Greinar

Kúguð sjávarsíða.

Greinar

Stundum er hagsmunum svokallaðs dreifbýlis teflt fram gegn hagsmunum Reykjavíkursvæðisins. Eru þá kaupstaðir og kauptún sjávarsíðunnar stundum talin til dreifbýlis, þótt þar sé í rauninni þéttbýli. Hagsmunir sveita og sjávarsíðu eru að flestu leyti ólíkir.

Þjóðfélag okkar skiptist landfræðilega og hagsmunalega í þrennt. Í einum hluta eru sveitirnar og í öðrum Reykjavíkursvæðið. Í þriðja hlutanum er svo sjávarsíðan, að Suðurnesjum meðtöldum. Sveitirnar hafa landbúnaðinn, Reykjavíkursvæðið þjónustuna og sjávarsíðan útgerðina.

Ekki er hægt að hugsa sér meiri andstæður en sjávarútveg og hinn hefðbundna landbúnað. Sjávarútvegurinn er burðardýr velsældarinnar í þjóðfélagi okkar, en landbúnaðurinn er langsamlega þyngsti ómaginn á þjóðfélaginu. Vegna þess eru hagsmunirnir gagnstæðir.

Þjóðfélagið hefur um langan aldur mergsogið sjávarsíðuna til að afla peninga í velsældina og landbúnaðinn. Þetta hafa stjórnvöld gert með því að reikna afkomu sjávarútvegsins út á núlli og haga skráningu gengis krónunnar á þann hátt, að atvinnuvegurinn skrimti.

Þetta er afar auðvelt í framkvæmd á verðbólgutímum. Þá aukast gjöld sjávarútvegsins, en genginu er haldið föstu, unz undirstöðuatvinnuvegurinn er um það bil að sigla í strand. Þá er gengið lagfært nógu mikið til að núllrekstur náist í sjávarútvegi. Og ný hringrás hefst.

Í leiðurum þessa blaðs hefur lengi og oft verið lagt til, að þeir, sem afla gjaldeyrisins, megi sjálfir ráðstafa honum og þá á því verði, sem markaðurinn vill borga fyrir hann. Á þann hátt megi stöðva hina umfangsmiklu blóðmjólkun sjávarsíðunnar.

Lausnin felst í að taka af stjórnvöldum misnotkunarvaldið til skráningar á gengi krónunnar. Það má gera með því að leyfa genginu að valsa án skráningar. Eða með því að heimila notkun erlendra gjaldmiðla í viðskiptum hér á landi. Eða leggja krónuna hreinlega niður.

Ef einhver þessara leiða væri notuð, mundi koma í ljós, að gengið er yfirleitt skráð hróplega of hátt. Einnig mundi koma í ljós, að sjávarútvegurinn er ekkert vandræðabarn, heldur meginuppspretta auðsöfnunar þjóðarinnar. Hann hefur bara ekki fengið að njóta þess.

Auðvitað mundi minna verða til dreifingar velsældar í þjónustugreinunum á Reykjavíkursvæðinu. Þar yrði fólk að laga sig að þeim raunveruleika, sem felst í lækkuðu mati á verðgildi krónunnar. Þetta eru stjórnvöld að reyna að forðast, þegar þau núllreikna sjávarútveginn.

Ef sjávarútvegurinn fengi að njóta sín, mundi þó fyrst og fremst koma í ljós, að þjóðfélagið hefur ekki efni á að kasta nokkrum milljörðum króna á ári í hinn hefðbundna landbúnað, stóra æxlið á þjóðarlíkamanum. Hingað til hefur sá reikningur verið sendur sjávarsíðunni.

Meðan sjávarútvegurinn er úti í kulda alþjóðlegrar samkeppni ornar hinn hefðbundni landbúnaður sér í skjóli innflutningsbanns, útflutningsuppbóta, niðurgreiðslna, beinna styrkja og lánaforgangs. Hann eyðir því, sem sjávarútvegurinn aflar, og það á stórvirkan hátt.

Landsbyggðin utan Reykjavíkursvæðisins er ekki einn heimur, heldur tveir. Annars vegar er sjúklingur, sem búinn er að vera áratugum saman á gjörgæzludeild, og hins vegar er kúgaður vinnuþræll, sem gefst bráðum upp, ef hann á áfram að borga sjúkrahúsvist hins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Þrengri stakkur sniðinn.

Greinar

Ný þingskapalög, sem Alþingi setti í vikunni, munu án efa hafa góð áhrif á starfshætti stofnunarinnar. Á ýmsum sviðum sníða þau málflutningi þrengri stakk. Meðferð tillagna, fyrirspurna og umræðna utan dagskrár ætti að verða markvissari og einkum þó skjótari.

Frumvarp til laganna var samið af nefnd fulltrúa úr öllum þingflokkum. Lögin eru því sett í góðu samkomulagi allra stjórnmálaafla og ættu því að ná tilætluðu markmiði. vinnubrögð á Alþingi ættu þá jafnframt að sæta minni gagnrýni hér eftir en hingað til.

Umræðum utan dagskrár, sem hingað til hafa eyðilagt heilu dagana, verður nú fenginn staður hálftíma af venjulegum fundartíma í sameinuðu þingi. Málshefjandi má tala í þrjár mínútur, aðrir þingmenn í tvær mínútur og engir oftar en tvisvar.

Svipaðar reglur eru settar um ræðulengd og ræðufjölda í umræðum um tillögur til þingsályktunar. Þar fær framsögumaður fimmtán mínútur til umráða, aðrir þingmenn átta mínútur og engir mega tala oftar en tvisvar. Við aðra umræðu er þessi rammi enn þrengdur.

Einna mestur er niðurskurðurinn á fyrirspurnum og svörum ráðherra við þeim. Umræður eru einskorðaðar við spyrjanda og ráðherra og má hvor um sig aðeins tala tvisvar, spyrjandi í tvær mínútur og ráðherra í fimm. Aðrir þingmenn eiga ekki að tala í málinu.

Enginn vafi er á, að þessar breytingar munu auka tímann, sem deildir Alþingis hafa til ráðstöfunar til að ræða frumvörp til laga. Þannig fær stofnunin meira svigrúm til að rækja höfuðverkefni sitt, löggjafarvaldið, hvort sem það svigrúm nýtist eða ekki.

Nýju lögin leysa þó ekki allan vanda. Ástæða hefði verið til að reyna að gera samningu lagafrumvarpa og meðferð þeirra markvissari, ekki síður en annarra þingmála. Ennfremur væri gott, ef settar væru reglur, sem gætu stuðlað að betri verkstjórn á Alþingi.

Of lengi hefur viðgengizt, að lagðir væru fram lagabálkar með ýmsum efnisatriðum, sem vafasamt er, að eigi erindi í lög. Þar með má telja margvíslega óskhyggju, sem betur ætti heima í stefnuyfirlýsingum og greinargerðum, svo og ótal smáatriði, sem betur ættu heima í reglugerðum.

Of lengi hefur viðgengizt, að lagðir væru fram lagabálkar með ýmsum útgjaldahugmyndum, sem fá ekkert gildi, nema þær fái staðfestingu í fjárlögum. Útgjöld eru þannig fyrirskipuð í einum lögum, en ekki leyfð í öðrum. Um þetta eru ótal dæmi frá allra síðustu árum.

Ekki er síður ámælisverð sú árátta flestra ríkisstjórna og mest þeirrar, sem nú situr, að leggja ekki fram lagafrumvörp sín fyrr en svo seint, að útilokað er, að þau fái eðlilega meðferð á þingi. Súpan, sem Alþingi situr nú í, er bein afleiðing þessa.

