Greinar

Leystur úr sjóða-læðingi

Greinar

Ákveðið hefur verið að leysa sjávarútveginn úr læðingi millifærslusjóðanna, sem lengi hafa hrjáð hann. Ríkisstjórnin hefur samþykkt að leggja fyrir Alþingi lagafrumvarp um þetta, samið af fulltrúum hagsmuna aðila, stjórnmálaflokka og sjávarútvegsráðuneytis.

Því miður er frumvarpið seint á ferð, þegar fáir starfsdagar eru eftir á Alþingi. Samt ætti að vera unnt að láta það ná fram að ganga, því að málið er lítt umdeilt. Gildistaka þess mundi marka tímamót í framfarasögu mikilvægustu atvinnugreinar landsins.

Sjóðakerfi sjávarútvegsins var orðið að skrímsli, sem nú liggur á höggstokknum. Fiskvinnslan var látin greiða alls kyns upphæðir framhjá fiskverði og hlutaskiptum í sérstaka sjóði, sem greiddu fé til útgerðar án samræmis við framlag hennar til verðmætasköpunar.

Sjóðirnir, sem ráðgert er að leggja niður, eru Aflatryggingasjóður, Tryggingasjóður fiskiskipa og Úreldingarsjóður fiskiskipa. Þar með verður afnumin mismununin, sem sjóðirnir framleiddu með millifærslum, svo og gífurleg pappírsvinna.

Samkvæmt frumvarpinu á fiskverðið, sem um er samið á hverjum tíma, að vera hið raunverulega verð, er fiskurinn kostar. Af fiskverðinu er dreginn frá ákveðinn hundraðshluti, sem rennur óskiptur til útgerðar til greiðslu fjármagnskostnaðar og ýmissa iðgjalda.

Í flestum tilvikum standa eftir til skipta 70% af heildarverðmæti hins landaða afla, en heldur lægra hlutfall í flestum tilvikum, þegar landað er í útlendum höfnum, 64% í ísfiski og 60% í kassafiski, svo að dæmi séu nefnd. Útreikningur á að verða sáraeinfaldur.

Sjóðakerfinu verður ekki endanlega útrýmt með lagafrumvarpi þessu. Eftir stendur Verðjöfnunarsjóður, sem ekki hefur megnað að gegna hinu upphaflega hlutverki að jafna sveiflur í afla og verðmæti einstakra tegunda sjávarafla. Æskilegt væri að leggja einnig hann niður.

Að vísu er skynsemi fólgin í sjóði, sem fleytir peningum ofan af feitu árunum til endurgreiðslu í mögru árunum. En reynslan sýndi, að sjóðurinn hafði ekki þessi áhrif og freistaði þar á ofan ráðamanna að færa fé milli deilda hans eftir því hvernig staða þeirra var.

Afnám millifærslusjóða af öllu þessu tagi hreinsar andrúmsloftið. Það auðveldar mat aðila á, hvernig þeir standa. Það ýtir athöfnum þeirra frá minna arðbærum sviðum til hinna, sem arðbærari eru. Það einfaldar reikninga og afnemur arðlausa skriffinnsku.

Sjóðakerfið er í höfuðdráttum meira en áratugar gamalt. Því var komið á fót á tímum, er ráðamenn höfðu mikla trú á, að leysa mætti margvíslegan vanda með tilfærslum og skipulagi að ofan. Þessi stjórnsemi hefur nú fengið þann dóm, sem hún á skilið.

Frumvarpið um afnám sjóðakerfisins er gott dæmi um ný viðhorf, sem fela í sér viðurkenningu á, að miðstýring leiðir jafnan til annarrar niðurstöðu en stefnt var að, og að einfalt og opið kerfi án millifærsla er líklegra til að ná hinum eftirsótta árangri.

Alþingi er í miklu tímahraki um þessar mundir, úr því að stefnt er að þingslitum 23. apríl. Því verður ekki auðvelt að knýja fram þetta markverða framfaramál, ef einhver fyrirstaða verður á þingi. Vonandi veitir þingheimur málinu ljúfa og hraða afgreiðslu.

Frumvarpið um afnám þriggja sjóða sjávarútvegsins er eitt mikilvægasta málið, sem er til meðferðar á því löggjafarþingi, sem lýkur í næstu viku.

Jónas Kristjánsson

DV

Samkeppni er brýn

Greinar

Ekkert er við það að athuga, að Flugleiðir hafa selt hæstbjóðanda hlutabréf sín í Arnarflugi. Öllum sjálfstæðum einkafyrirtækjum ber að haga rekstri sínum með sem mestum eigin fjárhagslegum árangri, þótt óskir stjórnvalda kunni að hníga í aðra átt.

Um leið eru Flugleiðir raunar að lýsa yfir, að þær séu sjálfstætt einkafyrirtæki, sem muni framvegis ekki leita á náðir stjórnvalda með beiðnir um ýmsa fyrirgreiðslu, svo sem ríkisábyrgð, afskrift lendingargjalda og beina styrki. Er það afar ánægjuleg yfirlýsing.

Ekkert er heldur við að athuga óánægju samgönguráðherra með þessa niðurstöðu Flugleiða. Hann telur sig réttilega þurfa að gæta hagsmuna flugfarþega, sem eðli málsins vegna eiga að hagnast á, að samkeppni sé milli tveggja flugfélaga í flugi til annarra landa.

Samgönguráðherra var réttilega ánægður með, að hópur athafnamanna var reiðubúinn að spýta 60 milljón króna nýju fé í Arnarflug, að vissum skilyrðum fullnægðum. Hann sá þá fram á, að slík blóðgjöf væri líkleg til að tryggja framhald á heilbrigðri samkeppni.

Nú er það mál úr sögunni, að sinni að minnsta kosti. En kominn er til skjalanna nýr bjargvættur Arnarflugs. Samkeppnissinnar mæna nú á Helga Þór Jónsson, eiganda heilsuhótels, sem er í smíðum í Hveragerði. Nú kemur í hans hlut að útvega Arnarflugi nýtt fé.

Vafalaust er hinn nýi hlutafjáreigandi stöndugur vel, þar sem hann hafði ekki mikið fyrir að reiða fyrirvaralaust fram þrjár milljónir til handa Flugleiðum fyrir hlutaféð í Arnarflugi. Það lofar góðu um, að hann geti spýtt að minnsta kosti 60 milljónum í Arnarflug.

Þjóðina skiptir engu máli, hver eða hverjir koma Arnarflugi til bjargar. Hver, sem það gerir, mun hafa af því mikinn sóma. Útilokað er fyrir eyþjóð úti í miðju Atlantshafi að hafa eingöngu eitt flugfélag í ferðum milli landa, jafnvel þótt það sé hið bezta félag.

Engin gagnrýni á Flugleiðir eða óvild í þeirra garð felst í að halda fram þeim sannindum, að neytendum kemur samkeppni betur en einokun. Það er lögmál, sem gildir á öllum sviðum og löng reynsla er af hvarvetna í heiminum. Þetta má kalla hreint náttúrulögmál.

Að vísu getur samkeppni, en afar sjaldan, gengið út í öfgar. Hún gerði það, þegar Flugleiðir og Arnarflug bitust um flug í Alsír á dögunum, í stað þess að snúa bökum saman í samkeppni við erlend flugfélög. Hvorugt félagið hafði sóma af þeim bræðravígum.

Samkeppnisaðilar eiga að geta snúið bökum saman, þegar það er báðum til heilla og þjóðfélaginu um leið. Dagblöðin, sem eru í harðvítugri samkeppni, hafa samt vit á margvíslegu samstarfi, einkum í tæknilegum efnum. Flugfélögin eiga að læra af mörgum slíkum aðilum.

Flugleiðir hafa nú réttilega selt hlut sinn í Arnarflugi, svo að greinileg skil eru nú komin milli þessara tveggja ágætu samkeppnisfélaga. Nú reynir á Helga Þór Jónsson að fullnægja skyldunni, sem hann hefur tekizt á hendur, ­ að sjá um, að samkeppnin blífi.

