Greinar

Óráðleg aðför að sjóði

Greinar

Farið hefur verið óþarflega geyst í að efla Lánasjóð námsmanna á undanförnum árum. Bakslagið hefur komið fram núna, þegar nýr menntamálaráðherra heggur að rótum lánakerfisins. Hann kann að komast upp með það, enda er víða grunnt á hatri í garð námsmanna.

Erfitt hefur reynzt að framkvæma sjóðslögin frá 1982, þar sem gert var ráð fyrir, að sjóðurinn lánaði námsfólki alla svonefnda umframfjárþörf þess. Námsfólki hefur fjölgað svo ört, að lánakerfi þess er orðið að jafnþungum bagga á ríkissjóði og húsnæðislánakerfið er.

Einfaldast hefði verið að fresta fullri framkvæmd laganna, unz meiri reynsla væri komin á endurgreiðslukerfið. Lögin gerðu ráð fyrir, að 85-90% lánanna skiluðu sér til baka. Margt bendir hins vegar til, að sumir greiði ekki nema helming lánanna til baka.

Reiknað hefur verið út, að lántaki, sem hefur stundað nám í fimm ár og hefur á bakinu einnar milljónar króna skuld við sjóðinn, þurfi að hafa 55 þúsund króna mánaðartekjur til að greiða skuldina að fullu. Sumir háskólamenn hafa ekki nema hálfar þessar mánaðartekjur.

Hingað til hefur kerfið sem slíkt ekki verið umdeilt. Pólitískt samkomulag hefur verið um, að námslán séu verðtryggð og vaxtalaus og endurgreiðslur fari ekki upp fyrir 3,75% af tekjum á 40 endurgreiðsluárum. Nú stendur til að kollvarpa þessu kerfi laganna frá 1982.

Sverrir Hermannsson hyggst leggja fram frumvarp til laga um, að námsmenn greiði rúm 3% í vexti og kostnað ofan á verðtryggingu, endurgreiði lánin á 30 árum og njóti ekki þaks á endurgreiðsluhlutfalli. Þetta er kúvending, sem á eftir að hafa mikil áhrif.

Vafalaust mun kerfi Sverris fæla efnalítið fólk frá námi. Vera má, að slíkt sé í samræmi við nýja hugmyndafræði í Sjálfstæðiflokknum. Ef svo er, þá hefur margt breyzt frá því fyrir fjórum árum, er flokkurinn hafði frumkvæði að því kerfi, sem nú er verið að rífa.

Í leiðinni kýlir Sverrir í kaf Vöku, félag sjálfstæðisflokksinnaðra stúdenta. Það félag var eftir langa eyðimerkurgöngu komið í meirihlutasamstarf í stúdentaráði. Það samstarf hefur nú rofnað og Vökumenn sjá fram á langvinna eyðumerkurgöngu á næstu árum.

Ekki bætir úr skák Vöku, að Sverrir fékk fulltrúa félagsins til að draga til baka úrsögn sína úr stjórn Lánasjóðs námsmanna og kyssa á vönd ráðherrans. Það verður ekki til að auka veg og vinsældir Vöku meðal námsmanna í náinni framtíð.

Þetta er í annað sinn á skömmum tíma, sem Sverrir vegur að Vökumönnum. Í fyrra skiptið spillti hann fullveldishátíðinni 1. desember, sem Vökumenn höfðu undirbúið, með því að halda hina snobbuðu móðurmálshátíð í Þjóðleikhúsinu nákvæmlega á sama tíma.

Fylgið, sem Sverrir skefur af Sjálfstæðisflokknum meðal námsmanna, kann hann að vinna upp úti í bæ, þar sem óbeit og jafnvel hatur á námsmönnum er landlægt. Slík viðhorf hafa blómstrað við, að námsmenn hafa farið betur út úr kreppunni en margir aðrir.

Við þessar aðstæður verður að vona, að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórninni hafi vit fyrir mönnum, svo að Lánasjóður námsmanna geti starfað áfram á óbreyttum grunni laganna frá 1982 – á ódýrari hátt en verið hefur að undanförnu, en bylting Sverris verði hafnað.

Að sinni er þægilegt að lemja á óvinsælum lánasjóði. En hættulegt og óráðlegt, þegar frá líður.Jónas Kristjánsson

DV

Hvíldarhæli ráðherra

Greinar

Til skamms tíma var ris á bönkum og öðrum lánastofnunum í landinu. Efnisleg og siðræn vinnubrögð voru í hægfara sókn, en flokkapólitíkin á undanhaldi. Sem dæmi má nefna, að bankaráð Búnaðarbankans hafnaði í tvígang þreyttum þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem bankastjórum og valdi atvinnumenn.

Að vísu gekk siðvæðingin ekki svo langt, að efnisatriði ein fengju að ráða. Bankamennirnir, sem hlutu hnossið, voru ráðnir sem umboðsmenn flokkanna, sem telja sig eiga bankakerfið í landinu. Bankamenn gátu ekki orðið stjórar nema á vegum einhvers stóru flokkanna.

Minnkun spillingarinnar fólst í, að bankaráðsmenn héldu áfram að viðurkenna tilkall stjórnmálaflokka til ákveðinna bankastjórasæta, en töldu rétt að velja í þau reynda bankamenn fremur en kvígildi af Alþingi. Þetta var auðvitað umtalsverð endurbót, þótt raunar sé eðlilegt, að flokkapólitík komi ekki til greina.

Að vísu byggðist siðbótin að nokkru leyti á, að flokkarnir tveir, sem ekki “áttu” sætið, gerðu með sér samblástur um að hafna þingmanni sætiseignarflokksins og að velja í hans stað bankamann úr sama flokki. Siðbótin var ekki reist á alveg hjartahreinum grunni.

Auðvitað datt engum í hug að velja til bankastjórnar menn, sem höfðu náð árangri í atvinnu- og viðskiptalífinu. Slíkt tíðkast þó mjög í útlöndum og þykir veita ferskum anda í staðnaða banka. Dæmi eru um þetta í einkabönkunum, en alls ekki í ríkisbönkunum.

Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa ekki verið eins heppnir og Búnaðarbankinn á undanförnum árum. Stjórnmálamenn af Alþingi og efnahagsstofnunum ríkisins hafa átt greiðan aðgang að stjórasætum bankanna tveggja, enda eru þeir afar illa reknir.

Útvegsbankinn hefur í vetur orðið ræmdur af Hafskipsmálinu og ábyrgðarlausum auglýsingum eftir sparifé. Landsbankinn er ræmdur fyrir að skulda Seðlabankanum hálfan milljarð krjóna í því, sem úti í bæ kallast vanskil. Af hluta þessarar upphæðar greiðir Landsbankinn upp undir 100% í refsivexti.

Síðustu daga hefur frægðarljóminn beinzt að Fiskveiðasjóði, sem undanfarinn áratug hefur staðið undir offjárfestingu í fiskiskipum. Þar hafa stjórnmálamenn af Alþingi og úr ríkisbönkunum að undanförnu verið að baka sjóðnum tjón með pólitísku byggðabraski.

Verst er, hve grátt flokkapólitíkin leikur Seðlabankann, sem ætti eðlis síns vegna að gnæfa yfir viðskiptabankana. Þar ættu eingöngu að veljast til starfa bankastjórar með óvenjulega traustan grunn í fjármálum, hagfræðum og utanríkisviðskiptum. En nú er hlaðið þar inn hverjum stjórnmálamanninum á fætur öðrum.

Ekki er hægt að sjá, að Tómas Árnason hafi átt nokkurt erindi í sess bankastjóra Seðlabankans. Og nú hefur Geir Hallgrímsson verið sendur þangað. Hann er að vísu frambærilegur maður, sem til dæmis er hægt að sýna útlendingum. En hann kemur ekki af sviðum, sem eru réttur bakgrunnur seðlabankastjóra.

