Greinar

Þríhöfða þursinn.

Greinar

Í ævintýrum eru algengar frásagnir af þursum, sein höfðu þá náttúru, að væri af þeim höggvinn hausinn, þá spruttu jafnskjótt þrír hausar í staðinn. Slíkt ævintýri á nú að gerast hjá þursanum Framkvæmdastofnun ríkisins samkvæmt þremur nýjum lagafrumvörpum ríkisstjórnarinnar.

Í stað Framkvæmdastofnunar ríkisins eiga samkvæmt frumvörpunum að koma Byggðastofnun, Framkvæmdasjóður Íslands og sérstakt fyrirbæri, sem er nafnlaust, af því að stjórnarflokkarnir gátu ekki komið sér saman um, hvort heita ætti Þróunarsjóður eða Þróunarfélag.

Samkvæmt frumvörpunum er ekki gert ráð fyrir, að lögð verði niður nein starfsemi, sem nú er á vegum Framkvæmdastofnunar. Ekki er einu sinni vikið að dæmum um slíkt í greinargerðunum, sem fylgja. Þvert á móti er gert ráð fyrir auknum umsvifum eins og hjá þursum ævintýranna.

Stærsti hausinn af hinum þremur nýju er Byggðastofnun, sem á að taka við Byggðasjóði, svo og áætlanadeild og lánadeild gamla þursins. Samkvæmt opinberri hefð á Íslandi fylgir þessu nafnbreyting. Áætlunardeild verður áætlunargerð og lánadeild verður lánastarfsemi.

Auk þess á hin nýja stofnun að fá ný verkefni, því að ofangreind atriði eru bara “hluti” af fyrirhugaðri starfsemi þessa hauss þursans. Ekki kemur þó fram, hver þau verkefni skuli vera, enda talið heppilegast að takmarka sem minnst vaxtarmöguleika haussins.

Enda er mikið í húfi. Byggðastofnun á ekki að sporna gegn, heldur beinlínis “koma í veg fyrir”, að “óæskileg” byggðaröskun eigi sér stað. Þetta á að gerast með lánum, ábyrgðum og óafturkræfum framlögum. Hið síðasta er stofnanamál og þýðir styrkir á íslenzku.

Til að koma í veg fyrir byggðaröskun á stofnunin að hafa til ráðstöfunar, og það verðtryggt, 0,5% af þjóðarframleiðslu hvers árs. Núna mundi þetta nema 385 milljónum króna, ef standast spár um þjóðarframleiðslu ársins. Þetta skilst bezt í samanburði við þriðja hausinn.

Hinn nafnlausi þróunarsjóður eða -félag á að fá hjá ríkinu, ekki í styrk, heldur að láni, 200 milljónir króna, ekki árlega og verðtryggt, heldur í eitt skipti fyrir öll. Enda á örverpið að kosta göngu þjóðarinnar inn í tölvuöld og annað slíkt, sem raskað gæti byggð.

Stærð miðhaussins er svo einhvers staðar á milli hinna tveggja, sem þegar hefur verið sagt frá. Framkvæmdasjóður á að taka við hlutverki Mótvirðissjóðs og annars sjóðs, sem raunar heitir Framkvæmdasjóður. Á því sviði virðist hafa gleymzt að skipta um nafn.

Í heild má segja, að hinn þríhöfða þursi sé verðugur árangur af markvissum og þrautseigum undirbúningi helztu vitringa stjórnarflokkanna. Myndast nú góðir möguleikar á frekari útþenslu í atvinnu hjá ríkinu, betri en núna eru í gamalli Framkvæmdastofnun.

Þá marka frumvörpin þrjú þá grunnmúruðu stefnu, að ríkið skuli fara með fjármagn þjóðarinnar til að tryggja, að það lendi í sem minnstum mæli í greinum, sem horfa til framtíðar, og í sem mestum mæli í greinum, sem horfa til gullaldar fyrri tíma.

Stjórnarflokkarnir tveir vita vel, eins og raunar fleiri stjórnmálaflokkar, að framtíðin er óvisst og hættulegt fyrirbæri, sem ber að forðast, en fortíðin er traust og örugg. Í faðm hennar liggur því leiðin.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tilboð veldur gremju.

Greinar

Þeir, sem fara þjóðveginn milli Akureyrar og Reykjavíkur, verða um það bil tíu sinnum fegnir. Rúmlega helmingur leiðarinnar hefur fengið varanlegt slitlag, en í bútum hér og þar. Þessum bútum fjölgar svo á hverju sumri eða þá að þeir lengjast. Verkinu á að ljúka árið 1994.

Þessi bútasmíði er auðsæilega tiltölulega dýr. Það kostar töluverða vinnu og mikið fé að hefja verk og ljúka því. Enda sýnir reynslan, að Vegagerðin fær því hagstæðari tilboð hjá verktökum sem bútarnir eru lengri. En hvers vegna er þá haldið í hið gamalkunna smáskammtakerfi?

Ástæðan er alkunn. Stjórnmálamenn þurfa að fá malbikaðan bút í sínu kjördæmi. Ef lagður er skammtur á Vesturlandi, þarf að leggja annan á Norðurlandi vestra. Þetta er hluti hins mikla herkostnaðar þjóðarinnar af kjördæmapoti og ráðsmennsku stjórnmálamanna.

Hagvirki hf. er verktaki, sem hefur orðið frægur fyrir lág tilboð á undanförnum árum. Samtals hefur fyrirtækið sparað þjóðinni 500 milljónir króna með því að vinna verk undir áætlunarverði. Þetta fyrirtæki hefur nú kastað sprengju á borð stjórnmálakerfisins.

Hagvirki býðst til að leggja í samfelldri bunu varanlegt slitlag á það, sem eftir er leiðarinnar. Verkið á að kosta 74% af áætlunarverði og spara þjóðinni rúnar 300 milljónir í mismuninum. Þá vill fyrirtækið klára verkið sjö árum á undan áætlun og lána ríkinu mismuninn.

Auðvitað vakti þetta tilboð mikla gremju í kerfinu. Samgönguráðherra sagði hér í blaðinu, að það væri ekki raunhæft og að um það mundi ekki nást samstaða á Alþingi. Þingmenn einstakra kjördæma mundu láta í sér heyra. Loks kallaði ráðherra tilboðið “sérkennilegt”.

Ekki var léttari tónninn í vegamálastjóra. Hann kvað tilboðið “furðulegt”. Það mundi taka vinnu af tugum verktaka, bílstjórum og “öllum mögulegum”. Hann kvað ýmsa galla fylgja því að láta einn verktaka hafa svona stórt verkefni. Og tæpast þyrfti að klára verkið svona snemma.

Þannig krefst kerfið þess að fá áfram að beita dýrum og gamaldags vinnubrögðum. Enda er auðvelt að brenna peningum, sem aðrir eiga, í þessu tilviki þjóðin. En kerfið kastar líka peningum á ýmsan annan hátt, til dæmis með því að láta gera hluti, sem þjóðin þarf ekki á að halda.

Samgönguráðherra er líka heilbrigðisráðherra. Í því hlutverki telur hann sig þurfa að verja umtalsverðum fjárhæðum á hverju ári til byggingar ofvaxins sjúkrahúss í heimabæ sínum Ísafirði. Það mikla mannvirki er þegar haft til sýnis sem víti til varnaðar.

Fyrirrennarar hans í faginu ætluðu að reisa mikinn sjúkrahúss-mammút á Akureyri. Þar er fyrirferðarmest heljarmikil tengiálma, sem sjúkrahúslæknar koma frá útlöndum til að hlæja að. Þetta eru bara tvö lítil dæmi af ótal mörgum í fjárlögum og lánsfjárlögum.

