Greinar

Freistað til getnaðar

Greinar

Samkvæmt nýrri rannsókn í Bretlandi kostar 20 milljónir króna að koma barni til manns, frá fæðingu til háskólagráðu. Er þá allt talið, kostnaður foreldra, opinberra aðila og hugsanleg námslán barnanna. Þetta er gríðarlega mikið fé og væri raunar mikið fé, þótt krónutalan væri miklu lægri.

Opinberir aðilar taka mikinn þátt í þessum kostnaði. Skólar eru að mestu ókeypis eftir að leikskóla lýkur og allt upp að háskólum, sem eru verulega niðurgreiddir. Heilsugæzla er að mestu ókeypis á þessum aldri, þar með taldar tannlækningar. Einnig fá foreldrar ýmis fríðindi í sköttum og tryggingum.

Þrátt fyrir alla þessa aðstoð lendir gífurlegur kostnaður á foreldrum, einkum í húsnæði og uppihaldi, sem nú orðið felur í sér áður óþekkt atriði á borð við græjur og tölvur. Og á þessum ríkustu tímum sögunnar eru opinberir aðilar í auknum mæli að ýta skólagjöldum yfir á herðar barna og foreldra.

Fróðlegt væri að rannsaka, hversu mikill kostnaður fellur á foreldra af hverju barni. Með tilvísun til niðurstöðu brezku rannsóknarinnar skiptir hann örugglega mörgum milljónum á hvert barn hér á landi. Óhætt er að fullyrða, að það er enginn barnaleikur að eiga börn, þrátt fyrir velferðina.

Eigi að síður er fólk reiðubúið til að eignast börn, að minnsta kosti upp að vissu marki. Með því er fólk auðvitað að eignast verðmæti, sem ekki verða talin í krónum, evrum eða pundum. Gleði foreldra er slík af börnum, sem vaxa úr grasi, að hagfræði eða peningafræði verða léttvæg á metum.

Um leið er þetta stórpólitískt mál, sem beinlínis varðar öryggi ríkisins. Spurning Stóra bróður er sú, hvort nógu mörg börn fæðist til að líklegt megi telja, að framtíð ríkisins sé trygg. Margar þjóðir Evrópu eru komnar í þá stöðu, að fæðingar megna ekki að halda uppi íbúafjölda.

Til skamms tíma reyndu vestræn ríki í misjöfnum mæli að brúa bilið með því að flytja inn fólk. Það er auknum annmörkum háð, því að ríkisvaldið hefur ekki gætt þess að afla hljómgrunns meðal kjósenda fyrir slíkum innflutningi. Þess vegna er víða verið að setja skorður við innflutningi fólks.

Velferðarkerfi Vesturlanda byggist á þeirri forsendu, að alltaf séu nýir hópar að koma til starfa, sem leysi af hólmi hina, sem fara á ellilaun. Ef þetta kerfi bilar, verður Stóri bróðir að finna leiðir til að fá fólk til að eiga fleiri börn. Hann verður hreinlega að bjóða betri kjör.

Ef Íslendingar fara í auknum mæli að tregðast við að eignast börn, liggur beinast við, að opinberir aðilar neyðist til að bjóða ókeypis leikskóla til að freista fólk til getnaðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sértæk haturslög

Greinar

Forsætisráðherra hefur ekkert á móti samþjöppun og einokun í fjölmiðlun. Hann vill bara ákveða sjálfur, hver hafi. Fyrir tveimur árum leit út fyrir, að Morgunblað flokksins yrði eina dagblaðið í landinu og ríkissjónvarp flokksins yrði eina sjónvarpsfréttastofan í landinu. Þá var hann ánægður.

Síðan gerðist það, að kaupsýslumaður, sem hefur lengi farið í taugar forsætisráðherrans, bjargaði lífi tveggja dagblaða og er að vinna að því að bjarga einni sjónvarpsfréttastofu. Þetta hefur magnað fræga heift ráðherrans, sem nú er að láta þjóna sína á þingi setja lög til höfuðs sjónvarpsstöðinni.

Forsætisráðherra, nokkrir aðrir ráðherrar og þingmenn veifa fjölmiðlum í ræðustól og segja efnislega, að gagnrýni þeirra á forsætisráðherra og dómsmálaráðherra og grín þeirra um sömu ráðherra sýni, að setja þurfi lög um fjölmiðla. Þeir telja, að fjölmiðlar eigi hvorki að gagnrýna né grínast.

Um leið eru þessir ræðumenn að segja, að lögin séu sértæk. Þeir telja þau vera nauðsynleg, af því að fjölmiðlar Norðurljósa séu hortugir. Sama viðhorf hefur raunar komið fram hjá formanni nefndar, sem skipuð var til að leita uppi rök fyrir lagafrumvarpi gegn fyrirtækinu Norðurljósum.

Mistekist hafa tilraunir þessara aðila og málgagna þeirra til að halda fram, að lagafrumvarpið sé samið að erlendri fyrirmynd. Þar gilda allt önnur og vægari lög og hvergi gilda afturvirk lög. Evrópusambandið mælir með allt öðrum aðferðum til varnar gegn hugsanlegri samþjöppun fjölmiðla.

Enginn efast um, að fjölmiðlavald getur þjappazt saman og að miður kræsilegir eigendur geta komið til skjalanna. Rupert Murdoch hefur einkum verið nefndur. Þessi vandi hefur til dæmis verið á borði Evrópusambandsins og Evrópuráðsins. Þar hefur engum dottið í hug neitt, sem líkist frumvarpinu hér.

Erlendis horfa menn mest á gegnsæi fjölmiðla, fremur en boð og bönn. Alveg eins og alvörumenn í útlöndum vilja gegnsæ fjármál stjórnmála vilja þeir gegnsæ fjármál fjölmiðla. Það þýðir, að vitað sé um eignarhald fjölmiðla, auglýstar og skýrar reglur gildi um samskipti fjármagns og ritstjórna.

Það er dæmigert fyrir áhugaleysi forsætisráðherrans á raunverulegum aðgerðum gegn samþjöppun valds, að hann hefur hvorki ljáð máls á lögum um gegnsæi fjölmiðla né lögum um gegnsæi stjórnmála, enda hefur flokkur hans lengi haft yfirburða aðgang að fjármagni, sem ekki segir til nafns.

