Greinar

Fastur á yztu nöf.

Greinar

Þótt forustumenn heimsveldanna gangi saman niður að Genfarvatni, eykst friðaröryggi jarðarbúa ekki neitt. Slíkum gönguferðum er ætlað að biðja fólk um að taka viljann fyrir verkið og hugsanlega einnig að breiða yfir nepju þess, að toppfundur sé nokkurn veginn árangurslaus.

Fundurinn í Genf er haldinn í skugga meira ofstækis forustumannanna en var hjá fyrirrennurum þeirra. Reagan Bandaríkjaforseti hefur að vísu smám saman orðið reynslunni ríkari og er nú ekki eins orðljótur um Sovétríkin og hann var fyrst í forsetatíð sinni.

Ekkert hefur hins vegar komið í ljós, sem bendir til, að Gorbatsjov hafi lært af neinni reynslu. Hann heldur líka fast við hina markvissu samningastefnu Gromykos að fara út á yztu nöf og sitja þar sem fastast, unz mótherjinn gefst upp fyrir friðarsinnum heima fyrir.

Gorbatsjov er raunar þegar farinn að virkja friðarsinna í Vestur-Evrópu með markvissari hætti en fyrirrennararnir. Þeir litu mjög eindregið á samskiptin við Bandaríkin sem hornstein heimsvaldastefnu sinnar, en Gorbatsjov reynir fremur að draga Vestur-Evrópu og Kína í spilið.

Markmið Gorbatsjovs er að kljúfa Vestur-Evrópu frá Bandaríkjunum, koma af stað ágreiningi þar í milli út af sem flestum atriðum, til dæmis geimskjaldaráætluninni, úr því að ekki tókst að koma á klofningi út af svari Vesturlanda við meðaldrægum eldflaugum Sovétríkjanna.

Á því sviði kemst hann í feitt. Almenningsálitið í Vestur-Evrópu er klofið. Ofan á fyrri tegundir friðarsinna hefur lúterska kirkjan í vaxandi mæli tekið að sér Júdasarhlutverk gegn frelsis- og mannréttindastefnu Vesturlanda með því að reka einhliða friðarstefnu.

Í hvert sinn, sem friðarsinnar í Vestur-Evrópu koma saman til einhliða aðgerða eða mótmæla gegn viðbúnaði Vesturlanda, sannfærast ráðamenn Sovétríkjanna betur um, að þeim henti vel að sitja sem fastast frammi á yztu nöf og bíða eftir bilun í vestrænu samstarfi.

Þegar Gorbatsjov hefur tekizt að reka fleyginn á kaf, hyggst hann færa sig upp á skaftið og gera Vestur-Evrópu að ljúfari aðila í samskiptum við Sovétheiminn. Við höfum kynnzt því hér, að kaupmenn og embættismenn hafa í viðskiptasamningi verið fengnir til að skrifa undir sovézkan áróður.

Okkur væri nær að gera stífa kröfu til Sovétríkjanna um, að komið verði upp óyggjandi vopnaeftirliti, sem leiði í ljós, hvort þar í landi sé SS-20 kjarnorkuvopni eða -vopnum beint til okkar og hvort hér á landi sé einhverjum slíkum vopnum beint að Sovétríkjunum.

Niðurstaða slíkrar athugunar yrði vafalaust sú, að Sovétríkin séu nú þegar sek um að beita okkur ógnun og ofbeldi af slíku tagi. Og við hlytum þá að krefjast þess, að umsvifalaust og einhliða yrði látið af slíku. Við mundum líka sjá betur, hvaða heimsvaldastefna er ofbeldishneigðust.

Meðan Gorbatsjov er ófáanlegur til að semja á alþjóðavettvangi um virkt og gagnkvæmt eftirlit með framkvæmd alþjóðasamninga, er útilokað fyrir Vesturlönd að gefa eftir í neinu. Sovétríkin hafa hingað til svikið alla samninga um takmörkun vígbúnaðar og aukin mannréttindi.

Kominn er tími til, að vestrænir friðarsinnar hætti að vera nytsamir sakleysingjar og átti sig á, að yfirlýsingar, hvort sem er um frystingu, samdrátt eða vopnalaus svæði, eru verri en engar, ef meginmarkmið þeirra er ekki að koma upp eftirliti, sem leiðir sannleikann í ljós.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lítill árangur toppfundar.

Greinar

Ekki er við miklum árangri að búast á toppfundi heimsveldanna, sem nú stendur í Genf. Þó má segja, að nokkur árangur felist í því einu, að forseti Bandaríkjanna og framkvæmdastjóri sovézka kommúnistaflokksins skuli yfirleitt hittast, eftir langt hlé á slíkum fundum.

Heimsveldin hafa hvort í sínu lagi lagt fram tillögur um helmings fækkun kjarnaodda og að hvor aðili um sig megi hafa 6000 slíka. Þessi samræming er til bóta, þótt smáa letrið sé mjög misjafnt hjá málsaðilum og einnig þótt 6000 oddar séu töluvert umfram öryggi.

Verst við fundi af þessu tagi er óskhyggjan, sem þeir vekja í brjóstum Vesturlandabúa. Fólk er orðið langþreytt á spennunni milli heimsveldanna og hefur vaxandi áhyggjur af endalokum mannkyns. Margir telja tækniþróunina hafa breytt kjarnorkuöryggi í kjarnorkuóöryggi.

Ekki voru traustvekjandi rassaköst bandaríska herliðsins á Keflavíkurflugvelli, þegar Shevardnadze, utanríkisráðherra Sovétríkjanna, var hér í opinberri heimsókn á dögunum. Menn spyrja eðlilega, hvort agalausir menn geti ekki hreinlega komið af stað stríði fyrir mistök.

Þegar svo er komið, að einungis sex mínútur þarf til að koma kjarnaoddi í mark, er ekki mikið svigrúm til að átta sig á mistökum. Æðikollar á Keflavíkurvelli gætu hrundið af stað austrænu viðvörunarkerfi, sem byggir á sjálfvirkni ótrausts tölvubúnaðar.

Við slíkar aðstæður er eðlilegt, að bandarískar ráðagerðir um geimskjöld njóti töluverðs fylgis þar í landi og raunar víðar. Fólki er huggun í tilhugsuninni um eins konar regnhlíf, sem geti hindrað hvern einasta kjarnaodd óvinar í að komast í mark.

Ekki er ástæða fyrir Reagan Bandaríkjaforseta að verða við kröfum um að hætta við rannsóknir, sem miða að geimskildi í framtíðinni. Hastarleg viðbrögð í Sovétríkjunum benda einmitt til, að geimskjöldur geti verið góður kostur, ef hann er þá yfirleitt framkvæmanlegur.

Óskhyggjan á Vesturlöndum kemur meðal annars fram í trú sumra á, að hinn nýi framkvæmdastjóri sovézka kommúnistaflokksins sé mannlegri en fyrirrennarar hans. Það er hreinn og klár misskilningur. Gorbatsjov hefur stáltennur á bak við brosið, svo sem Gromyko hefur bent á.

Gorbatsjov hefur sýnt mikinn áhuga á að knýja þræla sína til meiri afkasta og gefa þeim minna færi á að drekkja sorgum sínum í brennivíni. Hann er hlynntur járnaga, mun harðskeyttari en Tsjernenko og Brésnjev. Vesturlandabúar geta ekki búist við neinu góðu frá hans hendi.

Ekki bætir úr skák, að Gorbatsjov hefur, eins og utanríkisráðherra hans, reynzt vera illa að sér í alþjóðamálum. Hann er háður áróðurskenndum fréttaflutningi sinna manna og telur sér til dæmis trú um, að mannréttindi séu mjög svo fótum troðin á Vesturlöndum.