Með sæmilegri bjartsýni má ætla, að neytendur muni hér eftir sem hingað til njóta hagsbótanna af samkeppni í millilandaflugi. Raunar er einnig ástæða til að vona, að unnt verði að auka þessa samkeppni á fleiri flugleiðum en nú er. Þá fengi mál þetta farsælan endi.

Ríkisstjórnin mun nú, með samgönguráðherra í broddi fylkingar, leggja áherzlu á að stuðla að þessu mjög svo brýna hagsmunamáli þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Sómasamleg húsnæðislán

Greinar

Ríkisstjórnin hefur í höfuðdráttum samþykkt uppkast að frumvarpi um húsnæðislán, sem aðilar vinnumarkaðsins sömdu í tengslum við stóru kjarasamningana í vetur. Þetta er gott frumvarp, sem Alþingi þarf að samþykkja áður en það fer í sumarfrí.

Síðast, þegar vitað var, hafði ríkisstjórnin ekki samþykkt 3,5% raunvextina, sem uppkastið gerir ráð fyrir. Rökstyðja má, að þeir ættu að vera hærri, einkum þar sem ríkið þarf að taka hluta fjármagnsins að láni hjá lífeyrissjóðum og öðrum aðilum á 9% raunvöxtum.

Hins vegar er æskilegt, að litið sé á þennan vaxtamun sem niðurgreiðslu hins opinbera á kostnaði fólks við að eignast íbúð. Ríkið telji svo mikilvægt að gera fólki kleift að eignast þak yfir höfuðið, að það leggi fram vaxtamuninn sem eins konar herkostnað.

Auðvitað verður að athuga, að niðurgreiðslunni rignir ekki úr heiðskíru lofti. Hún mun kosta mikið fé, sem ekki nýtist til annarra sameiginlegra þarfa þjóðarinnar. Menn verða að ákveða, að húsnæðismálin séu svo mikilvæg, að þau beri að taka fram yfir aðrar þarfir.

Til þess að spara tíma og tryggja framgang þessa stórmerka frumvarps áður en Alþingi fer í sumarfrí, er skynsamlegt, að 3,5% raunvextir verði samþykktir, úr því að þeir eru í uppkastinu. Síðar má breyta lögunum, ef menn telja aðra raunvexti heppilegri.

Frumvarpið gerir ráð fyrir, að hámarkslán til nýrra íbúða verði tvöfalt hærri en áður og þrefalt hærri en áður til notaðra íbúða. Fólk á að fá 2,1 milljón hjá Byggingasjóði ríkisins til nýrrar íbúðar og 1,47 milljónir til notaðrar íbúðar.

Þetta er umtalsverð aukning lána, þótt útlánageta lífeyrissjóða muni minnka á móti. Þeir neyðast samkvæmt frumvarpinu til að lána Byggingasjóði 55% af ráðstöfunarfé sínu til þess að sjóðfélagarnir fái hámarkslán. Eitthvað eiga þeir þó að geta lánað að auki.

Með einhverjum beinum lánum frá lífeyrissjóðum á samanlögð lánsfjárhæð að fara langt í að mæta um 80% af byggingakostnaði, svo sem lengi hefur verið stefnt að, en hingað til án árangurs. Þar með minnkar þörf fólks á dýrum skammtímalánum, til dæmis í bönkum.

Ekki er síður mikilvægt, að samkvæmt frumvarpinu næst loksins markmiðið, að íbúðalán séu veitt til 40 ára í stað 31 og 21 árs. Það stuðlar að lækkun greiðslubyrðar á fyrstu árunum um meira en helming. Hún verður 73.500 krónur á ári af hámarksláni.

Veitt verða hámarkslán út á íbúðir, sem ekki eru stærri en 170 fermetrar. Síðan lækka lánin um 2% á fermetra, niður í engin lán út á 230 fermetra. Þetta er tilraun til að fá fólk til að byggja hóflegar íbúðir í stað félagsheimilanna, sem tíðkast hafa undanfarin ár.

Frumvarpið gerir réttilega minni greinarmun en áður á lánum til nýrra og notaðra íbúða. Upphæð síðari lánanna verður 70% af hinum. Æskilegt væri að breyta lögunum á næsta þingi til að minnka þennan mun enn frekar. Þjóðin þarf nefnilega að nýta gömlu húsin betur.

En auðvitað tekur þingmenn tíma að átta sig á, að það er ekki fyrst og fremst nýtt íbúðarhúsnæði, sem þjóðin þarf, heldur betri nýtingu húsnæðisins sem fyrir er. Í rauninni hefur í stórum dráttum þegar verið byggt sem svarar þörf, en það er nýtingin, sem er ekki í lagi.

Þrátt fyrir gallana er frumvarpið hið merkasta. Það verður að vísu dýrt í framkvæmd, en endurlífgar tækifæri þjóðarinnar til að eignast þak yfir höfuðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Árangurslaus aðgerð

Greinar

Bandarískt spakmæli segir, að menn eigi að tala mjúkum barka og bera digra kylfu. Gamlir stuðnings menn Reagans Bandaríkjaforseta hafa í vaxandi mæli kvartað um, að hann sneri þessu við, ­ talaði digrum barka og bæri mjúka kylfu.

Með árásunum á Líbýu hefur hann reynt að sýna Bandaríkjamönnum, að hann bæri digra kylfu, þrátt fyrir allt. Árangurinn, sem hann hefur náð, er allur á heimamarkaði, ­ vinsældir heima fyrir. Hryðjuverkum í heiminum mun hins vegar ekki linna, nema síður sé.

Staða Reagans annars staðar í heiminum væri betri, ef menn hans hefðu ekki klúðrað árásunum. Fáir gráta, þótt hryðjuverkamönnum fækki nokkuð og búnaði þeirra sé spillt. Annað mál er að missa sprengjur á heimili fólks, sem ekkert hefur með hryðjuverk að gera.

Með því að varpa sprengjum á óbreytta borgara, sem vita ekki hvaðan á sig stendur veðrið, er Bandaríkjastjórn að lýsa því yfir, að hún sé sama eðlis og stjórn Kadaffis í Líbýu og raunar engu betri. Hún hefur tekið upp sömu vinnubrögð og Kaddafi, ­ óhreinkað sig.

Þegar lýðræðisstjórnir taka upp vinnubrögð hryðjuverkastjórna eru þær að lýsa því yfir, að vinnubrögð lýðræðisstjórna hafi vikið fyrir vinnubrögðum hryðju verkastjórna. Það er sigur hryðjuverkasinna, sigur Kaddafis, en ósigur lýðræðissinna, ósigur Reagans.

Staða Kaddafis mun óhjákvæmilega styrkjast í Líbýu. Þjóðin mun vafalaust fylkja sér um hann og hryðjuverkastefnu hans. Hún mun telja hann vera Davíð gegn Golíat. Árásirnar hafa gert hann að þjóðhetju og barnsmissirinn hefur gert hann að píslarvotti.

Kaddafi mun nú leggja stóraukna áherzlu á hryðjuverk á Vesturlöndum, einkum gegn bandarískum hagsmunum. Hins vegar er hann stórlega ofmetinn sem hryðjuverkamaður. Í raun er hann mestur í munninum, en hinir hættulegu stjórnendur hryðjuverka eru aðrir.

Stjórnir Sýrlands og Íran og hópar Líbanonsmanna og Palestínumanna eru mikilvirkari hryðjuverkamenn en Kaddafi. Munurinn á honum og Assad Sýrlandsforseta er, að Kaddafi talar digrum barka og ber mjúka kylfu, en Assad talar mjúkum barka og ber digra kylfu.

Bandaríkjastjórn hefur slæma reynslu af að eiga við Assad og flúði raunar með her sinn undan honum frá Líbanon í hittifyrra. Hún hefur látið sig hafa það að þakka honum fyrir milligöngu um frelsun gísla, sem teknir voru á hans vegum og alls ekki á vegum Kaddafis.

