Greinar

Stærsti framsóknarflokkurinn.

Greinar

Við þurfum ekki á Framsóknarflokknum að halda, meðan við höfum stærsta framsóknarflokk þjóðarinnar í Sjálfstæðisflokknum. Sá flokkur er nú að ljúka gerð nýrrar stefnu í landbúnaðarmálum og er þar á nokkurn veginn nákvæmlega sömu skoðun og Framsókn.

Löngum hefur það verið talið bera vitni um sjálfseyðingarhvöt, þegar þéttbýlisfólk kýs Framsóknarflokkinn, enda hefur hann nú bara einn þingmann á Reykjavíkur- og Reykjanessvæðinu og mundi samkvæmt skoðanakönnunum missa hann, ef kosið væri þessa dagana.

En þetta kemur afturhaldinu ekki að sök, því að stærsti framsóknarflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn, gætir í hvívetna þeirra hagsmuna, sem valda fylgisleysi Framsóknarflokksins í þéttbýli. Þetta kom fram í Valhallarræðu Birgis Ísleifs Gunnarssonar á fimmtudaginn.

Samkvæmt ræðunni vill Sjálfstæðisflokkurinn minnka “þörfina” á útflutningsbótum og stefna að því, að þær verði “að mestu,’ lagðar niður á fimm árum. Þetta er nákvæmlega stefna Framsóknarflokksins og mun íhaldssamara en skoðanir, sem nýlega komu fram á ráðunautafundi landbúnaðarins.

Sjálfseyðingarhvöt Íslendinga felst aðeins að hluta í útflutningsbótunum, sem eru skítur á priki í samanburði við samanlagðar fórnir þjóðarinnar á altari hins hefðbundna landbúnaðar. Niðurgreiðslurnar og beinu styrkirnir nema hærri fjárhæðum en útflutningsbæturnar.

Segja verður þó Sjálfstæðisflokknum til hróss, að í áðurnefndri stefnu er sagt, að ekki beri að veita framlög til þeirra framkvæmda, sem auka mjólkur- og kjötframleiðslu. Það er raunar eina ljósið í stefnunni, sem Birgir Ísleifur kynnti á fimmtudaginn var.

Í tillögunum er ekkert fjallað um þann vanda, að framleiðsla hins hefðbundna landbúnaðar fyrir innanlandsmarkað er mun dýrari en innfluttar afurðir væru, allt upp í tíu sinnum dýrari. Sú skattlagning á neytendur er stærsti skattur, sem lagður er á þjóðina.

Í tillögunum er gert ráð fyrir, að landbúnaðinum verði áfram “stjórnað”. Sú stjórn felst í, að framleidd eru fjöll af óseljanlegum afurðum. Ekki er bara til smjörfjall, heldur einnig ostafjall, nautakjötsfjall, kindakjötsfjall og nú síðast líka kartöflufjall.

Ekki er von á góðu, þegar formaður stærsta framsóknarflokksins er fulltrúi stærsta landbúnaðarkjördæmis landsins og stendur í ströngu við að hækka franskar kartöflur í verði og reyna að koma á innflutningsbanni þeirra, svo að innlendar hafi frítt spil á kostnað neytenda.

Þorsteinn Pálsson og Jón Helgason framsóknarmenn létu setja aukaskatt á innfluttar kartöfluflögur. Sá skattur leiddi til þess, að innlendu verksmiðjurnar hækkuðu verðið hjá sér. Útkoman er auðvitað sú, að neytendur þurfa að borga meira en áður fyrir framsóknarstefnuna.

Nú gráta innlendir kartöfluflögumenn út af því, að salan hafi ekki aukizt hjá þeim, þrátt fyrir ofbeldi þeirra Jóns og Þorsteins. Þeir heimta núna algert innflutningsbann á franskar kartöflur meðan þeir eru að reyna að selja kartöflufjallið á uppsprengdu verði.

Við skulum fylgjast með því, hvaða árangri þeir munu ná í þessu máli á næstu vikum. Líklegt er, að enn einu sinni verði staðfest, að Sjálfstæðisflokkurinn er framsóknarflokkur, sem styður ríkjandi stefnu í landbúnaði og er jafnan tilbúinn til að fórna hag neytenda og skattgreiðenda, svo sem hin nýja landbúnaðarstefna hans sýnir greinilega.

Jónas Kristjánsson.

DV

Arkin og atómstöðin.

Greinar

Þakka ber William Arkin fyrir að ljóstra upp um bandarískar kjarnorkuáætlanir, sem í tíu ár hafði verið haldið leyndum fyrir stjórnvöldum þeirra ríkja, er koma við sögu í ráðagerðum þessum. Uppljóstrun hans mun sennilega leiða til vandaðri vinnubragða af bandarískri hálfu í framtíðinni.

Ekki er lengur hægt að afskrifa Arkin sem áhugamann, þótt hann hafi fyrir fimm árum hampað röngum upplýsingum um kjarnorkuvopn á Íslandi. Nú er komið í ljós, að hann er sérfræðingur, sem taka verður mark á, þótt upplýsingar hans séu enn ekki alveg nákvæmar.

Bandaríski flotinn hefur í tíu ár samið og endursamið áætlanir, staðfestar af forsetum landsins, um að flytja kjarnorkuvopn til Íslands og sex annarra landa, að fenginni heimild forseta Bandaríkjanna og stjórnvalda landanna, sem ætlað er að hýsa vopnin.

Upphaflega var gert ráð fyrir, að ekki þyrfti sérstaka heimild forseta Bandaríkjanna, en í þeirri áætlun, sem nú gildir, þarf að fá slíka heimild. Alltaf hefur verið gert ráð fyrir, að heimild þyrfti að fá hjá stjórnvöldum viðkomandi ríkja bandamanna.

Ekkert er athugavert við, að slíkar áætlanir séu samdar og staðfestar heima fyrir í Bandaríkjunum. Hitt er athugavert, að áætlunum sé haldið leyndum fyrir öðrum málsaðilum, stjórnvöldum landanna sjö. Í því felst óviðeigandi fyrirlitning á bandamönnum Bandaríkjanna.

Robert Falls, fyrrum yfirmaður kanadíska hersins, hefur sagt, að það sé siðlaust að gera áætlanir um notkun annarra landa í viðkvæmum tilfinningamálum á borð við kjarnorkuvopn án þess að hafa um það samráð. Bandaríkin séu siðferðilega skyldug að hafa slík samráð.

Forstjóri Atlantshafsbandalagsins, Carrington lávarður, hefur gagnrýnt vinnubrögðin vestra. Hann segir við hæfi að leitað sé samráða við stjórnvöld viðkomandi ríkja um slíkar kjarnorkuáætlanir. Ennfremur segir hann, að ekki eigi að draga slík samráð til síðustu stundar.

Íslenzk stjórnvöld hafa komið rétt fram í málinu. Geir Hallgrímsson tók með fyrirvara mark á William Arkin og krafðist skýringa hjá sendimanni bandaríska utanríkisráðuneytisins. Um síðir komu loðin svör, sem íslenzk stjórnvöld hafa talið nokkurn veginn fullnægjandi.

Svörin fólu í sér, að engin kjarnorkuvopn yrðu flutt hingað til lands án leyfis íslenzkra stjórnvalda. Þessi svör hafa nú verið staðfest í fjölmiðlum í Bandaríkjunum og Kanada. Þar með er málið úr sögunni að sinni, en hins vegar ekki lærdómurinn, sem fylgir því.

Stundum gætir tilhneigingar hjá bandarískum embættismönnum og einkum þó herforingjum að líta á bandamenn sem eins konar leppríki. Almenningur í Mið og Suður-Ameríku hefur mátt þola mikinn yfirgang leppa af ýmsu tagi. En hér á Íslandi hafna menn því algerlega að vera leppríki.