Ein afleiðing þess, að Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn misnota Seðlabankann sem hvíldarhæli fyrrverandi ráðherra, er, að traust bankans rýrnar. Enda færist í vöxt, að litið sé á bankann sem málpípu þeirrar ríkisstjórnar, sem er við völd hverju sinni.

Hina pólitísku öfugþróun bankamála á síðustu árum þarf að stöðva – og snúa aftur á braut hægfara siðbótar.

Jónas Kristjánsson

DV

Skipulögð síkishús

Greinar

Röng er sú ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að koma nýrri stöð innanlandsflugs fyrir í nágrenni Nauthólsvíkur, sunnan athafnasvæðis Landhelgisgæzlunnar. Hún hefði mun betur átt heima nálægt hinum enda flugbrautarinnar, nær miðborginni.

Þar væri flugstöðin í nágrenni Umferðarmiðstöðvarinnar, hinnar miðstöðvar ferða til borgarinnar og frá henni. Sú staða leggur áherzlu á sérstöðu flugvallarins sem miðborgarvallar, er veitir landsbyggðarfólki greiðan og skjótan aðgang að helztu landsstofnunum.

Hringbrautin og Miklabrautin eru og verða meginás umferðar um borgina. Gott er, að samgöngumiðstöðvar séu við ásinn, ef þess er kostur. Flugstöðina er einmitt hægt að hafa þar, úr því að flugvallarsvæðið snertir Hringbrautina. Þannig á að hugsa dæmið til enda.

Við hönnun sjálfrar flugstöðvarinnar hafa verið endurtekin þau mistök frá flugstöðinni á Keflavíkurvelli að lengja gönguleiðir farþega frá því sem nú er. Til dæmis eru brottfarardyr í innanlandsflugi við annan enda hins langa húss, en kaffistofan í hinum endanum.

Mistökin í skipulagi flugstöðvar og flugvallarsvæðis eru dæmi um, að skipulagsáform borgarstjórnar eru ekki nógu vönduð um þessar mundir. Þau bera einkenni flausturs, sem líklega stafar af, að kosningar eru í nánd. Á slíkum tímum er gamall siður að unga út teikningum.

Önnur áform, sem skoða þarf betur, eru í skipulagi Kvosarinnar. Þar virðist ráðgert að koma upp síkishúsum eins og reist voru í Amsterdam og víðar á 17. öld. Það eru mjó og há hús, sem upprunalega eru miðuð við fasteignaskatta, er tóku mið af lengd síkisbakka.

Ekki er vitað, að hjá borginni séu ráðagerðir um að veita sjó á götur Kvosarinnar og taka upp lengdarmetraskatt í stað fasteignagjalda. Þess vegna er nærtækt að álykta, að hin svonefndu borgarhús séu tímaskekkja og búi ekki til neina reykvíska Amsterdam.

Fimm hæða byggðin, sem ráðgert er að verði hin almenna regla í Kvosinni, tekur of lítið tillit til hinna upprunalegu húsa, sem mörg eru tvær hæðir og ris. Sum þeirra eiga að drukkna milli síkishúsanna og önnur beinlínis að hverfa. Sum þeirra eiga betri örlög skilið.

Austurstræti 22 er eitt húsanna, sem ber að vernda. Það reisti Ísleifur Einarsson landsyfirréttardómari árið 1801. Síðar var það frægt sem bústaður stiftamtmanna og kallað Greifahús. Um tíma var það konungssetur, er Jörundur hundadagakonungur réð hér ríkjum.

Nefna mætti fleiri dæmi, svo sem Ísafoldarhúsið. Miklu nær er að laga skipulagið að slíkum húsum, hógværum og sögufrægum, en hinum nýlegu turnum, sem rísa í nýríkri bankastjórafrekju upp úr byggðinni.

Skynsamlegra og menningarlegra, og alls ekki tiltakanlega dýrt, væri að rífa ljóta turna á borð við Nýja Bíó og Iðnaðarbankann, sem hafa gert vesturhlið Lækjargötu að skörðóttum kjafti. Hina hógværu fyrirmynd sjáum við í Torfunni handan götunnar.

Í leiðurum þessa blaðs hefur nokkrum sinnum verið fjallað um skipulag Skúlagötusvæðisins. Samþykkt var skásta hugmyndin að því svæði, en hún er samt ekki nógu góð. Hún verndar til dæmis ekki hin merkilegu Völundar- og Kveldúlfshús við ströndina.

Þar að auki var lítið sem ekkert tillit tekið til nútímalegra sjónarmiða um sambúð byggðar og atvinnu við aðstæður íslenzks veðurs, ­ enn eitt skipulagsslysið.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvíldarhæli ráðherra

Greinar

Til skamms tíma var ris á bönkum og öðrum lánastofnunum í landinu. Efnisleg og siðræn vinnubrögð voru í hægfara sókn, en flokkapólitíkin á undanhaldi. Sem dæmi má nefna, að bankaráð Búnaðarbankans hafnaði í tvígang þreyttum þingmönnum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks sem bankastjórum og valdi atvinnumenn.

Að vísu gekk siðvæðingin ekki svo langt, að efnisatriði ein fengju að ráða. Bankamennirnir, sem hlutu hnossið, voru ráðnir sem umboðsmenn flokkanna, sem telja sig eiga bankakerfið í landinu. Bankamenn gátu ekki orðið stjórar nema á vegum einhvers stóru flokkanna.

Minnkun spillingarinnar fólst í, að bankaráðsmenn héldu áfram að viðurkenna tilkall stjórnmálaflokka til ákveðinna bankastjórasæta, en töldu rétt að velja í þau reynda bankamenn fremur en kvígildi af Alþingi. Þetta var auðvitað umtalsverð endurbót, þótt raunar sé eðlilegt, að flokkapólitík komi ekki til greina.

Að vísu byggðist siðbótin að nokkru leyti á, að flokkarnir tveir, sem ekki “áttu” sætið, gerðu með sér samblástur um að hafna þingmanni sætiseignarflokksins og að velja í hans stað bankamann úr sama flokki. Siðbótin var ekki reist á alveg hjartahreinum grunni.

Auðvitað datt engum í hug að velja til bankastjórnar menn, sem höfðu náð árangri í atvinnu- og viðskiptalífinu. Slíkt tíðkast þó mjög í útlöndum og þykir veita ferskum anda í staðnaða banka. Dæmi eru um þetta í einkabönkunum, en alls ekki í ríkisbönkunum.

Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa ekki verið eins heppnir og Búnaðarbankinn á undanförnum árum. Stjórnmálamenn af Alþingi og efnahagsstofnunum ríkisins hafa átt greiðan aðgang að stjórasætum bankanna tveggja, enda eru þeir afar illa reknir.

Útvegsbankinn hefur í vetur orðið ræmdur af Hafskipsmálinu og ábyrgðarlausum auglýsingum eftir sparifé. Landsbankinn er ræmdur fyrir að skulda Seðlabankanum hálfan milljarð króna í því, sem úti í bæ kallast vanskil. Af hluta þessarar upphæðar greiðir Landsbankinn upp undir 100% í refsivexti.

Síðustu daga hefur frægðarljóminn beinzt að Fiskveiðasjóði, sem undanfarinn áratug hefur staðið undir offjárfestingu í fiskiskipum. Þar hafa stjórnmálamenn af Alþingi og úr ríkisbönkunum að undanförnu verið að baka sjóðnum tjón með pólitísku byggðabraski.

Verst er, hve grátt flokkapólitíkin leikur Seðlabankann, sem ætti eðlis síns vegna að gnæfa yfir viðskiptabankana. Þar ættu eingöngu að veljast til starfa bankastjórar með óvenjulega traustan grunn í fjármálum, hagfræðum og utanríkisviðskiptum. En nú er hlaðið þar inn hverjum stjórnmálamanninum á fætur öðrum.

