Greinar

Tæknileg ósannindi.

Greinar

Oft telja stjórnendur fyrirtækja og stofnana óþægilegt að svara spurningum fjölmiðla. Víða um heim er sá háttur hafður á við slíkar aðstæður, að þeir neita að svara spurningunum. Er þá skýrt frá neituninni og fjölmiðlarnir reyna að afla upplýsinganna á annan hátt.

Hér á landi hefur oftast verið farið eftir þessari reglu í samskiptum forsvarsmanna og fjölmiðla. Nýlega hefur þess þó gætt í auknum mæli, að ráðamenn fyrirtækja og stofnana víki sér ekki undan svari á hefðbundinn hátt, heldur fari beinlínis með rangt mál.

DV spurði í haust þáverandi formann stjórnar Hafskips, hvort fundað hefði verið með hugsanlegum kaupanda um sölu fyrirtækisins. Formaðurinn harðneitaði þessu og hafði þar á ofan stór orð um, hvílík firra þetta væri. Skömmu síðar kom í ljós, að viðræður höfðu átt sér stað.

Í fyrstu varði þáverandi stjórnarformaður ósannindi sín með því að halda fram, að viðræðurnar hefðu snúizt um sölu á hluta af rekstri fyrirtækisins. en ekki á fyrirtækinu í heild. Átti hann þá við, að rætt hefði verið um Íslands-, en ekki Atlantshafssiglingarnar.

Hin tæknilega útskýring breytir því ekki, að gerð var tilraun til að villa um fyrir almenningi. Hið sama var uppi á teningnum, þegar forstjóri Arnarflugs sagði öðrum fjölmiðli, að hann hefði ekki sagt upp störfum hjá félaginu “í gær”, eins og hann orðaði svarið.

Þessi forsvarsmaður var einnig með tæknilegri brellu að reyna að villa um fyrir almenningi. Hann var að reyna að koma í veg fyrir, að uppvíst yrði um, að hann hafði sagt starfi sínu lausu. Hann þóttist fara formlega með rétt mál, en fór efnislega með rangt mál.

Síðar varði hann þetta með því að vísa til þess, að hann og stjórn félagsins hefðu samið um að skýra ekki frá málinu fyrr en eftirmaður væri fundinn. Slíkt samkomulag er verjandi, ef það fjallar um neitun svara, en ekki, ef það felur í sér efnisleg ósannindi.

Stjórnendur fyrirtækja eru ekki einir um að hafa hætt sér út á hálan ís í slíkum efnum. Á svipuðum tíma og ofangreindar rangfærslur voru bornar á borð voru embættismenn í heilbrigðiskerfinu á sama hátt að hindra, að almenningur fengi að vita um eyðni á Íslandi.

Tveir sérfræðingar í sjúkdómi þessum, sem ýmist er kallaður eyðni, alnæmi eða ónæmistæring; svo og landlæknir, héldu því fram lengi vel gagnvart DV, að enginn slíkur sjúklingur lægi á sjúkrahúsi hér á landi. Einn væri með svokölluð forstigseinkenni.

Þessir embættismenn heilbrigðiskerfisins geta auðvitað reynt að verja sig með tæknilegum útskýringum eins og hinir tveir. En það breytir því ekki, að þeir voru að reyna að koma því inn hjá almenningi, að eyðni væri skemmra á veg komin hér á landi en var í raun.

Svo harðskeyttir voru þeir, að tveimur dögum eftir fyrsta mannslátið af völdum eyðni héldu þeir því enn fram, að enginn slíkur sjúklingur væri hér, hvað þá að einhver hefði látizt. Þeir fetuðu þannig í fótspor ýmissa yfirvalda í Afríku, sem hafa reynt að breiða yfir eyðni.

Augljóst er, að landlæknir hlýtur að lenda í erfiðleikum í framtíðinni, er hann telur sig þurfa á fjölmiðlum að halda, úr því að þeir hafa nú ástæðu til tortryggni.

Um öll þessi dæmi má segja, að tæknilegu ósannindin hafa ekki borgað sig. Þau verða vonandi öðrum til viðvörunar, svo að niður falli hinni nýi ósiður.

Jónas Kristjánsson

DV

Missti stjórn á sér.

Greinar

Leiðinlegt er, hve illa sumir þingmenn missa stjórn á sér í ræðustól. Það er eins og þeir hrífist svo af eigin málflutningi, að þeir missa fótfestu í efnislegum rökum og fara svo langt út fyrir staðreyndir, að þeir byrja að dreifa vömmum og skömmum í allar áttir.

Þeir eru að því leyti eins og ríkisbankar, að þeir bera enga ábyrgð. Bankarnir bera í skjóli ríkissjóðs enga ábyrgð á gerðum sínum. Og þingmenn bera í skjóli friðhelginnar á Alþingi enga ábyrgð á orðum sínum. Þeir geta rægt og rifizt án þess að þurfa að standa við það fyrir dómi.

Illræmt var, þegar þetta kom fyrir Ólaf Þ. Þórðarson á síðasta þingi. Farið var fram á, að hann endurtæki orð sín utan þings, svo að hægt væri að höfða meiðyrðamál gegn honum. Það þorði hann ekki, svo að þolendur fengu enga formlega leiðréttingu mála sinna.

Í gær kom þetta fyrir Ólaf R. Grímsson í ræðustól á Alþingi. Hann flutti þar langa ræðu, sem hann hreifst svo af, að hann byrjaði eð hreyta ókvæðisorðum í allar áttir. Meðal annars veittist hann að DV, útgáfufélagi þess, Frjálsri fjölmiðlun, og útgáfustjórum þess.

Ólafur laug því, að DV eða Frjáls fjölmiðlun hefði “notið sérstakra vildarkjara hjá Hafskipum” og verið notað “til þess að mjólka áfram lánin úr þjóðbankanum” “yfir í nýja húsið hjá DV hérna uppi í bæ”. Þessi stóru orð þarf þingmaðurinn þinghelginnar vegna ekki að standa við.

Staðreyndin er hins vegar sú, að DV eða Frjáls fjölmiðlun eiga ekki krónu í Hafskip og hafa aldrei átt, né heldur á Hafskip krónu í DV eða Frjálsri fjölmiðlun og hefur aldrei átt. Á þann hátt geta engir fjármunir færzt á milli fyrirtækjanna og hafa aldrei gert.

Staðreyndin er ennfremur sú, að DV eða Frjáls fjölmiðlun hafa ekki staðið í neinum umtalsverðum viðskiptum við Hafskip. Pappírinn í blaðið er ekki fluttur inn með Hafskip og hefur aldrei verið. Hann hefur verið og er fluttur inn með öðru skipafélagi, Eimskip.

Þannig er hvorki um neina eignaraðild að ræða, né nein viðskipti, sem máli skipta. Húseign DV er byggð á mörgum árum fyrir eigið aflafé fyrirtækisins án nokkurrar aðstoðar Hafskips og raunar án nokkurrar umtalsverðrar aðstoðar banka.

Til frekari áréttingar þess, að DV og Frjáls fjölmiðlun eiga enga aðild að máli því, sem alþingismaðurinn fjallaði um, má nefna, að þau eiga ekki viðskipti við banka þann, sem þingmaðurinn kallar þjóðbankann, Útvegsbankann. Viðskiptabanki okkar er Landsbankinn.

DV hefur verið byggt upp að húsnæði og tækjum án þess að gengið hafi verið í vasa ríkissjóðs og skattborgaranna, hvorki beint né gegnum bakdyrnar. Hið sama verður ekki sagt um blað alþingismannsins, Þjóðviljann, sem hefur stutt ógeðfelldan málflutning hans í máli þessu. Það lifir á ríkisstyrkjum.