Þegar Shultz, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, var í Kreml á dögunum, kom á óvart, hversu mikið slagsmálastuð var á Gorbatsjov. Hann flutti áróðursræður út í bláinn og var með framítektir, sem til skamms tíma hafa ekki þótt fínar í hinum diplómatíska heimi.

Vísast verða Vesturlandabúar að sætta sig við, að toppfundurinn í Genf breyti ekki miklu. Fólk verður áfram að búa við öryggisleysi og kvíða. Sovétríkin stefna enn að heimsyfirráðum og munu áfram baka vestrinu sálrænan og peningalegan herkostnað af verndun frelsis og mannréttinda.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ríkisstjórnin brýtur og bramlar.

Greinar

Einmitt núna er orðið brýnna en nokkru sinni fyrr, að stjórnvöld stöðvi söfnun opinberra skulda í útlöndum, útþenslu hins opinbera og þá verðbólgu, sem stafar af skorti á jafnvægi í opinberum fjármálum. Allt höfum við þetta í orði, en ekkert á borði.

Fyrir skömmu voru vextir á verðbréfamarkaði farnir að lækka vegna aukins framboðs á peningum. Veðskuldabréf einstaklinga höfðu lækkað úr 17%, í 15%, og fyrirtækja úr 14% í 12,5%. Var þá búizt við, að þessir vextir mundu áfram lækka og hafa áhrif á aðra vexti.

Þetta var ánægjuleg þróun. Eftirspurn fjármagns var áratugum saman búin að vera svo miklu meiri en framboðið, að raunvextir hlutu að verða tiltölulega háir, þegar þeir komu til sögunnar. Lækkun þeirra eftir svo skamman tíma benti til ótrúlegs árangurs í leitinni að jafnvægi.

En þá kom reiðarslagið um daginn. Sjálfur ríkissjóður bauð hækkun vaxta á spariskírteinum sínum úr 7% í 9,23%. Þetta reyndist rothögg á hina jákvæðu þróun vaxtalækkunar. Umsvifalaust snerist dæmið við. Í stað þess að lækka meira fóru vextir að hækka að nýju.

Ríkissjóður var í slæmri stöðu. Komið var að innlausn 250 milljón króna af gömlum spariskírteinum. Fjármálaráðherra sá fram á, að þetta yrði ekki allt endurnýjað. Sumt spariféð mundi leita annarrar útrásar. Hækkunin var örvænting til að halda þessu fé.

Auðvelt er að sjá, að sama freisting verður knýjandi í hvert sinn, er ríkissjóður þarf að leysa inn spariskírteini. Þá mun fjármálaráðherra langa til að hækka vexti nýrra skírteina, svo að féð haldist inni í ríkissjóði. Ríkið er þannig hliðstæða fórnardýra okrara.

Verst er, að ráðamenn og fjármálaráðherra hafa ekki hugmynd um, hvort ríkið hefur til lengdar efni á að sprengja upp vaxtamarkaðinn á þennan hátt. Þeir þykjast alltaf geta hækkað skatta, nú síðast vörugjald um heilan milljarð. Þeim getur tæpast verið sjálfrátt.

Á sama tíma leggja þeir fram frumvarp til fjárlaga, þar sem segir orðrétt: “. . . nást þrjú meginmarkmið. Í fyrsta lagi er erlendum lántökum stillt í hóf, þannig að nýjar erlendar lántökur opinberra aðila verða ekki meiri en nemur afborgunum eldri gengisbundinna lána.”

Ennfremur: “Í öðru lagi er með þessu frumvarpi séð til þess, að sem næst jöfnuður verði á rekstri ríkisins, en það er veigamikil forsenda jafnvægisbúskapar á efnahagssviðinu almennt. Loks er. . . stefnt að því, að umsvif ríkisins verði ívið minni en á yfirstandandi ári.”

Gott væri, ef satt væri. Staðreyndin er hins vegar alveg þveröfug við fullyrðinguna. Ef hið opinbera er skoðað í heild og því, sem menn eru farnir að kalla C-hluta fjárlaga, bætt við A- og B-hlutann, kemur í ljós, að allt er áfram á fyrri heljarbraut.

Frumvörp fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar til fjárlaga og lánsfjárlaga sýna, að erlendar skuldir hins opinbera munu að óbreyttu vaxa um hátt í tvo milljarða króna eða sem svarar hátt í 2%. af þjóðarframleiðslu á næsta ári. Þetta er hörmulegra en orð fá lýst.

Til viðbótar hyggst ríkisstjórnin skrúfa upp verðbólguna með eins milljarðs vörugjaldi, sem fer beint út í verðlagið. Því verður áfram spenna, óhófseftirspurn fjármagns og hækkandi vextir. Nema ríkisstjórnin hætti að ljúga að sjálfri sér og öðrum, – snúi við blaðinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gamalt gengur aftur.

Greinar

Gamla fjárlagafrumvarpið frá í haust hefur nú gengið aftur á Alþingi eftir nokkra hrakninga. Ekki er langt síðan þingflokkur sjálfstæðismanna barði í borðið og hótaði stjórnarslitum, ef þingflokkur framsóknarmanna féllist ekki á það í þáverandi mynd.

Síðan skutu þingflokkur sjálfstæðismanna og miðstjórn Sjálfstæðisflokksins á frægum fundi í Stykkishólmi. Þar var ákveðið, að frumvarpið væri óalandi og óferjandi. Nauðsynlegt væri að skera það niður við trog til að stöðva skuldasöfnun í útlöndum.

Til frekari áherzlu skipti þingflokkurinn á fjármálaráðherrum og gerði sjálfan flokksformanninn að sláturstjóra í ráðuneytinu. Niðurstaðan er samt sú, að lítillega hefur verið kroppað í frumvarpið, en í stórum dráttum, rúmlega 99%, er það enn óbreytt.

Eini markverði niðurskurður opinberra útgjalda er frestun framkvæmda við Blönduvirkjun um eitt ár til viðbótar við árið, sem fyrri útgáfa frumvarpsins fól í sér. Þetta sparar mikið fé, 250 milljónir króna á næsta ári. Þannig eru menn smám saman að láta orkuvímuna renna af sér.

Næststærsti liðurinn er Þróunarfélagið, sem á að fá 50 milljónum minna en áður var gert ráð fyrir. Þar með er nokkurn veginn tryggt, að andvana er fædd sú hugsjón ríkisstjórnarinnar. Hún hefur svo mikinn kostnað af gömlum atvinnugreinum, að hún hefur ekki efni á nýjum.

Ekki er gerð hin minnsta tilraun til að hreyfa við sumum dýrustu þáttum ríkisútgjalda, svo sem ríkisrekstri hins hefðbundna landbúnaðar og vegagerð, sem komin er út í alvarlegar hugleiðingar um brúun ósa í kjördæmi fjármálaráðherra og borun gata í ýmis fjöll.

Ofangreindir tveir niðurskurðarliðir eru raunar utan frumvarpsins eins og það er sett fram. Innan þess eru smámunir á borð við fjórar milljónir af Þjóðarbókhlöðu, fimmtán af Listasafni Íslands, fimm af Háskólanum og sex af Raunvísindastofnun, – aðallega til að sýna hugarfarið.

Marklítið er að slengja fram niðurskurði almenns rekstrar ríkisins um 170 milljónir vegna samdráttar í risnu, ferðalögum og öðru slíku. Sjálfsagt er að trúa þessu strax og tekið er á því, en ekki deginum fyrr. Við höfum séð of mörg loforð af því tagi.

Ánægjulegt er, að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin skuli hafa uppgötvað, að Póstur og sími sé 160 milljónum ríkari en áætlað var fyrir mánuði. Slíkar uppfinningar hafa þó hingað til fremur lyktað af bókhaldsbrögðum en af raunverulegum fjársjóðsfundi.