Kerfið byggir sínar kröflur um allt land. Til viðbótar hefur það með sérstöku sjóðakerfi tryggt, að verulegur hluti fjárfestingar í landinu rennur ekki í eðlilegum farvegum til arðbærra verkefna. Þannig á til dæmis að fjárfesta 1.000 milljónir í landbúnaði á þessu ári.

Stundum furða menn sig á misræmi þjóðartekna og kaupmáttar og telja jafnvel milliliði stinga mismuninum á sig. Skýringin er hins vegar sú, að kjósendur hafa sjálfir kosið yfir sig kerfi, sem brennir fé á ótal vegu. Nú síðast mun það gera það með því að neita hringvegstilboði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Rússnesk rúletta.

Greinar

Landlæknir fjallaði nýlega í fréttum um Aids, áunna ónæmisbæklun. Þar kom fram of takmarkaður áhugi á viðbúnaði, til dæmis Blóðbankans, gegn þessum vágesti. Það er eins og sjúkdómurinn sé ómerkilegri en norska flensan í vetur, þegar yfir 15.000 manns voru bólusett.

Eftir skrif DV um innflutning á finnsku blóðefni hefur þó verið upplýst, að unnið er að lokun þeirrar smitleiðar. Það er til bóta, en gerist ekki nógu hratt. Af hverju er ekki hægt með átaki að stöðva þennan innflutning eða efnagreina hann, ekki bara bráðum, heldur strax?

Aids er að ýmsu leyti verri en svarti-dauði og aðrir sjúkdómar mannkynssögunnar. Hinn nýi sjúkdómur er enn sem komið er gersamlega ólæknandi. Hvorki lyf né bóluefni eru til og virðast ekki í sjónmáli. Helmingur þeirra, sem tekið hafa sjúkdóminn, er þegar látinn.

Aids breiðist út með margfölduðum hraða. Fyrst varð hann að stórfelldu vandamáli í Bandaríkjunum. Þar hafa 4.300 manns látizt úr honum. Það samsvarar fjórum Íslendingum. Evrópa er um þremur árum á eftir Vesturheimi. Búizt er við, að 10.000 Vestur-Þjóðverjar verði fallnir eftir fimm ár.

Ef við lítum á síðari töluna, sem birt var í tímaritinu Spiegel, má sjá, að hún jafngildir 40 Íslendingum. Því er ljóst, að grípa þarf til róttækra ráðstafana, jafnvel þótt þær kosti fé. Ekki verður ódýrara að halda uppi sjúkradeildum á spítölum landsins.

Varnir eru afar erfiðar. Aids berst með sæði og blóði. Sæði er sérstaklega erfitt að skipuleggja í því andrúmslofti lauslætis, sem um langt skeið hefur ríkt á Vesturlöndum. Ekki er unnt að búast við, að umtalsverður árangur náist á því sviði.

Aids leggst einkum á kynhverfa karlmenn, enda hefur gífurlegt lauslæti verið í tízku í hópum þeirra á undanförnum árum. En sjúkdómurinn flyzt einnig með hefðbundnu lauslæti. Á þessum sviðum verður að koma til skjalanna vönduð fræðsla, til dæmis í framhaldsskólum.

Bezta möguleika hafa stjórnvöld á að loka smitleið blóðsins. Hægt er að efnagreina blóðefni í blóðbönkum. Í Bandaríkjunum er ötullega unnið að nýjum og ódýrari aðferðum við greininguna. Samkvæmt fréttum Economist er árangurs að vænta þegar á fyrri hluta þessa árs.

Vandinn í blóðbönkum eykst, þegar blóðefni frá einstaklingum er ekki haldið aðskildu. Finnska blóðefnið, sem íslenzkum blæðara er gefið, getur verið frá tugum blóðgjafa. Slíkt margfaldar náttúrlega smithættuna og getur engan veginn talizt forsvaranlegt.

Blóðgjafar geta smitað, þótt þeir séu ekki sjálfir veikir. Aðeins tíundi hver maður, sem ber veiruna í sér, er sjálfur með Aids. En hann getur smitað aðra. Og þegar fórnarlambið er búið að fá veikina, verður ekki við snúið. Enginn í heiminum hefur læknazt.

Í mestri hættu eru kynhverfir menn; konur, sem hafa samræði við þá; fíkniefnasjúklingar, sem nota sömu sprautunar; svo og blæðendur. Ef við lítum á síðasta hópinn, verður ekki betur séð en þeir verði að sæta eins konar rússneskri rúllettu hjá íslenzkum heilbrigðisyfirvöldum.

Engin ástæða er til að taka þessu með ró. Erlendis eru notaðar aðferðir til að efnagreina blóðefni í blóðbönkum. Þessar aðferðir eru ört að verða ódýrari. Þær á jafnóðum að nota hér. Jafnframt þarf strax að efna til víðtækrar fræðslu um, hvernig megi varast Aids.

Jónas Kristjánsson.

DV

Fast er þrýst.

Greinar

“Við vonumst til, að við getum fjármagnað okkar hlut í þessu skipi með framlaginu, sem á að koma í gegnum Byggðasjóð,” sagði bæjarstjórinn í nýlegu blaðaviðtali. Og útgerðarstjórinn sagði í sama blaðaviðtali: “Þetta mál verður ekki leyst nema af stjórnvöldum.”

Sviðið er Húsavík og skipið er Kolbeinsey, sem er farin á höfuðið. Hún er metin á 170 milljónir, en skuldar 260 milljónir. Til að bjarga málum hefur verið stofnað hlutafélag. Það ætlar þó ekki að borga krónu, heldur starfa sem þrýstihópur gagnvart ríkinu.

Þegar margar kröfur af slíku tagi eru gerðar til ríkisins, harðlega studdar viðkomandi alþingismönnum, er ekki auðvelt að halda í skefjum skuldasöfnun hins opinbera. Enda er reynslan sú, að stjórnvöld láta gjarna undan þrýstingi og auka um leið lántökur í útlöndum.

Á grundvelli slíks þrýstings hefur ríkisvaldið ábyrgzt raðsmíði fiskiskipa, sem enginn vill kaupa eða getur keypt, meðal annars af því að of mörg eru til fyrir. Nú vilja alþingismenn skipasmíðastöðvanna, að ábyrgðin standi áfram, samtals 600-700 milljónir króna.

Kannski finnst þá einhver til að kaupa skip á kostnað hins opinbera. En þrýstiþingmenn spara sér alveg að reyna að verja útgjöldin með því að benda á önnur enn vitlausari útgjöld, sem spara mætti í staðinn, til dæmis 1.300 milljónir í niðurgreiðslur, uppbætur og beina landbúnaðarstyrki.

Ekki munu finnast í landinu peningar upp í mikið af óskhyggju og gæluverkefnum þrýstihópanna. Vextir eru orðnir svo óvinsælir, að ríkisstjórn og Seðlabanki ætla að fara að lækka þá. Það jafngildir því, að í vaxandi mæli verður að treysta á erlendar lántökur.

Fyrir rúmu ári námu erlendar skuldir 60,6% af þjóðarframleiðslu ársins. Um síðustu áramót námu þær 61,9% af þjóðarframleiðslu ársins, þrátt fyrir 2,5% aukningu hennar á árinu. Og um næstu áramót eiga þær að nema 63,9% þjóðarframleiðslu, þrátt fyrir 0,9% aukningu hennar.

Talan 63,9% er auðvitað langt yfir 60%, markinu, sem ríkisstjórnin setti sér í upphafi. Þar að auki er talan sennilega of lágt áætluð. Frumvarpið til lánsfjárlaga er líklega með of lágum niðurstöðutölum eins og í fyrra. Þá nam vanmatið 367 milljónum króna.