Ekki er hægt að sjá, að Tómas Árnason hafi átt nokkurt erindi í sess bankastjóra Seðlabankans. Og nú hefur Geir Hallgrímsson verið sendur þangað. Hann er að vísu frambærilegur maður, sem til dæmis er hægt að sýna útlendingum. En hann kemur ekki af sviðum, sem eru réttur bakgrunnur seðlabankastjóra.

Ein afleiðing þess, að Framsóknarflokkurinn og Sjálf stæðisflokkurinn misnota Seðlabankann sem hvíldarhæli fyrrverandi ráðherra, er, að traust bankans rýrnar. Enda færist í vöxt, að litið sé á bankann sem málpípu þeirrar ríkisstjórnar, sem er við völd hverju sinni.

Hina pólitísku öfugþróun bankamála á síðustu árum þarf að stöðva ­ og snúa aftur á braut hægfara siðbótar.

Jónas Kristjánsson

DV

Úti að aka

Greinar

Þegar kostnaður við tíu ráðherrabíla er rúmlega tvöfalt hærri en allur rekstur Hæstaréttar og tvöfalt hærri en allur rekstur Fiskvinnsluskólans, er nauðsynlegt, að ríkisstjórnin taki mark á gagnrýni og lækki þennan kostnað. Hofmóður verður henni ekki til framdráttar.

Einna óþægilegasti þáttur málsins er sinnuleysi margra ráðherra fyrir kostnaði. Til dæmis hlýtur Sverrir Hermannsson að hafa sinn bílstjóra á vakt lungann úr tímanum, sem ráðherrann er vakandi. Öðruvísi kæmist bílstjórinn ekki í 78 þúsund króna mánaðarlaun.

Sumir þeir, sem eiga erindi við Alþingi, hafa furðað sig á, að þar bíða ráðherrabílstjórar klukkustundum saman eins og illa gerðir hlutir. Slíkt er leiðinlegt, bæði fyrir þá sjálfa og hina, sem á horfa. Auk þess truflar bílaflotinn umferð um Kirkjustræti.

Þar að auki nota sumir ráðherrar bílana til að bíða eftir sér meðan þeim dvelst á fundum og í heimsóknum á kvöldin. Í flestum tilvikum væri ódýrara fyrir ríkið að nota leigubíla við slíkar aðstæður fremur en að láta bílstjóra sína hanga á yfirvinnukaupi.

Ráðherrar, sem ekki nenna að hindra, að bílakostnaður þeirra verði tvöfaldur heildarkostnaður við rekstur Hæstaréttar eða Fiskvinnsluskólans, geta ekki haldið uppi fjárhagslegum aga í þjóðfélaginu. Gagnrýni Sverris á Lánasjóð námsmanna verður þá bara að fíflaskap.

Ráðherra, sem lætur gera ofsadýrar úttektir á rekstri margvíslegra stofnana og er nú að láta hefja úttekt á Lánasjóði námsmanna, aðeins ári eftir að annar ráðherra var búinn að gera það, á að líta í eigin barm, ef hann vill láta almenning taka mark á mannalátum sínum.

Þessi átakanlegi skortur á tilfinningu fyrir aðhaldi í rekstri er alvarlegasti þáttur málsins. Ráðherrar eru uppvísir að því að kunna ekki með peninga að fara. Fólk úti í bæ telur ólíklegt, að slíkir menn geti rekið pylsuvagn með hagnaði, hvað þá ríkissjóð eða þjóðfélag.

Hitt er svo rétt, að hversu lélegir, sem ráðherrar eru, er sanngjarnt, að þeir séu fluttir milli staða. Það mætti hins vegar gera á mun ódýrari hátt, til dæmis með því að nota leigubíla, að minnsta kosti utan venjulegs vinnutíma ráðherrabílstjóra.

Einnig má hugsa sér, að ráðherrarnir hafi eins konar ráðherrabílstöð, ef venjulegir leigubílar eru ekki nógu fínir. Þeir geti þá kallað til bíla eftir þörfum, en hafi ekki hver sinn bíl. Sameiginlegur bílafloti væri mun ódýrari en bíll og bílstjóri á mann eins og nú er.

Fordæmi ráðherranna spillir. Bankastjórar, sem eru orðnir töluvert fjölmennari en áður var, hafa áratugum saman talið sér heimil svonefnd ráðherrakjör á bílum. Fyrir löngu er kominn tími til að rjúfa þau tengsl og skipa bankastjórum svo sem tröppu neðar.

Um þessar mundir eru örðugar aðstæður í þjóðfélaginu. Ýmis dæmi ganga illa upp. Fyrirtæki tapa peningum og draga saman seglin á sama tíma og starfsmenn þeirra sæta því, að léleg kjöri versni enn. Óhóf og aðgæzluleysi ráðherra er olía á þann eld.

Ríkisstjórnin hefði meiri sóma af að taka bílamál sín enn harðari tökum en hún hefur tekið kostnað stofnana á borð við lánasjóðinn, rafmagnsveiturnar og vitamálin, svo að kunn dæmi séu nefnd. Hún á að byrja á sjálfri sér, svo að tekið sé mark á henni.

Nú er réttilega haft að háði, að ríkisstjórnin sé úti að aka, einnig bókstaflega. Því þarf að breyta.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðsfengur í stjórnmálum

Greinar

Átökin um, hver verði næsta heimahöfn togarans Kolbeinseyjar, veita innsýn í stjórnmálin. Þau eru fyrst og fremst barátta um aðstöðu til að deila og drottna. Önnum kafnir í fyrirgreiðslum eru stjórnmálamenn á Alþingi, í ríkisstjórn og í lánastofnunum.

Kolbeinseyjarmálið er sérstakt að því leyti, að átökin eru ekki milli kjördæma, heldur innan eins og sama kjördæmis. Fyrirgreiðslumennirnir eru að fjalla um, hvort togarinn eigi að vera áfram á Húsavík eða fara til Akureyrar eða Þórshafnar og Raufarhafnar.

Upphaf látanna var, að Húsvíkingar buðu ekki hæst í gjaldþrota skipið, heldur Norður-Þingeyingar. Áætlað hefur verið, að tilboð Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga sé 176 milljón króna virði, Útgerðarfélags Akureyringa 163 milljóna og Húsvíkinga 160 milljóna.

Þetta hentaði ekki hinum pólitísku aðstæðum í kjördæminu. Stjórnmálamenn fóru í gang til að reyna að hindra flutning togarans. Sá vilji er út af fyrir sig skiljanlegur. Hins vegar er ekki sama, hvaða ráðum er beitt til að fá honum framgengt. Sú saga er ekki fögur.

Undir forustu framsóknarmanna tókst samstarf milli stjórnmálamanna á Alþingi og í stjórn Fiskveiðasjóðs, sem á skipið. Í því tóku þátt fyrrverandi alþingismenn, sem eru orðnir bankastjórar í Landsbankanum og Seðlabankanum, svo og forsætis- og sjávarútvegsráðherra.

Á vegum sjávarútvegsráðherra var samin skýrsla á hæpnum forsendum. Hún átti að sýna, að fyrirhugaðar breytingar Norður-Þingeyinga á Kolbeinsey mundu ekki kosta fimm milljónir, heldur 17,5 milljónir.

Þegar þetta reyndist ekki haldbært, var gripið til enn harkalegri aðgerða. Samband íslenzkra samvinnufélaga var fengið til að hætta við að ganga í átta milljón króna ábyrgð.

Síðan píndi Seðlabankinn Sparisjóð Þórshafnar til að hætta við að ábyrgjast greiðsluna. Meðan á þessu stóð hafði Landsbankastjóri forgöngu í Fiskveiðasjóði um, að afgreiðslu málsins yrði frestað, svo að Kolbeinsey hrataði ekki í hendur hinna óvinsælu aðila.

Seðlabankastjóri tók hins vegar að sér að mæta með englasvip í sjónvarpinu til að segja, að pólitík hefði alls engin áhrif á gang mála hjá sjóðnum!