Leiðinlegt er, að þingmaður skuli vera í slíkum vandkvæðum við að vekja á sér þá athygli, sem hann telur við hæfi, að hann skuli grípa til óyndisúrræða af þessu tagi. Raunar verður það ekki skýrt með öðrum hætti en hann hafi misst stjórn á sér í ræðustól.

Þótt þingmenn beri ekki fyrir dómstólum neina ábyrgð á orðum sínum í ræðustól á Alþingi. er æskilegt að þeir forðist upphlaup af þessu tagi, sem eiga verulegan þátt í að draga úr áliti fólks á hinni gamalgrónu stofnun.

Jónas Kristjánsson

DV

Missti stjórn á sér

Greinar

Leiðinlegt er, hve illa sumir þingmenn missa stjórn á sér í ræðustól. Það er eins og þeir hrífist svo af eigin málflutningi, að þeir missa fótfestu í efnislegum rökum og fara svo langt út fyrir staðreyndir að þeir byrja að dreifa vömmum og skömmum í allar áttir.

Þeir eru að því leyti eins og ríkisbankar, að þeir bera enga ábyrgð. Bankarnir bera í skjóli ríkissjóðs enga ábyrgð á gerðum sínum. Og þingmenn bera í skjóli friðhelginnar á Alþingi enga ábyrgð á orðum sínum. Þeir geta rægt og rifizt án þess að þurfa að standa við það fyrir dómi.

Illræmt var, þegar þetta kom fyrir Ólaf Þ. Þórðarson á síðasta þingi. Farið var fram á, að hann endurtæki orð sín utan þings, svo að hægt væri að höfða meiðyrðamál gegn honum. Það þorði hann ekki, svo að þolendur fengu enga formlega leiðréttingu mála sinna.

Í gær kom þetta fyrir Ólaf R. Grímsson í ræðustól á Alþingi. Hann flutti þar langa ræðu, sem hann hreifst svo af, að hann byrjaði að hreyta ókvæðisorðum í allar áttir. Meðal annars veittist hann að DV, útgáfufélagi þess, Frjálsri fjölmiðlun, og útgáfurstjórum þess.

Ólafur laug því, að DV eða Frjáls fjölmiðlun hefði “notið sérstakra vildarkjara hjá Hafskipum” og verið notað “til þess að mjólka áfram lánin úr þjóðbankanum” “yfir í nýja húsið hjá DV hérna uppi í bæ”. Þessi stóru orð þarf þingmaðurinn þinghelginnar vegna ekki að standa við.

Staðreyndin er hins vegar sú, að DV eða Frjáls fjölmiðlun eiga ekki krónu í Hafskip og hafa aldrei átt, né heldur á Hafskip krónu í DV eða Frjálsri fjölmiðlun og hefur aldrei átt. Á þann hátt geta engir fjármunir færzt á milli fyrirtækjanna og hafa aldrei gert.

Staðreyndin er ennfremur sú, að DV eða Frjáls fjölmiðlun hafa ekki staðið í neinum umtalsverðum viðskiptum við Hafskip. Pappírinn í blaðið er ekki fluttur inn með Hafskip og hefur aldrei verið. Hann hefur verið og er fluttur inn með öðru skipafélagi, Eimskip.

Þannig er hvorki um neina eignaraðild að ræða, né nein viðskipti, sem máli skipta. Húseign DV er byggð á mörgum árum fyrir eigið aflafé fyrirtækisins án nokkurrar aðstoðar Hafskips og raunar án nokkurrar umtalsverðrar aðstoðar banka.

Til frekari áréttingar þess, að DV og Frjáls fjölmiðlun eiga enga aðild að máli því, sem alþingismaðurinn fjallaði um, má nefna, að þau eiga ekki viðskipti við banka þann, sem þingmaðurinn kallar þjóðbankann, Útvegsbankann. Viðskiptabanki okkar er Landsbankinn.

DV hefur verið byggt upp að húsnæði og tækjum án þess að gengið hafi verið í vasa ríkissjóðs og skattborgaranna, hvorki beint né gegnum bakdyrnar. Hið sama verður ekki sagt um blað alþingismannsins, Þjóðviljann, sem hefur stutt ógeðfelldan málfutning hans í máli þessu. Það lifir á ríkisstyrkjum.

Leiðinlegt er, að þingmaður skuli vera í slíkum vandkvæðum við að vekja á sér þá athygli, sem hann telur við hæfi, að hann skuli grípa til óyndisúrræða af þessu tagi. Raunar verður það ekki skýrt með öðrum hætti en hann hafi misst stjórn á sér í ræðustól.

Þótt þingmenn beri ekki fyrir dómstólum neina ábyrgð á orðum sínum í ræðustól á Alþingi, er æskilegt að þeir forðist upphlaup af þessu tagi, sem eiga verulegan þátt í að draga úr áliti fólks á hinni gamalgrónu stofnun.

Jónas Kristjánsson

DV

Gagnleg rannsókn.

Greinar

Skynsamlegt er að flýta rannsókn á samskiptum Útvegsbankans og Hafskips. Ríkisstjórnin hefur að tillögu forsætisráðherra samþykkt, að slík rannsókn fari fram á vegum viðskiptaráðherra, sem ekki er hrifinn af hugmyndinni. Hann hefur sagt þetta vera verkefni skiptaráðanda.

Niðurstöður skiptaráðanda munu ekki hreinsa andrúmsloftið í máli þessu. Hann á að fjalla um Hafskip, en ekki Útvegsbankann. Kröfurnar um rannsókn beinast hins vegar að því, hvort bankinn hafi verið misnotaður og hvort stjórnmálamenn hafi haft óeðlileg afskipti af málinu.

Nafn Alberts Guðmundssonar iðnaðarráðherra, fyrrum formanns bankaráðs Útvegsbankans og þar áður formanns Hafskips, hefur verið nefnt í þessu sambandi. Hann hefur sjálfur hvatt til þess, að hans þáttur í málinu verði rannsakaður, svo að hann verði hreinsaður af ásökunum.

Af þessu má ráða, að sérstök rannsókn er réttmæt. Ef Matthías Bjarnason viðskiptaráðherra er tregur, er ekkert við það að athuga, að Alþingi skipi rannsóknarnefnd. Boðað hefur verið, að tillaga um slíka nefnd Alþingis verði lögð fram í þessari viku.

Bezt væri, að slík nefnd liti aðeins víðar en til samskipta Útvegsbankans og Hafskips til þess að tryggja samræmi og jafnræði. Fleiri bankar hafa átt í vandamálum vegna erfiðra viðskiptavina. Er skemmst að minnast Fiskveiðasjóðs, sem löngum hefur lánað frjálslega.

Tap Útvegsbankans á Hafskipi hf. er nokkurn veginn í stíl við tap Fiskveiðasjóðs á tveimur togurum, sem nú liggja undir hamrinum. Mjög auðvelt er að halda því fram, að þau lán hafi bæði verið pólitísk og veitt gegn ráðum og aðvörunum skynsamra manna.

Víðari yfirsýn af því tagi gæti leitt í ljós almenna veikleika í ríkisbankakerfinu. Rannsóknin mundi þá ekki aðeins hreinsa andrúmsloftið í þessu tiltekna máli, heldur einnig leiða til endurbóta, sem kæmu í veg fyrir, að óráðslánveitingar héldu áfram.

Sennilega er stór hluti vandans sá, að stjórnmálamennirnir, sem sitja í bankaráðum og sjóðastjórnum, svo og fyrrverandi stjórnmálamennirnir, sem sitja í sjálfum bankastjórastólunum, líta ekki á mál með venjulegum augum bankamanna, heldur óskhyggjuaugum.