Rökstyðja má, að gildandi fjárlög muni leiða til 750 milljón króna meiri lántöku í útlöndum til rekstrar ríkisins en frumvarpið til lánsfjárlaga gerir ráð fyrir. Auk þess er augljóst, að innlendur sparnaður til húsnæðismála verður mun minni en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Þegar er búið að taka 200 milljónir af því fé, sem átti að vera til nýrra útlána. Það hefur verið notað til að leysa mál þeirra, sem hafa byggt, á kostnað hinna, sem eru að byrja að byggja. Fyrirhuguð vaxtalækkun mun ekki stuðla að því, að sú sjónhverfing verði að veruleika.

Horfur eru því á, að erlendu skuldirnar verði um næstu áramót komnar upp í 65-67% af þjóðarframleiðslu ársins. Það er von, að fjármálaráðherrann tali um að segja af sér. En honum er vorkunn, því að þrýstihóparnir steðja að úr öllum áttum, líka innan ríkisstjórnar.

Nú eru fulltrúar kartöfluflöguverksmiðja, steinullarverksmiðja og annarra slíkra hugsjóna að koma saman á landsfund stærsta framsóknarflokks þjóðarinnar, það er Sjálfstæðisflokksins. Þar verður niðurstaðan sú, að landinu sé svo vel stjórnað, að rétt sé að halda því áfram!

Jónas Kristjánsson

DV

“Frá hinu opinbera”.

Greinar

Í kaflanum “Frá hinu opinbera” í auglýsingum Ríkisútvarpsins eru birtar auglýsingar Framleiðsluráðs landbúnaðarins um nýjustu aðferðir ráðsins við að færa fjármagn frá neytendum og skattgreiðendum til hins hefðbundna landbúnaðar og við að víkka valdsvið ráðsins.

Þessi flokkun auglýsinga um kjarnfóðurskatt og fleira er vel við hæfi. Framleiðsluráð landhúnaðarins er eins og Búnaðarfélag Íslands algerlega á vegum ríkissjóðs, þótt ríkið hafi ekkert eftirlit með hinum útlögðu fjármunum og fái ekki reikningana til endurskoðunar.

Þetta er eins og Grænmetisverzlun landbúnaðarins, sem er eins konar sjálfseignarstofnun Framleiðsluráðsins, þegar hún hafnar afskiptum ríkisins, en ríkisstofnun, þegar hún hafnar hliðstæðri skattlagningu og er á fyrirtækjum úti í bæ. Þetta er afar sniðugt kerfi.

Þannig ákvað síðasta Búnaðarþing, sem haldið var á kostnað hins opinbera, að halda sérstakt Búnaðarþing aftur í vor, einnig á kostnað þjóðarinnar. Markmið aukaþingsins er að skipuleggja aukinn áróður fyrir landbúnaðarkerfinu, auðvitað einnig á kostnað skattgreiðenda.

Síðasta Búnaðarþing ályktaði, að Búnaðarfélag Íslands og Framleiðsluráð landbúnaðarins skyldu borga hið nýja átak gegn “óvinum landbúnaðarins”. Þessar stofnanir eru eingöngu reknar fyrir fé ríkisins og þar með skattgreiðenda. Ríkið ræður þar engu, heldur borgar bara.

Margir ímynda sér, að landbúnaðarkerfið sé á undanhaldi fyrir gagnrýnendum sínum. Þetta er mesti misskilningur. Þetta krabbamein er þvert á móti í sókn á mörgum sviðum, svo sem mörg nýleg dæmi sýna. Hinir svokölluðu óvinir landbúnaðarins mega hvergi sofa á verðinum.

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur lagt til, að ríkið greiði tapið á rekstri Áburðarverksmiðjunnar, því að annars þurfi hinn niðurgreiddi áburður að hækka um 85% til bænda. Samt greiðir verksmiðjan aðeins Ísalsverð fyrir rafmagn og er þó engin stóriðja.

Þessi stórhættulega verksmiðja, sem er “stöðug ógnun” við íbúa höfuðborgarsvæðisins, svo að notuð séu orð slökkviliðsstjóra, fær niðurgreiðslu á rafmagni og niðurgreiðslu á afurðum, sem nemur 100-200 milljónum á ári og hefur þó safnað upp rúmlega 300 milljóna tapi.

Þannig stefnir Framleiðsluráð landbúnaðarins að fullkominni sjálfvirkni í aðild verksmiðjunnar að hinu sjálfvirka kerfi framleiðslustjórnunar, sem kostar þjóðina miklu meira en herinn í öðrum löndum og hýr til margs konar fjöll óseljanlegra afurða. Næst verður það fúleggjafjall.

Með niðurgreiðslum á kartöflum til flöguverksmiðja er búið að stíga 10 milljón króna skref til innflutningsbanns, sem rekinn verður áróður fyrir í sumar. Þá verður einnig krafizt innflutningsbanns á heilar kartöflur, svo að bændur neyðist til að selja til Grænmetisverzlunar landbúnaðarins til að njóta niðurgreiðslna – í stað þess að selja beint. Þannig á að endurreisa einokunina og víkka hefðbundna kerfið.

Með möndli í kjarnfóðurskatti er verið að þvinga eggjabændur inn í einokunarkerfi, svo að frjálsir bændur séu ekki að hindra Ísegg í að hækka egg um 30% eða “eftir þörfum” hverju sinni. Allt stefnir því að fleiri auglýsingum um landbúnað undir liðnum : “Frá hinu opinbera”.

Jónas Kristjánsson.

DV

Gæludýr í fiskeldi.

Greinar

Einn tryggasti vagnhestur Sambands íslenzkra samvinnufélaga, Jón Helgason kirkjuráðherra, hefur gefið stórveldinu rétt á heitu og köldu vatni úr landi Staðar við Grindavík. Sambandið á aðeins að borga um 25 aura fyrir tonnið, en samkeppnisaðilar þurfa að borga 26 krónur.

Að vísu verður kostnaður Sambandsins meiri, af því að það þarf sjálft að bora eftir heita vatninu. Og ráðherra fullyrðir, að öðrum fiskiræktendum standi þessi kjör til boða. En ekki hefur komið fram, að þeir eigi kost á þátttöku í borholu Sambandsins.

Samningur Jóns við SÍS er ekki á hans ábyrgð eins, þótt hann hafi ekki sagt ríkisstjórninni frá honum fyrr en að honum undirrituðum. Ráðherrar Sjálfstæðisflokksins geta ekki þvegið hendur sínar, því að þeir lögðu ekki einu sinni fram mótmæli, hvað þá að þeir færu í hart.

Ef til vill á verkaskipting stjórnarflokkanna að vera sú, að kirkjuráðherrann gefi gælufyrirtæki Framsóknarflokksins vatn í Grindavík og iðnaðarráðherrann gefi gælufyrirtæki Sjálfstæðisflokksins vatn á Reykjanesi. Aðrir fiskiræktendur verði að sitja úti í kuldanum.

Þótt ekki sé um slíka verkaskiptingu að ræða, er ljóst, að stjórnarsamstarf, sem leyfir óhæfuverk af þessu tagi, er án innihalds. Ráðherrarnir halda bara í það vegna sinnar persónulegu stöðu og kæra sig kollótta um tjónið, sem þeir valda flokkum sínum og þjóðinni.

Mikil áhætta er tekin með þjóðargjöfinni til Sambandsins. Í áliti frá Orkustofnun kemur fram, að ekki sé hægt að spá um skaðann af töku 350 sekúndulítra af fersku vatni. Það er 30% meira magn en Hitaveita Suðurnesja tekur. Og ferskvatn er ekki takmarkalaust á Reykjanesskaga.

Athyglisvert er, hvernig mál þetta hefur verið rekið. Fyrst samdi Sambandið við Hitaveitu Suðurnesja, allt að undirskrift, um ákveðið verð, en frysti síðan málið, meðan gengið var frá samningum við ráðherrann og þeir undirritaðir. Þessi aðferð lyktar fremur illa.