Það er í stíl við hugarfarið, að bandarískir embættismenn hafa látið í ljósi megna óánægju með framgöngu Arkins og hafa á orði að sækja hann til saka fyrir brot á lögum um öryggi ríkisins. Hefur hann þó ekki gert annað en að stuðla að siðaðri ráðagerðum þeirra í framtíðinni.

Vonandi þurfum við ekki aftur á Arkin að halda. Við viljum ekki, að fleiri leyndarskjöl séu til, sem varði okkur í viðkvæmum ágreiningsefnum. Sem bandamenn krefjumst við, að komið sé hreint fram við okkur. Trúnaðartraustið hefur laskazt og má ekki við öðru áfalli.

Jónas Kristjánsson.

DV

Enn sigrar Framsókn.

Greinar

Stjórnarflokkarnir hafa náð samkomulagi um ný útvarpslög á þann hátt, að tveir þingmenn þeirra hafa komið sér saman um breytingar á upphaflegu frumvarpi og gert það að enn meiri moðsuðu en áður. Frumvarpið var slæmt fyrir og er eftir breytingarnar orðið enn verra.

Frelsið, sem frumvarpið átti í orði kveðnu að auka, er skert verulega í nýju útgáfunni. Settar eru inn greinar, sem miða að eflingu Ríkisútvarpsins og aðrar, sem torvelda frjálsan útvarpsrekstur. Ljóst má vera, að í enn einu málinu hefur stefna Framsóknarflokksins sigrað.

Upprunalega frumvarpið var spor í þá átt að auka frelsið í útvarpsmálum. Það var að vísu mjög varfærnislegt, enda samið af nefnd allra flokka sem eins konar málamiðlun milli einokunarsinna og frjálsræðissinna. Enginn var í rauninni sáttur við þessa málamiðlun.

Ólafur Þórðarson og Halldór Blöndal alþingismenn hafa nú komið sér saman um nýja málamiðlun, sem er meiri moðstuða en hin fyrri. Eina skýra línan í breytingum þeirra er, að dregið er úr því frelsi, sem upphaflega var markmiðið með starfi hinnar svokölluðu útvarpslaganefndar.

Frumvarpið felur í sér, að frjálsar útvarpsstöðvar eru skyldaðar til að greiða sérstakt leyfisgjald, svo og öll önnur opinber gjöld, svo sem tekju- og eignaskatt, útsvar og aðstöðugjald, en Ríkisútvarpið á að sleppa við öll þessi opinberu gjöld.

Frumvarpið felur í sér, að frjálsar útvarpsstöðvar eru skyldaðar til að láta hluta af tekjum sínum renna til Sinfóníuhljómsveitarinnar til að létta undir með Ríkisútvarpinu, sem á að fá að sitja áfram að bæði afnotagjöldum og auglýsingatekjum.

Frumvarpið felur í sér, að afnotagjöldum Ríkisútvarpsins er breytt í skatt. Það á að skylda þjóðina til að greiða rekstur Ríkisútvarpsins, þótt margir mundu fremur kjósa að láta sinn hluta renna til frjálsra útvarpsstöðva. Fólk fær ekki að velja.

Frumvarpið felur í sér, að auka á rekstur Ríkisútvarpsins á ýmsan hátt, til dæmis með staðbundnu útvarpi og staðbundinni dagskrárgerð. Augljóst er, að þessi ákvæði eiga að draga úr líkum á, að staðbundið útvarp annarra aðila verði að veruleika.

Allar þessar breytingar og aðrar miða að því að hindra frelsið á borði, þótt annað sé haft í orði. Sjónarmið framsóknarmanna hafa gersigrað í hinni nýju málamiðlun og ekkert tillit er tekið til þeirra, sem vildu færa frumvarpið fremur í aukna frjálsræðisátt.

Enn sem komið er felst aðeins í þessu sigur Ólafs Þórðarsonar á Halldóri Blöndal. Alþingi getur enn gripið í taumana og breytt frumvarpinu, bæði til að auka frelsið og til að stöðva ákvæðin um útþenslu Ríkisútvarpsins. Vonandi ber það gæfu til slíks.

Satt að segja væri bezt, að hin nýja útgáfa útvarpslagafrumvarpsins fengi að daga uppi á Alþingi. Það er óskapnaður, sem tryggir, að Íslendingar verði áfram eftirbátar annarra þjóða í útvarpsefnum. Frjálsræðisöflin geta þá alténd haldið áfram baráttunni.

Einhvern tíma munu þessi öfl eignast stuðningsmenn á Alþingi, menn sem láta ekki Framsóknarflokkinn beygja sig í hverju málinu á fætur öðru. Meira frelsi í framtíðinni er mikilvægara en næstum ekkert frelsi strax. Þrýstingurinn mun vaxa og færa okkur betri lög, þótt síðar verði.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hús kosta peninga.

Greinar

Nýjustu aðgerðir stjórnvalda í húsnæðismálum eru fyrst og fremst millifærslur innan húsnæðisgeirans og hafa því ekki varanlegt gildi. Linaðar verða þjáningar þeirra, sem fengið hafa lán, á kostnað hinna, sem enn bíða eftir lánum eða eru að sækja um lán.

Tilraunir til að leysa vandræði húsbyggjenda í alvöru hljóta að kosta peninga. Allt annað er hrein blekking og óskhyggja. Ríkisstjórnin og meirihluti hennar á Alþingi ráða því, hversu mikið fé fer til húsnæðismála og þá ekki til annarra brýnna mála.

Ríkisstjórnin hefur lofað húsbyggjendum lánum fyrir 80% kostnaðar á viðráðanlegum raunvöxtum til um það bil 40 ára. Hún hefur allt kjörtímabilið til að efna loforðið. Senn er tíminn hálfnaður og verkefnið skammt á veg komið, enda er þjóðarbúið ekki vel statt.

Húsbyggingar á Íslandi eru ekki arðbærar, að minnsta kosti ekki í því magni, sem þær eru stundaðar. Engum heilvita manni dytti í hug að byggja hús til að leigja það út. Miklu fremur eru húsnæðismálin pólitísk hugsjón allra flokka. Hugsjón, sem greiða þarf niður af sameiginlegu fé.

Niðurgreiðslur í formi öfugra raunvaxta eru varhugaverðar, þar með talin niðurfelling verðtryggingar fyrstu þrjú árin. Einnig er varasamt að beina aðstoðinni eingöngu að þeim, sem geta sannað, að fjárfesting þeirra sé hrein endaleysa, enda hætta þá hinir bara að borga.

Hitt er sanngjarnt, sem bent hefur verið á, að miða þurfi endurgreiðslur húsnæðislána við aðra vísitölu en lánskjaravísitölu. Fráleitt er, að gróðafíkn ríkisins á sviði áfengis og tóbaks eigi á vegum lánskjaravísitölu að geta sett fjölda húsbyggjenda á höfuðið.

Byggingavísitala sýnist skynsamari kostur, en leysir þó ekki allan vanda, því að hún getur eins og lánskjaravísitalan lent á skjön við kaup og lífskjör fólks. Bezt væri að miða verðtryggingu húsnæðislána við kaupgjaldsvísitölu, svo að fólk viti, að hverju það gengur.

Auðvitað þarf að byrja á að leysa vandræði þeirra, sem hafa á síðustu árum lent í misgengi lánskjara og kaupgjalds. Það ætti að gera með því að endurgreiða fólki mismuninn á greiðslum samkvæmt þessum tveimur vísitölum og haga rukkunum framvegis í samræmi við hina síðari.

Vegna fjárskorts er til að byrja með ekki hægt að gera þetta á annan hátt en nú á að fara að gera, – með því að fresta því að veita ný lán. En þetta er mun heiðarlegri og skynsamlegri leið en að skvetta 150-200 þúsund krónum í þá, sem hæst geta grátið í Húsnæðisstofnun ríkisins.