Alþingi er í þann mund að setja lög með afbrigðilegum hraða til að þjónusta sértækt hatur forsætisráðherra, sem hefur verið svo lengi við völd, að hann telur sig guðdómlegan.

Jónas Kristjánsson

DV

Umbinn segir stopp

Greinar

Umboðsmaður Alþingis hefur staðfest, að dómsmálaráðherra fór ekki að lögum, þegar hann skipaði frænda flokksforingjans sem dómara í Hæstarétt. Hann braut ekki bara jafnréttislög, heldur líka stjórnsýslulög. Umboðsmaðurinn hefur hins vegar ekki vald til að breyta rangindum ráðherrans, sem standa.

Umboðsmaðurinn vekur athygli á, að hvergi í ferli málsins var þess getið, að sérstaklega væri þörf fyrir dómara, sem hefði skrifað eina ritgerð um Evrópurétt. Það var ekki fyrr en ráðherra fór að leita að útskýringum á því, hvers vegna hann hafnaði mörgum hæfari mönnum til að velja frændann.

Hæstiréttur þarf auðvitað ekki dómara, sem hefur skrifað eina ritgerð um Evrópurétt, heldur fjölhæfa dómara með víðtæka fræðiþekkingu og víðtæka reynslu að baki. Hægt er að kalla til dómara að utan, ef þörf er á þekkingu upp úr ritgerð, sem engin veit, að hafi búið yfir neinu markverðu.

Umboðsmaðurinn beinir því til Alþingis að framvegis verði þar búið svo um lagahnúta, að ósvífnir flokksjaxlar á borð við núverandi dómsmálaráðherra geti ekki níðst á Hæstarétti og eytt trausti manna á honum með fáránlegum skipunum í krafti þess, að allt vald á Íslandi kemur frá ráðherrum.

Engu máli skiptir, hversu langar þrætubækur verða birtar í greinum ráðherrans og leiðurum Morgunblaðsins þessa daga. Ekki verður hægt að skrifa sig frá því, að umboðsmaður Alþingis telur brýnt, að Alþingi setji lög, sem komi í veg fyrir, að embættisfærsla af tagi ráðherrans endurtaki sig.

Að sjálfsögðu er þetta eindreginn áfellisdómur yfir gömlum flokksjaxli, sem ítrekað hefur sýnt, að hann tekur hagsmuni flokks og formanns fram yfir þjóðarhagsmuni. Það er engin vörn í málinu að segja, að gömul hefð sé fyrir því, að ráðherrar fari eftir geðþótta fremur en lögum og reglum.

Hæstiréttur hefur átt í erfiðleikum um margra ára skeið, af því að hann er ekki nógu vel skipaður. Það stafar einmitt af því, að forverar ráðherrans hafa ekki skipað bezta fólkið, þótt nú fyrst hafi kastað tólfunum. Hæstiréttur þarf ekki fleiri gæludýr flokka og formanna, heldur hæfasta fólkið.

Niðurlæging Hæstaréttar hefur verið slík, að hvað eftir annað hafa dómar hans orðið afturreka, þegar menn hafa kært þá til æðri dómsvalda úti í Evrópu. Niðurlæging dómstólsins er um leið niðurlæging ríkis og þjóðar. Þess vegna er brýnt, að þar leysi hæfir menn af hólmi gæludýr flokka og formanna.

Við þurfum að losna út úr hinum forna heimi einveldistímans, sem setur óþægilega mikinn svip á störf dómsmálaráðherrans. Við þurfum að stinga við fótum, þegar umbinn segir stopp.

Jónas Kristjánsson

DV

Einbeittur brotavilji

Greinar

Verktakinn Impregilo hefur í heilt ár verið vikulega í fréttum vegna einstakrar tregðu við að fara eftir lögum og reglum á Íslandi. Fyrirtækið hefur farið undan í flæmingi og látið seint og illa af brotum á lögum og reglum. Á málfari dómstóla er þetta viðhorf kallað einbeittur brotavilji.

Fyrst var fyrirtækið stutt opinberum eftirlitsstofnunum, sem vörðu það í hástert, einkum vinnueftirlitið, en einnig heilbrigðiseftirlitið, sveitastjórnir og skattayfirvöld. Það var ekki fyrr en eftir langvinnan þrýsting verkalýðsfélaga, að opinberar stofnanir milduðu smám saman hlutdrægni sína.

Síðan vinnueftirlitið sneri við blaðinu hefur það margsinnis þurft að fylgja fyrirmælum sínum eftir og hóta lokun. Þetta gerðist þó of seint til að hindra dauðaslys í gljúfrunum, sem stafaði af lélegu öryggiseftirliti og gölluðu áhættumati. Hvorugt er komið í lag, þrátt fyrir hótanir.

Heilbrigðiseftirlitið hefur hundskazt til að stíga skrefinu framar. Það missti þolinmæðina og skellti 70.000 króna dagsektum á Impregilo út af mötuneytinu. Þá fyrst tók verktakinn við sér og fór að sinna kröfum eftirlitsins. Þetta hefði átt að vera lærdómsríkt öðrum opinberum aðilum.

Sveitarstjórnir fyrir austan voru lengi með glýju í augum, en eru um síðir farnar að óttast um útsvarstekjur af starfsmönnum, sem koma og fara, án þess að menn fái rönd við reist. Það kom þeim í opna skjöldu, að Impregilo skyldi nota starfsmannaleigur, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar sínar.

Mál verktakans er á borði ríkisskattstjóra, sem er þögull sem gröfin. Hann á þó í miklum erfiðleikum, því að honum verður um kennt, ef hluti af skatttekjum ríkisins fer forgörðum vegna sinnuleysis embættis, sem fylgist ekki með fréttum, er hafa lengi verið umræðuefni þjóðarinnar.

Sárastur er brotaviljinn fyrir verkalýðsfélögin, sem á sínum tíma lögðu lóð sitt á vogarskál hrikalegrar aðfarar stjórnvalda og Landsvirkjunar að ósnortnum víðernum hálendisins. En raunar er við hæfi, að afleiðing ódæðisins skuli vera aðför að réttindum skjólstæðinga félaganna.

