Greinar

Eftir mína tíð

Greinar

Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna er gjaldþrota og hefur raunar alltaf verið það. Hann á ekki fyrir skuldbindingum sínum. Ríkið gerir ráð fyrir, að börn okkar og barnabörn, skattgreiðendur framtíðarinnar, muni spýta mismuninum inn í ríkiskerfið, þegar hinir fullorðnu flykkjast á ellilaun.

Þetta er kallað gegnumstreymi, öfugt við uppsöfnunina, sem gildir í öðrum lífeyrissjóðum. Þeir ekki geta skattlagt börn okkar og barnabörn fyrir sukki íslenzkra landsfeðra, sem lifa fyrir líðandi stund eins og hinn eyðsluglaði Loðvík fimmtándi, er sagði: “Eftir mína tíð kemur hrunið.”

Ríkið fer raunar báðar leiðir í senn, gegnumstreymis og uppsöfnunar. Það á fyrir hluta skuldbindinganna, en ekki öllum. Þetta gerist á tímum, þegar peningar flæða inn í ríkissjóð vegna einkavæðingar. Þrátt fyrir einnota gróðann, syndgar ríkið upp á framtíð barna okkar og barnabarna.

Gegnumstreymið gerir ráð fyrir, að á hverjum tíma komi inn á vinnumarkaðinn eins margir og fara út af honum. Hinir nýju geti borgað lífeyrinn fyrir hina gömlu og fái svo til baka í sömu mynt, þegar þeir þurfa sjálfir að setjast í helgan stein. Gegnumstreymið gerir ráð fyrir jafnvægi kynslóðanna.

Til skamms tíma fóru fámennar kynslóðir af vinnumarkaðinum. Nú er það hins vegar að breytast. Mikil fólksfjölgun fyrri áratuga er að byrja að leiða til þess, að fjölmennar kynslóðir fara á eftirlaun. Aldurspíramídinn er að verða eins og kókflaska, grennist í miðjunni, bólgnar í toppinn.

Vandamálið er nærtækara í ýmsum öðrum vestrænum ríkjum, sem hafa syndgað meira upp á náð væntanlegra skattgreiðenda. Þar eru menn farnir að hafa feiknarlegar áhyggjur af hugsanlegu hruni velferðarkerfis aldraðra, þegar hálfu þjóðirnar verða komnar á eftirlaunaaldur, án þess að eiga fyrir ellinni.

Við hefðum átt að geta varast víti nágrannaþjóðanna, af því að þetta ferli er fyrir löngu orðið auðsætt. Við getum raunar enn vikið endanlega af braut gegnumstreymis yfir á braut uppsöfnunar, af því að ríkið er að drukkna í gróðanum af sölu innviða þjóðfélagsins í hendur einkageirans.

Þetta einnota tækifæri einkavæðingar er meðal annars hægt að nota til að koma skikki uppsöfnunar á lífeyrismál opinberra starfsmanna. Lokaskrefið má stíga, þegar Síminn verður seldur. Því miður er mikil hætta á, að landsfeður okkar hafi svipað hugarfar og hinn sukksami kóngur í Versalahöll.

Stefna líðandi stundar hefur um skeið verið svipuð við Lækjartorg og var í Versölum á sínum tíma. Á báðum stöðum gildir því miður spakmælið: “Eftir mína tíð kemur hrunið.”

Jónas Kristjánsson

DV

Leyndó

Greinar

Gaman er að lesa, að dómsmálaráðherrann hafi blár af bræði farið mikinn um ráðuneytið í fyrradag vegna birtingar DV á yfirheyrslum úr líkmannamálinu, sem héldu raunar áfram í blaðinu í gær. Það sýnir, að mikilvægt gat hefur verið rofið á þagnarmúrinn, sem yfirvöld hafa hlaðið um ýmsa málaflokka.

Ráðherrann hefur raunar ýmsa liti í vopnabúri sínu. Síðast sáum við hann svartan af reiði í bakgrunni sjónvarpsviðtals við þáverandi borgarstjóra af tilefni niðurstöðu talningar í síðustu borgarstjórnarkosningum. Raunverulegt lýðræði gerir ráðherrann svartan, raunverulegt gegnsæi gerir hann bláan.

Almenningur í landinu getur fagnað, að fréttastofur landsins skuli vera sex, en ekki fimm eða jafnvel þrjár, eins og stóð til um tíma. Fyrir bragðið fær hann að fylgjast með mörgu fróðlegu og gagnlegu, sem yfirvaldið á ýmsum póstum kærir sig ekki um að verði á vitorði hins fyrirlitna pupuls.

DV fjallaði dögum saman um mál Þroskahjálpar á Suðurlandi án þess að fleiri fjölmiðlar kæmu til skjalanna. Þannig hefur raunar verið um fjölda mála það sem af er þessu ári. Pupullinn hefði ekki fengið að vita neitt um þau, ef fullburða fréttastofur landsins væru fimm en ekki sex.

Allir fjölmiðlar tóku hins vegar við sér, þegar farið var að birta yfirheyrslur úr líkmannamálinu. Af umræðunni er ljóst, að kerfið ætlar að reyna að komast að lekanum og reka puttann í gatið eins og í hollenzku sögunni, en þjóðfélagið er tiltölulega ánægt með lekann og vill hafa hann mikinn.

Sú vísa er aldrei of oft kveðin, að gegnsæi er ekki síðri hornsteinn lýðræðis en kosningar og málfrelsi. Gegnsæi er forsenda þess, að kjósendur skilji báknið í kringum þá og geti tekið skynsamlega afstöðu í kosningum. Þess vegna eiga gerðir stjórnvalda að vera galopnar fyrir fréttastofunum.

Flest kerfi vilja vera lokuð. Fjármagnsdýrkendur vilja loka skattskrám fyrir almenningi. Þeir vilja loka viðkvæmum upplýsingum um fjármagnsflæði fyrir almenningi. Þeir tala um friðhelgi einkalífs, rétt eins og peningar séu persónur. Allt ætti þetta að opna upp á gátt, svo að skíturinn sjáist.