Þá er málið rekið af slíku offorsi, að Sambandið er þegar byrjað að bora, þótt bæjarstjórn Grindavíkur hafi ekki verið spurð ráða. Má þó ljóst vera, að gjafabréf kirkjuráðherrans tekur ekki gildi, nema það nái staðfestingu bæjarstjórnarinnar. Og hún er ekkert hrifin.

Eina afsökunin, sem fremjendur verknaðarins gætu haft sér til málsbóta, er, að Hitaveita Suðurnesja hefur í skjóli einokunaraðstöðu sinnar reynt að kúga fé út úr fiskiræktendum á einokunarsvæðinu. Hún lét Fjárfestingarfélagið borga 26 krónur á tonnið eða um 70% af almennum taxta.

Skynsamlegt væri að veita Hitaveitu Suðurnesja samkeppni, til dæmis með því að heimila fiskiræktendum að stofna sameiginlegt fyrirtæki til borunar eftir vatni og virkjunar þess. Stofnað yrði opið fyrirtæki um holuna við Grindavík og annað um holuna á Reykjanesi.

Nauðsynlegt er að hvetja til framtaks í fiskirækt fremur en að letja það. Þess vegna verður að hindra hvort tveggja í senn, að einokunar-hitaveita haldi uppi of háu verði á vatni og að pólitísk gæludýr fái forréttindi, sem lami framtak annarra í fiskirækt.

Ríkisstjórnin hafði ekki döngun til að stöðva óhæfuverk kirkjuráðherrans. En tveir aðilar geta hvor um sig stöðvað málið, bæjarstjórn Grindavíkur og svo sjálft Alþingi. Þessir aðilar þurfa að tryggja, að sameiginlegt fyrirtæki fiskiræktenda verði stofnað um Staðarborholuna.

Jónas Kristjánsson.

DV

Frjálsir skólar.

Greinar

Stjórnvöldum hefur tvisvar í vetur mistekizt að sinna fræðsluskyldunni, sem þeim er lögð á herðar. Við slíkar aðstæður er eðlilegt, að aukist efasemdir um, að hið opinbera sé eini rétti aðilinn til að gegna þessu hlutverki. Fleiri kunni að geta innt það af hendi.

Þegar Ríkisútvarpinu var lokað á öndverðum þessum vetri, jukust efasemdir um, að ríkið ætti að hafa einkarétt á ljósvakanum. Á svipaðan hátt má nú segja, að hið opinbera hafi í vetur í tvígang sýnt fram á, að það ráði ekki eitt við að halda úti fræðsluskyldu.

Tölvufræðsla er dæmi um nám, sem fer að verulegu leyti fram án afskipta hins opinbera. Á því sviði hafa risið upp nokkrir einkaskólar, sem starfa með blóma. Áhugi fólks á tölvum er slíkur, að það er reiðubúið að greiða þessa kennslu úr eigin vasa án aðstoðar hins opinbera.

Þetta stafar sumpart af því, að skólakerfið hefur ekki verið nógu fljótt að átta sig á mikilvægi tölvufræðslu, og sumpart af því, að fullorðið fólk, sem hætt er í skóla, telur sig þurfa á þessari þekkingu að halda. Einkaframtakið leysir málið eins og venjulega.

Hið opinbera gæti metið þetta framtak að verðleikum og látið frjálsa skóla um tölvufræðsluna, til dæmis gegn gjaldi, sem væri hið sama og núverandi kostnaður skólakerfisins af slíkri fræðslu. Vel er hægt að hugsa sér, að fé til tölvufræðslu mundi nýtast betur á þann hátt.

Ef þessi hugsun gengur upp, að því er varðar tölvufræðslu, er eins líklegt, að hið sama gildi um aðra fræðslu, sem nú þykir sjálfsagt, að sé á vegum ríkisins. Af hverju getur ríkið ekki látið einkaaðila sjá um þýzkukennslu, stærðfræðikennslu, sundkennslu og raunar hvaða kennslu sem er?

Milton Friedman er umdeildur hagfræðingur, sem hefur ýtt á flot mörgum athyglisverðum hugmyndum. Ein þeirra er sú, að í stað þess að reka eigin skóla gefi ríkið út skólaávísanir að sama verðmæti. Þessar ávísanir geti nemendur síðan notað til að borga fyrir sig í einkaskólum.

Þetta hefur verið prófað í Alum Rock í Kaliforníu. Of snemmt er að segja til um árangur. En þegar er ljóst, að skólahald þar varð mun fjölbreyttara en áður var. Og fjölbreytni í stað einhæfni er einmitt líkleg til að stuðla að þróun og framförum í fræðslu.

Ekki má heldur gleyma, að ávísanakerfi og frjálsir skólar mundu bæta mjög tekjur góðra kennara og ýta lélegum kennurum til annarra starfa, sem henta þeim betur. Nemendur mundu flykkjast í nám til beztu kennaranna, en ekki láta sjá sig hjá hinum, sem ekki geta kennt.

Við þessar aðstæður mundi hlutverk hins opinbera felast í eftirliti með frjálsum skólum og kennurum, svo og í útgáfu ávísana fyrir skólakostnaði. Úr töluvert miklum peningum væri að spila, því að núverandi ríkisrekstur skóla er afar þungur baggi á ríkissjóði.

Nokkur ójöfnuður yrði í frjálsu kerfi, því að sumir mundu leggja fé úr eigin vasa til viðbótar ávísunum til að ná í beztu kennsluna. En slíkur ójöfnuður er einnig til í núverandi kerfi, því að sumir kaupa einkatíma til viðbótar því námi, sem þeir fá hjá ríkinu.

Ekkert er heldur því til fyrirstöðu, að ráðamenn með félagshyggju gætu notað ávísanakerfi til jöfnunar, það er að segja látið gefa út hærri ávísanir til nemenda, sem búa við lakari aðstæður eða kjör en aðrir. Frjálshyggja og félagshyggja geta farið saman í ávísanakerfi.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skírteini í pósti.

Greinar

Málsaðilar í deilu ríkissjóðs og háskólamenntaðra kennara virðast vera sammála um, að skaðlegur sé hinn mikli samdráttur í kennslu í skólum á menntaskólastigi, sem stafar af uppsögnum kennara. Ýmis rök hníga þó að því, að núverandi ástand sé ágætt og mætti framlengjast.

Skólar á menntaskólastigi eru orðnir svo fjölmennir, að þeir minna í vaxandi mæli á skóla á skyldunámsstigi. Nemendur eru margir hverjir meira eða minna skyldaðir til að vera þar, þótt þeir hafi engan áhuga á að notfæra sér þá starfsemi, sem skólunum er ætlað að stunda.

Þessir skólar líkjast smám saman eins konar dagheimilum fyrir unglinga á menntaskólaaldri. Unglingarnir eru hafðir þar í geymslu eins og börn í barnaskólum, svo að þeir séu ekki að flækjast fyrir á heimilunum og séu ekki að flækjast fyrir á vinnumarkaðnum.

Hin lélega framleiðni, sem jafnan einkennir skylduskóla, er einnig áberandi í skólum á menntaskólastigi. Skiptir þá litlu, þótt góðir kennarar reyni að gera sitt bezta. Ef jarðvegurinn er grýttur, áhugi nemenda lítill eða enginn, vinna hinir áhugasömu kennarar fyrir gýg.

Unglingar ná stúdentsprófi með svo ævintýralega litla þekkingu, að einfaldara væri að senda samkvæmt þjóðskrá stúdentsskírteini í pósti til allra á tilskildum aldri. Það mundi ekki kosta nema frímerki, en rekstur skóla á menntaskólastigi kostar stórfé á hvern nemanda.

Athyglisvert er, að venjulegt fólk þarf ekki nema brot af tíma nemenda á menntaskólastigi til að ná góðum prófum í öldungadeildum. Þar er að læra fólk, sem stefnir að marki, og þess vegna er framleiðnin þar margföld á við framleiðnina í hinum venjulegu menntaskóladeildum.