Impregilo hefur alizt upp í hörðum skóla þriðja heimsins, þar sem mútur og spilling koma í stað laga og réttar. Þar sem hefðbundnir verktakar á vestrænum markaði vildu forðast stimpil umhverfisglæpa og hættu við að bjóða í verkið, sat Landsvirkjun uppi með fyrirtæki einbeitts brotavilja.

Liðið er ár síðan Impregilo hóf verkið. Enn sitja menn með sveittan skallann við að reyna að fá fyrirtækið til að trúa, að Ísland sé ekki í þriðja heiminum. En er það svo?

Jónas Kristjánsson

DV

Sauðirnir skila sér

Greinar

Sauðir flokksins munu margir skila sér heim að húsum, þótt þeir hafi hlaupið á fjöll í áföllum, sem nýjustu athafnir forsætis- og dómsmálaráðherranna hafa valdið flokknum. Ríkisstjórnin hefur tapað orrustum, en stríðinu er hvergi nærri lokið. Glatað fylgi skilar sér yfirleitt um síðir.

Stöðu flokksformanns annars vegar og kjósenda hins vegar í Sjálfstæðisflokknum hefur frá ómunatíð verið stjórnað af óskrifuðu samkomulagi um, að formaðurinn standi og falli með því að skaffa. Hann er ráðinn til að hugsa og framkvæma. Hann er fjárhirðirinn og vísar slóðina, sem sauðirnir rölta.

Það er að vísu sérkennileg staða Sjálfstæðisflokksins að vera málsvari eftirlitsþjóðfélags og ríkisrekstrar gegn frjálsu framtaki markaðshagkerfisins. Ungliðahreyfingar og hugmyndafræðingar flokksins eiga að vonum bágt með að fóta sig á stöðu flokksins sem Stóra bróður ríkisbáknsins.

Þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur lengi stjórnað ráðuneyti menntamála, hefur hann haft tækifæri til að pakka atvinnulausum og óvinnufærum flokksjálkum í valdastöður ríkissjónvarpsins. Flokkurinn hefur lent í þeirri ógæfu að hafa hagsmuni af viðgangi ríkisrekinnar myndbandaleigu.

Ekki megum við heldur gleyma, að yfirstétt flokksins er að mestu skipuð lögfræðingum, sem hafa alið aldur sinn á framfæri hins opinbera og eru lítt kunnugir einkarekstri. Meint dálæti flokksins á markaðshagkerfinu hefur lengi verið meira í nösum hugmyndafræðinga en í raunveruleikanum.

Verið getur, að kjósendur hafi loksins áttað sig á, að Sjálfstæðisflokkurinn siglir undir fölsku flaggi frjáls markaðshagkerfis og að skapþungur formaður flokksins hefur stýrt þjóðarskútunni á boða einræðis, valdbeitingar og geðþótta og þó fyrst og fremst á sker haturs og hefnigirni.

Í tvígang á skömmum tíma hefur ríkisstjórnin látið semja sértæk lagafrumvörp, sem beinast gegn einu fyrirtæki, fyrst Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis og síðan Norðurljósum. Slík lög eru illa séð úti í hinum siðmenntaða heimi og þykja vera dæmi um geðþótta og valdbeitingu í bananalýðveldum.

Hugsanlegt er, að formaður flokksins geti pakkað svo vel vinum og vandamönnum í Hæstarétt, að hann hindri framgang réttlætis þar á bæ. Formaðurinn er hins vegar gersamlega valdalaus úti í Evrópu, þar sem æðsta dómstig landsins er núna vistað. Til allrar hamingju fyrir íbúa bananalandsins.

Dapurt fylgi stjórnarinnar í nýrri könnun getur bent til, að augu fólks séu að opnast. Hætt er þó við, að upphlaupið sé tímabundið og smám saman muni sauðir skila sér heim.

Jónas Kristjánsson

DV

Ástarjátning

Greinar

Einu sinni týndi ég gemsanum í Rauðhólum. Fékk lánaðan annan, reið alla leiðina aftur og hringdi stöðugt í týnda tólið. Viti menn, veikt tíst barst úr moldarbarði. Ég fór af baki, tók varlega upp dýrgripinn, þurrkaði af honum moldina og stakk honum í brjóstvasann, glaður og reifur í hjarta.

Þetta rifjaðist upp í gær, þegar ég gleymdi símanum heima og var alveg bjargarlaus fram eftir morgni. Sambandið við umheiminn fór meira eða minna úr skorðum og komst ekki í samt lag aftur fyrr en mörgum klukkustundum eftir að ég hafði gert mér ferð til að sækja símann og minnið í honum.

Gemsinn er eitt mikilvægasta galdratæki nútímans. Hann gerir okkur kleift að vinna mál margfalt hraðar en áður tíðkaðist. Svo slökkvum við bara á honum og látum skilaboðaskjóðuna taka við, þegar við þurfum að einbeita okkur. Ég held, að nútímarekstur standi og falli með þessu litla hjálpartæki.

Ágæt saga um mikilvægi gemsans birtist fyrir nokkrum árum í Mogganum, þegar íslenzk kona, sem þá bjó á Ítalíu, skýrði frá athugunum sínum á mikilvægi símans fyrir ítölsku stórfjölskylduna, sem var í þann veginn að sundrast, af því að börnin voru úti um allar trissur að sigra heiminn.

Þá kom gemsinn. Mamman situr við símann heima í móðurgarði í Perugia og fær fréttir frá Antonio um, að hann sé að stíga úr lestinni í Milano. Hún flytur þær síðan til Mario, sem er að fara á fund í Torino, sem fréttist síðan til Alessöndru, sem er að fara í flug til Palermo og tekur bíl á vellinum.

Gemsinn hefur sameinað ítölsku stórfjölskylduna á nýjan leik. Hér hefur hann eflt fjölskyldubönd ekki síður en viðskiptabönd. Hann er orðinn svo samofinn öllum þáttum í samskiptum fólks, að þjóðfélagið færi úr límingunum, ef allir gemsar landsins yrðu skyndilega sambandslausir.