Og eftirtektarvert er, að fjársjóðsfinnendur skuli ekki hafa áttað sig á, að húsnæðisgeirann vantar meira en 1000 milljónir til að standa við kosningaloforð, sem stjórnarflokkarnir gáfu á sínum tíma og hafa margítrekað síðan, meðal annars síðastliðið vor.

Dæmigert fyrir hina nýju útgáfu gamla frumvarpsins er, að ráðherrar finna með röntgenaugum þægilegu atriðin, en eru alveg blindir á hin óþægilegu. Þess vegna er frumvarpið jafnmarklaust og það var í fyrri mynd, ónothæft með öllu til þess brúks sem því er ætlað.

Frumvarpið mun auka skuldir hins opinbera í útlöndum um að minnsta kosti 1600 milljónir króna, stækka opinbera geirann og efla verðbólguna vegna skorts á jafnvægi opinberra fjármála. Það stendur ekki við eina einustu af forsendunum, sem birtast í inngangi þess.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lífskjör eða hópefli.

Greinar

Tillögur Þrastar Ólafssonar, framkvæmdastjóra Dagsbrúnar, um svokallaða lífskjarasamninga eru eðlilegt framhald atburðarásarinnar í fyrra, þegar hliðstæðar hugmyndir í Alþýðusambandinu urðu að víkja fyrir misheppnuðu hópefli hjá opinberum starfsmönnum.

Skoðanir Þrastar njóta stuðnings Guðmundar J. Guðmundssonar, formanns Dagsbrúnar, Alþýðusambandsins og síðast en ekki sízt Alþýðubandalagsins eftir landsfundinn um helgina. Þeim hefur verið vel tekið af framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins og formanni Sjálfstæðisflokksins.

Að baki liggur löng lífsreynsla. Menn hafa áttað sig á, að engu máli skiptir, hvort laun hækki um 10% eða 100% í kjarasamningum. Það eru önnur atriði en prósentur og krónutölur, sem ráða því, hvort lífskjör fólks batna eða versna. Þröstur nefnir nokkur slík.

Eftir þessa síðbúnu uppgötvun er skammt í, að menn fari að átta sig á, að beztu forsendur bættra lífskjara felast í öflugu og arðbæru atvinnulífi, ríkum fyrirtækjum, sem hafa efni á að borga almennilegt kaup. En vísast þarf meiri lífsreynslu til að átta sig á slíku.

Opinberir starfsmenn hafa litla möguleika á hugljómun af þessu tagi. Þeir vinna hjá fyrirtæki, sem enginn veit, hvort er arðbært eða ekki. Þeir geta þess vegna gert gegndarlausar kröfur, því að fyrirtækið verður aldrei sagt til sveitar. Það er sjálft hið opinbera.

Fyrir réttu ári fór þetta Limbó í verkfall. Þátttakendur höfðu af því mikla nautn, einkum kennarar. Þeir tóku þátt í ævintýri, sem Guðmundur J. Guðmundsson var mörgum sinnum búinn að gera. Það var nýtt fyrir þeim að rækta með sér hópefli á verkfallsvakt.

Áhorfendum fannst hins vegar hópeflið frekar minna á sjálfspyndingarhvöt. Niðurstaðan var nefnilega sú, að opinberir starfsmenn drógust meira aftur úr. Þeir fengu sínar krónur og prósentur, en aðrir fengu meira. Þennan gang lífsins er Þröstur farinn að þekkja.

Formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja er ekki hrifinn af tillögum Þrastar. Formaðurinn er enn í vímu hópeflisins. Hann hefur ekki enn áttað sig á, að sjálfur beið hann frægan ósigur fyrir réttu ári, þegar kjör opinberra starfsmanna voru gerð verri en þau voru áður.

Hópeflið á enn vísa stuðningsmenn, þótt formaður Dagsbrúnar sé orðinn þreyttur á verkfallsvaktinni. Opinberir starfsmenn eru sjálfsagt til í einn eða tvo slagi í viðbót. Öflugur minnihluti í Alþýðubandalaginu hefur meiri áhuga á upplausn en kjarabótum.

Mikilvægt er, að ríkisstjórnin og Vinnuveitendasambandið taki vel hugmyndum Þrastar, ekki bara í orði, heldur einnig á borði. Slík viðbrögð gætu auðveldað útbreiðslu skilnings á kostum lífskjarasamninga fram yfir hópefli, verkfallsvaktir og sjálfspyndingu.

Auk þess er nauðsynlegt, að ríkisstjórnin öðlist síðbúinn skilning á, að raunvextirnir hafa skipt þjóðinni í tvo hluta, þann, sem byggði á kostnað sparifjáreigenda, og hinn, sem er að byggja eða á eftir að byggja. Það er lífsnauðsyn, að unga fólkinu sé ekki sparkað úr þjóðfélaginu.

Ekki er síður nauðsynlegt, að hægri kanturinn í pólitíkinni átti sig seint og um síðir á, að léleg lífskjör þjóðarinnar gera ráð fyrir, að hvorugt foreldrið sé heima. Þess vegna þarf að spýta miklu fé í barnagæzlu. Um sitthvað slíkt ættu hægri og vinstri að sameinast í nýrri og skárri ríkisstjórn.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ratað í freðfiskraunir.

Greinar

Frystiiðnaður okkar hefur lent í miklum vanda. Eftir að hafa í nokkra áratugi verið einn af helztu hornsteinum þjóðfélagsins er hann nú skyndilega orðinn lítt eða ekki hæfur til samkeppni um hráefni og vinnuafl. Hann er að hrata í stöðu hins hefðbundna landbúnaðar.

Nú er ekki lengur gott fyrir útgerð að vera í tengslum við frystihús. Þau skip standa sig fjárhagslega bezt, sem geta annaðhvort fryst sjálf um borð eða selt fiskinn erlendum keppinautum frystihúsanna. Þetta hefur komið skýrt fram einmitt núna í ár.

Dæmi eru um, að framleiðsluverðmæti á hvern skipverja á frystitogara komist upp í sjö milljónir króna á ári. Hins vegar er framleiðsluverðmæti á hvern skipverja á hefðbundnum togara og hvern starfsmann í frystihúsi samanlagt ekki nema um hálf þriðja milljón.

Hinir togararnir, sem ekki hafa aðstöðu til að frysta um borð, geta í mörgum tilvikum annaðhvort siglt með aflann eða selt hann um borð í gáma. Gámarnir eru síðan fluttir með kaupskipum og jafnvel flugvélum til útlanda, þar sem innihaldið er verðlagt á frjálsum markaði.

Á þennan hátt hafa skipin losnað við að selja aflann á um og innan við 20 krónur kílóið til íslenzkra frystihúsa. Þau hafa að meðaltali fengið 47 krónur fyrir hann í útlöndum. Og menn hafa horft á bezta fiskinn seljast á 80 krónur, sem er fjórfalt innlenda verðið.

Vandræði frystingarinnar eru þar með ekki fullrakin. Ofan á fallbaráttuna um hráefnið bætist fallbaráttan um vinnuaflið. Frystihúsin eru að verða óvinsælir vinnustaðir, sem borga lágt kaup og bjóða slæma vinnuaðstöðu, en krefjast mikilla afkasta við færiböndin.

Í sumar greiddu íslenzk frystihús 126 króna tímakaup, en dönsk greiddu 260 krónur eða tvöfalt meira. Ljóst er, að þetta kaup stuðlar lítt að góðum lífskjörum í landinu, enda gengur það eingöngu vegna þess, að víða um land er fiskvinnsla eini atvinnukostur fólks.

Við þessar hörmulegu aðstæður er eðlilegt, að spurt sé, hvort frystingin sé orðin úrelt atvinnugrein eða hvort finna megi einhverjar skýringar, sem geti leitt til gagnaðgerða og lækninga. Þetta er mjög brýnt, til dæmis vegna atvinnuástandsins í mörgum sjávarplássum.

