Greinar

Tízkan er ljót

Greinar

“Tízkan er svo ljótt fyrirbæri, að skipta þarf um hana á hálfs árs fresti”. Þessi kaldhæðnislegu ummæli Óskars Wilde fyrir einni öld eiga ekki síður við í nútímanum, hvort sem um er að ræða axlapúðatízku karla og kvenna eða einhverja aðra forgengilega og fáránlega tízku.

Fyrir skömmu birtust í blaði tillögur fatahönnuða um tízkufatnað handa nokkrum þjóðkunnum mönnum. Hætt er við, að engum þeirra dytti í hug að láta hafa sig að fífli með þeim hætti, sem þar var lagt til.

Athyglisvert er, að tízkufatnaður þessi tók ekkert tillit til hlutfalla mannslíkamans og að teikningar, sem fylgdu, sýndu hann í afkáralegum hlutföllum. Það er einmitt einkenni slíkra teikninga og hefur verið svo lengi, sem elztu menn muna.

Tízkan er orðin að umfangsmiklum iðnaði, þar sem mikið er í húfi. Um heim allan hafa risið öflug tízkuhús með fjölmennri sveit hönnuða og annars starfsfólks. Tízkublöð eru útbreidd og fjölskipuð grein tímaritaútgáfu, svo sem sjá má í bókabúðum landsins.

Íslendingar taka þátt í þessum leik. Ullartízkan hefur stuðlað að velgengni fataiðnaðar okkar á síðustu árum. Og nú hefur hnignun ullartízkunnar valdið þessum iðnaði kárínum, svo sem dæmið af Álafossi sýnir.

Tízkan er svo vel skipulögð, að á undanförnum vikum hafa tízkuhúsin frægu verið að kynna tízku næsta hausts og vetrar. Úrelding verðmætanna, sem felast í fatnaði, er ekki tilviljanakennd, heldur skipuleg, svo að sem örast megi selja sporgöngufólki nýjan fatnað.

Tízkufólkið telur sig vera sjálfstætt framúrstefnufólk. Í rauninni er það ósjálfstætt. Tízkan er eins konar þrælahald, þar sem sporgöngufólk er neytt til að taka við tilskipunum frá París, New York eða Tokyo, þar sem eigendur tízkunnar sitja og raka saman fé.

Meðal þrælanna ríkir svo auðvitað stéttaskipting. Þar felst eins konar stöðutákn í að vera fyrri en hinir til að taka við skipunum þrælahaldaranna. Margir greiða stórfé fyrir það stöðutákn að fá að auglýsa þrælkun sína með þessum hætti.

Heimili geta haft mikinn kostnað af sporgöngunni. Einkum eru ósjálfstæðir unglingar viðkvæmir fyrir tízkunni. Ekki er laust við, að auglýsingar fermingartímabilsins fyrir páska hafi reynt að ýta undir hinar ósjálfstæðu langanir sporgöngufólks á táningaaldri.

Tízkan er annars eðlis en stíll, sem breytist hægt, á nokkrum áratugum eða öldum. Í byggingarlist hefur nytjastíll ríkt meira eða minna í rúmlega hálfa öld og í myndlist hefur tjástíll ráðið jafn lengi. Breytingar á stíl standa yfirleitt föstum fótum á einhverjum grunni.

Rómanski byggingarstíllinn var öðrum þræði burðarþolsfræði, eins og gotneski stíllinn var með oddbogum sínum og svifsteigum. Með svipuðum hætti má finna röksemdir fyrir stíl í myndlist og öðrum greinum, þar á meðal raunar einnig í hefðbundnum fatnaði.

Stíll í fatnaði ætti nokkurn veginn að endast fólki ævilangt. Hann á ekkert skylt við hina skipulögðu úreldingu, sem felst í tízku, er breytt er af fjárhagsástæðum á hálfs árs fresti. Enda þarf ekki að breyta stíl á hálfs árs fresti, því að hann er ekki ljótur.

Ekkert er við að athuga, að fólk hafi atvinnu af tízku. En hinir, sem gætu orðið fórnardýr tízkunnar, þurfa að vita, að sjálfstæðan vilja þarf til að hafna forskrift þrælahaldara tízkuhúsanna, auk þess sem það sparar töluvert fé, er nota má í annað en sókn eftir vindi.

Jónas Kristjánsson

DV

Innreið skynseminnar

Greinar

Jón Helgason búnaðarráðherra hefur til varnar búmarkinu sagt, að bændur séu að súpa seyðið af fyrri lögum, sem beinlínis hvöttu þá til framleiðsluaukningar og uppbyggingar. Hann og aðrir stjórnendur landbúnaðar hafa skyndilega snúið við blaðinu.

Eins og jafnan áður trúa bændur þá fyrst, er ráðherra þeirra og forustumenn ríða á vaðið. Sumir gæla við þá von, að þjóðfélagið hafi efni á að auka niðurgreiðslur, svo að neyzlan vaxi og geri niðurskurðinn sársaukaminni. Algengari eru þó raunsærri hugmyndir.

Komið hafa frá bændafundum kröfur um, að stéttinni verði lokað, svo að ekki verði fleirum steypt í ógæfuna, sem lána- og styrkjakerfi landbúnaðarins hefur búið ungum bændum. Þetta er skynsamlegt og verður bezt gert með að afnema lána- og styrkjakerfið.

Einnig hafa komið frá bændafundum tillögur um, að búmark geti gengið kaupum og sölum. Ætlunin er, að það auðveldi illa settum bændum að bregða búi og framsæknum bændum að stækka við sig, svo að rekstrarkostnaður á framleiðslueiningu verði minni.

Aðrir vara við, að slík verzlun verði stunduð milli héraða. Í því eins og öðru endurspegla skoðanaskiptin um búmarkið fjölbreytilegar hugmyndir um kvótakerfið í sjávarútvegi, svo sem greinilega hafa komið fram við val milli tilboða í gjaldþrota togara.

Ráðamenn, ráðunautar og bændur tala loksins í fullri alvöru um, að hér á landi sé aðeins afkomurými fyrir 1000 kúabændur í stað 2500, sem þjóðfélagið kostar um þessar mundir. Þeir segja líka, að afkomurými sé fyrir 2500 bændur alls í stað hinna 5000, sem nú eru.

Einhvern tíma hefðu þeir, sem slíkt segðu, verið kallaðir óvinir og jafvel hatursmenn bænda. Nú hrista bændur sjálfir hausinn út af ráðdeildarleysi lána- og styrkjakerfis, sem leitt hefur til, að fjárhús þeirra rúma meira en tvöfalda þörfina á húsrými fyrir sauðfé.

Fyrrverandi óvinir landbúnaðarins og núna síðbúnir spámenn hans standa agndofa yfir yfirlýsingum úr sjálfum landbúnaðinum um, að stjórnun hans hafi brugðizt og samdráttur hafi enn enginn orðið, þrátt fyrir brýna þörf. Menn hafa ekki búizt við skynsemi úr þeirri átt.

Svo langt gengur skynvæðingin, að frá bændafundum berast kenningar um, að mjólk eigi að framleiða nálægt markaði, en ekki fjarri honum. Lengst gengur hún þó í þeirri almennu skoðun innan lanbúnaðarins, að nýja reglugerðin um búmark hafi komið allt of seint.

Sérfræðingar landbúnaðarins hafa nú seint og um síðir komizt að raun um, að markaður fyrir mjólkurvörur og kindakjöt fari minnkandi og muni enn minnka á næstu árum. Hin sársaukafulla aðlögun, sem menn verði að þola á þessu ári, sé ekki nema hluti vandans.

Þessir menn segja, að mjólkurframleiðsla, sem mest varð 140 milljón lítrar á ári, þurfi að fara niður í 60 milljón lítra. Þeir segja, að sauðfé, sem mest varð 900 þúsund að tölu, þurfi að fara niður í 400 þúsund. Tölurnar sýna, að þetta eru engir auðveldir smámunir.