Alkunnugt er, að lögreglan vill, að pupullinn viti sem minnst um rannsóknir hennar, jafnt í líkmannamálinu sem öðrum málum. Þess vegna er ekki ástæða til að treysta henni frekar en öðrum valdsmönnum ríkis og fjármála, sem verða ýmist bláir eða svartir af reiði, ef pupullinn fær fréttir.

Leyndarmál valdakerfa eru farin að tröllríða lýðræðinu. Án gegnsæis breytist lýðræði í kerfisræði og auðræði. Og fréttastofur fjölmiðla eru lykill að gagnsókn lýðræðisins.

Jónas Kristjánsson

DV

Niðursetningurinn

Greinar

Ekki er sjálfgefið að pokaprestur í pólitísku poti sé sjálfsagður í stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi. Enda sýnir dæmið úr Þorlákshöfn, að hann kveikti ekki á perunni fyrr en löngu eftir að einelti og vafasamur aðbúnaður þroskahefts manns hafði verið umræðuefni hér í DV marga daga í senn.

Málið hafði ekki aðeins verið árum saman á borði hans sem stjórnarmanns Þroskahjálpar á Suðurlandi, heldur einnig sem sveitarstjórnarmanns í Þorlákshöfn. Ekkert hafði komið út úr þeim fínimannsleik prestsins, enda vitum við úr annarri átt, að óhefðbundin viðhorf annars manns réðu aðgerðarleysinu.

Ritstjóri Sunnlenska fréttablaðsins er einnig í stjórn Þroskahjálpar. Hann hefur í blaði sínu og fleiri fjölmiðlum greint frá viðhorfum sínum til samfélagsins og þeirra, sem ekki hafa þroska til að lifa án aðstoðar. Það er dökkur heimur, sem hann telur þroskahefta verða að sætta sig við.

Að sögn ritstjórans er sitthvað brogað við samskipti fólks í öðru hverju húsi t.d. á Selfossi og tilganglaust að fást um það. Hann telur óhjákvæmilegt, að þeir, sem eru minni máttar í lífinu, þurfi að sætta sig við að verða fyrir óþverraskap hinna, sem betur mega sín. Þetta er afar fornt sjónarmið.

Við höfum lesið um viðhorf að hætti ritstjórans í frásögnum fyrri alda af góðvilja guðhrædds fólks í garð niðursetninga. Þá var talið gustukaverk að taka niðursetninga til sín. Ekki þótti tiltökumál, þótt slíku fylgdu ýmsar kárínur, svo sem einelti. Niðursetningurinn mátti þakka fyrir að fá að lifa.

Full ástæða er til að efast um, að fólk sé meira eða minna ruglað í öðru hverju húsi á Selfossi. Mestar líkur eru á, að þar séu heilu göturnar byggðar tiltölulega heilbrigðu fólki eins og í öðrum bæjarfélögum. Samfélagið er ekki eins hart nú á tímum og það var á harmkvælatímum niðursetninganna.

Þess vegna er óhætt að telja sjónarmið ritstjórans fornleg, þótt þau séu út af fyrir sig gild og rökrétt, ef maður lítur heiminn þeim augum, sem hann gerir. Það gera raunar margir fleiri. En þeir eru ekki valdir til forustu í félagslegum stofnunum, sem byggjast á allt annarri sýn á samfélagið.

Við lifum í nútíma, sem hafnar því, að maðurinn sé í eðli sínu vondur og hafnar því, að minni máttar fólk eigi að sæta meðferð, sem þótti góð og gild í gamla daga, þegar tugir niðursetninga voru í hverjum hreppi. Félagsleg velferð í nútímanum er annað og meira en gustuk og guðsþakkarverk.

Pokapresturinn og ritstjórinn eiga því ekki heima í stjórn Þroskahjálpar á Suðurlandi. Þeir geta verið til ýmissa hluta brúklegir, en ekki sem stjórnendur velferðar á 21. öld.

Jónas Kristjánsson

DV

Niður á Davíðsplan

Greinar

Misráðið er hjá forseta Íslands að segjast ætla að taka meiri þátt í stjórnmálaumræðunni á næsta kjörtímabili og taka til varna gegn ómerkilegu skítkasti forsætisráðherra og hirðar hans. Með þessu fer forsetinn niður á lága planið, sem lengi hefur einkennt forsætisráðherrann og hirð hans.

Forseti er ekki þjóðkjörinn til að verða þjarkari í pólitík, allra sízt til að bæta upp gerræði forsætisráðherra, sem orðinn er svo innhverfur, að hann framleiðir hvern atburðinn á fætur öðrum til að líkja sér við Hannes Hafstein og efna til persónudýrkunar á lífs og liðnum forsætisráðherrum.

Einkenni forsætisráðherra komu vel í ljós, þegar hann var borgarstjóri og reisti Perlu og ráðhús, sem sjást langt að og koma engum að gagni. Eftirmaður hans í ráðhúsinu lagði hins vegar skolpleiðslu, sem ekki sést, en er hornsteinn að heilsusamlegu lífi allra íbúa höfuðborgarsvæðisins.

Pirringur forsætisráðherra nærist af vanmetakennd, af því að hann hefur minna lag á að umgangast útlendinga en tveir síðustu forsetar. Hann hefur neyðst til að halla sér að skoðanabræðrum á borð við Leoníd Kuchma í Úkraínu, Anders Fogh Rasmussen í Danmörku og Silvio Berlusconi á Ítalíu.

Auðvitað verður forsetinn á sinn hátt að tefla skákina, sem forsætisráðherrann hóf. Forsetaembættið þarf að tryggja sér með formlegum bréfaskriftum milli stofnana, að ferðalög og fjarvistir framleiði ekki tækifæri handa forsætisráðherra til að hóa saman ríkisráðsfundum af minnsta tilefni.

Forsetinn getur vel gætt hagsmuna og virðingar embættisins gegn hirð forsætisráðherra, án þess að stíga niður til hennar og fara akkúrat á útmánuðum valdaskeiðs núverandi forsætisráðherra að karpa um einstök atriði, er varða stöðu forsetaembættisins og samskipti þess við framkvæmdavaldið.

Miklu betra er að bíða eftir kurteisari tíð, þegar Halldór Ásgrímsson hefur tekið við embætti forsætisráðherra. Hann kann mannasiði og mun áreiðanlega leggja sitt af mörkum til að ýta til hliðar tilgangslausum metingi milli manna, sem alls ekki geta leynt því, að þeir þola ekki hvor annan.