Jafnvel þótt ríkisstjórnir leggi fram mál sín í tæka tíð, vill oft brenna við, að þingnefndir fari sér óeðlilega hægt við að fjalla um þau. Við höfum einmitt nú fyrir augum okkar mál, sem hafa verið að velkjast um í þingnefndum meira eða minna í allan vetur.

Æskilegt hefði verið, að þingskapalögin gerðu atlögu að ýmsum slíkum vandamálum, sem tengjast sjálfri löggjöfinni. En telja verður þá spor í rétta átt, að meðferð umræðna utan dagskrár, fyrirspurna og þingsályktunartillagna verði markvissari og skjótari en áður.

Jónas Kristjánsson

DV

Seta, vinna og ráðgjöf.

Greinar

Hér í blaðinu og raunar einnig í öðrum fjölmiðlum hefur komið í ljós, að fulltrúum í samninganefndum um stóriðju, svo og flestum ráðamönnum landsins, finnst lítið til koma, þótt þessir fulltrúar hafi 40-50 þúsund króna mánaðartekjur í tengslum við setuna í nefndunum.

Nefndamenn segja hver um annan þveran, að þeir hafi þrælað fyrir þessum tekjum. Sumir segjast hafa misst af sínu venjulega kaupi á meðan og jafnvel misst viðskiptavini. Einn benti sérstaklega á sálrænan þrýsting, – ætlazt hafi verið til, að þeir næðu árangri í samningum.

Eini ráðamaðurinn í landinu, sem hefur gert athugasemdir, er Steingrímur Hermannsson forsætisráðherra. Hann óskaði skýringa á ríkisstjórnarfundi. Þær fengust ekki þá, þar sem iðnaðarráðherra var fjarverandi. Hann hefur hins vegar á öðrum vettvangi vísað öllu frá sér.

Sverri Hermannsson iðnaðarráðherra gagnrýndi harðlega í vetur kostnað Sjóefnavinnslunnar við tækniráðgjöf. Kvartaði hann um vonda hegðun þess, sem hann kallaði “verkfræðingastóð”. Mátti skilja hann á þann veg, að í því kerfi væru menn að hygla hver öðrum á ýmsa vegu.

Full ástæða væri fyrir Sverri að taka samninganefndamálið mun harðari tökum en Sjóefnavinnslumálið. Í nýja málinu eru menn ekki aðeins að hygla öðrum, heldur einkum sjálfum sér. Og síðan halda þeir því fram, að þetta sé að frumkvæði ráðuneytis Sverris sjálfs.

Fyrst eru þessir menn kosnir í nefnd. Þar sem þeir ráða ekki við starfið, fá þeir sér starfsmenn, sem eru þeir sjálfir. Þar sem málið gengur ekki upp, verða þeir að fá sér ráðgjafa til viðbótar. Þessir ráðgjafar eru, eins og starfsmennirnir, nefndamennirnir sjálfir.

Þannig hefur samninganefndagengið í fyrsta lagi setið í nefndum. Í öðru lagi hefur það unnið í nefndum. Og í þriðja lagi hefur það veitt sér góð ráð í nefndum. Þannig tuttugufalda menn tekjurnar, sem þeir gengu að í upphafi, þegar þeir tóku sæti í nefndunum.

Þessi mikla vinna nefndamanna hefur samt ekki borið mikinn árangur. Sorglegasta dæmið er síðasti samningurinn við Alusuisse. Þar sömdu þeir um orkuverð, sem var langt undir því, er við mátti búast. Raunar varð niðurstaðan mikið áfall fyrir stóriðjustefnu á Íslandi.

Stundum var eins og nefndarmenn legðu meiri vinnu í að reka áróður fyrir þjóðinni um, að niðurstaðan væri ekki eins afleit og flestir töldu hana vera. Ef til vill er sú vinna innifalin í tekjum þeirra af setu í nefnd, vinnu í nefnd og ráðgjöf í nefnd.

Ekki tók betra við í samningnum um inngöngu Sumitomo í járnblendifélagið. Sá samningur gekk einkum út á, að japanska fyrirtækið tæki hlut af hinu norska Elkem. Til þess að hjálpa Elkem í þessu þóttust nefndarmenn verða að halda niðri verði á raforku til Grundartanga.

Ef greiða á stórar fjárhæðir fyrir setu í slíkum samninganefndum, er betra að hafa þær enn hærri og greiða þær erlendum fagmönnum, sem kunna til verka í samningum. Ekki greiða þær neinum, sem fara illilega halloka í hverjum samningnum á fætur öðrum.

Eigi menn samt mikið fé skilið fyrir setu, vinnu og ráðgjöf í nefndum, er rétt, að um slíkt sé fjallað á opinn og heiðarlegan hátt, en ekki í einkapukri nefndarmanna og í samsæri þeirra og ráðuneytis. Til eru mörk milli siðferðis og skorts á siðferði.

Jónas Kristjánsson

DV

Síkosnir einræðisherrar.

Greinar

Eitt dæmi nægir til að útskýra, hvernig stendur á feiknarlegum vinsældum Davíðs Oddssonar borgarstjóra í skoðanakönnunum og hve illa stjórnarandstöðuflokkunum í borgarstjórn gengur að fá kjósendur til að taka trú á getu þeirra til að mynda starfhæfan meirihluta.

Þetta dæmi er Ölfusvatnsmálið. Þar hefur meirihluti Davíðs ákveðið að kaupa jarðhitaland í nágrenni Nesjavalla á 60 milljónir króna. Stjórnarandstaðan hefur rekið upp ramakvein og sakað meirihlutann um að hafa gefið ríkum landerfingjum milljónir á silfurdiski.

Þessi sami minnihluti, einkum Alþýðubandalagsdeildin, hefur í vetur kvartað yfir borunum Hitaveitu Reykjavíkur í landi Nesjavalla. Þjóðviljinn hneykslaðist á því í fimm dálka frétt á forsíðu, að “orkuævintýri” þetta verði glapræði upp á fjóra milljarða króna.

Þannig sér almenningur minnihlutann sem úrtölulið, er ekkert áræði hefur. Margir muna enn eftir því, að borgin keypti hitaveituréttindi að Suður-Reykjum í Mosfellssveit á 150 þúsund krónur. Það þótti morð fjár í þá daga, en hefur síðan reynzt skítur á priki.

Hin sama mun verða niðurstaða Ölfusvatnskaupanna. Eftir tíu eða fimmtán ár munu menn gleðjast yfir framsýni þeirra, sem þorðu að kaupa landið á 60 milljónir króna. Þá munu menn enn minnast þess, að það er íhaldið í Reykjavík, sem jafnan hefur keypt land á land ofan.

Öfund og hneykslun er ekki vænlegt vegarnesti í stjórnmálum. Tilgangslaust er að mikla fyrir sér, að einhverjir verði ríkir af því að selja borginni land á margfalt hærra verði en þeir eða arfleiðendur þeirra keyptu það á, miðað við verðlag á hverjum tíma.

Ennfremur er tilgangslaust að mikla fyrir sér, að einhverjir öfundsverðir náungar hafi fengið gefna tvo togara Bæjarútgerðarinnar, því að söluverðið hafi verið of lágt að mati hinnar öfundsjúku og hneyksluðu stjórnarandstöðu. Kannski mátti borgin til með að losna við skipin.

Af sama toga spunnin er andstaðan gegn þátttöku Reykjavíkurborgar í fjölmiðlunarfyrirtækinu Ísfilm. Einnig gegn viðræðum borgarinnar um sameiningu Bæjarútgerðarinnar og Ísbjarnarins á Grandagarði. Minnihlutanum gagnar ekki að segja þetta vera dæmi um einræðishneigð borgarstjórans.