Kerfið er farið að sárbiðja bændur um að bregða búi. Í fyrra keypti það 24 þúsund ærgildi á allt að 1750 krónur eintakið af rúmlega 100 bændum. Á fyrsta mánuði þessa árs hafa 9000 ærgildi verið keypt. Þessi viðleitni kostaði okkur 150 milljónir í fyrra.

Enn eiga menn þó eftir að viðurkenna, að bændum þurfi ekki aðeins að fækka úr 5000 í 2500, heldur sé í raun einungis afkomurými fyrir um 1000 bændur.

Jónas Kristjánsson

DV

Bændur létu blekkjast

Greinar

Bændur hafa loksins áttað sig á, að þeir hafa undanfarin ár og áratugi ranglega verið hvattir til að færa út kvíarnar í hefðbundnum landbúnaði kúa og kinda. Þeir segja, að Framleiðsluráðið, Stéttarsambandið, Búnaðarfélagið og ráðuneytið hafi blekkt sig.

Raunar er hlutur þessara stofnana enn verri. Þær hafa í tvo áratugi hamast gegn hinum fáu, sem hafa bent á, að draga þyrfti saman seglin í hefðbundnum greinum landbúnaðarins. Þessir fáu hafa verið kallaðir hatursmenn bænda og öðrum illum nöfnum.

Nú standa ráðamenn landbúnaðarins frammi fyrir reiðum bændum á fjöldafundum og þurfa að útskýra, að ekki sé lengur unnt að selja hefðbundnar búvörur með sama hætti og áður. Þeir þurfa að viðurkenna, að stjórn þeirra og stjórnsemi hefur brugðizt.

Bændur eru að sjálfsögðu ekki sízt reiðir því að fá fyrirmæli um 12-14% samdrátt á framleiðsluárinu, þegar það er hálfnað. Þessi seinagangur í útgáfu reglugerðar um niðurskurð landbúnaðar er skýrt dæmi um, að stofnanir landbúnaðarins hafa ekki tök á að stjórna.

Bændur krefjast lengri aðlögunartíma. Krafan er eðlileg, því að margir þeirra sjá fram á að vera búnir með kvótann löngu fyrir lok framleiðsluársins. Hins vegar er ekki sjáanlegt, að hægt sé að fá peninga að láni til að kosta óseljanlega aðlögunarframleiðslu.

Svo má ekki gleyma, að samdráttarþörfin er alls ekki ný frétt. Um hana hefur verið fjallað í fjölmiðlum og víðar í tvo áratugi. Allan þann tíma hefur hún verið betur rökstudd heldur en fullyrðingar ráðamanna landbúnaðarins um hið gagnstæða, ­ raunar óhrekjanleg.

Þar á ofan hafa í tæplega ár verið til lög, sem beinlínis hlutu að leiða til niðurstöðunnar, sem nú vekur reiði. Lögin voru sett í fyrravor, til þess að bændur vissu, hvaða kvóta þeir hefðu, og þyrftu ekki að sæta verðskerðingu við hvert einasta lokauppgjör.

Þá þegar var hrunin geta hins opinbera til að halda uppi óseljanlegri framleiðslu. Ríkið hafði ekki efni á meiri niðurgreiðslum og útflutningsuppbótum og var byrjað að múta bændum til að draga saman seglin. Ekki þurfti mikla framsýni til að gizka á framhaldið.

Margir bændur og sumir þingmenn heimta nú meiri niðurgreiðslur til að stækka hinn tilbúna markað fyrir afurðir hins hefðbundna landbúnaðar. Á máli hinna óraunsæju heitir þetta að sýna vilja til að horfast í augu við vandamálin. En peningar eru engir til.

Ólíkt hafast að svína-, eggja- og kjúklingabændur, þegar þeir geta ekki selt alla framleiðsluna. Þeir koma á fót útsölu til að losna við fjallið, svo sem fólk hefur tekið eftir að undanförnu. Þeir leysa sín mál án þess að væla í stíl hins hefðbundna landbúnaðar.

Kúa- og kindabændur ársins 1986 súpa nú seyðið af því að hafa trúað og treyst fáránlegum lygum og rugli forustumanna landbúnaðarins á undanförnum árum. Þeir eru fangar trúarsetninga, sem enn í dag stuðla að greiðslum til að hvetja þá til að fjárfesta og framleiða.

Afleiðing ofstjórnar stofnana landbúnaðarins er, að framleiðsla óseljanlegra afurða hefur haldið áfram að aukast allt fram á þennan dag. Afleiðingin er, að um síðustu áramót höfðu smjörfjöllin og ostafjöllin enn hækkað, þrátt fyrir miklar gjafir til útlanda.

Vandinn er samt meiri en sá, sem nú er grátinn. Neyzlan heldur áfram að minnka og samanburður neytenda við heimsmarkaðsverð verður sífellt ágengari.

Jónas Kristjánsson

DV

Hægfara sókn lýðræðis

Greinar

Lýðræðishugsjónin varð fyrir áfalli í forsetakosningunum á Filippseyjum. Þar tókst Marcosi forseta að halda völdum með víðtækum kosningasvikum. Glatað er tækifærið til að gera Filippseyjar að lýðræðisríki, þar sem unnt sé að skipta um stjórnvöld í kosningum.

Á Haiti virðist annað tækifæri hafa runnið úr greipum lýðræðinu. Þar halda menn Duvaliers völdum, þótt sjálfur hafi hann flúið land. Ógnarstjórnin kann að minnka nokkuð, en ekkert bendir til, að minnsti vottur lýðræðis sé væntanlegur hjá hinni þjökuðu þjóð.

En lýðræðið bíður ekki alltaf ósigur fyrir harðstjórn og eins flokks kerfi. Portúgalir gengu um helgina til heiðarlegra kosninga og völdu óvæntan sigurvegara. Í landi harðstjóranna Salazars og Caetano hefur lýðræðið á skömmum tíma treyst sig varanlega í sessi.

Ef litið er á heiminn í heild, verður ljóst, að álfunum hefur vegnað misjafnlega vel. Í Vestur-Evrópu hefur lýðræðið náð fullu húsi stiga, er herforingjar hafa verið hraktir frá völdum á Spáni, í Portúgal og Grikklandi og eru á undanhaldi í hinu hálfevrópska Tyrklandi.

Á allra síðustu árum hefur mestur árangur náðst í Suður- og Mið-Ameríku. Fyrir aðeins átta árum voru þar aðeins sex lýðræðisríki, en nú eru þau orðin sextán. Í einungis fimm ríkjum álfunnar hanga harðstjórar enn við völd. Þetta eru veruleg umskipti á skömmum tíma.

Eftir síðustu heimsstyrjöld leit út fyrir, að Suður-Ameríka yrði ein af ríku álfunum, í flokki með Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Lífskjör voru orðin svipuð og í Evrópu og virtust stefna fram úr, auk þess sem lýðræði var víðast hvar í sókn í álfunni.

Síðan hafa lögreglu- og herforingjar riðið þar húsum. Þeir rændu þjóðirnar frelsi og mannréttindum, fé og framavonum. Suður-Ameríka hrasaði niður á stig þriðja heimsins. En nú eru loksins aftur bjartari horfur í þessari álfu, sem missti á sínum tíma af lestinni.

Ríkin þrjú syðst í álfunni, Argentína, Chile og Uruguay, hafa oft verið nefnd sem ríki hinna miklu vona, sem brustu. Nú hefur lýðræði verið endurreist í Argentínu og er á innleið í Uruguay. Aðeins í Chile hefur harðstjóranum Pinochet tekizt að halda völdum.

Í sunnanverðri Asíu hefur víða verið tvísýn barátta milli lýðræðis og harðstjórnar. Þar eru Indverjar stolt lýðræðisins, skipta um ríkisstjórnir í heiðarlegum kosningum. Um leið hefur þeim tekizt að bægja frá hinni árvissu hungursneyð, sem áður einkenndi landið.

