Greinar

Of dýr samtrygging.

Greinar

Austfirzkir sveitarstjórnarmenn skoruðu nýlega á iðnaðarráðherra að hraða undirbúningi að byggingu kísilmálmverksmiðju við Reyðarfjörð. Þeir vilja gera stóriðjudraum sinn að veruleika, þótt komið hafi í ljós, að raunveruleikinn er kuldalegri en draumurinn.

Vafalaust gerir ráðherrann sitt bezta, enda er hann þingmaður Austfirðinga, alveg eins og gerði fyrrverandi ráðherra, sem líka var þingmaður þeirra. En kísilmálmverksmiðjan er pólitískt loforð, sem hefur reynzt afar erfitt að efna og mun líklega reynast ókleift.

Hinir góðviljuðu stjórnmálamenn standa andspænis tvenns konar vanda. Í fyrsta lagi yrði að greiða niður stofnkostnað verksmiðjunnar um 600 milljónir króna, ef hún yrði reist við Reyðarfjörð. Í öðru lagi yrði að greiða niður orkuverð til hennar úr 18 mills í 14.

Síðara vandamálið er raunar almennt rothögg á stóriðjudrauma Íslendinga. Samninganefndarmenn um stóriðju hafa nýlega upplýst, að unnt sé að ná 14 mills á kílóvattstundina í samningum við erlend stóriðjufyrirtæki. Orkuverð hafi verið á niðurleið að undanförnu.

Jafnframt hefur rækilega verið upplýst, að orkuverð frá nýjum stórvirkjunum, svo sem orkuverinu við Blöndu, verði ekki undir 18 mills á kílóvattstundina. Stóriðjudæmið gengur því ekki lengur upp. Það kann að lagast síðar, en ekki á allra næstu árum.

Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd, að orka er ekki ódýr hér á landi eins og menn töldu fyrr á árum. Orkan er þvert á móti dýrari hér en í flestum nágrannalöndunum. Þar með er fallin forsendan fyrir þeirri skoðun, að Ísland sé framtíðarland orkufrekrar stóriðju.

Erlendu fyrirtækin, sem beðin hafa verið um samstarf, vilja ekki greiða 18 mills í stað 14. Og þau vilja ekki greiða 600 milljónir króna aukalega til að taka þátt í byggðastefnu íslenzkra stjórnvalda. Þessi fyrirtæki eru í viðskiptum, en ekki góðgerðarstarfsemi.

Hætt er við, að þetta ástand leiði til, að góðviljuðum stjórnmálamönnum þyki henta, að ríkið byggi kísilmálmverksmiðjuna. Þá er hægt að láta skattgreiðendur annast 600 milljón króna byggðastefnuna og láta orkunotendur annast fjögurra millsa verðmuninn.

Fyrirmyndina sjáum við á Grundartanga. Þar semur ríkið við sjálft sig um orkuverð. Það er haft fáránlega lágt, svo að járnblendiverksmiðjan beri sig. Reikningurinn er hins vegar sendur öðrum orkunotendum. Orkuverðið til Straumsvíkur er barnaleikur hjá þessu rugli.

Stóriðjustefnan á að vera hrein og klár. Ef við höfum samkeppnishæfa orku, eigum við að selja hana einhverjum, sem vilja kaupa á sanngjörnu verði. Íslenzka ríkið á ekki að sitja báðum megin við samningaborðið eins og það gerði í Grundartangadæminu.

Stóriðjudraumurinn á Reyðarfirði verður kominn í 50 milljón króna undirbúningskostnað í lok þessa árs. Ástæðulaust er að sjá svo mikið eftir þessu fé, að kastað sé 600 milljónum króna í stofnkostnaðarmismun og fjórum millsum í hverja kílóvattstund.

Við áttum að taka út þroska okkar í Kröflu. Þar var reist pólitískt orkuver í skjóli samtryggingar stjórnmálaflokkanna. Kísilmálmdraumurinn er að því leyti verri, að þar þarf þjóðin ekki bara að taka erlend lán til orkuvers, heldur einnig til stóriðjunnar. Það er of dýr samtrygging.

Jónas Kristjánsson

DV

Botha er ekki sá eini.

Greinar

Lögreglan í Suður-Afríku hefur drepið um 500 blökkumenn á undanförnum vikum. Flestir voru skotnir í hryðjuverkum, er lögreglan breytti friðsamlegum mótmælum í blóðbað. Ríkisstjórnin kennir blökkumönnum um þetta, hefur hneppt um 650 þeirra í varðhald og lýst yfir neyðarástandi.

Með atburðum síðustu vikna er aðskilnaðarstefnan í Suður-Afríku komin í þrot. Hún á ekkert vopn eftir nema tilraunina til að kúga blökkumenn til hlýðni og það vopn virðist ekki bíta lengur. Hryðjuverk stjórnvalda magna andstöðu hins kúgaða meirihluta blökkumanna.

Íslenzk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til þessa eins og stjórnvöld annarra ríkja hafa gert og eru að gera. Efst á baugi er, hvort slíta eigi stjórnmálasambandi við stjórn Suður-Afríku og hvort reyna eigi að beita efnahagsþvingunum á borð við verzlunarbann.

Ályktanir Sameinuðu þjóðanna eru okkur lítilvægt veganesti. Þar ráða ferðinni harðstjórnir austurblokkarinnar, arabaríkjanna og þriðja heimsins. Þessir aðilar hafa beitt Sameinuðu þjóðunum gegn Suður-Afríku, þótt þeim væri nær að líta í eigin barm.

Í Suður-Afríku hefur þorri íbúanna lítil mannréttindi og sætir hryðjuverkum stjórnvalda. Það er mjög svipað ástand og er í flestum ríkjum heims. Munurinn er aðeins sá, að í Suður-Afríku er það húðliturinn, sem ræður, en í öðrum ríkjum sum önnur atriði.

Í Sovétríkjunum kúgar yfirstéttin, hin svonefnda Nomenklatura, allan þorra íbúanna. Þannig er ástandið í leppríkjum Sovétríkjanna. Í mörgum ríkjum araba og þriðja heimsins er yfirstéttin mun fámennari, allt yfir í að einn harðstjóri kúgi alla hina.

Við höfum ekki slitið stjórnmálasambandi við Sovétríkin né reynt að beita sovézk stjórnvöld efnahagslegum þvingunum á borð við verzlunarbann. Hvers vegna skyldum við þá einskorða okkur við að hlýða fyrirmælum harðstjóranna í Sameinuðu þjóðunum gagnvart Suður-Afríku?

Suður-Afríka hefur það umfram flest önnur kúgunarríki heims, að við getum fengið upplýsingar um ástandið þar. Ríkisstjórnin þar hefur ekki enn gert alvarlegar tilraunir til að skipuleggja upplýsingastrauminn, það er að segja koma í veg fyrir réttar upplýsingar af ástandinu.

Í Sovétríkjunum, fylgiríkjum þeirra, arabaríkjunum og flestum ríkjum þriðja heimsins er hins vegar farið eftir hugmyndum, sem harðstjórar heimsins hafa komið á framfæri í menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco, að óþægilegur flutningur neikvæðra frétta skuli stöðvaður.

Varasamt er að fá Suður-Afríku á heilann, þótt auðveldara sé að fá fréttir þaðan en frá öðrum kúgunarríkjum. Við verðum að skoða málin í samhengi og meta hugsanlegar aðgerðir okkar út frá hliðstæðum aðgerðum gegn Nomenklatura og harðstjórum annarra ríkja heims.

Hvað á að gera andspænis blóðugri harðstjórn Obote í Uganda, Suharto í lndónesíu, Marcos á Filippseyjum, Gorbatsjov í Sovétríkjunum, Deng í Kína, Pinochet í Chile og Karmal í Afganistan? Nauðsynlegt er að skoða slík mál í samhengi, en ekki Botha í Suður-Afríku einan.