Skörulegir og einráðir borgarstjórar geta gert mistök. Þau eru þá væntanlega sum stærri í sniðum en þau mistök, sem langorð nefndastjórn samsteypustjórnar öfundsjúkra mundi gera. En Reykvíkingar vilja skörulega og einráða borgarstjóra, sem standa og falla með gerðum sínum.

Reykvíkingar sjá minnihlutann fyrir sér sem ósamstæðan hóp fólks, er situr á löngum nefndafundum til að sætta margvíslega sérvizku einstakra aðila samsteypunnar. Þeir sjá hann fyrir sér sem minniháttar lið, er aldrei mundi þora að kasta 60 milljónum í Ölfusvatnsland.

Þannig var Bjarni Benediktsson endurkosinn einræðisherra í kosningum eftir kosningar. Þannig var Gunnar Thoroddsen endurkosinn einræðisherra í kosningum eftir kosningar. Þannig verður Davíð Oddsson endurkosinn einræðisherra í kosningum eftir kosningar.

Vinstri stjórnin í Reykjavíkurborg 1978-1982 hafði allt annan stíl en venjulega hefur ríkt hjá skörulegum borgarstjórum íhaldsins. Þetta ættu vinstri menn að taka til greina í naflaskoðuninni, sem nú fylgir í kjölfar niðurstaðna skoðanakannana í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gagnkvæm mismunun.

Greinar

Rainbow Navigation hefur í eitt ár annazt flutninga Varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli, sem íslenzk skipafélög sáu áður um. Tilraunir utanríkisráðherra til að leysa málið í viðræðum við bandarísk stjórnvöld hafa engan árangur borið og munu að óbreyttu engan árangur bera.

Eftir komu yfirmanns Norður-Evrópudeildar bandaríska utanríkisráðuneytisins hingað til lands í síðustu viku má telja ljóst, að bandarísk stjórnvöld hafa ekki hug á að gefa eftir í málinu. Við verðum því að fara nýjar leiðir, ef við viljum ekki gefast upp.

Gömul lög gilda í Bandaríkjunum um, að bandarísk skipafélög hafi forgang að flutningum á vegum bandarískra herja í útlöndum. Þetta er verndarstefna, sem átti á sínum tíma að verja ósamkeppnishæf skipafélög þar vestra fyrir erlendri samkeppni, en það tókst ekki.

Snjallir lögfræðingar vestra dustuðu rykið af lögum þessum og náðu sér í aflóga skipafélag, Rainbow Navigation. Það hefur nú ekki aðeins náð næstum öllum flutningum varnarliðsins, heldur hefur í vaxandi mæli notað tækifærið til að koma sér inn á íslenzka markaðinn.

Rainbow Navigation hefur til þess góða aðstöðu, því að það býður upp á tómar lestar til baka til Bandaríkjanna. Þetta hefur enn aukið tjón íslenzku skipafélaganna, sem eru hvert fyrir sig rekin með tugmilljón króna tap á ári. Ameríkurúta þeirra er orðin mjög erfið.

Viðskiptavinir virðast ekki hafa grætt á þessari breytingu. Varnarliðið verður að borga það sama og áður. Og íslenzkir viðskiptavinir Rainbow Navigation segjast borga hið sama og þeir greiða íslenzku skipafélögunum. Hagurinn er allur hjá hinum snjöllu lögfræðingum.

Nú er það gömul regla, sem hefur verið notuð til að hafa hemil á verndarstefnu, að hún verði gagnkvæm. Ef eitthvert ríki heldur uppi mismunun sínum athafnamönnum í hag, þá gera önnur ríki þessa mismunun gagnkvæma. Annars mundu ríki freistast meira til verndarstefnu.

Við getum sett lög á þá leið, að gagnkvæmt skuli vera, ef eitthvert viðskiptaríki mismunar íslenzkum flutningafyrirtækjum, til dæmis með því að neita þeim um að bjóða á jafnréttisgrundvelli í flutninga til og frá Íslandi. Sé svo, þá banni íslenzk lög hið sama hjá hinu ríkinu.

Samkvæmt slíkum lögum yrði Rainbow Navigation óheimilt að flytja vörur til og frá Íslandi. Þar með mundu þær siglingar leggjast niður eins og siglingar íslenzkra skipafélaga fyrir Varnarliðið. Bandarísk stjórnvöld mundu þá lenda í flutningaklemmu.

Hugsanlegt er, að til dæmis mafían yrði þá beðin um að láta félög hafnarverkamanna hefna sín með löndunarbanni á íslenzkum freðfiskútflutningi. Íslenzk stjórnvöld verða að meta líkur á slíkum gagnaðgerðum í kjölfar samþykktar gagnkvæmnilaga á Íslandi.

Því getur verið, að einhver önnur leið en gagnkvæmni henti betur til að þrýsta bandarískum stjórnvöldum til samninga á jafnréttisgrundvelli, annaðhvort beint eða á vegum GATT, hins vestræna viðskipta- og samkeppnissamnings. En gagnkvæmni virðist þó álitleg.

Ljóst virðist, að án gagnkvæmni eða annars hliðstæðs vopns sé utanríkisráðuneytið máttlaust í viðræðum um þessa flutninga. Komin er eins árs reynsla á, að snakkið eitt dugar ekki. Ef við ætlum ekki hreinlega að gefast upp, þarf mun ákveðnari aðgerðir í málinu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Alvöru-fjárlög?

Greinar

Hugsanlegt er, að á öndverðum næsta vetri verði í fyrsta sinn í manna minnum unnt að fjalla af viti á Alþingi um fjármál ríkisins. Fjármálaráðherra hefur lagt fram tvö lagafrumvörp, sem miða að slíku. Og ekki er vitað um neina fyrirstöðu gegn frumvörpunum á þingi.

Margoft hefur verið gagnrýnt, að fjárlagafrumvörp eru marklítil. Þau fjalla ekki um fjárhag ríkisins í heild. Til dæmis vantar í þau ótal liði, sem síðan koma í ljós í frumvörpum til lánsfjárlaga. Menn rífast því um fjárlagagöt, sem eru önnur en hin raunverulegu.

Sem dæmi. um markleysi fjárlagafrumvarpa má nefna, að síðasta frumvarpið vanmat tekjur ríkisins um meira en tvo milljarða og gjöldin um meira en fimm milljarða, lántökur um meira en þrjá milljarða og hallann um tæpa þrjá milljarða, allt samkvæmt skilgreiningu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.

Fjármálaráðuneytið gaf raunar til kynna í fylgiskjali með því frumvarpi, að stefnt væri að raunhæfari fjárlagafrumvörpum í framtíðinni. Þar var fjárlagagatið sett upp í stíl Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og þar komu fram ofangreindar upplýsingar um misræmi.

Nú á að stíga til fulls skrefið til skynseminnar. Samkvæmt hinum nýju frumvörpum virðist framvegis eiga að nota reglur Alþjóða gjaldeyrissjóðsins og hafa íslenzk fjárlög sambærileg við fjárlög annarra landa. Slík breyting hefur ótrúlega mikið tölfræðilegt gildi.

Ein veigamesta breytingin er, að lánsfjárlög falla inn í fjárlög. Yfirlit yfir lánaöflun og lánaráðstöfun verður í 1. grein fjárlaga. Og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun verður hluti af greinargerð með fjárlagaframvarpi hvers árs. Þannig fæst heildarmynd af dæminu.

Nú er ástandið hins vegar þannig, að fjárlagafrumvarpið varð að lögum fyrir síðustu jól, en lánsfjárlagafrumvarpið er enn í meðförum Alþingis og það þótt nærri fimm mánuðir séu liðnir af árinu, sem frumvarpið fjallar um. Að þessu leyti hefur ástandið aldrei verið verra.