Spurning er, hvort rétt sé að kvelja unglingana í slíkum skólum og hvort ekki sé betra að bjóða fleiri og betri kosti eftirmenntunar og símenntunar. Sá, sem þarf atvinnu sinnar vegna að læra þýzku, gerir það á skömmum tíma í kvöldskóla, ef hann hefur ekki lært það af Derrick.

Þegar þessi sami maður var í menntaskóla, hafði hann ekki hugmynd um, að hann mundi þurfa á þýzku að halda. Þess vegna sýndi hann því námi engan áhuga og kunni raunar ekki neitt, þrátt fyrir stúdentspróf. Framleiðni námsins margfaldast, þegar þörf er og áhugi.

Sumir unglingar eru áhugasamir um nám og geta á hálfum vetri lært það, sem reiknað er með, að fólk læri á heilum vetri. Þessa unglinga munar ekkert um, þótt skólarnir séu meira eða minna lokaðir vikum saman. Þeir þurfa ekki einu sinni á kennurum að halda til að geta lært.

Hinir, sem lítinn eða engan áhuga hafa, læra hvort sem er ekki neitt í skólanum. Þeim má eins og hinum vera sama um, þótt kennarar séu farnir til annarra starfa. Þessir nemendur ættu raunar fremur heima í gagnlegu atvinnulífi en í gagnslausu námi. Ef þeir þurfa, fara þeir síðar í kvöldskóla.

Þau rök, sem hér hafa verið talin, segja ekki allan sunnleikann um málið. En þau benda þó til, að ástæðulaust sé að telja hrapallegt, að margir kennarar og nemendur snúi sér að atvinnulífinu í stað þess að strita í vonleysi við að rækta akur í stórgrýtisurð.

Hví skyldi Kjaradómur ekki vísa frá málinu á þeim forsendum, að kennarar séu farnir, uppsagnir þeirra staðfestar í ráðuneytinu og málið þannig komið út fyrir verksvið dómstólsins? Það ríkir nefnilega ekki neitt ófremdarástand. Og stúdentsskírteinin má senda öllum í pósti.

Jónas Kristjánsson

DV

Pappír leysir ekki málið.

Greinar

Sanngjarnt og skynsamlegt er frumvarp Alexanders Stefánssonar félagsmálaráðherra um, að greiðslubyrði íbúðalána fylgi kaupgreiðsluvísitölu en ekki lánskjaravísitölu. Þetta er í samræmi við tillögur, sem komið hafa frá mörgum aðilum og meðal annars birzt í leiðurum DV.

Pappír á borð við frumvarp leysir þó engin mál, þótt að lögum verði. Ekki er hægt að búa til verðmæti með pólitískum tilfæringum á pappír. Það er fyrst og fremst fjármagn, en ekki pappír, sem vantar í húsnæðismálin. Ef ekki fæst nýtt fjármagn, er frumvarpið sjónhverfing.

Við núverandi aðstæður mundi hin breytta greiðslubyrði leiða til, að minni greiðslur en ella rynnu frá lántakendum inn í húsnæðislánakerfið. Þar með minnka peningarnir, sem þar eru til ráðstöfunar til nýrra útlána. Vandi þeirra, sem hafa byggt, er leystur á kostnað hinna, sem vilja byggja.

Önnur takmörkun á gildi frumvarpsins felst í, að það getur aðeins stjórnað útlánum ríkisins, það er Húsnæðisstofnunar, en ekki banka og lífeyrissjóða. En bezt kæmi húsbyggjendum að fá skammtímalánum banka breytt með þeim hætti, sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Lífeyrissjóður verzlunarmanna hefur riðið á vaðið með lengingu lána, í töluverðu samræmi við anda frumvarpsins. Vonandi verður hægt að fá aðra lífeyrissjóði til að fylgja á eftir. En hætt er við, að bankarnir telji sig vanbúna til að veita sjálfvirka fyrirgreiðslu af þessu tagi.

Ef við gerum ráð fyrir, að frumvarpið verði að lögum og að lífeyrissjóðir og bankar fylgi í kjölfarið, er samt ljóst, að lífið heldur áfram og að nýjar umsóknir um lán munu berast frá fólki, sem komið er á íbúðakaupaaldur. Hvaða peninga á það fólk að fá að láni?

Þetta verða menn að muna einmitt núna, þegar skottulæknar vaða uppi með tillögur um vaxtalækkun, sem mundi snarminnka sparifjármyndunina í þjóðfélaginu, – þegar þessir sömu skottulæknar fá hljómgrunn í félögum framsóknarmanna og hjá öðrum vinum verðbólgugróða.

Annars vegar er Alexander með ágætt frumvarp um að minnka greiðslurnar frá íbúðaeigendum inn í kerfið. Og hins vegar eru svo margir flokksbræður hans með vondar hugmyndir um að minnka spariféð, sem er til umráða og útlána . Hvort tveggja fær ekki staðizt í senn.

Með þessum fyrirvörum er ástæða til að fagna frumvarpi ráðherrans. Það er raunar betra en margar fyrri hugmyndir, sem ganga í svipaða átt. Það víkur nefnilega ekki frá grundvelli lánskjaravísitölu, þótt greiðslubyrði sé í framkvæmd miðuð við kaupgreiðsluvísitölu.

Rökfræðilega er lánskjaravísitala réttari í þessu tilviki, þótt aðstæður hafi gert hana grimma um tíma. Bjarni Bragi Jónsson, aðstoðarbankastjóri Seðlahankans, hefur réttilega bent á, að í náinni framtíð sé eins líklegt, að hún verði húsbyggjendum hagstæðari en kaupgreiðsluvísitala.

En sú rétta hagfræði breytir ekki reiðarslaginu, sem fólk hefur þegar orðið fyrir. Rétta leiðin er frumvarp Alexanders og láta það gilda frá upphafi misræmisins, það er að segja frá 1982, en ekki bara 1983. Síðan mega lánin lengjast og styttast eftir sveiflum vísitölumisræmis.

Næsta skrefið er svo að finna peninga til að fjármagna þessa sanngjörnu óskhyggju. Þar verður þrautin þyngri, ekki sízt þegar önnur óskhyggja, til dæmis hinn hefðbundni landbúnaður, nýtur sjálfvirks forgangs að því fé, sem ríkið hefur til sinna guðsþakkarverka.

Jónas Kristjánsson.

DV

Heppileg skandinavíska.

Greinar

Í norrænu samstarfi er Norðurlandaráð tindurinn, sem allir tala um. En samstarfið er miklu viðtækara. Hvers konar sveitarfélög og samtök stunda norrænt samstarf af alefli. Varla líður svo kvöld árið um kring, að ekki sé einhvers staðar verið að skála fyrir norrænu samstarfi.

Þetta hefur margvíslegt gildi. Til dæmis er hin óbeina afleiðing sú, að almenningur á kost á hartnær daglegum flugferðum til Norðurlanda. Flugvélarnar eru hálfar af norrænu samstarfi, allt frá þingmönnum og embættismönnum yfir í lögreglukóra og slökkviliðskvartetta.

Í þessu norræna samstarfi fær fjöldi Íslendinga að æfa sig í skandinavisku. Það er sérstakt mál, sem Íslendingar hafa búið til, svo að þeir verði jafn vel skiljanlegir um öll Norðurlönd. Það byggist á dansk-íslenzkum framburði á orðum, sem flest eru úr dönsku, en nokkur úr sænsku.

Þetta tilbúna mál er afar heppilegt, af því að það skilst, til dæmis í skálaræðum. Danir ímynda sér hins vegar, að Svíar skilji dönskuna þeirra, og fara því halloka í samanburði við Íslendinga . Hið sama má, en í minna mæli, segja um skilning áheyrenda á hratt talaðri sænsku.