Forsætisráðherra lýsti því yfir, að tvímælalaust ætti Húsavík að fá togarann til baka. Þar með sagði hann óbeint, að útboð skipsins væri markleysa ein. Menn hefðu á fölskum forsendum verið fengnir til að bjóða í skipið, sennilega til að finna, hvert væri verðgildi þess. Slíkt er auðvitað siðlaust eins og annað í málinu.

Næsta skrefið var að hóta þeim, sem hæst buðu. Komið var á framfæri við þá, að Raufarhöfn og Þórshöfn skyldu hafa verra af, ef þeir héldu hinu háa tilboði til streitu. Gefið var í skyn, að á næstu árum yrði takmörkuð hin pólitíska fyrirgreiðsla í þágu þessara byggðarlaga.

Hins vegar mundi vera ljúflega munað eftir þeim, ef þeir sendu skeyti um, að þeir drægju tilboð sitt til baka. Þessu tilboði gátu þeir ekki hafnað. Svipuð skilaboð gengu svo til Akureyringa til að fá þá líka til að víkja.

Niðurstaðan verður, að opinber sjóður tapar meira fé en til stóð. Ennfremur, að þar á ofan þarf að borga af almannafé dúsur upp í þá, sem hafa látið undan síga.

Þannig eru vinnubrögðin í stjórnmálum lands, þar sem stjórnmálamenn skammta fjármagnið, deila og drottna í atvinnulífinu, skipta herfanginu. Kolbeinseyjarmálið veitir innsýn í siðblinduna.

Jónas Kristjánsson

DV

Grýta fé í gæludýr

Greinar

Alþingi taldi sig nýlega þurfa að bjarga einni af fimm graskögglaverksmiðjum ríkisins frá gjaldþroti. Með 32 atkvæðum gegn 13 samþykkti það að auka hlutafé ríkisins í Vallhólmaverksmiðjunni í Skagafirði með skilyrði um hlutfallslega hlutafjáraukningu heimamanna.

Reiknað er með, að ríkið leggi fram 11­15 milljón krónur gegn 4­5 milljóna framlagi heimamanna í Skagafirði og Húnaþingi. Þar með eykst hlutaféð úr 10 milljónum í 25­30 milljónir. Þetta fé á að nota til að greiða 23 milljón króna gjaldfallnar skuldir verksmiðjunnar.

Í heild skuldar þessi nýlega verksmiðja 97 milljónir. Á móti koma birgðir, sem nema hálfri annarri ársframleiðslu. Þessar birgðir eru metnar á 40 milljónir. Það mat byggist á, að unnt sé að selja þær á verði, sem er svo hátt, að kaupendur finnast ekki nægilega margir.

Þessi verksmiðja var tekin í notkun árið 1983, þótt fyrir væru fimm slíkar, sem höfðu meiri afköst en sem nam markaðinum í landinu. Hið sama ár var lokið skýrslu svokallaðra sérfræðinga, sem töldu þurfa að reisa sjöundu verksmiðjuna á Húsavík!

Graskögglaverksmiðjurnar hafa löngum verið hugsjónamál Búnaðarþinga. Á þeim þingum hittast forkólfar landbúnaðarins á kostnað ríkisins og samþykkja , að ríkið borgi hitt og þetta. Þingmenn hlaupa svo á eftir þessum ályktunum í von um fylgi.

Lítið er spurt um, hvers vegna ríkið sem slíkt eigi að láta reisa svona verksmiðjur frekar en einhverjar aðrar og vera helzti eða eini hluthafinn í þeim. Það er bara talið sjálfsagt að ríkið borgi brúsann, ef hinar heilögu kindur eða kýr landbúnaðarins eiga í hlut.

Gagnvart gæludýrum á borð við graskögglaverksmiðjur er fyrst hlaupið undir bagga með lánum. Í fyrra útveguðu stjórnmálamennirnir 12 milljóna lán til að forða Vallhólmaverksmiðjunni frá gjaldþroti. Það hefur ekki dugað, svo sem samþykkt Alþingis sýnir.

Brátt verður allt litróf hinnar pólitísku fyrirgreiðslu komið í notkun til bjargar graskögglaverksmiðjum. Veitt verða vildarlán, gefnir eftir vextir, lagt fram hlutafé, strikuð út vandamál. Allt verður gert nema viðurkenna í verki, að offramleiðsla er á graskögglum.

Í byrjun þessa vetrar áttu verksmiðjunnar 17 þúsund tonn af kögglum eftir 12 þúsund tonna ársframleiðslu. Birgðirnar námu því framleiðslu hálfs annars árs. Þar á ofan var afkastageta verksmiðjanna vannýtt í sumar um þriðjung eða um heil 6 þúsund tonn.

Þessi vandræði hófust með lögum um graskögglaverksmiðjur, sem Alþingi samþykkti 1973. Þá var efnt til samkeppni af hálfu ríkisins við eina verksmiðju í einkaeign á Kjalarnesi. Þá var stofnað til þess ástands, sem nú ríkir, ­ að allir tapa stórfé og þjóðin mest.

Við mat á frammistöðu stjórnmálamanna á þessu sviði má ekki gleyma, að gæluverksmiðjur þessar eru reknar í skjóli 130% gjalds á innflutt kjarnfóður. Þær eru því enn eitt dæmið um, hvernig okkur er neitað um að njóta hins lága framleiðsluverðs á heimsmarkaði.

Ef ríkið á mikla peninga aflögu, er hagkvæmara að leggja þá í listir og menningu, því að slíkt eykur ekki þar á ofan kostnað Íslendinga af að lifa í landinu.

En það er dæmigert, að Alþingi skrúfar fyrir framlög til lista og menningar um leið og það grýtir peningum í gæludýr á borð við graskögglaverksmiðjur, sem beinlínis spilla lífskjörum okkar.

Jónas Kristjánsson

DV

Ríkið þarf hávexti

Greinar

Í annað sinn í röð hefur ríkisstjórnin stuðlað að háum vöxtum í þjóðfélaginu með því að bjóðast til að greiða 9% raunvexti af spariskírteinum. Fyrra skiptið var í nóvember síðastliðnum. Nú eru dagblöðin aftur full af rosaauglýsingum fjármálaráðuneytisins um nýtt tilboð.

Örvæntingin leynir sér ekki. Ríkissjóður er orðinn að eins konar okurlána- eða eiturlyfjaneytanda, sem verður að fá sprautuna sína á tveggja mánaða fresti. Fjármálaráðherra er í hvert sinn reiðubúinn til að greiða heldur hærra verð en áður til að komast í vímuna.

Hingað til hefur ríkisstjórnin einkum hallað sér að útlöndum til að útvega sér lyfin. Þar eru raunvextir nú um 5-6% og raunar hærri í Bandaríkjunum. Þessi leið er smám saman að lokast, því að skuldasúpan er orðin svo yfirgengileg, að hver fjögurra manna fjölskylda skuldar meira en milljón krónur.

Þess vegna telur eiturlyfjasjúklingurinn sig verða að berjast um fast á innlendum lánamarkaði. Ríkið býðst til að borga 9% raunvexti til að geta haldið rekstri sínum áfram frá degi til dags. Þess á milli tala ráðherrar um, að vextir séu orðnir of háir.

Vextir hefðu lækkað í vetur, ef ríkið væri ekki svona peningasjúkt. Aðrir verða að bjóða hærri vexti til að standa jafnfætis ríkinu. Spariskírteinunum fylgir engin áhætta, því að ríkið hefur veðsett börnin okkar fyrir skuldum sínum. Þar að auki eru spariskírteini ríkisins undanþegin eignaskatti, ­vinsælt í skattpíningunni.