Það verður því mikil og snögg breyting til bóta, ef Alþingi samþykkir nýju framvörpin tvö. Þá verður væntanlega búið fyrir næstu jól að fá á hreint fjárhagsáætlun ríkisins fyrir árið 1986, það er að segja nokkrum dögum áður en áætlunin á að taka lagalegt gildi.

Frumvörpin fela í sér, að framvegis muni fjárveitinganefnd Alþingis fjalla um lánsfjárlög sem hluta af fjárlögum. Það ætti að auðvelda meðferð málsins að fjalla þannig um það í heild í einni nefnd í stað tveggja áður. Þetta er spor í rétta átt.

Fleira er í frumvörpunum. Fjárreiður almannatrygginga flytjast úr B-hluta í A-hluta fjárlaga. Þar finnst einnig samastaður fyrir fjármál endurlána ríkissjóðs, sem hingað til hafa hreinlega verið í lausu lofti. Allar opinberar lánahreyfingar fara nú í fjárlögin.

Að þessum frumvörpum samþykktum verður hægt að ræða og rífast um af viti, hverjar séu og eigi að vera tekjur ríkisins og gjöld, lántökur og halli eða gróði. Umræða, sem hingað til hefur verið marklítil, getur orðið markvissari og færst nær raunveruleikanum.

Sum stjórnarfrumvörp þessa vetrar hafa ekki verið beysin. Þau mættu gjarna bíða afgreiðslu nú á síðustu dögum þingsins. Í staðinn mætti gefa forgang þessum tveimur ágætu frumvörpum fjármálaráðherra, svo að eitthvað varanlegt liggi eftir 107. löggjafarþingið.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vaxandi húsnæðisrugl.

Greinar

Alltaf er að koma betur í ljós, sem oft hefur verið haldið fram í leiðurum DV, að húsnæðisvandinn stafar af, að skortur er á peningum til ráðstöfunar. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og mikið af tillögum stjórnarandstöðunnar og hagsmunasamtaka forðast þessa staðreynd.

Við skulum líta á það, sem búið er að gera. 200 milljónir króna hafa verið látnar í aðstoð við fólk, sem hefur getað lagt fram svokölluð bónbjargarvottorð. 100 milljónir króna hafa verið notaðar til að lengja lán þeirra, sem byggt hafa á síðustu sex árum.

Þessar samtals 300 milljónir hafa verið fengnar með því að taka af því fé, sem átti að ráðstafa til nýrra húsnæðislána á þessu ári. Vandi þeirra, sem hafa verið að byggja, hefur verið mildaður á kostnað hinna, sem eru nýbyrjaðir eða hafa hug á að byrja að byggja.

Af því að þeir, sem hafa verið að byggja, eiga öflug og afar hávær hagsmunasamtök, en hinir, sem eru nýbyrjaðir eða hafa hug á að byrja, eiga engin slík, hafa hinar svokölluðu lausnir stjórnvalda verið þær, sem hér að ofan greinir. Og enn er heimtað meira af því tagi.

Ef haldið verður áfram í sama stíl, mun unga fólkið neita að taka þátt í sjálfseignarstefnunni og flykkjast í Búseta. Þess eru nú þegar skýr merki. Það verður dæmigerður minnisvarði um Sjálfstæðisflokkinn að hafa staðið fyrir þessu skyndilega andláti sjálfseignarstefnunnar.

Ekki er allt greindarlegra, sem stjórnarandstaðan hefur fram að færa. Alþýðuflokkurinn vill til dæmis höggva í sama knérunn og búa til peninga. Hann vill taka peninga, sem nú eru notaðir í annað, án þess að gera nokkra grein fyrir, hvernig eigi þá að fjármagna þetta annað.

Alþýðuflokkurinn á það sameiginlegt með mestum hluta stjórnarandstöðunnar og ríkisstjórnarfarganinu öllu að vilja haga sér eins og einhver Alexander. Sú hegðun felst í að játa allri kröfugerð og færa síðan til peninga án þess að gera nokkra tilraun til að leysa málið.

Látum það gott heita, sem búið er að gera. Lenging húsnæðislána um mismun vísitalna og kaupgreiðslu og lánskjara var út af fyrir sig sanngjörn aðgerð. Lífeyrissjóðir og bankar munu að eigin frumkvæði feta hliðstæða leið eins og þegar hefur komið fram í fréttum.

Til viðbótar vilja þeir, sem hafa byggt, að vextir verði lækkaðir. Vel getur verið, að ástæða sé til að greiða niður vexti til húsnæðislána í meira mæli en nú er gert, ef það yrði til að bjarga sjálfseignarstefnunni. En þeir eru nú aðeins 4% meðan útlendir vextir eru 10%.

Hitt er svo ljóst af reynslunni, að frekari niðurgreiðsla á húsnæðisvöxtum yrði framkvæmd með því að taka peninga frá þeim, sem eru nýbyrjaðir að byggja eða hafa hug á að byrja á því. Með því að minnka vandann öðrum megin yrði hann stærri hinum megin og heildarsumman óbreytt.

Af reynslunni í fyrra var ljóst þegar í haust sem leið, að ráðagerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum voru vægast sagt hreint rugl. Þar var gert ráð fyrir peningum, sem allir vissu, að voru ekki til. Og enn hefur ekki fundizt ein einasta króna til úrbóta.

Ruglið er orðið svo útbreitt og algert í heimi stjórnmálanna, að menn setja í senn fram tillögur um nýja skatta og aukinn skattaafslátt til bjargar málunum. Það verður á einhverju slíku plani sem stjórn og stjórnarandstaða geta mætzt í hinni stórfenglegu firringu sinni, – alexanderskunni.

Jónas Kristjánsson.

DV

Mesta afturhaldsfrumvarpið.

Greinar

Landbúnaðarfrumvarpið nýja, sem ríkisstjórnin hefur lagt fyrir Alþingi, er ekki búið til í samráði við samtök neytenda eða skattgreiðenda. Það er ekki búið til í samráði við samtök launþega eða atvinnurekenda. Ótal samtök og stofnanir landbúnaðarins komu hins vegar við sögu.

Frumvarpið er samið af nefnd alþingismanna úr Framsóknarflokkunum tveimur, sem mynda ríkisstjórn. Allir eru þeir nema einn fulltrúar landbúnaðarins úr sveitakjördæmum. Aðeins einn þeirra er af Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu. Niðurstaðan hlaut að verða afturhald.

Frumvarpið grunnmúrar skipulagshyggjuna, sem hefur gert hinn hefðbundna landbúnað að dýrara fyrirbæri hér á landi en herinn er í öðrum löndum. Njörvað er niður, að ríkið beri hér eftir sem hingað til ábyrgð á landbúnaðinum og eigi að sjá honum fyrir tekjum.

Fimm manna og sex manna nefndir eiga að reikna verð á landbúnaðarafurðum til vinnslustöðva og frá þeim. Þetta á ekki að gera í samræmi við nein markaðslögmál, heldur eftir tilkostnaði. Verðlagningin verður þannig sjálfvirk og hvergi verður neinn framleiðnihvati.

Í frumvarpinu er ákveðið, að Stéttarsamband bænda og helzti umboðsmaður hins hefðbundna landbúnaðar, það er landbúnaðarráðherra, semji um, hvert búmark skuli vera. Þessir tveir aðilar eiga þannig að ákveða, hve langt ábyrgð ríkisins eigi að ganga. Það verður langt.

Frumvarpið staðfestir hina skaðlegu stefnu beggja Framsóknarflokkanna í ríkisstjórn, að hinn hefðbundni landbúnaður megi einn sitja að framleiðslu afurða fyrir innanlandsmarkað og það á verði, sem nemur í flestum tilvikum margföldu ef ekki tíföldu heimsmarkaðsverði.