Annað verður uppi á teningnum, þegar tala þarf í alvöru um eitthvert mál. Frægasta dæmið er fimm ára gamall sjónvarpsfundur norrænu menntamálaráðherranna. Þar kjaftaði hver tuska á öllum ráðherrunum, nema hinum íslenzka, sem leit á hina til skiptis og sagðist brosmildur vera sammála.

Í slíku samstarfi taka Danir, Norðmenn og Svíar orðið. Þeir tala sitt móðurmál og tala það hratt, enda vita þeir, að viðmælendurnir eru svo skólaðir eða þjálfaðir, að þeir skilja, hvað sagt er. Þessir viðmælendur svara síðan jafn hratt og örugglega. Á sínu máli, en ekki skandinavisku.

Íslendingur, sem reynir að tala skandinavisku við slíkar aðstæður, verður fljótt utangátta. Hann er að tala tilbúið mál, sem hann hefur lært. Hann grípur ekki á lofti tilvitnanir í góðskáld. Hann á erfitt með að fara á kostum. Hann talar hægt og varfærnislega, í allt öðrum takt.

Margir hafa orðið varir við, að þetta er ekki útlátalaust. Sá, sem talar í öðrum og hægari takt, er ósjálfrátt talinn tregari í hugsun. Minna mark er tekið á sjónarmiðum hans og hagsmunum en ella væri. Í mörgum tilvikum gefst Íslendingurinn upp og lætur umræðuna framhjá sér fara.

Í slíkum tilvikum er engin lausn að leggja fram skriflegar þýðingar, þótt Páll Pétursson forseti Norðurlandaráðs, hafi bent á þá leið. Að vísu gerir það Íslendingum kleift að tala móðurmálið. En það er haldlítið í umræðum, sem jafnan fylgja á eftir, ef málið er einhvers virði.

Í fínum selskap eins og Norðurlandaráði, þar sem peningar skipta litlu, er auðvitað sjálfsagt að krefjast þess, að Íslendingar fái í umræðum að tala íslenzku, ef þeir vilja, og mál þeirra sé jafnan þýtt á önnur mál Norðurlanda. Á þessu sviði hlýtur jafnrétti að fá að gilda.

Þetta gagnar hins vegar ekki í hinu fjölbreytta samstarfi á sviðum, þar sem ekki er af fjárhagsástæðum hægt að stunda neina samhliða túlkun milli tungumála. Það gæti til dæmis verið í nefndum Norðurlandaráðs eða í hverju öðru norrænu samstarfi á vegum annarra.

Hér í blaðinu hefur áður verið lagt til, að í slíkum tilvikum sé enska heppilegt jafnréttis-tungumál. Hana kunna allir jafn vel eða illa og geta því talað í sama takt, með sama hraða. Hún er hlutlaust mál í norrænu samstarfi og hefur oft komið að góðum notum sem slík, heppileg skandinavíska.

Jónas Kristjánsson

DV

Móðgaður þingfréttaritari.

Greinar

Páll Magnússon, þingfréttamaður Ríkisútvarpsins, hefur einokun á sínu sviði. Hann ræður, hvað birtist um störf Alþingis í útbreiddasta fjölmiðli landsins. Þeir, sem eru mótfallnir vinnubrögðum hans og vali, geta ekki beint viðskiptum sínum til annars sjónvarps.

Annað er uppi á teningnum í þingfréttum dagblaðanna. Ef þingfréttamaður blaðs gerir sig sekan um hlutdrægan fréttaflutning, geta lesendur sem hægast beint viðskiptum sínum til annars blaðs. og raunar velja lesendur og hafna svikalaust í samkeppnisheimi dagblaðanna.

Fræðilega séð eru þingfréttir Ríkisútvarpsins í samkeppni við þingfréttir annarra fjölmiðla. En augljóst er, að fólk neitar sér ekki um hljóðvarp og sjónvarp, þótt það sé ekki ánægt með einhvern efnisþátt þess. Þannig situr Páll Magnússon í skjóli einokunar.

Við slíkar aðstæður er ekkert hægt að gera nema gagnrýna. Það hlýtur að teljast ofur eðlilegt, að einokarar séu gagnrýndir, þegar ekki er hægt að hafna viðskiptum við þá. Þess vegna er ekkert athugavert við, að menn velti upphátt fyrir sér hlutdrægni þingfréttamanns.

Fulltrúi Kvennalistans í útvarpsráði hefur á þeim vettvangi látið orð falla um hlutdrægni í þingfréttum. Slík orð eru sjálfsögð og eðlileg í ljósi þeirra aðstæðna, sem raktar voru hér að ofan.

Ekkert er athugavert við, að hagsmunaaðilar á þessu sviði telji líklegt að þingfréttamaður sé haldinn einhverjum ákveðnum fordómum fremur en öðrum, geti verið hallur undir ríkisstjórn eða sé með hugann við mögulegt framboð á vegum Alþýðuflokksins í Suðurlandskjördæmi.

Ef þingfréttamaður telur slíkar vangaveltur ósanngjarnar, er eðlilegt, að hann biðji útvarpsstjóra eða einhvern aðila út í bæ um að fara yfir gögn málsins og rannsaka, hvort fótur sé fyrir ásökunum. Ef til vill gæti hann meira að segja lært eitthvað af slíkri athugun.

En í stað þess kærir Páll Magnússon Ingibjörgu Hafstað fyrir brot á 108. grein almennra hegningarlaga, þar sem allt að þriggja ára fangelsi liggur við að hafa í frammi skammaryrði, móðganir eða ærumeiðandi aðdróttanir við opinberan starfsmann, þegar hann er að gegna skyldustarfi sínu.

Páll Magnússon einokunarmaður telur það refsiverða móðgun eða ærumeiðingu eða skammir um sig, að hann sé gagnrýndur fyrir hlutdrægni. Hann leitar skjóls í einmitt þeirri einokun, sem veldur því, að gagnrýni er eina vörnin, sem þolendur hans eiga kost á.

Hvort sem Páli tekst eða ekki að skjóta sér á hak við sérstaka verndun, sem opinberir starfsmenn njóta í gömlum lögum, þá er hann minni maður fyrir að leita þessa skjóls. En það er því miður algengt. að einokarar telja sig ekki eiga að þurfa að sæta gagnrýni.

Bezt væri, að þjóðin þyrfti ekki að búa við einokun, sem ætíð lokast inni í hroka. Ef starfandi væru nokkrir þingfréttamenn við nokkrar stöðvar hljóðvarps og sjónvarps, mundu notendur sjálfir, en ekki neinir einokunarmenn, geta metið sjálfir, hvað þeir telja hlutdrægt.

Mál þingfréttamanns Ríkisútvarpsins er dæmi um það ástand, sem hægt væri að losna við með því að afnema einokun starfsfólks Ríkisútvarpsins á tveimur af mikilvægustu greinum fjölmiðlunar. Ef hann vinnur málið, er skrípaleikurinn fullkomnaður. Þá hljóta menn að sjá, að frelsið er betra.

Jónas Kristjánsson.

DV

Öryggi Íslendinga.

Greinar

Stundum er talað um, að lífsreyndar þjóðir eins og Bretar og Svíar haldi af öryggisástæðum uppi nokkru magni af ósamkeppnishæfri matvælaframleiðslu. Í löndum þeirra sé reynt að tryggja, að fólk hafi mat, þótt komi til hafnbanns, til dæmis af völdum ófriðar.

Hér á landi mundi hafnbann leiða til skorts á mörgum tegundum matvæla, sem þjóðin er vön að neyta. Hverfa mundu ávextir og korn af hvers kyns tagi, salt og sykur, margs konar pakkavara, áfengi og tóbak. Neyzlan yrði óhjákvæmilega mun einhæfari en áður.