Gemsinn man eftir öllum númerum, sem við þurfum á að halda og minnir á tímasetningar. Hann er ritari, sem tekur við upplýsingum, þegar við erum upptekin, og kemur þeim til skila. Suma þeirra má tengja öðru galdratæki, tölvunni, sem er annar hornsteinn hagkerfis og þjóðfélags nútímans.

Auðvitað tekur tíma að læra á gemsann. Rétt eins og maðurinn í jarðarförinni, sem svaraði kallinu og hvíslaði í símann: “Ég get ekki talað við þig núna, af því að ég er að bera kistuna út.” Sumir hafa raunar enn ekki lært að umgangast síma yfirleitt og svara alltaf kalli, þótt kúnnarnir bíði.

Gemsinn er hvorki góður né vondur. Hann er bara tæki, sem við getum lært að nýta í lífi og starfi. Líklega er þó of langt gengið hjá mér að umgangast gemsann eins og ástvin.

Jónas Kristjánsson

DV

Fenrisúlfur

Greinar

Ekkert ástand er varanlegt, allra sízt í markaðshagkerfi. Einn góðan veðurdag kemur einhver í sjávarplássið þitt og kaupir sjávarútveginn. Hann lofar upp á æru og trú að flytja skipin ekki burt. Svo flytur hann þau til Akureyrar, af því að hann hefur ekki æru og trú. Þannig virkar hagkerfið.

Markaðshagkerfið getur einn daginn stuðlað að fjölbreytni í fjölmiðlun og hinn daginn eyðilagt hana. Það er nánast tilviljun, að þremur mikilvægum fjölmiðlum hér á landi var bjargað frá hruni á skömmum tíma. Það er nánast tilviljun, að fullburða fréttastofur eru hér sex en ekki þrjár.

Myrkrahöfðingi vestrænnar fjölmiðlunar, sjálfur Rupert Murdoch, getur á morgun keypt flesta íslenzka fjölmiðla og breytt þeim í lygamaskínur. Ekkert er öruggt í heimi markaðshagkerfisins, ekki einu sinni sú óvenjulega góða staða, sem er á íslenzkri fjölmiðlun einmitt þessa dagana.

Sumir styðja markaðshagkerfið, af því að það skaffar. Aðrir eru á móti því, af því að þeir óttast allar breytingar á núverandi ástandi, hvert sem það er á hverjum tíma. Fyrra sjónarmiðið ræður því, að um nokkurt skeið hefur staðið yfir umfangsmikil sala ríkiseigna í hendur hlutafélaga á markaði.

Samt er tvískinnungur í pólitískum armi þessa hagkerfis. Annars vegar er því haldið fram, að til langs tíma leiti það að beztu niðurstöðu og finni nýjar leiðir til að snúast gegn vandamálum, sem upp koma, rétt eins og sjálft lýðræðið geri. Þeir tala um innbyggða sjálfvirkni markaðshagkerfisins.

Hins vegar eru menn dauðhræddir við einstakar afleiðingar þess, einkum samþjöppun valds. Menn líta öðrum þræði á það sem Fenrisúlf. Um fjölmiðlun setja þeir á laggir trausta nefnd flokksjálka til að gera tillögur um læðing og dróma. Síðan vilja þeir sértæk lög gegn afleiðingu hagkerfisins.

Raunar byggist allt þetta ferli á óslökkvandi heift eins haturgjarns manns í garð annars. Heiftin næði hins vegar ekki fram að ganga, ef ekki væri innan stjórnarflokkanna eyra fyrir því sjónarmiði sósíalista, að markaðshagkerfið sé eins konar Fenrisúlfur, sem reyra þurfi í ríkisviðjar.

Sósíalistar til hægri og vinstri og einkum á miðjunni líta ekki á þá staðreynd, að ástand frétta og fjölmiðlunar er betra á landinu um þessar mundir en það hefur verið í manna minnum. Þeir líta bara á færi til að koma böndum á anga af óstýrilátum og oft tillitslausum öflum markaðshagkerfisins.

Fólk man, að lofað var, að Guggan yrði áfram gul og að það var svikið. Markaðshagkerfið nýtur ekki almenns trausts. Því verða til ógagns sett sértæk lög um læðing og dróma á eignarhald fjölmiðla.

Jónas Kristjánsson

DV

Endurkoma Krists

Greinar

Kristur er sagður koma aftur, þegar þrennt hefur gerzt: Í fyrsta lagi hefur Ísrael orðið til sem ríki. Í öðru lagi hefur það hertekið lönd Biblíunnar, Miðausturlönd. Í þriðja lagi hefur þriðja musterið verið reist á Musterishæðinni í Jerúsalem, þar sem nú standa helztu moskur Palestínumanna.

Sjötti hver Bandaríkjamaður trúir þessari kenningu og þriðji hver kjósandi flokks repúblikana, þar á meðal John Ashcroft dómsmálaráðherra og Tom DeLay þingflokksformaður. Í augum þessa fólks eru atburðirnir í Palestínu og Írak vegvísar að næsta heimssstríði og endanlegum sigri kristinnar trúar.

Í krafti þessara kenninga tveggja spámanna á nítjándu öld styðja margar ofsatrúarkirkjur ofbeldi Bandaríkjanna og Ísraels, reyna markvisst að koma af stað heimsstyrjöld og sjá And-krist í mönnum á borð við Jaiver Solana hjá Evrópusambandinu og Kofi Annan hjá Sameinuðu þjóðunum.

Við skiljum ekki svona firringu hér á landi og skiljum ekki heldur, hversu alvarlegar afleiðingar hún getur haft í heimsmálunum. Þriðjungur repúblikana trúir botnlausu rugli og mikið af hinum, þar á meðal forsetinn, styður aðrar ofsatrúarkirkjur, sem ganga ekki eins langt og þessar.

Við höldum, að stórborgir austur- og vesturstrandarinnar séu Bandaríkin, en þær eru það ekki. Völdin í landinu hafa færzt inn í landið, þar sem menn dá George W. Bush, ganga um með byssur, halda að Írak hafi staðið fyrir árásum á Bandaríkin og stunda samkomur ofsatrúarsafnaða á hverjum sunnudegi.