Líklegt er, að til viðbótar við þessa breytingu þyrfti að greiða niður raunvextina. Þeir hafa tilhneigingu til að verða háir hér á landi vegna gífurlegs skorts á fjármagni. Húsbyggingar eru ekki samkeppnishæfar á því sviði og þola varla meira en 4% raunvexti.

Ef stjórnmálamenn vilja standa við þá hugsjón að gera þjóðinni kleift að byggja yfir sig, er líklegt, að greiða þurfi niður mismuninn á raunvöxtum hins frjálsa markaðar og þeim raunvöxtum, sem íbúðarhúsnæði getur staðið undir. Með 80% lánum til 40 ára ætti slíkt að duga.

En hvort sem þessar tvær leiðir eða aðrar eru farnar, er útilokað að forðast þá staðreynd, að það kostar peninga, en ekki millifærslur eða aðrar sjónhverfingar, að gera þjóðinni kleift að byggja yfir sig. Ennfremur, að þeir peningar verða ekki notaðir í annað.

Jónas Kristjánsson.

DV

Skaðleg framleiðslustjórn.

Greinar

Ekki er nóg að hindra, að Framleiðsluráð landbúnaðarins nái stjórnartökum á nýjum búgreinum til viðbótar við þær, sem það ræður fyrir. Einnig er nauðsynlegt að afnema stjórn ráðsins á framleiðslu hins hefðbundna landbúnaðar. Reynslan sýnir, að hún leiðir til ófarnaðar.

Miklar og vaxandi birgðir eru af óseljanlegum afurðum ráðsins. Hálfs árs birgðir eru til í smjörfjalli, hálfs árs birgðir í ostafjalli, hálfs árs birgðir í nautakjötsfjalli, heils árs birgðir í dilkakjötsfjalli og tveggja ára birgðir í kartöflufjalli.

Tölur frá 1. desember sýndu 409 tonna smjörfjall, en ársneyzlan er 918 tonn. Ostafjallið var 922 tonn, en ársneyzlan er 1700 tonn. Nautakjötsfjallið var 1000 tonn, en ársneyzlan er 2000 tonn. Kindakjötsfjallið var 11.551 tonn, en ársneyzlan er 9739 tonn.

Samt hafði mikið verið gefið til útlanda til að reyna að grynna á birgðunum. Útflutningsuppbætur áttu samkvæmt fjárlögum að vera 280 milljónir, en ruku upp í 480 milljónir króna. Osturinn fór til Evrópu á 16% af kostnaðarverði og smjörið er nú í 10%.

Engin fjöll hafa hins vegar myndast í þeim greinum, sem framleiðsluráð stjórnar ekki, en sækist eftir að ná tökum á. Engin fjöll eru af eggjum og kjúklingum, svínakjöti og loðdýrum. Á þeim sviðum sér markaðurinn sjálfkrafa um að halda framboði í jafnvægi.

Ekki er einungis um að ræða, að skorturinn á framleiðslustjórn hafi komið í veg fyrir offramleiðslu á þessum sviðum. Skorturinn á framleiðslustjórn hefur líka leitt til minni verðhækkana en hafa orðið hjá stýrðu greinunum hjá Framleiðsluráði landbúnaðarins.

Frá desember 1972 til júní 1984 hækkaði hið framleiðslustýrða dilkakjöt um 3583%, nautakjötið um 5736%, nýmjólkin um 4050% og osturinn um 3921%, allt saman í óniðurgreiddum tölum. Í öllum tilvikum voru þessar hækkanir langt umfram verðbólgu tímabilsins.

Í óstýrðu greinunum voru hækkanirnar ekki aðeins minni en í stýrðu greinunum, heldur einnig hóflegar í samanburði við verðbólgu tímabilsins. Svínakjötið hækkaði um 2606%, kjúklingarnir um 2530%, eggin um 2508%. Á sama tíma hækkuðu laun um 2514%.

Niðurstaðan er, að stjórnleysi er ódýrara fyrir neytendur, launþega og skattgreiðendur en stjórn Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Þessir hagsmunir eru svo yfirgnæfandi, að augljós þjóðarhagur felst í, að ráð þetta verði lagt niður sem allra fyrst.

Slík breyting væri líka í þágu bænda. Í óstýrðu greinunum geta þeir borið höfuðið hátt, meðan stýrðu bændurnir hafa sætt og munu áfram sæta gagnrýni fyrir að liggja uppi á neytendum, launþegum og skattgreiðendum. Slík niðurlæging getur ekki gengið lengi.

Einhvern tíma rís þjóðin upp gegn oki Framleiðsluráðs landbúnaðarins og brýtur vald þess á bak aftur. En það verður því miður ekki í tíð þessarar ríkisstjórnar, er hefur ráðið sem eitt af gæludýrum sínum og leyfir því að ráðskast með hluta ríkisvaldsins.

Þvert á móti er framleiðsluráðið í sókn um þessar mundir með aðstoð systurstofnana sinna. Það stefnir að stjórnartökum á öllum búgreinum. Neytendur, launþegar og skattgreiðendur verða að taka hart á móti þessu skrímsli. sem hvarvetna eitrar út frá sér.

Jónas Kristjánsson

DV

Hungurframleiðsla.

Greinar

Íslenzkir fjölmiðlar hafa fengið tækifæri til að komast að raun um, að hjálpin frá Íslandi til Eþíópíu kemst til skila. Gamalgróið trúboð Íslendinga þar syðra veldur því, að fulltrúar íslenzku þjóðkirkjunnar eru þar í grasrótinni og geta fylgzt með varningnum á leiðarenda.

Því er ekki þannig farið með meirihlutann af aðstoð annarra ríkja Vesturlanda. Hann fer í að halda uppi 300 þúsund manna her ógnarstjórnarinnar í Addis Ababa, sem hefur búið til hungursneyðina í landinu. Leiðtogar hjálparstarfsins reyna að þegja yfir þessu eins og þeir gerðu í Kampútseu á sínum tíma.

Mörg ríki eru á þurrkasvæðinu sunnan við Sahara, til dæmis Súdan, Tsjad, Níger, Búrkína Fasó, Malí og Máretanía. Hvergi hefur þó verið framleidd önnur eins hungursneyð og í Eþíópíu. Munurinn felst í þjóðskipulaginu, sem ógnarstjórn kommúnista hefur innleitt í Eþíópíu.

Um 60% af landinu er ræktanlegt, en aðeins 13% er ræktað. Bændur vilja ekki framleiða meira en ofan í sig og sína, því ríkisstjórnin stelur hinu, auk þess sem hún reynir að þvinga þá inn í samyrkjubú. Þar á ofan heyr hún útrýmingarstríð gegn íbúum Erítreu og Tigre.

Öll kredda er hættuleg, en verst er sú, sem upprunnin er í Sovétríkjunum. Engin kredda felur í sér eins mikla fyrirlitningu á fólki. Hræðileg eru örlög þeirra þjóða, sem hafa lent undir hramminum. Við munum eftir Kampútseum. Nú eru íbúar Eþíópíu í eldlínunni.

Ógnarstjórnin í Addis Ababa hefur engar mannlegar tilfinningar í garð íbúa landsins. Á byltingarafmælinu eyddi hún í viskí upphæðum, sem hefðu getað nært þjóðina í heilt ár. Að öðru leyti fara allir fjármunir hennar í að kaupa vopn frá Sovétríkjunum.

Ógnarstjórnin hefur afrekað að tolla hjálpargögn, sem koma til landsins. Bryggjur, sem eru fráteknar fyrir hjálparstarf, notar hún til að skipa upp hergögnum, meðan hjálparskipin bíða. Þannig framkallar stjórnin hungur íbúanna um leið og hún kastar sprengjum á þá.

