 45% á einu ári. Þannig hefur enn eitt fjallið bætzt við dilkakjötsfjallið, smjörfjallið og ostafjallið, nýr minnisvarði um samtvinnaða ofstjórn og óstjórn.

Meðan fjöllin hlaðast upp í hinum hefðbundna landbúnaði, leysa eggja-, kjúklinga- og svínabændur sín vandamál með því að halda útsölu til að eyða sínum fjöllum í fæðingu. Þeir leysa vandann á sinn kostnað, en ekki á kostnað skattgreiðenda og neytenda.

Dæmigert fyrir hugarfar stjórnenda landbúnaðarins og meirihlutans, sem þeir ráða á Alþingi, er, að landbúnaðarráðherra er leyft að leggja 200% toll á innfluttar kartöfluflögur, af því að innlendum snillingum hefur dottið í hug að setja upp tvær flöguverksmiðjur.

Fyrst eru skattgreiðendur látnir beint eða óbeint borga gæluverksmiðjur landbúnaðarins og síðan eru neytendur látnir borga tjónið af framleiðslunni. Raunar þarf ótrúlega ósvífni til að láta sér detta í hug, að hugmyndaflug skuli fjármagnast á þennan hátt.

Þess er skemmst að minnast, að undanfarin ár hafa skattgreiðendur verið látnir kosta hverja kjarnfóðurverksmiðjuna á fætur annarri, þótt hinar fyrri sætu uppi með ársframleiðslu eða meira. Og síðasta snilldin felst í að láta skattgreiðendur greiða niður áburð.

Þetta margþætta svínarí er framið á vegum hinna ábyrgðarlausu stjórnmálaflokka, sem kvöddu veturinn með því að samþykkja 200% kartöfluflögutollinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofstjórn án aðhalds

Greinar

Enn hlaðast upp birgðir óseljanlegra afurða hins hefðbundna landbúnaðar, þrátt fyrir mikla og vaxandi ofstjórn. Svo er nú komið, að tíu bændur á Suðurlandi eru búnir með mjólkurframleiðslukvótann, þótt beztu framleiðslumánuðir ársins séu enn eftir.

Reiknað er með, að flestir sunnlenskir mjólkurbændur verði búnir með framleiðslukvóta sinn í júlí eða ágúst. Á því stigi eiga þeir ekki annarra kosta völ en hella mjólkinni niður, því að stjórnendur landbúnaðarins hafa tekið við of mikilli mjólk til þessa.

Skynsamlegra hefði verið að byrja fyrr að draga saman seglin í hefbundnum landbúnaði. Ef tekið hefði verið mark á samdráttarsinnum fyrir aldarfjórðungi og framleiðslan minnkuð um svo sem 1-2% á ári, væri landbúnaðurinn ekki í úlfakreppunni, sem nú blasir við.

Aðgerðir Framleiðsluráðs og annarra stofnana, sem stjórna landbúnaðinum, hafa reynzt gagnslausar. Bændur hafa verið hvattir og styrktir allt til hins síðasta til að byggja fjós, sem þeir geta svo ekki notað, af því að ekki er hægt að úthluta þeim neinum kvóta.

Bóndinn með 40 kýr í rýeistu fjósi og engan framleiðslurétt er dæmigert fórnardýr ofstjórnar í landbúnaði. Ráðamenn í greininni hafa staðið grimman vörð um gjafalán og styrki til fjárfestingar og framleiðsluaukningar, þótt samdráttur væri heppilegri.

Sem dæmi um vitleysuna má nefna, að hinn rangnefndi Framleiðnisjóður landbúnaðarins framselur mjólkurframleiðslukvóta, sem hann kaupir dýrum dómum af bændum. Í stað þess að frysta hinn keypta kvóta, er hann seldur öðrum og heldur þannig uppi vandanum.

Ofstjórnin er svo mikil, að sjóðir landbúnaðarins hamast við að kaupa og selja búmark og fullvirðisrétt, svo og að leigja þessi hugtök af bændum til skamms tíma. Í öllum tilvikum missir viðleitnin marks, því að hún dregur ekki úr framleiðslu, sem ekki selst.

Óselt nautgripakjöt í landinu nemur nú 1320 tonnum eða hálfs árs neyzlu þjóðarinnar. Kjötfjall þetta hefur stækkað um 45% á einu ári. Þannig hefur enn eitt fjallið bætzt við dilkakjötsfjallið, smjörfjallið og ostafjallið, nýr minnisvarði um samtvinnaða ofstjórn og óstjórn.

Meðan fjöllin hlaðast upp í hinum hefðbundna landbúnaði, leysa eggja-, kjúklinga- og svínabændur sín vandamál með því að halda útsölu til að eyða sínum fjöllum í fæðingu. Þeir leysa vandann á sinn kostnað, en ekki á kostnað skattgreiðenda og neytenda.

Dæmigert fyrir hugarfar stjórnenda landbúnaðarins og meirihlutans, sem þeir ráða á Alþingi, er, að landbúnaðarráðherra er leyft að leggja 200% toll á innfluttar kartöfluflögur, af því að innlendum snillingum hefur dottið í hug að setja upp tvær flöguverksmiðjur.