Yfirlýsingar forsetans um, að hann sé til í slaginn, eru til þess eins fallnar að gefa hirð forsætisráðherra tækifæri til að spinna þráðinn um, að forsetinn megi ekki vera á skíðum í útlöndum og ekki umgangast fínimenn í útlöndum og að embættið sé svo marklaust, að bezt sé að leggja það niður.

Kannski ræður forsetinn bara ekki við sig. Kannski var stökkbreytingin úr slagsmálahundi við Austurvöll í friðarhöfðingja á Bessastöðum honum um megn. Kannski er gamli Ólafur upp vakinn.

Jónas Kristjánsson

DV

Menn kjósa skaffara

Greinar

Þrátt fyrir eindregna andstöðu Spánverja við stríðið gegn Írak, voru þeir til skamms tíma reiðubúnir að styðja ríkisstjórnina í þingkosningunum. Stuðningurinn hrundi ekki strax eftir hryðjuverkið í Madrid. Hann hrundi fyrst, þegar kjósendur áttuðu sig á, að stjórnin misnotaði hryðjuverkið.

Spænska ríkisstjórnin hélt til streitu, að skilnaðarmenn Baska bæru ábyrgðina, þótt gögn bentu til aðildar Al Kaída. Hún spann lygasögur og fékk meira að segja öryggisráð Sameinuðu þjóðanna til að verða sér til skammar með því að fordæma aðskilnaðarmenn Baska fyrir hryðjuverkið.

Spænskir kjósendur vildu lengst af styðja stjórnina af því að þeir töldu hana skaffa. Þar og hér eru atvinnumál flestum hjartfólgnari en utanríkismál. Hryðjuverkið kom síðan mönnum í uppnám, en þeir urðu ekki alvarlega reiðir fyrr en þeir töldu ríkisstjórnina vera að hafa kjósendur að fífli.

Verðandi forsætisráðherra Spánar skefur ekki utan af stefnubreytingunni við stjórnarskiptin. Hann segir árásina á Írak hafa verið stórslys og hernám Íraks hafi haldið áfram að vera stórslys. Hann segir, að félagarnir Bush og Blair hafi farið í stríð og sprengt fólk á forsendum þvættings.

Til skamms tíma er þetta að sjálfsögðu verulegt áfall fyrir Bandaríkjaforseta og forsætisráðherra Bretlands. Þeir eru stimplaðir lygarar, sem hafi valdið stórslysi. Einkum er þetta Tony Blair erfitt, því að hann talinn vera krati eins og Jose Rodriguez Zapatero, þótt í raun sé hann það ekki.

Hinn nýi forsætisráðherra Spánar segir brýnast að efla sambandið við Frakkland og Þýzkaland, einmitt þau ríki, sem harðast voru andvíg Íraksstríðinu. Þá hefur Romano Prodi, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins, notað tækifærið til að hafna ofbeldislausnum Bandaríkjanna á heimsvandamálunum.

Líklegt má telja, að fasistarnir Silvio Berlusconi á Ítalíu og Anders Fogh Rasmussen í Danmörku falli í næstu þingkosningum. Að öðru leyti stendur bandalag hinna stríðsfúsu. Blair er ekki á útleið og ríkisstjórn Póllands er áfram eindregin í stuðningi við bandaríska heimsveldið.

Ekki má gleyma, að kanzlari Þýzkalands, Gerhard Schröder, einn helzti andstæðingur stríðsstefnunnar, stendur höllum fæti heima fyrir. Það er ekki vegna utanríkisstefnunnar, sem fylgir þjóðarviljanum, heldur vegna þess að hann er ekki talinn hafa skaffað nógu vel í atvinnumálum landsins.

Í öllum þessum löndum vegur atvinna oftast þyngra en stríð og friður. Hér er það vinnan á Vellinum, sem réð því, að Davíð og Halldór studdu stríð, sem kostaði 10.000 saklaus mannslíf. Ef Bush fellur í haust, verður það ekki vegna stríðsins, heldur af því að hann skaffar ekki nógu vel.

Jónas Kristjánsson

DV

Sex ógnarvopn

Greinar

Nokkur mannskæð vopn eru hlutfallslega hættulegri lífi og limum Íslendinga en ýmis vopn, sem valda usla í útlöndum. Sýnilegasta ógnarvopn landsins er bíllinn, sem jafnt og þétt krefst tuttugu mannslífa á ári. Það jafngildir tvö þúsund Spánverjum á ári og tuttugu þúsund Bandaríkjamönnum á ári.

Þótt hryðjuverkin á Manhattan og í Madrid jafnist ekki á við bílinn, höfum við ekki farið þá leið að banna hann. Við teljum okkur ekki geta án hans verið og gerum ótal hluti til að draga úr ógninni, leggjum hringtorg, setjum upp hraðahindranir, byggjum mislæg gatnamót, spennum bílbelti.

Svipað gildir um fjögur önnur ógnarvopn, sem eyða tugum mannslífa á ári hverju hvert um sig. Þau eru tóbak, áfengi, gleðipillur og sykur. Kerfið hefur enn ekki áttað sig á stöðu sykurs í þessum félagsskap ógnarvopna, en bönd vísindanna hafa borizt hratt að honum á allra síðustu árum.

Við leyfum sölu sykurs uppi á borði í hversdagsbúðum og sölu tóbaks undir borði í sömu búðum. Við leyfum sölu áfengis í sérstökum verzlunum og sölu á gleðipillum í annars konar sérverzlunum samkvæmt tilvísun sérfróðra manna. Á sama tíma er fé notað til að vara við flestum þessara ógnarvopna.

Áfengi var einu sinni bannað hér eins og víðar í heiminum. Bandaríkjamenn hafa þá reynslu af banninu, að það dró úr áfengisneyzlu en flutti inn annan og skæðari vanda, mafíuna. Slík fyrirbæri sogast alltaf að bannríkjum og gerast þar áhrifamikil neðanjarðaríki, sem ógna tilveru þjóðfélagsins.