Ályktanir harðstjóranna í Sameinuðu þjóðunum og Unesco um sambandsslit stjórnmála og verzlunar eiga ekkert erindi til okkar. Við eigum hins vegar að nota tækifæri á alþjóðlegum vettvangi til að víta harðstjórnina í Suður-Afríku eins og í öðrum ríkjum heims.

Jónas Kristjánsson.

DV

Við erum farin að spara.

Greinar

Ekki eru allar fréttir slæmar af efnahagslífinu. Gleðilegt er, að jafnvægi virðist hafa náðst á lánamarkaði. Raunvextir eru orðnir svo háir, að peningar streyma til lánastofnana og gera kleift að fjármagna ótal verkefni án þess að auka skuldasúpu þjóðarinnar í útlöndum.

Þessi hagstæða þróun hófst í árslok 1983. Frá þeim tíma hafa innstæður aukizt um 18% í raunverulegum verðmætum. Sókn þessi hefur magnazt í ár. Innlán hafa aukizt tvöfalt meira en útlán á fyrri hluta ársins. Fólk kýs að leggja fyrir í stað þess að nota féð til misþarfra kaupa.

Raunvextir eru afar misjafnir hér á landi eftir tegundum fjárskuldbindinga. Áætlað hefur verið, að meðaltal þeirra sé um 5%. Í alþjóðlegum samanburði eru þetta fremur háir raunvextir. Algengast er, að þeir séu um 4% eins og í Bandaríkjunum og Japan.

Í Bretlandi og Kanada eru raunvextir um 5% eins og hér. Og til eru lönd, þar sem þeir eru mun hærri, svo sem Svíþjóð, þar sem raunvextir eru um 7%. Allar eru þessar tölur úr tímaritinu Economist. Samkvæmt þeim eru íslenzkir raunvextir ekki fjarri meðallagi.

Hér á landi er fjármagnshungur meira en í flestum öðrum löndum. Slík umframeftirspurn hlýtur að kalla á hærri raunvexti en venjulegir eru. Hún gerir meiri kröfur en ella til arðsemi framkvæmda og rekstrar, sem lánunum er ætlað að fjármagna.

Heyrst hafa raddir um, að raunvextir megi nú lækka, þar sem jafnvægi hafi náðst. Sú skoðun er varhugaverð. Lækkaðir raunvextir geta hæglega dregið úr, stöðvað eða snúið við sparifjáraukningunni. Ef svo verður, þurfum við að sækja meira af lánsfé til útlanda.

Flestir eru sammála um, að miklar og vaxandi skuldir okkar í útlöndum séu eitt allra geigvænlegasta vandamál þjóðarinnar. Ef hægt er að lina þann vanda með eflingu innlends sparnaðar, er það einna gleðilegasti árangur raunvaxtastefnu núverandi stjórnvalda.

Ennfremur verður að hafa í huga, að lækkaðir raunvextir geta leitt til þess, að sparifé verði notað til kaupa á ýmsum óþarfa, til dæmis á innfluttri vöru og þjónustu. Þannig getur vaxtalækkun verið verðbólguhvetjandi, jafnvel í meira mæli en vaxtahækkun.

Ekki eru öll ljón úr veginum, þótt stjórnvöld standist freistingar vaxtalækkunar. Við höfum dæmi frá því í fyrrahaust, að langur aðdragandi gengislækkunar olli flótta fjármagns úr lánastofnunum til kaupa á mismunandi þarfri vöru og þjónustu frá útlöndum.

Þegar gengislækkun er í aðsigi, telja menn sig ná betri raunvöxtum úr spákaupmennsku heldur en sparnaði. Og þeim mun meira sem stjórnvöld tregðast við að lækka gengið, þeim mun meira spá menn í, að gengislækkunin verði umtalsverð og gróðavænleg.

Ef gengið fellur hins vegar oft og lítið í senn, er ekkert upp úr slíkri spákaupmennsku að hafa. Við slíkar aðstæður gefa venjulegir raunvextir meira í aðra hönd. Þetta virðast stjórnvöld ekki skilja, því að þau hafa leyft dollaranum að lækka í verði að undanförnu.

Ef gengi er jafnan rétt skráð eða alls ekki skráð, er komið í veg fyrir, að spillt sé árangrinum af jafnvægi í raunvöxtum. Við erum nú á réttri leið í eflingu innlends sparnaðar. Þeim árangri má hvorki spilla með lækkun raunvaxta né frestun gengislækkana yfir í stóru stökkin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Lífróður að feigðarósi.

Greinar

Engin skýring hefur fengizt á ofurkappi þingmanna Sjálfstæðisflokksins við skyndiafgreiðslu framleiðsluráðslaga landbúnaðarins á síðustu dögum Alþingis í sumar. Hvers vegna gengu þeir harðar fram en framsóknarþingmenn, sem sumir efuðust um gagn frumvarpsins?

Enn síður er hægt að skilja viðbrögð formanna flokks og þingflokks sjálfstæðismanna við fyrstu afleiðingu laganna, stórhækkun kjarnfóðurgjalds. Þeir virðast halda, að kjósendur við sjávarsíðuna og neytendur almennt trúi því, að hækkunin sé ákvörðun Framsóknarflokksins.

Áram saman hafa stjórmnálamenn verið varaðir við áformum landbánaðarmafíunnar, sem hefur virki sín í framleiðsluráði, búnaðarfélagi, stéttarsambandi og ráðuneyti. Hún hefur stefnt að aukningu eigin valda og yfirfærslu ríkisrekstrar hefðbundinna búgreina á allar búgreinar.

Landbúnaðarmafían vill stöðva verðsamkeppnina, sem hingað til hefur ríkt í eggjum, alifuglum og svínum. Hún vill stöðva, að upp rísi stórvirkir framleiðendur, sem lækka verð fyrir hinum. Hún vill, að hver framleiðandi fái kvóta og einokunarverð fyrir það magn.

Um leið vill landbúnaðarmafían stöðva minnkunina á neyzlu hefðbundinna afurða nautgripa- og sauðfjárræktar á kostnað neyzlu eggja, alifugla og svína. Hún vill nota kjarnfóðurgjaldið til að gera hefðbundnu afurðirnar ódýrari og afurðir hliðarbúgreinanna dýrari.

Ennfremur vill landbúnaðarmafían ná betri tökum á peningastraumum landbúnaðarkerfisins. Með 130% kjarnfóðurgjaldi nær hún til sín verulegum fjármunum, sem hún getur síðan skammtað á þann hátt, að gæludýrum sé gert hærra undir höfði en hinum, sem malda í móinn.

Við höfum reynsluna frá síðasta ári. Þá greiddu eggja-, alifugla- og svínabændur 79 milljónir króna í kjarnfóðurgjald til mafíunnar og fengu hálfa milljón til baka. Afgangurimi fór í hefðbundna landbúnaðinn, þar á meðal til niðurgreiðslu á verði áburðar.

Loks vill landbúnaðarmafían reyna að koma í lóg offramleiðslu fjölda grænfóðurverksmiðja, sem hafa verið reistar fyrir opinbert fé á síðustu árum. Í því skyni lýgur ráðherra því, að heimsmarkaðsverð á kjarnfóðri sé falskt verð, niðurgreitt af Efnahagsbandalaginu.

Hið rétta er, að Efnahagsbandalagið greiðir niður verð á sínu kjarnfóðri til að gera það samkeppnishæft við annað kjarnfóður frá löndum, sem hafa meiri framleiðni á þessu sviði og geta selt á lágu heimsmarkaðsverði, án þess að nokkrum niðurgreiðslum sé beitt.