Engu máli skiptir, þótt út komi reglulega bækur innherja, er lýsa undarlegum forseta, sem les ekki einnar blaðsíðu greinargerðir embættismanna, tekur ekki mark á staðreyndum, sér allt í svart-hvítum myndum og er algerlega háður ráðgjöfum, sem koma úr svart-hvítum heimi ofsatrúarmanna.

Þótt allar uppljóstranir innherja og allar fréttir af gangi mála í heiminum hafi verið neikvæðar forsetanum undanfarnar vikur, er engan bilbug að finna á kjósendum hans. Hann hefur sem fyrr 45% fylgi á móti 45% fylgi demókratans John Kerry. Þessi hlutföll hafa haldizt í föstum skorðum vikum saman.

Hér á landi og víðast hvar í Evrópu utan Bretlands eru ofsatrúarmenn taldir vera sérvitringar, sem ekki séu nothæfir til stjórnmála. Ofsatrúarmenn á jaðri geðveikinnar eru hins vegar ekki aðeins viðurkenndir stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, heldur sitja beinlínis við stjórnvölinn.

Vandamál Íslands er hið sama og vandamál alls mannkyns um þessar mundir, hvernig eigi að haga seglum eftir vindum, er blása frá heimsveldi, sem rambar um eins og dauðadrukkið sé.

Jónas Kristjánsson

DV

Frændi Íslandskóngs

Greinar

Nýi hæstaréttardómarinn hlaut að vita, hvað hann var að gera, þegar hann sótti um starfið. Hann var ekki að drepa tímann á Selfossi eins og hver annar leiksoppur örlaganna. Þeir, sem hafa minna fram að færa en aðrir umsækjendur, reikna yfirleitt með stuðningi úr annarri átt, pólitíkinni.

Í umræðunni um misbeitingu ráðherravalds við val á dómara í Hæstarétt hefur verið einblínt á framtak ráðherrans, sem var ekki að skara eld að eigin köku. Minna er talað um þann, sem sótti um starfið, þótt hann vissi, að ýmsir mundu sækja um og vera með langtum rismeiri æviferil á umsóknareyðublaðinu.

Í síðustu viku varð seðlabankastjóri Þýzkalands að segja af sér í skömm, af því að fréttablaðið Spiegel upplýsti fyrst, að hann hefði gist fjórar nætur á Adlon í Berlín á kostnað Dresdner Bank, og síðan, að hann hefði dvalið eina nótt á lystisnekkju í Monaco í boði Bayerische Motoren Werke.

Þetta minnir á íslenzka bankastjórann, sem raunar er enn við völd. Hann þáði löngum boð um laxveiði í löngum bunum. Hann var að þjóna eiginhagsmunum eins og seðlabankastjórinn þýzki og nýi hæstaréttardómarinn. Dómsmálaráðherrann var hins vegar að stunda aðra tegund spillingar, fyrirgreiðslu.

Pólitíkin á Íslandi er ekki mjög spillt að því leyti, að valdamenn skari eld að eigin köku. Hún hefur hins vegar lengi verið gerspillt í fyrirgreiðslum handa vinum og vandamönnum og pólitískum gæludýrum. Björn Bjarnason er bara gamall flokksjaxl að þjónusta frænda Íslandskóngs.

Flestir ráðherrar stunda slíkar fyrirgreiðslur. Sérstaða dómsmálaráðherrans er tvenns konar. Í fyrsta lagi er hann stórkarlalegri en flestir aðrir og lætur sig ekki muna um að niðurlægja Hæstarétt. Í öðru lagi þreytist hann ekki á að flytja sannfærða langhunda um réttmæti ákvörðunar sinnar.

Þar að auki hefur ráðherrann gerzt helzti málsvari þess, að leggja beri niður nýlega sett lög, sem takmarka geðþótta ráðherra. Hann er Björn síns tíma, nánar tiltekið upphafs nítjándu aldar, þegar Friðrik VI, einvaldskonungur af Guðs náð yfir Íslandi og Danmörku, upplýsti: “Vi alene vide”.

Það lýsir forneskju ráðherrans vel, að hann telur Sigurð Líndal prófessor ekki eiga að amast við fyrirgreiðslum ráðherrans, af því að hann sé sjálfur fyrirgreiðsluþegi. Virðist ráðherrann telja, að menn, sem tekið hafi að sér verk á vegum ráðherrans, skuli vera ævilangir þjónar hans.

Sérkennileg sjónarmið ráðherrans hafa vakið mikla og verðskuldaða athygli. Því er hætta á, að það gleymist, að mörgum Íslendingum finnst í lagi að reyna að misnota fyrirgreiðslukerfið. Þar á meðal nýjum hæstaréttardómara.

Jónas Kristjánsson

DV

Vegakortið rifið

Greinar

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur rifið vegakort friðar í Miðausturlöndum með því að fallast í öllum atriðum á tillögur Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, um lausn Palestínumálsins. Aðeins fáar afskekktar byggðir ísraelskra landnema í Palestínu verða rifnar, en þorrinn verður áfram.

Eins og venjulega hundsar ríkisstjórn Bandaríkjanna alla aðila, sem komu að hinu margumrædda vegakorti, sem átti að fela í sér friðarsamning málsaðila og afturhvarf herja Ísraels til landamæranna frá 1967. Hún hundsar Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, fyrir utan Palestínumenn.

Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, lýsti umsvifalaust stuðningi við þann úrskurð Bush, að farið skuli einhliða að öllum tillögum Sharon. Í þessu máli sem öðrum standa saman þrír trúarofstækismenn, sem telja sig hafa umboð sitt frá Guði fremur en kjósendum og eru í krossferð gegn Íslam.

Samkvæmt úrskurði þremenninganna fá Palestínumenn Gaza-svæðið til baka, enda hefur komið í ljós, að ísraelskir kjósendur og landnemar kæra sig ekki um það. Vesturbakki Jórdans, sem er meginhluti Palestínu, verður áfram meira eða minna undir stjórn Ísraels, sem er að reisa þar mikla múra.