Þeir aðilar, sem hafa lakari veð, þurfa að bjóða hærri vexti en ríkið til að fá fjármagn. Stóru og traustu fyrirtækin þurfa að fara nokkuð yfir 10% raunvexti í sínum útboðum skuldabréfa. Hin, sem standa á brauðfótum, fara hærra, hæglega upp undir 20% raunvexti.

Til þess að þetta geti gengið upp verður arðsemi starfseminnar, sem stuðlað er að með lántökum, að vera hin sama eða meiri en raunvextirnir. Draga verður í efa, að ríkið búi við slíka arðsemi. 9% raunvextir eru greiddir til að halda kerfinu gangandi frá degi til dags.

Sem dæmi um þætti, er ríkið rekur á slíkum lánum, eru námslán með 0% raunvöxtum og húsnæðislán með 3,5% raunvöxtum. Ennfremur gæluverkefni á borð við Kröflu, óþarfa togara, verksmiðjur af ýmsu tagi og landbúnað, sem gæti einn étið öll fjárlögin.

Við stöndum andspænis því, að ríkið getur ekki leyft sér að verða við kröfum um lága vexti á sama hátt og það heldur með handafli uppi of hárri skráningu á gengi krónunnar. Hið síðara getur ríkið, af því að reikningurinn er sendur sjávarútvegi og öðrum útflutningi.

Ríkið getur hins vegar ekki haldið vöxtum niðri með handafli, þar sem það þarf sjálft á peningum að halda, hvað sem þeir kosta. Þannig er allt tal um lægri vexti ekkert nema rugl. Ríkið sér um og mun áfram sjá um að halda uppi háum vöxtum, hverju sem ráðherrar lofa.

Auðnuleysið í þessu er svipað og í hungri ríkisins í aðflutningsgjöld. Ríkið rambar á heljarþröm, ef innflutningur dregst saman, því að þá minnka tekjur þess. Þjóðfélagið mundi stóreflast á betra jafnvægi í utanríkisviðskiptum. Ríkissjóður lifir hins vegar á jafnvægisleysi. Meðal annars þess vegna er gengið rangt skráð og fær ekki sjálft að finna eðlilegan farveg.

Svo vilja ráðamenn í ríki og Seðlabanka halda áfram að ákveða, hvert skuli vera gengi krónunnar og hverjir skuli vera vextir í landinu. Um hvorugt eru þeir færir.

Jónas Kristjánsson

DV

Fjöllin hækka ört um allt

Greinar

Með hverju árinu kemur betur í ljós, að hagkvæmara er að vera kaupandi en seljandi á alþjóðlegum markaði landbúnaðarafurða. Offramleiðslan í heiminum fer vaxandi og verðlagið lækkandi. Þetta er ekki sveifla, heldur þróun, sem mun halda áfram um langa framtíð.

Lága verðið byggist á, að til eru lönd, sem hafa mjög ódýra framleiðslu, svo sem Bandaríkin, Ástralía, Nýja-Sjáland og Argentína. Þau framleiða ýmiss konar kjöt og kornvörur á mun lægra verði en önnur lönd og geta án uppbóta selt búvörur sínar til útlanda

Ofan á framboðið frá þessum tiltölulega auðugu löndum koma svo hin miklu umskipti, sem hafa orðið í löndum þriðja heimsins. Fátæku löndin, sem fyrir svo sem fimmtán árum urðu að flytja inn matvæli til að hindra árlega hungursneyð, eru nú aflögufær.

Frægasta dæmið um þetta er Indland. Enn meiri hefur breytingin þó orðið í Kína, þar sem framleiðslan matreiðsla hefur aukizt um 40%. Og gamalt hörmungabæli á borð við Bangladesh getur nú séð um sig sjálft.

Til eru undantekningar, svo sem Eþíópía, þar sem hungrið stafar sumpart af þurrkum og sumpart af stjórnarstefnunni. Samt er reiknað með, að miklar framfarir í landbúnaði muni skjótt gera nærri öllum þjóðum heims kleift að hafa nægan mat.

Af þessu leiðir, að framboð eykst á matvælum á alþjóðamarkaði og eftirspurn minnkar. Sérfræðingur bandaríska utanríkisráðuneytisins í landbúnaðarmálum, Dennis T. Avery, sagði nýlega, að vöxtur landbúnaðarframleiðslu væri rétt að byrja. “Við höfum enn ekki séð nema brot af því, sem kemur”, sagði hann.

Það litla, sem þegar er komið í ljós, hefur leitt til gífurlegs kostnaðar þeirra landa, sem offramleiða mun dýrari landbúnaðarvörur en Bandaríkin, Nýja-Sjáland, Ástralía og Argentína. Efnahagsbandalag Evrópu er frægasta og langsamlega dýrasta dæmið um ógöngurnar, er fylgja stefnu, sem er eins og hin íslenzka.

Styrkjastefna Efnahagsbandalagsins hefur hlaðið upp fjöllum, rúmri milljón tonna af smjöri, hálfri milljón tonna af mjólkurdufti, tæpri milljón tonna af kjöti og átján milljónum tonna af ýmsu korni. Bandalagið hefur neyðst til að taka á leigu kæligeymslur í útlöndum, svo sem í Sviss og Austurríki.

Sovétríkin hafa stundum losað bandalagið við smjörfjallið á afar lágu verði. Ef við keyptum smjör á sömu kjörum, annaðhvort frá bandalaginu eða einhverju landanna, sem hafa efni á að selja það svona ódýrt, yrði smjörverð hér einn tíundi af því, sem það er nú.

Sovétríkin eru orðin sjálfum sér nóg og fjöll Efnahags bandalagsins halda áfram að stækka. Okkar fjall stækkar líka. Í fyrra jókst mjólkurframleiðsla um 7%, þrátt fyrir minnkandi neyzlu okkar. Öll þessi aukning fór í vinnslu smjörs og osta til útflutnings á verði, sem nær ekki nema broti af kostnaði við framleiðsluna.

Smjörbirgðir Íslendinga hafa á einu ári aukizt úr 480 tonnum í 737 tonn. Ostbirgðirnar hafa aukizt úr 860 tonnum í 990 tonn. Hliðstætt ástand er í dilkakjötinu. Samt er ríkið nýbúið að borga mikið fyrir útflutning.

Við ættum markvisst að hraðminnka framleiðslu hefðbundinna og ofsadýrra landbúnaðarafurða og kaupa þær í staðinn á útsölu í útlöndum. Í staðinn ættum við að sinna betur arðbærum störfum. Engin aðgerð eflir betur fjárhag og lífskjör þjóðarinnar.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvalveiði-Gerpla

Greinar

Frá því fyrir daga Þorgeirs Hávarssonar hafa Íslendingar verið garpar miklir. Enn hanga menn þögulir í hvönn bjargsins og láta sig meira skipta heiður en björgun. Skemmtilegasta dæmið um þetta er hugsjón hinna vísindalegu hvalveiða, sem nýtur almennrar hylli.

Þjóðin var aldrei sátt við þá niðurstöðu Alþingis fyrir tveimur árum, að ekki skyldi mótmælt hinu alþjóðlega hvalveiðibanni. Í skoðanakönnun DV voru sex af hverjum tíu andvígir afstöðu Alþingis og aðeins fjórir fylgjandi. Meirihlutinn vildi ekki láta deigan síga.

Raunar hafði Alþingi tekið hina óvinsælu afstöðu með einungis eins atkvæðis mun. Fjöldi alþingismanna og meirihluti þjóðarinnar vildi ekki, að við létum svokallaðar bandarískar kerlingar í samtökum grænfriðunga knýja okkur til að víkja frá réttri hugsjón og stefnu.

Forustugarpur okkar í máli þessu er Halldór Ásgrímsson sjávarútvegsráðherra. Með stuðningi hæfra sérfræðinga tókst honum að finna út, að vísindalega nauðsynlegt væri að veiða hundrað hvali árlega hér við land. Þetta er ein merkasta uppgötvun síðustu ára.