Hins vegar er Kaddafi þægilegri andstæðingur. Hann er af flestum talinn því sem næst geðveikur og stjórnar litlu ríki, sem er tiltölulega langt frá Sovétríkjunum. Þess vegna hefur Kaddafi verið kennt um fleiri hryðjuverk en hann á skilið, en aðrir látnir í friði.

Kaddafi mun ekki sjálfur geta hefnt sín mikið í hryðjuverkum. Hann verður að fá lánaða menn á vegum Assads Sýrlandsforseta. Sá mun feginn koma illu af stað og láta kenna Kaddafi um hryðjuverkin, meðan hann sjálfur situr á friðarstóli og lætur þakka sér milligöngu.

Árásirnar hafa skaðað sambúð Bandaríkjastjórnar við vinveittar ríkisstjórnir í löndum Araba og einnig við stjórnir Vestur-Evrópu. Líklegt er þó, að skaðinn verði ekki varanlegur, ef Líbýustríðið fer að kólna.

Sovétstjórnin mun gera sér sem mestan pólitískan mat úr klúðri árásanna á Líbýu. En hún er lífsreynd og lætur ofmetið smáríki í Afríku ekki spilla heildarhagsmunum sínum. Því er heimsfriðurinn ekki í hættu.

Jónas Kristjánsson

DV

Eins dauði er annars brauð

Greinar

Vestmannaeyingar hafa verið manna fljótastir að tileinka sér sölu á ferskum fiski í gámum. Um leið hafa þeir verið einna fyrstir að reka sig á skuggahliðar þessa gróðavegar, að fiskvinnsla og fiskvinnslufólk tapa á meðan sjómenn og útgerð hagnast.

Í þessari viku hyggst bæjarstjórn Vestmannaeyja halda fund með hagsmunaaðilum til að ræða þennan vanda. Slík umræða getur auðveldað fólki að átta sig á eðli málsins. Hins vegar er ólíklegt, að fáist niðurstaða, sem allir geti sætt sig við.

Hætt er við, að skuggahliðar gámaútflutningsins leiði til vanhugsaðra gagnaðgerða. Sem dæmi um það má nefna, að sjávarútvegsráðherra sagði í umræðu um málið á Alþingi, að til greina kæmi að leita umsagna sveitarstjórna um leyfi til útflutnings á gámafiski.

Þetta mundi í raun leiða til, að hvatvísar sveitarstjórnir höfnuðu gámafiski til að vernda fiskvinnslu og atvinnu heima fyrir. Þær mundu á þann hátt hrekja útgerð í grænni haga og flýta fyrir röskuninni, sem virðist ætla að sigla í kjölfar útflutnings á gámafiski.

Ástandið í Vestmannaeyjum boðar mikla röskun í sjávarplássum landsins. Þar hafa að undanförnu fjórir fimmtu hlutar aflans farið í gáma. Nær allur afli trollbáta fer í gáma og vaxandi hluti netafiskjar. Vinnslan fær í sinn hlut einkum togarafiskinn, en þó ekki allan.

Þetta hefur valdið því, að tæpast er unnt að halda uppi fullri dagvinnu í stóru frystihúsunum fjórum. Vinnslumagn fyrstu mánaða þessa árs hæfir aðeins þremur húsum og verður hugsanlega hæfilegt fyrir að eins tvö hús síðar á þessu ári, ef svo heldur fram.

Við stöndum þannig andspænis sögulegri þróun, sem er í þann mund að greiða frystiiðnaðinum alvarlegt högg, svo og fólkinu, sem þar starfar. Vinnan í frystihúsunum hefur að vísu verið illa borguð, en þó stuðlað að tiltölulega góðum heimilistekjum í plássunum.

Víða kemur þetta fram í, að eiginmaðurinn fær stórauknar tekjur á sjónum, meðan eiginkonan missir vinnuna í landi. Þessi tilfærsla losar um búsetu, því að skip geta landað hvar sem er, en frystihúsin eru staðbundin fjárfesting. Þetta mun færa til byggð í landinu.

Röskun þessi verður óþægileg eins og öll röskun, en getur þó leitt til góðs, eins og fyrri straumar fólks í landinu, það sem af er öldinni. Láglaunastörfum í frystihúsum fækkar og arðbærari störf taka við, annaðhvort heima fyrir eða í framsæknari sveitarfélögum.

Lítið gagn verður í ráðagerðum um stöðvun þessarar röskunar. Útflutningur á ferskum fiski, einkum í gámum, hefur ekki aðeins bjargað útgerðinni í landinu. Hún hefur sparað þjóðfélaginu gengislækkanir og hartnær stöðvað verðbólguna. Gámafiskurinn mun blífa.

Fiskveiðarnar eru skyndilega aftur orðnar að hornsteini þjóðfélagsins, hinn mikli gróðavegur, sem allt annað í þjóðfélaginu styðst við. Þeir hagsmunir eru svo yfirþyrmandi, að aðrir hagsmunir munu verða að víkja, þegar skerst í odda, í Eyjum eða annars staðar.

Þjóðin er að hagnast á fundi stórra og stækkandi markaða, þar sem ferskur fiskur er dýrari en frystur. Hún er að hagnast á bættri samgöngutækni, sem skilar ferska fiskinum í verðmætu ástandi til neytenda. Við munum ekki neita okkur um að fullnýta þetta happ.

En dæmið frá Vestmannaeyjum sýnir, að skynsamlegt er að fara strax að gera sér grein fyrir skuggahliðum hinnar nýju velgengni og horfast í augu við þær.

Jónas Kristjánsson

DV

Bankarnir eru ábyrgir

Greinar

Komið hefur í ljós, að 15% af lánunum, sem erlendir bankar veittu Filippseyjum á þjófræðistíma Marcosar, fóru beint á bankareikninga hans í Sviss og víðar. Barnalegt væri að halda því fram, að lánveitendur hafi ekki haft hugmynd um þessa meðferð lánsfjárins.

Marcosi þjófi tókst að auka bókaðar skuldir Filippseyja úr 80 milljörðum króna í 1000 milljarða. Þessi skuldasöfnun var drýgsti þátturinn í 400 milljarða króna heildarstuldi hans, þótt hann hefði einnig öll spjót úti á öðrum sviðum. Um þetta vissu alþjóðabankarnir.

Engin siðferðileg leið er að ætlast til þess af Filippseyingum, að þeir endurgreiði þessa 1000 milljarða Marcosar. Hann hafði ekki annað umboð til að stjórna Filippseyjum en það, sem hann gaf sér sjálfur. Um þetta vissu bankarnir, sem mokuðu fé í hann.

Dæmi Marcosar er aðeins stærsta dæmið af mörgum tugum um framferði alþjóðabanka í þriðja heiminum. Annað dæmi er Chile, sem var í peningasvelti á lýðræðistíma Allendes, en hefur verið að drukkna í lánsfé, síðan Kissinger kom geðsjúklingnum Pinochet til valda.

Eitt sorglegasta dæmið er Argentína, sem drukknaði í lánsfé á valdatíma her- og lögregluforingja, sem haldnir voru stelsýki og kvalalosta, en hefur verið fryst af alþjóðabönkunum, síðan lýðræðisstjórn komst þar til valda. Argentínumenn bera ekki ábyrgð á skuldunum.

Einhverra hluta vegna virðast vestrænir bankastjórar halda, að peningar séu vel varðveittir hjá glæpamönnum, sem ryðjast með ofbeldi til valda í þriðja heiminum, en illa geymdir hjá stjórnum, sem starfa í umboði borgaranna eins og tíðkast á Vesturlöndum.

Staðreyndin er hins vegar sú, að þeir, sem ráða ríkjum í skjóli hers og lögreglu fara verr með fé en hinir, sem hafa umboð. Fæstir eru að vísu eins mikilvirkir og Marcos, en eru þó haldnir sömu áráttu stelsýkinnar. Afganginum verja þeir í prumpfyrirtæki og hergögn.

Einræðisherrann Castro á Kúbu er ekki sá, sem heppilegast er að vitna til, en nauðsynlegt til að vísa á hættuna, sem stafar af ábyrgðarleysi bankastjóra. Hann hefur lagt til, að skuldir þriðja heimsins verði afskrifaðar. Í stórum dráttum er þetta rétt hjá honum.