Ekki bætir úr skák, ef þessir stjórnmálamenn í gervi bankamanna hafa skjól af því, að þeir beri enga ábyrgð, því að ríkið borgi brúsann, þegar mistök verða. Þessa ríkisábyrgð þarf að afnema, helzt með því að breyta ríkisbönkum og ýmsum sjóðum í sjálfstæð hlutafélög.

Hafskipsmálið hefur ekki aðeins vakið athygli á brestum í bankakerfinu. Það hefur líka sýnt, hversu óvirkir aðilar stjórnir og endurskoðendur fyrirtækja eru í samanburði við erlendar hefðir. Framkvæmdastjórar ráða ferðinni í meira mæli en þekkist í nálægum löndum.

Skynsamlegt væri að nota tækifærið til að hefja smíði endurbóta á lögum um hlutafélög í þá átt, að staða stjórna og endurskoðenda verði efld, bæði skyldur þeirra og réttindi. Á sama hátt verði efld staða minnihluta í stjórnum fyrirtækja.

Ef rannsókn á samskiptum Útvegsbankans og Hafskips hreinsar andrúmsloftið í málinu og leiðir til endurbóta í stjórn banka og fyrirtækja, má segja það staðfesta, að fátt sé svo með öllu illt, að ekki boði nokkuð gott.

Jónas Kristjánsson

DV

Dýrt gjaldþrot.

Greinar

Komið hefur í ljós. að tjónið af völdum erfiðleika Hafskips mun nema nokkrum hundruðum milljóna, þegar öll kurl eru komin til grafar í gjaldþrotinu. Mest verður tap Útvegsbankans, líklega um eða yfir 300 milljónir, og hluthafanna, tæplega 100 milljónir.

Þetta eru aðeins tölur á blaði og segja ekki alla söguna. Að baki Útvegsbankans er ríkið fyrir hönd skattborgara og annarra landsmanna, sem verða fyrir miklu tjóni, ef til vill upp í hagnað þjóðfélagsins af 27 ára samkeppnisstöðu Hafskips og hagnað bankakerfisins af 27 ára viðskiptum Hafskips.

Að baki hluthafanna eru fyrirtæki og heimili úti í bæ. Það verður mörg fjölskyldan og margur reksturinn, sem verður fyrir þungu áfalli við gjaldþrot Hafskips.

Eðlilegt er, að fólk spyrji, hvernig svona lagað geti gerzt og hvað sé til ráða. Að vísu er þetta ekki eina gjaldþrotið hér, þótt slíkar hörmungar séu algengari í útlöndum. Ýmis fiskiskipaútgerð hefur orðið gjaldþrota á sama tíma og valdið hundraða milljóna tjóni.

Fyrst og fremst er það stærð tjónsins, sem sker í augu. Í togaraútgerðinni stafa slík tjón sumpart af innbyggðum velvilja kerfisins í garð fiskveiða. Og í kaupskipaútgerð Hafskips virðist tjónið sumpart stafa af óeðlilegum aðgæzluskorti Útvegsbankans á þessu síðasta ári.

Stærsta þáttinn í útreið Hafskips eiga Atlantshafssiglingarnar, sem hófust í fyrrahaust. Svo virðist sem ýmsir helztu ráðamenn fyrirtækisins hafi ekki tekið nægilegt mark á aðvörunum og gefið bæði stjórnarmönnum og hluthöfum ranga mynd af stöðunni.

Á þessu stigi málsins er ekki ástæða til að vera með vangaveltur um, hvort bjartsýnin hafi verið ósjálfráð eða af ásettu ráði. Altjend er ljóst, að stjórnarmenn og ýmsir aðrir hluthafar voru illilega smitaðir af þessari bjartsýni á aðalfundinum í vor.

Þar var samþykkt að auka hlutaféð úr 15 milljónum í 95 milljónir. Vafasamt er, að nokkur þeirra, sem tóku þátt í aukningunni, hefði gert það, ef þeir hefðu haft raunhæfar upplýsingar um horfur fyrirtækisins. Fyrir þetta verða þeir nú að gjalda dýru verði.

Hin mikla bjartsýni hlutafjárkaupenda hefur án efa smitað yfir í Útvegsbankann, sem hafði heimtað þessa aukningu hlutafjár. Bankinn, sem áður hafði dottað á verðinum, virðist hafa sannfærzt um, að aukningin þýddi, að vandamálið væri komið út úr heiminum.

Svo virðist sem ráðamenn Útvegsbankans hafi árum saman tekið lítið sem ekkert mark á aðvörunum Bankaeftirlitsins, sem aðallega fjölluðu um, hversu varasamt væri að vera með svona mörg egg í sömu körfunni. Bankinn hefði ekki burði til að hafa svona fjárfrekan viðskiptavin.

Einkar sérkennileg afstaða ráðamanna Útvegsbankans hefur komið átakanlega fram í öðru máli, kynningu bankans á nýju sparifjárformi. Í henni segir orðrétt: “Í ríkisbanka er áhættan engin”. Með þessu er vísað til, að ríkissjóður beri ábyrgð á skuldbindingum bankans.

Af þessu má læra, að ríkisbankar hafa tilhneigingu til að vera ábyrgðarminni en einkabankar, enda hafa hinir síðarnefndu reglur um fjölda eggja í hverri körfu. Slíkar reglur ætti að setja um ríkisbanka einnig. Síðan ætti að breyta ríkisbönkunum í banka án ríkisábyrgðar.

Slíkt hindrar ekki. að áfram fari rekstur á höfuðið. Með auknu bankaaðhaldi má þó minnka skellinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Ruglingslegar tillögur.

Greinar

Fyrri efasemdir um, að ríkisstjórnin geti áfallalítið grautað áfram í efnahagsmálum þjóðarinnar og fjármálum ríkisins, eru orðnar að fullri vissu. Hún hefur misst flest þau tök, sem máli skipta- og lifir í sjálfsblekkingu.

Gert er ráð fyrir, að í dag samþykki ríkisstjórnin ruglingslegar tillögur forsætis- og fjármálaráðherra um afnám vísitölu af skammtímalánum og lengingu skammtímalána yfir í langtímalán. Ekki hefur verið upplýst, hvort þetta sé samræmd aðgerð eða sitt hvor.

Hugsanlegt er, að lántakendur eigi að fá að velja milli vísitöluafnáms eða lengingar. Einnig er hugsanlegt, að þeir fái hvort tveggja. Það mundi þá þýða, að hin nýju langtímalán yrðu einnig án vísitölu. Þar með væri búið að fleygja allri vísitölutryggingu fyrir róða.

Sennilega eiga ráðherrarnir við, að húsbyggjendur, sem eru í vandræðum vegna eldri lána, eigi að fá skuldbreytingu til lengri tíma og þá með vísitölu. Ennfremur, að þeir, sem taka ný lán, fái þau til skamms tíma og án vísitölu. Þetta séu semsagt ekki sömu lánin.

Kúvendingin frá stefnu sparifjármyndunar er sögð gerð í þágu húsbyggjenda. Samt hafa margir bent á, að vísitalan hafi á allra síðustu árum fylgt launakjörum. Það sé ekki hún, heldur hækkun vaxta, sem sé að fara með húsbyggjendur um þessar mundir.

Mun raunhæfara væri að reyna að halda sparnaði inni í bankakerfinu og reyna að styðja húsbyggjendur með öðrum hætti, til dæmis með því að endurgreiða þeim hluta vaxtanna með skattafslætti. Slík hliðaraðgerð væri síður líkleg til að valda skaða á öðrum sviðum.

