Greinar

Lág laun og mikið tap.

Greinar

Fiskiðnaðurinn er ekki lengur hæfur til að keppa um vinnuafl landsmanna. Talið er, að þar vanti til starfa um 1500 manns. Þetta fólk leitar í betri kjör og þægilegri vinnuskilyrði, sem bjóðast á öðrum sviðum. Ástand þetta hefur hríðversnað að undanförnu.

Fiskveiðarnar geta enn fengið fólk til starfa. En þar kemur á móti, að afkoma útgerðarinnar er mun lakari en húsanna í landi. Með lágum launum í fiskvinnslu hefur verið hægt að halda tapinu í 1%. Útgerðin er hins vegar í ógnartapi, sem metið hefur verið á 7%.

Tap útgerðarinnar og fólksflóttinn úr fiskiðnaði segja sömu söguna. Hornsteinn þjóðfélagsins er sprunginn. Dag hvern rýrnar eigið fé sjávarútvegsins í heild um þrjár til fjórar milljónir. Dag hvern gerir sjávarútvegurinn hliðstæða atrennu að fjármagni lánastofnana.

Margt hefur stuðlað að þessari óheillaþróun. Verðmæti sjávaraflans hefur minnkað. Olíuverð hefur verið hátt. Við höfum dregizt aftur úr í tækni, einkum í fiskvinnslunni. Við búum við of lítinn mun á fiskverði eftir gæðum. Og við samræmum illa veiðar og vinnslu.

Veigamesta orsökin er þó fastgengisstefnan, sem hefur verið rekin af óvenjulegri hörku í tíð núverandi ríkisstjórnar. Hún hefur minnkun verðbólgu að höfuðmarkmiði og má ekki heyra nefnt neitt, sem gæti hlaupið út í verðlagið eins og gengislækkun hlýtur að gera.

Sigrar í verðbólgustríði, sem felast í hinni auðveldu baráttuaðferð að senda sjávarútveginum reikninginn, hljóta að teljast tvíeggjaðir. Gengisfölsun er ekki minna vandamál en verðbólga. Hún drepur ekki bara sjávarútveginn, heldur eykur líka skuldasöfnun þjóðarinnar.

Bezt væri að losa ráðamenn þjóðarinnar og efnahagsráðunauta hennar við freistingu fastgengisstefnunnar, svo að þeir geti einbeitt sér að raunhæfum bardaga við verðbólguna. Það má gera með því að láta markaðsöflin í stað Seðlabankans ákveða gengi krónunnar.

Þá kæmi í ljós, fyrir hversu margar krónur notendur gjaldeyris vildu kaupa hann af framleiðendum gjaldeyris. Þá kæmi í ljós, hvort sjávarútvegurinn sé sá ræfill, sem hann virðist vera. Þá kæmi í ljós, hversu mikið af vörum við höfum ráð á að flytja til landsins.

Útsalan á gjaldeyri veldur því, að erlendar vörur verða óeðlilega ódýrar. Of mikið er keypt af þeim og við söfnum skuldum í útlöndum. Skuldafjallið er hitt stóra vandamálið í þjóðfélaginu. Frjálst gengi lækkar það fjall um leið og það læknar mein sjávarútvegsins.

Auðvitað kæmi í ljós, að stjórnmálamenn hefðu ekki lengur efni á margvíslegri óráðsíu og gæludýrahaldi. Það eru þeir einmitt hræddir við. Einnig kæmi í ljós, að lífskjör mundu staðna eða rýrna í öðrum greinum en sjávarútvegi. Það eru þeir líka hræddir við.

Milda má þessa röskun með því að bæta rekstur sjávarútvegsins á annan hátt. Ekki er nógu gott, að afköst í frystihúsum séu, þrátt fyrir bónusþrælkun, helmingi minni en í Danmörku, meðal annars vegna skorts á tækni við ýmsar tilfæringar. Og svo má auka sölu á ferskfiski.

Verðmyndun á fiski upp úr sjó er dæmi um ofskipulag, sem minnir á fastgengisstefnuna. Með meira eða minna opinberu skipulagi er hafður of lítill verðmunur á góðum fiski og lélegum. Möguleikar á bættum hag sjávarútvegs eru því margir, en veigamest er þó frjálsa gengið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Jón og Jóhannes gjaldþrota

Greinar

Þjóðhagsstofnun gladdi nýlega Morgunblaðið með upplýsingum um, að erlendar skuldir væru að lækka úr 63% af þjóðarframleiðslu niður fyrir 60%. Stafar þetta af nýrri aðferð við að reikna skuldirnar! Slíkt bókhald þykir fremur hagkvæmt á tíma hækkandi þjóðarskulda.

Þjóðhagsstofnun einskorðar sig ekki við bókhaldsæfingar af ofangreindu tagi. Hún stundar líka athyglisverðan dans milli íslenzkrar og enskrar tungu. Hún snarar árlegri efnahagsskýrslu sinni yfir á alþjóðamálið og sendir efnahagssamvinnustofnuninni OECD.

Þar fær skýrslan stimpil hins heilaga sannleika og er send hingað aftur til þýðingar í fjölmiðlum. Við fáum að vita, hvað Jón Sigurðsson og Jóhannes Nordal telja vera okkur fyrir beztu, klætt í ópersónulegan og hlutlausan búning fjölþjóðlegrar stofnunar.

Margir halda, að innihaldið sé eins konar hagfræði, en það er misskilningur. Innihaldið er stefnuskrá stjórnmálaflokksins Jón og Jóhannes, atkvæðamesta stjórnmálaflokksins hér á landi. Sumpart stangast þessi pólitík á við heilbrigða hugsun í hagfræði.

Jón og Jóhannes hafa á heilanum, að gengi krónunnar þurfi að vera stöðugt. Þeir þreytast aldrei á að berja þetta inn, með og án gæðastimpils OECD. Engin pólitísk stefna hefur leitt til meiri fátæktar þjóðarinnar en einmitt þessi þráhyggja þeirra félaga.

Stjórnmálaflokkurinn Jón og Jóhannes bendir á, að verðbólga muni aukast við lækkun á gengi krónunnar. Þar á ofan læða þeir inn, að sum útgerð sé svo illa farin af erlendum dollaraskuldum, að gengislækkun fái ekki bjargað henni. Og þessu trúa menn unnvörpum.

Hin hagfræðilega staðreynd er allt önnur. Hún er sú, að alls staðar reynist þjóðum gróðavænlegt að hafa gengi gjaldmiðils síns sem lægst skráð eða hreinlega frjálst. Japanir stunda það kerfisbundið. Nýsjálendingar og Svíar gerðu nýlega skurk í þessu.

Hér á landi er ofskráning Jóns og Jóhannesar á gengi krónunnar notuð til að flytja peninga frá stóriðju sjávarútvegsins. Hornsteini þjóðfélagsins er haldið í úlfakreppu til að halda uppi fjölbreyttri vitleysu, þar sem landbúnaður trónar hæst á stalli.

Eitt brýnasta verkefni íslenzkra stjórnmálaflokka er að losna undan ægivaldi Jóns og Jóhannesar og bjóða þjóðinni upp á þá nauðsynlegu röskun, sem felst í að losa um gengið. Án þeirrar röskunar höldum við áfram að lifa í afar dýrkeyptum draumaheimi.

Gengi krónunnar má lækka eða gefa það frjálst eða hreinlega leggja það niður. Með einhverjum slíkum hætti verður þjóðin að komast að raun um, hvað hlutirnir kosta í raunverulegum verðmætum, en ekki í bókhaldsreikningi, sem byggist á núllrekstri sjávarútvegs.