Fyrst eru skattgreiðendur látnir beint eða óbeint borga gæluverksmiðjur landbúnaðarins og síðan eru neytendur látnir borga tjónið af framleiðslunni. Raunar þarf ótrúlega ósvífni til að láta sér detta í hug, að hugmyndaflug skuli fjármagnast á þennan hátt.

Þess er skemmst að minnast, að undanfarin ár hafa skattgreiðendur verið látnir kosta hverja kjarnfóðurveksmiðjuna á fætur annarri, þótt hinar fyrri sætu uppi með ársframleiðslu eða meira. Og síðasta snilldin felst í að láta skattgreiðendur greiða niður áburð.

Þetta margþætta svínarí er framið á vegum hinna ábyrgðarlausu stjórnmálaflokka, sem kvöddu veturinn með því að samþykkja 200% kartöfluflögutollinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Lexían liggur á borðinu

Greinar

Örfáum mánuðum eftir að Hafskip lagði upp laupana eru kvartanir um skort á samkeppni í farmgjöldum kaupskiptaflotans farnar að hlaðast upp hjá verðlagsstjóra. Tilraunir hans til að fá verzlunina til að lækka vöruverð hafa strandað á auknum flutningskostnaði.

Verðlagsstjóri segir, að kaupmenn beri við, að skipafélögin hafi eftir gjaldþrot Hafskips sýnt “aukna hörku” í verðlagningu flutninga til landsins. Þetta dragi úr getu verzlunarinnar til að lækka vörurnar, þótt minni vaxtakostnaður ætti annars að gefa kost á því.

Verðlagsstjóri segir, að í bréfum kaupmanna til stofnunarinnar sé kvartað um, að fyrri afslættir skipafélaganna hafi verið stórlega rýrðir eða felldir niður. Bæði þeir og verðlagsstjóri eru í engum vafa um, hver sé skýringin á þessu, ­ hvarf Hafskips af markaðnum.

Þessar kvartanir hlaðast upp, þótt eðlilegast væri, að farmgjöld skipafélaganna lækkuðu í kjölfar lækkaðs olíuverðs ­ í stað þess að hækka. Sú lækkun hefði átt að nema nokkrum prósentum, en hennar hefur hvergi orðið vart. Þetta er auðvitað hið mesta alvörumál.

Með aðild ríkisstjórnarinnar hafa verið gerðir víðtækir samningar um frið á vinnumarkaði. Þessir samningar fela í sér, að verðlagi sé haldið niðri og það lækkað í kjölfar lækkunar vaxtakostnaðar fyrirtækja, olíuverðlækkunar og annarrar lækkunar.

Mikið er í húfi, að þetta aðhald nái fram að ganga á öllum sviðum. Ef það tekst ekki, fer verðbólgan yfir umsamin strik, sem hefnir sín í nýjum kauphækkunum, er aftur hefna sín í nýjum verðhækkunum, samkvæmt verðbólguspíralnum, sem hér hefur löngum ríkt.

Ef skipafélögin skorast undan merkjum og lækka ekki farmgjöldin til samræmis við lækkað verð á vöxtum og olíu, er að sjálfsögðu ástæða til að taka þau til sérstakrar meðferðar. Enda hefur verðlagsstjóri lofað, að skoða rækilega þetta sérkennilega ástand.

Að vísu veit hann eins og aðrir, að verðlagseftirlit í formi aðhalds og áminninga er ekki eins virkt og eftirlitið, sem felst í samkeppni. Samkeppnin, sem skipafélögin höfðu fyrir hálfu ári, er horfin. Og það lýsir sér í hærra vöruverði í landinu, ­ í stað lægra vöruverðs.

Þetta hefur gerzt, af því að stóru skipafélögin tvö eru í lítilli samkeppni. Skipadeild Sambandsins er fremur lítið á almennum markaði, enda hefur hún sín föstu viðskipti hjá samvinnuhreyfingunni. Fátt bendir til, að deildin hyggist leggja til atlögu við risann.

Talsmaður Eimskipafélagsins hefur uppi þá vörn, að félagið hafi fram til þessa verið rekið með tapi og þurfi að komast í rekstrarjafnvægi. Auk þess hafi farmgjöldin í raun lækkað og þar á ofan skipti verðlækkun á olíu í Rotterdam litlu sem engu máli.

Menn taka þessar skýringar auðvitað með mátulegum efasemdum. Þær breyta því ekki, að stjórnvöld, sem nú glíma við rauðu strikin, horfa með söknuði til baka til Hafskips. Ef tekizt hefði að halda þeim rekstri á lífi, væri sennilega alls engin verðbólga hér á landi.

Minningin um Hafskip kann að hafa stuðlað að þeirri ákvörðun stjórnvalda að búa til þær aðstæður, að Arnarflug gæti hugsanlega haldið áfram að halda niðri verði á fargjöldum og farmgjöldum í flugi. Ef Arnarflug bilaði líka, færi verðbólgan án efa yfir öll rauð strik.