Engin ástæða var til að koma framleiðslustjórn landbúnaðarmafíunnar á egg, alifugla og svín. Markaðurinn hefur hingað til séð um að halda framleiðslu og eftirspurn í jafnvægi. Í hinum framleiðslustýrðu greinum sauðfjár og nautgripa hefur hins vegar ríkt geigvænleg offramleiðsla.

Áform landbúnaðarmafíunnar hafa oft komið í ljós í ræðu og riti, beint og óbeint. Ekki hefur heldur staðið á aðvörunum, sem hefur verið beint gegn þessum ráðagerðum. Til dæmis voru þingmenn Sjálfstæðisflokksins varaðir við lögunum, sem þeir knúðu í gegn.

Enginn vafi er á, að lög þessi munu reynast neytendum afar dýr, þar á meðal kjósendum Sjálfstæðisflokksins í þéttbýli og við sjávarsíðuna. Þingmenn flokksins flutu ekki sofandi að þessum feigðarósi, heldur reru þangað hreinan lífróður. Á að líta á það sem sjálfseyðingarhvöt?

Jónas Kristjánsson

DV

Lögregluofbeldið.

Greinar

Lögreglustjóraembættinu í Reykjavik ber að greiða sektir þær og skaðabætur, sem Hæstiréttur dæmdi nýlega fórnarlambi lögregluofbeldis. Starfsmaður lögreglunnar, sem dæmdur var, framdi ofbeldið í vinnutímanum og á vegum húsbóndans, lögregluríkisins.

Venja er, að vinnuveitendur greiði kostnað, sem hlýzt af mistökum starfsmanna, þótt sjálfir dómsúrskurðirnir beinist að starfsmönnum sem einstaklingum. Enn meiri er ábyrgð húsbóndans, þegar hann hefur mótað andrúmsloft, sem hvetur til slíkra mistaka.

Lögregluofbeldi er algengara hér á landi en sem svarar einu hæstaréttarmáli. Fáir hafa aðstöðu og bein í nefinu til að kæra lögregluna og fylgja kærunni á leiðarenda. Það reynir á þolrifin að sitja undir rógi lögreglunnar, lögmanna hennar og klappliðs hennar.

Brezk lögregluyfirvöld gera sér grein fyrir, að ofbeldishneigðar hlýtur að gæta hjá sumum lögreglumönnum. Þau hafa staðið fyrir rannsóknum á vandamálinu í því augnamiði að finna ráð til að halda ofbeldinu í skefjum og hindra útbreiðslu þess innan löggæzlunnar.

Hér á landi er viðhorf yfirstjórnar lögreglunnar þveröfugt. Sama er að segja um viðhorf samtaka lögreglumanna. Frá sjónarhóli þessara aðila gera lögreglumenn aldrei neitt rangt í starfi. Þeir eru varðir gegnum þykkt og þunnt, allt fram í rauðan dauðann.

Þetta stuðlar að ákveðinni hóphvöt, sem lýsa má á þann hátt, að hér erum við, vaktin, sem stendur saman, en þarna úti í umheiminum er pakkið, fyllibytturnar, þrasararnir, blaðamennirnir og aðrir óvinir okkar, vaktarinnar. Slík hóphvöt er þekkt fyrirbæri.

Það er lýsandi dæmi um ástandið, að lögregluofbeldi hefur haldið áfram að viðgangast, síðan hófust þau málaferli, sem nú hafa náð niðurstöðu í Hæstarétti. Lögreglumenn vita, að efnislega styður húsbóndinn þá, þótt hann virðist nú ekki vilja borga tjónið.

Að vísu kann þetta að breytast, ef lögreglustjóraembættið vill ekki borga fyrir starfsmanninn. Slíkt er auðvitað líklegt til að draga úr lögregluofbeldi í framtíðinni, því að einstaklingar hafa ekki efni á að tapa mörgum slíkum málum í Hæstarétti.

En þetta er ekki rétta leiðin til að draga úr lögregluofbeldi. Lögreglustjóraembættinu sem stofnun ber að standa við húnbóndaskyldu sína. Það átti sjálft og á enn að geta haldið uppi slíkum aga á liði sínu, að ekki leiði til mistaka, sem hér eru til umræðu.

Löngu áður en þetta mál kom upp lét dómsmálaráðuneytið kanna viðhorf almennings til lögreglunnar. Þetta var fyrir fimm árum. Þá kom í ljós, að fólk var hrætt við lögregluna. Hætt er við, að traust almennings hafi enn rýrnað eftir ofbeldi síðustu ára.

Fyrir fimm árum töldu flestir hinna spurðu, að lögreglan kynni ekki tök á drukknu fólki, hefði ekki lag á að róa fólk, beitti stundum óþarfri hörku, til dæmis við handtöku, og berði fólk, þegar aðrir sæju ekki til. Þetta er ekki félegt álit á verndurum borgaranna.

Rotnunin í lögreglunni kemur að ofan, en ekki frá einstaklingum, sem lenda í mistökum í hita andartaksins. Það er sjálf yfirstjórnin, sem er skyldug til að koma upp aga, svo að ofbeldi minnki og lögregluríkið hverfi. En ekki með því að neita að borga eftir á.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sprengjufiðrildi fyrir börn.

Greinar

Vesturþýzki stjórnmálamaðurinn Jürgen Todenhöfer var í vetur á ferð með skæruliðum í Afganistan. Hann sá þar nokkur hundruð börn, sem voru örkumla í andliti og á höndum af völdum leikfangasprengja. Hann áætlaði, að nokkrir tugir þúsunda barna hefðu sætt slíkum sendingum Rauða hersins.

Liður í hernaði Kremlverja í Afganistan felst í að dreifa sprengjum, sem líta út eins og fiðrildi og springa ekki, þegar þær koma til jarðar. Þær springa þá fyrst, er snert er á þeim. Friðarklerkar og friðarkerlingar af báðum kynjum á Vesturlöndum hamast ekki gegn þessu.

Reynum að gera okkur í hugarlund, að bandaríski herinn varpaði slíkum sprengjum á Nicaragua. Vestrænir fjölmiðlar væru án efa mættir á staðinn. Reiðialda færi um hinn siðaða heim, ekki sízt í Bandaríkjunum sjálfum. Slíkur hernaður er óhugsandi.

Reynum að ímynda okkur, að 125 þúsund manna bandarískur her væri búinn að vera í Nicaragua í rúmlega fimm ár. Heilu þorpunum, konum, börnum og gamalmennum væri slátrað á skipulegan hátt, húsin jöfnuð við jörðu og gróðri eytt. Slíkt gæti engan veginn gerzt nú.

Reynum að sjá fyrir okkur, að stjórn Bandaríkjanna ynni miskunnarlaust að eyðingu landsbyggðarinnar í Nicaragua og hefði þegar hrakið þrjár-fjórar milljónir manna úr landi. Slíkt væri ekki hægt, ekki vegna neinna friðarhreyfinga, heldur vegna venjulegs almenningsálits.

Kremlverjar hafa ekkert almenningsálit heima fyrir. Fjölmiðlar þeirra segja það eitt, sem þeir eru látnir segja. Fólk í Sovétríkjunum heldur, að drengirnir þess séu að verjast innrás Bandaríkjanna í Afganistan. Þannig fær þjóðarmorðið í Afganistan að halda áfram.

Rauði herinn og leppstjórnin í Kabúl sjá til þess, að erlendir fréttamenn geti ekki flykkzt til Afganistan að sjá grimmdaræðið þar og flytja það inn í stofu til vesturlandabúa. Við fáum því stopular fréttir frá blaðamönnum, sem hafa hætt lífi sínu við að laumast um landið.

Sovétstjórnin fyrirlítur mannúð og mannréttindi, alveg eins og hún fyrirlítur alla samninga, sem hún skrifar undir, þar á meðal Helsinki-samkomulagið. Valdataka valdshyggjumannsins Gorbatsjovs hefur magnað forherðinguna, þar á meðal villimennskuna í Afganistan.