Sjávarsíðan mun fyrr eða síðar gera uppreisn gegn Jóni og Jóhannesi. Ýmis teikn eru á lofti um, að fólkið á fiskiskipunum og í frystihúsunum sé að átta sig á, að eitthvað sé meira en lítið bogið við kerfi, sem skilur það eftir úti í kuldanum.

Fastgengisstefna Jóns og Jóhannesar hefur enga hagfræði að baki sér. Hún er gjaldþrota pólitík, síðustu leifar Eysteinskunnar. Aðrar þjóðir hafa hafnað henni og við eigum að gera það líka. Bókhaldsæfingar geta ekki endalaust komið í staðinn fyrir kaldan raunveruleika.

Jónas Kristjánsson

DV

Sællíft gæludýr.

Greinar

Olíuverzlunin í landinu á það sameiginlegt með hinum hefðbundna landbúnaði að vera á framfæri hins opinbera. Ríkið tekur fulla ábyrgð á rekstri hins þríhöfða olíufélags og lætur verðlagsstjóra sjá um, að ekki sé taprekstur til langframa í þessari grein.

Nokkurra mánaða taprekstur á hinu þríhöfða olíufélagi þykir svo alvarlegt mál, að kerfið rýkur upp til handa og fóta til að leysa málið. Lausnin er framkvæmd á kostnað sjávarútvegsins og bifreiðaeigenda, sem ekki eru á framfæri hins opinbera og mega blæða eftir þörfum.

Kerfið litur vafalaust á olíuverzlunina sem hliðstæðan hornstein íslenzkrar sögu og menningar og það telur hinn hefðbundna landbúnað vera. Slíkur hornsteinn má ekki tapa í nokkra mánuði, en utangarðsaðili á borð við sjávarútveginn má tapa árum saman og endalaust.

Svo samgróið er hið þríhöfða olíufélag orðið ríkinu og verðlagsstjóra þess, að forsendur verðhækkunar á benzíni eru taldar vera leyndarmál þessara aðila. Félag íslenzkra bifreiðaeigenda, sem sumir mundu telja eiga að vera málsaðila, fær ekki aðgang að upplýsingunum.

Þegar hið þríhöfða olíufélag nennir ekki að innheimta vexti af skuldseigum viðskiptavinum, eru þessir vextir settir inn í verðlagið í staðinn. Þannig fá skilamenn að greiða vexti fyrir vanskilamenn. Þetta finnst verðlagsstjóra og kerfinu vera mun þægilegra fyrirkomulag!

Svo áhyggjulausir mega olíumenn vera í fjármálum, að þeir keyptu 77 milljón króna tankskip í Noregi fyrir 118 eða 130 milljón krónur. Þeir gátu borgað 41 eða 53 milljón krónum of mikið, af því að mismunurinn er bara settur inn í verðlagið eins og hjá landbúnaðinum.

77 milljónirnar eru mat hlutlauss, norsks aðila á verðgildi Kyndils. Um leið eru þær sama verð og systurskipið fór á. 118 milljónirnar eru upplýsingar hins sama norska aðila um kaupverð Kyndils. 130 miljónirnar eru svo upplýsingar hinna íslenzku kaupenda skipsins.

Ef olíuverzlunin væri utan ábyrgðar hins opinbera, mætti hún líklega kaupa inn skip á hvaða verði, sem henni þóknaðist. En Kyndill var keyptur á kostnað olíunotenda. Þess vegna var í vor lagt til, að misræmið yrði raunsakað. Ríkið tók ekkert mark á slíkum óskum.

Svo áhyggjulausir mega olíumenn vera í fjármálum, að þeir keyptu mikið magn af svartolíu, þegar innlendi markaðurinn fór ört minnkandi og verðið var tiltölulega hátt. Úr þessu varð vítahringur, því að hið háa verð flýtti enn fyrir flótta útvegsmanna frá svartolíunni.

Nú situr hið þríhöfða olíufélag uppi með mikið af svartolíu, sem er mun dýrari en svartolían, sem boðin er í útlöndum. Þar sem þessi viðskiptasnilld er stunduð á ábyrgð ríkisins, er kostnaðurinn reiknaður inn í olíuverð alveg eins og umframkostnaðurinn við kaup á Kyndli.

Svo áhyggjulausir mega olíumenn vera í fjármálum, að þeir geta ræktað þá hugsjón sína að veita þjóðinni benzínstöð á öðru hverju götuhorni landsins. Þessi fjárfesting kostar mikið fé, sem auðvitað er reiknað inn í olíuverðið eins og annar kostnaður olíuverzlunarinnar.

Þetta opinbera kerfi ríkisábyrgðar á olíuverzlun kann að hafa þótt sniðugt á sínum lina. Hins vegar er nú svo komið, að sjávarútvegurinn hefur ekki lengur efni á hverju sem er. Þess vegna er tímabært að frelsa olíuverzlunina úr sællífri ánauð hennar hjá hinu opinbera.

Jónas Kristjánsson

DV

Allir græði í skólakerfinu.

Greinar

Menntamálaráðherra og borgarstjóri gera ráð fyrir, að ríki og borg hafi sama kostnað af fyrirhugaða einkaskólanum við Tjörnina og þessir opinberu aðilar hefðu af ríkisskóla. Ekki eru aðeins greidd launin, heldur meðal annars einnig lagt fram húsnæði endurgjaldslaust.

Þetta er nokkru meiri stuðningur en verið hefur við einkaskólana, sem fyrir eru í landinu. Þeir eru yfirleitt reistir eða keyptir á kostnað aðilanna, sem að þeim standa. Að vísu hefur gætt tilhneigingar til að reka þessa skóla eins og hverja aðra ríkisskóla.

Nýi skólinn er tilraun, sem sennilega þarf öflugan stuðning. Ef fleiri slíkir fylgja á eftir, er nauðsynlegt að koma reglu á þáttöku hins opinbera. Gild rök má leiða að því, að sú þáttaka eigi að vera eitthvað minni en greiðsla 100% venjulegs skólakostnaðar.

Á mörgum sviðum felur ríkið einkaaðilum framkvæmd mála, ekki af ást á einkageiranum, heldur til að græða á því. Vegagerðin býður út framkvæmdir, af því að hún gerir ráð fyrir, að lægstu tilboð séu nokkuð undir kostnaðaráætlun. Þannig má framkvæma meira fyrir sama fé.

Að baki liggur lögmálið um, að einkarekstur sá að jafnaði nokkru hagkvæmari en opinber rekstur. Annars væri takmörkuð ástæða fyrir afhendingu opinberrar starfsemi í hendur einkaaðila, nema þá til að auka fjölbreytnina, sem út af fyrir sig er eftirsóknarverð.

Þótt fjölbreytnin sé höfð í huga, er engin ástæða fyrir ríki og bæ að nota ekki tækifærið á sama hátt og vegagerðin og hafa dálítinn hagnað í leiðinni. Hinir opinberu aðilar geta til dæmis gizkað á, að einkarekstur skóla sé 20% hagkvæmari en ríkisrekstur og greitt samkvæmt því.

Ef frá er skilinn tannlækna- og ýmis yfirstjórnarkostnaður, má slá fram, að hvert barn í grunnskóla í Reykjavík kostið ríkið 45 þúsund krónur á ári og borgina 15 þúsund krónur. Er þá stofukostnaður húsnæðis, sem skiptist að jöfnu, metinn á 10 þúsund krónur.

Ef gert er ráð fyrir, að ríki og borg greiði 80%, en ekki 100% af þessum kostnaði við einkaskóla, sparar það sér níu þúsund krónur á ári og borgin þrjú þúsund. Ef annað hvert barn í Reykjavík væri í einkaskóla, spöruðu þessir aðilar 72 milljónir króna á ári.