Alvarlegastur yrði þó olíuskorturinn. Stefnt er að því, að jafnan séu í landinu þriggja mánaða olíubirgðir. Að þeim tíma liðnum mundu allir atvinnuvegir stöðvast, þar á meðal matvælaframleiðsla sjávarútvegs og landbúnaðar. Skömmtun gæti þó dregið stöðvunina á langinn.

Landsvirkjun er ekki háð olíu og á töluverðar birgðir af varahlutum. Þess vegna má reikna með, að unnt yrði að framleiða rafmagn um langan tíma, þótt aðflutningar stöðvuðust. Þessi mikilvægi kostur veldur því meðal annars, að unnt yrði að reka frystigeymslur.

Í þessum geymslum eru afurðir sjávarútvegs og landbúnaðar. Svo vel vill til, að birgðir landbúnaðarafurða eru mestar eftir haustslátrun, einmitt þegar fiskbirgðir eru minnstar. Þetta öryggismál hefur svo verið notað til varnar hinum hefðbundna landbúnaði.

Kjötfjallið, smjörfjallið og ostafjallið eru þó samanlagt ekki nema brotabrot af því öryggi, sem felst í þriggja mánaða birgðum af olíu. Þær birgðir mundu án skömmtunar gera fiskiskipaflotanum kleift að ná í rúmlega 1,2 milljónir tonna af fiski.

Ef við ætluðum að neyta þessa matar sjálf og hefðum ekki annað, mundi taka okkur mörg ár, líklega átta ár, að torga aflanum, sem fengist af þriggja mánaða olíubirgðum. Það er að vísu einhæf fæða, eins og raunar kjötið, en manneldislega nothæft í neyð.

Stóriðja okkar í sjávarútvegi, olíubirgðirnar og rekstraröryggi orkuveranna veita okkur matvælaöryggi, sem er margfalt á við aðrar þjóðir. Við þurfum því ekki að fara að því dæmi Breta og Svía að halda af öryggisástæðum uppi annars óþarfri búvöruframleiðslu.

Við þurfum ekki að búa við kjötfjall, smjörfjall og ostafjall af öryggisástæðum. Við þurfum ekki heldur að búa við framleiðslu, sem hæfi innanlandsmarkaði. Við gætum sem bezt haft hana mun minni og flutt inn mun ódýrari og í sumum tilvikum margfalt ódýrari afurðir.

Sú stefna flestra stjórnmálaflokkanna að rétt sé að miða framleiðslu hins hefðbundna landbúnaðar við svokallaðar innanlandsþarfir hefur engan stuðning frá kenningum um öryggi fremur en frá hagrænu mati. Í staðinn ætti að koma stefna frjálsrar verzlunar með innlendar og innfluttar afurðir.

Ef við vildum hins vegar enn auka matvælaöryggi okkar, er rétt að beina sjónum okkar að rekstraröryggi fiskiskipaflotans og frystigeymsla sjávarútvegsins. Það má gera með því að auka varahlutabirgðir á báðum sviðum, svo og orkuveranna og með því að auka olíubirgðirnar.

Þar sem ríkisvaldinu er ætlað að gæta öryggis þjóðarinnar, ætti það að koma sér upp olíubirgðastöðvum. Ennfremur að fela Almannavörnum að semja í samráði við hlutaðeigandi aðila, Landsvirkjun og samtök sjávarútvegs og fiskiðnaðar, skrá yfir æskilegar langtímabirgðir varahluta.

Jónas Kristjánsson.

DV

Reykjavíkurflugvöllur sigrar.

Greinar

Flest bendir til, að Reykjavíkurflugvöllur styrkist í sessi sem framtíðarvöllur innanlandsflugsins. Borgarskipulagið hefur kynnt tillögur um nýja flugstöð við Loftleiðahótelið, lengingu austur-vestur flugbrautarinnar og bættar samgöngur að og frá vellinum.

Reykjavíkurflugvöllur hefur löngum verið umdeildur og er enn. Margir hafa áhyggjur af slysahættu og hávaða, en aðrir telja öryggisatriði í lagi og hávaða minni en af umferð bíla. Um langan aldur hefur flug um völlinn verið bannað frá klukkan ellefu á kvöldin til sjö á morgnana.

Sumir skipulagsmenn renna hýru auga til landrýmis flugvallarins og telja þar geta risið 10.000 manna byggð, ef völlurinn væri fluttur. Það mundi spara íbúðarbyggingar í meiri fjarlægð frá miðborginni og um leið spara samgöngukostnað borgarbúa.

Þeir segja líka, að flugvöllurinn sé ekki lengur í borgarmiðju, þar sem þungamiðja byggðarinnar á Reykjavíkursvæðinu hafi færzt austur fyrir Borgarspítala. Fólk sé ekki miklu lengur á leiðinni úr Breiðholti suður á Keflavíkurvöll en vestur á Reykjavíkurvöll.

Á móti þessu er bent á, að margir þeir, sem eiga erindi til höfuðborgarinnar, þurfa einkum að sækja heim stofnanir og fyrirtæki í kvosinni og næsta nágrenni hennar. Notkun Keflavíkurvallar mundi lengja flugtíma og ökutíma þessa fólks um að minnsta kosti klukkustund.

Stungið hefur verið upp á lagningu einteinungs að japönskum hætti milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar. Það er skemmtileg hugmynd, en háð þeim annmarka, að slík mannvirki þurfa tugþúsundir farþega á degi hverjum til að standa undir hinum mikla stofnkostnaði.

Auðvitað væri ódýrara að reka einn flugvöll í Keflavík en þá tvo, sem nú eru reknir. Á móti því kemur, að nærri allar flugleiðir innanlands mundu lengjast töluvert með tilsvarandi aukningu benzínkostnaðar og annars rekstrar. Keflavík yrði í heild ekki ódýrari.

Reynslan frá útlöndum sýnir, að farþegar kjósa miklu fremur að nota litla flugvelli nálægt borgarmiðju en stóra flugvelli sem eru lengra í burtu. Keflavíkurflugvöllur yrði áreiðanlega óvinsæll sem arftaki Reykjavíkurflugvallar í innanlandsflugi og reyndar tæpast raunhæfur möguleiki.

Vegna byggðar er ekki lengur hægt að ræða um gerð flugvallar á Álftanesi og vegna náttúruspjalla kemur Gálgahraun ekki heldur til greina. Löngusker í Skerjafirði hljóta að teljast langsóttur kostur og amast hefur verið við Kapelluhrauni sem meira veðravíti en Reykjavík.

Af slíkum kostum virðist Geldinganes álitlegast, en hefur lítið verið rannsakað. Það er nógu stórt fyrir flugvöll og íbúðir eru ekki í grenndinni. En það gildir um Geldinganesið eins og aðrar hugmyndir um nýjan flugvöll, að byggingarkostnaður verður hrikalegur.

Að skoðuðum ýmsum þáttum þessa flókna og umdeilda máls er líklegt, að binda megi vonir við hljóðlátar flugvélar, sem þurfa tiltölulega stuttar flugbrautir. Kostir Reykjavíkurflugvallar eru margir og mikilvægir. þyngri á metunum en gallarnir.

Brýnt er að reisa nýja flugstöð við Loftleiðahótelið fyrir innanlandsflugið, bæta ökuleiðir þangað og lengja austur-vestur flugbrautina til að draga úr flugi yfir miðborgina. En um leið er ljóst, að slíkar framkvæmdir fela óbeint í sér, að Reykjavíkurflugvöllur festist í sessi.

Jónas Kristjánsson

DV

“Hvenær sem það verður”

Greinar

“Skrifstofustjóri hjá Pósti og síma telur þarna ekki um stórt mál að ræða. Þegar viðkomandi Grafarvogsbúi fær sinn síma tengdan – hvenær sem það verður – verði flutningsgjaldið á símanum hans einfaldlega lækkað um þá upphæð, sem hann verður þá búinn að ofgreiða í afnotagjöldum.”