Á sama tíma er friðarfólk á Vesturlöndum að biðja um fleiri marklausar undirskriftir, til dæmis um, að svæði verði kjarnorkuvopnalaus og að enginn verði fyrri til að grípa til kjarnorkuvopna. Slíkir pappírar verða þá fyrst endanlega marklausir, þegar Kremlverjar hafa ritað undir.

Friðarfólk á Vesturlöndum veldur Kremlverjum óstjórnlegri gleði, þegar það beitir vestrænar ríkisstjórnir þrýstingi, sem enginn getur beitt austan járntjalds, en lætur framferði Kremlverja afskiptalaust, til dæmis í Afganistan. Þetta er óþolandi ástand.

Tími er kominn til, að almenningur og friðarfólk, þar á meðal villuráfandi klerkar, hætti að einblína í garð Vesturlanda og einbeiti kröftum sínum að þrýstingi á Sovétstjórnina, svo að hún láti af glæpum sínum í Afganistan og öðrum svikum við alþjóðlega samninga.

Enginn friður verður á jörðinni fyrr en Kremlverjar sjá, að þeir komast ekki lengur upp með að haga sér eins og naut í flagi. Núverandi starf vestrænna friðarhreyfinga stuðlar að framhaldi ófriðar Kremlverja og frekari dreifingu á sprengjum handa börnum í Afganistan.

Jónas Kristjánsson.

DV

Aukin alræðisárátta.

Greinar

Í hvert sinn sem nýr höfðingi sezt að völdum í Sovétríkjunum fær óskhyggja manna á Vesturlöndum nýja útrás. Fjallað er um, að hinn nýi maður sé ef til vill hinn bezti karl, tæknilega og hagfræðilega sinnaður, taki brauð fram yfir skriðdreka og sé jafnvel vel kvæntur.

Gorbatsjov hinn nýi hefur það fram yfir Andropov að vera ekki með blóðuga fortíð frá innrásinni í Ungverjaland og yfirstjórn sovézku leyniþjónustunnar. Þar með fylgir ekki, að hann sé eitthvert gæðablóð, sem muni stuðla að mannréttindum og friði í heiminum.

Þegar er komið í ljós, að Gorbatsjov beitir Austur-Evrópu meiri hörku en fyrirrennarar hans gerðu. Það kom greinilega fram á síðasta fundi efnahagsbandalagsins Comecon. Þar fékk hann hærra verð fyrir sovézkar afurðir og lægra verð fyrir afurðir leppríkjanna.

Ennfremur hefur sannleiksmálgagnið Pravda hert gagnrýnina á austurevrópsk frávik frá sovézkum rétttrúnaði í efnahagsmálum. Þar eru fordæmdar tilraunir Ungverja og annarra til að beita markaðslögmálum í smáum stíl. Brezhnev, Andropov og Tsjernenko voru þó öllu frjálslyndari.

Verra er, að Gorbatsjov hefur hert villimennsku Rauða hersins í Afganistan. Þjóðarmorðið er stundað skipulegar en nokkru sinni fyrr. Konum, börnum og gamalmennum er slátrað í stórum stíl, þorp jöfnuð við jörðu og gróðri eytt. Pyndingar eru hrottalegri en annars staðar.

Heima fyrir bendir ekkert til, að Gorbatsjov muni slaka hið minnsta á klónni. Hann er á móti öllum frávikum. Það lýsir sér ekki aðeins í herferð gegn slóðaskap í atvinnulífinu, heldur einnig í auknum ofsóknum gegn öllum þeim, sem ekki eru nákvæmlega á hans línu.

Enn hefur fækkað þeim, sem fá að flytjast úr landi, og haldið er áfram ofsóknum gegn þeim, sem biðja um slíkt. Einnig hefur aukizt harkan við andófsmenn á borð við Sakharov. Hún kemur meðal annars fram í, að umheimurinn veit mánuðum saman ekki, hvort hann er lífs eða liðinn.

Að baki aukinnar hörku gagnvart Austur-Evrópu, Afganistan og íbúum Sovétríkjanna er líklega meiri árátta Gorbatsjov en fyrirrennara hans að ráða öllu sjálfur. Þessi sama árátta kemur fram í hreinsunum á valdatindinum. Gromyko er sparkað upp og Romanov út, en jámenn settir inn.

Þessi fyrsta reynsla af Gorbatsjov lofar ekki góðu. Alræðisárátta af þessu tagi hefur tilhneigingu til að magnast í alræðisskipulagi, svo sem sást á Stalínstímanum. Á Vesturlöndum eru slíkir menn hreinsaðir út í kosningum, en þar eystra ríkja þeir fram í andlátið.

Gagnvart Vesturlöndum mun Gorbatsjov reynast slægur prins í stíl Macchiavelli. Hann hefur þegar reynzt brosmildur og gamansamur í umgengni. Hann er heimsmannlegur í fasi og klæðnaði eins og eiginkonan. Friðarklerkar og friðarkerlingar af báðum kynjum munu dá nýju fötin keisarans.

Öfugt við Reagan Bandaríkjaforseta, sem geltir hátt og bítur lítið, er Gorbatsjov af þeirri tegund, sem geltir lágt og bítur mikið. Á skömmu valdaskeiði hans hefur ofbeldishneigð Kremlar aukizt gagnvart Austur-Evrópu, Afganistan og íbúum Sovétríkjanna.

Engin ástæða er til að ætla, að leiðtogi, sem er alræðishneigðari en Tsjernenko, Andropov og Brezhnev, reynist Vesturlöndum sáttfúsari en fyrirrennararnir. Meiri líkur eru á, að sovézka kröfuharkan í samningum, sem áður var takmarkalítil, verði næsta takmarkalaus.

Jónas Kristjánsson

DV

Rótgrónasti munurinn.

Greinar

Fólk skipast í stjórnmálaflokka eftir ýmsum hagsmunum og hugsjónum, sem mótazt hafa á þessari öld og tveimur hinum síðustu. Þessar sundurgreiningar eru afar ungar og rótlitlar í samanburði við muninn á hagsmunum og hugsjónum karla annars vegar og kvenna hins vegar.

Um aldir og árþúsund hafa þjóðfélögin, sem eru að baki hins vestræna nútímaþjóðfélags, notazt við tiltölulega fastmótaða verkaskiptingu kynja. Konan hefur unnið á heimilinu eða í nágrenni þess, en karlinn hefur unnið í meiri fjarlægð. Þetta endurspeglast í mörgu.

Hann hefur verið tiltölulega hreyfanlegur, en hún stað bundin með börnin. Hann hefur litið út á við, en hún inn á við. Hann hefur tekið áhættu, en hún viljað öryggi. Hann hefur verið í sókn gagnvart spennandi umheimi, en hún í vörn gegn þessum sama, ógnvekjandi umheimi.

Hann hefur viljað stríð og farið með hernaði, en hún hefur hafnað stríði og mátt þola hernað. Hann hefur verið maður vígbúnaðar, en hún maður friðar. Hann hefur stutt og stundað samkeppni, en hún samvinnu. Hann hefur trúað á mátt sinn og megin, en hún þurft að vernda lítilmagnann, börnin.

Í nútímanum leiðir þetta til meiri áherzlu hans á atvinnulíf og hennar á félagsmál. Hann vill framleiðslu verðmæta og hún dreifingu þeirra. Meðan hann talar um stóriðju og svigrúm til athafna, talar hún um skóla, tryggingar, heilsugæzlu og varnir gegn mengun.

Í atvinnulífinu leggur hann áherzlu á nauðsyn afkasta og hún á nauðsyn vinnuaðstöðu. Hann talar um bónuskerfi og hún um lágmarkslaun. Hann nær sér í launaskrið og hún krefst launajöfnunar. Hann er hálaunamaðurinn og hún er láglaunamaðurinn.