Ógnarstjórnin tefur fyrir starfi hjálparliða á ýmsan hátt. Hún frestar afgreiðslu á ferðaleyfum, svarar ekki fyrirspurnum og gleymir að gefa út vegabréfsáritanir. Leiðtogar hjálparstarfsins þegja um þetta, af því að þeir vilja ekki spilla samstarfsmöguleikunum.

Sorglegt er, að verulegur hluti hinnar vestrænu hjálpar fer til að halda uppi herjum ógnarstjórnarinnar og stuðlar þannig að framhaldi hungursneyðarinnar. Það er í stíl við þetta, að Sameinuðu þjóðirnar hafa nú ákveðið að reisa mikla ráðstefnuhöll í Addis Ababa.

Tímabært er, að hjálparstofnanir á Vesturlöndum endurskoði vinnubrögðin í Eþíópíu. Þær ættu að reyna að hindra ranga notkun hjálpargagnanna og nota heldur stofnanir á borð við íslenzku þjóðkirkjuna, sem hafa reynzt geta komið sinni hjálp á leiðarenda.

Ennfremur er nauðsynlegt að láta meiri hluta af hjálpinni renna um nágrannalöndin, svo sem Súdan. Á þann hátt stuðlar hjálpin ekki að viðgangi ógnarstjórnarinnar, heldur grefur undan henni. Sú hjálp, sem grefur undan hungurframleiðendum, er mikilvægust.

Hungursneyðin í Eþíópíu er skólabókardæmi um, hvernig hægt er með kreddu að framleiða hungur, svelta milljónir manna til dauða. Í Kampútseu tókst kreddunni fyrir nokkrum árum að þurrka út gamla menningu. Nú er svipuð saga að gerast í Eþíópíu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Hin græðandi hönd.

Greinar

Loksins hafa stjórnvöld í raun tekið jákvæða afstöðu til fiskeldis í landinu. Sverrir Hermannsson orkuráðherra hefur gefið vilyrði fyrir, að velheppnuð borhola misheppnaðrar sjóefnaiðju verði notuð til að veita fiskræktendum aðgang að ódýrri hitaveitu.

Hingað til hafa stjórnmálamenn verið miklir í orði en litlir á borði, þegar um fiskeldi hefur verið að ræða. Í reynd hafa þeir í rúman aldarfjórðung látið viðgangast, að ríkiskerfið legði dauða hönd sína á tilraunir brautryðjenda til að koma fiskeldi á fót.

Hér í leiðaranum var um daginn minnt á sögu Laxalóns. Embættismenn hins opinbera ofsóttu það framtak í að minnsta kosti aldarfjórðung og reyndu að koma á það sjúkdómsorði. Meðal annars fékk Laxalón ekki tilskilda ríkisstimpla til að fá að selja seiði regnbogasilungs.

Í 30 ár kom aldrei upp neinn sjúkdómur í regnbogasilungi Laxalóns og er þar líklega einsdæmi í heiminum. Aðeins einu sinni kom þar upp nýrnasjúkdómur í laxi. Það er sami árangur og náðst hefur í Kollafjarðarstöð ríkisins, þar sem þessi sjúkdómur hefur nú komið upp.

Þeim, sem söguna þekkja, verður óglatt af að sjá nú nokkra Keldnamenn, starfsfélaga yfirdýralæknis, fara með hortugt fleipur á prenti um mál þetta. Kerfismenn létu sig á sínum tíma ekki muna um að reyna að koma óorði á erlenda vísindamenn, Frank Bregnballe og dr. Trevor Evelyn.

Fjöldi góðra manna reyndi að sporna gegn ofsóknum kerfisins, svo og samtök á borð við Verzlunarráð. Margir alþingismenn lögðu opinberlega hönd á plóginn. Einu sinni reyndi Allsherjarnefnd alþingis að vernda Laxalón. En kerfið hafði jafnan sitt fram.

Með samræmdum aðgerðum embættismanna undir verndarvæng landbúnaðarráðuneytisins var komið í þrjá áratugi í veg fyrir, að fiskeldi gæti þróazt hér með sama hætti og í Noregi á sama tíma. Og allt virðist þetta hafa verið gert til að koma á einokun ríkisins.

En núna er nóg komið um sorgarsögu hinnar dauðu handar. Við skulum heldur beina athyglinni að hinni græðandi bendi, sem komin er til skjalanna um allt land, ekki fyrir tilverknað eða fjárstuðning ríkisins, heldur þrátt fyrir afskipti ríkisins af íslenzku fiskeldi.

Um það bil 30 fiskeldisstöðvar hafa tekið til starfa og um 10 munu fljótlega komast í rekstur. Í litlu bæjarfélagi, Grindavík, eru hvorki meira né minna en fjórar stöðvar í uppbyggingu eða gangi. Þróunin er komin á fullt skrið og verður ekki stöðvuð úr þessu.

Menn fara mismunandi hratt út í ævintýrið. Í Grundarfirði er útgerðarmaður að koma upp 50 þúsund seiða stöð, í Grindavík er Sambandið að reisa 500 þúsund seiða stöð og í Kelduhverfi ráðgera Eykonsmenn fimm milljón seiða stöð. Vonandi gengur alls staðar vel.

Í fyrra lánaði Framkvæmdasjóður 22 milljónir til fiskeldis og Byggðasjóður fjórar auk þess sem hann gaf eina milljón. Þetta er ekki nema dropi í hafið og er ekkert í samjöfnuði við stuðninginn við hinar hefðbundnu greinar. Enda hefur þing Stéttarsambands bænda varað við þróun fiskeldis!

En nú er komin betri tíð með blóm í haga. Orkuráðherra býður fyrir lítið fé 25 megavatta afl á Reykjanesi. Næsta skref verður síðan að draga úr lánsfé til hefðbundinna greina og beina því í staðinn að fiskeldi. Fortíðin er liðin og nú á framtíðin að taka við.

Jónas Kristjánsson

DV

Hótað nýrri lokun.

Greinar

Einokun Ríkisútvarpsins hefur smám saman verið að breytast úr einokun ríkisvaldsins yfir í einokun starfsmanna. Völdin hafa verið að færast frá þingkjörnu útvarpsráði yfir til æviráðinna stjórnenda og starfsmanna og nú síðast einnig til starfsmannafélaga.

Ýmis dæmi eru um þessa tilfærslu Ríkisútvarpsins yfir í sjálfseignarstofnun starfsmanna. Útvarpsráð hefur átt í sívaxandi erfiðleikum með að ná fram meirihlutahugmyndum sínum um mannaráðningar. Og upp á síðkastið eru starfsmenn farnir að taka setu í ráðinu.

Í Ríkisútvarpinu hefur verið búið til frumvarp til laga um, að einokun þess skuli ekki rofin, heldur á formlegan hátt breytt í einokun starfsmanna. Kvennalistinn hefur verið gabbaður til að flytja frumvarpið, sem er vitlausasta plaggið á Alþingi um þessar mundir.

Í viðtölum við starfsmenn Ríkisútvarpsins hefur í vaxandi mæli komið fram af þeirra hálfu sú skoðun, að gagnrýni, til dæmis í lesendabréfum, á störf þeirra innan einokunarinnar feli í sér atvinnuróg. Þarna er samkeppnislaust fólk, sem vill fá frið fyrir gagnrýni.

Frægast er þó, er ráðamenn starfsmannafélaga Ríkisútvarpsins létu starfsliðið stöðva sendingar útvarps og sjónvarps í fjölmiðlaleysinu fyrr í vetur. Þá sannfærðist meirihluti þjóðarinnar um, að hvorki ríkisvaldi né starfsmannafélögum væri treystandi fyrir einokun.

Athyglisvert er, að engir starfsmenn Ríkisútvarpsins eða starfsmannafélög hafa gert tilraun til að sækja fjármálaráðuneytið að lögum fyrir meint vanskil á launum. Samt eru nú liðnir fjórir mánuðir síðan þessir aðilar töldu sér stætt á að stöðva sendingar Ríkisútvarpsins.