Þetta fé, 54 milljónir hjá ríkinu og 18 milljónir hjá borginni, mætti nota til að koma ýmsu í verk í skólamálum, sem hið opinbera telur sig ekki hafa ráð á. Þetta eru að vísu ónákvæmar tölur, en ættu þá að vera nokkurn veginn af réttri stærðargráðu.

Ef gert er ráð fyrir, að einkaskóli næði ekki þeim ráðgerða mun í hagkvæmni, heldur væri að því leyti eins og opinber skóli, mundu foreldrar þurfa að borga 12 þúsund krónur á barn á ári eða eitt þúsund krónur á mánuði sem eins konar startgjald fyrir þáttöku í einkaskóla.

Síðan gætu einkaskólarnir haft eitthvert skólagjald umfram þetta til að geta boðið upp á betri skóla en gengur og gerist. Þar með ættu allir málsaðilar, hið opinbera, einkaskólarnir, foreldarnir og börnin að geta fengið eitthvað fyrir sinn snúð. Slík er fegurð markaðskerfisins.

Áhugi á fjölbreytni einn er auðvitað nægileg forsenda þess, að gerð sé tilraun með nýjan einkaskóla. Bezt er þá að haga málum þannig, að allir græði á markaðstorgi skólakerfisins og að fjármagn verði aflögu til að gera fleira í þeim efnum en nú er gert. Líka fyrir þá, sem ekki komast í einkaskóla.

Jónas Kristjánsson.

DV

Börnin sett í ánauð.

Greinar

“Við erum örugglega að nálgast það hæsta, sem þekkzt hefur í sögunni. Það er kannski helzt, að einhver Suður-Ameríkuríki, sem urðu gjaldþrota á síðustu öld, hafi farið hærra.” Þetta sagði Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor um erlendu skuldirnar í viðtali við DV fyrir helgina.

Þjóðarbúið íslenzka er komið í svipaða stöðu og húsbyggjandinn, sem hefur reist sér hurðarás um öxl. Ekki er nóg með, að slegin séu ný lán fyrir afborgunum, sem falla, heldur á þjóðarbúið ekki einu sinni upp í vextina. Þeir hrannast upp og gjaldþrot blasir við þjóðinni.

Til marks um alvöru málsins má nefna, að nú fer fjórða hver króna af vöruútflutningi okkar til að greiða vexti. Fjórði hver fiskur fer í að greiða af syndum fyrri tíma. Þetta virðast ráðamenn þjóðarinnar engan veginn skilja og halda áfram að haga sér eins og millar.

Matthías Bjarnason samgönguráðherra þeysist nú um landið til að gleðja kjósendur með áformum um að bora göt á fjöll víða um land. Þetta segir hann að séu arðbærar framkvæmdir, sem kosta megi með erlendum lánum. Þarna stöndum við andspænis enn einni geðveikisveizlunni.

Vegagerðin viðurkennir hins vegar, að engin leið sé að reikna arðsemi inn í þessi göt Matthíasar. Hún viðurkennir líka, að engin arðsemi sé í ýmsum fyrirhuguðum stórbrúm. Samt er allt þetta komið á vegaáætlun og kjósendur álíta Matthías vera mikilmenni.

Á sama tíma og þessir draumórar byltast fram og verða að veruleika er ekki hægt að leggja bundið slitlag á ýmsa vegi, þótt 10-50% arðsemi sé í þeim framkvæmdum. Það er dýrt spaug fyrir gjaldþrota þjóð að hafa stórhuga ráðherra í að bora göt á fjöllin.

Matthías er ekki einn um hituna. Samkvæmt nýsamþykktum lánsfjárlögum á að taka rúma sjö milljarða króna að láni í útlöndum á þessu ári. Þetta finnst lesendum kannski bara vera tala á blaði, en jafngildir þó um þriðjungi af vöruútflutningi þjóðarinnar á þessu ári.

Sumt af þessu fer í arðbærar framkvæmdir, sem skila meiru af sér en afborgunum og vöxtum. Annað fer í framkvæmdir, sem eru látnar skila arði með handafli. Þar er fremst orkuveizlan, sem fjármögnuð er með því að senda notendum hæstu raforkureikninga Vesturlanda.

Mikið af þessu fer svo í atriði, sem hvorki geta skilað arði á eðlilegan hátt né með handafli. Eitt fáránlegasta dæmið eru 553 milljónir króna, sem teknar eru að láni í útlöndum með 8% vöxtum til 15 ára til að endurlána til húsnæðismála á lægri vöxtum og til lengri tíma.

Sem dæmi um geðveikina má nefna, að gert er ráð fyrir, að fjárfestar verði 1.150 milljónir króna í landbúnaði á þessu ári, fjórðungi meira að magni en var fyrir tveimur árum. Það er ekki nóg með að þetta sé gersamlega arðlaust, heldur þarf þar á ofan að borga með því.

Það er ekki velferðarþjóðfélagið, sem er að gera okkur gjaldþrota, heldur óráðsían, sem hér hefur verið lýst. Við vorum lengi á hægri leið til helvítis, en síðan 1982 hefur allt verið í þriðja gír. Og ríkisstjórn ársins 1985 heldur uppi hraðanum á fullu.

Þrælasala hefur um langt skeið ekki þótt frambærilegur atvinnuvegur. Versta tegund þrælasölu er, þegar fólk selur börnin sín í ánauð. Og það erum við einmitt núna að gera með því að varpa skuldunum á afkomendurna, svo að ráðherrar geti montað sig fyrir kjósendum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Mismunun eða fjölbreytni.

Greinar

Hinn fyrirhugaði einkaskóli í miðborg Reykjavíkur setur í skarpara ljós ágreininginn milli þeirra, sem telja skólakerfið fyrst og fremst eiga að jafna þjóðina, og hinna, sem telja það nærri eingöngu eiga að mennta hana, en jöfnun eiga að vera á öðrum verksviðum hins opinbera.

Ekki hafa allir aflögu 3.167 krónur á mánuði, 28.500 krónur á ári, til að kosta barn í nýja skólann. Þetta stingur mest í augu þeirra, sem andvígir eru skólanum. Þeir telja þetta vera skref í átt til aukinnar stéttaskiptingar. Börn hinna ríku fái betri menntun en hin.

Engan þarf að undra, að margir séu andvígir því, að ríkidæmi ráði menntun, þegar þeir eru meira að segja andvígir því, að greindum börnum sé sinnt sérstaklega. Það kom fram, þegar Reykjavík hugðist efna til skipulags á sérstakri þjónustu við þessi börn.

Kennarafélag Reykjavíkur neitaði að skipa fulltrúa í stjórn verkefnisins. Einn bæjarfulltrúinn sagði ráðagerðina “nöturlega” og kennari spurði: “Á kannski að kosta gáfnaljósin í skóla?” Því var haldið fram, að verið væri að búa til eins konar yfirstétt.

Hin ríkjandi jöfnunarstefna skólakerfisins, sem hefur lagt áherzlu á að hala nemendur upp í miðju, hefur um leið óbeint lækkað miðjuna niður í fúsk og leiki og óbeint halað nemendur niður í miðju. Undir niðri hefur kraumað gremja margra foreldra vegna þessa.

Nýi skólinn mun virkja þessa gremju. Áhugi foreldra verður meiri úrslitavaldur en peningaráðin, alveg eins og reynslan hefur orðið í Landakotsskóla og Ísaksskóla. Flestir foreldrar, sem vilja, munu finna 3.167 krónurnar, sem þarf mánaðarlega.

Ekki mun gagnrýnin draga úr aðsókninni. Hún felur nefnilega í sér þá skoðun, að nýi skólinn verði betri en hinir gömlu. Í því hlýtur stéttaskiptingin að felast, sem talað er um. Enda er ætlunin að nota hluta 3.167 krónanna til að yfirborga góða kennara.