Af öllu þessu getur þjóðin lært, að sundrun kraftanna í samkeppni nær meiri árangri en sameining þeirra í einokun. Lexían liggur á borðinu, öllum aðgengileg.

Jónas Kristjánsson

DV

Atómslys í svartholinu

Greinar

Sovézkur eðlisfræðingur, sem flúði vestur fyrir tíu árum, lýsti afleiðingum kjarnorkuslyss í Úralfjöllum á þann veg, að landið hefði verið dautt, engir bæir, engin þorp, engir akrar, engin engi, ekkert fólk, ekkert. Honum fannst hann vera staddur á tunglinu.

Þetta voru afleiðingar kjarnorkuslyss, sem varð fyrir nærri tveimur áratugum í Seljabinsk og vandlega var þagað um í því svartholi upplýsinga, sem kallar sig Sovétríkin. Svartholið er hið sama núna, þegar vestrænir aðilar hafa komið upp um nýtt atómslys þar eystra.

Fjórir dagar liðu, þar til yfirvöld játuðu, að slys hefði orðið. Þá vissu Vesturlandabúar þegar um slysið, því að nútímatækni geislamælinga á landi og loftmyndatöku úr gervihnöttum er önnur en tæknin var fyrir tveimur áratugum. Annars þegði svartholið enn.

Markmið svartholsins er að koma í veg fyrir, að almenningsálit geti myndazt. Þess vegna er ekki sagt frá kjarnorkuslysum af þessu tagi, ekki sagt frá hernaðarævintýrum á borð við innrásina í Afganistan og ekki sagt frá heimsins mestu mengun í Sovétríkjunum.

Ef almenningsálit gæti myndazt í Sovétríkjunum, væru þau ekki svarthol. Þá mundi þjóðin rísa gegn kjarnorkukapphlaupinu, sem Sovétstjórnin ber ábyrgð á að þremur fjórðu hlutum að minnsta kosti. Þá mundi Rauði herinn vera látinn hætta glæpunum í Afganistan.

Við þekkjum sovézkt hugarfar á Vesturlöndum. Fjölmiðlar eru úthrópaðir fyrir að segja vondar fréttir ­ af slysum, morðum, glæpum, hryðjuverkum, styrjöldum og öllu því, sem sumt fólk vill ekki heyra. Þeir trufla hinn rósrauða og viðkvæma sálarfrið þessa fólks.

En hinar vondu fréttir vestrænna fjölmiðla gera almenningsáliti kleift að myndast. Fólk getur eitt sér eða hópum saman tekið afstöðu, t.d. gegn atómvopnum, hryðjuverkum eða styrjöldum og komið sjónarmiðum sínum á hið vestræna markaðstorg almenningsálitsins.

Í Sovétríkjunum ræður hins vegar ferðinni hópur glæpamanna, sem hefur ekki aðhald af neinu almenningsáliti og kærir sig ekki um það. Á þessu hefur ekki orðið hin minnsta breyting, þótt nýr Gorbatsjov hafi tekið við af aðframkomnum fyrirrennurum.

Nú, þegar vika er liðin frá kjarnorkuslysinu í Sjernobyl, er ljóst, að Sovétstjórnin ætlar ekki að láta deigan síga. Hún hefur komið því á framfæri, að hún muni engrar afsökunar biðja alla þá erlendu aðila, sem orðið hafa fyrir tjóni eða öðrum óþægindum.

Engum datt í hug, að stjórnin í svartholinu teldi sig hafa neina þörf á að biðja eigin þræla afsökunar. Hún lítur á fólkið í landinu sem peð í langri baráttu fyrir heimsyfirráðum glæpaflokksins í Kreml. En hún hefði getað hegðað sér á annan hátt út á við.

Svo gerði hún ekki. Í því felst hroki heimsveldisins, sem fer sínu fram, ekki bara án tillits til þrælanna í svartholinu, heldur án tillits til allra. Það mun áfram fremja sín kjarnorkuslys, sín útrýmingarstríð, sína mengun ­ ekki síður á kostnað annarra þjóða.

Mesta vandamál mannkyns á okkar tímum er, að annað af tveimur öflugustu ríkjum heims hefur gert sig að svartholi, þar sem upplýsingar berast ekki á markaðs-torgi almenningsálitsins, heldur eru skipulagðar að ofan að hentugleikum ofbeldissinnaðra yfirvalda.

Eina von mannkyns um framhald lífs er, að nútímatækni megni smám saman að beina ljósi upplýsinga inn í svartholið og sá þar fræjum almenningsálits.

Jónas Kristjánsson

DV

Á að vernda vinnsluna?

Greinar

Fyrsta tilraun frystiiðnaðarins í landinu til gagnsóknar gegn gámafiskinum fólst í ræðu, sem forstjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna flutti nýlega á fundi hjá samtökum fiskiðnaðarins. Sú tilraun var ekki líkleg til að sannfæra ráðamenn eða aðra um málstaðinn.

Viðlag ræðunnar var hin gamalkunna kenning, að veiðar séu öflun hráefnis handa stofnunum í landi, sem kalla sig vinnslustöðvar og fullvinni aflann. Með vinnslunni færist sjávarútvegurinn af veiðimannastiginu yfir í iðnað, samkvæmt þessari úreltu kenningu.