Það gerist alls staðar, þar sem fíkniefni eru bönnuð. Tíðni glæpa margfaldast. Undirheimar taka við af ríkisvaldi sem hornsteinar í lífi fólks, grafa undan réttarfari og fjárhag og safna ótrúlegum auðævum á hættulegum stöðum. Þess vegna er skynsamlegra, að ríkið taki að sér sölu ólöglegra efna.

Þetta segir alvörugefna tímaritið Economist og þetta segja margir sérfræðingar. Helmingi af vanda fíkniefna væri sópað út með því að lögleiða þau undir verndarvæng ríkisins eins og sykur og tóbak, áfengi og gleðipillur. Ríkinu er ekki lengur ógnað af undirheimum, sem grafa undan þjóðfélaginu.

Það þykir hneyksli að segja slíkt. Annað hljóð mun smám saman koma í strokkinn, þegar alþjóðleg glæpasamtök hafa haslað sér völl hér á landi í skjóli þess, að ríkið neitar að reyna að halda vandanum í skefjum á sama hátt og það reynir að hemja vanda tóbaks, áfengis og gleðipilla.

Það gildir um öll þessi sex ógnarvopn, eins og önnur ógnarvopn, að þau verða hvorki bönnuð né sigruð í stríði, heldur verður að beita ýmsum ráðum til að halda þeim í skefjum og sætta sig við, að fullur árangur náist ekki.

Jónas Kristjánsson

DV

Vestrið er berskjaldað

Greinar

Vopnaðir lambhúshettumenn frá Íslandi eða Spáni hefðu ekki getað hindrað hryðjuverkið í járnbrautarlestunum í Madrid né komizt að því, hverjir frömdu ódæðið. Lambhúshettumenn henta betur til að ná afsöguðum haglabyssum af dauðadrukknum Íslendingum, sem hafa keypt of mikið áfengi í Ríkinu.

Dálkahöfundurinn Nicholas D. Kristof ræddi í New York Times í vikunni um tvo möguleika á hryðjuverkum í New York. Annar er skjalatösku-atómsprengja í Grand Central, sem mundi drepa hálfa milljón manns. Hinn er kóbaltsprengja í Wall Street, sem mundi gera borgarhlutann óbyggilegan í marga áratugi.

Auðvelt var að útvega dýnamítið, sem notað var í Madrid. Svipuðu magni hefur meira að segja verið stolið úr augljósum geymslum á Íslandi. Sprengihæft kóbalt fæst í eins þumlungs breiðum og eins fets löngum stöngum, sem eru notaðar í hundraðatali við geislum matvæla í bandarískum fyrirtækjum.

Lykilþættir í atómsprengjum hafa verið á frjálsum markaði. Komizt hefur upp um Abdul Kader Kahn, sem sá um framleiðslu atómsprengja í Pakistan. Hann græddi stórfé á að selja afurðir sínar til Líbíu og Norður-Kóreu. Þar sem hann er heittrúarmaður, óttast menn, að hann hafi selt til Al Kaída.

Menn óttast líka, að atómsprengjur hafi farið á markaðinn eftir upplausn Sovétríkjanna, þegar eftirlit var í molum og lykilmenn gátu drýgt sultarlaun með því að koma slíkri vöru á framfæri við lysthafendur í útlöndum. Ekki hefur tekizt að gera grein fyrir öllum atómvopnum Sovétríkjanna.

Vandamál Vesturlanda í öllu þessi öryggisleysi er, að viðbrögð yfirvalda eru að töluverðu leyti gagnslaus og að því leyti verri en gagnslaus, að þau dreifa athyglinni frá raunverulegri hættu á borð við dýnamítið í Madrid. Efling vopnaðra sveita lambhúshettumanna er dæmi um slík mistök.

Alvarlegust eru mistökin í Bandaríkjunum, þar sem utanríkisstefnan snýst eingöngu um að tryggja endurkjör forsetans. Þar er stefnt að handtöku Osama bin Laden í tæka tíð fyrir kosningar. Til þess þarf aðstoð Pakistans og þess vegna er verzlunarferill Abdul Kader Kahn ekki kannaður.

Af innanpólitískum ástæðum í Bandaríkjunum hefur orku, fé og fólki verið fórnað í styrjöld gegn Írak, sem átti engin gereyðingarvopn og enga alþjóðlega hryðjuverkamenn fyrir stríð. Í staðinn hafa Pakistan og Sádi-Arabía verið látin í friði, þar sem er uppspretta trúarofstækis gegn vestrinu.

Aukin vopnaleit í farangri er margfalt öflugra tæki gegn hryðjuverkum á borð við ódæðið í Madrid heldur en vopnaðir lambhúshettumenn og styrjaldir með tilheyrandi stríðsglæpum Bandaríkjanna, sem magna hatrið og næra hryðjuverkin.

Jónas Kristjánsson

DV

Ruddaleg spurning

Greinar

Hversu miklu fé má verja af sameign landsmanna til að halda lífi í fólki, til dæmis gömlu fólki, sem á skammt eftir ólifað? Milljón krónur á mánuði, viku, dag? Þetta þykir mörgum sjálfsagt ruddaleg og óviðurkvæmileg spurning. En fyrr eða síðar kemur að því, að henni verður að svara.

Sjúkrakostnaður hækkar sífellt vegna nýrra uppgötvana og nýrrar tækni. Nýtt lyf getur framlengt ömurlegt ævikvöld um þrjá mánuði og kostar hundrað þúsund krónur á dag, samtals tíu milljónir. Á að nota þetta lyf samkvæmt forskriftinni, að lífið sé svo mikilvægt, að ekki verði metið til fjár?

Ljóst er, að þjóðfélagið telur sig ekki geta greitt hærra hlutfall af þjóðartekjum í sjúkrakostnað en nú er gert. Kerfið er þegar farið að bila, svo sem fram kemur í brottrekstri starfsfólks, lokun sjúkradeilda og lengri biðlistum eftir aðgerðum, sem margir telja afar brýnar.

Skynsamlegra væri að horfast í augu við fjárhagsvandann heldur en að láta tilviljanir ráða, hvað er skorið niður. Ekki þýðir að loka augunum fyrir því, að kerfið veitir á sumum sviðum lakari sjúkraþjónustu á þessu ári en hinu síðasta. Þannig hefur það verið í nokkur ár hið minnsta.