Tómt mál er að tala um hömlur við gámafiski og annarri siglingu með afla. Svokölluð vinnsla í landi er hreint og klárt rugl, ef hún eykur ekki verðmæti hráefnisins. Og staðreyndin er einfaldlega sú, að góður ferskfiskur er miklu verðmætari vara en freðfiskur.

Nokkrar vonir eru bundnar við endurfrystingu á afla, sem þegar hefur verið frystur um borð í togara. Slíkan afla er hægt að taka úr frystigeymslum eftir hendinni og nýta í tiltölulega dýra framleiðslu, ef rétt reynist, að fiskurinn tapi ekki umtalsverðum gæðum.

Frystiiðnaðurinn hefur hingað til einblínt á færibandaframleiðslu á tiltölulega ódýrum fiski handa bandarískum skólum, sjúkrahúsum og fangelsum. Menn verða hissa, þegar japanskir kaupendur biðja um fisk með haus og sporði og vilja sjá tálkn og augu eins og íslenzkir neytendur.

Ef frystiiðnaðurinn getur fært sig nær sérhæfðri framleiðslu handa kröfuhörðum og dýrum markaði, er hugsanlegt, að hann nái sér upp og geti á ný hafið samkeppni um hráefni og vinnuafl. Þetta verður að reyna, því að þjóðin telur sig ekki hafa efni á öðrum ómaga við hlið hins hefðbundna landbúnaðar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Léleg rök gegn markaðsgengi.

Greinar

Andúðin á markaðsskráningu erlends gjaldeyris, sem greinilega kemur fram hjá ríkisstjórninni og ráðgjöfum hennar úr Seðlabanka og Þjóðhagsstofnun, stafar af þreytu, en ekki af efnisatriðum málsins. Þessum aðilum finnst þægilegt að geta vísað vandanum til sjávarútvegsins.

Ríkisstjórnin og ráðgjafar hennar treysta sér ekki í átökin, sem fylgja nýrri skiptingu þjóðarkökunnar. Erfiður og árangurslitill slagur við verðbólgu hefur dregið mátt úr ríkisstjórninni. Hún hefur reynt að sýna hetjuskap og orðið móð af sárum. Hún er gömul og þreytt.

Enn er reynt að telja sjávarútveginum trú um, að hann skuldi svo mikið, að rétt gengi komi honum ekki að gagni. Röksemdafærslan er ekki upp á marga fiska, en felur í sér þann sannleika, að vonlaus er vondur rekstur, sem hefur dollaralán á bakinu.

Meðaltölin segja allt annað. Erlendur rekstrarkostnaður í sjávarútvegi er 25% af tekjum hans og erlendur fjármagnskostnaður 14%. Samtals er þetta rétt innan við 40% af tekjum sjávarútvegs. Aðeins þessi hluti gjalda er beint tengdur tekjum í gjaldeyri.

Meirihluti útgjalda sjávarútvegsins felst í lífskjörum starfsfólks og öðrum innlendum kostnaði. Þessi útgjöld eru aðeins að hluta og óbeint tengd gengi erlends gjaldeyris. Þessa staðreynd hafa stjórnvöld játað í hvert sinn, sem þau hafa breytt genginu.

Við gengislækkun batnar samkeppnisaðstaða vöru og þjónustu í hlutfalli við innlent vinnsluvirði hennar, þann hluta verðmætisins, sem er innlendur að uppruna. Kaupendur bæta sér upp hluta gengislækkunarinnar með því að beina viðskiptum sínum meira að slíkri vöru og þjónustu.

Þessi tilfærsla veldur því, að neytendur, þar með talið starfsfólk í sjávarútvegi, þurfa ekki að berjast fyrir að fá gengislækkun bætta til fulls heldur aðeins upp að þeim mun, sem eftir stendur. Þessi tilfærsla hefur komið að gagni við hverja gengislækkun.

Ekki er nóg með, að innlend framleiðsla eflist á kostnað innfluttrar, heldur eflist líka innlendur sparnaður á kostnað nýrra lána í útlöndum. Gengislækkun gerir fjárfestingu í útlendri vöru óhagstæða í samanburði við innlenda vöru og innlendan sparnað.

Gengislækkanir liðins tíma og þar á meðal sú í fyrra hafa nýtzt of illa að þessu leyti. Ríkisstjórnir hafa haft að þeim allt of langan aðdraganda, svo að spákaupmennska hefur eyðilagt árangurinn að verulegu leyti. Þess vegna er markaðsgengi betra en gengislækkanir.

Ennfremur hafa ríkisstjórnir vikið sér undan ábyrgð og fyrirhöfn með því að taka lán í útlöndum, hreinlega til að halda uppi lifnaði um efni fram. Þessi gjaldeyrir í formi lána er auðvitað í samkeppni við gjaldeyrinn, sem sjávarútvegurinn aflar.

Ríkisstjórnir geta eytt árangri gengislækkana með lántökum í útlöndum. En það er lítill hetjuskapur ráðherra að hóta sjávarútveginum slíku. Það er ekkert markaðslögmál, að ríkisstjórn þurfi að kikna í hnjáliðunum í hvert sinn, sem hún lendir í öðrum vanda en tapi í sjávarútvegi.

Ekki er síður aumlegt, þegar ráðherrar og ráðgjafar ríkisstjórnarinnar halda fram, að hið skráða gengi fari í raun nálægt markaðsgengi. Af hverju megum við ekki fá að sjá, hvort þetta er blekkisögn á léleg spil, sögð til að slá ryki í augu sjávarútvegsins?

Jónas Kristjánsson

DV

Refsiaðgerðir magna blóðbaðið.

Greinar

Aðeins 18% þjóðarinnar eru andvíg hvalveiðum okkar samkvæmt skoðanakönnun DV í síðasta mánuði. Fyrir tæpum þremur árum sýndi skoðanakönnun blaðsins, að 41% þjóðarinnar voru þá á svipaðri skoðun. Þannig hafa marktæk sinnaskipti orðið með þjóðinni í afstöðunni til hvalveiða.

Á þessum tíma hefur tvennt gerst. Sjávarútvegsráðherra okkar uppgötvaði smugu hinna svokölluðu vísindalegu hvalveiða. Og grænfriðungar hófu aðgerðir gegn þessum veiðum. Ef þeir halda slíku áfram á næsta ári, mun andstæðingum hvalveiða halda áfram að fækka hér á landi.

Þannig er þjóðremban hér og þannig er hún í öðrum löndum. Suður-Afríka er gott dæmi um þetta. Efnahagslegar refsiaðgerðir útlendinga hafa ekki sannfært hinn hvíta minnihluta um fánýti aðskilnaðarstefnunnar. Þvert á móti hafa þær stappað stálinu í aðskilnaðarsinna.

Í framhjáhlaupi má benda á hræsni þjóðkirkju okkar, sem mælti á kirkjuþingi með refsiaðgerðum gegn Suður-Afríku vegna aðskilnaðarstefnunnar, en nefndi engar refsiaðgerðir gegn Sovétríkjunum vegna framferðis þeirra í Afganistan. Þjóðkirkjan gerir sér þannig mannamun.

En í Suður-Afríku tapaði stjórnarflokkurinn í aukakosningum fylgi og þingsæti til öfgaflokks, sem berst harðlega gegn hvers konar eftirgjöfum við svarta meirihlutann. Þetta var fyrsta afleiðing hinna efnahagslegu refsiaðgerða gegn Suður-Afríku.

Síðan hefur stjórnarflokkurinn í Suður-Afríku færzt í átt til aukinna öfga til að vernda stöðu sína meðal hinna hvítu kjósenda. Á laugardaginn bannaði stjórnin fréttaflutning frá óeirðasvæðunum. Hún er með því að reyna að slá hulu yfir hryðjuverk sín.