Frumvarpið staðfestir þá bölvun, að ofan á þetta megi hinn hefðbundni landbúnaður framleiða afurðir umfram innanlandsmarkað og gefa þær til útlanda á kostnað ríkissjóðs. Þessi blóðtaka á þó samkvæmt frumvarpinu að minnka úr 9% í 4% af heildarframleiðslunni á 5 árum.

Ekki er samt ætlunin að spara skattgreiðendum mismuninn. Hann á að renna í sjóð, sem ranglega er nefndur Framleiðnisjóður landbúnaðarins. Þeim sjóði er ætlað að koma til hjálpar skuldugustu bændunum og kosta tilraunir til að koma búvöru á erlendan offramleiðslumarkað.

Í þennan framleiðni-hindrunarsjóð á líka að renna hluti af sérstöku fóðurgjaldi í innflutningi. Þetta gjald er notað til að herða miðstýringuna í landbúnaði. Til dæmis á það að koma fyrir kattarnef sjálfstæðum iðnrekendum í eggjum og alifuglum og gera hinum kleift að hækka verðið.

Frumvarpið tekur sérstaklega fram, að áfram skuli jafnað verði í landbúnaði, svo að mönnum sé sama, þótt lambakjöt sé framleitt í Mosfellssveit og neyzlumjólk við Lómagnúp. Þessa verðjöfnun eiga neytendur áfram að borga og hún kostar auðvitað stórfé.

Með frumvarpinu er sérstaklega reynt að hindra, að aukið frelsi í grænmetisverzlun gangi lengra en orðið er. Framleiðsluráði landbúnaðarins er veittur nýr réttur til að stöðva innflutning grænmetis. Og við vitum, að Framleiðsluráð gengur alltaf út á yztu nöf.

Framsóknarfrumvarp stjórnarflokkanna hróflar ekki við glæpsamlegu kerfi niðurgreiðslna, styrkja og sjálfvirkrar fjárfestingar í hefðbundnum landbúnaði. Það er afturhaldssamasta frumvarpið á þingi. Verði það að lögum, mun það kosta þjóðina marga milljarða á hverju ári.

Jónas Kristjánsson.

DV

Sólarlag og -upprás.

Greinar

Vonlitlar tilraunir viðskiptaráðherra til að fá felldan niður portúgalska saltfisktollinn, sem koma á til framkvæmda við inngöngu Portúgals í Efnahagsbandalag Evrópu, eru dæmi um varnarstríð, sem víða um heim er háð gegn vaxandi afli innilokunar- og verndarstefnu.

Bandaríkjastjórn tók forustu í vörninni fyrir fríverzlun á fundi æðstu manna helztu iðnríkja hins vestræna heims, sem haldinn var í Bonn á dögunum. En Reagan forseti komst því miður ekkert áfram með málið vegna harðrar andstöðu Mitterrand Frakklandsforseta.

Ráðamenn Japans, Vestur-Þýzkalands, Bretlands, Ítalíu og Kanada hölluðust að hinni bandarísku tillögu um vestræna ráðstefnu um verzlunarfrelsi á næsta ári, eins konar nýja Bretton Woods. Mitterrand heimtaði hins vegar, að fyrst yrði fest gengi gjaldmiðla.

Frakkland hefur öldum saman verið land skriffinnsku og miðstýringar. Þar eru ráðamenn dauðhræddir við allt, sem ekki er skipulagt að ofan. Og þeir eru dauðhræddir við, að ódýr vöruinnflutningur, til dæmis frá Japan, drepi í dróma hliðstæða framleiðslu í Frakklandi.

Þessi ótti blundar einnig undir niðri í öðrum löndum. Verst er, að tregðan við að koma á nýrri ráðstefnu um aukið verzlunarfrelsi mun nú gefa innilokunar- og verndaröflum í Bandaríkjunum byr undir báða vængi. Þar veina nú þrýstihópar í hverju horni.

Vítahringurinn er sá, að í einu ríki reiðast menn verndaraðgerðum annars ríkis. Settar eru upp hindranir í götu innflutnings. Það leiðir svo aftur til gagnaðgerða hins ríkisins. Áður en menn vita af, er skollið á viðskiptastríð, sem allir aðilar tapa.

Í flestum ríkjum eru hagsmunir hefðbundinna atvinnugreina vel skipulagðir. Ef Japanir eða aðrir ógna þessum greinum með framboði á betri og ódýrari vöru, rísa þrýstihópar hinna hefðbundnu sólarlagsgreina upp á afturfæturna og knýja stjórnvöld til gagnaðgerða.

Hagsmunir notenda eru hins vegar illa skipulagðir. Ráðamenn taka ekki eftir, að hinn ódýri innflutningur bætir kjör notenda. Hann lækkar útgjöld þeirra og heldur niðri verðbólgu í landinu. Þar að auki geta margir framleiðendur lækkað verð með notkun innfluttra vöruþátta.

Ekki stangast aðeins á hagsmunir notenda og sólarlagsgreina. Verndarstefnan veldur því einnig, að hagsmunir sólarupprásargreina verða að víkja fyrir hinum hefðbundnu greinum, sem hafa gróinn þrýstimátt. Fjármagn og vinnuafl haldast í úreltum atvinnugreinum.

Dæmin um þetta eru mörg á Vesturlöndum, stálið á meginlandi Evrópu og kolin í Bretlandi. Útbreiddasta dæmið er þó hinn hefðbundni landbúnaður. Þrýstihópum hans í Efnahagsbandalagi Evrópu hefur tekizt að veita meirihluta fjármagns þess í farveg verndarstefnu.

Þetta kemur niður á okkur, þegar við erum að reyna að selja saltfisk til Portúgal. Þetta kemur almennt niður á okkur, af því að helmingur þjóðarframleiðslu okkar er notaður til utanríkisviðskipta. Við ættum því að vera fremstir í flokki frelsisstefnu í viðskiptum milli ríkja.

Því meira sem tollum og öðrum hömlum er eytt, þeim mun ódýrara verður fyrir fólk að lifa. Og þeim mun fljótar taka atvinnugreinar sólarupprásar við af greinum sólarlags. Þeim mun líklegra er, að unga fólkið vilji lifa í þessu landi í framtíðinni.

Veigamest er að leggja niður höft og tolla á innfluttum landbúnaðarafurðum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vanhæfni og valdafíkn.

Greinar

Landbúnaðarráðuneytið hefur með aðstoð þingmanna stjórnarflokkanna tafið íslenzka álarækt um heilt ár. Ráðherra þess hefur vanrækt að leggja fyrir Alþingi tíu orða breytingu á fiskeldislögum, er heimili innflutning gleráls eins og fisksjúkdómanefnd lagði til fyrr á árinu.

Ráðgert hafði verið að nota stórstraumsflóðið 5. maí síðastliðinn til að ná glerálseiðum í Bristol-flóa á Bretlandi. Það flóð hefur nú farið forgörðum og ekki verður unnt að ná seiðum fyrr en á næsta vori. Ef landbúnaðarráðuneytið verður þá búið að taka við sér.

Minnstu munaði, að svipað slys yrði um daginn í utanríkisráðuneytinu. Sofandaháttur embættismanna tafði afgreiðslu heimildar handa Orkustofnun til þyngdaraflsmælinga á kostnað landmælingadeildar bandaríska hersins. Við lá, að málið dytti út af bandarískum fjárlögum.

Þetta er verkefni, sem kostar um 1,4 miljónir króna. Það skapar mikla vinnu á samdráttarskeiði hjá Orkustofnun og flytur hátækniþekkingu inn í landið. Ef málinu hefði ekki verið bjargað fyrir horn, hefði fjármagnið farið til hliðstæðra mælinga við Amazonfljót.