Ekki er síður athyglisvert, að nú hótar forvígismaður starfsmannafélaganna nýrri lokun Ríkisútvarpsins, ef ekki verði látin niður falla ákæra ríkissaksóknara á hendur félögunum fyrir stöðvun sendinga útvarps og sjónvarps í fjölmiðlaleysinu fyrr í vetur.

Með hótun forvígismannsins er enn staðfest, að starfsmannafélögum Ríkisútvarpsins er ekki treystandi fyrir einokun þeirra á útvarps- og sjónvarpsrekstri í landinu. Hótun hans ætti að vera alþingismönnum hvatning til að vinda sér í að frelsa útvarp og sjónvarp.

Forvígismaðurinn hélt í síðustu viku fréttamannafund til að búa til tækifæri til að koma ítarlegum og einhliða áróðri í fréttir útvarps og sjónvarps. Þar hófst blekkingarherferð, sem ætlað er að koma því inn hjá fólki, að starfslið þar sæti pólitískum ofsóknum.

Einn helzti fótur ofsóknakenningarinnar var, að starfsmannafélögunum hefði ekki verið birt ákæran. Þá mega margir telja sig ofsótta, því að sakadómarar láta almennt undir höfuð leggjast að birta mönnum ákærur áður en þeir lesa um þær í fjölmiðlum.

Kenningin um ofsóknir er tilraun til að hræða réttarkerfið í landinu frá því að fylgja eftir ákæru, sem er svo alvarlegs eðlis, að brot sæta varðhaldi. Starfsmannafélögin treysta sér hins vegar ekki til að láta reyna á lokunina eftir venjulegum dómsmálaleiðum.

Tímabært er orðið að stöðva breytingu Ríkisútvarpsins yfir í starfsmannaeinokun, ekki með því að efla á ný hina gömlu og úreltu einokun stjórnmálaflokkanna, heldur með því að frelsa útvarp og sjónvarp úr viðjum einokunar. Það er svarið við hinni nýju lokunarhótun.

Jónas Kristjánsson.

DV

Faktúru-Fölsunar-Félagið.

Greinar

Hundrað Þúsund Naglbítar, öðru nafni Bítar, sat í New York og rak Snorra-Eddu, öðru nafni Faktúru-Fölsunar-Félagið. Svo segir Halldór Laxness í Atómstöðinni. Hin ábatasama iðja er þannig orðin fræg í bókmenntasögu landsins, hvort sem menn líta á það í gamni eða alvöru.

Faktúrufölsun höfðar greinilega til Íslendinga, svo sem sjá má af fréttum undanfarinna vikna. Sennilega líta menn hana ekki mjög alvarlegum augum, enda eru raunar ekki nema peningar í húfi. Og alténd lítur ríkisvaldið misjöfnum augum á faktúrufölsun, eftir því hver á í hlut.

Fyrir nokkrum árum voru menn dæmdir til nokkurra mánaða fangelsisvistar fyrir að gefa upp of hátt kaupverð á skipi. Nú er kominn á kreik grunur um, að greitt hafi verið minna fyrir olíuskipið Kyndil en gefið var upp í fyrstu fréttum af kaupunum.

Ekkert hefur sannazt í máli þessu. Eðlilegt væri, að ríkið léti rannsaka það. Jan I. Eliassen hjá Norges Handels- og Sjöfartstidende telur, að kaupverð skipsins hafi verið 112 milljónir króna, en ekki 123 milljónir. Þarna munar töluverðu, ellefu milljónum.

Raunar telur Eliassen, að lægra kaupverðið sé of hátt miðað við markaðinn. Systurskip Kyndils hefur verið boðið til kaups á 89 milljónir króna. Talið er, að það fari á enn lægra verði. En olíufélögin eru svo fín fyrirtæki, að þessi mál má ekki einu sinni skoða.

Virðulegasta faktúrufölsunarfélagið er Samband íslenzkra samvinnufélaga. Það hefur í London sérstakan kontór, sem býr til reikninga. Frægustu reikningarnir þaðan fjalla um kaffibaunir, sem hækkuðu úr 427 milljónum króna upp í 650 milljónir eða um 223 milljónir.

Af því að Sambandið er svo fínt fyrirtæki, var ekki óskað eftir gæzluvarðhaldi neins og ekkert bókhald gert upptækt. Sambandið fékk í rólegheitum að endurgreiða Kaffibrennslu Akureyrar verulegan hluta 223 milljónanna, sem skattrannsóknarstjóri fann af tilviljun.

Samt virðist augljóst, að Sambandið hafi brotið gjaldeyrislög og hugsanlega líka bókhalds-, skatta-, verðlags- og samvinnufélagalög. En málið er leyst með því að leyfa Sambandinu að láta það ganga til baka.

Önnur voru viðbrögðin, þegar smákarl í faktúrufölsun var tekinn í síðustu viku. Hann fór beint í gæzluvarðhald og bókhaldið var gert upptækt. Þannig finnst hinu opinbera stundum, að faktúrufölsun sé alvarlegt mál, en stundum líka, að hún sé bara gamanmál.

Mismunurinn virðist ekki fara eftir upphæðunum, sem í húfi eru. Hann virðist fremur fara eftir því, hversu fín og virðuleg fyrirtækin eru. Olíufélögin og Samband íslenzkra samvinnufélaga komast greinilega í efri flokkinn, þar sem ekkert rangt er gert.

Telja má það gat í kerfinu, að Samband íslenzkra samvinnufélaga geti lent í úrtaki hjá skattrannsóknarstjóra og að forstjórar þess þurfi að endurgreiða milljónir í persónulega skatta. Ef fínu félögin væru undanþegin úrtaki, væri Sambandið enn hreint og hvítt.

223 milljón króna grínmál SÍS fjallar því miður um kaffibaunir. Meiri stíll hefði verið yfir hundrað þúsund naglbítum. En Sambandið ætti þó að fylgja gamni sínu og ríkisvaldsins á enda og skipta um skammstöfun. Stafirnir FFF færu því einstaklega vel.

Jónas Kristjánsson.

DV

Ráðherra gegn Mývatni.

Greinar

Fimmtán ára framlenging á starfsleyfi Kísiliðjunnar við Mývatn er algerlega út í hött. Framtak Sverris Hermannssonar á þessu sviði verður ekki stutt neinum haldbærum rökum og varðar þar á ofan sennilega við lög. Það er eins og einhver ónáttúra sé á ferðinni.

Samkvæmt lögum um verndun Mývatns og Laxár má ekki heimila þar mannvirkjagerð og jarðrask nema með leyfi Náttúruverndarráðs. Mývatn er friðað svæði undir vernd Náttúruverndarráðs. Eftir frumhlaup ráðherrans er ráðinu skylt að sækja hann að lögum fyrir valdníðslu.

Með hverju árinu, sem líður, aukast áhyggjur náttúruverndarmanna vegna efnistöku Kísiliðjunnar úr Mývatni. Hið heimsfræga lífríki vatnsins byggist á, hversu grunnt það er. Því meira, sem það er dýpkað, þeim mun grófar er lífríkinu stefnt í hættu.

Náttúruverndarráð hefur mælt með, að vægar verði farið í sakirnar og starfsleyfi Kísiliðjunnar framlengt um fimm ár að þessu sinni. Það er skynsamleg og sáttfús tillaga, sem hefði í framkvæmd gefið tíma til nánari úttektar á stöðu og horfum lífríkisins.

Því miður hafa núverandi og fyrrverandi stjórnvöld látið undir höfuð leggjast að nota efnistökugjald Kísiliðjunnar til að kosta líffræðirannsóknir á Mývatni. Þess vegna er of lítið vitað um, hversu nærri vatninu megi ganga til að halda Kísiliðjunni í rekstri.