Góð hagfræði segir, að þjóðhagslega sé hagkvæmast að ná sem mestum árangri með sem minnstri fyrirhöfn. Ef fiskurinn er verðmætastur, þegar hann hefur ekki iðnvæðst í húsum fiskiðnaðarins, heldur fer á svokölluðu veiðimannastigi beint í gáma, á að fara þannig að.

Þeir fara gróflega villir vegar, sem tala um, að með gámafiskinum séum við að afhenda öðrum þjóðum hráefni til iðnaðar og séum raunar að verðlauna aðrar þjóðir fyrir að hafa lægri tolla á hráefni, það er ferskfiski, heldur en á iðnvarningi, það er frystum fiski.

Fráleitt er að halda fram, að þjóðhagslega hagkvæmt sé að skylda útgerðar- og sjómenn til að selja aflann á lágu verði til fiskvinnslustöðva til að halda þeim gangandi. Slíka skyldu er aðeins hægt að ræða undir merkjum byggðastefnu eða félagslegra aðgerða.

Hin hagræna staðreynd er, að þjóðfélagið fær miklu meira, oft tvisvar til fjórum sinnum meira fyrir fiskinn, ef það sparar sér fyrirhöfnina við að setja hann í fiskvinnslu. Gæta getur þurft sérhagsmuna fiskvinnslu, en það gerist þá örugglega á kostnað almannahagsmuna.

Hitt er svo umdeilanlegt, hvort fiskiskipin sem slík séu réttir eigendur auðlindar sjávaraflans. Núverandi kvótakerfi gerir ráð fyrir því. Talsmaður fiskvinnslunnar vill láta skipta kvótanum á vinnslustöðvarnar í landi. Virðist það óneitanlega nokkuð langsótt.

Sennilega mun reynast erfitt að koma öðru formi á eignarhald auðlindarinnar. Núgildandi kerfi hefur ríkt í nokkur ár og fest í sessi, þótt það hafi margvíslega galla. Reynslan sýnir, að nánast útilokað er að ná því aftur af hagsmunaaðilum, sem þeir hafa fengið.

Ekki er trúleg sú kenning, að ráðamenn fiskvinnslu og sölusamtaka fiskvinnslunnar hafi bezta yfirsýn yfir markaðinn og séu hæfastir til að meta, hvernig eigi að standa að málum þessum. Sennilegra er, að bezt sé fyrir okkur að láta markaðinn sjálfan ráða.

Hér mun rísa stétt sérfræðinga, sem munu í stíl kauphallarbraskara spá, hvert sé bezt hverju sinni að senda hvern gám og með hvaða samgöngutæki. Slíkar ákvarðanir má taka í hverju fyrirtæki útgerðar og fiskvinnslu fyrir sig eða í sérhæfðum fiskverzlunarfyrirtækjum.

Í framtíðinni er líklegt, að fiskur, sem berst að landi, verði boðinn upp á markaði og seldur þeim, sem bezt býður, hvort sem kaupandinn er þjóðlegt fiskvinnsluhús á staðnum eða ekki. Frystihúsin eru sem láglaunastofnanir ekki alfa og ómega lífsins á Íslandi.

Við slíkar aðstæður þurfum við ekki að meta, hverjir séu stundarhagsmunir og hverjir varanlegir. Við þurfum ekki að spá, hvort framtíðin felist í heimsendum draslmat fyrir örbylgjuofn, eins og talsmaðurinn heldur, eða í ferskum fiski, óflökuðum, með hausi og sporði.

Við erum á þröskuldi byltingar í sjávarútvegi. Ræða forvígismanns frystiiðnaðarins megnar ekki að varðveita trú manna á verndun fiskvinnslunnar sem markmiðs í sjálfu sér. Ekkert verður eins og áður var.

Jónas Kristjánsson

DV

Skaðlegar námslánagrillur

Greinar

Tekizt hefur að telja fólki trú um, að námsmenn í háskóla séu gæludýr, sem taki unnvörpum ókeypis lán, ­ því hærri lán sem þeir sæki fínni skóla í útlöndum, ­ og greiði þau aðeins að litlu leyti til baka. Á þessum atriðum hefur menntamálaráðherra hossað sér í vetur.

Í fyrsta lagi er rangt, að námsfólk sæki gírugt í lánin. Komið hefur í ljós, að í Háskóla Íslands notar innan við helmingur námsmanna sér réttinn til námslána. Þetta bendir alls ekki til, að lánin séu svo hagstæð, að nauðsynlegt sé að gera þau torveldari.

Staðreyndin er hins vegar, að námsfólk er yfirleitt dauðhrætt við að nýta sér lánsmöguleika til fulls. Það sér fyrir sér skuldasúpu, sem vex ár eftir ár, meðan það er í námi. Það sér fram á að þurfa að eyða lífsbaráttunni í að endurgreiða þessi lán, meðan aðrir séu að byggja.