En lýðræðið hefur engan veginn unnið endanlegan sigur í Indlandi. Hið sama má segja um nýríku löndin í Suðaustur-Asíu, Suður-Kóreu, Taiwan og Singapúr. Þar hefur prentfrelsi verið skert. Slíkar stjórnvaldsgerðir eru jafnan fyrirboði áfalla fyrir lýðræði.

Í Afríku er ástandið bókstaflega svart. Þar er í mesta lagi hægt að tala um eitt lýðræðisríki, Botswana. Sum ríki álfunnar eru mild eins flokks ríki, svo sem Egyptaland og Kenya. En almenna reglan er, að harðstjórar sitja þar yfir hlut fátækasta fólks í heimi.

Telja verður, að lýðræði eigi litla möguleika í Afríku, ekki meiri en í Austur-Evrópu, arabaheiminum og Norður-Asíu. Beztu sóknarmöguleikar þess hafa að undanförnu verið og eru enn í Rómönsku Ameríku. Og tvísýnast er ástandið í sunnanverðri Asíu.

Þegar lýðræði bíður annan eins ósigur og við höfum nú séð á Filippseyjum, er nauðsynlegt að lýðræðisríkin séu einhuga um að andæfa þeim, sem stal kosningunum.

Jónas Kristjánsson

DV

Krónulaust sjálfstæði

Greinar

Löngum hefur þjóðremba verið sameiningartákn þeirra, sem þjóðum eru óþarfastir. Hún er einföld og hentug baráttuaðferð gegn hugmyndum, nánast gulltryggt verklag til að komast hjá umræðu um atriði, sem þjóðrembumenn vilja ekki, að fjallað sé um.

Umræðan um gildi íslenzkrar krónu er gott dæmi um þetta. Þeir, sem efast um gagnsemi eigin myntar, eru í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum sakaðir um óþjóðlega hugsun og vilja til afsals á sjálfstæði þjóðarinnar. Efnisleg rök fyrir slíku eru ekki á takteinum.

Svisslendingar hafa löngum verið taldir þjóðlegir. Þeir hafa eigin mynt, en líta á aðrar sem gjaldgengar í hversdagslegum viðskiptum. Þar hafa flestir kaupmenn gengisskráningu dagsins við kassann og eru reiðubúnir að taka við greiðslu í hvaða mynt sem er.

Varla er hægt að hugsa sér þjóð, sem er stoltari af sjálfri sér, en Lichentsteinara. Þeir lifa góðu lífi af rekstri banka og annarri þarfri iðju og hafa komið sér svo vel fyrir, að þeir þurfa ekki að greiða neina skatta. Samt hafa þeir ekki eigin mynt.

Luxemborgarar eru um margt svipaðir Lichtensteinurum. Þeir eru ekki minna sjálfstæðir en aðrir. Í málum útvarps og banka leyfa þeir sér að standa uppi í hárinu á nágrönnum sínum. Þeir munu um langan aldur blómstra sem sjálfstæð þjóð, án gengisskráningar.

Að vísu hafa Luxemborgarar til málamynda eigin franka. En gengi þeirra er alltaf hið sama og belgískra franka og belgískir frankar eru í landinu jafn gjaldgengir og ensk pund eru í Skotlandi. Luxemborgurum dettur ekki í hug að framleiða gengisvandamál.

Luxemborgarar og Lichtensteinarar mundu hlæja, ef þeir heyrðu, að þeir væru “að víkjast undan, neita að horfast í augu við vandamálin… og gefast upp við að takast á við þau”, eins og Morgunblaðið og Alþýðubandalagið tala um andstæðinga krónunnar.

Staðreyndin er þvert á móti sú, að Lichtensteinarar og Luxemborgarar hafa horfzt í augu við vandamálin og tekizt á við þau, sem við höfum hins vegar ekki gert. Þeir hafa kastað út eiturlyfi, sem íslenzk stjórnvöld nota til að telja sér trú um, að allt sé í lagi.

Panamamenn eru eina þjóðin í Rómönsku Ameríku, sem ekki býr við dúndrandi verðbólgu og óleysanlegar skuldir í útlöndum. Þeir hafa vit á að nota bandaríska dollara og búa því jafnan við nákvæmlega sömu verðbólgu og í Bandaríkjunum, það er að segja næstum enga.

Samt eru Panamamenn ekki undirgefnir Bandaríkjunum. Þeir hafa raunar í vaxandi mæli staðið uppi í hárinu á Bandaríkjastjórn og unnið gegn stefnu hennar í málum Mið-Ameríku, til dæmis Nicaragua. En Bandaríkjastjórn getur ekki bannað þeim að nota dollara.

Við ættum ekki að taka upp bandaríska dollara sem mynt, af því að reynslan sýnir, að þeir geta fallið í verði. Nærtækara væri að taka upp svissneska franka, því að reynslan sýnir, að þeir falla alls ekki í verði.

Við gætum einnig tekið upp svissnesku hefðina að nota hvaða gjaldgenga mynt sem er og þar á ofan reikningsmyntir á borð við ECU Efnahagsbandalagsins og SDR Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Altjend eigum við að leggja niður krónu, sem hlegið er að og er okkur til skammar.

Með afnámi krónunnar mundum við í einu vetfangi leggja niður möguleika stjórnvalda á heimaframleiddri verðbólgu á kostnað útflutningsatvinnuveganna. Við yrðum raunar loksins að efnahagslega sjálfstæðri þjóð.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvað með fiskinn

Greinar

Kvikmyndin um kjarnorkustríð, sem sýnd var í sjónvarpinu um daginn, hefur endurvakið umræðu um lélegt ástand íslenzkra almannavarna. En umræðan varð ekki langvinn, því að áhugaleysi okkar á almannavörnum stingur í stúf við ríkjandi sjónarmið í nágrenninu.

Við þurfum öflugar almannavarnir, ekki bara vegna eldgosa og annarra náttúruhamfara, heldur einnig vegna atómstríðs, jafnvel þótt engar sprengjur féllu hér á landi. Við verðum að vera undir það búin, að áhrif slíkrar styrjaldar berist vítt um jörðina.

Margir telja, að sjónvarpskvikmyndin hafi vanmetið áhrif kjarnorkustyrjaldar á veðurfar og gróðurskilyrði. Um leið má segja, að hún hafi líka vanmetið getu þjóðfélags manna til að skipuleggja sig að nýju við erfiðar aðstæður og koma af stað endurnýjaðri tækniþróun.

Fyrir löngu er orðið tímabært, að Íslendingar vakni til lífsins í almannavörnum. Við lifum ekki lengur við ógnaröryggi atómsprengjunnar. Það hefur breytzt í tímahraks-óöryggi. Viðbragðstími heimsveldanna gegn kjarnorkuárás er kominn niður fyrir tíu mínútur.

Við slíkar aðstæður er enginn tími til að halda fundi, ef tölvurnar segja, að kjarnorkuárás sé skollin á. Tækniþróunin hefur valdið því, að það er ekki lengur skák heimsveldanna, heldur hættan á tæknimistökum, sem er orðin líklegasta orsök atómstríðs.

Hið fyrsta, sem við þurfum að gera okkur grein fyrir, er, hvort við höfum mat. Svo vel vill til, að við höfum meiri matarbirgðir miðað við fólksfjölda en nokkur önnur þjóð í heiminum. Birgðir okkar af búvöru eru skiptimynt ein í samanburði við birgðir sjávarfangs.

Í hverju plássi landsins er fullt af frosnum fiski og öðrum sjávarafla, sem líklega gæti nægt þjóðinni í nokkur ár, ef hún yrði sambandslaus við umheiminn og hefði enga olíu til að veiða meiri fisk. Almannavarnir hafa ekkert látið frá sér fara um þetta mikilvæga atriði.

Hvað á að gera við allan þennan fisk Við þurfum að vita, hvort geymslurnar séu öruggar gegn geislun og öðrum stríðsáhrifum. Við þurfum að búa svo um hnútana, að fiskur og önnur matvæli vinnslustöðvanna endist okkur um ófyrirsjáanlega framtíð.