Engin stéttaskipting í tekjum er meiri en milli karla og kvenna. En skiptingin felst ekki aðeins í atriðum, sem snúa að framleiðslu og dreifingu verðmæta. Hún kemur líka fram í frítímunum. Karlarnir hafa löngum sótt sína karlaklúbba og konurnar eru farnar að stofna sína kvennaklúbba.

Á grundvelli þessa fjölbreytta mismunar, sem hér hefur verið rakinn, og annars, sem of langt mál væri að rekja í takmörkuðu rými, hefur hinum svokölluðu hörðu gildum karlsins verið stillt upp sem andstæðu við hin svonefndu mjúku gildi konunnar.

Þar sem karlinn hefur að mestu ráðið ferðinni á undanförnum öldum og árþúsundum, er ekkert skrítið, þótt hluti af kvenfrelsisbaráttu tuttugustu aldar felist í eins konar uppreisn mjúku gildanna gegn hinum hörðu. Sagnfræðin segir, að slíkt sé óhjákvæmilegt.

Að vísu hefur munurinn verið málaður nokkuð sterkum litum hér að ofan. Margar konur telja framleiðslu verðmæta merkilegri en dreifingu þeirra og margir karlar telja dreifingu verðmæta merkilegri en framleiðslu þeirra, svo að horft sé á aðeins eitt af mörgum ofangreindum dæmum.

Hitt stendur þá eftir, að munur karla og kvenna er mörg hundruð sinnum rótgrónara fyrirbæri en annar munur, sem veldur ágreiningi fólks og skiptir því í fylkingar. Ofan á líkamlegan mun kemur árþúsunda verkaskipting kynjanna í þjóðfélögunum, sem nútíminn byggist á.

Þess vegna er ekkert skrítið, þátt karlar og konur skipi sér sumpart í eigin stjórnmálaflokka, alveg eins og karlar og konur hafa skipað sér í eigin klúbba. Fremur er ástæða til að undrast, að ekki skuli vera meira um þetta en raun ber vitni um.

Jónas Kristjánsson

DV

Stríðið um ströndina.

Greinar

Vegargerð í Laugarnesi hefur verið frestað eftir að náttúruverndarmenn bentu á, að eins kílómetra ströndin þar er hin eina í borgarbyggðinni, sem er að mestu með óspilltum ummerkjum náttúrunnar. Borgaryfirvöld hafa ákveðið að taka tillit til þessa og færa veginn fjær ströndinni.

Þetta eru ánægjuleg viðbrögð, sem vonandi verða fordæmi öðrum sveitarstjórnum, sem þurfa að taka afstöðu til náttúruverndar í skipulagi og framkvæmdum. Hingað til hafa slík sjónarmið ekki átt upp á pallborðið hjá mörgum sveitarstjórnum, svo sem sjá má víða á Reykjavíkursvæðinu.

Fjörur eru meðal hins skoðunarverðasta í náttúrunni, enda eru þær á mótum lífsríkis hafs og lands. Jafnframt þurfa þær að sæta einna mestum ágangi mannfólksins, er sækist eftir að byggja hús sín, þorp og borgir sem næst sjávarmáli. Þetta tvennt er örðugt að sameina.

Kársnes í Kópavogi er dæmi um stórslys, þar sem náttúra strandlengjunnar hefur gersamlega mátt víkja fyrir áhuga manna á að byggja niður að sjó. Þetta nes, sem áður var fallegt, er nú aðeins hversdagslegt hverfi, þar sem fáum dettur í hug að njóta útivistar.

Á Seltjarnarnesi geisar þessi styrjöld enn. Hingað til hefur verið hægt að halda uppi vörnum fyrir strandlengjuna frá Bygggörðum á norðanverðu nesinu vestur um Gróttu og Suðurnes að Nesbala að sunnan. En því miður eru margir þeirrar skoðunar, að þarna megi byggja meira.

Slagurinn um Valhúsahæðina er forsmekkur þess, sem síðar mun verða. Valdamikill og skammsýnn bæjarstjóri reyndi að troða þar upp átján húsum, en fékk ekki nema jafntefli vegna einarðrar fyrirstöðu í bæjarstjórn, sem meira eða minna náði þvert gegnum stjórnmálaflokkana.

Þegar steinsteypuliðið snýr sér að strandlengjunni á Seltjarnarnesi, verður enn meira í húfi. Það hefur látið skipulagsarkitekta bæjarins teikna í nágrenni strandlengjunnar hringveg fyrir kappakstur óviðkomandi umferðar. Ennfremur fullt af húsum við þennan veg.

Náttúruverndarmönnum veitir ekki af að byrja strax að undirbúa varnirnar, því að sóknin verður án efa slóttug. Ef menn sofna á verðinum, munu þeir vakna upp við óbætanlegan skaða. Steinsteypuliðið er nefnilega reynslunni ríkara eftir pattið á Valhúsahæð.

Hundahald og vaxandi byggð hefur þegar stórspillt fuglalífi á ströndinni, sem teflt verður um. Áhugamenn hafa af mikilli elju megnað að hlúa að varpi æðarfugls, maríuerlu, þúfutittlings, tjalds og músarrindils í Gróttu. Á hverju vori er þetta varp í mikilli hættu.

Ekki bætir úr skák, að helzta lögregla svæðisins, krían, er á undanhaldi. Fyrir nokkrum árum hélt hún uppi grimmilegri vörzlu. Núna hefur aðsteðjandi byggð og eftirlitslítið hundahald þrengt svo að henni, að hinar fáu kríur, sem eftir eru, garga ekki einu sinni.

Ef enn verður þrengt að ströndinni vestan á Seltjarnarnesi, má búast við, að lífið verði snöggtum fábreyttara í fjörunni. Hið sama mun síðan verða uppi á teningnum á öðru nesi, Álftanesi, þar sem skipulag er skemmra á veg komið. Við blasir, að bæði þessi nes verði ný Kársnes.

Náttúruverndarmenn á öllu þessu svæði verða að taka saman höndum gegn hinu skammsýna steinsteypuliði. Sigurinn í Laugarnesi ætti að verða mönnum hvatning til að láta ekki deigan síga. Hann á að marka endalok sífelldra ósigra og upphaf nýs og betri tíma í umgengni við náttúruna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Veiran er ekki í fríi.

Greinar

Sumarfrí í heilbrigðisráðuneytinu valda því, að blóðþegar á Íslandi búa enn við rússneska rúllettu. Frestað hefur verið fram í ágúst eða september að ákveða, hvar og hvernig skuli leita í blóði Blóðbankans að einkennum sjúkdómsins Aids, sem hér er nefndur alnæmi eða ónæmistæring.

Landlæknir hefur fyrir sitt leyti ákveðið, að frá og með næsta hausti verði allt blóð og blóðefni greint, svo að tryggt sé, að hinn nýi og mikli vágestur berist ekki þá leið. Alnæmi berst ýmist með blóði eða sæði. En ekkert samkomulag hefur tekizt um greiningarstaðinn.

Oft hafa menn skroppið úr fríi af minna tilefni en almannavörnum af þessu tagi. Einhvers staðar þarf að koma fyrir greiningu, líklega annaðhvort á Landspítalalóð eða Borgarspítalanum. Ákvörðun um bráðabirgðalausn ætti raunar þegar að hafa verið tekin í ráðuneytinu.

Veirurannsóknastofnun háskólans vísaði til skamms tíma málinu frá sér vegna skorts á aðstöðu. Yfirlæknir stofnunarinnar lagði í staðinn til tíu milljón króna nýbyggingu, sem tekur alltof langan tíma að byggja. En svo virðist sem dregið hafi úr fyrirstöðu stofnunarinnar.