Á síðustu stundu tókst sendimönnum Bandaríkjastjórnar að vekja athygli utanríkisráðherra og orkuráðherra á, að mál þetta var búið að liggja týnt og grafið í utanríkisráðuneytinu mánuðum saman. Með sameinuðu átaki ráðherranna tókst að snúa upp á hendur embættismannanna.

Þessi tvö dæmi benda til, að vanhæft fólk sitji víða á valdastólum í embættismannakerfinu, fólk, sem ekki gæti unnið fyrir sér í atvinnulífinu. Þetta þarf ekki að koma neinum á óvart, því að verulegur skortur er á aðhaldi í rekstri opinberra stofnana.

Orkuráðherra hefur látið óháða sérfræðinga fara ofan í saumana á rekstri stofnana á borð við Rafmagnsveitur ríkisins og Orkustofnun. Ekki er síður nauðsynlegt, að hliðstæð úttekt verði gerð á sjálfum ráðuneytunum, valdamiðju hins opinbera stjórnsýslukerfis.

Fleiri dæmi eru um vandamál í kerfinu. Á listum fimm ráðherra yfir mál, sem þeir vilja, að Alþingi afgreiði fyrir sumarið, eru sjö frumvörp, sem ekki höfðu enn séð dagsins ljós um síðustu helgi. Embættismönnunum hafði ekki tekizt að leggja síðustu hönd á verkin.

Þetta getuleysi er þeim mun alvarlegra fyrir þá sök, að embættismennirnir eru sífellt að verða valdameiri. Þeir eru stöðugt að semja frumvörp, sem efla tök þeirra á stóru og smáu. Og þingmenn stjórnarflokka samþykkja þessi frumvörp yfirleitt orðalaust.

Í fyrravor var vakin rækileg athygli í fjölmiðlum á, að frumvarp um fjarskipti stefndi að auknum völdum Pósts og síma, á sama tíma og dregið væri úr þeim í öðrum löndum. Þingmenn stjórnarflokkanna tóku ekkert mark á þessum ábendingum og samþykktu frumvarpið snarlega.

Nú hefur í landbúnaðarráðuneytinu verið samið frumvarp um fiskeldi. Það er svo harkalegt, að segja má, að það feli í sér hreinan ríkisrekstur á öllu fiskeldi hér á landi. Og þetta er einmitt ráðuneytið, sem í aldarfjórðung hefur hamazt við að halda niðri fiskeldi í landinu.

Tímabært er orðið, að stjórnmálamenn hefji markvisst andóf gegn tilraunum vanhæfra embættismanna til að auka völd sin. Stofnanir þeirra verði látnar sæta rekstrarúttekt. Og frumvörp þeirra verði hreinsuð ákvæðum, sem hneppa þjóðfélagið í fjötra stofnanaveldisins.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eymd Alþingis.

Greinar

Forsætisráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um afnám verðbóta á laun. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Utanríkisráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um tollfrjálsar verzlanir á Keflavíkurflugvelli. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Viðskiptaráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið tvö frumvörp um Seðlabankann og sparisjóði. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt þessi frumvörp fram á Alþingi.

Fjármálaráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um skráningargjald bíla. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt það fram á Alþingi.

Landbúnaðarráðherra hefur óskað eftir, að Alþingi samþykki fyrir sumarið frumvarp um framleiðsluráð og annað um breytingu á jarðræktarlögum. Hann hefur hins vegar ekki enn lagt þessi frumvörp fram á Alþingi.

Nú er aðeins eftir vika af hefðbundnum starfstíma Alþingis. Tiltölulega skammt er síðan ljóst varð, að frumlengja þyrfti þingstörf fram í júní. Þegar ofangreind frumvörp voru í vinnslu í ráðuneytum, var ekki vitað um þann gálgafrest. Þau eru því dæmi um vítavert sinnuleysi ráðherra og helztu embættismanna þeirra.

Jafnvel þótt Alþingi kunni nú að hafa um fjórar vikur til að ræða þessi frumvörp af óskalistum ráðherranna, er það of stuttur tími. Þau þarf að ræða í nokkrum umræðum í báðum deildum Alþingis og þingnefndir þurfa að leita umsagna úr ýmsum áttum.

Niðurstaðan verður hin sama og oftast áður. Eftir mikinn hægagang í allan vetur fer allt á hvolf á Alþingi fyrir lokin. Þar leggja menn nótt við dag til að afgreiða óskalistana án þess að vita, hvað frumvörpin fela í sér.

Einu sinni varð að setja bráðabirgðalög um gildistöku laga, af því að í æðibunuganginum gleymdist að setja um hana ákvæði í frumvarpið. Það er ekki von, að Alþingi njóti virðingar, þegar ráðherrar fara svona með það.

Ríkisstjórnin er ekki ein um að draga Alþingi niður í svaðið. Stjórnarandstaðan, einkum Alþýðubandalagið, spillir vinnufriði þess með sífelldum upphlaupum. Hver dægurflugan á fætur annarri er tekin upp í umræðum utan dagskrár og jafnvel í umræðum um dagskrá. Þannig eru heilu dagarnir eyðilagðir.

DV hefur nokkrum sinnum mælt til gamans samanlagðan ræðutíma þingmanna. Komið hefur í ljós, að nokkrir þingmenn tala þindarlaust, einkum í dægurbundnum upphlaupsmálum. Þetta eru foringjar stærstu stjórnarandstöðuflokkanna.

Einnig hefur komið í ljós, að sumir ímynda sér, að mælingar af þessu tagi feli í sér hrós um málskrafsskjóðurnar. Einn þingmaður hélt því fram í hringborðsumræðu á síðum DV og sömuleiðis doktorsefni í Exeter. Þarf þó nokkra einfeldni til að komast að slíkri niðurstöðu.

Ýmislegt fleira stuðlar að vanvirðu Alþingis. Til dæmis hefur síðari hluti fjárlaga, hin svonefndu lánsfjárlög, enn ekki verið afgreiddur á Alþingi, þátt þriðjungur ársins og þar með þriðjungur gildistímans sé þegar liðinn. Þetta er mun hægari gangur en áður hefur tíðkazt.

Og nú síðast eru þingmenn farnir að leika sér að því að vera í útlöndum og biðja þingforseta að taka ekki fyrir ákveðin mál á meðan. Einnig í þessu láta þingforsetar og þingmenn vaða yfir sig.

Jónas Kristjánsson.

DV

Vitlaust viðskiptabann.

Greinar

Ef raunsær maður mætti velja um búsetu í Mið-Ameríku, sunnan Mexíkó, er lítill vafi á, að niðurstaðan yrði Nicaragua. Þótt stjórnin þar sé sögð höll undir Moskvu, er staðreyndin samt sú, að hvergi í þessum heimshluta er almenningur öruggari um líf sitt og limi fyrir stjórnvöldum.

Í grannríkjum Nicaragua, þar sem skjólstæðingar Bandaríkjastjórnar eru við völd, sætir almenningur ofsóknum dauðasveita á vegum hers eða lögreglu. Alvarlegast hefur ástandið lengi verið í El Salvador og þar halda morðin áfram, þótt miðjumaðurinn Duarte sé forseti.

Mildin er svo miklu meiri í Nicaragua, að dauðarefsing hefur verið afnumin. Og ekki hefur verið efnt til neinna fjöldaréttarhalda gegn hinum hötuðu varðhundum einræðisherrans Somoza, sem hrökklaðist frá völdum eftir sérstaklega blóðugan og óhugnanlegan feril.

nýlega héldu samtök stórbænda og kaupsýslumanna fund í Managua, höfuðborg Nicaragua. Þar var ríkisstjórn landsins fordæmd fyrir kommúnistastefnu og flokkur sandinista fyrir að hafa svikið forsendur byltingar ársins 1979. Fundarmenn fengu í friði að tala frjálslega.