Vitrænasta verkefni almannavarna væri að haga málum þannig, að geymslurnar væru öruggar gegn geislun og héldu rafmagni í hamförum. Unnt þarf að vera að olíukeyra frystingu í geymslunum, meðan verið er að koma raforkuverum og rafveitum í gang.

Í þessu skyni þurfa að vera til gangfærar dísilstöðvar og nægar birgðir af olíu, svo og rekstrarvörum til að koma orkuverum í gang eftir stóráföll og til að halda þeim síðan í gangi um langan aldur. Aldrei hefur sézt nein opinber áætlun um slík atriði.

Um alla sjávarsíðu Íslands býr fólk í járnbentum steinsteypuhúsum nokkurn veginn við hlið hinna gífurlegu matarforðabúra fiskvinnslunnar. Það ætti að vera tiltölulega ódýrt skipulagsatriði að tryggja, að lífið haldi áfram í flestum þessara byggðarlaga.

Maðurinn hefur undraverða hæfileika til að laga sig að breyttum aðstæðum. Þar að auki höfum við tækniþekkingu og mikla reynslu af skipulagningu starfa okkar. Engin ástæða er til að ætla, að mannkynið leyfi rottunni að taka völdin á jörðinni, þótt slysið gerist.

Þó er hart, að einmitt þjóð fjarlægðar, einangrunar, matarbirgða, tækniþekkingar og peninga skuli fljóta sofandi að feigðarósi skorts á almannavörnum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þrýst á sjóð

Greinar

Minna hefur farið fyrir tíðindum af endursölu Fiskveiðasjóðs á Helga S. en á Kolbeinsey og Sigurfara II. Er sú sala þó dularfull eins og sala Kolbeinseyjar var og sala Sigurfara II virtist ætla að verða. Skýringum hefur verið lofað, en engar fengizt, svo vitað sé.

Særún á Blönduósi bauð hæst í Helga S., 70,6 milljónir króna. Samt var á gamlársdag óvænt gengið frá sölu bátsins til næstbjóðanda, Samherja á Akureyri, sem hafði boðið 68 milljónir. Samherji lét síðan bátinn snarlega í skiptum fyrir stærra skip að sunnan.

Bankastjóri Fiskveiðasjóðs hafði áður haft símasamband við Særúnu til að fá á tilboði hennar skýringar, sem hann fékk. Að öðru leyti var ekkert rætt við fyrirtækið, hvorki fyrr né síðar. Særúnarmenn fréttu í blöðunum, að Helgi S. hefði verið seldur öðrum.

Síðan hefur Særún í tvígang sent stjórn sjóðsins bréf til að óska skýringa á meðferð hans á málinu. Þar er bent á, að Særún hafi aldrei fengið að ræða við sjóðinn um greiðslutryggingar eða önnur framkvæmdaatriði. Þessum bréfum var ekki svarað fyrr en seint og illa.

Í blaðaviðtali hefur bankastjóri Fiskveiðasjóðs lofað útskýringum. Ekki er vitað til, að þær hafi enn litið dagsins ljós, þótt langur tími sé liðinn. Ekki verður hjá því komizt að draga þá ályktun, að sjóðurinn eigi í erfiðleikum með að verja hina undarlegu málsmeðferð.

Endursala sjóðsins á Sigurfara II var í þann veginn að falla í sama farið og salan á Kolbeinsey, þegar sjóðsstjórnarmenn börðu loks í borðið. Komið hafði í ljós í Kolbeinseyjarmálinu, að þeir létu stjórnmálamenn ráða ferðinni. Það orðspor gátu þeir ekki sætt sig við.

Nokkrir stjórnarmanna hótuðu að segja af sér, ef alþingismenn Vesturlands létu ekki af þrýstingi á sölu Sigurfara II til Grundarfjarðar í stað Akraness, alveg eins og alþingismenn Norðausturlands höfðu stjórnað sölu Kolbeinseyjar til Húsavíkur í stað Akureyrar.

Batnandi mönnum er bezt að lifa. Vonandi hafa ráðamenn Fiskveiðasjóðs lært nóg af mistökunum við endursölu Kolbeinseyjar og Helga S. Vonandi er uppreisn þeirra í Sigurfaramálinu vísbending um, að framvegis ráði efnisatriði, en ekki pólitískur þrýstingur.

Í báðum tilvikum er athyglisvert, að ekki er um að ræða hagsmunaágreining milli kjördæma, heldur innan þeirra. Í báðum tilvikum voru þingmenn og sjávarútvegsráðherra að reyna að ýta skipinu til eins staðar í kjördæminu á kostnað annars.

Ennfremur er athyglisvert sjónarmiðið, sem hefur komið fram í máli þrýstiþingmanna. Þeir virðast telja, að þjóðfélagið í heild eigi að taka ábyrgð á útgerð fiskiskipa. Ef útgerð verði gjaldþrota, sé rétt að opinber sjóður beri tjónið og láti skipið síðan til sama staðar.

Annað sjónarmið réð, þegar Grandi var stofnaður í Reykjavík. Þá tók borgin á sig 150 milljónir af skuldum Ottós N. Þorlákssonar til að búa skipinu rekstrargrundvöll í framtíðinni. Menn töldu sér ekki sæma að vaða í Fiskveiða-, Byggða- eða Framkvæmdasjóð.

Ef skoðun þrýstiþingmanna yrði ríkjandi, mundi hún efla byggðagildruna enn frekar en orðið er. Gildran felst í, að fólk er fengið að setjast einhvers staðar að eða til að halda áfram búsetu á grundvelli afar vanmáttugra atvinnufyrirtækja, sem fara sí og æ á höfuðið.

Hún mundi einnig leiða til, að hætt yrði útboðum fiskiskipa, sem gjaldþrota hafa orðið. Slík útboð eru marklaus, nema bezta tilboði sé jafnan tekið.

Jónas Kristjánsson

DV

Sverrir stöðvar tunglin

Greinar

Margir telja ranglega, að frelsisöld í útvarpi hafi runnið upp í gær, þegar Sverrir Hermannsson menntaráðherra ritaði eftir dúk og disk undir þrjár reglugerðir um framkvæmd útvarpslaganna ársgömlu. Í raun skerða reglugerðirnar frelsi útvarpslaganna.

Samkvæmt reglugerðunum verður mjög lítið um, að unnt verði að taka við sjónvarpsrásum frá gervihnöttum. Aðeins ein rás, sem nú er rekin, hlýtur náð fyrir augum ráðherrans. Það er Music Box, sem sendir popp eða skonrokk þindarlaust í átján tíma á dag.

Efni af slíku tagi þarf ekki að þýða á íslenzku. Erlendir söngtextar fá sérstöðu, sem fæst annað efni gervihnatta fær. Þar með verða margir áhugamenn um gervihnattasjónvarp að sitja undir skonrokki, sem verður afar þreytandi eftir 1,8 tíma, hvað þá átján tíma.

Tölur um sjónvarpsnotkun sýna, að í Evrópu er mun meira horft á Sky, sem er blanda bíómynda, framhaldsþátta og skonrokks. Af því efni verður aðeins hægt að nota skonrokkið hér á landi. Hitt efnið þyrfti að texta, þar sem það er ekki sent úr beinni upptöku.

Reglugerðir ráðherrans gera ráð fyrir, að einungis megi nota hér á landi gervihnattaefni, sem tekið er upp beint af atburðum, sem gerast í sömu andrá, og sent viðstöðulaust um hnettina. Slíkt gildir aðeins um lítið brot af efni gervihnattarásanna.

Fréttarásirnar, sem nú eru komnar til skjalanna og senda fréttir stanzlaust, jafnvel allan sólarhringinn, senda yfirleitt ekki beint frá atburðum, sem eru að gerast í sömu andrá. Fréttaþættir þeirra eru settir saman í sjónvarpsstöðvum eins og gert er hér.