Næsta stig málsins verður, að hinn svarti meirihluti lætur af stuðningi við stefnu hinna friðsamlegu mótmæla. Minnka munu áhrif Tutu biskups og annarra leiðtoga, sem vilja forðast ofbeldi. Aukið ofbeldi hinnar hvítu ríkisstjórnar mun framkalla svart ofbeldi.

Hingað til hefur borgarastyrjöldin í Suður-Afríku eingöngu geisað í hverfum og byggðum svarta fólksins. Þeir, sem fallið hafa, eru nærri eingöngu svartir. Þeir hafa ýmist verið drepnir af hryðjuverkasveitum lögreglunnar eða af andstæðum hópum svertingja.

Fyrri dæmi úr öðrum löndum Afríku benda til, að svartir menn í Suður-Afríku muni sækja rétt sinn með ofbeldi, þegar komið er í ljós, að hvíta ríkisstjórnin gefur hvergi eftir, heldur eykur hörkuna til að þjóna vaxandi ofbeldishyggju og þjóðrembu hvíta minnihlutans.

Kenyamenn og Zairemenn sóttu með ofbeldi sjálfstæði sitt í hendur hvíts minnihluta, sem neitaði að láta völdin af hendi. Á báðum stöðum færðu hinir svörtu ofbeldið heim til hvíta mannsins. Þeir færðu hryðjuverkin inn í hverfi og byggðir hvítra og inn á heimili þeirra.

Þessi gagnsókn er enn ekki hafin í Suður-Afríku. En hún er óhjákvæmileg, þar sem efnahagslegar refsiaðgerðir vesturlanda hafa leitt til aukinnar þjóðrembu og ofbeldisstefnu hvíta minnihlutans. Blóðbaðið í Suður-Afríku verður margfalt meira en það er nú.

Segja má, að refsiaðgerðirnar stuðli þannig óbeint að réttmætri valdatöku svarta meirihlutans í Suður-Afríku og séu þannig af hinu góða, þrátt fyrir blóðbaðið. En hin beinu áhrif eru ekki þau að knýja hvíta minnihlutann til að láta af ógnarstjórn, heldur eru þau þveröfug. Þær magna blóðbaðið.

Jónas Kristjánsson

DV

Ótímabær öskustó.

Greinar

Uppgjöf og vonleysi gera vart við sig í sjávarútvegi um þessar mundir. Sumpart stafar þetta af vantrú á, að stjórnvöld dragi úr millifærslum frá sjávarútvegi til annarra þarfa í þjóðfélaginu. Vegur þar þyngst, að ríkisstjórnin er andvíg markaðsgengi á erlendum gjaldeyri.

Þótt stjórnvöld skipuleggi taprekstur í sjávarútvegi, eru í greininni enn til fyrirtæki, sem rekin eru með hagnaði. Það bendir til, að svartsýnin sé meiri en efni standa til. Fleiri forstjórar gætu tekið sér tak og náð fyrirtækjum sínum upp úr taprekstri og annarri eymd.

Sjávarútvegurinn er almennt séð of íhaldssamur um þessar mundir. Hann hefur glatað forustunni í hagkvæmni, sem hann hafði í alþjóðlegum samanburði fyrr á tímum. Hann er of seinn að tileinka sér nýjungar í tækni og rekstri, hráefni og afurðum.

Fyrr á þessu ári leiddi athugun í ljós, að dönsk fiskvinnsla keypti fiskinn á 40 krónur á meðan hin íslenzka keypti hann á 18 krónur. Á sama tíma greiddi danska fiskvinnslan 260 krónur á tímann í kaup, en hin íslenzka 126 krónur. Samanlagt stóðu Danir sig fjórum sinnum betur en við.

Tilraunir talsmanna frystiiðnaðarins til að útskýra þennan hrikalega mun hafa ekki verið sannfærandi. Ormatínslan, sem kostar okkur um hálfan milljarð króna árlega, skýrir ekki nema lítinn hluta þessa. Og skortur á sérhæfingu fiskvinnslustöðva er engin afsökun.

Þeir, sem kaupa íslenzkan gámafisk og annan ísfisk á markaði í Bretlandi, eru oft að sækjast eftir ákveðinni fisktegund af ákveðinni stærð, sem hentar nákvæmlega hinni sérhæfðu vinnslu þeirra. Þeir láta sig ekki muna um að aka fiskinum nokkurhundruð kílómetra.

Víða um land hagar hér svo til, að forstjórar fiskvinnslustöðva gætu komið upp sérhæfingu. Svo er til dæmis í Eyjafirði, utanverðu Ísafjarðardjúpi og á norðanverðu Snæfellsnesi, svo ekki sé talað um allt suðvesturhornið frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur.

Ef akstur með fisk er tiltölulega ódýr í samanburði við hagnaðinn af sérhæfingu, er sjálfsagt fyrir íslenzka fiskvinnslustjóra að læra af erlendri reynslu, hætta að líta á sína stöð sem eina í heiminum og hefja samstarf sín í milli um sérhæfan og arðsaman rekstur.

Markaðsverð á fiski við löndun er aðferðin, sem erlendir keppinautar okkar nota til að ná árangri á þessu sviði. Hér á landi er of lítið hlustað á þá, sem mæla með fiskmarkaði í stað núverandi nefndarákvörðunar á fiskverði. Þetta er dæmi um íhaldssemi sjávarútvegsins.

Heldur betur hefur útgerðinni gengið að feta sig á braut nýjunga. Stöðugt fjölgar frystitogurum. Þeir eru reknir með örlitlum hagnaði á sama tíma og aðrir eru reknir með dúndrandi tapi. Þetta er ein leið af mörgum til að mæta andúð ríkisvaldsins á sjávarútvegi.

Þá er fólk smám saman að átta sig á, að ferskur fiskur er verðmætari en frystur, þótt enn vaði stjórnmálamenn í villu og svima og kvarti um, að “óunninn” fiskur sé fluttur úr landi. Sú kvörtun er raunar jafnvitlaus og fullyrðingin um, að markaðsgengi henti ekki sjávarútvegi.

Ýmis önnur atriði gætu orðið til framfara svo sem endurfrysting í landi, nýting á slógi, lifur og marningi, beiting enzyma, skelfrysting rækju og veiði krabbategunda. Þótt ríkisvaldið sé sjávarútveginum harðdrægt um þessar mundir, er ekki ennþá ástæða til að leggjast í öskustó.

Jónas Kristjánsson.

DV

Mínusrekstur með handafli.

Greinar

Ein stærsta útgerð og fiskvinnsla landsins hefur verið sögð til sveitar í Reykjavík og hver skuttogarinn á fætur öðrum er sleginn á nauðungaruppboði. Þessi dæmi sýna, að óhætt er að þessu sinni að taka mark á kveinstöfum úr sjávarútvegi, þótt oft hafi þar verið hrópað: “Úlfur, úlfur!”

Meginástæða vandræðanna er, að ríkisvaldið hefur breytt núllrekstrarstefnu sjávarútvegs í mínusrekstrarstefnu. Áfram er Þjóðhagsstofnun látin reikna stöðu greinarinnar og tölurnar notaðar sem grundvöllur millifærslna. En nú er ekki lengur reiknað upp í núll, heldur upp undir núll.

Þegar ríkið rekur slíka mínusrekstrarstefnu ár eftir ár, rýrna eignir atvinnugreinarinnar. Það hefur einmitt gerzt í sjávarútvegi síðustu fimm árin. Því er meira að segja haldið fram, að andvirði þrjátíu skuttogara hafi gufað upp í taprekstri þessara fáu ára.

Ríkisvaldið hefur einfalda leið til að stjórna gengi sjávarútvegs, hvort sem stefnt er að núllrekstri eða mínusrekstri. Það gerist með gengisskráningu. Hún er skráð með opinberu handafli, en ekki í neinu samræmi við markaðslögmál. Hún er pólitískt mál.