Ríkisstjórnin hefur ekki haldið þannig á málum, að hún geti leyft sér að reka sparifé úr bönkunum. Hún á frumkvæði að stórfelldum taprekstri þjóðfélagsins um þessar mundir. Vöruskiptahallinn, sem nam 300 milljón krónum í fyrra, tvöfaldast á þessu ári í 600 milljónir.

Enn alvarlegri verða tölurnar, þegar þjónustuhallinn er tekinn með. Samanlagt er búizt við, að viðskiptahallinn muni nema 5100 milljón krónum á þessu ári. Slíkur halli lýsir sér auðvitað í, að áfram er safnað skuldum í útlöndum og aukinn kostnaður við útgerð þeirra.

Ný langtímalán frá útlöndum, umfram endurgreiðslur eldri lána, munu nema 3300 milljón krónum á þessu ári. Verður þá skuld Íslendinga í löngum og stuttum lánum gagnvart útlöndum komin upp í 300 þúsund krónur á hvert mannsbarn. Það eru 1,2 milljónir á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu.

Brotlegasti aðilinn í söfnun þessara skulda er sjálft ríkið og stofnanir þess. Hið opinbera skuldar um 50 af 70 milljarða heildarskuld þjóðfálagsins. Í langtímaskuldum er hlutur ríkisvaldsins enn hærri. Fyrir þessari skuld hefur ríkið sett ófædd börn að veði.

Ríkisstjórn forsætis- og fjármálaráðherra hyggst geysast áfram á þessari hröðu braut til helvítis. Áætlað er, að á næsta ári muni nýjar erlendar lántökur opinberra aðila nema 6,1 milljarði króna, sem er 2,4 milljörðum umfram endurgreiðslur eldri skulda.

Forsætis- og fjármálaráðherra hafa engar hugmyndir sett fram um niðurskurð ríkisútgjalda til að mæta þessu. Þeir hafa heldur ekki sett fram neinar hugmyndir, hvernig ríkið geti sótt þetta fé í innlendan sparnað í stað hinna erlendu lána, sem gera þjóðina gjaldþrota.

Þeir setja aftur á móti fram ruglingslegar hugmyndir, sem hæglega og líklega munu skaða þjóðarhag.

Jónas Kristjánsson

DV

Hugmyndaflug.

Greinar

Fjármálaráðherra hefur kynnt fremur óljósar hugmyndir um lánamál, sem hann hyggst bera undir ríkisstjórnina í dag. Samkvæmt þeim á að afnema vísitölubindingu skammtímalána og skylda hankana til að skuldbreyta þeim til lengri tíma en þriggja ára.

Samkvæmt orðanna hljóðan þýðir þetta á íslenzku, að skammtímalánin verði að langtímalánum og vísitalan verði einnig afnumin af hinum nýju langtímalánum, sem áður voru skammtímalán. Hugsanlegt er þó, að fjármálaráðherra hafi ekki hugsað málið svo langt.

Bankastjórar segja hugmyndir fjármálaráðherra vera illa skiljanlegur. Þeir benda á, að afnám vísitölubindingar innlána hljóti að fylgja afnámi hennar af útlánum, ef ekki eigi allt að fara í graut. Samræmi verði að vera milli kjara á innlánum og útlánum.

Þar á ofan telja bankastjórar, að ríkisstjórnin geti ekki skipað bönkunum að gera þetta. Hún geti bara farið fram á það. En ef til vill hyggst fjármálaráðherra fá Alþingi til að setja lög um þetta. Það er ekki ljóst, frekar en annað í máli þessu.

Á sama tíma og fjármálaráðherra varpar fram hugmyndum um útsölu á sparifá er ríkisstjórnin búin að láta semja Seðlabankafrumvarp, sem felur í sér, að bankar megi sjálfir ákveða vexti. Ekki er ljóst, hvernig hugmyndir fjármálaráðherra falla í þann ramma.

Ríkisstjórnin verður að átta sig á, að ekki má samþykkja neinar hugmyndir, sem fela í sér flótta sparifjár úr innlánsstofnunum. Hún hefur ekki margar rósir í hnappagatinu aðrar en þá, að sparifá hefur aukizt á valdaskeiði hennar. Þeirri rós má hún ekki týna.

Fjármálaráðherra vill vera góður við húsbyggjendur, sem eru að sligast af skammtímalánum í bönkum. Það er afar fallega hugsað. En þessir sömu húsbyggjendur hafa bent á, að óverðtryggð lán séu þyngri en verðtryggð í upphafi endurgreiðslutímans.

Hugsanlega er fjármálaráðherra hér hafður fyrir rangri sök. Hugmyndir hans kunna að vera betri en hér hefur verið lýst. Ef til vill á hann bara erfitt með að tjá sig um þær. Vonandi kemur það í ljós sem allra fyrst. Hringlandi í fjármálum er afar óheppilegur.

Fjármálaráðherra hefur aflað sér mikilla vinsælda hjá forustumönnum vinnumarkaðarins með því að falla frá áformum um lækkun tolla og tekjuskatts og hækkun vörugjalds. Fráhvarfið felur nefnilega í sér, að hin margfræga vísitala hækkar ekki um 1-1,5 af hundraði.

Forustumenn launþegasamtaka hafa ekki umtalsverðar áhyggjur af því, hvort tilfærslur milli tegunda opinberra gjalda breyti lífskjörum umbjóðenda sinna. Þeir hafa hins vegur feiknarlegur áhyggjur af því, hvaða áhrif slíkar tilfærslur hafa á vísitölur.

Við erum enn einu sinni komin í þá stöðu, að helztu úrræði valdhafanna felast í að velja leiðir, sem spara vísitöluhækkanir sem mest. Það eru reikningskúnstir af því tagi, sem hafa verið þjóðinni dýrastur á liðnum árum. Vísitalan hefur komið í stað raunveruleikans.

Tilfærslur milli tegunda opinberra gjalda og lánskjaraæfingar mega ekki leiða til þess, að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin haldi, að slíkt geti komið í staðinn fyrir raunhæfar aðgerðir – lækkun opinberra útgjalda.

Ríkið hefur um langt skeið kynt undir verðbólgunni með óráðsíu í eigin fjármálum. Kominn er tími til, að fjármálaráðherra fái góðar hugmyndir á því sviði.

Jónas Kristjánsson

DV

Af vondum fréttum.

Greinar

Nokkrar ríkisstjórnir í Suðaustur-Asíu hafa gripið til hertra aðgerða gegn fjölmiðlum til að tryggja sér þægilegan fréttaflutning. Þetta eru stjórnvöld lndónesíu, Malaysíu og Singapúr. Þau feta þar með í fótspor mikils meirihluta stjórnvalda í þriðja heiminum.

Aðgerðirnar beinast gegn kunnum blöðum; Asiaweek, Far Eastern Economic Review, New Straits Times og Asian Wall Street Journal. Blöðin hafa gerzt sek um réttar frásagnir af vopnakaupum, viðskiptum við Kína, ástandinu í hernum og hjá dómstólunum.

Hvaðanæva berast tíðindi af misjafnlega grófri viðleitni stjórnvalda þriðja heimsins til að ráða því, hvað almenningur í löndum þeirra fær að vita um stjórnarfar og ástand mála heima fyrir og hvað Vesturlandabúar fá að vita um atburði þar syðra.

Mannréttindi í vestrænum skilningi eiga ekki upp á pallborðið hjá slíkum stjórnvöldum. Staðreyndin er einfaldlega sú, að þorri ráðamanna þriðja heimsins er bófar, sem kvelja og ræna þjóðir sínar.

Algengasta tegund stjórnarfars í heiminum er lögregluríki, þar sem almenningur sætir pyntingum, fangelsunum og morðum, svo sem sést af skýrslum Amnesty. Ráðamenn slíkra ríkja kæra sig ekkert um frásagnir af þessu athæfi eða annarri frammistöðu sinni.