Reynt fólk veit, að ekki er unnt að texta eða endursegja slíka fréttaþætti um leið og þeir eru sendir út. Það er ekki hægt að snara ensku svo hratt, þótt margir séu góðir í þeirri tungu. Enn síður er von á aðgangi frétta á öðrum og erfiðari tungumálum.

Íslendingar geta því hvorki notfært sér Cable News Network né World Public News, þótt hinar tæknilegu aðstæður yrðu í lagi. Enn síður gætum við notað fréttir hinna mörgu gervihnattarása á öðrum tungumálum en ensku, sem hótelgestir í Reykjavík geta þó séð.

Margir ímynda sér, að nú renni upp öld íþróttafrétta á gervihnattarásum. Það er borin von. Íþróttarásin, sem nú er send um gervihnött, sendir ekki beint frá atburðum, sem eru að gerast í sömu andrá. Hún pakkar fréttunum saman og sendir síðan frá sér.

Sverrir Hermannsson hefur þannig strikað út möguleika Íslendinga á að horfa á Screen Sport, alveg eins og hann hefur hafnað þeim rásum, sem hér hafa verið nafngreindar, svo og TeleClub, Premiere, RTL Plus, Mirrorvision, The Childrens Channel, TV5 og FilmNet.

Ef til vill koma síðar til sögunnar rásir, sem senda fréttir eða íþróttaviðburði beint, í sömu andrá og þeir gerast, en slíkt er ekki fyrirsjáanlegt. Það verður því löng bið á, að ráðherra hleypi Íslendingum að gervihnöttunum, sem fjölgar óðum á himinhvolfinu.

Hið eina, sem hann vill leyfa okkur að hafa, er skonrokkið. Eina undankomuleiðin er að taka sér bólfestu í fjölbýlishúsi, sem hefur 36 íbúðir eða færri. Slík hús hafa undanþágu frá textunarskyldunni. Má því búast við, að skógur móttökudiska verði fljótlega skrautlegur.

Slíkar reglugerðir geta eingöngu komið frá ráðherra, sem opinberlega hefur fallið á íslenzkuprófi og er þess vegna með á heilanum, að íslenzk tunga sé í stórhættu.

Jónas Kristjánsson

DV

Merk þjóðhagstilraun

Greinar

Framlag ríkisstjórnarinnar í gær til lausnar kjaradeilunni var tiltölulega gott. Í því fólst tilraun til að stuðla að friði á vinnumarkaði, bæta kaupmáttinn með stjórnvaldsaðgerðum um 2% og koma verðbólgunni niður fyrir 10% í lok þessa árs.

Aðilar vinnumarkaðsins eru sízt ánægðir með, að ríkisstjórnin treystir sér ekki til að frysta búvöruverð. Hún lofar aðeins að stuðla að hóflegri hækkun búvöruverðs. Um þetta var raunar ágreiningur í ríkisstjórninni. Þar vildu framsóknarmenn ekki lofa meiru.

Við nánari skoðun á ríkisstjórnin ekki margra kosta völ á þessu sviði. Ákvörðun búvöruverðs er meira eða minna bundin í lögum. Ríkisstjórnin verður að standa við þau, þótt þau séu bæði vitlaus og skaðleg. Þau eru raunar hornsteinn stjórnarþátttöku Framsóknar.

Ríkisstjórnin getur hindrað verðbólgu búvöru á þann hátt einan að hækka niðurgreiðslur úr ríkissjóði. Þar sem niðurgreiðslur eru enn skaðlegri en sjálfvirkni hækkunar búvöruverðs, væri að fara úr öskunni í eldinn að reyna að leysa vandann á þann hátt.

Aðilar vinnumarkaðsins verða að átta sig á, að landbúnaðurinn tekur ekki neinn þátt í byrðum væntanlegs samkomulags, heldur verður ríkissjóður einn að gera það, að því er varðar búvöruverð. Og byrðar hans eru betur komnar í annarri mynd en niðurgreiðslum.

Samkvæmt tilboði stjórnarinnar munu tekjur ríkisins minnka um tvo milljarða frá því, sem áður var ráðgert. Er gert ráð fyrir verðlækkun rafmagns og ýmissar þjónustu, svo og tekjuskatts og útsvars. Erfitt er að sjá, hvernig ríkisstjórnin ætlar að standa við allt þetta.

Lítt dugar að lækka tekjur ríkisins, ef jafngildur sparnaður kemur ekki á móti. Um hann eru engar upplýsingar á þessu stigi málsins. Ef tekjulækkunin kemur að mestu leyti fram í auknum taprekstri ríkissjóðs er að sjálfsögðu verr af stað farið en heima setið.

Eitt mikilvægasta atriði þess, að verðbólgu sé haldið í skefjum eða minnkuð, er, að ríkissjóður efni ekki til meiri skuldasöfnunar í útlöndum en þegar er orðin. Ábyrgðarlaus loforð um minnkaðar ríkistekjur geta hæglega leitt til afleitrar skuldasöfnunar í útlöndum.

Ríkisstjórnin hyggst lækka nafnvexti úr 32% í 20% strax um næstu mánaðamót og síðan smám saman niður í 12%. Síðasta talan er ekki óraunhæf, ef verðbólgan verður þá komin niður fyrir 10%. En ofætlað er, að verðbólgan verði 1. marz komin niður fyrir 20%.

Með hinni miklu lækkun nafnvaxta er ríkisstjórnin að bjóða upp á aukið misræmi í vöxtum og flótta sparifjár úr bönkum. Tilboðið hefði verið trúverðugra, ef ekki væri farið svona gassalega af stað. Tilboðið er raunar hættulegt eins og það lítur út núna.

Þannig eru ýmsir annmarkar á framlagi ríkisstjórnarinnar til lausnar kjaradeilunni. Þó er enn ótalin sú hugmynd hennar að frysta skráningu gengis krónunnar á þessu ári. Hún er stórhættuleg, en stuðlar þó að minnkaðri verðbólgu á þessu ári.

Mestu máli skiptir, að ríkisstjórnin finni leiðir til að spara á móti samdrætti tekna ríkisins. Ef svo verður, er hugsanlegt að markmiðið náist að meira eða minna leyti, að verðbólga hraðminnki og kaupmáttur aukist lítillega ­ auk friðarins á vinnumarkaði.

Samningsaðilar ættu að taka vel tilboði ríkisstjórnarinnar, þrátt fyrir annmarka þess, og freista þess að fylla í eyður þess. Það er þátttaka í merkri þjóðhagstilraun.

Jónas Kristjánsson

DV

Marcos þrjózkast við

Greinar

Þótt Corazon Aquino hafi unnið forsetakosningarnar á Filippseyjum, er fremur ólíklegt, að hún komist til valda. Í morgun virtust mestar líkur á, að Ferdinand Marcos mundi halda dauðahaldi í völdin og láta þægt þingið lýsa sig sigurvegara.

Óháðir áhorfendur eru sammála um, að menn Marcosar hafi stundað stórfellt kosningasvindl. Ofríki þeirra var slíkt, að starfsfólk við talningu átti fótum fjör að launa. Þessar kosningar eru einn svartasti bletturinn á ljótri glæpasögu Marcosar Filippseyjaforseta.

Óháð eftirlitsstofnun og erkibiskupinn í Manilla hafa lýst Corazon sigurvegara kosninganna og telja hana hafa unnið með miklum yfirburðum. Jafnvel kosningastofnun ríkisins varð um tíma að viðurkenna, að hún stæði framar í talningunni.

Frank Murkowski, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Alaska, kom í nótt frá Filippseyjum heim til Anchorage. Hann var í eftirlitsnefnd Reagans Bandaríkjaforseta. Við komuna sagði hann, að menn Marcosar væru önnum kafnir við að falsa kosningaúrslitin.

Þegar nóg hefur verið falsað, er ætlunin, að þjóðþingið á Filippseyjum, sem að mestu er skipað mönnum Marcosar, komi saman til að lýsa hann sigurvegara. Fyrstu fréttir bentu ekki til, að Marcos mundi koma heiðarlega fram í þessu máli frekar en öðrum.