Sumir mundu sjá í þessu tækifæri fyrir kennarastéttina til að örva samkeppni milli atvinnurekenda sinna um nýtt og hærra mat á kennarastarfinu og að sjálfsögðu meiri tekjur þess. En fyrstu viðbrögð stéttarfélagsstjóra benda ekki til, að þetta ljós verði séð.

Því hefur verið haldið fram, að meiri árangur næðist með því að auka fjárveitingar til opinbera skólakerfisins sem nemur hinum margumtöluðu 3.167 krónum á mánuði. Parkinson gamli væri á allt annarri skoðun, að slíkt mundi bara fjölga leikjum og auka fúskið.

Það bezta við nýja skólann er, að hann fjölgar kostum í skólahaldi. Hann er skref úr einhæfni í átt til fjölbreytni. Hann veitir útrás hugmyndum, sem ekki hafa náð fram að ganga í skólakerfinu. Jafnvel er hugsanlegt, að hann komist í snertingu við atvinnulífið!

Samt má fólk ekki halda, að þessi skóli sé einsdæmi. Fyrir eru í landinu nokkrir einkaskólar, sem keppa við ríkisskólana og hafa kennara á ríkislaunum, en hafa þó sumir skólagjöld að auki. Og svo eru til margir sérskólar, svo sem tölvuskólar, sem eru alveg utan kerfis.

Margir foreldrar kosta börn sín í tölvuskóla eða aðra sérskóla. Í því felst ákveðin mismunun. Hún hvetur þó um leið kerfið sjálft til dáða með því að veita samkeppni. Heildstætt kerfi ber dauðann í sér. En fjölbreytni er leiðin til síbreytni og bezta vörnin gegn kölkun.

Jónas Kristjánsson

DV

Lækkun þar, hækkun hér.

Greinar

Sömu dagana og ríkið hækkar verð á benzíni hér á landi og heldur uppi verði á olíu er verð á benzíni og olíu að lækka á heimsmarkaði og rambar raunar á barmi verðhruns. Samt heldur verðlagsstjóri fram, að innlenda verðið stafi af hækkuðu innflutningsverði.

Allir skilja, að ríkið þurfi að auka skattheimtu sína af benzíni um 2,26 krónur á hvern lítra. Það er gamla sagan. Ráðherrunum finnst svo vænt um þjóðina, að peningar hrökkva ekki fyrir örlætinu. Næsta gjöf þeirra er sögð eiga að vera borun gata í ýmis fjöll.

Allir skilja líka, að olíufélögin þurfi að auka álagningu sína af benzíni um 68 aura á hvern lítra og af gasolíu um 49 aura á hvern lítra. Það er gamla sagan. Olíukóngunum finnst svo vænt um þjóðina, að þeir vilja gefa henni benzínstöð á hvert götuhorn landsins.

Hitt er verra, að örlætið skuli vera útskýrt með því, að innflutningsverð á benzíni hafi hækkað um 1,42 krónur á hvern lítra. Útreikningurinn þar að baki hlýtur að vera meira en lítið undarlegur, því að verð á olíuvörum hefur hvarvetna lækkað að undanförnu.

Til lítils er að halda fram, að benzínið í heiminum hækki alltaf á vorin, þegar bíleigendur taki fram bíla sína til að keyra út og suður. Við höfum aldrei, ekki einu sinni, orðið vör við, að benzín lækkaði á haustin, af því að bíleigendur heimsins rifi þá seglin.

Til lítils er að halda fram, að rekstur olíufélaganna sé svo erfiður, að þau þurfi óskiptan hagnaðinn af 49 aura lækkun á verði gasolíu. Við höfum aldrei, ekki einu sinni, orðið vör við, að rekstur olíufélaganna væri erfiðari en rekstur fiskiskipa okkar.

Liðinn er á norðurhveli jarðar vetur, sem var óvenjulega harður. Honum fylgdi líka langvinnt kolanámuverkfall í Bretlandi, sem jók olíuþörfina. Samt kom vorið á norðurhveli með nægum olíubirgðum undan vetri. Og í sumar má reikna með, að birgðir hrannist upp.

Afleiðingar þessa sjást á verðskráningu olíuvara í Rotterdam. Þar er sífellt verið að bjóða olíu undir hinu fasta samningaverði, sem víða tíðkast í olíuviðskiptum. Ef slík undirboð leiða til verðhækkunar á olíuvörum til Íslands, er það ekkert annað en brandari.

Spyrja má, hvort íslenzka viðskiptaráðuneytið láti sovézka viðsemjendur sína reikna þetta út fyrir sig. Kannski hinir síðarnefndu hafi fengið töluglöggt fyrirtæki til að gera þetta, svona á svipaðan hátt og tannlæknarnir fengu Hagvang til að reikna út taxtana.

Í þessum mánuði einum hefur Rotterdam-verð ýmissa tegunda af olíu lækkað um 1,9-2,2 dali á tunnu. Offramleiðsla á olíu hefur haldið áfram, þótt Saúdi-Arabía hafi dregið saman framleiðslu sína úr 4,4 milljón tunnu kvótanum í 2,5 milljón tunnur á ári.

Saúdi-Arabía hefur fórnað sér í örvæntingarfullri tilraun til að hindra verðhrun á olíu, meðan flest önnur ríki olíuhringsins Opec hafa farið langt fram úr kvóta sinum. En nú hefur Saúdi-Arabía ekki lengur efni á þessu. Ríkisfjármálin eru komin í steik.

Jamani, olíuráðherra Saúdi-Arabíu, hefur varað við verðhruni á olíu, jafnvel niður fyrir 20 dali á tunnuna, ef ekki haldist agi í kvótakerfi Opec. Þegar verðið hrynur, verður fróðlegt að heyra nýjar útskýringar ríkis og verðlagsstjóra á okurverðinu hér á landi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hverjir felldu bjórinn?

Greinar

Margir þingmenn létu í vetur stuðning við bjór í veðri vaka og greiddu honum jafnvel atkvæði á einhverju stigi í meðferð málsins á Alþingi. En í raun stuðluðu þeir að falli hans, þegar að lokastigi kom. Hinir staðföstu bjórvinir reyndust vera í miklum minnihluta.

Í efri deild reyndust þeir einir vera bjórsinnar, sem bæði studdu vilja neðri deildar í orði og höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu á borði. Í neðri deild reyndust þeir einir vera bjórsinnar, sem studdu vilja efri deildar um þjóðaratkvæðagreiðslu, úr því sem þá var komið.

Þetta virðist í fljótu bragði undarleg flokkun. En hún var rækilega rökstudd í leiðara DV í gær. Þar var bent á, að ofangreind afstaða stuðlaði ein að því, að bjórinn kæmist í einhverri mynd fyrir horn í hinu mikla tímahraki, sem einkenndi þingstörfin undir lokin.

Þannig reyndust aðeins sextán af sextíu þingmönnum styðja bjórinn. Tuttugu voru honum kerfisbundið andvígir. Eftir eru 24 þingmenn, sem felldu bjórinn með því að vera fjarverandi, sitja hjá, en einkum þó með því að taka önnur atriði fram yfir sjálft málefnið, bjórinn.

Við getum tekið Eið Guðnason sem dæmi. Hann sagðist styðja bjórinn. Hann greiddi hins vegar atkvæði með málsmeðferð, sem ljóst var að setja mundi allt á annan endann og hindra afgreiðslu málsins fyrir þinghlé. Hann hefur tæpast gengið fram djúpt í dul um þetta.

Eiður vildi ekki, að Íslendingar fengju bjór, nema það væri í samræmi við þá tæknilegu útfærslu málsins, sem hann taldi rétta. Alveg eins og hann vildi ekki að Snæfellingar og Borgnesingar fengju löglegan kapal, nema það væri í samræmi við tæknilega útfærslu Eiðs.