Ef Castro væri einn um að halda þessu fram, væri hætta á, að misheppnað þjóðskipulag hans fengi vott af ljómanum frá réttri skoðun hans á lánamálum þriðja heimsins. Sem betur fer eru þeir orðnir margir aðrir, sem sjá í máli þessu lengra en nef þeirra nær.

Garcia, forseti í Perú, er hófsamur maður og hefur tilkynnt, að ríki hans muni borga mest 10% af útflutningstekjum sínum í kostnað af erlendum skuldum. Gott væri fyrir vestræna bankastjóra, ef slíkir heiðursmenn væru margir í valdastólum þriðja heimsins.

Hið eina, sem alþjóðlegir bankastjórar hafa sér til afsökunar í eindregnum stuðningi þeirra við morðingja og þjófa, er, að þeir hafi verið studdir til þess af sínum ríkisstjórnum. Í slíkum tilvikum eiga þeir að geta sent bakreikninginn til þessara sömu ríkisstjórna.

Nauðsynlegt er, að máli þessu verði haldið til streitu, fjöldi banka gerður gjaldþrota og mýgrútur bankastjóra gerður atvinnulaus. Hinir bankastjórarnir verða að átta sig á, að ábyrgð hlýtur að fylgja því að kaupa víxla af glæpamönnum, sem falsa undirskriftir heilla þjóða.

Alþjóðlegir bankastjórar vissu nákvæmlega um, hvað Marcos gerði við peningana, sem hann fékk hjá þeim. Þeir geta reynt að rukka þá inn hjá Marcosi sjálfum.

Jónas Kristjánsson

DV

Minnisvarði boðinn upp

Greinar

Verksmiðja, sem skuldar 115 milljónir króna, var í þessari viku slegin Ríkisábyrgðasjóði á nauðungaruppboði fyrir þrjár milljónir króna. Þar með er staðfest, að þjóðin hefur orðið fyrir að minnsta kosti 112 milljón króna tjóni af Þörungavinnslunni á Reykhólum.

Fyrr í vetur lagði þáverandi iðnaðarráðherra til, að verksmiðjan, sem er 97% í eigu ríkisins, yrði gefin heimamönnum. Það er ekki fráleit hugmynd og hugsanlega framkvæmanleg, þegar opinberir aðilar eru búnir að taka á sig 115 milljón króna skellinn allan.

Rétt væri þó að hækka þennan kostnað um lítið brot úr milljón til þess að reisa á verksmiðjusvæðinu höggmynd af núverandi forsætisráðherra. Það fæli aðeins í sér lítinn aukakostnað og yrði verðugur minnisvarði um iðnþróunaráform íslenzkra stjórnmálamanna.

Þörungavinnslan var reist fyrir rúmum áratug sem sérstakt gæludýr núverandi forsætisráðherra. Markmið hennar var að gleðja kjósendur hans í Vestfjarðakjör dæmi. Hefur verksmiðjan síðan verið fyrirmynd annarra gæludýra í ævintýraheimi íslenzkra stjórnmálamanna.

Munur er á Þörungavinnslunni og Kröflu. Jarðhitaverið var reist með því að ana út í óvissuna. Það var hins vegar ekki gert í þanginu. Þar var hafizt handa, þótt vitað væri fyrirfram, að vinnslan gæti ekki borgað sig. Ekki var tekið mark á neinum viðvörunum.

Þörungavinnslan er ekki eins fræg og Krafla, af því að hún er lítil og kostaði ekki eins mikið fé. Hún verð skuldar samt meiri frægð, því að hún var ekki reist að óathuguðu máli eins og Krafla, heldur að vel athuguðu máli, ­ gegn andmælum viðkomandi sérfræðinga.

Þegar vísindamenn fullyrtu, að 24 þangskurðarpramma þyrfti til að anna áætluðum afköstum, lækkaði núverandi forsætisráðherra töluna niður í sex til þess að tölurnar hentuðu betur. Þessir prammar urðu um síðir 11, án þess að dygði og var þá gefizt upp á þeim.

Þeir, sem voru svo ósvífnir að halda fram staðreynd um um afköst og öðrum óþægilegum upplýsingum, voru einfaldlega reknir. Upplýsingar af slíku tagi féllu ekki að draumaheimi þeirrar iðnþróunar, sem núverandi forsætisráðherra barðist ótrauður fyrir á þeim tíma.

Engin vandamál á Reykhólum þurftu að koma neinum á óvart. Spádómar vísindamanna og annarra úrtölumanna rættust. Draumur stjórnmálamannsins varð að martröð. Verksmiðjan tapaði stórfé á hverju ári og hefur lengi verið svo rækilega gjaldþrota, að einsdæmi er.

Af 115 milljón króna skuldum Þörungavinnslunnar er 51 milljón skuld við Iðnþróunarsjóð, sem stofnaður var til að stuðla að iðnþróun í landinu. Þetta er dæmi um, hvernig þróunarfé er hér á landi misnotað í alls konar pólitísk bjargráð og nýtist ekki til þróunar.

Í kjölfar þessa vers hafa ýmis önnur verið undirbúin eða hönnuð, reist að hluta eða fullbyggð. Talað hefur verið um kísilmálm og stál, salt og sykur, og steinullarver hefur verið reist. Í sumu kann að vera nokkuð vit, en annað er reist á hæpnum forsendum.

Þörungavinnslan á Reykhólum er ágætt víti til varnaðar. Hún má gjarna standa sem minnisvarði um, hversu erfitt reynist stjórnmálamönnum í þjóðfélagi ríkis skömmtunar á fjármagni að greina á milli iðnþróunar og pólitískra hagsmuna, einkum kjördæmishagsmuna.

Bezt væri, að minnisvarða þessum fylgdi höggmynd af núverandi forsætisráðherra, sem var hinn eini, sanni höfundur að lexíunni að Reykhólum við Breiðafjörð.

Jónas Kristjánsson

DV

Ódýr olía í nokkur ár

Greinar

Kostnaður okkar af olíukaupum verður sennilega einum milljarði króna minni á þessu ári en var í fyrra, þrír milljarðar í stað fjögurra. Á næsta ári ætti kostnaðurinn að geta farið niður í tvo milljarða og haldizt slíkur í um það bil fimm ár, en ekki miklu lengur.

Tveggja milljarða króna árlegur sparnaður á kostnaði þjóðfélagsins er engin smáupphæð. Gagnið felst í ótal atriðum, meiri hagvexti, minni verðbólgu, meiri greiðslugetu viðskiptalanda okkar og almennri þátttöku okkar í vaxandi velgengni vestrænna iðnaðarríkja.

Beggja vegna Atlantshafsins eru þjóðhagsstofnanir sem óðast að endurnýja hagspár sínar til að taka tillit til aukinnar bjartsýni. Verð hlutabréfa hefur farið ört hækkandi í flestum vestrænum kauphöllum. Verðbólga er víða horfin eða hefur breytzt í verðhjöðnun.

Jafnvel í þriðja heiminum er búizt við góðum árum. Hagvöxtur í Afríku er talinn verða 3% á þessu ári og 5% í Rómönsku-Ameríku. Einu ríkin, sem ekki njóta þessa hvalreka, eru þau, sem flytja út olíu. Þar í hópi er Nígería, sem tæpast mun hafa efni á skreiðarkaupum.

Olíuverð hefur hækkað lítillega aftur vegna verkfallsins á norsku Norðursjávarpöllunum. Að því verkfalli loknu mun lágt verð vafalítið festast í sessi, þó með einhverjum sveiflum. Ekki er fráleitt að vænta 15 dollara meðalverðs, það er helmings fyrra verðs.

Meðal áhrifa varanlegs lággengis á olíu er alvarlegt hrun á útflutningstekjum Sovétríkjanna. Stjórnvöld þar eystra munu á næstu árum hafa minni ráð en áður á að kosta aðgerðir til að grafa undan hagsmunum og öryggi Vesturlanda. Þau verða hrumara heimsveldi.