Við verðum að hafa manndóm til að velja og hafna og til að taka afleiðingunum. Sjúkraþjónusta er afar misdýr. Hægt er að stunda mikla heimahjúkrun fyrir sama fé og greitt er fyrir nýtt einkaleyfislyf í þrjá mánuði. Ekki dugir að stinga höfðinu í sandinn og segja ósvífið að tala um aura.

Heilbrigðisráðuneytið er sá aðili, sem ætti að reyna að setja fram forskriftir að forgangsröðun verkefna í sjúkrageiranum. Þar er því miður engin forusta, engin hæfni og enginn kjarkur til að gera neitt af viti. Ráðuneytið lætur reka á reiðanum frá einum glundroðanum til annars.

Landspítalann er sá aðili, sem ætti að hlaupa í skarð ráðuneytisins, af því að hann verður stofnana mest fyrir barðinu á getuleysi þess, svo sem frægt er af fréttum í vetur. Getur spítalinn sett fram forgangsröðum, sem byggist á skynsamlegu mati á árangri hvers kostnaðarliðar?

Um hvern kostnaðarlið verður að spyrja: Hver er árangur hans mældur í fjölgun góðra æviára, ekki mældur í fjölgun ömurlegra æviára? Síðan er skynsamlegt að gera tillögur um að sleppa útgjöldunum, sem koma óhagstæðast út í samanburðinum. En spítalinn þorir ekki fremur en ráðuneytið.

Stjórnmálamönnum og öðrum, sem vilja verja velferð fyrir ágangi auralausra stjórnvalda, stendur næst að leggja til forgangsröðun, sem tryggir hámarksárangur í velferð.

Jónas Kristjánsson

DV

Deyja smátt og smátt

Greinar

Langt er síðan síðast voru teknar tímamótaákvarðanir um afstöðu ríkis og einstaklinga á Íslandi. Við höfum lengi búið við lítt breytta stöðu þess, sem sumir kalla velferð þjóðarinnar og aðrir kalla forsjá ríkisins. Við lifum í fátæklegri útgáfu af sænsku mynztri, sem hefur líkað vel.

Þrátt fyrir græðgisvæðingu þjóðarinnar virðist ekki vera mikill hljómgrunnur fyrir hörðu og grimmu mynztri að hætti Bandaríkjanna. Jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn treystir sér ekki, að minnsta kosti ekki sem þingflokkur, til að standa fyrir skilgreindri atlögu gegn velferðarkerfinu sem slíku.

Í staðinn gildir þúsund sára dauðinn. Höggvið er hér og þar í velferðarkerfið, dregið úr þjónustu Landsspítalans, komið á skólagjöldum við Háskólann og hækkuð hlutdeild foreldra í kostnaði við leikskóla. Í hverju tilviki fyrir sig er árásin skilgreind sem nauðsynlegt aðhald í rekstri ríkissjóðs.

Við vitum af öðrum dæmum, að nógir peningar eru til í gæluverkefni ríkisstjórnarinnar, svo sem vopnaðar sveitir grímumanna og eftirlaunahækkun forsætisráðherra. Alltaf eru einhver slík atriði ofar í forgangsröðinni en velferð eða forsjá. Þess vegna rýrnar velferðin frá ári til árs.

Hér er óafvitandi stefnt að velferðarkerfi hinna vel stæðu. Tannlækningar eru gott dæmi um það. Ef þú hefur ráð á að borga þinn hluta af tannviðgerðum barnanna, færðu mótframlag ríkisins. Ef þú hefur ekki ráð á að borga þinn hluta, fá börnin þín ekki tannlæknaþjónustu, aðeins “kostnaðarvitund”.

Lítið er af vel grunduðum skýrslum um þá kosti, sem eru í stöðunni, þegar innbyggð verðbólga þenur út kostnað velferðar, eins og greinilegast má sjá í sjúkrageiranum. Læknisfræðin getur alltaf meira og meira, sem kostar mikið fé. Við vitum ekki, hvort við höfum ráð á slíkum framförum.

Við megum ekki láta reka á reiðanum, heldur taka meðvitaða afstöðu til, hvað skuli gera mikið fyrir aldraða sjúklinga. Dæmigerð spurning er, hversu miklu fé megi verja til að halda fólki á lífi, sem ekki er mikils virði að lifa. Hvert má vera hlutfall lengingar ævitíma og kostnaðar við það?

Við verðum líka að ákveða, hvort þjóðfélagið vilji, að börnum fjölgi eða fækki. Barnafækkun er að verða mikið vandamál allt í kringum okkur. Eigum við að beita velferð til að draga úr gífurlegum kostnaði útivinnandi foreldra við að ala upp ríkisborgara og hvetja þannig til barneigna?

Í stað þess að takast á um erfiðar forsendur og komast að meðvitaðri niðurstöðu eins og oft var gert í pólitíkinni á síðustu öld, leyfum við kerfinu að deyja smátt og smátt.

Jónas Kristjánsson

DV

Gegnsæir fjölmiðlar

Greinar

Fyrir aðeins tveimur árum var áttu þrír fjölmiðlar af sex við geigvænlegan peningavanda að stríða. Þeim var bjargað fyrir horn hverjum á fætur öðrum, svo að nú eigum við aðgang að sex fullburða fréttastofum í stað þriggja, sem annars hefði verið. Þetta heldur uppi hollri samkeppni í fréttum.

Allir þessir fjölmiðlar eru gegnsæir almenningi. Vitað er, hverjir eiga þá og í hvaða hlutföllum. Stjórnendur og starfsmenn eru þekktir. Vitað er, hverjir auglýsa í þeim. Með samanburði frétta geta notendur áttað sig á sérkennum hvers fjölmiðils og metið, hvort efni hans sé brenglað.

Af framangreindum ástæðum blómstrar fréttamennska sem sjaldan fyrr. Almennir fréttaneytendur sjá ekki þau merki einokunar og hringamyndunar, er sumir hagsmunaaðilar segjast sjá, þeir sem harma horfna yfirburði Morgunblaðsins, þess blaðs sem var næstum orðið eina dagblaðið hér á landi.