Þetta gerir illt verra í alþjóðamálum. Hafi sumir múslimar hingað til efast um, að Bush og Blair séu í krossferð gegn þeim, þá efast þeir ekki lengur. Baráttusveitir múslima munu eflast, einkum hinar róttækari, sem stunda sjálfsmorðsárásir og önnur hryðjuverk gegn kristnum mönnum á Vesturlöndum.

Ofsatrúarmennirnir þrír hafa sett ráðamenn Evrópuríkja í stóran vanda. Margir eru vanir að taka mikið tillit til vilja Bandaríkjanna sem heimsveldis, þótt þar sé á hæstu stöðum komið til skjalanna trúarofstæki, sem jaðrar við geðbilun. Meðal annars eru íslenzkir landsfeður í klípu.

Mál þetta sýnir, hve varhugavert er að sækjast eftir sæti í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Ef Ísland eignast fulltrúa þar, lendir hann í því að þurfa að þjónusta Bandaríkin með því að greiða atkvæði gegn hagsmunum íslams. Sæti í ráðinu mun auglýsa undirgefni Íslands gagnvart Bandaríkjunum.

Miklir tímar ófriðar og hryðjuverka eru fyrirsjáanlegir, ef Bush verður endurkjörinn forseti næsta vetur. Fall hans er eina von mannkyns um betri friðartíð á næstu árum. Það mun einangra hina ofsatrúarmennina, Blair og Sharon, og gera þá tiltölulega áhrifalitla sértrúarmenn í alþjóðamálum.

Meðan þessi ósköp ganga yfir er ekki ástæða fyrir Ísland að taka sér stöðu, sem verður skilin sem aðild að krossferðum þriggja truflaðra trúarofstækismanna, Bush, Blair og Sharon.

Jónas Kristjánsson

DV

Hræddir og trylltir

Greinar

Bandaríkjamönnum hefur tekizt að sameina Íraka gegn sér, enda er ástandið í landinu orðið verra en það var á dögum Saddam Hussein. Stríðsglæpasveitir bandaríska hersins hafa drepið meira en 10.000 óbreytta borgara, að meirihluta konur og börn. Jafnframt hafa þær svívirt helgidóma múslima.

Það hlýtur að valda mörgum Íslendingum áhyggjum, að landsfeður okkar skuli ekki játa eins og ýmsir aðrir landsfeður, að þeir hafi á fölskum forsendum verið ginntir til stuðnings við stríðið. Þeir eru því enn aðilar að stríðsglæpunum í Írak og ataðir blóði saklausra borgara.

Sjítar eru meirihlutaþjóð Íraks. Þeir voru andstæðingar Saddam Hussein og eru núna andstæðingar George W. Bush. Þeir hafa öldum saman hatað súnníta, sem Hussein studdist við. Nú hefur landstjórn og herstjórn Bandaríkjamanna gengið svo fram af sjítum, að þeir gefa blóð til að bjarga súnnítum.

Lýsingar af framgöngu Bandaríkjamanna gegn óbreyttum borgurum eru smám saman farnar að síast inn í vestræna fjölmiðla. Þær gefa ófagra mynd af hræddum og trylltum morðingjum í einkennisbúningi, sem sjá óvini í hverju fleti, ryðjast inn í íbúðarhús og drepa allt kvikt, sem þeir sjá.

Þessar aðferðir dugðu ekki í Víetnam og þær munu ekki duga í Írak. Þær eru dæmigerðar fyrir hernámslið, sem hefur misst tökin á stöðunni og veit ekki sitt rjúkandi ráð. Það hefur gefizt upp við að reyna að vinna hug og hjörtu fólks með að byggja upp innviði landsins eftir eyðileggingu stríðsins.

Fólk verður ekki frelsað með því að drepa ástvini þess. Fólk verður ekki fengið til að snúast til fylgis við vestrænt lýðræði með því að svívirða gróna siði þess og venjur. Fólki verður ekki snúið til fylgis við málstað með neinum þeim aðferðum, sem bandaríski herinn hefur í vopnabúri sínu.

Fyrir innrás var Írak ekki lengur hættulegt nágrönnum sínum, hvað þá Vesturlöndum. Eftir eins árs hernám er landið orðið að gróðrarstíu ofsatrúar og haturs, uppsprettu hryðjuverka framtíðarinnar á Vesturlöndum. Öll er sú ógæfa að kenna krossferð trúarofstækismanna í stjórn Bandaríkjanna.

Trúarofstækismenn hafa tekið völdin í heiminum, kristnir, gyðinglegir og íslamskir. George W. Bush og Tony Blair eru af þessum toga eins og Ariel Sharon og Moktada-al-Sadr. Ef Bush heldur velli í næstu kosningum, mun þetta skelfilega ofstæki halda áfram að valta yfir okkur af auknum þunga.

Við verðum að spyrja aftur og aftur þeirrar spurningar, hvort við eigum að halda áfram að styðja ragnarök ofstækis eða leggja lóð okkar á vogarskál almenns trúarbragðafriðar.

Jónas Kristjánsson

DV

Lyfjasparnaður

Greinar

Betra er að spara í sjúkrakerfinu með því að taka ódýrar eftirlíkingar, svonefnd samheitalyf, fram yfir dýr sérlyf heldur en að auka hlutdeild sjúklinga í lyfjakostnaði. Báðar aðferðir fela í sér undanhald velferðarkerfisins, en síðari leiðin niðurgreiðir beinlínis stéttaskiptingu þjóðarinnar.

Öll lyf hafa aukaverkanir, einnig það pólitíska lyf að efla kostnaðarvitund sjúklinga með því að láta þá borga hluta af lyfjakostnaði. Það leiðir til skiptingar þjóðfélagsins í tvær þjóðir. Annars vegar hafa sumir ekki efni á að borga sinn hluta. Hinir betur stæðu fá hins vegar niðurgreidd lyf.

Ríkisendurskoðun telur, að spara megi hundruð milljóna og jafnvel milljarða á að taka ódýru samheitalyfin fram yfir dýru sérlyfin. Ef ríkið vill, getur það ýtt notkuninni yfir til samheitalyfja með því að borga að mestu fyrir þau, en aðeins fyrir þau sérlyf, sem talin eru sérstaklega brýn.