Sjávarútvegsráðherra hefur ekki látið við þetta afrek sitja. Hann hefur einnig bitið í skjaldarrendur og farið í víking út um allan heim til að sýna fram á, hve réttur hinn vísindalegi málstaður Íslendinga væri. Enda veit þjóðin, að vísindin efla alla dáð.

Skömmu fyrir áramótin var staðan orðin sú í huga þjóðarinnar, að í skoðanakönnun DV reyndust rúmlega átta af hverjum tíu fylgjandi fyrirhuguðum hvalveiðum okkar, en aðeins tveir af hverjum tíu á móti. Þjóðin fylkir sér um nýju hvalvísindin.

Meðan við höfum hangið í hvönninni í hetjuskap okkar á undangengnum tveimur árum, höfum við sótt styrk í ögrun útlendinga, sem skilja ekki vísindahugsjón okkar og hóta alls konar vandræðum. Það er ekki í okkar anda að láta aðra og allra sízt grænfriðunga segja okkur fyrir verkum.

Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra er drjúgur liðsmaður í framvarðarsveit íslenzkra garpa. Hann sagði í viðtali við DV í fyrradag: “Ég tel það vera hina mestu fjarstæðu að hætta hvalveiðum”. Síðan bætti hann við: “Mín skoðun er sú, að það eigi að NÝTA hvalastofninn undir eftirliti”.

Þar með hefur fengizt ný staðfesting á því, að bókvitið verður í askana látið. Ekki er nóg með, að við höfum sóma af því að halda fast við vísindastefnu sjávarútvegsráðherra, heldur höfum við einnig not af því, að mati forsætisráðherra.

Að vísu eru einhverjir fisksölumenn í sífellu að væla um, að hundrað sinnum verðmætari fiskmarkaðshagsmunir séu í húfi. Þá skortir hugsjónina og þeir liggja í hugarfari búðarlokunnar, sem görpum hefur jafnan þótt heigulslegt. Þeir vilja taka mark á kerlingum, í von um að geta haldið áfram að selja þeim fisk.

Tímamót urðu í málinu um áramótin. Þá tók formlega gildi ákvörðun íslenzkra stjórnvalda um hvalveiðar í vísindaskyni. Andstæðingar okkar höfðu fram að því vonað, að við mundum láta kúgast. Nú er komið í ljós, að svo er ekki. Aðgerðir gegn okkur hefjast því að nýju.

Á erfiðum tímum þjóðarhags er gott til þess að vita, að forustumenn þjóðarinnar láta slíkar sorgir ekki aftra sér frá garpskap. Mestu máli skiptir að hanga í hvönn, hvort sem fiskur selst útlenzkum kerlingum eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Valdshyggju-fordæmi

Greinar

Fáheyrt er, ef ekki einsdæmi, á síðustu áratugum, að ráðherra reki banka- eða sjóðstjóra fyrirvaralítið úr starfi. Með brottrekstri framkvæmdastjóra Lánasjóðs námsmanna hefur menntamálaráðherra skapað hættulegt fordæmi öðrum valdshyggjumönnum, sem síðar koma.

Eðlilegt hefði verið, að ráðherrann beindi til stjórnar sjóðsins kröfum sínum um lagfæringar. Eftir að slíkar tilraunir hefðu reynzt árangurslausar, gæti ráðherra að því gefna tilefni skipt um meirihluta stjórnar.

Hinn nýi stjórnarmeirihluti gæti þá rekið sjóðstjóra, sem reynzt hefði ófær um að verða við kröfum ráðherrans og stjórnarinnar. Þá væri líka búið að reisa mál með ýmsum sönnunargögnum, sem nú eru ekki til.

Auðvelt ætti að vera að afla gagna um, að Lánasjóður námsmanna sé illa rekinn banki. Réttast væri að segja, að hann sé rekinn á flókinn hátt og búi til óþarflega mikið umstang. Reksturinn ætti samt að vera einfaldur, af því að lánveitingar eru næstum sjálfvirkar.

Sumpart eru vinnubrögð í sjóðnum einkar fornaldarleg. Að öðrum þætti hafa þau verið tölvuvædd á þann hátt, að útskriftir, sem viðskiptamönnum eru sendar, eru öllum gersamlega óskiljanlegar. Af því skapast gífurlegt álag á símakerfi og afgreiðsluborð sjóðsins.

Þetta kallar á óhæfilega mikið starfslið og óhæfilega mikla yfirvinnu þess. Þetta gerir Lánasjóð námsmanna of dýran í rekstri og bakar viðskiptamönnum hans of mikla fyrirhöfn. Þetta þarf að laga skjótlega, jafnvel þótt ekki sé farið eins að því og ráðherrann gerði.

Slæmur rekstur sjóðsins hefur hins vegar sáralítil áhrif á slæma afkomu hans. Veltan er orðin svo hrikaleg, að laun og yfirvinna skipta þar sáralitlu máli. Ekki er hægt að kenna sjóðstjóranum um, að námsmönnum hefur fjölgað meira en peningum hins opinbera.

Samt er rétt hjá Sverri ráðherra, að forkastanlegt er, ef sjóðstjóri hefur ekki í tæka tíð nokkuð góða hugmynd um, hvert stefni í þessu efni. Vitað er, hversu margir útskrifast úr menntaskólum og öðrum hliðstæðum skólum. Þær upplýsingar má nota jafnóðum.

Ófært er, ef ráðherra fær því sem næst mánaðarlega nýjar hryllingsfréttir af aukinni fjárþörf. Enn sem komið er lifir sjóðurinn að mestu leyti á ríkissjóði, sem á að fara eftir fjárlögum hvers árs. Það setur allan ríkisbúskapinn úr skorðum, ef veita þarf fé aukalega.

Sökin á þessu liggur þó að mestum hluta hjá ríkisstjórninni sjálfri og stjórnarflokkunum. Þessir aðilar ganga árlega frá fjárlögum, þar sem varið er mun minna fé til Lánasjóðs námsmanna en þarf samkvæmt gildandi lögum. Þeir, sem reyna að búa til hallalaus fjárlög á þennan hátt, þurfa ekki að verða hissa á bakreikningum.

Nú getur vel verið, að tiltölulega hægar endurgreiðslur í sjóðinn og mikil fjölgun námsmanna leiði til þess, að ríkið hafi ekki efni á að fara eftir gildandi lögum. Ef svo er, þá er rétta leiðin að breyta lögum um sjóðinn.

Við slíkt samræmi mundu námsmenn og aðstandendur þeirra vita, að hverju þeir ganga og það langt fram í tímann. Þessir aðilar þurfa nú að bíða milli vonar og ótta nokkrum sinnum á ári, af því að ríkisvaldið getur ekki komið á samræmi milli laga og fjármagns.

Skynsamlegra hefði verið hjá ráðherra að einbeita sér að slíkri samræmingu, samhliða skynvæðingu í rekstri sjóðsins, í stað þess að haga sér eins og valdshyggjumaður, öðrum slíkum til illrar eftirbreytni í náinni framtíð.

Jónas Kristjánsson

DV

Hvorugur vekur traust.

Greinar

Athyglisvert er, hversu lítinn mat stjórnarandstaðan getur gert sér úr hörmulegri meðferð ríkisstjórnarinnar og þingmanna hennar á fjármálum ríkisins á þessu ári, svo og úr ráðagerðum þessara sömu aðila um fjármál ríkis og ríkisstofnana á næsta ári.

Allir eru sammála um, að draga megi úr jafnvægisleysi ríkisbúskaparins með því að minnka útgjöldin eða auka tekjurnar eða hvort tveggja. Ennfremur vita allir, að tekjurnar má annað hvort auka með því að hækka skatta innanlands eða safna skuldum í útlöndum eða hvort tveggja.