Í öðru lagi er rangt, að námslán séu að litlu leyti endurgreidd. Í skýrslu menntaráðherrans sjálfs kemur fram, að nýjustu tölur benda til, að endurgreiðsluhlutfallið sé 85%. Það þýðir, að lánakerfi námsfólks er að 85 hlutum lán og aðeins 15 hlutum styrkir.

Í rauninni má líta svo á, að endurgreiðsluhlutfallið sé of hátt. Ekki má gleyma, að kerfi þetta felur í sér nokkurn veginn einu styrkina, sem þjóðfélagið veitir til að gera ungu fólki kleift að stunda háskólanám. Og 15% er ekki hátt hlutfall, heldur lágt.

Á móti þessum 15% styrk kemur styrkur á móti. Margir námsmenn fara utan í erlenda háskóla og spara íslenzka ríkinu að halda uppi háskólakennslu fyrir sig. Með því að lána námsmönnum meira til að auðvelda þeim að læra í útlöndum er ríkið beinlínis að spara fé.

Þótt ekki sé tekið tillit til þessa gróða ríkisins, er 15% styrkurinn í núverandi mynd mun skynsamlegri en hugmyndir ráðherrans um styrki til hagkvæms náms. Það veit nefnilega enginn núna, hvaða nám verður hagkvæmt að hafa stundað að tíu árum liðnum.

Fyrir fimm árum var hlegið að þeim, sem fóru í líffræði. Nú þykir sú grein fela í sér mikla möguleika. Hver veit nema komi í ljós eftir tíu ár, að núna væri hagkvæmast að hefja nám í sögu og landafræði. Ráðherrann getur ekki spáð í þetta frekar en aðrir.

Líkja má þessu við útgerðarstjóra, sem fyrir tíu árum hefði þurft að spá, hvaða fiskiskip yrðu hagkvæmust um þessar mundir. Hann hefði tæpast talið það mundu verða frystitogarar, enda spáði hann því ekki. “Markvissar” spár af slíku tagi eru jafnan marklausar.

Miklu skynsamlegra er að vera ekki að gæla við rangar framtíðarspár, heldur nota styrkina eins og gert er í kerfinu núna. Miðað er við, að 85% námsins séu hagnýt og 15% ekki. Framtíðin fær svo sjálf að leiða í ljós, hvaða 15% námsins reynist ekki vera hagnýt.

Hugmyndir menntaráðherrans eru að flestu lakari en núgildandi kerfi og sumar beinlínis fyndnar eins og aðild samningsaðila vinnumarkaðsins að stjórn lána sjóðs námsmanna. Ef til vill er ráðherra þar þó eingöngu að reyna að koma illu af stað, skemmta skrattanum.

Eitt er nýtanlegt í tillögum ráðherrans. Það er afnám núgildandi refsinga fyrir sumarvinnu námsmanna. Í stað frádráttar lána vegna sumartekna ætti að koma almenn lækkun námslána úr 100% af svokallaðri umframfjárþörf í til dæmis 85% af heildarfjárþörf.

Innan ríkisstjórnarinnar er mikilvægt, að ráðherrar Framsóknarflokksins stöðvi grillur menntaráðherrans. Þær eru skaðlegar þjóðinni og hag hennar.

Jónas Kristjánsson

DV

Skoðist vel og varlega

Greinar

Stjórn Sovétríkjanna hefur undanfarna mánuði látið frá sér fara yfirlýsingar og ummæli, sem benda til, að hún hafi látið nokkuð undan síga í ýmsum atriðum, sem hafa staðið í vegi nýrra og bættra samninga austurs og vesturs um takmörkun vígbúnaðar.

Sovétstjórnin segist nú tilbúin að ræða um aukið eftirlit með því, að bann við kjarnorkuvopnatilraunum sé haldið. Hún segist til viðræðu um, að kjarnaoddarnir sjálfir séu taldir fremur en flaugarnar. Og hún telur mega halda brezkum og frönskum flaugum utan við.

Stjórn Bandaríkjanna hefur tekið fréttum þessum fremur fálega og bent á, að smáa letrið í tillögunum sé stórum óhagstæðara en sovézku yfirskriftirnar gefi í skyn. Jafnframt hefur Bandaríkjastjórn á ýmsum sviðum sýnt Sovétríkjunum meiri hörku en oftast áður.

Reagan Bandaríkjaforseti og ráðgjafar hans verða að gæta sín á þessu. Greinilegt er, að Gorbatsjov flokksformaður er mun betri áróðursmaður en fyrirrennarar hans voru og er lagnari en þeir við að koma þeirri firru inn hjá okkur, að hann sé friðarins maður.

Við verðum að taka vel í hugmyndir úr austri, þótt við trúum ekki einu orði. Austur og vestur verða að halda áfram að tala saman, þótt við göngum ekki með neinar grillur um, að Sovétríkin hafi látið af hinni markvissu útþenslustefnu, sem þau hafa jafnan rekið.

Við skulum ekki gleyma, að Sovétstjórnin hefur svikið allt, sem hún hefur undirritað, oftast áður en blekið var þornað. Hún sveik samningana frá Teheran, Jalta og Potsdam í lok heimsstyrjaldarinnar. Til dæmis eru frjálsar kosningar ekki leyfðar í Austur-Evrópu.