Fátt er svo með öllu gott, að ekki boði nokkuð illt. Lækkun olíuverðsins leiðir til, að erfiðum borholum verður lokað og minna fé lagt í rannsóknir og annan undirbúning olíuvinnslu. Því er hætt við, að framboð á olíu muni smám saman ná samræmi við eftirspurn.

Enn hættulegra er, að versna mun samkeppnisaðstaða annarra orkugjafa, svo sem kola, kjarnorku og vatnsafls. Til dæmis veldur verðhrun olíunnar því, að verðgildi íslenzks vatnsafls rýrnar. Þetta dregur úr möguleikum og vonum okkar á orkufrekum iðnaði.

Vesturlöndum í heild væri hættulegast, ef botninn dytti úr ráðagerðum um kjarnorkuver. Framsýnir menn ættu að minnast þess, að húseigendur nota góðviðrisdaga sumarsins til að gera við þakið fyrir veturinn. Og olíuvetur kemur, þótt síðar verði.

Þegar dregur nær aldamótum og olíuframleiðslan hefur lagað sig að eftirspurninni, er nauðsynlegt að risið hafi kjarnorkuver til að framleiða ódýra samkeppnisorku. Olía er takmörkuð auðlind, sem verður um síðir gulls ígildi, ef hún fær litla sem enga samkeppni.

Kjarnorkuvinnsla hefur gengið vel í sumum löndum, en verið erfiðleikum bundin í öðrum. Að fenginni reynslu ættu kjarnorkuver að reynast vistfræðilega heppilegri til orkuvinnslu en olíuborholur og kolanámur, ef rétt er að staðið, eins og Frakkar hafa gert.

Við verðum eins og aðrir Vesturlandabúar að nota sumartíma lágs olíuverðs á næstu árum til að búa okkur undir olíuvetur, sem getur orðið harður, ef við verðum orðin of háð olíunni. Við eigum líka að nota tækifærið til að byggja upp miklar öryggisbirgðir olíu.

Um leið og við gleðjumst yfir lukkupottinum, sem við höfum dottið í, er ráðlegt, að sofna ekki í honum og fljóta ekki í honum alla leið að feigðarósi.

Jónas Kristjánsson

DV

Verndin hefnir sín

Greinar

Komið hefur í ljós, að þingflokkur sjálfstæðismanna samþykkti í ógáti að veita landbúnaðarráðherra vald til að leggja 200% toll á hvaða innflutta búvöru, sem honum þóknast. Þeir héldu, að þeir væru að samþykkja vald ráðherrans til að tolla kartöflur og kartöfluflögur.

Reikna má með, að framsóknarmenn fyrirgefi sjálfstæðismönnum mistökin og að frumvarpinu verði breytt í meðförum þingsins, svo að það nái aðeins yfir kartöflur og kartöfluflögur. Þar með munu þingmennirnir telja, að lögin séu í hæfilegu samræmi við eðli málsins.

En sagan er ekki öll sögð. Með þrengingu frumvarpsins fellur ógild fullyrðing landbúnaðarráðherra um, að það sé vörn gegn erlendum undirboðum. Slíkar fullyrðingar eru í öllum tilvikum vafasamar. Og aldrei hafa kartöfluflögur verið verndaðar í útlöndum.

Fleiri kvarta um erlenda samkeppni en framleiðendur kartöfluflagna einir. Kunnur iðnrekandi hefur beðið um vernd fyrir innfluttum fatnaði. Hvenær biðja svo súkkulaðigerðir um vernd Og hvenær biðja gosframleiðendur um vernd Hvað ætla þingmenn þá að gera?

Lögunum um verndun á íslenzkum kartöflum og kartöfluflögum verður illa tekið í viðskiptalöndum okkar. Þau verða tekin sem dæmi um, að við séum að falla í freistingu verndarstefnu, sem við höfðum áður hafnað með samstarfi á alþjóðlegum vettvangi tollamála í GATT.

Á sama tíma og þingmenn okkar hyggjast vernda íslenzkar kartöflur og kartöfluflögur eru fulltrúar okkar að reyna að fá Efnahagsbandalag Evrópu ofan af saltfisktolli, sem torveldar viðskipti okkar. 200% tollurinn spillir mjög fyrir málstað okkar þar.

Á sama tíma og þingmenn okkar hyggjast vernda íslenzkar kartöflur og kartöfluflögur er lögð fram á Alþingi tillaga um fríverzlunarsamning við Bandaríkin. 200% tollur þingmanna okkar mun síður en svo auðvelda tilurð slíks fríverzlunarsamnings.

Sennilega er engin þjóð í heiminum eins háð utanríkisviðskiptum og Íslendingar. Við lifum á frjálsum og ótolluðum aðgangi fiskafurða okkar að markaði í Bandaríkjunum og Evrópu. Fáir hagsmunir eru okkur brýnni en að vinna gegn verndarstefnu í viðskiptum.

Barnalegt er að halda, að tollfrelsi fiskafurða sé eitthvert náttúrulögmál. Verndarstefna er að ná sér á strik aftur. Stjórnmálamenn eru farnir að gleyma, að það var tollastríð milli Evrópu og Ameríku, sem hratt kreppunni miklu af stað á fjórða áratugnum.

Efnahagsbandalagið hefur syndgað töluvert á þessu sviði á undanförnum árum. Það hefur æst upp verndarsjónarmið í Bandaríkjunum. Þar liggja nú fyrir þinginu um 400 lagafrumvörp um margvíslega verndun bandarískrar framleiðslu gegn erlendri samkeppni.

Reagan forseti verst fimlega gegn þessu afturhaldi. En demókratar eru veikir fyrir verndarstefnu og kunna að komast til valda eftir nokkur ár. Þá er hætt við lögum, sem munu æsa upp þingmenn annarra ríkja og hraða helgöngunni í átt til tolla- og verndarstefnu.

Á þessum erfiðu tímum felast eindregnir hagsmunir okkar í að mæla hvarvetna fyrir fullkomnu viðskiptafrelsi, hafta- og tollalausu, í samskiptum okkar við önnur ríki. Því til stuðnings eigum við að afnema alla okkar tollvernd, innflutningshöft og innflutningsbann.

Mikilvægur liður þeirrar hagsmunabaráttu er, að þingmenn okkar setji engin lög um 200% toll til verndar tveimur verksmiðjum, sem framleiða kartöfluflögur.

Jónas Kristjánsson

DV

Veðjað á rangan hest

Greinar

Stuðningur Reagans Bandaríkjaforseta við svokallaða Contras skæruliða í Nicaragua er ekki aðeins gagnslaus, heldur beinlínis hættulegur, bæði lýðræðinu í Nicaragua og hagsmunum Bandaríkjanna. Verst er, að líkur benda til, að stuðningurinn nái fram að ganga.

Varla líður svo dagur, að ekki sé af hálfu Reagans ítrekuð sú hugsjón, að Bandaríkin veiti Contras 100 milljón dollara aðstoð til að halda úti skæruhernaði. Öldungadeildin hefur samþykkt þetta naumlega og fulltrúadeildin mun líklega falla frá neitun sinni.

Reagan hefur veðjað á rangan hest í Nicaragua. Contras eru að verulegu leyti rumpulýður undir stjórn fyrrverandi foringja í liði fyrrverandi einræðisherra Nicaragua, hins illræmda Somoza, sem Bandaríkin komu til valda, en Sandinistar hröktu á brott.

Contras hafa nánast engan stuðning í Nicaragua. Þeir hafa búið um sig í nágrannaríkinu Honduras, sem er leppríki Bandaríkjanna, og gera þaðan árásir inn í Nicaragua. Á köflum hefur hegðun þeirra verið hin villimannlegasta, svo sem tíðkaðist á dögum Somoza.

Þeir lýðræðissinnar í Nicaragua, sem áður fylgdu Contras að málum, hafa yfirleitt snúið við þeim baki. Og skæruliðaforinginn Pastora vill ekkert hafa saman við þá að sælda, enda telur hann þá vera málaliða bandarísku leyniþjónustunnar, CIA.