Þessi kafli úr blaðafrétt veitir innsýn í hugarfarið, sem ræður ríkjum í opinberri þjónustu, er hefur lengi setið að einokun. Viðskiptavinirnir eru nokkurn veginn réttlausir. Embættismennirnir ákveða, hvað sé þeim fyrir beztu.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk sé farið að flytja í nýtt borgarhverfi án þess að geta fengið símann fluttan um leið. Þeir skammast sín ekki fyrir eymdina og skipulagsleysið, sem leiðir til, að síminn er ekki tilbúinn á réttum tíma.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk sé rukkað um afnotagjald af síma, sem það hefur ekki fengið. Þeir hyggjast bara ljúfmannlega endurgreiða þetta, þegar fólkið er búið að fá símann fluttan, hvenær sem það verður, eins og það var orðað.

Ráðamönnum Pósts og síma finnst ekki stórt mál, að fólk fái 90.000 króna símreikning fyrir notkun á lokuðum síma, eins og gerðist í Stykkishólmi fyrir áramótin. Þetta var bara mislestur, sögðu embættismennirnir og létu reikninginn niður falla, þegar sýslumaður var kominn í málið.

Nú eru ekki allir svo heppnir að geta sannað, að þeir hafi verið með lokaðan síma, þegar þeir fá hærri reikninga en þeir vilja trúa. Póstur og sími er eins og búð, sem neitar að sundurliða reikninga, og heimtar að fá að skrifa einfaldlega “vörur” á reikninginn.

Margoft hefur verið reynt að fá Póst og síma til að koma upp útbúnaði til að sundurliða símreikninga, svo sem gert er í Bandaríkjunum, þar sem samkeppni er milli símafyrirtækja. Skráð er dagsetning hvers símtals, hvert hringt er, hve lengi talað og hvað símtalið kostar.

Ráðamenn Pósts og síma hafa fyrir löngu ákveðið, að það sé neytendum fyrir beztu að fá ósundurliðaða reikninga. Þeir þurfa engan að spyrja, hvort þetta sé rétt kenning hjá einokunarstofnuninni. Eftirfarandi kafli úr blaðafrétt sýnir, hvernig þeir velja fyrir hönd notenda:

“Það, sem réð því, var einkum það, að það þótti of dýrt. Það réð úrslitum, því sá viðbótarkostnaður, sem hefði komið, hefði bitnað fyrst og fremst á neytendum og þeir hefðu áreiðanlega ekki verið tilbúnir til að taka þann kostnað á sig.” Þannig er málið afgreitt út úr heiminum.

Afleiðingin af yfirlæti ráðamanna Pósts og síma er, að fólk er gersamlega bjargarlaust gagnvart símreikningum. Það þýðir ekkert að segja Pósti og síma, að á heimilinu séu engir unglingar eða fylliraftar, sem skemmti sér við löng símtöl við Japan. Bara borga og það strax.

Póstur og sími er ekki eina dæmið um yfirgang opinberra stofnana. Meira að segja Hagstofan skammast sín ekkert fyrir að úthluta nafnnúmerum nýlátins fólks, þannig að börn sæta margvíslegum óþægindum vegna rukkana á óviðkomandi aðila. Númerakerfið er úrelt, segja þeir bara.

Auðvitað á fyrir löngu að vera búið að breyta úreltu nafnnúmerakerfi, alveg eins og fyrir löngu á að vera búið að koma á sundurliðuðum símreikningum. En embættismenn einokunarstofnana skammast sín ekkert fyrir dugleysi og valdahroka. Þeir yppta bara öxlum og segja, að þetta séu engin stórmál.

Jónas Kristjánsson

DV

Stækkum þjóðgarðinn.

Greinar

Þingvallanefnd, Náttúruverndarráð og Skipulagsstjóri ríkisins hafa réttilega hafnað óskum landeiganda og hreppsnefndar Þingvallasveitar um úthlutun tíu hektara af Mjóaneslandi undir um það bil 20 sumarbústaði. Miklu nær er, að ríkið kaupi Mjóanes og leggi undir þjóðgarðinn.

Ætlunin með sölu sumarbústaðalóðanna var að fjármagna byggingu fjárhúss á jörðinni. Slík hús þurfum við ekki fleiri í þessu landi og allra sízt í Þingvallasveit. Í staðinn er brýnt að stækka þjóðgarðinn, til dæmis með kaupum á þessari jörð og raunar fleiri jörðum við vatnið.

Þingvallanefnd hyggst fjalla aftur um mál þetta. Mikilvægt er, að hún bili ekki. Fyrri Þingvallanefndir hafa ýmsar staðið sig hrapallega, svo sem sú, er leyfði smíði sumarbústaða í landi ríkisjarðarinnar Gjábakka. Kominn er tími til að nefndin bæti fyrir brot fyrirrennaranna.

Þáverandi Þingvallanefnd úthlutaði Gjábakkalóðunum til vina og kunningja úr yfirstéttinni, án auglýsinga eða útboðs. Hún brást í kyrrþey hlutverki sínu sem verndari Þingvalla. Auglýsing fyrirætlunarinnar hefði sennilega leitt til, að glæpurinn hefði verið stöðvaður.

Nú má vænta þess, að Þingvallanefnd taki hlutverk sitt alvarlegar. Þjóðhátíð 1974 leiddi til ýmissa framkvæmda, sem hafa verið til bóta. Til dæmis hefur vegakerfið verið fært til og komið upp sauðfjárheldri girðingu umhverfis garðinn, svo að mikilvægustu dæmin séu nefnd.

Innan girðingar er gróðurfar í sæmilegu jafnvægi, þrátt fyrir mikið álag, sem jafnan þarf að fylgjast vel með. Utan girðingar er gróður hins vegar víða á undanhaldi, til dæmis í Grafningi, einkum sunnan vatnsins. Þar hafa ofbeit og uppblástur sett svip sinn á landið.

Ekki eru síður alvarleg mistökin, sem orðið hafa í skipulagi sumarbústaðahverfa. Verst er ástandið í landi Miðness. Einu sinni var stungið upp á, að þar yrðu reist Pótemkin-tjöld til að hlífa vegfarendum við útsýninu yfir ömurlegt kraðak sumarbústaðanna.

Innan þjóðgarðs er enn stunduð mjög svo umdeild iðja, ræktun barrtrjáa í landi lauftrjáa. Jafnan var umdeildur furulundurinn, sem nú er að breytast í sitkalund. En jafnvel á allra síðustu árum hefur Skógræktarfélag Árnessýslu ræktað grenitré norður af Vatnsvík.

Í hugmyndasamkeppni árið 1972 um skipulag Þingvalla fólu allar verðlaunatillögurnar í sér stækkun þjóðgarðsins. Sú stækkun hefur ekki enn komið til framkvæmda. Meira að segja hefur eyðijörðum í eigu ríkisins ekki enn verið bætt við þjóðgarðinn. Hvers vegna?

Raunar ætti að lýsa allt Þingvallasvæðið verndarsvæði með sérstökum lögum eins og sett voru um Mývatnssvæðið. Líklega væri heppilegast að fela Náttúruverndarráði umsjá svæðisins að mestu leyti, en Þingvallanefnd sæi áfram um þann hluta, sem var þingstaður.

Náttúruundur Þingvallasvæðisins birtast ekki aðeins í eldbornu landslagi, gjám og gróðri. Sjálft vatnið er merkilegt rannsóknarefni eins og sést af misjöfnum skoðunum á, hversu margar silungstegundir eigi þar heima.

Nauðsynlegt er að vinda bráðan bug að stækkun þjóðgarðsins og hafna sumarbústöðum í landi, sem garðurinn ætti að ná yfir. Jafnframt þarf að semja frumvarp til laga um enn stærra verndarsvæði, svo að stöðva megi hnignun af völdum ofbeitar, uppblásturs, átroðnings og kofasmíða.

Jónas Kristjánsson.

DV