Þar með er ekki sagt, að lýðræði ríki í Nicaragua. Stjórnin þolir gagnrýni illa. Óháða blaðið La Prensa, sem áður var í fararbroddi andófsins gegn Somoza, gegnir nú sama hlutverki gagnvart sandinistum. Blaðið er stranglega ritskoðað og kemur út með höppum og glöppum.

Stjórn Reagans Bandaríkjaforseta ber töluverða ábyrgð á hægfara göngu Nicaragua í átt til einræðis kommúnista. Reagan hefur frá upphafi ofsótt stjórn sandinista og óafvitandi róið öllum árum að því að varpa Nicaragua í faðm ríkisstjórnanna í Moskvu og Havana.

Ofsóknir Reagans hafa þjappað íbúum Nicaragua um stjórn sandinista. Reagan hefur dælt fé í hina óvinsælu uppreisnarmenn, Contras, sem eru að verulegu leyti undir stjórn gamalla glæpamanna úr liði Somozas. Sjálfur herstjórinn er hinn illræmdi Enrique Bermúdez.

Furðulegt er, hvernig ríkisstjórnir í Bandaríkjunum hafa tilhneigingu til að styðja versta glæpalýðinn í löndum Rómönsku Ameríku. Somoza var skjólstæðingur Bandaríkjanna á sínum tíma, eins og löng röð einræðisherra allar götur til Pinochet, sem nú kvelur íbúa Chile.

Þegar hálfbilaðir herforingjar komast til valda í Rómönsku Ameríku, er eins og allar flóðgáttir fjármagns opnist í Bandaríkjunum. Þessar lindir þorna síðan, þegar lýðræðissinnar komast á ný til valda. Argentína er skólabókardæmi um smánarlega afstöðu Bandaríkjastjórna.

Að undanförnu hefur fulltrúadeild Bandaríkjaþings unnið sér það til hróss að hafa í hverri atkvæðagreiðslunni á fætur annarri hafnað tillögum Reagans forseta um 14 milljón dollara aðstoð við uppreisnarmenn somozista. Þetta sýnir, að þar hafa margir dýpri skilning en Reagan.

Stjórnvöld Bandaríkjanna hafa látið koma fyrir sprengjum í höfnum Nicaragua og valdið landinu á margvíslegan annan hátt um 400 milljón dollara tjóni. Þetta stuðlar, eins og áróðurshríð Reagans, að sífellt tíðari ferðum Ortega til Moskvu að sækja fé og hvatningu.

Nú síðast hefur Reagan sett Nicaragua í viðskiptabann. Öllum má ljóst vera, að með því flýtir hann för landsins í búðir leppríkja Sovétríkjanna. Enda höfnuðu allir aðrir leiðtogar vestrænna ríkja þessari firru hans, sem kom fram á toppfundinum í Bonn fyrir helgina.

Jónas Kristjánsson.

DV

Góðar hliðar huldufrumvarps.

Greinar

Úti í bæ hefur án afskipta Alþingis verið samið frumvarp til nýrra laga um Framleiðsluráð landbúnaðarins. Frumvarpið hefur verið til opinberrar umræðu hjá ýmsum helztu valdastofnunum þjóðfélagsins, svo sem Stéttarsambandi bænda og Mjólkursamsölunni.

Áður en hægfara afnám þingræðis hófst, voru frumvörp ekki samin úti í bæ og ekki rædd á fundum úti í bæ, áður en þingmenn fengu að sjá þau. Þá fjölluðu þingnefndir um frumvörpin og fengu um þau greinargerðir frá aðilum úti í bæ, þar á meðal hagsmunaaðilum.

Í þessu tilviki virðist ætlunin að sýna frumvarpið ekki á Alþingi fyrr en búið er að slípa það í meðförum hagsmunaaðila. Síðan er Alþingi sem afgreiðslustofnun og atkvæðavél fyrir ríkisstjórnina ætlað að leggja blessun sína yfir niðurstöðuna.

Þrátt fyrir þessa annmarka er sitthvað gott við utanalþingisfrumvarpið. Það má meðal annars sjá af andmælum Mjólkursamsölunnar, sem “varar alvarlega við lögfestingu” þess. Það hlýtur að vita á gott, þegar kveinstafir heyrast frá þrælahöldurum landbúnaðarins.

Hingað til hefur hið sjálfvirka fyrirgreiðslukerfi í landbúnaði miðað að eflingu vinnslustöðvanna. Þær hafa fengið peningana í veltuna og borgað bændum eftir dúk og disk. Þær hafa verið með sitt á hreinu og þrælarnir uppi í sveitum hafa síðar fengið ruðurnar.

Samkvæmt huldufrumvarpinu eiga vinnslustöðvarnar hér eftir að staðgreiða bændum. Þær eiga að greiða bændum um hver mánaðamót fyrir innlagða mjólk og ekki síðar en 10. desember fyrir sláturfé að hausti. Þetta þykir vinnslustöðvunum auðvitað afleitt.

Annað atriði, sem fer fyrir brjóstið á þrælahöldurunum, er, að frumvarpið gerir ráð fyrir afnámi einokunar í vinnslu og dreifingu afurða landbúnaðarins. Hver sem er má koma upp mjólkurbúi eða sláturhúsi og til dæmis selja mjólk á núverandi eignarsvæði Mjólkursamsölunnar.

Þetta er auðvitað hræðileg tilhugsun, en veldur andvöku í undanrennumusterinu við Bitruháls, sem reist er á kostnað bænda og neytenda. Verður kannski næst bannað að undirbjóða keppinauta í brauði og safa með því að láta hluta kostnaðarins koma fram í mjólkurverði?

Ennfremur er til bóta í frumvarpinu, að gert er ráð fyrir, að vald verði flutt frá landbúnaðarforstjórum Framleiðsluráðs til ráðuneytisins, þar sem það á heima. Of lengi hefur Framleiðsluráð sem sjálfseignarstofnun ráðskazt með hluta ríkisvaldsins.

Samt væri enn meiri þörf á að semja lagafrumvarp um flutning valds frá Búnaðarfélagi Íslands til ríkisvaldsins. Páll Líndal benti nýlega í greinargerð á, að ríkið væri meira eða minna valdalaust í málum landbúnaðarins gagnvart stofnunum úti í bæ.

Samkvæmt framvarpinu á ennfremur að breyta því óeðlilega ástandi, að Grænmetisverzlun landbúnaðarins sé ríkiseign, þegar hún vill ekki borga skatta, en eign Framleiðsluráðs landbúnaðarins, þegar hún og ráðið vilja hafna afskiptum ríkisvaldsins.

En ekki er verið að leggja niður neina einokun, þótt Grænmetisverzlunin verði seld garðyrkjubændum. Neytendur og kaupmenn verða hér eftir sem hingað til að berjast fyrir frjálsri verzlun með grænmeti.

Og svo er ekki einu sinni víst, að Alþingi fái að sjá frumvarpið og leggja blessun sína yfir það.

Jónas Kristjánsson.

DV

Eitt skref af nokkrum.

Greinar

Athyglisvert samstarf ríkisstjórnarinnar og Alþýðusambands Íslands hefur leitt til lagafrumvarps, sem miðar að jafnri greiðslubyrði húsnæðislána. Samkvæmt því á greiðslubyrðin ekki að aukast, heldur á lánstíminn að lengjast, þegar kaupgeta fólks minnkar.