Leiðirnar eru því þrjár, misjafnlega aðgengilegar og misjafnlega gagnlegar. Verst er hin síðastnefnda söfnun skulda í útlöndum. Öll stjórnmálaöfl eru sammála um, að skuldabyrðin gagnvart útlöndum sé þegar komin í hámark eða orðin of mikil og megi ekki aukast.

Samt hafa ríkisstjórnin og þingmenn hennar afgreitt fjárlög og lánsfjárlög, sem fela í sér töluverða aukningu skulda í útlöndum. Nýjar skuldir hins opinbera umfram endurgreiðslur eldri skulda þess munu á næsta ári nema að minnsta kosti 1600 milljónum króna.

Skuldaaukningin verður sennilega mun meiri, því að fjárlögin eru að ýmsu leyti afar götótt. Þar vantar víða töluvert upp á skuldbindingar ríkisins samkvæmt öðrum lögum. Laun eru til dæmis vanáætluð, svo og atvinnuleysisbætur, námsmannalán, sjúkratryggingar, ríkisspítalar og endurgreiðslur söluskatts til sjávarútvegs.

Stjórnarandstaðan hefur bent á þessi atriði eins og hún hefur bent á skuldaaukninguna í útlöndum. En það er ekki nóg. Til þess að vera marktæk hefði hún þurft að benda á aðrar lausnir, annað hvort aukna skatta eða niðurskurð opinberra útgjalda.

Hækkun skatta er að því leyti lakari aðgerð en niðurskurður, að hún eykur þáttöku ríkisins í spennunni, sem veldur verðbólgu og almennu jafnvægisleysi í efnahag landsins. Samt kemur hún til greina og er raunar annað atriðið, er Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur bent á. Stjórnarflokkarnir og stjórnarandstöðuflokkarnir eiga það sameiginlegt að óttast tillögur um hækkun skatta. Þeir telja ekki líklegt til vinsælda að þurfa að horfast í augu við þennan raunveruleika. Þess vegna eru skattalækkunartillögur þeirra að mestu leyti óskhyggja.

Eftir er að nefna síðustu leiðina, sem er bezt, af því að hún dregur úr spennunni í efnahagslífinu. Hún dregur úr forustunni, sem ríkið hefur haft í að kynda undir verðbólgunni. Það er að skera niður ríkisútgjöld. Þar hafa stjórn og stjórnarandstaða staðið sig illa.

Ríkisstjórnin hefur reynt að krukka í ýmsa liði, sem hún hefur lítinn áhuga á, einkum í menntum og vísindum. Hún hefur skorið niður Listasafnið, Þjóðarbókhlöðuna, Kvikmyndasjóð, Háskólann og Raunvísindastofnun um örfáa tugi milljóna. Þetta segir lítið.

Ríkisstjórnin og þingmenn hennar hafa hins vegar ekki þorað að krukka neitt að gagni í rosaliði á borð við vegagerðina og landbúnaðinn. Þessar heilögu kýr fá að halda sínu og jafnvel að auka hlut sinn á sama tíma og hálft þjóðfélagið rambar á barmi beins eða óbeins gjaldþrots.

Vandi stjórnarandstöðunnar er, að hún er jafn huglaus í þessu efni og ríkisstjórnin. Framburður hennar er ekki neitt trúverðugri. Þess vegna getur hún ekki gert sér mat úr eymd ríkisstjórnarinnar í fjármálum.

Jónas Kristjánsson

DV

Þjóðskjöl í port og skúra.

Greinar

Fyrir rúmum áratug gaf þjóðin sjálfri sér þjóðarbókhlöðu í ellefu alda afmælisgjöf. Þá var meiri menningarleg reisn yfir ráðamönnum þjóðarinnar en síðar varð. Fjárveitingar til rauða kastalans á Melunum hafa dregizt saman ár eftir ár og eru nú orðnar að engu.

Í fjárlagafrumvarpi komandi árs var upphaflega gert ráð fyrir fimm milljón króna fjárveitingu til byggingarinnar. Sú fjárhæð, sem var til málamynda, var þó yfirlýsing um, að ekki hefði alveg verið gefizt upp. Hún hefur nú verið strikuð út úr frumvarpinu.

Sverrir Hermannsson stendur því andspænis þeirri staðreynd við upphaf ferils síns sem menntamálaráðherra, að þjóðargjöfin sjálf hefur verið viskuð út úr fjárhagsáætlun ríkisins. Hann hefur í þessu orðið að lúta lægra en nokkur fyrirrennara hans á liðnum áratug.

Einn helzti kosturinn við Þjóðarbókhlöðuna átti á sínum tíma að vera, að gamla og fallega safnahúsið við Hverfisgötu yrði að þjóðskjalasafni, þegar Landsbókasafnið flytti brott. Þar kúrir Þjóðskjalasafnið nú úti í horni við þröngan kost sem eins konar próventukarl.

Safnahúsið er teiknað og byggt sem safnahús, meðal annars með frægum lestrarsal, sem mundi henta ættfræðingum og öðrum grúskurum og viðskiptavinum Þjóðskjalasafnsins afar vel. Sú skipan málsins er raunar svo sjálfsögð, að óþarfi ætti að vera að ræða aðrar.

Nýjar hugmyndir um að nota húsið frekar undir skrifstofu forsætisráðherra eða sem dómhús Hæstaréttar eru mun lakari. Húsið er að vísu nógu virðulegt til að sóma sér í slíkum hlutverkum, en innri skipan þess sem safnahús færi forgörðum. Slíkt væri óbætanlegur skaði. Þessar hugmyndir eru aðeins nothæfar í máttlausri tilraun menntamálaráðherra að verja fáránleg, ólögleg og ósiðleg kaup hans á porti og fokheldum skúrum Mjólkursamsölunnar á 110 milljón krónur til notkunar fyrir Þjóðskjalasafnið, – til að þóknast landbúnaðinum.

Venja er að veita heimild til slíkra kaupa á fjárlögum. Í þetta sinn er engin slík heimild til, þannig að kaupin eru hrein valdníðsla af hálfu ráðherrans. Málið hefur hvorki verið rætt í fjárveitinganefnd né á Alþingi, hvað þá að nokkur samþykkt hafi verið gerð í málinu.

Fyrir utan ólögmætið er afar ósiðlegt af ráðherra, sem stendur að eigin sögn “blóðugur upp að öxlum” við að skera niður menningarstofnanir á borð við Þjóðarbókhlöðu og Listasafn, að kasta stórfé í einhverja gagnkvæma greiðasemi stjórnarflokkanna.

Ofan á ólögin og ósiðinn bætist svo hið fáránlega. Hin gamla aðstaða Mjólkursamsölunnar við Laugaveginn hentar ekki sem þjóðskjalasafn, – enn síður en Víðishúsið í nágrenninu hentar sem menntamálaráðuneyti, námsgagnastofnun og skólavörubúð.

Ráðuneytið hefur ekki efni á að innrétta Víðishúsið, enda kostar slíkt meira en að byggja nýtt hús. Hið sama verður uppi á teningnum í Mjólkursamsölunni. Ekki verður hægt að geyma þjóðskjölin í fokheldum bílskúrum og stóru porti, sem helzt gæti hentað timburverzlun.

Það væri í stíl við kaupin, að þjóðskjólunum yrði dreift um portið og síðan malbikað yfir einu sinni á ári. Fornleifafræðingar framtíðarinnar gætu þá grafið sig í gegnum hvert lagið á fætur öðru eins og í Tróju.

Auðvitað er vitrænna að nota peningana í að ljúka Þjóðarbókhlöðunni, svo að Þjóðskjalasafnið geti hreiðrað um sig, þar sem það á heima.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrir flokkar og kjósendur.

Greinar

Tjón Útvegsbankans og þar með þjóðarinnar af gjaldþroti Hafskips er ekki stórvægilegt í samanburði við ýmislegt annað tjón, sem gert hefur verið upp þessa dagana- Ber þar hæst 2037 milljón króna tjón ríkisins og þjóðfélagsins af Kröfluævintýrinu.