Sennilega hafa sumir neðri deildar þingmenn verið svipaðs sinnis, þeir sem studdu bjórinn í fyrstu atkvæðagreiðslu, en höfnuðu þjóðaratkvæðagreiðslu í hinni þriðju. Þeir voru Þorsteinn Pálsson, Páll Dagbjartsson, Eggert Haukdal, Halldór Ásgrímsson og Halldór Blöndal.

Annars vegar er um að ræða neðri deildar menn, sem vildu afgreiðslu Alþingis á málinu og hins vegar efri deildar menn, sem vildu vísa því til óbundinnar skoðanakönnunar, sem þeir kalla þjóðaratkvæðagreiðslu. Og hvorug sérvizkan gat sætt sig við bjór á grundvelli hinnar.

Samtals eru þetta bara sex þingmenn, sem tóku sérvizku sína fram yfir bjórinn. Hinir voru miklu fleiri, sem fengu sér frí, stálust í burtu, sátu hjá eða rugluðu atkvæði sínu á annan hátt en framangreindir þingmenn. Þetta voru þeir, sem engan kjósanda vildu móðga.

Þeir vita, að þjóðin skiptist nokkurn veginn í 60% með bjór og 40% móti bjór. Í fljótu bragði gæti virzt vænlegt þingmanni að leggjast á sveif með fyrri hópnum, þar sem hann er stærri. En þingmenn vita líka, að hættulegt er að vera á móti fjölmennum og ákveðnum minnihluta.

Þorvaldur Garðar Kristjánsson, forseti sameinaðs Alþingis, sagði í blaðaviðtali eftir úrslitin, að hugleysi hefði ekki ráðið þingmönnum í máli þessu. En líklegra er samt, að það hafi einmitt ráðið gerðum hans og hinna sautján, sem engan kjósanda vildu móðga.

Í atkvæðagreiðslum Alþingis kom í ljós, að sextán þingmenn voru eindregið með bjór, tuttugu voru eindregið á móti honum og 24 létu stjórnast af einhverju öðru, svo sem sérvizku sinni eða hræðslu við kjósendur. Þessi flokkun sýnir, að bjórinn hefur sáralítið fylgi á þingi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þannig féll bjórinn.

Greinar

Bjórinn féll á Alþingi af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi voru margir þingmenn alls ekki eins hlynntir honum og þeir höfðu látið í veðri vaka. Í öðru lagi sundruðust þeir í ýmsar áttir, meðan andstæðingar bjórsins greiddu jafnan atkvæði á sem tæknilega áhrifamestan hátt.

Neðri deild fór fyrst af stað með því að hafna þjóðaratkvæðagreiðslu og taka sjálf þá efnislegu afstöðu að samþykkja bjórinn beint. Á þeirri stundu virtust hlutföllin á Alþingi endurspegla nokkurn veginn meirihlutaviljann, sem hafði komið fram í skoðanakönnunum.

Í efri deild byrjaði hins vegar ballið. Ef meirihluti hennar hefði í raun viljað bjórinn, hefði hann fallizt á niðurstöðu neðri deildar og bjórinn orðið að lögum. En þá neitaði deildin að taka afstöðu til bjórsins og samþykkti í staðinn svokallaða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ef þetta hefði verið fyrri deild, væri ekkert við niðurstöðuna að athuga. Bæði sjónarmiðin eru gild, að Alþingi eigi sjálft að skera úr málinu og að það eigi að vísa því til þjóðarinnar. Að vísu átti þjóðaratkvæðagreiðslan aðeins að vera ráðgefandi, ekki bindandi.

En efri deild var síðari deild. Hún samþykkti málsmeðferð, þjóðaratkvæðagreiðslu, sem fyrri deild var búin að hafna. Hún neitaði bjór, sem fyrri deild var búin að samþykkja. Hvort tveggja var auðvitað harðvítug gagnrýni á neðri deild og ögrun við hana.

Þeir, sem studdu þjóðaratkvæðagreiðsluna í efri deild, voru vitandi vits að búa til stöðu, sem neðri deild ætti auðvitað erfitt með að kyngja. Þeir voru beinlínis að tefla bjórmálinu í tímahrak og þá óskastöðu, að bjórinn færi aftur í efri deild og loks í sameinað Alþingi.

Engar líkur voru á, að þetta tækist í ringulreiðinni, sem einkenndi störf Alþingis síðustu dagana. Þar að auki hefði bjórinn þurft tvo þriðju hluta atkvæða í sameinuðu þingi. Svo miklum meirihluta hefði hann ekki náð. Þannig hálfdrap efri deild bjórinn.

Ekki tók betra við, þegar málið fór aftur til neðri deildar. Þar tókst engin samvinna meðal stuðningsmanna bjórsins. Ef þeir hefðu allir verið ákveðnir í að ýta bjórnum áfram, hefðu þeir brotið odd af oflæti sínu og fallizt á þjóðaratkvæðagreiðsluna.

Fyrst voru greidd atkvæði um upphaflega ákvörðun neðri deildar um heimilan bjór og hún var felld. Síðan voru greidd atkvæði um eins konar málamiðlun milli sjónarmiða neðri og efri deildar. Hún var einnig felld. Þá var ekki annað eftir en að fylgja efri deild.

En þá kom í ljós, að einungis tólf þingmanna voru reiðubúnir að ganga svo langt í stuðningi við bjórinn að tryggja honum framhaldslíf í formi þjóðaratkvæðagreiðslu og hugsanlega síðari staðfestingar Alþingis á þeirri niðurstöðu. Þannig féll bjórinn endanlega.

Athyglisvert er, að bjórmálið féll ekki á tíma, eins og andstæðingarnir höfðu teflt upp á. Bjórinn var hreinlega felldur, því að allar þrjár útgáfurnar voru felldar í neðri deild. Ef bjórinn hefði verið felldur á tíma, hefði verið auðveldara að taka hann upp í haust.

Nú stendur Alþingi andspænis því að hafa fellt bjórinn. Það verður því erfiðara að taka málið upp að nýju. Andstæðingar bjórsins, sem nú hrósa frækilegum sigri, munu þá vekja athygli á, að Alþingi sé þegar búið að fella bjórinn. Og hver getur mótmælt því?

Jónas Kristjánsson

DV

Mannrán og mannúð.

Greinar

Gíslataka er orðin svo algengt fyrirbæri, að fréttalesendur eru nánast hættir að taka eftir því. Jafnvel ekki, þegar farþegar í áætlunarflugi eru hafðir í haldi dögum saman, eins og nú hefur gerzt í Beirút, þeim volaða stað, þar sem engin skynsemi virðist þrífast.

Flugrán eru alvarlegasti þáttur þessarar tízku. Óviðkomandi fólk er tekið höndum. Flogið er með það út og suður, undir ógnunum vitstola manna. Fólki er misþyrmt, það er skotið til bana og því fleygt niður á flugbrautina. Slíkt hefur nú gerzt enn einu sinni.

Þetta er fordæmt af öllu venjulegu fólki á Vesturlöndum. En því miður fer óbeitin til lítils, því að vestræn hugsun hefur takmarkaða útbreiðslu. Hugmyndir um mannúð, frelsi og réttlæti eru bundnar við meginhluta Evrópu og ýmis lönd, sem Evrópumenn hafa byggt í öðrum álfum.

Þessi vestrænu sjónarmið eiga sér forngrískar og kristnar rætur. Þau hafa aðeins náð þroska í því samfélagi borgara, sem ríkt hefur á Vesturlöndum í tvær aldir eða skemur. Þessum sjónarmiðum er hafnað víðast annars staðar og þar á meðal í löndum múhameðstrúar.