Ferdinand og Imelda Marcos eru sennilega mesta þjófahyski, sem nú er uppi í heiminum. Þau hafa mergsogið Filippseyjar og komið milljörðum fyrir í Banda ríkjunum og víðar um heim. Talið er, að Suharto í Indónesíu komist ekki í hálfkvisti við þau í þjófnaði.

Þar á ofan er líklegt, að Marcos eða frúin hafi látið myrða einn helzta stjórnarandstæðinginn, eiginmann Aquino, á flugvellinum í Manila. Yfirmaður hersins var að vísu sýknaður í því máli, en á afar vafasömum forsendum. Hann er hægri hönd Marcosar.

Kominn er tími til að létta oki Marcosar af Filippseyingum. Kosningarnar gáfu vonir um, að bættir tímar væru í aðsigi. Ef til vill sér Marcos að sér og viðurkennir ósigur sinn. En í morgun voru því miður engin teikn á lofti um, að hann mundi virða leikreglur.

Bezt væri, að Ferdinand og Imelda færu til útlanda og byrjuðu að eyða illa fengnum auði sínum. Lítill vafi er á, að þau fengju hæli í Bandaríkjunum sem gamlir skjólstæðingar Bandaríkjastjórnar. Raunar kæmi vel á vondan, að þau settust að þar.

Filippseyjar ættu að geta verið ríkt land, en þjóðinni hefur verið haldið í sárustu fátækt. Hún hefur menntun og dugnað til að komast áfram eins og Suður-Kóreumenn, Taiwanir og Singapúrar hafa gert. En persónuleg græðgi Marcosar hefur gert hana fátæka.

Þessi heimshluti skiptir Vesturlönd miklu máli. Þar hefur verið tilhneiging til lýðræðis, sumpart fyrir áhrif frá Japan og Vesturlöndum. Slíkrar tilhneigingar verður ekki víða annars staðar vart í þriðja heiminum, þar sem einræði harðstjóra er hin almenna regla.

Um leið hafa flest ríkjanna í þessum heimshluta sótt fram í átt frá þriðja heiminum til vestrænnar iðnbyltingar og bætts efnahags. Filippseyjar hafa setið eftir, einmitt fyrir tilstilli Marcosar-hjónanna, sem hafa eingöngu hugsað um að skara eld að eigin köku.

Vonandi tekst glæpalýð Marcosar ekki að hindra valdatöku hins rétt kjörna forseta, Corazon Aquino. En útlitið var því miður svart í morgun.

Jónas Kristjánsson

DV

Krónan er marklaus mynt

Greinar

Vel hefur komið í ljós á síðustu dögum, hversu mikilvæg er skráning gengis krónunnar í tilraunum stjórnvalda til að halda friði í þjóðfélaginu. Ef þeim tekst að komast hjá gengislækkun, spara þau sveiflu á verðbólguhjólinu og létta af kaupkröfuþrýstingi.

Að þessu sinni var fyrsta krafa Alþýðusambandsins, að gengi krónunnar yrði fryst. Þetta var gert með stuðningi Vinnuveitendasambandsins. Ríkisstjórnin var ekki sein á sér að lofa þessu umfram annað. Hún hagnýtti sér þar með hagstæðar breytingar á ytri aðstæðum.

Verðhrun olíu og verðhækkun fiskafurða á erlendum markaði hefur linað þrýsting útflutningsgreina á gengislækkun. Talið er, að útgerð og fiskvinnsla hafi undanfarnar vikur verið rekin nokkurn veginn taplaust. Gengisfrysting setur þau ekki á höfuðið að sinni.

Áratugum saman hefur eitt meginmarkmiða hverrar ríkisstjórnar á fætur annarri verið að halda afkomu sjávarútvegs í núlli. Þetta hefur verið framkvæmt á þann veg, að afkoman hefur verið höluð úr taprekstri upp í núllið, oftast með síðbúnum gengislækkunum.

Þær hafa svo reynzt ríkisstjórnum þungbærar, því að þær hafa aukið verðbólguna og kallað á kaupkröfur, sem hafa meira eða minna étið upp árangur lækkaðs krónugengis. Þannig hafa gengislækkanir verið eitt auðþekktu sporanna í verðbólgudansinum.

Það er hátíð í bæ ráðamanna, þegar þeim tekst að komast hjá gengisfellingu, svo sem tekizt hefur í vetur. Enn meiri er gleðin nú, þegar breytingar ytri aðstæðna gera þeim kleift að horfa fram á gengisfryst ár. Þetta sparar þeim ótrúlega mikið af vandræðum.

Slíkir hamingjutímar standa sjaldan lengi. Ytri aðstæður sveiflast til og frá. Fyrr en varir standa stjórnvöld andspænis roknatapi útflutningsatvinnuvega og neyðast þess vegna til að lækka gengi krónunnar og þá venjulega meira en lítið hverju sinni.

Nú eru liðin tíu ár síðan fyrst var lagt til í leiðurum þessa blaðs, að stjórnvöld væru losuð við þetta dýr keypta hagstjórnartæki, sem raunar er ekkert annað en vanabindandi og hættulegt deyfilyf. Tímabundnar þjáningar eru linaðar á kostnað útflutningsgreina.

Hin opinbera gengisskráning er skýrasta dæmi íslenzkra efnahagsmála um heimatilbúið vandamál, sem bakar meiri erfiðleika í náinni og fjarlægri framtíð en sem svarar þeim þjáningum, er hún linar á líðandi stund. Verst er, hversu handhæg og freistandi hún er.

Fyrir tíu árum var hér í blaðinu bent á, að góð lausn þessa vanda fælist í að leggja krónuna niður og taka upp einhvern alþjóðlegan mælikvarða, eins og við tókum á sínum tíma upp metrakerfið í staðinn fyrir álnir vaðmáls og fjórðunga fiska.

Hugmyndin hefur loks náð þeirri útbreiðslu, að Alþýðubandalagið og Morgunblaðið hafa sameinazt um að vara við henni. Þessir hugsjónabræður telja hana vera uppgjöf í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Íslenzk mynt sé forsenda efnahagslegs sjálfstæðis okkar.

Staðreyndin er hins vegar sú, að íslenzka krónan er ímynduð og marklaus mynt. Gengisskráning hennar hefur ekki hið minnsta gildi í útlöndum, hefur þvert á móti orðið okkur til siðferðilegs og efnahagslegs hnekkis og spillt stöðu okkar á báðum sviðum.

Margar fjölmennari og ekki síður virtar þjóðir nota aðra mynt en sína og losa sig þar með við freistingu, sem hefur valdið okkur efnahagslegu ósjálfstæði.

Jónas Kristjánsson

DV

Góðæri í vændum

Greinar

Skjótt hafa skipazt veður í lofti. Ytri aðstæður í efnahagsmálum Íslendinga hafa snögglega batnað. Þar með hefur ríkisstjórnin orðið traustari í sessi og komizt í aðstöðu til að miðla málum á vinnumarkaði, svo að friður haldist um að nýta góðærið til fulls.

Einna mestu máli skiptir lækkun hráolíunnar úr 30 dollurum í 20. Hér á landi ætti hún að endurspeglast í 1,4 milljarða króna verðlækkun ársnotkunar okkar af unnum olíuvörum. Þetta er gjaldeyrissparnaður, sem kemur öllum að gagni og útgerðinni að mestu gagni.

Teikn eru á lofti um, að olían kunni að lækka niður í 15 dollara og jafnvel 10. Dæmi um slíkar sölur eru þegar til, en óráðlegt er að gera ráð fyrir, að þær verði varanlegar. Enda má segja, að 20 dollara verðið sé okkur nægt happ, sem ekki hefni sín í síðari hækkun.