Ekki skorti aðvaranir, þegar stjórnmálamenn þriggja flokka steyptu sér í Kröflu á sínum tíma. Ekkert mark var tekið á slíku, enda hafa úrtölur löngum verið óvinsælar hér á landi. Orkuverið var nánast fullbúið, áður en sannreynt var, hvort orku væri að hafa.

Heildarskuldir Kröflu nema 3207 milljónum króna. Landsvirkjun er nú að kaupa orkuverið af ríkinu á 1170 milljónir. Mismunurinn nemur 2037 milljónum. Verður sá reikningur sendur skattgreiðendum í áföngum á næstu árum, hinn fyrsti á næsta ári.

Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur og Alþýðubandalag stóðu að Kröflu. Ef tjóninu er skipt á þessa þrjá Kröfluflokka, koma 679 milljónir á hvern flokk. Það getur verið dýrt að kjósa yfir sig stórhuga og ábyrgðarlausa stjórnmálamenn.

Fleiri gjaldþrot hafa verið gerð upp að undanförnu. Afskrifaður hafa verið rafmagnslínur í sveitum, svokallaðar byggðalínur, fyrir 1000 milljónir króna. Allir gömlu flokkarnir tóku þátt í því ævintýri. Kostnaðurinn er 250 milljónir á hvern þeirra.

Ríkissjóður þurfti í ár að reiða fram rúmlega 350 milljón króna hlutafé til að bjarga járnblendiverksmiðjunni á Grundartanga frá gjaldþroti. Til viðbótar við þá tölu kemur svo niðurgreiðsla á orku til verksmiðjunnar.

Gömlu flokkarnir fjórir eiga allir þátt í Grundartanga. Alþýðubandalagið er heppið að skulda ekki nema fjórðung af tjóninu. Ef sá flokkur hefði fengið að ráða, ætti ríkið eitt verksmiðjuna og þyrfti að bera hlutfallslega þyngri byrði af henni.

Í fjórða sæti í þessari upptalningu kemur svo 350 milljón króna tjón Útvegsbankans af völdum Hafskips. Bankaráð þess banka er skipað fulltrúum fjórflokksins. Bankastjórarnir eru pólitískt skipaðir, þar af einn á vegum Alþýðubandalagsins.

Áfram má rekja fjárhagslega afrekaskrá stjórnmálaflokkanna. Nokkrir togarar hafa lent á Fiskveiðasjóði á undanförnum vikum. Tjón sjóðsins og þar með þjóðarinnar nemur 240 milljónum króna. Tjónið getur orðið enn meira, ef illa gengur að selja skipin.

Slíkt tjón var meira eða minna fyrirsjáanlegt, þegar togarakaupaæðið rann á stjórnmálamenn á sínum tíma. Ennfremur var fyrirsjáanlegt, að raðsmíðaverkefni fiskiskipa, sem nú stendur yfir, yrði meira eða minna á kostnað þjóðarinnar vegna skorts á kaupendum.

Nýju flokkarnir geta hrósað happi yfir að vera ekki flæktir í þessi mál. Þeir eru þó ekki alveg saklausir. Þeir taka til dæmis þátt í að verja almannafé til að forða pólitískum blöðum frá gjaldþroti. Þannig eru studd öll dagblöðin nema DV.

Sérhverjum hinna rótgrónu stjórnmálaflokka mætti senda reikning upp á hundruð milljóna fyrir afglöpin, sem hér hafa verið rakin. Margt er ótalið, svo sem landbúnaðarstefna þeirra, er kostar milljarða á ári.

Slíkt er þó tilgangslítið, því að bak við stjórnmálaflokkana eru sjálfir kjósendur, sem hafa kjörið og endurkjörið flokkana til að fjalla um þessi mál á þann ábyrgðarlausa hátt, sem kjósendur eiga skilið.

Jónas Kristjánsson

DV

Til þjónustu reiðubúnar.

Greinar

Opinberar stofnanir, er semja þjóðhagsskýrslur og þjóðhagsspár, ættu að gera þetta í þjónustu þjóðarinnar. Þær skerðast trausti, ef þær gera þetta sem undirsátar þeirrar ríkisstjórnar, sem er við völd hverju sinni. Þær mega ekki vera ráðherrum of þjónustuliprar.

Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun þurftu á sínum tíma að sækja á brattann til að afla tölum sínum almenns trausts. Þetta tókst að töluverðu leyti, sem betur fer. En um leið varð það til þess, að stofnanir þessar hættu að leggja eins hart að sér í þessu og þær höfðu áður gert.

Um leið hafa þessar opinberu stofnanir fengið samkeppni utan úr bæ. Samtök og fyrirtæki hafa komið sér upp hagtöludeildum, sem safna í skýrslur og spár eins og opinberu stofnanirnar gera. Upplýsingar þessara nýju aðila stinga oft í stúf við upplýsingar hinna opinberu.

Sem dæmi má nefna, að Þjóðhagsstofnun spáir nú 20% verðbólgu á næsta ári. Aðilar úti í bæ spá hins vegar 30-40% verðbólgu, svo sem fram kom á spástefnu um daginn. Á þessum tvenns konar spám er svo gífurlegur munur, að hann hlýtur að vekja bæði athygli og furðu.

Þegar forsendur eru skoðaðar. verður að segjast, að spárnar utan úr bæ vekja töluvert meira traust en spá Þjóðhagsstofnunar, sem virðist þrungin sömu bjartsýni og allar fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um horfur í fjármálum og efnahagsmálum á næsta ári.

Þjóðhagsstofnun virðist gefa sér þá forsendu, að margvísleg bjartsýni ríkisstjórnarinnar sé byggð á nógu traustum grunni. Samt blasir við, að kenningar ríkisstjórnarinnar fela í sér margs konar óskhyggju, sem engar horfur eru á, að verði að veruleika.

Ekki þarf annað en að skoða fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar til að sjá, að ríkisbúið mun áfram magna verðbólgu og erlendar skuldir og tefla á þann hátt þjóðarhag í tvísýnu. Forsendur frumvarpsins munu ekki standast og þar með er talin þjóðhagsspáin.

Seðlabankinn er ekki síður iðinn við að þjóna ímynduðum hagsmunum sérhverrar ríkisstjórnar með slíkum hætti. Hann er reiðubúinn til stuðnings, þegar núverandi ríkisstjórn telur það muni létta sér lífið á öðrum sviðum að neita sjávarútveginum um gengislækkun.

Sá banki, sem fyrr á tímum varaði ríkisstjórnir við útsölu á gjaldeyri, er nú farinn að draga fram erlendar skoðanir um fastara gengi, þótt þau sjónarmið henti betur í ýmiss konar þjóðfélagi, sem er stöðugra en okkar, og henti miklum mun síður í okkar verðbólgu.

Seðlabankinn gengur raunar enn lengra. Talsmenn hans halda fram, að gengið sé í rauninni alls ekki svo vitlaust skráð þessa dagana. Þjóðhagsstofnun tekur svo þátt í þessum bardaga við sjávarútveginn og segir tapið í fiskvinnslunni aðeins vera 3%, en ekki 8%.

Í öllum þessum ágreiningi, sem hér hefur verið rakinn, má rökstyðja ýmis sjónarmið. Athyglisvert er þó, að hinar opinberu stofnanir halda ætíð fram tölum og spám, sem henta ríkisstjórninni, falla að nánast barnalegri bjartsýni hennar á stöðu fjármála og efnahagsmála.

Ef svo heldur áfram, verður í auknum mæli farið að líta á Seðlabankann og Þjóðhagsstofnun sem fremur gagnslitlar áróðurstofnanir stjórnvalda. Í staðinn munu menn fremur efla trú á tölur og spár aðila út í bæ, sem hvorki þjóna þrýstihópum né stjórnvöldum.

Jónas Kristjánsson

DV