Nú lofar iðnaðarráðherra, að framvegis verði gjaldið notað til þessara rannsókna. Það er út af fyrir sig betra en ekki neitt, þótt taka verði loforð stjórnmálamanna með ærnum fyrirvara. Að minnsta kosti eru mörg óefnd af loforðum flestra ráðherranna.

Sagt er, að afturkalla megi starfsleyfi Kísiliðjunnar. ef rannsóknir sýni, að hætta sé á ferðum. Hins vegar er augljóst, að slík náttúruvernd er mun veikari en sú, sem krefst nýs starfsleyfis hverju sinni. Afturköllun er stærra mál en leyfisneitun.

Ráðherra skýtur sér á bak við Hjörleif Guttormsson, forvera sinn í embætti. Hann verður að sjálfsögðu að fá að velja sér þær fyrirmyndir, sem honum finnst helgastar. En ýmsir aðrir telja sig hafa reynslu af því, að ekki hafi allt verið gott, sem Hjörleifur gerði.

Auk þess breytist staðan með hverju árinu. Mývatn dýpkar alltaf. Þótt einhvern tíma hafi verið verjandi að framlengja starfsleyfi Kísiliðjunnar, felst ekki í því neitt fordæmi, sem núverandi og verðandi iðnaðarráðherra geti vitnað í eins og biblíuna.

Auðvitað ber í þessu máli einnig að taka tillit til hagsmuna Kísiliðjunnar. Ráðagerðir stjórnenda hennar um framtíðina verða því einfaldari sem þeir hafa meiri tíma til stefnu. Auðveldara er að hafa fimmtán ára leyfi í höndunum en þrisvar sinnum fimm ára leyfi.

En í þessu máli eru hagsmunirnir engan veginn sambærilegir. Lífríki Mývatns er margfalt verðmætara en afurðir Kísiliðjunnar. Gildir einu, hvort menn mæla það í peningum eða öðrum verðmætum. Hagsmunir Mývatns verða að fá að ráða, þótt stjórnmálamönnum skoli í ráðherrastól.

Því miður er reynsla fyrir því, að íslenzkir dómstólar hafa tilhneigingu til að gæta hagsmuna þeirra, sem fara með framkvæmdavaldið í landinu, og hvetja þannig til valdníðslu. En Náttúruverndarráð getur samt ekki vikizt undan þeirri skyldu að höfða mál gegn ráðherra, sem telur sig vera ríkið sjálft.

Jónas Kristjánsson.

DV

Spáð í óvissuna.

Greinar

Fylgisaukning Alþýðuflokksins í nýjustu könnun DV er ekki bundin á trompreikningi til langs tíma. Hún getur horfið eins snögglega og hún kom. Fylgisaukningin er afleiðing þróunar mála að undanförnu og hefur ekki spásagnargildi, allra sízt langt fram í tímann.

Hið sama má segja um sveiflur fylgis annarra flokka. Svavar Gestsson, formaður Alþýðubandalagsins, segist réttilega spyrja að leikslokum í kosningum. En hin slæma útreið aðalflokks stjórnarandstöðunnar hlýtur þó að verða honum aðkallandi umhugsunarefni.

Skoðanakannanir sýna breytingar, sem orðið hafa frá síðustu könnun. Sem slíkar eru þær ekki aðeins upplýsingar og spennandi lesefni. Þær eru líka stjórnmálamönnum tækifæri til að endurmeta stöðuna. Og svo verður örugglega að þessu sinni, ekki síður en hingað til.

Alþýðubandalagið telur sig vafalaust geta reynt að endurheimta fylgi, sem færzt hefur til Alþýðuflokksins og Kvennalistans. Líklegast til árangurs fyrir það væri að líta í eigin barm og spyrja, hvað fæli fólk frá flokki, sem ætti að geta baðað sig í stjórnarandstöðunni.

Alþýðubandalaginu liggur ekki á kosningum á þessu ári. Alþýðuflokknum og að nokkru leyti Kvennalistanum kæmu þær sér hins vegar vel. Til dæmis má ætla líklegt, að sveiflan endist Alþýðuflokknum fram á sumarið. Fjarlægari framtíð er hins vegar meiri óvissu hulin.

Mestu máli skiptir, hvernig ráðamenn í Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum meta stöðuna eftir skoðanakönnunina. Sumpart mun hún gera Framsókn hrædda við kosningar, en á hinn veginn hvetja samstarfsflokkinn til að bjarga sér á þurrt eftir óvinsælt stjórnarsamstarf.

Aðrir munu segja sem svo, að fyrst sé bezt að sýna markverðar tillögur um baráttuna við helztu vandamál þjóðarinnar á sviði efnahags- og fjármála. Slíkar tillögur muni bæta stöðu beggja stjórnarflokkanna í kosningum, sem haldnar yrðu á þessu ári.

Enn aðrir munu segja, að slíkar tillögur mundu, ef framkvæmdar yrðu, endurnýja traust manna á ríkisstjórninni og veita henni siðferðilegan styrk til að halda áfram samstarfinu langleiðina eða alla leiðina til loka kjörtímabilsins eftir rúmlega tvö ár.

Í öllu falli er það sjálfskaparvíti stjórnarflokkanna, ef þeim tekst ekki að læra af aðvöruninni, sem þeir hafa fengið. Ef ríkisstjórnin flýtur áfram sofandi að feigðarósi, verður Sjálfstæðisflokkurinn að gefast upp, áður en hann lendir í sama fylgishruni og Framsóknarflokkurinn.

Ýmsir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum horfa nú mjög á tölur, sem sýna, að viðreisnarmynztrið sé komið í meirihluta og það án þátttöku Bandalags jafnaðarmanna. Þetta eykur kosningafreistingarnar og magnar óánægjuna með hina róstusömu sambúð við Framsóknarflokkinn.

Samt er viðreisnarmynztrið sýnd veiði, en ekki gefin. Ekki er víst, að flokkur, sem hefur dregið sér fylgi frá vinstri sé reiðubúinn til að semja til hægri. Viðreisnarsinnar gætu hæglega orðið fyrir gífurlegum vonbrigðum eftir kosningar, það er að segja fengið vinstri stjórn.

Óvissan um öll þessi atriði er enn meiri fyrir þá sök, að allar kannanir sýna, að hinir óráðnu kjósendur eru stærsti stjórnmálaflokkurinn. Þær sýna, að kjósendur eru engar fasteignir flokkanna. Hollusta við flokka er orðin að minnihlutafyrirbæri í þjóðfélaginu.

Jónas Kristjánsson.

DV

Tölurnar eru á borðinu.

Greinar

Aðferðafræði DV í skoðanakönnunum hefur sigrað í fjölmiðlaheiminum. NT telur til dæmis könnunum sínum til gildis, að þar sé beitt nákvæmlega sömu aðferðum og gefið hafa góðan árangur í DV. Reynslan er bezti dómarinn í þessu sem öðru, hvað sem öfundarmenn segja.

Síðasti móhíkaninn er raunar framsóknarþingmaðurinn Haraldur Ólafsson. Hann sagði nýlega í blaðagrein, að DV birti ekki næga fyrirvara með könnunum sínum, aðferðin væri varasöm og í henni væri innbyggður galli, er meðal annars lýsti sér í vanmati á fylgi Framsóknar.

Allt er þetta rangt. DV leggur jafnan mikla áherzlu á að vekja athygli á takmörkunum skoðanakannana af þessu tagi. Aðferðin er ekki varasöm, heldur traust, svo sem komið hefur í ljós í kosningum á kosningar ofan. Aðferðir DV í skoðanakönnunum hafa aldrei brugðizt.