Miklu nær væri fyrir Bandaríkin að styðja hina lýðræðislegu stjórnarandstöðu í Nicaragua, kaþólsku kirkjuna, stjórnmálamenn og dagblaðið Prensa, sem njóta mikils stuðnings í landinu. Með því að styðja Contras er grafið undan þessum lýðræðisöflum.

Sandinistar stefna vafalítið í átt til alræðiskerfis í stíl Sovétríkjanna. En sú fyrirmynd er orðin úrelt og nýtur ekki nægilegs stuðnings í landinu. Þess vegna hefur Sandinistum ekki tekizt að knýja fram alræði. Andstaðan er enn virk og hefur aðgang að fjölmiðlum.

Svokölluð Contadora-ríki í Rómönsku Ameríku, Mexico, Panama, Columbia og Venezuela, hafa reynt að miðla málum milli Bandaríkjanna og Nicaragua, en orðið lítt ágengt, einkum vegna andstöðu eða áhugaleysis Bandaríkjastjórnar gagnvart þessum afskiptum.

Fulltrúar þessara ríkja og fjögurra annarra, Argentínu, Brazilíu, Perú og Uruguay, hafa verið á ferðinni í Washington til að reyna að koma vitinu fyrir Bandaríkjastjórn, en án árangurs. Reagan vill greinilega ekki taka upp samningaviðræður við Sandinista.

Bandaríkin hafa einangrast í máli þessu. Af ríkjum Rómönsku Ameríku eru það aðeins harðstjóraríkin Chile og Paraguay, svo og leppríkið El Salvador, sem styðja stefnu og hugsjón Reagans. Jafnvel leppríkið Honduras hefur hingað til ekki fengizt til þess.

Sandinistar hafa stutt tillögu Contadora-ríkjanna um, að allir erlendir hernaðarráðgjafar yfirgefi ríki Rómönsku Ameríku, þar með bæði kúbanskir og bandarískir. Sandinistar hafa lagt til, að Contadora-ríkin taki upp vörzlu á landamærum Nicaragua.

Hvort tveggja virðist skynsamlegt. Bandaríkin mundu ná því markmiði að losna við Kúbumenn frá Nicaragua og torvelda Sandinistum að flytja út sovézkt skipulag um landamærin til nágrannaríkjanna. Á móti fengju Sandinistar frið fyrir Contras.

Reagan hefur á ýmsum sviðum látið hugsjónir sínar víkja fyrir sjónarmiðum hagkvæmni og skynsemi. Hann ætti einnig að gera það í afstöðunni til Nicaragua.

Jónas Kristjánsson

DV

Ofsækja neytendur

Greinar

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að auka kostnað heimilanna í landinu með því að selja landbúnaðarráðherra sjálfdæmi um að leggja 200% gjald á innfluttar búvörur, ef þær eru ódýrari en innlendar. Hún hefur lagt fram lagafrumvarp um þessa atlögu að hagsmunum neytenda.

Landbúnaðarflokkarnir, sem stjórna þjóðfélaginu, verja þessa árás með því að segja innflutta búvöru vera í ýmsum tilvikum greidda niður af erlendum stjórnvöldum og raska samkeppnisaðstöðu íslenzkra bænda. Þessi gamalkunna fullyrðing er afar villandi.

Í öllum framleiðslugreinum eru einhvers staðar til í heiminum aðilar með svo hagkvæman rekstur, að þeir geta boðið lágt verð. Í öðrum löndum kveina framleiðendur og heimta opinberan stuðning til að standast samkeppnina, þrátt fyrir sinn eigin óhagkvæma rekstur.

Í búvöru ráða Bandaríkin og ýmis önnur hagkvæmnisríki hinu lága verði, sem er á heimsmarkaði. Þar greiða stjórnvöld ekki niður útflutning, allra sízt á kartöfluflögum, þótt ríkisstjórnin hér virðist halda slíku fram. Þess vegna er heimsmarkaðsverðið rétt verð.

Í öðrum löndum kveina síðan óhagkvæmir framleiðendur og heimta opinberan stuðning. Þannig urðu til útflutningsuppbæturnar í Efnahagsbandalaginu. Markmið þeirra er að vernda eigin landbúnað gegn arðbærum landbúnaði, sem ekki þarf á stuðningi að halda.

Í hvert skipti sem stjórnvöld ákveða að grípa til stuðnings við óarðbæra framleiðslu á heimamarkaði, eru þau að styðja hagsmuni framleiðenda á kostnað hagsmuna hinna, sem nota vöruna. Neytendum er meinað að njóta hins lága og rétta heimsmarkaðsverðs.

Í hvert skipti sem stjórnvöld ákveða að grípa til stuðnings við óarðbæra framleiðslu í útflutningi eru þau að styðja hagsmuni erlendra neytenda á kostnað innlendra skattgreiðenda. Gott er, ef erlend stjórnvöld vilja lækka á þann hátt kostnað íslenzkra neytenda.

Framfarir í erlendum landbúnaði eru slíkar, að fyrirsjáanlegt er gífurlegt og varanlegt offramboð á heims markaði. Þeir, sem eru kaupendur á þeim markaði, njóta hins lága verðs, eflds kaupmáttar og rýrnandi verðbólgu, ­ nema stjórnvöld reyni að spilla þessum hagnaði.

Að sjálfsögðu lýsir það hreinni fyrirlitningu á hagsmunum neytenda, þegar Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, við fögnuð Alþýðubandalagsins, selja landbúnaðarráðherra sjálfdæmi um að leggja 200% toll á hvaða innflutta búvöru, sem honum sýnist.

Þegar þröngir hagsmunir landbúnaðarins eru í húfi, eru þessir stjórnmálaflokkar fljótir að gleyma forsendum nýgerðra kjarasamninga, baráttunni við verðbólgu og umræðunni um fátækt í landinu. Í þessu máli sýna þeir eins og fyrr, hvar hjarta þeirra slær, ­ í fortíðinni.

Árás frumvarps þríflokkanna á neytendur kemur að sjálfsögðu harðast niður á þeim, sem minnsta mega sín. Fátækasti hluti þjóðarinnar finnur mest fyrir tilraunum meirihluta Alþingis til að halda uppi óeðlilega háu verði á matvælum í landinu.

Frumvarpið er ekki orðið að lögum enn. Komið hefur í ljós, að innan Sjálfstæðisflokksins eru sumir ekki hrifnir af framgöngu ráðherra sinna í máli þessu. Þeir eiga erfitt uppdráttar, því að sjálfur flokksformaðurinn er umboðsmaður annars kartöfluflögu-kjördæmisins.

Fróðlegt verður að fylgjast með framvindu þessa magnaða óþurftarmáls á Alþingi á næstu dögum. Almenningur getur orðið ýmiss vísari um stjórnmálin.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir þurfa áreynslu

Greinar

Rannsóknir eru smám saman að leiða betur og betur í ljós, að hæfileg líkamsáreynsla lengir og hressir lífið. Sérfræðingar eru farnir að halda fram, að kyrrseta sé svipaður skaðvaldur og tóbaksreykingar, ­ stytti líf margra manna um ein tíu eða tuttugu ár.

Ein nýjasta rannsóknin bendir til, að þeir, sem ganga rösklega samtals 15 kílómetra á viku búi við rúmlega 20% minni hættu á andláti en hinir, sem ganga minna en 5 kílómetra á viku. Þeir vinna ekki aðeins tímann, sem fer í heilsuræktina, heldur mikinn tíma að auki.

Í sömu rannsókn kom í ljós, að þeir, sem eyddu 3.500 hitaeiningum á viku í líkamsrækt, höfðu helmingi minni andlátslíkur en hinir, sem ekkert hreyfðu sig. 3.500 hitaeiningar samsvara sex til átta tíma rösklegum hjólreiðum á viku eða um 50 kílómetra göngu á viku.

Langhlaup eru talin vera sú hreyfing, sem þjálfar líkamann á stytztum tíma. Tuttugu mínútna hlaup þrisvar eða fjórum sínum í viku er talið vera hæfileg hreyfing, jafngildi þess að hætta að reykja, auk þess sem hlaup hvetja fólk til að hætta að reykja.