Eitt nýjasta dæmið um óvirðinguna, sem Sovétstjórnin sýnir gerðu samkomulagi, er Helsinki-sáttmálinn, þar sem einn kaflinn af þremur fjallar um mannréttindi. Og frá upphafi hefur stofnskrá og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna verið dauður bókstafur.

Þeir, sem telja gott, að Sovétríkin undirriti fagrar viljayfirlýsingar, ættu að lesa stofnskrá og mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna. Þar lofa Sovétríkin meiru en þau hafa nokkru sinni síðan lofað í öðrum samningum. Þar lofa þau eilífum friði og mannúð.

Sovétríkin hafa áratugum saman stefnt að því að verða Evrasía, sem nái milli úthafanna, Atlantshafs, Kyrrahafs og Indlandshafs. Þeim hefur orðið vel ágengt, en minna þó á síðustu árum, eftir að Vesturlandabúar fóru að átta sig á markmiðum Sovétríkjanna.

Hitt er svo alltaf hugsanlegt, að Sovétstjórnin sjái villu síns vegar. Ekki er útilokað, að hún átti sig á, að heimsyfirráðastefna hennar hafi leitt út á yztu nöf og lengra verði ekki komizt. Hún gæti skilið, að kjarnorkujafnvægið hefur breytzt í kjarnorkuhættu.

Þegar ofbeldistæknin er orðin slík, að menn hafa ekki nema tíu mínútna svigrúm til að bregðast við árás mótherjans, árás þriðja aðila eða ímyndaðri árás, er ljóst, að heimurinn rambar í mikilli hættu. Við slíkar aðstæður verða menn að gefast upp á heimsvaldastefnu.

Ekki þarf einu sinni árás mótherja, heldur bilun í tölvubúnaði til að koma öllu í gang. Sömu áhrif getur haft ofbeldishneigður þriðji aðili, sem hefur komizt yfir árásarvopn og vill koma illu af stað. Atburðarásin verður svo hröð, að menn hafa ekki lengur tök á henni.

Hugsanlegt er, þótt ótrúlegt sé, að Sovétstjórnin hafi þegar áttað sig á þessu. Þess vegna þarf að taka nýjum tillögum hennar vel og varfærnislega í senn.

Jónas Kristjánsson

DV

Fimm sambandsslit

Greinar

Ákvörðun utanríkisráðherra ríkja Efnahagsbandalagsins um að fækka í sendiráðum sínum í Líbýu og líbýskum sendiráðsmönnum í Vestur-Evrópu stefnir í rétta átt, en gengur ekki nógu langt. Réttast væri að leggja alveg niður stjórnmála- og viðskiptasambandið.

Auðvitað dugir ekki að berjast gegn hryðjuverkum, meðan vestrænir bankar fjármagna Líbýu á erfiðum tímum lágs olíuverðs, bandarísk fyrirtæki framleiða líbýsku olíuna og evrópsk fyrirtæki kaupa hana. Við slíkar aðstæður felst engin lexía í loftárásaræfingu.

Raunar ættu vestræn ríki að sameinast um afnám stjórnmála- og viðskiptasambands við stjórnir, sem valda mestum vandræðum á alþjóðavettvangi. Einnig ættu vestræn mannréttindaríki að sameinast um sömu aðgerðir gegn ríkisstjórnum verstu mannréttindabrota.

Atlantshafsbandalagið er kjörinn vettvangur sameinaðra aðgerða í stjórnmálum og viðskiptum gegn stjórnum, sem halda uppi hryðjuverkum í útlöndum. Á svipaðan hátt gætu Norðurlandaráðsríkin safnað um sig fylgi til slíkra aðgerða gegn mannréttindabrotum.

Eins og ástandið er í heiminum um þessar mundir, þýðir lítið að beita aðgerðum gegn öllum brotlegum ríkisstjórnum. Nauðsynlegt er að velja fáar ríkisstjórnir, úr ýmsum áttum og af ýmsum tegundum, svo að þær eigi erfiðara um vik að sameinast um gagnaðgerðir.

Hér skalt bent á fimm ríkisstjórnir, sem skara fram úr í ógeðfelldu og siðlausu atferli heima fyrir og erlendis. Stjórn hins mikilláta Kaddafis í Líbýu kemst ekki á þá skrá, því að hinar eru verri. Það eru stjórnirnar í Íran, Sýrlandi, Chile, Eþíópíu og Indónesíu.

Íranstjórn liggur í augum uppi. Hún stendur undir hvers kyns glæpum hryðjuverkamanna úti um heim. Enn verri eru þó glæpir Khomeinis erkiklerks gegn borgurum eigin lands. Á vegum hans eru rekin ein villimannlegustu og illræmdustu fangelsi jarðarinnar.

Stjórn Assads er einnig í fremstu röð, einkum í skipulagningu hryðjuverka í öðrum löndum. Bæði Assad og Khomeini eru á því sviði stórvirkari en Kaddafi í Líbýu. Auk þess hefur Assad nokkrum sinnum stundað fjöldamorð á íbúum sumra borga í eigin landi.