Raunar eru sumir sérfróðir læknar þeirrar skoðunar, að of mikið sé stundum gert úr öryggisþörf á greiningarstöðvum ónæmistæringar. Benda þeir á, að einungis sé eitt dæmi í heiminum um, að heilbrigðisþjónustufólk hafi í starfi smitazt af alnæmi.

Hins vegar eru sérfróðir læknar, sem fjallað hafa töluvert í DV um ónæmistæringu, sammála um, að sízt hafi hér í fjölmiðlum verið ofsagt frá hörmungunum, sem fylgja henni. Hafa þeir hvatt til skjótra og markvissra varna gegn vágestinum, sem fer um heiminn eins og eldur í sinu.

Haraldur Briem smitsjúkdómalæknir sagði í viðtali við DV, að búast mætti við fyrsta sjúklingnum innan tveggja ára. Við værum 2-3 árum á eftir Evrópu, sem væri 2-3 árum á eftir Bandaríkjunum. Þar bera veiruna tvær milljónir manna, sem jafngildir 2000 manns á Íslandi.

Mest er útbreiðslan í Kinshasa í Zaire, þar sem talið er, að annar hver maður beri veiruna. Áætla má, að hundraðasti hver veiruberi fái alnæmi, sem er ólæknandi. Svarti dauði og aðrir illræmdir sjúkdómar veraldarsögunnar blikna í samanburði við þessi ósköp.

Heilbrigðisyfirvöldum ber auðvitað skylda til að sjá strax um, að fólk smitist ekki af völdum blóðgjafar. Hér er enn á því misbrestur, þótt von sé á úrbótum. Ennfremur ber þeim skylda til að fræða almenning rækilega um, hvernig megi forðast ónæmistæringu.

Landlæknir hefur brugðist seint en vel við í þeim efnum. Gefinn hefur verið út bæklingur, sem dreift verður í skóla næsta haust. Þar kemur fram, að fólki ber að forðast lauslæti og nota að öðrum kosti gúmverjur. Þetta eru sömu ráð og læknar hafa gefið hér í blaðinu.

Í framhaldi af bæklingnum þarf að skipuleggja framhaldsfræðslu, svo að merkið sígi ekki eftir fyrstu lotu. Það verður að síast inn hjá fólki, að tímar hins ljúfa lífs eru að baki. Sérstaklega er nauðsynlegt, að lauslátir hommar taki upp aðra lifnaðarhætti.

Nokkurt fé kostar að standa undir fræðsluherferð og nothæfri greiningaraðstöðu. En það er mun ódýrara en að hafa tugi ólæknanlegra sjúklinga á sérstökum sjúkradeildum. Mestu máli skiptir þó, að ráðuneytið komi snöggvast úr sumarfríi. Veiran tekur sér ekki sumarfrí.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þeir áttu að vita þetta.

Greinar

Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði um helgina í blaðaviðtali, að hækkun kjarnfóðurgjalds væri einhliða ákvörðun Framsóknarflokksins, ekki borin upp í ríkisstjórninni og ekki kynnt samstarfsflokknum. Hann sagði, að þetta væri ekki rétta leiðin til að hafa stjórn á búvöruframleiðslunni.

Í fyrra sagði formaðurinn, að bókað hefði verið samkomulag í ríkisstjórninni um, að kjarnfóðurgjald yrði lagt niður vorið 1985. Sá tími er nú liðinn og gjaldið hefur í tvígang verið hækkað. Í fyrra var það 33%, um áramót varð það 60% og núna síðast 1. júlí 130%!

Formaður Sjálfstæðisflokksins og ráðherrar sama flokks virðast ekki geta hamlað gegn þessum yfirgangi. Líklegt er, að því valdi nokkur viljaskortur. Sumir ráðherrar flokksins eru hálfgerðir framsóknarmenn og hallir undir vilja Framsóknarflokksins í málum landbúnaðar.

Þeim finnst samt þægilegt að geta sagt neytendum og bændum í svína- og alifuglarækt, að þetta sé allt Framsóknarflokknum að kenna. Sú röksemdafærsla heldur engu vatni, en virðist þó duga til að hindra Sjálfstæðisflokkinn í að stöðva yfirgang baráttamanna kjarnfóðurgjaldsins.

Markmið gjaldsins eru tvenn. Í fyrsta lagi er verið að þvinga neytendur til að draga úr neyslu eggja, kjúklinga og svínakjöts og auka í staðinn neyslu mjólkurvara og kúa- og kindakjöts. Fyrrnefndu afurðirnar voru þannig hækkaðar um 12% um áramót og 15-20% núna.

Kjarnfóður er margfalt stærri hluti í rekstri svína- og alifuglabúa en í rekstri hefðbundinna búa. Því hærra sem kjarnfóðurgjald er, þeim mun meira skekkjast verðhlutföll milli hefðbundinna og fóðurfrekra búgreina, hinum síðarnefndu í óhag.

Hitt markmið gjaldsins er að auka völd Framleiðsluráðs landbúnaðarins og gera fleiri sjálfstæða bændur að láglaunamönnum ráðsins. Þetta er í samræmi við þá stefnu ráðsins, að svokölluð framleiðslustjórnun nái til allra búgreina, ekki aðeins hinna hefðbundnu.

Kjarnfóðurgjaldið er nefnilega notað sem stýritæki í landbúnaði. Hluti þess er notaður til að greiða niður áburð og auka ráðstöfunarfé til útflutningsuppbóta, svo að auðveldara sé að halda uppi offramleiðslu óseljanlegra afurða hins hefðbundna landbúnaðar.

Annað fer í ýmsa endurgreiðslustjórn á vegum Framleiðsluráðs. Þar er til dæmis svonefndur Framleiðnisjóður, sem er ekki réttnefndur, því að hann hefur margs konar hlutverk og er til dæmis eins konar bjargráðasjóður fyrir offjárfestingu í hefðbundnum landbúnaði.

Aðrar endurgreiðslur renna til verkefna, sem Framleiðsluráð hefur sérstakt dálæti á. Þau eru fyrst og fremst á vegum þeirra bænda, sem vilja losna út úr markaðskerfinu í svína- og alifuglarækt og komast inn í tryggingakerfi hins hefðbundna landbúnaðar.

Hinir sjálfstæðu og stórvirku framleiðendur, sem hafa skilað aukinni framleiðni í lægra afurðaverði til neytenda, sjá nú kreppt að sér á ýmsa vegu. Í uppsiglingu er kvótakerfi, sem á að tryggja hinum slakari framleiðendum skjól í hækkuðu afurðaverði.

Þingmenn, ráðherrar og formaður Sjálfstæðisflokksins geta ekki haldið fram, að þeir hafi ekki verið varaðir við leiftursókn Framleiðsluráðs. Síðast í júní var þeim margbent á, að þeir væru að berjast fyrir stórhættulegum lögum um ráðið. Þeir áttu að vita þetta.

Jónas Kristjánsson.

DV

Von í viðbúnaði.

Greinar

Viðbúnaður gegn eiturefnum er ekki eins öflugur og hann ætti að vera. Þeir, sem fjalla um fíkniefni af opinberri hálfu, gera að vísu sitt bezta. En aðstaða þeirra er að mörgu leyti lakari en hún ætti að vera og mun lakari en sérstaða landsins gefur tilefni til.

Í sumum nágrannalandanna hafa stjórnvöld meira eða minna gefizt upp fyrir eiturefnum. Kunnasta dæmið er Holland, þar sem sjúklingum er gefið eitur, svo að þeir þurfi ekki að stunda glæpi til að komast yfir það á svörtum markaði, sem blómstrar þar í landi.

Hér hagar svo til, að landamæri eru engin. Eiturefni koma annaðhvort í flugvélum til Keflavíkurvallar eða með skipum til hafna landsins. Þótt þessir innflutningsstaðir séu margir, eru þeir þó miklu færri en í öðrum löndum. Við þurfum því ekki að gefast upp.