Ríkisstjórnir nota verðlagningu erlends gjaldeyris til að láta sjávarútveginn leysa pólitísk vandamál á öðrum stöðum í þjóðfélaginu. Fremstur fer þar hinn hefðbundni landbúnaður, sem þarf hinar sjálfvirku hækkanir og er um leið botnlaus hít fjárfestinga.

Þegar búið er að láta landbúnaðinn hafa sitt, þurfa ríkisstjórnir að líta á hag fyrirtækja og fjölskyldna, sem hafa atvinnu af öðru en útflutningi vöru og þjónustu. Það kostar mikið fé að hafa þá hluti í lagi og endar auðvitað með, að ekki má lækka gengið.

Áður fyrr var gengi íslenzku krónunnar oft skráð með töluverðu tilliti til, að sjávarútvegurinn gæti hangið í núllrekstri. Nú er gengið skráð með tilliti til, að ríkisstjórnin lendi ekki í of miklum útistöðum við landbúnað og launafólk.

Þetta getur um tíma mýkt setuna í ráðherrastólum, en hefnir sín fyrr eða síðar. Og núverandi ríkisstjórn fær sennilega makræði sitt í hausinn fyrir næstu kosningar. Hún mun að lokum komast að raun um, að gengisskráning með handafli hefnir sín grimmilega.

Ríkisstjórnir þurfa að venjast þeim hversdagsleika að geta ekki millifært vandamál með krampakenndri fastgengisstefnu. Ef þær neita sér um þetta tæki eru meiri líkur en ella á, að gripið sé til einhverra skynsamlegra ráðstafana, sem ekki koma þjóðarbúinu á höfuðið.

Raunar er enginn aðili fær um að segja, hvert skuli vera gengi raunverulegs, erlends gjaldmiðils, ekki einu sinni Jóhannes Nordal. Eina aðferðin við að finna, hvaða verðmæti eru búin til í útflutningsatvinnuvegunum, er að láta markaðinn ráða, framboð og eftirspurn.

Við erum svo lokuð fyrir gildi markaðarins við ákvörðun peningastærða, að við neitum okkur um að fara að fordæmi annarra þjóða, sem ákveða fiskverð á markaði. Hér er fiskverð ákveðið með opinberu handafli, sem lyftir vondum fiski á kostnað góðs fisks.

Hin heimatilbúna heimska handaflsins gat gengið hér á landi öll árin, þegar ríkisstjórnir sættu sig við að leysa vandamál sín með núllrekstri sjávarútvegs. Blóðmjólkunin hófst ekki fyrir alvöru fyrr en núverandi ríkisstjórn byrjaði að mínusreikna greinina, sér til tímabundinna þæginda.

Jónas Kristjánsson

DV

Annar minnisvarði.

Greinar

Barizt hefur verið fyrir frjálsu gengi í leiðurum þessa dagblaðs og forvera þess í hálfan annan áratug. Ríkisstjórnir hafa ekki tekið mark á þessu. Sú, sem nú situr, rekur krampakennda fastgengisstefnu. En í útgerð og fiskvinnslu er fólk farið að hlusta.

Á nýliðnum aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva var sett fram krafa um, að skráning gengis krónunnar verði miðuð við útflutningsgreinar. Enn fremur var þar sagt, að sífellt háværari raddir um frjálst markaðsverð á gjaldeyri verði ekki lengur kveðnar niður.

Áður hafði Landssamband íslenzkra útvegsmanna samþykkt að óska þess, að gjaldeyrisverzlun verði gefin frjáls. Þannig eru hagsmunaaðilar smám saman að missa trú á skottulækna, sem hafa sagt sjávarútveginum, að lækkað gengi komi honum ekki að gagni vegna erlendra skulda hans.

Meira að segja forsætisráðherra gaf í haust þessa játningu: “Við höfum haldið svo stíft á genginu, að það er gagnrýnivert.” En ríkisstjórn hans telur samt nauðsynlegt að halda dauðahaldi í skráninguna til að auðvelda sér baráttu við víxlhækkanir á vísitölum.

Ríkisstjórnin bætir síðan eins og aðrar fyrri gráu ofan á svart með því að hafa aðdraganda gengislækkunar svo langan og stökkin svo stór, að spákaupmennska eyðir árangri, sem hefur náðst á öðrum sviðum. Í fyrra var til dæmis eytt í einu vetfangi sparnaði ársins vegna jákvæðra vaxta.

Enginn neitar lengur, að lægra gengi krónunnar sé áhrifaríkasta aðgerðin til að eyða halla á viðskiptum Íslands við útlönd og eyða söfnun skulda í útlöndum. Og nú er svo komið, að jafnvel ráðherrar telja vera sitt brýnasta verkefni að hafa hemil á skuldasúpunni.

Auðvitað fylgja vandamál hinu lægra gengi. Skilað er til baka til sjávarútvegs og annarra útflutningsgreina fjármunum, sem hafa haldið uppi velgengni í öðrum greinum. Minna verður til ráðstöfunar til að halda uppi hefðbundnum landbúnaði og lífskjörum utan sjávarútvegs.

En svo mjög hafa aukizt skuldir okkar í útlöndum, að skilningur fer ört vaxandi á, að útsölu á erlendum gjaldeyri verður að linna, þótt hún komi mörgum vel. Þjóðin hefur ekki lengur efni á fastgengisstefnu, sem leiðir til gífurlegrar sóknar í gjaldeyri.

Einn minnisvarði stendur eftir ríkisstjórnina. Hún hefur losað um vextina í landinu og búið til raunvexti. Þetta hefur stóraukið sparifé í bönkum. Jafnvægi á þó langt í land, enda tekur tíma að lækna afleiðingar áratuga ofbeldis hins opinbera gegn sparnaði í landinu.

Svo traustir eru raunvextir orðnir í sessi, að formenn stjórnarflokkanna eru farnir að gæla við hugmyndir um að skattleggja hinn jákvæða hluta vaxtanna, þann sem er umfram verðbólgu. Slíkar hugrenningar benda til, að jákvæðu vöxtunum verði leyft að lifa – sem tekjustofn!

Ríkisstjórnin mundi reisa sér annan minnisvarða jafnmerkan, ef hún losaði um gengi gjaldeyris. Fljótt kæmi í ljós, að lækningamáttur slíks framtaks er ekki síður undraverður en hinna frjálsu vaxta. Og mundu ekki allir fagna stöðvun skuldasöfnunar í útlöndum?

Alveg eins og æskilegt er að nálgast jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar lánsfjár, þá er æskilegt að nálgast jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar gjaldeyris. Í báðum tilvikum gerist það með því að leyfa markaðinum að ákveða kjörin á sjálfvirkan hátt, án opinberra afskipta.

Jónas Kristjánsson

DV

Pólsk stjórn á Íslandi.

Greinar

Flugfreyjur njóta lítillar samúðar á Alþingi. Enda telja margir henta öðrum betur að fá bætt kjör en hálfgerðri yfirstétt á borð við flugfreyjur, til dæmis fiskvinnslukonum. Auk þess vita þingmenn af eigin reynslu, hversu notalegir eru dagpeningar og bílastyrkir.

Athyglisvert er, að duglegasti þingmaður Alþýðuflokksins, Jóhanna Sigurðardóttir, megnaði ekki að sannfæra einn einasta flokksbróður sinn á Alþingi um réttmæti málstaðar flugfreyja. Formaður flokks hennar hefur meira að segja sagt niðurstöðuna vera “góðan kost fyrir flugfreyjur”.

Þessi sundrung stjórnarandstöðunnar gerði stjórnarflokkunum kleift að berja á flugfreyjum með nýstárlegum og eftirminnilegum hætti á aðfaranótt kvennafrídagsins og þvinga forseta Íslands til að nota fríið sitt til að staðfesta lögin til að hindra fall ríkisstjórnarinnar.