Stjórn Pinochets í Chile er sérlega mikilvæg á þessum lista, af því að Bandaríkin báru upprunalega ábyrgð á henni. Enn meira máli skiptir, að vestræn slit stjórnmála- og viðskiptasambands við Pinochet yrðu aðvörun til annarra valdaþyrstra herforingja þar í álfu.

Herforingjar hafa á undanförnum árum misst völdin í hverju ríki Rómönsku Ameríku á fætur öðru, eftir ljótan feril ógnar og óstjórnar. Það gæti dregið úr valdafíkn þeirra, ef þeir vissu, að byltingarstjórnir þeirra yrðu hvergi viðurkenndar í hinum siðaðri hluta heims.

Eþíópíustjórn er sjálfkjörin í þennan fimm stjórna hóp. Mengistu hefur framleitt í landinu heimsins verstu hungursneyð á síðustu árum, þvælist þar á ofan fyrir hjálparstarfi og rekur ýmist hernað eða miskunnarlausar brottflutningsofsóknir gegn borgurum landsins.

Síðasta stjórnin er stjórn Suhartos í Indónesíu. Sá herforingi er langsamlega mikilvirkasti fjöldamorðingi, sem nú er á lífi, og þar á ofan næstmesti þjófur heims á eftir Marcosi, sem réð Filippseyjum til skamms tíma. Hann hefur of lengi mergsogið fjölmenna þjóð sína.

Hér er lagt til, að Vesturlönd, þar á meðal Ísland, slíti viðskipta- og stjórnmálasambandi við þessar fimm ríkisstjórnir og falli frá viðurkenningu á þeim.

Jónas Kristjánsson

DV

Einangrun og ágreiningur

Greinar

Viðbrögðin við árás Bandaríkjanna á Líbýu hafa leitt í ljós djúpan ágreining milli Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu. Bandarískir ráðamenn, fjölmiðlar og skoðanakannanir styðja árásina, en evrópskir ráðamenn, fjölmiðlar og skoðanakannanir eru henni andvígir.

Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessum og öðrum ágreiningi Vesturlanda, sem hefur aukizt síðan Reagan tók við stjórnartaumunum í Washington. Ágreiningurinn er þó báðum að kenna og báðir verða að leggja að sér við að reyna að hafa hemil á honum.

Athyglisvert er, að hryðjuverk hafa aðallega verið framin í Vestur-Evrópu og Miðjarðarhafslöndunum, að þau hafa mest verið rakin til annarra hryðjuverkamanna en Kaddafis og að þau hafa komið meira niður á Evrópumönnum en á Bandaríkjamönnum.

Samt voru viðbrögð Bandaríkjastjórnar miklu harðari en stjórna vesturevrópskra ríkja og beindust eingöngu að Kaddafi, en ekki að Assad í Sýrlandi, sem er þó mun hættulegri. Þetta áttu Evrópumenn erfitt með að skilja og neituðu Bandaríkjunum um stuðning í Líbýumálinu.

Bandaríkjamenn líta aftur á móti á Vestur-Evrópumenn sem lélega bandamenn, er ekki sé hægt að treysta. Þeim sárnar sérstaklega, að komið hefur í ljós, að um tíma gilti leynisamningur milli Frakka og hryðjuverkastjórna um, að Frakkland hefði af þeim sérfrið.

Evrópumenn hafa þungar áhyggjur af, að Reagan hafnar hverju tilboði Gorbatsjovs Sovétleiðtoga um takmörkun vígbúnaðar, til dæmis betra tilboði en áður um eftirlit. Þeir vilja kanna þessi tilboð nánar, en Bandaríkjamenn vara þá við að láta blekkjast.

Ágreiningsefnin eru mörg og hafa tilhneigingu til að hlaða utan á sig. Um leið vill hið jákvæða gleymast. Spánverjar kusu að vera áfram í Atlantshafsbandalaginu, Danir að vera áfram í Efnahagsbandalaginu og Hollendingar að taka við eldflaugunum.

Samt er í Bandaríkjunum vaxandi trú á, að Vestur-Evrópa eigi að sigla sinn sjó. Hún vilji ekki takast á herðar skyldur vegna bandalags Vesturlanda. Því sé réttmætt að kveðja bandaríska hermenn frá álfunni og beina varnarmættinum að ameríska virkinu sjálfu.

Bandaríkjamenn hafa verið að flytjast suður og vestur. Reagan kemur frá Kaliforníu, þar sem menn horfa út á Kyrrahafið, en ekki Atlantshafið. Vestur-Evrópa er ekki eins þungvæg í heimsmynd Bandaríkjamanna og hún var fyrir svo sem aðeins aldarfjórðungi.

Bandaríkjamenn hafa löngum verið fremur einangraðir og átt erfitt með að skilja aðrar þjóðir. Ekki bætir úr skák þeirra, að útlendingar geta yfirleitt talað ensku og spara Ameríkönum að læra önnur mál. Sá sparnaður hefur reynzt og mun áfram verða Bandaríkjunum dýr.