Þeir stela líka öllu steini léttara. Áætlað er, að helmingur allra lána frá Vesturlöndum lendi á svissneskum bankareikningum. Marcos á Filippseyjum og Suharto í lndónesíu eru frægir fyrir þetta, en suðuramerískir herforingjar hafa líka verið drjúgir.

Harðstjórar þriðja heimsins svara fréttum um þetta með því að segja þær vera hreina lygi. Vesturlönd noti yfirburði sína í fjölmiðlun til að rægja þriðja heiminn. Slíkt beri að stöðva, meðal annars með því að takmarka aðgang fréttamanna að þessum löndum.

Ennfremur segja þeir þjóð sína bera skaða af ágreiningi í fjölmiðlum heima fyrir. Fjölmiðlanir eigi ekki að segja vondar fréttir, heldur stuðla að uppbyggingu landsins.

Til að tryggja slíkt beri áróðursráðuneytunum að ritskoða fjölmiðlana og helzt að eiga þá. Til þess að sjá í gegnum þessar kenningar harðstjóranna verða menn að gera skarpan greinarmuná þjóðum þriðja heimsins annars vegar og hins vegar ráðamönnum hans, er nota kenningarnar sem eitt öflugasta kúgunartæki sitt.

Harðstjórar heimsins hafa tekið saman höndum í Unesco, Menntastofnum Sameinuðu þjóðanna. Þar mynda þeir meirihluta að baki forstjóra, sem hagar sér eins og keisari og brennir í París þremur krónum af hverjum fjórum, sem stofnunin hefur í tekjur.

Á vegum Unesco eru samin gögn, sem eiga að sýna fram á, að nauðsynlegt sé að skipuleggja fjölmiðlun í heiminum á nýjan hátt, svo að harðstjórarnir ráði því, hvaða fréttir berist frá ríkjum þeirra, til þeirra og innan þeirra. Gögnin eru notuð til að herða ritskoðun.

Af þessum og öðrum ástæðum hafa Bandaríkin sagt skilið við hina aumu stofnun og Bretland ítrekað tilkynningu um brottför um áramótin. Ísland setur hins vegur sitt litla lóð á vogarskál harðstjóranna og leggur keisaranum í Unesco meira að segja til stjórnarmann.

Ef ríkisstjórn Íslands vildi hins vegar leggjast á sveif með alþýðu þriðja heimsins, mundi hún segja skilið við hina fjárhagslega og hugsjónalega gerspilltu stofnun.

Jónas Kristjánsson

DV

Arðlítið skólakerfi.

Greinar

Skólakerfi okkar er afar dýrt fyrirbæri. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir, að það kosti ríkið eitt tæplega 4400 milljónir króna á næsta ári. Það eru um 13% allra útgjalda þess. Til viðbótar kemur svo töluverður kostnaður sveitarfélaga og heimila.

Auk kostnaðarins er margvísleg fyrirhöfn fylgjandi kerfinu. Margir skólamenn sinna mun meiru en lágmarksskyldum. Þeir sækja námskeið og ráðstefnur, sem miða að betri kennslu og hæfara skólastarfi. Þeir hafa áhuga á fleiru en að fá launin bætt.

Samt er einkennilegt, að skólamenn virðast vera ánægðir með, að skólakerfið sé sex til átta ár að kenna börnum að lesa, skrifa og reikna. Ef tekið er tillit til kostnaðarins og fyrirhafnarinnar, hlýtur útkoman að fela í sér afar litla arðsemi.

Framleiðslugeta kerfisins er svo lítil, að margir ljúka háskólaprófum eftir sautján ár eða lengri tíma án þess að kunna að skrifa. Hafa þó skrifleg próf verið ein helzta atvinna þeirra öll þessi ár. Skólamenn fjalla of lítið um slíkan vanda.

Skólarnir eru í raun fyrst og fremst geymslur fyrir börn og unglinga. Þeir gera foreldrum kleift að losna við börnin til að geta dregið tvenn laun í búið. Það er mikilvægt hlutverk, úr því að þjóðfélagið krefst tveggja manna vinnu af hverri fjölskyldu.

En skólarnir eru allt of dýrir, ef aðallega er litið á þá sem geymslustofnun. Slíka þjónustu hlýtur að vera hægt að veita á ódýrari hátt. Þar að auki sinna þeir þessu hlutverki afar illa. Þeir bjóða ekki einu sinni samfelldan skólatíma og aðstöðu til heimanáms.

Skólakerfið virðist ekki í stakk búið til að sinna á sæmilegan hátt öðrum en þeim, sem eru á meðaltalsróli. Þeir, sem meira eða minna geta, fá sjaldnast eftirtekt við hæfi. Í mörgum tilvikum er skyldunámið gagnslaust og jafnvel skaðlegt slíkum nemendum.

Öldungadeildirnar eru skörp andstæða annarra þátta skólakerfisins. Þar er arðsemin mikil. Þangað kemur fólk ekki af skyldu eða vana, heldur af áhuga. Það sefur ekki í tímum, heldur tekur námið með áhlaupi. Það hefur sjálft frumkvæði að náminu, sem það stundar.

Skólamenn ræða lítið um, hvort skólaskylda – sem skylda barna til að vera í skóla – eigi ekki að víkja fyrir fræðsluskyldu – sem skyldu kerfisins til að veita fræðslu þeim, sem þess óska. Frumkvæðið veitir meiri arðsemi en skyldan í grunnskólum og vaninn í framhaldsskólum.

Skólamenn ræða enn minna um, hvort opnir skólar, sem beita nútímatækni útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölvudisklinga, eigi ekki að leysa hina hefð- bundnu, lokuðu skóla af hólmi. Þeir minnast raunar ekki á slíka skóla, hafa líklega ekki nægan áhuga.

Í gamla daga lærðu börn að lesa, skrifa og reikna á skömmum tíma í heimahúsum eða farskólum. Í nútímanum lærir starfandi fólk að ráða betur við verkefni sín með því að sækja námskeið í stuttan tíma, með heimanámi eða með hvoru tveggja.

Slík arðsemi sést ekki í skólakerfinu. Þar situr fólk af skyldu eða vana og lætur sér leiðast. Þar er hangsað eins og í unglingavinnunni. Merkilegt er, hvað lítið er fjallað um þetta arðleysi af annars ráðstefnu- og námstefnuglöðum skólamönnum.

Of mikið er að verja 13% ríkissjóðs til úrelts skólakerfis, sem ekki getur horfzt í augu við annmarka sína.

Jónas Kristjánsson

DV

Opinn skóli er framtíðin.

Greinar

Ragnar Arnalds hefur lagt fram á Alþingi tillögu um opinn háskóla í svipuðum stíl og margoft hefur verið hvatt til hér í blaðinu og forverum þess í um það bil áratug. Slíkur skóli byggist á námi í heimahúsum með aðstoð útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölvutækni.

Tillögurnar í DV hafa að því leyti verið víðtækari, að þær hafa fjallað um opið framhaldsnám, ekki aðeins háskólanám. Tillaga Ragnars gerir þó ráð fyrir þeim möguleika, með því að opni háskólinn sé öllum opinn án tillits til fyrri menntunar.

Opinn skóli er svo sjálfsagður og eðlilegur, að furðulegt má telja, hversu litlar undirtektir hann hefur fengið meðal skólamanna. Fálæti þeirra segir raunar allt, sem segja þarf, um staðnað ástand skólamála á Íslandi.