Íslam er um þessar mundir að rísa upp í vaxandi óhugnaði gegn fyrra ofurefli hinnar vestrænu hugsunar. Villimannlegar refsingar hafa verið teknar upp í vaxandi mæli, bæði í fátækum löndum á borð við Súdan og Pakistan og í ríkum löndum á borð við Saúdi-Arabíu.

Þessi trúarbrögð, sem líta á himnaríki sem eins konar vændishús handa karlmönnum, hafa risið upp gegn hinni vestrænu hugmynd, að konur séu jafnar körlum. Þær megi sækja háskóla, sýna andlit sitt og bera vitni fyrir rétti til jafns við aðra. Þessu fer nú öllu aftur.

Jafnvel í fimm þúsund ára gömlu menningarríki eins og Egyptalandi, þar sem íslam hefur aðeins ríkt einn fimmta hluta tímans, er ofsatrúin á uppleið. Í þessari miðstöð arabískrar menningar, menntunar og lista er frjálslyndið komið á hægfara undanhald.

Hrikalegust hafa þessi sinnaskipti orðið í Íran, hinni sögufrægu Persíu. Þar hafa skítugir, fáfróðir og öfgafullir klerkar verið allsráðandi í nokkur ár. Þeir hafa innleitt ógnarstjórn, sem er margfalt verri en sú, sem þeir leystu af hólmi þegar keisarinn flúði.

Sérkennilegt er svo, að ofstopamenn, sem sjálfir búa ekki yfir neinni mannúð, skuli vita af henni í fari Vesturlandabúa og tefla upp á hana. Það gera þeir til dæmis með því að taka gísla og hóta að drepa þá, ef ekki verði orðið við ýmsum kröfum.

Jafnvel maður í ábyrgðarstöðu eins og Berri, dómsmálaráðherra í Líbanon, heldur verndarhendi yfir glæpamönnunum og tekur óbeint undir kröfur þeirra. Því kemur ekki á óvart, að almenningur í Beirút flykkist út á flugvöll til að taka undir sjónarmið mannræningja.

Á Vesturlöndum hljóta menn að velta fyrir sér spurningum um framhald slíkra mála. Hvað gerist til dæmis, ef ofbeldismenn komast yfir kjarnorkusprengju? Nýlega var bent á, að nægilegt væri að ræna samtímis eðlisfræðistofur fimm bandarískra háskóla til að setja saman sprengju.

Vesturlönd verða að sjálfsögðu að efla viðbúnað sinn gegn villimennsku á borð við gíslatöku og hryðjuverk, þar á meðal að efla eftirlit á flugvöllum. Vesturlönd verða að hafa mátt til að vernda þjóðskipulag sitt gegn ágangi allra þeirra, sem vilja það feigt.

Jónas Kristjánsson.

DV

Með brauki og bramli.

Greinar

Alþingi lauk störfum með brauki og bramli í þessari viku. Undir lokin voru uppákomur orðnar daglegt fyrirbæri, margar hverjar til lítils sóma. Mest réðist þetta af óskum um afgreiðslu 30 stjórnarfrumvarpa á mun styttri tíma en þarf til skynsamlegrar umfjöllunar.

Hin vafasömustu af þessum stjórnarfrumvörpum náðu flest að verða að lögum, þrátt fyrir rökstuddar aðvaranir. Þannig eru komin ný lög um Framleiðsluráð landbúnaðarins, Framkvæmdasjóð, Byggðasjóð og nafnlausa þróunarstofnun, svo að nefnd séu nokkur verstu málin.

Þingmenn stjórnarliðsins og í sumum tilvikum einnig þingmenn stjórnarandstöðunnar sporðrenndu ýmsum slíkum lagabálkum á færibandi. Tímanum undir lokin vörðu þeir hins vegar til langvinnra skrípaláta út af ýmsum málum, sem flest hafa verið lengi á döfinni.

Stjórnarandstaðan og tveir þingmenn Framsóknarflokksins fluttu tvö aðskilin, en samhljóða frumvörp um húsnæðismál. Í báðum urðu þau mistök, að niður féll sjálft markmiðið, jafnstaða íbúðalána til Búseta við núgildandi forgangslán til verkamannabústaða.

Frumvörpin urðu þannig í anda þeirra þingmanna sjálfstæðisflokksins, sem vilja ekki, að Búsetalán fái forgang umfram almenn íbúðalán. Flutningsmenn urðu því að leggja fram ný og leiðrétt frumvörp. Í svona ógöngum lenda menn, þegar þeir hafa ekki tíma til að lesa eigin mál.

Síðan urðu auðvitað harðvítugar deilur um, hvort hin nýju og leiðréttu frumvörp mættu vera á sömu þingskjalanúmerum og hin gölluðu. Svo fór, að deildarforseti braut þingsköp með því að leyfa þetta. En það dugði ekki og tvíburamálið dagaði uppi án afgreiðslu.

Í deilum um skólaskyldu varð ráðherra undir í fyrri þingdeild. Þar var samþykkt frumvarp um átta ára í stað níu ára skólaskyldu, gegn harðvítugum mótmælum ráðherra. Í síðari deild strandaði málið hins vegar, svo að níu ára skólaskyldan er enn í gildi.

Hingað til hafa af hagkvæmnisástæðum venjulega verið samþykktar undanþágur frá níu árunum. En deilurnar um átta ára frumvarpið urðu til þess, að ekki vannst tími til að samþykkja neinar undanþágur að þessu sinni. Er talið, að það verði erfitt í framkvæmd.

Mest varð sjónarspilið í umræðum um bjórinn. Fyrst tók fyrri þingdeild efnislega afstöðu með bjórnum. Síðan neitaði síðari deild að taka efnislega afstöðu og samþykkti í staðinn ráðgefandi skoðanakönnun um bjórinn í ár, undir heiti þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þegar málið kom aftur til fyrri deildar, vildu sumir þingmenn halda fast við efnislega afstöðu, aðrir vildu leita málamiðlunar milli deilda og enn aðrir vildu gefa eftir fyrir niðurstöðu hinnar deildarinnar, svo að eitthvað yrði gert, sem færði bjórinn nær.

Þessi flókni klofningur milli deilda og innan varð til þess, að liðið, sem var fremur hlynnt bjórnum, sundraðist í nokkra hópa. Enginn þessara hópa náði yfirhöndinni og sjónarmið þeirra allra féllu dauð. Minnihluti andstæðinga bjórsins hrósaði því frægum sigri.

Niðurstaða þessara mála og ýmissa fleiri fór ekki eftir efnislegri afstöðu af hálfu meirihluta þingmanna. Hún byggðist á hinum gífurlega tímaskorti undir lokin. Klukkustundum og jafnvel nóttum saman var rifizt um tækniatriði, en efnisatriðum sporðrennt.

Ekki jók þessi lokasprettur virðingu Alþingis.

Jónas Kristjánsson.

DV

Friður og svigrúm.

Greinar

Spár um kosningar í haust gufuðu upp við undirritun heildarkjarasamninga Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasambandsins. Svo friðsamlegt varð í þjóðfélaginu, að meira að segja harðorðir sjómenn og útgerðarmenn féllust óvænt í faðma og sömdu.

Ekki eru allir ánægðir með friðinn. Órólega deildin í Alþýðubandalaginu varð undir, þrátt fyrir vaxandi umsvif trotskista í Dagsbrún. Bandingi þeirra, Guðmundur J. Guðmundsson, lýsir óánægju sinni, en treystir sér ekki til að vera á móti samningnum.

Skapstyggðar verður víðar vart á þeim slóðum. Formaður Alþýðubandalagsins, Svavar Gestsson, hefur flest á hornum sér. Sérstaklega hefur þetta komið fram í ummælum um mótdrægar niðurstöður skoðanakannana.