Margt fleira er gott en að hlaupa. Sund er einnig afar góð hreyfing, ef því fylgir áreynsla og fólk lætur sér ekki nægja að liggja í heitum pottum. Og sund er hægt að stunda hér á landi í hvaða veðri sem er. Svo eru hjólreiðar og rösk ganga einnig heppileg.

Bandarískir læknar, sem sjá um þjálfun herflugmanna og geimfara, hafa gefið út bækur með töflum með samanburði mislangrar áreynslu í ýmsum greinum. Þær, sem gefa bezta raun, eru hlaup, sund, hjólreiðar og ganga, allt aðgengilegar greinar.

Þessar staðreyndir hafa eflt mjög trimmáhuga á Vesturlöndum, ef til vill minna hér en í nágrannalöndunum beggja vegna Atlantshafsins. Sá tími er þó liðinn hér á landi, að börnum og hundum sé sigað á hlaupandi fólk. Þjálfun er ekki lengur talin heimska.

Í dag er alþjóðlegi heilbrigðisdagurinn og er hann að þessu sinni helgaður heilbrigðu lífi. Slíkt líf telur Alþjóðlega heilbrigðisstofnunin fela í sér líkamlega þjálfun, tóbaksbindindi, hollt mataræði og hvarf frá ofnotkun áfengis og misnotkun lyfja.

Í ávarpi dagsins segir forstjóri stofnunarinnar, að “sú trú hafi orðið nokkuð almenn vegna framfara í læknavísindum, að heilsa sé það, sem læknar gefi fólki”. Hið rétta sé, að heilsa sé “gjöf einstaklinganna og samfélagsins til sjálfs sín”, það er eigin ákvörðun fólks.

Hann segir einnig, að nauðsynlegt sé fyrir fólk á öllum aldri, ekki aðeins fólk á bezta aldri, að þjálfa sig á einhvern hátt. Ennfremur minnir hann á gleðina og vellíðanina, sem fylgir því að hreyfa sig og reyna á sig. Árin verða ekki aðeins fleiri, heldur líka ánægjulegri.

Fólk er að vakna til vitundar um skaðsemi tóbaks, ruslfæðis, ofneyzlu áfengis og misnotkunar lyfja. Starfandi eru félög, sem hafa náð miklum árangri í að kynna fólki hættur á þessum sviðum. Árangurinn í kynningu líkamsþjálfunar hefur líklega verið hægari.

Mikilvægt er, að fólk átti sig á, að velferðarþjóðfélagið leysir ekki allan vanda þess, þótt það bjóði nánast ókeypis læknishjálp og sjúkrahúsvist á kostnað skattgreiðenda. Vanheilsa kostar miklu meira en þetta og mest þann, sem fyrir henni og vanlíðaninni verður.

Um leið og menn læra að vara sig á eiturefnum og ruslfæðu er jafnmikils virði að læra að láta líkamlega áreynslu, langlífi og ánægju leysa kyrrsetu af hólmi.

Jónas Kristjánsson

DV

Aldrei er friður

Greinar

Þótt samið hafi verið um kjör á langflestum vígstöðvum, verðbólgan fari minnkandi og olíukaupareikningur ársins hafi lækkað um heilan milljarð króna, fer því fjarri, að þjóðin hafi fjármál sín á þurru. Ýmis vandamál eru óleyst og hafa raunar aukizt að undanförnu.

Tollalækkunin á bílum og heimilistækjum hefur þegar leitt til mikils innflutnings og gjaldeyrisnotkunar og mun áfram gera það fram eftir árinu. Þetta spillir viðskiptajöfnuðinum gagnvart útlöndum. Vaxandi halli mun svo óhjákvæmilega hafa áhrif á ýmsum sviðum.

Gjaldeyrisforðinn hlýtur að rýrna og krónan að veikjast sem gjaldmiðill. Þar með færumst við nær gengis lækkun, sem mundi bylta forsendum þjóðarsáttarinnar, er felst í kjarasamningunum. Ennfremur er hætt við, að enn aukist hinar miklu skuldir okkar í útlöndum.

Ríkisstjórn og Seðlabanki verða að fylgjast grannt með þessu, svo að unnt verði að grípa í taumana, áður en illa fer. Vinnufriðurinn er of mikilvægur til að honum sé spillt með veikari gjaldmiðli. Og hann er of dýru verði keyptur í nýrri skuldasöfnun í útlöndum.

Tollalækkunin hefur ekki eins alvarleg áhrif á afkomu ríkisins. Hinn aukni innflutningur mun vafalítið bæta ríkissjóði upp minnkun tekna af hverri innfluttri einingu. Reynslan sýnir, að lækkun tolla hefur tilhneigingu til að auka tekjur hins opinbera.

Ríkið er þó í miklum fjárhagsvanda vegna skuldbindinganna, sem það hefur tekið á sig í kjölfar kjarasamninganna. Aðilar vinnumarkaðsins ætla að útvega því 600 milljónir úr lífeyrissjóðunum, en sjálft þarf ríkið að ná í 1200 milljónir að auki vegna skuldbindinganna.

Þessar upphæðir bætast við 800 milljón króna hallann, sem fyrir var á fjárlögum þessa árs. Þannig þarf ríkið að ná sér í tvo milljarða fyrir utan það, sem fæst úr lífeyrissjóðunum. Samanlagt þýðir þetta 2,6 milljarða aukna samkeppni á lánamarkaði og háa raunvexti.

Ríkissjóður hefur um langt skeið haft forustu í að halda uppi háum raunvöxtum með sífellt bættum tilboðum við útgáfu skuldabréfa. Vextirnir eru nú 9% og að auki 1%, sem felst í eignaskattsundanþágu skulda bréfaeigenda. Samtals borgar ríkið 10% raunvexti.

Seðlabankinn styður verðgildi ríkisbréfanna með því að bjóða sjálfvirka innlausn þeirra gegn vægu gjaldi. Þar með eru skírteini ríkisins orðin að hálfgerðum bankaseðlum, sem fólk getur notað fyrirvaralaust og samt haft mun betri ávöxtun en bankarnir bjóða því.

Hætt er við að nú gerist tvennt. Í fyrsta lagi telji ríkið sig þurfa að bjóða enn betur til að ná í eitthvað af milljörðunum. Og í öðru lagi telji útgefendur skuldabréfa sig þurfa að bjóða enn betur en þeir gera nú ­ til að keppa við hin gulltryggu skuldabréf ríkisins.

Ekki er einfalt fyrir ríkið að létta sér þennan róður með því að taka mikið af fénu að láni í Seðlabankanum. Það jafngildir í rauninni aukinni seðlaprentun og rýrir verðgildi hverrar krónu. Þar með erum við enn komin að hættunni á gengislækkun, bara úr annarri átt.

Í öllu þessu, sem hér hefur verið rakið, gildir hin almenna regla, að handaflsaðgerðir stjórnvalda á einu sviði leiða óhjákvæmilega til afleiðinga á öðrum sviðum og að þessar afleiðingar geta unnið á móti árangri aðgerðanna ­ jafnvel gert ástandið verra en það var.

Þannig er engin ástæða fyrir ríkisstjórnina að sofna á verðinum, þótt nú sé stund milli stríða. Fjármálaslagurinn vinnst aldrei í eitt skipti fyrir öll.

Jónas Kristjánsson

DV

Bandarískt innhaf

Greinar

Í viðureigninni við her Líbýu í fyrri viku sýndi bandaríski flotinn fram á, að Miðjarðarhafið er ekki aðallega arabískt eða vesturevrópskt áhrifasvæði og ekki heldur sovézkt, heldur bandarískt. Það er eina niðurstaða átakanna, sem telja má, að hafi varanlegt gildi.

Reagan Bandaríkjaforseti er nú upplitsdjarfari en hann var, þegar bandaríska friðargæzluliðið flúði við lítinn orðstír frá Líbanon fyrir tveimur árum. Miðjarðarhafsfloti Bandaríkjanna hefur nú bætt fyrir álitshnekkinn, sem stjórn forsetans beið þá.