Engin trygging er fyrir því, að góð staða frétta haldist um ómunatíð. Hlutafé gengur kaupum og sölum. Þannig er skjólstæðingur og velgerðamaður forsætisráðherra skyndilega orðinn næststærsti hluthafi fjölmiðils, sem óspart hefur verið sakaður um að vera andsnúinn hinum sama ráðherra.

Allt getur snúist í andhverfu sína í hagkerfi hlutabréfa. Til skjalanna geta síðar komið aðilar, sem hafa meiri áhuga á misnotkun fjölmiðla en arði af fjölmiðlum. Við getum ekki sett reglur til að banna slíkt. En við munum fljótt taka eftir, ef fjölmiðill fer að gæta annarlegra hagsmuna.

Stjórnmálin eru andstæða opinskárrar sambúðar fjármagns og fjölmiðla. Enginn fær að vita, hvernig peningavaldið fjármagnar stjórnmálaflokka og -menn. Þar ríkir ekki sama gegnsæi og í fjölmiðlunum. Gegnsæi er hornsteinn lýðræðis og það virkar bara í fjölmiðlunum, en ekki í stjórnmálunum.

Þótt fjölmiðlar séu þannig á hærra plani en stjórnmál, geta þeir gert ýmislegt til að draga úr vantrausti og efasemdum í sinn garð. Til dæmis geta þeir sett sér gegnsæjar og opinberar siðareglur, hver með sínu sniði, og gefið fólki færi á að meta, að hve miklu leyti þeir ná ekki settu marki.

Ennfremur geta fjölmiðlar komið sér upp umboðsmanni lesenda, sem tekur við kvörtunum um skilgreind frávik frá siðareglum viðkomandi fjölmiðils, kannað gildi þessara kvartana og metið það í sérstökum dálki eða þætti til slíkra nota. Með þessu væru fjölmiðlar að kalla á aukið traust notenda.

Siðareglur og umboðsmenn eru tæki, sem fjölmiðlar geta notað til að bæta sig og stöðu sína í hugum fólks og draga úr líkum á, að óprúttnir geti þyrlað upp moldviðri gegn þeim.

Jónas Kristjánsson

DV

Vernd fyrir víkingum

Greinar

Myndirnar af íslenzku víkingasveitinni í sjónvarpinu vekur ýmsar spurningar um, hvaða fólk þetta sé og hver stjórni því eftir hvaða reglum. Það vekur blendnar tilfinningar að vita af auknum fjölda vopnaðs fólks á almannafæri á Íslandi, ekki sízt þegar þetta fólk er uppbúið eins og hryðjuverkamenn til að vekja skelfingu fólks.

Erlendis er þekkt vandamál, að fólk, sem á við ýmis vandamál að stríða, sækist eftir aðild að löggiltum ofbeldishópum. Fjölmennastir þar í hópi eru þeir, sem oft eru uppnefndir sem fasistar. Það er fólk, sem haldið er valdshyggju og valdbeitingarhyggju samkvæmt skilgreiningu úr bandarískum félagsvísindum eftirstríðsáranna.

Þekktust eru rit Horchheimer og Adorno um þetta efni. Þeir skilgreindu sérstakt eðli valdshyggjumannsins sem fræðilegs hugtaks. Á þeim grunni voru gerðar endurbætur í bandaríska hernum til að reyna koma í veg fyrir, að hugarfar valdshyggjunnar næði þar undirtökunum og til að tryggja borgaraleg yfirráð hans.

Þýzki herinn á eftirstríðsárunum var beinlínis alinn upp samkvæmt aðvörunum úr þessum rannsóknum. Markmiðið var, að mistök heimsstyrjaldanna tveggja endurtækju sig ekki. Þýzki herinn yrði ekki ófriðarhvetjandi. Hann átti ekki að vera stríðsmaskína, heldur borgaralegur her með vestræna hugmyndafræði að leiðarljósi.

Þægilegt væri að vita, hvers konar reglur gilda um íslenzku víkingasveitina. Hvernig er til dæmis tryggt, að þar séu ekki valdshyggjumenn í bland? Hafa sveitarmenn gengizt undir persónuleikapróf, einhverja nútímaútgáfu af prófunum, sem Horchheimer og Adorno bjuggu til fyrir bandaríska herinn?

Við þurfum líka að vita, hver vopnar sveitirnar, stjórnar því, hvað þær gera og afvopnar þær síðan að verki loknu. Er það hlutverk ríkislögreglustjóra? Nýtur hann slíks trausts í þjóðfélaginu, að það sé óhætt? Við þurfum líka að vita, hvaða reglur hafa verið settar stjórnandanum? Hver bjó þessar reglur til á hvaða forsendum?

Tvöföldun víkingasveitarinnar og yfirlýst dálæti núverandi dómsmálaráðherra á íslenzkum her og íslenzkri hermennsku, gefur tilefni til að staldra við og fá svarað spurningum af þessu tagi. Ekki er víst, að þjóðfélagið í heild sé sátt við forsendur ráðherra, sem hefur í senn eindregnar og sérstæðar skoðanir á öryggismálum.

Í friðsömu landi er mikilvægt, að sátt sé um aðgerðir, sem hugsanlega kunna að vera nauðsynlegar vegna brotthvarfs bandarískra varnarliðsins og breyttra aðstæðna í öryggismálum heimsins, þar á meðal aukinnar hættu á hryðjuverkum. Ekkert hefur verið gert til að sá til slíks trausts á víkingasveitinni.

Spurningin er gamalkunn, eldri en rústir heimsstyrjaldanna, eldri en Horchheimer og Adorno. Hún hljóðar svo: Hver verndaði Róm fyrir rómverska hernum? Hver verndar okkur fyrir verndurum okkar?

Jónas Kristjánsson

DV

Siðleysingjar deila

Greinar

Vörzlumaður annarra manna fjár lánar ekki sjálfum sér og syni sínum 95 milljónir króna úr lífeyrissjóði. Slíkt er ekki á gráa svæðinu, heldur langt úti af kortinu. Enginn sjóðsstjóri getur haft vald til slíks athæfis eða reiknað með að sleppa við kæru, þegar komizt hefur í hámæli.

Fyrrverandi framkvæmdastjóri Lífeyrissjóðsins Framsýnar á þessa dagana í deilu við fyrrverandi formann sjóðsins um sekt og sakleysi. Athyglisvert er, að sá er fyrrverandi formaður eins stærsta stéttarfélagsins og sat í sjóðnum með fyrrverandi framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambandsins.