Ásmundur Stefánsson, forseti Alþýðusambandsins, hefur tekið þann kaleik frá Alþýðubandalaginu að þurfa að láta reyna á fylgið í kosningum. Það merkilega er svo, að Svavar og órólega deildin kunna honum litlar þakkir.

Fleira var athyglisvert við friðarsamninginn. Fulltrúar Alþýðuflokksins í Verkamannasambandinu knúðu hann þar fram, þótt skoðanakannanir bentu til, að flokknum mundi vegna afar vel í haustkosningum, sem menn voru farnir að spá.

Skýringin er auðvitað sú, að þessir menn tóku hagsmuni launþega fram yfir flokkshagsmuni og stjórnarandstöðuhagsmuni. Slíkt er of sjaldgæft hér á landi. En vonandi geta menn líka grætt pólitískt á ábyrgum gerðum.

Ljóst er, að í Alþýðusambandinu ráða ferðinni ábyrgir menn á borð við Ásmund Stefánsson, Björn Þórhallsson, Karvel Pálmason og Karl Steinar Guðnason, sem taka efnislegan árangur launþega fram yfir trumbuslátt og pólitíska sjónleiki, og geta samt haldið samfloti hinni ólíku sérsambanda.

Af stjórnmálaflokkunum græðir Framsóknarflokkurinn mest á friðnum, þótt hann hafi hvergi komið nærri. Fylgi flokksins er í mikilli lægð, hliðstæðri þeirri, sem verður vart hjá Alþýðubandalaginu. Framsókn hafði ekki efni á haustkosningum.

Nú fær flokkurinn að blómstra áfram í stjórnarsamstarfi, sem er að flestu leyti í hans anda. Hér hefur stundum verið sagt, að Framsóknarflokkarnir í ríkisstjórninni væru raunar tveir. Sumir ráðherrar og ráðamenn Sjálfstæðisflokksins ættu vel heima í Framsókn.

Skýrast kom þetta fram í einhug stjórnarflokkanna við afgreiðslu Framleiðsluráðslaganna, gegn vilja bænda, neytenda og allra annarra, sem tjáðu sig um málið. Þessi lög eru einhver stórkarlalegustu Framsóknarflokkslög, sem sézt hafa í langan tíma.

Þinglið Framsóknar og Sjálfstæðis var hjartanlega sammála um að setja lög, sem grunnmúra ríkisrekstur hins hefðbundna landbúnaðar og færa þennan ríkisrekstur yfir á aðrar búgreinar, er hingað til hafa reynt að standa á eigin fótum.

Forustumenn Sjálfstæðisflokksins kunna að telja flokkinn hafa efni á verkum sem þessum, úr því að hann fær ágætar tölur í skoðanakönnunum. En langvinnt samstarf við Framsóknarflokkinn getur þó um síðir hefnt sín. Fylgið við sjávarsíðuna og á Suðvesturlandi getur bilað.

En almennt má segja, að staða ríkisstjórnarinnar hafi styrkzt við friðinn á vinnumarkaðinum. Ekki er fyrirsjáanleg nein kollsteypa í líkingu við þá, sem varð á öndverðum síðasta vetri. Svigrúmið, sem fylgir vinnufriði, er ríkisstjórn alltaf til framdráttar, hvort sem hún á það skilið eða ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Nú er nóg komið.

Greinar

Framhald starfa Alþingis yfir í næstu viku getur aðeins orðið þjóðfélaginu til skaða. Það leiðir til, að án skoðunar verða samþykkt illa smíðuð og seint fram borin stjórnarfrumvörp, sem eru á skjön við nútímann og eiga eftir að reynast þjóðinni dýr.

Stjórnarandstaðan mundi sýna þjóðhollustu, ef hún legði stein í götu þessara frumvarpa, bæði með málþófi og á annan hátt. Komið hefur í ljós, að sumir þingmenn geta talað klukkustundum saman og er nú kjörið tækifæri til að nýta þá listgrein.

Ríkisstjórnin með forsætisráðherra í broddi fylkingar virðist halda, að afgreiðsla þessara frumvarpa verði stjórnarflokkunum gott vegarnesti, ef kosningar verða í haust. Þá verði þó hægt að segja, að eitthvað liggi eftir þessa ríkisstjórn.

Þetta er rangt. Miklu frekar verður samþykkt framvarpanna að eins konar myllusteini um háls stjórnarflokkanna. Í hverri viku koma í ljós nýir gallar á frumvörpunum. Og vafalaust getur stjórnarandstaðan vakið rækilega athygli á því í næstu kosningabaráttu.

Versta frumvarpið, sem ríkisstjórnin er að reyna að knýja í gegn, þrátt fyrir mótmæli úr öllum áttum, er það, sem fjallar um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Meira að segja bændur eru á móti því. Og fyrir Sjálfstæðisflokkinn er það pólitískt harakiri.

Slæmur er líka þríhöfða þursinn, sem fjallar um ýmsar nafnbreytingar á starfsemi Framkvæmdastofnunar ríkisins, en engar efnislegar breytingar. Þau þrjú framvörp eru tilraun til að klæða þjóðhagslega skaðlega iðju þeirrar stofnunar í nýju fötin keisarans.

Frumvörpin um nafnaskipti á sjóðum atvinnuveganna og ýmis mál bankakerfisins eru ekki eins slæm. Ekki hefur þó neinn treyst sér til að mæla þeim bót á opinberum vettvangi, ekki frekar en öðrum þeim frumvörpum, sem hér hafa verið nefnd. Þetta má allt bíða.

Alþingi er þegar búið að afgreiða flest þau mál, sem geta orðið stofnuninni til sóma eða hindrað vansæmd hennar. Dæmi um hið síðarnefnda eru ný lög um þingsköp, sem eru til þess fallin að gera starfshætti stofnunarinnar þjálari og skynsamlegri.

Annað dæmi er frumvarpið um lánsfjárlögin, sem hlaut loksins afgreiðslu í þessari viku, rétt áður en sól er hæst á lofti og hálfnað tímaskeiðið, sem lögin fjalla um. Það mál verður því ríkisstjórn og stjórnarflokkum ekki til meiri skammar en orðið er.

Frumvarpið um frjálsara útvarp er orðið að lögum, að vísu ekki fyrir tilstilli sameinaðs stjórnarliðs, heldur með óbeinu bandalagi Sjálfstæðisflokksins og Bandalags jafnaðarmanna. Þetta mál tefur ekki lengur fyrir því, að læsa megi dyrum Alþingis.

Ef vilji hefði verið til, hefði mátt nota gærdaginn til að komast að einhverri niðurstöðu í bjórmálinu og forða Alþingi frá vansæmdinni, sem það er að baka sér með margföldum skrípaleik við meðferð málsins. Þá hefði Alþingi raunar haft hreint borð um þessa helgi.

Úr því að ríkisstjórnin er staðráðin í að svala sjálfseyðingarhvöt sinni með þingstörfum í næstu viku, væri hollast að nota allan tíma til að þvæla fram og aftur um bjórinn og ekki hætta fyrr en niðurstaða er fengin. Tími, sem fer í annað, er glataður tími.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skaðleg áform á þingi.

Greinar

Landbúnaðarflokkarnir tveir, sem mynda ríkisstjórn þessa lands, eru ekki samstíga í afstöðunni til lagafrumvarps um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Ráðamenn Sjálfstæðisflokksins ýta málinu áfram, en nokkrir þingmenn Framsóknarflokksins þæfast fyrir af megni.

Fyrirstaðan í þingliði framsóknarmanna byggist á efasemdum og athugasemdum, sem hafa komið fram hjá ráðamönnum vinnslustöðva landbúnaðarins og sumum bændum. Í þessum þingflokki eru jafnan margir, sem telja sjálfsagt, að hinn hefðbundni landbúnaður fái allt, sem hann vill.