Í Bretlandi hefur opinn háskóli verið rekinn með góðum árangri í hálfan annan áratug. Þar hefur fengizt reynsla, sem getur komið okkur að gagni. Þar er líka á boðstólum kennsluefni, sem tiltölulega ódýrt er að laga að íslenzkum aðstæðum.

Opnir skólar, er byggja á heimanámi, bæta aðstöðu nemenda, sem búa fjarri menntastofnunum. Tækni nútímans er notuð til að flytja námsefnið beint í fang þeirra. Ekki er hægt að hugsa sér öflugri jöfnun á misrétti milli Reykjavíkursvæðisins og dreifbýlisins.

Á venjulegu framhaldsskólastigi má nota þessa tækni til að létta fagþekkingarkröfum af kennurum heima í héraði. Þeir geta einbeitt sér að leiðbeiningum og aðstoð, en geta fengið sjálfa fræðsluna senda að sunnan, í útvarpi og sjónvarpi, á myndböndum og disklingum.

Þessi sama tækni getur stuðlað að velgengni og útþenslu bezt heppnaða geira skólakerfisins, öldungadeildunum. Hún auðveldar fólki að stunda nám utan venjulegs vinnutíma og að haga námshraða eftir aðstæðum. Hún opnar skólakerfið upp á gátt.

Gott er, að opni háskólinn hafi heimavist, þar sem nemendur geta komið til stuttrar dvalar. Þar geta þeir áttað sig betur á gengi sínu í náminu. Þar geta þeir farið í verklegar æfingar eða stundað aðra þá námsþætti, sem tæknin ræður síður við.

Slíkri heimavist mætti koma upp á Akureyri í stað hinnar vitlausu hugmyndar að setja þar upp háskóladeildir. Þannig gæti staður utan Reykjavíkursvæðisins orðið eins konar miðstöð opna framhaldsskólans.

Margt námsefni, sérstaklega það, sem dýrt er í vinnslu. má kaupa hjá opna háskólanum í Bretlandi og setja í það íslenzkar þýðingar. Sumt af þessu efni þarf ekki einu sinni að þýða, til dæmis tungumálakennslu.

Til viðbótar er unnt að búa til þætti með færustu kennurum í landinu og nýta þannig hæfni þeirra langt út fyrir veggi skólastofunnar. Slíkt hlýtur að vera betra en kennsla áhugalausra og lítt fróðra kennara, þótt persónulega sambandið sé minna.

Með samtvinnun erlendra og innlendra kennsluflokka, samtvinnun útvarps og sjónvarps, myndbanda og tölva, heimanáms og heimavistar, framhaldsnáms og öldungadeilda, er unnt að veita nýju lífi í staðnað skólakerfi landsins og koma upp kerfi símenntunar.

Aldrei hefur heyrzt nein gagnrýni á þessar hugmyndir. Skólamenn landsins hafa þagað þunnu hljóði, enda er vafasamt, að þeir botni nokkuð í nútímatækni. En tillaga Ragnars verður vonandi til að vekja þá og þjóðina af værum skólamálablundi.

Jónas Kristjánsson

DV

Tölvan og tungan.

Greinar

Ekki er langt síðan fólk fékk almennt rangt stíluð bréf frá bönkum og opinberum stofnunum vegna frumstæðrar tölvutækni. Dæmi um það var, að brodda vantaði yfir stafi, svo að stundum komu út hjákátleg nöfn, sem voru hrein móðgun við fólkið, er bréfin átti að fá.

Nú er öldin önnur. Flest tölvufyrirtækin, sem öflugust eru á íslenzka markaðinum, eru með alla íslenzku stafina rétt skapaða og meira að segja á réttum stöðum á ritvélarborðinu. Því reynist flestum auðvelt að flytja sig frá hefðbundnum ritvélum yfir til tölva.

Þá hafa tölvuborðin ekki hinar sömu vélrænu takmarkanir og ritvélarnar. Þau veita meira rúm fyrir íslenzka sérvizku og hefðir. Til dæmis er auðveldara að fá réttar, íslenzkar gæsalappir en áður var.

Eitt tölvukerfið, það sem hefur verið tekið í notkun hér á DV, getur skipt orðum milli lína með 95% nákvæmni samkvæmt íslenzkum reglum. Sá árangursríki hugbúnaður er unninn af Norsk Data í samvinnu við handritalesara Morgunblaðsins og DV.

Fólk, sem hættir að nota ritvél og fer að nota tölvu, getur skilað frá sér betri íslenzku og á þægilegri hátt. Tölvan gefur nefnilega kost á margvíslegum breytingum í miðju kafi, án þess að hreinskrifa þurfi á eftir.

Þannig má færa til heilu málsliðina, breyta orðaröð og leiðrétta á annan hátt svo rækilega, að handritið hefði orðið ólæsilegt með gamla laginu. Tölvan heldur handritinu ætíð hreinu og freistar á þann hátt til nákvæmari notkunar íslenzku.

Búast má við, að í framtíðinni geti tölvutæknin veitt íslenzkri tungu enn betri þjónustu. Í Bandaríkjunum er til hugbúnaður fyrir samheiti í ensku máli, enda hefur samheitaorðabók verið til á ensku í meira en öld í sífelldum endurútgáfum.

Þar er hægt að láta tölvur veita leiðbeiningar um notkun orða, til dæmis vara við ofnotkun einstakra þeirra. Þar getur fólk sótt sér í tölvuna aukna fjölbreytni í orðavali og næmari skilning á blæbrigðum samheita.

Slík samheitaorðabók fyrir íslenzka tungu er nú í fyrsta skipti að koma út. Sú bók verður tungunni vafalítið til mikils stuðnings. Efni þeirrar bókar mætti svo koma fyrir í hugbúnaði tölva á einhvern hliðstæðan hátt við það, sem gert hefur verið í Bandaríkjunum.

Þar vestra er til margvíslegur annar hugbúnaður til verndar enskri tungu í tölvukerfum. Tölvur gera tillögur um breytingar á stafsetningu í samræmi við stafsetningarorðabók, sem þær hafa verið mataðar á. Þá er til hugbúnaður, sem varar við klisjum og stofnanamáli.

Tölvukerfi eru að verða svo öflug, að fylla má hluta minnis þeirra með margvíslegum orðabókum samheita, stafsetningar, stofnanamáls, slangurs og annarra slíkra bóka, til eftirbreytni eða viðvörunar, eftir því sem við á hverju sinni.

Með því að hleypa texta gegnum slíkan hugbúnað mundi fólk geta náð sér í eins konar kennara, sem leiðbeindi um notkun rétts máls, eins og það er talið vera hverju sinni. Tungunni hlýtur að vera styrkur að slíku.

Þannig má búast við, að tölvur framtíðarinnar misþyrmi ekki íslenzku, eins og hinar gömlu gerðu, og lagi sig ekki aðeins að tungunni, svo sem hinar nýju gera, heldur verði henni beinlínis til framdráttar.

Jónas Kristjánsson

DV

Við eigum afmæli.

Greinar

DV á fjögurra ára afmæli í dag, 26. nóvember. Um svipað leyti eiga forverar blaðsins merkisafmæli. Elzta dagblað landsins, Vísir, verður 75 ára 10. desember og Dagblaðið varð tíu ára 8. september. Það er því þreföld ástæða til fagnaðar.

DV minnist þessara tímamóta með áþreifanlegum hætti. Í fyrsta lagi er flutt í nýtt og eigið húsnæði, sem reist hefur verið yfir allan rekstur fyrirtækisins. Í öðru lagi er verið að taka í notkun á blaðinu eitt af stærstu tölvukerfum landsins.

Fram til þessa hefur DV verið til húsa á ýmsum stöðum í Reykjavík. Samgangur hefur því oft verið tafsamur. Þetta hefur háð starfseminni og vafalaust komið niður á lesendum og auglýsendum. Nú er þessu frumbýlingsskeiði að ljúka.