Forsenda hinnar óvenjulegu næturafgreiðslu Alþingis er, að hún sé neyðarráðstöfun að mati samgönguráðherra, sem gegnir hlutverki Jaruzelskis í máli þessu. Á þingi vakti hann athygli á, hve mikilvægar væru flugsamgöngur innan lands og utan, sérstaklega að vetrarlagi.

Daginn áður var upplýst í blöðum, að “flugfélög á landsbyggðinni anna svo til algjörlega farþegaflutningum innanlands”. Ennfremur, að Arnarflug hygðist í millilandaflugi “bæta við einni ferð í dag”. Alkunnugt er, að góðar samgöngur eru til og frá Amsterdam.

Hægt er að segja, að verkfall flugfreyja hjá Flugleiðum hafi valdið farþegum óþægindum, en tæplega neyðarástandi. Hins vegar olli það fyrirtækinu miklu tjóni og má kannski líta á slíkt sem neyðarástand. Er það þá ekki í fyrsta sinn sem hagur Flugleiða telst þjóðarhagur.

Enn einu sinni hefur Alþingi reynzt vera afgreiðslustofnun fyrir aðila úti í bæ, sem ekki hefur lag á að umgangast starfsfólk sitt með venjulegum hætti. Enda leynir sér ekki fögnuður forstjórans. Hann sagði í blaðaviðtali, að lagasetningin væri “eina leiðin”.

Nú má vænta þess, að fleiri fyrirtæki, sem lenda í erfiðleikum út af kröfuhörku starfsliðs, snúi sér til hinnar pólskættuðu ríkisstjórnar landsins með beiðni um yfirlýsingu um neyðarástand. Við vitum frá Jaruzelski, að verkföll eru þjóðhagslega óhagkvæm.

Ennfremur má búast við, að umboðsmenn deiluaðila í kjarasamningum vísi hér eftir frá sér ábyrgð og segi við umbjóðendur sína, að þeir hafi í hvívetna staðið fast á sínu. Það hafi bara verið alþingismennirnir, sem hafi gripið í taumana og klúðrað málinu.

Hingað til hefur Sjálfstæðisflokkurinn í orði verið fylgjandi svokölluðum frjálsum samningum á vinnumarkaði. Það er því nýstárlegt að sjá á borði, að þingflokkur hans mundi kunna betur við sig á pólska þinginu en hjá heimtufrekum Íslendingum.

Um leið og hinn íslenzki Jaruzelski byrjaði að láta skína í tennurnar í byrjun þessarar viku, hurfu samningamöguleikar eins og dögg fyrir sólu. Þingmenn geta spurt sáttasemjara ríkisins, hvort hægt sé að ná samningum eftir að lagasetningu hefur verið hótað.

Verst er þó, að þingmenn skuli missa nætursvefn út af jafnsjálfsögðum hlut og Flugleiðahag, það er að segja þjóðarhag. Er ekki einfaldast fyrir andans bræður Jaruzelskis að setja almenn lög um bann við verkföllum, ekki bara vegna Flugleiða, heldur okkar hinna líka?

Jónas Kristjánsson.

DV

Íslensk ábyrgð á Unesco.

Greinar

Tímabært er orðið, að Ísland segi sig úr Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna. Á aðalfundi stofnunarinnar í Sofiu hefur komið í ljós, að ekki eru horfur á umtalsverðri siðvæðingu þessarar ömurlegu stofnunar, þrátt fyrir úrsagnir, aðvaranir og aðra viðleitni.

Dæmigert fyrir neyðarástandið í Unesco er, að framkvæmdastjórn hennar fékk ekki að ræða einu gagnrýnu endurskoðunina á fjárreiðum stofnunarinnar, þá sem framkvæmd var af ríkisendurskoðun Bandaríkjanna, þar sem fram kemur, að þrjár krónur af hverjum fjórum fara í sukk í París.

Íslenzki fulltrúinn hjá Unesco hefur fengið nægilegt tækifæri til að komast að raun um, að breytinga er ekki að vænta. Hann hefur sjálfur setið í framkvæmdastjórninni fyrir hönd Norðurlandanna og axlað hluta ábyrgðarinnar á rekstri og stefnu stofnunarinnar.

Unesco hefur um skeið verið stjórnað og verður áfram stjórnað af samtökum umboðslausra harðstjóra í þriðja heiminum. Þessi samtök njóta stuðnings olíufursta og ráðamanna Sovétblakkarinnar. Þau vinna markvisst að beitingu stofnunarinnar gegn mannréttindum.

Hinir umboðslausu harðstjórar þriðja heimsins vilja fá að kúga þjóðir sínar í friði. Þeir hafna flutningi frétta af gerðum sínum og aðgerðaleysi. Þeir vilja hafa fjölmiðla að áróðurstækjum til stuðnings völdum sínum. Og þeim hefur tekizt það í flestum ríkjum heims.

Unesco hefur mjög verið beitt í máli þessu. Ályktanir og pappírsgögn stofnunarinnar hafa verið notuð til að hefta upplýsingaflæði í löndum harðstjóranna, til þeirra og frá þeim. Þau hafa verið notuð til að koma á skráningu blaðamanna og ritskoðun fjölmiðla.

Áherzlan í Unesco hefur flutzt frá mannréttindum almennings til réttinda harðstjóra til að ákveða sjálfir, hvað þjóni hagsmunum uppbyggingarinnar í löndum þeirra. Í reyndinni felast ákvarðanir þeirra í morðum og misþyrmingum, fangelsunum og fjárstuldi.

Gagnrýnin á Unesco hefur jöfnum höndum beinzt að kúgunarstefnu stofnunarinnar og svínaríinu í rekstri hennar. Þar við bætist svo persóna forstjórans, M’Bow, sem hagar sér eins og hann sé keisari í Senegal og hefur safnað um sig hirð gagnslausra skriðdýra.

Ljóst er, að engra endurbóta er að vænta á valdatíma M’Bow. Ennfremur er öruggt, að hann fer ekki frá völdum í náinni framtíð, því að hann gætir hagsmuna harðstjóranna, sem hafa tögl og hagldir í stofnuninni. Vonir um annað eru aðeins sjálfsblekking.

Sameinuðu þjóðunum og stofnunum þeirra hefur verið spillt með ýmsum hætti á undanförnum árum. Þær hafa fjarlægzt hugsjónirnar, sem réðu í upphafi. Engin þessara stofnana er þó eins djúpt sokkin og Unesco. Hún er því verðugt tilefni úrsagnar, öðrum til aðvörunar.

Bandaríkin yfirgáfu Unesco fyrir tæpu ári. Þá lýsti Bretland yfir úrsögn, sem kemur til framkvæmda um næstu áramót. Í erlendum fjölmiðlum hefur Ísland verið nefnt í hópi nokkurra ríkja, Danmerkur, Kanada og Japans, sem væru um það bil að gefast upp á aðildinni.

Því miður gaf ráðherraræðan, sem flutt var fyrir Íslands hönd á aðalfundinum í Sofiu. ekki miklar vonir um einbeitni af Íslands hálfu. Litlar horfur eru á, að Ísland hafni með úrsögn að bera frekari ábyrgð á fjármálaóreiðu Unesco og atlögu stofnunarinnar að mannréttindum í þriðja heiminum.

Jónas Kristjánsson

DV

Norrænar refsingar.

Greinar

Norræna viðskiptabannið á Suður-Afríku er okkur þægilegt í framkvæmd. Við seljum sama sem ekkert þangað og allra sízt tölvubúnað, sem er helzta bannvaran. Við kaupum þaðan lítils háttar af appelsínum, sem eru ekki nógu virðulegar til að komast á bannlistann.

Okkur er ekki að skapi stjórnarfar Búa í Suður-Afríku. Ríkisstjórn þeirra sigar lögreglunni á svarta borgara landsins og hernum á nágrannaríkin. Ríkisstjórn Suður-Afríku er raunar skólabókardæmi um hryðjuverkastjórn, sem við hljótum hjartanlega að fyrirlíta.