Til viðbótar við þennan gjaldeyrissparnað kemur aukning gjaldeyristekna um einn milljarð króna á ári vegna hækkunar á verði fiskafurða erlendis. Þessi hækkun ætti að geta orðið langvinn, því að olíulækkunin mun efla dollarann og vestrænan efnahag.

Spáð er, að olíulækkunin muni ekki aðeins auka hagvöxt hjá viðskiptavinum okkar á Vesturlöndum, heldur í framhaldi af því draga úr verðbólgu og lækka raunvexti. Sú lækkun á síðan að geta lækkað raunvexti hér á landi, því að við treystum á erlent lánsfé.

Alþýðusambandið hefur, með stuðningi Vinnuveitendasambandsins, lagt fram tillögur, sem ríkisstjórnin hefur tekið vel. Þær fjalla um, að gengi krónunnar verði fryst, skattar og vextir lækkaðir og verðlagshækkanir stöðvaðar. Þetta er allt hægt að gera.

Annað mál er, hversu skynsamlegt það er til langframa, að stjórnvöld stundi kukl af þessu tagi. Hágengi gjaldmiðils hefur hvarvetna reynzt skaða þjóðarhag. Allar handaflsgerðir af því tagi, svo og í vöxtum og verðlagi, hafa tilhneigingu til að hefna sín.

Hins vegar mun þessi ríkisstjórn halda hinni hefðbundnu stefnu að skrá gengi krónunnar á þann hátt, að útgerð og fiskvinnsla standi sem næst á núlli. Og nú hafa ytri aðstæður leitt til, að þessi hornsteinn atvinnulífsins er óvænt kominn upp í núllið.

Ríkisstjórnin mun því telja sér kleift að fallast á tillögu Alþýðusambandsins um gengisfrystingu. Ennfremur gæti vaxtalækkun í umheiminum leitt til, að raunvextir lækkuðu skaðlítið hér landi. Loks veitir olíulækkunin svigrúm til að færa skatta yfir á olíuvörur.

Með slíkum hætti er ekki fráleitt að ætla, að þjóðarsátt geti tekizt um lækkun verðbólgunnar og lítillega bættan kaupmátt. Hið síðara er raunar sjálfgefið í góðæri eins og virðist í uppsiglingu. Hið fyrra verður vinsælt, þótt það sé handaflsvinna, ekki varanleg.

Góðæri eru ekki eingöngu af hinu góða. Góðærið, sem nú er í uppsiglingu, mun fresta því, að ríkisstjórnir telji sig þurfa að snúa sér að raunhæfum og varanlegum aðgerðum á borð við raunvextina á sínum tíma. Markaðsgengi krónunnar verður til dæmis að bíða.

Sífelld misnotkun stjórnvalda á gengisskráningu til að auðvelda sér róður gegn verðbólgu hefur leitt til útbreiðslu skynsamlegra skoðana um, að ekki henti efnahagslegu sjálfstæði okkar að hafa sérstaka krónu, ekki fremur en sérstakar mælieiningar á öðrum sviðum.

Hinn nýi möguleiki á gengisfrystingu, bættum árangri í verðbólgustríðinu og friði á vinnumarkaði mun valda því, að ekki verður hlustað á neitt slíkt að sinni.

Jónas Kristjánsson

DV

Íslenzkur olíugróði

Greinar

Olíufélögin, ríkisstjórnin, vinnuveitendasambandið og aðrir hagsmunaaðilar munu reyna að gera lítið úr þeirri lækkun olíuverðs, sem orðið hefur á síðustu þremur mánuðum. Staðreyndin er þó sú, að lækkunin nemur heilum þriðjungi hráolíuverðs, tíu dölum á tunnuna.

Hvort sem mælt er í verðlagi á Rotterdammarkaði eða á bandarískum markaði, er niðurstaðan hin sama. Hráolía, sem kostaði í byrjun nóvember rúmlega 30 dali tunnan, er nú komin niður fyrir 20 dali. Þetta er ekkert venjulegt verðfall, heldur hreint verðhrun.

Jamani, olíuráðherra Saúdi-Arabíu, hefur hótað félögum sínum í olíuframleiðslusamtökunum Opec, að verðið geti lækkað niður í 15 dali á tunnuna.

Saúdi-Arabía dró á undanförnum árum mjög úr olíuvinnslu og fór raunar langt niður úr kvótanum, sem ríkinu bar samkvæmt samkomulagi olíuríkjanna. Ýmis önnur ríki fóru hins vegar langt fram úr kvótanum í trausti þess, að Saúdi-Arabía sæi um samdráttinn.

Í nokkur ár hefur verið offramboð á olíu. Iðnríki Vesturlanda hafa náð góðum árangri í orkusparnaði og mildir vetur hafa dregið úr húshitunarþörf. Afleiðingin er sú, að dagprísar á olíu á markaði í Rotterdam hafa lengi verið lægri en uppsett verð Opec-ríkjanna.

Á sama tíma hefur orðið mikill samdráttur í efnahag Saúdi-Arabíu. Þetta ríki, sem til skamms tíma óð í peningum, getur nú tæpast staðið við fjárhagslegar skuldbindingar sínar. Margir mánuðir eru síðan ríkið fór að benda á, að þanþol þess væri þrotið.

Þessi breyting verður langvinn. Hún stendur að minnsta kosti í nokkur ár. Hún mun hafa gífurleg áhrif á efnahag orkukauparíkja, þar á meðal Íslands. Hún ætti að duga til að ná okkur upp úr kreppunni, sem hefur hrjáð okkur í nokkur undanfarin ár.

Að vísu staðfestir verðhrun olíunnar, að íslenzkt fossafl er ekki samkeppnishæft á heimsmarkaði. Það var raunar ekki söluhæft á tímum háa olíuverðsins, en nú höfum við fengið tækifæri til að viðurkenna, að framtíð okkar felst ekki í orkufrekum iðnaði.

Hagur okkar felst ekki aðeins í lækkun árlegs olíukaupareiknings úr fimm og hálfum milljarði króna niður í fjóra til fjóra og hálfan. Hagur okkar felst líka í, að viðskiptaríki okkar, þar á meðal Bandaríkin, verða ríkari. Þau hafa efni á að borga meira fyrir fiskinn.

Spámenn í fjármálum telja, að lækkun Bandaríkjadals hafi stöðvazt og að líkur séu á nokkurri hækkun hans á næstu mánuðum. Söluverð afurða okkar er að verulegu leyti reiknað í dölum, svo að við munum njóta til fulls þessarar óbeinu afleiðingar verðhruns olíunnar.

Þetta mun auðvelda samninga um fiskverð og launataxta. Ríkisstjórnin mun treystast í sessi og væntanleg sitja út kjörtímabilið, þrátt fyrir ágreining á ýmsum sviðum. Hún mun komast upp með að halda áfram að falsa gengi krónunnar til að ná sér í vinnufrið.

Svo vel vill til, að á sama tíma hefur verðjöfnunarreikningur olíufélaganna verið jafnaður nokkurn veginn að fullu. Þess vegna væri hægt að láta útgerð og aðra orkukaupendur njóta verðhrunsins að fullu. Olíufélögin og ríkisstjórnin munu sjá um, að svo verði ekki.

Það breytir ekki því, að þjóðfélagið í heild mun spara einn til einn og hálfan milljarð króna á hverju ári. Þótt ríkisvaldið hirði mestan hluta kökunnar, kemur verðhrunið öllum að gagni, því að það dregur úr sárri skattahækkunarþörf vorrar eyðslusömu ríkisstjórnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Millifærslu-Sambandið

Greinar

Samband íslenzkra samvinnufélaga hefur beðið mikinn álitshnekki af kaffibaunamálinu. Að vísu er ákæra enginn dómur, en ákæruatriði ríkissaksóknara eru alvarlegs eðlis. Þau vísa til ýmissa lagagreina, þar sem gert er ráð fyrir margra ára varðhaldsrefsingu.