Nýja húsið er að Þverholti 11, aðeins steinsnar frá Hlemmtorgi, miðstöð samgangna í borginni. Ritstjórn og prentsmiðja fluttu þangað búferlum um helgina. Áður höfðu almenna skrifstofan, afgreiðsla og smáauglýsingadeild komið sér þar fyrir. Innan skamms verður auglýsingadeildin komin þangað líka.

Um leið er tekin upp í öllum deildum blaðsins hin fullkomnasta tækni, sem völ er á. Þungamiðja tækninnar er tölvukerfi frá Norsk Data. Það er óvenjulegt að því leyti, að það spannar allar deildir DV, framleiðslu, hönnun, ritstjórn, orðaskiptingu, safnvinnslu, auglýsingar, áskrift, dreifingu, viðskipti og bókhald.

Þetta er eitt af stærstu, fasttengdu tölvukerfum landsins. Fjórar samtengdar tölvur með samanlagt tólf milljón stafa innra minni og tæplega tveggja milljarða stafa diskaminni þjóna 61 útstöð. Rúmlega þrír fjórðu hlutar kerfisins eru þegar komnir í notkun.

Sem dæmi um fullkominn hugbúnað tölvukerfisins má nefna, að því tekst að skipta orðum milli lína með 95% nákvæmni samkvæmt íslenzkum reglum. Það er mun meiri nákvæmni en áður hefur náðst á þessu sviði. Talið er, að með viðbótaraðgerðum megi koma nákvæmninni upp í 98%.

Önnur mikilvæg endurbót í tækninni eru tvær nýjar tölvur, sem setja texta blaðsins með leysigeisla. Hraði þeirra í vinnslu er gífurlegur, miklu meiri en svarar öllu því, sem gefið er út á íslenzku. Þar að auki eru leturgæðin mun betri, svo sem lesendur geta séð. Þær eru beint tengdar tölvukerfinu.

Búast má við, að einhverjar truflanir verði, meðan verið er að slípa hina nýju tækni. Vonum við, að lesendur og auglýsendur taki slíku með þolinmæði og skilningi, enda verði aðlögunartíminn sem allra stytztur.

Þessar miklu og dýru framkvæmdir eru merki um árangurinn, sem DV hefur náð á fjögurra ára ferli. Þær sýna, að ekki hafa rætzt hrakspár margra við sameiningu Dagblaðsins og Vísis, heldur stendur nýja blaðið traustum fótum.

Velgengnin er fyrst og fremst lesendum að þakka. Þeir hafa flykkzt að blaðinu og síðan haldið tryggð við það. Þeir hafa með stuðningi sínum gert blaðinu kleift að ráðast í stórvirki. Árangurinn er núna kominn í ljós.

Aðstandendur og starfslið DV vilja nota nýja og betri aðstöðu og tækni til að varðveita traust lesenda og halda áfram að gefa út frjálst og óháð blað, sem er fyrst með fréttirnar og þiggur ekki styrk úr hendi hins opinbera.

Jónas Kristjánsson

DV

Saumum að okri.

Greinar

Fyrir helgina skýrði gáfaður formaður stjórnmálaflokks frá því, að rétt væri að “banna” okrið. Ef hann hefði verið enn gáfaðri, hefði hann bætt við tillöguna ákvæði um að banna glæpi yfirleitt. Svona einfaldur getur heimur lýðskrumaranna verið.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að reyna að hafa hemil á okri eins og öðrum glæpum. Það gerist bezt með því að byrja á að gera sér grein fyrir jarðveginum, sem fær okur til að blómstra. Með því að flytja burt jarðveginn er hægt að draga úr okri.

Okur þrífst vegna þess, að fórnardýr okurlánara hafa ekki aðgang að lánsfé eftir eðlilegum leiðum. Og þau hafa ekki aðgang að lánsfé, af því að of lítið er til af því. Og loks er of lítið til af því, þar sem vextir hafa lengi og til skamms tíma verið lágir og jafnvel öfugir.

Við skulum spá í ástandið, sem væri, ef vextir væru lengi búnir að vera jákvæðir, og sem verður, þegar þeir hafa lengi verið jákvæðir og helzt nokkuð háir. Við fáum innsýn í þetta ástand með því að skoða sparnað þjóðarinnar á undanförnum hávaxtamánuðum.

Allur peningalegur sparnaður nam 49% af landsframleiðslu árið 1980. Nú er hann kominn upp fyrir 72% af landsframleiðslu. Talið er, að launþegar eigi 80-90% af þessu og ýmsir sjóðir afganginn. Við skulum því ekki gleyma hag launþega af háum vöxtum.

Enn brýnna er að gera sér grein fyrir, að þetta þýðir, að bankar og sparisjóðir fyllast smám saman af sparifé. Meðan svo er, færumst við nær jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar fjármagns. Æskilegt er, að sú þróun fái að gerast sem hraðast.

Búast má við, að vextir verði jákvæðir, en lágir, þegar jafnvægi er komið milli þeirra, sem geta lánað fé, og hinna, sem vilja fá fé að láni. En þangað til má búast við, að vextir þurfi að vera hærri að raungildi en í löndum, þar sem meira framboð er af fé.

Því nær, sem við færumst þessu jafnvægi, þeim mun meira þrengjum við að okrinu. Ef bankar, sparisjóðir og aðrar venjulegar lánastofnanir geta þjónað allri eðlilegri lánsfjárþörf, á okrið ekki annað svigrúm eftir en óheilbrigð lán, lán, sem ekki verða endurgreidd.

Þegar lýðskrumarar í hópi stjórnmálamanna eru að heimta lækkaða vexti. eru þeir um leið að heimta aukið ójafnvægi og meira okur. Þegar þeir eru að heimta, að takmarkað fjármagn sé eyrnamerkt til ýmissa gælusviða, svo sem landbúnaðar, og með sérstökum vildarkjörum, eru þeir að heimta aukið ójafnvægi og okur.

Ef ráðamenn okkar bera gæfu til að leyfa þróuninni að stefna í átt til lánsfjárjafnvægis og hruns okurmarkaðarins, geta þeir samt reynt að milda afleiðingarnar af því, að raunvextir eru á meðan í hærri kantinum. Þeir geta til dæmis veitt húsbyggjendum skattaafslátt af vaxtagreiðslum.

Sumir stjórnmálamenn okkar vita um mikilvægi vaxta, en telja kjósendur sína svo heimska, að vænlegt sé að heimta lægri vexti og “bann” við okri. Aðrir skilja ekki einu sinni, hvaða hlutverki vextir gegna. Það er eins og þeir haldi, að peningum rigni af himnum ofan.

Almenningur hefur vald til að útvega lánsfé í eðlilegar lánastofnanir og til að sauma að okurmarkaðinum. Það gerir hann með því að fá stjórnmálamenn til að skilja, að þeir græði ekki fylgi á andstöðu við vexti.

Jónas Kristjánsson

DV

Málleysi og ríkidæmi.

Greinar

Marcos Filippseyjaforseti er að reyna að þvælast fyrir heiðarlegum forsetakosningum í landinu, þrátt fyrir þrýsting frá Bandaríkjastjórn. Hann vill áfram fá að mergsjúga þjóðina og safna hundruðum milljóna á erlenda bankareikninga sína og helztu vildarvina. Sjaldan er auðvelt að hemja fólk, sem kemst til valda.

Marcos er í langri röð rummungsþjófa og morðingja, sem hafa komizt til valda hér og þar í heiminum fyrir meiri eða minni stuðning Bandaríkjanna. Annar stórþjófur í nágrenninu er Suharto lndónesíuforseti, einn helzti fjöldamorðingi, sem nú er uppi.