Til þess að skilja fólk, verður að læra mál þess, tala við það og fylgjast með fjölmiðlum þess. Þeir, sem einskorða sig við enska tungu, fá skekkta og ófullkomna mynd af stöðu mála. Bandaríkjamenn vissu til dæmis ekkert, hvað var að gerast í Íran, þegar keisarinn féll.

Þótt kenna megi Vestur-Evrópu margt, sem aflaga hefur farið í samskiptum Vesturlanda, má rekja aukningu vandamálsins á síðustu árum einkum til þess, að í Hvíta húsinu situr hugsjónamaður, sem hefur tilhneigingu til að horfa á heiminn í svörtu og hvítu.

Hagsmunir Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu eru þó svo samtvinnaðir, að í rauninni er þar ekkert rúm fyrir einangrunarstefnu eða einstefnu, ef vel á að fara.

Jónas Kristjánsson

DV

Markaðurinn ræður

Greinar

Kominn er tími fyrir okkur að átta okkur á hinni margtuggnu staðreynd, að markaðurinn úti í heimi ræður velgengni okkar og velferð. Við getum ekki ákveðið, hvaða vara eða hvaða meðferð vöru henti útlendingum. Við verðum að laga okkur að aðstæðum.

Í hálfa öld höfum við trúað, að frystur fiskur væri framtíðin. Það hefur lengst af verið rétt. En skyndilega hefur þetta breytzt. Allt í einu er það ísfiskurinn, sem ætlar að taka við hlutverki freðfisksins sem hornsteinn íslenzkrar velmegunar og velsældar.

Við fáum að vísu þær fréttir frá hefðbundnum markaði okkar í Bandaríkjunum, að sumar hinar frystu fiskafurðir okkar séu að hækka í verði og að við framleiðum ekki eins mikið magn og viðskiptavinir okkar vilja kaupa. Þetta eru góðar fréttir út af fyrir sig.

Þær blikna hins vegar gersamlega í samanburði við fréttirnar af ferskfiskmarkaðnum. Gámamaður í Vestmannaeyjum sagðist í viðtali við DV fá fjórfalt verð fyrir kola og tvöfalt verð fyrir þorsk og ýsu, þegar hann væri búinn að draga frá allan aukakostnað.

Að sjálfsögðu er ekki auðvelt að átta sig á, að vinna í frystihúsum sé ekki fiskvinnsla, sem auki verðmæti vörunnar og standi undir hinu lága kaupi, sem þar er greitt. Að sjálfsögðu er erfitt að átta sig á, að frystingin sé í raun ekkert annað en dýr geymsluaðferð.

Orðið fiskvinnsla felur í sér þá bábilju, að verið sé að vinna einhver verðmæti úr aflanum. Í raun og veru er þar verið að verja aflann skemmdum, svo að hægt sé að selja hann neytendum, sem sætta sig við að borða freðfisk sem eins konar draslmat eða sjónvarpsrétti.

Þegar hægt er að selja kola fjórföldu verði, þorsk og ýsu tvöföldu verði, er botninn dottinn úr frystingunni. Vinnan, sem þar er unnin, er skyndilega orðin verðlaus. Lága kaupið þar er ekki aðeins orðið of hátt, heldur ættu menn raunar að borga með sér.

Frystingin gengur enn, af því að verksmiðjurnar í Bandaríkjunum grátbiðja um freðfisk til að verja markaðinn og af því að frystihúsin eru í mörgum tilvikum í sömu eigu og bátarnir. En enginn mannlegur máttur getur komið í veg fyrir, að þessi gamla gullnáma hrynji.

Skyndilega hefur komið í ljós, að heimurinn er fullur af húsmæðrum, sem eru eins og hinar íslenzku, er ekki vilja kaupa bragðlausan fisk. Hann er líka fullur af húsmæðrum, sem vilja sjá, hvernig augun líta út og tálknin, svo að þær geti sjálfar metið fiskgæðin.

Í þeim heimi þarf ekki frystihús, sem eru dýr í byggingu, viðhaldi, rekstri og mannakaupi. Í þeim heimi þarf ekki einu sinni Ríkismat sjávarafurða til að eyða opinberu fé í atvinnubótavinnu. Í þeim heimi koma kaupendur, skoða fiskinn og segjast borga hátt verð.

Við erum rétt byrjuð að lykta af þessum markaði, helzt í Bretlandi. Við höfum til viðbótar óljósar hugmyndir um, að til séu þjóðir eins og Frakkar og Japanir, sem telji ferskan fisk með haus og sporði einhvern bezta mat, sem til sé, verðmætari en nautasteik.

Það er ævintýri líkast að koma á fiskmarkaðinn í Rungis við Orly-flugvöll í París að næturlagi, þegar fiskbílarnir koma frá Le Havre og fiskflugvélarnar frá Tahiti. Það er eins og í kössunum sé gull eða platinum. Kaupendurnir lenda nánast í ryskingum.

Ef kaupendur af því tagi ákveða að borga okkur morð fjár fyrir svokallaðan óunninn fisk, það er ísfisk, hljótum við að hlýða kalli tímans, ­ kalli markaðsins.

Jónas Kristjánsson

DV