Áhugasemi ráðamanna Sjálfstæðisflokksins byggist hins vegar ekki á næmu eyra fyrir hagsmunum neytenda. Þar í flokki er ekki hlustað á neytendur frekar en fyrri daginn. Samt hafa Neytendasamtökin harðlega gagnrýnt frumvarpið um Framleiðsluráð landbúnaðarins.

Mál þetta er undirbúið af nefnd framsóknarmanna úr báðum þessum stjórnmálaflokkum. Áður en það var lagt fyrir Alþingi, hlaut það umfjöllum í helztu valdastofnunum landhúnaðarins. Það var hins vegar ekki lagt fyrir samtök neytenda eða aðra mikilvæga málsaðila.

Undir eðlilegum kringumstæðum ætti að ríkja innileg ánægja með frumvarpið í þingliði Framsóknarflokksins, en efasemdir og óánægja í þingliði Sjálfstæðisflokksins. Að þessu skuli vera öfugt farið, sýnir, að erfitt er að sjá, hvor er meiri sauðfjár- og nautgripaflokkur.

Lítill tími hefur unnizt til að skoða frumvarpið. Það er bæði viðamikið og loðið. Ljóst er þó, að mörg ákvæði þess eru stórhættuleg og munu gera skipulag landbúnaðarins að þyngri byrði á herðum þjóðarinnar. Önnur ákvæði staðfesta ríkjandi ófremdarástand á þessu sviði.

Hættulegust eru áformin um að yfirfæra skipulagsbölvun hins hefðbundna landbúnaðar yfir á afurðir svína og fugla. Þjóðin ber of miklar byrðar af afurðum sauðfjár og nautgripa, þótt nýju sé ekki bætt við. Þetta er lúmskasta áformið að baki frumvarpinu.

Meginefni frumvarpsins fjallar um, að efnislega skuli allt vera eins og verið hefur. Áfram verði skipulögð framleiðsla illseljanlegra afurða, sem ýmist séu gefnar úr landi eða ýtt ofan í neytendur með tilfæringum á borð við niðurgreiðslur og kjarnfóðurskatt.

Ekki vottar fyrir því, sem þjóðin þarf mest á að halda í efnahagserfiðleikum sínum, að markvisst verði unnið að samdrætti fjárfestingar í hefðbundnum landbúnaði og hraðminnkun á framleiðslu afurða, sem verðlagðar eru langt yfir venjulegu heimsmarkaðsverði.

Sorglegt er, að neytendur og skattgreiðendur skuli ekki eiga neinn málsvara í þingliði stjórnarflokkanna. Ef þetta vonda mál stöðvast á Alþingi, verður það vegna þess, að nokkrum þingmönnum Framsóknarflokksins finnst það ekki í alveg nógu hefðbundnum stíl.

Hins vegar má segja, að sama sé, hvaðan gott kemur. Frumvarpið um Framleiðsluráð landbúnaðarins verður að stöðva, af því að það er vont frumvarp. Helzt væri, að það yrði stöðvað á réttum forsendum. En það er betra en ekki, að það verði stöðvað á röngum forsendum.

Eftir situr svo óbragðið af skeytingarleysi Sjálfstæðisflokksins í garð þess þorra þjóðarinnar, sem býr við sjávarsíðuna. Það gengur svo langt, að þjóðþrifamál eru látin velkjast vetrarlangt á þingi, meðan flokkurinn er að reyna að knýja vont mál í gegn á örfáum vikum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Flest má bíða.

Greinar

Kominn er tími til, að ríkisstjórnin átti sig á og sætti sig við, að mest af svokölluðum forgangsmálum hennar nái ekki fram að ganga á Alþingi að þessu sinni. Þau litu of seint dagsins ljós og eru of illa unnin. Nær væri að fá botn í mál, sem of lengi hafa hrakizt um á þingi.

Það er út í hött, að ríkisstjórnin geti kastað fram nokkrum tugum frumvarpa eftir páska og ætlazt til, að þau verði að lögum á sama vori. Nógu mikill hefur æðibunugangurinn verið undir lok hvers þings, þótt ekki verði slegið Íslandsmet í honum að þessu sinni.

Dæmigert er frumvarpið um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Samtök neytenda og verzlunar hafa mótmælt frumvarpinu og þar að auki er kurr í bændum út af því. Þetta er umfangsmikið mál, sem þarf á gætinni skoðun að halda. Fáránlegt væri að berja það í gegn í flýti.

Neytendur og verzlunin óttast, að frumvarpið feli í sér, að þær búgreinar, sem ekki teljast hefðbundnar, verði eins og hinar gerðar að ómögum í þjóðfélaginu, nýjum byrðum á neytendur og skattgreiðendur. Við smíði málsins voru þessir aðilar ekki spurðir ráða.

Annað dæmigert mál eru þríhöfða þursarnir tveir, annars vegar frumvörpin um Framkvæmdasjóð, Byggðastofnun og nafnlausa þróunarfélagið og hins vegar frumvörpin um þrjá sjóði atvinnuveganna. Þetta felur ekki í sér einföldun sjóðakerfisins og losar ekki um þær stíflur, sem beina takmörkuðu fjármagni þjóðarinnar í arðlausa farvegi.

Gott er að sýna mál á borð við bankafrumvörpin. Bezt er þó að gefa mönnum rúmt tækifæri til að glugga í þau í sumarfríinu og endurflytja þau síðan í haust. Engin lífsnauðsyn er á hugsunarlausri afgreiðslu þeirra, frekar en flestra svokallaðra forgangsmála.

Eina síðbúna málið, sem Alþingi ætti að samþykkja, eru tvö frumvörp um ríkisfjármál. Þau fela í sér, að ekki geti endurtekið sig það hneyksli, að hluti fjárlaga, það er að segja lánsfjárlögin, skuli ekki enn hafa tekið gildi, þegar komið er fram í júní.

Lánsfjárlögunum verður Alþingi að loka, áður en það fer í sumarfrí. Þingmenn geta huggað sig við, að þau eru marklítil eins og sjálf fjárlögin. Sem dæmi um það má nefna, að ríkisstjórnin hyggst gleðja ljúflings-atvinnuveginn sinn með 40 milljón króna auka-niðurgreiðslum.

Alþingi hlýtur líka að verða að afgreiða síðkomið frumvarp stjórnarþingmanna um peninga í húsnæðismál. Þetta frumvarp er árangur töluverðs þjarks, þar á meðal við stjórnarandstöðuna, sem telur sig hafa haft jákvæð áhrif. Þetta hefur raunar verið stórpólitíska málið í vor.

Tvö mál hafa velkzt um á Alþingi í allan vetur og eru raunar arfur frá fyrri árum. Það eru bjórinn og útvarpið, sem eru langt komin í síðari deild og bjórinn raunar aftur í hina fyrri. Alþingi verður nú að manna sig upp í að skera úr þessum málum fyrir frí, hvernig sem niðurstaðan verður.

Vandi þessara mála er, að sumir þingmenn þykjast ekki vilja þau feig, en ætla sér að bregða fæti fyrir þau á tæknilegan hátt. Ein leiðin er að breyta þeim í síðari deild, svo að þau verði að fara aftur í fyrri deild og detti upp fyrir í tímahraki síðustu dagana.

Alþingi getur verið ánægt með að hafa náð heildarsamkomulagi um utanríkismál og betri þingsköp. Til viðbótar þarf það að ljúka lögum um útvarp, bjór, húsnæðisfé og ríkisfjármál, svo og lánsfjárlögum. Þetta má gera á nokkrum dögum. Flest önnur mál mega bíða hausts.

Jónas Kristjánsson.

DV