Fyrir síðustu kosningar var gerð tilraun til að mæla innbyggðan galla í könnunum DV. Fyrri kannanir blaðsins voru skekkjureiknaðar til að finna formúlu, sem gæti gert niðurstöður nákvæmari. Blaðið birti bæði einföldu og skekkjureiknuðu niðurstöðurnar í síðustu könnun fyrir kosningar.

Í ljós kom, að einföldu niðurstöðurnar fóru nær hinu rétta en skekkjureiknuðu niðurstöðurnar. Það mistókst sem sagt að finna innbyggða skekkju. Hún er sjálfsagt til og finnst einhvern tíma, en er þó svo lítil, að hún hefur ekki mælzt enn. Það er ekki svo lítið afrek.

Fylgi Framsóknarflokksins hefur ekki reynzt vera vanmetið í könnunum DV, hvað sem Haraldur Ólafsson segir. Þegar flokkurinn fær meira fylgi í könnunum NT, stafar það af því, að almennt er litið á NT sem flokksblað Framsóknar og blaðinu er svarað með tilliti til þess.

Með þessu er ekki verið að lasta framtak NT á þessu sviði. Skoðanakannanir geta verið gagnlegar, þótt þær feli í sér innbyggða skekkju. Altjend er með árangri hægt að bera niðurstöður blaðsins saman við fyrri niðurstöður sama blaðs, þótt vafasamt sé að bera þær saman við niðurstöður DV.

Mönnum er óhætt að treysta niðurstöðum skoðanakannana DV, enda gera stjórnmálamenn það almennt. Meira að segja liggur við, að sumir þeirra treysti þeim upp á brot úr prósenti, sem er fullmikið af því góða. En meginlínurnar eru ljósar í þetta sinn eins og jafnan áður.

Skoðanakönnun DV, sem birtist í dag, sýnir endurreisn Alþýðuflokksins, að því er virðist mest á kostnað Alþýðubandalagsins og nokkuð á kostnað Framsóknarflokksins, en aðeins lítillega á kostnað Bandalags jafnaðarmanna og furðanlega lítið á kostnað Sjálfstæðisflokksins.

Nýju flokkarnir standa sig ágætlega í þessari könnun sem og hinum fyrri. Kvennalistinn virðist vera í samfelldri sókn. Þeir, sem mesta aðvörun fá í könnuninni, eru Framsóknarflokkurinn og Alþýðubandalagið, sem ekki hefur megnað að hagnýta sér stjórnarandstöðuna.

Sjálfstæðisflokkurinn má hins vegar vel við una eftir allt uppþotið í flokknum í vetur. Kjósendur hans virðast vera flokknum tryggir, þótt þeir lýsi margir andstöðu við ríkisstjórnina. Hún má líka vel við una, því að óvinsældir hennar hafa ekki aukizt síðan í október.

Þetta eru meginlínurnar í niðurstöðum skoðanakönnunar DV, að verulegu leyti studdar hliðstæðum niðurstöðum í nýlegum könnunum NT og Helgarpóstsins. Þetta eru staðreyndirnar, sem stjórnmálamenn hafa til hliðsjónar, þegar þeir taka til við skákina fram til vors.

Jónas Kristjánsson.

DV

Óhófleg athafnagleði.

Greinar

Landsvirkjun og stuðningsmenn hennar hafa farið halloka í hinni óbeinu ritdeilu við Finnboga Jónsson verkfræðing um offjárfestingu í orkuverum. Eftir stendur, að framkvæmdagleði Landsvirkjunar á þátt í óeðlilega háu orkuverði til almennra nota hér á landi.

Landsvirkjun hefur sér til málsbóta, að illa fyrirsjáanlegar aðstæður hafa gert fyrri orkuspá úrelta. Ennfremur, að hún hefur raunar sjálf séð, að of geyst var farið, og lækkað framkvæmdaáætlun þessa árs, fyrst úr 1.400 milljónum í 1.200 milljónir og nú síðast í 950 milljónir.

Deiluaðilar eru sammála um, að umframorka Landsvirkjunar sé nú 750 gígawattstundir á ári. Þar af eru 250, sem Landsvirkjun hefur til öryggis, 200, sem ekki eru nýttar af Hrauneyjafossi, og 300, sem stafa af óþarflega skjótum framkvæmdum við Sultartanga og í Kvíslaveitu.

Varaorka Landsvirkjunar er mikil. Samt er stóriðja verulegur hluti viðskipta hennar. Samningar um þá orkusölu fela yfirleitt í sér ákvæði fyrir léleg vatnsár. Til dæmis má skerða orkusölu til Ísal um 200 gígawattstundir á ári, ef mikið liggur við.

Þá hefur Finnbogi bent á, að ódýrara sé að flytja inn ammoníak til Áburðarverksmiðjunnar en að halda uppi varaorku fyrir hana í vondum vatnsárum. Um leið sýnir sá samanburður óbeint, að orkuverð verksmiðjunnar hlýtur að fela í sér töluverða niðurgreiðslu áburðar.

Raunar hefur Finnbogi slegið öryggisvopnin úr höndum Landsvirkjunar með því að benda á, að ekki mundi taka stóriðjumenn nema mínútu að reikna út, að glórulaust væri að greiða herkostnaðinn af umframorku Landsvirkjunar, ef hún væri seld á kostnaðarverði.

Umframorkan, sem Landsvirkjun telur nauðsynlega, 250 gígawattstundir, nemur 25% af heildarmarkaðinum og hvorki meira né minna en 55% af almenna markaðinum, þegar búið er að draga frá stóriðjuna. Hæpið er, að nauðsynlegur sé meira en lítill hluti af þessu.

Einföld tilvitnun í málsvara Landsvirkjunar er gott dæmi um takmarkað fjármálavit á þeim bæ. Hann sagði: “Kvíslaveitur eru ekki fullgerðar og hafa engin áhrif á orkuverð fyrr en svo verður.” Fjórir áfangar framkvæmdarinnar eru búnir og hinum fimmta og síðasta hefur verið frestað.

Tilgangslaust væri að segja húsbyggjanda og hvað þá fjármálamanni, að ekki sé kostnaður af framkvæmdum fyrr en þeim sé lokið. Framkvæmdir kosta fé frá fyrstu skóflustungu og þar á ofan vexti í flestum tilvikum, þar á meðal í Kvíslaveitu Landsvirkjunar.

Ekki er rétt að saka Landsvirkjun um of snemmbært orkuver við Hrauneyjafoss. Ef stórt er virkjað, tekur alltaf nokkurn tíma að koma allri orkunni í verð. Ekki er heldur hægt að álasa Landsvirkjun fyrir Kröfluvirkjun, þar sem aðrir aðilar áttu hlut að máli.

Hins vegar var misráðið að fara hratt í framkvæmdir við Sultartanga og í Kvíslaveitu. Ennfremur var farið alltof geyst í Blöndu. Nú er full ástæða til að setja þar í gang hemlana, að minnsta kosti fram að þeim tíma, er nýir stóriðjusamningar verða undirritaðir.

Hlutur orkukostnaðar af útgjöldum neytenda hefur vaxið hrikalega á undanförnum árum, svo sem sjá má af tölum frá Hagstofunni. Samanburður við útlönd sýnir líka, að við erum í dýrasta kanti. Að hluta er þetta athafnagleði Landsvirkjunar að kenna. Hana þarf snarlega að minnka.

Jónas Kristjánsson

DV

Ferskfiskur er fullunnin.

Greinar

Ferskur fiskur ísaður hefur sótt verulega á í útflutningi upp á síðkastið. Til viðbótar við hina hefðbundnu leið, að togarar sigli með aflann, er nú kominn mikill og vaxandi útflutningur á ferskum fiski í gámum. Sumt af þessum fiski er meira að segja flutt flugleiðis.

Þetta byggist á, að ferskur fiskur er verðmeiri vara en frystur fiskur. Í frystingu felst alls ekki nein fullvinnsla sjávarafurða eins og margir virðast halda. Frystingin er fyrst og fremst vörn gegn skemmdum eins og aðrar og eldri aðferðir við fiskvinnslu.