Löng var harmsagan í Suður-Vietnam, þar sem Bandaríkin komu til valda hverju illmenninu á fætur öðru. Þeir köstuðu ríkinu þar með í fang ógnarstjórnar Norður-Vietnan, sem hefur síðan gerzt fjölþreifin víðar um lndókína.

Verst hafa Bandaríkin komið fram í Mið- og Suður-Ameríku, þar sem þau hafa áratugum saman stutt þjófa og glæpamenn til valda. Duvalier á Haiti, Batista á Kúbu og Somoza í Nicaragua eru einna frægustu dæmin. Þá hafa Bandaríkin stuðlað að illræmdum herforingjastjórnum, svo sem var í Argentínu til skamms tíma og er enn í Chile.

Nauðsynlegt er, að stjórnmálamenn og embættismenn Bandaríkjanna reyni að gera sér grein fyrir, hvernig standi á þessum ósköpum, sem stinga í stúf við hefðir lýðræðis og fjármála í Bandaríkjunum sjálfum. Einnig þurfa bandamenn þeirra að gera sér grein fyrir þessu.

Fulltrúar Bandaríkjanna í utanríkismálum, hermálum og á öðrum sviðum tala yfirleitt ekki í útlöndum mál heimamanna og eiga því erfiðara en ella með að átta sig á aðstæðum. Þar við bætist, að Bandaríkin og fulltrúar þeirra hafa áratugum saman haft meira fé milli handa en gengur og gerist í öðrum löndum.

Þetta hefur sogað að þeim fólk, sem sameinar hundseðli, peningagræðgi og ófyrirleitni. Þessum jámönnum tekst oft að efla misskilning fulltrúa Bandaríkjanna á stöðu mála í öðrum ríkjum. Og sem jámönnum tekst þeim oft að auka völd sín með stuðningi Bandaríkjanna.

Um leið og fulltrúar Bandaríkjanna nota jámennina til að efla áhrif sín til skamms tíma, sjá þeir oft galla þeirra og fyrirlíta þá undir niðri. Þetta álit yfirfæra þeir svo á þjóðina í landinu í heild. Þannig hættir þeim til að vanmeta erlendar þjóðir.

Við sjáum þetta hér á landi, að vísu í tiltölulega mildri útgáfu. Frá upphafi síðari heimsstyrjaldarinnar hefur sogazt að bandarísku herliði ýmis óværa, sem bezt lýsir sér í langvinnu hermangi. Skyldu ekki margir yfirmenn á Vellinum hafa, vegna ákveðinna dæma, litið á Íslendinga sem þjófótta?

Á liðnum áratugum hafa verið hér margir bandarískir sendimenn, sem hafa hvorki þekkt tunguna né þjóðina og aðeins umgengist þröngan hóp jámanna, sumra hverra lítilla sæva. Slíkir sendimenn hljóta að fá skekkta mynd af Íslendingum sem bandamönnum.

Vandinn hér á landi hefur verið sáralítill í samanburði við þriðja heiminn, þar sem fátækt er almenn, lýðræði hartnær óþekkt og lífsbaráttan grimm. Við fáum því aldrei neinn Marcos, Ky, Doe eða Duvalier. En rót vandans er eigi að síður nokkurn veginn hin sama, málleysi og ríkidæmi Bandaríkjamanna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Að semja við Spörtu.

Greinar

Samkvæmt gildandi túlkun ráðamanna Sovétríkjanna á Helsinki-samkomulaginu má reyna að efla mannréttindi á Suðurskautslandinu. Annars staðar eru mannréttindi innanríkismál viðkomandi valdhafa. Þeir telja þau að minnsta kosti vera innanríkismál sitt í Sovétríkjunum.

Þannig rita ráðamenn Sovétríkjanna undir samninga af ýmsu tagi og finna síðan túlkun, sem gerir undirskrift þeirra að engu. Dæmið um mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins er grófasta dæmið af mörgum um, að sovézkar undirskriftir eru marklausar í vestrænum skilningi.

Þess vegna er ástæðulaust að gera sér rellu út af litlum og lélegum undirskriftum á toppfundi leiðtoga heimsveldanna í Genf. Frekar er ástæða til að fagna því, að hætta á misskilningi hefur ekki aukizt vegna þess að marklausum pappírsskjölum hafi fjölgað.

Sem dæmi um gagnsemi eða gagnsleysi samninga við Sovétríkin má nefna Salt II, hinn kunna samning um takmörkun vígbúnaðar. Þrátt fyrir hann hafa ráðamenn Sovétríkjanna látið setja upp tvö ný kerfi milliálfuflauga. Ennfremur hafa þau haldið leyndum 75% af upplýsingum um vopnatilraunir.

Ráðamenn Sovétríkjanna telja það merki um geðveiki, er hópur af þrælum þeirra myndar félag um að fylgjast með efndum á mannréttindakafla Helsinki-samkomulagsins. Hverjum einasta þeirra hefur verið stungið á hæli, þar sem þeir sæta sérkennilegum læknavísindum Sovétríkjanna.

Þrátt fyrir misnotkun læknavísinda í Sovétríkjunum hefur Kasov læknir, sem er aðstoðar-heilbrigðisráðherra, fengið helminginn af friðarverðlaunum Nóbels að þessu sinni. Aulaskap Norðurlandabúa í þessum efnum virðast engin mörk sett. Þeir beinlínis heiðra skálkinn.

Amnesty hefur á skrám sínum nöfn 560 stjórnmálafanga í Sovétríkjunum. Síðan Gorbatsjov komst til valda, hafa fjórir andófsmenn dáið í þrælkunarbúðum hans. Síðan hann komst til valda hefur aukizt notkun geðsjúkrahúsa gegn þeim, sem ekki eru sammála stjórnvöldum.

Andrei Sakharov, Jelena Bonner og Anatoli Sjaranski eru þrjú frægustu nöfnin úr hinum mikla hópi, sem Sovétstjórnin ofsækir. Dæmi um hina vaxandi hörku er, að árið 1979 fengu 51.320 gyðingar að flýja Sovétríkin, en í fyrra aðeins 896. Í ár verða þeir ekki fleiri.

Sovétríkin eru hernaðar- og ofbeldisveldi, sem hvílir á efnahagslegum brauðfótum. Það er eina stórveldið, sem heldur úti umfangsmiklum hernaði víða um heim, svo sem í Afganistan, Kampútseu og Eþiópíu. Það er á mun meiri hraða í vígbúnaðarkapphlaupinu en hitt heimsveldið.

Að baki er þjóðfélag, sem býður fólki meðaltekjur, sem eru langt undir fátækramörkum í Bandaríkjunum og til dæmis Íslandi. Sovétríkin eru eins og Sparta fornaldar, efnahagslegt sníkjudýr, sem lifir á útþenslu og ofbeldi, sérhæfir sig í hernaði.

Gorbatsjov telur sig þurfa ítök í Vestur-Evrópu til að bæta upp hina efnahagslegu brauðfætur heima fyrir. Hann veit, að Sovétríkin eru á mörgum sviðum að dragast hratt aftur úr Vesturlöndum, til dæmis í tölvutækni. Lausn hans er að Póllandiséra Vestur-Evrópu.

Ef Vesturlandabúar láta ekki taka sig á taugum, átta sig á, að pappírsgögn eru lítils virði og að aldrei má skilja á milli friðar annars vegar og mannréttinda hins vegar, má búast við, að Sovétríkin linist um síðir í taugastríðinu og fari að huga að marktæku samkomulagi.

Jónas Kristjánsson

DV