Að vísu eru tækifærin til smygls svo mikil hér á landi, að framboð er talið vera töluvert af hassi og öðrum útbreiddum eiturefnum. Verðlag á svörtum markaði er þó miklu hærra en í nágrannalöndunum og bendir það til, að mun erfiðara sé að koma efnunum í sölu hér.

Það styður þessa skoðun, að þeir, sem fjalla um vandamál Hlemmtorgsunglinga, telja, að þeir noti meira af alls kyns lyfjum af lyfseðlum: af geðlyfjum, róandi lyfjum, svefnlyfjum og megrunarlyfjum. Þetta bendir til, að innflutt eiturlyf séu í samkeppni við innlend.

Í leiðara DV á laugardaginn var lagt til, að fleiri lyf yrðu gerð eftirritunarskyld, svo að auðveldara væri að fylgjast með, hvaða læknar ávísa þessum lyfjum til hvaða fólks. Ennfremur, að gengið yrði hraðar og harðar fram í að stöðva lækna og loka fyrir þá.

Þetta er verkefni heilbrigðisráðuneytisins og landlæknis. Svo virðist sem þessir aðilar hafi ekki tekið lyfjaneyzluna nógu alvarlega og haldi hana vera minni þátt í eiturnotkun þjóðarinnar en hún er í raun og veru. Þessir aðilar þurfa að herða ráð sitt.

Sérfræðingar telja, að fastaneytendur innfluttra eiturefna séu tiltölulega fáir. Margir snerti á þessu, en hinn harði kjarni sé ekki stór. Þess vegna er rétt hjá fíkniefnalöggæzlunni að einbeita sér að stríði við innflutning og heildsölu, sem hún gerir, fremur en að eltast við neytendur.

Aðgerðir gegn innflutningi og heildsölu hljóta að sjálfsögðu að reynast markvissari en aðrar, enda er meira magn í húfi í hverju tilviki. Þannig nýtist mannafli og fjármagn fíkniefnalöggæzlunnar betur en ella. Segja má líka, að verulegur árangur hafi náðst.

Hins vegar má margt bæta. Þeir, sem fengið hafa sérstaka þjálfun í þessu, eru horfnir til betur launaðra starfa. Þeir, sem nú starfa í þessu, fá ekki næg tækifæri til að stunda námskeið og fara í kynnisferðir til staða, þar sem ástandið er alvarlegra.

Lagfæringar kosta auðvitað meira fé en nú er varið til varna. En stjórnvöld verða líka að átta sig á, að mikið er í húfi. Ísland hefur farið betur út úr vandanum en nágrannaþjóðirnar. Við búum við von um, að einangrun og viðbúnaður valdi því, að svo megi vera.

Unglingar nútímans eru ekki lakari en unglingar fyrri tíma. Meðal þeirra vex þeirri skoðun fylgi, að heilsan sé of mikils virði til að fórna henni í eitur. Ef viðbúnaðurinn heldur vandamálinu í skefjum, meðan heilbrigð skynsemi breiðist út, er fyrirhöfnin ekki fyrir gýg.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eitur á eyju.

Greinar

Sérstaða Íslands sem fámenns eyríkis kemur meðal annars fram í, að auðveldara ætti að vera að hamla gegn eiturefnaneyzlu og fást við vandamál, sem henni fylgja. Engan veginn er óhjákvæmilegt, að aukin eiturhörmung í útlöndum þurfi endilega að endurspeglast hér.

Sem dæmi má nefna, að heróín hefur ekki náð neinni fótfestu hér á landi. Sérfræðingur hefur haldið fram, að heróínistar gætu ekki lifað marga daga í Reykjavík. Enda gildir það um alla tíu heróínistana, sem verið hafa á Kleppi, að þeir komu með sjúkdóm sinn frá útlöndum.

Ísland er raunar sagt gósenland fyrir þá, sem vilja rífa sig upp úr óþverra. Fámennið skapar aðhald, veðráttan gerir útigang erfiðan og fjarlægðin frá öðrum löndum gefur meiri vonir um, að unnt sé að halda uppi öflugri vörnum gegn innflutningi en annars staðar.

DV hefur á þessu ári birt viðamikinn greinaflokk um stöðu þessara mála undir yfirskriftinni Eitur á eyju. Upplýsingarnar, sem þar hafa komið fram, benda til, að við þurfum ekki að gefast upp fyrir eitrinu eins og sumar nágrannaþjóðir okkar hafa meira eða minna gert.

Við getum hert tollgæzlu, ekki aðeins á Keflavíkurflugvelli, heldur einnig í afskekktum höfnum landsins. Við getum eflt starfsemi fíkniefnalögreglunnar, búið henni betri skilyrði og aukið menntun hennar. Við eigum að geta haldið hinum eitraðri efnum niðri á þann hátt.

Vandamálið hverfur svo sem ekki við það. Ungt fólk mun halda áfram að fara til útlanda, þar sem aðhald er minna, eiturverð lægra og veður mildara. Sumt af því mun týnast og sumt koma heim sem sjúkrahúsmatur. Við munum búa við vandann, þátt við flytjum hann út.

Hluti hans er ekki heldur innfluttur, heldur heimatilbúinn. Sérfræðingur hefur haldið fram, að eitur hins svonefnda Hlemmliðs sé fremur fólgið í pillum frá læknum en smygluðu hassi. Aðhald með lyfjagjöfum lækna hefur aukizt, en er samt ekki orðið nógu strangt.

Sem dæmi má nefna, að í fyrra voru tveir læknar sviptir leyfi til að gefa út lyfjaávísanir. Margir telja, að slíku aðhaldi megi beita fyrr og oftar. Ennfremur er líklegt, að fjölga megi eftirritunarskyldum lyfjum, bæta þar til dæmis við valíum og libríum.

Hér á landi flýtur allt í geðlyfjum, svefnlyfjum, róandi lyfjum og megrunarlyfjum. Sumt af þessu á rétt á sér, en samt er nauðsynlegt að herða eftirlit með því, hverjir skrifa þessa lyfseðla og handa hverjum. Sérfræðingar telja þetta alvarlegra vandamál en hassið.

Neyzla á hassi er talin hafa staðið í stað um skeið, ekki vegna skorts á framboði, heldur vegna þess, að hún er minna í tízku en áður. Hins vegar hefur aukizt notkun á amfetamíni og kókaíni, sem eru enn hættulegri. Þjóðfélagið er því enn í varnarstríði.

Ef við stöndum okkur vel í vörninni, má vona, að nýir tímar rísi, þegar ekki verður lengur fínt að nota vímugjafa. Ýmislegt bendir til, að hugarfarsbreyting sé í burðarliðnum og að öflugar varnir okkar geti brúað bilið, unz nýi stíllinn verði ofan á.

Einn viðmælenda blaðsins sagði, að það væri “einfaldlega ekki smart lengur að vera dópaður. Nú vill fólk vera í góðu líkamlegu formi og hugsa skýrt, það tímir ekki að dópa sig”. Þetta er sú hugsun, sem þarf að sigra, sú sem hafnar flótta frá veruleikanum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sjálfum sér verstur.

Greinar

Erfitt er hlutskipti DV og annarra, sem segja sjávarútveginn beittan misrétti með rangri skráningu gengis krónunnar. Ekki er mikið hlustað á slíkt, þegar daglega birtast fréttir af stórfelldum bjánaskap þeirra, sem stjórna ferðinni í þessari atvinnugrein.

Sjávarútvegurinn hefur fengið slæma auglýsingu í þorskaflahrotunni að undanförnu. Allt of mikill fiskur berst að landi á allt of skömmum tíma. Hann verður mun verðminni söluvara í útlöndum en eðlilegt væri. Sumt er svo slæmt, að fleygja verður í gúanó.