Varnir forustumanna Sambandsins hafa hingað til verið léttvægar. Þeir hafa gert mikið úr, að Sambandið eða samvinnuhreyfingin hafi ekki verið ákærð, heldur nafngreindir einstaklingar. En lögum samkvæmt þurfa slíkar ákærur að beinast að fólki og ekki stofnunum.

Flest bendir til, að í málflutningi muni af hálfu Sambandsins verða haldið fram, að um afsakanlega lögvillu, vanþekkingu eða misskilning hafi verið að ræða og því megi færa refsingu niður úr lágmarkinu, sem ákveðin er í lagagreinunum, er ákæran vísar til.

Þetta er ekki í fyrsta sinn, sem Sambandið eða fyrirtæki á vegum þess lenda í vafasömum málum. Frægt var olíumálið á sínum tíma. Samt hefur mörgum fundizt liggja í loftinu, að Sambandið væri svo voldugt, að almennar reglur um fyrirtæki næðu ekki til þess.

Samkvæmt ákærunni hefur Sambandið ekki þessa sérstöðu. Eins og önnur fyrirtæki verður það að hafa bókhaldið hreint. Því dugir ekki frekar en öðrum að hagræða summum milli liða. Vonandi draga forustumenn þess lærdóm af útreiðinni, sem það fær nú.

Líklegt er, að Sambandið hafi farið offari á fleiri sviðum, þótt ekki sé það eins áþreifanlegt og kaffibaunamálið. Dæmi eru um, að það hafi legið á upplýsingum, sem gætu bent til, að stofnanir þess hagræði tölum á kostnað bænda, neytenda og skattgreiðenda.

Landssamband sauðfjárbænda var beinlínis stofnað í fyrra til að gæta hagsmuna þeirra gagnvart kaupfélögunum og Sambandinu. Á stofnfundi þess var krafizt opinberrar rannsóknar á verðmyndun á gærum og krafizt breyttrar afurðasölu samvinnuhreyfingarinnar.

Oft hefur komið fram, að lítil er trú manna á tölur sláturfélaganna og Sambandsins um sláturkostnað, geymslukostnað og flutningskostnað, enda hefur sundurliðun slíkra upplýsinga jafnvel verið haldið leyndri fyrir Alþingi, þótt til sé og eftir hafi verið leitað.

Ef sumar tölur um blýantskostnað og annan skrifstofukostnað í tengslum við slátrun, geymslu og flutning eru reiknaðar fram, koma út ævintýralegar niðurstöður, sem eru ekki í nokkru minnsta samhengi við raunveruleikann, er menn sjá, svo sem í mannahaldi.

Svo virðist sem það varði Sambandið engu, hversu lengi kjötið sé geymt, hvenær það sé selt og á hvaða verði. Ríkið borgar geymsluna svo vel, að margir telja, að hún sé arðvænlegri en salan. Ríkið borgar svo útflutninginn og sölulaun Sambandsins eru óháð verðinu.

Ef sláturfélög og Sambandið hagnast á geymslu kjöts, sölu þess til útlanda og á annarri slíkri iðju, er nauðsynlegt að grípa í taumana. Bændur telja sig hlunnfarna í þessum viðskiptum og skattgreiðendur þurfa að greiða miklar summur í niðurgreiðslur og uppbætur.

Nauðsynlegt er, að þjóðfélagið hafi aðstöðu til að kanna rækilega, hvernig kostnaður skiptist hjá risafyrirtæki eins og Sambandinu, sem liggur undir gagnrýni af ofangreindu tagi. Samanlagt er um að ræða ágreiningsefni, sem gætu hæglega skipt hundruðum milljóna.

Millifærslur samvinnuhreyfingarinnar í kaffibaunum benda eindregið til millifærsla á öðrum sviðum.

Jónas Kristjánsson

DV

Félag verður sjóður

Greinar

Þróunarfélagið hefur færzt nær uppruna sínum. Það verður opinber sjóður, arftaki Framkvæmdastofnunarinnar, svo sem Framsóknarflokkurinn alltaf vildi, þótt hann sætti sig um tíma með semingi við hlutafélagsformið. Ein fyrirgreiðslustofnun kemur í stað annarrar.

Þróunarfélagið hefur fengið framkvæmdastjóra forvera síns, framsóknarmann, sem hefur öðlast reynslu í fyrirgreiðslunni, sem jafnan hefur einkennt Framkvæmdastofnunina og gert hana svo óvinsæla, að nafnaskipti voru nauðsynleg. En sama stefnan heldur áfram.

Stjórnarformaðurinn og stjórnarmaðurinn, sem sögðu upp, hafa verið sakaðir um sýndarmennsku. Sá fótur er fyrir gagnrýninni, að þeir eru báðir hálfgildings stjórnmálamenn, ­hafa starfað innan Sjálfstæðisflokksins og voru á hans vegum í stjórn Þróunarfélagsins.

Sú stjórn var mynduð í samræmi við helmingaskiptaregluna, sem jafnan hefur einkennt samstarf Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Forsætisráðherra taldi rétt, að flokkur sinn fengi framkvæmdastjórann, úr því að hinn fékk formanninn og þrjá af fimm stjórnarmönnum.

Engum virðist hafa dottið í hug, að stjórn félagsins skyldi skipuð mönnum , sem ekki væru þar á vegum sérstakra stjórnmálaflokka. Þess vegna er tæpast fréttnæmt, þótt Framsóknarflokkurinn vilji hugsa helmingaskiptaregluna til enda, ­til rökréttrar niðurstöðu.

Forsætisráðherra hefur líka bent á, að mestallt hlutaféð komi frá ríkinu, stofnunum þess og sjóðum. Samkvæmt siðalögmáli hans er sjálfgefið, að stjórnmálamenn fari með umboð fyrir slíkt fé. Það siðalögmál hefur raunar ríkt hér svo lengi sem elztu menn muna.

Einhvern tíma verður að rjúfa hefð siðalögmáls forsætisráðherra. Einhvern tíma verðum við að losna við hugarfarið að baki Framkvæmdastofnun. Einhvern tíma verða stjórnmálaflokkkar framkvæmda- og löggjafarvaldsins að sleppa dauðahaldinu á peningavaldinu.

Fagna ber og ekki lasta, ef pólitískt kosnir fulltrúar í Þróunarfélaginu verða fyrstir til að rjúfa hefðina og heimta ópólitíska framkvæmdastjórn í því félagi. Einhvers staðar verður að byrja á að hleypa út skítalyktinni, sem fylgir stjórnmálaflokkunum í atvinnulífinu.

Athyglisvert er, að fulltrúar Sjálfstæðisflokksins klofna í máli þessu. Annars vegar eru uppreisnarmenn frá fyrirtækjum, sem standa vel. Hins vegar stendur með Framsóknarflokknum pilsfaldakapítalisti, sem varð í fyrra að segja fyrirtæki sitt til sveitar.

Þessi klofningur endurspeglar Sjálfstæðisflokkinn. Þar er mikið af fólki, sem lifir á fyrirgreiðslukerfi hins opinbera og vill halda áfram að hanga í pilsfaldinum, meðan aðrir vilja koma upp heilbrigðu fjármálakerfi í líkingu við það, sem tíðkast í öðrum löndum.

Í þessari atrennu tókst ekki að rjúfa hin spilltu tengsl stjórnmála og fjármála. Þróunarfélagið hefur verið eyðilagt sem framfaraafl í þjóðfélaginu, svo sem Framkvæmdastofnunarsinnar beggja flokka vildu.

Tilraunin var samt ekki gagnslaus, því að hún beindi kastljósi að vandanum. Einhvern tíma skal siðalögmál forsætisráðherra víkja. Það varð ekki í þetta sinn og verður ef til vill ekki í hið næsta. En stefnan er í átt til heilbrigðari tíma, ­sjálfstæðs atvinnulífs.

Fyrirgreiðslustefnan mun víkja í fyllingu tímans, þegar skorið verður á fjármálatengsl stjórnmála og atvinnulífs, svo sem gerzt hefur í öðrum löndum.

Jónas Kristjánsson

DV