Reynt verður að láta frumvarpið verða að lögum, áður en þingi verður slitið í vor. Það á að gilda aftur á bak, um húsnæðislán, sem tekin hafa verið síðan 1979, og fela í sér jöfnun fyrir tímabilið eftir 1. mars 1982, þegar kaupgetan byrjaði að minnka.

Þessi leið, sem Alþýðusambandið og margir fleiri aðilar hafa mælt með, er hreinlegri og heppilegri en hugmyndin um skattaafslátt, sem kom frá hópi áhugafólks um húsnæðismál og hefur verið töluvert til umfjöllunar í félagsmálaráðuneytinu síðustu vikurnar.

Frumvarpið er þó engin allra meina bót. Það nær til dæmis aðeins til lána Húsnæðisstofnunar, en ekki til lána lífeyrissjóða eða banka. Þessir aðilar verða beðnir um að gera slíkt hið sama, en ekki er tryggt, að þeir hlýði. Lífeyrissjóðir eru þá byrjaðir að lengja lán.

Mikilvægt hlýtur að teljast, að ríki, lífeyrissjóðir og bankar geti hagað málum svo, að þeir, sem tekið hafa íbúðalán á undanförnum árum, búi við sömu greiðslubyrði og þeir gerðu ráð fyrir í upphafi og fái jafnframt endurbættar umframgreiðslur liðins tíma.

Um leið verður að hafa í huga, að lenging lána þeirra, sem hafa byggt eða keypt, er óbeint á kostnað þeirra, sem eru að byrja eða ætla að byrja. Lengingin skerðir ráðstöfunarfé Húsnæðisstofnunar, lífeyrissjóða og banka. Hún minnkar féð, sem handbært verður til nýrra lána.

Í þessu efni sem svo mörgum öðrum munu ráðamenn reka sig á, að brýnni er þörfin á peningum en lagabálkum. Greinar á pappír geta ekki komið í staðinn fyrir fé. Með millifærslum er unnt að lina þjáningar eins þrýstihópsins, en þá aðeins á kostnað annarra.

Komið hefur í ljós, að minnkað hefur kjarkur fólks, sem er á helzta íbúðakaupaaldrinum, 22-32 ára. Til skamms tíma var helmingur íbúðakaupenda á þessum aldri. En þeim hefur farið ört fækkandi það sem af er níunda áratugnum. Í staðinn flykkist unga fólkið í Búseta.

Ef ráðamenn vilja viðhalda sjálfseignarstefnunni, sem hefur gert 80-85% af ungu fólki kleift að komast yfir eigin íbúð, er nauðsynlegt að verja meira fé til húsnæðismála, svo að veita megi hærri og lengri lán. 80% lán til 40 ára er gamalkunnur draumur.

Unnt er að minnka þessa viðbótarfjárþörf með því að veita sérstaka fyrirgreiðslu þeim, sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, og þá á kostnað hinna, sem eru að skipta yfir í stærra húsnæði. Fremur þarf að hjálpa fólki að stíga fyrstu skrefin en hin síðari.

Einnig er unnt að spara fé með því að leggja meiri áherzlu á lán til kaupa á notuðu húsnæði og til endurbóta á notuðu húsnæði. Þjóðin býr að meðaltali í 20 ára gömlu húsnæði, svo að úrelding ætti ekki að þurfa að vera mikil. Og þar að auki fjölgar þjóðinni mun hægar en nýjum íbúðum.

Frumvarpið um jöfnun á greiðslubyrði húsnæðislána undanfarinna ára er skynsamlegt skref til viðreisnar íbúðalánakerfisins. En það er aðeins eitt skref af nokkrum, sem stíga þarf. Ríkisstjórnin má engan veginn halda, að hún hafi leyst málið og megi sofna á verðinum.

Jónas Kristjánsson.

DV

Bannað að afla gjaldeyris.

Greinar

Sérkennilegt er, að leifar haftastefnunnar skuli vera svo heilagt mál, að helztu foringjar Sjálfstæðisflokksins mega ekki heyra minnzt á afnám þeirra. Þótt innflutningur hafi verið gefinn frjáls, vill kerfið enn halda dauðahaldi í haftabúskap í útflutningi.

Hví skyldi vera reynt að hamla gegn, að aflað sé gjaldeyris með útflutningi? En það er einmitt gert með því að hafa útflutning háðan leyfum og með því að neita leyfum til þeirra, sem hafa nýjar hugmyndir í útflutningi sjávarafurða og afurða landbúnaðarins.

Athyglisvert er, hversu ákaft Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn vernda kerfi útflutningshafta. Það liggur beint við að álykta, að þeir séu að vernda sölustofnanir, sem standa þeim nærri. Og engum kemur raunar á óvart, þótt Framsókn standi vörð um SÍS.

Þegar imprað er á þessu, er helzta vörnin, að fyrir fjölmörgum áratugum hafi íslenzkir aðilar boðið afurðir niður hver fyrir öðrum. Eina leiðin hafi verið að smala þeim saman í samtök, svo að þeir gengju ekki hver af öðrum dauðum. Og þessar stofnanir lifa enn.

Samt virðist vera unnt að stunda samkeppni á öðrum sviðum útflutnings en í hinum hefðbundnu greinum sjávarútvegs og landbúnaðar. Ekki stunda ullar- og skinnavöruútflytjendur nein bræðravíg, né heldur þeir, sem flytja út ferskan fisk í gámum, svo dæmi séu nefnd.

Af hverju eiga sölustofnanir, sem sitja í skjóli meiri eða minni einokunar, að ákveða, að þær geti nýtt betur markaðinn í útlöndum á auðveldari og ódýrari hátt en aðrir? Og að þær hafi sterkari aðstöðu en aðrir í baráttunni við erlenda samkeppnisaðila?

Ekki voru það SH eða SÍS, sem fundu upp á útflutningi á ferskum fiski með kaupskipum og flugvélum. Ekki voru það SH eða SÍS, sem stóðu fyrir hinni miklu aukningu á gæðum, sem er forsenda þessa útflutnings og ýmiss annars framtaks í útflutningi sjávarafurða.

Sverrir Hermannsson iðnaðarráðherra sagði einu sinni, að sölusamtökin væru “löngu frosin föst í starfsemi sinni” og hefðu “ekkert aðhafzt til þess að afla nýrra markaða, varla lyft hendi til þess að finna markaði fyrir nýja vöru, til dæmis kúfisk”.

Sverrir hefur sjálfsagt ekki reynt að fara með löndum í þessum ummælum. Og auðvitað má margt gott um sölusamtök segja. Til dæmis hefur Síldarútvegsnefnd ríkisins jafnan haft tiltrú í sinni grein. En slíkt dæmi sannar ekki neitt um hið almenna ástand.

Tekið hefur verið eftir, að SH og SÍS hafa náð mun hærra verði en helztu keppinautarnir á frystum fiski í Bandaríkjunum. Ennfremur vita menn, að Færeyingar hafa treyst SH fyrir sínum útflutningi. En þetta eru engin rök fyrir því, að engir aðrir spreyti sig.

Ung fyrirtæki í útflutningi sjávarafurða hafa staðið sig vel á undanförnum árum. Af handahófi skulu nefnd Ístros, Íslenzka útflutningsmiðstöðin, Triton, Seifur, Íslenzka umboðssalan og Fiskafurðir. Fleiri gætu komið til skjalanna, ef höftin væru látin niður falla.

Frægt er, að mörgum sinnum hafa íslenzkir aðilar náð mun hærra verði á lambakjöti í útlöndum en SÍS hefur samið um. Í hvert einasta sinn hefur verið neitað um leyfi. Þetta er eitt skýrasta dæmið um, að frelsið er betra en höftin, líka í útflutningi íslenzkra afurða.

Jónas Kristjánsson.

DV