Tillaga ríkisendurskoðunar gengur raunar skemur en þetta. Hún vill, að ríkið greiði fyrir sérlyf upp að því marki sem hliðstætt samheitalyf mundi kosta. Kostnaðarhlutdeild hins opinbera sé miðuð við lægsta lyfjaverð í nálægum löndum og gerðar séu ráðstafanir til að ná því verði hér á landi.

Ekki er hægt að taka mark á fullyrðingum lyfjafyrirtækja og lækna um gagnsemi lyfja. Erlend læknatímarit og fjölmiðlar hafa upplýst fjölmörg dæmi um, að fréttir af gagnsemi lyfja byggjast á fölsuðum rannsóknum og að mikill fjöldi lækna og fræðimanna er á beinum og óbeinum mútum hjá lyfjarisunum.

Þeim hefur tekizt að sjúkdómavæða vesturlönd. Til dæmis hefur tekizt að selja þá hugmynd, að fólk eigi að vera hamingjusamt í sífellu og þurfi að taka geðbreytilyf, ef ytri aðstæður valda því þunglyndi eða sorg, svefntruflunum eða kvíða, sem allt er eðlilegt og óhjákvæmilegt ástand.

Hagkvæmt er að nota þá meginreglu, að ódýr samheitalyf séu í flestum tilvikum ágætar eftirlíkingar af dýru sérlyfjunum. Ríkið eða heilbrigðisráðuneytið eða tryggingastofnunin eða landspítalinn geta boðið út samheitalyf og dregið verulega úr miklum mun lyfjakostnaðar Íslands og nágrannalandanna.

Ríkisendurskoðun segir, að við notum lyf fyrir 14 milljarða króna á ári, en þyrftum ekki að borga nema 10 milljarða, ef farið væri að ráðum hennar um samheitalyf og ýmislegt annað, svo sem hagræðingu í dreifingu og sölu lyfja. Þetta eru engir smáaurar í biluðu velferðarkerfi, sem berst í bökkum.

Svo að bilað sjúkrakerfi bresti ekki, þurfa ráðamenn að beita öllum tiltækum ráðum til að verjast innri verðbólgu þess og ná fram sparnaði. Lyfin eru þar skýrasta verkefnið.

Jónas Kristjánsson

DV

Við erum ekki á verði

Greinar

Við verðum að skilja eðli hryðjuverka til að geta varizt þeim. Brýnt er að átta sig á, að þau eru ekki bundin við átakasvæði. Þeim getur lostið niður hvar sem er. Við megum heldur ekki gleyma hættunni af að vera aðilar að krossferð trúarofstækis Bandaríkjanna gegn áhangendum Íslams.

Flestir skilja, að hryðjuverk geta blómstrað án aðildar óvinaríkja. Bandaríkin voru illa undir 11. september búin, af því að ríkisstjórnin var með ríkið Írak á heilanum, en ekki hreyfinguna Al Kaída. Eftir hryðjuverkið héldu Bushítar áfram að leita að rótum þess í herráði Saddam Hussein.

Einnig ber að forðast að skilja Al Kaída á sama hátt og okkur hættir til að skilja það, sem við köllum Mafíu. Í báðum tilvikum sjá menn fyrir sér miðstýrð samtök um skipulagða glæpi. Réttara er að líta á fyrirbærin sem svipaða hugmynda- og aðferðafræði laustengdra glæpaflokka.

Ekki er til nein ein mafía, heldur margar mafíur, sem sumar hafa með sér meira eða minna tímabundið samkomulag um skiptingu svæða og verkefna, en eiga ekki sjaldnar í erjum innbyrðis um þessa skiptingu. Þar af leiðandi hefur ekki verið hægt að sigra mafíur með því að fella mafíukónga.

Al Kaída er ekki heldur félagsskapur, sem lýtur einum húsbónda, Osama bin Laden, og herforingja hans, Ajman Al-Sjavari. Hópur þeirra telur aðeins nokkur hundruð manns. Hins vegar hafa tugþúsundir ungra manna gengið í skóla, sem meira eða minna byggjast á hugmyndum frá Osama bin Laden.

Þessar þúsundir skólagenginna hryðjuverkamanna leika lausum hala víða um heim og þjálfa nýja fylgismenn. Krossferðin gegn múslimum hefur magnað hatur þeirra á vestrinu, einkum Bandaríkjunum, og leitt til flóðs ungra manna í námskeið í hryðjuverkum, sem talin eru eina vopnið gegn hernaðarmætti.

Róm féll ekki fyrir öðru heimsveldi, heldur fyrir meira eða minna ótengdum hópum barbara, villimanna, sem höfðu meira úthald en heimsveldið. Í nútímanum hafa slíkir hópar barizt áratugum saman, Kínakommar, Víetnamar, Sandínistar, Afganar, Palestínumenn, Tsjetsjenar. Sumir þeirra hafa náð árangri.

Aðferðafræði hryðjuverkamanna er orðin háþróuð og byggist á sambandsleysi milli hópa, svo að þræðirnir milli þeirra verði ekki raktir. Hóparnir eru tifandi tímasprengjur hver í sínu horni. Osama bin Laden veit ekki sjálfur, hvar höggið ríður næst á Vesturlöndum. Hann deyr, en aðferðin lifir.

Við þessar aðstæður er út í hött að treysta á heimsóknir bandarískra flugsveita og lambhúshettulið ráðherra dómsmála. Hvort tveggja jafngildir því, að við erum alls ekki á verði.

Jónas Kristjánsson

DV

Tóbakið svælt út

Greinar

Írar hafa fyrstir þjóða í Evrópu bannað reykingar á vinnustöðum og veitingastöðum. Þeir fylgja þar fordæmi New York og Kaliforníu, þar sem slíkar reykingar hafa verið bannaðar í nokkur ár. Búizt er við, að Norðmenn fylgi í kjölfar Íra um mitt árið og síðar gervallt Evrópusambandið.