Það sem helzt verður lesið úr deilunni er, að sjálfsögð siðsemi í meðferð fjármuna virðist vera lokuð bók fyrir ýmsum þeim aðilum, sem komast í aðstöðu til að fara með annarra manna fé. Við vissum raunar úr öðru máli, að stjóri vinnuveitenda gat verið frekastur manna til fjárins.

Samkvæmt skriflegri yfirlýsingu verkalýðsleiðtogans hafði sjóðsstjórinn lengi haft frítt spil til lánveitinga innan ákveðins ramma. Stjórnir fyrirtækja og stofnana hafa enga heimild til að afsala sér völdum á slíkan hátt. Ef það væri hægt, þyrfti enga stjórn, bara löggiltan endurskoðanda.

Þáverandi sjóðsstjóri túlkar þetta markvissa andvaraleysi þáverandi sjóðsstjórnar sem opna heimild til að lána sjálfum sér og syni sínum 95 milljónir króna. Rétt túlkun er hins vegar sú, að stjórnin hafi reynzt vera jafn óhæf og sjóðsstjórinn. Hvorugur aðilinn eigi að höndla með peninga.

Þáverandi sjóðsstjóri heldur fram, að hann hafi verið svo klár í starfi, að sjóðurinn hafi grætt meira á öðrum ákvörðunum hans en hann tapaði á lánum til hans sjálfs og sonarins. Hann virðist halda, að hann hafi unnið sér inn kvóta til ósæmilegra ákvarðana. Hver er formúla kvótans?

Deiluaðilar áttu að varðveita lífeyri lægst settu stétta þjóðfélagsins, þeirra sem mest þurfa á lífeyri að halda að loknu starfi. Sjóðstjórnin átti að gæta lítilmagnans og taka fram fyrir hendur sjóðsstjórans, í allra síðasta lagi þegar hann vildi lána lífeyri í skýjaborgir sínar og sonarins.

Núverandi sjóðsstjóri segir, að eigendur lífeyrisins skaðist ekki. Það er rangt. Ekki verður tekin sérstök ákvörðun um að skerða lífeyrinn vegna þessa máls, en eigi að síður er ljóst, að til langs tíma skerðist eign þeirra, sem hafa tapað tugum milljóna á ósæmilegum lánveitingum sjóðsins.

Mál þetta minnir á, að víðar í lífeyrissjóðum eru verðmæti geymd í höndum félagsmálaberserkja, sem kunna ekki með fé að fara, ráða sér óhæfa sjóðsstjóra og afsala sér eftirliti.

Jónas Kristjánsson

DV

Innfluttir Indverjar

Greinar

Þverspyrna læknafélagsins gegn innflutningi á indverskum lækni stafar ekki af ótta við, að hann kunni ekki fagið. Þvert á móti óttast félagið, að í ljós komi, að sá indverski sé hæfari en þeir, sem fyrir eru. Eins og í Bretlandi, þar sem hámenntaðir Indverjar eru að taka við læknisþjónustunni.

Bretar hafa góða reynslu af Indverjum á fleiri sviðum. Þeir eru að taka við hlutverki kaupmannsins á horninu, hugsa vel um viðskiptavininn og hafa alltaf opið, þegar hann kærir sig um að verzla. Þetta er iðið og heilsteypt fólk, sem vinnur sig ört til vegsemdar og virðingar í brezku samfélagi.

Við höfum fleiri dæmi um eftirsótta Indverja. Þýzka stjórnin ákvað að auglýsa eftir 10.000 indverskum tölvumönnum. Þeir áttu að verða ríkisborgarar með hraðferð gegnum kerfið, ef þeir vildu gera svo vel að nýta hæfni sína í þágu lands, sem hefur sjálft alið upp of fáa tölvumenn og tölvusnillinga.

Nú er ekki svo, að Indverjar séu einir um hituna. Margar rannsóknir í Bandaríkjunum sýna, að fólk frá Austur-Asíu stendur sig betur en heimamenn, fær hærri einkunnir í skólum, skilar meiru í vinnunni og klifrar þjóðfélagsstigann á sama hátt og Indverjar gera í Bretlandi og Þýzkalandi.

Okkur vantar raunar ekki bara einn indverskan lækni, heldur marga. Okkur vantar marga indverska kaupmenn á horninu. Og ekki síður marga indverska tölvusnillinga. Þeir þurfa ekki einu sinni að vera indverskir, heldur mega þeir líka vera frá Kína eða Taívan, Kóreu eða Japan, Víetnam eða Malasíu.

Aðalatriðið er að fá hingað menntað og duglegt fólk, sem spjarar sig. Það vilja hagsmunaaðilar hins vegar alls ekki. Helzt vilja menn fólk, sem kann ekki neitt, svo að hægt sé að manna færibönd í fiskvinnslu, hreinlæti í stofnunum og verkamannavinnu uppi á helfrosnum heiðum Austurlands.

Við eigum að losna við forneskju af þessu tagi, koma okkur upp vélmennum í fiskvinnslu og skúringum og hætta að niðurgreiða orkuframkvæmdir á heiðum og skak í álpottum niðri á Reyðarfirði. Með verndun færibandavinnu allt frá fiski yfir í ál erum við að hamla gegn bættum lífskjörum.

Bezt væri að leyfa frjálsan innflutning á fólki, sem hefur yfir 130 stig í viðurkenndu greindarprófi. Við þurfum ekki einu sinni að hjálpa því að koma sér fyrir, því að það biður bara um ríkisfang og vinnufrið í frjálsara þjóðfélagi en er á heimaslóðum þess. Það gerir þjóðfélagið ríkara og betra.

Ekki veitir af að fá nýja borgara til að halda þjóðfélaginu gagandi meðan heimafæddir tossar drepa tímann við að horfa á fullorðið fólk gera sig að athlægi í raunveruleikasjónvarpi.

Jónas Kristjánsson

DV

Umferð við höfnina

Greinar

Hversu góðar, sem eru nýjar hugmyndir að skipulagi svæðisins við gömlu Reykjavíkurhöfn, eru þær háðar umferðarskipulagi borgarinnar. Samkvæmt reynslunni er það undantekningarlaust afleitt, hvort sem um er að kenna faglegri vangetu eða brenglaðri hugmyndafræði andúðar yfirvalda á einkabílisma.