Á þessum tíma er fiskurinn feitur af átu og afar viðkvæmur. Honum er mokað upp í allt að 40 tonna hölum. Aflinn á skip getur numið 80 tonnum á sólarhring. Ekki er rúm eða tími til að þvo fiskinn vel, kassa hann og ísa nægilega. Túrinn er ekki styttur vegna þessa.

Þorskurinn er byrjaður að skemmast, áður en hann er kominn inn í frystihús. Þar bíður hann blóðsprunginn í of miklum hita. Mikið af hinu vana starfsliði er í fríi. Fámennt lið lítt þjálfaðra og hægvirkra unglinga ræður auðvitað ekki við að bjarga fiskinum.

Þar á ofan er tækni frumstæð í mörgum frystihúsum. Færibönd eru af skornum skammti. Gífurleg vinna fer í alls kyns tilfæringar með kassa. Gamaldags reizlur eru, þar sem tölvuvogir ættu að vera. Við venjulegar aðstæður er framleiðnin á lágu stigi. Enn lakari er hún nú.

Niðurstaðan er, að þorskurinn fer ekki í verðmætu pakkana, sem hinn erlendi markaður biður um. Hann fer í stærri blokkir og roðfisk. Sumt fer hreinlega í bræðslu. Útflutningsverðmætið verður að meðaltali 20-30% lægra á hvert kíló en það ætti að vera.

Í mörgum tilvikum er það sami aðilinn, sem á fiskiskipið og vinnslustöðina. Fyrir slíkan ætti að vera viðráðanlegt að samræma veiðar og vinnslu. Það hefur raunar sums staðar verið gert um langt skeið, til dæmis hjá fyrirmyndarfyrirtækinu Útgerðarfélagi Akureyringa.

Sumir eru nýbyrjaðir að sigla í kjölfarið. Aðrir forstjórar í sjávarútvegi klóra sér í höfðinu og virðast alls ekki ráða við skipstjóra og sjómenn, sem tryllast í aflahrotunni. Slíkt ráðaleysi er að sjálfsögðu forkastanlegt og kallar á mannaskipti á toppnum.

Bjánaskapurinn styðst við hálfopinbert verðlagskerfi, sem gerir of lítinn mun á góðum og lélegum afla upp úr sjó. Skipstjórar og sjómenn hafa því lítinn aga úr þeirri átt. Þeir bara moka í gúanó, nema útgerðarstjórar komi sjálfir á aga eins og Akureyringar.

Í erlendum fiskihöfnum ríkir ekki opinbert verð, heldur markaðsverð. Þar fylgjast útgerðarstjórar nákvæmlega með eftirspurninni og keppast um að kalla skip sín inn, eirmitt þegar kaupendur vantar fisk og verðið er hagstæðast. þetta þarf að taka upp hér.

Meðan svo er ekki, þurfa ráðamenn í sjávarútvegi að gera sitt bezta á annan hátt. Þeir hafa enga afsökun fyrir því að klóra sér í höfðinu og horfa upp á kvóta skipa sinna sóað í framleiðslu, sem er 20-30% verðminni en hún ætti að vera, ef rétt væri haldið á spilum.

Þetta er sorglegt, því að sjávarútvegurinn er okkar stóriðja og á skilið hagstæðari gengisskráningu. En það þýðir lítið fyrir okkur á DV og aðra að hamra á slíku, meðan ráðamenn í sjávarútvegi haga sér eins og bjánar. Því miður er sjávarútvegurinn sjálfum sér verstur.

Jónas Kristjánsson.

DV

Bandalag krossfara.

Greinar

Bandalag kumpánaskaparins heitir fyrirbæri, sem Ingvar Gíslason, fyrrverandi menntamálaráðherra, hefur gefið nafn. Það er að hans áliti samband blaðamanna og ósvífinna valdamanna, sem leiði til þess, að í fjölmiðlum sé mest hampað þeim, er helzt ætti að hirta.

Ingvar rakti ýmis “hneyksli” í blaðagrein á þriðjudaginn. Athyglisvert er, að þær fréttir voru allar úr dagblöðunum. Til viðbótar við dæmi Ingvars mætti rekja önnur, tíu sinnum fleiri, öll af síðum dagblaðanna. Upplýsingar Ingvars og annarra um spillingu og valdhroka eru úr fjölmiðlunum.

Allir stjórnmála- og valdamennirnir, sem Ingvar nefnir, hafa mátt þola margvíslegar kárínur í dagblöðunum. Allir hafa þeir mátt finna til tevatnsins í DV. Daginn, sem grein Ingvars birtist, fól leiðari DV í sér óvægilega gagnrýni á hendur Jóhannesi Nordal.

Með tilliti til þessa hlýtur að vera langsótt að halda fram, að sérstakur kumpánaskapur ríki milli annars vegar blaða, ritstjóra og blaðamanna og hins vegar fjölmenns hóps stjórnmála- og valdamanna, sem Ingvar telur ganga djarflega fram í spillingu og valdhroka.

Hitt er svo laukrétt, að skrif dagblaða um spillingu og valdhroka hafa tiltölulega lítil áhrif. Almenningur lætur sér fátt um finnast. Sumir hneykslast að vísu, en almenningsálitið í heild hneykslast fremur lítið. Valdamennirnir standa nokkurn veginn jafn réttir eftir.

Skýringin á þessu er, að almenningur hefur séð tvenns konar gagnrýni í dagblöðunum. Annars vegar eru réttar fréttir af spillingu og valdhroka. Hins vegar eru svo pólitískar krossferðir gegn andstæðingum í stjórnmálum. Sum dæmi Ingvars eru úr síðari flokknum.

Þjóðviljinn er skýrt dæmi um þetta. Þegar ráðherrar Alþýðubandalagsins eru í ríkisstjórn, er mikið um lof og mikil dýrð á forsíðunni. Um leið og óvinirnir komast í ríkisstjórn, hefjast daglegar krossferðir á forsíðu blaðsins. “Hneyksli, hneyksli,” hrópar blaðið.

Morgunblaðið gerir miklu minna af þessu, en fær þó einstaka stjórnmálamenn á heilann. Ólafur Ragnar Grímsson var um tíma tilefni krossferðar af þessu tagi. Almenningsálitið tekur allar slíkar krossferðir hæfilega alvarlega sem hvern annan þátt í pólitískum menúett bandalags krossfara.

Hin mikla skæðadrífa pólitískra krossferða veldur því svo aftur á móti, að fólk hefur tilhneigingu til að taka lítið mark á öllum hneykslisfréttum af stjórnmála- og valdamönnum, líka þeim, sem réttar eru. Enda er oft erfitt fyrir ókunnuga að greina á milli.

Ástæða þess, að blaðafréttir um spillingu og valdhroka hafa lítil áhrif, er ekki kumpánaskapur blaðamanna og valdamanna, heldur hin mikla skæðadrífa krossferða í pólitísku málgögnunum. Það er bandalag krossfara. Frjáls og óháð blaðamennska er aðeins hluti markaðsins.

Menn halda völdum, þótt skugga beri á þá. Þeir stjórna valdamiklum stofnunum. Sem slíkir eru þeir oft að segja fréttir í blöðum af gangi mála. Ekki geta dagblöðin neitað almenningi um þessar upplýsingar með því að hafna að tala við þá, sem Ingvar stimplar hæpna.

Í máli Ingvars er þó rétt, að kumpánaskapur er stórhættulegur, ef blöð, ritstjórar og blaðamenn eru annars vegar. Slíkt verður að forðast. Hins vegar sýna fréttir íslenzkra dagblaða, að vandi þessi hefur snarminnkað og allt að því horfið, síðan frjáls og óháð blaðamennska kom til skjalanna.

Jónas Kristjánsson.

DV