Ferskur fiskur fer beint á markað. Hann hleður ekki á sig kostnaði við fiskvinnslu og fiskgeymslu í sex mánuði. Hann notar ekki rafmagn og húsaleigu í fiskvinnslustöðvum og hann stendur ekki undir vöxtum, sem hlaðast upp meðan beðið er eftir, að frysti fiskurinn komist í verð.

Þannig er ekki nóg með, að ferski fiskurinn sé seldur á hærra verði, heldur sparast í honum margvíslegur framleiðslu-, geymslu- og vaxtakostnaður. Á móti þessum sparnaði kemur svo hærri flutningskostnaður, sérstaklega þegar fiskurinn fer með flugvélum.

Fyrr á árum var erfiðara að koma ferskum fiski á markað í útlöndum en nú er orðið. Hann var oft orðinn skemmdur, þegar til kastanna kom, og hrundi í verði. Á þeim tíma var frysting kærkomin aðferð til að koma í veg fyrir slík slys og halda tiltölulega stöðugu verði.

Í framtíðinni mun gildi freðfisks hins vegar fyrst og fremst felast í, að hann er kjörið hráefni fyrir verksmiðjur, sem framleiða svokallaðar sjónvarpsmáltíðir. Þær eru tilbúnar á borðið, þegar þeim hefur verið stungið andartak í örbylgjuofn, sem víða er til á heimilum.

Ekkert bendir þó til, að sjónvarpsmáltíðir og örbylgjuofnar muni ryðja ferskum fiski úr vegi. Víða um heim eru menn sömu skoðunar og íslenzkir neytendur, líta ekki við frystum fiski, þótt ferskur sé ekki fáanlegur. Þetta á til dæmis við um fiskneyzluþjóð á borð við Frakka.

Heppilegast fyrir okkur er að vinna upp fjölbreyttan markað fyrir fiskinn. Við eigum ekki að velja milli freðfisks og ferskfisks, né heldur gleyma saltfiski og skreið. Fjölbreytni í framboði felur í sér gagnlega vernd gegn verðsveiflum, sem oft verða á afmörkuðum sviðum.

Stjórnvöld hafa löngum litið hornauga til útflutnings á ferskum fiski og jafnvel lagt stein í götu hans. Það stafar einkum af, að margir sjá ofsjónum yfir, að afkastageta frystihúsanna sé ekki nýtt. Við þetta blandast svo óráðshjalið um fullvinnslu sjávarafla.

Staðreyndin er, að samkeppnisaðstaða okkar er orðin afar erfið gagnvart niðurgreiddum sjávarútvegi Noregs og ýmissa annarra landa. Ef við getum gert sjávarútveginn arðbæran með því að spara vinnslu-, geymslu- og vaxtakostnað og fá þar á ofan hærra verð, eigum við að gera það.

Svo virðist sem fiskvinnslan geti ekki greitt útgerð og sjómönnum það fiskverð, sem þessir aðilar telja sig lægst þurfa. Hún geti ekki heldur greitt starfsfólki samkeppnishæf laun fyrir erfiða vinnu, sem kostar vöðvabólgu, heyrnarskemmdir og sjúkdóma í öndunarfærum.

Sala á ferskum fiski til útlanda er æskilegur kostur um þessar mundir. Hún getur raunar skilið milli taps og gróða í sjávarútvegi og rofið láglaunakreppuna í þeirri grein. Telja verður afar skaðlegt, að stjórnvöld leggi fyrir misskilning stein í götu ferskfisksölunnar.

Jónas Kristjánsson.

DV

Að þola vextina.

Greinar

Alla mannkynssöguna hafa 10% raunvextir verið hefðbundnir. Raunvextirnir, sem nú eru á ýmsum lánum hér á landi, eru því ekki háir, sagnfræðilega séð, þótt þeir vaxi í augum þjóðar, sem upp á síðkastið hefur vanizt neikvæðum vöxtum og meira að segja gert út á þá.

Margir gagnrýna hið svonefnda vaxtaokur á þeim forsendum, að atvinnulífið þoli ekki vextina, einkum svonefndir undirstöðuatvinnuvegir. Þar sé arðsemin í mörgum tilvikum lítil sem engin. Það hljóti að leiða til ófarnaðar, er fyrirtæki með 2% arðsemi sæti 5% raunvöxtum.

Svona einfalt er dæmið að vísu ekki. Arðsemi fjárfestingar, sem lán eru tekin fyrir, getur verið mun meiri en arðsemin af starfsemi fyrirtækisins í heild. Orkusparandi aðgerðir geta til dæmis verið mjög arðsamar í fiskimjölsverksmiðju, þótt ekki sé arður af rekstrinum í heild.

Hitt er áreiðanlega rétt, að mikið af íslenzkri fjárfestingu gefur ekki arð og stendur ekki undir raunvöxtum. Við sjáum það ef til vill bezt af því, að ár eftir ár er fjárfest um 25% þjóðartekna, án þess að þjóðarbúið eflist. Sum árin rýrnar það meira að segja.

Þetta sýnir ekki, að raunvextir eigi að lækka eða gerast öfugir. Þetta sýnir, að við eigum að vanda betur til fjárfestingar, gera meiri arðsemiskröfur til hennar. Og sæmilegir raunvextir eru einmitt leið til að koma aga á athafnaþrá og lánafíkni okkar.

Við getum gengið lengra í þessu en flestar aðrar þjóðir af því að við búum við óvenjulítið atvinnuleysi og í rauninni við offramboð atvinnutækifæra. Við þurfum því ekki að hvetja til fjárfestingar á félagslegum forsendum og getum frekar einblínt á arðsemina.

Atvinnugreinar eru einkar misjafnar að þessu leyti. Á sumum sviðum er arðsemi fjármagnsins neikvæð, svo sem í hefðbundnum landbúnaði. Þá er einnig ljóst, að fjárfesting í stóriðju er ekki heppileg í hinum íslenzka fjármagnsskorti. Við eigum að láta útlendinga um slíkt.

Almennt séð má reikna með, að arðsemi fjármagns sé mest í ýmsum léttum iðnaði. einkum þeim, sem gerir mestar kröfur til nákvæmni, hugvits og þekkingar. Tölvutækni og laxeldi ber oft á góma, þegar fjallað er um efnilegar greinar, þar sem búast má við, að fjárfesting skili arði.

Þótt fullar arðsemiskröfur séu gerðar á öllum sviðum, sem teljast til atvinnulífsins, getur verið nauðsynlegt að slaka á klónni á öðrum sviðum af félagslegum ástæðum. Þar ber hæst húsnæðislánin og námslánin, sem hið opinbera greiðir niður og líklega ekki nógu mikið.

Ef gera á ungum Íslendingum kleift að eignast þak yfir höfuðið, er ekki nóg að efna loforð stjórnarflokkanna um 80% lán til 40 ára. Það verða líka að vera annúitetslán og ekki með hærri raunvöxtum en 4-5%. Frá þessu sjónarmiði eru 6-8% raunvextir lífeyrissjóða of háir.

Ennfremur er ljóst, að sumt bókvit verður ekki í askana látið, þótt annað bókvit sé arðbært. Ef menntun á að vera almenningseign, er ekki hægt að reikna með, að allir námsmenn geti endurgreitt námslán og raunvexti af þeim. Afföll á þessu sviði eru óhjákvæmileg.

Þannig geta félagslegar aðstæður leitt til verulegs eða fulls afsláttar arðsemiskrafna. Um leið verða menn að gera sér grein fyrir, að lánsfé af slíku tagi verður ekki notað í annað á meðan. Minna verður aflögu til arðbærrar fjárfestingar og þjóðarbúið vex hægar en ella.

Jónas Kristjánsson.

DV