Allt fram til ársins 2003 var því haldið fram af yfirvöldum skipulagsins, að ekki væri víst, að mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þyrftu að vera mislæg. Hafa má þá skoðun eina út af fyrir sig til marks um, að eitthvað meira en lítið er athugavert við mat borgarinnar á umferðarþörf.

Fleiri undarleg dæmi eru um þetta, svo sem umferðarljós á mislægum gatnamótum, sem stafa af því, að ekki var strax gert ráð fyrir, að mislægni þyrfti. Afleiðingin er, að ökumenn þurfa oft að stanza á mislægum gatnamótum með tilheyrandi seinkunum á umferð, lausagangi véla og mengun.

Ástæða er til að óttast, að borgaryfirvöld séu enn sem fyrr svo heltekin af hugmyndafræði strætisvagna, að þau telji sig geta mætt auknum umferðarþunga með því að ýta fleirum inn í strætó. Þau ímyndi sér, að unnt sé að mæta framtíð aukins mannfjölda án þess að gera ráð fyrir auknum umferðarþunga.

Þegar lýstur saman andúðinni á einkabílisma og hugmyndafræði þéttari byggðar, sem er önnur mislukkuð aðferð til að þrýsta fólki inn í strætó, verður niðurstaðan umferðaröngþveiti. Gatnakerfið á svæði byggðaþéttingar og í nágrenni hennar getur ekki staðið undir umferðinni og verður að flöskuhálsi.

Þegar svæðið við gömlu höfnina er byggt upp, þarf mislæg gatnamót eftir endilangri Sæbraut og viðstöðulausa tengingu milli Sæbrautar og Hringbrautar, sennilega um jarðgöng undir Skólavörðuholt. Menn þurfa líka að gera ráð fyrir stórfelldum mótum Sæbrautar og fyrirhugaðrar Sundabrautar.

Sagan sýnir, að ástæða er til að óttast, að borgaryfirvöld ímyndi sér, að umferðarþunginn muni aukast minna en eðlilegt er að gera ráð fyrir, af því að þau telji sig munu loksins finna lausn á ögrun einkabílismans. Þannig fer fyrir fólki, sem gerir ekki greinarmun á hugmyndafræði og veruleika.

Við höfum séð hugmyndir borgarskipulagsins um mannvirki í Vatnsmýri án þess að þar sé gert ráð fyrir tilsvarandi víkkun gamla gatnakerfisins. Við höfum séð hugmyndir þess um mannvirki á uppfyllingu úti í Eiðisvík án þess að þar sé gert ráð fyrir tilsvarandi víkkun gamla gatnakerfisins.

Ef ekki verður haft vit fyrir borgaryfirvöldum í tæka tíð, munu þau framleiða öngþveiti á öllum leiðum, sem liggja að hinu fyrirhugaða hverfi við gömlu höfnina í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV

Pentagon og þorskurinn

Greinar

Samkvæmt leyniskýrslu í hermálaráðuneytinu í Pentagon verður Bandaríkjunum meira ógnað af völdum loftslagsbreytinga en hryðjuverkaárása á næstu fimmtán árum. Í skýrslunni er búizt við hærra yfirborði sjávar, ógnarkulda á veturna í sumum löndum, geigvænlegum þurrkum og styrjöldum um vatnsból.

Skýrslan hefur nú lekið út og kemur George W. Bush forseta í mikinn vanda, því að hann hefur hingað til ekki viljað viðurkenna neina hættu af loftslagsbreytingum. Er reiknað með, að pólitískir andstæðingar forsetans muni nota skýrsluna gegn forsetanum í komandi kosningabaráttu.

Golfstraumurinn er meðal annars í húfi. Talið er sennilegt að bráðnun Grænlandsjökuls og fleiri umhverfisbreytingar muni hafa slæm áhrif á hlýja strauminn, sem liggur upp að Íslandi, vermir strendur þess og býr til ákjósanleg skilyrði fyrir nytjafiska á mörkum kalda og hlýja sjávarins.

Í skýrslunni er fjallað um almennt stjórnleysi og ógnaröld, sem hefjist í heiminum, þegar ríki og hópar beiti öllum tiltækum ráðum, þar á meðal kjarnorkuvopnum, í baráttunni um brauð, vatn og olíu, þegar sjór flæðir inn í borgir og matvælaframleiðsla bregzt í kjölfar loftslagsbreytinga.

Hér er ekki verið að tala um fjarlæga framtíð, heldur næstu fimmtán ár. Í stærsta hermálaráðuneyti heims er í alvöru verið að færa vísindaleg rök fyrir því, að pólitísk ragnarök verði á næstu fimmtán árum af völdum þess, sem hingað til hefur verið kallaður heilaspuni úr náttúruverndarsinnum.

Bush hefur hingað til verið mjög hallur undir olíuforstjóra og aðra stórforstjóra, sem eru í senn hatrammir andstæðingar umhverfisstefnu og öflugustu styrktaraðilar forsetans í kosningum. Þess vegna var mikilvægt fyrir forsetann, að skýrslan úr hermálaráðuneytinu kæmi ekki fram í dagsljósið.

Skýrslan er samin að undirlagi Andrew Marshall, sem lengi hefur verið áhrifamikill hugmyndafræðingur í hermálum vestan hafs og hefur notið trausts Donald Rumsfeld hermálaráðherra. Höfundur skýrslunnar eru Peter Schwartz frá leyniþjónustunni CIA og Doug Randall frá Global Business Network.

Athyglisverðast við leyniskýrsluna er, að þar er gert ráð fyrir snöggum og óvæntum veðurbreytingum í stað hægfara breytinga, sem hingað til hafa verið áhyggjuefni. Það kæmi því ekki á óvart, að ríkisstjórn Bandaríkjanna reyndi að snúa við blaðinu í umhverfismálum fyrir næstu kosningar.

Skýrslan er talin vatn á myllu þeirra, sem harðast hafa varað við afleiðingum hamslausra árása hins vestræna nútímamanns á jafnvægið í náttúru jarðar.

Jónas Kristjánsson

DV