Í Líbanon var raunar athyglisvert, að stjórn Sovét ríkjanna gat ekki komið skjólstæðingsstjórn sinni í Sýrlandi til aðstoðar. Og nú var athyglisvert, að Sovétríkin gátu ekki eða vildu ekki koma til hjálpar skjólstæðingi sínum í Líbýu, Kaddafi höfuðsmanni.

Milli 2000 og 6000 sovézkir ráðgjafar eru í Líbýu, þar á meðal við eldflaugastöðvarnar, sem bandarísku flugvélarnar löskuðu. Þar sem þeir urðu ekki fyrir hnjaski, má reikna með, að Bandaríkin hafi varað Sovétríkin við í tæka tíð og þeir komizt í skjól.

Hið eina, sem Sovétríkin gerðu í máli þessu var að mótmæla aðgerðum Bandaríkjanna. Hið sama gerðu þau raunar nokkru áður, þegar bandaríski flotinn sigldi ögrunarsiglingu um Svartahaf, sem margir hefðu talið, að væri eins konar sovézkt innhaf.

Máttleysi Vestur-Evrópu á Miðjarðarhafi minnir á máttleysi Sovétríkjanna. Hver ímyndar sér, að einhver ríki þar hefðu sér á parti eða sameiginlega svarað í sömu mynt, þegar Kaddafi sparkaði í þau Slíkt væri óhugsandi, svo máttlaus er Vestur-Evrópa orðin.

Átökin hafa leitt til tímabundins hnekkis Vesturlanda í áliti ráðamanna og almennings í Arabalöndunum. Ráðamenn í þeim heimshluta telja sér af trúarástæðum skylt að styðja Kaddafi, þótt þeir hafi raunar á honum hina mestu óbeit og vildu fegnir losna við hann.

Fljótlega munu átökin á Surt-flóa gleymast og samband Vesturlanda og Arabaheimsins færast í fyrra horf. Harka stjórnar Bandaríkjanna mun ekki leiða til varanlegra vandræða í samskiptum þessara heimshluta, þótt sumir hafi haldið slíku fram að undanförnu.

Átökin hafa ennfremur leitt til tímabundinnar sjálfsánægju Kaddafis, sem hafði haft hægt um sig frá áramótum, þegar hann lét myrða 19 flugfarþega í Róm og Vínarborg. Hann er nú vígreifur og hleypti því til stað festingar fjölda vestrænna blaðamanna til landsins.

En ánægja hans er ekki heldur varanleg. Útilokað er fyrir vestræn ríki að haga gerðum sínum með tilliti til áhrifa þeirra á Kaddafi. Hugsun hans er ekki rökfræðileg. En vísast má á næstunni búast við öldu hryðjuverka gegn Bandaríkjamönnum að hans undirlagi.

Sumir halda fram, að skynsamlegra sé að beita samningum fremur en stríðsvélum í viðskiptum við Kaddafi. Mitterrand Frakklandsforseti er þó vafalaust minnugur samkomulagsins í Tsjad, þegar Kaddafi hafði hann að fífli og dró ekki her sinn á brott eins og samið var um.

Lagalega og siðferðilega var bandaríski flotinn í rétti á Surt-flóa. Hann var utan landhelgi samkvæmt niðurstöðu síðustu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna og leyfði mönnum Kaddafis að eiga upphafið að átökunum. Viðbrögðin voru markviss og í samræmi við tilefnið.

Árangurinn er að vísu takmarkaður. Kaddafi er enn við völd og verður áfram til vandræða. En Bandaríkin hafa endurheimt Miðjarðarhaf sem áhrifasvæði sitt.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýr og óþörf lyf

Greinar

Ríkið ver sennilega til lyfja tvöföldu því fjármagni, sem það leggur í Lánasjóð íslenzkra námsmanna. Lyfjakostnaður ríkisins er líklega svipaður og samanlagður kostnaður þess af húsnæðislánakerfinu. Lyfin kostuðu fyrir þremur árum 4% af ríkisútgjöldum.

Síðustu opinberu upplýsingar um lyfjakostnað ríkisins eru frá 1983. Þá greiddi Tryggingastofnunin niður lyf fyrir 493 milljónir og sjúkrahúsin greiddu lyf fyrir 145 milljónir. Samtals voru þetta 638 milljónir eða 4% af allri veltu ríkisins á því ári, ­ hrikalegt hlutfall.

Ef lyfjakostnaður verður á þessu ári sama hlutfall af ríkisútgjöldum og hann var fyrir þremur árum, má reikna með, að hálfur annar milljarður króna hverfi í þessa hít. Það er hærri upphæð en svo, að unnt sé að láta sér hana í léttu rúmi liggja.

Ríkið virðist vera meira eða minna varnarlaust gegn hóflausri ávísun lækna á lyf af hvers kyns tagi. Sjúklingarnir sjálfir greiða einungis málamyndaupphæð af hverju lyfi, sem þeir fá, en ríkið greiðir meginhlutann. Þetta er óhjákvæmilegt í velferðarþjóðfélagi.

Þar með er ekki sagt, að ríkið þurfi að vera varnarlaust. Bent hefur verið á ýmislegt, sem betur mætti fara. Gagnrýnin beinist einkum að fjórum atriðum.

Í fyrsta lagi er haldið fram, að tímahrak lækna valdi því, að þeir láti hraðvirka útgáfu lyfseðla, einkum um síma, koma í stað erfiðra og langdreginna samtala við sjúklinga og skoðun þeirra. Héraðslæknirinn í Bolungarvík benti nýlega á þetta í samtali við DV.

Hann sagði, að notkun sýklalyfja mætti að skaðlausu minnka niður í þriðjung af því, sem hún er. Svíar væru ekki nema hálfdrættingar á við okkur á þessu sviði. Ef allir læknar ávísuðu eins og hann sjálfur gerði, sagði hann að mætti spara 50­100 milljónir króna á ári.

Í öðru lagi er haldið fram, að notkun fúkalyfja sé svo óhæfileg hér á landi, að þau reynist í sumum tilvikum gagnslaus, þegar fólk þarf raunverulega á þeim að halda. Samkvæmt þessu á ströng takmörkun notkunar slíkra lyfja að fela í sér raunhæfa heilsuvernd.

Í þriðja lagi er haldið fram, að lyf séu ekki rétt valin. Í mörgum tilvikum sé vísað á dýr lyf, þótt ódýr lyf komi að sama gagni. Þetta kom fram í skýrslu tveggja heilsugæzlulækna í Hafnarfirði og Garðabæ. Henni hefur verið dreift á vegum heilbrigðisráðuneytisins.

Stundum þurfa sjúklingar raunverulega hin dýrari lyf. En í öðrum tilvikum koma hin ódýrari að nákvæmlega sama gagni. Læknarnir tveir lögðu til, að ábendingar til lækna um lyfjaverð og lyfjaval yrðu gefnar út tvisvar á ári til að ná niður kostnaði hins opinbera.

Þeir tóku dæmi af fimm lyfjategundum, sem þeir völdu af handahófi. Verðmunur dýrustu og ódýrustu lyfjanna nam tæpum 40 milljónum króna, þegar miðað var við ársnotkun þjóðfélagsins. Og þetta voru aðeins fimm tegundir af hinum mikla fjölda, sem notaður er.

Í fjórða lagi er haldið fram, að sumum læknum sé laus höndin við ávísun á lyf, sem notuð eru sem fíkniefni. Raunar hefur verið sagt, þótt ekki sé sannað, að slík fíkniefnanotkun sé algengari og umfangsmeiri en notkun smyglaðra efna á borð við hass og maríhúana.

Þessi fjórþætta gagnrýni sýnir, að líklega má spara hundruð milljóna króna árlega og meira að segja bæta heilsu þjóðarinnar með meiri sjálfsaga lækna við útgáfu lyfseðla og með meira eftirliti af hálfu ríkisins. Þetta hlýtur að teljast meðal brýnni verkefna þjóðfélagsins.

Jónas Kristjánsson

DV