Góð er reynslan af banninu vestan hafs. Ekki rættust illar spár um minnkaða aðsókn að vínveitingastöðum og kaffihúsum. Opinberar tekjur af greininni hafa hækkað og skráðum starfsmönnum hefur fjölgað. Í Kaliforníu hafa tekjur hins opinbera hækkað úr 25 milljörðum í 37 milljarða dollara.

Þar sem hrakspár eigenda veitingastaða í New York og Kaliforníu hafa ekki rætzt, má reikna með, að ekki verði tekið mark á hrakspám írskra kráareigenda. Andstæðingar tóbaks eru komnir í mikla sókn og hrekja vágestinn úr einu víginu í annað. Siðbótin ryðst fyrr eða síðar til Íslands.

Staðreyndin er nefnilega sú, að mikill meirihluti þeirra, sem vilja sækja veitingastaði, kæra sig ekki um, að þar sé reykt. Þess vegna eru viðskiptamenn þessara staða færri en ella, einkum kaffihúsa, sem sum hver eru slík reykhús, að venjulegt fólk hættir sér alls ekki þar inn fyrir dyr.

Mannfallið talar sínu máli um skaðsemi tóbaks. Yfirvöld heilbrigðismála í Bandaríkjanna telja, að nikótín sé annar af tveimur stóru eiturkóngum nútímans. Þar deyja 435.000 manns árlega af völdum tóbaks og 400.000 af völdum ofáts. Aðeins 85.000 deyja af áfengi og 17.000 af eiturlyfjum.

Nikótín og sykur eru því hvort um sig fimm sinnum skaðlegri heilsu þjóða en alkóhólið í áfengi, sem aftur á móti er fimm sinnum skaðlegra heilsu þjóða en ólögleg eiturlyf. Fáir hafa gert sér grein fyrir þessum skýru stærðarhlutföllum, sem valda harðari sókn heilbrigðisstofnana gegn tóbaki og ofáti.

Háar sektir eru við brotum gegn nýjum tóbakslögum Írlands. Sektir fyrir að reykja á vinnustöðum og veitingastöðum geta numið rúmlega 250.000 krónum. Það er því ljóst, að ekki er neinn barnaleikur að andæfa gegn banninu. Upphæðin segir til um, hversu alvarlegum augum er farið að líta á tóbakið.

Þótt lífeyrissjóðir og ellilaunakerfi ríkisins hagnist á ótímabærum dauða reykingamanna, tapar ríkið verulegum fjármunum á móti, af því að þeir deyja margir hverjir á afar kostnaðarsaman hátt á sjúkrahúsum, sem eru rándýr í rekstri. Reikningdæmi velferðar er því í heild óhagstætt tóbakinu.

Því má fara að hlakka til, að tóbaksstríðið berist til Íslands. Þá verður loks þorandi að kíkja inn á kaffihúsin, sem mörg eru sögð hafa ágætis kaffi, sem drepur fáa.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólitískt trúarofstæki

Greinar

Þeir höfðu engan áhuga á Osama bin Laden og Al Kaída, en voru helteknir af Saddam Hussein og Írak. Þeir stefndu að árás á gamlan skjólstæðing í Bagdað. Þeir vildu ekki sinna neinum gagnrökum og þess vegna komu árásirnar á World Trade Center og Pentagon eins og þruma úr heiðskíru lofti.

Þetta voru George W. Bush Bandaríkjaforseti og Donald Rumsfeld stríðsráðherra, Condoleezza Rice öryggisstjóri og Paul Wolfowitz hugmyndafræðingur. Þetta er gengið, sem hefur snúið heimsmálunum á annan endann og gert Bandaríkin að mestu ógnun nútímans við öryggi og frið á Vesturlöndum.

Öryggisráðgjafi fjögurra forseta, þar á meðal tveggja, sem heita Bush, hefur kastað sprengju á Hvíta húsið með bók um viðhorf Bushíta til öryggismála. Bók Richard Clarke og umræðan um hana hefur varpað skýru ljósi á dómgreindarskort og ofsatrú hópsins, sem hann vann fyrir í Hvíta húsinu.

Það var sannfæring gengisins, að hryðjuverk væru sprottin af óvinveittum stjórnvöldum. Gengið áttaði sig ekki á, að tækni og fjarskipti nútímans gera hryðjuverkamönnum kleift að valda miklum skaða án aðstoðar ríkisstjórna. Árásin á World Trade Center og Pentagon var dæmi um ríkislaust hryðjuverk.

Rumsfeld trúði ekki í fyrstu, að Al Kaída stæði að baki hryðjuverksins. Enda hafði Wolfowitz sagzt vera orðinn þreyttur “á stöðugu tali um þennan eina mann, bin Laden”. Þegar sannleikurinn kom í ljós, hamraði Rumsfeld á því, að einhvers staðar hlyti Saddam Hussein að vera að tjaldabaki.

Síðan hefur komið í ljós, að ekkert var hæft í forsendum stríðsins gegn Írak. Þar voru engin gereyðingarvopn og þar var engin uppspretta hryðjuverka á Vesturlöndum. Saddam Hussein var ekki einu sinni hættulegur nágrannaríkjunum, þótt hann reyndi að sýnast öflugri en hann var í raun.

Fleiri sérfræðingar hafa tjáð sig. David Kay, yfirmaður vopnaleitar bandaríska hernámsliðsins í Írak, fullyrðir, að engin gereyðingarvopn hafi verið í Írak. Von er á bók sendiherrans Joseph Wilson, þar sem hann sýnir fram á, að gengið í Hvíta húsinu hafi litið framhjá sönnunargögnum.

Ofstækismenn Hvíta hússins trúa bara því, sem þeir vilja trúa og taka ekkert mark á staðreyndum. Þeir ganga fram af offorsi trúarofstækis og hirða ekki um, þótt verk þeirra gangi fram af fólki um allan heim. Gengið lék sér að því að láta drepa 10.000 óbreytta og saklausa borgara í Írak.

Verði framhald á dvöl hins róttæka og dómgreindarskerta stríðsglæpagengis í Hvíta húsinu á næsta kjörtímabili, mun það leiða ógn og skelfingu yfir mannkynið.

Jónas Kristjánsson

DV