Úr því að við erum farin að skrifa undir svarta lista yfir listamenn og tölvubúnað, er orðið tímabært að taka upp flokkun á erlendum ríkisstjórnum í hreinar og óhreinar. Engin sérstök ástæða er til að einblína á Suður-Afríku. Stjórnarfarið þar er bara þetta venjulega.

Við kaupum olíu og bíla af Sovétríkjunum og seljum þangað fiskafurðir á borð við saltsíld. Sölumenn okkar og ráðuneytisstjóri viðskiptamála hafa verið staðnir að því að væla út óbeinan stuðning við skoðun ríkisstjórnar Sovétríkjanna á því, hvernig hún megi brjóta Helsinkisamkomulagið.

Ríkisstjórn Sovétríkjanna stundar hryðjuverk á borgurum landsins. Hún lokar þá inni á geðveikrahælum og gefur þeim inn eitur. Hún sendir þá í útlegð, þar sem ekkert fréttist af þeim. Hún neitar þeim um læknishjálp. Og hún gefur þeim ekki leyfi til að flytjast úr landi.

Í hryðjuverkum innanlands er ríkisstjórn Sovétríkjanna mjög svo sambærileg við ríkisstjórn Suður-Afríku. Hins vegar er hin fyrrnefnda miklum mun afkastameiri í ofbeldi gagnvart nágrannaríkjunum. Styrjöldin í Afganistan er hræðilegri en önnur hryðjuverk nútímans.

Þegar við tökum upp norrænt viðskiptabann á listamenn og tölvur gagnvart Suður-Afríku, er tímabært að gera það einnig gagnvart Sovétríkjunum og hverju einasta leppríki þeirra. Við verðum að hafa samræmi í tilraunum okkar til að hafa vit fyrir erlendum ríkisstjórnum.

Og það eru fleiri ríkisstjórnir en Suður-Afríku og Sovétríkjanna, sem víkja af hinum þrönga vegi dyggðanna. Þær eru raunar rúmlega hundrað í heiminum, er stunda hryðjuverk, sem eru svipuð eða verri en hin suðurafrísku. Þar á meðal eru nærri allar stjórnir svörtu Afríku.

Ef við ætlum að vera sjálfum okkur samkvæm, þurfum við að setja rúmlega hundrað ríkisstjórnir í viðskiptabaun. Við þurfum að búa til svarta lista yfir tölvubúnað og listamenn, sem fara þangað. Við eigum á hættu að óhreinka okkur af fleiru en Suður-Afríku og Sovétríkjunum.

Í rúmlega hundrað löndum jarðar sitja ríkisstjórnir, sem hafa ekkert umboð frá borgurunum. Þær fangelsa menn án vestrænna laga, misþyrma þeim og drepa þá. Þær stunda hryðjuverk gegn erlendum ríkjum. Meira að segja stjórn Bandaríkjanna stundar hið síðarnefnda.

Hryðjuverk stjórnar Bandaríkjanna í Nicaragua gætu hæglega komið henni á hinn svarta lista okkar yfir tölvubúnað og listamenn. Við gætum að minnsta kosti meinað Bandaríkjamönnum að kaupa af okkur afurðir hvala. Það væri álíka hagkvæmt og norræna viðskiptabannið.

Mikilvægast væri þó að nota norræna viðskiptabannið á Suður-Afríku til að skoða hug okkar um stöðu okkar sem aftaníossa norræns samstarfs. Við þurfum að spyrja okkur, hvort við séum skyldug til að éta allt upp eftir hjartahreinum frændþjóðum á hjara veraldar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Frumvarp í fínu formi.

Greinar

Nýja fjárlagafrumvarpið hefur einn kost. Hann felst ekki í innihaldi þess. Það er óþarflega mikið og leiðir til allt of hárra niðurstöðutalna þess. Samkvæmt frumvarpinu er ríkissjóði einum ætluð rúm fjárráð í landinu, auðvitað á kostnað heimila og atvinnuvega.

Kostur frumvarpsins er breytt ytra form. Það er nú skiljanlegra en fyrr. Skýringar og dæmi þess eru mun ítarlegri en áður hefur þekkzt. Það er eins og framsetningunni sé ætlað að auka skilning lesenda fremur en að hindra hann eins og tíðkaðist í fyrri frumvörpum.

Fyrstu merki þessa sáust raunar í síðasta frumvarpi. Þar var í greinargerð sagt frá, hvernig frumvarpið gæti litið út á nýjan hátt, ef farið væri eftir staðli Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Síðan voru sett um þetta lög í fyrravor. Nýja frumvarpið er í töluverðu samræmi við þau.

Lánsfjáráætlun ríkisins er nú í fyrsta sinn hluti af greinargerð fjárlagafrumvarpsins, en ekki sérstakt plagg, sem birtist eftir dúk og disk. Samkliða frumvarpinu hafa verið lögð fram lánsfjárlagafrumvarp og þjóðhagsáætlun, en ekki skildir eftir opnir endar.

Bæði aðalfrumvarp fjárlaganna og viðbótarfrumvarp lánsfjárlaganna fá nú meðferð sömu þingnefndar, fjárveitinganefndar, og verða væntanlega afgreidd samhliða sem lög frá Alþingi fyrir jól. Þetta eru ólíkt vitrænni vinnubrögð en þau, sem hingað til hafa tíðkazt.

Hinn eini opni endi fjárhagsáætlana ríkisins, sem nú er eftir, felst í aukafjárveitingum ríkisstjórnarinnar án meðferðar og samþykkis Alþingis. Slíkar fjárveitingar hafa jafnan verið umtalsverður þáttur ríkisbúskaparins og raunar verið til umræðu að undanförnu.

Ein merkasta nýbreytni frumvarpsins er, að í greinargerð þess er í fyrsta sinn gerð rækileg grein fyrir öllum aukafjárveitingum þessa árs fram að 1. október. Þannig hefur fyrrverandi fjármálaráðherra að mestu svarað fyrirfram spurningum stjórnarandstöðunnar.

Athyglisvert er við þessa skrá, að 954 milljón króna aukafjárveitingar þessara níu mánaða eru ekkert einkamál Alberts Guðmundssonar. Hann hefur sjálfur úthlutað 5,4 milljónum af þessari summu. En að vísu vantar í myndina aukafjárveitingar frá fyrri hluta október.

Skráin sýnir, að helmingur aukaútgjaldanna stafar af kjarasamningum. Mest af hinum hlutanum er björgunaraðgerðir fyrir önnur ráðuneyti. Því miður stríðir sumt af þeim gegn afgreiðslunni, sem þær höfðu áður fengið í fjárveitinganefnd Alþingis og síðan Alþingis sjálfs.

Fleiri nýjungar fylgja frumvarpinu, þar á meðal yfirlit um allar skuldbindingar ríkissjóðs, þar á meðal ábyrgðir. Þá er töfluviðauki frumvarpsins ítarlegri og gagnlegri en nokkru sinni fyrr. Ennfremur er margvíslegur samanburður í töflum, sem víða fylgja skýringum frumvarpsins.

Ekki er frumvarpið þó enn orðið alveg heiðskírt. Þrátt fyrir staðal Alþjóða gjaldeyrissjóðs hafa niðurgreiðslur landbúnaðarafurða ekki enn verið fluttar til viðkomandi ráðuneytis. Og 149 milljón króna gjöf til Lífeyrissjóðs bænda er falin hjá samtals þremur ráðuneytum.

Slíkir annmarkar eru þó tiltölulega fáir. Að mestu leyti hefur verið reynt að auðvelda skilning fremur en að torvelda hann, létta samanburð fremur en að hindra hann, loka endum í stað þess að hafa þá opna. Að formi til er þetta bezta fjárlagafrumvarp í manna minnum.

Jónas Kristjánsson.

DV